Hæstiréttur íslands
Mál nr. 364/2004
Lykilorð
- Vinnuslys
- Sjómaður
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Sakarskipting
- Tímabundin örorka
|
|
Fimmtudaginn 17. febrúar 2005. |
|
Nr. 364/2004. |
Brim hf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Kristjáni Hreinssyni (Helgi Birgisson hrl.) og gagnsök |
Vinnuslys. Sjómenn. Skaðabætur. Líkamstjón. Sakarskipting. Tímabundin örorka.
Háseti á fiskiskipi, K, slasaðist þegar bára skall á skipinu með þeim afleiðingum að það lagðist skyndilega á stjórnborða og tveir stórir steinar, sem komið höfðu upp með trolli þess, runnu eða ultu af stað yfir skutrennu og lentu á K og öðrum háseta. Hafði K verið falið að vinna á svæði nálægt grjótinu og undirbúa að koma því útbyrðis. Talið var að bæði K og útgerð skipsins, B hf., bæru sök á slysinu. Hafi verkstjórn við þessar hættulegar aðstæður ekki verið markviss. Þá hafi stýrimaður vegna ástands kallkerfis ekki getað varað hásetana við yfirvofandi hættu á að grjótið færi á hreyfingu. Var því talið að B hf. bæri 2/3 hluta sakar, en K 1/3.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. ágúst 2004 og krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hann falli niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 11. október 2004. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi greiði sér 27.510.105 krónur með nánar tilgreindum vöxtum frá 21. nóvember 1999 til greiðsludags en til vara, að héraðsdómur verði staðfestur. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Vátryggingafélagi Íslands hf. hefur verið stefnt til réttargæslu í gagnsök.
Eftir uppsögu héraðsdóms var nafni aðaláfrýjanda breytt úr Útgerðarfélagi Akureyringa hf. í Brim hf.
Í málinu er deilt um rétt gagnáfrýjanda til skaðabóta vegna líkamstjóns, sem hann hlaut af slysi 21. nóvember 1999 við vinnu á fiskiskipinu Hólmadrangi ST 70. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, hefur metið aðstæður svo, að lokið hafi verið að hífa trollið þegar bára skall á skipinu með þeim afleiðingum að það lagðist skyndilega á stjórnborða og tveir stórir steinar, sem komið höfðu upp með trollinu, runnu eða ultu af stað yfir skutrennuna og lentu á gagnáfrýjanda og öðrum háseta. Eru ekki efni til að breyta þessari niðurstöðu héraðsdóms og verður hún því lögð til grundvallar. Eins og rakið er í héraðsdómi var 1. stýrimaður einn í brúnni. Hann bar fyrir héraðsdómi að hann hafi leitast við að hafa þannig stjórn á skipinu að það hreyfðist sem allra minnst „þannig að steinninn færi ekki af stað“. Hann kvaðst hafa séð er steinninn hafi kastast úr bakborða yfir á stjórnborða og lent á gagnáfrýjanda. Hann hafi ekki getað kallað í skipverjana eða látið þá vita að steinninn væri kominn af stað, en þeir hafi ekki fylgst með grjótinu þegar þetta gerðist. Þá voru gagnáfrýjandi og hinn hásetinn sem slasaðist að ná í stroffu til að setja á steinana og koma þeim í hafið aftur úr rennunni.
Fram er komið að nokkuð hafi verið um að steinar kæmu í trollið. Gagnáfrýjandi hefur borið að hann hafi lent í því áður og honum hafi verið ljóst að þá þyrfti að fara varlega þar sem hætta væri á ferðum þar til grjótinu hefði verið komið útbyrðis. Fallast verður á með aðaláfrýjanda að þegar þetta gerist verði að koma grjótinu fyrir borð sem ekki verði gert á annan hátt, þegar um svo stórt grjót sé að ræða, en að setja menn í að koma á það böndum og hífa útbyrðis. Því fylgi alltaf hætta vegna veltings skips en úr henni megi draga með því að vera ekki í línu við grjótið þvert yfir skip. Verður því ekki felld sök á aðaláfrýjanda á þeim forsendum að hann hafi falið gagnáfrýjanda að vinna á svæði nálægt grjótinu og undirbúa að koma því útbyrðis.
Að þessu athuguðu en með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður fallist á þá niðurstöðu hans að báðir aðilar beri sök á að slys gagnáfrýjanda varð. Þegar litið er til verklags þess sem 1. stýrimaður lýsti, verður að fallast á með gagnáfrýjanda að verkstjórn við þessar hættulegu aðstæður hafi ekki verið markviss. Þegar einnig er til þess litið að vegna ástands kallkerfisins hafi stýrimaðurinn ekki getað varað hásetana við yfirvofandi hættu á að grjótið færi á hreyfingu, verður við sakarskiptingu héraðsdóms unað. Einnig verður með vísan til forsendna héraðsdóms fallist á niðurstöðu hans um fjártjón gagnáfrýjanda að því leyti, sem deilt er um það fyrir Hæstarétti. Verður héraðsdómur því staðfestur.
