Hæstiréttur íslands
Mál nr. 265/2011
Lykilorð
- Líkamstjón
- Sjómaður
- Tímabundið atvinnutjón
- Örorka
- Skaðabætur
|
|
Þriðjudaginn 20. desember 2011. |
|
Nr. 265/2011.
|
Sverrir Már Ólafsson (Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Líkamstjón. Sjómenn. Tímabundið Atvinnutjón. Örorka. Skaðabætur.
S varð fyrir líkamstjóni í vinnuslysi á sjó í október 2007. Aðilar deildu um það hvort S ætti rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón og hvort skilyrði væru fyrir því að meta árslaun hans sérstaklega við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir m.a. að S hefði ekki fært rök fyrir því að honum hefði ekki borið réttur til forfallalauna úr hendi útgerðarmanns fyrir þann tíma sem hann taldi sig hafa orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni. Að auki bentu gögn málsins til að hann hefði verið í vinnu að minnsta kosti hluta tímabilsins. Þótti S því ekki eiga rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón. Hins vegar féllst Hæstiréttur á það með S að rétt væri að meta árslaun hans sérstaklega við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku, þar sem hann hefði skipt um starfsvettvang í mars 2007 auk þess sem meðallaunatekjur hans síðustu þrjú árin fyrir slys þóttu ekki tækur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans, enda hefði hann verið í skóla verulegan hluta þess tíma. Var varakrafa hans tekin til greina um að miða ætti við meðallaun verkamanna árið 2006 við útreikninginn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. maí 2011. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 8.174.858 krónur með 4,5% ársvöxtum, af 436.787 krónum frá 16. október 2007 til 16. janúar 2008, af 15.585.063 krónum frá þeim degi til 11. júlí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 28. ágúst 2009, „en þá af ... 8.174.858 [krónum] til greiðsludags.“ Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 4.390.371 krónu með 4,5% ársvöxtum, af 436.787 krónum frá 16. október 2007 til 16. janúar 2008, af 11.800.576 krónum frá þeim degi til 11. júlí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 28. ágúst 2009, „en þá af ... 4.390.371 [krónu] til greiðsludags.“ Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni máls þessa eru tvö. Annars vegar er deilt um kröfu áfrýjanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón í einn mánuð frá slysdegi 16. október 2007. Hins vegar er ágreiningur um, hvaða árslaun skuli leggja til grundvallar við útreikning bóta fyrir þá 15% varanlegu örorku áfrýjanda, sem hann hlaut af slysinu.
Í aðal- og varakröfu áfrýjanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, 436.787 krónur, er miðað við meðalmánaðartekjur sjómanna á árinu 2005 ,,uppfærðar miðað við launavísitölu í nóvember árið 2007.“ Áfrýjandi lenti í vinnuslysi um borð í togskipinu Sóleyju Sigurjóns áðurgreindan dag. Áfrýjandi hefur ekki fært rök fyrir því að honum hafi ekki borið réttur til forfallalauna úr hendi útgerðarmanns samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 þann tíma, sem hann telur sig hafa orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni. Að auki benda gögn málsins til þess, að hann hafi verið í vinnu að minnsta kosti hluta þess tímabils sem krafa hans tekur til. Samkvæmt þessu hefur áfrýjandi ekki sannað að hann hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni í skilningi 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem stefndi beri ábyrgð á. Verður héraðsdómur því staðfestur um þennan kröfulið.
Áfrýjandi krefst þess aðallega að árslaun hans við útreikning bóta fyrir varanlega örorku verði miðuð við meðallaun sjómanna á árinu 2005, en til vara að þau verði miðuð við meðaltekjur verkafólks, í iðnaði, fiskiðnaði, fiskvinnslu og samgöngum á árinu 2006. Hann reisir kröfuna í báðum tilvikum á því, að árslaun hans beri að ákveða sérstaklega samkvæmt heimild í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, enda hafi aðstæður hans verið óvenjulegar og annar mælikvarði sé réttari til áætlunar um framtíðartekjur hans, en laun síðustu þriggja almanaksára fyrir slysið.
