Hæstiréttur íslands
Mál nr. 707/2009
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Riftun
- Laun
|
|
Fimmtudaginn 30. september 2010. |
|
Nr. 707/2009. |
Gull og demantar ehf. (Kjartan Reynir Ólafsson hrl.) gegn Þórði M. Þórðarsyni (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) |
Ráðningarsamningur. Riftun. Laun.
Þ krafðist launa úr hendi G vegna starfstíma síns samkvæmt námssamningi. G bar fyrir sig að það hefði verið forsenda námssamnings við Þ að starfsnám hans væri ólaunað og vísaði í því sambandi til meginreglna samningaréttar. Var héraðsdómur staðfestur um greiðsluskyldu G samkvæmt meginreglu 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda með síðari breytingum og 2. mgr. 32. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla..
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. desember 2009. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum, hefur að geyma meginreglu þess efnis að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skuli vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Enn fremur að samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skuli ógildir. Þá sagði í 2. mgr. 32. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla að ákvæði námssamninga um laun og önnur starfskjör skyldu vera í samræmi við gildandi kjarasamninga að því er varðar nema í viðkomandi starfsnámi, sbr. nú 3. mgr. 28. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Gull og demantar ehf., greiði stefnda, Þórði M. Þórðarsyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2009.
Mál þetta höfðaði Þórður M. Þórðarson, kt. 080746-4589, Lóurima 21, Selfossi, með stefnu birtri 17. febrúar 2009, á hendur Gulli og demöntum ehf., kt. 580589-1469, Skólavörðustíg 2, Reykjavík. Málið var dómtekið 9. september sl.
Stefnandi krefst greiðslu á 1.291.713 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 10. mars 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar, samtals að fjárhæð 352.958 krónur.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.
Stefnandi krefur stefnda um laun á starfstíma sínum samkvæmt námssamningi.
Aðilar undirrituðu samning um nám stefnanda í gull og silfursmíði 1. desember 2006. Stefndi var vinnuveitandi samkvæmt samningnum, en Ívar Þórólfur Björnsson meistari. Ívar er forsvarsmaður stefnda. Samningurinn var staðfestur af Iðunni fræðslusetri 11. desember 2006.
Þegar aðilar gerðu þennan samning var annar nemi á samningi hjá stefnda, Guðmundur Blöndal. Hafði hann gert samning við stefnda í mars 2005 og í samningi hans var tekið fram að starfsnám hans væri ólaunað. Hefur, samhliða þessu máli, verið rekið mál þar sem Guðmundur krefur stefnda um launagreiðslur á námstímanum. Heldur hann því fram að ákvæði þetta hafi verið sett til málamynda.
Stefnandi lýsti fyrir dómi aðdraganda þess að þeir gerðu þennan samning. Ívar hafi talað um að hann ætti erfitt með að greiða laun. Hann hafi komist fljótt að því að hann borgaði seint og illa.
Ívar sagði fyrir dómi að hann hafi gert samning við stefnda á sömu forsendum og hann samdi við Guðmund, þ.e. að hann greiddi honum ekki laun.
Stefndi lagði fram bréf Þorvaldar K. Þorsteinsson, löggilts endurskoðanda, dags. 4. júní 2009. Þar svaraði endurskoðandinn spurningum lögmanns stefnda. Hann segir m.a.: Frá hausti 2005 voru tveir launþegar, Ívar Björnsson og Ívar B. Ívarsson í fullu starfi hjá félaginu. Ljóst er því að afkoma félagsins hefur engan veginn staðið undir eðlilegum launum fyrir þá starfsmenn sem til staðar voru hvað þá ef til viðbótar starfsmanna hefði komið.
Samkvæmt áskorun stefnda lagði stefnandi fram skattframtöl sín árin 2007-2009. Þar er ekki getið neinnar kröfu á hendur stefnda.
Stefnandi sagði að munir er hann smíðaði hefðu verið seldir í búðinni. Hann hafi skráð vinnutímann hjá sér, yfirleitt frá degi til dags. Hann héldi dagbók þar sem fram kæmi hvað hann hefði gert.
Forsvarsmaður stefnda taldi að vinnutíminn væri ekki rétt skráður hjá stefnanda. Hann hefði beðið starfsmann Iðunnar að skrá vinnutíma stefnanda á vinnuvottorðið. Þar vanti ekki neitt upp á. Stefnandi sagði um skjal þetta að vinnutíminn væri ekki rétt skráður.
Stefnandi sagði fyrir dómi að mánudaginn 13. janúar hafi Ívar sakað sig um að hafa stolið tveimur og hálfri milljón úr peningaskápnum í versluninni. Eftir þetta hafi hann ekki fengið að koma á verkstæðið til að vinna.
Hinn 10. mars 2008 ritaði forsvarsmaður stefnda á eyðublað frá Iðunni fræðslusetri er nefnist Riftun samkomulag um riftun á námssamningi. Eyðublað þetta er ætlað til undirritunar beggja aðila, enda nefnt samkomulag. Ástæða riftunar er skýrð svo: Ég fyrrgreindur meistari í gull- og silfursmíði óska eftir að rifta námssamningi við Þórð M Þórðarson, kt. 080746-4589, vegna trúnaðarbrests.
Stefnandi ritaði ekki á þetta blað. Neðst á það er ritað: 10/3 ´08 nema sent bréf.
Stefnandi ritaði Iðunni bréf, dags. 12. mars 2008. Þar mótmælir hann einhliða uppsögn stefnda á námssamningnum.
