Hæstiréttur íslands
Mál nr. 734/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Vextir
- Viðbótarkrafa
- Fullnaðarkvittun
- Endurgreiðsla ofgreidds fjár
|
|
Fimmtudaginn 27. mars 2014. |
|
Nr. 734/2013.
|
Lífland ehf. (Þórarinn V. Þórarinsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging. Vextir. Viðbótarkrafa. Fullnaðarkvittun. Endurgreiðsla ofgreidds fjár.
L ehf. og LÍ hf. gerðu með sér viðskiptasamning um reikningslánalínu 11. maí 2005 þar sem LÍ hf. skuldbatt sig til að hafa til reiðu fyrir L ehf. reikningslánalínu að fjárhæð 80.000.000 krónur. Í samningnum kom fram að innan þeirra marka væri L ehf. heimilt að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum svo og nánar tilgreindum erlendum gjaldmiðlum. Var samningnum breytt nokkrum sinnum, m.a. til hækkunar á lánsfjárhæð. Aðilar gerðu á ný með sér lánssamning 18. september um fjölmyntalán í erlendum gjaldmiðlum. Var andvirði lánsins ráðstafað til greiðslu á lánum L ehf. samkvæmt reikningslánalínunni miðað við 15. ágúst 2008. Viðauki var gerður við lánssamninginn frá 2008 á árinu 2011 þar sem láninu var breytt í lán í íslenskum krónum og höfuðstóll þess lækkaður um 25%. Þá voru lánssamningar samkvæmt reikningslánalínu endurútreiknaðir í lok árs 2011 og inneign L ehf. samkvæmt þeim endurútreikningi ráðstafað til lækkunar á lánssamningnum frá árinu 2008. Við endurútreikninginn var miðað við að lánin skyldu bera vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. L ehf. taldi að hann hefði með lánssamningnum frá 2008 greitt L hf. meira en hann skuldaði samkvæmt samningnum um reikningslánalínu. Höfðaði hann því mál og krafði L hf. um þá fjárhæð sem hann taldi sig hafa ofgreitt. Var talið að hver lánshluti sem stofnað hefði verið til á grundvelli samningsins um reikningslánalínu hefði verið sjálfstætt lán er markast hefði af þeim ramma sem samningurinn hefði sett. Með vísan til tilurðar skuldbindinga L ehf. samkvæmt samningnum, tilgreiningu þeirra í stofnskjölum einstakra lánveitinga og þess hvernig þær hefðu reglulega verið gerðar upp var fallist á það með L ehf. að lán hans samkvæmt samningnum hefðu í raun verið í íslenskum krónum, tengd við gengi erlendra gjaldmiðla þannig að í bága hefði farið við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Hins vegar hefði vaxtaviðmiðun samningsins um lánshluta í íslenskum krónum, sem miðaði við REIBOR-vexti að viðbættu umsömdu álagi, verið lögmæt. Að því er varðaði það álitaefni hvort L hf. hefði verið heimilt að krefja L ehf. um viðbótargreiðslu vegna mismunar á umsömdum vöxtum sem hann hafði þegar greitt af láninu og vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 var vísað til sjónarmiða sem rakin voru í tilgreindum dómum Hæstaréttar um heimild til að víkja frá meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi, sem hefur fengið hefði minna greitt en hann hefði átt rétt til, ætti kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt hefði verið. Var ekki talið að slík festa hefði verið komin á við greiðslu afborgana og vaxta af einstökum lánshlutum að efni væru til að víkja frá meginreglunni. Hefði L hf. því verið rétt við endurútreikninginn að taka mið af viðbótarkröfu sinni um vexti, en vextir samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 hefðu verið lægri en þeir vextir sem aðilar sömdu um samkvæmt samningnum um reikningslánalínu. Þá þóttu önnur atriði sem L ehf. bar við til stuðnings kröfu sinni ekki leiða til þess að hún yrði tekin til greina. Var L hf. því sýknaður af kröfu L ehf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. nóvember 2013. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 98.711.604 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. nóvember 2011 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 78.381.400 krónur eða aðra lægri fjárhæð með dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu greinir. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lífland ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2013.
I.
Mál þetta, sem var dómtekið 10. september sl., er höfðað 26. nóvember 2012 af Líflandi ehf., Brúarvogi 1-3 í Reykjavík, gegn Landsbankanum hf., Austurstræti 11 í Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 98.941.241 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 4. nóvember 2011 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða honum 78.381.400 krónur eða aðra lægri fjárhæð að mati dómsins með sömu dráttarvöxtum og í aðalkröfu. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
II.
Stefnandi, sem þá bar heitið Geri ehf., gerði samning við forvera stefnanda, Landsbanka Íslands hf., 11. maí 2005 um svonefnda reikningslánalínu. Samningur þessi fól í sér skuldbindingu af hálfu bankans um að hafa til reiðu fyrir stefnanda „reikningslánalínu að fjárhæð kr. 80.000.000,-“. Í samningnum kom fram að innan þeirra marka væri lántaka heimilt að taka lán hjá bankanum „í íslenskum krónum svo og öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem bankinn á viðskipti með“. Mælt var fyrir um það í 3. gr. samningsins að hver lánshluti teldist sjálfstætt lán og að hámarkslánstími hans takmarkaðist af gildistíma samningsins. Nánar var kveðið á um lánaskilmála í samningnum, svo sem um það hvernig standa bæri að útgreiðslu lánsfjárins, endurgreiðslu lána, tryggingar og fleira. Um útborgun lánsins sagði meðal annars í grein 4.1 að undirrituð lánsbeiðni skyldi fylgja beiðni um einstaka lánshluta, en í grein 4.2 var mælt fyrir um hvað skyldi koma fram í lánsbeiðni. Þá var kveðið á um það í grein 4.3 að þegar banki hefði fengið lánsbeiðni í hendur skyldi lántaka send staðfesting á lántökunni og bar honum að gera athugasemd við hana tafarlaust. Ef engar athugasemdir bærust skyldi lántaki undirrita staðfestinguna og endursenda með símbréfi og senda frumrit í pósti. Hver lánshluti átti að greiðast inn á reikning lántaka „miðað við kaupgengi hverrar myntar hjá bankanum tveimur gjalddögum fyrir útborgunardag, sbr. gr. 4.6. Þá var í grein 7.1 mælt fyrir um það að væri um lánshluta í erlendri mynt að ræða greiddi lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga. Þó var kveðið á um það að heimilt væri að greiða „í lántökumynt“. Um vaxtakjör var fjallað í 5. gr. samningsins. Þar kemur fram að lánshlutar, sem teknir væru í íslenskum krónum, bæru REIBORvexti að viðbættu 1,65% álagi, en lánshlutar í erlendum gjaldmiðlum bæru LIBORvexti, einnig með 1,65% álagi.
Á næstu árum gerðu aðilar ýmsar breytingar á samningnum, meðal annars á hámarksfjárhæð, gildistíma, álagi á vexti og tryggingum. Síðasta breytingin á samningnum var gerð 18. febrúar 2008, en þá var hámarkslánsfjárhæð komin í 185 milljónir króna og gildistími samningsins framlengdur til 15. apríl 2009. Lánsskuldbindingar stefnanda, sem áttu rætur að rekja til þessa samnings, fengu númerið 2982 í kerfum bankans.
Stefnandi kveðst hafa dregið átta sinnum á lántökuheimildina samkvæmt fyrrgreindum samningi á árinu 2005 og hafi lántakan samtals numið 146 milljónum króna. Auk þess hafi hann greitt umsamda vexti með ádrætti á reikningslánalínuna á fjórum vaxtagjalddögum í desember 2005 og í janúar, febrúar og maí 2006, samtals að fjárhæð 4.165.488 krónur. Heildarlántaka hans hafi því numið samtals 150.165.488 krónum þegar lánið hafi verið gert upp 15. ágúst 2008 með nýrri lántöku hjá bankanum.
Stefndi lýsir ádrætti á reikningslánalínuna með öðrum hætti. Hann kveður stefnanda hafa dregið nokkuð oft á viðskiptasamninginn og að skuldbindingar félagsins séu í raun 27 sjálfstæð lán. Hver ádráttur hafi samkvæmt samningnum átt að gilda í 12 mánuði eða í styttri tíma og hafi lántaki jafnan átt að greiða höfuðstól ásamt áföllnum vöxtum í einu lagi á gjalddaga. Því hafi ekki verið gert ráð fyrir sérstökum vaxtagreiðslum. Fyrsti ádráttur stefnda hafi farið fram 12. maí 2005. Þar sem lengd lánstímabilsins hafi jafnan verið stutt, og margar fremur lágar fjárhæðir hafi verið dregnar, hafi orðið að framlengja hvern og einn ádrátt. Það hafi verið gert með nýjum ádrætti eða nýjum legg, eins og það er kallað í gögnum málsins. Síðustu ádrættirnir hafi átt sér stað 22. ágúst 2007 (leggir 44 til 46), en með þeim hafi leggir 41 til 43 verið greiddir. Stefndi heldur því fram að í reynd hafi aðeins þau þrjú lán, sem mynda leggi 44 til 46, flust yfir til sín með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Hann kveður samanlagða ádrætti stefnanda, ásamt áföllnum ógreiddum vöxtum 15. ágúst það ár, hafa numið samtals 166.806.628 krónum, en ekki 150.145.488 krónum eins og stefnandi haldi fram.
Af gögnum málsins má ráða að fyrrgreindir leggir 44 til 46 hafi verið 25% í evrum, 25% í svissneskum frönkum og 50% í japönskum jenum, allt í samræmi við lánsbeiðni dags. 21. ágúst 2007. Þetta lán var framlengt fimm sinnum með nýjum lánsbeiðnum, síðast 12. ágúst 2008 en þá var gjalddagi ákveðinn 15. nóvember 2008.
Auk framangreinds samnings um reikningslánalínu munu aðilar samningsins hafa gert með sér sams konar samning í júní 2008 um 40 milljóna króna lánalínu. Samkvæmt óundirrituðu og ódagsettu afriti samningsins átti hann að taka gildi við undirritun og gilda til 15. ágúst 2008. Stefnandi kveður þennan samning hafa verið meðhöndlaðan sem viðbótarsamning við fyrri samning um reikningslánalínu. Ekki hafi verið dregið á samninginn heldur hafi honum verið ætlað að standa sem skuldbinding á móti hækkun sem hafi leitt af gengistengingu útistandandi lána umfram lántökuheimild eldri samningsins. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda sem kveður síðari samninginn hafa átt að standa sem sjálfstæðan löggerning. Þar sem aldrei hafi verið dregið á samninginn hafi hann verið ógiltur í janúar 2009, eins og framlögð tölvuskeyti frá þeim tíma gefi til kynna.
Aðilar gerðu á ný lánssamning sem er dagsettur 18. september 2008. Samningurinn var um „fjölmyntalán til [þriggja] ára að jafnvirði: CHF 770.683,- / JPY 146.759.307,- / EUR 472.272,-“. Bar stefnanda að greiða lánið upp í lok lánstímans 19. október 2011, en þó var heimilt að greiða skuldina hraðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá skyldi greiða vexti mánaðarlega.
Með heimild í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með áorðnum breytingum ákvað Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 að skipa Landsbanka Íslands hf. skilanefnd. Hinn 9. sama mánaðar ákvað Fjármálaeftirlitið jafnframt að ráðstafa svo til öllum eignum Landsbanka Íslands hf. til stefnda, sem þá bar heitið Nýi Landsbanki Íslands hf.
Með beiðni um útborgun, dags. 4. nóvember 2008, óskaði stefnandi eftir því við stefnda að fyrrgreint lán samkvæmt samningi, dags. 18. september 2008, yrði greitt út „þann 15/08 2008“. Farið var fram á að fjármununum yrði ráðstafað til uppgreiðslu á láni nr. 0106-2982 og skyldi uppgreiðsla miðast við 15. ágúst 2008. Umbeðnar ráðstafanir munu hafa komið til framkvæmda og fékk lánið númerið 0106-11983. Með þessu voru skuldbindingar stefnanda samkvæmt fyrrgreindum samningi um reikningslánalínu gerð upp.
