Hæstiréttur íslands
Mál nr. 43/2007
Lykilorð
- Rán
- Þjófnaður
- Fjársvik
- Húsbrot
- Eignaspjöll
- Fíkniefnalagabrot
- Umferðarlagabrot
|
|
Fimmtudaginn 14. júní 2007. |
|
Nr. 43/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Ívari Smára Guðmundssyni(Jón Egilsson hdl.) |
Rán. Þjófnaður. Fjársvik. Húsbrot. Eignaspjöll. Fíkniefnalagabrot. Umferðarlagabrot.
Í var sakfelldur fyrir tvö ránsbrot, líkamsárás, fjársvik, þjófnað, húsbrot, eignaspjöll, fíkniefnalaga- og umferðarlagabrot. Í hafði tvívegis áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot, þrívegis gerst sekur um akstur sviptur ökurétti og einu sinni líkamsárás. Þá var honum m.a. virt til refsiþyngingar að annað ránsbrotið sem hann var sakfelldur fyrir í þessu máli var augljóslega skipulagt. Þá sló hann eign sinni á talsverð verðmæti í því ráni og þjófnaðarbrotinu, en ekki bætti hann fyrir brot sín. Hins vegar horfði til mildunar refsingar að hann játaði flest brotin greiðlega og var samvinnuþýður. Í rauf með brotum sínum skilorð eldri héraðsdóms þar sem hann hlaut þriggja mánaða fangelsi. Var refsing hans ákveðin fangelsi í þrjú ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. janúar 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingum en þyngingar á refsingu. Þá er þess krafist að ákvæði héraðsdóms um greiðslu skaðabóta til Bónusvídeó ehf. verði staðfest.
Ákærði krefst þess að brot hans í versluninni Skókaupum samkvæmt ákæru 6. september 2006 verði heimfært undir 244. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara að ákvæði 252. gr. laganna „tæmi sök gagnvart ákvæðum 1. mgr. 218. gr.“ sömu laga. Að öðru leyti krefst hann mildunar refsingar og að gæsluvarðhald sem hann sætti frá 17. til 22. febrúar 2006 og frá 1. til 11. ágúst sama ár komi til frádráttar henni. Ennfremur krefst hann frávísunar á bótakröfu Bónusvídeó ehf., til vara sýknu af henni, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt ákærum 6. september, 19. október og 8. nóvember 2006 og heimfærslu brota hans til refsiákvæða.
Sakaferill ákærða er rétt rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram hefur ákærði verið sakfelldur í máli þessu fyrir tvö ránsbrot, líkamsárás, fjársvik, þjófnað, húsbrot, eignaspjöll, fíkniefnalaga- og umferðarlagabrot. Ákærði réðst á þrjár konur og sló þær í andlitið með krepptum hnefa er hann framdi ránsbrot sín. Jafnframt sló hann eign sinni á talsverð verðmæti í öðru ráninu og svo var einnig er hann braust inn í söluskála SJ á Fáskrúðsfirði. Ákærði hefur tvívegis áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot eins og rakið er í héraðsdómi. Refsing hans var í bæði skiptin skilorðsbundin og stóðst hann skilorð fyrra dómsins. Hann hefur tvívegis gengist undir sátt og einu sinni verið dæmdur fyrir akstur sviptur ökurétti. Sams konar brot hans sem hér er til meðferðar var framið áður en hann hlaut refsingu fyrir fyrri brotin. Refsing hans verður að því leyti ákveðin með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga en einnig með vísan til 77. gr. laganna. Ákærði hefur áður verið dæmdur fyrir líkamsárás og hluti brota hans nú var unninn í félagi við annan mann. Ránið í Bónusvídeó ehf. í Hafnarfirði var augljóslega skipulagt og hann hefur ekki bætt fyrir brot sín. Er þetta metið honum til refsiþyngingar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar er það til mildunar refsingar að hann játaði flest brotin greiðlega og var samvinnuþýður við meðferð málsins. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 11. ágúst 2006, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 18. ágúst 2006 í máli nr. 453/2006, var ákærða gert að afplána 300 daga eftirstöðvar 20 mánaða fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómi Malmö Tingsrätt í Svíþjóð 10. febrúar 2005. Þær eftirstöðvar verða því ekki dæmdar með máli þessu. Hins vegar rauf ákærði með brotum samkvæmt ákæru 8. nóvember 2006 skilorð héraðsdóms frá 14. júlí 2004 en með honum hlaut hann þriggja mánaða fangelsisrefsingu, skilorðbundið í tvö ár. Verður hann dæmdur með og refsing ákvörðuð að gættri 60. gr. almennra hegningarlaga. Að öllu framangreindu virtu verður refsing ákærða áveðin fangelsi í þrjú ár, en frá henni skal draga gæsluvarðhaldsvist, sem hann sætti frá 17. til 22. febrúar 2006 og 1. til 11. ágúst sama ár.
