Hæstiréttur íslands
Mál nr. 324/1999
Lykilorð
- Jarðalög
- Innlausn
- Stjórnsýsla
- Andmælaréttur
- Eignarnámsbætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 30. mars 2000. |
|
Nr. 324/1999. |
Einar Kristmundsson (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn dánarbúi Huldu Bjarnadóttur (Magnús Guðlaugsson hrl.) og gagnsök og íslenska ríkinu til réttargæslu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Jarðalög. Innlausn. Stjórnsýsla. Andmælaréttur. Eignarnámsbætur. Sératkvæði.
Á árinu 1943 keyptu K og P jörðina S í hreppnum T og átti hvor þeirra helming jarðarinnar. Árið 1947 byggði K nýbýlið G á jörðinni, en búskap á S var hætt um svipað leyti. Árið 1973 keypti E hlut föður síns, K, í túni S og 1978 keypti hann jörðina G og hálfa jörðina S af K. Á árinu 1982 lést P, en hann og eiginkona hans H höfðu ekki stundað búskap á sínum hluta jarðarinnar. Á árinu 1985 óskaði E eftir kaupum á hlut H í S, án þess að gera formlegt tilboð. Sama ár leitaði E eftir meðmælum hreppsnefndar T og jarðanefndar sýslunnar til að fá að leysa til sín eignarhlutann á grundvelli 13. og 14. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Hreppsnefndin samþykkti beiðnina, en jarðanefndin hafnaði henni. Í kjölfarið var leitað sátta með aðilunum en engin formleg sáttatillaga lögð fram. Á árinu 1988 beindi E sams konar erindum til hreppsnefndar og jarðanefndar auk kröfu um innlausn til landbúnaðarráðuneytisins (L). Hreppsnefnd samþykkti beiðnina en jarðanefndin hafnaði henni á ný. Eftir ósk L fjallaði jarðanefnd að nýju um innlausnarbeiðni E á árinu 1990 og mælti meirihluti nefndarinnar þá með innlausnarbeiðninni. Í febrúar 1991 heimilaði L E að leysa til sín hlut H í S. Ekki náðist samkomulag um verð jarðarinnar og óskaði E eftir mati á jörðinni við matsnefnd eignarnámsbóta. Var matsbeiðninni vísað frá nefndinni þar sem undirbúningi að ákvörðun um innlausn hefði verið áfátt. Í desember 1994 óskaði E að nýju eftir heimild L til innlausnar á eignarhluta H í S. H mótmælti beiðninni, en hreppsnefnd, jarðanefnd og Bændasamtök Íslands mæltu með innlausninni. Kærði H samþykkt hreppsnefndar til félagsmálaráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis, en kærunum var vísað frá. Í kjölfarið reyndi L að ná sáttum með aðilum en án árangurs. Í febrúar 1997 heimilaði L E að leysa til sín eignarhluta H í S. Leitaði E til matsnefndar eignarnámsbóta sem ákvað H bætur fyrir hinn innleysta jarðarhluta. Greiddi E fjárhæðina inn á bankareikning H, sem færði hana á annan reikning sem hún lét í vörslur þriðja aðila og hefur fjárhæðin ekki verið snert síðan. Höfðaði H síðan mál gegn E og L til réttargæslu þar sem aðallega var krafist ógildingar á innlausninni, en til vara hækkunar matsverðs jarðarinnar. Ekki var talið að unnt væri að ógilda stjórnvaldsákvörðun með dómi, nema því stjórnvaldi, sem ákvörðunina tók væri stefnt til varna í málinu. Með hliðsjón af því að E gerði ekki athugasemdir við framsetningu kröfugerðarinnar var talið að H krefðist ógildingar á innlausn E á jarðarhlutanum, sem hann nýtti sér að fenginni heimild L og krafan því talin dómtæk. Talið var að umsagnir hreppsnefndar, jarðanefndar og Bændasamtaka Íslands teldust ekki stjórnvaldsákvarðanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga og að þessum aðilum hefði ekki verið skylt að leita eftir sjónarmiðum aðila, áður en umsögn var látin í té, þó að slíkt væru tvímælalaust vandaðri stjórnsýsluhættir. Þá var ekki talið að L hefði brotið gegn andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ráðuneytinu hafi verið fullkunnugt um sjónarmið H, þegar það heimilaði innlausn. Var því ekki talið að ákvörðun L væri áfátt að lögum. Þá var ekki talið að fram hefðu komið gögn sem hnekktu niðurstöðu matsnefndar eignarnámsbóta um matsverð jarðarinnar. Var E sýknaður af öllum kröfum dánarbús H, sem tók við aðild málsins undir rekstri þess fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 1999. Krefst hann aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda en til vara sýknu af aðalkröfu og lækkunar á varakröfu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál hér fyrir dómi.
Málinu var gagnáfrýjað 19. október 1999. Gagnáfrýjandi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða 35.712.210 krónur og 186.750 krónur í málskostnað fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, hvorttveggja með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. júlí 1997 til greiðsludags, allt að frádregnum 2.936.750 krónum, sem greiddar voru 7. ágúst 1997. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Hulda Bjarnadóttir lést 8. febrúar sl. og hefur dánarbú hennar tekið við aðild málsins.
I.
Mál þetta var höfðað á hendur aðaláfrýjanda „til ógildingar á innlausn, en til vara til hækkunar matsverðs Smyrlabergs, Torfalækjarhreppi ...“ og var landbúnaðarráðherra stefnt til réttargæslu. Gagnáfrýjandi gerir aðallega þá kröfu á hendur aðaláfrýjanda, að ógilt verði ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins 25. febrúar 1997 um að heimila honum að leysa til sín eignarhluta gagnáfrýjanda í jörðinni.
Ekki verður talið, að unnt sé með dómi að ógilda stjórnvaldsákvörðun nema því stjórnvaldi, sem ákvörðun tók, sé stefnt til varna í málinu. Hins er þó að gæta, að aðaláfrýjandi gerir ekki athugasemdir við þessa framsetningu kröfugerðar gagnáfrýjanda. Með hliðsjón af því og málflutningi aðila fyrir Hæstarétti þykir mega skilja málatilbúnað gagnáfrýjanda svo, að krafist sé ógildingar á þeirri innlausn aðaláfrýjanda á jarðarhlutanum, sem hann nýtti sér að fenginni heimild landbúnaðarráðuneytisins. Verður það þá ekki látið varða réttarspjöllum í málinu, að landbúnaðarráðherra var einungis stefnt til réttargæslu, en það hefði þó verið réttara að stefna honum við hlið aðaláfrýjanda. Varakröfu gagnáfrýjanda er réttilega beint að aðaláfrýjanda, eins og hún er gerð.
II.
Á árinu 1943 keyptu bræðurnir Kristmundur Stefánsson, faðir aðaláfrýjanda, og Páll Stefánsson, síðar eiginmaður Huldu Bjarnadóttur, jörðina Smyrlaberg í Torfalækjarhreppi, Austur-Húnavatnssýslu, af móður sinni. Samkvæmt yfirlýsingu bræðranna frá árinu 1948 skyldi hvor þeirra eiga helming jarðarinnar. Þá skyldi hvor um sig eiga það, sem hann ræktaði, en túnið og óræktað land skyldu vera sameign þeirra. Árið 1947 byggði Kristmundur nýbýlið Grænuhlíð á jörðinni, en um svipað leyti var búskap hætt á Smyrlabergi. Árið 1973 keypti aðaláfrýjandi hluta föður síns í túni Smyrlabergs og byggði þar fjárhús og hlöðu. Á árinu 1978 keypti aðaláfrýjandi síðan Grænuhlíð og hálfa jörðina Smyrlaberg af föður sínum og hefur hann verið með búskap þar síðan. Hulda Bjarnadóttir og eiginmaður hennar, sem lést árið 1982, stunduðu ekki búskap á sínum hluta jarðarinnar, en hin síðari ár að minnsta kosti voru þar á vegum hennar um 10 til 15 hross í hagagöngu.
Árið 1985 óskaði aðaláfrýjandi eftir því með bréfi til Bjarna Pálssonar, sonar Huldu Bjarnadóttur, að fá að kaupa hluta hennar í jörðinni Smyrlabergi. Hann mun þó ekki hafa gert formlegt tilboð í jörðina en leitaði sama ár eftir meðmælum hreppsnefndar Torfalækjarhrepps og jarðanefndar Austur-Húnavatnssýslu til að fá að leysa til sín eignarhlutann á grundvelli 13. gr. og 14. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Hreppsnefndin samþykkti beiðnina 21. desember 1985, en jarðanefnd hafnaði henni 18. mars 1986. Í framhaldi þessa voru nokkrar sáttaumleitanir með aðilum og var á fundi á Blönduósi 4. september 1987, sem fulltrúar hreppsnefndar, landbúnaðar-ráðuneytisins og málsaðila sátu, ákveðið að fá jarðanefnd og hreppsnefnd til að leggja fram sáttatillögu í sameiningu. Slík tillaga kom þó aldrei fram.
