Hæstiréttur íslands
Mál nr. 83/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Dómari
- Vanhæfi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2017 þar sem Ásmundur Helgason héraðsdómari vék sæti í máli varnaraðila gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði Málsóknarfélag hluthafa Landsbanka Íslands mál á hendur sóknaraðila 12. ágúst 2015. Með það mál fór fyrrnefndur dómari og vísaði hann því frá dómi með úrskurði 9. mars 2016. Með dómi Hæstaréttar 2. maí sama ár í máli nr. 235/2016 var úrskurðurinn staðfestur. Í kjölfarið var þetta mál og tvö önnur höfðuð á hendur sóknaraðila af þremur málsóknarfélögum, en félagsmenn í þeim munu vera þeir sem áttu aðild að fyrstnefnda félaginu.
Þegar tekið er til varna í máli sem rekið er eftir lögum nr. 91/1991 athugar dómari hvort gallar séu á því að formi til sem varðað geta frávísun þess án kröfu eða leysir úr slíkri kröfu, ef hún er höfð uppi, áður en hann fjallar um mál að efni til, sbr. 1. og 2. mgr. 100. gr. laganna. Þótt dómari hafi við slíka úrlausn fjallað um atriði sem einhverju geta skipt þegar mál er dæmt efnislega er þess að gæta að hann er ekki bundinn af þeirri úrlausn sinni. Af þeirri ástæðu stendur g. liður 5. gr. laga nr. 91/1991 ekki til þess að dómari, sem vísað hefur máli frá dómi, sé að lögum vanhæfur til að fara með nýtt mál um sama sakarefni. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er litið til þess að samhliða máli þessu eru rekin tvö önnur samkynja mál.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðili, Málsóknarfélag hluthafa Landsbanka Íslands II, greiði sóknaraðila, Björgólfi Thor Björgólfssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2017.
Í máli þessu, sem höfðað var af stefnanda, Málsóknarfélagi hluthafa Landsbanka Íslands, gerir stefnandi þá kröfu að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda, Björgólfs Thors Björgólfssonar, á tjóni félagsmanna stefnanda, vegna þess að þeir voru í þeirri stöðu að hlutabréf sem þeir, eða aðilar sem þeir leiða rétt sinn frá, eignuðust í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 27. janúar til 30. júní 2006, urðu verðlaus þann 7. október 2008.
Stefnandi rökstyður málatilbúnað sinn í stuttu máli á þann veg að félagsmenn hans hefðu ekki keypt hlutabréf í Landsbankanum á umræddu tímabili ef upplýst hefði verið um umfangsmiklar lánveitingar bankans til stefnda og félaga sem honum tengdust. Telur stefnandi að upplýsingar þessar hefðu átt að koma fram í ársreikningi bankans fyrir rekstrarárið 2005, sem birtur var 27. janúar 2006. Einnig byggir stefnandi á því að félagsmenn hans hefðu selt hlutabréf sín ef upplýst hefði verið að Landsbanki Íslands hf. lyti yfirráðum Samson eignarhaldsfélags ehf., en stefnandi byggir á því að sú staða hafi verið uppi frá 30. júní 2006 og allt til þess að bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu 7. október 2008. Telur stefnandi að stefndi beri ábyrgð á því að félagsmenn stefnanda hafi byggt ákvörðun sína um kaup hlutabréfanna og að vera áfram hluthafar í Landsbanka Íslands hf. eftir 30. júní 2006, á röngum og ófullnægjandi upplýsingum. Er á því byggt af hálfu stefnanda að stefndi hafi vitað eða mátt vita að upplýsingar um tengsl og lánveitingar bankans til hans, sem og um yfirráð Samson eignarhaldsfélags ehf. á bankanum, væru mikilvægar upplýsingar fyrir afstöðu félagsmanna stefnanda í þessu efni. Þá er á því byggt að hefðu þeir fengið réttar upplýsingar um þessi atriði hefðu þeir ekki orðið fyrir tjóni vegna kaupa og eignarhalds á hlutabréfum í bankanum. Tjón þeirra sé því afleiðing af þeirri saknæmu og ólögmætu háttsemi stefnda, sem nánar er lýst í stefnu.
