Hæstiréttur íslands

Mál nr. 598/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Málskostnaður
  • Sératkvæði


                                     

Fimmtudaginn 4. desember 2014.

Nr. 598/2014.

Kaupþing hf.

(Anton B. Markússon hrl.)

gegn

þrotabúi Baugs Group hf.

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Gjaldþrotaskipti. Riftun. Málskostnaður. Sératkvæði.

Um mitt ár 2008 seldi BG hf. hluti sína í H hf. til 1998 ehf. sem fjármagnaði kaupin með láni frá K hf. Hluti af söluandvirðinu ráðstafaði BG hf. til að leysa hlutina úr veðböndum. Eftirstöðvunum var hins vegar varið til kaupa á hlutum í félaginu sjálfu og var þeim fjármunum síðan ráðstafað frá hluthöfunum inn á skuldir þeirra við K hf. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2013 voru kröfur þrotabús BG hf. um riftun og greiðslu skaðabóta vegna kaupa félagsins á eigin hlutum teknar til greina. Þar sem K hf. var undir slitum á þessum tíma lýsti þrotabú BG hf. kröfu við þau vegna greiðslu hluthafanna til K hf., sbr. 1. mgr. 146. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms voru kröfur þrotabúsins viðurkenndar við slit K hf. í réttindaröð sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í dómi Hæstaréttar var hafnað að annmarkar væru á kröfugerð þrotabús BG hf. þar sem ekki hefði verið gerð sjálfstæð krafa um riftun samhliða fjárkröfunni. Þá var ekki fallist á með K hf. að ómerkja bæri hinn kærða úrskurð þar sem engin afstaða hefði verið tekin til tveggja málsástæðna hans. Að lokum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að skilyrðum 1. mgr. 146. gr. laga nr. 21/1991 væri fullnægt og voru kröfur þrotabúsins við slit K hf. því viðurkenndar í réttindaröð sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. ágúst 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. ágúst 2014 þar sem þrjár kröfur varnaraðila að fjárhæð 7.208.284.898 krónur, 5.219.593.148 krónur og 1.339.062.896 krónur voru viðurkenndar við slit sóknaraðila í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur, til vara að kröfum varnaraðila verði hafnað, en að því frágengnu að þær verði lækkaðar. Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 29. ágúst 2014. Hann krefst þess aðallega að við slit sóknaraðila verði viðurkenndar þrjár kröfur sínar að fjárhæð 8.660.575.262 krónur, 6.271.706.583 krónur og 1.579.069.981 króna, til vara 7.944.131.020 krónur, 5.732.809.895 krónur og 1.440.726.320 krónur, en að því frágengnu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, þó þannig að krafa að fjárhæð 1.339.062.896 krónur verði lækkuð um 30.000.000 krónur. Í öllum tilvikum krefst varnaraðili þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verði staðfest og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 17. nóvember 2014.

I

Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði eru málavextir þeir að Baugur Group hf. var um árabil umsvifamikið fyrirtæki í rekstri af ýmsu tagi hér á landi og erlendis. Helstu hluthafar félagsins voru Fjárfestingafélagið Gaumur ehf., Gaumur Holding S.A., Eignarhaldsfélagið ISP ehf. og Bague S.A., en samtals áttu þeir um 80,3% hlut í félaginu. Sóknaraðili mun hafa verið einn af helstu lánardrottnum Baugs Group hf. Í eigu félagsins voru hlutir í Högum hf., en það félag var stórt á íslenskum smásölumarkaði. Um mitt ár 2008 var hlutum Baugs Group hf. að nafnvirði 1.165.509.976 krónur í Högum hf. eða 95,7% af útgefnu hlutafé ráðstafað til félags að nafni 1998 ehf., sem var í eigu fyrrgreindra hluthafa í Baugi Group hf. að einum undanskildum. Var þessi ráðstöfun liður í áætlun um endurskipulagningu og uppbyggingu síðastnefnda félagins og gekk hún undir nafninu „Project Polo“.

Í tengslum við umrædda áætlun voru gerðir nokkrir samningar sem lutu að fjármögnun söluandvirðisins og ráðstöfun þess. Meðal þeirra var kaupsamningur 28. júní 2008 um hlutina í Högum hf., en söluverð þeirra var 30.000.000.000 krónur. Í samningnum var tekið fram að andvirðinu skyldi ráðstafað eftir því sem greindi í sjóðsstreymisyfirliti lánssamnings sem gerður var sama dag milli 1998 ehf. og sóknaraðila. Samkvæmt þeim samningi tók fyrrnefnda félagið lán að fjárhæð 30.600.000.000 krónur til að standa skil á kaupverðinu. Í lánssamningnum var vísað til samnings um kaup Baugs Group hf. á eigin hlutum að nafnverði 314.000.000 krónur af áðurgreindum hluthöfum félagsins, en lánið var bundið skilyrði um þau kaup. Þá var gert ráð fyrir því í lánssamningnum að Baugur Group hf. myndi lækka hlutafé sitt sem svaraði til kaupanna á eigin hlutum eigi síðar en í árslok 2008. Samkvæmt umræddum samningi um kaup félagsins á hlutum í því, sem er ódagsettur, leysti félagið til sín hluti fyrir kaupverð að fjárhæð 15.000.000.000 krónur og skiptist hún milli hluthafanna í samræmi við eign þeirra í félaginu.

Í málinu liggur fyrir að andvirði hlutanna í Högum hf. að fjárhæð 30.000.000.000 krónur, sem ráðstafað var frá Baugi Group hf. til 1998 ehf., var annars vegar varið til að leysa hlutina úr veðböndum. Í því skyni var innt af hendi greiðsla í erlendum myntum til sóknaraðila sem svaraði til um 10.300.000.000 króna og til Glitnis banka hf. sem nam um 4.700.000.000 krónum. Hins vegar var eftirstöðvunum að fjárhæð 15.000.000.000 krónur varið til kaupa á hlutum í félaginu sjálfu, eins og áður er rakið. Var þeim fjármunum ráðstafað 11. júlí 2008 í viðeigandi myntum inn á skuldir hluthafanna við sóknaraðila þannig að greiddar voru 7.208.284.898 krónur vegna Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., 5.219.593.148 krónur vegna Gaumur Holding S.A. og 1.339.062.896 krónur vegna Eignarhaldsfélagsins ISP ehf. Loks voru 1.328.962.213 krónur greiddar 15. júlí 2008 inn á skuld Bague S.A. við Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem var dótturfélag sóknaraðila.

Með úrskurði 13. mars 2009 var bú Baugs Group hf. tekið til gjaldþrotaskipta. Með bréfum 14. september sama ár til fyrrgreindra hluthafa lýsti varnaraðili yfir riftun á ráðstöfun sem fólst í kaupum félagsins á eigin hlutum og greiðslu söluandvirðisins inn á skuldir hluthafanna við sóknaraðila. Til stuðnings þessu var vísað til 2. mgr. 131. gr., 141. gr. og 146. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt krafðist varnaraðili skaðabóta sem svöruðu til kaupverðsins, sbr. 1. mgr. 142. gr. laganna. Þessu andmæltu hluthafarnir með bréfum 7. október 2009.

Hinn 9. október 2008 neytti Fjármálaeftirlitið heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hlutahafafundar í sóknaraðila, sem þá hét Kaupþing banki hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Slit á sóknaraðila hófust 22. apríl 2009 við gildistöku laga nr. 44/2009, sem breyttu fyrstnefndu lögunum. Því er rangt sem greinir í hinum kærða úrskurði að þeir atburðir sem eru tilefni málsins hafi gerst áður en sóknaraðili varð til, enda er um að ræða sömu lögpersónuna.

Hinn 16. og 18. febrúar 2010 höfðaði varnaraðili mál á hendur fyrrgreindum hluthöfum í Baugi Group hf. til riftunar og greiðslu skaðabóta vegna kaupa félagsins á eigin hlutum. Málið var einnig höfðað á hendur Banque Havilland S.A., sem tekið hafði við réttindum og skyldum Kaupthings Bank Luxembourg S.A. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2013 voru kröfur varnaraðila á hendur hluthöfunum teknar til greina. Aftur á móti var Banque Havilland S.A. sýknað af kröfum varnaraðila. Hluthafarnir undu dómi en varnaraðili áfrýjaði honum til Hæstaréttar í því skyni að fá hnekkt niðurstöðunni um sýknu Banque Havilland S.A. Með dómi réttarins 18. september 2014 í máli nr. 789/2013 var fallist á kröfu um riftun á ráðstöfun sem fólst í greiðslu til Kaupthings Bank Luxembourg S.A. og var Banque Havilland S.A. gert að greiða varnaraðila 1.328.962.213 krónur með dráttarvöxtum.

Með bréfum 29. desember 2009 lýsti varnaraðili kröfum við slit sóknaraðila vegna ráðstöfunar á söluandvirði fyrir hluti í Baugi Group hf. inn á kröfur hans á hendur Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., Gaumur Holding S.A. og Eignarhaldsfélaginu ISP ehf. Sóknaraðili hafnaði kröfunum með bréfum 24. ágúst 2010 og vísaði síðan ágreiningnum til héraðsdóms, sem leysti úr honum með hinum kærða úrskurði. 

II

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði reisir varnaraðili fjárkröfur sínar á hendur sóknaraðila á 146. gr. laga nr. 21/1991, en samkvæmt því ákvæði er heimilt að beina kröfum eftir 142. gr. til 145. gr. laganna að þriðja manni, sem fengið hefur verðmæti framseld, að tilteknum skilyrðum fullnægðum. Sóknaraðili ber fyrir sig að varnaraðili hafi ekki gert sjálfstæða kröfu um riftun gagnvart sér á þeirri ráðstöfun sem fjárkröfur hans eru reistar á. Því hafi greiðslu inn á lán Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., Gaumur Holding S.A. og Eignarhaldsfélagsins ISP ehf. hjá sóknaraðila aldrei verið rift, hvorki með dómi né samkomulagi, en af þeirri ástæðu skorti að lögum grundvöll til að taka til greina fjárkröfu samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Telur sóknaraðili þetta slíkan annmarka á kröfugerð varnaraðila að vísa beri málinu frá héraðsdómi án kröfu eða hafna kröfum hans.

Samkvæmt 146. gr. laga nr. 21/1991 verður kröfu beint að þriðja manni sem fengið hefur verðmæti framseld úr hendi þess sem fékk þau upphaflega með riftanlegri ráðstöfun frá þrotamanni. Af því leiðir að ekki verður krafist riftunar gagnvart þriðja manni á þeirri ráðstöfun sem fólst í framsali á verðmætum til hans. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á með sóknaraðila að annmarkar séu á kröfugerð varnaraðila að þessu leyti.

III

  Hinn 14. febrúar 2014 gerði varnaraðili samning við Eignarhaldsfélagið ISP ehf. um uppgjör á skuld þess samkvæmt fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2013. Í samningnum kom fram að félagið væri því sem næst eignalaust og orðið hefði að samkomulagi að það myndi greiða varnaraðila samtals 50.000.000 krónur á nánar tilgreindum gjalddögum sem fullnaðargreiðslu á dómkröfunni. Þar af mun félagið hafa greitt 30.000.000 krónur en fengið greiðslufrest á 10.000.000 krónum. Lokagreiðslu að fjárhæð 10.000.000 krónur á að inna af hendi 20. desember 2014. Með samningnum féll varnaraðili frá því að gera kröfu um að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Til stuðnings kröfu sinni um ómerkingu hins kærða úrskurðar vísar sóknaraðili til þess að engin afstaða hafi verið tekin til þeirrar málsástæðu hans að varnaraðili hafi þegar fengið eða kunni að fá á grundvelli dómsins frá 21. mars 2013 tjón sitt bætt úr hendi þeirra sem seldu Baugi Group hf. hluti í félaginu. Þá sé niðurstaða héraðsdóms í ósamræmi við nefndan samning 14. febrúar 2014 um fullnaðaruppgjör á kröfu á hendur Eignarhaldsfélaginu ISP ehf., en samningsins og efnda samkvæmt honum sé í engu getið í hinum kærða úrskurði. Í þessu sambandi bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi með nefndum dómi þegar fengið kröfur sínar dæmdar og því fái hann fjárkröfur sínar um bætur að þessu leyti teknar til greina að fullu í tveimur málum ef hinn kærði úrskurður standi óhaggaður. Af því leiði að hann geti heimt bætur fyrir tvöfalt hærri fjárhæð en nemi tjóninu.

Í hinum kærða úrskurði var tekin afstaða til þeirrar málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili gæti ekki haft uppi kröfur sínar í þessu máli samhliða því að hafa fengið dóm á hendur hluthöfunum í Baugi Group hf. Þá er þess að gæta að samningurinn um uppgjör skuldar Eignarhaldsfélagsins ISP ehf. fól ekki í sér eftirgjöf kröfu á hendur sóknaraðila og kemur hann því ekki í veg fyrir að varnaraðili haldi kröfunni fram að fullu gagnvart honum, enda er um að ræða sömu skyldu sem hvílir á fleiri en einum. Það liggur hins vegar í hlutarins eðli að skyldan verður aðeins efnd einu sinni þótt hún verði með dómsúrlausnum tekin til greina í tveimur málum á hendur fleiri. Leiðir þetta af reglum 103. gr. og 104. gr. laga nr. 21/1991 sem eiga við um slit sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.  

Í tengslum við umrætt dómsmál sem varnaraðili höfðaði meðal annars á hendur hluthöfunum í Baugi Group hf. aflaði hann matsgerðar um virði eigin fjár félagsins 30. júní 2008. Með fyrrgreindum dómi 21. mars 2013 var hluthöfunum gert að greiða varnaraðila málskostnað þar sem tekið var tillit til kostnaðar af matsgerðinni. Til stuðnings kröfu sinni um ómerkingu hins kærða úrskurðar heldur sóknaraðili því fram að héraðsdómur hafi ekki tekið tillit til þeirrar málsástæðu sinnar að þennan matskostnað beri ekki að greiða oftar en einu sinni. Af niðurstöðu hins kærða úrskurðar er ljóst að þessi málsástæða var ekki talin standa því í vegi að sóknaraðila yrði gert að greiða málskostnað að teknu tilliti til matskostnaðarins. Var með þessu tekin afstaða til málsástæðunnar og eru því ekki efni til að ómerkja úrskurðinn sökum þess að ekki hafi verið leyst úr henni. Aðalkröfu sóknaraðila um ómerkingu er því hafnað.

IV

Eins og áður er rakið reisir varnaraðili kröfur sínar á hendur sóknaraðila á 1. mgr. 146. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því ákvæði á þrotabú kröfu á hendur þriðja manni eftir reglum 142. gr. til 145. gr. laganna, ef sá sem fékk verðmæti frá þrotamanni hefur framselt þau þeim þriðja manni og hann vissi eða mátti vita um þær aðstæður sem riftunarkrafa byggir á. Til að kröfu um riftun og endurgreiðslu verði komið við á þessum grundvelli gagnvart þriðja manni verður í fyrsta lagi að vera um riftanlega ráðstöfun að ræða gagnvart þeim sem fékk verðmæti í hendur frá þrotamanni. Í öðru lagi verður þriðji maður að hafa fengið verðmætin framseld frá þeim sem fékk þau frá þrotamanni og í þriðja lagi verður þriðji maður að vera grandsamur um að ráðstöfunin hafi verið riftanleg.

Með áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 789/2013 var komist að þeirri niðurstöðu að sú ráðstöfun Baugs Group hf. að kaupa hluti í félaginu 11. og 14. júlí 2008 hafi verið riftanleg á grundvelli 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Í greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms sagði að þetta atriði kæmi til úrlausnar í nefndu dómsmáli en niðurstaða um það hefði úrslitaáhrif um hvort krafa næði fram gagnvart sóknaraðila. Við þessa málflutningsyfirlýsingu er sóknaraðili bundinn, sbr. 45. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og verður því niðurstaðan um riftanleika ráðstöfunarinnar í nefndum dómi lögð til grundvallar í málinu.

Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn á því að fjármögnun hans á kaupum á hlutum í Högum hf. hafi verið bundin því skilyrði að eftirstöðvum kaupverðsins, þegar hið selda hafði verið leyst úr veðböndum, yrði ráðstafað til kaupa á hlutum í Baugi Group hf. gegn greiðslu inn á skuldir seljendanna við sóknaraðila. Í málinu liggur fyrir að láni til kaupa á hlutum í Högum hf. var ráðstafað af sóknaraðila til greiðslu á skuldunum án þess að kaupverðið hefði staðið Baugi Group hf. til frjálsrar ráðstöfunar. Að þessu gættu er fullnægt því skilyrði 1. mgr. 146. gr. laga nr. 21/1991 að sömu verðmæti hafi runnið til þriðja manns.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði sendi stjórnarformaður Baugs Group hf. tölvubréf 9. júlí 2008 til þáverandi forstjóra sóknaraðila með beiðni um skammtímalán frá bankanum að fjárhæð 3.100.000.000 krónur til að greiða gjaldfallnar skuldir félagsins. Í niðurlagi bréfsins sagði stjórnarformaðurinn að hann hefði unnið hörðum höndum að því að bæta stöðu sóknaraðila meðal annars með sölu á Högum hf. Vonandi fyndu þeir lausn næsta dag en ef ekki „þá þurfum við ekki að spyrja að leikslokum.“ Þetta erindi var sent fyrirsvarsmanni sóknaraðila aðeins tveimur dögum áður en Baugur Group hf. keypti um fjórðung hluta í félaginu, en sóknaraðili gerði ráð fyrir því í lánssamningnum 28. júní 2008 að hlutafé í félaginu yrði lækkað sem þessu næmi. Að því gættu að ráðstöfunin fól í sér að verðmætri eign, hlutunum í Högum hf., væri ráðstafað frá Baugi Group hf. með skilyrði um lækkun hlutafjár í félaginu á sama tíma og stjórnarformaðurinn lýsti því yfir að félagið skorti fé til að greiða gjaldfallnar skuldir er vafalaust að sóknaraðili mátti vita um þær ástæður sem riftunarkrafan byggist á. Með þessu einu er fullnægt áskilnaði 1. mgr. 146. gr. laga nr. 21/1991 um grandsemi sóknaraðila.

Svo sem áður er rakið seldi Baugur Group hf. með samningi 28. júní 2008 hluti sína í Högum hf. til 1998 ehf. að nafnverði 1.165.509.976 krónur fyrir 30.000.000.000 krónur. Þar af átti sóknaraðili veðrétt í hlutum að nafnverði 621.000.000 krónur samkvæmt yfirlýsingu 28. desember 2007 til tryggingar á öllum skuldum Baugs Group hf. við sig. Sóknaraðili féllst á að leysa þá hluti undan veðinu gegn greiðslu af söluverðinu sem nam um 10.300.000.000 krónum. Eftir að sá veðréttur hafði verið gefinn eftir átti sóknaraðili ekkert tilkall til eftirstöðva kaupverðsins. Eru því ekki efni til að fallast á það með sóknaraðila að lækka beri kröfur varnaraðila á hendur honum sökum þess að veðrétturinn hafi staðið til frekari tryggingar en hann hafi sætt sig við þegar hlutirnir voru leystir úr veðböndum.

Í kröfulýsingum varnaraðila við slit sóknaraðila var þess krafist að dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu yrðu reiknaðir af höfuðstól krafna varnaraðila frá 11. júlí 2008 til upphafs slita 22. apríl 2009. Fyrir héraðsdómi hafði hann uppi sömu vaxtakröfu sem var hafnað með hinum kærða úrskurði. Leitar varnaraðili endurskoðunar á þeirri niðurstöðu úrskurðarins með kæru sinni og krefst aðallega dráttarvaxta á fyrrgreindu tímabili en til vara vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Varnaraðili hafði fyrst uppi kröfur sínar, sem eru um skaðabætur, á hendur sóknaraðila með kröfulýsingum 29. desember 2009. Þegar af þeirri ástæðu getur hann ekki krafist dráttarvaxta fyrir það tímamark, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Þá hefur hann fyrst fyrir Hæstarétti haft uppi kröfu um vexti á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laganna og koma þeir því ekki til álita.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann veg sem greinir í dómsorði og hefur þá verið tekið tillit til lækkunar um 30.000.000 krónur í samræmi við kröfugerð varnaraðila.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2013 var fyrrnefndum hluthöfum í Baugi Group hf. gert óskipt að greiða varnaraðila 59.000.000 krónur í málskostnað og hafði þá verið tekið tillit til matskostnaðar að fjárhæð 56.000.000 krónur. Sóknaraðila var með hinum kærða úrskurði gert að greiða varnaraðila 60.000.000 krónur í málskostnað og hafði þá einnig verið tekið tillit til sama matskostnaðar. Með því að ákveða málskostnaðinn á þann veg ósundurgreint yrði sóknaraðila einum gert að sæta því að þurfa að greiða málskostnað án þess að tekið yrði tillit til þess að matskostnaðurinn hvílir að réttu lagi óskipt á fleiri. Þar sem varnaraðili hefur ekki hagað kröfugerð sinni að teknu tilliti til þessa er ekki unnt að líta til matskostnaðarins við ákvörðun málskostnaðar. Að því gættu verður málskostnaður á báðum dómstigum ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Við slit sóknaraðila, Kaupþings hf., er viðurkennd krafa varnaraðila, þrotabús Baugs Group hf., að fjárhæð 13.736.940.942 krónur í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Sóknaraðili greiði varnaraðila samtals 6.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara

Ég er samþykkur atkvæði meirihluta dómenda í öllum atriðum nema þegar kemur að ákvörðun málskostnaðar. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði aflaði varnaraðili matsgerðar til grundvallar þeirri kröfu sinni sem hann nær fram í máli þessu. Hafði sóknaraðili andmælt dómkvaðningu matsmanna gagnvart sér og var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur um ágreiningsefnið 8. febrúar 2011. Þar var fallist á að dómkvaðning færi fram í samræmi við matsbeiðnina og var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 30. mars 2011 í máli nr. 111/2011. Með úrskurði héraðsdóms 18. maí 2012 var komist að þeirri niðurstöðu að þóknun matsmanna skyldi vera 56.000.000 krónur og var hann staðfestur með dómi Hæstaréttar 15. júní 2012 í máli nr. 393/2012. Er þetta sá matskostnaður sem varnaraðili krefst að sóknaraðili greiði í máli þessu.

Auk sóknaraðila voru matsþolar nokkrir lögaðilar í máli er varnaraðili höfðaði til riftunar ráðstöfunum er tengdust viðskiptum er gengu undir nafninu „Project Polo“ og lýst er í atkvæði meirihluta dómenda. Einnig er fram komið að réttarfarsreglur stóðu í vegi því að sóknaraðila yrði stefnt í því máli og varð varnaraðili að fara þá leið að lýsa fjárkröfu við slit sóknaraðila. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2013 var fallist á kröfur varnaraðila á hendur öllum nema einum þeirra og var þeim fyrrnefndu gert að greiða málskostnað óskipt, þar með talin umræddan matskostnað. Var dóminum áfrýjað hvað hinn síðargreinda varðaði og með dómi Hæstaréttar 18. september 2014 í máli 789/2013 var einnig fallist á kröfur varnaraðila á hendur þeim aðila.

Þegar þannig háttar til að sama skylda hvílir eftir efni sínu óskipt á fleiri en einum breytir engu þótt einhverjum þeirra sé gert með dómi að efna sömu skyldu, enda fellur hún niður gegn öllum með efndum í eitt sinn og skiptir þá ekki máli hvort dómur hefur gengið á hendur öðrum en þeim sem efnir. Að virtum þessum sjónarmiðum og því sem að framan er rakið tel ég að varnaraðili hafi nægilega skýrt sett fram og reifað kröfu sína um greiðslu umrædds matskostnaðar, enda sætir sú krafa hans efnislegri úrlausn með viðeigandi rökstuðningi í hinum kærða úrskurði. Tel ég að fallast eigi á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um málskostnað sem er að sóknaraðili greiði alls 60.000.000 krónur í málskostnað, þar af 56.000.000 krónur í matskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. ágúst 2014.

                Þetta mál barst dóminum, 8. júní 2012, með bréfi slitastjórnar Kaupþings hf. Það var þingfest 22. júní 2012 og tekið til úrskurðar 4. mars sl. en endurflutt 25. júní sl. og tekið til úrskurðar á ný.

                Sóknaraðili, þrotabú Baugs Group hf., kt. 480798-2289, Efstaleiti 5, Reykja­vík, krefst þess að eftirtaldar fjárkröfur hans við slit varnaraðila, Kaupþings hf.,

                nr. 20100106-0562 að fjárhæð 1.609.069.981 kr. og

                nr. 20100105-1983 að fjárhæð 6.271.706.583 kr. og              

                nr. 20100106-0528 að fjárhæð 8.660.575.262 kr.

verði allar viðurkenndar sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

                Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili, Kaupþing hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 26, Reykjavík, krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

                Varnaraðili krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málavextir

                Sóknaraðili segir þá kröfu sem hann lýsti við slit varnaraðila vera skaða­bóta­kröfu vegna fjármuna sem fyrrum hluthafar Baugs Group hf., það er Fjár­fest­inga­félagið Gaumur hf., Eignarhaldsfélagið ISP ehf., og Gaumur Holding S.A., hafi, í júlí 2008, látið ganga til greiðslu lána félaganna hjá Kaupþingi banka. Þessa fjármuni hafi Baugur greitt hluthöfunum fyrir eigin hlutabréf sem hann hafi keypt af þeim. Sá gern­ingur sé riftan­legur, eins og rakið verði.

                Sóknaraðili rekur forsögu málsins. Að hans sögn var Baugur Group hf. óskráð eign­ar­haldsfélag sem átti og rak smá­sölu-, fjölmiðla-, fjarskipta- og fast­eignafyrirtæki. Félagið hafi verið umsvifa­mesta fjárfestingafélag landsins og um leið þriðja stærsta smá­sölu­fyrirtæki á Norður­löndum. Meðal innlendra eigna Baugs Group hf. árið 2007 hafi verið Hagar, Stoðir hf., Landic Property, 365 miðlar en einnig fleiri félög. Af erlendum fjár­fest­ingum megi nefna Iceland Foods Group Ltd., Mosaic Fash­ions hf., High­land Group Hold­ings (House of Fraser), Gold­smiths, Julian Graves, Ham­leys og MK One. Auk þess hafi Baugur átt ráðandi hlut í Maga­sin du Nord og Illum í Dan­mörku.

                Langstærsti hluthafi Baugs fyrir þrot, þar á meðal sumarið 2008, hafi verið Fjár­fest­inga­fél­agið Gaumur hf. sem hafi átt alls 66,04% hlutafjár Baugs, þar af 38,3% hluta­fjár beint og 27,74% í gegnum dótturfélag sitt Gaum Hold­ing S.A. Félag Ingi­bjargar Pálma­dóttur, Eignar­halds­fél­agið ISP, ehf. hafi þá átt 7,12% hlutafjár í Baugi. Saman hafi þau félög farið með 73,16% hlut í Baugi. Annað félag, Bague S.A., hafi jafn­framt átt 7,09% hlutafjár í Baugi. Bague hafi verið í eigu Austursels ehf., Kaup­þing Bank Lux­em­bourg S.A. og Fontain Blanc Holding S.A., en Guðrún Péturs­dóttir hafi átt hags­muna að gæta í því félagi. Austursel ehf., félag í eigu Hreins Lofts­sonar, hafi átt um þriðj­ungs­hlut í Bague.

                Framangreind fjögur félög (Gaumur, Gaumur Holding, ISP, og Bague) hafi öll átt saman alls um 80,3% hlut í Baugi:

Eigendur hluthafa

Hluthafar Baugs

Eignarhlutd. hluth. í Baugi

Ása Karen Ásgeirsdóttir, Jóhannes Jóns­son, Jón Ásgeir og Kristín Jóhann­es­börn

Gaumur

38,3%

Ása Karen Ásgeirsdóttir, Jóhannes Jónsson, Jón Ásgeir og Kristín Jóhannesbörn (í gegnum Gaum)

Gaumur Holding

27,74%

Ingibjörg Pálmadóttir

ISP

7,12%

Kaupþing Lux

Hreinn Loftsson hrl. (í gegnum Austursel ehf.)

Guðrún Pétursd. (í gegnum Fontain Blanc Holding S.A.)

Bague

7,09%

Samtals

80,3%

                Baugur, eins og önnur skuldsett fjárfestingarfélög, hafi fundið harkalega fyrir hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu upp úr miðju ári 2007. Félagið hafi á þeim tíma verið í miðju fjármögnunarverkefni erlendis til að auka lausafjárstöðu sína. Hins vegar hafi Baugi ekki reynst kleift að afla erlendrar fjármögnunar og því hafi verið fyrirséð að félagið ætti ekki nægt fjármagn í lok árs 2007.

                Í kjölfar þessara erfiðleika hafi Baugi verið nauðugur sá kostur að hefja við­ræður við íslenska banka haustið 2007 en Glitnir banki, Kaupþing og Landsbankinn hafi, þegar árið 2007, lánað Baugshópnum verulegar fjárhæðir. Viðræðum hafi lokið í árs­lok 2007 með meintri endurfjármögnun félagsins. Sýndarráðstöfunin hafi dugað skammt og strax í janúar 2008 hafi reynst nauðsynlegt að fá frekara fjár­magn til greiðslu á van- eða ótryggðum skamm­tíma­skuldum Baugs við Landsbankann. Eitt dótt­ur­félaga Baugs hafi í því skyni tekið alls 40 milljarða króna lán hjá Lands­bank­anum og sjóðum rekstr­ar­félaga. Þar af hafi átt að nýta 28 milljarða króna til að fjár­magna að nýju ógreidd lán Baugs.

                Lánveitingar íslensku bankanna til aðila tengdra þeim, eins og Baugs og aðila tengdra honum, hafi á árunum 2007-2008 aukist til muna. Til dæmis hafi fyrir­greiðsla Glitnis til Baugs og tengdra félaga aukist verulega eftir að FL Group hf. varð stærsti eig­andi bank­ans. Skuldbindingum íslensku bankanna gagnvart aðilum tengdum þeim hafi fylgt gríðar­leg kerfisáhætta. Enginn bank­anna, hvorki Kaupþing né aðrir, hafi í raun getað tekið þá áhættu að Baugur eða fyrirtæki tengd honum færu í þrot. Baugur og tengd félög hafi í raun haft tangarhald á þremur stærstu bönk­unum. Staða félags­ins gagn­vart íslensku bönkunum eigi sér þannig vart hliðstæðu á Íslandi. Það, auk bágrar lausa­fjár­stöðu bankanna, hafi hvatt þá til þess að velta veru­legum niðurfærslum á undan sér í drjúgan tíma. Þannig hafi fjár­fest­ingar­sjóðir rekstrarfélaga íslensku bank­anna kerfis­bundið endurfjárfest í skuldabréfum og víxlum Baugs á gjalddaga þar sem Baugur hafi ekki getað greitt upp slík bréf. Það sé dæmi um þetta að starfsmönnum og stjórn­endum Lands­vaka, rekstr­ar­félags Lands­bank­ans, hafi verið ljóst í desember 2007 að Baugur gæti ekki endur­greitt víxla og væri kominn í veru­legan greiðsluvanda. Um mitt ár 2008 hafi ástæða endur­fjár­fest­inga Glitnis Sjóðs 9 í víxlum Baugs verið sögð sú að Baugur hefði síendur­tekið verið í van­skilum.

                Í árslok 2007 hafi Baugi verið skipt upp og frá félaginu skilin félög í annars vegar fjölmiðla- og fjarskiptarekstri og hins vegar í fasteignarekstri. Fast­eignasvið Baugs hafi verið selt FL Group hf., sem heiti nú Stoðir hf., í desember 2007 og hafi kaup­verðið verið greitt með útgáfu nýrra hluta í FL Group hf. á genginu 14,7. Eftir skipt­ingu félags­ins hafi Baugur fyrst og fremst orðið fjárfestingarfélag á sviði smá­sölu. Hlut­ur­inn í FL Group hf. hafi verið stærsta einstaka fjárfesting félagsins, og hafi Baugur átt 36% hlut í félag­inu. Gengi hlut­anna í FL Group hf. hafi hríðfallið á skömmum tíma, niður í 6,34 í lok mars 2008. Baugur hafi, á fyrsta ársfjórðungi 2008, tapað um 30,6 mill­jörðum króna, ein­ungis á verð­falli hlutar félagsins í FL Group hf. Það hafi komið veru­lega við fjár­hags­lega stöðu Baugs. Eigna­verð hafi jafnframt lækkað mikið almennt og hafi félagið fundið fyrir verð­mæta­rýrnun, þar á meðal á eignum félagsins í Bret­landi. Verðmæti annarra skráðra og óskráðra félaga hafi lækkað jafnframt en láns­fjár­krepp­unni fylgdi, auk lausa­fjár­skorts, að fjárfestar drógu veru­lega úr áhættu og verð eigna lækkaði.

