Hæstiréttur íslands
Mál nr. 504/2011
Lykilorð
- Skattur
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Skilorð
- Vararefsing
|
|
Fimmtudaginn 16. febrúar 2012. |
|
Nr. 504/2011.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Kristjáni Sigurði Sverrissyni og (Bogi Nilsson hrl.) X (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) |
Skattar. Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Skilorð. Vararefsing.
K og X voru ákærð fyrir meiriháttar brot gegn 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. K var auk þess ákærður fyrir meiri háttar brot gegn 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda í rekstri A ehf. og B ehf. Hæstiréttur taldi að ekki hefði verið sýnt fram á það að skattframtöl þau sem lágu til grundvallar ákæru fyrir brot gegn tekjuskattslögum, hefðu verið efnislega röng og því væri skilyrði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 sem að því lyti ekki fullnægt. Þegar af þeirri ástæðu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu K og X af þeim ákæruliðum. Þá staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu K fyrir meiriháttar brot gegn lögum nr. 50/1988 og lögum nr. 45/1987, sbr. 1. mgr. 262 gr. almennra hegningarlaga
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. júlí 2011. Ákæruvaldið krefst þess að ákærðu verði sakfelld samkvæmt ákæru og dæmd til refsingar. Þá er þess krafist að refsing ákærða Kristjáns Sigurðar Sverrissonar verði þyngd.
Ákærði Kristján Sigurður krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að refsing hans verði milduð.
Ákærða X krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en til vara að ákvörðun refsingar, verði hún sakfelld, skuli frestað. Að því frágengnu krefst hún þess að refsing hennar verði skilorðsbundin.
I
Kröfu sína um frávísun málsins reisir ákærði Kristján Sigurður á því að við rannsókn þess hafi ekki verið farið eftir fyrirmælum reglugerðar nr. 373/2001 um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna. Ekki hafi verið rannsakað hvort saknæmisskilyrði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um ásetning eða stórkostlegt hirðuleysi hafi verið fyrir hendi þótt slíkt sé skylt samkvæmt 17. gr. reglugerðarinnar. Ekki hafi heldur verið rannsakaður þáttur ætlaðs hlutdeildarmanns í þeirri refsiverðu háttsemi sem þessum ákærða sé gefin að sök svo sem mælt sé fyrir um í 4. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar. Sakargiftir hafi í mörgum tilvikum aðeins lotið að álitaefnum um túlkun á tilteknum ákvæðum laga nr. 90/2003 sem sérfræðingar þeir, sem unnu skattframtöl fyrir þennan ákærða eða félög á vegum ákærðu, og skattyfirvöld hafi greint á um. Við þær aðstæður hafi verið skylt að leitast við að upplýsa málið nægilega samkvæmt 72. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem þá giltu, sbr. nú 54. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og ákvæði áðurnefndrar reglugerðar. Það hafi samt verið látið undir höfuð leggjast. Telur þessi ákærði að svo miklir annmarkar hafi verið á rannsókn málsins að hún geti ekki verið grundvöllur ákæru og beri því að vísa málinu frá dómi.
Skattskil ákærða Kristjáns Sigurðar vegna gjaldársins 2006 og skattskil þriggja einkahlutafélaga, sem ákærðu tengdust eins og lýst er í ákæru, sættu rannsókn skattyfirvalda. Um þá rannsókn eru gögn í málinu. Þótt á kunni að hafa skort að huglæg afstaða ákærðu hafi verið rannsökuð sérstaklega, er leitt í ljós að þau hafi falið öðrum að annast skattskil einkahlutafélaganna þriggja og ákærði Kristján Sigurður hafi einnig falið öðrum að telja fram til skatts fyrir sig þetta ár. Ákæruvaldið hefur metið rannsókn málsins fullnægjandi, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 og á grundvelli hennar gefið út ákæru í málinu, sbr. 145. gr. laganna. Verður ekki fallist á að slíkir annmarkar séu á rannsókn málsins að þessu mati verði hnekkt þannig að frávísun varði. Í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að dómur í sakamáli skuli reistur á sönnunargögnum, sem færð séu fram við meðferð þess fyrir dómi. Að því leyti, sem annmarkar kunna að vera á rannsókn þeirra atriða, sem að framan greinir, koma þeir til athugunar við mat á því hvort sakir, sem á þennan ákærða eru bornar, teljist sannaðar og þegar lagt er mat á hvort refsiskilyrði um huglæga afstöðu hans séu fyrir hendi. Samkvæmt þessu verður kröfu um frávísun málsins hafnað.