Í málinu liggur fyrir bréf frá sýslumanninum í Húnavatnssýslu 23. desember 1987 til Rafns Sigurbjörnssonar hreppstjóra, þar sem sá síðarnefndi er skipaður oddamaður við skiptagerð vegna kröfu eiganda Smyrlabergs um skiptingu jarðarinnar á grundvelli landskiptalaga nr. 46/1941. Aðaláfrýjandi heldur því fram, að krafan hafi verið sett fram af hálfu meðeiganda hans, en við flutning málsins fyrir Hæstarétti vísaði lögmaður gagnáfrýjanda því á bug. Engra frekari gagna nýtur um tildrög þessarar kröfu, sem virðist hafa dagað uppi.
Á árinu 1988 beindi aðaláfrýjandi að nýju sams konar erindum og fyrr til hreppsnefndar og jarðanefndar auk kröfu um innlausn til landbúnaðarráðuneytisins. Samþykkti hreppsnefndin beiðnina 15. júlí 1988, en 10. desember sama ár hafnaði jarðanefnd því enn að mæla með innlausn og ítrekaði þá afstöðu 13. febrúar 1989. Landbúnaðarráðuneytið ritaði jarðanefndinni bréf 15. maí 1990 og fór þess á leit, að nefndin tæki málið ”til ítarlegrar umfjöllunar á ný og sendi ráðuneytinu umsögn sína sem allra fyrst.” Hinn 9. ágúst sama ár komst meirihluti jarðanefndar að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að mæla með innlausnarbeiðni aðaláfrýjanda, en jafnframt væri rétt að heimila Huldu Bjarnadóttur og fjölskyldu hennar að halda um 2 ha lands meðfram Laxárvatni og nýta áfram landspildu fyrir hross sín í tvö ár án endurgjalds. Með bréfi 6. febrúar 1991 heimilaði landbúnaðarráðuneytið aðaláfrýjanda að leysa til sín eignarhluta Huldu Bjarnadóttur í jörðinni Smyrlabergi. Ekki náðist samkomulag milli aðila um verð jarðarinnar og 17. maí 1991 sendi aðaláfrýjandi matsnefnd eignarnámsbóta beiðni um mat á jörðinni. Með úrskurði matsnefndarinnar 23. janúar 1992 var matsbeiðni aðaláfrýjanda vísað frá nefndinni, þar sem undirbúningi ákvörðunar um innlausn hefði verið áfátt.
III.
Aðaláfrýjandi óskaði að nýju eftir heimild landbúnaðarráðuneytisins til innlausnar á eignarhluta Huldu Bjarnadóttur í jörðinni Smyrlabergi 1. desember 1994 og var vísað til 13. gr. jarðalaga, sbr. lög nr. 90/1984. Ráðuneytið kallaði eftir frekari gögnum frá aðaláfrýjanda 10. janúar 1995 og að þeim fengnum var Huldu sent bréf 20. febrúar sama ár og gefinn kostur á að tjá sig um innlausnarbeiðnina og tilheyrandi gögn. Með bréfi 19. mars 1995 mótmælti lögmaður hennar beiðninni og krafðist þess, að ráðuneytið hafnaði henni. Helstu rök lögmannsins voru þau, að Páll heitinn Stefánsson og erfingjar hans hefðu „ætíð nytjað jörðina fyrir hross og fleira“ en það hefði „aldrei frá 1948 skert búskaparmöguleika í Grænuhlíð, fyrr en Einar Kristmundsson hafði tekið þar við búi og hóf að fjandskapast út í þau og ímynda sér að afnot þeirra af Smyrlabergi gerðu honum ómögulegt að stunda búskap í Grænuhlíð.“ Innlausnarbeiðnin væri því alls ekki byggð á lögmætum sjónarmiðum.
Hinn 29. mars 1995 óskaði landbúnaðarráðuneytið eftir því, að hreppsnefnd Torfalækjarhrepps sendi ráðuneytinu ítarlega greinargerð og upplýsingar um, hvort og þá hvaða hagsmunir hreppsins krefðust umræddrar innlausnar. Hreppsnefndin mælti með innlausn og var umsögn hennar samþykkt einum rómi á fundi 6. apríl 1995. Í greinargerð hreppsnefndar kom fram það álit, að yrði jörðinni skipt og hún girt af til helminga yrði á hvorugum jarðarhelmingnum unnt að reka búskap til þess að framfleyta fjölskyldu. Hreppsnefndin benti á ágreining milli eigenda, sem ekki hefði tekist að jafna. Hefðu aðaláfrýjanda verið meinaðar verulegar framkvæmdir á jörðinni, þar sem hún væri óskipt, og hefði búskaparstaða hans því farið versnandi. Hreppsnefndin teldi það hins vegar mikilvægt fyrir hagsmuni sveitarfélagsins, að búskap yrði haldið áfram í Grænuhlíð. Af fyrirliggjandi gögnum um málsmeðferð hreppsnefndarinnar verður ekki ráðið, að Huldu Bjarnadóttur hafi verið gefinn kostur á að tjá sig, áður en meðmælin voru samþykkt. Landbúnaðarráðuneytið sendi hins vegar lögmanni hennar umsögn hreppsnefndar 27. júní 1995 og kallaði eftir athugasemdum með vísun til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lögmaðurinn svaraði ráðuneytinu 10. júlí sama ár og kvað umsögnina hafa komið umbjóðanda sínum verulega á óvart. Þar sem hreppsnefndin hefði ekki gætt reglna stjórnsýslulaga um jafnræði og andmælarétt myndi ákvörðun hennar verða kærð til félagsmálaráðuneytisins. Sú kæra var send 22. ágúst 1995, en ráðuneytið vísaði henni frá með úrskurði 8. september sama ár þess efnis, að kæruheimild skorti. Þá kærði Hulda Bjarnadóttir samþykkt hreppsnefndarinnar til landbúnaðarráðuneytisins 11. september 1995, en það ráðuneyti vísaði kærunni einnig frá 23. janúar 1996, þar sem kærufrestur samkvæmt 17. gr. jarðalaga væri liðinn.
Landbúnaðarráðuneytið óskaði 25. janúar 1996 eftir afstöðu jarðanefndar Austur-Húnavatnssýslu og Bændasamtaka Íslands til innlausnarbeiðni aðaláfrýjanda. Jarðanefnd tók erindi ráðuneytisins fyrir á fundi 13. febrúar sama ár og komu til hans fulltrúar beggja málsaðila og gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum. Nefndin varð síðan sammála um að mæla með innlausn aðaláfrýjanda á eignarhluta Huldu Bjarnadóttur í jörðinni Smyrlabergi. Rök jarðanefndar voru einkum þau, að samskiptavandi eigenda væri slíkur, að til vandræða væri, og engin von til samninga milli þeirra. Þá hefði aðaláfrýjandi fulla þörf fyrir allt land jarðarinnar til að reka þar búskap. Með bréfi 12. mars 1996 mæltu Bændasamtök Íslands einnig með innlausninni á þeim forsendum, að fyrir lægju meðmæli hreppsnefndar og jarðanefndar og ljóst virtist af gögnum, að ósamkomulag eigenda væri til vandræða við nýtingu jarðarinnar. Fram kom, að samtökin hefðu gefið báðum aðilum kost á að láta í té skýringar eða athugasemdir, og hefði aðaláfrýjandi sent bréf en ekki Hulda Bjarnadóttir.
Landbúnaðarráðuneytið sendi lögmanni Huldu Bjarnadóttur umsagnir jarðarnefndar og Bændasamtaka Íslands með bréfi 3. apríl 1996. Með vísun til 13. gr. stjórnsýslulaga var lögmanninum gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum umbjóðanda síns um þær og innlausnarbeiðni aðaláfrýjanda. Lögmaðurinn kærði samþykkt jarðanefndar til landbúnaðarráðuneytisins 24. apríl og vísaði til 17. gr. jarðalaga og 26. gr. stjórnsýslulaga. Engin efnisleg sjónarmið um innlausnarbeiðnina komu hins vegar fram í kærubréfi lögmannsins. Ráðuneytið vísaði kærunni frá 14. maí 1996, þar sem umsögn og afgreiðsla jarðanefndar væri ekki kæranleg til ráðuneytisins, hvorki samkvæmt framangreindum ákvæðum né öðrum heimildum.