Viðauki var gerður við framangreindan lánssamning 25. mars 2011. Þar var láninu breytt í lán í íslenskum krónum og höfuðstóll þess lækkaður um 25%. Í honum kemur fram að eftirstöðvum lánsins í erlendum myntum, sem eins og áður námu 472.272 evrum, 770.683 svissneskum frönkum og 146.759.307 japönskum jenum, væri breytt í íslenskar krónur miðað við lokasölugengi viðkomandi gjaldmiðla 30. apríl 2010. Þessar eftirstöðvar jafngiltu þá 373.553.673 krónum sem urðu 280.165.255 krónur eftir að hafa verið lækkaðar um 25%. Áfallnir vextir á lánstímanum námu 11.381.763 krónum og verðbætur 3.570.962 krónum. Stefnandi hafði greitt 11.173.273 krónur í vexti af láninu. Miðað við þessar forsendur var nýr höfuðstóll lánsins ákveðinn 283.944.707 krónur sem skyldi bera breytilega ársvexti eins og þeir væru ákveðnir af stefnda hverju sinni og greiðast með jöfnum mánaðarlegum afborgunum næstu 20 árin. Þá var lánsfjárhæðin bundin við vísitölu neysluverðs. Stefnandi gerði með bréfi 22. mars 2011 fyrirvara af sinni hálfu um betri rétt.
Með bréfi lögmanns stefnanda 23. júní 2011 var vikið að framangreindum lántökum stefnanda og þau sett í samhengi við málavexti í hæstaréttarmáli nr. 155/2011, Landsbankinn hf. gegn þrotabúi Motormax ehf. Þar er því haldið fram að skuldbinding samkvæmt reikningslánalínu nr. 0106-2982 hafi borið öll sömu einkenni og lánssamningurinn sem fjallað var um í fyrrgreindu hæstaréttarmáli. Þar er jafnframt vikið að lánssamningnum 18. september 2008 og því haldið fram að litið hafi verið á hann sem framlengingu á fyrri lánssamningi. Hafi lánsfjárhæðin verið reiknuð út af bankanum miðað við tengingu lánsfjárhæðar við gengi tilgreindra erlendra gjaldmiðla 15. ágúst 2008. Hafi sú tenging verið „ólögmæt og staða lánsins því ofreiknuð sem svaraði hækkun á gangverði umræddra mynta frá því lánið var við þær tengt“. Lánsfjárhæðin samkvæmt samningnum frá 18. september 2008 hafi því að sama skapi verið of há. Af hálfu stefnanda var óskað eftir því að hlutur félagsins yrði réttur með því að bankinn féllist á að endurgreiða honum fjárhæð sem svaraði til þess „sem staða lánssamnings nr. 0106-2982 var ofreiknuð“.
Með tölvuskeyti frá stefnda 3. október 2011 var stefnanda tilkynnt að lán nr. 2982 hefði verið endurútreiknað ásamt fleiri lánum félagsins. Næmi inneign stefnanda vegna fyrrgreinds láns 64.215.059 krónum sem yrði ráðstafað til lækkunar á láni nr. 11983. Í bréfi stefnda til stefnanda 11. október 2011 var tekið fram að ofangreint lán nr. 2982 hefði kveðið á um ólögmæta gengistryggingu. Þá sagði þar að eftirstöðvar lánsins hefðu verið endurútreiknaðar miðað við lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birti. Hefði bankinn ákveðið að reikna útlánsvexti Seðlabanka Íslands á inneignir frá uppgreiðsludegi lánsins til þess dags er lánið var endurútreiknað. Samkvæmt útreikningum næmi inneign stefnanda 64.215.059 krónum, eins og áður hafði verið tilkynnt, og hefði henni verið ráðstafað á lán nr. 106-36-11983.
Með bréfi 17. október 2011 upplýsti stefnandi að hann myndi greiða upp lán nr. 11983 miðað við stöðu þess samkvæmt endurútreikningi bankans en gerði jafnframt áskilnað „um betri rétt sér til handa ef fordæmisgefandi dómar gefa til kynna að eftirstöðvar lána hafi verið ofmetnar í útreikningum bankans“. Kom þar fram að stefnandi myndi meta lögmæti útreikningsforsendna bankans og áskildi sér rétt til þess að endurkrefja hann um það sem kynni að hafa vera ofgreitt. Stefnandi greiddi upp fyrrgreint lán nr. 11983 4. nóvember 2011 með 227.422.588 krónum samkvæmt útreikningi stefnda frá 2. nóvember sama ár ásamt 2% uppgreiðslugjaldi að fjárhæð 4.548.852 krónur.
Með bréfi, dags. 16. apríl 2012, lýsti stefnandi þeirri afstöðu sinni að lántakan samkvæmt lántökubeiðni 4. nóvember 2008 hefði verið takmörkuð við fjárhæð sem svaraði til uppgreiðslu á lögmætri stöðu lána samkvæmt samningnum um reikningslánalínuna frá 11. maí 2005. Hafi bankanum því verið óheimilt að ráðstafa hærri fjárhæð til uppgreiðslu þeirra. Á það var bent að heildarlánsfjárhæð 4. nóvember 2008 hefði numið samtals 351.389.442 krónum. Rétt staða lánssamnings um reikningslánalínuna hafi átt að vera 175.914.623 krónur samkvæmt framlögðum útreikningi Talnakönnunar hf. Í því ljósi krafðist stefnandi þess að stefndi endurgreiddi sér 192.144.242 krónur með dráttarvöxtum að frádregnum 93.288.418 krónum er leiddi af 25% lækkun lánsins frá 30. apríl. Með bréfi 29. ágúst 2012 hafnaði stefndi því að stefnandi ætti kröfu á hendur sér vegna ofgreiddrar skuldar á láni nr. 0106-11983.
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á hendur stefnda aðallega á því að lögmæt skuld hans við stefnda hafi hinn 15. ágúst 2008 ekki verið meiri en 150.165.488 krónur sem er samtala þeirra lánshluta sem stefnandi hafi tekið samkvæmt ádráttarheimild samningsins frá 11. maí 2005. Hann kveður enga vexti hafa staðið ógreidda af umræddum lánum 15. ágúst 2008 þegar lánið hafi verið gert upp og greitt með láni samkvæmt nýjum lánssamningi. Af því leiði að öll innheimta stefnda úr hendi stefnanda til lúkningar umræddri skuldbindingu umfram framangreinda fjárhæð hafi verið ólögmæt og því endurkræf frá og með þeim degi með dráttarvöxtum og kostnaði, sbr. 1. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.
Stefnandi vísar til þess að í lánssamningnum, sem stefndi hafi unnið og lagt fyrir stefnanda og undirritaður hafi verið 18. september 2008, hafi verið kveðið á um að samningurinn myndi falla úr gildi viku eftir undirritun, hafi þá ekki verið lögð fram beiðni um útborgun lánsins. Stefnandi hafi fyrst lagt fram slíka beiðni 4. nóvember 2008. Beiðnin hafi því í reynd falið í sér tilboð til handa stefnda um lánsviðskipti samkvæmt skilmálum útborgunarbeiðninnar og áðurgreindra draga að lánssamningi, þó þannig að ákvæði (i) liðar greinar 11.1, sem áskildi uppgreiðslu lánsins um sem svaraði 90 milljónum innan þriggja vikna frá undirritun samningsins, hafi verið fallin niður í ljósi tilgreindra tímamarka. Þessu til sönnunar bendir stefnandi á að stefndi hafi aldrei kallað eftir greiðslu samkvæmt fyrrgreindu ákvæði. Samþykki bankans við beiðninni með þessum formerkjum hafi þannig verið staðfesting á því að um nýjan lánssamning hafi verið að tefla og að stofndagur hans hafi breyst úr því að vera 18. september í það að vera 4. nóvember. Þá hafi umbeðið lán verið veitt tveimur dögum síðar, þ.e. 6. nóvember 2008, samkvæmt ákvæði gr. 1.2 í lánssamningnum. Stefnandi kveðst miða aðalkröfu sína við þá yfirlýstu afstöðu stefnda að um nýtt og lögmætt lán í erlendri mynt hafi verið að ræða og að því hafi verið ráðstafað til uppgreiðslu á kröfu stefnda samkvæmt lánssamningi nr. 2982. Ráðstöfun lánsfjárhæðarinnar hafi þó verið skilyrt; láninu skyldi varið til að greiða upp skuld stefnanda eins og hún hafi verið á láni nr. 2982 eins og það hafi staðið 15. ágúst 2008.
Stefnandi tekur fram að þegar lánið hafi verið tekið og greitt út 6. nóvember 2008 hafi honum ekki verið ljóst að lánaskilmálar stefnda á láni nr. 2982 færu í bága við ákvæði laga nr. 38/2001 um bann við verðtryggingu miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Telur hann raunar að hvorugum aðilanum hafi verið þetta ljóst. Áhættan af ólögmæti skilmálanna hljóti að vera á áhættu stefnda. Stefnandi hafi samkvæmt framangreindu ranglega talið sig vera í skuld við stefnda um þær fjárhæðir í tilgreindum erlendum myntum sem lánasamningurinn, dags. 18. september 2009, greini. Beiðni hans um útgreiðslu lánsins og ráðstöfun hafi hins vegar verið skilyrt og skýr, sbr. það sem þar segi orðrétt: „Vinsamlegast ráðstafið útborgunarfjárhæðinni til uppgreiðslu láns nr. 0106-2982, greiðandi er Geri ehf. Uppgreiðslan miðist við 15.8.2008.“ Stefnandi kveðst því hafa litið svo á að lántaka hans og ráðstöfun á lánsfjárhæðinni væri njörvuð við efndaskyldur á áðurgreindri skuldbindingu eins og hún hafi verið hinn 15. ágúst 2008. Nýja lánið hafi enda speglað skuldbindingu hans á grundvelli þess eldra samkvæmt kröfubréfum bankans. Stefnandi hafi greitt vexti af nýja láninu frá 15. ágúst 2008.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefndi hafi viðurkennt með bréfi, dags. 11. október 2011, að lán nr. 2982 teldist lán í íslenskum krónum sem færi í bága við ákvæði 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi hafi því endurreiknað lánið í samræmi við efnisreglur laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001. Sá endurútreikningur hafi þó verið með þeim annmarka að stefndi hafi reiknað sér vextir frá útborgunardegi lánsins samkvæmt 1. mgr. 4. gr., sbr. 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Samkvæmt þeirri aðferð hafi niðurstaða stefnda orðið sú að stefnandi hafi ofgreitt lánið 15. ágúst 2008 um sem svaraði 64.215.059 krónum. Stefnandi tekur fram að þessi endurreikningur til hækkunar á greiddum og uppgerðum vöxtum, sem ákveðinn hafi verið með lögum nr. 151/2010, fari í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Að fenginni þeirri niðurstöðu telur stefnandi ljóst að stefndi hafi aldrei átt lögvarða kröfu á hendur stefnanda um hærri fjárhæð en svaraði lánum hans til stefnanda í íslenskum krónum talið. Gerir hann áskilnað um endurheimtu ofgreiddra vaxta af láni samkvæmt lánasamningi nr. 2982, en sú ofgreiðsla og þessi fyrirvari hafi að öðru leyti ekki áhrif á kröfugerð hans í þessu máli. Miði stefnandi kröfu sína þannig aðeins við að fá endurheimt það fé sem bankinn hafi knúið fram sér til handa umfram lögmæta stöðu höfuðstóls skuldar hans við bankann eins og hún hafi verið á uppgjörsdegi lánsins 15. ágúst 2008.
Heimild stefnanda til ráðstöfunar lánsfjár samkvæmt láninu, sem til var stofnað 4. nóvember 2008, kveður stefnandi að hafi verið bundin við „uppgreiðslu láns 0106-2982“ eins og fram hafi komið. Að fenginni þeirri niðurstöðu að lánið hafi í reynd verið í íslenskum krónum telur stefnandi blasa við að uppgreiðsla þess hafi hlotið að miðast við sama greiðslueyri. Þegar af þeirri ástæðu sé óhjákvæmilegt að reikna út verðmæti hinna erlendu mynta sem tekin hafi verið að láni með margnefndum lánasamningi. Hafi stefnandi því hlotið að selja myntirnar samkvæmt kaupgengi stefnda við útgreiðslu þess tveimur virkum dögum eftir dagsetningu lántökubeiðni, samanber lánaskilmála í gr. 1.2 og ákvæði þar um í hinni stöðluðu útborgunarbeiðni. Verðmæti lánsins í skiptum aðila hafi því byggst á kaupgengi stefnda þann dag. Miðað við það hafi verðmæti lánsins í íslenskum krónum numið 368.802.860 krónum, sbr. framlagðan útreikning. Verðmæti lánsins hafi því verið 218.637.372 krónum hærra en þurft hafi til að gera upp lögmæta kröfu stefnanda skv. fyrrgreindum lánasamningi. Samkvæmt því hafi 59,28% lántökunnar verið tilefnislaus og ranglega ráðstafað.