II
Í liðum A, B1, C og D í ákæru eru ákærðu gefin að sök skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir gjaldárið 2006, sem nánar er gerð grein fyrir í ákærunni. Í öllum tilvikum er upplýst að skattframtölin voru samin af sérfræðingum, sem til þess voru fengnir og að skattskil einkahlutafélaganna þriggja voru reist á ársreikningum þeirra, sem sérfræðingarnir sömdu. Því er ekki haldið fram af hálfu ákæruvaldsins að tölulegar upplýsingar í skattframtölum einkahlutafélaganna og ákærða Kristjáns Sigurðar hafi verið rangar. Jafnframt liggur fyrir að endurákvörðun gjalda var reist á framtöldum upplýsingum. Í ákæru er talið að í skattframtölunum sé tekjuskattstofn og rekstrartekjur, sem skattskyldar séu samkvæmt B lið 7. gr. laga nr. 90/2003, vantaldar. Ákærðu hafa andmælt þessu. Ákæruvaldið hefur í ljósi framangreinds ekki sannað að skattframtöl þau, sem um ræðir, hafi verið efnislega röng og er skilyrði sem að því lýtur í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 því ekki fullnægt. Verður þegar af þessari ástæðu fallist á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu þeirra af þessum ákæruliðum.
Jafnframt er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða Kristján Sigurðar samkvæmt liðum B2 og B3 í ákæru. Verður niðurstaða dómsins um fangelsisrefsingu hans og um skilorðsbindingu hennar einnig staðfest. Vararefsing, greiði þessi ákærði ekki sektina innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, skal vera fangelsi í 150 daga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur er staðfestur um sýknu ákærðu X.
Héraðsdómur er staðfestur um fangelsisrefsingu ákærða Kristjáns Sigurðar Sverrissonar og skilorðsbindingu hennar, svo og um sektarrefsingu hans. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa skal hann sæta fangelsi í 150 daga.
Niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti, Hjörleifs B. Kvaran hæstaréttarlögmanns og Boga Nilssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur til hvors þeirra um sig.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2011.
Málið er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, dagsettri 22. desember 2010, á hendur:
,,Kristjáni Sigurði Sverrissyni, kennitala [...],
[...], [...]
og
X, kennitala [...],
[...], [...]
A. Brot framin í rekstri A ehf.
Á hendur ákærða Kristjáni sem framkvæmdastjóra og prókúruhafa A ehf., kt. [...], fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2006, vegna rekstrarársins 2005, þar sem tekjuskattsstofn og rekstrartekjur sem skattskyldar eru samkvæmt B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 voru vantaldar, nam vantalinn tekjuskattsstofn kr. 94.213.077, en með þessu komið félaginu undan greiðslu tekjuskatts að fjárhæð kr. 16.958.354, sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:
|
Sundurliðun vantalinna tekna og tekjuskattstofn |
|
|
|
Þann 11. febrúar 2005 seldi A ehf. eignarhluta sinn í fasteigninni [...], fastanúmer [...], til aðaleiganda síns, B ehf., fyrir 12.000.000, en sölutapið að fjárhæð 8.000.000 var með ólögmætum hætti fært til frádráttar frá tekjuskattstofni A ehf. á skattframtali. |
kr. |
8.000.000 |
|
A ehf. seldi fasteignina [...] á árinu 2005 til aðaleiganda síns B ehf. fyrir kr. 146.340.684, og frestaði með ólögmætum hætti skattlagningu söluhagnaðar að fjárhæð kr. 86.213.077. |
kr. |
86.213.077 |
|
Samtals vantaldar tekjur og tekjuskattstofn |
kr. |
94.213.077 |
|
Sundurliðun útreiknings vangoldins tekjuskatts gjaldárið 2006 |
|
|
|
Tekjuskattstofn samkvæmt niðurstöðu rannsóknar |
kr. |
94.213.077 |
|
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 18% |
kr. |
16.958.354 |
Framangreind brot ákærða Kristjáns samkvæmt A. kafla ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003.