Í júní 1996 reyndi starfsmaður landbúnaðarráðuneytisins að ná sáttum með aðilum. Setti ráðuneytið fram miðlunartillögu, sem fól það í sér, að aðaláfrýjandi keypti eignarhluta Huldu Bjarnadóttur í Smyrlabergi að undanskilinni afmarkaðri landspildu, sem ráðuneytið segir hafa numið 25-30 ha. Um þessa tillögu mun hafa verið fjallað á fundum í ráðuneytinu og á skrifstofu lögmanns Huldu dagana 12. og 13. nóvember 1996, en aðila greinir nú á um efni hennar. Með símbréfi til lögmannsins 5. desember 1996 kallaði ráðuneytið eftir viðbrögðum við hugmyndum þess fyrir 6. sama mánaðar. Ekki er að sjá, að þessu hafi verið svarað fyrr en með símbréfi lögmannsins til ráðuneytisins 6. febrúar 1997, þar sem óskað var eftir fundi með ráðuneytinu 21. febrúar, er synir Huldu Bjarnadóttur kæmu til Reykjavíkur. Ráðuneytið hafnaði því að fresta málinu lengur en til 11. febrúar. Með bréfi 10. febrúar 1997 afhenti lögmaður Huldu ráðuneytinu sáttatillögur hennar og ítrekaði beiðni um fund 21. febrúar. Í tillögunum kom fram, að hún vildi fá að halda eftir tveimur afmörkuðum hólfum í landi Smyrlabergs til skógræktar og beitar fyrir 15 hross og væri aðaláfrýjanda „heimilt að vera á Smyrlabergi á meðan hann er að koma sér upp aðstöðu annars staðar á jörðinni.“ Sá uppdráttur, sem fylgdi tillögunum, mun vera glataður og hefur ekki verið endurnýjaður. Fyrir Hæstarétti hélt lögmaður gagnáfrýjanda því fram, að hér hefði verið gert ráð fyrir um 50 ha landspildu, en í gögnum málsins kemur fram, að ráðuneytið hafi talið um að ræða afmörkun á um það bil 122 ha lands. Í framhaldi þessa var svo haldinn fundur í landbúnaðarráðuneytinu, þar sem lögmaður Huldu og sonur hennar kynntu tillögurnar, en aðilum ber ekki saman um það, hvort hann var 11. eða 21. febrúar. Í skriflegri aðilaskýrslu aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti segir hann, að starfsmaður ráðuneytisins hafi hringt í sig og kynnt sér þessar tillögur og hafi hann umsvifalaust hafnað þeim, þar sem þær hafi ekki verið krafa um annað en beina skiptingu jarðarinnar og falið í sér, að Hulda fengi besta hluta hennar.
Hinn 25. febrúar 1997 heimilaði landbúnaðarráðherra aðaláfrýjanda að leysa til sín eignarhluta Huldu Bjarnadóttur í jörðinni Smyrlabergi í Torfalækjarhreppi. Með bréfi til matsnefndar eignarnámsbóta 12. mars sama ár óskaði aðaláfrýjandi eftir því, að nefndin mæti umgetinn eignarhluta til verðs. Með úrskurði matsnefndarinnar 31. júlí 1997 var komist að þeirri niðurstöðu, að aðaláfrýjanda bæri að greiða Huldu Bjarnadóttur 2.750.000 krónur í bætur fyrir hinn innleysta jarðarhluta. Aðaláfrýjandi greiddi henni þá fjárhæð auk málskostnaðar fyrir nefndinni 7. ágúst 1997 með því að leggja 2.936.750 krónur inn á bankareikning hennar. Fjárhæðin var hins vegar tekin út af þessum reikningi og lögð inn á bankabók í umsjá Jóns Ísbergs fyrrverandi sýslumanns 15. ágúst 1997. Samkvæmt yfirlýsingu Íslandsbanka 15. apríl 1999 hafði fjárhæðin þá staðið óhreyfð síðan. Engra frekari gagna nýtur í málinu um þennan reikning.
IV.
Aðaláfrýjanda var heimilað að leysa til sín eignarhluta Huldu Bjarnadóttur í jörðinni Smyrlabergi í Torfalækjarhreppi á grundvelli 13. gr. jarðalaga. Meðal skilyrða þess lagaákvæðis eru þau, að skipting jarðar hafi átt sér stað og bú sé ekki rekið á úrskiptum jarðarhluta. Af gögnum málsins er ótvírætt, að skipting Smyrlabergs í skilningi 13. gr. jarðalaga hafði ekki farið fram, þótt bræðurnir Kristmundur og Páll Stefánssynir hafi lýst því yfir á árinu 1948, að hvor þeirra ætti helming jarðarinnar og ekkja Páls og niðjar hans hafi nýtt ákveðinn hluta hennar um árabil. Jörðin var hins vegar í óskiptri sameign og verður að telja, að þá fari um innlausnina eftir 14. gr. jarðalaga. Skilyrði hennar til innlausnar á eignarhluta meðeiganda eru þau, að einn sameigenda reki bú á jörðinni og hafi þar fasta búsetu og fyrir liggi meðmæli jarðanefndar og stjórnar Bændasamtaka Íslands, sbr. lög nr. 90/1984 og nr. 73/1996. Getur ráðherra þá heimilað innlausn, ef hagsmunir sveitarfélags krefjast þess. Skilyrði 14. gr. jarðalaga eru efnislega hin sömu og fram koma í 13. gr. laganna og veldur skírskotun ráðuneytisins til síðarnefndu greinarinnar ekki ógildingu innlausnarleyfisins.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður Hulda Bjarnadóttir ekki talin hafa fyrirgert rétti sínum til að bera lögmæti innlausnarinnar undir dómstóla með því að taka fyrirvaralaust við greiðslu bóta.
Þá verður fallist á það með héraðsdómi, að umsagnir hreppsnefndar, jarðanefndar og stjórnar Bændasamtaka Íslands á grundvelli 13. gr. eða 14. gr. jarðalaga teljist ekki stjórnvaldsákvarðanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Þannig er þessum aðilum ekki skylt að lögum að leita eftir sjónarmiðum aðila, áður en landbúnaðarráðuneytinu er látin í té umsögn, þótt það séu tvímælalaust vandaðri stjórnsýsluhættir og betur til þess fallnir að leggja grunn að mati ráðherra á hagsmunum sveitarfélags af innlausn. Jarðanefnd Austur-Húnavatnssýslu og stjórn Bændasamtaka Íslands, sem eru lögboðnir umsagnaraðilar samkvæmt 14. gr. jarðalaga, leituðu enda eftir viðhorfum málsaðila, áður en þær umsagnir voru látnar í té, sem varða úrlausn þess stjórnsýslumáls, er hófst með innlausnarbeiðni aðaláfrýjanda 1. desember 1994. Eins og málefni sameigenda jarðarinnar Smyrlabergs höfðu legið fyrir landbúnaðarráðuneytinu og staðbundnum stjórnvöldum í Torfalækjarhreppi um árabil kemur ekki að sök, þótt hreppsnefndin hafi ekki gefið aðilum kost á að tjá sig sérstaklega, áður en hún mælti með innlausn 6. apríl 1995 á þeim forsendum, að það væri sveitarfélaginu mikilvægt, að búskapur raskaðist ekki á jörðinni.
Í 13. gr. stjórnsýslulaga segir, að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls, áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Andmælareglunni er þannig ætlað að tryggja, að stjórnvald taki ekki ákvörðun um rétt eða skyldu manna nema það hafi vitneskju um allar þær staðreyndir og sjónarmið, sem málsaðilar kjósa að halda til haga.
Af gögnum þessa máls og forsögu þess verður að telja ljóst, að landbúnaðarráðuneytinu hafi verið fullkunnugt um öll sjónarmið Huldu heitinnar Bjarnadóttur um innlausnarkröfu aðaláfrýjanda, er skipt gátu máli, þegar innlausnin var heimiluð 25. febrúar 1997. Henni höfðu þá gefist mörg tækifæri til að kynna viðhorf sín til efnisþátta málsins, eins og rakið hefur verið, en af hennar hálfu var á stundum látið við það sitja að reyna kæruleiðir. Gagnáfrýjandi hefur ekki við flutning þessa dómsmáls getað bent á nokkur efnisatriði, er ráðuneytinu hafi ekki verið kunnug og hafi hugsanlega getað haft áhrif á ákvörðun þess um innlausnina. Það var því augljóslega óþarft að gefa Huldu Bjarnadóttur kost á því að tjá sig frekar, þegar sýnt þótti, að sáttaumleitanir gætu ekki borið árangur. Þá er jafnframt að því að gæta, að gögn málsins benda ótvírætt til þess, að aðaláfrýjandi hafi þurft á meginhluta jarðarinnar að halda til búskapar síns. Hinni umdeildu ákvörðun ráðuneytisins var því ekki áfátt að lögum.
V.
Varakrafa gagnáfrýjanda lýtur að því, að það endurgjald fyrir hinn innleysta eignarhluta í jörðinni Smyrlabergi, sem matsnefnd eignarnámsbóta ákvað 31. júlí 1997, hafi verið alltof lágt og ekki í nokkru samræmi við raunverulegt verðmæti jarðarinnar. Við úrlausn um þessa kröfu verður að líta til þess, að aðaláfrýjandi hefur einn verið eigandi allra bygginga á jörðinni að undanskildu gömlu fjárhúsi, er eigendur hennar áttu saman.
