Hæstiréttur íslands
Mál nr. 301/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárskipti
- Séreign
|
|
Mánudaginn 16. júní 2008. |
|
Nr. 301/2008. |
M(Ingvar Þóroddsson hdl.) gegn K (Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl.) |
Kærumál. Fjárskipti. Séreign.
M krafðist þess aðallega að 8.045.931 króna af söluandvirði fasteignarinnar X og tvær tilgreindar bifreiðir yrðu taldar hjúskapareign K við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Samkvæmt kaupmála aðila var tilgreind fasteign, auk tveggja bifreiða gerð að séreign K. Í kaupmálanum var tekið fram að það sem kæmi í stað séreignar yrði séreign þess sem séreignina ætti. K hélt því fram að fasteignin X hefði komið í stað þeirrar fasteignar sem var séreign hennar samkvæmt kaupmála og ætti því ekki að koma til skipta. Fyrir lá að K var ein skráður kaupandi hinnar umdeildu fasteignar og hafði M ekki tekist að sanna að kaupverð hennar hefði að stærstum hluta verið greidd með hjúskapareign aðila. Taldist fasteignin því vera séreign K og kom ekki til skipta. Samkvæmt matsgerð sem ekki hafði verið hnekkt var önnur hinna umdeildu bifreiða 1.650.000 króna virði. Að teknu tilliti til verðmætis hennar var hún talin séreign K. Hin bifreiðin, sem var húsbíll, var talinn 3.600.000 króna virði. Verðmæti hennar var þó einungis 875.656 krónum meira virði en áhvílandi veðskuldir. Þegar litið var til þess að bifreiðin var ekki venjuleg fólksbifreið var ekki fallist á að hún kæmi í stað bifreiðar sem gerð var að séreign K með títtnefndum kaupmála. Var því fallist á að andvirði hennar umfram áhvílandi veðskuldir kæmi til skipta sem hjúskapareign K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 13. maí 2008, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að telja söluandvirði fasteignarinnar X og bifreiðina Y séreign varnaraðila við opinber skipti til fjárslita á búi aðila. Þá var verðmæti bifreiðarinnar Z, 875.656 krónur, talið hjúskapareign varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að 8.045.931 króna af söluandvirði fasteignarinnar X og bifreiðarnar Y og Z verði taldar hjúskapareignir varnaraðila við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna hjónaskilnaðar, þannig að nettóskiptaverðmæti bifreiðarinnar Y verði ákveðið 1.215.176 krónur og bifreiðarinnar Z verði ákveðið 875.656 krónur. Til vara krefst sóknaraðili þess að fá að óskiptu 3.722.676 krónur við skiptin. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hennar um málskostnað í héraði því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti.
Í hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu sóknaraðila um að verðmæti bifreiðarinnar Z að fjárhæð 875.656 krónur teldist hjúskapareign varnaraðila. Krafa sóknaraðila fyrir Hæstarétti sem að þessu lýtur telst því krafa um staðfestingu úrskurðarins að þessu leyti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 13. maí 2008.
I
Mál þetta, sem barst dóminum 7. desember 2006 með bréfi skiptastjóra, var tekið til dóms að loknum munnlegum flutningi 9. þessa mánaðar.
Sóknaraðili er M, [heimilisfang].
Varnaraðili er K, [heimilisfang].
Dómkröfur
Sóknaraðili krefst þess aðallega að 8.045.931 króna af söluandvirði fasteignarinnar X, [...], og bifreiðarinnar Y og Z verði talin hjúskapareign varnaraðila við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna hjónaskilnaðar, þannig að nettóskiptaverðmæti bifreiðarinnar T verði ákveðið 1.215.176 krónur og nettóskiptaverðmæti bifreiðarinnar Z verði ákveðið 875.656 krónur. Til vara krefst sóknaraðili þess að fá að óskiptu 5.068.381 krónu við skiptin. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að niðurstaða skiptastjóra frá 27. október 2006 verði staðfest, þ.e. að fasteignin X, [...], og bifreiðin Y teljist séreignir varnaraðila og komi því ekki til skipta. Jafnframt er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
II
Málavextir
Aðilar máls þessa gengu í hjúskap á árinu 1991. Áður en til hjúskaparins var stofnað gerðu aðilar með sér kaupmála. Tvær bifreiðar, Volvo að árgerð 1978 og BMW, árgerð 1987, voru gerðar að séreign varnaraðila. Í kaupmálanum var verðmæti bifreiðanna tilgreint 200.000 krónur og 1.800.000 krónur. Fasteignin að Þ á Akureyri var einnig gerð að séreign varnaraðila en verðmæti hennar samkvæmt fasteignamati var 3.885.000 krónur. Í kaupmálanum er tekið fram að það sem komi í stað séreignar verði séreign þess sem séreignina á. Hinn 12. maí 1992 gerðu aðilar viðbótarkaupmála vegna sölu fasteignarinnar að Þ. Æ, [...], samtals að fasteignamati 4.193.000 krónur, var gerð að séreign varnaraðila en fyrri kaupmáli stóð óbreyttur að öðru leyti. Hinn 9. nóvember 1995 gerðu aðilar aftur viðbótarkaupmála vegna sölu á fasteigninni Æ. Í þessum kaupmála var fasteignin Ö, [...], gerð að séreign varnaraðila en fasteignamat þeirrar eignar var þá 8.104.000 krónur. Líkt og áður var tekið fram að fyrri kaupmáli væri óbreyttur að öðru leyti.