B. Brot framin í rekstri B ehf.
Á hendur ákærða Kristjáni fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins B ehf. kennitala [...], sem ákærði Kristján var framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi fyrir, með því að hafa:
1. Staðið skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2006, vegna rekstrarársins 2005, þar sem vantaldar voru rekstrartekjur að fjárhæð kr. 70.932.633, sem skattskyldar eru samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með því að hafa með ólögmætum hætti nýtt sér heimild 14. gr. sömu laga og fyrnt eignirnar að [...], [...] og [...] á móti söluhagnaði þar sem umræddar eignir voru ekki fyrnanlegar eignir í skilningi 33. gr. sömu laga, en með þessu komið einkahlutafélaginu undan greiðslu tekjuskatts samtals að fjárhæð kr. 12.767.874, sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:
Sundurliðun útreiknings vangoldins tekjuskatts gjaldárið 2006
|
Oftalin aukafyrning á móti söluhagnaði og þar með vantaldar tekjur : |
kr. |
70.932.633 |
|
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 18% |
kr. |
12.767.874 |
2. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní og nóvember-desember á rekstrarárinu 2006 og janúar-febrúar til og með septemberoktóber á rekstrarárinu 2007, og hafa eigi staðið ríkissjóði, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna neðangreindra uppgjörstímabila, samtals að fjárhæð kr. 3.678.071, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Uppgjörstímabil: |
Vangoldinn VSK: |
|
Árið 2006 janúar-febrúar mars-apríl maí-júní júlí-ágúst september-október nóvember-desember
Árið 2007 janúar-febrúar mars-apríl maí-júní júlí-ágúst september-október
Samtals 2006 og 2007: |
kr 789.693 kr. 257.209 kr. 11.659 kr. 300.121 kr. 539.126 kr. 574.757 kr. 2.472.565
kr. 234.352 kr. 54.787 kr. 153.727 kr. 460.179 kr. 302.461 kr. 1.205.506 kr. 3.678.071 |
3. Hvorki staðið ríkissjóði skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna maí, september, október, nóvember og desember rekstrarárið 2006 og nóvember rekstrarárið 2007, né staðið ríkissjóði skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins, vegna sömu greiðslutímabila auk desember 2007, samtals að teknu tilliti til afdreginnar staðgreiðslu Kristjáns kr. 6.076.273, og sundurliðast sem hér greinir:
|
Greiðslutímabil:
|
Vangoldin staðgreiðsla: |
|
Árið 2006 maí september október nóvember desember
|
kr 461.409 kr. 325.606 kr. 252.429 kr. 2.274.724 kr. 796.881 kr. 4.111.049 |
|
Árið 2007 nóvember desember
|
kr 1.323.230 kr. 641.994 kr. 1.965.224 |
|
Samtals 2006 og 2007: |
kr. 6.076.273 |
Framangreind brot ákærða Kristjáns samkvæmt B. kafla ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig
a) 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, að því er varðar 1. tölulið B. kafla ákæru,
b) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 2. tölulið B. kafla ákæru,
c) 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 3. tölulið B. kafla ákæru.
C. Brot framin í rekstri C ehf.
Á hendur ákærðu X sem skráðum framkvæmdastjóra, stjórnarmanni og prókúruhafa og ákærða Kristjáni sem starfandi framkvæmdastjóra, einkahlutafélagsins C, kennitala [...], fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri C ehf., með því að hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2006, vegna rekstrarársins 2005, þar sem vantaldar voru rekstrartekjur að fjárhæð kr. 17.269.695 sem skattskyldar eru samkvæmt B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, en ákærðu nýttu sér, með ólögmætum, heimild 14. gr. sömu laga og fyrndu eignina að [...] á móti söluhagnaði þar sem umrædd eign var ekki fyrnanleg eign í skilningi 33. gr. sömu laga, en með þessu komu ákærðu einkahlutafélaginu undan greiðslu tekjuskatts samtals að fjárhæð kr. 3.108.546, sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:
Sundurliðun útreiknings vangoldins tekjuskatts gjaldárið 2006
|
Tekjuskattsstofn samkvæmt niðurstöðu rannsóknar: |
kr. |
17.269.695 |
|
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 18% |
kr. |
3.108.546 |
Framangreind brot ákærðu X og Kristjáns samkvæmt C. kafla ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003.