                Við ákvarðanir lánanefnda íslensku bankanna virðist mikið mið hafa verið tekið af versn­andi stöðu Baugs og tengdra félaga, töluvert hafi verið lánað fyrir vöxtum og afborg­unum. Eftir því sem á leið, allt frá byrjun árs 2008, virðist ákv­arð­anir þó, a.m.k. Kaup­þings, að mestu teknar með það fyrir augum að minnka heildar­fyrir­greiðslu til Baugs. Stjórn­endur Baugs hafi haft verulegar áhyggjur af gjald­dögum víxla í júní og júlí 2008 og viðrað þær sérstaklega við Kaup­þing banka. Bankinn og stjórn­endur félags­ins hafi rætt hvernig skyldi bregð­ast við miklum vanda þess og hvernig leyst yrði úr vanda­málum vegna mik­illar verðrýrnunar eigna og lausa­fjár­skorti, þ.e. óvið­ráðan­legum vaxta­greiðslum og erfiðleikum við að greiða upp skamm­tíma­skuld­bind­ingar.

                Þrátt fyrir tilraunir sem virtist ætlað að auka lausafé og bæta stöðu Baugs hafi hagur félagsins ekki átt eftir að vænkast eftir því sem leið á árið. Um mitt ár 2008 hafi vandi félagsins ekki enn verið leystur og ljóst, miðað við ástand á mörk­uðum á þeim tíma, að afar ólíklegt væri að það tækist. Baugur hafi verið að þrotum kominn.

                Varnaraðili mótmælir sérstaklega þeirri fullyrðingu sóknaraðila að sýnt hafi þótt, um mitt ár 2008, að Baugur væri ógjald­fær. Kaup­þing hafi vitað að Baug, eins og fjölda­mörg önnur félög á þessum tíma, hafi skort lausafé. Þar fyrir utan hafi þau gögn sem bankinn hafi haft aðgang að ekki gefið honum neitt tilefni til að ætla að félagið væri ógjaldfært, stefndi í þrot eða hlutabréf þess væru verðlaus.

                Sóknaraðili greinir þannig frá að einn helsti lánardrottinn félagsins, Kaupþing banki, hafi reynt að bregðast við þeim vanda sem hann stóð frammi fyrir vegna Baugs, enda hafi lán hans til Baugs og tengdra félaga verið gríðarleg. Í byrjun mars 2008 hafi bank­inn samið kynningu sem lýsi m.a. þeirri lausn sem hann sá fyrir sér. Í henni komi fram að Baugur hafi tapað umtals­verðum fjárhæðum síðastliðna mánuði og eigið fé Gaums, helsta eiganda Baugs, sé nei­kvætt. Í kynningunni sagði m.a. að fjár­þörf Baugs næstu mán­uði sýndi að Baugur gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar án utan­að­kom­andi íhlut­unar eða inn­grips. Í kynningunni hafi verið sett fram hug­mynd sem kall­aðist „Gaumur lausnir“. Í henni hafi falist að dóttur­félag Baugs, Hagar, yrði selt beint til hluthafans Gaums á móti greiðslu í hluta­bréfum í Baugi, sem yrði útgöngu­leið fyrir Jóhannes Jónsson. Félagið Hagar yrði þannig greitt út til hluthafa í Baugi, og Kaup­þingi veitt 89% veð í Högum. Í tengslum við þá sölu hafi Kaupþing séð fyrir sér greiðslu skulda Baugs og greiðslu skulda hluthafa við Kaupþing.

                Um mitt sumar 2008 hafi, að frumkvæði Kaupþings, verið gengið frá sölu Baugs á hlut félagsins í Högum. Í tengslum við söluna hafi verið gerður fjöldi samn­inga, m.a. samn­ingar um ráðstöfun andvirðis, og verkefnið í heild sinni nefnt „Proj­ect Polo“.

                Félagið 1998 ehf. hafi verið stofnað, 21. maí 2008, af Einari Þór Sverr­is­syni hrl. sem hafi jafnframt verið skipaður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri þess. Með fram­sals­samningi, 27. júní 2008, hafi 1998 verið selt þremur félögum; Gaumi sem eign­að­ist alls 82,3% hluta­fjár, ISP sem eignaðist alls 8,9% og Bague sem eignaðist alls 8,8% hluta­fjár. Eins og áður segi hafi þessi félög, Gaumur, ISP og Bague auk dótt­ur­félags Gaums, Gaumur Hold­ing, jafn­framt átt um 80,3% hlutafjár í Baugi. Skipan stjórnar félag­anna tveggja hafi verið þannig í lok júní 2008:

Stjórnarmenn Baugs

Stjórnarmenn 1998

Kristín Jóhannesdóttir

Kristín Jóhannesdóttir

Hreinn Loftsson hrl.

Hreinn Loftsson hrl.

Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir

Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir

Jón Ásgeir Jóhannesson

 

Jóhannes Jónsson

 

Donald McCarthy

 

Hans Hustad

 

Guðrún Pétursdóttir (varamaður)

 

Einar Þór Sverrisson (varamaður)

 

                Baugur og 1998 hafi, 28. júní 2008, gert með sér samning um kaup hins síðar­nefnda á bréfum að nafnvirði 1.165.509.976 krónur í Högum (95,7% af útgefnu hlutafé félagsins). Söluverðið hafi verið ákveðið 30.000.000.000 króna, sem greiða átti Baugi í reiðufé samkvæmt samningnum.

                Samkvæmt samningnum hafi salan meðal annars verið bundin því skilyrði að 1998 gerði lánssamning við Kaupþing fyrir andvirðinu auk 600 milljóna króna þókn­unar bank­ans og hafi lánsfjárhæðin því alls numið 30.600.000.000 króna. Það hafi verið ein stærsta einstaka lánveiting íslensku bankanna til félags tengdu Gaumi. Sam­kvæmt grein 5.4 í kaupsamningnum skyldi kaupverði Haga úthlutað eftir því sem nefnt væri í sjóð­streymis­yfirliti samkvæmt lánasamningi 1998 við Kaupþing (which shall be allo­cated as set forth in the funds flow statement of the Hagar Loan Agree­ment).

                Sóknaraðili tekur fram að í lánssamningi 1998 og Kaupþings hafi verið vísað til þess að eitt yfirfærsluskjalanna væri samningur þess efnis að Baugur keypti alls 314.000.000 eigin hluta af hluthöfum félag­sins. Eitt skilyrða láns­samn­ings­ins, skv. grein 22.29, hafi verið að ábyrgðaraðilar lánsins (1998 og hlut­hafar þess félags) skyldu sjá til þess að Baugur lækkaði hlutafé sitt sem svar­aði til þeirra eigin hluta sem hann keypti af hluthöfum sínum, um leið og kaupin voru um garð gengin eða í síð­asta lagi um áramót 2008/2009. Frek­ari til­vís­anir til kaupa á eigin bréfum hafi ekki verið í samn­ingum er tengdust Project Polo.

                Þeir sem sóttu hluthafafund 1998, stjórnarfund og hluthafafundi Baugs og ákváðu að samþykkja gerninga Project Polo hafi verið:

Fulltrúar hlut­hafa á hlut­hafa­fundi 1998  (27/06/2008)

Stjórnarmenn á stjórnarfundi Baugs (30/06/2008)

Fulltr. á hlut­hafa­fundi Baugs (aðal­fundi) (30/06/2008)

Fulltr. á hlut­hafa­fundi Baugs (fram­halds­aðal­fundi) (18/07/2008)

Kristín Jóhannesd.

Kristín Jóhannesd.

Kristín Jóhannesd.

Óþekkt

Ingibjörg Pálmad.

Ingibjörg Pálmad.

Ingibjörg Pálmad.

Hreinn Loftsson

Hreinn Loftsson

Hreinn Loftsson

Jón Ásgeir Jóh.son

Jón Ásgeir Jóh.son

Jóhannes Jónsson

Gunnar Sigurðsson (forstjóri Baugs)

Einar Þór Sverriss.

Stefán Hilmarsson (fjármálastj. Baugs)

Hans Hustad

                Með samningnum hafi Baugur yfirfært 95,7% hlutabréfa í Högum til 1998, en eig­endur 1998 áttu jafnframt um 80,3% í Baugi. Stjórnarmenn 1998 og Baugs voru þá að hluta til þeir sömu.

                Framlögð gögn sýni að andvirði Haga, 30.087.594.667 krónur, hafi sannanlega verið lagt inn á reikn­inga Baugs, 11. júlí 2008.

                Í þeim samningi, þar sem Kaupþing veitti 1998 ehf. lán, hafi verið mælt enn frekar fyrir um sérstaka samn­inga um tryggingar, það er veðréttindi og ábyrgðir sem félagið 1998 og hlut­hafar þess skyldu veita. Til tryggingar hafi hluthafar 1998 veitt veð í öllum bréfum sínum í 1998. Félagið 1998 veitti þá veð í öllum bréfum sínum í Högum og var Kaup­þingi veittur kaup­réttur að öllum hlutum félagsins 1998 í Högum. Gaumur Hold­ing veitti veð í alls 233.306.421 bréfum í Baugi og Gaumur í alls 159.039.247 bréfum í Baugi. Hlut­hafar 1998 (Gaumur, Gaumur Holding, ISP og Bague) hafi tekist á hendur sjálf­skuldar­ábyrgðir pro rata á greiðslu fyrrgreinds láns Kaup­þings til félags­ins 1998.

                Samkvæmt skilyrðum lánssamningsins hafi Baugur, hluthafar Baugs og 1998 hver gert samstarfssamning við Kaupþing. Samkvæmt samningunum hafi bank­inn átt áheyrn­ar­fulltrúa á stjórnar- og hluthafafundum Baugs, 1998 og Haga. Í samn­ingi Kaup­þings og hluthafa Baugs, hafi verið tilgreind ákveðin atriði sem hlut­höfum og stjórn bar að bera undir bankann til samþykkis, meðal annars árlega rekstr­ar­áætlun, varð­andi nýjar fjár­fest­ingar sem næmu hærri fjárhæð en ákveðinni upp­hæð, ákvarð­anir um arðgreiðslur, nýjar lántökur og veiting hærri ábyrgða en næmu ákveðnum mörkum. Í samn­ing­num varðandi Haga og 1998 kom fram að hlut­hafar eða stjórn félag­anna mættu hvorki, nema að fyrir­fram­gefnu samþykki Kaup­þings, m.a. sam­þykkja lántökur að hærri fjárhæð en 100 millj­ónum króna, sam­þykkja árlega rekstr­ar­áætlun, auka hlutafé, kaupa eigin bréf eða taka á sig ábyrgðir fyrir þriðja aðila.

                Um helming söluandvirðis Haga, eða um 15 milljarða króna, hafi Baugur nýtt til greiðslu skulda vegna veðbandslausnar á hlutum í Högum, en 2,3% hlutafjár (269.956.648 hlutir) hafi verið óveðsett. Fyrir Project Polo hafi 517.514.328 hlutir Baugs í Högum verið veðsettir Glitni (um 44%) og 621.000.000 hluta veðsettir Kaup­þingi (um 53%). Um þessi veðbönd hafi þurft að losa til þess að unnt væri að færa hlut­ina kvaðalausa til félagsins 1998. Baugur hafi greitt Glitni, 18. júlí 2008, alls 4.943.629.189 krónur. Jafn­framt nýtti Baugur hluta söluandvirðis Haga til þess að greiða skuldir við Kaup­þing, inn á ógjaldfallið lán Baugs nr. 1859 um 28,8 millj­ónir evra og 45,7 millj­ónir breskra punda.

                Að sögn sóknaraðila stýrði Kaupþing viðskiptunum þannig, að Baugur gerði, að vísu ódagsettan, samn­ing um kaup á eigin bréfum að nafnvirði alls 314.000.000 kr. af Gaumi, Gaumi Hold­ing, ISP og Bague. Í samn­ingnum sé til­tekið að bréf hvers selj­anda og gagngjald væri svofellt:

Félag

Nafnverð seldra bréfa (kr.)

Kaupverð (kr.)

Gaumur

149.868.190

7.159.308.439

Gaumur Holding

108.529.663

5.184.538.037

ISP

27.845.148

1.330.182.222

Bague

27.756.999

1.325.971.301

Samtals

314.000.000

14.999.999.999

                Eigin bréf Baugs frá Gaumi, Gaumi Holding, ISP og Bague hafi verið framseld Baugi, 30. júní 2008 og færð inn á reikning Baugs hjá Verð­bréfa­skrán­ingu Íslands, 25. júlí 2008. Greiðslur Baugs til Gaums, Gaums Hold­ing og ISP vegna þessa hafi verið inntar af hendi, 11. júlí, í mismunandi gjaldmiðlum. Greiðslur til Bague hafi verið inntar af hendi 14. júlí 2008. Þannig hafi helmingur and­virðis Haga, um 15 millj­arðar króna, verið nýttur til kaupa á eigin hlutum Baugs af fjórum stærstu hlut­höfum félags­ins. Þær greiðslur hafi hluthafarnir nýtt til að greiða skuldir við Kaupþing og dóttur­félag bankans, Kaup­þing Lux.

                Eins og áður greini hafi meirihluti hluthafa og stjórn Baugs samþykkt á fundum sínum, 30. júní 2008 og 18. júlí 2008, að gengið yrði frá samningnum um kaup á eigin bréfum. Fyrir hönd seljenda hafi neðangreint fólk ákveðið að selja ofan­greind Baugsbréf: Ingibjörg Pálmadóttir f.h. ISP og Kristín og Jón Ásgeir Jóhannes­börn, Ása Karen Ásgeirsdóttir og Jóhannes Jónsson, sem hluthafar Gaums. Hlut­hafa­fundar- og stjórnarfundargerðir Gaums Holding, sýni hverjir sam­þykktu gerninginn, en Kristínu Jóhannes­dóttur hafi verið veitt umboð til þess að ganga frá samningnum. Hlut­hafafundar- og stjórnarfundargerðir Bague, sýni hverjir sam­þykktu gern­ing­inn en Hreini Loftssyni hafi verið veitt umboð til þess að ganga frá samningnum.

                Í stjórn Gaums hafi setið Jón Ásgeir og Kristín Jóhannesbörn og Jóhannes Jóns­son. Eini stjórnarmaður ISP hafi verið Ingibjörg Pálmadóttir. Nefndir stjórnar­menn Gaums og ISP hafi myndað meirihluta stjórnar Baugs í lok júní 2008. Eini stjórn­ar­maður Austursels ehf. (eins eigenda Bague) hafi verið Hreinn Lofts­son sem hafi einnig setið í stjórn Baugs. Guðrún Pétursdóttir hafi jafnframt verið ful­ltrúi Bague í vara­stjórn Baugs. Auk framangreindra hafi Hans Hustad og Donald McCarthy setið í stjórn Baugs og vara­mað­urinn Einar Þór Sverrisson.

                Jóhannes Jónsson og Ása Karen Ásgeirsdóttir séu foreldrar Jóns Ásgeirs og Kristínar. Ingibjörg Pálmadóttir sé eiginkona Jóns Ásgeirs. Hreinn Loftsson og Einar Þór Sverrisson hafi um árabil verið lögmenn fjölskyldunnar og félaga í þeirra eigu.