Kröfugerð stefnanda er á því reist að stefndi hafi knúið fram greiðslu fyrrgreindrar fjárhæðar á grundvelli ólögmætra viðskiptaskilmála sinna með réttaráhrifum frá 15. ágúst 2008. Lántökubeiðni stefnanda hafi verið takmörkuð við uppgjör á lögmætri kröfu stefnda þann dag. Stefnandi kveður stefnda hins vegar hafa með saknæmum hætti talið stefnanda á að skuldbinda sig fyrir nýju láni til uppgreiðslu þess eldra og haldið því fram að krafa hans væri í erlendum myntum sem hafi jafngilt 368.802.860 íslenskum krónum á lántökudegi. Stefndi hafi ekki látið nýja fjármuni af hendi við lántöku þessa heldur tileinkað sér alla fjárhæðina og fært hana til skuldar hjá stefnanda. Stefnandi byggir á því að framangreindar aðstæður hafi verið með þeim hætti að það teljist beinlínis óheiðarlegt af stefnda að bera fyrir sig lánssamninginn að því er varðar þann hluta lánsfjárhæðarinnar sem hafi verið umfram lögmæta kröfu stefnda eins og hún hafi í raun verið. Að þessu virtu, og með vísan til röksemda fyrir talnalegum forsendum, sem fjallað hafi verið um hér að framan, byggir stefnandi á því að innheimta stefnda á þeim hluta kröfu samkvæmt nefndum lánssamningi, sem hafi verið umfram það sem þurft hafi til að greiða upp lögmæta kröfu stefnanda á stefnda hinn 15. ágúst 2008, hafi farið gróflega í bága við ákvæði 33. gr. laga nr. 7/1936. Stefnanda beri þegar af þeirri ástæðu að endurgreiða honum framangreinda fjárhæð ásamt vöxtum.
Í þessu sambandi andmælir stefnandi þeirri afstöðu, sem komi fram í bréfi stefnda 29. ágúst 2012, þar sem því hafi verið hafnað að efni síðari lánasamningsins hafi takmarkast af efnisatriðum þess fyrri. Þá styður stefnandi kröfu sína enn fremur þeim rökum, að innheimta stefnda á kröfu skv. lánasamningi, dags. 18. september 2008, hafi falið í sér ólögmæta auðgun stefnda til handa á kostnað stefnanda, þar sem stefnandi hafi aldrei fengið í hendur fjármuni samkvæmt honum heldur hafi hann falið í sér einhliða skuldbindingu af hálfu stefnanda um að greiða stefnda tilgreinda fjármuni í erlendri mynt sem á lántökudeginum svaraði til áðurnefndra 368.802.860 króna. Þessum fjármunum hafi stefndi ráðstafað öllum að eigin sögn til uppgreiðslu á margnefndri kröfu miðað við 15. ágúst 2008. Stefnandi telur að tileinkun stefnda á mismun framangreindrar fjárhæðar og réttmætrar kröfu svo og eftirfarandi innheimta vaxta af mismun þessara fjárhæða geti með engu móti talist fela annað í sér en ólögmæta auðgun stefnda til handa. Stefnda beri einnig með vísan til þessa að endurgreiða stefnanda umrædda fjármuni eins og nánar sé rakið í dómkröfum.
Stefnandi kveðst styðja kröfu sína enn fremur við grunnreglur skaðabótaréttar, þar sem hann telur atvik máls vera með þeim hætti að stefnda beri að halda sér skaðlausum af því atferli að fá sig til þess í nóvember 2008 að undirgangast greiðsluskuldbindingu á grundvelli rangrar fullyrðingar um að hin nýja skuldbinding svaraði að fullu til efnda á lögmætri kröfu stefnda á hendur honum eins og hún hafi verið 15. ágúst 2008 og að lánið gengi til greiðslu á téðri kröfu. Gögn málsins og staðfestingar stefnda sjálfs beri með sér að þessi forsenda stefnanda fyrir því að undirgangast að endurgreiða stefnda jafnvirði áðurtalinna 368.802.860 króna í þar tilgreindum erlendum myntum hafi verið röng. Stefndi sé fagaðili á sviði fjármálaþjónustu og hljóti sem slíkur að bera sérstakar skyldur gagnvart viðskiptamönnum sínum um að valda þeim ekki tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti svo sem með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar um kröfur stefnda á hendur þeim.
Stefnandi tekur fram að þótt stefndi kunni að hafa talið að lánssamningar hans með skilmálum um tengingu endurgreiðsluskuldbindingar við gengi erlendra mynta væru heimilir, þá breyti það ekki því að áskilnaður þar um hafi gengið þvert á fortakslaus ákvæði 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga 38/2001. Krafa hans um endurgreiðslu í erlendri mynt miðað við 15. ágúst 2008 hafi því bæði verið saknæm og ólögmæt. Þá hafi krafa hans á hendur stefnanda, um að gera upp kröfuna eins og hún væri í erlendri mynt, verið í andstöðu við lög. Stefnandi telur tjón sitt fólgið í því að hann hafi greitt stefnda samkvæmt kröfu hans 6. nóvember 2008, 218.637.372 krónum hærri fjárhæð en hann hafi átt lögmæta kröfu á. Viðmiðunardagur greiðslunnar sé þó fyrr, þar sem samningur sá er stefndi hafi lagt fyrir stefnanda hafi falið í sér uppgjör miðað við 15. ágúst og frá þeim tíma hafi hann greitt vexti af nýja láninu. Stefnandi telur einu gilda hvernig staðið hafi verið að fjármögnun þessarar greiðslu, stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti krafist hennar og tekið við henni og beri honum því að standa stefnanda skil á þessari fjárhæð ásamt dráttarvöxtum eins og rakið sé í dómkröfu. Stefnandi hafi enda þegar greitt upp lánið og það með fyrirvara um réttmæti fjárhæðar umkrafinnar endurgreiðslu lánsins.
Auk framangreindra málsástæðna byggir stefnandi kröfur sínar á þeirri meginreglu íslensks kröfuréttar að kröfuhafi, sem með röngum útreikningum kröfu sinnar hefur knúið fram of háa greiðslu úr hendi skuldara, skuli endurgreiða skuldaranum ofgreitt fé, hvort sem kröfuhafinn hefur sjálfur verið í góðri trú um rétt sinn eða ekki. Stefnandi telur ljóst að kröfuhafinn hafi í þessum viðskiptum ekki getað talist vera í góðri trú, þar sem skilmálar lánssamninga hans hafi ekki verið lögmætir. Í ljósi ábyrgðar stefnda, sem sérfræðings á fjármálamarkaði, skipti ekki máli í þessu sambandi hvað starfsmenn stefnda hafi haldið um þessi efni. Telur stefnandi að samkvæmt meginreglum kröfuréttarins eigi hann tvímælalaust rétt á leiðréttingu á uppgjörinu við stefnda í samræmi við aðalkröfu sína.
Stefnandi kveður kröfugerð sína í endanlegri mynd byggjast á öllum framangreindum málsástæðum. Í stefnu kemur fram að krafist sé endurheimtu útlagðs kostnaðar stefnanda af vaxtagreiðslum hans til stefnda af þeim hluta láns samkvæmt lánssamningi nr. 11983 sem svari til ofgreiðslu á margnefndri kröfu að fjárhæð 218.637.372 krónur. Hafi framangreind fjárhæð, á lántökudegi 6. nóvember 2008, numið 59,28% af heildarláninu. Lántakan hafi verið tilefnislaus sem svari þeirri fjárhæð og eingöngu til þess að mæta óréttmætum kröfum stefnda. Innheimta hans á vöxtum af láni á þessa fjárhæð hafi því verið jafn óréttmæt og krafa hans um ofgreiðslu á láni nr. 2982, sem hafi svarað fyrrgreindri fjárhæð. Því telur stefnandi að stefnda beri að endurgreiða sér greidda vexti af láni 11983 sem svari nefndu hlutfalli. Eftir skilmálabreytingu á láninu og 25% lækkun þess kveður stefnandi, eftir leiðréttingu kröfugerðar 5. september sl., að lánið hafi þá enn verið 128.072.826 krónum hærra en svarað hafi lögmætri kröfu stefnanda. Hafi sú fjárhæð numið 45,71% af lánsfjárhæðinni svo breyttri og miðist bótakrafa stefnda vegna greiðslu vaxta, verðbóta og uppgreiðslugjalds af láninu frá þeim tíma til 4. nóvember 2011, við þetta hlutfall af téðum greiðslum.
Í endanlegri kröfugerð sinni byggir stefnandi á því að tjón hans vegna ofreiknaðra og ofgreiddra vaxta, verðbóta og dráttarvaxta af láni nr. 11983 hafi numið samtals 35.083.474 krónum þegar hann hafi greitt upp lán sitt hjá stefnda 4. nóvember 2011. Hann krefur stefnda um endurgreiðslu þessara ofteknu vaxta og verðbóta enda séu þessi fjárútlát hans til stefnda óaðskiljanlegur hluti af tjóni hans sem leitt hafi af ranglega innheimtri og ofgreiddri kröfu bankans á hendur honum. Sama gildi um hlutdeild í uppgreiðslugjaldi sem stefndi hafi krafið stefnanda um með stoð í gr. 2.3 í lánssamningum. Sömu málsástæður styðji því kröfu um greiðslu vaxta, verðbóta og uppgreiðslugjalds og kröfu um endurgreiðslu höfuðstóls ofgreiðslunnar. Aðalkrafan samanstandi því af áðurtöldum 128.072.826 krónum en að frádregnum 64.215.059 krónum, sem stefnandi hafði áður viðurkennt að ofgreiddar hefðu verið við uppgjörið 15. ágúst 2008, en að viðbættum áðurgreindum útlögðum vöxtum og verðbótum, sbr. framlagðan útreikning, eða samtals 98.941.241 króna. Við þennan höfuðstól bætir stefnandi dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. l. mgr. 5. gr., laga um vexti og verðbætur frá 4. nóvember 2011 að telja.
Með breytingu á kröfugerð stefnanda, sem lögð var fram í þinghaldi 5. september sl., og hann kveður leiða af útreikningum stefnda á þróun höfuðstóls og greiðslu vaxta af hinum umdeildu lánum, sundurliðast aðalkrafa stefnanda með eftirfarandi hætti:
|
Ofgreitt eftir niðurfellingu 30.4.2010 |
128.072.826 kr. |
|
Vaxtakostnaður af ofgreiðslu til 4.11.2011 |
35.083.474 kr. |
|
Endurgreiddur hluti ofgreiðslu 30.9.2011 |
-64.215.059 kr. |
|
Krafa pr. 4.11.2011 |
98.941.241 kr. |
Verði ekki fallist á þá meginmálsástæðu stefnanda, að lántaka hans samkvæmt lánasamningi 11983 hafi við uppgjör á lánasamningi 2982 jafngilt 368.802.860 krónum, byggir stefnandi enn fremur og til vara á því, að fyrrnefndi lánasamningurinn hafi efnislega falið í sér framlengingu á lánskjörum samkvæmt síðarnefnda samningnum. Ekkert í samskiptum aðila hafi bent til annars en að nýi samningurinn ætti að taka við af hinum eldri með óbreyttum skilmálum. Það styðji þessa ályktun, að ekki verði með góðu móti séð hvernig stefndi hafi átt að vera í færum til þess 6. nóvember 2008 að lána stefnanda erlendar myntir eins og hann haldi fram, sbr. yfirlýsingu Seðlabankans þess efnis að viðskipti á gjaldeyrismarkaði hafi fallið niður í októbermánuði. Því beri að líta svo á að skuldbinding stefnanda samkvæmt samningi 2982 hafi haldist óbreytt allt til þess að henni var skilmálabreytt yfir í íslenskar krónur samkvæmt viðaukasamningum 30. apríl 2010. Framangreind ályktun um eðli réttarsambands aðila leiði fram sömu talnalegu niðurstöðu um tjón stefnanda af ólögmætum kröfum stefnda um ofgreiðslu skuldbindingar hans skv. lánasamningum nr. 2982. Þá styðji það enn þessa ályktun að stefndi hafi í gögnum málsins iðulega vitnað til samninganna sem samhangandi heildar með framangreindri tilvísun.
