Hæstiréttur íslands
Mál nr. 17/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 11. janúar 2011. |
|
|
Nr. 17/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. janúar 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. febrúar 2011, klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til var að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. febrúar nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram, að að morgni 1. janúar sl. hafi fjarskiptamiðstöð lögreglu borist tilkynning um að maður lægi eftir slagsmál framan við [...] í Hafnarstræti, Reykjavík. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi A legið á gangstéttinni. Hafi hann verið fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið en hann hafi verið meðvitundarlaus og ekki svarað áreiti. A hafi fengið heilablæðingu á tveimur stöðum en sé talinn úr lífshættu.
Fjögur vitni hafi gefið sig fram við lögreglu og sagt A og annan mann hafa verið að slást á gangstéttinni utan við [...]. Þeir hafi báðir verið berir að ofan. Sögðu þau manninn hafa sparkað eða hrint A þannig að hann hafi fallið í götuna. Síðan hafi maðurinn fylgt honum eftir og sparkað eða traðkað á höfði A. Lýstu þau árásarmanninum sem grönnum, á svipuðum aldri og A, með mikið húðflúr, stuttklippt dökkt hár og að hann hafi klætt sig í fjólubláan bol eftir slagsmálin.
Kærði hafi við skýrslutöku hjá lögreglu lýst samskiptum sínum og A þannig að hann hafi kannast við A og spurt hann hvort hann væri ekki bróðir B. A hafi svarað með orðunum “og hvað með það” og verið með „stæla“ og byrjað að ýta við kærða. Sagði hann að þeir hafi byrjað að hrinda hvor öðrum og báðir klætt sig úr að ofan. Sagði hann A ekki hafa fallið við þessar hrindingar heldur hafi hann dottið í tröppum sem séu þarna. A hafi þó staðið upp aftur en hann hafi verið svo ölvaður að hann hafi varla getað staðið í fæturna og hafi hann fallið aftur. Sagðist kærði þá hafa farið, ásamt bróður sínum og tveimur félögum. Kemur fram að kærði hafi neitað því að hafa sparkað eða traðkað á A.
Lögregla hafi farið í húsleit á heimili kærða og haldlagt fatnað sem hann hafi veri í umrætt sinn.
Rannsóknin sé langt á veg komin, búið sé að taka skýrslur af nær öllum vitnum málsins.
Að mati lögreglustjóra sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðar allt að 16 ára fangelsi. Hafi hann viðurkennt að hafa átt í handalögmálum við brotaþola en neiti þó að hafa hrint honum svo að hann hafi fallið og að hafa sparkað eða traðkað á höfði hans. Þau vitni sem gáfu sig fram á vettvangi hafi lýst atlögu kærða með sama hætti við skýrslutöku og þau gerðu á vettvangi. Önnur vitni, sem öll séu tengd kærða, hafi greint frá því að brotaþoli hafi fallið niður tröppurnar án þess að kærði hafi komið þar nærri.
Það sé mat lögreglustjóra að hér sé um verulega fólskulega árás að ræða og virðist vera sem kærði hafi sparkað eða traðkað á höfði brotaþola þar sem hann lá meðvitundarlaus í götunni eftir að hafa fallið niður tröppur eftir spark eða hrindingu frá kærða. Brotaþoli hafi hlotið alvarlegan lífshættulegan höfuðáverka/heilaáverka. Hann hafi höfuðkúpubrotnað með utanbastsblæðingu undir brotinu hægra megin á gagnaugasvæði og heilamar vinstra megin í gagnstæðum hluta heila. Blæðingin hafi hætt af sjálfu sér og því ekki þurft að fjarlægja hana með aðgerð. Líðan brotaþola sé betri núna en hann hafi verið útskrifaður af gjörgæsludeild daginn eftir komu. Þá hafi hann vaknað meira og sé nú farinn að tjá sig. Batahorfur séu óljósar en líklega eigi hann eftir að ná sér nokkuð vel.
Telur lögreglustjóri brot það sem hér um ræðir vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarlegt brot sem honum sé gefið að sök. Þyki brotið vera þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund manna að kærði gangi laus meðan mál hans sé til meðferðar. Þá beri að líta til þess að kærði hafi nýlega hlotið tveggja og hálfs árs fangelsisrefsingu með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. s-553/2010, fyrir tvær sérstaklega hættulegar líkamsárásir, rán og frelsissviptingu en dómurinn sem birtur hafi verið kærða 3. janúar sl. sé ekki orðinn fullnustuhæfur, þar sem kærði tók sér frest til áfrýjunar.
Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði sé sakaður um, teljist uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, enda geti brotið varðað að lögum 10 ára fangelsi og sé þess eðlis að telja verður nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 3. janúar sl. hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna allt til kl. 16:00 í dag vegna þess brots sem hér um ræðir.
Sakarefni málsins sé talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en brot gegn ákvæðinu getur varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Niðurstaða
Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. sakamálalaga má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi kærði að hafa lent í handalögmálum við A, en neitaði að hafa sparkað í eða traðkað á höfði hans. Meðal fyrirliggjandi gagna er lögregluskýrsla manns sem kveðst hafa orðið vitni að átökunum og hafi hann séð hvar annar mannanna sparkaði í andlit hins með þeim afleiðingum að hann féll í gangstétt. Hafi árásarmaðurinn sparkað þrisvar sinnum í brotaþola þar sem hann lá, í andlit hans og bringu. Annað vitni sagðist hafa séð árásarmanninn sparka í brotaþola svo að hann féll í gangstéttina og lá þar meðvitundarlaus. Sagðist vitnið hafa séð árásarmanninn sparka tveimur spörkum í brotaþola þar sem hann lá og traðka ofan á honum. Að auki hafa tvö vitni borið að árásarmaðurinn hafi veist að brotaþola með karate eða kick-box spörkum. Samkvæmt vottorði C sérfræðings í heila- og taugaskurðlækningum, dagsettu 6. janúar 2011, var A meðvitundarlaus við komu á sjúkrahús. Reyndist hann vera höfuðkúpubrotinn með blæðingu í heila hægra megin á gagnaugasvæði, en mar vinstra megin í gagnstæðum hluta heila.
Með því sem rakið hefur verið, og með hliðsjón af rannsóknargögnum málsins að öðru leyti, þykir vera sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um líkamsárás sem varðað getur við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá er verknaðurinn þess eðlis að ætla má að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Er einnig til þess að líta að ákærði hefur nýverið hlotið tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir tvær sérstaklega hættulegar líkamsárásir, rán og frelsissviptingu, svo sem rakið er í greinargerð lögreglustjóra. Samkvæmt öllu ofangreindu er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. febrúar nk. kl. 16.00.