Áfrýjandi er fæddur í janúar 1987 og var því 20 ára á slysdegi. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skyldu árslaun hans teljast meðalvinnutekjur hans, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksár fyrir slysdag, leiðrétt með þeim hætti sem í málsgreininni segir. Áfrýjandi lauk grunnskólanámi 2003. Á árinu 2004 var hann eina önn í Verkmenntaskólanum á Akureyri en starfaði hluta ársins hjá Sæplasti á Dalvík. Námu laun hans það ár 1.205.207 krónum. Á árinu 2005 stundaði hann nám í sama skóla í tvær annir, en vann einnig hjá þremur vinnuveitendum og hafði 1.359.727 krónur í launatekjur. Á árinu 2006 var hann í launuðum störfum allt árið og fékk samtals 2.143.423 krónur í launatekjur frá þremur vinnuveitendum.
Áfrýjandi fór til sjós í lok mars 2007 og hafði starfað á nokkrum fiskiskipum er hann slasaðist 16. október það ár.
Í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eru sett tvö skilyrði fyrir því að ákveða megi árslaun sérstaklega. Annars vegar að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi hjá tjónþola og hins vegar að annar mælikvarði en meðalvinnutekjur síðustu þriggja almanaksára fyrir slys, að viðbættu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs uppfært eins og segir í ákvæðinu, teljist réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.
Áfrýjandi hafði verið í ýmsum störfum í landi frá því hann hvarf frá námi sínu í Verkmenntaskólanum á Akureyri og þar til hann í lok mars 2007 hóf störf til sjós. Verður fallist á að aðstæður hans hafi að því leyti verið óvenjulegar, að hann byrjaði fulla þátttöku á vinnumarkaði í ársbyrjun 2006 en hafði skipt um starfsvettvang í mars 2007 er hann fór til sjós. Af framansögðu má einnig ráða að meðallaunatekjur hans almanaksárin 2004, 2005 og 2006 eru ekki tækur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans, enda var hann í skóla verulegan hluta þessa tíma. Ekki verður fallist á að meðaltekjur sjómanna árið 2005 séu heldur tækur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur áfrýjanda, enda hafði hann einungis verið á sjó frá því í lok mars 2007 og þar til hann slasaðist. Hann var ekki í föstu skiprúmi, hafði einungis verið lögskráður á togskipið Sóleyju Sigurjóns í sex daga, er hann slasaðist, en hann hafði einnig verið lögskráður á sama skip í 26 daga í maí og júní. Hann hafði auk þess verið lögskráður á þrjú önnur skip þann tíma, sem hann hafði stundað sjómennsku, fram að slysi. Á hinn bóginn liggur fyrir að áfrýjandi hafði, allt frá því hann lauk námi í grunnskóla, stundað ýmis störf sem verkamaður, í flestum tilvikum tengd sjávarútvegi, allt þar til hann hóf störf sem sjómaður í lok mars 2007. Verður talið að meðaltekjur verkamanna 2006, á þeim vettvangi sem varakrafan miðar við, sé réttari mælikvarði til notkunar við ákvörðun árslauna samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga, en sá sem stefndi miðaði við í uppgjöri sínu á bótum. Verður samkvæmt því fallist á varakröfu áfrýjanda í þessum lið en fjárhæð hennar hefur ekki sætt andmælum. Verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 3.953.584 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir, en um þá er ekki ágreiningur.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði áfrýjanda, Sverri Má Ólafssyni, 3.953.584 krónur með 4,5% ársvöxtum, af 11.363.789 krónum frá 16. janúar 2008 til 11. júlí 2009, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 28. ágúst 2009, en af 3.953.584 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 900.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2011.