Varakröfur stefnanda, sem hann lagði fram í þinghaldi 9. apríl 2013 ásamt breyttri aðalkröfu, en var breytt í þinghaldi 5. september sl., kveður hann taka mið af fullyrðingum stefnda um stofnfjárhæð láns stefnanda samkvæmt lánssamningi nr. 106-2928 í greinargerð. Stefnandi sundurliðar varakröfu sína með eftirfarandi hætti samkvæmt breytingu á kröfugerð sem lögð var fram 5. september 2013:
|
Ofgreitt eftir niðurfellingu 30.4.2010 |
111.218.142 kr. |
|
Vaxtakostnaður af ofgreiðslu til 4.11.2011 |
31.378.316 kr. |
|
Endurgreiddur hluti ofgreiðslu 30.9.2011 |
-64.215.059 kr. |
|
Krafa pr. 4.11.2011 |
78.381.399 kr. |
Um lagarök vísar stefnandi til ólögfestra meginreglna íslensks kröfuréttar um endurheimtu ofgreiðslna og sjónarmiða um ólögmæta auðgun. Enn fremur byggir hann á sakarreglunni og 33. gr. laga nr. 7 frá 1936 um samningagerð, umboð og ógilda löggerninga. Kröfu sína um dráttarvexti kveður hann reista á 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá styðjist krafa um málskostnað við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er því haldið fram að kröfugerð stefnanda sé í eðli sínu ekkert annað en krafa um endurgreiðslu á ætluðu, ofgreiddu fé. Mótmælir stefndi forsendum kröfugerðarinnar og krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda á grundvelli þess að hann eigi ekki gilda kröfu á hendur sér.
Sýknukröfu sína kveður stefndi í fyrsta lagi reista á því að skuldbindingar stefnanda samkvæmt viðskiptasamningnum hafi sannarlega verið í erlendum gjaldmiðlum og þannig ekki verið lán sem bundið hafi verið gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Stefnda hafi því ekki verið að lögum skylt að endurreikna skuldbindingar stefnanda samkvæmt samningnum. Stefnda sé það ljóst að með bréfi, dags. 11. október 2011, hafi stefnanda verið tilkynnt að það væri mat stefnda að lán 2982 kvæði á um ólögmæta gengistryggingu og hafi skuldbindingarnar af þeim sökum verið endurreiknaðar. Eftir því sem fleiri hæstaréttardómar hafi fallið hafi komið í ljós að þetta mat hafi verið rangt og að ekki hafi þurft að endurreikna samninginn.
Af hálfu stefnanda er lögð á það áhersla að þegar metið sé hvort hinn umþrætti viðskiptasamningur stefnanda við stefnda hafi falið í sér lán í íslenskum krónum, sem bundin hafi verið við gengi erlends gjaldmiðils í andstöðu við ákvæði 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001, verði að gæta að því að ekki sé um lánssamning að ræða, heldur sé hann um svonefnda lánalínu sem stefndi hafi skuldbundið sig til að veita stefnanda aðgang að. Samningurinn hafi hvorki geymt yfirlýsingu stefnanda um að hann stæði í tiltekinni skuld við stefnda né hafi hann myndað kröfuréttindi stefnda á hendur stefnanda. Í samningnum hafi á hinn bóginn verið settur rammi um lánsviðskipti aðila, meðal annars með ákvæðum um útborgun hugsanlegs láns, endurgreiðslu þess og vexti af því. Í þessu ljósi geti það, eitt út af fyrir sig, ekki skipt máli að heildarumfang lánsviðskiptanna hafi verið afmarkað í samningnum með tilgreiningu á jafngildi fjárhæðar í íslenskum krónum. Í þessu ljósi verði því að líta til hvers og eins ádráttar, þeirra vaxta sem lánið hafi átt að bera, hvernig lánsfjárhæðin hafi verið tilgreind á öðrum stöðum o.s.frv. Þær skuldbindingar stefnanda samkvæmt viðskiptasamningnum, sem hafi flust yfir til stefnda (leggir 44-46), hafi verið í evrum, svissneskum frönkum og japönskum jenum og borið breytilega vexti jafnháa LIBOR-vöxtum auk 2,15% vaxtaálags. Stefndi hafi efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánsbeiðninni í erlendum myntum. Einnig skipti miklu máli í þessu sambandi að stefnandi hafi gert framangreindar skuldbindingar sínar upp með erlendum myntum. Í ljósi framangreinds byggir stefndi á því að um erlent lán hafi verið að ræða.
Af hálfu stefnda er framangreint mat hans, sem komið hafi fram í bréfi hans 11. október 2011, því dregið til baka og á því byggt að tilkynning hans hafi ekki þau réttaráhrif að skuldbinding stefnanda verði talin hafa verið ólöglega bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Mat á slíku ólögmæti ráðist einungis af ákvæðum viðkomandi samninga og hvernig framkvæmd viðkomandi lánveitingar hafi verið háttað. Þá væri fráleitt að mati stefnda ef mistök sem þessi veittu stefnanda ríkari rétt samkvæmt samningi en efni hans og lög gefi til kynna.
Verði ekki fallist á það með stefnda að skuldbinding stefnanda samkvæmt viðskiptasamningnum sé í erlendum myntum, eða teljist stefnandi bundinn af yfirlýsingu sinni frá 11. október 2011, byggir stefndi í öðru lagi á því að endurreikningur hans á skuldbindingu stefnanda samkvæmt viðskiptasamningnum sé í samræmi við eða umfram ýtrustu kröfu sem stefnandi kunni að hafa átt. Endurgreiðslukrafa stefnanda vegna ólögmætis hluta láns 2982 sé þannig að fullu upp gerð og það umfram skyldu. Stefnandi eigi því ekki kröfu til frekari leiðréttingar vegna láns 2982. Stefndi hafi endurreiknað lánið í samræmi við almennar reglur kröfuréttar og dómafordæmi Hæstaréttar. Endurreikningurinn hafi verið á því byggður að lánið ætti að bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, allt frá upphafsdegi þess, en ekki umsamda vexti, enda hafi ógilding ákvæðisins um gengistryggingu leitt til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, sbr. forsendur dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012.
Á því er byggt af hálfu stefnda að þegar skuldbinding, af því tagi sem hér um ræði, sé talin fela í sér ólögmæta gengistryggingu hafi forsenda fyrir vaxtastigi hennar brostið, sbr. reglur fjármunaréttar um rangar og brostnar forsendur. Þá sé það ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að leggja upphaflega samningsvexti til grundvallar í kröfuréttarsambandi aðila, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936.
Af hálfu stefnda er á því byggt að niðurstaða dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 hafi ekki fordæmisgildi fyrir ágreining í máli þessu heldur skuli beita þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum sínum við skuldara, eigi tilkall til greiðslu fyrir það sem vangreitt er. Frávik frá þessari meginreglu um réttar efndir kröfu komi einungis til álita í algerum undantekningartilvikum. Þannig hátti ekki til í máli þessu að mati stefnda.
Í þessu samhengi vísar stefndi til þess að viðskiptasamningur aðila um lánalínu sé annars eðlis en þau skuldaskjöl sem framangreindir dómar taki til. Viðskiptasamningurinn feli ekki í sér skuldbindingu aðila heldur sé um margar minni skuldbindingar að ræða samkvæmt hverjum og einum ádrætti, sbr. gr. 3.1 í viðskiptasamningnum, þar sem lánstími sé mun styttri en í venjulegum skuldaskjölum. Því verði að skoða hvern og einn ádrátt þegar metið sé hvort skilyrði undantekningarreglunnar séu uppfyllt. Stefndi bendir á að ekki hafi verið komin á sú festa í framkvæmd endurgreiðslna sem nauðsynleg hafi verið til að réttlæta frávik frá framangreindri meginreglu. Um það vísar stefndi til þess að stofnað hafi verið til þeirra skuldbindinga, sem hafi flust yfir til stefnda, 22. ágúst 2007 með útgreiðslu sem umreiknuð í íslenskar krónur hafi numið samtals 166.806.628 krónum. Til þessara lána hafi verið stofnað með ádráttarbeiðni, dags. 21. ágúst 2007, og hafi gjalddagi verið ákveðinn 20. nóvember 2007, eða einungis þremur mánuðum síðar. Andvirði þessara ádrátta hafi verið notað til að greiða upp eldri lán samkvæmt viðskiptasamningnum. Stefnandi hafi ekki greitt lánið til baka á gjalddaga heldur óskað eftir framlengingu þess til 20. janúar 2008. Lánið hafi verið framlengt á sama hátt fjórum sinnum til viðbótar og skyldi lokagjalddagi þess vera 15. nóvember 2008. Hinn 15. ágúst 2008 hafi stefnandi greitt skuldbindingu sína með erlendum gjaldmiðlum, þ.e. bæði áfallna vexti og höfuðstól, sbr. lánssamning aðila, dags. 18. september 2008. Ekki sé hægt að jafna þessari tegund láns saman við lán þar sem greiddar séu reglulegar afborganir sem reiknaðar séu út af banka, sendar skuldara á greiðsluseðli, sem hann síðan greiði. Viðskiptasamningar eins og þeir sem deilt sé um í þessu máli séu allt annars eðlis. Þegar af þessari ástæðu einni telur stefndi að ekki geti komið til þess að undantekningarreglunni verði beitt vegna þeirra skuldbindinga sem um sé deilt í máli þessu.
Stefndi vísar enn fremur til þess að þegar Hæstiréttur hafi dæmt gengistryggingu ólögmæta hafi stefndi endurreiknað þegar í stað skuldbindingu stefnanda samkvæmt láni 2982 og tilkynnt honum 11. október 2011 að lán 11983, sem stefnandi hafði greitt af frá árinu 2008, yrði lækkað um 64.215.059 krónur. Endurreikningurinn hafi verið framkvæmdur með þeim hætti að hvert lán hafi verið reiknað upp á uppgjörsdegi þess og látið bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags 15. ágúst 2008. Hver vaxtagreiðsla hafi jafnframt verið vaxtareiknuð frá þeim degi er hún hafi verið innt af hendi af stefnanda til greiðsludags 15. ágúst 2008. Uppreiknað lán að frádregnum uppreiknuðum greiðslum hafi þannig verið látið mynda nýjan höfuðstól miðað við 15. ágúst 2008. Þá vísar stefndi til þess að form lántöku stefnanda hafi falið í sér að hann greiddi ekki reglubundnar afborganir af skuldbindingu sinni samkvæmt láni 2982 heldur skyldi höfuðstóllinn endurgreiddur í lok samningstímans. Þar af leiðandi sé ekki hægt að líta til þeirra sjónarmiða um röskun á fjárhagslegri stöðu sem komi fram í áðurnefndum dómum Hæstaréttar. Á það er bent að í dómi réttarins í máli nr. 464/2012 hafi verið miðað við hversu mikið lánið hefði átt að lækka miðað við fjölda gjalddaga sem greiddir höfðu verið þegar til endurútreiknings kom. Í því tilviki sem hér um ræði hafi engar reglulegar afborganir verið af láninu eins og að framan greini. Þar sem um endurgreiðslu frá stefnda sé að ræða hafi verið búið að greiða lánið að fullu á endurreikningsdegi og meira til. Ekki hafi því verið um neina viðbótarkröfu vegna vangreiddra vaxta að ræða á endurreikningsdegi. Af þeim sökum er á því byggt að undir engum kringumstæðum sé hægt að leggja til grundvallar að skuldbindingar stefnanda vegna meintrar ólögmætrar gengistryggingar geti haft í för með sér röskun á fjárhagslegri stöðu. Um endurreikninginn vísar stefndi til framlagðs endurútreiknings er geri nákvæma grein fyrir þessu. Þá verði enn fremur, við mat á því hvort krafa sóknaraðila um vangreidda vexti teljist umtalsverð eða feli í sér röskun á fjárhaglegri stöðu stefnanda, að líta til þess að stefnandi hafi á þeim tíma er á lánsheimildina var dregið verið umsvifamikill lögaðili. Um framangreint vísar stefndi til þess að afkoma stefnanda fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld á því ári er viðskiptasamningurinn hafi verið gerður hafi numið 26.529.873 krónum og heildareignir félagsins á sama tímabili verið 728.424.744 krónur, sbr. ársreikning stefnanda fyrir árið 2005.
