Print

Mál nr. 435/2017

A (Oddgeir Einarsson lögmaður) og B (Oddgeir Einarsson lögmaður)
gegn
Reykjavíkurborg (Ebba Schram lögmaður)
Lykilorð
  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Matsgerð
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað
Reifun

R krafðist þess að A og B yrðu svipt forsjá dóttur sinnar á grundvelli a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fyrir lágu skýrslur og matsgerð um forsjárhæfni sem voru samhljóma um vanhæfni A og B meðal annars vegna vitsmunaskerðingar og skilningsleysi á stuðningsþörf. Var nýrrar matsgerðar síðar aflað sem vék nokkuð frá þeirri afstöðu sem kom fram í fyrri skýrslunum og matsgerð. Var það niðurstaða héraðsdóms að velferð og vellíðan stúlkunnar yrði teflt í tvísýnu með því að fela A og B forsjána. Þá hefði R reynt til hlítar að beita öðrum og vægari úrræðum. Var krafa R því tekin til greina. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í hinum áfrýjaða dómi væri tekin rökstudd afstaða til þess hvort skilyrðum fyrrgreindra stafliða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga væri fullnægt. Hefði sérstaklega verið vikið að því að ekki væri fallist á með A og B að ekki hefði verið tekið nægilegt tillit til fötlunar þeirra og lögbundinna skyldna yfirvalda í því sambandi. Var því hafnað kröfu A og B um ómerkingu héraðsdóms sem var meðal annars reist á því að ekki hefði verið tekin afstaða til þeirrar málsástæðu. Þá hefði héraðsdómur, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, metið sönnunargildi framangreindra skýrsla og matsgerða, svo og annarra gagna málsins, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 6. júlí 2017. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.

I

Áfrýjendur reisa kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms annars vegar á því að dómurinn hafi ekki tekið afstöðu til málsástæðu þeirra sem reist hafi verið á því að stefndi hafi með forsjársviptingunni, sem málið varðar, brotið gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 23. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hafi í málflutningi fyrir héraðsdómi meðal annars verið vísað til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að svipta seinfæra foreldra forsjá barns. Telja áfrýjendur að þetta brjóti í bága við e. og f. liði 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hins vegar telja áfrýjendur það eiga að leiða til ómerkingar héraðsdóms að verulegir ágallar séu á samningu dómsins sem fari í bága við 3. mgr. sömu lagagreinar. Þannig sé niðurstöðukafli úr hófi langur og þar sé málavaxtalýsing endurtekin þó með nánari tilvísunum til gagna málsins og framburðar vitna. Lýsing málsatvika í upphafi sé ekki sjálfstæð af hendi dómsins heldur nánast orðrétt endursögn úr héraðsdómsstefnu. Að auki sé niðurstöðukafli í matsgerð dómkvaddra manna frá 1. maí 2017 afritaður orðrétt inn í kafla um málsatvik. Á hinn bóginn sé lýsingu áfrýjenda á málsatvikum hvergi að finna í dóminum.

Áfrýjendur reisa kröfu sína um sýknu af kröfu stefndu um sviptingu forsjár dóttur þeirra á því að skilyrðum a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 fyrir forsjársviptingu sé ekki fullnægt. Lýtur málatilbúnaður þeirra einkum að því að renna stoðum undir þær röksemdir. Jafnframt tefla þau fram röksemdum sem reistar eru á réttindum þeirra sem seinfærum foreldrum og vísa í því sambandi til þess að túlka beri reglurnar í framangreindum stafliðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga til samræmis við þau réttindi sem þeim séu veitt í b. lið 1. mgr., 4. og 5. mgr. 23. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Inntak reglunnar í þessum staflið 23. gr. samningsins og þegar það er sett í samhengi við önnur ákvæði sömu greinar hans, er að tryggt sé að fatlað fólk geti notið ráðgjafar og aðstoðar þannig að það geti nýtt þann rétt að ákveða sjálft fjölda barna sinna og tíðni fæðinga. Af þessu verður meðal annars dregin sú ályktun að fötlunin ein og sér eigi ekki að vera ástæða forsjársviptingar þegar fatlað fólk eigi í hlut. Í hinum áfrýjaða dómi er tekin rökstudd afstaða til þess álitaefnis hvort skilyrðum a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga sé fullnægt eða ekki. Í því sambandi er sérstaklega að því vikið í rökstuðningi dómsins fyrir niðurstöðunni að ekki sé fallist á þá málsástæðu áfrýjenda að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til fötlunar þeirra og lögbundinna skyldna yfirvalda í því sambandi. Verður því hafnað þeim rökum áfrýjenda að héraðsdómur sé haldinn annmörkum að þessu leyti.

Þótt finna megi að því að héraðsdómur hafi ekki látið við það sitja að gera með sjálfstæðum hætti grein fyrir niðurstöðum í matsgerð dómkvaddra manna 1. maí 2017 heldur tekið niðurstöðukaflann í heild upp í dóminn og að lýsing málavaxta sé að einhverju leyti tvítekin í dóminum fer því fjarri að þetta séu slíkir annmarkar að þeir eigi að leiða til ómerkingar dómsins samkvæmt 3. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framansögðu verður kröfu áfrýjenda um ómerkingu héraðsdóms hafnað.

II

Í hinum áfrýjaða dómi er meðal annars gerð stuttlega grein fyrir forsjárhæfnismati á áfrýjendum sem D, gerði 6. desember 2004, foreldrahæfnismati sem E sálfræðingur, gerði á þeim á árinu 2010, sálfræði- og forsjárhæfnismati sem F sálfræðingur gerði á þeim 13. maí 2011, en hann var dómkvaddur til þess starfa og sálfræðilegri matsgerð með tilliti til forsjárhæfni sem G sálfræðingur, gerði á þeim 30. september 2016. Þá er einnig gerð grein fyrir efni matsgerðar dómkvaddra manna 1. maí 2017, sem unnin var af H, prófessor í fötlunarfræðum og I sálfræðingi. Eins og gerð er grein fyrir í dóminum víkur síðastgreind matsgerð nokkuð frá þeirri afstöðu sem fram kemur í þeim skýrslum og matsgerð sem áður eru nefndar. Héraðsdómur, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, mat sönnunargildi þeirra skýrslna og matsgerða, sem um ræðir, svo og annarra gagna málsins, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Með vísan til forsendna dómsins, að teknu tilliti til framangreindra athugasemda, verður hann staðfestur.

Stefndi gerir ekki kröfu um málskostnað fyrir Hæstarétti og verður hann ekki dæmdur. Gjafsóknarkostnaður áfrýjenda verður ákveðinn eins og í dómsorði greinir

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, A og B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, 1.200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2017.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. júní sl., er höfðað af Reykjavíkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, Reykjavík, vegna Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, á hendur A, og B, sem skráð eru með lögheimili að [...]. Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt 53. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 123. gr. laga nr. 91/1991.

I.

        Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu, A og B, verði svipt forsjá dóttur sinnar, C kt. [...], sem nú er vistuð á heimili á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sbr. a- og d-liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

        Stefndu krefjast sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Þá krefjast stefndu málskostnaður úr hendi stefnanda að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt mati dómsins og/eða málskostnaðarreikningi er lagður verður fram við munnlegan flutning málsins komi til þess, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

II.

Málsatvik

        Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi á fundi sínum hinn 14. október 2016 kveðið upp úrskurð þess efnis, að C, kt. [...], skuli vistuð á heimili á vegum stefnanda, í tvo mánuði, frá þeim degi að telja, á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Í samræmi við bókun barnaverndarnefndar Reykjavíkur, dags. 11. október 2016, og úrskurð, dags. 14. október 2016, var borgarlögmanni falið að annast fyrirsvar og gera kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um að stefndu verði svipt forsjá dóttur sinnar, sbr. a- og d-liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. 

         Mál þetta varðar C, sem er [...] mánaða gömul og lýtur forsjá beggja foreldra, stefndu. Telpan á þrjú eldri alsystkini, einn bróður og tvær systur. Stefndu gerðu samkomulag um að sonur þeirra, sem fæddur er 2004, yrði í umsjá móðurafa drengsins. Stefndu voru hins vegar svipt forsjá tveggja dætra sinna, sem fæddar voru 2008 og 2009, með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-[...]/2010, dags. 11. október 2011. Stefndu glíma bæði við þroskafrávik og eru metin í þörf fyrir mikinn og reglulegan stuðning. Þau eru bæði 75% öryrkjar.

        Eins og fram kemur í stefnu hefur mál telpunnar verið til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur frá því í febrúar 2015 með tilkynningu um fæðingu telpunnar. Áður hafði borist tilkynning um þungun stefndu, móður, og áhyggjur af getu foreldra til að annast barnið. Málið fór í könnun og upplýsinga var aflað frá heilsugæslu og þjónustumiðstöð. Í upplýsingum frá heilsugæslunni, dags. 21. apríl 2015, kom fram að fylgst hefði verið með telpunni á heimili hennar og að stefndu hefðu komið með hana í ungbarnaskoðun. Samvinna við stefndu var sögð góð. Málinu var lokað í maí 2015. Í bókun kemur fram að um sé að ræða foreldra sem ættu við skerðingu að stríða sem hefði áhrif á uppeldisfærni þeirra. Þá kemur fram að teymi hafi verið myndað um málefni fjölskyldunnar af hálfu þjónustumiðstöðvar og heilsugæslu.

         Tilkynningar bárust í maí 2016 um slæman aðbúnað telpunnar í umsjá stefndu, dskj. 8-23 og 25-32. Telpan dvaldi af þeim sökum á Vistheimili barna frá 27. maí fram til 7. ágúst 2016, fyrst með samþykki stefndu en síðan með úrskurði Barnaverndar, dags. 7. júní 2016, um tveggja mánaða vistun telpunnar utan heimilis, dskj. 38. Í kjölfarið fóru stefndu í greiningar- og kennsluvistun á Vistheimili barna en mætingar þeirra voru ekki eins og til var ætlast og voru stefndu til lítillar samvinnu. Af þeim sökum var málið lagt fyrir fund Barnaverndar hinn 14. júlí 2016 með tillögu um áframhaldandi vistun telpunnar utan heimilis. Í ljósi meðalhófsreglu og stjórnsýslu- og barnaverndarlaga var talið að svo stöddu, að ekki væru forsendur fyrir því að krefjast lengri vistunar telpunnar utan heimilis. Nauðsynlegt væri að láta reyna á samvinnuvilja stefndu til þriggja mánaða um þann stuðning og kennslu, sem þau voru talin í þörf fyrir í formi Greiningar og ráðgjafar heim, Ylfu, og að stefndu fengju að auki nauðsynlegan stuðning frá þjónustumiðstöð. Starfsmönnum Barnaverndar var falið að gera áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga til þriggja mánaða þar sem m.a. kemur fram að stefndu taki á móti nauðsynlegum stuðningi á heimili sitt og verði til samvinnu um að vinna að bættum uppeldisaðstæðum telpunnar, að óboðað eftirlit verði haft með heimili þeirra og vímuefnapróf tekin af stefndu ef þurfa þykir. Þá undirgangist stefndu endurmat á forsjárhæfni á seinni hluta tímabils meðferðaráætlunar. Samvinna verði við þjónustumiðstöð í málinu sem og heilsugæslu. Þá verði tryggt að telpan fái notið lengri viðveru á leikskóla en það sé mjög mikilvægt til að auka þroskamöguleika hennar.

         Stuðningsúrræðið Ylfa hefur í tvígang verið sett inn á heimili stefndu, fyrst í ágústbyrjun en þeirri vinnu lauk vegna skorts á samvinnu við stefndu, móður. Mat starfsmanns Ylfu var að stefnda, móðir, hefði lagt sig fram í upphafi en að hana skorti úthald. Hún hafi ekki tekið ráðum eða leiðbeiningum. Stefndi, faðir, hefði lítið sem ekkert frumkvæði í samskiptum við telpuna og væri áhugalaus. Telpan væri glöð, dugleg að leika sér og seinnipart heimsóknar hafi telpan verið í góðum samskiptum við stefndu. Þá var það mat starfsmanns að með aðstoð gæti telpan verið hjá stefndu en þær forsendur yrðu að vera fyrir hendi að þau væru sammála um að vilja hafa telpuna. Stefndi, faðir, væri það ekki en það hefði hann sýnt bæði í orði og verki. Ekki væru forsendur til að hafa telpuna á heimilinu nema báðir foreldrar væru tilbúnir til þess.

        Starfsmenn Barnaverndar ræddu við stefndu um alvarleika málsins og óskuðu þau eftir öðru tækifæri. Fallist var á ósk stefndu og fóru aðrir starfsmenn Ylfu inn á heimilið frá 7. september fram til 4. október 2016 og unnu með stefndu. Fram kemur í skýrslu starfsmanna Ylfu að stefndu, móður, hafi skort innsæi til að meta þarfir telpunnar, hún sinnti telpunni lítið og væri oft áhugalaus. Þá væri mikill dagamunur á hæfni stefndu, móður, til að eiga góð samskipti við telpuna. Þá hafi stefndi, faðir, hvorki áhuga né hæfni til að annast telpuna. Daglegt heimilishald væri á hans herðum en hann skorti úthald og færni. Mat starfsmanna Ylfu var að stefndu væru ekki fær um að sinna öllum þeim þörfum sem barn hefur, án mikils stuðnings. Stefndu hafi átt í erfiðleikum með að tileinka sér og fara eftir leiðbeiningum um uppeldi og umönnun telpunnar.

        Þá kemur fram í stefnu að stefndu hafa þegið stuðning frá þjónustumiðstöð og kemur fram í bréfi starfsmanna, dags. 29. ágúst 2016, að bæði tilsjón og frekari liðveisla hafi verið inni á heimilinu, stefndu verið leiðbeint við umönnun telpunnar og þau aðstoðuð við að koma skipulagi á heimilið. Þá kemur fram að stefndu hafi tekið vel á móti starfsmönnum og telpan verið glöð meðan á heimsóknum stóð. Ítrekað hafi verið við stefndu mikilvægi góðrar samvinnu við Barnavernd.

        Stefndu undirgengust forsjárhæfnismat á seinni hluta tímabils meðferðaráætlunar. Í forsjárhæfnismati G sálfræðings, dags. 30. september 2016, kemur fram að samhljómur hafi verið við þrjár fyrri matsskýrslur um forsjárhæfni stefndu og engar vísbendingar verið um að breytingar hefðu orðið á andlegri getu eða frammistöðu þeirra sem gæfu tilefni til að endurtaka prófanir sem þegar hefðu verið gerðar. Varðandi velferð, þroska og öryggi telpunnar í umsjá stefndu kom fram hjá matsmanni að veikleikar stefndu gæfu tilefni til að hafa alvarlegar áhyggjur af velferð, þroska og öryggi telpunnar í umsjá þeirra hvað alla liði varðar, nema til kæmi samvinna þeirra um mikla, stöðuga ráðgjöf og aðstoð sem bætti upp veikleikana. Undir slíkum kringumstæðum gætu komið viðunandi tímabil en ólíklegt væri að þau vörðu í lengri tíma. Niðurstaða matsmanns var á þá leið að forsjárhæfni stefndu væri verulega ábótavant. Ekkert hafi komið fram sem gæfi tilefni til að ætla að forsjárhæfni stefndu hafi breyst til betri vegar frá þeim þremur matsskýrslum um forsjárhæfni stefndu, sem áður hafa verið gerðar.

