Hæstiréttur íslands
Mál nr. 720/2010
Lykilorð
- Verksamningur
- Fjármál hjóna
|
|
Fimmtudaginn 20. október 2011. |
|
Nr. 720/2010.
|
Þrotabú Ís-Spóns ehf. (Helgi Birgisson hrl.) gegn Margréti Ármann (Björn Jóhannesson hrl.) |
Verksamningur. Fjármál hjóna.
Þrotabú Í krafði M um greiðslu á tiltekinni fjárhæð vegna skuldbindinga sem eiginmaður hennar hafði gengist undir með samningi við Í, en Í hafði unnið við grunn og uppslátt á lóð sem M var leigutaki að. Hæstiréttur vísaði til þess að M hefði ekki skuldbundið sig með samningi til að ábyrgjast greiðslu á umræddum skuldbindingum eiginmanns síns og að 69. gr. hjúskaparlaga ætti ekki við í málinu. Yrði ábyrgð hennar heldur ekki leidd af því að hún væri leigutaki lóðarinnar. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um sýknu M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. desember 2010. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða honum 5.419.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. desember 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hún þess að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi krefst áfrýjandi efnda úr hendi stefndu á skuldbindingum sem eiginmaður hennar hafði gengist undir með samningi við Ís-Spón ehf. 5. júní 2008. Samkvæmt 67. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 ber hvort hjóna um sig ábyrgð á þeim skuldbindingum sem á því hvíla. Getur annað hjóna ekki skuldbundið hitt nema sérstaklega sé heimilað í lögum eða samningi hjóna, sbr. 68. gr. laganna. Stefnda hefur ekki skuldbundið sig með samningi til að ábyrgjast greiðslu á umræddum skuldbindingum eiginmanns síns og 69. gr. hjúskaparlaga, sem áfrýjandi vísar til fyrir Hæstarétti, á hér ekki við. Ábyrgð hennar verður heldur ekki leidd af því sem óumdeilt er að hún er leigutaki lóðarinnar að Örvasölum 14 í Kópavogi.
Af þessu leiðir með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, þrotabú Ís-Spóns ehf., greiði stefndu, Margréti Ármann, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. október 2010.
Mál þetta, sem var dómtekið 12. þessa mánaðar, er höfðað 1. desember 2009.
Stefnandi er Ís-Spónn ehf., Kópavogsbraut 93, Kópavogi.
Stefnda er Margrét Ármann, Jörfalind 5, Kópavogi.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða honum skuld að fjárhæð 5.419.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. desember 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar.
Stefnda krefst aðallega sýknu en til vara verulegrar lækkunar á kröfu stefnanda. Þá krefst hún málskostnaðar.
Bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta undir meðferð málsins og hefur þrotabúið tekið við aðild að málinu samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
I
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til heimtu skuldar samkvæmt reikningi vegna vinnu við grunn og uppslátt á lóð í eigu stefndu að Örvasölum 14, Kópavogi. Stefnandi kveður stefndu ásamt manni sínum Halldóri Jenssyni hafa leitað til stefnanda haustið 2007 um að taka að sér að byggja hús fyrir þau. Stefnandi hafi unnið kostnaðaráætlun um uppsteypu á húsinu og hafi áætlaður kostnaður verið um 10.000.000 krónur. Endanlegar teikningar af húsinu hafi þá ekki legið fyrir. Gert hafi verið ráð fyrir því að stefnda skyldi sjálf útvega allt efni og greiða fyrir það. Samningar um vinnu stefnanda við byggingu hússins hafi tekist með aðilum í samræmi við kostnaðaráætlunina og að Andrés Gíslason húsasmíðameistari og varamaður í stjórn stefnanda tæki að sér byggingarstjórn verksins.
Hafist var handa við bygginguna í apríl 2008. Þá voru steyptir sökklar og í framhaldinu grunnplata. Þann 5. júní 2008 var gerð ný verðáætlun og í júlí var leigður krani og mót til verksins. Byrjað var að reisa einfalt byrði á kjallara og járnabinda í hann eftir leiðbeiningum verkfræðings. Framganga verksins stöðvaðist í desember 2008. Stefnandi kveðst þá aðeins hafa fengið afhentar teikningar fyrir sökklum, en verkfræðingur hafi synjað um afhendingu teikninga og arkitekt um uppáskrift á teikningar þar sem þeir hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu sína. Þurfti stefnandi sjálfur að greiða leigugjald vegna kranans. Þann 2. desember 2008 gerði stefnandi stefndu reikning fyrir vinnu sína og kostnað og 15. sama mánaðar var stefndu sent innheimtubréf.
