Hæstiréttur íslands
Mál nr. 622/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Niðurfelling máls
|
|
Þriðjudaginn 30. september 2014. |
|
Nr. 622/2014.
|
Avenue A ehf. (Ásgeir Þór Árnason hrl.) gegn Austurbraut ehf. (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Kærumál. Niðurfelling máls.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A ehf. um niðurfellingu máls. A ehf. byggði kröfu sína á því að lögmaður Ab ehf. hefði ekki haft umboð til að mæta fyrir hönd Ab ehf. og reka málið fyrir dómi og því hafi verið óhjákvæmilegt að fella málið niður, með vísan til b. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, vegna útivistar Ab ehf. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að skv. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn skuli lögmaður eða fulltrúi hans, sem sækir þing fyrir aðila, talinn hafa umboð til að gæta þar hagsmuna aðilans nema það gagnstæða sé sannað. Með vísan til röksemda héraðsdóms staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu að A ehf. hefði ekki fært sönnur á að lögmaður Ab ehf. hefði farið út fyrir umboð sitt í þeirri gæslu hagsmuna Ab ehf., sem málið varðaði. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. september 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2014 þar sem hafnað var aðalkröfu sóknaraðila um niðurfellingu málsins sem og varakröfu um að málið yrði fellt niður hvað varðaði alla kröfuliði varnaraðila að frátöldum tveimur nánar tilgreindum liðum. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili hefur fyrir Hæstarétti uppi sömu aðal- og varakröfu og í héraði að því er varðar niðurfellingu máls og gerir að varakröfunni frágenginni þá kröfu að þeim kröfuliðum, sem varakrafa hans tekur til, „verði vísað frá dómi“. Óháð úrslitum málsins krefst hann þess ,,að úrskurður héraðsdóms um að kærandi greiði varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi verði úr gildi felldur.“ Þá krefst sóknaraðili þess að ,,varnaraðila, Austurbraut ehf., en til vara Einari Gauti Steingrímssyni hrl., verði gert að greiða [sóknaraðila] málskostnað fyrir héraðsdómi og kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.“
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Krafa varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti er á því reist að kæruheimildin í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 sé bundin við að kæra mætti úrskurð ef um væri að ræða einkamál, sem rekið væri eftir almennum reglum. Í því sambandi bendir hann á að í 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé hvergi heimilað að kæra til Hæstaréttar synjun dómara á að vísa máli frá dómi eða synja um kröfu er lýtur að því að mál verði fellt niður. Þar með bresti heimild til að kæra úrskurð héraðsdóms. Samkvæmt k. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 sæta úrskurðir héraðsdómara um ,,hvort mál verði fellt niður“ kæru til Hæstaréttar. Kæruheimildina verður að skýra svo að hún taki einnig til þess þegar héraðsdómur hafnar kröfu um niðurfellingu máls. Verður því kröfu um að vísa málinu frá Hæstarétti hafnað.
Með sama hætti og í héraði verður hér fyrir dómi ekki leyst úr frávísunarkröfu sóknaraðila.
Með vísan til röksemda héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða að sóknaraðili hafi ekki fært sönnur á að lögmaður varnaraðila hafi farið út fyrir umboð sitt í þeirri gæslu hagsmuna varnaraðila, sem málið varðar. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hin kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Avenue A ehf., greiði varnaraðila, Austurbraut ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2014.
Mál þetta var þingfest 27. september 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 21. ágúst sl. Sóknaraðili er Austurbraut ehf., Skipholti 50d, Reykjavík, en varnaraðilar eru EA fjárfestingarfélag ehf., Skipholti 50d, Reykjavík og Avenue A ehf., Skólavörðustíg 12 en þeim síðarnefnda var heimiluð meðalganga með dómi Hæstaréttar 19. febrúar 2014 í máli nr. 80/2014. Málið er rekið á grundvelli XXIV. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fyrir dóminum krefst sóknaraðili þess að eftirfarandi viðskipti séu ógild:
1. Lánssamningur milli varnaraðila, þá MP Fjárfestingarbanka hf., og sóknaraðila, dags. 28. september 2009 á dómskjali nr. 26, að fjárhæð 442.011.457 krónur.
2. Handveðsyfirlýsingar frá 28. september 2009 á dómskjölum nr. 27 og 28 sem að efni til fólu í sér að allar eignir sóknaraðila væru nú veðsettar varnaraðila fyrir framangreindu láni. Á dómskjali nr. 27 var sett að veði allt hlutafé í Torpedo Leisure Ltd., skráð á Englandi, og á dómskjali nr. 28 allt hlutafé í Pivnichbudinvest, skráð í Úkraínu.