        Á tímabilinu frá 23. júlí 2016 til 2. október s.á. var farið í óboðað eftirlit á heimili stefndu í alls 26 skipti. Þá vaknaði grunur um að stefnda væri í vímuefnaneyslu. Í eitt skipti neitaði hún að blása í áfengismæli en í tvígang hefur hún tekið vímuefnapróf og niðurstöður verið neikvæðar í bæði skiptin. Í málsgögnum kemur fram að stefndu tóku misvel á móti eftirlitsaðilum og voru stundum í ójafnvægi og ósátt við eftirlit starfsmanna sem þau sögðu vera óþolandi truflun. Í einhver skipti var gerð athugasemd við ástand íbúðar. Undir lok eftirlitsins voru á ný áhyggjur af því að stefnda væri ekki heima á kvöldin og stefndi einn að sinna telpunni.

         Þá kemur fram í stefnu að samtals 16 tilkynningar hafi borist á tímabilinu 4. maí 2016 til 2. september s.á. og þar af fjórar frá því málið var lagt fyrir fund stefnanda um miðjan júlí sl., þar sem áhyggjum var lýst af telpunni í umsjá stefndu, sem bæði voru í áfengisneyslu og var málið tekið fyrir á fundi stefnanda, 11. október 2016. Í greinargerð starfsmanns, dags. 4. október 2016, kemur fram það mat að stefndu geti ekki sinnt uppeldishlutverki sínu til lengri tíma litið. Matið sé byggt á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga í málinu, bæði frá stuðningsaðilum fjölskyldunnar, niðurstöðu forsjárhæfnimats og tilkynningum sem borist hafa í málinu. Veikleikar stefndu í uppeldishlutverkinu gefi tilefni til að hafa alvarlegar áhyggjur af velferð, þroska og öryggi telpunnar í umsjá stefndu og að frekari stuðningur við þau megni ekki að breyta þeirri stöðu. Það sé því mat starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að það þjóni hagsmunum telpunnar best að vistast utan heimilis til 18 ára aldurs.

        Málið var tekið fyrir á fundi stefnanda, dags. 14. október 2016. Í úrskurði stefnanda kemur fram að ljóst sé að forsjársvipting sé alvarleg skerðing á friðhelgi fjölskyldulífs sem ekki beri að grípa til nema augljóst sé að vægara úrræði komi ekki að gagni eða að þau hafi verið reynd án árangurs. Þá kemur fram að niðurstaða forsjárhæfnismats, dags. 30. september 2016, sé með þeim hætti að telja verði ólíklegt að frekari stuðningsúrræði dugi til að gera stefndu hæf til að bera ábyrgð á telpunni. Í þinghaldi þann 16. janúar 2016 voru dómkvaddar skv. matsbeiðni stefnda þær I sálfræðingur og H, prófessor í fötlunarfræðum, til meta eftirtalin atriði.       

1.             Forsjárhæfni matsbeiðenda, þ. á m. helstu persónueinkenni þeirra, tilfinningaástand og tengslahæfni.

2.             Hvernig háttað sé andlegri heilsu matsbeiðenda og hvort líklegt sé að matsbeiðendur séu ófærir um að annast dóttur sína vegna andlegrar vanheilsu, greindarskerðingar eða annarrar fötlunar þeirra.

3.             Hvernig háttað er tilfinningalegu sambandi og tengslum milli matsbeiðenda og dóttur þeirra og hver skilningur matsbeiðenda á þörfum hennar er.

4.             Hvort fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu dóttur matsbeiðenda eða þroska hennar sé hætta búin fari matsbeiðendur með forsjá barnsins eða hvort breytni matsbeiðenda sé líkleg til að valda því alvarlegum skaða.

5.             Hvort matsbeiðendur séu ófærir um að sinna daglegri umönnun og uppeldi dóttur sinnar með hliðsjón af aldri hennar og þroska.

6.             Hvort þroskahömlun og/eða persónugerð matsbeiðenda komi í veg fyrir að þeir geti bætt forsjárhæfni sína með markvissri þjálfun frá fagaðilum.

7.             Hvort önnur úrræði en forsjársvipting gætu komið að gagni til að tryggja velferð dóttur matsbeiðenda, svo sem stuðningsaðgerðir frá barnavernd, lengri vistun utan heimilis eða aðrar aðgerðir á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 eða laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks.

Niðurstöður matsmanna

1.       Forsjárhæfni matsbeiðanda, þ.á.m. helstu persónueinkenni þeirra, tilfinningaástand  og tengslahæfni

Helstu atriði forsjárhæfni eru eftirfarandi: Ást, vernd, öryggi, líkamleg umönnun, atlæti, örvun, hvatning, stuðningur, fyrirmynd og tengsl. Eins ber að líta til persónulegra eiginleika foreldra þegar forsjárhæfni er metin. A og B eru veikburða í foreldrahlutverki sínu en hafa engu að síður styrkleika og veikleika hvað varðar þessa þætti.

Ást. Foreldri þarf að tengjast barni sínu á náinn og ástríkan hátt. Ást foreldris til barnsins þarf að vera sýnileg, einlæg og einnig tjáð í orðum. Það er ekki dregið í efa að báðir foreldrar elska dóttur sína og eru færir um að sýna það. Það kom fram í athugun matsmanna á samskiptum þeirra við telpuna og einnig í samtölum við foreldra og aðra þá sem rætt var við.

Vernd og öryggi. Foreldri þarf að sýna staðfestu og stöðugleika, taka ábyrgð á barninu og verja það hættum og óþægindum og kenna því og leiðbeina um viðeigandi hegðun til að stuðla að öryggi þess. Foreldrar sýna aðgát er varðar öryggi barnsins, að hætta stafi ekki af leikföngum þess, lesa í umbúðir matvæla, öryggishlið sett fyrir eldhús á heimili og bílstóll sé rétt stilltur.

Líkamleg umönnun og atlæti. Hér er átt við atriði eins og að húsnæði sé viðunandi, mataræði, þrifnaður, fatnaður, heilsuvernd og efnahagur.  Þetta atriði uppfylla foreldrar á viðunandi hátt, þeir búa í öruggu leiguhúsnæði sem þau standa í skilum með, efnahagur þeirra virðist vera í lagi þegar matsvinna fór fram. Foreldrar eru á örorkubótum og vinna aukavinnu samhliða. Þrifnaði á heimili þeirra hefur á köflum verið ábótavant en þó ekki í þeim mæli að barni standi hætta af. Foreldrar sinntu líkamlegu hreinlæti barnsins og heilsuvernd. Þeir hafa brugðist rétt við veikindum barnsins, leitað læknishjálpar þegar við á og fylgt fyrirmælum heilbrigðisstarfsfólks. Í málsgögnum virðist allt benda til að ekki hafi þurft að hafa áhyggjur af fatnaði telpunnar.

Örvun og hvatning. Felur í sér að þekkja vel til barnsins eins og það er á ólíkum þroskastigum og hvetja það áfram til að spreyta sig. Foreldrar hafa fengið leiðbeiningar um hvernig þeir eiga að örva barnið á mismunandi  þroskastigum þess. Stuðningsaðilum ber ekki saman um hvernig það hefur tekist til en í umgengni mátti sjá foreldra örva og hvetja barnið á aldurssamsvarandi hátt. Þá bendir ekkert til annars en að barnið hafi þroskast eðlilega. 

Stuðningur. Foreldri þarf að styðja barn við að prófa sig áfram og verða sjálfstætt en einnig að veita því hjálp þegar það ræður ekki við verkefni eða samskipti. Til að þetta sé mögulegt þarf að setja sig í spor barnsins og skilja að það hugsar öðru vísi en foreldrið.

Fyrirmynd. Tekur til þess að foreldri þarf að kenna barni hegðun, mannasiði og samskipti, bæði með leiðbeiningum og því að hegða sér á þann hátt að það sé góð og uppbyggileg fyrirmynd. Báðir foreldrar kunna undirstöðuatriði í almennum mannasiðum og sýndu það í samskiptum við matsmenn. Aftur á móti eiga þau langa sögu um erfiðleika í félagslegum samskiptum. Móðir á í erfiðleikum með skapstjórn, er hvatvís og á það til að bregðast við af hömluleysi. Faðir er óframfærinn og ósjálfstæður. Það vantar á að foreldrar séu góðar fyrirmyndir fyrir telpuna hvað varðar félagslega færni.

Persónulegir eiginleikar og tengslahæfni. Áberandi eiginleikar hjá A er kraftur sem fylgir henni og lífleg framkoma. Hún er úrræðagóð og getur verð hamhleypa til verka. Hins vegar þolir hún illa að vera ekki sjálf við stjórnvölin og getur brugðist illa við afskiptum annarra. Tilfinngaástand hennar er sveiflukennt og hún getur átt í erfiðleikum með skapstjórn og verið orðhvöss. A býr yfir tengslahæfni en hefur átt erfitt með að rækta og viðhalda tengslum við elsta barn sitt.

Áberandi er hversu ósjálfstæður stefndi, faðir, er og háður móður. Þrátt fyrir depurð og kvíða og vanrækslu og afskiptaleysis í æsku draga matsmenn ekki í efa að faðir  búi yfir tengslahæfni.

Matsmenn telja forsjárhæfni foreldra skerta og fullvíst að þeir munu þurfa viðeigndi stuðning til að geta uppfyllt nægjanlega vel uppeldisskyldur sínar.

2.       Hvernig háttað sé andlegri heilsu matsbeiðenda og hvort líklegt sé að matsbeiðendur séu ófærir um að annast dóttur sína vegna andlegrar vanheilsu, greindarskerðingar og annarrar fötlunnar þeirra.

Foreldrar eru ekki greindir með alvarlega geðsjúkdóma, líkamleg heilsa þeirra er í lagi en þeir eru í misgóðu andlegu jafnvægi. B er kvíðinn og ræður illa við steituvaldandi aðstæður. Sjálfsmat hans er afar slakt og sömuleiðis trú hans á eigin getu. Persónuleikapróf sem hafa verið lögð fyrir hann hafa ekki verið marktæk sem skýrist af greinarskerðingu hans. A er í lægra meðaltali meðalgreindar og B á mörkum þroskahömlunar. Rannsóknir hafa sýnt að greindarskertir foreldrar geta sinnt foreldrarhluverki sínu vel fái þeir viðeigandi stuðning. Rannsóknir eru samhljóma um að seinfærir foreldrar geta bætt forsjárhæfni sína. Þroskahömlun ein og sér er ekki forspá þess að foreldri sé óhæft en hún er vissulega áhættuþáttur sem þarf að taka tillit til. 

Það sem veikir  stöðu stefndu er tilfinningalegur stöðugleiki þeirra og lítið sem ekkert stuðningsnet ættingja. Að framansögðu virðist ljóst að foreldrar munu ekki geta annast dóttur sína nema með vönduðum og viðeigandi stuðningi sem þau eru viljug til að nýta. Stuðningsþarfir þeirra munu vera mismunandi með hliðsjón af aldri og þroska barnsins og aðstæðum þeirra hverju sinni.

3.       Hvernig háttað er tilfinningalegu sambandi og tengslum milli matsbeiðenda og dóttur þeirra og hver skilningur matsbeiðenda á þörfum hennar er.

Þar sem C er aðeins tveggja ára gömul byggir mat matsmanna á sjónrænni athugun.

Matsmenn lögðu mat á tilfinningalegt samband foreldra og barns með tveimur tveggja tíma athugunum sem fóru fram í umgengni þeirra við barnið. Í fyrirliggjandi skýrslum eftirlitsaðila í umgengni frá október, nóvember og desember 2016 kemur fram að telpan er tilfinningalega tengd föður sínum og háð honum.

Það er ljóst að telpan er tilfinningalega vel tengd báðum foreldrum sínum og hafa grunntengsl hennar við þá ekki rofnað þrátt fyrir margra mánaða rof í samveru þeirra. C hafði ekki búið hjá foreldrum sínum síðan í október og umgengni við þá hefur verið einu sinni í mánuði tvo tíma í senn. Telpan vildi í báðum umgengnistímum fara til foreldra sinna strax í upphafi, leitaði aldrei til fósturmæðra sinna sem voru til skiptis viðstaddar hvora umgengni né leitaði telpan frá foreldrum sínum. C var í góðu jafnvægi í bæði skiptin og undi sér vel í fangi foreldra sinna og í leik með þeim. Eina skiptið sem C sýndi tilfinningalegt óöryggi var í seinni umgengni þegar faðir hennar brá sér frá á salernið. Þá sýndi telpan óróleika, varð alvarleg á svipinn og skimaði og leitaði með augunum eftir honum. Yfir andlit hennar færðist bros þegar hann birtist og sagði hún fagnandi, pabbi. C er í jákvæðum tengslum við foreldra sína, tengslin við móður einkennast frekar af glaðværð og sprelli en tengsl við föður endurspegla frekar traust og öryggi.

Í málsgögnum má finna umsagnir margra sem hafa komið að málefnum A og B þar sem fram kemur að tengslamyndun hafi gengið vel og eðlileg tengsl séu á milli foreldra og barns. Þarna er vísað meðal annars til umsagna heilsugæslu, þjónustumiðstöðvar og fyrirliggjandi forsjárhæfnismats frá árinu 2016.

Matsmenn svara seinni hluta spurningarinnar út frá skilningi foreldra á þörfum barnsins á meðan umgengni fór fram.  Foreldrar komu í umgengni vel undirbúnir, höfðu meðferðis mismunandi afþreyingu sem þau höfðu valið útfrá því sem þau töldu telpuna hafa áhuga á. Leikföngin voru aldurssamsvarandi, þarna var m.a. uppáhaldskisan sem hægt var að trekkja upp, bækur með dýramyndum sem telpan augljóslega þekkti, söngvalög sem foreldrar spiluðu fyrir hana og telpan raulaði með. Þau voru bæði næm að hlusta eftir með hvað leikfang eða hvaða lag telpan hafi áhuga fyrir og hvenær var kominn tími til að fara úr einum leik í annan. Þau komu með úrval af góðgæti fyrir C, ís, saltstangir, Tomma og Jenna kex og súkkulaði, Svala og kakómjólk. Með hliðsjón af því að umgengni þeirra við barnið er einungis einu sinni í mánuði og þeim er umhugað um að gleðja það telja matsmenn ekki vera grundvöll að álykta útfrá þessari hressingu áherslu þeirra á góða næringu fyrir barnið. A og B sýndu dóttur sinni augljósa blíðu og athygli en á hófsaman og stilltan máta og átti hún athygli þeirra allan tímann.