Rétt er að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Aðaláfrýjandi, Brim hf., greiði gagnáfrýjanda, Kristjáni Hreinssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2004.
Mál þetta var höfðað 8. ágúst 2003 og var dómtekið 12. mars sl.
Stefnandi er Kristján Hreinsson, Brekkugötu 25, Akureyri.
Stefndu eru Útgerðarfélag Akureyrar hf., Fiskitanga, Akureyri og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda, Útgerðarfélag Akureyrar hf., verði dæmt til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 27.510.105 krónur með 4,5 % ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.920.740 krónum frá slysdegi 21. nóvember 1999 til 1. janúar 2002 en frá þeim degi af 27.510.105 krónum til 17. nóvember 2002, en með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál, í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins. Til vara gerir stefndi þær dómkröfur að sök verði skipt í málinu, dómkröfur lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla.
Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf. eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur enda engar dómkröfur gerðar á hendur félaginu.
Aðild
Stefnandi reifar aðild málsins með eftirfarandi hætti.
Slys stefnanda varð um borð í togaranum Hólmadrangi ST-70, sem þá var gerður út af hlutafélaginu Hólmadrangi. Hólmadrangur hf. var sameinaður stefnda samkvæmt samrunaáætlun, dags. 8. febrúar 2000, staðfest á hluthafafundi 25. mars 2000. Með samrunanum var Hólmadrangi hf. slitið án skuldaskila og yfirtók stefndi öll réttindi og skyldur félagsins og er því stefnt til varnar í málinu.
Vátryggingafélag Íslands hf. var ábyrgðartryggjandi Hólmadrangs hf. á þeim tíma er slysið varð og skipta úrslit málsins því tryggingafélagið máli að lögum. Þess vegna er því stefnt til að gæta réttar síns í málinu þó að engar kröfur séu gerðar á hendur því.
Málavextir
Þann 21. nóvember 1999 um kl. 830 var stefnandi að störfum sem háseti á dekki um borð í frystitogaranum Hólmadrengi ST-70 þar sem hann var á grálúðuveiðum djúpt út af Látrabjargi. Þegar trollið var tekið inn reyndust í pokanum tvö mjög stór grjót, annað líklega um 200 kg en hitt um 500 kg. Pokinn var losaður á dekkið með fiskilúguna lokaða svo að grjótið færi ekki ofan í fiskmóttöku. Stefnandi og aðrir skipverjar á dekki voru að skilja aflann frá grjótinu framan við fiskilúguna til að koma stórgrýtingu útbyrðis þegar skipið lagðist skyndilega á stjórnborða. Við það valt grjótið og lentu á stefnanda og öðrum skipverja með þeim afleiðingum að stefnandi hlaut opið beinbrot á vinstra fæti, rétt fyrir ofan ökkla, en hinn skipverjinn mikið högg á hægri fót. Þegar var beðið um aðstoð Landhelgisgæslunnar og sendi hún þyrlu til móts við togarann og flutti hún stefnanda á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur. Þar var gert að brotinu og var stefnandi útskrifaður 2. desember 1999. Eftir það var hann í framhaldsmeðferð hjá bæklunarlæknum á Akureyri og Reykjavík og í langtíma sjúkraþjálfun og eftirliti. Þá var hann í endurhæfingu á Reykjalundi frá 30. maí 2001 til 19. október 2001. Talið var ljóst að stefnandi gæti ekki sinnt sjómannsstarfi í náinni framtíð. Honum var úthlutaður endurhæfingarlífeyrir sem hann naut til 31. desember 2001.
Að beiðni stefnanda var Atli Þór Ólason, læknir, fenginn til að meta tímabundnar og varanlegar afleiðingar slyssins. Í matsgert hans, sem dagsett er 11. október 2002, segir um afleiðingar slyssins:
1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:
21.11.1999-31.12.2001. . . 100%
2. Þjáningabætur skv. 3. grein 21.11.1999-31.12.2001
Þar af rúmliggjandi:
21.11.1999-2.12.1999
30.05.2001-19.10.2001
3. Stöðugleikatímapunktur: 31.12.2001.
4. Varanlegur miski skv. 4. grein 20%
5. Varanleg örorka skv. 5. grein 35%
Með bréfi, dags. 17. október 2002, krafði stefnandi réttargæslustefnda um skaðabætur vegna slyssins. Með svarbréfi, dags. 5. febrúar 2003, hafnaði félagið bótaábyrgð úr ábyrgðartryggingu Hólmadrangs hf. Telur stefnandi málshöfðun þessa því óumflýjanlega.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir á því að slysið sé skaðabótaskylt samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Það hafi orðið með þeim hætti að skipið lagðist skyndilega á stjórnborða og við það valt grjót sem var á dekki og lenti á stefnanda og öðrum skipverja. Fram komi í gögnum málsins að veður hafi verið suðvestan 4-5 vindstig og þung undiralda með nokkurri kviku í öldunni. Í lögregluskýrslum segi ýmist að alda hafi komið undir skipið þannig að það hafi lagst á stjórnborða (skýrsla Sigurðar Sigurðssonar) eða að alda hafi skollið á skipinu stjórnborðsmegin að framan og við það komið högg á skipið sem hafi valdið því að grjótið fór af stað (skýrsla stýrimanns Rafns Richardsonar).