3. Yfirtaka sóknaraðila á lánasamningi milli varnaraðila, þá MP banka hf., og OIIL, sbr. dómskjal nr. 29.
4. Lánasamningur milli aðila, dags. 27. nóvember 2009 á dómskjali nr. 39, að fjárhæð 650.161.425 krónur.
5. Handveðsyfirlýsingar frá 27. nóvember 2009 á dómskjölum nr. 40 til 42. Dómskjal nr. 40 er um alla fjármálagerninga sóknaraðila á geymslusafni hjá varnaraðila, dómskjal nr. 41 er um hlutabréf í Aurora Holding hf. og dómskjal nr. 42 er um lánasamninga við OIIL.
6. Kaup sóknaraðila á hlutabréfum í Aurora Holding hf. að nafnverði 4.600.000 krónur 30. nóvember 2009, sbr. dómskjal nr. 44.
7. Handveðsyfirlýsing (Pledge of Collateral) um hlutabréf í Vostok Holding Netherlands B.V., dags. 30. desember 2009, sbr. dómskjal nr. 49.
8. Samkomulag milli sóknaraðila og varnaraðila frá 14. janúar 2011 um breytingar á lánakjörum o.fl., sbr. dómskjöl nr. 99 og 100.
Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf. hefur ekki skilað greinargerð í málinu.
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 80/2014 var Avenue A ehf. heimiluð meðalganga í málinu og eru kröfur þess þær að málið verði fellt niður, eða að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi. Kröfur hans í málinu eru að öðru leyti þær að staðfest verði afstaða slitastjórnar varnaraðila um að hafna kröfu sóknaraðila í slitabúið sem kynnt var á fundi í varnaraðila vegna afstöðu slitastjórnar til kröfu sóknaraðila 3. júní 2013. Þá krefst hann þess að kröfum sóknaraðila í málinu verði hafnað og að kröfum sóknaraðila sem hann hefur lýst í slitabú varnaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðilinn málskostnaðar úr hendi sóknaraðila en verði málið fellt niður eða því vísað frá vegna útivistar sóknaraðila krefst hann þess að Einari Gauti Steingrímssyni hrl. og Katrínu Smára Ólafsdóttur hdl. verði gert að greiða málskostnað óskipt. Þá krefst hann ómaksþóknunar úr hendi sóknaraðila eða úr hendi áðurnefndra lögmanna með vísan til bókunar hans í þinghaldi 21. mars sl.
Hér til úrlausnar er eingöngu sá þáttur ágreinings aðila er lýtur að kröfu um niðurfellingu málsins. Endanlegar kröfur varnaraðilans Avenue A ehf. í þessum þætti málins eru þær aðallega að málið verði fellt niður en til vara að málið yrði fellt niður hvað varðar allar kröfur sóknaraðila nema þær sem tilgreindar eru nr. 1 og 4 í greinargerð sóknaraðila. Þá krefst varnaraðilinn málskostnaðar í þessum þætti málsins óskipt úr hendi lögmannanna Einars Gauts Steingrímssonar hrl. og Katrínar Smára Ólafsdóttur hdl. Þá krefst hann jafnframt ómaksþóknunar úr hendi sóknaraðila eða úr hendi áðurnefndra tveggja lögmanna.
Í þessum þætti málsins krefst sóknaraðili þess að kröfum varnaraðilans um niðurfellingu málsins í heild eða að hluta verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðilans Avenue A ehf. Varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf. lætur ágreininginn ekki til sín taka. Málið var tekið til úrskurðar um ágreining þennan að loknum munnlegum málflutningi 21. ágúst sl.