Félagsmenn stefnanda voru allir félagsmenn í málsóknarfélagi sem höfðaði mál á hendur stefnda 12. ágúst 2015, mál nr. E-3540/2015. Þar var eins og í þessu máli krafist viðurkenningar á skaðbótaskyldu stefnda á tjóni félagsmanna þess félags vegna hlutabréfa sem þeir, eða aðilar sem þeir leiddu rétt sinn frá, áttu í Landsbanka Íslands hf. 7. október 2008. Í kröfugerðinni í eldra málinu var vísað til tiltekinna upplýsinga, sem stefnandi taldi að stefndi hefði vanrækt að veita, og til athafna sem talið var að hann hafi borið að grípa til en ekki gert. Voru það í meginatriðum sömu atriðin og viðurkenningarkrafa stefnanda í nýja málinu er reist á.
Undirritaður dómari kvað upp úrskurð 9. mars 2016 í eldra málinu þar sem fallist var á kröfu stefnda um að vísa bæri málinu frá dómi. Byggðist úrskurðurinn á því að ekki lægi fyrir að félagsmenn málsóknarfélagsins hefðu lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr viðurkenningarkröfum sínum, þar sem ekki hefði verið gerð viðhlítandi grein fyrir því tjóni sem félagsmennirnir áttu að hafa orðið fyrir vegna ætlaðrar vanrækslu stefnda. Í úrskurðinum sagði meðal annars að ekki yrði varpað á stefnda að leiða líkum að því að félagsmenn málsóknarfélagsins hefðu hvorki selt bréf í Landsbanka Íslands né látið hjá líða að kaupa þau, eins og haldið væri fram í stefnu, en með því væri stefnandi leystur undan því að færa rök fyrir því að hann ætti lögvarða hagsmuni af úrlausn viðurkenningarkrafna sinna. Þá var á það bent að ef fallist yrði á röksemdir stefnanda yrði að leggja til grundvallar að við birtingu þeirra upplýsinga, sem málsóknarfélagið teldi að stefndi hefði vanrækt að birta, hefði dregið verulega úr áhuga fjárfesta á því að kaupa hlutabréf í bankanum, auk þess sem söluþrýstingur á þeim hefði aukist með þeim afleiðingum að verð hlutabréfanna hefði lækkað. Eintakir fjárfestar í hópi félagsmanna málsóknarfélagsins kynnu að hafa selt hluti í bankanum frá þeim tíma og allt til þess að bankinn féll í október 2008. Þannig mætti reikna með því að einhverjir félagsmanna málsóknarfélagsins hafi hagnast af því að stefndi lét hjá líða að gera það sem málsóknarfélagið telur að honum hafi verið skylt að gera. Aftur á móti taldi dómari að áskilnaði 19. gr. a í lögum nr. 91/1991 væri fullnægt.
Stefnandi í eldra málinu kærði framangreindan frávísunarúrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar. Með dómi réttarins frá 2. maí 2016 í málinu nr. 235/2016 var hinn kærði frávísunarúrskurður staðfestur. Sú niðurstaða réttarins var reist á því að sá háttur sem hafður var á kröfugerð stefnanda væri í andstöðu við 1. og 2. mgr. 19. gr. a í lögum nr. 91/1991, þar sem málsástæður að baki kröfugerðinni væri ekki einsleit fyrir alla félagsmenn málsóknarfélagsins. Þá var ekki talið að varkrafa stefnanda fullnægði kröfu 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýra kröfugerð, auk þess sem hún væri sama marki brennd og aðrar kröfur hans að röksemdir að baki henni væri ekki einsleitar, sbr. 1. og 2. mgr. a í sömu lögum. Í dóminum var ekki tekin afstaða til þess hvort félagsmenn stefnanda hefðu lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. áskilnað 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Með því máli sem stefnandi hefur nú höfðað telur stefnandi að bætt hafi verið úr þeim annmörkum sem Hæstiréttur Íslands sá á málshöfðun í fyrra málinu. Um það segir í stefnu að í fyrra málinu hafi allir félagsmenn málsóknarfélagsins verið hluthafar í Landsbanka Íslands hf. 7. október 2008, en ekki hafi verið gerður greinarmunur á hluthöfum eftir því hvenær þeir eignuðust hlutabréf sín. Hafi sumir félagsmanna byggt bótagrundvöll sinn á því að þeir hefðu selt hlutabréf sín ef þeir hefðu fengið réttar upplýsingar en aðrir á þeim grundvelli að þeir hefðu ekki keypt bréfin. Í þessu máli væri aðild félagsmanna í stefnanda hins vegar önnur. Þeir einir eigi aðild að stefnanda sem eignuðust hlutabréf í bankanum frá 27. janúar 2006 til 30. júní 2006, eða aðilar sem leiði rétt sinn frá aðila sem eignast hafi hlutabréf á þessum tíma.