                Hvorki í kaupsamningnum sjálfum, um eigin bréf Baugs, né ofangreindum ákvörð­unum stjórnar- og hluthafafunda samningsaðila séu tilgreindar forsendur fyrir ákvörðun á gengi bréfa í Baugi um mitt ár 2008. Hvergi séu skýringar á því hvaða hags­muni Baugur hafi haft af því að ráðstafa því fé sem félagið fékk fyrir andvirði Haga á þennan hátt og eignast svo stóran hlut af eigin bréfum, um 26% af útgefnu hlutafé þess. Í þessu sambandi beri að árétta að Baugur hafi þegar leitað gjaldfrests hjá kröfu­höfum um mitt árið 2008. Samkvæmt stjórnendum Baugs hafi gerningnum verið stillt upp sem órjúfanlegum hluta af viðskiptunum við Kaupþing.

                Framangreind fjárhæð sem Gaumur, Gaumur Holding, og ISP fengu fyrir Baugs­bréf sín, hafi verið nýtt til að greiða upp skuldir þeirra við Kaupþing. Bague nýtti andvirði seldra Baugsbréfa sinna til að greiða upp skuldir sínar við Kaup­þing í Lúx­em­borg. Samkvæmt upplýsingum frá Banque Havilland S.A. hafi greiðslu Baugs til Bague verið ráðstafað til að greiða lán félagsins við Kaup­þing Lux.

                Þannig hafi þeir rúmu 15 milljarðar króna, sem Baugur fékk fyrir Haga og not­aði til kaupa á eigin hlutum félagsins, að endingu runnið til greiðslu skulda stærstu hlut­hafa Baugs við Kaupþing og dótturfélag bankans, Kaupþing Lux.

                Í kjölfar kaupa Baugs á eigin bréfum hafi Kaupþing lækkað útlán sín til Gaums, Gaums Holding og ISP um u.þ.b. 13,7 milljarða króna. Útlán Kaupþings Lux til Bague lækkuðu um u.þ.b. 1,3 milljarða króna. Bague, sem var að hluta til í eigu Kaup­þing Lux, hafi jafnframt losnað við verðlaus Baugsbréf sín. Eins og að ofan greini hafi Kaupþing þá lækkað útlán sín til Baugs um 10,3 milljarða króna. Skuldir Baugs og hlut­hafa þess við Kaupþing og dótturfélag þess hafi þar með lækkað um rúma 25,3 millj­arða króna í kjölfar Project Polo. Eina greiðslan sem hafi farið til ann­ars en Kaup­þings hafi verið greiðsla Baugs til Glitnis, um 4,7 milljarða króna.

                Kaupþing hafi hins vegar veitt félaginu 1998 alls 30,6 milljarða króna lán. Í stað trygginga sem fólust í u.þ.b. 60% af hlutafé Baugs í Högum, hafi Kaupþing nú fengið veð í öllu hlutafé í Högum, veð í öllu hlutafé 1998, auk kaupréttar að hluta­bréf­unum í Högum og veðs í fleiri Baugsbréfum Gaums. Jafnframt hafi verið ritaðir nokkrir sam­starfs­samningar þar sem kveðið var á um rétt Kaupþings til áheyrn­ar­full­trúa á stjórnar- og hluthafafundum Baugs, 1998 og Haga, og neitunarvald í ýmsum málum er lutu að fjárfestingum, lántökum o.fl.

                Varnaraðili sér atvik málsins frá öðrum sjónarhóli en sóknaraðili. Varnaraðili áréttar að lán Kaupþings til 1998 ehf. hafi verið forsenda þess að það félag gæti keypt Haga. Lánið hafi jafnframt verið háð því skilyrði að söluandvirði Haga yrði að veru­legu leyti nýtt til upp­gjörs á fjár­skuld­bind­ingum Baugs við bankann, sem hafi verið tryggðar með veði í þeim hlutum sem Baugur seldi 1998. Þessum viðskiptum hafi öðru fremur verið ætlað að bæta stöðu Baugs sumarið 2008, einkum með því að lækka skuldir félagsins við við­skipta­bank­ana, og styrkja rekstur þess og fjárhagsstöðu.

                Varnaraðili tekur fram að meðal skilyrða þess að Kaupþing greiddi 1998 ehf. lánið og þar með að það félag gæti greitt Baugi kaupverð hluta­bréfanna í Högum hf. hafi verið að Baugur hefði áður gert samn­ing við hluthafana fjóra um kaup á eigin hluta­bréfum. Þann samning telji sóknaraðili nú riftanlega ráðstöfun í skiln­ingi gjald­þrota­réttar.

                Varnaraðili áréttar að þar sem meira en helmingur hluta Baugs í Högum hf. hafi verið veð­settur Kaupþingi hafi bankinn, sem veðhafi, átt forgangsrétt eftir­stöðva kaup­verðs þeirra hluta sem Baugur seldi í Högum hf. þegar Glitni hefði verið greitt fyrir að leysa úr veðböndum þá hluti í Högum, sem hann átti veð í.

                Forsenda Kaupþings fyrir veðbandslausninni hafi verið að Baugur nýtti hluta sölu­verðs­ins til kaupa á eigin hlutabréfum af hluthöfunum fjórum svo og að þeir nýttu end­ur­gjaldið til uppgjörs á skuldbindingum sínum við bankann eftir því sem við ætti. Sam­hliða þessu hafi félögin ábyrgst að hlutafé Baugs yrði lækkað um sömu fjárhæð að nafnverði og hafi jafnframt ábyrgst endurgreiðslu þess láns sem 1998 ehf. fékk hjá Kaup­þingi. Varnaraðili telur að við úrlausn málsins verði að meta þessi viðskipti í heild sinni, í stað þess að litið verði, óháð öllu öðru, á kaup Baugs á eigin bréfum eins og sókn­ar­aðili geri.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 13. mars 2009, var bú Baugs tekið til gjald­þrotaskipta og búinu skipaðir skiptastjórar. Frestdagur við gjald­þrota­skiptin sé 4. febrúar 2009.

                Dótturfélag Kaupþings í Lúxemborg hafi, 10. júlí 2009, verið endur­skipu­lagt og skipt í tvær einingar, annars vegar Havilland og hins vegar Pillar Securitisation S.á r.l.

                Þann 14. september 2009 sendi sóknaraðili Gaumi, Gaumi Hold­ing, ISP, Bague og Nýja Kaupþingi banka hf. (nú Arion banka hf.) riftunarbréf þar sem fram­an­greindum greiðslum Baugs fyrir hlutabréf félaganna í Baugi var rift með vísan til 2. mgr. 131. gr., 141. gr. og 146. gr. laga nr. 21/1991. Í öllum tilvikum var þess krafist að félögin greiddu sóknaraðila, innan tíu daga, umræddar fjárhæðir, aðal­lega með vísan til 3. málsliðar 1. mgr. 142. gr. laganna, en til vara með vísan til 1. málsliðar 1. mgr. 142. gr., sbr. 143. gr. sömu laga. Sókn­ar­aðili sendi Bague, Havilland og Pillar riftunar­bréf, 21. desember 2009, þar sem greiðslu Baugs til Bague fyrir hluta­bréf félagsins í Baugi var rift með vísan til sömu ákvæða og þess krafist að félögin greiddu sóknar­aðila, innan tíu daga, nefndar fjárhæðir.

                Gaumur, Gaumur Holding og ISP höfnuðu öllum kröfum sóknaraðila 7. októ­ber 2009. Hið sama gerði Nýi Kaupþing banki, 12. október 2009, og Havilland og Pillar, 8. janúar 2010.

                Sóknaraðili höfðaði mál á hendur Gaumi, Gaumi Holding, ISP, Bague, Pillar og Havill­and (báðum var stefnt þar sem ekki bárust skýr svör frá síðastnefndum tveimur félögum um það hver væri réttur aðili) til staðfestingar á riftun og kröfu sókn­ar­aðila um skaða­bætur. Það mál var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 23. mars 2010 (nr. E-2356/2010). Þar sem Kaupþing var bæði í greiðslustöðvun sem og slitameðferð sam­kvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var ekki unnt, samkvæmt 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að höfða dómsmál gegn bankanum. Kröfu vegna greiðslu ISP, Gaums og Gaums Holding til Kaupþings var þó lýst við slit bank­ans 30. desem­ber 2009. Kröfum sóknaraðila var hafnað með bréfum slitastjórnar varn­ar­aðila 24. ágúst 2010. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar 20. september 2010. Fundur málsaðila til jöfnunar ágreinings var haldinn 6. júní 2012. Á honum var ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar Héraðs­dóms.

                Í máli nr. E-2356/2010 óskaði sóknaraðili mats á innra virði Baugs og eðlilegu sölu­verði eins og það var um mitt ár 2008. Varnaraðili var aðili að því matsmáli. Mat var lagt á þrjár stærstu eignir Baugs á þessum tíma: Iceland Foods Group, High­land Group Holdings Ltd. og Mosaic Fashions hf. þar sem þetta hafi verið stærstu eignir félags­ins og skipt mestu fyrir rekstur þess. Við vinnslu mats­ins funduðu mats­menn með fyrrverandi forsvarsmönnum Baugs, meðal ann­ars fyrrum fjár­mála­stjóra og for­stjóra, til þess að fá frekari upp­lýs­ingar.

                Niður­staða matsmanna var að eigin­fjár­staða Baugs hafi, 30. júní 2008, í raun verið neikvæð vegna veru­legs ofmats eigna. Innra virði félags­ins hafi um mitt ár 2008 í raun verið neikvætt eða -9,98. Félagið hafi verið verðlaust á þeim tíma sem umræddar ráð­staf­anir voru gerðar. Eðli­legt verð fyrir 314.000.000 hluta í Baugi Group hf. hefði verið 0 kr.

                Með dómi, 21. mars 2013, í máli nr. E-2356/2010, rifti Héraðsdómur Reykja­víkur þeim ráðstöfunum, sem fólust í greiðslum Baugs til allra hluthafanna, á þeim grund­velli að greiðsl­urnar hefðu verið gjafagerningar, skv. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, til hvers og eins hlut­hafa meðal annars þar sem mats­gerð sýndi að verðmæti hluta­bréf­anna í Baugi hefði, 30. júní 2008, ekkert verið. Hann dæmdi hluthafana jafn­framt til þess að greiða skaðabótakröfur Baugs, samtals tæplega 14 milljarða króna. Hlut­haf­arnir undu dómi. Fyrrum dóttur­félag Kaup­þings, Banque Havilland S.A., var sýknað í héraði með þeim rökum að enda þótt ráð­staf­an­irnar væru riftan­legar væri ósannað að dótt­ur­félagið hefði verið grandsamt um þær aðstæður sem riftunar­krafan byggð­ist á. Því ætti 146. gr. laga nr. 21/1991 ekki við um hug­læga afstöðu þess. Sókn­ar­aðili hefur áfrýjað sýknu dóttur­félagsins til Hæsta­réttar.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Sóknaraðili reisir dómkröfur sínar á því að ráðstöfun Baugs á um 15 millj­örðum króna til Gaums, Gaums Holding, ISP og Bague, án þess að fá nein raun­veru­leg verð­mæti í staðinn, sé riftanleg ráðstöfun, sbr. 2. mgr. 131. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Ráð­stöfun hlut­haf­anna inn á lán sín til Kaupþings (og Kaupþings Lux) sé einnig riftanleg sam­kvæmt 146. gr. laga nr. 21/1991. Vegna grandsemi hluthafa í Baugi Group, svo og Kaup­þings og dóttur­félags þess um riftanleika ráð­staf­ananna beri fram­an­greindum aðilum að greiða sóknaraðila skaða­bætur, sbr. 3. málslið 1. mgr. og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Í öllu falli beri að endurgreiða sókn­ar­aðila umþrætta fjár­muni, sbr. 2. málslið 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991.

                Í greinargerð til sóknar færði sóknaraðili rök fyrir því að ráðstöfunum sem fólust í greiðslum milli Baugs og hluthafanna fjögurra yrði rift hvort heldur væri með stoð í 2. mgr. 131. gr.  eða 141. gr. laga nr. 21/1991.

                Þar sem héraðsdómur rifti þeim ráðstöfunum með stoð í 2. mgr. 131. gr. og hlut­hafarnir áfrýjuðu þeim dómi ekki til Hæstaréttar þarf í þessu ágreiningsmáli við slit varnaraðila ekki að taka afstöðu til þess hvort og á hvaða grundvelli þeim ráð­stöf­unum verður rift. Af þeim sökum þykir ekki þörf á að rekja hér rök sóknaraðila og máls­ástæður fyrir þeirri riftun.

                Sóknaraðili vísar til þess að Kaupþing, sem var fjár­mála­stofnun, hafi haft miklar upp­lýsingar um stöðu Baugs á grundvelli upplýsingaskyldu félags­ins samkvæmt láns­samn­ingum, og hafi átt frumkvæði að tilhögun Project Polo og kaupum Baugs á eigin bréfum. Kaupþing, auk dótturfélagsins Kaupþings Lux, hafi vitað eða mátt vita um þær aðstæður sem riftunarkrafa sóknaraðila byggist á.

                Tjón þrotabúsins af ráðstöfuninni nemi þeirri fjárhæð sem hefði að öðrum kosti komið til úthlutunar úr þrotabúinu, enda nægi eignir búsins ekki til þess að greiða upp þær kröfur sem var lýst í búið. Þannig hafi búið orðið af 15 milljarða króna greiðslu sem telja verði að hefði komið til skipta hefði hin riftanlega ráðstöfun ekki átt sér stað.

                Að mati sóknaraðila eru skil­yrði til riftunar á ofangreindum greiðslum og heimtu skaðabóta fyrir hendi í sam­ræmi við áskilnað XX. kafla laga nr. 21/1991, eins og nánar verði gerð grein fyrir, og þar af leið­andi beri að taka kröfur sóknaraðila við slit varnaraðila til greina.

                Í tengslum við Project Polo hafi andvirði Haga, jafnvirði 30.087.594.667 króna, verið lagt inn á reikninga Baugs, 11. júlí 2008, eins og greini í lýsingu mála­vaxta. Greiðslur Baugs til Gaums, Gaums Holding, ISP og Bague fyrir hlutabréf þeirra í Baugi hafi verið inntar af hendi rúmum sjö mánuðum fyrir frestdag.

                Sókn­ar­aðili hafi svofelldar upplýsingar um dagsetningar og fjárhæðir þeirra greiðslna sem hann hafi krafist riftunar á. Jafngildi í íslenskum krónum sé fundið með sölu­gengi Seðlabanka Íslands í viðkomandi mynt á greiðslu­degi:

                Greiðslud.             Greiðandi              Viðtakandi           Jafngildi í íslenskum kr.

                11. júlí 2008        Gaumur Kaupþing              7.208.284.898 kr.

                11. júlí 2008        Gaumur Holding Kaupþing              5.219.593.148 kr.

                11. júlí 2008        ISP         Kaupþing              1.339.062.896 kr.

                (14. júlí 2008       Bague    Kaupþing Lux     1.382.244.770 kr.               )

                Samtals hafi greiðslur Baugs til hluthafa sinna vegna eigin bréfa numið jafn­virði 15.149.185.712 króna, en greiðsla Bague til dótturfélags Kaupþings í Lúxemborg standi utan við fjárkröfu sóknaraðila í þessu máli.

                Sóknaraðili telur varnaraðila réttan aðila að málinu þar sem Fjármálaeftirlitið hafi, með ákvörðun 9. október 2008, nýtt sér heimild 100. gr. a. í lögum um fjár­mála­fyrir­tæki nr. 161/2002, tekið yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka og vikið félags­stjórn frá störfum. Eftirlitið hafi jafnframt skipað bankanum skilanefnd sem tók við öllum heim­ildum stjórnar hans samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995 í sam­ræmi við 100. gr. a. í lögum um fjármálafyrirtæki.

                Með annarri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 21. október 2008, hafi öllum eignum Kaup­þings banka, þar á meðal kröfuréttindum, verið ráðstafað til nýstofnaðs félags, Nýja Kaup­þings banka hf. (nú Arion Banka hf.). Í forsendum fyrir skiptingu efna­hags­reikn­ings varnar­aðila, dags. 14. október 2008 sem voru endurskoðaðar 19. októ­ber 2008, kemur fram að við yfirfærslu eigna var haft til hliðsjónar að flytja allar eignir sem tengdust inn­lendri starfsemi bankans yfir í hinn nýja. Sérstak­lega hafi verið taldar upp þær eignir og skuldir sem til stóð að færa yfir í nýja bankann. Meðal yfir­færðra eigna hafi verið útlán til viðskiptavina önnur en þau sem sérstaklega voru til­greind.