D. Á hendur ákærða Kristjáni Sigurði Sverrissyni vegna eigin skattskila
Fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2006, vegna tekjuársins 2005, þar sem Kristján vantaldi launatekjur sínar sem skattskyldar eru samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og offramtaldi fjármagnstekjur sínar um kr. 39.999.999, sem skattskyldar eru samkvæmt 4. tölulið C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, en með því að vantelja tekjuskatts- og útsvarsstofn sinn um samtals kr. 82.140.500 komst ákærði undan greiðslu tekjuskatts, sérstaks tekjuskatts og útsvars, að teknu tilliti til fjármagnstekjuskatts vegna offramtalinna fjármagnstekna, samtals að fjárhæð kr. 28.675.492, og sundurliðast sem hér greinir:
|
Sundurliðun vantalinna launatekna |
|
|
|
a) Vantaldar launatekjur vegna sölu Kristjáns á öllum hlutum í D ehf., kt. [...], til B ehf., samtals að fjárhæð kr. 40.000.000, en Kristján var skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi beggja þessara félaga. |
kr. |
40.000.000 |
|
b) Vanframtaldar launatekjur vegna sölu Kristjáns á öllum hlutum í E ehf., kt. [...], til B ehf., samtals að fjárhæð kr. 40.000.000, en Kristján var skráður stjórnarmaður í E ehf. |
kr. |
40.000.000 |
|
c) Vanframtaldar launatekjur í formi húsnæðishlunninda samkvæmt mati Ríkisskattstjóra, vegna afnota Kristjáns að fasteigninni að [...], sem var í eigu F ehf. sem Kristján var starfandi framkvæmdastjóri fyrir. |
kr. |
2.140.500 |
|
Samtals |
kr. |
82.140.500 |
Vantaldar tekjur samkvæmt niðurstöðu rannsóknar: kr. 82.140.500
Tekjuskattur skattprósenta 24,75% kr. 20.329.774
Útsvar, útsvarsprósenta 13,03% kr. 10.702.907
Sérstakur tekjuskattur 2,0% kr. 1.558.977
Oftalinn fjármagnstekjuskattur kr. -3.999.999
Vangoldinn tekjuskattur og útsvar samtals kr. 28.591.659
Framangreind brot ákærða Kristjáns samkvæmt D. kafla ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Verjandi ákærða Kristjáns Sigurðar krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði felld niður og til þrautavara að refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin. Í öllum tilvikum er þess krafist að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærðu X krefst aðallega sýknu, til var að refsing verði felld niður og til þrautavara að refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin. Þess er krafist að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði að mati dómsins.
Nú verða raktir málavextir og niðurstaða vegna hvers ákærukafla um sig.
A
Ákærði neitar sök. Hann kveðst ekki muna hvenær hann var framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins, en samkvæmt gögnum málsins var hann skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi 11. janúar 2006 og hafði því þá stöðu er skattframtali vegna rekstrarársins 2005 var skilað. Ákærði kvað A ehf. í [...] hafa verið keypta og fyrirtækið G ehf. hefði fjármagnað kaupin. Skilyrði fyrirgreiðslunnar voru þau að félagið keypti [...] af G ehf. á 20.000.000 króna. Ákærði kvað hafa verið ljóst á þessum tíma að eignin var keypt á of háu verði, en félagið leit á það sem kostnað við að fjármagna kaupin á A í [...]. Ákærði hafnaði því að færsla á 8.000.000 króna í sölutap hefði verið ólögmæt af hálfu félagsins. Þá lýsti ákærði því að ekki hafi verið sýnt fram á það að fasteignin að [...] hefði verið meira en 12.000.000 króna virði á þessum tíma, en fyrir liggi opinber gögn um að eignin hafi verið seld á 14.500.000 á árinu 2006.
Ákærði kvað A ehf. hafa fengið endurskoðunarfyrirtækið H til að ganga frá skattframtali fyrir félagið. Fram kom að H ákvað að nýta ákvæði skattalaga til að fresta greiðslu skatts af söluhagnaði, hér 86.231.077 krónur. Ákærði kvað koma fram í ársreikningi félagsins að skattskuldbinding þess vegna þessa sé í bókum félagsins og greiðslu skatta af hagnaðinum hafi verið frestað í tvö ár eins og rakið var.
Skattframtali vegna gjaldaársins 2005 var skilað eftir að ákærði tók við stöðu framkvæmdastjóra 11. janúar 2006. Ákærði lýsti því að félögin A, B og C hefðu sameinast í eitt fyrirtæki 1. janúar 2006 og kvaðst ákærði að tæknilega séð hefði hann aldrei tekið við starfi framkvæmdastjóra hjá A ehf., en hins vegar þyrfti að gera hvert félag um sig upp til að framangreind sameining gæti átt sér stað. Ákærði kvaðst þannig hafa undirritað skattframtal A ehf. fyrir tímabilið sem hér um ræðir. Hann kvaðst hafa treyst starfsmönnum H og hann hafi því undirritað skattframtalið í góðri trú um að það uppfyllti allar kröfur. Hann kvað sömu svör um þetta eiga við um B-lið þessa ákærukafla, hann hafi treyst því að endurskoðunarfyrirtækið ynni skattframtalið eins og lög áskilja. Sjálfur kvaðst hann ekki hafa þekkingu á bókhaldi og skattskilum fyrirtækja og ekki hafa menntun sem slíkur. Hann hafi treyst H sem fagaðila.