Í úrskurði matsnefndarinnar kemur fram, að rétt hafi þótt að taka mið af raunhæfu markaðsverði jarðarinnar, sem er um 378 ha að stærð samkvæmt bréfi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins til aðaláfrýjanda 10. febrúar 1987. Matsnefndin bendir á, að jörðin sé í grennd við þéttbýlisstað, Blönduós, og auki það verðmæti hennar. Þá séu kostir til veiða í Laxárvatni og Blöndu til þess fallnir að auka verðmæti jarðarinnar, þótt tekjur af veiði hafi verið óverulegar. Þá segir í úrskurðinum, að verðmæti hlutdeildar matsþola í girðingum sé nokkurt, en verðmæti gamals fjárhúss í eigu aðila sé óverulegt. Hins vegar fellst matsnefndin ekki á, að malarnáma við Blöndu feli í sér nokkur verðmæti, enda liggi ekkert fyrir um eftirspurn eða sölu á efni þaðan og kostnaður við að nálgast efnið sé verulegur. Þá liggi hvorki fyrir, að á jörðinni sé að finna heitt vatn né að eftirspurn sé eftir sumarbústaðalóðum í landi hennar. Loks vísar matsnefndin því á bug, að verðmæti greiðslumarks jarðarinnar geti komið til skoðunar við ákvörðun endurgjaldsins.
Til þess að renna stoðum undir varakröfu sína hefur gagnáfrýjandi meðal annars lagt fram ódagsett yfirmat á arðskrá fyrir Veiðifélag Blöndu og Svartár, sem virðist hafa verið lokið 1987, yfirlitstölur um áætlaðan stofnkostnað girðinga 1996, sem sagðar eru frá Vegagerð ríkisins, og yfirlýsingu Steypustöðvar Blönduóss 14. desember 1997, þar sem lýst er áhuga fyrirtækisins á malartöku í landi Smyrlabergs og látið í ljós það álit, að um mikil verðmæti gæti verið að ræða. Þá er lagt fram bréf Orkustofnunar frá 8. júlí 1997 um hitamælingu í borholu í landi jarðarinnar við Laxárvatn. Þar segir, að hitinn í holunni sé að færast nær jafnvægi, stigullinn sé um 100°C/km, en meðalgildið á þessu svæði utan jarðhitakerfa sé um 70°C/km. Líklega gæti þarna nálægðar við Sauðaness hitann, en „stigullinn hefði þurft að ná 200°C/km til að eiga von um heitt vatn.”
Hvorki þykja þessi gögn né önnur, sem fram hafa verið lögð, til þess fallin að hnekkja niðurstöðu matsnefndar eignarnámsbóta. Þá hefur gagnáfrýjandi ekki fengið dómkvadda matsmenn til þess að meta einstaka þætti í markaðsverði Smyrlabergs. Eru þannig engin efni til þess að verða við varakröfu gagnáfrýjanda að nokkru leyti eða öllu, sbr. 17. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
VI.
Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjandi sýknaður af öllum kröfum gagnáfrýjanda.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Rétt þykir að ákvarða gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti í einu lagi, eins og greinir í dómsorði. Þá verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, en um hann og gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda fyrir réttinum er nánar mælt í dómsorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Einar Kristmundsson, er sýkn af öllum kröfum gagnáfrýjanda, dánarbús Huldu Bjarnadóttur.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Gagnáfrýjandi skal greiða aðaláfrýjanda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti og renna þær í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti, þar með talin þóknun talsmanns hans fyrir réttinum, 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin þóknun talsmanns hans á báðum dómstigum, samtals 900.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Sératkvæði
Hjartar Torfasonar
Í máli þessu ber að hafa í huga, að innlausn jarða eða jarðarhluta á grundvelli 13. gr. og/eða 14. gr. jarðalaga nr. 65/1976 er ráðstöfun til langs tíma, sem ekki verður aftur tekin í þeim skilningi, að aðilar að eigninni, sem innleyst er, eiga að því búnu ekki frekara tilkall að lögum til hagsmuna þar en hver annar borgari í landinu. Sýnt er af gögnum málsins, að sú útlistun á málstað Huldu Bjarnadóttur og fjölskyldu hennar, sem fram hafði farið, áður en innlausn var heimiluð, var að miklu leyti bundin skammtímasjónarmiðum einum og vísan til þeirra nýtingarhátta, sem viðgengist hefðu á jörð hennar og aðaláfrýjanda undanfarin ár. Fram er komið, að hún hafi átt færi á að gera fyllri grein fyrir viðhorfum sínum og hagsmunum, en fyrir liggur einnig, að tímanum til meðferðar málsins var að miklu leyti varið til ítrekaðra og virðingarverðra sáttatilrauna, sem að vísu gátu skýrt málefnið að öðru jöfnu, en ekki komið í stað málflutnings. Virðist það og hafa sannast á lokastigi tilraunanna, þar sem líkur hafa verið að því leiddar, að efni tillagna Huldu á því stigi hafi misskilist.
Á það verður því að fallast með þeim rökum, sem lýst er af hálfu dómenda í héraði, að landbúnaðarráðuneytinu hafi borið að tilkynna Huldu og lögmanni hennar með formlegum hætti, að sáttaumleitan væri lokið, og veita þeim hæfilegan frest til að draga saman viðhorf hennar og koma að efnislegum mótmælum við kröfu aðaláfrýjanda um innlausn. Ber að staðfesta niðurstöðu dómendanna með þeim hætti, að viðurkennt verði, að innlausn aðaláfrýjanda á eignarhluta gagnáfrýjanda í jörðinni Smyrlabergi hafi verið reist á ógildri heimild, þar sem var ákvörðun landbúnaðarráðuneytis frá 25. febrúar 1997. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti á að falla niður, en gjafsóknarkostnaður að ákvarðast eins og um er mælt í atkvæði annarra dómenda.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 28. mái 1999.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutning 16. apríl sl., er höfðað af Huldu Bjarnadóttur, kt. 141121-2439, Aðalgötu 10, Blönduósi með stefnu birtri 18. mars 1998 á hendur Einari Kristmundssyni, kt. 280847-4539, Grænuhlíð, Torfalækjarhreppi, Austur- Húnavatnssýslu. Landbúnaðarráðuneytinu, kt. 710169-0559, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík er stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur stefnanda.
Stefnandi krefst þess aðallega, að ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins frá 25. febrúar 1997 þess efnis að stefnda, Einari Kristmundssyni, sé heimilt að leysa til sín eignarhluta stefnanda í jörðinni Smyrlabergi, Torfalækjarhreppi, verði ógilt.
Til vara krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 35.712.210 krónur og 186.750 krónur í málskostnað fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta, hvort tveggja með dráttarvöxtum skv. 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. júlí 1997 til greiðsludags, allt að frádregnum 2.936.750 krónum er greiddar voru 7. ágúst 1997.
Í báðum tilvikum krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og réttargæslustefndi gerir engar kröfur í máli þessu.
Dómkröfur stefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af aðalkröfu stefnanda og varakrafa stefnanda verði lækkuð stórlega. Í báðum tilfellum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins og að virðisaukaskattur verði lagður á málflutningsþóknun.
II.
Málavextir.
Á árinu 1943 kaupa bræðurnir Kristmundur og Páll Stefánssynir jörðina Smyrlaberg í Torfalækjarhreppi, Austur Húnavatnssýslu. Faðir stefnda byggir nýbýlið Grænuhlíð árið 1947 en um svipað leyti er búskap hætt á Smyrlabergi. Samkvæmt yfirlýsingu þeirra bræðra áttu þeir sinn hvorn helminginn af Smyrlabergi og áttu þeir að halda því sem þeir ræktuðu en túnið á Smyrlabergi átti að vera í sameign svo og óræktað land. Á árinu 1973 keypti stefndi hluta föður síns í Smyrlabergstúninu og byggði þar fjárhús og hlöðu. Á árinu 1978 keypti hann síðan, af föður sínum, Grænuhlíð og hálfa jörðina Smyrlaberg og hefur verið með búskap þar síðan.
Að sögn stefnanda hefur hann, undanfarin ár, verið með um 10 hross á Smyrlabergi fjærst Grænuhlíð í tveimur hólfum sem eru 40 til 50 hektarar að stærð. Stefnandi kveðst einnig hafa nýtt sinn hluta jarðarinnar til skógræktar og útivistar. Aðra hluta jarðarinnar hafi stefndi nýtt án endurgjalds.