                Lán Gaums og Gaums Holding hafi verið greidd Kaupþingi að fullu í júlí 2008, og færðust ekki yfir til nýs banka sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. ISP hafi  ráð­stafað söluandvirði bréfa sinna í Baugi inn á tiltekið lán í júlí 2008. Kaupþing hafi því tekið við umþrættum greiðslum löngu fyrir fram­sal kröfunnar til hins nýja banka. Einungis eftirstöðvar láns ISP hafi færst yfir til hins nýja banka, það er staða lánsins eins og það var á fram­sals­degi, 22. október 2008. Þetta hafi verið einu tengsl Arion banka hf. við margnefnd við­skipti í júlí 2008. Að þessu virtu og með vísan til framan­greindrar skipt­ingar á eignum og skuldum telur sóknaraðili varnaraðila réttan aðila að rift­unar- og skaða­bóta­kröfu í þessu máli.

                Krafa sóknaraðila sé skaðabótakrafa, sem stofnist að íslenskum rétti undan­tekn­ingar­laust við tjónsatvik. Hvað varnaraðila varðar sé tjónsatvik í þessu tilviki aug­ljós­lega hin riftan­lega ráðstöfun – þ.e. greiðsla Baugs til hluthafa og hluthafa inn á lán sín hjá varnaraðila. Enginn hluti fjárkröfu sóknaraðila hafi verið framseldur Arion banka hf., 21. október 2008, og sé varnaraðili því réttur skuldari fjárkröfunnar.

                Sóknaraðili bendir á að vegna samverkandi þátta, gríðarlegar eignarýrnunar og skulda­aukn­ingar félagsins, hafi félagið Baugur verið orðið ógjaldfært fyrir mitt ár 2008. Við þær aðstæður hafi greiðslur runnið frá því til aðaleigenda þess, Gaums, Gaums Hold­ing, ISP og Bague. Frá þessum tíma og fram að gjaldþroti hafi rekstur félags­ins bók­staf­lega verið í anda­slitr­unum og ein­ungis tímaspursmál hvenær að gjald­þroti kæmi.

                Enginn bankanna, hvorki Kaupþing né aðrir íslenskir bankar, hafi í raun getað tekið þá áhættu að Baugur eða fyrirtæki tengd honum færu í þrot. Í þessu ljósi verði að skoða greiðslufærni Baugs sumarið 2008, og í raun allt frá upphafi ársins 2008. Íslensk gjaldþrotalög geri ekki ráð fyrir slíkri stöðu félaga gagnvart íslenska banka­kerf­inu, það er að lánveitendur séu háðir skuldurum sínum, en staða Baugs og tengdra félaga eigi sér vart hliðstæðu á Íslandi hvorki fyrr né síðar.

                Sóknaraðili telur algerlega óhugsandi að Gaumi, Gaumi Holding, ISP og Bague, sem áttu svo stóra eignarhluti í Baugi og höfðu fulltrúa í stjórn­un­ar­stöðum hjá félag­inu, hafi ekki verið kunnugt um ógjaldfærni þess allt frá vori 2008 enda hafi full­trúar framangreindra aðila allir, allt frá hausti 2007, tekið beinan þátt í aðgerðum til þess að reyna að bjarga félag­inu. Þeim hafi ekki getað dulist að staða Baugs væri orðin mjög erfið strax 31. mars 2008 þar sem verð­mæti stærstu ein­stöku fjár­fest­ingar Baugs, hluta­bréf í FL Group hf., hafi hríðfallið á skömmum tíma.

                Á sama hátt hafi stjórnendum Kaupþings einnig verið þetta ljóst. Æðstu stjórn­endur bankans hafi verið í beinu sambandi við stjórnendur Baugs og vegna mikilla hags­muna þeirra og útlánaáhættu hafi þeir átt frumkvæði að Project Polo – og greiðslu hlut­hafa á skuldum sínum til Kaupþings.

                Sókn­ar­aðili leggi áherslu á að með gern­ingnum hafi verið tekin órétt­lætanleg og óviðunandi áhætta með félagið og sérstaklega fyrir kröfu­hafa þess. Fráleitt sé að halda því fram að stjórnin hafi talið að kaup á eigin bréfum félags­ins væri Baugi fyrir bestu í þessum aðstæðum. Hafi ætlunin verið að lækka hlutafé félagsins síðar, eins og nefnt var í lána­samn­ingi á milli Kaup­þings og 1998 hefði það jafn­framt leitt til þess að engir fjármunir hefðu komið inn í félagið í stað þeirra 15 millj­arða sem greiddir voru til tiltekinna hluthafa. Ætla megi að stjórnendur Baugs, full­trúar megin­hlut­hafa – sem jafn­framt voru seljendur hlutanna – sem og Kaupþing banki sem einn helsti lánar­drott­inn Baugs hafi vitað um bága stöðu félags­ins, að í þrot stefndi og umrædd hlutabréf væru á þessum tíma verðlaus.

                Sóknaraðili telur verulegan mun hafa verið á því endurgjaldi sem Baugur lét í té fyrir eigin bréf og eðlilegu endurgjaldi. Kaupsamningur um eigin bréf hafi rýrt þær eignir Baugs sem ella hefðu komið til skipta milli kröfuhafa þrotabúsins. Þessi ráð­stöfun hafi verið Baugi augljóslega óhagstæð á þeim tíma sem hún var gerð. Félagið hafi fengið verðlaus Baugsbréf í stað þeirra 15 milljarða króna í reiðufé sem Baugur innti af hendi. Ráðstöfunin hafi hins vegar verið þeim hlut­höfum sem að henni stóðu afar hagstæð, enda hafi þeir getað losnað við verðlaus Baugs­bréf fyrir reiðufé og greitt upp aðrar skuldbindingar sínar við Kaupþing. Bankinn hafi losnað við áhættu af hlut­höfum Baugs og fengið nýjar tryggingar í 1998, sem voru ein­angr­aðar við Haga. Ráð­stöf­un­inni hafi verið ætlað að leiða – og leiddi í raun – til auðg­unar Gaums, Gaums Hold­ing, ISP og Bague, og Kaupþings á kostnað félags­ins. Ekki sé hægt að álykta annað en að tilgangur samningsins hafi verið að koma undan verð­mætum á kostnað Baugs, félags sem var þegar skuldum vafið.

                Krafa þrotabúsins á hendur varnaraðila Kaupþingi byggir á 146. gr. laga nr. 21/1991 Sóknaraðili telur ekki að Kaupþing banki og Baugur hafi verið nákomnir í skiln­ingi laganna. Þó sé ljóst að mikil og náin fjárhagsleg tengsl hafi verið á milli aðila, enda Baugur einn af stærstu skuld­urum Kaupþings, og hagsmunir Kaup­þings veru­legir.

                Að sögn lögmanns hluthafa Baugs, hafi salan á Högum og allir gerningar tengdir henni (Project Polo) verið gerðir að undirlagi og frumkvæði Kaupþings. Lög­menn Kaup­þings hafi annast gerð allra samninga varðandi viðskiptin. Tilgangur heild­ar­fyrirkomulagsins Project Polo hafi öðru fremur verið að bæta trygg­inga­stöðu Kaup­þings og þessi endurskipulagning hafi einkum verið gerð í sam­ráði við for­mann stjórnar Baugs og fulltrúa eins aðalhluthafa félagsins, Jón Ásgeir.

                Sá þáttur, er laut að kaupum á eigin bréfum, hafi leitt til þess að nefndir hlut­hafar fengu greiðslur frá hinu gjaldþrota félagi Baugi, og framseldu sömu greiðslur að öllu leyti til Kaupþings til uppgreiðslu á lánum sínum. Sú fyrirætlan komi m.a. fram í fund­ar­gerð Gaums og kynningu Baugs sjálfs á Project Polo. Þetta hafi vitanlega leitt til tvíþættrar niður­stöðu. Annars vegar hafi meirihluti hlut­hafa getað losnað við verð­laus hlutabréf sín í Baugi og fengið í staðinn greiðslu í reiðufé sem hafi ótvírætt verið langt yfir verðmæti bréf­anna. Þannig hafi þeir hlut­hafar getað lækkað skuldir sínar að því marki við Kaup­þing. Hins vegar hafi Kaupþing fengið greiðslu inn á skuldir Gaums, Gaums Holding og ISP og losnað við skulda­áhættu vegna þeirra. 

                Sóknaraðili byggi á því að Kaupþingi hafi verið ljós eða mátt vera ljós rift­an­leiki ráðstafananna. Kaupþing hafi verið viðskiptabanki og fjármálafyrirtæki, sem starf­aði samkvæmt lögum nr. 161/2002. Tilgangur félagsins hafi verið fjár­mála­þjón­usta og önnur sú starf­semi sem var rekin í eðlilegum tengslum við hana. Kaup­þing hafi því ráðið yfir mikilli sérþekkingu á fjármála- og verðbréfamörkuðum, stöðu ein­stakra félaga og horfur í rekstri þeirra. Baugur hafi um árabil tekið há lán hjá Kaup­þingi og hafi bankinn því haft sérstaka ástæðu til þess að fylgjast vel með stöðu félags­ins. Hér megi t.d. geta þess að samkvæmt 6. gr. lánssamnings Baugs við Kaup­þing nr. 1859 (um lán veitt árið 2004, upp­haf­lega að jafngildi um 8 milljarða króna) hafi félag­inu um langa hríð verið skylt að afhenda bankanum ársreikninga og kanna árs­hluta­reikninga, auk allra frekari upp­lýs­inga um fjárhagsstöðu Baugs og dótturfélaga þess óskaði Kaupþing eftir slíku. Vegna gjaldfrests sem Baugur hafi óskað eftir hafi auk þess verið enn meiri ástæða fyrir Kaup­þing til að vera vel upp­lýst um stöðu Baugs. Kaup­þing hafi einnig veitt Baugi víkjandi lán, allt að 5 mill­jörðum króna, í árs­lok 2007. Í ljósi gríðarlegra hagsmuna Kaupþings og sér­fræði­þekk­ingar á skulda­málum fyrir­tækja sé ljóst að enn meiri ástæða var fyrir Kaup­þing að fylgjast veru­lega vel með fjár­hags­stöðu Baugs.

                Almennt sé viðurkennt að þær aðstæður, þegar lánardrottni sé ljóst eða hafi mátt vera ljóst að fjárhagur skuldara sé í uppnámi, bjóði heim hættu á því að einstakir kröfu­hafar notfæri sér hagsmunaleg tengsl við skuldara og knýi t.d. fram greiðslu á ákveðinn hátt þannig að staða þeirra verði betri en áður. Tilgangur riftunarreglna sé öðru fremur sá að gera þrotabúum kleift að ónýta á afturvirkan hátt síkar ráðstafanir í þeim tilgangi að koma í veg fyrir mismunun kröfuhafa.

                Kaupþingi hafi vitanlega verið vel kunnug fjárhagsstaða Baugs á þeim tíma þegar umþrættar greiðslur fóru fram, þ.e. að hann var ógjaldfær og þær aðstæður er leiddu til þess að greiðslurnar voru ótilhlýðilegar. Á þeim forsendum sé ráð­stöf­unin rift­an­legur gern­ingur á grundvelli 146. gr. laga nr. 21/1991.

                Samkvæmt Project Polo hafi Baugur átt að fá 30 milljarða króna fyrir hlut sinn í Högum. Alls hafi þannig um 30 milljarðar króna verið lagðir inn á reikninga Baugs, 11. júlí 2008. Sókn­ar­aðili hafi ekki farið fram á riftun á þeirri greiðslu, eða Project Polo í heild sinni. Það sé mat sóknaraðila að verð Haga hafi verið viðunandi, enda hafi Baugur sjálfur metið Haga á 30 milljarða króna í bókum sínum vorið 2008 (óháð Proj­ect Polo). Sókn­ar­aðili hafi ekki farið fram á riftun þeirra greiðslna sem lúti að ráð­stöfun Baugs á and­virði um 15 milljarða króna og varði veðbandslausn hlut­arins í Högum. Hinn hluta and­virðis Haga, alls 15 milljarða króna, hafi Baugur fengið greidda inn á reikn­inga sína. Sá hluti hafi hins vegar verið notaður til þess að kaupa bréf sem áttu að standa undir andvirði 15 millj­arða króna. Það hafi umrædd bréf ekki gert, en dóm­kvaddir mats­menn hafi metið bréfin verðlaus. Þeim hluta Project Polo sé því rift. Óhjá­kvæmi­legt sé að líta sjálfstætt á þá ráðstöfun Baugs að kaupa eigin bréf og þar með sölu Gaums, Gaums Holding, ISP og Bague á umræddum bréfum og hvort ráð­stöfunin sam­rým­ist ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991. Að framangreindu virtu telur sóknar­aðili ekki ástæðu til þess að skoða gerninginn, Project Polo, í heild sinni.

                Tjón þrotabúsins af ráðstöfuninni nemi þeirri fjárhæð sem hefði að öðrum kosti komið til úthlutunar úr þrotabúinu, enda nægi eignir búsins ekki til þess að greiða upp lýstar kröfur í þrotabúið. Þannig hafi búið orðið af 15 milljarða króna greiðslu sem telja verði að hefði komið til skipta hefði hin riftanlega ráðstöfun ekki átt sér stað. Möguleiki kröfuhafa til fullnustu krafna sinna við úthlutun úr þrotabúinu auk­ist við greiðslu varnaraðila á tjónsbótum eða endurgreiðslu í kjölfar riftunar á fram­an­greindri ráðstöfun.

                Varðandi kröfu sóknaraðila um tjónsbætur vegna riftunar á greiðslum er teng­ist kaupum á eigin bréfum á grundvelli 2. mgr. 131. gr., og 146. gr. laga nr. 21/1991 vísar sóknaraðili til 3. málsliðar 1. mgr. 142. gr. laganna og 3. mgr. 142. gr. þeirra, enda Gaumur, Gaumur Holding, ISP, Bague, Kaup­þing og dóttur­félag bankans grand­samir um fjárhagslega stöðu Baugs og riftanleika ráð­staf­an­anna. Verði riftun gagn­vart hlut­höfum talin byggð á 141. gr. laga nr. 21/1991 og 146. gr. gagn­vart varn­ar­aðila, byggir sókn­ar­aðili kröfu sína á 3. mgr. 142. gr. lag­anna. Slík krafa sé skaða­bótakrafa og er fjárhæð hennar sú sama og fjárhæð kröfu um tjóns­bætur.

                Verði krafa um tjónsbætur/skaðabætur ekki tekin til greina, byggir sóknaraðili á endur­greiðslu­kröfu, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili bendir á að 2. máls­liður eigi við í þessu til­viki. Hin riftanlega greiðsla Baugs til Gaums, Gaums Hold­ing, ISP, Bague hafi verið í reiðufé. Kaupþing og dótturfélag hans hafi þá fengið upp­greidd lán sín frá hluthöfum með reiðufé. Notkun peninganna skipti engu um kröfu þrota­búsins. Þar sem Baugur hafi greitt fyrir bréfin með reiðufé, hafi hlut­haf­arnir og Kaupþing sjálfir borið ábyrgð á því hvernig þeir nýttu það fé sem þeir fengu í hendur eða hvernig um það var samið. Sókn­ar­aðili eigi því kröfu um end­ur­greiðslu allra þeirra fjármuna sem Baugur greiddi fyrir verðlaus eigin bréf sín í júlí 2008, og hlut­hafar greiddu Kaup­þingi og dóttur­félagi bankans í kjölfarið. Engu skipti í raun hvort greiðslan hafi orðið hluthöfum eða Kaupþingi að notum eða ekki, sbr. 2. máls­lið 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991.

                Verði sú regla ekki talin eiga við, bendir sóknaraðili á 1. málslið 1. mgr. 142. gr. Ljóst sé að fjárgreiðsla Baugs til nefndra hluthafa hafi gert þeim kleift að greiða upp lán sín við Kaupþing sem því nam og varð hluthöfum þannig að notum. Kaup­þing og dótturfélag bankans hafi aftur getað nýtt þessa fjármuni í starf­semi sína. Þeir sem fengu fjármunina hafi allir óumdeilanlega haft hag af hinni riftanlegu ráðstöfun. Varn­ar­aðila beri því að greiða sóknaraðila fé sem svari til þess sem greiðsla til þrota­manns hefði orðið honum að notum.

