Hæstiréttur íslands
Mál nr. 376/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
|
Föstudaginn 5. júní 2015. |
|
|
Nr. 376/2015.
|
Lögreglustjórinn á Vesturlandi (Jón Haukur Hauksson fulltrúi) gegn X (Óskar Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Staðfest var ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 29. maí 2015 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 15. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími og taki eingöngu til ,,samskipta í síma og sms skilaboða“.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skal nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Við mat á því er heimilt samkvæmt 2. mgr. sömu greinar að líta til þess hvort sakborningur hafi áður þurft að sæta nálgunarbanni sem og þess hvort háttsemi hans á fyrri stigum hafi verið þannig að hætta sé talin á að hann muni gerast brotlegur á þann hátt sem lýst er í 4. gr. laganna.
Varnaraðili hefur tvisvar hlotið dóm fyrir brot gegn brotaþola þar sem hann var sakfelldur samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. dóma Héraðsdóms Suðurlands [...] og [...] sama ár. Þá hefur honum tvisvar verið gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola, fyrst í kjölfar sambúðarslita þeirra haustið 2012 og aftur í janúar 2014. Að því virtu og þegar litið er til fjölda og efnis þeirra samskipta sem um ræðir í beiðni sóknaraðila og tilkomin eru eftir að nálgunarbanni lauk í janúar 2015 er fallist á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni á þann veg sem í úrskurðarorði greinir, enda verður ekki talið að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðru og vægara móti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila í Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila, X, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 29. maí 2015.
Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur krafist þess að Héraðsdómur Vesturlands staðfesti með úrskurði þá ákvörðun lögreglustjórans frá 15. maí sl. að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart A, kt. [...], til og með 15. maí 2016, þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili brotaþola að [...],[...], á svæði sem afmarkist við 50 m radíus umhverfis heimili hennar, mælt frá miðju hússins. Enn fremur að lagt sé bann við því að varnaraðili veiti brotaþola eftirför, nálgist hana á almannafæri, vinnustað hennar, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni SMS-skeyti eða tölvupóst, riti á síður hennar á samskiptasíðum á internetinu eða setji sig á annan hátt í samband við hana til og með 15. maí 2016.
Í beiðni lögreglustjóra er málsatvikum lýst þannig að hinn 13. maí 2015 hafi lögreglu borist beiðni brotaþola um að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart henni. Forsaga málsins sé sú að brotaþoli og varnaraðili hafi búið saman, ásamt syni þeirra, á Selfossi fram á haustið 2012. Í kjölfar sambúðarslita hafi varnaraðili ráðist að brotaþola, veitt henni áverka og í kjölfarið verið gert að sæta nálgunarbanni í tvo mánuði, sem hann hafi síðan brotið. Síðar, nánar tiltekið í janúar 2014, hafi varnaraðila verið gert að sæta nálgunarbanni í 12 mánuði. Vísað er í dóma Héraðsdóms Suðurlands þar sem varnaraðili var dæmdur fyrir m.a. brot á nálgunarbanni og líkamsárásir. Einnig kemur fram að nýlega hafi verið gefin út ákæra á hendur varnaraðila m.a. vegna íkveikju á þáverandi heimili brotaþola og fyrir að hafa birt nektarmyndir af brotaþola. Það sakamál er til meðferðar við Héraðsdóm Suðurlands. Einnig er vísað til þess að eftir að þessi nýjasta ákæra hafi verið gefin út hafi brotaþoli linnulítið verið áreitt með sms-skeytum og skilaboðum á Facebook og hótað munnlega.
Sem framar greinir barst lögreglu ný beiðni um nálgunarbann hinn 13. maí 2015. Vísað var til sams konar röksemda og áður, en jafnframt höfðu þá fleiri skilaboð borist frá varnaraðila til brotaþola. Kemur fram að lögreglustjóri telji ljóst að varnaraðili hafi tekið upp fyrri háttu og ónáði og hóti brotaþola bæði með Facebook skilaboðum og sms-skilaboðum. Tekin hafi verið afrit af sms-skilaboðum sem gengið hefðu milli varnaraðila og brotaþola á tímabilinu 2. til 10. maí sl. Samkvæmt kröfu lögreglustjóra séu í sumum þessara skeyta ummæli sem lögreglustjóri telji að flokka verði sem hótanir um ófarnað og rökstyðji nauðsyn þess að sett verði á nálgunarbann. Þá liggi fyrir skilaboð frá varnaraðila til brotaþola á Facebook 20. febrúar og 11. maí 2015, þar sem fram komi afar meiðandi ummæli, hann óski henni ófarnaðar, hóti að rústa lífi hennar og að ófriði hans á hendur henni muni aldrei linna. Þetta telji lögreglustjóri að rökstyðji nauðsyn þess að sett verði á nálgunarbann.