Stefndi byggir jafnframt á því að við mat á því hvort til greina komi að notast við framangreinda undantekningarreglu kröfuréttar hafi þýðingu að stefnandi hafi, á þeim tíma er á lánsheimildina var dregið og af henni greitt, haft yfir að ráða sérfræðikunnáttu á sviði fjárfestinga og fjármálastarfsemi. Þegar viðskiptasamningurinn hafi verið undirritaður hafi Kristinn Björnsson og Þórir Haraldsson setið í stjórn stefnanda. Stefndi kveður Kristin hafa gríðarmikla reynslu úr atvinnulífinu. Í gegnum árin hafi hann verið forstjóri og stjórnarmaður í stórum fyrirtækjum sem og umsvifamikill fjárfestir. Hann hafi til að mynda verið forstjóri Skeljungs á árunum 1990 til 2003. Þá hafi hann setið í stjórn margra stórra og öflugra félaga, þ. á m. í stjórn SjóvárAlmennra trygginga hf. og verið formaður stjórnar StraumsBurðaráss fjárfestingabanka hf. á tímabilinu 19. mars 2004 til 8. nóvember sama ár og aftur frá 4. febrúar 2005 fram til 19. júlí 2006. Þá hafi Kristinn einnig sest í stjórn FL Group hf. hinn 7. júlí 2006. Fram á mitt ár 2006 hafi hann einnig verið einn af stærstu hluthöfum Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf. Þar sem hann hafi verið stjórnarmaður í fjármálafyrirtækjum og eigandi virks eignarhluta í slíkum fyrirtækjum bendir stefndi á að lögbundin hæfisskilyrði gildi um slíka aðila, sbr. ákvæði laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Þá sé Þórir Haraldsson einnig reyndur maður úr atvinnulífinu sem setið hafi í stjórnum fjölmargra félaga.
Stefndi telur því að helstu stjórnendur stefnanda hafi haft mikla reynslu og þekkingu á innlendri og alþjóðlegri fjármálastarfsemi. Stefnanda hafi því frá upphafi verið algerlega ljóst að hann hefði þurft að greiða umtalsvert hærri vexti ef um lán í íslenskum krónum hefði verið að ræða. Því sé ekki tækt að líta svo á að greiðsla stefnanda á vöxtum, sem hafi verið miklu lægri en eðlilegt hefði talist miðað við almennt vaxtastig útlána í íslenskum krónum, sé fullnaðargreiðsla stefnanda á vöxtum af láninu. Um þann mun vísar stefndi til samanburðar á vöxtum, sem Seðlabanki Íslands hafi birt samkvæmt 10. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001, vöxtum sem Landsbanki Íslands hf. og síðar stefndi hafi boðið viðskiptavinum sínum á óverðtryggðum lánum í íslenskum krónum og veginna vaxta samkvæmt skilmálum lánsins sem vaxtagreiðslur stefnanda hafi verið byggðar á. Stefndi byggir á því að þessi forsenda Landsbanka Íslands hf. við samningsgerðina hafi haft úrslitaáhrif um það að bankinn hafi veitt stefnanda lánið á þeim vaxtakjörum sem kveðið hafi verið á um í skilmálum lánssamningsins. Stefnanda hafi verið eða hafi mátt vera það ljóst að það væri forsenda fyrir því að bankinn hafi boðið honum hin hagstæðu vaxtakjör á láninu, að stefnandi bæri gengisáhættu af því.
Stefndi telur samkvæmt framansögðu ljóst að stjórnarmenn stefnanda hafi búið yfir yfirgripsmikilli þekkingu á fjölþjóðlegum fjármálamarkaði, sem hafi að öllu leyti verið sambærileg við þekkingu starfsmanna fjármálafyrirtækja, enda hafi annar stjórnenda stefnanda verið m.a. stjórnarmaður og stærsti eigandi fyrirtækja á fjármálamarkaði. Þessa þekkingu og reynslu af fjármálamarkaði hafi stefnandi m.a. nýtt þegar ákveðið hafi verið að taka lán í erlendum myntum. Þá hafi stefnanda ekki getað dulist, í ljósi reynslu og þekkingar stjórnarmanna, að forsendan fyrir því að vextir væru jafn lágir og raunin varð hafi verið að stefnandi tæki á sig gengisáhættuna sem hafi fylgt því að taka lán í erlendum gjaldmiðlum. Öll samskipti aðila hafi byggst á þessari grundvallarforsendu. Stefnandi geti ekki haldið því fram að hann hafi verið í góðri trú um að vaxtakjör lánsins væru óháð bindingu höfuðstóls þess við gengi gjaldmiðla.
Af hálfu stefnda er í þriðja lagi á því byggt að stefnandi hafi greitt skuldbindingu sína samkvæmt viðskiptasamningnum upp án þess að gera sérstakan fyrirvara um að endurkrafa kynni að verða höfð uppi síðar. Stefnandi hafi ákveðið í því skyni að stofna til skuldbindingar við stefnda með töku erlends láns. Skuldbinding stefnanda samkvæmt láni 11983 hafi verið tilgreind með þeim sömu erlendu gjaldmiðlum og skuld stefnanda samkvæmt láni 2982 hafi staðið í 15. ágúst 2008. Þegar skuldbinding stefnanda samkvæmt viðskiptasamningnum hafi verið gerð upp hafi því ekki verið um nein viðskipti í íslenskum krónum að ræða og skuldbinding stefnanda aldrei metin í íslenskum krónum. Af þeim sökum hafi tilgreining á fjárhæð myntanna í láni 11983 verið nákvæmlega sú sama og skuld stefnanda samkvæmt viðskiptasamningnum samkvæmt kerfum stefnda. Af hálfu stefnda er á því byggt að lán 11983 sé sjálfstæður löggerningur og ekki sé hægt að líta svo á að efni hans takmarkist af efnisatriðum láns 2982 þrátt fyrir að andvirði láns 11983 hafi verið ráðstafað til uppgreiðslu á láni 2982. Því sé útilokað að vísa til þess að stefnandi hafi greitt hærri fjárhæð en honum hafi borið því lán 2982 hafi verið tilgreint í erlendum myntum og hafi lán 11983 endurspeglað þá skuldbindingu að öllu leyti. Þá hafnar stefndi því sem stefnandi haldi fram að lánssamningur 11983 hafi fallið úr gildi viku eftir undirritun, þar sem beiðni um útborgun hafi ekki borist bankanum fyrr en 4. nóvember 2008 og beiðni stefnanda um útborgun hafi því verið tilboð til stefnda um lánsviðskipti og ráðstöfun lánsfjárhæðarinnar skilyrt við að láninu skyldi varið til að greiða upp skuld stefnanda samkvæmt láni 2982 eins og það hafi staðið15. ágúst 2008. Stefndi telur ljóst að aðilar hafi verið sammála um að ljá samningnum gildi þrátt fyrir að dregist hefði að senda útborgunarbeiðni ‒ stefndi með móttöku útborgunarbeiðni og útborgun lánsins og stefnandi með undirritun útborgunarbeiðni sem og með greiðslu afborgana og vaxta af hinu nýja láni. Því síður sé hægt að fallast á að undirritun á útborgunarbeiðni hafi einungis falið í sér framlengingu með sömu efnislegu skilmálum og hafi verið að finna í lánssamningi 2982. Útborgunarbeiðnin hafi verið fylgiskjal og órjúfanlegur hluti lánssamnings 11983 sem hafi haft að geyma gerólíka skilmála frá þeim sem í gildi hafi verið samkvæmt láni nr. 2982.
Í fjórða lagi er á því byggt af hálfu stefnda að skilyrði reglunnar um endurgreiðslu ofgreidds fjár séu ekki til staðar. Fyrir það fyrsta hafi stefndi, umfram skyldu, endurgreitt stefnanda á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001 eins og það ákvæði hafi hljóðað fyrir setningu laga nr. 151/2010. Stefnandi leitist því nú við, á grundvelli almennra reglna kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár, að knýja fram frekari greiðslur til sín. Það gangi hins vegar ekki. Stefndi tekur fram að stefnandi hafi gert skuldbindingar sínar samkvæmt viðskiptasamningnum upp án fyrirvara sem hafi þá jafngilt endanlegu uppgjöri á skuldbindingunni samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Þá verði að líta til þess að mati stefnda að aldrei á gildistíma viðskiptasamningsins hafi verið uppi vafi um lögmæti skuldbindingarinnar. Þegar stefnandi hafi gert skuldbindinguna upp hafi hann enn fremur talið sig skulda stefnda nákvæmlega þær fjárhæðir sem tilgreindar hafi verið af stefnda. Þá hafi stefndi einnig verið í góðri trú um að uppgreiðsla stefnanda væri fullnaðaruppgjör á rétt tilgreindri skuldbindingu og verið grunlaus um að skuldbindingin væri hugsanlega andstæð 13., sbr. 14. gr. laga 38/2001. Í framangreindu samhengi verði einnig að líta til þess að ekki sé um augljósan misskilning að ræða hvort lán teljist gengistryggt með ólögmætum hætti eða ekki. Í því samhengi vísar stefndi til þess að leysa hafi þurft úr ýmsum málum fyrir dómstólum með tilliti til þess hvenær sé um ólögmæta gengistryggingu að ræða og hvenær ekki, sem og um útreikning eftirstöðva lána þegar svo hátti til að greitt hafi verið af lánum sem teljist gengistryggð með ólögmætum hætti.
Stefndi mótmælir því harðlega, sem haldið sé fram í stefnu, að stefndi hafi talið stefnanda á að skuldbinda sig fyrir nýju láni til uppgreiðslu þess eldra og staðhæft að krafa hans væri í erlendum myntum sem hafi jafngilt 368.802.860 íslenskum krónum á lántökudegi. Hið rétta sé að stefnandi hafi ákveðið sjálfur að taka lán í erlendum myntum til að greiða upp skuldbindingu láns 2982 sem af stefnda hafi einungis verið tilgreind í erlendum myntum, bæði í hinum nýja lánssamningi og í kerfum stefnda. Varðandi tilvísun stefnanda til ógildingarreglu 33. gr. laga nr. 7/1936 bendir stefndi á að í ákvæðinu felist ógildingarheimild og verði krafa um endurgreiðslu ekki reist á því ákvæði. Þá vísar stefndi til þess að á þeim tíma er stofnað hafi verið til láns 11983 hafi enginn ágreiningur risið um hugsanlegt ólögmæti gengistryggingar. Því hafi stefndi með engu móti vitað að lánið kynni að innihalda ólögmæta gengistryggingu. Þar af leiðandi séu skilyrði 33. gr. laga nr. 7/1936 ekki fyrir hendi.
Af hálfu stefnda er því einnig mótmælt að honum beri skylda til að endurgreiða stefnanda dómkröfurnar á grundvelli reglna um ólögmæta auðgun. Stefndi áréttar að ekki hafi verið talið að almenn auðgunarregla væri í gildi í íslenskum rétti. Því verði að fara afar varlega í beitingu slíkrar reglu og er á því byggt af hálfu stefnda að atvik séu ekki með þeim hætti í máli þessu. Fyrir það fyrsta hafi ekki verið um neina „auðgun“ að ræða og hvað þá „ólögmæta auðgun“. Um það vísar stefndi til þess sem að framan greini um höfuðstólslækkun láns 2982, endurreikning lánsins og tilurð samnings 11983 og þá staðreynd að skuldbinding stefnda samkvæmt láni 2982 hafi í kerfum stefnda einungis verið tilgreind í erlendum myntum og hafi lán 11983 endurspeglað nákvæmlega þær fjárhæðir. Þá sé einnig á því byggt af hálfu stefnda að stefnandi hafi með engu móti sýnt fram á auðgun stefnda eða þau orsakatengsl sem þurfi að vera á milli auðgunarinnar og skerðingar hans.
Stefndi hafnar því enn fremur að hann hafi gerst sekur um saknæma háttsemi og heldur því einnig fram að stefnandi hafi ekki sýnt fram á það tjón sem hann hafi orðið fyrir.
Um hina ætluðu saknæmu háttsemi tekur stefndi fram að stefnandi hafi ákveðið í ágúst 2008 að taka lán í erlendum gjaldmiðlum til að greiða upp lán 2982. Stefndi hafi með engu móti fengið stefnanda til þess að taka lánið, eins og stefnandi haldi fram, og hafi að engu leyti komið að ákvörðun stefnanda um það í hvaða gjaldmiðlum það yrði tekið. Stefnandi verði sjálfur að bera ábyrgð á þessari ákvörðun sinni og telur stefndi fráleitt að ætla að hann hafi gerst sekur um saknæma háttsemi þegar stefnanda hafi verið veitt lán í nákvæmlega þeim gjaldmiðlum sem bæði stefnandi og stefndi hafi talið stefnanda skulda. Þá verði til þess að líta að stefnda hafi á þessum tíma verið alls ókunnugt um að tiltekinn hluti láns 2982 kynni að vera ólögmætur og hafi stefndi þannig verið í góðri trú um að skuldbinding stefnanda samkvæmt láni 2982 væri rétt tilgreind með hinum erlendu myntum. Geti atvik sem síðar hafi komið til ekki breytt mati á framangreindri háttsemi stefnda á því tímamarki sem lánið hafi verið veitt. Stefnandi lýsi sig reyndar sammála þessu í stefnu, þ.e. að stefndi hafi einnig verið grandlaus um að unnt væri að líta á lánið með nokkrum öðrum hætti en að það hafi verið í erlendri mynt.
