Hæstiréttur íslands
Mál nr. 785/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 10. desember 2014. |
|
Nr. 785/2014.
|
A (Þuríður Halldórsdóttir hdl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Vistun barns. Gjafsókn.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem úrskurður BR um að dóttir A yrði vistuð á heimili á vegum BR í tvo mánuði var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2014, þar sem staðfestur var úrskurður varnaraðila 14. október 2014 um að dóttir sóknaraðila skyldi vistuð á heimili á vegum varnaraðila í tvo mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á það með héraðsdómi að skilyrði hafi verið til þess að vista dóttur sóknaraðila, C, á heimili á vegum varnaraðila í tvo mánuði frá 14. október 2014 að telja, samkvæmt heimild í b. lið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2014.
Þetta mál, sem var tekið var til úrskurðar 13. nóvember 2014, barst dóminum 22. október sl.
Sóknaraðili, A, kt. [...], [...], [...], krefst þess að felldur verði úr gildi sá úrskurður varnaraðila, barnaverndarnefndar Reykjavíkur, 14. október sl., að dóttir hennar og B, C, verði vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði, talið frá 14. október 2014.
Sóknaraðili krefst enn fremur málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Varnaraðili, barnaverndarnefnd Reykjavíkur, krefst þess að staðfestur verði sá úrskurður sinn, 14. október 2014, að stúlkan C skuli vistuð á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði, talið frá 14. október 2014.
Varnaraðili krefst ekki kærumálskostnaðar.
Málsatvik
Varnaraðili kvað upp þann úrskurð, 14. október 2014, að stúlkan C skyldi vistuð á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði, talið frá þeim degi, með heimild í b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili, A móðir stúlkunnar, kærði þennan úrskurð með kæru sem barst héraðsdómi 22. október sl.
Sóknaraðili bjó með B og eignuðust þau tvíburadæturnar C og D [...] 2000. Eftir að sambúð þeirra lauk, árið 2001, hafa þau farið sameiginlega með forsjá stúlknanna en lögheimili þeirra hefur verið hjá móður. Á heimili sóknaraðila bjó einnig eldri hálfsystir tvíburanna, E, sem hefur verið vistuð að mestu utan heimilis frá árinu 2011. Faðir tvíburanna er sjómaður sem gerir út frá [...].
Afskipti á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 hafa verið af telpunum frá árinu 2001. Í gegnum tíðina hafa borist tilkynningar þar sem lýst hefur verið áhyggjum af getu sóknaraðila til að annast og halda utan um stúlkurnar og sinna þörfum þeirra auk mikils óþrifnaðar á heimilinu. C fékk greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins í janúar 2010 og var hún greind með ódæmigerða einhverfu, vitsmunaþroska undir meðallagi, athyglisröskun án ofvirkni og ofþyngd.
Í forsjárhæfnismati, sem F vann og er dagsett 30. maí 2011, kom fram að geta sóknaraðila væri að miklu leyti takmörkuð en hæfni hennar væri nægjanleg til að halda ætti áfram að reyna að styðja fjölskylduna með viðeigandi úrræðum.
Á haustmánuðum 2013 bárust Barnavernd Reykjavíkur tilkynningar um vanlíðan stúlkunnar C og ofbeldi sóknaraðila. Haldinn var fundur með sóknaraðila á þjónustumiðstöð 1. október 2013. Þar sagði sóknaraðili að hún væri að gefast upp á umönnum dætra sinna og samþykkti hún vistun þeirra utan heimilis. Starfsmaður barnaverndar fór á heimili sóknaraðila 4. október 2013. Á heimilinu var mikill sóðaskapur og óreiða og lýstu dæturnar mikilli vanlíðan vegna aðstæðna á heimilinu. Á meðferðarfundi barnaverndar, 9. október 2013, var ákveðið að leggja til við barnaverndarnefnd að stúlkurnar yrðu vistaðar utan heimilis til 15. júní 2014. Gerð var meðferðaráætlun með sóknaraðila sem miðaði að því að hún leitaði sér endurhæfingar og að stúlkunum yrði veittur stuðningur á meðan á vistun stæði. Sóknaraðili og faðir stúlknanna samþykktu vistun stúlknanna utan heimilis 30. október 2013. D fór í vistun til fósturforeldra í [...] en C til fósturforeldra á [...]. Um miðjan júní var lokað því fósturheimili sem C var á og var hún í þrjár vikur á vistheimili barna á meðan unnið var að því að finna annað fósturheimili fyrir hana svo og vegna þess að hún vildi ekki vera á heimili móður sinnar.