Stefnandi hafði verið til sjós í 10 ár þegar slysið átti sér stað og hafi því verið þaulvanur. Að hans mati verði sá skyndilegi veltingur sem komið hafi á togarann ekki skýrður með vísan til veðurs. Í 4-5 vindstigum eigi að vera auðvelt að halda 500 tonna togara stöðugum. Telur stefnandi langlíklegast að stefna skipsins hafi breyst og við það hafi það oltið á stjórnborða.
Skipstjórnarmenn hafi vitað af stórgrýtinu á dekki togarans og að skipverjar unnu að því að koma því útbyrðis. Því hafi þeim borið að gæta sérstakrar varúðar við stjórn skipsins og vara skipverja við ef stefnu þess væri breytt. Telur stefnandi að verulega hafi skort á aðgætni skipstjórnarmanna og það hafi valdið því hvernig fór.
Slysið hafi orðið um kl. 830 árdegis í beinu framhaldi af því að veiðarfæri höfðu verið tekin inn. Af lögregluskýrslum megi ráða að fyrsti stýrimaður hafi verið einn í brúnni, en bátsmaður á dekki. Fyrsti stýrimaður hafi bæði haft með höndum stjórnun skipsins og stjórnun og eftirlit með því að hífa inn veiðarfærin. Hann hafi því þurft allt í senn að huga að stjórnun og stefnu skipsins, hífingu trollsins og í því sambandi fylgjast með spilum og m.a. gefa slaka í forgilsa. Þessi vinnubrögð hafi verið í andstöðu við viðteknar starfsvenjur og reglur, sbr. ákvæði 1.2.9 í reglum nr. 413/1988 um vinnuöryggi á fiskiskipum stærri en 15 m að lengd. Það sé undantekningarlaus regla að tveir menn séu í brú skips þegar veiðarfæri eru dregin inn, annar hafi það verkefni með höndum að stjórna skipinu, hinn að stjórna hífingu á veiðarfærum. Að mati stefnanda hefði mátt afstýra slysinu ef þannig hefði verið á málum haldið.
Á skipsstjórnendum hvíli skylda að haga stjórn skipsins á þann veg að skipverjum stafi sem minnst hætta af og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi skipverja. Sú aðferð sem hafi verið viðhöfð umrætt sinn hafi verið til þess fallin að skapa algerlega óþarfa hættu fyrir þá skipverja sem voru að vinna á dekki.
Stefnandi telur að tjón sitt megi rekja til óforsvaranlegra aðstæðna um borð í togara stefnda, sem stefndi beri ábyrgð á samkvæmt reglum skaðabótaréttar, auk þess sem vinnubrögðin hafi farið í bága við reglur nr. 413/1988 um vinnuöryggi á fiskiskipum stærri en 15 m að lengd. Með einföldum ráðstöfunum og með því að fylgja reglum hafi mátt koma í veg fyrir slysið.
Kröfur stefnanda nemi eftirgreindum fjárhæðum:
1. Tímabundið atvinnutjón árin 2000 og 2001
jan.-des. 2000 3.685.551x 194,1/170,41 4.198.154 kr.
jan.-des. 2001 3.685.551x 211,3/170,42 4.570.170 kr.
Til frádráttar:
Greidd veikindalaun á árinu 2000 - 624.374 kr.
Greitt frá Tryggingastofnun ríkisins - 446.482 kr.
Annað (framtal 2001) - 192.710 kr.
Sjúkradagpeningar - 235.152 kr.
60% af greiðslu frá lífeyrissjóði3 -1.935.590 kr.
5.334.016 kr.
2. Þjáningabætur í 771 dag
Rúmliggjandi 154 x 1.740 267.960 kr.
Fótaferð 617 x 940 579.980 kr.
3. Varanlegur miski 5.364.000 x 20% 1.072.800 kr.
4. Varanleg örorka 5.344.624x 12,978x 35% 22.099.009 kr.
Til frádráttar greitt úr slysatryggingu 5.11.2 002 -1.213.292 kr.
Til frádráttar örorkubætur TR 21.1.2003 - 830.368 kr.
20.055.349 kr.
5. Annað fjártjón 200.000 kr.
Samtals 27.510.105 kr.
Frá slysdegi sé krafist 4,5% vaxta af bótum samkvæmt tl. 2 og 3 (þjáningabætur og miskabætur) en af öðrum bótaliðum sé krafist vaxta frá upphafsdegi metinnar örorku, sbr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Dráttarvaxta sé krafist samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 að liðnum mánuði frá því að réttargæslustefnda var sent kröfubréf, sbr. 9. gr. laganna.