                Sú krafa sóknaraðila að dráttarvextir, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verð­trygg­ingu nr. 38/2001, verði reiknaðir af kröfufjárhæðinni frá þeim tíma er hún var innt af hendi, byggi á því að þá hafi peningakrafa þrotamanns á hendur varnar­aðila stofnast. Kröfum sóknaraðila hafi verið lýst miðað við greiðslu samkvæmt samningi og gjald­daga 30. júní 2008. Réttara þyki að byggja kröfurnar á þeirri fjárhæð sem var í raun millifærð (jafn­virði íslenskra króna) og að dráttarvextir leggist ekki á fyrr en á raun­veru­legum greiðsludegi. Kröfugerð miðist því við eftirfarandi útreikn­inga, þótt ekki verði lýst hærri fjárhæðum en gert var í kröfulýsingum.

                Fjárkröfur sóknaraðila sem krafist er viðurkenningar á sem almennra krafna sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 séu nánar tiltekið grundvallaðar á eftir­far­andi:

                Söluverð ISP vegna Baugsbréfa samkvæmt samningi, fjárhæð sem nýtt var til upp­greiðslu lána hjá Kaupþingi og greidd var ISP myndi höfuðstól 1.339.062.896 kr. Drátt­ar­vextir af höfuðstóli, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá greiðslu­degi 11. júlí 2008 til og með 22. apríl 2009, sé alls 270.007.085 kr. Heildar­krafa sókn­ar­aðila sé þannig 1.609.069.981 kr.

                Söluverð Gaums Holding vegna Baugsbréfa samkvæmt samningi, fjárhæð sem nýtt var til uppgreiðslu lána hjá Kaupþingi og greidd var Gaumi Holding myndi höfuð­stól 5.219.593.148 krónur. Dráttarvextir af höfuðstóli, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxta­laga nr. 38/2001, frá greiðslu­degi 11. júlí 2008 til og með 22. apríl 2009, sé alls 1.052.472.692 kr. Heildar­krafa sókn­ar­aðila sé þannig 6.272.065.840 kr. Þar sem sóknaraðili lýsti kröfu  að fjárhæð 6.271.706.583 muni hann halda sig við þá fjárhæð.

                Söluverð Gaums vegna Baugsbréfa samkvæmt samningi, fjárhæð sem var nýtt til uppgreiðslu lána hjá Kaupþingi, myndi höfuðstól 7.208.284.898 krónur. Dráttar­vextir af höfuðstóli, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá kaup­samn­ings­degi 30. júní 2008 til og með 22. apríl 2009, nemi alls 1.453.470.184 krónum. Heild­ar­krafa sóknaraðila nemi þannig 8.661.755.082 kr. Þar sem sóknaraðili lýsti kröfu að fjárhæð 8.660.575.262 kr. muni hann halda sig við þá fjárhæð.

                Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til ákvæða 113. gr., 2. mgr. 131. gr., 141. gr., 146. gr. og 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Fyrirsvar skipta­stjóra styðji sóknaraðili við XIX. kafla laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Kröfur um drátt­ar­vexti styður hann við III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sérstaklega 1. mgr. 6. gr. laganna. Kröfu um málskostnað styður sóknaraðili við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður varnaraðila

                Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Hann bendir á að krafa sóknaraðila á hendur honum geti ein­vörð­ungu byggst á 146. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því ákvæði geti þrotabú átt kröfu á þriðja mann, eftir reglum 142.-145. gr., hafi sá, sem fékk verðmæti frá þrotamanni áður en hann varð gjaldþrota, fram­selt þau þriðja manni, viti þriðji maður eða megi vita um þær aðstæður sem rift­un­ar­krafa þrotabúsins byggist á og ráðstöfun þrotamanns hafi brotið gegn riftunar­reglum laganna.

                Varnaraðili leggur áherslu á að regla 146. gr. laga nr. 21/1991 sé sjálfstæð rift­un­ar­heimild, en markmið hennar sé öðru fremur að koma í veg fyrir að við­semj­andi skuld­ara, sem hafi þegið verðmæti við riftanlega ráðstöfun, geti komist hjá afleið­ingum riftunar með því að framselja þau þriðja aðila.

                Forsenda þess að sóknaraðili geti gert slíka sjálf­stæða riftunarkröfu á hendur varn­ar­aðila á grundvelli 146. gr., sé að hann sýni fram á að skil­yrðum til beitingar regl­unnar sé fullnægt. Í fyrsta lagi verði sókn­ar­aðili að sýna fram á að kaup Baugs á eigin bréfum af Gaumi, Gaumi Holding og ISP hafi brotið í bága við riftunarreglur gjald­þrotalaga og hafi þegar fengist endanleg dómsniðurstaða um það.

                Í öðru lagi verði sóknaraðili að sýna fram á að Kaupþing hafi fengið sömu verð­mæti framseld frá viðsemjendum Baugs.

                Í þriðja lagi verði sóknar­aðili að sýna fram á að skilyrðum 146. gr. laganna um grand­semi Kaupþings sé full­nægt, það er að starfsmenn Kaupþings hafi verið grand­samir um þær aðstæður, sem sóknaraðili byggir riftunarkröfu sína á.

                Í fjórða lagi verði sóknaraðili að sýna fram á að sá sem varnaraðili leiði rétt sinn frá, Kaupþing, hafi auðgast, það er að ráðstöfun Gaums, Gaums Hold­ing og ISP á fjár­munum til Kaupþings hafi leitt til auðg­unar eða eignaaukningar bankans. Varnar­aðili telur sóknaraðila ekki hafa sýnt fram á að skilyrðum sé fullnægt til þess að reglu 146. gr. laganna verði beitt gagnvart honum og hafnar því öllum kröfum sókn­ar­aðila sem á henni byggja.

                Varnaraðili vísar einkum til þess að kaup Baugs á eigin bréfum af hluthöfunum hafi verið liður í heildarviðskiptum hlutaðeigandi aðila með hlutabréf í Högum hf., en félögin hafi, sem hluthafar í einkahlutafélaginu 1998, ábyrgst endur­greiðslu láns sem það félag tók hjá Kaupþingi til þess að fjármagna kaup sín á Högum. Þá bendir varnar­aðili á að lánveitingu bankans til kaupa félagsins 1998 á Högum hafi öðru fremur verið ætlað að styrkja stöðu Baugs sumarið 2008, einkum með því að lækka skuldir félags­ins við viðskiptabankana, þar með talið Kaup­þing. Eins og ráða megi af láns­samn­ingi Kaupþings og 1998, hafi útgreiðsla láns­fjár­hæð­ar­innar til félagsins meðal ann­ars verið háð því skilyrði að áður yrði gerður kaup­samn­ingur á milli Baugs og félag­anna fjögurra um kaup Baugs á samtals 314.000.000 eigin hluta og að félögin kæmu því til leiðar að hlutafé Baugs yrði lækkað sem næmi þeim hlutum í síð­asta lagi undir lok ársins 2008. Því telji varnaraðili ljóst, að við­skipti Baugs og félag­anna fjög­urra með hlutabréf í Baugi hafi ekki getað rýrt eignir Baugs, þar sem fjár­mun­irnir hafi aðeins staðið honum til ráðstöfunar vegna þeirra við­skipta.

                Þá bendir varnaraðili jafnframt á að samkvæmt upplýsingum frá stjórnendum Baugs hafi, við mat á verðmæti hluta í félaginu, verið stuðst við innra virði félagsins, en mat á því hafi meðal annars byggst á endurskoðunarskýrslu þess og ársreikningi gerðum í maí 2008. Þar muni engir fyrirvarar koma fram um rekstrarhæfi félagsins. Varn­ar­aðili telur að af því megi ráða, að það hafi ekki verið ætlan stjórnenda Baugs að gefa félög­unum þremur verðmæti, heldur hafi frá upphafi verið litið svo á að umrædd ráð­stöfun væri gerð í viðskiptalegum tilgangi og að Baugur hafi greitt eðlilegt endur­gjald fyrir hina seldu hluti.

                Varnaraðili vekur enn fremur athygli á því að dómstólar hafi þegar hafnað full­yrð­ingu sóknaraðila þess efnis, að Baugur hafi verið ógjaldfær um mitt ár 2008, meðal ann­ars með vísan til þess að félagið greiddi verulegar fjárhæðir inn á skuldbindingar við lán­ar­drottna sína á síðari hluta ársins 2008, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 135/2012. Atvik málsins sýni að þær greiðslur hafi farið fram þrátt fyrir þau við­skipti sem til umfjöllunar séu í þessu máli og því ljóst að þau hafi ekki haft nein áhrif á gjald­færni félags­ins.

                Þá bendir varnaraðili á að kaupverðið, sem 1998 greiddi fyrir hlutabréfin í Högum hf., hafi aldrei staðið Baugi til frjálsrar ráðstöfunar eða almennum kröfuhöfum félags­ins til fullnustu þar sem Kaupþing hafi átt tilkall til þess á grundvelli hand­veðs­yfir­lýs­ingar félagsins. Gegn veðbandslausn hafi Baugur greitt Glitni 4,7 milljarða króna af söluverði Haga. Varnaraðili telur Kaupþing hafa átt for­gangs­rétt til eftir­stöðva kaup­verðs hinna seldu hluta Baugs í Högum hf., það er þegar til­lit hefði verið tekið til þess hluta sem Glitnir fékk í sinn hlut. Ráðstöfun fjárins í sam­ræmi við skil­yrði Kaupþings í lánssamningi hans við 1998 hafi því ekki getað leitt til þess að fjár­mun­irnir hafi ekki staðið öðrum kröfuhöfum sóknaraðila til full­nustu. Af framan­greindu leiði, að ráðstöfun Baugs á hluta söluandvirðis hinna veð­settu hluta í Högum hf. í samræmi við fyrirmæli Kaupþings, sem veðhafa, geti ekki talist hafa verið Kaup­þingi eða öðrum sér­stak­lega til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa eða leitt til þess að eignir sóknar­aðila hafi ekki verið til reiðu til sam­eiginlegrar fullnustu kröfuhafa þrota­bús­ins, þar sem sölu­and­virðið hafi aldrei staðið almennum kröfu­höfum búsins til fulln­ustu.

                Varnaraðili hafnar því alfarið að sóknaraðila hafi tekist að sýna fram á að öðrum skilyrðum hinnar sjálfstæðu riftunarreglu 146. gr. laganna sé fullnægt, einkum þeim er lúti að grandsemi Kaupþings og auðgun hans sem þriðja manns.

                Fullyrðingum sóknaraðila þess efnis, að Kaupþing hafi vitað eða mátt vita að staða Baugs væri önnur og verri en ráða megi af framangreindum gögnum sé mót­mælt sem röngum og ósönnuðum. Kaupþing hafi ekki haft neinar aðrar upp­lýs­ingar um stöðu Baugs en þær sem þar komi fram og hafi því ekki verið í nokk­urri aðstöðu til að leggja mat á verðmæti félagsins á grundvelli ann­arra forsendna.

                Af framangreindu leiði að Kaupþing hafi hvorki vitað né mátt vita um þær aðstæður sem leiddu til kröfu sóknaraðila um riftun þar sem Kaupþing gerði frá upp­hafi ráð fyrir að Baugur fengi eðlilegt end­ur­gjald við kaup félagsins á eigin bréfum. Kaup­þing banki hafi raunar sjálfur gert ráð fyrir að hlutabréf í Baugi hf. yrðu veð­sett honum til tryggingar á skuldbindingum ann­arra félaga við bankann og því aug­ljóst að hluta­bréf Baugs hafi ekki verið talin verð­laus á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað.

                Að sama skapi hafi Kaupþing hvorki vitað né mátt vita um meinta ógjaldfærni Baugs þegar ráðstöfunin fór fram enda hafi Kaupþing ekki haft neinar aðrar upp­lýs­ingar um stöðu eða gjaldfærni félagsins en þær sem komu fram í ársreikningi þess gerðum í apríl 2008 og árshlutareikningi þess 1. janúar til 30. júní 2008. Í þeim séu, eins og áður segir, ekki settir neinir fyrirvarar um rekstrarhæfi félags­ins. Í sam­ræmi við það hafi Kaup­þing gert ráð fyrir að hlutabréf í Baugi yrðu sett að veði til trygg­ingar láns­samn­ingi 1998 við bankann, en sú ráðstöfun hefði vitan­lega ekki verið gerð hefði Kaup­þing talið hlutabréfin verðlítil eða jafnvel verð­laus.

                Með vísan til framangreinds telur varnaraðili sóknaraðila ekki hafa tekist að sýna fram á að huglægum skilyrðum 146. gr. laganna sé fullnægt, þ.e. að Kaup­þing, sem þriðji maður, hafi vitað eða mátt vita um þær aðstæður sem leiddu til kröfu um riftun á grundvelli 131. eða 141. gr. laganna. Af þeirri ástæðu verði kröfu sókn­ar­aðila um riftun ekki komið fram gagnvart varnaraðila.

                Fyrir utan þetta hafi kaup Baugs á eigin bréfum af félögunum verið liður í og ein af forsendum heildarviðskipta aðila með hlutabréf Baugs í Högum hf. Meirihluti hinna seldu hluta í Högum hf. hafi verið veðsettur Kaupþingi, eða hlutir að nafnverði 621.000.000 króna, en hlutir að nafnverði 517.514.328 krónur hafi verið veð­settir Glitni. Kaup­þing hafi því átt forgangsrétt til söluandvirðisins, sem veðhafi, þegar tekið hafði verið tillit til þess að Glitnir samþykkti að leysa framangreinda hluti úr veð­böndum gegn því að Baugur nýtti 4.700 milljónir króna af kaupverðinu til greiðslu skulda félags­ins við Glitni, auk þess sem félagið setti aðrar eignir að veði til trygg­ingar skuld­bind­ingum sínum við bankann. Heildarskuldir Baugs við Kaup­þing hafi verið tals­vert hærri en sem nam eftirstöðvum þess endur­gjalds sem kom í stað hinna veð­settu hluta og hafi Kaupþing því átt forgangsrétt til eftir­stöðva kaup­verðsins.

                Svo unnt væri að færa hina seldu hluti kvaðalausa til kaupandans, 1998 ehf., hafi Kaupþing orðið að leysa þá úr veðböndum. Forsenda Kaupþings banka fyrir veð­bands­lausn­inni hafi verið að kaupverði hlutanna yrði ráðstafað til hans með því að Baugur nýtti hluta þess til kaupa á 314.000.000 eigin hluta af Gaumi, Gaumi Hold­ing, ISP og Bague, sem nýttu endurgjaldið til uppgjörs á skuldbindingum sínum við Kaup­þing eftir því sem við átti, en samhliða hafi félögin skuldbundið sig til að hlut­ast til um að hlutafé Baugs yrði lækkað um sömu fjárhæð að nafnverði og jafn­framt gengist í ábyrgð fyrir endur­greiðslu 1998 ehf. á láni Kaupþings. Varn­ar­aðili telur að við úrlausn máls­ins sé óhjákvæmilegt að líta á framan­greind við­skipti aðila í heild sinni, í stað þess að aðeins verði litið á kaup Baugs á eigin bréfum eins og sókn­ar­aðili geri í mála­til­búnaði sínum.

                Með vísan til sömu sjónarmiða telur varnaraðili ljóst, að nái krafa sóknaraðila um riftun fram að ganga muni varnaraðili njóta forgangsréttar til söluandvirðis hinna veð­settu hluta í Högum hf., enda hafi veðbandslausn Kaupþings á hlutunum verið háð því að andvirði þeirra yrði ráðstafað til samræmis við fyrirmæli hans sem veðsala.

                Þá bendir varnaraðili enn fremur á, að skilyrði um auðgun þurfi jafnframt að vera upp­fyllt að því er varðar þriðja mann í skilningi 146. gr. laganna. Varnaraðili bendi á að Kaupþing hafi þegið greiðslur frá Gaumi, Gaumi Holding og ISP gegn sam­svar­andi lækkun á kröfum bankans á hendur félögunum. Ekki sé því um að ræða auðgun Kaupþings í skilningi gjaldþrotaréttarins þar sem eignir Kaupþings hafi ekki aukist við greiðslu félaganna þar sem Kaupþing hafi lækkað útlán sín til félaganna um sam­svar­andi fjárhæð. Fallist dómurinn á sjónarmið sóknaraðila þess efnis, að kaup Baugs á eigin bréfum af félögunum þremur sé riftanleg í skilningi gjaldþrotaréttarins, leiði fram­an­greint jafnframt til þess að kröfum sóknaraðila sé ranglega beint að varn­ar­aðila, sem hafi ekki á neinn hátt auðgast af þeim.