Síðasta nálgunarbann hafi runnið út 17. janúar 2015 og telji lögreglustjóri að af gögnum málsins sé ljóst að eftir að það hafi runnið út hafi ónæði brotaþola vegna ófriðar af hálfu varnaraðila versnað til muna og meðal annars komið fram ummæli sem brotaþoli gæti ekki tekið öðruvísi en sem hótunum.
Lögreglustjóri telji, með hliðsjón af fram kominni beiðni, forsögu þessa máls, fyrri ofbeldisfullri hegðun varnaraðila gagnvart brotaþola og skilaboðum sem brotaþoli hafi nýverið fengið um yfirvofandi áframhaldandi ófrið af hálfu varnaraðila, að skilyrði a- og b-liðar 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt og rökstudd hætta sé á að varnaraðili muni halda áfram að brjóta gegn og raska friði brotaþola, en í skilningi laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, njóti hún fulls athafnafrelsis. Telji lögreglustjóri að verndarhagsmunir standi til þess að tryggja brotaþola þann rétt að geta hafst við á heimili sínu og barns síns og geta verið óhult gagnvart áframhaldandi og yfirvofandi ófriði af hálfu varnaraðila. Með vísan til 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 sé ekki talið unnt að vernda friðhelgi brotaþola með öðrum og vægari hætti en með nálgunarbanni og ekki sé talið skipta máli að þau búi hvort í sínum landshluta.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Verði ekki á það fallist krefjist hann þess til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími. Vísar varnaraðili meðal annars til þess að ekki séu til staðar skilyrði laga nr. 85/2011 fyrir því að krafa sóknaraðila nái fram að ganga. Þá geti sms-skilaboð aldrei orðið grundvöllur nálgunarbanns gagnvart varnaraðila, enda þurfi varnaraðili og brotaþoli að hafa samskipti sín í milli vegna barns þeirra.
Niðurstaða
Samkvæmt 4. gr. laga nr.
85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef
rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á
annan hátt friði brotaþola eða hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola
skv. a-lið. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi til
laganna segir, að við mat á því hvort hætta verði talin á því að maður muni fremja refsivert
brot eða á annan hátt raska friði brotaþola, verði að líta til fyrri háttsemi
þess manns sem krafan beinist gegn og samskipta hans við þann sem vernda á með
banninu. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga skal líta til þess hvort
sakborningur hafi áður þurft að sæta nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili
sem og þess hvort háttsemi hans á fyrri stigum hafi verið þannig háttað að
hætta er talin á að hann muni fremja háttsemi sem lýst er í 4. gr.
Fyrir liggur að varnaraðili og brotaþoli bjuggu saman þar til upp úr slitnaði haustið 2012 og eiga þau saman eitt barn. Með hliðsjón af því er óhjákvæmilegt að varnaraðili og brotaþoli hafi þurft vegna barnsins að eiga með sér samskipti af einhverju tagi og verður ekki framhjá því litið þegar sms-samskipti þeirra eru virt. Á hinn bóginn verður og að líta til þess að varnaraðili hefur verið sakfelldur fyrir endurteknar hótanir, líkamsárás og margendurtekin brot gegn nálgunarbanni gagnvart brotaþola. Þá liggur fyrir að brotaþola voru send ógnandi sms-skilaboð úr síma varnaraðila eftir að síðasta nálgunarbanni lauk og þau skilaboð má skilja sem hótun. Loks liggur fyrir að heimili brotaþola er ekki í nágrenni við heimili varnaraðila og verður því sú frelsisskerðing sem farið er fram á að hann sæti ekki talin veruleg samanborið við þá hagsmuni sem brotaþoli hefur af því að varnaraðili láti af áreiti sína gagnvart henni.
Að því virtu sem hér hefur verið rakið er fallist á það með sóknaraðila að fullnægt sé skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni á þann veg sem greinir í úrskurðarorði.
Þóknun verjanda varnaraðila, Óskars Sigurðssonar hrl., og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., þykir hæfilega ákveðin, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í úrskurðarorði. Þóknunin greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar, sbr. 3. mgr. 38. gr. og 3. mgr. 48. gr., sbr. 216. gr. laga nr. 88/2008.
Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Vesturlandi frá 15. maí 2015 um að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni í eitt ár, eða til og með 15. maí 2016, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...],[...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimili hennar, mælt frá miðju hússins. Enn fremur er lagt bann við að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, vinnustað hennar, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni sms-skeyti eða tölvupóst, riti á síður hennar á samskiptasíðum á internetinu, eða setji sig á annan hátt í samband við hana til og með 15. maí 2016.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, 380.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, 180.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.