Með úrskurði dómsins hinn 7. apríl 2006 var fallist á beiðni varnaraðila þess efnis að opinber skipti skyldu fara fram til fjárslita á milli aðila vegna skilnaðar þeirra og var Árni Pálsson hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri.
Við skiptin krafðist varnaraðili þess að fasteignin X á [...] yrði talin séreign hennar svo og bifreiðarnar Y og Z. Af hálfu sóknaraðila var fallist á að 10,22% fasteignarinnar væri séreign varnaraðila en af hans hálfu var þess krafist að eignin kæmi að öðru leyti til skipta sem hjúskapareign varnaraðila. Sama krafa var höfð uppi varðandi nefndar bifreiðir.
Á skiptafundi hinn 27. október 2006 lýsti skiptastjóri afstöðu sinni til þess hvaða eignir ættu að koma til skipta. Niðurstaða hans var sú að nefnd fasteign og bifreiðin Y skyldu teljast séreignir varnaraðila og því bæri að halda þeim eignum utan skipta, sbr. 1. sbr. 104. gr. laga nr. 20/1991. Skiptastjóri taldi óþarft að taka ákvörðun varðandi bifreiðina Z þar sem áhvílandi lán á henni hefði verið hærra en verðmæti bifreiðarinnar. Hinn 14. nóvember 2006 tilkynnti lögmaður sóknaraðila að sóknaraðili féllist ekki á afstöðu skiptastjóra og þá fór hann þess á leit að nefndar bifreiðir yrðu metnar til verðs samkvæmt ákvæðum 17. til 23. gr. laga nr. 20/1991. Hinn 8. mars barst lögmanni sóknaraðila ódagsett verðmat löggilts bílasala á bifreiðunum án þess að boðað hefði verið til matsfundar. Meðal annars af þeim ástæðum óskaði sóknaraðili eftir því að matsmaðurinn mæti bifreiðarnar að nýju. Erfiðlega gekk að fá nýtt verðmat og var málinu ítrekað frestað meðan lögmaður sóknaraðila freistaði þess að fá matsmann til að framkvæma hið umbeðna mat. Að endingu lá nýtt mat fyrir hinn 28. nóvember 2007.
III
Málsástæður og lagarök
Sóknaraðili byggir á því að hvatinn að gerð kaupmála fyrir hjúskap aðila hafi annars vegar verið slæm fjárhagsstaða hans og hins vegar að varnaraðili hafi verið skráður eigandi að Þ þó svo að faðir hennar hafi staðið að kaupunum og verið raunverulegur eigandi eignarinnar. Faðir varnaraðila hafi síðan aðstoðað aðila þegar þau keyptu Æ [...] en lán sem þau tóku hafi verið með veði í fasteign föður varnaraðila. Af þeim sökum hafi þótt eðlilegt að gera viðbótarkaupmála. Þegar fasteignin við Ö var keypt hafi lánið sem hvíldi á fasteign föður varnaraðila ekki verið greitt upp og því hafi aftur þótt eðlilegt að gera viðbótarkaupmála.
Sóknaraðili heldur því fram að samkvæmt upplýsingum skiptastjóra hafi söluverð fasteignarinnar að X, umfram skuldir sem á eigninni hvíldu, numið 10.805.331 krónu. Þá segir sóknaraðili að séreign varnaraðila í fasteigninni hafi verið 10,22% sem nemi þá 2.759.400 krónum. Þegar búið sé að draga þá fjárhæð frá söluandvirðinu standi eftir 8.045.931 króna sem skuli koma til skipta sem hjúskapareign varnaraðila. Sóknaraðili segir að fasteignin Ö á [...] hafi verið keypt hinn 14. júní 1995 fyrir 11.500.000 krónur en hún hafi síðan verið seld í lok desember 1998 fyrir 10.500.000 krónur. Kaupverð eignarinnar hafi verið greitt þannig að kaupendur yfirtóku skuldir að fjárhæð 5.649.189 krónur. Við undirritun kaupsamnings hafi verið greidd 1.000.000 króna. Með húsbréfum hafi verið greiddar 1.290.000 krónur, hinn 10. mars 1999 2.060.811 krónur og loks 1. desember 1999, 500.000 krónur. Sóknaraðili heldur því fram að samhliða kaupsamningi um Ö hafi verið aflýst af eigninni skuldabréfi að nafnvirði 1.000.000 króna. Andvirði þessa láns hafi upphaflega verið afhent sem hlutafé í V ehf. sem síðar hafi orðið gjaldþrota. Bréfi þessu hafi verið aflýst sama dag og kaupsamningi nýrra eigenda var þinglýst og fullyrðir sóknaraðili að stærstur hluti af 1.000.000 króna greiðslu sem innt var af hendi við gerð kaupsamningsins hafi farið í að greiða þetta lán upp (en eftirstöðvar þess um áramót hafi verið 839.272 krónur) og kostnað við söluna. Þá heldur sóknaraðili því fram að greiðsla sem innt var af hendi hinn 10. mars 1999 hafi farið í að greiða skuldir sem tengdust fasteigninni, t.d. u.þ.b. 800.000 króna skuld vegna byggingar sólpalls við húsið. Þegar síðasta greiðslan vegna Ö var innt af hendi hafi verið búið að gefa út afsal vegna X á [...] en engin merki sjáist um að þessi greiðsla hafi verið notuð til að greiða niður skuldir sem hvíldu á X á þeim tíma.