Skaðabótakröfu Bónusvídeó ehf. fylgja engin gögn og er henni því vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Önnur ákvæði héraðsdóms um skaða- og miskabætur verða staðfest, enda hefur ekki verið krafist endurskoðunar á þeim fyrir Hæstarétti.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ívar Smári Guðmundsson, sæti fangelsi í þrjú ár, en frá refsingunni skal draga gæsluvarðhaldsvist hans frá 17. til 22. febrúar 2006 og 1. til 11. ágúst sama ár.
Skaðabótakröfu Bónusvídeó ehf. er vísað frá héraðsdómi. Önnur ákvæði héraðsdóms um skaða- og miskabætur skulu vera óröskuð.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 397.112 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 373.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 1. desember sl., er höfðað með eftirtöldum þremur ákærum á hendur Ívari Smára Guðmundssyni, kt. 020580-5939, Neshaga 9, Reykjavík:
Ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 6. september 2006
1. Fyrir rán og líkamsárás, með því að hafa, laugardaginn 15. júlí 2006, farið
inn í verslunina Skókaup, Fiskislóð 75, Reykjavík, opnað peningakassa og stolið þaðan 12.000 kr. í reiðufé, og fyrir að hafa hrint starfsmanni verslunarinnar, A, í gólfið og slegið hana með krepptum hnefa í andlitið er hún reyndi að varna því að ákærði kæmist undan með þýfið. Við þetta hlaut A nefbrot og bólgur og mar í andliti.
Telst þetta varað við 252. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
2. Fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa, sama dag og fyrr greinir á veitingastaðnum Rauða ljóninu, Eiðistorgi 1, Seltjarnarnesi, haft í vörslum sínum 0,95 g af hassi.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 490/2001 og reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. A, [kennitala], krefst bóta að fjárhæð kr. 452.220 auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. júlí 2006 til greiðsludags.
Ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 19. október 2006.
Fyrir rán, með því að hafa, skömmu eftir hádegi mánudaginn 31. júlí 2006, farið inn í fyrirtækið Bónusvídeó, Lækjargötu 2, Hafnarfirði, ráðist að B og C, sem þar voru við störf, og slegið þær í höfuðið með krepptum hnefa, safnað saman peningum sem C hafði verið að vinna með, sett þá í tösku og stokkið út um glugga verslunarinnar á 2. hæð, eftir að hafa brotið rúðuna og kastað út um gluggann nefndri tösku, sem í voru 1.455.344 krónur í reiðufé og lyklar að peningakössum, sjö peningaskjóðum sem í voru 353.737 krónurí reiðufé og tösku sem í voru ellefu tómar peningaskjóður. Óþekktur maður, sem var í vitorði með ákærða, komst undan á bifreið með töskuna sem í voru 1.455.344 krónur. Við atlögu ákærða hlaut B þrota og kúlu vinstra megin á höfði og C tvær kúlur vinstra megin á höfði.
Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Af hálfu Bónusvídeós ehf., kt. 621292-3159, er krafist bóta að fjárhæð 1.636.804 krónur.
Ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 8. nóvember 2006.
Fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2006:
1.
Þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 16. febrúar eða aðfaranótt föstudagsins 17. febrúar í félagi við D, [kennitala], og hugsanlega fleiri menn brotist inn í söluskála SJ að Búavegi 60 á Fáskrúðsfirði, með því að spenna upp hurð og stolið sígarettukartonum, kortum með símainneign að verðmæti 226.440 krónur, happdrættisskafmiðum að verðmæti 78.050 krónur, 2 stafrænum myndavélum, 16 úrum, arabískum peningaseðli, tékkneskum peningaseðli, hamri og alls 802.000 krónum í reiðufé, þar af 744.000 krónum úr hraðbanka í eigu Landsbanka Íslands sem spenntur var upp, en stór hluti þýfisins fannst á hótelherbergi nr. 307 á Hótel KEA, Akureyri, þar sem ákærði var handtekinn af lögreglu.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
2.