Stefnandi segir engar athugasemdir hafa verið gerðar við reikninginn en eiginmaður stefndu hafi ítrekað verið í sambandi við fyrirsvarsmann stefnanda og óskað eftir greiðslufresti. Engar greiðslur hafi þó borist. Hafi krafan því verið ítrekuð með bréfi 28. apríl 2009. Þar sem enn hafi engin viðbrögð verið við því bréfi sé stefnanda nauðsynlegt að leita atbeina dómstóla.
Fyrir dóminum gáfu skýrslur Andrés Freyr Gíslason, fyrirsvarsmaður stefnanda, stefnda og eiginmaður hennar Halldór Jensson. Verður framburður þeirra rakinn eftir því sem ástæða þykir til.
II
Stefnandi byggir á því að með aðilum hafi tekist samningur þess efnis að stefnandi tæki að sér byggingu húss fyrir stefndu og í samræmi við það hafi hann hafist handa við verkið í apríl 2008. Hann hafi unnið við verkið eftir bestu getu þar til í desember 2008 þegar hann hafi látið af vinnu af ástæðum sem varði stefndu, en ekki hafi fengist þær teikningar sem stefnanda hafi verið nauðsynlegar til að vinna verkið. Þá hafi orðið greiðslufall hjá stefndu.
Krafa stefnanda byggi á reikningi sem stefnda hafi ekki hreyft mótmælum við, en hins vegar látið undir höfuð leggjast að greiða. Reikningurinn sé um endurgjald fyrir þegar unna vinnu auk efniskostnaðar. Þá sé og krafist endurgreiðslu á útlögðum kostnaði í þágu stefndu vegna leigugjalds sem stefnandi hafi innt af hendi fyrir leigu á krana og mótum á tímabilinu frá 10. júlí til 30. nóvember 2008. Stefnda hafi greitt stefnanda 386.172 krónur upp í vinnu stefnanda 20. október 2008 og hafi verið tekið mið af þeirri innborgun við útgáfu reikningsins. Með þessari greiðslu hafi stefnda viðurkennt greiðsluskyldu sína í verki.
Þá er byggt á því að reikningurinn sé í senn sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir vinnuframlag stefnanda, sbr. 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og 7. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup.
Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar stefnandi að auki til meginreglna kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Krafa um vexti byggir á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og krafa um málskostnað á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Stefnda kveður sig og eiginmann sinn, Halldór Jensson, hafa keypt lóðina að Örvasölum 14 árið 2006 og hafi þau ætlað að byggja á henni einbýlishús ásamt bílskúr. Þau hafi ákveðið sín á milli að stefnda yrði ein skráð eigandi fasteignarinnar en Halldór yrði einn skráður greiðandi áhvílandi lána og sæi um fjármögnun byggingarframkvæmda. Hann hafi fengið vilyrði um fjármögnun fram að fokheldi frá Frjálsa fjárfestingarbankanum. Hann hafi haft samband við stefnanda og fengið hann til að reisa húsið og skrifað undir verksamning við hann sem verkkaupi.
Haustið 2008 hafi vilyrði Frjálsa fjárfestingarbankans verið dregið til baka. Laun Halldórs hafi nánast hrunið, en hann hafi starfað sem sölustjóri fasteigna og löggiltur leigumiðlari. Hann hafi lent í miklum fjárhagslegum erfiðleikum og ekki getað staðið við upphafleg áform um byggingu hússins. Þar sem fjármögnun framkvæmda hafi verið úr sögunni hafi hann ekki getað staðið við verksamninginn sem hann hafi gert við stefnanda. Rangt sé að reikningi stefnanda hafi ekki verið mótmælt. Halldór Jensson hafi mótmælt fjárhæð hans og því að stefnda væri greiðandi hans við fyrirsvarsmann stefnanda.