I
Málavextir
Samkvæmt gögnum málsins munu sóknaraðili, Austurbraut ehf., og varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf. hafa gert með sér lánssamning 28. september 2009, þar sem sá síðarnefndi ehf., sem þá hét MP Banki hf., veitti sóknaraðila, sem þá var hlutafélag, lán að fjárhæð 442.011.457 krónur sem endurgreiða skyldi 15. júlí 2010. Skilmálum lánsins var síðar breytt 14. janúar 2011 með samkomulagi aðila, þar sem samið var um að höfuðstóll lánsins yrði 485.858.994 krónur, miðaður við 15. júlí 2010, og nýr gjalddagi þess 26. ágúst 2014. Hinn 27. nóvember 2009 gerðu aðilarnir með sér annan lánssamning, þar sem varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf. veitti sóknaraðila Austurbraut ehf. lán að fjárhæð 650.161.425 krónur sem sömuleiðis skyldi endurgreiða 15. júlí 2010. Skilmálum þessa láns var einnig breytt 14. janúar 2011 með samkomulagi aðila, þar sem samið var um að höfuðstóll lánsins yrði 701.668.658 krónur, miðaður við 15. júlí 2010, og nýr gjalddagi þess 26. ágúst 2014. Til tryggingar greiðslu lánanna tveggja ásamt vöxtum, verðtryggingu og kostnaði fékk varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf. veð í ýmsum eignum sóknaraðila.
Með yfirlýsingu 1. apríl 2011 veitti varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf., sem þá hét enn MP Banki hf., nb.is-sparisjóði hf., er nú ber heitið MP banki hf., veð í kröfum sínum á hendur sóknaraðila samkvæmt áðurgreindum lánssamningum. Samdægurs var þeim síðastnefnda tilkynnt um veðsetninguna.
Varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf. var tekið til slita 1. júní 2012 að kröfu stjórnar hans á grundvelli 4. töluliðar 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Sóknaraðili lýsti kröfu við slitin 16. ágúst 2012, þar sem þess var krafist að viðurkennt yrði að lánssamningarnir tveir yrðu ógiltir auk annarra nánar greindra „viðskipta“ sóknaraðila og varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. Áður hafði MP banki hf., 14. sama mánaðar, lýst veðkröfu við slitin vegna áðurnefndrar veðsetningar á kröfum varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. á hendur sóknaraðila samkvæmt lánssamningunum tveimur. Með samningi 21. mars 2013 framseldi MP banki hf. varnaraðilanum Avenue A ehf. umrædda veðkröfu sína á hendur varnaraðilanum EA fjárfestingarfélagi ehf., en áður hafði slitastjórn þess síðarnefnda samþykkt framsal kröfunnar fyrir sitt leyti. Í nóvember 2013 mun framsalshafinn Avenue A ehf. hafa runnið inn í félagið Bowery ehf., en heiti þess breyttist í Avenue A ehf.
Slitastjórn varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. hafnaði fyrrgreindri kröfu sóknaraðila ehf. og þar sem ágreiningur aðila varð ekki jafnaður var málinu beint til héraðsdóms eftir 171. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 120. gr. þeirra laga með bréfi sem barst héraðsdómi 7. júní 2013. Málið var tekið til úrskurðar um kröfu varnaraðilans Avenue A ehf. um niðurfellingu málsins að loknum munnlegum málflutningi 21. ágúst sl.
II
Málsástæður og lagarök varnaraðilans Avenue A ehf. í þessum þætti málsins
Varnaraðilinn Avenue A ehf. kveðst vera kröfuhafi í slitabú varnaraðilans EA fjárfestingarfélags og eiga kröfu nr. 6 á kröfuskrá. Einar Gautur Steingrímsson hrl. hafi lýst kröfu í slitabú varnaraðila og tilgreint þar ranglega að krafan sé gerð fyrir hönd sóknaraðila. Sú krafa hafi verið móttekin af slitastjórn 17. ágúst 2012.
Á hluthafafundi sóknaraðila 18. janúar 2011 hafi verið samþykkt tillaga um að höfða mál gegn MP banka hf. til að fá tilteknar ráðstafanir dæmdar óskuldbindandi, felldar úr gildi eða hnekkt með öðrum hætti. Ekkert umboð hafi falist í samþykkt hluthafafundarins til handa nefndum lögmanni til að reka málið auk þess sem í kröfulýsingu þeirri sem lögmaðurinn hafi gert, ranglega fyrir hönd sóknaraðila, hafi verið gerðar kröfur um ýmislegt annað en áðurnefndur hluthafafundur hafði samþykkt að höfðað yrði dómsmál um. Þáverandi stjórnarformaður sóknaraðila hafi strax tilkynnt slitastjórn varnaraðilans EA fjárfestingarfélagsins ehf. 21. ágúst 2012 að lögmaðurinn hefði ekki umboð til slíks.