Það er því mat sóknaraðila að eingöngu andvirði húsbréfa sem fengust upp í söluverð Ö á [...] hafi gengið upp í kaupverð fasteignarinnar að X. Sú eign hafi verið keypt áður en Ö var selt, kaupsamningur gerður 16. október 1998. Kaupverð X hafi verið 13.500.000 krónur og skipst þannig að yfirteknar skuldir hafi verið 6.632.833 krónur, við undirritun samnings hinn 16. október 1998 hafi verið greiddar 3.250.000 krónur og hinn 1. september 1999 hafi verið greiddar 3.617.167 krónur.
Sóknaraðili heldur því fram að það hafi verið forsenda fyrir kaupum aðila á X að hann ásamt varnaraðila yfirtók áhvílandi skuldir gagnvart Húsnæðisstofnun ríkisins. Sóknaraðili heldur því fram að fjár til að inna af hendi greiðslu við undirritun kaupsamnings hafi verið aflað með veðskuldabréfi, útgefnu af varnaraðila, frá Landsbanka Íslands að fjárhæð 3.000.000 króna en sóknaraðili hafi samið um lánið í bankanum enda haft þar tengsl vegna atvinnu sinnar. Þá kveðst sóknaraðili hafa fengið skammtímalán hjá U ehf. að fjárhæð 330.000 krónur til að standa full skil á greiðslunni til seljanda. Fjár sem greitt var til seljanda fasteignarinnar hinn 1. september 1999 hafi verið aflað á þann hátt að andvirði húsbréfa, sem fengust vegna sölu á Ö, hafi að frádreginni söluþóknun og staðgreiðslu af vaxtatekjum numið 1.379.124 krónum. Landsbankinn hafi lánað aðilum 1.000.000 króna en varnaraðili hafi verið útgefandi þess skuldabréfs, sem ekki hafi verið með veði í X, en það hafi engu að síður verið tilgreint með vaxtagjöldum vegna fasteignarinnar í skattframtali aðila fyrir árið 2000. Sóknaraðili heldur því fram að lokagreiðslan hafi að öðru leyti verið fjármögnuð án þess að til kæmu fjármunir af andvirði Ö. Hann hafi aflað fjárins annar vegar með launum sínum og hins vegar með skammtímalánum frá U ehf. og foreldrum sínum. Sóknaraðili segir að samkvæmt skattframtali fyrir árið 2000 hafi eftirstöðvar skulda sem tengdust fasteigninni í lok árs 1999 numið 10.484.915 krónum en sú fjárhæð svari til eftirstöðva af yfirteknum lánum frá Íbúðalánasjóði og eftirstöðvum skuldabréfanna tveggja sem áður er getið.
Sóknaraðili heldur því fram að kaupin á X hafi verið fjármögnuð þannig að aðilar hafi hinn 16.október 1998 að jöfnu yfirtekið áhvílandi veðlán eða 3.316.416 krónur hvort. Hann hafi sama dag lagt fram 330.000 krónur með láni frá U ehf. Varnaraðili hafi þennan sama dag lagt fram með láni frá Landsbanka Íslands 2.920.000 krónur. Hinn 1. september hafi varnaraðili lagt fram andvirði húsbréfa 1.379.124 krónur og andvirði láns frá Landsbanka Íslands 970.000 krónur. Hann sjálfur hafi síðan þennan sama dag með launum sínum og lánum lagt fram 1.268.044 krónur. Alls nemi þessar fjárhæðir kaupverði eignarinnar en við mat á andvirði lána frá Landsbanka Íslands hafi verið dregin frá áætluð lántöku- og stimpilgjöld. Samkvæmt þessu hafi sóknaraðili lagt til kaupanna 4.914.460 krónur eða 36,4% en varnaraðili 8.585.540 krónur eða 63,6%, þar af sé greiðsla sem rekja megi til séreignar varnaraðila að fjárhæð 1.379.124 krónur eða 10,22%.
Sóknaraðili kveðst í samræmi við framanritað hafa viðurkennt við skiptin að varnaraðili eigi að séreign 10,22% fasteignarinnar nr. X á [...]. Að öðru leyti liggi ekkert fyrir um að varnaraðili hafi notað séreignir eða séreignartekjur til kaupa á nefndri fasteign. Sóknaraðili heldur því fram að hjúskapareignir hans og varnaraðila hafi staðið undir kaupunum en hann hafi að mestu staðið undir greiðslum afborgana af þeim lánum sem tekin voru vegna kaupanna. Sóknaraðili telur, með vísan til launatekna aðila árin 1998 til 2005, ljóst að varnaraðili hafi ekki ein getað staðið undir þeim skuldbindingum sem hún hafði gengist undir við kaupin á fasteigninni. Samkvæmt skattframtölum fyrir nefnd ár hafi launatekjur sóknaraðila samtals numið 14.007.442 krónum en varnaraðili hafi haft 5.140.387 krónur í laun og því verið tekjulág.