Aðalkrafa stefndu um sýknu byggir á því að um sé að ræða aðildarskort í málinu. Kröfu stefnanda sé beint að röngum aðila, en ekkert samningssamband sé á milli stefnanda og stefndu. Eiginmaður stefndu, Halldór Jensson, hafi séð um öll samskipti við stefnanda og komið fram sem eini samningsaðili stefnanda. Hann hafi einnig komið fram út á við gagnvart öðrum aðilum sem að verkinu hafi komið, t.d. verkfræðingnum og Frjálsa fjárfestingarbankanum. Stefnda hafi þar hvergi komið nærri og sé henni því ranglega stefnt í málinu. Hennar eini þáttur sé að vera skráður eigandi fasteignarinnar að Örvasölum 14.
Á upphaflegu ódagsettu tilboði vegna Örvasala 14 komi eingöngu nafn Halldórs fram, en hvergi sé minnst á stefndu. Í undirrituðum verksamningi frá 5. júní 2008 sé það ítrekað að verkkaupi sé eingöngu Halldór. Stefnda sé ekki aðili að verksamningnum og aldrei hafi komið til tals að svo yrði. Halldór hafi verið verkbeiðandi, verkkaupi og komið á allan hátt fram sem eini samningsaðili stefnanda. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við þessa tilhögun og aldrei óskað eftir því að stefnda væri verkkaupi ásamt eiginmanni sínum. Það hafi ekki verið fyrr en við hrun bankanna haustið 2008 þegar fjármögnun verksins hafi verið úr sögunni sem stefnandi virtist krefjast aðildar stefndu í málinu og hafi gert einhliða reikning á hana í byrjun desember 2008.
Eins og fram komi í 67. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 sé meginreglan skipt skuldaábyrgð hjóna. Undantekningar frá þeirri meginreglu séu túlkaðar þröngt samkvæmt almennum lögskýringum. Ákvæði 69. gr. laganna um samninga sem annað hjóna geti gert á ábyrgð hins eigi ekki við í málinu, enda sé þar um að ræða samninga sem taldir séu venjulegir til sameiginlegs heimilishalds. Með því sé átt við kaup á neyslu- og nauðsynjavörum. Í 68. gr. laganna sé sérstaklega tekið fram að annað hjóna geti ekki skuldbundið hitt nema það sé sérstaklega heimilað í lögum eða samningi hjóna. Í greinargerð með frumvarpi til hjúskaparlaga sé ítrekað að maki beri ekki ábyrgð á skuldbindingum hins makans nema sérstök lagaheimild standi til. Engin slík heimild sé til staðar í máli þessu og samningsgerðin í málinu feli í sér að stefnda sé ekki aðili að málinu og beri því að sýkna hana.
Halldór Jensson hafi 20. október 2008 greitt 386.172 krónur inn á skuld sína. Þrátt fyrir það hafi stefnandi gefið út reikning nokkrum vikum síðar á nafn stefndu og fjárhæðin sögð innborgun stefndu á reikninginn. Sé því harðlega mótmælt að greiðsla frá Halldóri sé notuð til lækkunar á meintri skuld annars aðila. Í ljósi þessa sé þeirri staðhæfingu í stefnu að stefnda hafi greitt upp í vinnu stefnanda alfarið vísað á bug.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu er þess krafist til vara að krafa stefnanda verði verulega lækkuð. Verði þá að horfa til þess að tiltölulega litlum hluta verksins sé lokið, en heildarverkið hafi átt að kosta 20.000.000 krónur samkvæmt verksamningnum. Hafi verið gert ráð fyrir því að sökklar kostuðu alls 1.050.000 krónur, bæði vinna og efni. Vinna stefnanda að því loknu hafi verið minniháttar. Með reikningunum sé stefnda krafin um tæplega þrefalda þá fjárhæð sem samkvæmt verksamningi hafi átt að duga til að reisa stöplana. Sé ekki hægt að krefja stefndu um hærri fjárhæð en fyrir þá vinnu og kostnað sem stefnandi hafi sannanlega unnið fyrir. Ekkert sé minnst á kranaleigu eða leigu á mótum í umræddum verksamningi. Þrátt fyrir það krefji stefnandi stefndu um 2.686.000 krónur fyrir kranaleigu og mót. Sé því mótmælt að stefnda verði krafin um greiðslu á verklið sem sé ekki í verksamningi. Verði engu að síður talið að stefndu beri að greiða fyrir kranaleigu og leigu á mótum byggi stefnda á því að umræddur reikningur sé allt of hár hvað varði leiguna.