Fjársvik, með því að hafa miðvikudaginn 15. febrúar til föstudagsins 17. febrúar gist á gistiheimilinu Tærgesen að Hæðargerði 25 á Reyðarfirði ásamt 2 öðrum mönnum í 2 herbergjum á gistiheimilinu og horfið þaðan án þess að greiða reikninginn að fjárhæð 23.600 krónur.
Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.
3.
Umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 17. febrúar ekið bifreiðinni RP-401 frá Fáskrúðsfirði til Námaskarðs sviptur ökurétti.
Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
4.
Húsbrot og eignaspjöll, með því að hafa þriðjudaginn 4. apríl farið í heimildarleysi inn í íbúðarhúsnæði að [...], með því að spenna upp glugga, og skemmt stormjárn og brotið stól sem var neðan við gluggann.
Telst þetta varða við 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu eru gerðar eftirfarandi kröfur um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta:
1.
Landsbanki Íslands hf., kt. 550873-0449, að fjárhæð 1.608.997 krónur auk vaxta samkvæmt 8. og 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi 17. febrúar til 27. mars 2006, en dráttarvaxta frá þeim degi samkvæmt III. kafla sömu laga til greiðsludags.
2.
Skeljungur hf., kt. 590269-1749, að fjárhæð 300.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi 17. febrúar 2006 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
3.
Gistiheimilið Tærgesen, kt. 490604-2350, að fjárhæð 23.600 krónur auk dráttarvaxta.
Af hálfu ákærða er krafist sýknu af ákæru, dagsettri 19. október 2006, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa, varðandi þá háttsemi sem hann hefur játað. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna að mati dómsins.
Ákæra ríkissaksóknara, dagsett 6. september 2006 - ákæruliður 1.
Laugardaginn 15. júlí 2006, kl. 17:51 barst lögreglunni tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð um rán í skóverslun að Fiskislóð 75, X-18. Hafði sá sem þar var að verki ekið brott á rauðri Peugeot bifreið með skráningarnúmerið RS-192. Við eftirgrennslan kom í ljós að skráður eigandi bifreiðarinnar hafði lánað E hana en hann hafði fengið syni sínum Ívari Smára Guðmundssyni, ákærða í máli þessu, bifreiðina til umráða. Hóf lögreglan strax leit af ákærða og var hann handtekinn á Rauða ljóninu, Eiðistorgi.
Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir A að hún hafi heyrt þegar einhver kom inn í verslunina. Hún hafi séð þegar maður gekk frá peningakassanum með peninga í hendinni. Hafi hún mætt honum við afgreiðsluborðið og spurt hvað hann væri að gera. Hann hafi ekki sagt neitt heldur ýtt henni frá sér á gólfið. Hún hafi þá staðið á fætur og togað í peysu hans en þá hafi hann snúið sér við og slegið hana í andlitið með krepptum hnefa. Maðurinn hafi svo farið út og hafi hún séð þegar hann ók brott á bifreiðinni RS-192. Kvað hún ákærða hafa haft á brott með sér alla seðla sem í peningakassanum voru, um 15.000 krónur. Lýsti A manninum svo að hann hafi verið um 180 cm á hæð, grannur og ljóshærður. Hann hafi verið klæddur í síða appelsínugula bómullarpeysu með grárri rönd á ermum og sennilega gallabuxur. Hann hafi verið um 30 ára og einn á ferð. Þá segir í skýrslunni að A hafi verið með áverka á vinstra auga og vinstri kinn. Hún hafi einnig verið bólgin og marin.
Í handtökuskýrslu lögreglu sem dagsett er þennan sama dag segir að ákærði hafi setið á Rauða ljóninu ásamt systur sinni F þegar lögregluna bar að garði. Hafi þeir veitt því athygli er ákærði laumaði hægri hendi sinni með fram sætinu og kom í ljós að í sætinu voru peningaseðlar. Hann hafi brugðist illa við handtökunni og veitt töluverða mótspyrnu. Var F tekin tali og kvaðst hún hafa setið með ákærða í um klukkustund. Hann hafi viðurkennt fyrir sér að hafa rænt peningum úr versluninni X-18 fyrr um daginn til að fjármagna neyslu sína. Þá segir í skýrslunni að á borði þar sem ákærði sat hafi fundist sígrettupakki og hafi bút af hassi verið stungið inn undir plastið utan um pakkann. Samkvæmt niðurstöðu efnaskýrslu tæknideildar lögreglu var um að ræða 0,95 g af hassi.