Sóknaraðili heldur því fram að sú staðreynd að ekki var gerður viðbótarkaupmáli eftir kaupin á X endurspegli vilja aðila. Þau hafi ekki haft í hyggju að eignin yrði að séreign varnaraðila, enda hafi hvatinn að upphaflega kaupmálanum ekki verið lengur fyrir hendi þar sem faðir varnaraðila hafi ekki lengur verið í fjárhagslegum ábyrgðum fyrir þau. Þá hafi sóknaraðili á þessum tíma fengið bú sitt til umráða eftir að það hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 1991.
Sóknaraðili mótmælir því að ummæli hans við skiptameðferð á búi hans á árinu 2003 hafi gildi í máli þessu. Gagnvart þrotabúinu hafi ekki skipt máli hvort varnaraðili átti eignina sem hjúskapareign eða séreign. Skiptastjóri hafi væntanlega metið það svo að ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 ættu ekki við um eignarhald varnaraðila á fasteigninni en hjúskapareignir standi ekki til fullnustu gagnvart skuldheimtumönnum maka, sbr. ákvæði 67. gr. laga nr. 31/1993, þar sem skuldaábyrgð er skipt. Þó svo sóknaraðili hafi samkvæmt hjúskaparlögum, við vissar aðstæður, átt tilkall til hjúskapareigna varnaraðila á árinu 2003 veitti það ekki skuldheimtumönnum hans beinan aðgang að eignum varnaraðila. Auk þessa telur sóknaraðili að eignin hafi verið yfirveðsett á þessum tíma að teknu tilliti til veðskuldabréfs til Byggðastofnunar.
Sóknaraðili bendir á að fasteignin að X hafi hinn 29. október 2006 verið seld á 27.000.000 króna. Hreint söluandvirði eignarinnar, í vörslum skiptastjóra, sé að fjárhæð 10.805.331 króna. Sóknaraðili byggir á því að séreign varnaraðila hafi numið 10,22% eða 2.759.400 krónum. Þegar búið sé að draga þá fjárhæð frá hreinni eign standi eftir 8.045.931 króna sem skuli koma til skipta sem hjúskapareign varnaraðila.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um að bifreiðarnar Y og Z verði við skiptin taldar til hjúskapareigna varnaraðila á því að ígildisregla 3. gr. kaupmála aðila, frá 9. ágúst 1991, nái ekki til bifreiðanna. Sóknaraðili heldur því fram að ekki sé unnt að rekja tengsl þessara bifreiða til frumeignanna, þannig að andvirði bifreiðanna Ú og T hafi á einhvern hátt verið sérgreint frá því að þær voru seldar og það síðan notað til kaupa á bifreiðunum Y og Z. Bifreiðin Ú hafi verið keypt fyrir 50.000 krónur á árinu 1990 og seld 12. ágúst 1994 fyrir 100.000 krónur. Bifreiðin T hafi verið keypt 1. ágúst 1991 fyrir 1.640.000 krónur (í skiptum) og seld 8. október 1991 fyrir 1.500.000 krónur. Hinn 20. nóvember 1991 hafi bifreiðin S verið keypt á 1.162.000 krónur og seld í maí árið eftir fyrir 920.000 krónur. Sóknaraðili heldur því fram að eftir þessar sölur hafi andvirði frumeignanna verið 1.020.000 krónur (920.000 +100.000).
Eftir sölur frumeignanna sem að framan eru raktar hafi aðilar keypt fleiri en 20 ökutæki en í skattframtölum megi sjá eignabreytingar þessar. Þá sé ljóst að verðmæti viðkomandi bifreiða hafi í sumum tilfellum afskrifast mikið á stuttum tíma. Bifreiðin Y hafi verið keypt á árinu 1997 fyrir 3.725.000 krónur og hluti kaupverðsins, 2.786.535 krónur, hafi verið greiddur með veðskuldabréfi. Engin gögn séu til þess efnis að aðilar hafi litið á bifreiðina sem séreign varnaraðila eða að kaupverð bifreiðarinnar verði á einhvern hátt rakið til framangreindra frumeigna eða annarra séreignarfjármuna varnaraðila. Bifreiðin Z hafi verið keypt á árinu 2004 fyrir 4.350.000 krónur. Kaupverðið hafi verið greitt með andvirði bifreiðarinnar R að fjárhæð 1.850.000 krónur og með yfirtöku á áhvílandi láni að fjárhæð 2.500.000 krónur. Varnaraðili hafi síðan gefið út skuldabréf til Sjóvár hf. að nafnvirði 3.042.997 krónur með veði í bílnum en andvirði lánsins hafi verið notað til að greiða lánin sem hvíldu á bifreiðunum R og Z. Sóknaraðili segir að engin gögn bendi til þess að aðilar hafi litið á bifreiðina Z sem séreign varnaraðila eða að kaupverð hennar megi á einhvern hátt rekja til frumeigna eða annarra séreignarfjármuna hennar. Sóknaraðili heldur því fram að við skiptin hafi verðmæti bifreiðarinnar Z ekki verið minna en 4.400.000 krónur, enda hafi hann verið búinn að endurbæta bifreiðina umtalsvert þegar hún var seld en þá hafi verðmæti hennar verið meira en nam áhvílandi skuldum.