Að sögn stefnda var það á árinu 1985 sem hann fór að vinna í að fá leyfi til að leysa til sín hlut stefnanda í Smyrlabergi en á þeim tíma vofði yfir að stefnandi myndi óska eftir skiptum á jörðinni samkvæmt ákvæðum jarðalaga. Ef til skiptingar kæmi yrði ekki unnt að stunda búskap í Grænuhlíð áfram en á þessum tíma hafi verið kominn upp ágreiningur milli aðila um nýtingu jarðarinnar sem hamlaði eðlilegri uppbyggingu.
Stefnandi kveður hins vegar stefnda hafa óskað eftir að kaupa hluta sinn í jörðinni en hótað ,,að fara lagaleguleiðina til að ná ykkar parti af jörðinni“ ef hann fengi hana ekki keypta með góðu. Stefndi hafi hins vegar ekki gert kauptilboð í jörðina heldur hafi hann lagt fram innlausnarbeiðni. Hreppsnefnd Torfalækjarhrepps hafi samþykkt beiðnina en jarðanefnd Austur Húnavatnssýslu hafi hins vegar hafnað beiðninni. Til lausnar á málini hafi hreppsnefnd Torfalækjarhrepps leitað til landbúnaðarráðuneytisins og Jón Höskuldsson fulltrúi þess hafi komið á fund í september 1987. Á þeim fundi hafi verið fjallað um tillögu að sátt er stefnandi lagði fram. Niðurstaða fundarins varð sú að hreppsnefnd og jarðanefnd legðu í smeiningu fram sáttartillögu. Sú tillaga hafi þó aldrei komið fram vegna algerrar synjunar stenfd á sáttum.
Á árinu 1988 leitaði stefndi aftur til hreppsnefndar Torfalækjarhrepps með innlausnarbeiðni og samþykkti nefndin beiðnina. Jarðanefnd Austur-Húnavatnssýslu hafnaði beiðninni aftur á móti. Á sama ári snéri stefndi sér til landbúnaðarráðuneytisins vegna málsins og ítrekaði kröfu sína um innlausn. Í maí 1990 ritaði landbúnaðarráðuneytið bréf til jarðanefndar. Að mati stefnanda felur þetta bréf í sér að ráðuneytið leggi fyrir nefndina að skipta um skoðun. Þann 11. ágúst 1990 hafi nefndin síðan látið undan þrýstingi ráðuneytisins og mælt með innlausn.
Stefnandi heldur því fram að honum hafi fyrst með bréfi landbúnaðar-ráðuneytisins, dags. 21. september 1991, verði gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum varðandi innlausnarbeiðnina á framfæri. Ráðuneytið hafi ekki tekið tillit til sjónarmiða eða sáttartillagna hans og heimilað innlausn með bréfi 6. febrúar 1991. Ekki náðist samkomulag um verð og vísaði stefndi málinu til Matsnefndar eignarnámsbóta. Matsnefndin vísaði málinu frá sér vegna galla á meðferð málsins hjá landbúnaðarráðuneytinu og umsagnaraðilum.
Í desember 1994 óskar stefndi enn eftir heimild til innlausnar hjá landbúnaðarráðuneytinu. Ráðuneytið tilkynnir stefnanda um beiðnina með bréfi dags. 20. febrúar 1995 og veitti honum frest til 13. mars sama ár til að koma fram með sjónarmið sín. Lögmaður stefnanda óskaði eftir frekari fresti og aðgangi að ákveðnum gögnum. Ráðuneytið lengdi frestinn um eina viku en hafnaði aðgangi að gögnunum. Þann 19. mars mótmælti lögmaður stefnanda innlausnarkröfunni og áskildi stefnanda rétt til að skila greinargerð í málinu að lokinni umfjöllun lögbundinna aðila.
Þann 29. mars 1995 óskaði landbúnaðarráðuneytið ítarlegrar greinargerðar frá hreppsnefnd Torfalækjarhrepps um innlausnarkröfuna. Sú umsögn lá fyrir í bréfi dags 7. apríl 1995 en er að mati stefnanda hvorki ítarleg né málefnaleg. Af gögnum þeim sem liggja fyrir í málinu verður ekki séð að hreppsnefndin hafi gefið stefnanda kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina en hann kveðst sjálfur ekki hafa vitað af umsögn nefndarinnar fyrr en tveimur og hálfum mánuði eftir að hún lá fyrir. Stefnandi kærði málsmeðferð hreppsnefndar á málinu til félagsmála- og landbúnaðarráðuneyta en þau vísuðu bæði kærunni frá.
Þann 14. febrúar 1996 lá umsögn jarðanefndar fyrir og sendi landbúnaðarráðuneytið stefnanda hana 3. apríl það ár. Í þessu bréfi óskaði ráðuneytið eftir andmælum stefnanda varðandi umsögn nefndarinnar og einnig varðandi umsögn Bændasamtaka Íslands sem einnig lá fyrir á þessum tíma. Stefnanda þótti rökstuðningur jarðanefndarinnar fráleitur og kærði málsmeðferðina til landbúnaðarráðuneytisins sem vísaði kærunni frá.
Í júnímánuði 1996 reyndi landbúnaðarráðuneytið að leita sátta í málinu. Jón Höskuldsson, skrifstofustjóri fór norður í Torfalækjarhrepp til að skoða aðstæður en sáttatillaga virðist ekki hafa komist til vitundar stefnanda. Hins vegar kemur fram í bréfi Jóns til ríkislögmanns dags. 5. maí 1998 að stefndi hafi samþykkt tillögu hans um að stefnandi héldi eftir 25-30 hektara spildu af landinu. Þann 6. febrúar 1997 sendi lögmaður stefnanda ráðuneytinu bréf og óskaði eftir fundi með Jóni Höskuldssyni til að kynna sáttahugmyndir stefnanda. Sáttatillögur stefnanda voru, að hans sögn, afhentar í ráðuneytinu 10. febrúar 1997, með áskilnaði um að fá að skila efnislegri greinargerð í málinu ef ekki næðust sættir. Á fundi í ráðuneytinu þann 21. febrúar kynnti sonur stefnanda hugmyndirnar og tók ráðuneytið við þeim til athugunar og kynningar. Ekkert mun þó hafa orðið af kynningu því þann 25. febrúar 1997 heimilaði ráðuneytið innlausn stefnda án þess að gefa stefnanda kost á að skila greinargerð eða athugasemdum með sínum sjónarmiðum í málinu og upplýsingum um afnot hennar af jörðinni.
Að sögn stefnanda gerði stefndi ekki tilraun til að ná samkomulagi um verð heldur vísaði hann málinu til Matsnefndar eignarnámsbóta. Fyrir nefndinni krafðist stefnandi þess aðallega, að málinu yrði vísað frá vegna galla á málsmeðferð en til vara, að stefnda yrði gert að greiða fullar bætur. Stefnandi taldi að einum nefndarmanna bæri að víkja úr nefndinni vegna tengsla við Jón Höskuldsson en á það var ekki fallist. Nefndin hafnaði því jafnframt að krafa um frávísun vegna galla á málsmeðferð ætti undir hana. Stefnandi kærði úrskurð nefndarinnar til dómsmálaráðuneytisins, sem sama dag hafnaði kröfum stefnanda með úrskurði.
Af hálfu stefnda er því hafnað að ekki hafi verið reynt til þrautar að ná sáttum í málinu með því að stefnanda yrði skipt út ákveðnum parti jarðarinnar en stefndi keypti afganginn. Þannig hafi landbúnaðarráðuneytið lagt til að stefnandi fengi í sinn hlut 25-30 hektara lands en hann hafi farið fram á u.þ.b. 70. Eftir tillögu ráðuneytisins hafi stefnandi hins vegar krafist þess að hans hlutur yrði 122 hektarar.
Þann 7. ágúst 1997 greiddi stefndi síðan stefnanda þá fjárhæð sem honum bar samkvæmt úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta með því að leggja fjárhæðina inn á reikning stefnanda í banka. Stefnandi tók þessa upphæð hins vegar út af reikningi sínum og lagði inn á bankabók sem er í umsjá Jóns Ísberg fyrrverandi sýslumanns og þar hefur fjárhæðin staðið óhreyfð síðan.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því, að ekki hafi verið staðið réttilega að úrskurði þeim sem landbúnaðarráðuneytið kvað upp þann 25. febrúar 1997. Telur stefnandi að við málsmeðferð umsagnaraðila, undirbúning og uppkvaðningu úrskurðar um innlausn hafi í veigamiklum atriðum verið brotið gegn ófrávíkjanlegum ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum grunnreglu 4. tl. og 6. tl. 3. gr., 10. gr., 11., gr. og 12. gr., IV. kafla og V. kafla 21. og 22. gr. Með málsmeðferð sinni hafi landbúnaðarráðuneytið og umsagnaraðilar í veigamiklum atriðum ekki gætt réttra stjórnsýsluaðferða.