Stefndi telur stefnanda heldur ekki hafa sannað tjón sitt. Þegar ætlað tjón stefnanda sé metið verði að líta til þess að stefnandi hafi ekki greitt stefnda neina fjármuni þegar hið umþrætta lán 2982 var greitt upp, heldur fjármagnað það með töku erlends láns sem stefndi hafi veitt. Engir fjármunir hafi því runnið úr vasa stefnanda á þeim tíma sem hann vísi til. Þá byggir stefndi á því að ekkert tjón sé til staðar þar sem lánsfjárhæð láns 11983 hafi verið miðuð við nákvæmlega sömu fjárhæð og lán 2982 hafi staðið í og enginn umreikningur í íslenskar krónur hafi átt sér stað. Þá sé lánssamningur 11983 sjálfstæður löggerningur, eins og áður hafi komið fram, og ekki sé hægt að líta svo á að efni hans takmarkist með neinum hætti af efnisatriðum lánssamnings 2982 þrátt fyrir að andvirði láns 11983 hafi verið ráðstafað til uppgreiðslu á láni 2982. Með undirritun lánssamnings hafi stefnandi lýst því yfir að hann skuldaði stefnda þær myntir sem þar séu tilgreindar. Afborganir hins nýja lánssamnings, og uppgreiðsla hans, hafi því verið réttar og í samræmi við efni samningsins.
Um endanlega dráttarvaxtakröfu stefnanda tekur stefndi fram að heimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 taki ekki til skaðabótakrafna og því sé krafa stefnanda um dráttarvexti ekki byggð á neinum réttarreglum. Upphafsdegi dráttarvaxtakröfu stefnanda er jafnframt mótmælt af hálfu stefnda. Svo sem greini í 9. gr. laga nr. 38/2001 skuli skaðabótakröfur bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi hafi sannanlega lagt fram þær upplýsingar sem þörf hafi verið á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Stefndi telur að þær upplýsingar liggi í raun ekki enn þá fyrir. Að öðrum kosti telur hann að þær hafi ekki komið fram fyrr en með framlagningu stefnu. Þess vegna er á því byggt að dráttarvextir af fjárhæðinni geti ekki reiknast fyrr en í fyrsta lagi frá og með mánuði frá því stefnan var þingfest, þ.e. frá 29. desember 2012.
Til þrautavara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar sökum þess að forsendur útreikninga stefnanda séu rangar. Stefnandi haldi því fram að verðmæti láns 11983 hafi numið 368.802.860 krónum 6. nóvember 2008 en lögmæt krafa stefnda samkvæmt lánssamningi 2982 hafi hins vegar verið 150.165.488 krónur. Sú tala sé aftur á móti miðuð við 15. ágúst 2008. Stefndi mótmælir framangreindum útreikningi og byggir á því að við útreikning á stöðu beggja lánssamninga verði að miða einungis við 15. ágúst 2008. Engar forsendur séu fyrir því að miða stöðu láns 11983 við 6. nóvember 2008 en láns 2982 við 15. ágúst 2008, eins og stefnandi geri. Um röksemdir stefnanda fyrir því að miða við stöðu lánsins á þeim tíma vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að uppgreiðsla láns 2982 hjá stefnda hafi ekki miðast við íslenskar krónur heldur hafi skuldbinding hans einungis verið skráð í erlendum myntum í kerfum stefnda. Þar af leiðandi hafi stefndi ekki keypt íslenskar krónur fyrir erlendar myntir hinn 6. nóvember 2008 heldur hafi uppgjörið einungis átt sér stað í erlendum gjaldmiðlum. Þá sé í öðru lagi vísað til þess að aðilar hafi verið sammála um að miða uppgreiðslu láns 2982 við 15. ágúst 2008, sbr. skýrt orðalag í undirritaðri ádráttarbeiðni stefnanda. Komi til þess að skuldbinding stefnanda samkvæmt láni 11983 verði umreiknuð í íslenskar krónur séu engin rök til annars en að sá umreikningur verði einnig miðaður við 15. ágúst 2008. Stefnandi geti ekki síðar, einungis vegna þess að það henti honum betur sökum veikingar íslensku krónunnar frá 15. ágúst 2008 til 6. nóvember 2008, breytt þeirri dagsetningu sem uppgreiðsla lánsins hafi átt að miðast við en aðeins að því er annan lánssamninginn varði.
Í greinargerð stefnda kveður hann fjárhæð skuldbindingar stefnanda samkvæmt lánssamningi 11983, umreiknaða í íslenskar krónur, hinn 15. ágúst 2008, nema 223.309.789 krónum miðað við gengisskráningu hans. Hin meinta skaðabótakrafa geti því að hámarki numið mismuninum á 223.309.789 og 166.806.628, sem sé umreiknaður höfuðstóll ádreginnar lánsfjárhæðar láns 2982 miðað við 15. ágúst 2008 eða samtals 56.503.161 krónu. Undir rekstri málsins taldi stefndi fyrrgreindar forsendur leiða til þess að stefnandi ætti ekki frekari kröfu um leiðréttingu á láni 2982 og lagði fram útreikninga þar um. Ætti það jafnvel við þótt fallist væri á að skuld stefnanda 15. ágúst 2008 hefði numið 150.165.488 krónum.
Til stuðnings kröfu sinni um sýknu vísar stefndi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þá sérstaklega til 13., 14. og 18. gr. laganna, sem og til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um samningsfrelsi, skuldbindingargildi loforða og efndaskyldu krafna. Þá er einnig sérstaklega vísað til meginreglna fjármunaréttar um rangar og brostnar forsendur sem og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þá sérstaklega 36. gr. Kröfu um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Stefnandi reisir kröfugerð sína á hendur stefnda í stuttu máli á því að hann hafi, með ráðstöfun á andvirði láns samkvæmt lánssamningi, dags. 18. september 2008, sem komið hafi til útborgunar 6. nóvember 2008 (lán nr. 11983), greitt stefnda 218.637.372 krónum meira en hann skuldaði samkvæmt samningi um reikningslánalínu, dags. 11. maí 2005. Þessi ályktun stefnanda byggist á fjórum forsendum. Í fyrsta lagi er á því byggt að síðargreinda lánið, lán nr. 2982, hafi verið lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í öðru lagi telur hann að skuld hans á greiðsludegi lánsins, sem hafi átt að miðast við 15. ágúst 2008, hafi átt að nema 150.165.488 íslenskum krónum. Í þriðja lagi reisir hann málatilbúnað sinn á því að hann hafi greitt lánið með því að taka nýtt lán hjá stefnda sem hafi svarað til 368.820.860 íslenskra króna miðað við gengi viðkomandi gjaldmiðla 6. nóvember 2008. Í fjórða lagi er á því byggt að lækkun höfuðstóls síðara lánsins niður í 283.944.707 krónur, samhliða því að láninu var breytt í lán í íslenskum krónum, sbr. viðaukasamning 25. mars 2011, sem og endurútreikningur á láni nr. 2982, er leiddi til þess að inneign stefnanda að fjárhæð 64.215.059 krónur var ráðstafað til lækkunar á láni nr. 11983, nægi ekki til að rétta hlut stefnanda. Enn vanti að greiða honum stefnufjárhæðina til að hann fái að fullu endurgreitt það sem hann hafi ofgreitt stefnda.
Stefndi telur allar þessar forsendur rangar. Í fyrsta lagi hafi lán nr. 2982 verið lögmætt lán í erlendum myntum er hann yfirtók það í október 2008. Hafi lánið verið lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu telur stefndi í öðru lagi að höfuðstóll skuldar stefnanda á greiðsludegi hafi ekki numið 150.165.488 krónum heldur 166.806.628 krónum. Í þriðja lagi telur stefndi ekki rétt að taka mið af verðgildi láns nr. 11983 hinn 6. nóvember 2008, eins og stefnandi geri, heldur hinn 15. ágúst 2008, en þá hafi verðmæti þess verið 223.265.707 krónur en ekki 368.820.860 krónur. Í fjórða lagi heldur stefndi því fram að í ljósi fyrrgreinds endurútreiknings á láni nr. 2982 og uppgjörs sem fram fór í kjölfarið, þar sem stefnandi hafi fengið meira en hann hafi átt tilkall til, eigi stefnandi ekki kröfu um frekari endurgreiðslu. Við úrlausn á síðastgreinda atriðinu virðist af málatilbúnaði aðila skipta höfuðmáli hvort unnt hafi verið að taka tillit til viðbótarkröfu stefnda um vexti út frá breyttu vaxtaviðmiði við endurútreikning á láni nr. 2982.
Meginefni samnings stefnanda við forvera stefnda frá 11. maí 2005 er rakið í kafla II hér að framan. Eins og þar kemur fram var samningur þessi um svokallaða reikningslánalínu þar sem stefnda var veitt heimild til að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum svo og í öllum algengum, erlendum gjaldmiðlum upp að tiltekinni fjárhæð sem í samningnum var tilgreind í íslenskum krónum. Ef stefnandi nýtti sér heimildina var í samningnum mælt fyrir um skilmála lántökunnar. Ekki verður hins vegar séð að stefnandi hafi með honum lýst því yfir að hann stæði í skuld við forvera stefnanda. Með samningnum stofnaðist því ekki til skuldbindingar um greiðslu lánsfjár og endurgreiðslu þess á grundvelli skilmála samningsins. Með hliðsjón af gr. 4.1 til 4.3 í samningnum verður að líta svo á að til slíkrar skuldbindingar hafi í raun ekki stofnast fyrr en með undirritun lántaka á staðfestingu lánveitanda á lánsbeiðni lántaka. Hver lánshluti, sem þannig var stofnað til, var sjálfstætt lán er markaðist af þeim ramma sem samningurinn setti, sbr. grein 3.1 í samningnum.
Aðeins hluti af lánsbeiðnum stefnanda liggur fyrir í málinu. Elsta beiðnin, sem lögð hefur verið fram er frá 27. janúar 2006, en upplýst var við aðalmeðferð að ekki hefði tekist að finna eldri lánsbeiðnir. Aftur á móti liggur fyrir yfirlit yfir einstaka lánshluta, svonefnda leggi, auk þess sem fyrir liggur ítarleg samantekt stefnda á lánveitingum hans og uppgjöri á hverjum legg fyrir sig.
