Hæstiréttur íslands

Mál nr. 555/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hald


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. janúar 2003.

Nr. 555/2002.

Ríkislögreglustjóri

(enginn)

gegn

X

(Valgeir Kristinsson hrl.)

 

Kærumál. Hald.

X var ákærður fyrir brot gegn hegningarlögum með því að hafa dreift í tölvupósti frá starfstöð tiltekinna samtaka til fjölda viðtakenda tilhæfulausri viðvörun um sprengjutilræði gegn íslenskri flugvél. Lagði lögregla m.a. hald á tvær tölvur sem talið var að hefðu verið notaðar til að dreifa umræddum tölvupósti og var upptöku þeirra krafist í ákæru. Kröfu X um að haldlagningu á tveimur tölvum yrði aflétt var hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2002, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að honum yrðu afhentar tvær tölvur af nánar tilgreindri tegund, sem sóknaraðili lagði hald á við húsleit að [...] í Reykjavík 23. nóvember sama árs. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að sér verði afhentar umræddar tölvur. Þá krefst hann þess að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í málinu liggur fyrir að ríkissaksóknari gaf út ákæru 2. desember 2002 á hendur varnaraðila fyrir brot gegn 120. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum með því að hafa 22. nóvember sl. í nafni [...] dreift í tölvupósti frá starfstöð hennar til fjölda viðtakenda tilhæfulausri viðvörun um sprengjutilræði gegn íslenskri flugvél, sem hafi verið fallin til að vekja ótta um líf, heilbrigði og velferð manna. Var gerð krafa þar um að varnaraðili yrði dæmdur til refsingar, svo og að honum og [...], sem hann sé fyrirsvarsmaður fyrir, yrði á grundvelli 1. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga gert að þola upptöku á áðurnefndum tölvum.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991 skal leggja hald á muni ef ætla má að þeir hafi sönnunargildi í opinberu máli, þeirra hefur verið aflað á refsiverðan hátt eða ætla má að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Sóknaraðili heldur því fram að tölvurnar, sem um ræðir í málinu, hafi verið notaðar til að dreifa þeim tölvupósti, sem framangreind ákæra varðar. Kann því að koma til þess að þær verði gerðar upptækar, svo sem krafist er í ákærunni. Af þessum sökum og með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991 verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2002.

I

   Mál þetta var tekið til úrskurðar 9. desember sl.  Sóknaraðili er X kt. [...], [...], Reykjavík en varnaraðili er Ríkislögreglustjóri.

Dómkröfur sóknaraðila eru að tölvur þær sem Ríkilögreglustjóri lagði hald á í húsleit sem fram fór hjá sóknaraðila laugardaginn 23. nóvember sl. verði afhentar sóknaraðila.  Þá krefst hann málskostnaðar.

Dómkröfur varnaraðila eru þær að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

II

Föstudaginn 22. nóvember sl. barst eftirfarandi tölvupóstur til starfsmanna Ríkislögreglustjórans, Flugmálastjórnar, Stjórnarráðsins, fjölmiðla, lögreglu, héraðsdómsstóla og fleiri:

“Við höfum rökstuddan grun um að ráðist verði gegn íslenskri flugvél með flugráni og eða sprengjutilræði.  Við vitum ekki hvort þessi árás muni beinast gegn almennu flugi Icelandair eða Atlanta eða hvort bæði félögin veri skotmark.  Tilræðið mun koma sem svar við þeim ráðagerðum ríkisstjórnarinnar að nota borgaralegar flugvélar íslenska flugflotans til flutninga á hergögnum eða hermönnum fyrir NATO í ólögmætu stríði gegn Írak.

Rétt er að vara almenning til að ferðast með þessum flugfélögum á næstu dögum eða vikum.

Okkur finnst rétt að vekja athygli á þessu.

[...]

[…]

Í greinargerð Ríkislögreglustjórans kemur fram að umræddur póstur hafi verið sendur til 672 netfanga, og hafi hann borið með sér að vera sendur úr netfanginu [...].  Hafi rannsókn lögreglu, sem hafi hafist strax eftir að pósturinn barst, leitt í ljós að sóknaraðili hafði sent póstinn í nafni [...]. 