Mál þetta, sem var dómtekið 3. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sverri Má Ólafssyni, Hafnarbraut 12, Dalvík á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík, með stefnu birtri 23. mars 2010.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 8.174.858 kr. með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 436.787 kr. frá 16. október 2007 til 16. janúar 2008, þá af 15.585.063 kr. frá þeim degi til 11. júlí 2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til 28. ágúst 2009, en þá af 8.174.858 kr. til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að stefndi greiði 4.390.371 kr. með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 436.787 kr. frá 16. október 2007 til 16. janúar 2008, þá af 11.800.576 kr. frá þeim degi til 11. júlí 2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/200 frá þeim degi til 28. ágúst 2009, en þá af 4.390.371 kr. til greiðsludags.
Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda ásamt virðisaukaskatti.
Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Í aðalkröfu er krafist málskostnaðar að skaðlausu, en í varakröfunni að málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir
Stefnandi lenti í vinnuslysi 16. október 2007 er hann vann sem háseti á ísfisktogara hjá útgerðinni Nesfiski. Vír féll ofan á hönd hans og kom höggið ofan á höndina milli 1. og 2. fingurs. Daginn eftir kom hann í land og leitaði þá til slysadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Við skoðun var hann með eymsli og bólgu yfir MC1 og nærkjúku. Hann var talinn hafa tognað og marist. Í desember 2007 hóf hann aftur störf á sjó og var fram í mars 2008 er hann hætti vegna óþæginda.
Samkvæmt matsgerð þeirra Guðmundar Björnssonar læknis og Sigurðar B. Halldórssonar hrl., frá 15. maí 2009, voru helstu niðurstöður þær að varanlegur miski var metinn 7 stig og varanleg örorka 15%.
Hinn 11. júní 2009 sendi lögmaður stefnanda stefnda kröfubréf að fjárhæð 15.756.698 kr. Varðandi bætur fyrir varanlega örorku var miðað við meðaltekjur sjómanna árið 2005 samkvæmt launatöflum Hagstofunnar og var tekið mið af 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við útreikning bóta fyrir varanlega örorku.
Samkvæmt uppgjöri 28. ágúst 2009 var miðað við laun stefnanda árið 2006 vegna bóta fyrir varanlega örorku. Heildarbætur samkvæmt uppgjörinu námu 9.130.245 kr. Tekið var við bótum með fyrirvara um tekjuviðmið, auk þess sem gerður var áskilnaður um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi krefst þess að við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku sé tekið mið af 2. mgr. 7. gr. skbl. um óvenjulegar aðstæður, enda hafði stefnandi hafið störf á sjó árið 2007, eða sama ár og slysið varð. Hann var því kominn með fast starf sem sjómaður er hann slasaðist og af þeim ástæðum beri að miða við meðaltekjur sjómanna. Er þess því aðallega krafist að miðað verði við meðaltekjur sjómanna árið 2005 samkvæmt launatöflum Hagstofunnar, en ekki eru birtar tölur um meðaltekjur sjómanna árið 2006. Til vara er þess krafist að miðað verði við meðaltekjur verkafólks í iðnaði, fiskiðnaði, fiskvinnslu og samgöngum.
Stefnandi telur að líta beri til athugasemda með frumvarpi því er varð að skaðabótalögum nr. 50/1993, en þar segi m.a. að þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða starfi, skuli fjárhæð árslauna metin sérstaklega. Þá hafi ákvæði skaðabótalaga um bætur fyrir varanlega örorku það að markmiði að tryggja tjónþola fullar bætur fyrir framtíðartekjumissi.