B - 1.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri, stjórnar- formaður og prókúruhafi B ehf. á þessum tíma en neita sök á sömu forsendu og hann lýsti í A-lið ákærunnar. Hann kvað H hafa annst gerð skattframtalsins og endurskoðunarfyrirtækið hafi sagst vera að nýta ákvæði skattalaga með því að fresta söluhagnaði um tvö ár. Ákærði tók fram að í ársreikningi félagsins sé getið skattskuldar vegna þessa sem gera þurfi upp síðar. Ákærði kvað hið sama eiga við og varðandi A-lið ákærunnar að hann hafi treyst vinnu H og talið framtalið eins og lög áskilja og hann hafi treyst fyrirtækinu sem búi yfir sérfræðiþekkingu á þessu sviði.
Niðurstaða ákæruliðar A og 1. tl. B kafla ákæru.
Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákæruliðum. Hann bar að hann hefði fengið H hf. til að annast gerð skattframtalanna sem hér um ræðir. Gögn málsins styðji þennan framburð ákærða og er ágreiningslaust í málinu að H annaðist gerð skattframtalanna sem hér um ræðir. Engum gögnum eða upplýsingum var haldið frá skattayfirvöldum við skil eða gerð skattframtala. Ákærði leitaði til sérfróðra aðila með reynslu og þekkingu á skattalögum og taldi með réttu að skattframtalið væri unnið eins og lög áskilja er hann undirritaði skattframtölin sem hér um ræðir og skilaði til skattayfirvalda. Leyst er úr ágreiningi af því tagi sem hér um ræðir innan skattkerfisins og er háttsemin að mati dómsins ekki saknæm eins og á stendur. Ákærða er gefið að sök að hafa skilað efnislega röngum skattframtölum gjaldaárið 2006 vegna rekstrarársins 2005 samkvæmt þessum tveimur ákæruliðum og er háttsemi hans talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Saknæmisskilyrði samkvæmt tilvitnuðum lagagreinum er ásetningur eða stórfellt gáleysi. Það er mat dómsins að eins og mál þetta er í pottinn búið, þ.e. öllum tilskildum gögnum var skilað til skattayfirvalda eftir að ákærði leitaði til sérfróðra aðila við gerð skattframtalsins, hafi hann með réttu verið í góðri trú um að skattframtölin væru eins og lög áskilja er hann ritaði undir framtölin og skilaði þeim. Samkvæmt því skýrði ákærði hvorki af ásetningi né stórfelldu gáleysi rangt eða villandi frá á þann hátt sem lýst er í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 við skil skattframtalanna og eru því ekki uppfyllt saknæmisskilyrði lagaákvæðanna sem vísað er til í ákæru og ber því að sýkna ákærða af þessum ákæruliðum.
B - 2
Ákærði kvað virðisaukaskattsskýrslum hafa verið skilað en ekki á réttum tíma eins og lýst er í ákærunni og kvað hann ástæðuna hafa verið þá að bókhald félagsins hafi verið unnið af aðila sem hafi verið seinn og því hafi skýrslunum ekki verið skilað á réttum tíma.
Ákærði kvað ekki tölulegan ágreining um einstök virðisaukaskattstímabil en ákærði skrifaði undir allar virðisaukaskattsskýrsluranar sem hér um ræðir og fjárhæðir í ákæru eru í samræmi við þær. Ástæða þess að ekki var greitt á gjalddaga var sú að peningar hafi ekki verið til hjá fyrirtækinu og reikningar innheimtust ekki. Þeir fjármunir sem til voru hafi farið til greiðslu launa starfsmanna. Hins vegar hafi mikið af þeim kröfum sem standa að baki virðisaukaskattinum tapast og ekki fengist greiddar að sögn ákærða og skýrði hann það nánar. Ákærði kvað B ehf. hafa átt útistandandi kröfur um áramótin 2007 að fjárhæð um 50.000.000 króna í reikningum sem báru virðisaukaskatt. Mikið af útistandandi kröfum hafi tapast. B ehf. hafi farið í gjaldþrot vorið 2008.