Hreppsnefnd Torfalækjarhrepps hafi gefið umsögn án þess að veita stefnanda tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og raunar án þess að láta hann vita að málið væri til meðferðar hjá hreppsnefnd. Þar með hafi rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga verið brotin svo og jafnræðisreglan í 12. gr. Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga hafi stefnandi átt rétt á að tjá sig um efni málsins hjá hreppsnefnd áður en hún tók ákvörðun sýna. Að mati stefnanda er rökstuðningur hreppsnefndar fyrir ákvörðuninni fráleitur og ekki í samræmi við kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga. Stefnandi segist aldrei hafa krafist skiptingar á jörðinni heldur hafi hann þvert á móti tekið fram að stefnda yrðu heimil sömu not og hann hafi haft frá árinu 1948. Stefnandi hafi einungis krafist þess að fá að hafa áfram þann litla hluta sem hann hefur nytjað. Þar með sé ljóst að rökstuðningur hreppsnefndar sé tilbúningur og lögleysa.
Stefnandi heldur því einnig fram, að afgreiðsla jarðanefndar Austur Húnavatnssýslu á málinu sé andstæð stjórnsýslulögum. Í fyrsta lagi séu nefndarmenn vanhæfir sbr. grunnreglu 3. gr. stjórnsýslulaga en sömu menn hafi fjallað um fyrri innlausnarbeiðni stefnda. Þetta séu sömu menn og áður höfðu í tvígang mælt gegn innlausn en landbúnaðarráðuneytið knúði þá, sem æðra stjórnvald, til að skipta um skoðun með bréfi sínu frá 15. maí 1990. Af þessu megi ráða að þessir nefndarmenn gátu ekki fjallað hlutlaust um innlausnarbeiðni stefnda og þar með hafi þeir verið vanhæfir til meðferðar málsins. Í öðru lagi telur stefnandi að, samþykkt nefndarinnar hafi byggst á ómálefnalegum grunni og þannig brjóti hún gegn 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Stefnandi telur að af orðalagi samþykktar jarðanefndar verði ekki annað ráðið en að hún telji stefnda hafna alfarið öllu samkomulagi í deilunni og að samskiptavandi aðila sé svo mikill að til vandræða horfi. Þá telji nefndin að stefndi þurfi á öllu landi jarðarinnar að halda en fyrir liggi að landbúnaður hefur verið stundaður í Grænuhlíð allt frá árinu 1948 án þess að til innlausnar hafi þurft að koma. Þá telur stefnandi að vegna niðurskurðar í landbúnaði á síðustu árum sé landþörf stefnda minni ef eitthvað er. Með vísan til þessa sé ljóst að niðurstaða nefndarinnar byggist ekki á neinum vitrænum stjórnsýslureglum. Niðurstaðan virðist byggja á því að samskiptaörðuleikar séu á milli eigenda jarðarinnar og að stefndi eigi sök á þeim. Niðurstaða nefndarinnar verðlauni stefnda hins vegar fyrir samskiptaörðuleikana með því að heimila honum innlausn.
Stefnandi byggir einnig á því, að meðferð landbúnaðarráðuneytisins á málinu sé einnig verulega andstæð stjórnsýslulögum. Landbúnaðarráðuneytið vísi frá tveimur kærum stefnanda á málsmeðferð hreppnefndar Torfalækjarhrepps og jarðanefndar Austur Húnavatnssýslu. Rök ráðuneytisins fyrir niðurstöðum sínum í þessum málum séu ekki í samræmi innbyrðis og málsmeðferðin ekki í samræmi við VII. kafla stjórnsýslulaga og 17. gr. jarðalaga.
Með bréfi sínu frá 15. maí 1990 sýni ráðuneytið af sér valdníðslu en með því knýi það óæðra stjórnvald til að afrgeiða málið eins og ráðuneytinu hugnist. Þessi valdníðsla eigi sér einnig stað í síðara innlausnarmálinu en í því máli séu samskiptin milli sömu stjórnvalda skipuðum sömu mönnum.
Stefnandi byggir einnig á því, að landbúnaðarráðuneytið hafi kveðið upp úrskurð sinn 25. febrúar 1997 án þess að honum gæfist kostur á að koma sjónarmiðum sínum að varðandi innlausnarkröfuna svo sem þó var áskilið í bréfum hans 19. mars 1995 og 10. febrúar 1997. Með þessu hafi ráðuneytið brotið gegn rannsóknarreglunni í 10. gr. stjórnsýslulaga. jafnræðisreglunni í 11. gr. laganna og IV: kafla í heild sinni. Landbúnaðarráðuneytið reyni að leyna mistökum sínum með því að segja í úrskurði sínum að stefnandi hafi komið sjónarmiðum sínum á framæri með bréfum dagsettum 19. mars, 10. júlí, 11. september 1995 og 24. apríl 1996. Hins vegar megi hverjum manni vera ljóst að tilgreind bréf eru ekki efnisleg sjónarmið stefnanda um innlausnarkröfuna sem slíka heldur almenn mótmæli og kærur vegna lögleysu sem umsagnaraðilar beittu stefnanda við meðferð málsins.
Einnig byggir stefnandi á því að ráðuneytið hafi ekki komið sáttahugmyndum stefnanda á framfæri við stefnda og þannig brotið gróflega gegn þeirri skyldu sinni að reyna til þrautar að ná samkomulagi áður en innlausn var heimiluð.
Stefnandi heldur því og fram að innlausnarleyfið sé byggt á þeirri forsendu að landþrengsli séu í Grænuhlíð og þar sé ekki unnt að stunda búskap nema til innlausnar komi. Þetta sé ekki rétt enda sé öll jörðin 400 hektarar. Þessi jörð sé u.þ.b. helmingi stærri en t.d. jarðirnar Röðull og Sauðanes sem séu í fullri byggð og í sömu sveit. Þannig séu allar fullyrðingar stefnda um landþrengsli rangar og auk þess hafi stefndi haft nánast alla jörðina fyrir búskap sinn.
Loks byggir stefnandi á því, að Matsnefnd eignarnámsbóta hafi ekki átt að taka efnislega afstöðu til málsins heldur vísa því frá vegna þess að innlausnarleyfið hafi ekki verið löglegur grundvöllur fyrir málinu. Auk þess hafi einn nefndarmanna verið vanhæfur vegna tengsla hans við landbúnaðarráðuneytið. Loks hafi Matsnefnd eignarnámsbóta brotið almennar reglur um málsmeðferð með því að úrskurða efnislega um aðalkröfu stefnda áður en munnlegur málflutningur fór fram.
Varakrafa stefnanda.
Stefnandi byggir varakröfu sína á því, að endurgjaldið sem Matsnefnd eignarnámsbóta úrskurðaði sé alltof lágt og ekki í samræmi við raunverulegt verðmæti jarðarinnar. Meta beri jörðina að teknu tilliti til allra hlunninda og notkunarmöguleika. Auk þess hafi nefndin minnkað tún í eigu stefnanda um helming.
Stefnandi telur að nefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn án þess að vita nákvæmlega um stærð jarðarinnar og jafnframt hafi hún metið flest verðlaust sem stefnanda tilheyrir þar. Þannig sé jarðhiti, malarnám við Blöndu, vegir, ræsi, malarplan, hrossarétt og skurðgröftur einskis metið. Þá verðleggi nefndin girðingar stefnanda allt of lágt. Í úrskurði nefndarinnar sé ekki að finna neinn rökstuðning fyrir því verði sem hún ákveður en að mati stefnanda var fjarri lagi að hann fengi fullt verði fyrir eign sína í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.
Stefnandi vísar til þess að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu í dómi sínum, H. 1997, 52 vegna eignarnáms Landsvirkjunar, að verðmæti hvers hektara beitarlands á Ytri Löngumýri í Blöndudal væri 188.953 krónur. Stefnandi kveðst miða varakröfu sína við þetta verð og sundurliðast hún þannig: Smyrlaberg er 378 hektarar helmingur þess, í eigu stefnanda, er 189 hektarar og með því að margfalda þá tölu með 188.953 krónum fáist upphæð varakröfunnar 35.712.210 krónur. Fyrir utan þetta megi benda á fjölmörg atriði sem leiða til þess að hver hektari á Smyrlabergi er verðmætari en hektarar á Ytri Löngumýri. Þannig sé jarðhiti á Smyrlabergi, stór hluti jarðarinnar halli mót suðri að Laxárvatni, þar séu miklir möguleikar á að skipuleggja byggð sumarhúsa en á miðju svæðinu sé kaldavatnsuppspretta sem gæti séð slíkri byggð fyrir vatni. Jörðin sé ekki nema 8 km frá Blönduósi og því aðeins rúmlega tveggja tíma akstur frá höfuðborgarsvæðinu og að auki sé stutt til Akureyrar og annarra þéttbýlisstaða. Stefnandi bendir einnig á að á árinu 1990 hafi Torfalækjarhreppur selt einn hektara undir sumarbústað úr landi Reykja. Sá hektari sé skjóllaus og óræktað votlendi við Svínavatn og mun fjær Blönduósi en Smyrlaberg. Þrátt fyrir þetta hafi verð hans verið 370.000 krónur. Af þessu megi ráða hvert verðmæti lands þarna sé undir sumarhús.