Sóknaraðili heldur því fram að þegar tekið hefur verið tillit til fjölda bifreiða sem aðilar hafa átt frá því að frumeignir voru gerðar að séreign varnaraðila, mikils afskriftarhraða bifreiða og þess hvernig staðið varð að kaupum bifreiðanna Y og Z að varnaraðili hafi hvorki sannað né gert sennilegt að viðkomandi bifreiðir skuli teljast séreignir hennar við skiptin. Engin skjöl sem varða fjárhagsleg málefni aðila frá því að kaupmáli var gerður á árinu 1992 bendi til þess að aðilar hafi viljað meta þessar bifreiðir sem séreignir varnaraðila.
Að mati sóknaraðila hefur varnaraðili sönnunarbyrðina fyrir því að séreignarhlutur hennar af andvirði fasteignarinnar X við [...] á [...] sé meiri en 10,22% og að nefndar bifreiðar séu séreignir hennar við skiptin. Sóknaraðili telur ljóst að Hæstiréttur Íslands geri strangar kröfur um sönnun að þessu leyti og vísar hann í þessu sambandi til dóms í máli nr. 153/1998. Sóknaraðili heldur því fram að tengsl frumeignar við eign, sem haldið er fram að komið hafi í hennar stað, verði að vera rekjanleg með skýrum hætti. Sóknaraðili mótmælir því að túlka skuli ígildisregluna þannig að nægjanlegt sé að sýna fram á að eign sem komi til álita sem séreign sé einungis sambærileg að tegund og frumeignin.
Varakröfu sína byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi aukið verðmæti séreigna sinna í fasteigninni X og bifreiðunum Y og Z með hjúskapareignum aðila. Því eigi hann endurgjaldskröfu á varnaraðila sem taki mið af helmingaskiptareglunni og þeim hreinu hjúskapareignum sem ella hefðu komið til skipta milli aðila. Telur sóknaraðili að aukningu verðmæta séreigna varnaraðila sem rekja megi til hjúskapareigna sé þannig: Vegna X (10.805.331 króna mínus 2.759.400 krónur) 8.045.931 króna. Vegna bifreiðarinnar Z (3.600.000 krónur mínus 2.724.344 krónur) 875.656 krónur og vegna bifreiðarinnar Y (1.650.000 krónur mínus 434.824 krónur) 1.215.176 krónur eða samtals 10.136.763 krónur. Varakrafan nemi helmingi þessarar fjárhæðar eða 5.068.381 krónu. Sóknaraðili byggir á því að þetta sé sú fjárhæð sem hann hefði fengið í sinn hlut, ef séreignarkrafa varnaraðila, sem sóknaraðili fellst ekki á, hefði ekki náð fram að ganga við skiptin. Sóknaraðili miðar við að krafa hans verði alfarið fullnustuð af séreignarfé varnaraðila, ef aðalkröfu hans verður hafnað. Hrein eign af andvirði fasteignarinnar er byggð á upplýsingum skiptastjóra en varðandi viðurkenndan séreignarhlut varnaraðila er vísað til þess sem áður er rakið.
Hvað lagarök vaðar vísa sóknaraðili til 75. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 varðandi aðalkröfu en til 1. og 3. mgr. 107. gr. sömu laga varðandi varakröfu. Kröfu um málskostnað reisir sóknaraðili á 129., sbr. 130., gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Varnaraðili byggir kröfu sína þess efnis að niðurstaða skiptastjóra verði staðfest á því að aðilar hafi hinn 9. ágúst 1991 gert með sér kaupmála. Í kaupmálanum hafi innbú samkvæmt skrá verði gert að séreign varnaraðila en það hafi verið metið á 1.500.000 krónur. Þá hafi tvær bifreiðar verið gerðar að séreign varnaraðila en þær hafi verið metnar á 2.000.000 króna. Loks hafi fasteignin að Þ, Akureyri, verið gerð að séreign hennar. Í kaupmálanum hafi verið mælt svo fyrir að varnaraðili tæki að sér að greiða áhvílandi lán sem voru á fasteigninni. Kaupmálinn hafi einnig mælt svo fyrir að arður og það sem kæmi í stað séreignar hvors aðila yrði séreign þess sem séreignina ætti. Viðbótarkaupmáli hafi síðan verið gerður 12. maí 1992 þar sem fasteignin Æ á [...] var gerð að séreign varnaraðila. Í kaupmála þessum kemur fram að fasteignin að Þ á Akureyri hefði verið seld og framangreind fasteign kæmi í hennar stað. Loks gerðu aðilar viðbótarkaupmála hinn 9. nóvember 1995. Með honum var fasteignin Ö á [...] gerð að séreign varnaraðila og þess getið að fasteignin kæmi í stað fasteignarinnar nr. 3 við sömu götu. Varnaraðili bendir á að í báðum viðbótarkaupmálunum komi fram að fyrri kaupmáli skuli vera óbreyttur að öðru leyti, og því sé í gildi 3. gr. upphaflega kaupmálans þess efnis að arður og það sem komi í stað séreignar verði séreign þess sem séreignina eigi.