4.       Hvort fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu dóttur matsbeiðenda eða þroski hennar sé hætta búin fari matsbeiðendur með forsjá barnsins eða hvort breytni matsbeiðenda sé líkleg til að valda því alvarlegum skaða.

Í upplýsingum frá heilsugæslu kemur fram að frá fæðingu barns og fram til maí 2016 sé ekkert sem komi fram í skráningu annað en að vöxtur, þroski og umönnun barns sé í lagi, ekkert kemur fram í skráningu um að áhyggjur séu af líðan og velferð barns. Í skráningu kemur fram að á þessum tíma fékk fjölskyldan mikinn stuðning og eftirlit frá þjónustumiðstöð og heilsugæslu.  Á sama tíma koma fram andstæðar upplýsingar frá leikskóla telpunnar sem telja að C sé á eftir í almennum þroska en auðvelt yrði að laga það með mikilli örvun í leikskólanum. 

Það er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að foreldrar hafi valdið barni sínu skaða. Þegar barnið var í þeirra umsjá með stuðningi frá fæðingu og  fram til þess tíma að það fór á vistheimilið í fyrra skiptið þá 15 mánaða gamalt  þá kom barnið vel út á öllum prófunum. Samkvæmt heilsugæslu hefur barnið að öllu leyti sýnt eðlileg viðbrögð, bæði líkamleg og félagsleg sem bendir til þess að barnið hafi fengið þá örvun sem það þurfti. Þar kemur jafnframt fram að samkvæmt skráningu í ungbarnavernd er barnið metið með eðlilegan þroska, er hreint og vel til fara. Í gögnum frá þjónustumiðstöð kemur fram að barnið hafi alltaf verið hreint. Þegar allt er dregið saman er ljóst að líkamleg umhirða, örvun, hreinlæti og fæði var í lagi á þessu tímabili og með þeim stuðningi sem foreldrar fengu. Þegar barnið var 18 mánaða gamalt í lok ágúst 2016 þá mældist það aðeins niður á við samkvæmt vaxtarkúrfu en á þeim tíma var barnið búið að vera á vistheimili í rúma tvo mánuði og auk þess sem það veiktist í byrjun ágúst og hafði litla matarlyst og því ekki hægt að tengja það vangetu foreldra.

5.       Hvort matsbeiðendur séu ófærir um að sinna daglegri umönnun og uppeldi dóttur sinnar með hliðsjón af aldri hennar og þroska.

Fái foreldrar vandaðan og viðeignadi stuðning sem tekur mið af mismunandi þroskastigum telpunnar og að því gefnu að þeir séu til samvinnu telja matsmenn þá færa um að sinna daglegri umönnun og uppeldi hennar.

6.       Hvort þroskahömlun og/eða persónugerð matsbeiðenda komi í veg fyrir að þeir geti bætt forsjárhæfni sína með markvissri þjálfun  frá fagaðilum.

Sé litið til forsögu foreldranna er ljóst að þau hafa bætt forsjárhæfni sína með viðeigandi stuðningi. Sá stuðningur sem þeir fengu frá þjónustumiðstöð og heilsugæslu frá fæðingu C tók sérstaklega á þeim þáttum sem höfðu misfarist í  umönnun eldri dætra þeirra og komust í gott lag. Þessi stuðningur tók mið af þroksahömlun og pernsóngerð foreldra og fór fram á heimili þeirra. Þorskahömlun ein og sér kemur ekki í veg fyrir að foreldrar geti bætt forsjárhæfni sína með góðum  stuðningi og markvissri þjálfun.

Eftir að stuðningur færðist frá þjónusumiðstöð og yfir á Ylfu telja matsmenn að foreldrar hafi ekki fengið markvissa þjálfun, kennslu og stuðning. Heldur hafi fyrst og fremst verið um eftirlit að ræða. Taki stuðningur og þjálfun mið af persónugerð foreldra telja matsmenn að þeir geti nýtt sér þann stuðning.

7.       Hvort önnur úrræði en forsjársvipting gætu komið að gagni til að tryggja velferð dóttur matsbeiðenda, svo sem stuðningsaðgerðir frá barnavernd, lengri vistun utan heimilis eða aðrar aðgerðir á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 eða laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks.

Matsmenn telja að ef grípa eigi til annarra úrræða en forsjársviptingar þurfi að koma til vandaður og viðeigandi stuðningur til foreldranna. Stuðningurinn þarf bæði að ná til fjölskyldunnar sem heildar en einnig til einstaklinganna innan hennar. Hann þarf að laga að þörfum foreldranna sem þurfa að fá skýr skilaboð um til hvers er ætlast af þeim auk þess sem leiðbeiningar þurfa að vera skýrar, einfaldar og ítrekaðar. Traust er grundvallaratriði til að stuðningur verði árangursríkur og að foreldrar séu til samvinnu. Stuðningurinn verður að fara fram inn á heimili fjölskyldunnar, vera sveigjanlegur til að hægt sé að breyta áherslum,  draga úr honum eða auka allt eftir þörfum hverju sinni.

A og B munu þurfa stuðning alla tíð við umönnun og uppeldi dóttur þeirra, mismikið eftir aldri og þroska hennar svo og aðstæðum hverju sinni.  Mikilvægt er að einn aðili haldi utan um þann stuðning og þjónustuna sem fjölskyldan fær og gott upplýsingaflæði milli stuðningsaðila þannig að samhæfður stuðningur geti myndast. Mikilvægt væri einnnig að fjölskyldan fengi stuðningsfjölskyldu bæði til þess að létta undir með foreldrum og til að gefa telpunni kost á örvun í öðru umhverfi en heima, tilbreytingu og til að stækka stuðningsnet foreldra.

Gögn málsins sýna að þegar foreldrar voru í jafnvægi og fengu viðeigandi stuðning eins og var á fyrsta ári í lífi barnsins þá gekk þeim vel að annast barnið. A og B þurfa hvort um sig ólíkan stuðning til að styrkja sig sem einstaklingar og til að þau geti betur sinnt foreldrahlutverki sínu. A þyrfti á sálfræðilegri meðferð að halda þar sem unnið yrði með að bæta samskiptahæfni hennar, kenna henni að bregðast öðru vísi við en með tortryggni og reiði. Foreldrar verða að vera móttækilegir fyrir stuðningi en samvinna þeirra er forsenda þess að hægt verði að styðja fjölskylduna. Matsmenn hafa áhyggjur af að A skuli ekki sjá nauðsyn þess að fá stuðning inn á heimilið. Rágöf henni til handa þarf að vinna með mótþróa sem hún hefur tilhneiginu til að fara í gagnvart stuðningsaðilum. B þyrfti sjálfsstyrkingu þar sem bæði yrði áhersla á sjálfseflingu og sjálfstæði. Jafnframt þarf að vinna með þann kvíða sem hann er haldinn. Matsmen telja auk þess nauðsynlegt að foreldrar fái hjónabandsrágjöf til að stuðla að betra jafnvægi milli þeirra og hjálpa þeim til að vera samstíga í uppeldinu.

Það má ljóst vera að um viðamikinn og viðeigandi stuðning yrði að ræða sem væri bæði veittur barni og foreldum og stuðningaðilar verða að búa yfir þekkingu á þörfum seinfærra foreldra.

Barnaverndarúrræði miðast ekki við að mæta þörfum fólks sem þarf aðstoð til langs tíma eins og A og B þurfa og starfsmenn barnaverndar búa yfirleitt ekki yfir þekkingu til að mæta þörfum fjölskyldna þar sem fereldrar eru seinfærir.

Fjölskyldurnar lenda því hjá kerfi sem hefur fyrst og fremst skyldum að gegna við börnin, leggur áherslu á hraða málsmeðferð og hefur tímamörk. Slíkt kerfi setur fjölskyldur þar sem foreldar eru seinfærir  í viðkvæma stöðu. Vænlegast er að mati matsmanna ef barnavernd og þjónustumiðstöð ynnu náið saman að því að byggja upp stuðning fyrir fjölskylduna.

        Sálfræðileg matsgerð matsmanna, dags. 1. maí 2017, var lögð fram í þinghaldi 4. sama mánaðar. Í þinghaldi þann 10. maí sl. krafðist stefnandi yfirmats þar sem tekin yrðu til endurmats þau atriði sem metin höfðu verið í framangreindri sálfræðilegri matsgerð. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 23. maí 2017 var kröfu stefnanda um dómkvaðningu yfirmatsmanna hafnað og ákveðið að ákvörðun um málskostnað biði efnisúrlausnar í málinu.

                                                            III.

                                  Málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi byggir kröfu sína um forsjársviptingu á því að ákvæði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, séu uppfyllt í máli þessu. Það er mat stefnanda, með hliðsjón af gögnum málsins og forsögu, að fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu telpunnar sé hætta búin fari stefndu með forsjá hennar. Stefnandi telur að stuðningsaðgerðir á grundvelli laganna dugi ekki til að tryggja öryggi telpunnar og fullnægjandi uppeldisskilyrði til frambúðar á heimili stefndu. Stefndu séu óhæf til að fara með forsjá dóttur sinnar og veita henni það öryggi, skjól og umhyggju sem ætlast er til að foreldri veiti barni sínu og ætla verður að henni sé nauðsynlegt til að ná að þroskast og dafna með eðlilegum hætti. Ítrekað hafi verið reynt að aðstoða stefndu á víðtækan hátt en sú aðstoð hafi ekki gagnast þeim sem skyldi. Þá telur stefnandi að gögn málsins sýni, svo ekki verði um villst, að daglegri umönnun, uppeldi og samskiptum stefndu og telpunnar sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri hennar og þroska. Stefnandi telur fullvíst að líkamlegri og andlegri heilsu og þroska telpunnar sé hætta búin sökum þess að stefndu séu augljóslega vanhæf til að fara með forsjá hennar vegna greindarskorts og breytni þeirra eins og málum er háttað. Tryggja verði óskilyrtan rétt telpunnar fyrir vernd og umönnun og með hagsmuni hennar að leiðarljósi og að teknu tilliti til ungs aldurs hennar telur stefnandi að stefndu séu ófær um að fara með forsjá hennar. Ítarleg gögn liggja fyrir í málinu um að veikleikar stefndu í uppeldishlutverkinu séu það miklir að þau séu ekki fær um að bera ábyrgð á barni. 

        Að mati stefnanda hefur verið leitast við að eiga eins góða samvinnu við stefndu um málið og aðstæður hafa leyft. Þá hefur verið leitast við að beita eins vægum úrræðum gagnvart stefndu og unnt hefur verið hverju sinni. Stefnandi telur stuðningsaðgerðir fullreyndar í því skyni að bæta forsjárhæfni stefndu. Mikill og margvíslegur stuðningur hafi verið reyndur, sem hafi ekki skilað viðunandi árangri til lengri tíma. Stefndu virðist sýna lítið frumkvæði við að veita dóttur sinni þroskavænlegar aðstæður og stuðningur fagaðila í þeim efnum skili litlum sem engum árangri. Með vísan til alls þessa er það mat stefnanda að það þjóni hagsmunum telpunnar best að þeim stöðugleika, sem kominn er á, verði ekki raskað enda er það í fullu samræmi við meginreglu barnaverndarlaga, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna, um að  barnaverndarstarf skuli stuðla að því að stöðugleiki ríki í uppvexti barna. Krafa stefnanda byggir á því að of mikil og óforsvaranleg áhætta felist í því að láta stefndu fara með forsjá dóttur þeirra.

        Önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting séu því ekki tæk nú, en brýna nauðsyn ber til að skapa telpunni til frambúðar það öryggi og umönnun sem hún á rétt á að búa við lögum samkvæmt. Stuðningsúrræði, sem stefnandi hafi yfir að ráða hafi ekki megnað að skapa telpunni þau uppeldisskilyrði, sem hún eigi skýlausan rétt til hjá stefndu. Að mati stefnanda hafi vægustu ráðstöfunum ávallt verið beitt til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og er krafa stefnanda sett fram samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Meðalhófsreglunnar hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn hefur verið.

        Það séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Það sé almenn skylda foreldra, sem lögfest er í 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, að sýna börnum virðingu og umhyggju. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á, eru hagsmunir barnsins, hvað því er fyrir bestu, þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland er aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir er mælt um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og í Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979.

        Með skírskotun til alls framanritaðs, meginreglna í barnaverndarrétti, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga og gagna málsins, gerir stefnandi þá kröfu að A og B verði svipt forsjá dóttur sinnar, C, sbr. a- og d-liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, enda muni önnur og vægari úrræði ekki skila tilætluðum árangri.

        Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu m.a. á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979, og lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV.

Málsástæður og lagarök stefndu

        Stefndu krefjast sýknu af kröfu stefnanda um að þau verði svipt forsjá og telja það andstætt hagsmunum dóttur sinnar. Skilyrði 29. gr. barnaverndarlaga séu ekki uppfyllt svo hægt sé að svipta stefndu forsjá. Styðja eigi stefndu til þess að fá barnið inn á heimili sitt að nýju svo hún hafi möguleika til þess að alast upp með lífforeldrum sínum og fjölskyldu.  

        Stefnandi gerir kröfu um að stefnda verði svipt forsjá samkvæmt a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. bvl. Nauðsynlegt sé að fjalla um hvorn lið fyrir sig og heimfæra þau skilyrði sem fram koma í ákvæðinu á mál stefndu. 

        Í a-lið 1. mgr. 29. gr. bvl. felist að barnaverndarnefnd sé heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldri sé svipt forsjá ef daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska. Stefndu telja sig hafa alla burði, með stuðningi frá félagsþjónustu og starfsmönnum barnaverndaryfirvalda, til þess að sjá um daglega umönnun barnsins. Það hafi þau sýnt í verki með því að sinna barninu frá fæðingu og fram til þess að barnið var tekið af heimili þeirra. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu heilsugæslu varðandi ástand barnsins, umönnun þess og þroska meðan barnið var hjá þeim. Jafnframt komi fram afar jákvæðar upplýsingar í greinargerð félagsþjónustu [...], frá maí 2016, sjá dskj. 67, um það hvernig dagleg umönnun stefndu með barninu var frá fæðingu barnsins. Þau hafi fylgt leiðbeiningum og hafi verið dregið úr þjónustu við þau vegna þess hversu vel þeim gekk að sjá um barnið.