Þær fjárhæðir sem greini í tl. 2 og 3 hafi verið hækkaðar samkvæmt lánskjaravísitölu frá gildistöku skaðabótalaganna (3282 stig) til október 2002 er kröfubréf var sent (4401 stig), sbr. 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón séu ákvarðaðar út frá atvinnutekjum ársins 1998 og þau hækkuð samkvæmt meðaltali breytinga á launavísitölu.
1996 3.016.373 kr. x 6% = 3.197.355x 224,64/147,85= 4.858.768 kr.
1997 3.203.113 kr.x 6% = 3.395.300x 224,6/155,86= 4.894.636 kr.
1998 3.476.935 kr.x6%= 3.685.551x 224,6/170,47= 4.857.833 kr.
Meðalatvinnutekjur til ákvörðunar bóta 4.870.412 kr.
Skattframtal stefnanda 1998 vegna tekjuársins 1997 finnist ekki hjá skattayfirvöldum og því séu í staðinn notuð árslaun 1995 við útreikning meðalatvinnutekna.
Til stuðnings kröfulið 5 sé bent á að stefnandi hafi haft umtalsverðan kostnað af læknismeðferð og sjúkraþjálfun í kjölfar slyssins. Tjón sem af því hafi hlotist verði að meta að álitum.
Varðandi lagatilvísanir þá sé vísað til almennra reglna skaðabótaréttar utan samninga, einkum sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Þá sé vísað til reglna nr. 413/1988 um vinnuöryggi á fiskiskipum stærri en 15 m að lengd og laga nr. 46/1980 um aðbúnað og öryggi á vinnustöðum.
Um fjárhæð skaðabóta fari skv. skaðabótalögum nr. 50/1993.
Um vexti fari samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá slysdegi til 17. nóvember 2002, en frá þeim degi beri krafan dráttarvexti samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málskostnaðarkrafan styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.
Um varnarþing vísist til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda og lagarök
Aðalkrafa stefnda um sýknu af öllum kröfum stefnanda er á því byggð að stefndi og starfsmenn hans hafi ekki að neinu leyti sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi í tengslum við slys stefnanda, sem að öllu leyti megi rekja til gáleysis hans sjálfs svo og óhappatilviljunar. Íslenskur skaðabótaréttur byggi á sakarreglunni, þ.e. aðili verði ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni annars nema tjónið verði rakið til sakar hans.
Sönnunarbyrðin fyrir því að stefndi sé skaðabótaskyldur að íslenskum lögum hvíli á stefnanda og sé því hafnað sem ósönnuðu að rekja megi slysið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda eða starfsmanna hans.
Stefnandi telji í fyrsta lagi að aðgæsluleysi skipstjórnarmanna hafi valdið því hvernig fór. Óhjákvæmilega komi það fyrir að grjót og annað komi upp með trolli þegar það sé dregið upp við veiðar. Að þessu sinni hafi var unnið að því að koma grjótinu útbyrðis þegar slysið varð, en sú vinna hafi hafist um leið og búið hafi verið að losa trollið. Sjómenn viti til þess að grjót geti komið upp með trollum og verði við þessar aðstæður að hafa sérstaka aðgát með því t.d. að fylgjast vel með steinunum og að forðast að vera í línu þvert yfir skip þar sem lausir hlutir séu. Ekki verði séð að um aðgæsluleysi skipstjórnarmanna sé að ræða.
Stefnandi haldi því enn fremur fram að aðgæsluleysi skipstjórnarmanna sé í því fólgið að hafa ekki varað skipverja við þegar stefnu skipsins hafi verið breytt. Sé því alfarið mótmælt sem ósönnuðu að skipstjórnarmenn hafi breytt stefnu skipsins er slysið varð, enda sé þessi fullyrðing stefnanda engum gögnum studd. Þvert á móti sé ljóst af gögnum málsins að skipið hafi oltið yfir á stjórnborða vegna öldu sem hafi skollið á það en ekki vegna þess að skipstjórnarmenn hafi breytt stefnu þess. Þó vindur hafi ekki verið nema 4 - 5 stig, hafi verið þung undiralda, eins og komi fram í skýrslu Rafns Richardssonar stýrimanns, hjá lögreglu. Ósannað sé að skipstjórnarmenn hafi breytt um stefnu skipsins. Samkvæmt þessu sé því hafnað að um aðgæsluleysi skipstjórnarmanna hafi verið að ræða.
Því sé í öðru lagi hafnað að vinnubrögð skipstjórnarmanna hafi verið í andstöðu við viðteknar starfsvenjur og reglur. Stefnandi haldi því fram í stefnu að afstýra hefði mátt slysinu ef tveir menn hefðu verið á brúnni. Eins og komi fram í stefnu geri reglur 431/1988 ráð fyrir því að tveir menn séu í brú skips þegar veiðarfæri eru dregin inn og annar stjórni þilfarsvindu. Af gögnum málsins megi ráða að verið var að vinna að því að koma grjótinu útbyrðis þegar slysið varð og því ekki verið að hífa þegar slysið hafi átt sér stað. Samkvæmt þessu sé ekki um að ræða orsakasamband á milli þess að einn skipstjórnarmaður var í brúnni og slyssins.