Af hálfu varnaraðila er fallist á að hvatinn að gerð kaupmála aðila hafi verið slæm fjárhagsstaða sóknaraðila og sú staðreynd að varnaraðili var skráður eigandi að Þ á Akureyri áður en þau gengu í hjónaband. Varnaraðili mótmælir því hins vegar sem röngu og ósönnuðu að faðir varnaraðila hafi staðið að kaupunum á Þ og verið raunverulegur eigandi eignarinnar. Þá mótmælir varnaraðili því að sú staðreynd að ekki var gerður viðbótarkaupmáli eftir kaupin á X endurspegli vilja aðila þess efnis að sú eign ætti ekki að verða séreign varnaraðila. Varnaraðili heldur því fram að hvatinn að kaupmálagerðinni hafi verið sá að sóknaraðili stóð í atvinnurekstri og þá hafi hann verið gjaldþrota mestan hluta af hjúskapartíð þeirra. Telur sóknaraðili að ekki hafi verið þörf á að gera nýjan kaupmála vegna kaupanna á X vegna þess að upphaflegi kaupmálinn með breytingum var enn í gildi.
Varnaraðili byggir á því að hún hafi ein verið kaupandi að X. Það sem greitt hafi verið fyrir eignina með peningum hafi komið til vegna sölunnar á Ö en það sem á vantaði hafi hún tekið að láni hjá Landsbanka Íslands. Önnur lán sem á fasteigninni hvíldu og ekki vörðuðu atvinnurekstur sóknaraðila hafi einnig verið tekin af varnaraðila. Varnaraðili heldur því fram að ígildisregla 75. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 áskilji ekki að unnt sé að kefjast þess að rekja megi hverja krónu beint til fyrri séreignar. Sú staðreynd að greiðsla, sem innt var af hendi hinn 1. desember 1999 vegna sölunnar á Ö, hafi verið greidd eftir að búið var að greiða kaupverð X kemur ekki í veg fyrir að litið verði svo á að sú eign hafi komið í stað fyrri séreignar varnaraðila, enda hafi hún fjármagnað kaupin á X með lántöku eins og áður er rakið. Þá mótmælir varnaraðili því að fyrri greiðslur sem inntar voru af hendi vegna sölunnar á Ö hafi farið í annað en að greiða kaupverðið á X. Varnaraðili hafnar einnig, sem röngum og ósönnuðum, fullyrðingum sóknaraðila þess efnis að hann hafi komið að fjármögnun á lokagreiðslu fyrir X með launum sínum og skammtímalánum frá U ehf. og foreldrum sínum. Ekkert hafi komið fram í málinu sem styður þessar fullyrðingar sóknaraðila. Varnaraðili hafi fjármagnað kaupin á X með sölunni á Ö, lánum frá Landsbanka Íslands, launum frá U ehf. og þá hafi hún notið aðstoðar foreldra sinna.
Varnaraðili bendir á að þegar bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta hinn [dags.] 2003 hafi fasteignin X ekki talist til eigna búsins þar sem hún hafi verið skráð á eiginkonu sóknaraðila og í gildi milli þeirra kaupmálar eldri en tveggja ára. Í bréfi skiptastjóra þrotabúsins, sem liggur fyrir í málinu, komi fram að við skýrslutöku af þrotamanni (sóknaraðila) hafi hann vísað til kaupmálanna. Sóknaraðili, sem þá hafi verið áminntur um sannsögli af skiptastjóra, hafi bent á kaupmálana því til staðfestu að fasteignin væri séreign eiginkonu hans þegar þrotabú hans var til meðferðar. Þremur árum síðar, þegar hann stendur í skilnaði við eiginkonu sína, vilji hann meina að fasteignin sé ekki séreign hennar að fullu. Varnaraðili heldur því fram að sú staðreynd að sóknaraðili vísaði til kaupmálanna við gjaldþrotaskiptameðferð á búi hans sýni að hann hafi gert sér grein fyrir því að fasteignin var séreign varnaraðila. Sóknaraðili hafi ekki val um það hvenær kaupmálarnir eru í gildi og hvenær ekki. Telur varnaraðili að framangreint leiði til þess að fasteignin X sé séreign hennar og skuli ekki koma til skipta, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991.
Sóknaraðili heldur því fram að bifreiðin Y sé séreign hennar samkvæmt ígildisreglu 3. gr. kaupmálans frá 9. ágúst 1991. Með þeim kaupmála hafi tvær bifreiðar, samtals að verðmæti 2.000.000 króna, verið gerðar að séreign hennar. Síðan þá hafi aðilar keypt og selt fjölda bifreiða en varnaraðili telur að ígildisregla 75. gr. hjúskaparlaga geri ekki að fortakslausu skilyrði að unnt sé að rekja hverja krónu beint til fyrri séreignar. Varnaraðili telur að unnt sé að rekja tengsl bifreiðarinnar til frumeignanna með því að skoða ökutækjaskrá sem fyrir liggur í málinu. Þegar bifreiðin Y var keypt, voru kaupin að stærstum hluta fjármögnuð með veðskuldabréfi að fjárhæð 2.786.535 krónur sem hún hafi verið skuldari að en einnig með sölu bifreiðarinnar Q. Þá telur varnaraðili að með því að skoða ökutækjaskrána megi rekja ökutækjakaup hennar allt til frumeignanna samkvæmt kaupmálanum. Varnaraðili bendir á að mat hafi farið fram á bifreiðinni að kröfu sóknaraðila og hafi hún verið metin á 1.100.000 til 1.150.000 krónur. Að mati varnaraðila hefur verið tekið nægjanlegt tillit til afskrifta bifreiða og þá verði að horfa til þess að hún var ein skuldari að veðskuldabréfinu og því telur hún að bifreiðin sé séreign hennar og eigi því ekki að koma til skipta, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga 20/1991.
