Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-220
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Börn
- Innsetningargerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Markús Sigurbjörnsson.
Með beiðni 5. júlí 2019 leitar K leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 21. júní sama ár í málinu nr. 401/2019: K gegn M, á grundvelli 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. M leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að fimm börn aðila verði tekin úr umráðum leyfisbeiðanda og þau afhent honum með beinni aðfarargerð. Reisir hann kröfu sína á 11. gr. laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. en samkvæmt dómi héraðsdómstóls í [...] í [...] 21. desember 2017, sem staðfestur var af áfrýjunardómstólnum í [...] 10. október 2018, fara aðilar sameiginlega með forsjá barnanna auk þess sem lögheimili þeirra er hjá gagnaðila í [...]. Með úrskurði 15. maí 2019 tók héraðsdómur kröfu gagnaðila til greina og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með áðurnefndum úrskurði en talið var að brottflutningur barnanna til Íslands hafi verið ólögmætur í skilningi 11. gr. laga nr. 160/1995 og að skilyrði undantekningarákvæða 2. og 3. töluliðar 12. gr. laganna hafi ekki verið uppfyllt í málinu.
Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni með tvennum hætti. Annars vegar hvort alvarleg vanhirða gagnaðila gagnvart börnunum standi til þess að kröfu um afhendingu þeirra verði hafnað á grundvelli 2. töluliðar 12. gr. laga nr. 160/1995. Hins vegar hvort börnin hafi fengið að tjá sig með þeim hætti sem ráðgert sé í lögum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, en leyfisbeiðandi telur að brestur á því eigi að valda ómerkingu úrskurðar héraðsdóms þannig að unnt verði að meta með tryggum hætti hvort hafna eigi kröfu um afhendingu barnanna á grundvelli 3. töluliðar 12. gr. laga nr. 160/1995. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi um túlkun á 12. gr. laganna og grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni. Þá er hvorki unnt að líta svo á að kæruefnið hafi fordæmisgildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að það hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins í skilningi 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Loks eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðni um kæruleyfi því hafnað.