Þessi gögn gefa til kynna að stefnandi hafi fyrst dregið á lánsheimildina 19. maí 2005 í tveimur hlutum, annars vegar 17 milljónir króna og hins vegar 20 milljónir króna. Áttu þessir lánshlutar, eða leggir, að vera á gjalddaga 13. júní sama ár (leggir 1 og 3). Aftur voru dregnar 20 milljónir króna á lánsheimildina 1. júní 2005 og var gjalddagi þessa lánshluta ákveðinn 13. júní sama ár (leggur 4). Á framangreindum gjalddaga 13. júní 2005 var höfuðstóll þessara lána, samtals að fjárhæð 57 milljónir króna, gerður upp með þremur nýjum lánum (leggir 5, 6 og 7), en vextir greiddir. Leggur 5 var í íslenskum krónum og nam sú lánveiting 28.500.000 krónum. Hinir leggirnir voru í erlendum gjaldmiðlum, annars vegar að fjárhæð 180.906,44 evrur (leggur 6) og hins vegar að fjárhæð 221.204,59 Bandaríkjadollarar (leggur 7). Á yfirliti lánveitinganna koma þessar fjárhæðir jafnframt fram í íslenskum krónum og námu þær hvor um sig 14.250.000 krónum. Á gjalddaga þessara leggja, 12. júlí 2005, virðast þeir hafa verið gerðir upp með þremur nýjum leggjum að fjárhæð 28.750.568 krónur (leggur 9), 222.070,61 Bandaríkjadollari (leggur 8) og 181.453,55 evrur (leggur 10). Yfirlit lánveitinganna ber með sér að fjárhæðir þessara leggja hafi staðið saman af afborgun og vöxtum af leggjum 5, 6 og 7. Allir þessir leggir skyldu vera á gjalddaga 25. ágúst 2005. Stefnandi dró á ný á heimild sína samkvæmt samningnum 13. júlí 2005 og nam sá ádráttur 33 milljónum króna (leggur 11). Eins og leggir 8, 9 og 10 og skyldi þetta lán vera á gjalddaga 25. ágúst 2005. Hinn 22. ágúst sama ár dró stefnandi aftur 20 milljónir króna á heimildina og átti sá lánshluti að vera á gjalddaga 26. september 2005 (leggur 12). Á gjalddaga leggja 8, 9, 10 og 11, 25. ágúst 2005, voru þeir gerðir upp með þremur nýjum leggjum, 15, 16 og 17. Samkvæmt yfirlitinu voru þeir tveir leggir sem voru í erlendum gjaldmiðlum, leggir 8 og 10, þá umreiknaðir í íslenskar krónur miðað við gengi þess dags. Samanstóð leggur 10 af höfuðstól og vöxtum, sem samtals námu 182.286,79 evrum, sem eftir gjaldmiðlabreytinguna nam 14.271.233 krónum. Samtals námu afborganir og vextir á láninu á legg 8 223.430,42 Bandaríkjadölum, sem eftir myntbreytinguna urðu að 14.201.237 krónum. Afborganir og vextir krónuleggjanna tveggja námu á gjalddaga annars vegar 29.131.832 krónum (leggur 9) og hins vegar 33.427.671 krónu (leggur 11). Samkvæmt yfirlitinu námu kröfur stefnanda 25. ágúst 2005 því 91.031.973 íslenskum krónum. Þær, ásamt kostnaði að fjárhæð 1.960 krónur, voru gerðar upp með nýjum legg í íslenskum krónum að fjárhæð 45.516.967 krónur (leggur 15), öðrum legg að fjárhæð 359.988,66 Bandaríkjadollarar (leggur 16), sem samkvæmt yfirlitinu jafngilti 22.758.483 krónum, og þriðja leggnum að fjárhæð 293.544,22 evrur, sem einnig jafngilti 22.758.483 krónum (leggur 17). Hinn 31. ágúst 2005 dró stefnandi á ný 20 milljónir króna á heimild sína sem greiða átti til baka 26. september 2005 (leggur 18). Aftur var dregið á heimildina 14. september, nú 15 milljónir króna, og var gjalddagi ákveðinn 26. september 2005 (leggur 19). Sex leggir voru því á gjalddaga 26. september 2005, leggir 12, 15, 16, 17, 18 og 19. Höfuðstóll þessara leggja ásamt vöxtum námu samtals 146.193.601 krónu eftir að lánin í erlendum myntum (leggir 16 og 17) höfðu verið reiknuð yfir í íslenskar krónur á gengi þess dags. Samkvæmt samantekt stefnanda á lántökum sínum kveðst hann hafa dregið 1.000.000 króna á heimild sína á þessum gjalddaga, sem slagar hátt í vexti af þeim leggjum sem á gjalddaga voru. Þeir voru greiddir með þremur nýjum leggjum (leggir 20, 21 og 22) sem í íslenskum krónum námu samtals 146 milljónum króna. Leggur 20 var að fjárhæð 73 milljónir króna, leggur 21 var að fjárhæð 484.406,10 evrur og leggur 22 nam 583.533,17 Bandaríkjadollurum. Allir þessir leggir áttu að vera á gjalddaga 26. október 2005. Á þeim degi voru leggirnir gerðir upp á sama hátt og áður, með því að umreikna höfuðstól skuldarinnar ásamt vöxtum í íslenskar krónur, en þá nam skuldin 144.582.831 krónu. Kostnaður að fjárhæð 1.470 krónur lagðist ofan á. Til að greiða þessa skuld var stofnað til sex nýrra leggja, samtals að fjárhæð 144.584.301 króna. Einn leggur var að fjárhæð 36.146.075 krónur (leggur 23), annar nam 394.451,22 Bandaríkjadollurum (leggur 24), þriðji var að fjárhæð 101.495,91 sterlingspund (leggur 25), fjórði nam 649.702,94 svissneskum frönkum (leggur 26), fimmti nam 31.310.364 japönskum jenum (leggur 27) og sjötti nam 371.414,66 evrum (leggur 28). Vextir voru greiddir af þessum lánum mánuði síðar eða 28. nóvember 2005. Vextir frá þeim tíma ásamt höfuðstól leggjanna sex voru gerðir upp á gjalddaga 27. desember 2005. Staðið var með sama hætti að uppgjörinu og áður, með því að umreikna afborganir og vexti í íslenskar krónur á gengi þessa dags, en lánin námu þá samtals 149.801.141 krónu, og stofna til nýrra leggja í lánalínunni sem samtals námu sömu fjárhæð í íslenskum krónum. Þeirri fjárhæð var deilt niður á þrjá leggi í mismunandi myntum. Einn leggur var að fjárhæð 74.900.570 krónur (leggur 29), annar nam 772.489,38 svissneskum frönkum (leggur 30) og þriðji leggurinn nam 495.505,23 evrum (leggur 31). Af yfirliti að dæma áttu afborganir og vextir þessara skuldbindinga að koma til greiðslu 27. janúar 2006. Á þeim degi var stofnað til nýrra leggja í sömu myntum (leggir 32, 33 og 34) og námu fjárhæðir þeirra afborgunum og vöxtum af lánunum samkvæmt leggjum 29, 30 og 31. Sama var gert á gjalddaga þessara leggja 27. febrúar 2006, en þá var stofnað til leggja 35, 36 og 37. Vextir voru greiddir af þeim 27. mars 2006, en afborganir og vextir frá þeim tíma komu til greiðslu 27. apríl 2006. Nam skuldin þá samtals 168.765.268 krónum eftir að leggir í erlendum myntum höfðu verið umreiknaðir í íslenskar krónur á gengi krónunnar á þeim degi. Sú skuld var gerð upp með stofnun þriggja nýrra leggja 38, 39 og 40, sem samtals námu framangreindri fjárhæð í íslenskum krónum. Í gögnum málsins liggur fyrir lánsbeiðni frá stefnanda, dags. 27. apríl 2006, þar sem ekki er getið fjárhæðar lántökunnar, einungis breyttrar myntsamsetningar, sem skyldi vera 70% í íslenskum krónum, 15% í evrum og 15% í svissneskum frönkum. Gjalddagi var ákveðinn mánuði síðar eða 27. maí 2006. Þessi lánsbeiðni liggur til grundvallar leggjum nr. 38, 39 og 40. Leggur 40 var að fjárhæð 118.135.688 krónur, leggur 38 nam 428.773,54 svissneskum frönkum og leggur 39 var að fjárhæð 271.559,64 evrur. Á yfirliti kemur fram að leggirnir í erlendu myntunum hafi hvor um sig jafngilt 25.314.790 krónum. Á greiðsludegi leggjanna, 29. maí 2006, var stofnað til nýrra skuldbindinga í sömu myntum (leggir 41, 42 og 43), en þær samanstóðu af afborgunum og vöxtum af lánunum samkvæmt fyrrgreindum leggjum 38, 39 og 40 ásamt kostnaði, þ.e. 429.867, 39 svissneskum frönkum (leggur 41), 272.598,81 evru (leggur 42) og 119.476.029 krónum (leggur 43). Vextir af þessum höfuðstól komu til greiðslu samkvæmt yfirlitinu 29. ágúst og 30. október 2006 og 2. febrúar og 22. ágúst 2007. Í gögnum málsins kemur fram að þegar leggir 41, 42 og 43 komu á gjalddaga 22. ágúst 2007 hafi vextir frá síðasta greiðsludegi vaxta verið greiddir en höfuðstóll leggjanna gerður upp með hliðstæðum hætti og fyrr, þ.e. með því að umreikna hann í íslenskar krónur á gengi þess dags. Samtals mun skuldin þá hafa numið 166.806.628 krónum. Í málinu liggur fyrir lánsbeiðni frá stefnanda, dags. 21. ágúst 2007, þar sem lánsfjárhæð var ekki tilgreind, aðeins breytt samsetning mynta, en þar var óskað eftir því að þær yrðu 25% svissneskir frankar, 25% evrur og 50% japönsk jen. Átti gjalddagi samkvæmt beiðninni að vera 20. nóvember 2007. Stofnað var til nýrra leggja í samræmi við fyrrgreinda lánsbeiðni sem urðu leggir 44, 45 og 46. Höfuðstóll þeirra nam samtals fyrrgreindri fjárhæð, 166.806.628 krónum, en í hinum tilgreindu myntum, þ.e. 472.272,00 evrur, 770.683,00 svissneskir frankar og 146.759.307 japönsk jen. Á fyrrgreindum gjalddaga, 20. nóvember 2007, greiddi stefnandi vexti af framangreindum höfuðstól. Þá lagði stefnandi fram nýja lánsbeiðni með sömu myntsamsetningu og áður. Á hana var ritað „FRAML.“ og gjalddagi þar ákveðinn 20. janúar 2008. Fjórar hliðstæðar framlengingar á gjalddaga lánanna liggja fyrir í málinu, dags. 18. janúar, 18. febrúar, 8. maí og 12. ágúst 2008, þar sem gjalddagi var ákveðinn 15. febrúar, 15. maí, 15. ágúst og 15. nóvember 2008. Samkvæmt yfirliti voru vextir greiddir á gjalddögum 15. febrúar, 15. maí og 15. ágúst 2008. Eins og rakið hefur verið voru skuldbindingar stefnanda samkvæmt samningi aðila um reikningslánalínu síðan gerðar upp með nýjum lánssamningi, dags. 18. september 2008, lán nr. 11983. Höfuðstóll þess láns var sá sami og höfuðstóll leggja 44, 45 og 46, þ.e. 472.272,00 evrur, 770.683,00 svissneskir frankar og 146.759.307 japönsk jen.
Eins og rakið er í kafla II var um það samið milli aðila að hvern lánshluta samkvæmt samningi um reikningslánalínuna ætti að greiða inn á reikning lántaka miðað við kaupgengi viðkomandi myntar hjá bankanum. Því var við það miðað að lántaki fengi ávallt í hendur íslenskar krónur. Þá var meginreglan sú að endurgreiða átti lánið í íslenskum krónum, sbr. gr. 7.1 í fyrrgreindum samningi, þó að heimilt væri að greiða í „lántökumyntum“. Hér hefur einnig verið rakið hvernig stofnað var til þeirra skuldbindinga sem gerðar voru upp með lánssamningnum, dags. 18. september 2008. Þær áttu rætur að rekja til ádrátta stefnanda á reikningslánalínuna 19. maí (leggir 1 og 3), 1. júní (leggur 4), 13. júlí (leggur 11), 22. ágúst (leggur 12), 31. ágúst (leggur 18) og 14. september 2005 (leggur 19), sem allir voru í íslenskum krónum. Ganga verður út frá því að á lánsbeiðnum stefnanda, þar sem stofnað var til þessara skuldbindinga, hafi fjárhæð þeirra verið tilgreind í íslenskum krónum, eins og til var ætlast. Þessir ádrættir voru síðan gerðir upp á gjalddaga með stofnun nýrra leggja. Gjalddagi höfuðstóls og vaxta af hverri lánveitingu var ákveðinn til mjög skamms tíma, oftast til eins eða tveggja mánaða. Á gjalddaga var uppsöfnuð skuld gerð upp með því að stofna til nýrra leggja sem ýmist voru í íslenskum krónum eða í erlendum myntum eins og nánar hefur verið lýst. Þegar stofnað var til skuldbindinga í öðrum mynthlutföllum en þeim sem ætlunin var að gera upp var verðgildi þeirra síðarnefndu ávallt reiknað út í íslenskum krónum og fjárhæð þeirra lögð saman til að finna út heildarfjárhæð skuldar stefnanda á þeim tíma. Þeirri skuld var síðan deilt niður á nýja leggi í mismunandi myntum í samræmi við lánsbeiðnir frá stefnanda. Á lánsbeiðnum sem fyrir liggja í málinu er aldrei getið um fjárhæð skuldbindingar stefnanda í hinum erlendu myntum, aðeins um nýja myntsamsetningu og hlutföll mynta.