Niðurstaða 2. tl. B kafla ákæru
Ákærði var framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi B ehf. á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann bar sem slíkur ábyrgð á skilum virðisaukaskattsskýrslna á lögmæltum tíma og sömuleiðis ábyrgð á skilum virðisaukaskatts sem innheimtur var í rekstri félagsins á þessum tíma. Sannað er með skýlausri játningu ákærða og með öðrum gögnum málsins að eigi var staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum á tilsettum tíma eins og hér er ákært fyrir. Þá er sannað með virðisaukaskattsskýrslum sem ákærði undirritaði og sem hann hefur staðfest fyrir dóminum og með öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða að hluta, að ekki var staðið skil á fjárhæðum virðisaukaskatts sem tilgreindur er við einstök uppgjörstímabil sem lýst er í þessum ákærulið. Stöðu sinnar vegna bar ákærði ábyrgð á skilum, bæði virðisaukaskattsskýrslna á lögmæltum tíma og ábyrgð á skilum innheimts virðisaukaskatts. Með því að láta þetta undir höfuð leggjast hefur ákærði gerst brotlegur við þau lagaákvæði sem í ákæru greinir.
B - 3
Ákærði kvað rétt að skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma eins og ákært er fyrir. Ákærði kvað laun hafa verið greidd en afdreginni staðgreiðslu ekki skilað þar sem peningar hafi ekki verið til hjá fyrirtækinu og því hafi fjárhæðin aldrei verið dregin af launum starfsmanna þar sem peningarnir hafi ekki verið til. Fjárhæðir sem hér um ræðir séu réttar og byggist á skýrslum sem skilað var.
Niðurstaða 3. tl. B kafla ákæru
Sannað er með skýlausri játningu ákærða og með öðrum gögnum málsins að skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda var ekki skilað á lögmæltum tíma eins og lýst er í þessum ákærulið. Þá er sannað með skilagreinum sem ákærði undirritaði og sem hann hefur staðfest fyrir dóminum og með öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða að hluta, að ekki var staðið skil á þeim fjárhæðum sem dregnar voru af launum starfsmanna skv. tilgreindum skilagreinum við einstök uppgjörstímabil sem lýst er í þessum ákærulið. Ákærði bar stöðu sinnar vegna ábyrgð á skilum bæði skilagreina vegna staðgreiðslu á lögmæltum tíma og sömuleiðis ábyrgð á því að afdreginni staðgreiðslu yrði skilað. Með því að láta þetta undir höfuð leggjast hefur ákærði gerst brotlegur við þau lagaákvæði sem í ákærunni greinir.
C
Ákærði Kristján Sigurður neitar sök. Hann kvaðst ekki hafa verið skráður framkvæmdastjóri félagsins á þessum tíma. Hann hafnaði því að hann hefði verið starfandi framkvæmdastjóri og sú afstaða byggist á því að í raun hafi félagði engan rekstur haft með höndum á þessum tíma.
Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 21. janúar 2009. Þar var hann spurður hvernig hafi verið háttað daglegri stjórn félagsins sem hér um ræðir og sérstaklega hver eða hverjir hefðu annast og/eða borið ábyrgð á gerð og skilum hverskyns skattframtala vegna rekstrarársins 2005. Kvaðst ákærði sjálfur hafa annast þessi verkefni og borið ábyrgð á því sem spurt var um. Þá kom fram hjá ákærða að meðákærða hefði ekki komið að þeim málum sem ákært er fyrir í þessum ákærulið. Þá kom fram hjá ákærða að meðákærða, [...], hefði verið skráð framkvæmdastjóri vegna gjaldþrots ákærða. Spurður um þetta fyrir dómi kvað ákærði þessa lýsingu hjá lögreglunni ekki alveg rétta. Ákærði kvað sömu svör eiga við um þennan ákærulið og um ákæruliði A og B að framan, það er að endurskoðunarfyrirtækið H hafi annast gerð skattframtals og ákærði treyst því að það væri eins og lög áskilja, en ákærði kvaðst hafa fengið H til verksins. Það hafi verið eitt þeirra verkefna sem ákærði sinnti fyrir félagið, en auk þess hefði hann sinnt ýmsum afmörkuðum störfum fyrir það. Þannig hefði hann annast alla umsjón með sölu fasteignarinnar að [...] sem um ræðir í þessum ákærulið. Sjálfur hefði ákærði ekki þekkingu á þessu sviði. Hann kvað meðákærðu X hafa ritað undir samninga sem gerðir voru í nafni félagsins en samningarnir hefðu allir tengst félögum sem ákærði kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri fyrir. Meðákærða hefði aldrei fengið greiðslur frá fyrirtækinu, en ákærði kvaðst hafa farið með skattframtalið sem hér um ræðir til X til undirritunar.