Í þriðja lagi sé því hafnað að slysið sé að rekja til óforsvaranlegra aðstæðna um borð í skipinu. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á slíkt og verði það að teljast ósannað. Eins og áður segi sé það óhjákvæmilegt að grjót komi stundum upp með trollum en þegar það gerist sé að sjálfsögðu reynt að koma þeim útbyrðis eins fljótt og hægt sé. Þegar slysið varð var verið að vinna í því að koma grjótinu útbyrðis og sé því ekki hægt að leggja skaðabótaábyrgð á stefnda vegna óforsvaranlegra aðstæðna um borð.
Í fjórða lagi megi benda á ályktun Rannsóknarnefndar sjóslysa nr. 019/00 þar sem umrætt slys hafi verið rannsakað af hennar hálfu. Segi þar orðrétt í nefndaráliti: "Vill nefndin sérstaklega benda á að skipverjar eiga að forðast að vera í línu þvert yfir skip (hreyfiferli lausra hluta við hliðarveltu skips) þar sem lausir hlutir eru, líkt og virðist hafa gerst í þessu tilviki." Ekkert í áliti nefndarinnar bendi til þess að skipstjórnarmenn hafi viðhaft saknæma og ólögmæta háttsemi sem eigi að leiða til skaðabótaábyrgðar stefnda. Samkvæmt núgildandi lögum um rannsókn sjóslysa nr. 68/2000 beri nefndinni að gera grein fyrir orsök eða sennilegri orsök slyss, auk þess að hún skuli gera tillögur um varúðarráðstafanir sem gera megi til að afstýra frekari slysum af sama eða líkum toga, sbr. 24. gr. laganna. Megi ætla að svipuð regla hafi gilt þegar slysið varð, sbr. 230. gr. siglingalaga nr. 34/1985, en engar tillögur hafi verið gerðar af hálfu nefndarinnar.
Stefnandi hafi verið 27 ára þegar slysið varð en hafði þá verið til sjós í 10 ár og þaulvanur eins og fram komi í stefnu. Reyndur skipverji eins og stefnandi hefði átt að vita af þeirri hættu sem skapast geti þegar stórgrýti komi upp með trolli og viðhafa sérstaka varúð í kjölfarið. Verði því að telja að stefnandi hafi geta komið í veg fyrir slysið með því að hafa betri gætur á grjótinu.
Málskostnaðarkrafa stefnda í aðalkröfu byggi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda er varakrafan reist á því að slysið verði að stærstum hluta rakið til eigin sakar stefnanda og óhappatilviljunar með vísan til þeirra röksemda sem reifaðar séu í aðalkröfunni og verði stefnandi að bera tjón sitt í hlutfalli við það.
Stefnandi byggi bótakröfu sína á örorkumati Atla Þ. Ólasonar læknis frá 11. október 2002. Slys stefnanda hafi orðið 21. nóvember 1999 og gildi því skaðabótalög nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, um ákvörðun skaðabóta. Rétt sé að fara í einstaka kröfuliði stefnanda.
Stefnandi geri kröfu um tímabundið tekjutjón að fjárhæð 5.715.590 krónur. Í örorkumati komi fram að óvinnufærni stefnanda hafi verið 100% frá slysdegi, 21. nóvember 1999 til 31. desember 2001, eða í rúmlega tvö ár.
Um tímabundið tekjutjón fari eftir 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/ 1999. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skuli draga frá skaðabótum laun í veikinda- eða slysaforföllum, 60% af greiðslu frá lífeyrissjóði, greiðslur frá sjúkrasjóði, dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum fyrir tímabundið atvinnutjón og vátryggingabætur þegar greiðsla vátryggingafélags sé raunveruleg skaðabót, svo og sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fái vegna þess að hann sé ekki fullvinnufær. Meginreglan sé sú að stefnandi verði að sanna raunverulegt fjártjón sitt. Ekki hafi þótt nægilegt að leiða líkur að fjártjóni enda sé hægt með réttum gögnum að sanna raunverulegt fjártjón. Engin haldbær gögn liggi til grundvallar þessari kröfu stefnanda. Sú aðferð stefnanda að byggja á tekjum hans fyrir árið 1998, þ.e. 3.685.551 krónu, við útreikning á raunverulegu tímabundnu tekjutjóni eigi sér hvergi lagastoð og sé alls ekki til þess fallin að reikna út það tekjutjón sem hann hafi raunverulega orðið fyrir. Samkvæmt örorkumati hafi stefnandi verið í áfengismeðferð frá janúar til mars 1999 og hafi síðan verið á göngudeild fyrri hluta sumars 1999. Hafi hann farið tvo til þrjá túra um sumarið og hafi svo hafið fulla vinnu hjá Hólmadrangi hf. í október 1999. Tekjur stefnanda árið 1999 hafi samtals verið að fjárhæð 1.083.524 krónur, þar af 255.006 krónur í atvinnuleysisbætur.
Ágreiningur sé því um það af hvaða launum stefnandi hafi misst og telji stefndi að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að miða eigi við launaár 1998. Nærtækara sé að miða við þau mánaðarlaun sem stefnandi hafi haft þegar hann lenti í slysinu.