Sóknaraðili kom til viðtals hjá barnavernd, 6. júní 2014, og sagðist hafa miklar fjárhagsáhyggjur. Starfsmenn barnaverndar bentu henni á að nýta sér þá aðstoð sem henni hefði margoft verið boðin af þjónustumiðstöð en ekki þegið. Á fundinum var rætt um möguleikann á áframhaldandi vistun stúlknanna utan heimilis og var sóknaraðili reiðubúin að samþykkja vistun í eitt ár og að unnin yrði meðferðaráætlun sem gerði ráð fyrir að sóknaraðili undirgengist endurmat á forsjárhæfni. Gögn þess efnis voru undirrituð á fundi hjá Barnavernd, 12. júní 2014. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur samþykkti áframhaldandi vistun utan heimilis 24. júní 2014.
Stúlkurnar fengu leyfi til að vera hjá sóknaraðila dagana 18. til 31. júlí 2014 vegna brúðkaups sóknaraðila. Lögmaður sóknaraðila tilkynnti Barnavernd Reykjavíkur, með tölvupósti 28. júlí sl., að sóknaraðili hefði afturkallað samþykki sitt fyrir vistun dætra sinna utan heimilis og að stúlkurnar hefðu óskað eftir að vera áfram heima hjá sóknaraðila. Þá kom einnig fram að sóknaraðili hefði gengið í hjónaband. Í samtali starfsmanna Barnaverndar við lögmann sóknaraðila, daginn eftir, kom fram að sóknaraðili væri til í samvinnu við Barnavernd en væri alfarið á móti vistun dætra sinna utan heimilis. Þar sem samþykki forsjáraðila fyrir vistun stúlknanna utan heimilis lá ekki lengur fyrir var fósturforeldrum tilkynnt að stúlkurnar myndu ekki snúa til baka úr leyfinu.
Frá síðastliðnu sumri hafa systurnar því búið hjá sóknaraðila og gengið í [...]skóla. Skólastjórinn tilkynnti Barnavernd, 24. september 2014, að C hefði skaðað sig og sýndi merki mikillar vanlíðunar og kvíða. Sóknaraðili var boðuð til viðtals og kom hún ásamt lögmanni og G, eiginmanni sínum, 30. september 2014. Á fundinum kom fram að sóknaraðili vissi af vanda C og að hún ynni í því að fá aðstoð fyrir hana. Sóknaraðili sagðist vilja sinna henni án aðkomu barnaverndaryfirvalda og taldi ekki þörf á stuðningi. Í viðtalinu kom einnig fram að eiginmaður sóknaraðila neytti áfengis daglega og að sóknaraðili væri að gefast upp á ástandinu.
Skólastjóri [...]skóla tilkynnti barnavernd aftur, 2. október 2014, að stúlkan væri að skaða sig og að starfsmenn skólans hefðu tekið af henni rakvélablöð og yddarahnífa. Starfsmaður og sálfræðingur barnaverndar fóru í skólann og töluðu við stúlkuna. Hún sagði að sér liði mjög illa heima hjá sér og vildi ekki fara heim til sín eftir skóla. Hún hefði ætlað að taka eigið líf í skólanum en séð að sér og afhent starfsmönnum rakvélablöðin. Þegar sálfræðingur spurði af hverju hún vildi ekki fara heim til sín kvaðst hún óttast hvað hún kynni að gera sjálfri sér heima hjá sér. Fram komu hugmyndir um sjálfsskaða og jafnvel sjálfsvíg. Ákveðið var að fara með stúlkuna á vistheimili barna. Þar sem sóknaraðili var ekki samþykk því var beitt neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Á meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur, 6. október 2014, var mál systranna tekið fyrir. Að mati starfsmanna Barnaverndar benti allt til þess þess að stuðningur á grundvelli barnaverndarlaga væri fullreyndur auk þess sem sóknaraðili hefði hafnað samvinnu við barnaverndaryfirvöld. Engu að síður þyrfti að rannsaka mál stúlknanna betur og reyna til þrautar að ná samvinnu við sóknaraðila. Það væri óviðunandi að virkur alkóhólisti væri á heimilinu og krefjast þyrfti þess að hann leitaði sér meðferðar. Þá væri ástæða til að hafa verulegar áhyggjur vegna sjálfsskaða C. Talið var að ekki væru forsendur til að hún færi aftur á heimili sóknaraðila að svo stöddu. Lagt var til að C yrði vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði með eða án samþykkis forsjáraðila. Á því tímabili færi fram endurmat á forsjárhæfni sóknaraðila og reynt að ná samvinnu um stuðning inn á heimilið. Ekki var talin ástæða til að vista D utan heimilis þar sem hún virtist ekki eins viðkvæm fyrir aðstæðum á heimili sóknaraðila. Þó var bókað að nauðsynlegt væri að fylgjast vel með líðan og aðbúnaði D og grípa inn í yrðu aðstæður óviðunandi.