Í sérstökum athugasemdum með 6. gr., í frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/1999, segi jafnframt: „Launatekjur liðinna ára eru hins vegar ekki góður mælikvarði ef breytingar höfðu orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys varð eða þegar fullyrða má að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Má nefna sem dæmi að tjónþoli hafi skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum eða látið af starfi og hafið töku lífeyris.“
Með hliðsjón af framangreindu telur stefnandi að áður umrædd launaviðmið gefi bestu mögulegu mynd af þeim tekjum sem hann komi til með að verða af vegna afleiðinga slyssins til framtíðar og því beri að styðjast við 2. mgr. 7. gr. skbl., en skilyrði lagaákvæðisins voru rýmkuð verulega með lögum nr. 37/1999. Í sérstökum athugasemdum, með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/1999, segi enn fremur: „Þá er gerð tillaga um að 2. mgr. 7. gr. verði rýmkuð þannig að mati verði beitt í þeim tilvikum þegar viðmiðun við síðustu þrjú tekjuár fyrir slys þykir af einhverjum ástæðum ekki réttmæt.“ Af frumvarpinu megi ráða að breytingar á högum tjónþola skömmu áður en líkamstjón eigi sér stað teljist óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. Þegar litið er til dómaframkvæmdar virðist sem ekki þurfi mikið til að koma svo aðstæður teljist óvenjulegar í skilningi ákvæðisins. Líklegt sé því að óvenjulegar aðstæður teljist vera fyrir hendi þegar tjónþoli hefur nýlega hafið störf á vinnumarkaði og því ekki markað sér tekjugrundvöll síðustu þrjú ár fyrir slys. Sé hér meðal annars vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 110/2003.
Stefnandi var þrjár annir á vélstjórnarbraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri og vantar hann einn áfanga til þess að ná fyrsta stigi sem vélavörður. Stefnandi starfaði hjá Dalvíkurbyggð og Samherja árin 2005 og 2006. Þá vann hann einnig hjá Trésmiðju Snorra Hjaltasonar hf. í nokkra mánuði árið 2006. Árið 2006 flutti stefnandi til Reykjavíkur og hóf störf á sjó árið 2007. Stefnandi var búinn að vera á sjó í nokkra mánuði er hann lenti í vinnuslysinu. Eftir slysið fór stefnandi sem fyrr segir aftur á sjóinn en afleiðingar slyssins háðu honum þó í störfum og átti hann erfitt með að halda á hníf, tengja saman hlerana, vinna með netin og lyfta upp þungum hlutum. Af þessum sökum hætti stefnandi á sjó í mars 2008 og hóf störf sem verkamaður hjá Samherja í landi.
Þeim staðhæfingum stefnda er hafnað að ekki sé hægt að fullyrða um framtíðarstarfsvettvang hans þar sem stefnandi hafi verið 20 ára á slysdegi , enda liggi ljóst fyrir að stefnandi var kominn með góða vinnu á sjó sem hann hugðist stunda til framtíðar. Sú afstaða stefnanda sjáist meðal annars á því að eftir slysið reyndi hann að fara aftur á sjóinn en gafst upp sökum þess að hann var óvinnufær til sjós. Í uppgjöri vegna bóta fyrir varanlega örorku á sínum tíma miðaði stefndi við tekjur stefnanda árið 2006, þ.e. árið fyrir slys, en þær tekjur eru svipaðar launum samkvæmt lágmarkslaunaviðmiði 3. mgr. 7. gr. skbl. Slíkt geti ekki talist góður framtíðarmælikvarði á laun ungs fólks, sem er þar að auki í námi, en stefnandi var sem kunnugt er í vélstjóranámi og hafði lokið fyrsta hluta þess.
Stefnandi starfaði á sjó þegar slysið varð og hafði gert um hríð. Hann hafði hug á að starfa áfram á sjó, og ekkert bendir til þess að breyting hefði orðið þar á, nema afleiðingar slyssins. Ber því að taka mið af meðaltekjum sjómanna.
Dómkröfur stefnanda byggja á áðurnefndri matsgerð og sundurliðast þannig:
1. Bætur skv. 2. gr. skbl. kr. 436.787.-
366.583 x 1.08 / 295,4 x 325,9 = 436.787.-
2. Bætur skv. 5-7. gr. skbl. kr. 15.148.276.-
Meðaltekjur sjómanna árið 2005: 4.399.000 kr.
4.399.000 x 1.08 / 268,0 x 330,9 = 5.865.968.-
5.865.968 x 17,216 x 15%
Að frádregnum bótum fyrir varanlega örorku: kr. -7.410.205.-
Aðalkrafa samtals kr. 8.174.858 .-
Stefnandi gerir kröfu um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, sbr. matsgerð. Við útreikning á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón er tekið mið af meðaltekjum sjómanna árið 2005 samkvæmt launatöflum Hagstofunnar og eru þær tekjur uppfærðar miðað við launavísitölu í nóvember árið 2007.
Stefnandi gerir þá kröfu að miðað verði við meðaltekjur sjómanna árið 2005 samkvæmt launatöflum Hagstofunnar, þar sem meðaltekjur sjómanna árið 2006 eru ekki birtar. Þau laun eru síðan uppfærð fram að stöðugleikatímapunkti, miðað við launavísitölu og framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Er tekið mið af 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Krafist er 4,5% vaxta skv. 16. gr. skbl. frá stöðugleikatímapunkti hinn 16. janúar 2008 til 11. júlí 2009, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá þeim degi og fram til greiðsludags.
Verði ekki fallist á aðalkröfu um að taka beri mið af meðaltekjum sjómanna árið 2005, er þess krafist að miðað verði við meðaltekjur verkafólks í iðnaði, fiskiðnaði, fiskvinnslu og samgöngum árið 2006. Áður en stefnandi fór á sjó, svo og eftir að hann hætti á sjó vegna afleiðinga slyssins, starfaði hann sem verkamaður, einkum í fiskvinnslu. Stefnandi hefur því verið við verkamannastörf á ýmsum stöðum frá árinu 2008-2010. Ber því að miða við áðurnefndar meðaltekjur verði ekki fallist á meðaltekjur sjómanna.
1. Bætur skv. 2. gr. skbl. kr. 436.787.-
366.583 x 1.08 / 295,4 x 325,9 = 436.787.-
2. Bætur skv. 5-7. gr. skbl. kr. 11.363.789.-
Meðaltekjur verkafólks í iðnaði, fiskvinnslu
og samgöngum árið 2006: kr. 3.300.000
3.300.000 x 1.08 / 268,0 x 330,9 = 4.400.476.-
4.400.476 x 17,216 x 15%
Að frádregnum bótum fyrir varanlega örorku: kr. -7.410.205.-
Varakrafa samtals kr. 4.390.371 .-
Stefnandi gerir kröfu um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, sbr. matsgerð. Við útreikning á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón er tekið mið af meðaltekjum sjómanna árið 2005 samkvæmt launatöflum Hagstofunnar og eru þær tekjur uppfærðar miðað við launavísitölu í nóvember árið 2007.
Stefnandi gerir þá kröfu að miðað verði við meðaltekjur verkafólks í iðnaði, fiskiðnaði, fiskvinnslu og samgöngum árið 2006 samkvæmt launatöflum Hagstofunnar. Þau laun eru síðan uppfærð fram að stöðugleikatímapunkti, miðað við launavísitölu og framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Er tekið mið af 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Krafist er 4,5% vaxta skv. 16. gr. skbl. frá stöðugleikatímapunkti þann 16. janúar 2008 til 11. júlí 2009, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá þeim degi og fram til greiðsludags.
Kröfur stefnanda styðjast við skaðabótalög nr. 50/1993, með síðari breytingum, einkum 2. mgr. 7. gr. Um vaxtakröfuna vísar stefnandi sérstaklega til 16. gr. skbl. og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili skv. lögum nr. 50/1988 og ber því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Málsástæður og lagarök stefnda
Bótaskyldan er viðurkennd. Ágreiningurinn snýst annars vegar um það hvaða viðmiðunarlaun skuli lögð til grundvallar útreikningi á tjóni stefnanda vegna varanlegrar örorku og hins vegar er deilt um tímabundið atvinnutjón. Fullnaðaruppgjör fór fram vegna þjáninga og varanlegs miska 31. ágúst 2009.
Um viðmiðunarlaunin: Í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga er að finna meginregluna um útreikning bóta vegna varanlegrar örorku og skulu árslaun til ákvörðunar bótanna vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú seinustu almanaksár fyrir þann dag er tjón varð. Tjónsdagur í máli því sem hér er til skoðunar var 16. október 2007. Viðmiðunarárin eru því 2004, 2005 og 2006. Framtaldar tekjur stefnanda þessi ár voru sem hér segir: Árið 2004 . 1.205.207 kr., árið 2005 . 1.359. 727 kr. og árið 2006 . 2.143.423 kr. Uppreiknaðar miðað við launavísitölu til stöðugleikapunkts ná þessar tekjur ekki lágmarkslaunum eins og þau eru ákveðin í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna og hefði því í raun ekki verið tilefni til annars en að miða uppgjör tjóns vegna varanlegu örorkunnar við lágmarkslaunin.