Samkvæmt upplýsingum í skattframtölum stefnanda hafi hann verið með eftirfarandi tekjur á árunum 2000 og 2001 sem draga beri frá hvernig sem launagrundvöllur sé fenginn:
1. Hólmadrangur hf.: 624.374 kr.
2. Tryggingastofnun ríkisins: 446.482 kr.
3. Lífeyrissjóður sjómanna: 3.225.984 kr.
a. 60% af því: 1.935.590 kr.
4. Sjúkradagpeningar: 235.152 kr.
5. Annað: 192.710 kr.
Samtals: 3.434.308 kr.
Stefnandi geri enn fremur kröfu um þjáningarbætur að fjárhæð 1.072.800. krónur.
Samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga sé heimilt að víkja frá fjárhæðum þeim sem greini í 1. málslið ákvæðisins ef þjáningarbætur nemi meiru en 274.000 krónum. Um óvenju langt þjáningartímabil hafi verið að ræða og því sé heimilt að lækka bæturnar að álitum.
Stefnandi geri kröfu um bætur fyrir varanlegan miska að fjárhæð 1.072.800 krónur. Ekki séu gerðar athugasemdir varðandi þann útreikning af hálfu stefnda.
Stefnandi geri kröfu um bætur fyrir varanlega örorku að fjárhæð 22.233.225 krónur. Stefndi mótmæli þessari kröfu sem of hárri og þá sérstaklega þeim árslaunum sem stefnandi miði við í stefnu.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skulu árslaun til ákvörðunar örorkubóta samkvæmt 6. gr. laganna teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð. Samkvæmt fullyrðingu stefnanda finnist ekki skattframtal hans fyrir tekjuárið 1997 hjá skattyfirvöldum og taki hann því árið 1995 með í reikninginn.
Með hliðsjón af þessu og því að stefnandi hafi verið mjög tekjulítill árið 1999 sé ljóst að þau árslaun sem stefnandi miði við séu alltof há og gefi ekki rétta mynd af framtíðartekjum hans. Leggi stefndi því til að miðað verði við árslaun stefnanda 1998, þ.e. 3.476.935 krónur uppfærð samkvæmt launavísítölu til stöðugleikapunktar ásamt 6% lífeyrissjóðsframlagi vinnuveitanda, þ.e. 4.433.285 kr. (3.476.935 x 217/180.4 x 1.06). Samkvæmt þessu verði örorkubætur 20.115.587 kr. (4.433.285 kr. x 12.964 x 35%).
Þessu til frádráttar komi greiðsla úr slysatryggingu launþega, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, 1.213.292 krónur, svo og örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins, 830.368 krónur.
Stefnandi geri kröfu um bætur fyrir annað fjártjón að fjárhæð 200.000 krónur.
Stefnandi rökstyðji kröfu sína með þeim hætti að hann hafi orðið fyrir umtalsverðum kostnaði af læknismeðferð og sjúkraþjálfun.
Í greinargerð með skaðabótalögum nr. 50/1993 um 1. mgr. 1. gr. segi að með öðru fjártjóni sé átt við útgjöld sem falli á tjónþola strax eða fljótlega eftir slys en erfitt sé að færa sönnur á, t.d. með því að leggja fram reikninga.
Þetta eigi klárlega ekki við um meint útgjöld stefnanda af læknismeðferð og sjúkraþjálfun enda ekki mikið mál að leggja fram reikninga vegna slíks kostnaðar. Verði því að hafna þessari kröfu stefnanda.
Málskostnaðarkrafa stefnda í varakröfu byggi á 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála
Vaxtakröfum stefnanda er mótmælt og verði að telja að eldri vextir en fjögurra ára séu fyrndir, sbr. 2. tölulið 3. gr. fyrningarlaga nr.14/1905.
Dráttarvextir eiga ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögudegi, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Niðurstaða
Fyrir dómi gáfu skýrslu stefnandi málsins, Kristján Hreinsson, Rafn Richardsson stýrimaður, Númi Jóhannsson, fv. skipstjóri, Kristinn Sigurðsson sjómaður, Sigurður Sigurðsson, fv. háseti.
Samkvæmt því sem fram kom við yfirheyrslur var aðdragandi slyssins með þeim hætti að stefnandi var, ásamt fleirum, að vinna á þilfari frystitogarans Hómadrangs ST-70, en skipið var á grálúðuveiðum. Búið var að hífa trollið inn og losa pokann. Í pokanum reyndust vera tvö stór grjót. Skipverjar voru búnir að hreinsa aflann frá grjótinu framan við fisklúgu. Voru þeir búnir að koma aflanum ofan í fiskmóttöku um lúgu og voru að búa sig undir að koma stroffu á grjótið til að koma því útbyrðis þegar skipið lagðist skyndilega á stjórnborða og grjótið rann til og lenti á stefnanda og Sigurði Sigurðssyni sem voru stjórnborðsmegin í rennunni.