Ívar Þórólfur Björnsson gaf hinn 29. apríl 2008 út svokallað vinnuvottorð á eyðublaði frá Iðunni fræðslusetri. Þar er starfstími stefnanda sundurliðaður og hann talinn hafa verið samtals 18 vikur.
Stefnandi ritaði af þessu tilefni bréf til Iðunnar, þar sem hann mótmælir tilgreiningu vinnutíma í áðurgreindu vottorði sem rangri. Skýrir hann vinnu sína nánar og kveðst hafa unnið samtals 39 vikur á verkstæði stefnda.
Aðilar náðu ekki niðurstöðu um vinnutímann. Stefnandi leitaði til lögmanns, sem sendi stefnda innheimtubréf, dagsett 20. nóvember 2008. Bréfinu var svarað með bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 18. desember. Mál þetta var síðan höfðað eins og áður segir 17. febrúar 2009.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á námssamningi sínum við stefnda. Hann vísar til 1. gr. laga nr. 55/1980. Kjarasamningur mæli fyrir um lágmarkskjör starfsmanna. Samningur um lakari rétt milli aðila sé ógildur. Um rétt stefnanda á hendur stefnda gildi kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar sambands iðnfélaga. Telur stefnandi sig eiga inni ógreidd laun á starfstíma sínum frá 1. desember 2006 til 13. janúar 2008.
Þá telur stefnandi sig eiga rétt á orlofi samkvæmt lögum nr. 30/1987. Orlof nemi 10,17% af launum.
Í yfirliti um leiðrétta stefnukröfu eru í 10 liðum talin laun sem stefnandi telur ógreidd. Er í stefnu rakinn fjöldi vinnustunda hvern mánuð og tímakaup. Stefnandi hóf störf í desember 2006, en hann hætti í janúar 2008 eins og áður segir, er stefndi rifti samningi við hann. Ekki er í þessu máli fjallað um réttmæti þeirrar riftunar. Stefnandi krefst launa fyrir 10 mánuði á þessu tímabili. Þar sem athugasemdir eru ekki hafðar uppi við þessa sundurliðun eða gagnkrafa um lækkun stefnukröfu, er ekki nauðsynlegt að rekja þessa sundurliðun frekar.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi telur að gengið hafi verið út frá því að stefnandi fengi ekki laun á námssamningstíma sínum. Láðst hafi að taka það fram skriflega í samningnum. Þessi skipan hafi verið forsenda fyrir samningnum af sinni hálfu, en reksturinn hafi ekki getað staðið undir því að hafa nema á launum.
Stefndi segir að það hafi verið forsenda fyrir samningnum að stefnanda yrðu ekki greidd laun.
Stefndi vísar til þess að á vinnuvottorði er Iðan fræðslusetur hafi útbúið og stefnt honum, sé staðfest að stefnandi fengi ekki laun. Því komi lög nr. 55/1980 þessu máli ekki við. Þá eigi lög nr. 28/1930 ekki heldur við, þar sem ekki skyldi greiða neitt kaup.
Stefndi segir að kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar eigi ekki við hér. Þar sé mælt fyrir um lágmarkskjör fyrir laun iðnnema. Launum verði að vera til að dreifa, en svo sé ekki í samningi aðila. Ekkert í lögum banni mönnum að vinna kauplaust.
Stefndi vísar til meginreglna samningaréttar.
Forsendur og niðurstaða
Aðilar gerðu með sér formlegan námssamning þar sem stefnandi gerðist nemi hjá forsvarsmanni stefnda, starfandi hjá stefnda sem vinnuveitanda. Ekki segir neitt um laun stefnanda í þessum samningi, en stefndi heldur því fram að samið hafi verið um að stefnandi yrði launalaus.
Vegna þess forms sem aðilar völdu á samningssamband sitt gilda um skipti þeirra lög nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Samningur um að stefnandi skyldi ekki fá laun væri því ógildur samkvæmt 1. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993. Bann laganna við að víkja frá kjarasamningi til lækkunar launa gildir jafnt um það tilvik er samið er um að engin laun skuli greidd. Skráning á ýmiss konar skjöl breytir þessu ekki. Þarf ekki að leysa úr því hvort sannað er að gerður hafi verið samningur, sem ekki er skuldbindandi.
Það stoðar ekki stefnda að bera fyrir sig að stefnandi hafi ekki unnið neitt nýtilegt. Stefndi hafði húsbóndavald og skipulagði starfsemi sína, einnig starf stefnanda. Stefnda bar einnig að halda til haga upplýsingum um starfstíma stefnanda. Er ekki unnt að byggja á skráningu þeirri sem hann segir stafa frá starfsmanni Iðunnar, honum bar sjálfum að halda til haga öruggum upplýsingum um vinnutímann. Upplýsingar um afkomu stefnda skipta hér ekki máli. Þá hefur stefnandi ekki fallið frá kröfum sínum í skattframtölum.
Að þessu virtu verður að fallast á að stefnda beri að greiða stefnanda laun. Þá verður að byggja á skráningu stefnanda sjálfs á vinnutíma sínum, en henni hefur ekki verið hnekkt.
Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda 1.291.713 krónur. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 10. mars 2008. Fjárkröfu sína virðist hann fyrst hafa gert skýrlega með bréfi lögmanns í nóvember 2008. Er rétt að dráttarvextir dæmist frá stefnubirtingardegi, 17. febrúar 2009.
Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Gull og demantar ehf., greiði stefnanda, Þórði M. Þórðarsyni, 1.291.713 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 17. febrúar 2009 til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.