Málið var lagt fyrir fund varnaraðila 14. október 2014. Á fundinum var lögð fram skýrsla talsmanns C, dags. 13. október 2014, þar sem fram kom að hún teldi sig hafa of mikla ábyrgð á heimilinu sem væri henni ofviða. Hún ítrekaði að henni liði vel á vistheimilinu en þegar hún kæmi á heimili sóknaraðila „... þá væri það bara helvíti“. Aðspurð um afstöðu sína til búsetu í framtíðinni sagðist hún sjá lítið fyrir sér, en henni þætti ólíklegt að hún gæti búið með sóknaraðila og sá ekki fyrir sér að fara heim aftur. Foreldrar stúlkunnar veittu ekki samþykki fyrir vistun utan heimilis og því úrskurðaði varnaraðili að hún skyldi vistuð á heimili á vegum varnaraðila í tvo mánuði frá 14. október 2014 að telja, á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga.
C hefur frá 14. október verið vistuð á vistheimili barna. Starfsmenn vistheimilisins hafa, í samráði við starfsmenn barnaverndar, unnið að því að finna tómstundir við hæfi stúlkunnar og aðstoðað hana við að kaupa líkamsræktarkort. Þá hafa starfsmenn barnaverndar rætt við stelpuna á vistheimilinu um líðan hennar og aðstæður. Fram hefur komið í samtölum að stúlkunni líði betur en geti ekki séð fyrir sér að snúa aftur heim.
Á meðferðarfundi starfsmanna barnaverndar, 29. október sl., kom fram að sálfræðingur barnaverndar teldi að annars konar meðferð en hefðbundin viðtalsmeðferð sjá sálfræðingi myndi henta stúlkunni og var samþykkt að að stúlkan fengi 10 tíma hjá listmeðferðarfræðingi. Stúlkan fór í viðtal hjá barnageðlækni 4. nóvember sl. Í símtali hans við félagsráðgjafa kom fram að hann teldi C stríða við áfallastreitu og hann hefði gefið henni lyf til að slá á kvíða. Einnig kom fram að stúlkunni liði áberandi betur en þegar hann hitti hana 19. september sl. Jafnframt telur hann það góða ráðstöfun að stúlkan fari í listmeðferð.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveðst vera öryrki og hafa, vegna líkamlegra veikinda sinna, átt erfitt með ýmis húsverk, svo sem þrif og þvotta. Sóknaraðili hafi hins vegar átt góða samvinnu við starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur í gegnum árin. Hafi stúlkurnar verið hjá henni á heimilinu þar til þær fóru í vistun utan heimilis á vegum barnaverndarnefndar, með samþykki móður, í byrjun janúar 2014 þar til móðir afturkallaði samþykki sitt fyrir vistun stúlknanna utan heimilis vegna þrálátra beiðna þeirra um að fá að búa heima og þá sérstaklega C sem hafi haft mjög þétt og ítrekað samband við móður sína í sumar og krafist þess að fá koma heim. Auk þess hafði móðir áhyggjur af dætrum sínum því þær fengu enga sérfræðiþjónustu sem þær þurftu vegna greininga þeirra. Sóknaraðili hafi leitað til lögmanns síns til að draga samþykki sitt til baka og hafi það verið gert með tölvuskeyti lögmannsins til Barnaverndar Reykjavíkur 28. júlí 2014. Í tölvuskeytinu hafi einnig verið óskað gagna í málinu en engin gögn borist. Áður en það tölvuskeytið hafi verið skrifað hafi lögmaður séð ítrekuð skilaboð frá C til móður sinnar þess efnis að hún vildi koma heim. Móðirin hafi þá verið að fara að ganga í hjónaband. Stúlkurnar hafi komið heim í sumarumgengni og ekki farið aftur á fósturheimilin.
Eiginmaður sóknaraðila hafi verið iðinn við þrif og þvotta á heimilinu og telji sóknaraðili aðstæður sínar verulega breyttar þar sem hún sé ekki einstæð móðir nú. Eiginmaður sóknaraðila hafi verið atvinnulaus en hafi nú fengið vinnu og segist hættur neyslu áfengis.
Áður en stúlkan hafi farið í fóstur á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi hún verið í [...]skóla þar sem henni líkaði vel. Barnaverndarnefnd hafi sent hana í fóstur að [...] á [...] og hafi hún gengið í [...]skóla. Eini stuðningurinn sem hún hafi fengið hafi verið frá stuðningsfulltrúa sem aðstoðaði hana við námið. C hafi verið flutt á nýtt fósturheimili að [...] 8. júlí en hafði þá um tíma verið á vistheimili barna í Reykjavík.