Þegar þetta gerðist var Rafn Richardsson, 1. stýrimaður, einn í brúnni þar sem hífingu á trollinu var lokið og netamaður, sem hafði annast hífinguna, var farinn niður á þilfar.
Rafn bar fyrir dómi að þegar þetta gerðist hafi vindur verið hægur en það hafi verið undiralda. Hafi skipið farið mjög hægt og þeir bara verið á dóli. Hann hafi reynt að hafa stjórn á skipinu þannig að það hreyfðist sem allra minnst. Þá hafi komið bára með stefnu um það bil 45° á undirölduna sem hafi skollið á skipinu. Þetta hafi orðið til þess að grjótið fór af stað.
Fram hefur komið að í skipinu var kallkerfi sem var illa nothæft þar sem mjög illa heyrðist í því. Skipsstjórnandi í brú, Rafn Richardsson, sá að hverju stefndi þegar skipið tók dýfu og grjótið á þilfari fór af stað til stjórnborða, en gat ekki gert hásetum, sem voru að störfum á þilfari, viðvart. Bar hann að stefnandi hefði á þessu augnabliki ekki veitt grjótinu neina athygli.
Fyrir liggur að skipsstjórnandi í brú og verkstjóri á þilfari, sem var Kristinn Sigurðsson, bátsmaður, létu það átölulaust að hásetar væru við vinnu í rennu við að koma fiski frá lausu grjóti sem stóð framan við fisklúgu. Telja verður að þeim hafi mátt vera ljós sú hætta sem stafað getur af lausum hlutum um borð í skipi sem er á hreyfingu, en eins og bent er á í áliti sjóslysanefndar eiga skipverjar að forðast að vera í línu þvert yfir skip þar sem lausir hlutir eru.
Þegar virt er það sem fram hefur komið í málinu er það álit dómsins að slysið megi að hluta rekja til aðgæsluleysis skipstjórnanda og verkstjóra á þilfari með því að fela stefnanda að vinna á svæði þar sem hann var hættu af grjótinu sem ekki hafði verið skorðað með neinum hætti og til ófullnægjandi búnaðar að því er varðar kallkerfi eða aðvörunarkerfi skipsins sem var nánast ónothæft og í engu samræmi við ákvæði 1.9. í reglum um vinnuöryggi á fiskiskipum. Hins vegar verður ekki litið fram hjá því að stefnandi, sem var reyndur sjómaður er slysið varð, sýndi ekki næga varkárni þegar hann sneri baki í grjótið og gætti ekki að því, vitandi um þá hættu sem af því gæti stafað.
Þegar framanritað er virt er það niðurstaða dómsins að rétt sé að fella 2/3 hluta bótaábyrgðar vegna slyssins á stefnda í málinu en að stefnandi beri 1/3 hluta tjónsins sjálfur.
Kröfu sína um bætur sundurliðar stefnandi í tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur, varanlegan miska, varanlega örorku og annað tjón.
Í örorkumati Atla Þórs Ólasonar kemur fram að stefnandi hefur frá árinu 1993 starfað sem háseti hjá Samskipum. Hann hafi, að eigin ósk, hætt störfum í desember 1998 þar sem hann hafi viljað fara í áfengismeðferð. Hann hafi verið í áfengismeðferð frá janúar til mars 1999 en hafi síðan verið á göngudeild á Akureyri fyrri hluta sumars 1999. Í júlí 1999 hafi hann farið í tvo til þrjá túra á vegum Útgerðarfélags Akureyringa. Frá því í október 1999 hafi hann síðan starfað hjá Hólmadrangi hf. þar til hann varð fyrir slysinu 21. nóvember 1999.
Hann dvaldi á Sjúkrahúsi Reykjavíkur frá 21. nóvember 1999 til 2. desember 1999 og á Reykjalundi frá 30. maí 2001 til 19. október 2001 til endurhæfingar. Naut stefnandi endurhæfingarlífeyris til 31. desember 2001 er endurhæfingu lauk. Miðar matsmaður stöðugleikapunkt við þá dagsetningu enda hafi stefnandi verið í stöðugri meðferð þann tíma. Tímabundið atvinnutjón stefnanda er metið 100% frá 21. nóvember 1999 til 31. desember 2001.
Krafa stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns nemur 5.334.016 krónum. Er krafa stefnanda um bætur samkvæmt þessum lið reiknuð út frá atvinnutekjum stefnanda árið 1998 og þau hækkuð samkvæmt meðaltali breytinga á launavísitölu. Þá notar stefnandi árslaun 1995 við útreikning meðalatvinnutekna, þar sem skattframtal tekjuársins 1997 hafi ekki fundist.
Stefndi hefur mótmælt þessari kröfu stefnanda og telur að þessi aðferð, að byggja á tekjum ársins 1998 við útreikning á raunverulegu, tímabundnu atvinnutjóni, eigi sér hvergi lagastoð og sé ekki til þess fallin að reikna út raunverulegt tekjutjón. Telur stefndi nærtækara að miða við þau mánaðarlaun er stefnandi hafði þegar hann lenti í slysinu.