Stefnandi byggir og á því, að í landinu sé malarnám sem steypustöðin á Blönduósi hafi sýnt verulegan áhuga. Þá fylgi jörðinni veiðihlunnindi. Öðru megin eigi hún land að Laxárvatni en úr því vatni renni Laxá á Ásum, ein mesta veiðiá landsins. Mikil veiði sé í vatninu en ágreiningur hafi verið um hvort Laxá á Ásum, Laxárvatn og Fremri-Laxá séu eitt fiskhverfi og þar með hvort jörðum við vatnið beri ekki tilkall til arðs af veiði úr Laxá á Ásum. Stefnandi kveður alþekkt að lax úr Laxá á Ásum hrygni í vatninu og að fiskur vaxti þar mjög hratt.
Stefnandi reisir kröfur sínar einnig á því, að hinum megin eigi jörðin land að Blöndu og þar með að Veiðifélagi Svartár og Blöndu. Mikil veiði hafi verið í Blöndu eftir tilkomu Blönduvirkjunar því nú sé áin maðktæk og einnig megi veiða þar á flugu. Eftir tilkomu virkjunarinnar sé áin tær og nú sé veitt fram alla á en það hafi ekki verið gert fyrir virkjun. Því sé ljóst að hlutur jarðarinnar í arði árinnar eigi eftir að aukast frá því sem nú er enda sé síðasta yfirmat frá 1987. Jörðin eigi hlut í þremur veiðihúsum, tveimur við Blöndu og einu við Svartá. Auk þessa sé bæði gæsa og rjúpnaveiði í landi jarðarinnar.
Stefnandi byggir á því, að hann eigi ýmis mannvirki á jörðinni. Merkjagirðing sé alls 3.550 metrar þar af tilheyri jörðinni helmingur eða 1.775 metrar og því honum helmingur af því eða 887 metrar. Auk þess eigi hann girðingar sem eru 2.500 metrar að lengd. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerð ríkisins kosti hver kílómeter af slíkum girðingum 286.376 krónur og því sé verðmæti stefnanda í girðingum 969.956 krónur. Stefnandi metur hrossarétt í sinni eigu á a.m.k. 450.000 krónur auk þess sem hann eigi vegaslóða, fimm ræsi og malarplan á jörðinni.
Loks bendir stefnandi á að jörðinni fylgi greiðslumark, 140 ærgildi í sauðfé og framleiðsluréttur á 33.88 lítrum af mjólk. Greiðslumarkið sé sameign þinglýstra eigenda jarðarinnar og kveður stefnandi helming þess að verðmæti 2.427.880 krónur vera í sinni eigu.
Stefnandi bendir á að Matsnefnd eignarnámsbóta hafi einungis metið stefnanda til eignar helming af ræktuðum túnum á Smyrlabergi en það sé ekki rétt þar sem hann eigi þau tún einn samtals 12,76 hektarar.
Stefnandi gerir kröfu um að tekið verði tillit til þess að látinn eiginmaður hennar hafi kostað allan skurðgröft og framræslu lands, er hann og faðir stefnanda keyptu jörðina í upphafi. Einnig verði tekið tillit til þess að stefndi hirti allar bætur frá Landsvirkjun vegna lagninga byggðarlínu yfir land jarðarinnar á árinu 1977.
Kröfu um málskostnað reisir stefnandi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Á hendur réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína fyrst á þeim grundvelli að stefnandi hafi tekið við greiðslu samkvæmt niðurstöðu Matsnefndar eignarnámsbóta án fyrirvara. Þar með sé niðurstaða nefndarinnar bindandi fyrir hann og heimild til að krefjast ógildingar á innlausnarleyfinu fallin niður vegna tómlætis.
Í annan stað byggir stefndi á því, að málsmeðferð og niðurstaða hjá landbúnaðarráðuneyti og umsagnaraðilum hafi verið eðlileg. Með innlausn sé tryggt að jörðin Smyrlaberg verði nýtt framvegis til landbúnaðar, sbr. 1. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Óbreytt ástand hefði þýtt veruleg vandkvæði við nýtingu jarðarinnar en innlausnin þýði hagkvæmari búskap fyrir stefnda og þar með einnig fyrir sveitarfélagið í heild. Stefndi heldur því fram að án innlausnar séu líkur til þess að búskapur leggist af á jörðinni.
Stefndi kveður stefnanda ekki draga í efa heimild löggjafans til að framselja ráðherra mat á því hvort skilyrði til innlausnar hafi verið fyrir hendi. Hann byggir á því, að formskilyrðum 13. og 14. gr. jarðalaga hafi verið fullnægt, enda hafi meðmæli lögboðinna umsagnaraðila legið fyrir. Þegar þessum formskilyrðum var fullnægt mátti ráðherra heimila innlausn á þeim parti jarðarinnar sem ekki hafði verið nytjaður að neinu marki í áratugi. Stefndi bendir á að með ákvæðum 13. og 14. gr. jarðalaga hafi löggjafinn metið það svo að almannaþörf standi til þess að heimila eignarnám á hlutum bújarða til að ná markmiðum jarðalaga sem lýst er í 1. gr. laganna. Með þeirri grein sé glögglega stefnt að því að tryggja búsetu og eðlilega og hagkvæma nýtingu bújarða í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem stunda landbúnað. Ákvörðun ráðherra um hvort hann heimili innlausn byggi, að uppfylltum nefndum formskilyrðum, á frjálsu mati hans. Í þessu tilfelli hafi ráðherra komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hefði haft margvíslega erfiðleika við að byggja upp, nýta og reka búskap í Grænuhlíð/Smyrlabergi með eðlilegum hætti. Framtíðarbúrekstri væri stefnt í hættu ef ekki kæmi til innlausnar. Stefndi telur að þegar þetta er virt, meðmæli umsagnaraðila og önnur gögn málsins, þá sé niðurstaða ráðherra eðlileg enda hafi stefnandi ekki fært fram nein rök fyrir því að leyfisveitingin hafi verið óréttmæt í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi voru.
Rök stefnda varðandi varakröfu stefnanda.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu af varakröfu stefnanda í fyrsta lagi á því, að ekki liggi fyrir sönnun um annað en að niðurstaðaða Matsnefnar eignarnámsbóta hafi verið eðlileg og sanngjörn. Nefndin byggi niðurstöðu sína á raunhæfu markaðsveri jarðarinnar og miði við svokölluð eignarnámssjónarmið. Þar með hafi hún tekið tillit til allra raunhæfra sjónarmiða stefnanda. Hins vegar hafi hún ekki miðað við að heitt vatn kunni að finnast á jörðinni eða að í malarnámi við Blöndu séu einhver verðmæti eða að eftirspurn eftir landi undir sumarhús eigi eftir að aukast verulega enda liggi ekki fyrir neinar upplýsingar til staðfestingar þessu. Stefnandi hafi ekki getað rökstutt með neinum hætti að niðurstaða nefndarinnar sé röng. Hann hafi heldur ekki fengið dómkvadda matsmenn til að hnekkja mati nefndarinnar.
Stefndi telur útreikning stefnanda á verði jarðarinnar vera stórfurðulegan. Hann byggi á niðurstöðu Hæstaréttar í máli sem snérist um miklu meira en 3,44 hektara lands að Ytri Löngumýri. Í dóminum sé einnig metin stórkostleg skerðing á meðferð lands umhverfis raflínu sem lögð var um land jarðarinnar og af þeim sökum sé útreikningur stefnanda út hött.
Stefndi byggir á því, að við ákvörðun bóta til stefnanda skuli miða við fasteingamatsverð jarðarinnar eða gangverð eignarhluta hans þar. Ef fallist yrði á varakröfu stefnanda væri brotin grundvallarregla stjórnarskrárinnar um greiðslu fulls verðs fyrir eignarnumin verðmæti því stefnandi myndi hagnast á eignarnáminu en miða skuli við það fjárhagslega tjón sem hann varð fyrir en annað ekki. Í þessu tilfelli verði að horfa til verðs sambærilegra jarða í nágrenninu og vísar stefndi í því sambandi til kaupsamnings og virðingargjörðar fyrir tvær jarðir í sömu sveit en þar hafi verð verið langt frá því sem stefnandi er hér að krefjast.
Stefndi vísar til sömu sjónarmiða og rakin hafa verið hér að framan varðandi kröfu sína um lækkun á varakröfu stefnanda, fallist dómurinn ekki á að leggja niðurstöðu Matsnefndar eignarnámsbóta til grundvallar.