Talsverðar breytingar hafi því verið á búsetu stúlkunnar á vistunartímanum en sóknaraðili telji allar breytingar hafa slæm áhrif á stúlkuna vegna fötlunar hennar sem sé lýst í athugun Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins frá 2010. Þar komi fram að hjá henni greinist ódæmigerð einhverfa, vitsmunaþroski undir meðallagi, námserfiðleikar, athyglisröskun án ofvirkni, ofþyngd og erfiðleikar í félagsumhverfi. Síðastliðnar örfáar vikur hafi hún einnig tekið upp á því að skaða sig en það hafi hún einnig gert á árinu 2013.
Engin sérfræðiþjónusta, sem miðist við greiningu hennar, hafi verið í boði þann tíma sem hún var í fóstri á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur og hafi sóknaraðili eðlilega haft miklar áhyggjur af því.
Þegar stúlkurnar hafi verið komnar til móður sinnar, eftir að hún afturkallaði samþykki sitt fyrir vistun þeirra utan heimilis, hafi hún pantað tíma hjá H geðlækni og hafi stúlkurnar verið byrjaðar í læknismeðferð hjá honum og komnar á lyf, þegar C var vistuð neyðarvistun á vegum barnaverndarnefndar. Stúlkan hafi átt pantaðan tíma þann dag hjá lækninum sem hún komst ekki í vegna neyðarráðstöfunar barnaverndarnefndar.
Sóknaraðili hafi einnig greitt fyrir sérstakt námskeið fyrir stúlkurnar miðað við sérþarfir þeirra í ljósi greininga þeirra frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins frá 2010 og hafi þær verið byrjaðar á því námskeiði en C hafi verið rifin út úr þeirri meðferð við ráðstöfun barnaverndarnefndar.
Sóknaraðili hafi einnig greitt fyrir líkamsrækt fyrir stúlkurnar sem þær voru í. Ekki verði því annað séð en að sóknaraðili hafi gert allt sem hugsast geti til að reyna að láta dóttur sinni líða sem best og leitað til geðlæknis vegna sjálfskaðaáráttu hennar sem hún hafði glímt við og annarrar fötlunar samkvæmt áðurnefndri greiningu.
Eðlilegra hefði verið að barnavernd aðstoðaði sóknaraðila enn frekar í viðleitni hennar til að bæta líðan stúlkunnar, en á fundi með starfsmönnum barnaverndar, 30. september sl., sem sóknaraðili hafi verið boðuð á, hafi hún greint frá læknisviðtölum sem stúlkan væri komin í, og námskeiðinu og líkamsræktinni sem hún hafði greitt fyrir og nefndi þar að sjálfsagt væri einnig gott fyrir stúlkuna að fara í sálfræðiviðtöl. Þeirri spurningu hennar hvort Barnavernd gæti greitt fyrir slíkt hafi strax verið svarað: „Nei við borgum ekkert.“
Ekki sé því hægt að segja að barnaverndarnefnd hafi reynt stuðningsúrræði við barnið og sóknaraðila samkvæmt 24. gr. barnaverndarlaga áður en gripið hafi verið til svo íþyngjandi úrræðis sem vistun utan heimilis sé, en stúlkan sé enn í sínum hverfisskóla og segist vilja vera í honum áfram. Ekki geti talist eðlilegt að barnaverndarnefnd gangi svo harkalega fram í máli unglingsstúlku að vista hana utan heimilis þótt hún lýsi óánægju með eitthvað á heimilinu. Frekar beri að kanna það nánar og reyna að leysa það vandamál en það sé alþekkt að unglingar fái ýmsar hugmyndir um að allt sé betra á næsta bæ og fái mótþróaköst. Það sé gjarnan kallað „gelgja“ en hjá C hafi auk þess greinst mótþrói og athyglisröskun. Taka verði tillit til greiningar hennar við slíkt úrræði sem vistun utan heimilis sé.
Sóknaraðili mótmælir því alfarið sem röngu að hún hafi ekki verið til samvinnu við Barnavernd Reykjavíkur. Sem dæmi megi nefna að hún hafi árið 2011 fallist á að undirgangast forsjárhæfnismat á vegum Barnaverndar. Sálfræðingurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu í forsjárhæfnismatinu að hæfni sóknaraðila væri nægjanleg en geta takmörkuð vegna líkamlegra veikinda hennar. Sóknaraðili hafi samþykkt að undirgangast nýtt forsjárhæfnismat og hafi það komið fram í greinargerð lögmanns hennar sem lögð var fram á fundi barnaverndarnefndar 14. október sl.
Sóknaraðili hafi verið til samvinnu um árabil við starfsfólk Barnaverndar og andmæli því alfarið að svo hafi ekki verið. Eins og að framan greini hafi sóknaraðili dregið samþykki sitt fyrir vistun utan heimilis til baka þar sem stúlkan hafi þrábeðið um að fá að koma heim og greint móður sinni frá að hún vildi ekki vera lengur í vistun utan heimilis. Auk þess hafi sóknaraðili ekki getað sætt sig við að stúlkan fengi ekki neina aðstoð sérfræðinga vegna greiningar á fötlun hennar og hafi hún fengið viðeigandi úrræði fyrir stúlkuna sem barnaverndarnefnd hafi síðan rifið hana úr.