Stefndi hefur krafist þess að máli þessu verði vísað frá dómi. Frávísunarkrafan er reist á ýmsum atriðum, þ. á m. því að félagsmenn stofnanda skorti lögvarða hagsmuni auk þess sem málatilbúnaður stefnanda fullnægi ekki skilyrðum 19. gr. a í lögum nr. 91/1991.
Stefnandi telur að sá héraðsdómari sem kvað upp úrskurðinn 9. mars 2016 í fyrra málinu sé á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 vanhæfur til að fara með það mál sem hér er til úrlausnar. Helgast það af því að dómarinn hafi með úrskurðinum tekið afstöðu til efnisatriða sem séu hin sömu og í þessu máli, áður en lokið hefur verið við að leggja fyrir dóminn sönnunargögn og röksemdir fyrir kröfu.
Niðurstaða
Samkvæmt g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður en greinir í öðrum stafliðum greinarinnar sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Þessa reglu verður að skýra með hliðsjón af 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í því efni skiptir ekki aðeins máli að dómari sé í reynd óhlutdrægur heldur einnig að hlutlægt séð líti svo út að hann sé það.
Þegar dómari fær mál til úrlausnar, sem áður hefur komið til kasta hans í sama dómarastarfi, getur hann orðið vanhæfur á framangreindum grundvelli. Helgast það af því að hafi hann á fyrri stigum tekið afstöðu til efnisatriða í málinu, sem hann á síðan að dæma um, er almennt hætta á því að hann hafi þegar gert upp hug sinn um það atriði. Jafnvel þó að ný gögn styðji öndverða niðurstöðu getur dómarinn átt erfitt með að endurskoða hug sinn við þessar aðstæður.
Þegar atvik eru með þessum hætti hefur Mannréttindadómstóll Evrópu í ákveðnum tilvikum talið það fara í bága við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hafi dómari ekki vikið sæti við síðari umfjöllun um sama efnisatriði. Um það má m.a. vísa til dóms réttarins frá 24. maí 1989 í máli Hauschildt gegn Danmörku. Er þá einkum litið til þess hvert hafi verið umfang og eðli afskipta dómara af málinu á fyrri stigum, eins og síðari dómaframkvæmd réttarins gefur til kynna. Sérstök sjónarmið eru talin eiga við þegar mál er endurupptekið eða í þeim tilvikum þegar áfrýjunardómstóll fellir dóm undirréttar úr gildi og vísar málinu aftur til þangað til nýrrar meðferðar, sbr. t.d. dóma mannréttindadómstólsins frá 26. september 1995 í máli Dinnet gegn Frakklandi og frá 10. júní 1996 í máli Thomann gegn Sviss. Hér á landi hefur verið leyst með svipuðum hætti úr álitaefnum um hæfi dómara þegar dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað, sbr. ítrekaða dómaframkvæmd, t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá 14. apríl 2015 í málinu nr. 244/2015. Hefur þá verið látið við það sitja að vísa til þess að dómari sé ekki bundinn af fyrri efnisúrlausn.
Í fyrirliggjandi máli er dómarinn vissulega ekki bundinn af niðurstöðu sinni í úrskurðinum frá 9. mars 2016. Eftir sem áður verður ekki fram hjá því litið að í honum tók dómarinn afdráttarlausa afstöðu til grundvallaratriða í málatilbúnaði málsóknarfélagsins, sem Hæstiréttur Íslands hefur ekki fjallað um, og fyrir liggur að taka verður afstöðu til í fyrirliggjandi máli milli að meginstofni til sömu aðila. Snúa þessi grundvallaratriði ekki aðeins að formlegri framsetningu málatilbúnaðar stefnanda heldur einnig að efnislegum forsendum fyrir mögulegri skaðabótaábyrgð stefnda og sönnunarbyrði í málinu. Að teknu tilliti til þess sem rakið hefur verið telur dómari því að umfang og eðli fyrri afskipta hans af máli stefnanda á hendur stefnda geri það að verkum að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa. Telst dómari því vanhæfur til þess að fara með fyrirliggjandi mál samkvæmt g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 og víkur því sæti í því.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ásmundur Helgason héraðsdómari víkur sæti í máli þessu.