        Greinargerð starfsmanns félagsþjónustu Reykjavíkurborgar frá 4. október sl. fjalli um stuðning starfsmanna félagsþjónustunnar við stefndu og sé umsögn starfsmannsins um stefndu að stærstum hluta jákvæð og lýsi góðu samstarfi þeirra við stuðningsaðila. Meðfylgjandi greinargerðinni hafi verið samskiptabók sem hafi það að markmiði að mismunandi starfsmenn sem koma inn á heimilið séu með sömu upplýsingarnar, fái upplýsingar um það sem vel er gert og jafnframt það sem illa er gert og þau atriði sem vinna þarf nánar með. Þegar bók þessi sé lesin frá þeim tíma sem C kom aftur inn á heimilið í ágústmánuði sé í örfáum tilvikum lýst neikvæðum atriðum hvað varðar stefndu, s.s. að foreldrar hafi ekki veitt barninu næga athygli o.fl. og virðist því sem vel gangi hjá stefndu. Þetta sé það gagn sem stefndu nota jafnframt sjálf til viðmiðunar á því hvernig gangi hjá sér. Það hafi því komið stefndu í opna skjöldu þegar þau fengu upplýsingar um að greinargerð Ylfu hafi verið tiltölulega neikvæð í garð þeirra á sama tíma og nær engar neikvæðar ábendingar eða athugasemdir var að finna í samskiptabókinni. Þrátt fyrir það hafi starfsmaður Ylfu ítrekað skrifað í bókina en lýst þar nær eingöngu jákvæðum samskiptum barnsins við foreldra og eðlilegu heimilishaldi. Meðal annars komi ítrekað fram að foreldrar veiti barninu mikla athygli og leiki við það, heitur matur sé eldaður á heimilinu og heimilið sé þrifið. Þá sé einnig fjallað um baðvenjur o.fl. Í samskiptabókinni megi auk þess sjá að foreldrar bregðist rétt við veikindum telpunnar. Fjölmörg önnur jákvæð atriði megi sjá af samskiptabókinni, m.a. að þau kaupi föt á barnið. Einnig virðist þau takast á við frekju og grát barnsins með góðum hætti og eðlilegum uppeldisaðferðum.

       Í greinargerð starfsmanna Ylfu séu ýmsar athugasemdir gerðar við uppeldi stefndu á umræddu barni. Nær engar af þessum athugasemdum rati inn í samskiptabók þeirra, sem veldur því að bæði gera þau sjálf sér ekki grein fyrir því hvað amar að og jafnframt geta aðrir stuðningsaðilar ekki hjálpað til við að koma stefndu á rétta braut. Stefndu telja að þau geti ekki borið ábyrgð á samskiptaleysi þeirra aðila sem barnavernd velur til þess að koma inn á heimili þeirra. Í þessari greinargerð megi einnig sjá að þetta úrræði virðist fyrst og fremst hafa verið til þess að kanna stöðu á heimili þeirra en ekki að hjálpa þeim við að bæta stöðu sína og stöðu barnsins, sem er það sem stefndu þarfnist, enda breytist þarfir barnsins eftir því sem það eldist og þroskast. Þetta úrræði virðist hafa misheppnast auk þess sem ekki hafi allir starfsmenn úrræðisins tengst stefndu nægilega vel þannig að traust myndaðist milli þeirra. Vegna framangreinds telji stefndu að engin raunveruleg gögn bendi til þess að þau geti ekki sinnt daglegri umönnun barnsins með sómasamlegum hætti, fái þau viðeigandi þjónustu og stuðning.

        Stefndu geri sér grein fyrir því að þau séu seinfærir foreldrar og muni þurfa hjálp við að sjá um uppeldi barnsins. Uppeldi barna sé síbreytilegt verkefni og vegna skerðinga sinna muni þau þurfa leiðbeiningar frá stuðningsaðilum, leikskóla og síðar grunnskóla. Stefndu telja að fram til þess tíma sem barnið var tekið af heimili þeirra sé ekki hægt að telja að verulegir annmarkar hafi verið á uppeldi þeirra á barninu. Vissulega hafi komið upp hnökrar og mismunandi skoðanir á uppeldi barnsins, en stefndu hafi að meginstefnu fylgt ráðleggingum stuðningsaðila. Þegar um nýja stuðningsaðila hafi verið að ræða hafi tekið nokkurn tíma að fá stefndu til þess að treysta þeim, en um leið og það traust hafi myndast hafi þau nýtt sér og fylgt leiðbeiningum. Hvað þetta varðar telja stefndu barnaverndaryfirvöld ekki hafa staðið sig sem skyldi. Þau hafi ekki nýtt sér samstarf við félagsþjónustu til þess að koma nýjum starfsmönnum, til að mynda frá Ylfu, í gott samstarf við stefndu. Slíkt samstarf hafi verið boðið að fyrra bragði af hálfu starfsmanna félagsþjónustu en ekki verið þegið af hálfu barnaverndaryfirvalda.

        Stefndu telja að uppeldi þeirra á barninu hafi verið viðunandi og ekki ábótavant. Að minnsta kosti hafi þeir smávægilegu vankantar sem til staðar hafi verið ekki átt að leiða til svo alvarlegra viðbragða af hálfu barnaverndaryfirvalda. Telja stefndu að vegna fyrri sögu þeirra um barnaverndarafskipti séu minnstu vankantar á forsjárhæfni þeirra blásnir upp að ástæðulausu.

        Stefndu telja að samskiptum þeirra við umrætt barn sé ekki ábótavant. Hvað varðar stefnda B þá liggi fyrir í gögnum allra stuðningsaðila að umrætt barn sé verulega hænt að honum og þau eigi gott og innilegt samband. Helstu athugasemdir sem gerðar hafa verið hvað varðar samskipti þeirra séu að B gefi sig ekki nægilega mikið að barninu, hann veiti því ekki nægilega mikla athygli og örvun. Af greinargerð starfsmanna vistheimilis megi þó sjá að eingöngu eftir örfáar vikur þar var hann byrjaður að fylgja ráðleggingum varðandi örvun, setjast hjá barninu á gólfið og leika með því, veita því meiri athygli og sinna því betur. Telur stefndi B að þarna ráði persónugerð hans miklu, enda sé hann almennt til baka, hann sé hlédrægur og gefi sig ekki að fyrra bragði að fólki Hann telur þó að þetta megi vinna með og hann geti auðveldlega bætt sig hvað þetta varðar, fái hann til þess tækifæri og ráðgjafa sem hann treystir.

        Hvað varðar stefndu A hafi athugasemdir hvað hana varðar tengst því að hún láti B sjá of mikið um uppeldi barnsins og sjálf gefi hún sig ekki nægilega mikið að umræddu barni. Þessu er stefnda ekki sammála. Hún telur að þrátt fyrir að þau skipti með sér verkum á heimilinu hvað varðar daglegan heimilisrekstur og að hluta til umönnun barnsins, þá sé hún í eðlilegum samskiptum við barnið, barnið tengist henni vel og samskipti þeirra séu góð. Hún þurfi þó auðvitað leiðbeiningar hvað varðar tengslamyndun við barnið vegna skerðinga sinna. Engir vankantar séu á samskiptum hennar og barnsins að eðlilegt geti talist að svipta hana forsjá vegna þeirra.

        Í d-lið 1. mgr. 29. gr. bvl. felist að barnaverndarnefnd er heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldri sé svipt forsjá ef fullvíst sé er að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.

        Stefndu telja mikilvægt hvað orðalag þessa ákvæðis varðar að þau þurfi að vera bæði augljóslega vanhæf til að fara með forsjá og jafnframt sé „fullvíst“ að líkamlegri eða andlegri heilsu barnsins eða þroska sé hætta búin í umsjá stefndu. Sönnunarbyrðin hvíli því þungt á stefnanda þessa máls, sérstaklega þegar litið sé til þess hversu skamman tíma mál þetta hefur verið til meðferðar og hversu veigalitlar athugasemdir hafa verið við forsjárhæfni.

        Hvað stefndu varðar telja þau ljóst að þeir hlutar ákvæðisins, sem fjalla um vímuefnaneyslu og geðrænar truflanir, geti ekki átt við um þau. Telja stefndu líklegt að stefnandi byggi á því að greindarskortur og/eða breytni foreldra sé líkleg til að valda barninu skaða. Stefndu telja að sú staðreynd að þau eru seinfærir foreldrar eigi að skipta verulegu máli. Greiningar þeirra séu ekki svo alvarlegar að þau geti ekki sinnt forsjá umrædds barns, að því gefnu að þau þiggi stuðning frá viðeigandi aðilum. Þau mistök sem barnaverndaryfirvöld hafi gert við meðferð málsins felist fyrst og fremst í því að sinna því ekki að koma á trúnaðartrausti milli starfsmanna þeirra og stefndu. Um leið og slíkt traust hefði komið myndast hefði framhald málsins komist í eðlilegan farveg í stað þess að vera á þeim stað sem það er í dag.

        Stefndu telja mikilvægt að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að nokkuð það sem þau hafi gert hafi valdið umræddu barni skaða. Málatilbúnaður þessi virðist fyrst og fremst byggður á því að framtíðarhorfur stefndu til þess að fara með forsjá umrædds barns séu neikvæðar og þeirra forsjárhæfni sé ekki nægilega góð þegar fram í sækir. Umrætt barn hafi komið eðlilega út úr öllum þroskamælingum á heilsugæslustöð og stefndu fengið góð meðmæli frá starfsmönnum þjónustumiðstöðvar [...], nær samfleytt frá því barnið kom í heiminn. Þeir hnökrar sem hafi verið til staðar virðist því ekki hafa haft raunveruleg áhrif á barnið.

        Varðandi matsgerð matsmanns barnaverndarnefndar Reykjavíkurborgar þá liggi fyrir að stefndu fengu barn sitt að nýju á heimili sitt í ágústmánuði 2016. Forsenda þess hafi verið að framkvæmt yrði forsjárhæfnismat á síðari hluta þess tímabils og voru stefndu neydd til þess að undirgangast matið, enda var það eini möguleiki þeirra á því að fá dóttur sína aftur inn á heimili sitt. Stefndu telja hins vegar að niðurstöður þeirrar matsgerðar geti ekki talist marktækar miðað við það álag sem var á foreldrum þegar matið fór fram. Þegar matið fór fram hafi innlit á heimili foreldra verið þrisvar til fjórum sinnum á dag, bæði virka daga og um helgar, auk þess sem óboðað eftirlit var með foreldrum. Það gátu því verið fimm innlit á heimili stefndu, með 4-8 klst. viðveru hverju sinni. Ljóst sé að fólk með skerðingar eins og stefndu eiga á mjög erfitt með að takast á við allt aukaálag og geti brugðist illa við því og hegðað sér með öðrum hætti en það myndi gera væri líf þeirra í hefðbundnum skorðum.

        Stefndu telja einnig að líta beri fram hjá niðurstöðum umræddrar matsgerðar þar sem um sé að ræða mat sem sé einhliða aflað af hálfu stefnanda. Greitt er fyrir það af hálfu stefnanda og ekkert samráð haft við stefndu eða lögmann þeirra um gerð þess, matsspurningar og svo framvegis. Ekki hafi verið haldinn matsfundur með fulltrúum aðila til þess að fara yfir gerð matsins, hverja þurfi að ræða við eða hvaða gagna þurfi að afla. Þá telja stefndu að matsvinnan hafi ekki verið nægilega ítarleg svo hægt sé að draga svo viðamiklar ályktanir eins og gert hafi verið í umræddu mati. Eftir fyrsta fund stefndu með matsmanni hitti matsmaðurinn aðila eingöngu í þrígang, B og A sitt í hvoru lagi á skrifstofu matsmanns og svo við tvær stuttar heimsóknir á heimili þeirra. Telja stefndu nauðsynlegt að matsvinnan hefði verið ítarlegri og matsmaður fengið betri innsýn í tilfinningalíf þeirra en gert var á þessum þremur vikum sem matsvinnan tók. Umræddur matsmaður hafði jafnframt ekki sjálf samband við þá aðila sem sinnt hafa stuðningi við foreldra, heldur byggði hún alla vinnu sína á skriflegum gögnum sem bárust henni frá starfsmanni barnaverndar. Ekki var rætt við starfsmenn félagsþjónustu, starfsmenn barnaverndar, starfsmenn vistheimilis eða starfsmenn úrræðisins Ylfu. Telja stefndu að það hefði getað veitt henni betri innsýn í forsjárhæfni þeirra og getu til þess að vera með umrætt barn. Stefndu hafa ekki heldur upplýsingar um hvaða gögn matsmaður hafði undir höndum og þá hvort þau gögn sem teljast jákvæð fyrir þau hafi verið til staðar við matsvinnunna. Þau hafi enda ekkert komið að matsvinnunni fyrir utan að heimila matsmanni að taka við sig viðtöl og hleypa honum inn á heimili sitt til þess að fylgjast með þeim með dóttur sinni. 

        Þá hafi ekki verið gerðar greindar- eða persónuleikaprófanir á stefndu, heldur byggt á mötum annarra sálfræðinga, 5-10 ára gömlum. Stefndu telja þetta óeðlilegt enda eru þessi próf þess eðlis að erfitt er að túlka niðurstöður þeirra og getur verið munur milli sálfræðinga hvaða niðurstöðum þeir komast að, jafnvel þótt svörunin sé sú sama. Jafnframt byggi afstaða matsmanns til þess að framkvæma prófanir ekki að nýju á því sem stefndu telja fordóma, að þau geti ekki breyst, hvorki greindarfarslega né persónulega. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar megi sjá fjölda dæma þess að persónuleika- og greindarpróf séu gerð á aðilum forsjársviptingarmála og forsjármála. Þegar þessir dómar eru skoðaðir megi sjá að mikill munur getur verið á því hvaða ályktanir eru dregnar af persónuleikaprófum, hvaða persónuleikapróf aðilar eru látnir þreyta og það sama á við um greindarprófin. Það sé ekki eingöngu til eitt óumdeilt persónuleikapróf eða greindarfarspróf og nauðsynlegt sé að ræða hvaða próf henta hverjum próftaka. Stefndu telja jafnframt að matsmanninn skorti að öllum líkindum reynslu og/eða menntun til þess að geta metið forsjárhæfni seinfærra foreldra. Slíkt mat sé með allt öðrum formerkjum en annað mat á forsjárhæfni, enda njóti slíkir aðilar alltaf verulegrar þjónustu við barnauppeldi sitt og muni aldrei geta einir og óstuddir sinnt forsjá barna sinna. Nauðsynlegt sé því, við mat á forsjárhæfni þeirra, að kortleggja nákvæmlega hvaða stuðningur sé í boði fyrir þau, hvaða sérfræðiþjónusta standi til boða og hverjir möguleikar þeirra séu til þess að nýta umrædda þjónustu. Þetta hafi ekki verið gert í mati matsmanns barnaverndarnefndar Reykjavíkur. 