Í ljósi alls þess, sem rakið hafi verið, sé ljóst að það sé stúlkunni fyrir bestu að koma nú þegar aftur heim til sóknaraðila og haldið verði áfram þeirri sérfræðimeðferð sem sóknaraðili hafi komið henni í og þeim úrræðum sem hann hafi fundið henni og að hún geti á eðlilegan hátt sótt skólann í sínu heimahverfi eins og hún sjálf óski og sé þess krafist að úrskurðurinn verði felldur úr gildi.
Þá kröfu að úrskurður barnaverndarnefndar, 14. október 2014, verði felldur úr gildi byggir sóknaraðili á því að með úrskurðinum sé brotið gegn 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem segi að ávallt skuli miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og því aðeins gripið til íþyngjandi ráðstafana að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.
Jafnframt beri að fella úrskurðinn úr gildi þar sem lagaskilyrði fyrir honum hafi ekki verið uppfyllt þar sem ekki hafi verið fullreynd vægari úrræði eins og gert sé ráð fyrir í 24. gr., sbr. og 23. gr., barnaverndarlaga og séu skilyrði fyrir vistun utan heimilis skv. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 við uppkvaðningu úrskurðar.
Þessi úrskurður gangi einnig þvert gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt henni skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Gæta skuli þess að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.
Allt framangreint sýni að ekki hafi verið uppfyllt lagaskilyrði þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp og þess því krafist að hann verði felldur úr gildi.
Krafa sóknaraðila um málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, byggist á 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggist á lögum 50/1988.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili telur skilyrði b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 vera uppfyllt.
Sóknaraðili byggi á því að vægari úrræði en vistun utan heimilis hafi ekki verið reynd samkvæmt 24. gr. barnaverndarlaga svo og að barnaverndarnefnd hafi ekki gætt meðalhófs. Jafnframt vísi hún til þess að skilyrði b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga séu ekki fyrir hendi.
Varnaraðili áréttar að við meðferð barnaverndarmála beri ætíð að gæta meðalhófs en í því felist meðal annars að ávallt skuli beita vægustu ráðstöfunum sem mögulegt sé til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga.
Með hinum kærða úrskurði hafi verið ákveðið, á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, að stúlkan C skyldi vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði. Skilyrði þess að úrræðinu sé beitt, skv. 1. mgr. 26. gr. laganna, sé að úrræði skv. 24. og 25. gr. laganna hafi ekki skilað tilætluðum árangri eða eftir atvikum að þau séu ófullnægjandi. Með vísan til málavaxta í heild hafi ekki verið fyrir hendi vægari úrræði en það sem deilt er um í þessu máli þar sem frekari stuðningsúrræði séu fullreynd. Margvíslegur stuðningur hafi þegar verið reyndur, bæði á vegum Barnaverndar og þjónustumiðstöðvar en án árangurs. Hafi stuðningi hjá þjónustumiðstöð verið hætt árið 2013 án árangurs. Gerðar hafi verið meðferðaráætlanir sem sóknaraðili hafi ekki haldið. Ráðgert hafi verið að móðir færi í endurhæfingu á Reykjalundi en af því hafi ekki orðið þar sem læknir hafi metið það svo að móðir hefði ekki nægilega meðferðarheldni. Sterkur grunur sé um að sóknaraðili hafi ekki nægjanlega hæfni til að hafa umsjá stúlkunnar og veita henni viðunandi aðbúnað. Því sé nauðsynlegt að sóknaraðili undirgangist nýtt forsjárhæfnismat. Þá verði að taka tillit til þess að stúlkan sé fjórtán ára og hafi lýst yfir því afdráttarlaust að hún vilji ekki búa á heimili sóknaraðila. Því til stuðnings sé sérstaklega vísað til fram lagðrar skýrslu talsmanns stúlkunnar. Hafa verði í huga að einungis hafi verið ákveðin tímabundin vistun utan heimilis til tveggja mánaða, eða til 14. desember nk. Ráðstöfunin hafi verið nauðsynleg til að forða stúlkunni frá eigin sjálfsskaðandi hegðun og til að meta forsjárhæfni sóknaraðila. Því verði að telja að varnaraðili hafi gætt meðalhófs í hvívetna við ákvörðun um vistun stúlkunnar utan heimilis.