Þetta sé staðfest í fundargerð aðalfundar sóknaraðila 29. október 2013 þar sem segi að formaður sóknaraðila hafi upplýst að Einar J. Hálfdánarson hafi verið stjórnarformaður og hann hafi getað leiðrétt kröfulýsingu sem komið hafi frá lögmanni sóknaraðila. Kröfulýsingin hafi ekki verið lögð fyrir stjórn sóknaraðila. Þessu hafi ekki verið mótmælt en umræddur lögmaður hafi setið þennan fund. Þar sé bókað að lögmaðurinn hafi talið sig hafa umboð til að lýsa kröfunni á grundvelli samþykktar hluthafafundar sóknaraðila 18. janúar 2011.
Slitastjórn varnaraðilans EA fjárfestingarfélags hafnaði kröfu sóknaraðila í slitabúið og var haldinn ágreiningsfundur 3. júní 2013. Ágreininginn tókst ekki að jafna og var málinu í kjölfarið vísað til héraðsdóms og þannig sé málið tilkomið. Með dómi Hæstaréttar 19. febrúar 2014 í máli nr. 80/2014 hafi varnaraðilanum verið heimiluð meðalganga í málinu.
Varnaraðilinn byggir kröfu sína um niðurfellingu málsins á því að útivist hafi orðið af hálfu sóknaraðila við allar fyrirtökur málsins, við munnlegan málflutning um meðalgönguna 26. nóvember 2013 og við uppkvaðningu úrskurðar 15. janúar 2014. Þá hafi enginn komið fram fyrir hans hönd þegar úrskurðurinn hafi verið kærður til Hæstaréttar, ekki heldur við síðustu fyrirtöku málsins 21. mars sl. og þá sé enginn mættur fyrir hönd sóknaraðila við flutning um framkominn ágreining. Beri því að fella niður málið.
Af hálfu varnaraðilans er á því byggt að lögmaðurinn eða fulltrúi hans hafi ekki og hafi aldrei haft umboð sóknaraðila til að lýsa kröfu í slitabú EA fjárfestingarfélags ehf. né hafi hann eða fulltrúi hans umboð til að reka kröfuna hér fyrir dómi. Sönnunarbyrði um að nægjanlegt umboð hafi verið fyrir hendi hvílir á umboðsmanni sjálfum sbr. 1. mgr. 25. gr. laga 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þessi meginregla sé staðfest í fræðiritum. Frá þessari meginreglu sé gerð undantekning í 1. mgr. 21. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 þar sem henni sé snúið við. Regla lögmannalaganna sé á hinn bóginn undantekningarregla sem beri að túlka þröngt samkvæmt viðurkenndum lögskýringarreglum. Reglan gildi um heimild lögmannanna til að koma fram fyrir dóminum en ekki um kröfulýsinguna þar sem meginreglan gildir óhögguð. Í því tilviki þurfi lögmaðurinn Einar Gautur Steingrímsson hrl. að sanna að hann hafi slíkt umboð.
Í fundargerð aðalfundar sóknaraðila 29. október 2013 komi fram að Einar Gautur Steingrímsson hrl. sæki umboð sitt til samþykktar fundarins 18. janúar 2011. Þar segi: „Fram kom að Einar Gautur Steingrímsson hrl., sem lýsti kröfunni f.h. Austurbrautar taldi sig hafa umboð til að lýsa kröfunni á grundvelli samþykktar hluthafafundar Austurbrautar um að höfða skyldi mál á hendur MP banka hf.“ Í fundargerð hluthafafundarins 18. janúar 2011 sé eingöngu að finna samþykkt um að félagið höfði dómsmál á hendur MP banka hf. Þar komi hvergi fram að lögmaðurinn hafi umboð til að reka dómsmál fyrir félagið og ekkert minnst á kröfulýsingar í slitabú varnaraðila. Þá hafi fyrrum stjórnarformaður félagsins, Einar J. Hálfdánarson, tilkynnt það strax til slitastjórnar 21. ágúst 2012 að lögmaðurinn hefði ekki umboð og komi það fram í gögnum málsins. Þá hafi Einar J. Hálfdánarson staðfest það með vitnisburði sínum fyrir dóminum að lögmanninum hefði ekki verið veitt neitt umboð en vitnið hafi verið stjórnarformaður þegar lögmaðurinn lýsti kröfu í nafni sóknaraðila við slit varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. Ekkert dómsmál hafi verið höfðað eins og hluthafafundur hafði samþykkt að yrði gert. Það hafi ekki verið fyrr en einu ári og sjö mánuðum síðar að Einar Gautur Steingrímsson hrl. hafi lýst kröfu í slitabú EA. Það tómlæti við málshöfðun styrki það enn frekar að hann hafi ekki haft neitt umboð því annars hefði hann strax hafist handa við að reka málið.
