Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-81

Ragnar Valur Björgvinsson (Guðjón Ármann Jónsson lögmaður)
gegn
Hreggviði Hermannssyni (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Ómerking héraðsdóms
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.

Með beiðni 6. mars 2020 leitar Ragnar Valur Björgvinsson eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 21. febrúar 2020 í málinu nr. 495/2019: Hreggviður Hermannsson gegn Ragnari Vali Björgvinssyni og gagnsök á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hreggviður Hermannsson leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á tilteknum landamerkjum jarðar sinnar, Langholts 2 í Flóahreppi. Héraðsdómur tók kröfuna til greina en Landsréttur ómerkti héraðsdóm og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferða að nýju, frá og með öðru þinghaldi. Leyfisbeiðandi leitar kæruleyfis til að fá hinni kærðu dómsathöfn breytt í þá veru að úrskurður Landsréttar verði ómerktur og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til nýrrar efnismeðferðar og dómsuppsögu.

Samkvæmt a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt án leyfis að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti. Getur úrskurður Landsréttar samkvæmt því sætt kæru til Hæstaréttar ef þar hefur verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá héraðsdómi sem ekki hefur fyrr verið gert. Á hinn bóginn sætir úrskurður Landsréttar ekki kæru til Hæstaréttar eftir framangreindri heimild þegar dómur héraðsdóms er ómerktur frá og með tilteknu þinghaldi.

Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að leita leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Hvorki er í lögum nr. 91/1991 né öðrum lögum kveðið á um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar um það efni sem hér um ræðir. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.