                Varnaraðili mótmælir því sérstaklega að krafa sóknaraðila á hendur honum sé sett fram sem skaðabótakrafa, enda telji varnaraðili engin skilyrði til að gera slíka kröfu í málinu þar sem sóknaraðili hafi hvorki sýnt fram á tilvist tjóns né að skil­yrðum um saknæma háttsemi Kaupþings sé fullnægt. Slíkri kröfu verði aðeins komið fram gagn­vart varnaraðila komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, að rifta eigi kaupum Baugs á eigin bréfum með stoð í almennri riftunarreglu 141. gr. laganna, að sýnt þyki að Kaupþing banki hafi verið grandsamur um efnisatriði reglunnar og að auðgun­ar­skil­yrði gagn­vart honum sé fullnægt. Þá bendir varnaraðili enn fremur á að sóknar­aðili hafi ekkert tjón beðið af þeirri ráðstöfun sem hann telur riftanlega, enda hafi kaup­verð hluta­bréfa Baugs í Högum hf. aldrei staðið almennum kröfuhöfum þrotabúsins til fulln­ustu þar sem Kaupþing naut forgangsréttar til þess á grundvelli hand­veðs­yfir­lýs­ingar sem tók til hinna seldu hluta.

                Telji dómurinn aftur á móti að kaupum Baugs á eigin bréfum verði rift með stoð í 131. gr. laganna geti sóknaraðili aðeins gert kröfu um endurgreiðslu á hendur þeim sem hafði hag af ráðstöfuninni í samræmi við meginreglur 1. mgr. 142. gr. lag­anna. Samkvæmt henni skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrota­búi fé sem svari til þess sem greiðsla þess hafi orðið honum að notum. Undan­tekn­ing sé þó gerð að því er varðar peningagreiðslur, en þá skuli miða við þá fjárhæð sem við­tak­andi hlaut, að frádreginni þeirri greiðslu sem hann kann að hafa innt af hendi. Í málinu liggi fyrir að Kaupþing hafi ekki tekið við peningagreiðslu frá Baugi heldur úr hendi Gaums, Gaums Holding og ISP, gegn samsvarandi lækkun skuldbindinga þeirra við bank­ann. Riftun og endurgreiðslukrafa sóknaraðila muni því ekki leiða til þess að varn­ar­aðili verði eins settur og hefði Kaupþing aldrei tekið við fjármununum, þar sem hann hafi ekki auðgast af ráðstöfuninni á kostnað bús sóknaraðila eða kröfuhafa þess. Endur­greiðsla varnaraðila kæmi þvert á móti til með að valda honum beinu fjár­tjóni þar sem hann hafi látið samsvarandi verðmæti af hendi við viðtöku fjárins, þ.e. kröfur sínar á hendur viðsemjendum sóknaraðila.

                Varnaraðili mótmælir sérstaklega þeirri kröfu sóknaraðila að viðurkenndur verði réttur hans til dráttarvaxta af lýstum kröfum, enda telji varnaraðili þá kröfu sókn­ar­aðila skorta nægjanlega lagastoð. Í greinargerð sóknaraðila komi fram að krafa hans um dráttarvexti af kröfufjárhæðum frá þeim degi sem hún var innt af hendi, byggi á því að þá hafi peningakrafa þrotamanns á hendur varnaraðila stofnast.

                Varnaraðili bendir af þessu tilefni á að samkvæmt meginreglu 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sé kröfuhafa því aðeins heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti af ógreiddri peningakröfu að gjalddagi hennar hafi verið fyrir fram ákveð­inn. Ljóst sé að því skilyrði laganna sé ekki fullnægt, enda lýsi sóknaraðili skaða­bótakröfu við slit varnaraðila. Þá hafi sóknaraðili ekki krafist vaxta af skaða­bóta­kröfu, sem hann lýsti við slit varnaraðila, á grundvelli IV. kafla laganna og verði krafa sókn­ar­aðila um dráttarvexti af kröfufjárhæðinni því ekki tekin til greina á grundvelli ákvæða hans.

                Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili einsýnt að hafna verði öllum kröfum sóknaraðila í málinu.

                Til stuðnings kröfu sinni vísar varnaraðili til rift­unar- og endur­greiðslu­reglna XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 131. gr., 141. gr. og 146. gr. lag­anna, sérstaklega um skilyrði fyrir því að kröfu um riftun verði komið fram gagn­vart varnaraðila. Krafa um málskostnað grundvallast á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.

Niðurstaða

                Þeir atburðir, sem eru tilefni þessa máls, gerðust áður en þær lögpersónur, sem eru aðilar að málinu urðu til. Sóknaraðili, þrotabú Baugs Group hf., telur sig eiga fjár­kröfu við slit Kaupþings banka hf., sem heitir nú Kaupþing, vegna greiðslna þriggja fyrrum hluthafa Baugs Group hf., sem inntar voru af hendi í júlí 2008, inn á lán félag­anna hjá Kaupþingi banka.

                Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka, 9. október 2008, vék félagsstjórn frá störfum og skipaði bankanum skilanefnd sem tók við öllum heim­ildum stjórnar hans. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 21. október 2008, var til­teknum eignum Kaupþings enn fremur ráðstafað til nýstofnaðs félags, Nýja Kaup­þings hf., sem nú heitir Arion banki hf.

                Kaupþingi var veitt heimild til greiðslu­stöðv­unar með úrskurði Héraðsdóms Reykja­víkur 24. nóvember 2008. Bankanum var síðan skipuð slita­stjórn, 25. maí 2009, á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Sam­kvæmt 2. tölu­lið 2. mgr. sama ákvæðis, telst upp­haf slita­með­ferðar bank­ans 22. apríl 2009. Frest­dagur við slit hans er 15. nóvember 2008. Slita­stjórn bankans lýsti eftir kröfum við slitin, 30. júní 2009, og rann kröfu­lýs­ing­ar­frestur út 30. desember 2009.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 13. mars 2009, var félagið Baugur Group hf. tekið til gjaldþrotaskipta. Stjórn félagsins hafði áður óskað greiðslu­stöðv­unar, 4. febrúar 2009, og er sá dagur þess vegna frestdagur við skiptin. Skiptastjóri lýsti fjár­kröfum þrota­búsins við slit Kaupþings banka, 30. desember 2009.

                Áður en unnt er að taka afstöðu til fjárkrafna sóknaraðila við slit varnaraðila þarf að taka afstöðu til þess hvort rifta megi til­teknum ráðstöfunum sem starfsmenn Kaup­þings banka skipulögðu í samráði við fyrirsvarsmenn Baugs Group.

                Í málinu er ekki deilt um atburðarás. Fremur er deilt um það hvað starfsmenn Kaup­þings banka vissu eða máttu vita um tiltekin atvik. Vitn­eskja þeirra eða vitneskja sem þeir hefðu átt að hafa, svonefnd grandvísi eða grand­semi, er forsenda þess að unnt sé að rifta ráðstöfununum.

                Í sem allra einföldustu máli var það rás atburða að þrjú félög, Gaumur ehf., Bague S.A. og ISP ehf, sem öll áttu hlutabréf í Baugi, stofnuðu nýtt félag, 1998 ehf. Kaup­þing banki lánaði þessu félagi alls 30.600.000.000 kr. til þess að félagið gæti keypt alla hluti Baugs, 95,72%, í félaginu Högum ehf.

                Af þeim 30.000.000.000 kr. sem 1998 ehf. greiddi Baugi fyrir bréf hans í Högum nýtti Baugur 15 milljarða króna til þess að greiða lánardrottnum sínum, annars vegar Glitni, u.þ.b. 4,7 millj­arða og hins vegar Kaup­þingi u.þ.b. 10,3 milljarða. Þá stóðu eftir 15 milljarðar af and­virði Haga.

                Það var næsta skref í atburðarásinni að Baugur keypti af Gaumi ehf., Bague S.A., ISP ehf. og Gaumi Holding S.A. hlutabréf sem þessi félög áttu í Baugi. Baugur keypti sem sagt hlutabréf í sjálfum sér af þessum félögum. Fyrir kaupin átti Baugur 0,22% af bréfum í félag­inu en eftir kaupin átti félagið 25,89% af eigin hluta­bréfum.

                Til þess að greiða hluthöfunum fyrir hlutabréfin nýtti Baugur þá 15 millj­arða sem eftir stóðu af þeim 30 millj­örðum sem hann hafði fengið frá 1998 ehf. fyrir hluta­bréf sín í Högum. Það reiðufé, sem þrjú félaganna, Gaumur ehf., ISP ehf. og Gaumur Hold­ing S.A., fengu frá Baugi nýttu þau til þess að greiða niður skuldir sínar við Kaup­þing. Félagið Bague S.A. nýtti þá fjármuni sem það fékk til þess að greiða skuldir sínar við dótt­ur­félag Kaupþings í Lúxemborg.

                Þessi atburðarás er kölluð Project Polo. Samkvæmt framburði vitna kviknaði hug­myndin að henni í Kaupþingi og var útfærð þar. Jafnframt sömdu lögmenn bank­ans alla samninga sem til þurfti.

                Eftir töku bús Baugs til slita taldi skiptastjóri tiltekna hluta gerningsins Project Polo riftanlega, annars vegar kaup Baugs á eigin hlutabréfum af hluthöfunum fjórum og hins vegar greiðslu þeirra á skuldum sínum við annars vegar Kaupþing banka og hins vegar dótturfélag bankans í Lúxemborg, sem nú heitir Banque Havilland.

                Til þess að fá rift greiðslum Baugs til hluthafanna fyrir eigin bréf svo og greiðslum Bague S.A. til dótturfélags Kaupþings í Lúxemborg höfðaði sóknaraðili, í mars 2010, mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur hluthöfunum fjórum og dóttur­félagi Kaup­þings í Lúxemborg. Málið fékk númerið E-2356/2010. Vegna fyrir­mæla 116. gr. laga nr. 21/1991 gat sóknaraðili ekki jafnframt stefnt varnaraðila í því máli þar sem hann var í slitameðferð og um hann gilti XVIII. kafli laga nr. 21/1991. Þess í stað lýsti sóknaraðili fjár­kröfu við slit varnar­aðila vegna greiðslna hlut­haf­anna þriggja, Gaums, ISP og Gaums Holding, til Kaupþings. Þar sem sáttafundir málsaðila báru ekki árangur leiddi sú krafa til þessa dómsmáls. Félagið Bague greiddi, eins og áður sagði, inn á lán sem það hafði tekið hjá dótt­ur­félagi Kaupþings í Lúxemborg og því lýsti sóknaraðili ekki fjárkröfu vegna þeirrar greiðslu við slit Kaup­þings.

                Í fyrra dómsmálinu óskaði sóknar­aðili, í desember 2010, mats á innra virði Baugs og eðli­legu söluverðmæti Baugs eins og það hefði verið um mitt ár 2008. Varn­ar­aðili var meðal matsþola í því matsmáli.

                Með dómi, 21. mars 2013, í máli nr. E-2356/2010, rifti Héraðsdómur Reykja­víkur þeim ráðstöfunum, sem fólust í greiðslum Baugs til allra hluthafanna, á þeim grund­velli að greiðsl­urnar hefðu verið gjafagerningar, skv. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, til hvers og eins hlut­hafa, meðal annars þar sem mats­gerð sýndi að verðmæti hluta­bréf­anna í Baugi hefði, 30. júní 2008, ekkert verið. Hann dæmdi hluthafana jafn­framt til þess að greiða skaðabótakröfur Baugs, samtals tæplega 14 milljarða króna. Hlut­haf­arnir undu dómi. Fyrrum dóttur­félag Kaup­þings, Banque Havilland S.A., var sýknað í héraði með þeim rökum að enda þótt ráð­staf­an­irnar væru riftan­legar væri ósannað að dótt­ur­félagið hefði verið grandsamt um þær aðstæður sem riftunar­krafan byggð­ist á. Því ætti 146. gr. laga nr. 21/1991 ekki við um hug­læga afstöðu þess. Sókn­ar­aðili hefur áfrýjað sýknu dóttur­félagsins til Hæsta­réttar.

Afstaða til riftunar greiðslna hluthafanna þriggja

                Þar sem hluthafarnir undu þeirri niðurstöðu héraðsdóms að rifta greiðslum Baugs til þeirra á grundvelli 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 þykir ekki þurfa að taka frek­ari afstöðu til þeirrar ráð­stöf­unar.

                Í þessu máli þarf að svara því hvort greiðsla hlut­haf­anna þriggja, Gaums, ISP og Gaums Holding, til Kaup­þings séu riftan­legar. Sóknaraðili telur Baug og Kaupþing banka ekki hafa verið nákomna í skiln­ingi 3. gr. laga nr. 21/1991 og krefst þess því ekki að riftunin byggi á 2. mgr. 146. gr. lag­anna. Sóknaraðili styður fjárkröfu sína þess í stað við 1. mgr. 146. gr. sem hljóðar svo:

Ef sá sem fékk verðmæti hefur framselt þau þriðja manni á þrotabúið kröfu á þriðja mann eftir reglum 142.-145. gr. ef hann vissi eða mátti vita um þær aðstæður sem riftunarkrafan byggist á.

                Ákvæði 1. mgr. 146. gr. á sér nánast orðrétta hliðstæðu í lögum Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar um gjaldþrotaskipti. Í fræðum, innlendum og norrænum, hefur sú merk­ing verið lögð í orðalagið „vissi eða mátti vita um þær aðstæður sem riftun­ar­krafan byggist á“ að viðtakandinn hafi mátt vita að skuld hafi verið greidd með óvenju­legum greiðslueyri eða gjöf gefin, svo og hvenær ráðstöfunin fór fram. Hann þarf hins vegar ekki að hafa vitað að sam­kvæmt lögum leiði þessar aðstæður til rift­unar við­kom­andi ráð­stöf­unar skuldarans. Hann þarf sem sagt ekki að hafa gert sér grein fyrir réttaráhrifum aðstæð­nanna.

                Eins og áður segir féllst héraðsdómur í máli nr. E-2356/2010 á að rifta þeim ráð­stöf­unum sem fólust í greiðslu Baugs Group til hluthafanna fjögurra, Gaums, Gaums Holding, ISP og Bague, með stoð í 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 þar sem í þeirri greiðslu hefði falist gjöf. Í fræðum er miðað við að þegar þrotabú byggi á 146. gr. lag­anna verði ekki beitt strangara ákvæði við riftun á ráðstöfun frá viðtakanda greiðslu (hluthöfunum fjórum) til þriðja manns (Kaupþings) en var beitt við riftun ráð­stöf­unar frá skuldara til viðtakanda greiðslu.

                Í samræmi við þessa túlkun þarf að svara því hvort starfsmenn Kaupþings hafi vitað eða mátt vita um þær aðstæður sem riftunarkrafan byggðist á, þ.e.a.s. hvort þeir hafi vitað að Baugur hafi afhent þeim þremur hlut­höfum, sem þetta mál tekur til, gjöf þegar hann keypti af þeim hlutabréf í sjálfum sér þar sem verðmæti bréfanna hafi ekki verið í sam­ræmi við þá fjármuni sem hann afhenti hluthöfunum, svo og hvort hann hafi vitað hvenær ráð­stöf­unin fór fram.

                Fram lagðar greiðslukvittanir sýna að Baugur greiddi hlut­höf­unum þremur fyrir hlutabréfin 11. júlí 2008. Samkvæmt svonefndu sjóðs­streymis­yfir­liti fóru allar greiðsl­urnar, þ.e.a.s. lánið frá Kaup­þingi til 1998 ehf., greiðslan frá því félagi til Baugs, greiðslan frá því félagi til hluthafanna þriggja og frá þeim til Kaupþings banka hf., fram 11. júlí 2008. Þar sem þessu var öllu stýrt af Kaup­þingi þykja yfirgnæfandi líkur fyrir því að sama féð hafi runnið frá Baugi inn á reikn­ing hluthafanna og af þeim reikn­ingum inn á skuldir þeirra við Kaupþing banka.