        Stefndu vísa til þess að Ísland hafi fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það hafi þau áhrif að túlka beri önnur lög, þar með talið 29. gr. barnaverndarlaga, til samræmis við efni og þau réttindi sem leiða má af samningnum. Í b-lið 1. mgr. 23. gr. samningsins komi fram að fatlað fólk hafi rétt til óheftrar og ábyrgrar ákvarðanatöku um fjölda barna og tíma milli fæðinga og til að hafa aðgang að upplýsingum og fræðslu um getnað og fjölskylduáætlanir. Jafnframt komi fram í 4. mgr. sama ákvæðis að aðildarríki skuli tryggja að barn sé ekki tekið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra nema að slíkur aðskilnaður sé nauðsynlegur með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Jafnframt skuli aldrei taka barn frá foreldrum einvörðungu vegna fötlunar foreldra. Í 5. mgr. komi síðan fram að aðildarríki skuli reyna til þrautar að fá aðra aðila innan stórfjölskyldu hinna fötluðu til þess að annast barnið, reynist hinn fatlaði ófær um það. Stefndu telja að stefnandi hafi þverbrotið öll framangreind ákvæði og þá sérstaklega framangreinda 4. og 5. mgr., enda sé það engan veginn nauðsynlegt eins og staða málsins sé að fjarlægja barnið af heimili stefndu. Jafnframt hafi ekki verið virtur sá réttur stefndu að reynt væri að vista barnið innan stórfjölskyldu þeirra í stað þess að vista það hjá ókunnugum. Stefnanda beri að fylgja öllum reglum sem settar séu af hálfu Barnaverndarstofu og tengjast tengist rekstri barnaverndarmála. Staðfestingu þess megi sjá í 3. mgr. 7. gr. bvl.  Barnaverndarstofa hafi gefið út verklagsreglur um meðferð barnaverndarnefnda í málum seinfærra foreldra. Þegar þessar verklagsreglur eru skoðaðar virðist sem ekkert mið hafi verið tekið af þeim við meðferð máls stefndu. Í þriðja kafla reglnanna sé fjallað um stuðningsúrræði gagnvart seinfærum foreldrum. Þar komi fram að fyrsti stuðningur barnaverndaryfirvalda við barn eða fjölskyldu skuli veittur inni á heimili barnsins til þess að raska minnst högum þess. Samráð og samvinna þurfi að vera við foreldra frá upphafi, foreldrar skuli t.d. fá heimaþjónustu, liðveislu, tilsjón, persónulegan ráðgjafa og stuðningsfjölskyldu og beita þurfi úrræðum í samræmi við þarfir fjölskyldunnar hverju sinni. Þá komi fram að ef nauðsynlegur stuðningur inni á heimili ber ekki árangur þurfi að meta hvort þörf sé á að ráðstafa barni í fóstur. Þá þurfi einnig að meta hvort barnið þroskist og dafni í samræmi við aldur. Þá komi einnig fram að þegar um er að ræða stuðning á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga eða málefna fatlaðs fólks sé samvinna milli barnaverndar og þessara aðila nauðsynleg. Í fylgiskjali III með verklagsreglunum sé einnig fjallað um óskir seinfærra foreldra og ítrekað að seinfærir foreldrar þurfi meiri tíma og fleiri tækifæri til að skilja af hverju hlutir eiga sér stað og af hverju ákvarðanir eru teknar. Nota eigi jákvæða nálgun fremur en neikvæða. Þá kemur fram í fylgiskjali IV með verklagsreglunum að nýta eigi uppbyggilegan stuðning, hann þurfi að taka mið af þörfum hvers og eins, hann sé veittur til lengri tíma, foreldrar fái að læra á eigin forsendum og stuðningurinn fari fram í þeirra eigin umhverfi. Þessar verklagsreglur hafi verið þverbrotnar í máli stefndu. Barnið, sem um ræðir, hafi aldrei verið í neinni hættu að mati stefndu né telja stefndu að nokkuð bendi til þess að barnið þroskist með óeðlilegum hætti. Fyrstu aðgerðir barnaverndar í máli þessu hafi verið að vista barnið utan heimilis í stað þess að nýta aðrar stuðningsaðgerðir inni á heimili, hvaða nafni sem þær nefnast. Taka beri fram að mál þetta hafi ekki verið opnað fyrr en í maímánuði 2016 og þá hafi fyrirvaralaust verið farið í langa vistun utan heimilis, sem stóð fram í júlímánuð. Þrátt fyrir að stuðningur hafi verið af hálfu félagsþjónustu er ekki hægt að jafna því við þann stuðning sem barnavernd veitir, enda séu það sértækari úrræði þar sem ætti að vera meiri fagþekking. Virðist sem aldrei hafi komið til greina að veita stefndu stuðning inn á heimilið í stað þess að fara fyrirvaralaust í vistun utan heimilis. Það olli því að stefndu hættu að vera til samvinnu, enda hafa þau þá reynslu að þegar barnavernd er komin inn í málið verði börnin tekin af þeim. Meðferð þessa máls hjá barnavernd muni að öllum líkindum ekki gera annað en að styrkja stefndu í þeirri trú sinni.

        Þá telja stefndu að við meðferð málsins hafi verulega skort á samráð við þjónustumiðstöð félagsþjónustunnar sem séð hefur um málefni barnsins. Starfsmenn þjónustumiðstöðvarinnar þekki málefni stefndu afar vel, þeir þekki hvaða stuðning sé raunhæft að þau nýti sér og hvaða tímarammi sé raunhæfur til þess að ná markmiðum með þjónustu. Félagsráðgjafar barnaverndar hafi á meðan meðferð málsins hefur staðið sjaldnast haft samband við félagsþjónustu til þess að fá álit hennar á fyrirhuguðum aðgerðum hverju sinni gagnvart stefndu. Samkvæmt mati þeirra, sem fram kemur í bréfi þjónustumiðstöðvar, bæði frá því í maí og frá því í ágúst síðastliðnum, megi leiða líkum að því að barnið sé ekki í hættu á heimili stefndu og starfsmenn þjónustumiðstöðvar telji að veita beri stefndu áframhaldandi stuðning á heimili, með það að markmiði að barnið búi hjá þeim til frambúðar. Alfarið sé litið fram hjá þessu við meðferð málsins. Þá má jafnframt vísa til bréfs réttindagæslumanns fatlaðra í Reykjavík, þar sem verulegar athugasemdir eru gerðar við málsmeðferð barnaverndaryfirvalda og þá sé sérstaklega litið framhjá réttindum þeirra sem fatlaðs fólks. Til þess að koma á þjónustu við stefndu, sem hentar þeim, sé nauðsynlegt að nýta þá sérfræðinga sem eiga traust þeirra og hafa reynslu af því að vinna með þeim. Tilgangslaust sé að dæla inn á heimili þeirra hverjum ókunnugum sérfræðingnum á fætur öðrum, eins og gert hafi verið á því þriggja mánaða tímabili sem stefndu fengu barn sitt að nýju á heimilið. Staðan sé því raunverulega sú að við fyrstu mistök seinfærra foreldra er barnið hrifsað af þeim og vistað á Vistheimili barna, stað sem stefndu þekkja ekki og hræðast vegna skerðingar sinnar. Auk þess þekki þau af fyrri reynslu að barnaverndaryfirvöld hafa tekið börn þeirra af þeim. Allt þetta valdi tortryggni þeirra gagnvart aðgerðum barnaverndaryfirvalda og hafi slegið tóninn í samskiptum stjórnvalda við þau. Fjöldi foreldra, sem tilkynntur sé til barnaverndaryfirvalda, vegna alvarlegri atvika en í máli stefndu, fái tækifæri til þess að sýna aftur fram á foreldrahæfni sína inni á sínu eigin heimili, með stuðningi og eftirliti frá barnavernd og félagsþjónustu, í að minnsta kosti 6-12 mánuði. Telja stefndu að þeir hafi fengið enn skemmri tíma en aðrir til þess að sýna fram á foreldrahæfni sína þegar raunin er sú að þeir hefðu átt að fá lengri tíma.  

        Á Barnavernd Reykjavíkur hvíli skylda skv. 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, 1. mgr. 56. gr. s.l. og 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en tekin er ákvörðun í því. Stefndu telja stjórnvaldið ekki hafa sinnt skyldu sinni áður en starfsmenn Barnaverndar ákváðu að leggja til forsjársviptingu skv. 29. gr. bvl. Stærsta vandamálið við rannsókn stefndu sé að hún taki of skamman tíma svo hægt sé að gera sér raunverulega grein fyrir því hvernig forsjárhæfni stefndu er háttað. Ástæða þess sé fyrst og fremst sá skammi tími sem líður frá fyrstu aðgerðum til ákvörðunar um sviptingu forsjár. Stefndu telja stefnanda ekki hafa forsendur til þess að álykta eftir svo skamma málsmeðferð að mál þetta sé fullrannsakað og ljóst að forsjársvipting sé eina úrræðið sem komi til greina. Reyna hefði átt frekari stuðningsaðgerðir og í lengri tíma, til þess að safna gögnum um forsjárhæfni og samstarfsvilja stefndu. Þriggja mánaða tímabil, þar sem ómanneskjulegt álag var á stefndu, geti ekki talist nægilegur tími til rannsóknar, sérstaklega þegar gögn málsins benda ekki til verulegrar vanrækslu gagnvart umræddu barni. Brot á rannsóknarreglu leiði til þess að ákvörðun stjórnvalds sé ógildanleg og telja stefndu það eiga við í þessu tilviki.  

        Á stefnanda hvíli skylda skv. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að gera ekki kröfu um sviptingu forsjár fyrir dómstólum nema ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Í umfjöllun hér að framan hafi ítrekað verið vísað til þess að beita skuli vægara úrræði í máli stefndu en forsjársviptingu. Meðalhóf í ákvörðunum barnaverndaryfirvalda sé grundvallarregla sem á að marka allt starf starfsmanna barnaverndar sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Telja stefndu að litið sé fram hjá framangreindum ákvæðum verði ákveðið að svipta þau forsjá barna sinna. Skammur tími hafi liðið frá því áhyggjur hafi orðið af aðstæðum barnsins auk þess sem þær áhyggjur séu að stærstu leyti smávægilegar þegar litið er til efnis þeirra. Vísað er til umfjöllunar hér að framan um brot á meðalhófsreglu en það sem stefndu telja alvarlegast er að mál þeirra hafi hvorki verið meðhöndlað til samræmis við reglur Barnaverndarstofu um málefni seinfærra foreldra né hafi vægari úrræðum verið beitt með nægilega markvissum hætti, s.s. með stuðningsfjölskyldu, með vistun utan heimilis, með lengri markvissum stuðningi, persónulegum ráðgjafa, sálfræðiaðstoð, virkniúrræðum og öðru sem hægt hefði verið að beita í máli stefndu. Stefndu telja það líklega einsdæmi hversu skamman tíma hefur tekið að taka ákvörðun um forsjársviptingu hjá Barnavernd Reykjavíkur. Ekkert tilefni hafi verið til svo alvarlegra aðgerða. Brot á meðalhófsreglu við töku ákvörðunar um forsjársviptingu leiði til þess að ákvörðun sé ógildanleg.

        Stefndu telja málsmeðferð barnaverndarnefndar Reykjavíkur í máli þeirra beinlínis sýna að þeirra mál hafi ekki verið meðhöndlað með sama hætti og mál annarra sem séu í sambærilegri stöðu, vegna þess að þau eru fötluð. Þau hafi fengið skemmri tíma en aðrir foreldrar til þess að sýna fram á forsjárhæfni sína og sýna fram á að þau geti bætt hana. Ófatlaðir foreldrar, sem hafi t.d. skemmt sig og forsjárhæfni sína með áralangri fíkniefna- og áfengisneyslu hafi fengið fjöldamörg tækifæri til þess að bæta stöðu sína og málsmeðferð hjá barnaverndaryfirvöldum sem spanni jafnvel fleiri ár, með miklu meiri aðstoð, með lengri vistunum utan heimilis og öðrum úrræðum. Slíkt tækifæri hafi stefndu aldrei fengið, barnið hafi verið tekið af þeim við fyrstu hnökra í uppeldi þess. Sjá megi staðfestingu á broti þessu þegar forsendur annarra dómsmála um forsjársviptingu eru skoðaðar. Þrátt fyrir að ávallt sé erfitt að bera saman dómsmál á þessu sviði, telja stefndu einsýnt að þau hafi fengið takmarkaðri tækifæri en aðrir vegna þess að þau eru seinfærir foreldrar en ekki með aðrar skerðingar á forsjárhæfni. Virðist sem afstaða stefnanda í máli þessu sé að seinfærir foreldrar séu ófærir um að bæta forsjárhæfni sína sem sé alrangt og sjáist best á því að stefndu gátu séð um barn sitt óáreitt um langt skeið þar til barnaverndaryfirvöld hófu að skipta sér af málinu. Þessi málsmeðferð brjóti í bága við 6. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

        Stefndu hafi sent kvörtun til Barnaverndarstofu vegna meðferðar málefna stefndu, sem finna má á dskj. 72. Þrátt fyrir að stærstur hluti athugasemda varði umgengni og atvik sem hafi gerst eftir að ákvörðun um forsjársviptingu  hafi verið tekin, telja stefndu nauðsynlegt að vekja athygli á þessari framgöngu barnaverndaryfirvalda í málinu sem sýni vel hvernig meðferð málsins í heild hefur verið. Stefndu telja jafnframt að annmarkar sem tengjast fósturvistun barnsins teljist ágalli á ákvörðun um forsjársviptingu. Nánar tiltekið felst í því brot á meðalhófsreglu að framkvæma ákvörðun um forsjársviptingu með þeim hætti sem gert var. Hefðu barnaverndaryfirvöld farið eftir þeim reglum sem um fósturvistunina giltu væru allar líkur á því að barnið hefði farið til vistunar hjá föður stefndu A og sambýliskonu hans. Í stað þess sé búið að ákveða að umgengni sé verulega skert, eingöngu mánaðarlega þar til fyrir hvernig dómsmáli um forsjársviptingu ljúki.

        Stefndu byggja kröfu um sýknu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, m.a. 29., 41. og 56. gr. laganna. Stefndu byggja einnig á 10., 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Stefndu byggja á lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks, 71. gr. stjórnarskrár, nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

        Krafa um málskostnað styðst aðallega við 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Niðurstöður

        Foreldrar hafa fengið þjónustu frá Þjónustumiðstöð [...] frá því í október 2011, eftir tilvísun frá réttindagæslumanni fatlaðs fólks á Reykjanesi. Þegar ljóst var að foreldrar ættu von á barni í febrúar 2015 hófst undirbúningur undir hvernig skipuleggja ætti þjónustu við stefndu og barnið. Settur var inn aukinn stuðningur strax á meðgöngu. Sett var upp teymi utan um mál þeirra með ráðgjafa ÞLH og hjúkrunarfræðingi frá heilsugæslunni [...]. Markið teymisins var að kortleggja hvaða þjónustu fjölskyldan þyrfti og hvernig sú þjónusta yrði skipulögð.

        Eftir fæðingu barnsins virtist samvinna ganga vel og taldi teymi þjónustumiðstöðvar og heilsugæslu að ekki væri ástæða fyrir frekari aðkomu stefnanda að málinu. Stefnandi lokaði því málinu í maí 2015. Þjónustan fólst í heimsóknum tvisvar sinnum á dag og virtist ganga vel. Unnið var út frá því að styðja foreldra við þá hluti sem miður höfðu farið við umönnun fyrri barna þeirra. Meðal annars var barnið ávallt baðað í viðurvist starfsmanna, bleyjuskipti voru í öllum innlitum og leiðsögn var veitt eftir þörfum. Í upphafi fengu foreldrar einnig aðstoð við að mæta á heilsugæslu í ungbarnaeftirlit en þegar ljóst var að foreldrar mættu alltaf í bókaða tíma og báru traust til heilsugæslunnar var slíkri aðstoð hætt.