Sóknaraðili hafi á fyrri stigum þessa máls verið dæmdur til að greiða varnaraðilanum málskostnað vegna þess þáttar málsins sem fjallaði um meðalgöngu Avenue A ehf. sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 80/2014. Sá málskostnaður hafi ekki verið greiddur. Það bendi til þess að stjórn félagsins viti ekkert af þessum málaferlum enda hafi hún aldrei veitt lögmanninum neitt umboð. Þá hafi lögmaðurinn eða lögmannsstofa hans engar greiðslur fengið fyrir meinta vinnu sína fyrir sóknaraðila enda hafi lögmaðurinn aldrei verið ráðinn til starfans.
Til stuðnings varakröfu sinni um að málið verði fellt niður hvað varðar þær kröfur sóknaraðila sem ekkert hafi með málið að gera byggir varnaraðili á því að ljóst sé að Einar Gautur Steingrímsson hrl. hafi ekki víðtækara umboð en hvað varðar þá löggerninga sem nefndir eru í samþykkt hluthafafundarins 18. janúar 2011. Eingöngu hafi verið samþykkt að höfðað yrði mál vegna löggerninga sem þar eru tilgreindir en þar sé um að ræða kaup sóknaraðila á innlánum í Bank Lviv á árinu 2009 af MP banka hf. fyrir nálægt 450.000.000 króna vegna kaupa í Vostok Holding Netherlands B.V. á 4,7% hlut í félaginu og vegna gerðar tveggja lánssamninga við MP banka hf. á árunum 2009. Kröfur sem tilgreindar séu nr. 2, 3, 5, 6, 7 og 8 í kröfugerð sóknaraðila hafi því ekkert með málið að gera og beri að fella málið niður hvað þær varðar. Krafa nr. 2 fjalli um handveðsyfirlýsingar sem hvergi er getið á fundinum, krafa nr. 3 fjalli um lánssamning við eitthvert félag sem hvergi sé getið á hluthafafundinum, krafa nr. 5 fjalli um einhverjar aðrar handveðsyfirlýsingar sem heldur sé ekki getið á hluthafafundinum, krafa nr. 6 fjalli um kaupá hlutabréfum í félaginu Aurora Holding sem hefur verið slitið, kaupin komi málinu ekkert við, enda sé hvergi getið um þau á hluthafafundinum, krafa nr. 7 fjalli um veðsetningu á hlutum Vostok Holding Netherlands B.V. en samþykkt hluthafafundarins fjalli eingöngu um kaup á slíkum bréfum, ekki veðsetningu þeirra auk þess sem óljóst sé hvort um sömu bréf sé að ræða, krafa nr. 8 fjalli um samkomulag um breytingar á lánakjörum en ekkert komi fram um það í samþykkt hluthafafundarins. Krefst varnaraðilinn þess að málið verði fellt niður hvað varðar allar kröfur sóknaraðila nema þær sem tilgreindar eru nr. 1 og 4 í kröfugerð hans.
Varnaraðilinn hafnar sjónarmiðum sóknaraðila um óbeðinn erindisrekstur og telur þau ekki eiga við í málinu. Óbeðinn erindisrekstur felist í því að bjarga verðmætum og eigi því ekki við. Sóknaraðili hafi með kröfulýsingu sinni beinlínis valdið spjöllum. Krafan lúti ekki að greiðslu peninga heldur sé hún krafa um að eyðileggja viðskipti. Þannig valdi lögmaðurinn félaginu tjóni. Þá séu ósannaðar fullyrðingar sóknaraðila um hæfi stjórnarmanna til ákvarðanatöku um að veita honum umboð vegna tengsla sinna við varnaraðilann EA fjárfestingarfélag ehf.
Þá hafi lögmaður sóknaraðila í engu hafnað því að hann hafi ekkert fengið greitt frá sóknaraðila fyrir starfann. Það teljist því sannað og styrki þá skoðun að sóknaraðili hafi ekki heimild til starfans.