Ákærða X neitar sök. Hún kvaðst hafa verið skráður framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins á þeim tíma sem hér um ræðir. Hún kvaðst ekkert hafa fylgst með rekstrinum heldur aðeins lánað nafn sitt eins og hún lýsti. Hún kvaðst hafa gert sér grein fyrir ábyrgð sinni að einhverju leyti en hún hefði treyst meðákærða Kristjáni Sigurði um þetta. Hún kvaðst ekkert hafa komið að skilum skattframtals þess sem hér um ræðir og ekkert um það vita. Hún hafi hvorki haft samband við bókara félagsins né H sem annaðist gerð framtalsins. Hún kvað meðákærða Kristján Sigurð hafa komið með framtalið til sín og hún undirritað það. Hún kvaðst enga þekkingu hafa á því sviði sem hér um ræðir, þ.e. skattareglum og þess háttar.
Niðurstaða ákæruliðar C
Ákærðu neita sök. Ákærða X var skráður framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi C ehf. á þeim tíma sem hér um ræðir. Með framburði beggja ákærðu er sannað að ákærði Kristján Sigurður var starfandi framkvæmdastjóri félagsins á sama tíma. Báru þau stöðu sinnar vegna ábyrgð á því að réttu framtali væri skilað til skattyfirvalda vegna rekstrarársins 2005. Bæði báru fyrir dóminum að H hefði annast gerð skattframtalsins og leitað hefði verið til þeirra sem sérfræðinga á þessu sviði. Bæði báru ákærðu að þau hefðu treyst því að framtalið sem ákærða X undirritaði hefði verið gert eins og lög áskilja. Leyst er úr ágreiningi af því tagi sem hér um ræðir innan skattkerfisins og er háttsemin að mati dómsins ekki saknæm eins og á stendur. Ákærðu er gefið að sök að hafa skilað efnislega röngu skattframtali gjaldaárið 2006 vegna rekstrarársins 2005 og er háttsemi þeirra talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Saknæmisskilyrði samkvæmt tilvitnuðum lagagreinum er ásetningur eða stórfellt gáleysi. Það er mat dómsins að eins og mál þetta er í pottinn búið, þ.e. öllum tilskildum gögnum var skilað til skattayfirvalda eftir að leitað var til sérfróðra aðila við gerð skattframtalsins, hafi ákærðu með réttu verið í góðri trú um að framtalið væri eins og lög áskilja er því var skilað til skattyfirvalda. Samkvæmt því skýrðu ákærðu hvorki af ásetningi né stórfelldu gáleysi rangt eða villandi frá á þann hátt sem lýst er í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 við skil skattframtalsins sem hér um ræðir og eru því ekki uppfyllt saknæmisskilyrði lagaákvæðanna sem vísað er til í ákæru. Ber því að sýkna ákærðu af þessum ákærulið.
D
Ákærði neitar sök. Hann kvað ekki ágreining um fjárhæðir í þessum ákærulið. Hann kvaðst á þessum tíma hafa selt þrjú félög inn í félagið B ehf. sem ákærði átti. Hann lýsti þessu nánar. Ákærði kvaðst hafa selt félög eins og lýst er í A- og B- lið þessa ákærukafla og talið fram fjármagnstekjur vegna þessara viðskipta. Hann kvað ekki hafa verið sýnt fram á það að verð fyrirtækjanna hafi ekki verið rétt. Ákærði kvað H hafa unnið skattframtalið sem hér um ræðir og hann hafi treyst því að það væri rétt. Vísaði ákærði til sömu sjónarmiða um þetta og rakin hafa verið að framan og traust sitt á H sem hefði verið greitt fyrir verkið sem sérfræðiaðilum á þessu sviði. Vísa má til þess sem rakið hefur verið við einstaka ákæruliði að framan um þetta.