                Það gefur jafnframt augaleið að starfsmenn Kaupþings vissu hvenær ráð­staf­an­irnar fóru fram. Enn fremur þykir ekki vafi á að millifærsla þess­ara fjármuna frá hlut­höf­unum þremur inn á lán þeirra hjá Kaupþingi banka sam­svari hugtakinu framsal í 1. mgr. 146. gr. laga nr. 21/1991 og þrotabúið geti því stutt fjár­kröfu sína við slit varn­ar­aðila við það ákvæði.

                Það er óumdeilt að Baugssamstæðan (Baugur Group, svo og Gaumur, Gaumur Hold­ing og ISP) var einn þeirra lántaka sem skuldaði Kaupþingi banka mest og fjár­hags­legir hagsmunir bankans af fjárhaglegri stöðu hennar voru gríðar­legir. Jafnframt að varnaraðili þurfti strax frá upphafi árs 2008 að draga úr þeirri áhættu sem fylgdi lánum hans til samstæðunnar.

                Kaupþing var stærsti banki landsins og starfsmenn hans áttu að þekkja vel skulda­vanda lántaka ekki hvað síst þeirra sem skulduðu bankanum mest. Jafnframt var Baugi skylt frá því að hann tók all­hátt lán í erlendum gjaldmiðlum hjá bank­anum, í október 2004, að afhenda bankanum allar fjár­hags­upp­lýsingar sem óskað var eftir. Kaup­þing gat því krafist ítarlegra upp­lýs­inga bæði um fjár­hags­mál­efni Baugs svo og stærstu hluthafa hans. Að auki kom fram í vitn­is­burði fjármálastjóra Baugs að fyrir­svars­menn félagsins funduðu oft með fyrir­svars­mönnum bankans.

                Vitað var að handbært fé félagsins væri lítið enda hafði Baugur í október 2007 leitað gjaldfrests hjá Kaupþingi á láninu sem hann tók 2004 og hafði það borið dráttar­vexti frá þeim tíma. Enn fremur hafði Kaup­þing veitt Baugi víkjandi lán sem nam allt að fimm millj­örðum króna í árslok 2007. Þar fyrir utan var almennt vitað að eignir Baugs hefðu lækkað gríðarlega. Þar á meðal hafði verðmæti FL Group lækkað um 40 milljarða frá áramótum 2007 og 2008.

                Fram lögð gögn sýna að Kaupþing tók saman, í mars 2008, kynningu á því hvernig bankinn vildi bregðast við fjárhagsvanda Baugs. Þar segir meðal annarsmeð til­liti til fjárþarfar næstu mánaða geti Baugur ekki staðið við skuldbindingar sínar án utan­að­kom­andi íhlutunar eða inngrips. Jafnframt lýsir bankinn því að knýja verði Baug til að selja eignir, sem og var gert. Einnig er greint frá hugmyndum bankans um að minnka áhættu sína með því að færa veð hans af hluta­bréfum í Baugi yfir á hluta­bréf í Högum sem síðar var komið í verk með þeim fjölþættu viðskiptum sem fengu heitið Project Polo og áður var lýst.

                Til viðbótar við almennar og sértækar upplýsingar sem starfsmenn Kaupþings banka höfðu um fjárhagsstöðu Baugs og nátengdra félaga fengu fyrir­svars­menn bank­ans einnig afdráttarlausa vitneskju um stöðuna beint frá fyrir­svars­mönnum Baugs.

                Í tölvuskeyti sem Jón Ásgeir Jóhannesson, formaður stjórnar Baugs, sendi Guð­mundi Þór Gunnarssyni, viðskiptastjóra útlána hjá Kaupþingi banka, 18. júní 2008, segir að Baugur muni ekki geta greitt 2,1 milljarðs króna lán sem falla átti í gjald­daga dag­inn eftir.

                Í tölvuskeyti sem Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, sendi Guðmundi Þór, 27. júní 2008, segir að félagið hafi ekkert fé til að greiða skuldir sem séu fallnar í gjald­daga. Guðmundur Þór staðfesti fyrir dómi að hann hefði vitað að Baugur hefði ekki getað greitt kröfur þegar þær féllu í gjalddaga en mundi þó ekki nákvæmlega hvenær honum varð það ljóst en að minnsta kosti um það leyti þegar vextir af háu láni Baugs hjá Kaupþingi féllu í gjalddaga 7. apríl 2008.

                Í tölvuskeyti sem Jón Ásgeir Jóhannesson sendi fyrirsvarsmönnum Kaupþings 9. júlí 2008, falast hann eftir skamm­tíma­láni að fjárhæð 3,1 millj­arður króna sem ræða átti á fundi daginn eftir. Bréf­inu lýkur með þeim orðum að finn­ist ekki lausn á fund­inum daginn eftir þurfi ekki að spyrja að leikslokum.

                Með vísan til þessa og annarra fram lagðra gagna og framburðar vitna fyrir dómi er, að mati dómsins, nægjanlega í ljós leitt að starfsmenn Kaupþings sem mesta þekk­ingu höfðu á fjárhagsstöðu Baugs, og voru í nánustu samskiptum og samstarfi við forstjóra og stjórn­ar­for­mann hans, vissu að fjárhagsstaða félagsins væri svo bág­borin að það gæti ekki greitt skuldir þegar þær féllu í gjalddaga og jafnframt að litlar sem engar líkur væru á því að úr þessum greiðsluörðugleikum rættist innan skamms tíma.

                Ekkert liggur fyrir um hvernig það verð sem Baugur greiddi hluthöfunum fyrir bréfin var ákveðið. Eins og fram er komið voru tveir sér­fræð­ingar dómkvaddir, í apríl 2011, til þess að leggja mat á virði hlutabréfa í Baugi 30. júní 2008. Það var niður­staða þeirra að verð­mæti bréf­anna hefði ekkert verið þar sem eigin­fjárstaða Baugs hafi þá verið nei­kvæð um rúma 9 milljarða króna. Á þeim tíma samdi Kaup­þing banki viðskiptafléttu þar sem gengið var út frá því Baugur greiddi hlut­höf­unum fjórum alls 15 milljarða króna, fyrir 25,67% af eigin hlutabréfum.

                Að mati dómsins hlýtur svo stór banki, sem Kaupþing var, að hafa á að skipa starfs­fólki sem er fært um að leggja mat á eignir lántaka sinna og þekkir þær aðferðir sem eru nýttar annars vegar til að meta skráðar eignir þeirra og hins vegar aðferðir sem er beitt við að meta þær sem eru óskráðar. Þekking sem þessi hlýtur að vera bank­anum lífs­nauðsynleg til þess að hann viti út á hvað hann veitir lán og verður að gera ráð fyrir að slíkt verðmat sé daglegt brauð í banka sem þessum.

                Enda þótt mat sem þetta kunni að einhverju leyti að vera reist á matskenndum þáttum hljóta starfsmenn bankans að hafa vitað, miðað við þá þekkingu sem ganga verður út frá að þeir hafi haft, að það verð á hlutabréfum í Baugi sem þeir lögðu til grund­vallar, þegar gern­ing­ur­inn Project Polo var saminn, hafi verið langtum hærra en eðli­legt gæti talist.

                Kaupþing átti veðtryggingar í hlutabréfum í Baugi og samdi þessa atburðarás meðal annars til þess að fá betri veðtryggingar fyrir þau lán sem bankinn hafði veitt félögum í Baugs sam­stæð­unni. Því verður ekki annað ályktað en bankinn sjálfur hafi talið bréfin lítils virði.

                Af þessum sökum þykir ekki óvarlegt að ganga út frá því að starfsmenn Kaup­þings hafi ekki ein­vörð­ungu vitað um þær aðstæður sem riftunarkrafa þrotbús Baugs á hendur hluthöfunum þremur byggðist á heldur jafn­framt vitað að sú ráðstöfun, að Baugur greiddi hluthöfum sínum 15 millj­arða króna fyrir hlutabréf sem væru alls ekki svo mikils virði, væri riftanleg ráðstöfun. Því þykja uppfyllt öll skilyrði 146. gr. laga nr. 21/1991 til þess að rifta þeim ráð­stöf­unum sem fólust í greiðslum hluthafanna þriggja til Kaupþings 11. júlí 2008.

Afstaða til fjárkrafna sóknaraðila

                Til þess að þeim, sem tók við verðmætum á grundvelli riftanlegrar ráð­stöf­unar, verði gert að endurgreiða þau eða hluta þeirra skv. 142. gr. laga nr. 21/1991 þarf við­tak­and­inn að hafa haft hag af ráð­stöf­un­inni. Eins og gögn málsins sýna, og staðfest var í fram­burði Guðmundar Þórs, var tilgangur gerningsins Project Polo meðal annars að lækka skuldir Baugs við bankann svo og að bæta þær trygg­ingar sem bank­inn hafði fyrir lánum sem hann hafði veitt Baugi og tengdum félögum. Það gekk eftir þar sem veð­rétt­indi sem bank­inn hafði haft í hlutabréfum í Baugi hvíldu, þegar upp var staðið, að langmestu leyti á hlutabréfum í félag­inu Högum og taldi bankinn það mun betri trygg­ingu en bréfin í Baugi. Kaupþing réðst í heild­ar­leiðangurinn Project Polo sjálfum sér til hagsbóta og tókst það. Þarf þá ekki að horfa sér­stak­lega á það hvort hann hafði eða hafði ekki sér­stakan hag af einni dagleiðinni.

                Varnaraðili ber því við að sóknaraðili hafi þegar, í máli nr. E-2356/2010, fengið dóm um fjárkröfu sína úr höndum hluthafanna þriggja og geti ekki fengið dóm fyrir sömu fjárkröfu í þessu máli jafnframt. Dómurinn fær ekki séð að dómur í máli nr. E-2356/2010 standi því í vegi að sókn­ar­aðili geti fengið sömu fjárkröfu viður­kennda við slit varnaraðila. Þótt skylda til greiðslu peningakröfu hvíli óskipt á tveimur eða fleiri leiða reglur kröfuréttar til þess að krefja má hvern þeirra um sig um fullar efndir kröf­unnar í heild og þarf ekki að gera það í sama málinu. Þótt sóknaraðili hafi ekki getað stefnt varnaraðila í máli nr. E-2356/2010 kemur það ekki í veg fyrir að hann geti kraf­ist, við slit varnaraðila, viðurkenningar á sömu fjárkröfu og þar var dæmt um.

                Þar sem Glitnir og Kaupþing höfðu aflétt veðréttindum sínum í hlutabréfum Baugs í Högum hefði endurgjaldið fyrir Haga staðið Baugi til frjálsrar ráðstöfunar, til dæmis til lækkunar skulda félagsins, hefði það ekki verið nýtt áfram til þess að kaupa eigin hlutabréf. Þykir því vafalaust að kaup Baugs á eigin bréfum hafi valdið félaginu tjóni eins og þegar hefur verið dæmt endanlega um í máli nr. E-2356/2010.

                Þar sem það er mat dómsins að starfsmönnum Kaupþings banka hljóti að hafa verið ljós riftanleiki þeirrar ráðstöfunar að láta Baug kaupa eigin hlutabréf á svo háu verði þykir lokamálsliður 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 eiga við um endur­greiðslu­skyldu varnaraðila.

                Ekkert hefur verið fært fram um það að tjón sóknaraðila sé minna, vegna kaupa hans á hlutabréfum í sjálfum sér af Gaumi, ISP og Gaumi Holding, en sem nemur fjárhæð þess höfuðstóls sem hann hefur lýst við slit varnaraðila.

Dráttarvextir

                Sóknaraðili krefst þess að dráttarvextir, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 11. júlí 2008 til 22. apríl 2009, legg­ist við höfuðstól þeirra greiðslna sem Gaumur Hold­ing og ISP afhentu Kaupþingi og frá 30. júní 2008 til 22. apríl 2009, við greiðslu Gaums til Kaupþings. Þar sem ekki er unnt að fallast á að þessir dagar, 30. júní og 11. júlí 2008, séu fyrir fram ákveðnir gjalddagar, í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, er ekki unnt að fallast á þessa kröfu. Sókn­ar­aðili sendi Nýja Kaup­þingi bréf, 14. sept­em­ber 2009, og lýsti yfir riftun á greiðslum hluthafanna þriggja til Kaupþings. Þar sem skuld­bind­ingar Kaup­þings vegna þessara ráðstafana voru ekki fluttar til Nýja Kaup­þings með ákvörðun Fjár­mála­eftir­litsins, 21. október 2008, þykir ekki verða stuðst við þetta riftun­ar­bréf.

                Þegar sóknaraðili lýsti fjárkröfu vegna greiðslnanna við slit varnaraðila, 29. des­em­ber 2009, lýsti hann jafnframt yfir riftun þeirra. Varnaraðili fékk kröfulýsinguna 30. desember 2009. Nú hefur verið fallist á að rifta þessum greiðslum, svo og að varn­ar­aðila beri að greiða sóknaraðila þær í samræmi við stöðu þeirra í kröfuröð. Því þykir mega miða við að við höfuðstól þeirra leggist dráttarvextir frá 30. janúar 2010, það er að liðnum mánuði frá því að sóknaraðili sannanlega krafði varnaraðila um greiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

                Sóknaraðili krefst einungis viðurkenningar á fjárkröfum sem falla undir 113. gr. laga nr. 21/1991 en dráttarvextir sem falla á kröfu eftir töku bús til slita eru eftir­stæð krafa skv. 114. gr. lag­anna og vegna kröfugerðar sóknaraðila verður ekki dæmt um hana í þessu máli. Því þykir ekki þörf á að fjalla frekar um dráttarvexti á höfuð­stól fjár­krafna sókn­ar­aðila.

Niðurstaða og málskostnaður

                Þar sem hvorki er ágreiningur um fjárhæð höfuðstóls þeirra krafna sem sóknar­aðili lýsti við slit varnaraðila né stöðu þeirra í kröfuröð verður fallist á hvort tveggja í sam­ræmi við kröfu sóknaraðila. Áréttað er að hafnað er kröfu sóknaraðila um dráttar­vexti á höfuðstólinn.

                Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 einka­mála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, ber að dæma varnaraðila til þess að greiða sóknaraðila málskostnað.

                Varn­ar­aðili krafðist í upphafi vísunar málsins frá dómi en féll frá þeirri kröfu þann dag sem átti að flytja málið um hana. Jafnframt krafðist varnar­aðili dóm­kvaðn­ingar mats­manna sem var hafnað bæði í héraði og Hæstarétti. Eins og áður segir voru við meðferð máls­ins E-2356/2012 dómkvaddir matsmenn til að meta virði hlutabréfa í Baugi eins og það stóð 30. júní 2008. Varnaraðili var matsþoli við það mat. Með dómi Hæsta­réttar, 15. júní 2012, var sóknaraðili dæmdur til þess að greiða matsmönnum 56.000.000 króna fyrir matsgerðina. Hluthafarnir fjórir í Baugi, sem voru dæmdir til þess að greiða sóknaraðila skaðabætur, voru jafnframt dæmdir til þess að greiða sókn­ar­aðila þann kostnað sem hlaust af matsgerðinni. Eins og áður segir stóðu réttar­fars­reglur í vegi fyrir því að varnaraðila yrði stefnt í því máli og varð sóknaraðili að fara þá leið að lýsa fjárkröfu við slit hans. Sú aðstaða þykir ekki koma í veg fyrir að hann verði jafn­framt dæmdur til þess að greiða sóknaraðila þann kostnað sem hann varð fyrir vegna matsgerðarinnar. Að teknu tilliti til þeirra þátta sem hér hafa verið raktir, svo og þess að sóknar­aðili er ekki virðisaukaskattsskyldur, þykir málskostnaður hæfi­lega ákveðinn 60.000.000 króna.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Fjárkröfur sóknaraðila, þrotabús Baugs Group hf., við slit varnaraðila, Kaup­þings hf., hver að höfuðstólsfjárhæð 1.339.062.896 kr., 5.219.593.148 kr. og 7.208.284.898 kr., eru allar samþykktar, svo og að þær njóti stöðu sem almennar kröfur sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila.

                Varnaraðili greiði sóknaraðila 60.000.000 kr. í málskostnað.