Þá hafnar varnaraðilinn því að yfirlýsing stjórnarformannsins Matthíasar Björnssonar á framkomnu skjali hafi nokkurt sönnunargildi í málinu. Áhugavert sé að það sé ekki afdráttarlausara. Ekki komi fram í skjalinu að stjórnarformaðurinn hafi veitt lögmanninum umboð eða sé að veita honum umboð heldur vísar hann í önnur skjöl sem fyrir liggi í málinu. Stjórnarformaðurinn minnist ekkert á meint munnlegt umboð sem á að hafa verið veitt lögmanninum á hluthafafundi enda lá það ekki fyrir og engin slík umræða fór fram um slíkt munnlegt umboð. Með vitnisburði Einars J. Hálfdánarsonar, fyrrum stjórnarformanns í félaginu, hafi hið gagnstæða verið sannað, ekkert umboð hafi verið veitt.
Þá verði að skilja umfjöllun á hluthafafundi um að lögmaður sóknaraðila hafi farið út fyrir umboð sitt á þann veg að rætt sé um meint umboð lögmannsins en ekki umboð sem hafi verið veitt. Bókunin hvað þetta varði sé ekki rétt.
Að lokum krefst varnaraðilinn málskostnaðar óskipt úr hendi lögmannanna Einars Gauts Steingrímssonar hrl. og Katrínar Smára Ólafsdóttur hdl. í þessum þætti málsins og ómaksþóknunar úr hendi sóknaraðila eða úr hendi áðurnefndra lögmanna.
III
Málsástæður og lagarök sóknaraðila í þessum þætti málsins
Sóknaraðili byggir á því að ekki hafi orðið útivist af hans hálfu í málinu og því beri að hafna kröfu varnaraðilans Avenue A ehf. um niðurfellingu málsins.
Yfirlýsing fyrirsvarsmanns sóknaraðila liggi nú fyrir, og ljóst að fullt umboð sé fyrir hendi, og að hann hafi ráðstafað sakarefninu með þeim hætti sem fyrirsvarsmaður sóknaraðila. Samkvæmt 21. gr. laga nr. 77/1998 er lögmaður talinn hafa umboð þar til hið gagnstæða er sannað. Umboð megi veiti munnlega og skriflega. Vitnisburð fyrrverandi stjórnarformanns beri að hafa að engu. Þá beri einnig að hafa í huga tengsl hans við varnaraðilann EA fjárfestingarfélag ehf.
Af fundargerð hluthafafundarins 18. janúar 2011, þar sem stjórnin og allir hluthafarnir hafi verið viðstaddir, megi ráða að lögmanninum hafi verið veitt munnlegt umboð til flytja málið. Í kjölfarið hafi farið fram umræða um kostnað. Á seinni hluthafafundinum 29. október 2011 hafi þetta verið staðfest. Varnaraðili hafi ekki verið staddur á þessum fundum og viti ekkert hvað þar hafi farið fram. Þar hafi þáverandi stjórnarformaður, Einar J. Hálfdánarson, látið í ljós skoðun sína á því að lýst hefði verið kröfu í bú varnaraðilans og stjórn félagsins ylli því tjóni með málarekstrinum. Stjórnin bæri ábyrgð á því tjóni sem af hlytist. Þá hafi hann talið lögmanninn sem hafði fengið umboð stjórnar hafa farið langt út fyrir umboð sitt með kröfulýsingum. Ljóst sé því að Einar J. Hálfdánarson hafi vitað fullvel að lögmaðurinn hefði umboð og að hann hafi talið að hann færi út fyrir það umboð. Bókanir af fundinum verði að skilja á þennan veg. Einar hafi því vitað fullvel að lögmanninum hafi verið falið munnlega að reka málið.
Þá sé það alkunna að ekki sé heimilt að höfða mál gegn þrotabúi heldur beri að lýsa kröfu í bú þess sbr. 116. gr. laga nr. 21/1991 og samkvæmt 17. gr. sömu laga beri að lýsa kröfunni fyrir skiptastjóra. Í umboðinu hafi falist að gæta hagsmuna sóknaraðila og það sé gert með þessum hætti þar sem varnaraðili hafði verið tekinn til slita. Aldrei hafi verið gerð athugasemd við umboð lögmannsins til að koma fram fyrir hönd sóknaraðila, hvorki af hálfu stjórnar né hluthafafundar félagsins. Þá verði að líta til þess að þegar krafa geti fallið niður vegna vanlýsingar hafi lögmaður aukið umboð m.a. á grundvelli óbeðins erindisrekstrar til að bjarga málum og koma í veg fyrir réttarspjöll. Í hlutafélagalögunum séu ákvæði um vanhæfi Eini stjórnarmaðurinn sem hafi verið hæfur til að taka ákvörðun um hver yrði lögmaðurinn í málinu, hafi verið Matthías, ekki Einar J. Hálfdánarson því hann hafi verið í stjórn varnaraðila og ekki Margeir Pétursson því hann hafi staðið að hinum umdeildu löggerningum.