Samkvæmt skattframtali árið 2000 námu tekjur stefnanda fyrir árið 1999 807.036 krónum. Vegna starfa hjá Útgerðarfélagi Akureyringa hf. 392.202 krónum og vegna starfa hjá Hómadrangi hf. 414.934 krónum. Ekki er nánar upplýst um mánaðarlaun stefnanda þessa tvo mánuði sem hann starfaði hjá Hólmadrangi fyrir slysið, en hvorki ráðningarsamningur né launaseðlar hans hafa verið lagðir fram í málinu.
Gegn andmælum stefnda þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að raunverulegt tekjutap hans hafi verið samkvæmt þeim útreikningi sem hann byggir á. Er fallist á að enginn lagagrundvöllur sé fyrir hendi að reikna raunverulegt tekjutap stefnanda með þeim hætti sem gert er af hálfu stefnanda. Telja verður að raunverulegt tekjutap hans verði að miðast við þær tekjur sem hann hafði þegar hann varð fyrir slysinu eða myndi hafa haft ef hann hefði ekki orðið fyrir slysinu.
Samkvæmt skattframtali stefnanda árið 2000 námu tekjur hans hjá Hólmadrangi hf. á árinu 1999 414.834 krónum. Þar sem hann hafði unnið tæpa tvo mánuði þar er slysið varð, og ekkert annað er upplýst í málinu varðandi launakjör hans hjá stefnda, má reikna með, samkvæmt því, að mánaðartekjur hans hafi numið um það bil 207.467 krónum hvorn mánuð.
Bætur fyrir atvinnutjón ber, samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993, að ákveða fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans er orðið stöðugt. Þar sem ekki er við annað að styðjast en skattframtal stefnanda, sbr. það sem áður er rakið, ber að ákvarða tímabundið atvinnutjón stefnanda samkvæmt því tímabilið 21. nóvember 1999 til 31. desember 2001. Teljast bætur til stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns því réttilega metnar 5.186.675 krónur að frádregnum 3.434.308 krónum sem aðilar eru sammála um að draga beri frá, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993, eða 1.752.367 krónur.
Stefnandi krefst þjáningabóta fyrir 771 dag, rúmliggjandi í 154 daga en með fótaferð í 617 daga, samtals 847.940 króna. Er kröfugerð hans í samræmi við framlagt örorkumat. Fallast má á með stefnda að um langt þjáningatímabil sé að ræða en samkvæmt örorkumatinu telst stefnandi hafa verið rúmliggjandi á meðan hann lá á Sjúkrahúsi Reykjavíkur eftir slysið, þ.e. frá 21. nóvember 1999 til 2. desember 1999 og svo aftur er hann var til endurhæfingar á Reykjalundi frá 30. maí 2001 til 19. október 2001. Ljóst er því að á því tímabili sem var á milli eða í tæpt hálft ár var stefnandi ekki talinn rúmliggjandi. Krafa um þjáningabætur fyrir umrætt þjáningatímabil nemur 847.940 krónum. Samkvæmt örorkumati var stefnandi í stöðugri meðferð þann tíma. Ekki þykir sýnt fram á af hálfu stefnda að þessar bætur séu óeðlilegar í tilviki stefnanda eða að efni séu til að víkja frá nefndri fjárhæð, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1993 i.f.
Af hálfu stefnda er ekki mótmælt kröfu stefnanda vegna varanlegs miska 1.072.800 krónum.
Stefnandi krefst bóta fyrir varanlega örorku að fjárhæð 20.055.349 krónur. Við aðalmeðferð lagði hann fram nýja kröfugerð þar sem hann breytti kröfum sínum í samræmi við þær athugasemdir sem komu fram í greinargerð stefnda. Ekki verður annað séð en endanleg krafa stefnanda vegna varanlegrar orku sé gerð í samræmi við ákvæði skaðabótalaga.
Krafa um bætur vegna annars fjártjóns er órökstudd og ber að hafna henni.
Með hliðsjón af því að rétt þykir að stefnandi beri 1/3 hluta tjóns síns sjálfur, sbr. það sem áður er rakið, ber stefnda að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 15.818.970 krónur vegna þess slyss sem hann varð fyrir 21. nóvember 1999 um borð í Hólmadrangi ST-70.
Krafa um vexti er tekin til greina eins og hún er fram sett.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað að fjárhæð 1.200.000 króna, sem greiðist í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Helga Birgissonar hrl. 1.200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóminn kvað upp Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómendunum Ásgeiri Guðnasyni vélfræðingi og Pálma Hlöðverssyni stýrimanni.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Útgerðarfélag Akureyrar hf., greiði stefnanda, Kristjáni Hreinssyni, 15.818.970 krónur með 4,5 % ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.920.740 krónum frá 21. nóvember 1999 til 1. janúar 2002 en frá þeim degi af 15.818.970 krónum til 17. nóvember 2002, en með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og 1.200.000 krónur í málskostnað, sem greiðist í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Helga Birgissonar hrl., 1.200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.