           Stuðningur var minnkaður í september 2015 í einu sinni á dag og í febrúar 2016 í fjórum sinnum í viku. Þjónustan var m.a. fólgin í leiðbeiningum er varðaði umönnun barnsins og aðstoð varðandi fjármál og húsnæði, auk eftirlits. Foreldrar voru til fullrar samvinnu. Tilkynning barst í máli telpunnar þann 4.5.2016 þar sem fram kom að faðir væri mikið einn með telpuna og móðir mikið utan heimilisins. Starfsmenn barnaverndar fóru á heimilið. Faðir var langt niðri og sagðist ekki geta annast telpuna mikið lengur.  Þá hafi alls sjö tilkynningar til viðbótar borist Barnavend Reykjavíkur undi nafnleynd frá 7. maí til 24. maí 2016 um áhyggjur af velferð telpunnar í umsjá foreldra. Tilkynning barst jafnframt til þjónustumiðstöðvar þann 27. maí 2016 þar sem miklum áhyggjum var lýst af stöðu telpunnar. Fyrr um daginn höfðu tveir starfsmenn þjónustumiðstöðvar verið inn á heimilinu og aðstæður þar ekki verið góðar, telpan hefði virst svöng og faðir í þörf fyrir aukinn stuðning sem ekki væri hægt að setja inn þar sem móðir vildi ekki leyfa það. Miklar áhyggjur voru af getu foreldra til þess að sinna telpunni. Undanfarna mánuði hafi þau fengið stuðning frá starfsmanni stuðningsþjónustu þrisvar til fjórum sinnum á viku, auk ráðgjafar frá ráðgjafa í þjónustumiðstöð. Þann sama dag tilkynnti þjónustumiðstöð stefndu til barnaverndar. Var ljóst að aðstæður hefðu versnað til muna hjá stefndu og af gögnum málsins má sjá að full ástæða hafi verið til að leita eftir samþykki foreldra fyrir því að barnið yrði vistað á Vistheimili barna. Kemur fram í málsgögnum að móðir sinnti ekki þeim leiðbeiningum sem hún hafði fengið, þá hefði hún verið hátt stemmd og ekki til samvinnu eða getað nýtt sér þann stuðning sem lagt hafði verið upp með. Þá hafi faðir verið í þörf fyrir frekri stuðning sem móðir hafði ekki leyft og því hafi ekki verið unnt að veita föður aðstoð.

           Stefndu samþykktu vistun. Réttargæslumaður og ráðgjafi þjónustumiðstöðvar fylgdu stefndu á Vistheimili barna, ásamt stafsmanni barnaverndar. Telpan var síðan úrskurðuð utan heimilis til tveggja mánaða á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 7.6.2016, en þá samþykktu foreldrar ekki að undirgangast greiningar og kennsluvistun á Vistheimili barna. Vegna skorts á samvinnu við foreldra og þar sem þeir tóku leiðbeiningum illa voru áfram áhyggjur af getu þeirra til að annast telpuna. Málið var af þeirri ástæðu lagt fyrir fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 14. júlí sl. með tillögu um áframhaldandi vistun telpunnar utan heimilis. Í ljósi meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og barnaverndarlaga taldi nefndin, að svo stöddu, ekki vera forsendur fyrir því að krefjast lengri vistunar telpunnar utan heimilis. Taldi nefndin að nauðsynlegt væri að láta reyna á samvinnuvilja foreldra, til þriggja mánaða, um þann stuðning og kennslu sem þau væru talin í þörf fyrir og þá í formi Greiningar- og ráðgjafar heim, Ylfu eða annarra úrræða, auk þess sem foreldrar fengju nauðsynlegan stuðning frá þjónustumiðstöð. Gerð var með foreldrum meðferðaráætlun þar sem einnig kom fram að foreldrar myndu undirgangast forsjárhæfnismat og að óboðað eftirlit yrði haft með foreldrum. Úrræði Ylfu var í tvígang sett inn á heimilið, í byrjun ágúst 2016 og aftur um miðjan ágúst. Fyrra skiptinu lauk vegna skorts stefndu á úthaldi og samstarfi. Í skýrslu Ylfu dagsett 17.8.2016 segir að stefndu, móður, hafi skort úthald, hún hafi ekki tekið ráðgjöf eða leiðbeiningum og að faðir hafi sýnt það í orði og verki að hann væri ekki tilbúinn til að hafa telpuna. Faðir hefði lítið sem ekkert frumkvæði í samskiptum við telpuna og væri áhugalaus. Foreldrar óskuðu eftir öðru tækifæri með Ylfu, sem fór að nýju inn á heimilið en með öðrum starfsmönnum til að koma frekar til móts við foreldra. Í skýrslu Ylfu fyrir seinna tímabilið 7. september til 2. október 2016 segir m.a. að stefndu, móður, virðist skorta innsæi til að meta þarfir telpunnar, áhugi hennar á barninu sé oft lítill svo og umönnun. Þá hafi stefndi, faðir, ekki áhuga eða hæfni til að annast barn, hann skorti úthald og færni, þótt hann sjái að mestu um að sinna grunnþörfum telpunnar. Þá sé matseld fábrotin, íbúðin sé oftast óþrifaleg og óreiða sé mikil á heimilinu. Fram kemur einnig að samskipti stefndu séu ekki á jafnræðisgrundvelli, þau eigi erfitt með að fara eftir leiðbeiningum og að starfsmenn meti það svo að þau séu ekki fær um að sinna öllum þeim þörfum sem barn hefur, án mikils stuðnings.

        Telpan byrjaði í leikskóla þann 29. ágúst sl. Samkvæmt upplýsingum frá leikskólanum þann 22. september kemur fram að það sé mat starfsmanna leikskólans að telpan sé ekki komin eins langt í almennum þroska og jafnaldrar hennar á leikskólanum, en að auðvelt verði að laga það með mikilli örvun. Samkvæmt upplýsingum frá leikskólanum dagsettum 13.1.2017 kemur fram að telpan hafi tekið mjög jákvæðum breytingum í allri hegðun; hvað matarvenjur snertir, geðslag og samskipti við önnur börn.

        Fram kemur í gögnum málsins að J sálfræðingur hafi gert taugasálfræðimat á stefndu, konunni, í júní 2003. Kemur fram í samantekt og áliti að um sé að ræða vitsmunalega skerta, tæplega 18 ára stúlku, sem hafi mælst með jaðargreind í munnlegum yrtum prófþáttum, en eðlilega greind í verklegum prófþáttum. Útkoman í heildina gæfi lága greindartölu. Hvað varði félagsþroska stefndu, stjórnun á geðslagi og persónuleika sé hvatvísi, hömluleysi, einfeldni, skert dómgreind og lítið innsæi sláandi. Varðandi mat á því hvort stefnda geti unnið fyrir sér og séð sjálfri sér farborða, segir að hún hafi að mörgu leyti gott verkvit og sé gædd talsverðri útsjónarsemi og geti ráðið við ýmsa flókna hluti ef hún fái góðar leiðbeiningar.

        Í málinu liggja fyrir fimm forsjárhæfnismöt á stefndu. D sálfræðingur gerði forsjárhæfnismat árið 2004. Í matinu kemur fram að niðurstöður persónuleikaprófs gefi til kynna umtalsverð sálræn vandamál, þ.e. geðrænt ástand stefndu, konunnar, einkennist af undirliggjandi kvíða, neikvæðri sjálfsmynd og erfiðleikum við myndun traustra og varanlegra tengsla. Þá gefi prófmynd ástæðu til að ætla að geðsveiflur séu líklega tíðar og erfiðleikar í aðlögun og samskiptum séu áberandi. Í daglegu lífi búi hún þó yfir ákveðinni dirfsku og yfirborðsáræðni sem við hagstæð skilyrði getur verið henni til framdráttar. Hins vegar megi lítið út af bregða til að hún segi upp fyrri samningum og fyrri sig ábyrgð. Það er álit sálfræðingsins að hún geti ekki látið þarfir barns hafa forgang fram yfir sínar þarfir þegar það er nauðsynlegt. Jafnframt að hún sé ófús til að þiggja stuðning og lúta leiðsögn um umönnun barnsins, hún hafi tilhneiginu til að taka aðeins við því sem henni hentar í það skiptið en hafna annarri aðstoð sem óþarfa afskiptasemi. Þá sé greind hennar í lágu meðaltali. Um manninn segir sálfræðingurinn að hann sé ófær um að axla neins konar heildarábyrgð varðandi umönnun barns. Þá mælist greind hans við jaðargreind. Því sé forsjárhæfni stefndu verulega ábótavant.

       Fyrir liggur forsjárhæfnismat E sálfræðings frá árinu 2010, sem gert var að beiðni félags- og skólaþjónustu A-Hún vegna tveggja dætra stefndu sem þá bjuggu á heimili þeirra. Segir í matinu að hann telji ekki ástæðu til að endurtaka þær prófanir sem fram fóru við forsjárhæfnismat D, „enda engar vísbendingar um breytingar á andlegri getu eða frammistöðu sem gáfu tilefni til slíks mats“. Í niðurstöðum kemur fram að hann taki undir þá niðurstöðu D að forsjárhæfni stefndu sé verulega ábótavant og að ljóst virðist að án mikillar utanaðkomandi aðstoðar verði verkefnið að ala upp barn eða börn og koma til þroska foreldrum ofviða.   

        Á dómþingi þann 27. janúar 2011 var dómkvaddur matsmaður að kröfu stefndu. Var F sálfræðingur dómkvaddur til að gera sálfræði- og forsjárhæfnismat á stefndu. Matið var lagt fram á dómþingi 13. janúar 2017. Matsmaður lagði fyrir stefndu nokkur greindar- og persónuleikapróf. Í niðurstöðu varðandi stefndu, konuna, segir að hún hafi mælst í neðra meðallagi greindar. Í niðurstöðum persónuleikaprófs segir að fram komi að hún eigi við aðlögunarvanda að stríða, sem felist m.a. í samskiptaörðugleikum sem endurspeglist af tortryggni og jafnvel fjandsemi gagnvart meintum óvildarmönnum. Í niðurstöðum í mati á reiðiviðbrögðum stefndu segir að niðurstöðurnar megi túlka á þann veg að reiðivandamál hennar, eins og hún upplifi þau sjálf og meti, séu veruleg, en kveikjan liggi síður í  umhverfisþáttum en innra með henni sjálfri.

       Í niðurstöðum varðandi stefnda, B, segir að hann falli í flokk mjög lágrar greindar, neðan við 70. Niðurstöðurnar í heild sýni verulega skerðingu eða sem samsvari þroskahömlun. 

        Í niðurstöðum matsins segir að í heild hafi vinnsla matsins gengið hægt fyrir sig þar sem foreldrarnir hafi veri ósamvinnuþýðir. Efnislegar niðurstöður sálfræðilegrar greiningar hafi sýnt mikil frávik, bæði hvað varði verulega greindarskerðingu föður og óvirkni hans og almennt úrræðaleysi. Móðirin standi eitthvað betur greindarfarslega að vígi en faðirinn en greindarfar hennar beri engu að síður einkenni misstyrks og seinþroska á afmörkuðum sviðum. Útkoma persónuleikaprófa bendi til röskunar á andlegri starfsemi, ranghugmynda og aðsóknarkenndar. Samfara þessum einkennum sé mikil spenna, kvíði, þunglyndi, reiðivandamál og áberandi aðlögunarvandi hjá móður. Telur matsmaður að stefndu hafi mjög skerta hæfni sem foreldrar, jafnvel þótt þau nytu verulegrar aðstoðar og stuðnings yfirvalda. Helstu ástæður séu verulegir persónulegir annmarkar, greindarskortur, geðræn einkenni, persónuleikaraskanir og aðlögunarerfiðleikar, annars eða beggja forelda.

        Matsgerð G sálfræðings sem gerð var að beiðni barnaverndarnefndar Reykjavíkur er dagsett 30. september 2016. Í matinu segir að samvinna við stefndu hafi gengið vel til að byrja með en síðan hafi orðið mun erfiðara að eiga samvinnu við stefndu, A. Fram kemur í niðurstöðukafla matsins að fyrri forsjárhæfnismatsgerðirnar þrjár séu gerðar á sjö ára tímabili frá 2004 til 2010 og sé fullur samhljómur í niðurstöðum þeirra. Í matsgerð G segir: „Undirrituð sér engar vísbendingar um að breytingar hafi orðið á andlegri getu eða frammistöðu A og B sem gefi tilefni til að endurtaka prófanir sem þegar  hafa verið gerðar. Samskipti A og B við þá aðila sem hafa komið að málum þeirra að undanförnu og klínískt mat undirritaðrar styðja á allan hátt fyrri niðurstöður.“ Í matinu segir m.a. að B sé með skertan þroska, óvirkur, ósjálfstæður, úrræðalaus og leiðitamur. Hann hefur ekki undir höndum peninga, bankakort eða húslykla heima hjá sér. Föðurhlutverk hans einkennist af því sem stefnda, móðir, segir honum að gera og leyfi honum að gera og hann sé ekki fær um að axla neins konar heildarábyrgð. Þá segir að persónuleikaþættir konunnar sem og afstaða hennar bendi til þess að hún geti verið fús til að þiggja stuðning og lúta leiðsögn um umönnun barnsins, en hafi tilhneiginu til að taka aðeins við því sem henni henti og hafna annarri aðstoð sem óþarfa afskiptasemi. Matsmaður telur að það sem fram komi í mati D hafi komið skýrt fram undanfarna mánuði. Sömu þættir  hafi einnig orðið þess valdandi að foreldrarnir misstu forsjá yfir dætrum sínum árið 2011. Í fimm ára gömlu forsjárhæfnismati F bendir útkoma  persónuleikaprófa til röskunar á andlegri starfsemi, ranghugmynda og aðsóknarkenndar, samfara mikilli spennu, kvíða, þunglyndi, reiðivandamálum og áberandi aðlögunarvanda. Ef stefndu, A, líkar ekki það sem gerist sýnir hún tilfinningar sínar á hömlulausan hátt. Tengsl móðurinnar  við dóttur sína einkennast af því að hún þarf að fá að ráða ferðinni á sinn sjálfsmiðaða hátt og gefa sig að telpunni þegar henni sjálfri hentar.

       Styrkleikar stefndu, móður, felast einkum í fjörugum og líflegum þáttum í persónugerð hennar og hún á auðvelt með að hrífa telpuna með sér í leik og söng á góðri stundu. Veikleikar hennar felast einkum í neikvæðum þáttum í persónugerð hennar, hún er sjálfmiðuð, tekur illa tilsögn og er lítið til samvinnu.

Báðir foreldrar eiga í miklum erfiðleikum með að hafa innsýn í þroska telpunnar og þarfir hennar. Þroski barna breytist hratt og ef seinfærir foreldrar ná af einhverjum ástæðum ekki að taka leiðbeiningum og ráðgjöf eru þeir alltaf á eftir barninu hvað varðar viðeigandi örvun, hegðunarmótun og öll viðbrögð.

        Matsmaður telur foreldrana þurfa mikla, stöðuga og markvissa leiðsögn til þess að geta annast um telpuna á þann hátt sem hentar aldri hennar og þroska á hverjum tíma. Heimili þeirra ber einnig með sér að þau þurfa aðstoð við skipulag, þrif, þvotta og slíkt.

       Foreldrarnir gátu ekki þegið og nýtt sér þann stuðning sem reynt var að bjóða þeim með alls sex vikna dvöl á Vistheimili barna, þar sem þrjár vikur voru hugsaðar sem greiningar- og kennsluvistun. Þetta er umfagsmikið sólarhringsúrræði. Ekki varð heldur árangur af ráðgjöf og þjálfun frá Ylfu sem kom í kjölfarið. Vandséð er hvernig hægt er að koma til þeirra viðeigandi stuðningi þannig að þeim nýtist hann.

        Þá segir í lok matsgerðar: „Veikleikar sem taldir eru upp hjá foreldrunum hér að framan gefa undirritaðri tilefni til að hafa alvarlegar áhyggjur af velferð, þroska og öryggi telpunnar í umsjá þeirra hvað varðar alla liði sem upp eru taldir nema til komi samvinna þeirra um mikla og stöðuga ráðgjöf og aðstoð sem bæti upp veikleikana. Undir slíkum kringumstæðum gætu komið viðunandi tímabil en ólíklegt er að þau endist lengi.

        Matsgerð að beiðni stefndu var lögð fyrir dóminn. Matsgerðin er dagsett 1. maí 2017. Matsmenn eru I sálfræðingur og H prófessor í fötlunarfræðum við HÍ. Auk viðtala við foreldra, bæði saman og sitt í hvoru lagi, var rætt við föður móður og konu hans, þrjá starfsmenn þjónustumiðstöðvar og tvo starfsmenn Ylfu. Ekki var rætt við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur. Matsmenn ákváðu að leggja engin sálfræðileg próf fyrir foreldra þar sem þegar liggur fyrir fjöldi sálfræðilegra prófa, skimunarkvarða og greindarprófa. Í kaflanum Mat matsmanna segir að móðir komi matsmönnum fyrir sjónir sem opin, ákveðin og röggsöm ung kona. Saga hennar einkennist af mörgum áföllum sem hafa án efa mótað ýmsa eiginleika í persónugerð hennar. Fram kemur í viðtölum við A og þá er þekkja vel til hennar sem og í niðurstöðum sálfræðilegra prófa að hún á erfitt með traust og er tortryggin í garð annarra. Félagslegur vandi hefur fylgt henni frá unga aldri, hún lendir ítrekað í útistöðum við umhverfi sitt. Félagslega kerfið hefur haft afskipti af málefnum hennar og börn hennar fjögur hafa verið tekin úr hennar umsjá. Það er því skiljanlegt að móðir sé á varðbergi gagnvart afskiptum annarra. Ríkjandi þáttur í persónugerð móður er hvatvísi og skortur á skapstjórn. Það kemur fram í viðtölum við hana sjálfa, umsögnum þeirra sem til hennar þekkja og á sálfræðilegum prófum. Tortryggni hennar og skortur á skapstjórn hefur gert það að verkum að hún kemst auðveldlega upp á kant við stuðningsaðila sem hafa verið á heimili hennar. Jafnframt telja matsmenn að skortur á innsæi A hvað snertir eigin veikleika, takmörkuð skapstjórn, hvatvísi og ákveðið dómgreindarleysi geti skert verulega getu  hennar í uppeldishlutverkinu þar sem uppeldi barna reynir mikið á ofangreinda þætti. Fram kom í viðtölum við þá er til hennar þekkja að A getur verið kröftug og úrræðagóð sem nýtist vel í uppeldi. A finnst hún ráða vel við að ala upp barn og halda heimili án aðstoðar. Hún er stjórnsöm og ákveðin og vill ráða för þegar kemur að uppeldi og heimilishaldi. Að framansögðu er líklegt að móðir muni ekki hafa það sem þarf til þess að tileinka sér ráðgjöf og utanaðkomandi stuðning nema að tillit verði tekið til þessara eiginleika hennar. Matsmenn hafa áhyggjur af að A skuli ekki sjá nauðsyn þess að fá stuðning inn á heimilið.

          Um B segir að hann komi matsmönnum fyrir sjónir sem hægur, rólegur og kurteis maður. Hann er misjafnlega framfærinn eftir aðstæðum.

          Hvað B varðar meta matsmenn það svo að hann beri þess merki að hafa búið við langvarandi og mjög alvarlega vanrækslu frá unga aldri. Afleiðingar þess koma skýrt fram hjá honum meðal annars í miklu ósjálfstæði, óöryggi, óframfærni og á köflum miklum kvíða. Eins megi ætla að vanrækslan hafi einnig sett mark sitt á greindarfarslega stöðu hans.

       Matsmenn heimsóttu A og B á heimili þeirra eitt síðdegi í mars. Þau búa á fjórðu hæð í lyftulausu stigahúsi á [...]. Um er að ræða rúmgóða fjögurra herbergja íbúð sem þau leigja af Félagsbústöðum. Íbúðin er með þremur svefnherbergjum, stofu, eldhúsi og baðherbergi. Eitt herbergið er notað í stað geymslu og eldhúsið gegnir einnig hlutverki þvottahúss því þar er þvottavél. Ástæða þess að þau kjósa að hafa þvottaaðstöðu á hæðinni er bæði tilkomin vegna þess að það kostar að þvo í sameiginlegri aðstöðu í kjallara og það sparar þeim sporin. Dregið er fyrir borðkrók í eldhúsi með hengi og þar er óhreinn þvottur geymdur. Heimili þeirra virðist búið öllu því sem þarf til og heimilið var snyrtilegt að frátöldu eldhúsi þar sem ríkti talsverð óreiða. Þar sem eldhúsið virkar ekki til að matast borðar fjölskyldan í stofunni og sófinn ber þess merki þar sem hann er afar blettóttur sem gerir það að verkum að heimilið virkar óhreinna en það í rauninni er. Í stofunni voru húsgögn, skrautmunir, myndir á veggjum og sjónvarp og öllu komið vel fyrir. Svefnherbergi A og B er óvistlegt, þar er ekkert fyrir utan hjónarúmið, engin sængurver á sængum og gömul snjáð ábreiða huldi hluta rúmsins. Matsmenn vita ekki hvort þau hafi átt eftir að setja sængurver utan um sængur eða hvort þetta sé þeirra háttur í umbúnaði. Kettir þeirra höfðust við í svefnherberginu þeirra og lágu á rúminu. Þegar matsmenn komu í heimsókn tók á móti þeim stæk reykingarlykt. A reykti ekki meðan á heimsókn stóð en B reykti rafrettu. Vinur þeirra var í heimsókn og sat þögull í stól meðan á heimsókn stóð. Matsmenn stöldruðu við stutta stund enda tilgangur heimsóknar að sjá hvernig þau halda heimili.

        Í viðtali við föður A og konu hans lýsa þau yfir ánægju með að vera boðuð í viðtal til matsmanna þar sem þau telja sig þekkja vel til málsins og rödd þeirra hafi ekki fengið að heyrast í fyrri matsgerðum sem gerðar hafa verið um forsjárhæfni A og B. Þau byrja viðtalið á því að lýsa því yfir að þau telji að C sé best borgið hjá fósturmæðrum sínum og systrum. Hvað C varðar segja þau að í byrjun hafi gengið vel hjá þeim að annast barnið með miklum stuðningi. Þegar A eignaðist bílinn varð allt vitlaust, hún var lítið heima og lét B um að annast barnið, segja þau. B hafi bugast undan því álagi að vera mikið einn með barnið auk þess hafi hann lítið vitað um ferðir A. B hafi ítrekað hringt í þau og beðið þau um að tilkynna til barnaverndarnefndar hvernig ástandið væri á heimilinu. Faðir A og kona hans segjast hafa heimsótt stelpurnar þrjár á heimili fósturmæðra sinna. Þau segjast sjá mikinn mun á C sem er miklu glaðari en hún var og líkamlega styrkari. Þau tala vel um fósturmæður stelpnanna sem þau segja aldrei hafa hallmælt A og B í þeirra eyru og að þær hugsi mjög vel um stelpurnar.

       Matsmenn ræddu við K lögfræðing og L þroskaþjálfa hjá Þjónustumiðstöð [...]. Þær segja það skoðun sína að A og B hafi verið móttækileg fyrir stuðningi og hafi staðið sig vel í að annast barnið og halda heimili. Einnig að A og B hafi verið dugleg að spjalla við C, faðir hafi sinnt grunnþörfum barnsins vel og starfsfólk hafi ekki haft áhyggjur af mataræði telpunnar.

         Engu að síður tilkynnti deildarstjóri þjónustumiðstöðvar fjölskylduna til barnaverndar þann 27. maí 2016. Segir að með tímanum hafi foreldrum þótt stuðningurinn íþyngjandi og hefðu kosið að hafa hann sveigjanlegri. Þjónustumiðstöð hafi ekki getað mætt þessari beiðni og þar sem foreldrar hafi staðið sig vel hafi verið ákveðið að koma til móts við óskir þeirra og stuðningurinn minnkaður. Hafi þá farið að ganga illa á heimilinu og ástæða til að tilkynna ástandið þar.

        Áður hefur komið fram álit starfsmanna Ylfu en matsmenn ræddu við þá. Fram kemur m.a. að málörvun hafi skort gagnvart barninu og að breytileika hafi vantað í tilfinningalíf telpunnar. Þá hafi starfsmenn talið að A beitti B andlegu ofbeldi. Þá hafi komið fram hjá B að hann upplifði sig einan með alla ábyrgð á barninu og heimilinu og hann hafi ítrekað spurt hvort þær myndu ekki láta það koma fram í sínum skýrslum og „hvort stelpan yrði þá ekki tekin af heimilinu“. Hann hafi hreinlega krafist þess að hringt yrði í barnavernd þegar A var ekki heima og hann réð ekki við aðstæður.

         Í niðurstöðu matsmanna kemur m.a. fram varðandi fyrirmynd að það vanti upp á að foreldar séu góðar fyrirmyndir fyrir telpuna hvað varðar félagslega hæfni og telja forsjárhæfni foreldra skerta og fullvíst að þeir munu þurfa viðeigandi stuðning til að geta uppfyllt nægjanlega vel uppeldisskyldur sínar. Þá veiki stöðu A og B tilfinningalegur óstöðugleiki þeirra og lítið sem ekkert stuðningsnet ættingja. Því sé ljóst að foreldrar munu ekki geta annast dóttur sína nema með vönduðum og viðeigandi stuðningi sem þau eru viljug til að nýta. Einnig segir að gögn málsins sýni að þegar foreldrar hafi verið í jafnvægi og fengið viðeigandi stuðning, eins og var á fyrsta ári í lífi barnsins, hafi þeim gengið vel að annast barnið. Þau þurfi hvort um sig ólíkan stuðning til að styrkja sig sem einstaklingar og til að þau geti betur sinnt foreldrahlutverki sínu. A þyrfti á á sálfræðilegri meðferð að halda þar sem unnið yrði með að bæta samskiptahæfni hennar, kenna henni að bregðast öðruvísi við en með tortryggni og reiði. Foreldrar verði að vera móttækilegir fyrir stuðningi en samvinna þeirra er forsenda þess að hægt sé að styðja fjölskylduna. Segir að matsmenn hafi áhyggjur af að A skuli ekki sjá nauðsyn þess að fá stuðning inn á heimilið. Jafnframt að ljóst megi vera að um viðamikinn stuðning yrði að ræða sem væri bæði veittur barni og foreldrum og stuðningsaðilar yrðu að búa yfir þekkingu á þörfum seinfærra foreldra.   

        Í máli þessu er þess krafist að stefndu, A og B verði svipt forsjá dóttur sinnar C, kt. [...].

        Faðir á við verulega þroskaskerðingu að etja, en móðir vægari, en jafnframt hvatvísi, skort á skapstjórn, skort á innsæi í eigin veikleika og ákveðið dómgreindarleysi.

        Í þessu máli hafa afskipti barnaverndaryfirvalda verið allt frá febrúar 2015 í tengslum við fæðingu telpunnar. Með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur  þann 14. október 2016 var telpan vistuð utan heimilis. Hún hefur verið vistuð utan heimilis frá 19. október og er nú vistuð hjá fósturforeldrum eldri systra hennar. Áður höfðu barnaverndaryfirvöld, sökum áhyggna af getu foreldranna til barnauppeldis, komið að málum þeirra í tengslum við þrjú eldri börn þeirra, sem öll eru í langtímafóstri. Þegar móðir gekk með yngsta barn sitt var teymi fagfólks myndað um þjónustu við móður og föður. Sökum tilkynninga sem bárust um slæman aðbúnað telpunnar í maí 2016 dvaldi telpan á Vistheimili barna frá 27. maí 2016 fram til 7. ágúst, fyrst með samþykki foreldra en síðan með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 6. júní 2016. Voru foreldrar til lítillar samvinnu og var því farið fram á áframhaldandi vistun utan heimilis. Í ljósi meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og barnaverndarlaga taldi nefndin að svo stöddu ekki vera forsendur fyrir því að krefjast lengri vistunar telpunnar utan heimilis og að nauðsynlegt væri að láta reyna á samvinnuvilja foreldra til þriggja mánaða um þann stuðning og kennslu sem þau voru talin í þörf fyrir og þá í formi Greiningar og ráðgjafar heim, Ylfu og annarra úrræða. foreldrar fengju að auki nauðsynlegan stuðning frá þjónustumiðstöð. Gerð var meðferðaráætlun með foreldrum. Í greinargerð starfsmanna barnaverndar dagsett 4. október kemur fram það mat að foreldar geti ekki sinnt uppeldishlutverki sínu til lengri tíma litið. Er það mat byggt á grundvelli fyrrliggjandi upplýsinga í málinu, frekari stuðningur við þau megni ekki að breyta þeirri stöðu.

         Af gögnum málsins verður ekki annað séð en foreldrum hafi staðið til boða mikil þjónusta inn á heimili þeirra til að sinna þörfum barnsins. Úrræðið Ylfa hafi, fyrir utan stuðning frá þjónustumiðstöð, verið sett inn á heimilið, fyrst í byrjun ágúst sl., en þeirri vinnu lauk vegna skorts á samvinnu við foreldra. Foreldrar óskuðu eftir öðru tækifæri og fóru aðrir starfmenn Ylfu inn á heimilið frá 7. september og unnu með foreldrum fram til 4. október. Fram kemur í skýrslu Ylfu að foreldar hafi átt í erfiðleikum með að tileinka sér og fara eftir leiðbeiningum hvað uppeldi og umönnun telpunnar varðaði.