Þá eigi ákvæði lögmannalaganna um að lögmaður þurfi að sanna umboð sitt við um stefnugerð og kröfulýsingar.
Hvað varðar greiðslur fyrir verkið kvað lögmaðurinn engar greiðslur koma frá sóknaraðila. Engar eignir væru í búinu og menn hefðu sammælst um að greiðslur kæmu frá þrotabúi félagsins Icarusar ehf. hvað þetta varðar en það félag hafi verið hluthafi í sóknaraðila. Þetta verði á engan hátt skilið svo að lögmaðurinn hafi ekki tekið málið að sér.
Málskostnaðarkröfu varnaraðilans og kröfu um ómaksþóknun er sérstaklega mótmælt.
IV
Niðurstaða
Ágreiningur í þessum þætti málsins lýtur að því hvort fella beri mál þetta niður vegna útivistar af hálfu sóknaraðila eins og varnaraðilinn Avenue A ehf. hefur krafist fyrir dóminum. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðilans Avenue A ehf. verði hafnað. Varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag lætur ágreining í þessum hluta málsins ekki til sín taka, sbr. yfirlýsingu hans í þinghaldi 21. mars sl. og við munnlegan málflutning um ágreining þennan 21. ágúst sl.
Varnaraðilinn Avenue A ehf. byggir kröfu sína á því að lögmaður sóknaraðila hafi ekki og hafi ekki haft umboð fyrir hönd sóknaraðila til að mæta fyrir hans hönd og reka málið fyrir dóminum. Óhjákvæmilegt sé því að fella málið niður með vísan til b-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna útivistar sóknaraðila. Varnaraðilinn kveður lögmanninn sækja meint umboð sitt til hluthafafundar sóknaraðila 18. janúar 2011. Ekkert umboð hafi á hinn bóginn verið veitt á þeim fundi, hvorki munnlegt né skriflegt, enda komi ekkert fram um slíkt í fundargerð frá hluthafafundinum. Þá hafi heldur ekkert komið fram um slíkt umboð, á hluthafafundi 29. október 2013 eins og sjá megi af fundargerð þess fundar. Aftur á móti sé ljóst að þáverandi stjórnarformaður sóknaraðila, Einar J. Hálfdánarson, hafi gert athugasemdir við umboð lögmannsins á kröfuskrá sem send hafi verið slitastjórn varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. 21. ágúst 2012 og liggi fyrir í málinu. Þá komi skýrlega fram í fundargerð fundarins 29. október 2013 að nefndur Einar J. Hálfdánarson telji lögmann sóknaraðila ekki hafa umboð til að reka málið. Vísar varnaraðilinn þar til bókunar á fundinum um ummæli Einars J. Hálfdánarsonar þess efnis að lögmaðurinn hafi farið langt út fyrir umboð sitt og hann hafi t.d. ekki haft umboð t.d. til að lýsa kröfum í slitabú EA fjárfestingarfélags. Þá hafi nefndur Einar áréttað að hann teldi stjórn félagsins valda félaginu tjóni með kröfulýsingu sinni í bú varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. og þeim málarekstri sem því fylgdi.
Sóknaraðili mótmælir framkominni kröfu varnaraðilans Avenue A ehf. og byggir á því að honum hafi verið falinn málarekstur gegn varnaraðilanum EA fjárfestingarfélagi ehf. á áðurnefndum hluthafafundi 18. janúar 2011 og það umboð hans hafi síðar verið staðfest á fundi 29. október 2013. Honum beri sem lögmanni umbjóðanda síns að gæta hagsmuna hans og það hafi hann gert með kröfulýsingu 16. ágúst 2012 í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Lögmaður sóknaraðila kveður málshöfðun hafa dregist vegna anna. Þegar varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag hafi verið tekinn til slita hafi það verið hluti af hagsmunagæslu hans fyrir umbjóðanda sinn að lýsa kröfu í búið.