Stefndi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda. Hann kveðst hafa greitt bætur samkvæmt úrskurði matsnefndarinnar í byrjun ágúst 1997. Honum hafi ekki borist nein kröfugerð frá stefnanda um greiðslu hærri bóta eða nokkuð frá honum heyrt fyrr en við birtingu stefnu máls þessa. Taki dómurinn varakröfu stefnanda til greina að einhverju leyti skuli sú viðbótarfjárhæð ekki bera dráttarvexti fyrr en mánuði eftir þingfestingu.
Stefndi byggir kröfu sína um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Málsástæður og lagarök réttargæslustefnda.
Réttargæslustefndi telur sig ekki í neinu hafa brotið málsmeðferðarreglur varðandi innlausnarbeiðni stefnda. Raunar telur hann að vandað hafi verið til málsmeðferðarinnar. Hann telur rétt að vekja athygli á því að umsagnaraðilar þ.e. jarðanefnd og Bændasamtök Íslands hafi gefið báðum aðilum málsins kost á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Réttargæslustefndi hafi gefið stefnanda kost á að koma sínum sjónarmiðum, varðandi innlausnarbeiðnina, á framfæri áður en leitað var umsagnar hreppsnefndar Torfalækjarhrepps. Þegar umsögn hreppsnefndar lá fyrir hafi stefnanda verið gefinn kostur á að tjá sig um hana og að fengnum umsögnum jarðanefndar og Bændasamtaka Íslands hafi stefnanda enn verið gefinn kostur á að tjá sig um málið. Fyrir utan þetta hafi réttargæslustefndi kynnt sér allar aðstæður til hlítar, meðal annars með því að fara á vettvang með aðilum í júní 1996. Í kjölfar þess hafi réttargæslustefndi lagt fram tillögur til sáttar í málinu en þessa sé ekki getið í stefnu.
Fyrir hafi legið að ágreiningur var með aðilum um nýtingu Smyrlabergs og að hreppsnefnd Torfalækjarhrepps hafi lagt áherslu á áframhaldandi búskap í Grænuhlíð með tilliti til hagsmuna sveitarfélagsins og að umsagnaraðilar hafi mælt með innlausn. Eftir ítarlega umfjöllun málsins í ráðuneytinu hafi verið ákveðið að heimila stefnda þá innlausn sem farið var fram á enda taldi réttargæslustefndi að umrædd innlausn væri í þágu hagsmuna sveitarfélagsins. Samkvæmt þessu fáist staðhæfingar stefnanda um óvandaða málsmeðferð ekki staðist. Undirbúningur ákvörðunarinnar hafi í hvívetna verið vandaður og lögum samkvæmt.
Réttargæslustefndi telur stefnanda hafa fyrirgert rétti sínum til að hafa uppi varakröfu sína vegna viðtöku á greiðslu fyrir eignina úr hendi stefnanda.
IV.
Niðurstaða.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því, að stefnandi hafi móttekið án fyrirvara greiðslu í samræmi við niðurstöðu Matsnefndar eignarnámsóta. Fyrir liggur að stefnandi lýsti því strax yfir við fyrstu fyrirtöku málsins hjá Matsnefnd eignarnámsbóta að hann hygðist bera lögmæti innlausnarinnar undir dómstóla. Þó fallast megi á með stefnda að eðlilegt hefði verið af stefnanda að gera fyrirvara um móttöku greiðslunnar eða skila henni til stefnda þá verður ekki fallist á að hann hafi með móttöku þessarar greiðslu fyrirgert rétti sínum til að bera lögmæti ákvörðunarinnar undir dómstóla. Í þessu sambandi má einnig horfa til þess að stefnandi tók greiðslu stefnda strax út af reikningi sínum og lagði inn á bankabók í nafni Jóns Ísberg fyrrverandi sýslumanns Húnvetninga og þar hefur féð legið óhreyft síðan.
Að mati stefnanda voru gallar á meðferð málsins hjá jarðanefnd Austur Húnavatnssýslu, Bændasamtökum Íslands og hreppsnefnd Torfalækjarhrepps einkum vegna þess að honum var ekki gefinn kostur á að tjá sig um innlausnarbeiðnina áður en þessir aðilar skiluðu áliti sínu. Hér er til þess að líta að þessir aðilar voru að gefa landbúnaðarráðuneytinu umsögn um framkomna innlausnarbeiðni. Telja verður að umsagnir þessara aðila séu ekki stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga. Til þess að ákvæði stjórnsýslulaga eigi við verður stjórnvald að hafa tekið ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds en við umsagnir þessar voru engar ákvarðanir teknar. Af þessum sökum bar jarðanefnd Austur Húnavatnssýslu, Bændasamtökum Íslands og hreppsnefnd Torfalækjarhrepps ekki skilyrðislaust að gefa stefnanda kost á að tjá sig um innlausnarbeiðnina áður en þeir gáfu umsögn sína til landbúnaðarráðuneytisins.
Samkvæmt gögnum málsins vildi stefnandi koma sáttahugmyndum sínum á framfæri við landbúnaðarráðuneytið og óskaði, með bréfi dagsettu 10. febrúar 1997, eftir fundi með fulltrúa þess þegar hann yrði staddur í Reykjavík 21. febrúar s.á. Jafnframt er í bréfi þessu tekið fram að nauðsynlegt sé fyrir stefnanda að skýra frá afnotum sínum af jörðinni á liðnum 50 árum ef svo ólíklega fari að sættir takist ekki. Í bréfi landbúnaðarráðuneytisins til ríkislögmanns dags. 5. maí 1998, þar sem fram koma sjónarmið ráðuneytisins til málshöfðunar þessarar, kemur m.a. fram að fundur hafi verið haldinn í ráðuneytinu þann 21. febrúar 1997 með syni stefnanda, lögmanni hennar o.fl. Svo virðist sem fulltrúi ráðuneytisins á þessum fundi hafi skilið tillögur stefnanda svo að kröfur hans hafi aukist til muna frá því sem áður hafði verið um rætt og talið frekari samningaviðræður tilgangslausar. Lögmaður stefnanda hefur sérstaklega hér fyrir dóminum mótmælt því að kröfur hans hafi aukist frá því sem áður var.
Á þessum tíma taldi stefnandi að í landbúnaðarráðuneytinu væri unnið að sátt í málinu en fjórum dögum eftir nefndan fund í ráðuneytinu veitti landbúnaðarráðherra stefnda umþrætt innlausnarleyfi án frekari viðræðna við aðila málsins og án þess að gera stefnanda ljóst með formlegum hætti að sáttatilraunum ráðuneytisins væri lokið. Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi setti aldrei fram rökstuðning fyrir sjónarmiðum sínum og hlaut fulltrúa landbúnaðarráðuneytisins, sem hafði allt frá fyrstu tíð haft með mál þetta svo og fyrri innlausnarbeiðnir stefnda að gera, að vera þetta ljóst. Ekki verður fallist á að með kærum hafi stefnandi fyrt sig rétti til að koma að sjónarmiðum sínum áður en ráðherra tæki ákvörðun í málinu jafnvel þó frestir sem honum voru settir hafi liðið meðan kærur hans biðu úrskurðar.
Þegar allt þetta er virt, sérstaklega þegar horft er til hinnar löngu sögu málsins í heild, verður að telja að ráðuneytinu hafi borið að tilkynna stefnanda með formlegum hætti að sáttaumleitan af þess hálfu væri lokið og jafnframt að gefa honum hæfilegan frest til að koma að efnislegum mótmælum við kröfunni sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga áður en málið yrði afgreitt. Þessa gætti ráðherra ekki og stóð þar með ekki fyllilega rétt að undirbúningi ákvörðunar sinnar sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Ber því að ógilda ákvörðunina svo sem stefnandi krefst.
Með hliðsjón af málsatvikum öllum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Þóknun talsmanns stefnanda, Magnúsar Guðlaugssonar, hæstaréttarlögmanns ákveðst 800.000 krónur og útlagður kostnaður er samkvæmt reikningi 20.865 krónur. Ber að greiða þessar fjárhæðir úr ríkissjóði.
Halldór Halldórsson dómstjóri ásamt meðdómendunum Frey Ófeigssyni, dómstjóra og Ævarri Hjartarsyni ráðunaut kveða upp dóm þennan.
Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna og orlofs dómsformanns.
Dómsorð:
Ógilt er ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins frá 25. febrúar 1997 þess efnis að stefnda, Einari Kristmundssyni, sé heimilt að leysa til sín eignarhluta stefnanda, Huldu Bjarnadóttur, í jörðinni Smyrlabergi, Torfalækjarhreppi.
Málskostnaður fellur niður.
Þóknun talsmanns stefnanda, Magnúsar Guðlaugssonar, hæstaréttarlögmanns 800.000 krónur og útlagður kostnaður að fjárhæð 20.865 krónur, greiðist úr ríkissjóði.