Varðandi bifreiðina Z telur varnaraðili engu máli skipta hvort hún teljist sér- eða hjúskapareign hennar. Bifreiðin hafi verið seld þriðja aðila hinn 15. október 2005 þar sem fram hafi verið komin uppboðsbeiðni vegna vanskila á láni sem hvíldi á bifreiðinni. Bifreiðin hafi verið seld þannig að kaupandi tók að sér að greiða áhvílandi skuldir að fjárhæð 2.724.116 krónur og telur varnaraðili að sú fjárhæð sé hærri en nemi verðmæti bifreiðarinnar. Þetta leiði til þess að ekki sé ástæða til að taka afstöðu til þess hvort bifreiðin hafi verið sér- eða hjúskapareign hennar.
Varnaraðili mótmælir varakröfu sóknaraðila og heldur því fram að ekkert liggi fyrir í málinu um að varnaraðili hafi aukið verðmæti séreigna sinna í fasteigninni X og bifreiðinni Y með hjúskapareignum aðila þannig að sóknaraðili eigi endurgjaldskröfu á hendur henni eftir ákvæðum 1. og 3. mgr. 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Hvað lagarök varðar vísar varnaraðili til 1. mgr. 74. gr. og 75. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1990. Krafa um málskostnað úr hendi sóknaraðila er reist á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu er ekki deilt um gildi kaupmálans sem gerður var á árinu 1991 eða breytingar sem síðar voru gerðar á honum. Sóknaraðili heldur því fram að séreignarhlutur varnaraðila í fasteigninni X á [...] hafi eingöngu verið 10,22% en þann hluta megi rekja til fyrri fasteignar sem var séreign varnaraðila. Kaupin á X hafi að öðru leyti verið fjármögnuð með hjúskapareignum aðila. Varnaraðili heldur því aftur á móti fram að X hafi komið í stað Ö á [...] sem samkvæmt kaupmála hafi verið séreign hennar og því sé X séreign hennar og komi því ekki til skipta.
Fyrir liggur að varnaraðili var ein kaupandi að X. Kaupverð fasteignarinnar var 13.500.000 krónur en kaupverðið var greitt með peningum og yfirtöku veðskulda sem samtals námu 6.632.833 krónum. Greiðslur til seljanda fóru þannig fram að hinn 16. október 1998 voru greiddar 3.250.000 krónur og hinn 1. september 1999 3.617.167 krónur.
Varnaraðili fékk lán hjá Landsbanka Íslands að fjárhæð 3.000.000 króna hinn 16. október 1998 en tveimur dögum áður voru lagðar inn á reikning hennar 330.000 krónur frá U ehf. Fyrir dóminum bar sóknaraðili að þessi innborgun væri til komin vegna skammtímaláns sem hann hefði fengið hjá útgerðinni en varnaraðili bar aftur á móti að um launagreiðslu til hennar hefði verið að ræða. Engra annarra gagna nýtur um þessa greiðslu og engin skýring er á bankakvittuninni. Verður því að miða við að fé þetta hafi verið greiðsla til varnaraðila, enda fékk hún samkvæmt skattframtali fyrir þetta ár greidd laun frá U ehf. Verður því ekki annað ráðið en að varnaraðili hafi ein staðið að fjármögnun greiðslu þeirrar sem innt var af hendi við undirritun samnings um kaupin á X hinn 16. október 1998.
