Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-202
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Verksamningur
- Dagsektir
- Hæfi dómara
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 11. júní 2019 leita Íslenskir aðalverktakar hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 17. maí sama ár í málinu nr. 527/2018: Isavia ohf. gegn Íslenskum aðalverktökum hf. og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Isavia ohf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu tveggja reikninga sem gefnir voru út vegna verks sem hann vann í þágu gagnaðila og sá síðarnefndi hafði greitt að frádregnum tafabótum, sem hann taldi sig eiga rétt á, samtals að fjárhæð 45.500.000 krónur. Byggir leyfisbeiðandi á því að tafir sem orðið hafi á verkinu hafi verið á ábyrgð gagnaðila og hafi leyfisbeiðandi því átt rétt á framlengingu verktíma um 159 daga. Í héraðsdómi var gagnaðila gert að greiða leyfisbeiðanda 30.250.000 krónur en Landsréttur sýknaði á hinn bóginn gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Vísar hann til þess að sérfróður meðdómsmaður í Landsrétti hafi verið vanhæfur til að leysa úr málinu sökum þess að hann starfi hjá félagi sem hafi átt í öðru dómsmáli við leyfisbeiðanda, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Þá hafi Landsréttur ranglega lagt til grundvallar niðurstöðu sinni að verkinu hafi átt að skila í áföngum að viðlögðum tafabótum. Telur leyfisbeiðandi að ekki verði ráðið af útboðsgögnum að um eiginlega áfangaskiptingu verksins hafi verið að ræða. Þá sé það rangt að honum hafi borið að hafa uppi kröfu um framlengingu verktíma innan 28 daga frá því að tilefni gafst til hennar og í síðasta lagi, að því er varðaði kröfur vegna einstakra verkþátta, áður en þeim verkþætti lyki. Telur hann að slík krafa hafi einungis þurft að koma fram fyrir verklok. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að málið hafi verulega almenna þýðingu þar sem dómur Landsréttar sé í ósamræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar og fræðikenningar um eðli og tilgang tafabóta.
Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi samkvæmt 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 í ljósi dómsúrlausna sem áður hafa gengið. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til eða formi, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.