Með vísan til alls framangreinds er það mat varnaraðila að brýnir hagsmunir stúlkunnar mæli með því að hún sé vistuð utan heimilis sóknaraðila og ítrekar varnaraðili þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur hafni kröfu sóknaraðila og staðfesti þann úrskurð varnaraðila, 14. október 2014, að C, kt. [...], sem lúti sameiginlegri forsjá foreldra sinna A, kt. [...], og B, kt. [...], skuli vistuð utan heimilis sóknaraðila í allt að tvo mánuði, talið frá 14. október 2014, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Varnaraðili byggir meðal annars á barnaverndarlögum nr. 80/2002, lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013, lögum um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Niðurstaða
Í þessu máli lætur sóknaraðili, A, reyna á réttmæti þess úrskurðar varnaraðila, barnaverndarnefndar Reykjavíkur, 14. október 2014, að dóttir hennar, C, skuli vistuð á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði, talið frá 14. október 2014. Þennan úrskurð byggði varnaraðili á heimild í b-lið 1. mgr. 27. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Í 27. gr. laganna er kveðið á um heimildir barnaverndarnefndar til að úrskurða um vistun barns utan heimilis í tilvikum þar sem ekki liggur fyrir samþykki foreldris og/eða barns sem hefur náð 15 ára aldri. Í b-lið 1. mgr. ákvæðisins segir að barnaverndarnefnd geti úrskurðað að taka skuli barn af heimili í allt að tvo mánuði til að tryggja öryggi þess eða til þess að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Í greinargerð með frumvarpi til barnaverndarlaga segir um 27. gr. að tveir mánuðir þyki hæfilegur tími til að meta stöðu og þarfir barns, taka ákvörðun um hvort barn skuli snúa heim eða nauðsyn þess að grípa til annarra ráðstafana.
Eins og áður hefur verið rakið, hafa barnaverndaryfirvöld þurft að hafa afskipti af högum dætra sóknaraðila frá ungum aldri þeirra vegna ófullnægjandi aðstæðna á heimili þeirra. Af þeim ástæðum hefur þeim verið komið fyrir utan heimilisins í örfá skipti.
Við meðferð barnaverndarmála ber að fylgja meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sérreglum barnaverndarlaga nr. 80/2002 um málsmeðferð. Ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttar, meðalhófsreglan, er lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga. Hún er einnig skráð í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Jafnframt skuli þau ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Í þessari grundvallarreglu felst meðal annars að stjórnvaldi ber að velja það úrræði sem er vægast geti fleiri úrræði, sem völ er á, þjónað því markmiði sem að er stefnt. Ákvæði 27. gr. barnaverndarlaga samræmist þessari meginreglu. Samkvæmt því á barnaverndarnefnd að velja vægasta úrræði sem völ er á hverju sinni og telja má að gagni megi koma og aldrei ganga lengra í beitingu þess úrræðis en nauðsynlegt er. Í 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga segir að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda.
Af gögnum málsins má ráða að varnaraðili hefur gripið til ýmissa vægari úrræða í viðleitni sinni til að gæta hagsmuna dætra sóknaraðila og hagsmuna sóknaraðila. Það hefur meðal annars verið gert með meðferðaráætlunum og úrræðum á borð við stuðninginn heim, (sem felst í því að uppeldisnámskeið er fært inn á heimilið), heimaþjónustu, tilsjón og stuðningsfjölskyldu. Einnig var geðteymi móður til stuðnings fyrri hluta ársins 2014. Stúlkurnar hafa einnig sótt [...], sem er úrræði fyrir börn með einhverfugreiningu, og [...], sem veitir svipaða þjónustu. Sóknaraðila hefur einnig verið veitt fjárhagsaðstoð.
Allt að einu hefur í nokkrum tilvikum verið talið nauðsynlegt að vista tvíburadætur sóknaraðila tímabundið utan heimilisins vegna óviðunandi aðstæðna á heimilinu.
Skólastjóri [...]skóla tilkynnti Barnavernd Reykjavíkur, 24. september 2014, að C hefði skaðað sig og sýndi merki mikillar vanlíðunar og kvíða. Á fundi með Barnavernd, 30. september sl., kvaðst sóknaraðili vita af vanda dóttur sinnar og sagðist vinna í því að fá aðstoð fyrir hana. Sóknaraðili sagðist vilja sinna henni án aðkomu barnaverndaryfirvalda og taldi ekki þörf á stuðningi. Skólastjóri [...]skóla tilkynnti Barnavernd aftur, 2. október 2014, að stúlkan hefði skaðað sig og starfsmenn skólans hefðu tekið af henni rakvélarblöð og yddarahnífa. Starfsmaður og sálfræðingur Barnaverndar fóru í skólann og töluðu við stúlkuna. Hún sagði að sér liði mjög illa heima hjá sér og vildi ekki fara heim til sín eftir skóla. Hún hefði ætlað að taka eigið líf í skólanum en séð að sér og afhent starfsmönnum rakvélablöðin. Þegar sálfræðingur spurði af hverju hún vildi ekki fara heim til sín kvaðst hún óttast hvað hún kynni að gera sjálfri sér heima hjá sér. Fram komu hugmyndir um sjálfsskaða og jafnvel sjálfsvíg. Ákveðið var að fara með stúlkuna á vistheimili barna. Þar sem sóknaraðili var ekki samþykk því var beitt neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Þegar litið er til þeirra úrræða sem áður höfðu verið reynd en sóknaraðili hafði ekki úthald til að nýta sér, og þeirrar eindregnu óskar barnsins, 2. október sl., að vera ekki send aftur heim til sín, að minnsta kosti um einhvern tíma, verður ekki annað séð en að málefnalegar ástæður hafi legið að baki þeirri ákvörðun, sem tekin var, og að meðalhófsreglunnar hafi verið gætt við meðferð málsins hjá varnaraðila. Því verður ekki fallist á það með sóknaraðila að ekki hafi verið beitt vægari úrræðum samkvæmt 24. og 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 áður en gripið var til þeirrar vistunar utan heimilis sem þetta mál er sprottið af.