Niðurstaða ákæruliðar D
Ákærði neitar sök. Hann ber ábyrgð á því að réttu skattframtali væri skilað til skattayfirvalda vegna tekjuársins 2005. Hann bar fyrir dóminum að H hefði annast gerð skattframtalsins og að leitað hafi verið til þeirra sem sérfræðinga á þessu sviði. Ákærði bar að hann hefði treyst því að framtalið sem hann undirritaði fyrir tekjuárið 2005 hefði verið gert eins og lög áskilja. Leyst er úr ágreiningi af því tagi sem hér um ræðir innan skattkerfisins og er háttsemin að mati dómsins ekki saknæm eins og á stendur. Ákærða er gefið að sök að hafa skilað efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2006 vegna tekjuársins 2005 og er háttsemin talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Saknæmisskilyrði skv. tilvitnuðum lagagreinum er ásetningur eða stórfellt gáleysi. Er það mat dómsins að eins og mál þetta er í pottinn búið, það er öllum tilskildum gögnum var skilað til skattyfirvalda eftir að leitað var til sérfróðra aðila við gerð skattframtalsins, hafi ákærði með réttu verið í góðri trú um að skattframtalið væri eins og lög áskilja er hann undirritaði skattframtalið og skilaði því til skattayfirvalda. Samkvæmt því skýrði ákærði hvorki af ásetningi né stórfelldu gáleysi rangt eða villandi frá á þann hátt sem lýst er í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 við skil skattframtalsins sem hér um ræðir og eru því ekki uppfyllt saknæmisskilyrði lagaákvæðanna sem vísað er til í ákæru og ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.
Ákærði Kristján Sigurður hefur ekki áður sætt refsingu. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 5 mánuði, en rétt þykir að skilorðsbinda refsivistina eins og í dómsorði greinir.
Brotaandlag samkvæmt ákæruliðum B-2 og B-3 nemur svo háum fjárhæðum að brot ákærða þykir varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga eins og rakið var. Með vísan til tilvitnaðra ákvæða laga um tekjuskatt og til hliðstæðra ákvæða laga um staðgreiðslu opinbera gjalda þar sem kveðið er á um lágmarks sektarrefsingu fyrir brot gegn lagaákvæðunum, ber auk refsivistar að dæma ákærða til greiðslu sektar. Undir dómsmeðferð málsins lagði ákæruvaldið fram greinargerð sem unnin var á grundvelli viðbótargagna varðandi tapaðar kröfur B ehf. og lúta að virðisaukaskatti sem fjallað er um í ákærulið B 2. Þar kemur fram að samþykkt væri af hálfu ákæruvaldsins að taka tillit til tapaðra viðskiptakrafna að fjárhæð 7.656.750 krónur og virðisaukaskattur af þeirri fjárhæð væri 1.506.750 krónur. Þá kom fram að allur virðisaukaskattur vegna einstakra uppgjörstímabila ársins 2006 sem ákært er fyrir er að fullur greiddur en greitt var eftir lögboðinn eindaga. Sama rannsókn leiddi í ljós að vongoldin virðisaukaskattur vegna uppgjörstímabilanna árisins 2007 sem ákært er vegna væri 1.170.885 krónur. Að öllu ofanrituðu virtu og að teknu tilliti til þess að hluta virðisaukaskattskýrslna og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda var ekki skilað á lögmæltum tíma þykir sektarrefsing ákærða Kristjáns Sigurðar hæfilega ákvörðuð 18.000.000 króna krónur og komi 90 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja. Við ákvörðun vararefsingar er litið til þess hver viðurlög ákærða kynnu að hafa verið búinn ef ekki væri mælt fyrir um lágmark sektarrefsingar í lögum.
Ákærði Kristján Sigurður greiði 2/5 hluta af 878.500 króna málsvarnarlaunum Davíðs Guðmundssonar héraðsdómslögmanns á móti 3/5 hlutum sem greiðist úr ríkissjóði.
301.200 króna málsvarnarlaun Hjörleifs B Kvaran hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærðu X, greiðist úr ríkissjóði. Virðisaukaskattur er innifalinn í þóknun lögmanna.
Margrét Ósk Gunnarsdóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærða, X, er sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði, Kristján Sigurður Sverrisson, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði Kristján Sigurður greiði 18.000.000 króna sekt í ríkissjóði og komi 90 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði Kristján Sigurður greiði 2/5 hluta af 878.500 króna málsvarnarlaunum Davíðs Guðmundssonar héraðsdómslögmanns á móti 3/5 hlutum sem greiðist úr ríkissjóði.
301.200 króna málsvarnarlaun Hjörleifs B Kvaran hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærðu X, greiðist úr ríkissjóði. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.