Áður er rakið að þegar Ö á [...] var selt greiddu kaupendur með húsbréfum og peningum samtals 4.850.811 krónur. Í samræmi við ákvæði kaupmála aðila var þessi fjárhæð séreign varnaraðila. Í lýsingu á málatilbúnaði sóknaraðila er rakið hvernig hann telur að þessu fé hafi verið varið og fullyrðir hann að eingöngu andvirði húsbréfanna, tæplega 1.400.000 krónur, hafi verið notað sem greiðsla fyrir X. Þar sem fyrir liggur að varnaraðili átti sem séreign eftir sölu Ö nefnda fjárhæð ber sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir því að fé þessu hafi ekki verið varið til kaupa á X eins og varnaraðili heldur fram. Sóknaraðili hefur gert sennilegt að 839.272 krónur af 1.000.000 króna greiðslu, sem innt var af hendi við undirritun samnings um sölu Ö, hafi verið notaðar til að greiða upp skuldabréf sem hvíldi á eigninni. Þá hefur hann haldið því fram að 2.060.811 króna greiðsla sem innt var af hendi hinn 10. mars 1999 hafi að mestu verið notuð til að greiða upp skuldir sem til voru komnar vegna Ö og nefndi í því sambandi skuld við trésmíðaverkstæði að fjárhæð 800.000 krónur. Hann lagði hins vegar ekki fram nein gögn um skuldir sem hann kvað hafa verið greiddar vegna fasteignarinnar. Þá heldur sóknaraðili því fram að síðasta greiðsla sem barst vegna Ö hafi verið innt af hendi eftir að kaupverð X var að fullu greitt. Þó svo fallist væri á með sóknaraðila að 839.272 krónum hafi verið varið í að greiða upp skuldabréf, 800.000 krónum hafi verið varið í að borga skuldir sem tilheyrðu Ö og að 500.000 krónur hafi borist eftir að X var að fullu greitt standa eftir 2.711.539 krónur af sannanlegri séreign varnaraðila. Verður að leggja til grundvallar að þeirri fjárhæð hafi verið varið til að greiða fyrir X Standa þá eingöngu eftir rúmar 900.000 krónur af kaupverði X en varnaraðili tók á þessum tíma lán hjá Landsbanka Íslands að fjárhæð 950.000 krónur, sem hún hefur haldið fram að hafi verið tekið vegna kaupa á X, og annað lán hjá Sparisjóði [...] að fjárhæð 500.000. Að þessu virtu hefur sóknaraðila ekki tekist að sanna að kaupverð X hafi að stærstum hluta verið greitt með hjúskapareignum aðila og verður krafa hans því ekki tekin til greina hvað fasteignina varðar. X telst séreign varnaraðila og kemur ekki til skipta, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991.
Áður er þess getið að í kaupmála aðila voru tvær bifreiðar gerðar að séreign varnaraðila. Áætlað verðmæti bílanna var á sínum tíma 2.000.000 króna. Af gögnum málsins má ráða að mikill fjöldi bifreiða hefur verið skráður á aðila málsins frá því að upphaflegi kaupmálinn var gerður. Sóknaraðili hlutaðist til um að bifreiðarnar Y og Z yrðu metnar til verðs af þar til bærum aðila en sýslumaðurinn á Akureyri mun hafa fengið A, löggiltan bifreiðasala, til verksins. Mat hans lá fyrir hinn 28. nóvember 2007. Í mati A eru bifreiðarnar metnar til verðs miðað við viðmiðunardag skiptanna hinn 13. október 2005. Að mati A var bifreiðin Y 1.650.000 króna virði en bifreiðin Z 3.600.000 króna virði hinn 13. október 2005 og var þá miðað við að kaupverð þeirra væri staðgreitt. Þessu mati hefur ekki verið hnekkt af hálfu varnaraðila og verður að leggja það til grundvallar í málinu. Að teknu tilliti til verðmætis bifreiðarinnar Y verður niðurstaða skiptastjóra hvað hana varðar staðfest og því telst hún séreign varnaraðila. Bifreiðin Z er svokallaður húsbíll og því ekki venjuleg fólksbifreið. Varnaraðili heldur því fram að bifreiðin hafi verið seld fyrir áhvílandi veðskuldum og því hafi raunverulegt verðmæti hennar ekki verið neitt. Samkvæmt mati A, sem ekki hefur verið hnekkt, var verðmæti bifreiðarinnar 875.656 krónum meira en áhvílandi veðskuldir. Þegar horft er til þess að bifreiðin er ekki venjuleg fólksbifreið verður ekki á það fallist að hún hafi komið í stað bifreiðar sem gerð var að séreign varnaraðila með títtnefndum kaupmála. Er krafa sóknaraðila hvað verðmæti bifreiðarinnar Z varðar tekin til greina og skal andvirði hennar umfram áhvílandi veðskuldir koma til skipta sem hjúskapareign varnaraðila.
Að framan er rakið að sóknaraðila hefur ekki tekist að sanna að varnaraðili hafi aukið við séreignir sínar með hjúskapareignum aðila og verður varakrafa sóknaraðila því ekki tekin til greina.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Varnaraðili fékk hinn 19. janúar 2007 gjafsóknarleyfi við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Í samræmi við leyfið skal kostnaður varnaraðila af rekstri málsins fyrir héraðsdómi greiðast úr ríkissjóði og því er ekki tekið tillit til kostnaðar sem fallið hefur á málið við meðferð þess hjá skiptastjóra. Málskostnaður varnaraðila að fjárhæð 1.041.119 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 900.000 krónur en útlagður kostnaður varnaraðila nemur 141.119 krónum. Við ákvörðun þóknunar lögmannsins hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Meðferð málsins fyrir dóminum hefur dregist verulega en það skýrist fyrst og fremst af því hversu illa gekk hjá sóknaraðila að afla verðmats á bifreiðum þeim sem um var deilt í málinu.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Ingvar Þóroddsson héraðsdómslögmaður en af hálfu varnaraðila Guðrún Sesselja Arnardóttir héraðsdómslögmaður.
Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Við opinber skipti til fjárslita á búi sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, telst söluandvirði fasteignarinnar X á [...] og bifreiðin Y séreign varnaraðila. Verðmæti bifreiðarinnar Z, 875.656 krónur, telst hjúskapareign varnaraðila.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður varnaraðila að fjárhæð 1.041.119 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 900.000 króna þóknun lögmanns varnaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns.