Hæstiréttur íslands

Mál nr. 435/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


Föstudaginn 2. september 2011.

Nr. 435/2011.

NVN ehf.

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Halldór H. Backman hrl.)

Kærumál. Hæfi dómara.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu N um að dómari viki sæti í máli L gegn honum. L reisti kröfu sína á tveimur samningum við N um kaup á hlutafé í E fyrir tilgreint verð og taldi N hafa vanefnt greiðsluskyldu sína samkvæmt þeim. Undir rekstri málsins hafnaði dómari málsins kröfu N um frávísun. Taldi N að með tilteknu orðalagi í úrskurðinum hefði héraðsdómari bundið hendur sínar þegar til þess kæmi að kveða upp efnisdóm í málinu og ástæða væri til að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Í Hæstarétti var fallist á með héraðsdómi að í hinum tilvitnuðu orðum hefði einungis falist lýsing á því hver grundvöllur stefnukröfunnar væri. Með þeim athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dómari viki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, víki sæti í málinu.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Mál þetta er rekið af hálfu varnaraðila til heimtu ætlaðrar skuldar sóknaraðila við hann. Kröfu sína kveður varnaraðili reista á tveimur samningum hans við sóknaraðila frá 30. nóvember 2007, en efni þeirra hafi lotið að kaupum hins síðarnefnda á tilteknu hlutafé í Hf. Eimskipafélagi Íslands fyrir tilgreint verð, sem efna skyldi 29. febrúar 2008. Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi vanefnt greiðsluskyldu sína samkvæmt samningunum. Hann sendi sóknaraðila greiðsluáskorun 17. mars 2009 og innheimtubréf 25. júní sama ár og krafði hann um greiðslu á 253.258.029 krónum, auk vaxta og kostnaðar, en hluti þeirrar fjárhæðar, 14.245.719 krónur, var vegna þeirra tveggja samninga er áður greinir. Kemur fram í innheimtubréfinu að gagnkröfur sóknaraðilans vegna afleiðusamninga hafi verið dregnar frá upphaflegri kröfu. Varnaraðili ritaði sóknaraðila annað bréf 20. október 2009 þar sem gefinn var kostur á að ,,gera upp þá samninga sem liggja að baki skuld yðar samkvæmt aðalefni sínu, gegn útgáfu afsals undirliggjandi verðmæta.“ Sóknaraðili varð ekki við þessari áskorun og höfðaði varnaraðili mál þetta 30. október 2009. Í stefnu til héraðsdóms kemur fram að stefnufjárhæðin, 44.624.119 krónur, sé ,,samningsfjárhæð“ þeirra tveggja samninga sem áður greinir.

Sóknaraðili krafðist frávísunar málsins vegna vanreifunar þess. Taldi hann meðal annars að á skorti að skýrður væri mismunur á þeirri fjárhæð sem hann væri talinn skulda varnaraðila samkvæmt greiðsluáskorun og innheimtubréfi annars vegar og stefnufjárhæðinni hins vegar.

Með úrskurði héraðsdóms 30. mars 2011 var kröfu um frávísun málsins hafnað. Röksemdir dómsins fyrir þeirri niðurstöðu voru einkum, að misræmi í fjárhæðum leiddi af því að notaðar væru mismunandi uppgjörsaðferðir á þeim samningum, sem um ræðir. Í úrskurðinum sagði einnig svo: ,,Uppgjör samkvæmt dómkröfunni er í samræmi við samninga aðila, þ.e. krafa um efndir in natura, og getur það ekki varðað frávísun málsins þótt [NVN ehf.] hafi áður en til málshöfðunar kom verið krafinn um efndir eftir öðrum aðferðum.“

Sóknaraðili telur að með tilvitnuðum orðum í úrskurðinum 30. mars 2011, einkum orðunum ,,er í samræmi við samninga aðila“ hafi héraðsdómari bundið hendur sínar þegar til þess kemur að kveða upp efnisdóm í málinu. Ástæða sé því til þess að draga óhlutdrægni héraðsdómarans með réttu í efa og beri dómaranum því að víkja sæti í málinu vegna vanhæfis, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

Héraðsdómur hafnaði kröfunni með hinum kærða úrskurði.

Fallist er á með héraðsdómi að í hinum tilvitnuðu orðum hafi einungis falist lýsing á því að grundvöllur stefnukröfunnar væri sá, að verið væri að krefjast efnda samkvæmt aðalefni þeirra tveggja samninga, sem varnaraðili telur að séu í gildi milli hans og sóknaraðila.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, sbr. a. lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, NVN ehf., greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2011

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 22. júní sl., er höfðað af Landsbanka Íslands hf. fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 30. október 2009 á hendur NVN ehf., (áður Norðurver ehf.), Laufásvegi 77, Reykjavík.

                Í málinu gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 44.624.119 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. febrúar 2008 til greiðsludags gegn útgáfu afsals fyrir 1.016.000 hlutum í A1988 hf., áður Hf. Eimskipafélagi Íslands. Þá krefst hann málskostnaðar. Með úrskurði héraðsdómara upp kveðnum 30. mars sl. var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað. Eftir stendur krafa hans um sýknu en til vara lækkun krafna stefnanda, auk kröfu um málskostnað.

                Í þessum þætti málsins er tekin til úrlausnar krafa stefnda, sem sett var fram í þinghaldi 16. júní sl., þess efnis að dómari víki sæti í málinu. Af hálfu stefnanda er þess krafist að kröfunni verði hafnað. Krafa stefnda var sett fram í fjórða þinghaldi sem fram fór eftir að framangreindur úrskurður var kveðinn upp. Í þinghaldi 15. apríl sl. var ákveðið að aðalmeðferð færi fram 22. þessa mánaðar. Í þinghaldi 9. júní sl. var ákveðið að fresta henni til 29. júní nk.

                Krafa stefnda er á því byggð að dómari hafi, er hann hafnaði kröfu stefnda um frávísun málsins, tekið efnislega afstöðu til varakröfu hans. Séu því fyrir hendi aðstæður sem séu til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómara í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Vísar stefndi máli sínu til stuðnings til eftirfaranda orða dómara í niðurstöðu úrskurðarins: „Uppgjör samkvæmt dómkröfunni er í samræmi við samninga aðila, þ.e. krafa um efndir in natura, og getur það ekki varðað frávísun málsins þótt stefndi hafi áður en til málshöfðunar kom verið krafinn um efndir eftir öðrum aðferðum.“ Krafan sé ekki sett fram fyrr en nú þar sem málið hafi verið að taka á sig nýja mynd með framlagningu nýrra gagna af hálfu stefnanda.

                Af hálfu stefnanda er því haldið fram að framangreind orð dómara séu slitin úr samhengi. Hann hafi ekki tekið efnislega afstöðu til málsins í frávísunarúrskurði sínum. Stefnandi bendir á að krafa þessi sé sett fram tveimur og hálfum mánuði eftir að úrskurðinn var kveðinn upp og síðan þá hafi verið nokkur þinghöld í málinu. Augljóst sé að hún sé sett fram til að koma í veg fyrir að fyrirhuguð aðalmeðferð 29. júní nk. fari fram og að dómarinn dæmi málið en setning hans í embættið renni út hinn 31. ágúst nk. Hvað varðar hin nýju gögn sem lögð hafi verið fram vísar stefnandi til þess að þau hafi verið send stefnda fyrir þinghaldið sem þau hafi verið lögð fram í og þá hafi stefnandi farið ítarlega yfir þau við framlagningu. Um sé að ræða gögn er varði sönnun í málinu en ekki nýjar málsástæður.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Sambærilegt ákvæði er að finna í alþjóðasáttmálum sem Ísland er aðili að, þ. á m. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stefndi byggir kröfu sína um að dómari víki sæti á g-lið 5. gr. laga um meðferð einkamála þar sem kveðið er á um að dómari víki sæti ef fyrir hendi séu önnur atvik eða aðstæður en þau sem nefnd eru í a- til e-liðum ákvæðisins, sem eru fallin til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Kemur því til skoðunar hvort stefndi hafi réttmæta eða sanngjarna ástæðu til að tortryggja óhlutdrægni dómara í málinu.

                Krafa stefnda sem fyrst var sett fram í þinghaldi 16. júní sl. er á því reist að fullyrðing í úrskurði dómara varðandi frávísunarkröfu frá 30. mars sl. hafi falið í sér efnislega afstöðu til varakröfu stefnda um lækkun krafna stefnanda. Í umræddari fullyrðingu kemur fram að uppgjör samkvæmt dómkröfunni sé í samræmi við samninga aðila, þ.e. krafa um efndir in natura og geti það ekki varðað frávísun málsins þótt stefndi hafi áður en til málshöfðunar kom verið krafinn um efndir eftir öðrum aðferðum. Varakrafa er í greinargerð stefnda m.a. sögð byggjast á kröfugerð stefnanda sjálfs og framlögðum gögnum slitastjórnar um fyrri kröfur um meinta skuld. Óumdeilt er í málinu að misræmi í stefnufjárhæð og greiðsluáskorunum til stefnda byggðust á mismunandi uppgjörsaðferðum en innheimtubréfin byggðu á svokallaðri nettun, þ.e. skuldajöfnun innan samninga. Er með engum hætti unnt af fallast á að dómari hafi með fullyrðingu sinni tekið efnislega afstöðu til varakröfu stefnda. Einungis er í úrskurðinum lýsing á ómdeildum staðreyndum og sú ályktun dregin að þær leiði ekki til frávísunar. Ekki er tekin afstaða til þess hvort greiðsluáskoranir sem sendar voru stefnda séu bindandi fyrir stefnanda. Ber því að hafna kröfu stefnda um að dómari víki sæti í málinu.

                Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Hafnað er kröfu stefnda um að dómari víki sæti í máli þessu.