Á meðal gagna málsins er vottorð Þorsteins Viðars Viktorssonar, aðstoðarlæknis á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítalans. Í vottorðinu segir að A hafi fyrst leitað á slysadeild þar sem tekin hafi verið tölvusneiðmynd af andlitsbeinum og hafi hún verið greind með nefbrot í kjölfarið. Hún hafi komið á göngudeild HNE hinn 18. júlí 2006 og hafi þá vinstra auga hennar verið sokkið og mikil bólga umhverfis það og niður alla vinstri kinn. Hún hafi verið nefbrotin með inndæld vinstra megin. Í niðurstöðu vottorðsins segir að A hafi verið deyfð og nef hennar rétt. Áverkar hennar hafi verið slíkir að þeir gætu samræmst hnefahöggi í vinstri andlitshelming. Var henni jafnframt ráðlagt að leita til augnlæknis. Í málinu liggur einnig frammi ljósmynd af áverkum A.
Í málinu liggja frammi vottorð Önnu Kristínar Newton sálfræðings hjá Fangelsismálastofnun, um viðtöl hennar við ákærða, þar sem fram kemur að ákærði sé að öðru jöfnu þægilegur í samskiptum og fús til að ræða um sjálfan sig og fangavist sína. Þá liggur einnig fyrir vottorð trúnaðarráðs fanga á Litla-Hrauni þar sem fram kemur að ákærði hafi komið vel fram bæði við fanga og starfsólk og reynt að takast á við fíkniefnaneyslu sína.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði kvaðst hafa verið að aka fram hjá Skókaupum umræddan dag og hafi hann ekki séð neinn þar inni. Hann hafi opnað búðarkassann og ætlað að ganga út, en þá fundið að togað var í hann. Hann kvaðst vita að hann hafi þá snúið sér við og slegið frá sér, en kvaðst ekki vita hvort það var starfsmaður eða ekki sem fyrir högginu varð. Hann kvaðst ekki geta sagt hvort hann hafi slegið með flötum lófa eða krepptum hnefa, og ekki vita hvar höggið lenti. Ákærði kvaðst hafa verið í mikilli þörf fyrir fíkniefni á þessum tíma og kvaðst hann hafa ætlað að kaupa sér kókaín fyrir peningana. Ákærði kvaðst hafa hringt í A síðar og beðið hana afsökunar. Ákærði kvaðst hafa sokkið mjög djúpt í neyslu á undanförnum árum, en áður hefði hann gegnt störfum fyrir Landhelgisgæslu, sem kafari. Hann kvaðst hafa hætt störfum hjá Landhelgisgæslunni árið 2001.
Vitnið, A, kvaðst hafa verið að vinna þennan dag í versluninni og hafi klukkan verið að verða fjögur og hafi hún ætlað að fara að loka. Hún hafi heyrt að verið var að fitla við peningakassann og hafi hún gengið fram. Þá hafi hún mætt ákærða með peninga, sem hann hafði tekið úr kassanum. Vitnið kvað ákærða hafa ætlað að strunsa út og hafi hún togað í peysu hans og spurt hann hvað hann væri að gera. Hafi þá ákærði hrint henni í gólfið, en vitnið hafi staðið upp. Hún hafi farið á eftir ákærða og togað aftur í hann. Þá hafi ákærði kýlt hana með krepptum hnefa í andlitið og hafi hún fallið í gólfið við höggið. Hún kvað höggið hafa komið á auga sitt og nef og hafi hún nefbrotnað við höggið og þurft að fara í nefréttingu. Þá hafi hún fengið stórt glóðarauga. Vitnið kvað að aðeins hafi verið um eitt högg að ræða. Ákærði hafi rokið út og vitnið hafi veitt honum eftirför og tekið niður númer bílsins sem ákærði var á. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða koma inn í búðina, þar sem hún hafi verið innarlega í búðinni. Vitnið kvað ákærða hafa beðist afsökunar á framferði sínu nokkrum dögum síðar. Þá kvaðst vitnið hafa fengið greiddan útlagðan lækniskostnað frá Tryggingastofnun. Spurð um skaðabótakröfu er lýtur að vikulaunum, kvaðst vitnið ekki hafa getað verið í vinnu útlítandi eins og hún var eftir árás ákærða.
Niðurstaða - ákæruliður 1.