Við aðalmeðferð málsins byggði sóknaraðili einnig á því að frá því að ákvörðunin var tekin 14. október sl. hefðu aðstæður breyst. Virtist einkum átt við að barnið skaðaði sig hvort sem það væri heima hjá sér, í skólanum eða vistað á vistheimili barna. Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dómi, einnig B, faðir C, G, eiginmaður sóknaraðila, og I, félagsráðgjafi hjá Barnavernd Reykjavíkur.
Sóknaraðili, B og G voru öll á einu máli um að þau hefðu miklar áhyggjur af C. Teldu þau talsverðar líkur á því að hún reyndi að fyrirfara sér yrði hún ekki lögð inn á barna- og unglingageðdeild hið allra fyrsta. Vistheimili barna væri alls ekki rétti staðurinn fyrir hana.
Sóknaraðili lýsti öllum þeim úrræðum sem hún hefði þegar skipulagt og greitt fyrir áður en varnaraðili hefði tekið fram fyrir hendurnar á henni 2. október sl. Hún hefði pantað tíma fyrir stúlkuna á ADHD-námskeið og greitt fyrir, hún hefði keypt fyrir hana kort í líkamsrækt og farið með hana í tíma hjá geðlækni.
Við meðferð málsins fyrir dómi lýsti lögmaður sóknaraðila yfir því að barninu stafaði bráð hætta af því að vera á vistheimili barna. Hún væri haldin alvarlegum sjúkdómi og þroskafrávikum sem kölluðu á að vakað væri yfir henni dag og nótt til þess að koma í veg fyrir að hún fyrirfæri sér. Starfsmenn Barnaverndar og vistheimilis barna hefðu ekki neina sérþekkingu sem nauðsynleg væri til þess að sinna barni með þau þroskafrávik sem greinst hefðu hjá stúlkunni. Gögn málsins sýndu að stúlkan hefði ekki hætt að skaða sig þótt hún hefði verið vistuð á vistheimilinu. Fram lögð gögn sýndu einnig að henni lynti ekki við starfsfólk heimilisins og væri henni bannað að horfa á tilteknar kvikmyndir skaðaði hún sig. Tvær sannanir væru fyrir því að stúlkan hefði reynt að skaða sig eftir að hún fór á vistheimilið, önnur mynd sem hún tók af sér og birti á Facebook og hin dagáll þar sem fram kæmi að hún hefði rispað á sér upphandlegginn þegar henni hafi ekki verið leyft að horfa á mynd sem ekki hæfði hennar aldri.
Sóknaraðili, móðir barnsins, hefði hins vegar mikla innsýn í vanda þess og hefði lagt sig fram um að koma til móts við sérstakar þarfir þess. Koma þyrfti barninu hið snarast í hendur hennar og síðan bæri Barnavernd að aðstoða hana við að koma barninu tafarlaust inn á barna- og unglingageðdeild.
Samkvæmt 1. mgr. 62. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal barn, sem hefur náð 15 ára aldri, vera aðili máls. Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. a í sömu lögum skal gefa barni, sem er ekki aðili að máli, kost á að tjá sig um mál í samræmi við aldur þess og þroska nema dómari telji afstöðu þess koma nægilega skýrt fram í gögnum máls.
Þegar dómari fékk málinu úthlutað, 23. október sl., ráðgerði hann að fá J, doktor í barnasálfræði og sérfræðing í fötlunum barna, til þess að ræða við dóttur sóknaraðila C. Þegar dómarinn hafði lesið fram lagða greinargerð talsmanns stúlkunnar taldi hann ekki þörf á því, sbr. 2. mgr. 63. gr. a, þar sem afstaða barnsins til dvalar á heimili móður sinnar væri skýr. Varnaraðili hafi hins vegar látið dóminn vita af því, föstudaginn 7. nóvember sl., að stúlkan óskaði eftir því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við dóminn. Af þeim sökum fór dómarinn, ásamt J, í [...]skóla, mánudaginn 10. nóvember sl., og ræddi þar við stúlkuna.
