Hæstiréttur íslands

Mál nr. 641/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú


Þriðjudaginn 18

 

Þriðjudaginn 18. desember 2007.

Nr. 641/2007.

A

(sjálfur)

gegn

dánarbúi B

(enginn)

 

Kærumál. Dánarbú.

 

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um opinber skipti á dánarbúi B. Fallist var á með héraðsdómara að kröfu A skorti nauðsynleg skilyrði að lögum til að hún yrði tekin til meðferðar og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um opinber skipti á dánarbúi B. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á kröfu hans um opinber skipti á nefndu dánarbúi.

Krafa sóknaraðila uppfyllir ekki skilyrði um að gerð sé skýr grein fyrir því hvort skiptum á dánarbúi B sé lokið og þá eftir atvikum hvort erfingjum hafi verið veitt leyfi til einkaskipta, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 42. gr. laga nr. 20/1991. Þá er þar ekki vikið að eignum og skuldum búsins, sbr. 4. tölulið greinarinnar. Loks eru ekki lögð fram gögn úr bókum sýslumanns er upplýst geta um hvernig staðið hafi verið að skiptum umrædds dánarbús og hvenær skiptum lauk, sbr. 2. mgr. 42. gr. sömu laga. Þegar af þessum ástæðum getur krafa sóknaraðila ekki hlotið þá meðferð sem mælt er fyrir um í síðari málsliðum 1. mgr. 43. gr. laga nr. 20/1991. Því var rétt hjá héraðsdómara að hafna kröfu sóknaraðila í samræmi við 1. málslið 1. mgr. greinarinnar án þess að boða til sérstaks þinghalds til meðferðar á kröfunni í því skyni að fá afstöðu annarra en sóknaraðila til hennar. Með þessum athugasemdum verður fallist á með héraðsdómara að krafa sóknaraðila skorti nauðsynleg skilyrði að lögum til að hún verði tekin til meðferðar og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

         Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

              Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2007.

Með bréfi dagsettu 7. nóvember sl. framsendi sýslumaðurinn í Reykjavík Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. 42. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., kröfu A um opinber skipti á dánarbúi B sem lést [...] 1976.

Fyrir liggur að ekkja B fékk leyfi til setu í óskiptu búi eftir hann hinn 4. júní 1976.

 Framangreind krafa, sem er dagsett 5. nóvember 2007, uppfyllir ekki áskilnað 42. gr. laga nr. 20/1991 um skipti opinber skipti á dánarbúum o.fl., en þar er mælt fyrir um hvernig sá sem nýtur heimildar til að krefjast opinberra skipta samkvæmt fyrir­mælum 37. – 40. gr. eigi að haga gerðum sínum til að koma slíku til leiðar.

Í 2. mgr. 84. gr. laga nr. 20/1991 er mælt fyrir um rétt þess, sem ranglega telur hafa verið gengið framhjá tilkalli sínu til arfs við opinber skipti, til að rétta hlut sinn með málssókn á hendur erfingjum. En samkvæmt 3. mgr. 95. gr. laganna gildir ákvæðið einnig um rétt þess sem kann að hafa verið gengið framhjá við einkaskipti. Slík krafa fyrnist á 10 árum frá lokum skipta.

Verður því  að hafna kröfunni.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

                                        Ú r s k u r ð a r o r ð:

 Kröfu A um opinber skipti á dánarbúi B er hafnað.