Stefnda vísar einkum til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi aðalkröfu um sýknu. Einnig er vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga og meginreglna verktakaréttar. Þá er vísað til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Þá er um málskostnað vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Deila aðila í málinu snýst um það hvort stefndu beri að greiða reikning útgefinn af stefnanda vegna vinnu við grunn og uppslátt á lóð í eigu stefndu. Stefnda byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti þar sem hún hafi ekki gert neinn samning við stefnanda og beri því enga ábyrgð á kröfunni. Stefnandi kveður hins vegar stefndu hafa leitað til sín ásamt eiginmanni sínum, Halldóri Jenssyni, um að taka að sér vinnu við húsbyggingu fyrir þau. Þá hefur stefnda til vara krafist lækkunar kröfu stefnanda.
Í málinu liggur fyrir skriflegur verksamningur um vinnu stefnanda. Samkvæmt honum er verkkaupi Halldór Jensson og er hann undirritaður af honum. Þá liggur fyrir handskrifað upphaflegt tilboð þar sem nafn Halldórs hefur verið ritað efst. Nafn stefndu kemur hvergi fram í þessum gögnum. Fyrir dómi báru bæði stefnda og eiginmaður hennar að hann hafi séð um öll samskipti við stefnanda. Fyrirsvarsmaður stefnanda, Andrés Freyr Gíslason, bar fyrir dómi að hann hafi talið sig vera að semja við bæði Halldór og stefndu. Hann kvaðst hafa hitt stefndu á byggingarstað og á heimili þeirra, en Halldór hefði einn setið fundi um verkið. Aðspurður um hvers vegna reikningur hefði fyrst verið gefinn út á Halldór en svo á stefndu kvað hann viðskiptabanka sinn hafa bent á að þetta væri ekki traust, heldur væri sterkara að beina kröfum að eiganda lóðarinnar þar sem þau væru hjón.
Óumdeilt er að það var Halldór Jensson sem hafði samband við stefnanda vegna verksins. Þá liggur fyrir að stefnandi gaf út reikning á grundvelli verksamningsins til hans 8. júlí 2008. Var sá reikningur greiddur af reikningi stefndu. Fyrir dómi báru bæði stefnda og eiginmaður hennar að reikningurinn hafi verið greiddur af Halldóri af reikningi stefndu, en hann hafi haft aðgang að reikningnum. Þá er óumdeilt að Halldór Jensson greiddi 386.172 krónur upp í kröfu stefnanda þann 28. október 2008 og hefur þessi greiðsla verið dregin frá skuldinni á umstefndum reikningi.
Telja verður að verksamningurinn og reikningur frá 8. júlí 2008 til Halldórs Jenssonar renni stoðum undir þær fullyrðingar stefndu að Halldór hafi verið viðsemjandi stefnanda en ekki hún. Hver greiðandi reikningsins var getur ekki haft áhrif á það. Ákvörðun stefnanda um að krefja stefndu um greiðslu fyrir verkið á seinni stigum virðist hafa verið tekin í ljósi greiðsluerfiðleika Halldórs. Stefnandi getur ekki ákveðið að krefja annan en viðsemjanda sinn um greiðslu þrátt fyrir erfiða greiðslustöðu hans. Gegn andmælum stefndu þykir ósannað að hún hafi verið viðsemjandi stefnanda. Þá leiða ákvæði hjúskaparlaga um skuldaábyrgð hjóna ekki til þeirrar niðurstöðu að hún geti talist bera ábyrgð á skuldinni. Verður hún því sýknuð af kröfu stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.
Barbara Björnsdóttir settur héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Stefnda, Margrét Ármann, er sýknuð af kröfu stefnanda, þrotabús Ís-Spóns ehf.
Stefnandi greiði stefndu 350.000 krónur í málskostnað.