Stefndi gerði þó betur og lagði til grundvallar útreikningi sínum á tjóni vegna varanlegu örorkunnar framtaldar tekjur stefnanda árið 2006 og hefur gert upp við hann í samræmi við það. Stefndi telur því að stefnandi hafi þegar fengið fullnaðarbætur fyrir tjón sitt vegna varanlegu örorkunnar.
Stefndi telur útilokað að fallast á þau sjónarmið stefnanda að sú staðreynd að hann hafði starfað sem sjómaður um stundarsakir þegar hann varð fyrir slysinu 16. október 2007 eigi að leiða til þess að bætur vegna varanlegu örorkunnar skuli reiknast út miðað við meðaltekjur sjómanna árið 2005, eins og gert er ráð fyrir í aðalkröfu hans. Í því sambandi bendir stefndi á, að stefnandi var 20 ára á tjónsdegi og því ekkert hægt að fullyrða um það hvaða starfsvettvang hann kysi sér í framtíðinni. Samkvæmt framlögðu yfirliti um lögskráningu hafði stefnandi verið skráður á sjó í 107 daga fyrir slysið, þar af 26 daga á ms. Sóleyju Sigurjóns. Að mati stefnda nægir þetta engan veginn til þess að hægt sé að ganga út frá því að stefnandi myndi starfa sem sjómaður til frambúðar. Til þess að svo megi verða er óvissan alltof mikil.
Meint staða stefnanda í námi breytir engu hér. Stefnandi var u.þ.b. hálfnaður með framhaldsskólanám á slysdegi, þar með talið 3 annir í Verkmenntaskólanum á Akureyri á vélstjórnarbraut. Því er ekki fallist á að högum stefnanda hafi verið þannig háttað að tilefni sé til að víkja frá aðalreglu skaðabótalaganna um viðmiðunarlaun vegna varanlegrar örorku og minnt á að undantekningarregluna í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga ber samkvæmt skýrum fordæmum Hæstaréttar að túlka þröngt. Því er ekki fallist á að hún eigi við eins og mál þetta er vaxið.
Stefndi telur, með vísun til þess sem hann hér hefur verið rakið, að engin efni séu til að fallast á kröfur stefnanda hvort heldur litið er til aðal- eða varakröfunnar, en öll sömu rök stefnda eigi einnig við um hana og því beri að sýkna stefnda þar sem stefnandi hafi þegar fengið fullnaðarbætur vegna þess tjóns sem hann varð fyrir í umrætt sinn.
Um tímabundið tjón: Í málinu er gerð krafa um tímabundið tjón, sem ekki hafi verið greitt af stefnda. Fyrir því er einföld skýring og hún er sú að það er fyrst í stefnunni sem slík krafa lítur dagsins ljós. Henni er hins vegar engu að síður hafnað.
Engin gögn hafa verið lögð fram af hálfu stefnanda til stuðnings kröfunni og tölulegur grunnur hennar óútskýrður og óljós. Ekki er á það fallist af hálfu stefnda að það eigi stoð í lögum að leggja til grundvallar tímabundnu tjóni stefnanda meðaltekjur sjómanna árið 2005, eins og hann virðist gera og þaðan af síður að heimilt sé að uppreikna tölurnar miðað við launavísitölu eins og stefnandi gerir. Krafan er að mati stefnda algerlega órökstudd, án viðhlítandi gagna og því ekki dómtæk vegna vanreifunar. Engar upplýsingar liggja t.d. fyrir um greiðslur til stefnanda frá vinnuveitanda eða öðrum þann tíma sem hér um ræðir. Þá er stefnandi lögskráður á ms. Mars, skipaskrárnúmer 2154 hluta þessa tímabils eða frá 30. október 2007 til 7. nóvember 2007 og segir það meira en mörg orð um veikan grunn þessa kröfuliðar, sem er mótmælt af hálfu stefnda.