Í tengslum við rannsókn málsins var þann 23. nóvember sl. framkvæmd húsleit á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur í starfsstöð [...] að [..], Reykjavík í þeim tilgangi að leita og haldleggja sönnunargögn um muni sem kynnu að verða gerð krafa um upptöku á samkvæmt 78. gr. laga nr. 19/1991.  Kemur fram hjá varnaraðila að í upphafi hafi rannsóknin beinst að því að leiða í ljós hvort sóknaraðili hefði einhver rök fyrir grunsemdum sínum eins og fullyrt hafi verið í tölvupóstinum, en svo hafi ekki reynst vera.

   Í umræddri húsleit sem fram fór 23. nóvember sl. lagði ríkislögreglustjóri hald á tvær tölvur, annars vegar fartölvu af gerðinni Gateway og aðra af gerðinni Jet Board.

   Ríkissaksóknari hefur nú gefið út ákæru á hendur sóknaraðila fyrir meint brot gegn 120. gr. laga nr. 19/1940 þar sem gerð er krafa um að honum og [...] verði með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga gert að þola upptöku á umræddum tveim tölvum.

III

   Krafa sóknaraðila er þess efnis að með vísan til 75. gr. laga nr. 19/1991 sé borin undir héraðsdómara haldlagning Ríkislögreglustjóra á tveimur fyrrgreindum tölvum.  Annars vegar sé um a ræða fartölvu af gerðinni Gateway sem sé í eigu Earthchild í USA og fengin hafi verið að láni og hvíli sú skylda á sóknaraðila að senda hana úr landi í janúar n.k.  Hin tölvan sé af tegundinni Jet Board og í eigu [...] og hafi aldrei verið notuð til póstútsendinga, heldur eingöngu til að geyma gögn og kveður sóknaraðili fullyrðingar varnaraðila um að tölvan hafi verið notuð til póstútsendinga vera rangar.  Er því gerð krafa um að haldlagningunni verði aflétt og sóknaraðila eða [...] verði afhentar umræddar tölvur.

   Röksemdir sóknaraðila séu að engin þörf eða hagsmunir tengist haldlagningu ríkislögreglustjóra á tölvunum.  Lögreglan hafi þegar afritað öll gögn af tölvunum og í þeim séu til dæmis geymd öll gögn um félaga í samtökunum [...] og fleiri trúnaðargögn sem ekkert séu viðkomandi því máli sem lögreglan sé eða hafi verið með í gangi gegn kæranda eða [...].

   Hafi Gateway tölvan verið tekin úr íbúðarhluta hússins að [...], en ekki starfsstöð [...].  Í öðru lagi hafi lögreglunni verið veitt húsleitarheimild laugardaginn 29. nóvember sem hafi skoðað vettvang og tekið með sér gögn og búnað aðfararnótt laugardagsins.  Hafi lögreglan farið öðru sinni undir kvöld á laugardeginum og án húsleitarheimildar og í andstöðu við vilja sóknaraðila  sem þá hafi verið í gæsluvarðhaldi.  Takan á tölvunum hafi því verið ólögmæt.

IV

   Krafa varnaraðila byggir á því að honum hafi verið rétt og skylt að haldleggja umræddar tvær tölvur enda hafi þær verið notaðar sem verkfæri við hin meintu brot sóknaraðila.  Samkvæmt 78. gr. laga nr. 19/1991 skuli leggja hald á muni ef þeir kunni að verða gerðir upptækir.  í framlögðum gögnum sem lögð séu fram með greinargerð lögreglu sé lýst hvernig umræddar tölvur hafi verið notaðar af sóknaraðila við þær fjöldapóstsendingar sem um ræði í máli þessu.

   Leiki ekki vafi á heimild til að gera upptæk með dómi muni sem hafðir hafi verið til að drýgja brot sbr. 1. tl. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 1971940.  Úrlausn þess hvort umræddar tölvur verði gerðar upptækar verði í höndum þess dómara sem fái til meðferðar ákæru á hendur sóknaraðila og verði ákærumálið meðal annars flutt með tilliti til þessa.