        Þrátt fyrir mikla aðstoð inn á heimilið og, að því er fram kemur í málsgögnum, mjög faglega aðstoð hafa foreldrar meira og minna verið mótfallnir aðstoð og úthaldslitlir hvað það varðar. Fyrir liggja fjögur forsjárhæfnismöt í málinu sem öll eru samdóma um að foreldrar hafi átt og eigi í verulegum erfiðleikum með að skapa fullnægjandi uppeldisaðstæður fyrir börn sín, auk þess sem móðir hefur verið mjög mótfallin afskiptum. Þrátt fyrir athugasemdir stefndu um að þessi forsjár möt hafi minna vægi vegna þess hve þau séu gömul og að forsjármat G hafi verið aflað einhliða verður ekki fallist á að ekki verði á þeim byggt þar sem þau eru samdómu um að foreldrar hafi átt og eigi í erfiðleikum með að skapa fullnægjandi uppeldisaðstæður fyrir börns, auk þess sem móðir hefur verið mjög mótfallin afskiptum. Fimmta forsjárhæfnismatið liggur jafnframt fyrir þar sem segir að foreldrar búi yfir mörgum ágætum kostum, en þurfi engu að síður vandaðan og mikinn stuðning til að valda uppeldishlutverki sínu og að matsmenn hafi áhyggjur af því að móðirin skuli ekki sjá nauðsyn þess að fá stuðning inn á heimilið.

        Fyrir dóminn kom M, forstöðumaður Vistheimilis barna. Kvað hún móður hafa verið til lítils eða einskis samstarfs á heimilinu þegar barnið dvaldist þar og því hafi engar framfarir orðið hjá henni þrátt fyrir að um kennsluvistun hafi verið að ræða. Kvaðst hún hafa reynt að biðla til foreldra um að sýna samvinnu telpunnar vegna en segir að móðir hafi ekki viljað nein samskipti. B hafi hins vegar verið þakklátur fyrir aðstoð en einungis þorað að sýna það í fjarveru A. Telpan hafi verið hænd að föður sínum en hann hafi ekki verið fær um að sinna henni, þar sem hugur hans var allur hjá A og ljóst að hann var mjög upptekinn af henni. Þá hafi áhugaleysi hjá þeim báðum verið áberandi og þau hafi aldrei sett eigin þarfir og líðan til hliðar til að sinna barni sínu.

        Fyrir dóminn kom N, starfsmaður Ylfu. Fram kemur að tilgangur með aðkomu Ylfu hafi verið að greina aðstæður og veita stuðning og ráðgjöf. Heimsóknir á heimili A og B hafi verið 54 og þrír starfsmenn hafi skipt með sér verkum. C segir að samskipti hafi ekki verið mikil við foreldrana, en ágæt og kurteisi hafi verið viðhöfð. A hafi verið ráðandi á heimilinu og stýrandi gagnvart B sem sinnti telpunni mun meira en A. Hana hafi skort áhuga, en hafi líklega meiri hæfni en hún sýnir. Þá hafi telpan leitað meira til föður en móður þegar hún var þreytt eða vantaði huggun. B ræddi oft við starfsmenn um að hann gæti þetta ekki og starfsmenn Ylfu voru sammála því. Hann hafi þó verið hlýr við telpuna, hafi sinnt grunnþörfum hennar en ekki verið hvetjandi. Þá kemur fram í máli N að það væri hennar mat að engin framför hefði orðið á þessu tímabili og telur hún ekki raunhæft að foreldrar geti farið með forsjá barnsins.

        O þroskaþjálfi, starfsmaður Ylfu, kom fyrir dóminn. Í máli hennar kom fram að foreldrar hafi tekið vel á móti henni og verið ágæt í samskiptum en hafi ekki tileinkað sér ráðgjöf. Hún segir að mikið ójafnræði hafi verið með þeim; A hafi verð mjög stýrandi í samskiptum þeirra B og talað niður til hans og B hafi unnið verkin. Honum hafi liðið illa og ekki viljað axla þá ábyrgð sem A ætlaðist til af honum. Þá kemur fram að þau hafi ekki verið til samstarfs og A hafi ávallt talið sig vita betur en starfsmenn.

         Fyrir dóminn kom P leikskólastjóri [...]. Hún segir að telpan hafi verið óörugg í fyrstu á leikskólanum og hafi verið háð því að vera í fangi starfsmanna. Það hafi hins vegar breyst á fyrsta mánuði. Hún segir að ekki sé hægt að líkja sama hegðun og aðstæðum telpunnar nú og þegar hún kom fyrst á leikskólann. Í upphafi hafi hún verið á eftir jafnöldrum sínum en standi þeim jafnfætis í dag. Þá sé hún örugg með sig, ánægð og hrein. Þá sé útlit hennar allt annað og matarvenjur, eftir að hún var vistuð utan heimilis.

        I, sálfræðingur og matsmaður, kom fyrir dóminn. Hún sagði að vel hefði gengið hjá foreldrum fyrstu fimmtán mánuðina í lífi barnsins sem sýndi getu þeirra og væru grunntengsl mikil. Þá sagði hún að B gæti ekki annast einn um barnið og A væri hvatvís og dómgreindarlaus, hún þyrfti eftirlit og aðhald við uppeldið og ráðgjöf og meðferð við samskiptavanda sínum. Þá segir hún foreldra hafa innsæi í þarfir barnsins, þau séu ástrík en hafi ekki innsæi í eigin vandamál. Þau séu til samstarfs ef mikill vilji sé af hálfu stuðningsaðila. Hún mælir með því að þeim sé gefið annað tækifæri og ekki séu nein merki um vanrækslu af þeirra hálfu. Aðspurð um hlutverkaskipti foreldra inni á heimilinu segir hún að um hefðbundin hlutverkaskipti sé að ræða, eins og hafi verið áður, A sé karlinn í sambandinu; bæði sinni þrifum, en hún stjórni.

         Aðspurð um stuðningsþörf segir I að matsmenn hafi verulegar áhyggjur af að A skuli ekki sjá nauðsyn þess að fá aðstoð inn á heimilið.

         Fyrir dóminn kom matsmaður, H, prófessor í fötlunarfræðum. Fram kemur í máli hennar að bera þurfi virðingu fyrir A og erfiðleikum hennar, hún þurfi tíma og oft geri hún vel. Þá sé nauðsynlegt að öll þjónusta fari fram á heimili hennar og hún sé innt af hendi af fólki sem þekki hana vel og hún treystir. Það hafi valdið verulegri spennu hjá foreldrum hversu oft og hversu margir hafi komið inn á heimilið sem stuðningsaðilar. Þá þurfi starfsmenn meiri menntun og að ígrunda sig sjálfa til að geta komið að vinnu með fatlaða. Hún segir foreldra í viðkvæmri stöðu en hvergi sé að sjá vanrækslu og að gefa eigi foreldrum annað tækifæri.

        F sálfræðingur kom fyrir dóminn. Kvað hann foreldra hafa verið tortryggin í garð matsaðila og erfiða í samvinnu. Segir hann að innsæi þeirra sé lítið og að þeim sé eiginlegt að persónugera aðstæður sínar, þau kenni öðrum um ófarir sínar og tengi ekki slíkt við eigin hegðun eða eiginleika. F telur að út frá prófniðurstöðum, klínísku mati og tengslum við börnin uppfylli foreldrar ekki lágmarksfærni til að geta verið með forsjá barna, jafnvel með aðstoð.

        Fyrir dóminn kom Q, réttindagæslumaður fatlaðra. Hún segist hafi komið að málinu í ársbyrjun 2015, eftir að barnið var nýfætt. Hún hafi verið í góðu sambandi við bæði foreldra og alla sem að máli þeirra hafi komið; setið fundi með félagsþjónustunni, barnavernd, foreldrum og starfsmönnum Vistheimilis barna. Hún hafi fylgt þeim t.d. inn á Vistheimilið. Aðspurð segir hún að hlutverk hennar hafi fyrst og fremst verið að sjá um að þjónustan lagaði sig að þörfum foreldra. Til dæmis hafi tímasetningum verið breytt á Vistheimilinu í samræmi við tillögur hennar. Að mati Auðar hafi margt verið vel gert í þeirra málum. Starfsfólk hafi reynt að að koma til móts við foreldrana en þar hefði verið hægt að gera betur. Þrátt fyrir mikla þjónustu á heimilinu hafi þa ekki áttað sig á hver gerði hvað. Betra hefði verið ef starfsmenn hefðu verið með sértæka menntun. Hún segir að fullt tillit hafi verið tekið til ábendinga sinna og ekki hafi verið brotið á réttindum foreldra.

        Því er mótmælt sem fram kemur í greinargerð stefndu að fyrstu aðgerðir barnaverndar í málinu hafi verið að vista barnið utan heimilis í stað þess að nýta aðrar stuðningsaðgerðir inni á heimili. Það  var strax við fæðingu barnsins í febrúar 2015 að myndað var teymi og veittur víðtækur stuðningur inn á heimilið. Málinu var síðan lokað eins og rakið hefur verið en opnað aftur í maí 2016 í framhaldi af tilkynningu félagsþjónustu um vanrækslu. þá er til þess að líta að hér er ekki um að ræða eitt afmarkað tilvik heldur hafa afskipti barnaverndarnefnda tekið til um 12 ára.

        Markmið barnaverndarlaga er að tryggja að börn sem búa við aðstæður sem taldar eru geta stofnað heilsu þeirra eða þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skal við að ná þeim markmiðum með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu. Barnaverndaryfirvöldum ber ávallt að beita vægustu úrræðum til að ná markmiðum barnaverndarlaga og einungis skal beita íþyngjandi ráðstöfunum ef lögmætum markmiðum laganna verður ekki náð með öðru og vægara móti. Forsjársvipting er alvarlegt inngrip og verður slík krafa ekki tekin til greina nema ríkar ástæður liggi þar að baki, enda er hverju barni eðlilegt að alast upp hjá eigin foreldri.

Það er mat dómsins, og annað verður ekki séð af gögnum málsins, að þau úrræði sem barnaverndaryfirvöld ráða yfir hafi verið reynd til þrautar en ekki komið að gagni, þrátt fyrir endurteknar tilraunir til þess og yfirlýsingar stefndu um að foreldrarnir muni taka við stuðningi, leiðbeiningum og kennslu. Telur dómurinn að þjónusta sú sem reynd hefur verið allt frá fæðingu barnsins sé fullreynd. Fyrir liggja fimm forsjárhæfnismöt sem öll lúta að vanhæfi foreldra og þörf fyrir aðstoð sem þau hafa þó ekki verið fær um að nýta sér sökum m.a. vitsmunaskerðingar, innsæisleysis í eigin vanda og, hvað móður snertir, hvatvísi, takmarkaðrar skapstjórnar og skilningsleysis á stuðningsþörf. Þrátt fyrir að fyrir liggi fimmta matsgerðin, þar sem talað er um að gefa foreldrum annað tækifæri telur dómurinn að áhyggjur matsmannanna, sem fram koma í matinu, af því að A skuli ekki sjá nauðsyn þess að fá stuðning inn á heimilið séu í fullu samræmi við þá reynslu sem fengist hefur á undanförnum tólf árum, þ.e. þann tíma sem barnaverndaryfirvöld hafa komið að málum foreldra, þar sem raunin er að foreldrar hafa ekki staðið við yfirlýsingar um samstarf. Dóminum þykir matsgerð I sálfræðings og H, prófessors í fötlunarfræðum, að öðru leyti vera í miklu ósamræmi við aðrar matsgerðir og önnur gögn í málinu sem taka til tólf ára tímabils, en þar er mikið samræmi í þeim atriðum sem snerta hæfi málsaðila til skapa börnum þeirra viðunandi uppeldisaðstæður. Dómurinn telur þess utan að það rýri vægi fyrrgreindrar matsgerðar að matsmenn hafi ekki rætt við starfsmenn barnaverndar sem hafi komið að þessu máli frá öndverðu. Það er mat dómsins að engar líkur séu á að breytingar verði á getu foreldra og úthaldi til að skapa barni sínu öryggi og að óforsvaranlegt sé að barnið, sem varið hefur þriðjungi ævi sinnar í miklu öryggi og hvetjandi umhverfi með systrum sínum, þurfi mögulega að líða fyrir slíkt óraunhæft tækifæri. Þeir hagsmunir sem horft er til eru að tryggja velferð og vellíðan stúlkunnar og er ljóst að mati dómsins að þeim hagsmunum verði teflt í tvísýnu með því að fela foreldrum hennar forsjána. Af hálfu stefndu var byggt á því að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til fötlunar aðila og lögbundinna skyldna yfirvalda. Dómurinn fellst ekki á þá málsástæðu stefndu og telur þvert á móti að fullt tillit hafi verið tekið til fötlunar aðila, vægustu úrræðum hafi verið beitt og þau reynd til þrautar.

        Það er grundvallaratriði að börn búi við þroskavænleg skilyrði og að foreldrar skapi börnum sínum uppeldisaðstæður þar sem barnið býr við umhyggju, hvatningu og virðingu. Þegar hagsmunir foreldra og barns vegast á eru hagsmunir barnsins þyngri á vogarskálunum. Þetta er grundvallarregla í íslenskum barnarétti og kemur einnig fram í alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland er aðili að. Hinu opinbera er því skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir er mælt um í stjórnarskrá  lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

        Að öllu virtu er það niðurstaða dómsins að það þjóni hagsmunum C best að barnaverndarnefnd stefnanda verði falin forsjá hennar og að fullnægt sé skilyrðum samkvæmt a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Er því fallist á kröfu stefnanda. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að stefnda á, ef aðstæður hennar hafa breyst til hins betra og breyting er að öðru leyti talin í samræmi við hagsmuni telpunnar, möguleika á að fá sviptingunni hnekkt með dómi, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga.

       Stefnandi gerir ekki kröfu um málskostnað. Málskostnaður milli aðila fellur niður. Stefndu var veitt gjafsókn í málinu með bréfi innanríkisráðuneytisins 5. maí 2015. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefndu, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., greiðist úr ríkissjóði, og þykir hún hæfilega ákveðin með hliðsjón af umfangi málsins eins og nánar er kveðið á um í dómsorði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tilliti til virðisaukaskatts.

Dóminn kvað upp Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt sérfróðu meðdómendunum Aðalsteini Sigfússyni sálfræðingi og Ólu Björk Eggertsdóttur sálfræðingi.

Dómsorð:

          Stefndu, A og B, eru svipt forsjá dóttur sinnar, C, kt. [...].

         Málskostnaður fellur niður. Allur kostnaður málsins, þar með talin  málflutningsþóknun lögmanns stefndu, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., 2.300.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.