Ákærði játaði brot sitt hjá lögreglu og hér fyrir dómi. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi. Hann hefur hins vegar haldið því fram að brot hans verði ekki heimfært undir 252. gr. almennra hegningarlaga þar sem hann hafi fyrst beitt ofbeldi eftir að hann var kominn með fjármunina í hendur. Ákærða og A ber saman um að hann hafi slegið hana, þegar hún reyndi að hindra hann í að komast undan með það fé sem hann hafði þegar tekið úr peningakassa verslunarinnar. Ákærði beitti hana því ofbeldi til að komast undan með fjármunina, en slík háttsemi verður heimfærð til 252. gr. almennra hegningarlaga. Þegar litið er til þeirra miklu áverka sem A hlaut við árás ákærða, en hún nefbrotnaði m.a. við árásina, verður háttsemi hans einnig heimfærð til 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur játað háttsemi þá sem greinir í ákærulið 2 og verður hann sakfelldur fyrir hana, en hún er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Skaðabótakrafa A.
Í málinu liggur frammi skaðabótakrafa A að fjárhæð 452.220 krónur auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. júlí 2006 til greiðsludags. Krafan er sundurliðuð svo:
Peningum rænt úr búðarkassa 12.000 kr.
Vinnutekjutap í 7 daga 112.000 kr.
Miskabætur 250.000 kr.
Útlagður lækniskostnaður 27.424 kr.
Lögmannsþóknun m/vsk. 50.796 kr.
452.220 kr.
Krafan er þannig rökstudd að árásin hafi verið illskeytt og staðið yfir í talsverðan tíma. Við árásina hafi A nefbrotnað, fengið glóðarauga og bólgur og mar á andliti og höndum. Hafi hún þurft að gangast undir aðgerð á nefi og fara í sérstaka augnskoðun.
Ákærði viðurkenndi að hafa stolið 12.000 krónum úr peningakassa verslunarinnar. Verður sá kröfuliður því tekinn til greina.
Kröfuliður vegna vinnutekjutaps er ekki studdur gögnum og verður því vísað frá dómi.
Fallist er á kröfu um miskabætur, en með grófri árás sinni, olli ákærði brotaþola talsverðu líkamlegu tjóni. Með vísan til a. liðs 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 verða miskabætur ákveðnar 200.000 krónur.
Þá verður kröfulið er lýtur að útlögðum lækniskostnaði vísað frá dómi, þar eð fram kom hjá brotaþola að þann hluta kröfu sinnar hefði hún fengið greiddan.
Samanlagt skal ákærði því greiða brotaþola 212.000 krónur, með almennum vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 15. júlí 2006 til dómsuppsögudags, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga af sömu fjárhæð til greiðsludags. Þá greiði ákærði þóknun lögmanns við að halda fram kröfunni, að fjárhæð 50.796 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákæra ríkissaksóknara, dagsett 19. október 2006.
Málavextir
Mánudaginn 31. júlí sl., kl. 13:13 barst lögreglunni tilkynning um rán að Lækjargötu 2, Hafnarfirði, þar sem Bónusvídeó er til húsa. Hafði sá sem þar var að verki ráðist á tvær starfsstúlkur innandyra. Var hann skömmu síðar handtekinn af vegfarendum en vitorðsmaður hans hafði flúið af vettvangi á blárri bifreið.
Í frumskýrslu lögreglu er aðkomu á vettvangi lýst svo að gluggi á 2. hæð á norðurhlið hússins hafi verið brotinn. Fyrir neðan hann hafi verið mikið af glerbrotum og mynt. Svartar leðurtöskur undir peninga og hamar hafi legið á stéttinni Lækjargötumegin. Einnig hafi verið svört skjalataska fyrir utan innganginn og sólgleraugu.
Hinn handtekni reyndist vera ákærði, Ívar Smári Guðmundsson. Hann var í annarlegu ástandi og kvaðst vera nýsloppinn af geðdeild.
Á vettvangi hittust fyrir vitnin, G og H, sem kváðust báðir hafa verið á ferð í bifreiðum sínum og séð þegar maður hafi hent skjalatöskum út um glugga hússins á 2. hæð. Hann hafi tekið á rás og hafi vitnin náð að handsama hann þegar hann var á leið inn í bláa VW Golf bifreið með skráningarnúmerið JG-727. Ökumaður bifreiðarinnar hafi hins vegar ekið á brott með aðra skjaltöskuna.
Bifreið þessi kom í leitirnar 2. ágúst sl. en henni hafði verið lagt á bifreiðarstæði við Melabraut í Hafnarfirði. Umráðamaður hennar var D sem kvaðst, við skýrslutöku hjá lögreglu, hafa lánað ákærða bifreiðina.