   Telur varnaraðili að ekki verði leitt í ljós í þessu máli sem rekið sé á grundvelli 75. gr. laga nr. 19/1991 hvort umræddar tölvur verði gerðar upptækar eða ekki heldur einungis hvort réttmæt ástæða hafi verið til haldlagningar.  Í ljósi þess að ríkissaksóknari hafi gefið út ákæru í málinu og gert kröfu um upptöku tölvanna hljóti að verða að líta svo á að tilefni hafi verið til að haldleggja tölvurnar.

   Varnaraðili gerir athugasemdir við þær fullyrðingar sem fram komi í kæru sóknaraðila að framkvæmd hafi verið húsleit í tvö skipti.  Hið rétta sé að leitin að [...] hafi hafist aðfararnótt laugardagsins 23. nóvember sl. en frestað undir morgun og framhaldið daginn eftir með aðstoð tölvufróðra manna og hafi þetta verið gert eftir að í ljós hafi komið að að tölvukerfi [...] hafi verið flókið og hætta hefði verið á spjöllum. Leitin hafi verið framkvæmd að [...] í samræmi við úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur en [...] sé skráður þar með lögheimili en sóknaraðili með lögheimili í Bretlandi.

V

Eins og rakið hefur verið hefur sóknaraðili á grundvelli 75. gr. laga nr. 19/1991 krafist úrlausnar dómara um gildi haldlagningar tveggja tölva.  Í 75. gr. laganna segir að bera megi undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda, svo og ágreining um réttindi sakbornings og málsvara hans, þar á meðal um ósk þeirra um tilteknar rannsóknaraðgerðir.  Úrlausn dómara skal vera í úrskurðar­formi ef þess er krafist.

Í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991 segir að leggja skuli hald á muni ef ætla má að þeir hafi sönnunargildi í opinberu máli, ef þeirra hefur verið aflað á refsiverðan hátt eða ef ætla má að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Til muna teljast skjöl.  Þá segir í 79. gr. sömu laga að ef vörsluhafi munar sem hald er lagt á vill ekki hlíta þeirri ákvörðun skuli honum bent á að hann geti borið ágreiningsefnið undir dómara.  Þá segir jafnframt að slík krafa fresti þó ekki haldlagningunni.

Af gögnum málsins verður ráðið að Ríkislögreglustjóri lagði hald á umræddar tölvur á þeim forsendum að þær kynnu að hafa sönnunargildi í opinberu máli vegna gruns um að að þær hafi verið notaðar sem verkfæri við hin meintu brot sóknaraðila.  Þá hefur verið gefin út ákæra á hendur sóknaraðila vegna meintra brota hans gegn 120. gr. a almennra hegningarlaga, þar sem þess er meðal annars krafist að umræddar tölvur verði gerðar upptækar.

Í þessu máli er ekki til úrlausnar hvort umræddar tölvur kunni að verða gerðar upptækar í fyrirhuguðu dómsmáli ákæruvaldsins á hendur sóknaraðila heldur eingöngu um það fjallað hvort tilefni séu til að fara að óskum sóknaraðila um að aflétta haldlagningunni og afhenda honum tölvurnar. 

Eins og að framan er rakið skal leggja hald á muni ef ætla má að þeir hafi sönnunargildi í opinberu máli ef ætla má að þeir kunni að verða gerðir upptækir.  Eins og mál þetta liggur fyrir þykir rökstuddur grunur á því að umræddar tölvur hafi verið notaðar sem verkfæri við hin meintu brot sóknaraðila.  Var því fullt tilefni og beinlínis lagaskylda til haldlagningar umræddra tölva og með vísan til fyrirliggjandi rannsóknargagna eru ekki rök til að aflétta haldlagningu þeirra.   Þá þykir sóknaraðili ekki hafa lagt fram haldbær gögn um að haldlagning tölvanna hafi verið ólögmæt á þeim grundvelli að lögreglan hafi farið út fyrir heimild sína samkvæmt húsleitarúrskurði héraðsdómara.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Valgeir Kristinsson hrl. en af hálfu varnaraðili flutti málið Helgi Magnús Gunnarsson fulltrúi Ríkislögreglustjóra.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu sóknaraðila, X um að haldlagning varnaraðila Ríkislögreglustjóra á tveimur tölvum verði aflétt og sóknaraðila og eða [...] verði afhentar tölvurnar er hafnað.