Samtalið við hana tók 45-50 mínútur. Hún kvaðst gera sér grein fyrir því að málið snerist um það hvort barnaverndarnefnd hefði tekið rétta ákvörðun, 14. október sl., þegar hún ákvað að vista stúlkuna í tvo mánuði utan heimilis. Stúlkan sagði að sér fyndist barnaverndarnefnd hafa tekið rétta ákvörðun þar sem henni liði vel á vistheimili barna og þar ynni fólk sem reyndi að hjálpa henni. Hún vildi að það kæmi skýrt fram að hún væri ekki á leiðinni heim og að hún liti á það sem dauðarefsingu (death penalty) yrði hún send til móður sinnar.
Í punktum sem J afhenti dómara eftir viðtalið við C segir: „Álit mitt eftir þetta viðtal er að C hafi skýra og staðfasta afstöðu í málinu þess efnis að hún vilji áframhaldandi vistun utan heimilis móður sinnar. Þrátt fyrir að hún glími við ýmsan skilgreindan vanda, þ. á m. á einhverfurófi, tel ég það ekki vera tilefni til þess að rengja þessa afstöðu hennar.“
Fallist er á að sóknaraðili hafi unnið að því eftir sínu megni að koma til móts við þarfir stúlkunnar með því að bóka hana á námskeið, í líkamsrækt og koma henni til barnageðlæknis. Áður en nokkurt þessara úrræða var komið á veg tók sjálfskaðandi hegðun stúlkunnar sig upp á ný og barnaverndarnefnd taldi þörf á, vegna frásagnar stúlkunnar af vanlíðan sinni á heimili móður sinnar, að vista hana utan þess heimilis um skamman tíma, tvo mánuði.
Í þessum úrskurði verður ekki tekin afstaða til þess hvert rætur vanlíðunar C verði raktar. Það er hins vegar ótvírætt að hún telur að sér, að minnsta kosti enn um sinn, muni líða verr á heimili móður sinnar en á vistheimili barna þar sem hún dvelst nú. Þetta kom fram í samtali hennar við talsmann, sem henni var skipaður og ræddi við hana 13. október. Þetta var einnig eindregin afstaða hennar 10. nóvember sl. í samtali við dómara og barnasálfræðing. Taldi hann ekkert benda til þess að tilefni væri til að rengja afstöðu hennar. Þessi afstaða hennar er að auki staðfest í ýmsum fram lögðum gögnum sem unnin hafa verið um líðan hennar á vistheimili barna frá því ákvörðunin var tekin 14. október sl. Enn fremur tók geðlæknir hennar fram í símtali við félagsráðgjafa 5. nóvember sl. að stúlkunni liði áberandi betur eftir að hún hafði verið vistuð utan heimilis. Í framburði I, félagsráðgjafa Barnaverndar Reykjavíkur, fyrir dómi kom einnig fram að stúlkan hefði staðfastlega sagt að vanlíðan hennar á heimili móður sinnar væri slík að hún treysti sér ekki þangað aftur. Jafnframt kom fram hjá vitninu að C hefði óskað eftir því að verða vistuð utan heimilis til 18 ára aldurs.
Þegar litið er til þessa verður hvorki séð að úrræðið sé íþyngjandi fyrir barnið né að það hafi nú þegar staðið of lengi til þess að ná því markmiði sem að er stefnt. Jafnframt þykir dóminum ekki hafa verið færð sannfærandi rök fyrir því að það sé barninu fyrir bestu að fella nú þegar úr gildi þann úrskurð varnaraðila sem deilt er um.
Varnaraðili krafðist ekki málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Sóknaraðili krefst málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál og vísar til ákvæða 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 því til stuðnings.
Sóknaraðili hefur lögbundna gjafsókn í málinu, sbr. ákvæði 61. gr., sbr. 1. mgr. 60. gr., laga nr. 80/2002. Sóknaraðili, A, fékk gjafsókn í málinu með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 24. október 2014. Að teknu tilliti til framlagðrar tímaskýrslu lögmanns sóknaraðila vegna málsins þykir málflutningsþóknun lögmannsins, Þuríðar Kristínar Halldórsdóttur hdl., hæfilega ákveðin 680.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og skal hún greidd úr ríkissjóði.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfestur er sá úrskurður varnaraðila, barnaverndarnefndar Reykjavíkur, 14. október sl., að dóttir sóknaraðila, A, og B, C, verði vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði, talið frá 14. október 2014.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þuríðar Kristínar Halldórsdóttur hdl., 680.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.