Til vara er svo krafist lækkunar á kröfum stefnanda og um rök fyrir því vísast til raka fyrir sýknukröfunni, eftir því sem við getur átt.
Niðurstaða
Í málinu er bótaskylda stefnda ágreiningslaus og hefur stefndi þegar greitt honum 9.130.245 kr. vegna slyssins 16. október 2007. Ágreiningur málsins er tvíþættur. Annars vegar er gerð krafa um bætur vegna tímabundins tjóns, sbr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Hins vegar krefst stefnandi þess að viðmiðunarlaun hans verði metin sérstaklega og vísar til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Í 2. gr. skaðabótalaga kemur fram að bætur fyrir tímabundið atvinnutjón skuli ákveða fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða heilsufar hans er orðið stöðugt. Sönnunarbyrði fyrir tjóni stefnanda hvílir á honum sjálfum. Telja verður að 2. gr. skaðabótalaga byggist á því að tjónþoli hafi verið í launaðri vinnu og geti ekki sinnt henni vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir. Er á því byggt að um raunverulegt tjón sé að ræða en ekki áætlað tjón. Þar sem stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir slíku raunverulegu tjóni ber að hafna kröfu hans um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns.
Í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga kemur fram sú meginregla skaðabótalaga að miða eigi við meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitenda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Undanþáguákvæði er í 2. mgr. sömu greinar, en þar segir að árslaunin megi meta sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegum framtíðartekjum tjónþola.
Stefnandi málsins er fæddur í janúarmánuði 1987 og var því rúmlega tvítugur að aldri þegar slysið átti sér stað í október 2007. Hann stundaði nám á vélstjórnarbraut við Verkmenntaskólann á Akureyri á haustönn 2004 og vorönn og haustönn 2005 og hafði lokið 33 einungum á þessum tíma, sem þýðir fullt nám í u.þ.b. tvær annir. Eftir slysið hefur hann ekki stundað nám og fyrir dómi kvaðst hann enn eiga eitt fag eftir til að ljúka þessu námi. Þá hafi hann eftir slysið stundað fiskvinnslu í landi.
Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi verið fastráðinn í skipsrúm en fyrir liggur að stefnandi var fyrst lögskráður á sjó í fimm daga í mars 2007, og síðan frá 22. maí ,
til 28. júní 2007, tólf daga í júlí, fjórtán daga í ágúst og síðan frá 23. ágúst til 19. september. Að lokum hafi hann verið lögskráður á sjó frá 12. október en slysið varð 16. sama mánaðar. Samtals eru þetta 107 lögskráningardagar.
Í ljósi ungs aldurs stefnanda, stuttrar skólagöngu hans og stutts starfstíma á sjó, án fastráðningar, verður að telja að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að um óvenjulegar aðstæður sé að ræða í hans tilviki, þannig að við launaviðmið eigi að fara eftir 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Eins og að framan greinir hefur stefnandi þegar fengið greiddar bætur frá stefnda vegna slyssins. Samkomulag varð um að viðmiðunarlaun stefnanda skyldu vera tekjur hans árið 2006, sem voru ívið hærri en lágmarkslaunin. Með þessu er stefndi ekki að viðurkenna að óvenjulegar aðstæður eigi við í tilviki stefnanda, heldur er hér um sáttartillögu að ræða sem bindur stefnda ekki umfram fjárhæð þá er hann greiddi stefnanda.
Í ljósi þess sem að ofan greinir á stefnandi ekki rétt til frekari bóta en hann hefur þegar þegið af hálfu stefnda og er stefndi því sýknaður af aðal- og varakröfu stefnanda, en sömu sjónarmið eiga við um varakröfu hans.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýknuð af kröfum stefnanda, Sverris Más Ólafssonar.
Málskostnaður fellur niður.