Sóknaraðili hefur einnig í málinu vísað til yfirlýsingar Matthíasar Björnssonar núverandi stjórnarformanns sóknaraðila um að hann hafi fullt umboð til starfans. Við mat á sönnunargildi umrædds skjals og þýðingu fyrir þann ágreining sem hér er til umfjöllunar verður ekki fram hjá því litið að það er dagsett sama dag og munnlegur málflutningur fór fram, höfundur þess var ekki leiddur fyrir dóminn hvorki til að staðfesta efni þess né til að upplýsa nánar um atvik málsins. Af efni þess verður ráðið að það felur í raun í sér túlkun á þeim fundargerðum þeirra funda sem um ræðir í málinu og áður hafa verið nefndir og liggja til grundvallar þeim ágreiningi sem hér er fjallað um. Efni þess varðar ekki að lögmanni sóknaraðila hafi verið falinn málareksturinn í öndverðu. Verður af þessum sökum ekki á því byggt við úrlausn málsins.
Áratuga löng venja er fyrir því að lögmaður sem sæki þing þurfi ekki að sanna með skjölum umboð sitt til þingsóknar og endurspeglast þessi venja nú í 1. mgr. 21. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 þar sem orðuð er sú meginregla að sæki lögmaður eða fulltrúi hans dómþing fyrir aðila skuli hann talinn hafa umboð til að gæta þar hagsmuna aðilans nema það gagnstæða sé sannað. Varnaraðilinn Avenue A ehf. hefur málinu sínu til stuðnings vísað til fundargerðar frá aðalfundi í sóknaraðila 29. október 2013 eins og áður er rakið. Þar er bókað eftir stjórnarformanni félagsins að hluthafafundur hafi falið stjórninni að höfða málið í sínum tíma. Þá segir þar að Einar J. Hálfdánarson telji lögmann sóknaraðila, sem hafi fengið umboð stjórnar, hafa farið langt út fyrir umboð sitt þar sem hann hafi t.d. ekki haft heimild til að lýsa kröfum í slitabú varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. Á þessum fundi er felld tillaga um að afturkalla umboð til málshöfðunar á hendur varnaraðilanum EA fjárfestingarfélagi sem félagið hafði samþykkt 18. janúar 2011. Jafnframt er felld sú tillaga að afturkalla eða fella niður allar málshöfðanir sem byggðar séu á ákvörðun áðurnefnds hluthafafundar. Einnig er felld sú tillaga að fela stjórn félagsins að afturkalla kröfulýsingu þá er lögmaður sóknaraðila hafði lýst í slitabúa EA fjárfestingarfélags.
Fundargerð hluthafafundar í sóknaraðila 18. janúar 2011 verður í ljósi atvika málsins ekki skilin öðruvísi en svo að þar hafi hluthafar í sóknaraðila samþykkt málshöfðun á hendur varnaraðilanum EA fjárfestingarfélagi vegna tiltekinna löggerninga og að sú málshöfðun væri í höndum lögmannsins Einars J. Steingrímssonar hrl. Verður því að telja að umræddur málarekstur hafi frá upphafi verið með samþykki stjórnar sóknaraðila. Engin gögn liggja fyrir í málinu þess efnis að umrætt umboð hafi verið afturkallað, það takmarkað eða fellt niður af einhverjum ástæðum heldur er kröfum þar að lútandi beinlínis hafnað á fundinum 29. október 2013 eins og áður er rakið. Verður kröfu varnaraðilans Avenue A ehf. um niðurfellingu málsins því hafnað. Þá er til þess að líta að síðarnefndi fundurinn fór fram 29. október 2013 en lögmaður sóknaraðila lýsti kröfu í bú varnaraðilans 16. ágúst 2012 og var hún móttekin af skiptastjóra degi síðar. Eins og áður sagði var þeirri tillögu um afturköllun umræddrar kröfulýsingar hafnað á fundinum 29. október 2013. Af þessu leiðir að ekki eru nein rök fyrir því að fallast á varakröfu varnaraðilans Avenue A ehf. og er henni því einnig hafnað.
Eftir þessum úrslitum verður varnaraðilanum, Avenue A ehf., með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, gert að greiða sóknaraðila, Austurbraut ehf., málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af málatilbúnaði varnaraðilans og umfangi þessa þáttar málsins, vera hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 2. maí sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu varnaraðilans, Avenue A ehf., um niðurfellingu málsins, er hafnað.
Varakröfu varnaraðilans, um að málið verði fellt niður hvað varðar allar kröfur sóknaraðila, Austurbrautar ehf., nema þær sem tilgreindar eru nr. 1 og 4 í greinargerð sóknaraðila, er hafnað.
Varnaraðilinn greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.