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið um tilurð skuldbindinga stefnanda í öndverðu, tilgreiningu þeirra í stofnskjölum einstakra lánveitinga (leggja) og þess með hvaða hætti lánin voru reglulega gerð upp, verður að álykta að þær hafi í raun verið í íslenskum krónum. Telur dómurinn að það hafi ekki þýðingu í þessu sambandi þó að skuldbinding stefnanda hafi að lokum verði gerð upp með því að ráðstafa andvirði lögmæts, erlends láns nr. 11983 til greiðslu á leggjum 44, 45 og 46. Sú aðferð, sem beitt var við að láta skuldbindingar stefnanda samkvæmt leggjum 6, 7, 8, 10, 16, 17, 21, 22, 24, 25, 26, 27, 28, 30, 31, 33, 34, 36, 37, 38, 39, 41, 42, 44, 45 og 46 taka breytingum eftir gengi erlendra mynta á samningstímanum, fól því í sér tengingu þessara skuldbindinga við gengi erlendra gjaldmiðla sem var í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Þessi niðurstaða er í samræmi við yfirlýsingu stefnda frá 11. október 2011 þar sem á það var fallist að lán nr. 2982 hefði kveðið á um ólögmæta gengistryggingu. Því endurgreiddi stefndi stefnanda 64.215.059 krónur sem ráðstafað var til lækkunar á höfuðstól láns nr. 11983. Ber því að líta svo á að stefnandi hafi ofgreitt þau lán sem hann tók á grundvelli samningsins um reikningslánalínuna og með því öðlast rétt til endurgreiðslu þess sem ofgreitt var. Af gögnum málsins má ráða að endurútreikningur þessara lána hafi tekið mið af því að allir leggir lánalínunnar fælu í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og að hver lánshluti er tók mið af erlendum myntum hefði ekki átt að bera umsamda vexti heldur vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Þannig virðast eftirstöðvar hinna ólögmætu leggja á uppgjörsdegi hafa verið reiknaðar út í íslenskum krónum. Þær virðast síðan hafa verið látnar bera sömu vexti fram að útreikningsdegi 30. september 2011. Fyrirliggjandi útreikningar sýna að framan af samningstímanum hafi stefnandi jafnan greitt lægri fjárhæð á uppgjörsdegi en vera bar vegna styrkingar krónunnar gagnvart viðmiðunarmynt. Í þeim tilvikum er í uppgjörinu gert ráð fyrir að bankinn eigi kröfu á hendur stefnanda. Dæmið snerist síðan við þegar krónan veiktist gagnvart viðmiðunarmyntinni. Í heildina olli veiking krónunnar á síðari hluta tímabilsins því að stefnandi var talinn eiga fyrrgreinda inneign hjá stefnda.
Eftir að gengistrygging einstakra lánshluta samkvæmt samningi aðila frá 11. maí 2005 hafði réttilega verið metin ógild hlutu skuldbindingar stefnanda á þeim grunni í öllum tilvikum að vera í íslenskum krónum og algerlega óháðar þeirri tengingu við þá erlendu gjaldmiðla sem aðilar höfðu hverju sinni komið sér saman um að skuldirnar ættu að miðast við. Eins og áður er rakið kom skýrt fram í samningi stefnanda og forvera stefnda frá 11. maí 2005 að lánshlutar, sem teknir yrðu í íslenskum krónum, ættu að bera REIBOR-vexti að viðbættu umsömdu álagi. Sú vaxtaviðmiðun er lögmæt og verður því að líta svo á að skuldbindingar stefnanda, sem ranglega tóku mið af gengi erlendra mynta, hafi því með réttu átt að bera fyrrgreinda REIBOR-vexti. Skuldbindingar stefnanda gátu hins vegar ekki borið LIBOR-vexti í hinum tilgreindu gjaldmiðlum, eins og stefnandi greiddi á greiðsludögum þeirra, enda slíkir vextir aldrei verið skráðir fyrir skuldbindingar í íslenskum krónum.
Í málinu liggur fyrir skjal með línuriti sem sýnir samanburð á REIBOR-vöxtum af skuldbindingum í íslenskum krónum og LIBOR-vöxtum fyrir sterlingspund, evrur, Bandaríkjadollara, svissneska franka og japönsk jen á tímabilinu frá 1. janúar 2005 til 1. janúar 2009. Fyrrnefndu vextirnir voru framan af þessum tíma að jafnaði um helmingi hærri en hæstu LIBOR-vextir, en þessi munur jókst er leið á samningstímann. Verður að líta svo á að við uppgjör vaxta í hvert sinn hafi vextir af einstökum lánshlutum verið vangreiddir um fjárhæð sem nam muninum á þessum tveimur vaxtaviðmiðunum.
Kröfuhafi, sem hefur fengið minna greitt en hann átti rétt til, á kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt hefur verið. Í undantekningartilvikum kann hann þó að glata slíkum rétti til viðbótargreiðslu. Í stefnu virðist á því byggt að það hafi farið í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar að endurkrefja stefnanda um hina vangreiddu vexti þar sem þeir hafi þegar verið greiddir. Á þetta verður ekki fallist með stefnanda, enda getur það eitt, að lántaki hefur þegar greitt vexti, ekki valdið því að kröfuhafi glati rétti til viðbótargreiðslu sem nemur vangreiðslunni.
Við munnlegan málflutning skírskotaði stefnandi jafnframt til dóma Hæstaréttar Íslands í þremur málum til stuðnings því að stefndi hafi ekki átt viðbótarkröfu um vexti. Þetta eru dómar réttarins í máli nr. 600/2011, máli nr. 464/2012 og máli nr. 50/2013. Heldur stefnandi því fram að þau sjónarmið, sem þar voru talin til marks um að hafna bæri viðbótarkröfu lánveitanda um vexti fyrir liðna tíð, eigi við um viðbótarkröfu stefnda um greiðslu vaxta.
Í öllum þessum málum var tekist á um uppgjör í tengslum við endurútreikning vegna ólögmætrar gengistryggingar lána til langs tíma þar sem fjöldi afborgana af höfuðstól var ógreiddur ásamt vöxtum. Til úrlausnar var því einkum hverjar eftirstöðvar af skuldum lántaka ættu að vera á tilgreindum tíma. Í því máli sem hér er til úrlausnar er aðstaðan önnur. Höfuðstóll hvers leggjar í lánalínunni ásamt vöxtum hefur þegar verið gerður upp með þeim hætti sem rakið hefur verið, síðast með ráðstöfun á andvirði láns nr. 11983 til greiðslu á leggjum 44, 45 og 46 miðað við stöðu þeirra 15. ágúst 2008. Þá hefur hið umdeilda lán nr. 2982 verið endurútreiknað á þann hátt sem áður er getið og uppgjör farið fram er miðaði að því að koma á jafnvægi milli ofgreiðslu stefnanda á höfuðstól og vangreiðslna hans á vöxtum og eftir atvikum á höfuðstól. Dómkröfur stefnanda í máli þessu eru í grunninn á því reistar að hann eigi frekari kröfu um endurgreiðslu á því sem hann telur sig hafa ofgreitt af láni nr. 2982. Yrði á þær fallist fær dómurinn ekki betur séð en að skuldbindingar hans yrðu efndar með greiðslu höfuðstóls í íslenskum krónum og LIBOR-vöxtum sem gátu ekki komið til álita í ljósi þess að skuldbindingin var í íslenskum krónum eins og að framan greinir. Yrði á þá kröfu fallist gengi það að mati dómsins gegn tilgangi almennra meginreglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár, sem miða að því að tryggja réttar efndir á kröfum aðila í samræmi við það sem fyrir liggur um réttindi og skyldur aðila.
Þá er jafnframt til þess að líta að í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar var á það fallist að með fullnaðarkvittun lánveitanda um greiðslu afborgana og vaxta hefði hann, í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi voru í málunum, glatað frekari kröfu um greiðslur. Við mat á þessu var litið til þess hvort skuldarinn hefði verið í góðri trú er hann innti greiðslu sína af hendi, hvort aðstöðumunur hefði verið með samningsaðilum og að lokum hvorum aðilanum stæði nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiddu til vangreiðslunnar. Var þá einkum horft til þess hvort festa hefði verið komin á framkvæmd samningsins, hversu langur tími leið frá því að mistök komu fram þar til krafa var höfðu uppi, hvort öðrum samningsaðila mætti fremur kenna um að mistök hefðu orðið, hvort samningssambandið væri í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert væri umfang viðbótarkröfu.
Í því máli sem hér er til meðferðar hafa verið lagðar fram kvittanir forvera stefnda vegna greiðslu á gjalddaga 27. desember 2005, 27. janúar, 27. febrúar og 29. maí 2006. Á öllum þessum gjalddögum voru bæði höfuðstóll og vextir gerðir upp með því að stofna til nýrra skuldbindinga á grundvelli samnings aðila um reikningslánalínu, eins og rakið hefur verið. Þessar kvittanir eru því ekki fullnaðarkvittanir um greiðslu vaxta úr hendi stefnanda og gátu því ekki hafa skapað stefnanda réttmætar væntingar um að honum yrði ekki gert að standa síðar skil á viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð.
Auk framangreindra kvittana hafa verið lagðar fram tvær kvittanir vegna greiðslu vaxta af leggjum 44, 45 og 46 fyrir vaxtatímabilin 15. febrúar til 15. maí 2008 annars vegar og hins vegar fyrir 15. maí til 15. ágúst 2008. Þessar greiðslur innti stefnandi af hendi 15. febrúar og 15. ágúst 2008. Kvittanirnar tvær um greiðslu fyrir þetta afmarkaða vaxtatímabil geta augljóslega ekki leitt til brottfalls viðbótarkröfu stefnda vegna uppgjörs á fyrri gjalddögum lánshluta, sem yfirleitt voru gerðir upp með stofnun nýrra skuldbindinga á grundvelli samningsins um reikningslánalínu. Þá er torvelt að sjá af fyrirliggjandi gögnum að nokkur festa hafi verið á uppgjöri einstakra leggja í lánalínunni. Gjaldagi þeirra var jafnan ákveðinn til eins eða tveggja mánaða og höfuðstóll og vextir framan af samningstímanum gerðir upp með því að velta þeim yfir á nýja leggi þar sem fjárhæðin myndaði nýjan höfuðstól. Frá og með gjalddaga 29. maí 2006 varð þó sú breyting að vextir komu til greiðslu á nokkurra mánaða fresti meðan höfuðstóll skuldbindinganna stóð áfram óbreyttur og var að lokum velt yfir á nýja leggi 22. ágúst 2007, þar sem skuldbindingin var tengd við nýjar myntir. Sami háttur virðist hafa verið hafður á greiðslu vaxta og höfuðstóls af þessum lánshlutum. Fyrir liggur að gjalddagi þessara skuldbindinga var þó ákveðinn í hvert skipti nokkrum mánuðum síðar. Var höfuðstóll lánshlutanna ávallt framlengdur á gjalddögum uns hann var gerður upp miðað við stöðu skuldbindinganna 15. ágúst 2008. Telur dómurinn að með þessu hafi ekki verið komin á sú festa við greiðslu afborgana og vaxta af einstökum lánshlutum að efni sé til að víkja frá þeirri almennu meginreglu að kröfuhafi geti krafið skuldara um viðbótargreiðslu vegna þess sem vangreitt hefur verið.
Af framangreindu leiðir að stefnda var rétt við endurútreikning á láni nr. 2982 að taka mið af viðbótarkröfu sinni um vexti. Það er niðurstaða dómsins að stefndi hafi átt kröfu um greiðslu REIBOR-vaxta af höfuðstól skuldbindinga stefnanda með umsömdu álagi í samræmi við samning aðila frá 11. maí 2005 og síðari viðaukum. Við endurútreikning stefnda virðist hafa verið lagt til grundvallar að viðbótarkrafa hans ætti að taka mið af vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 og birtir samkvæmt 10. gr. sömu laga. Fullyrt er í greinargerð stefnda að REIBOR-vextir með umsömdu álagi hafi verið umtalsvert hærri en vextir samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 á því tímabili sem endurútreikningurinn tók til. Þessi staðhæfing hefur ekki sætt andmælum af hálfu stefnanda. Þá hefur hann ekki fært önnur rök fyrir því að endurgreiðsla, er hann naut á grundvelli endurútreiknings á láni nr. 2982, hafi verið ófullnægjandi, en að vextir hafi þegar verið greiddir. Því er krafa hans um greiðslu annarrar lægri fjárhæðar en hann gerir kröfu um til vara ekki studd þeim rökum að unnt sé að fella dóm á hana.
Að teknu tilliti til þess sem hér hefur verið rakið þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að hann eigi rétt á frekari endurgreiðslu og leiðréttingum, vegna ofgreiðslu á láni nr. 2982, en hann hefur þegar fengið. Þá hefur hann ekki leitt í ljós að hann hafi orðið fyrir tjóni í lögskiptum sínum við stefnda er veiti honum rétt til skaðabóta. Þá er fyrrgreindum lögskiptum lokið með þeim hætti að ekki verður séð að unnt sé, með vísan til 33. gr. laga nr. 7/1936, að fara fram á ógildingu á innheimtu stefnda á því sem var umfram það sem stefnandi telur að þurft hafi til að greiða upp skuld stefnanda við stefnda 15. ágúst 2008. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður heldur ekki fallist á að innheimta á lánssamningi nr. 11983 hafi falið í sér ólögmæta auðgun. Þá fær ekki staðist að síðastnefndi lánssamningurinn hafi falið í sér framlengingu á lánskjörum fyrri samningsins, enda um ólíka samninga að ræða.
Með hliðsjón af öllu framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Í ljósi þeirrar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 krónur.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Líflands ehf.
Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.