Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-145

Lögmannafélag Íslands (Óttar Pálsson lögmaður)
gegn
Jóni Steinari Gunnlaugssyni (sjálfur)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lögmaður
  • Stjórnsýslunefnd
  • Áminning
  • Aðild
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr., sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari, Ása Ólafsdóttir prófessor og Eggert Óskarsson fyrrverandi héraðsdómari.

Með beiðni 30. apríl 2019 leitar Lögmannafélag Íslands eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. sama mánaðar í málinu nr. 511/2018: Jón Steinar Gunnlaugsson gegn Lögmannafélagi Íslands, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Jón Steinar Gunnlaugsson leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að ógiltur verði úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna þar sem honum var gert að sæta áminningu vegna framgöngu sinnar sem lögmaður í samskiptum við þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur. Hafði dómstjórinn leitað til leyfisbeiðanda vegna umræddra samskipta og leyfisbeiðandi í kjölfarið lagt fram kvörtun fyrir úrskurðarnefndina á hendur gagnaðila, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu gagnaðila. Landsréttur taldi á hinn bóginn að ekki væri fyrir hendi nægilega traust lagaheimild fyrir leyfisbeiðanda til að koma fram viðurlögum gegn félagsmanni með því að leggja fram kvörtun fyrir úrskurðarnefndina og tók kröfu gagnaðila til greina með framangreindum dómi.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Vísar hann til þess að með dómi Landsréttar sé stoðum kippt undan eftirlitshlutverki leyfisbeiðanda með því að siðareglum sé fylgt og fái dómurinn að standa óhaggaður muni hann hafa umtalsverð áhrif á hlutverk leyfisbeiðanda til framtíðar og stöðu lögmanna í réttarkerfinu. Ekki hafi áður reynt á sambærilegt ágreiningsefni fyrir Hæstarétti. Þá leiði af niðurstöðu dómsins að álitamál muni rísa um réttaráhrif þeirra úrskurða sem þegar hafa gengið í málum fyrir úrskurðarnefndinni sem leyfisbeiðandi hefur átt aðild að til sóknar.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa verulegt almennt gildi um skýringu 27. gr. laga nr. 77/1998. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.