Ljósmyndir voru teknar á vettvangi og liggja þær frammi í málinu.
B gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 31. júlí sl. Kvaðst hún hafa verið við störf sín á skrifstofu Bónusvídeós þegar maður í grænni flíspeysu með dökk sólgleraugu hafi komið og spurt um rekstrarstjórann sem ekki hafi verið við. Annar maður hafi komið um 10-15 mínútum síðar. Hann hafi verið um 22-26 ára og klæðst svartri hettuúlpu með aðreimaða hettu á höfði. Þá hafi hann verið í svörtum buxum og með sólgleraugu. Maðurinn hafi gripið í hana og haldið henni fastri á meðan hann barði hana með krepptum hnefa í höfuðið. Kvaðst hún hafa kallað á C, starfsfélaga sinn og hafi ákærði þá hlaupið inn á skrifstofu C. Hafi C náð að læsa manninn inni á skrifstofunni og þaðan hafi hann bersýnilega stokkið út um gluggann. Við myndsakbendingu hinn 8. ágúst sl. bar hún kennsl á ákærða og kvað hann vera þann aðila sem ráðist hafði á hana.
C skýrði svo frá hjá lögreglu sama dag að hún hafi verið með uppgjör verslananna á skrifborði sínu, samtals 1.207.000 krónur í taupokum, þegar hún hafi heyrt öskrin í B. Hafi hún gengið í átt að hurðinni og þá mætt svartklæddum manni með sólgleraugu. Hann hafi kýlt hana vinstra megin í höfuðið, en við það hafi hún dottið aftur fyrir sig á gólfið. Hafi maðurinn grúft sig yfir peningana sem á skrifstofunni voru en þar hafi jafnframt verið uppgjör vegna sunnudags í svörtum leðurtöskum.
Í málinu liggja frammi læknisvottorð Ófeigs T. Þorgeirssonar vegna B og C. Í vottorði vegna B, dagsettu 25. ágúst 2006, segir að á gagnauga og hliðlægt á höfði vinstra megin hafi verið þroti í hársverðinum og kúla, sem merki blæðingu undir húð, u.þ.b. 5x5 cm í þvermál. Þessir áverkar geti vel samrýmst þeirri árás sem hún hafi lýst. Greining er yfirborðsáverki á höfði, mar á brjóstkassa, mar á mjöðm og höfuðverkur. Í vottorði vegna C, dagsettu 9. ágúst 2006, segir að lítils háttar kúla hafi verið á hársverði á gagnaugasvæði sem og hliðlægt á höfði vinstra megin. Þá hafi hún verið aum á stöku stað við þreifingu. Greining er tognun og ofreynsla á hálshrygg, mar á mjóbaki og mar á brjóstkassa.
Ákærði var yfirheyrður 1. ágúst sl. vegna málsins. Kvaðst hann hafa verið í mikilli fíkniefnaneyslu og á flakki. Hann kvaðst ekki muna eftir því sem gerst hefði en kvaðst eiga sólgleraugu þau sem fundust á vettvangi. Þá kvaðst hann hafa hlotið áverka sem ,,hugsanlega væru eftir slagsmálin við mennina fyrir utan sjoppuna“. Ákærði var yfirheyrður á ný 3. ágúst sl. og kvaðst hann þá ekki muna eftir neinu nema slagsmálum fyrir utan Bónusvídeó. Ákærði var hnepptur í gæsluvarðhald sama dag og sætti því til 11. ágúst sl. en þann dag var honum með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert, vegna rofa á reynslulausn, að afplána 300 daga eftirstöðvar 20 mánaða refsingar sem hann hafði hlotið með dómi Malmö Tingsrätt í Svíþjóð 10. febrúar 2005.
Helgi Guðbergsson læknir mat ástand ákærða eftir handtöku. Í mati hans kemur fram að hann hafi tekið a.m.k. 2 lyf þennan dag. Nefndi hann benzodíazepín/mogadon, amfetamín og kókaín. Þá kvaðst hann nota kókaín og amfetamín daglega en einnig seroquel og svefnlyf reglulega. Meðvitund ákærða var sögð sljó, hann væri þó áttaður á stað og stund. Andlit og húð sé eðlileg en svipbrigði óeðlileg. Augu hans hafi verið glansandi, ljósop víð, birtuviðbragð tregt, nystagmus áberandi og convergens geta aðeins skert. Þá hafi ekki verið lykt úr munni. Púls hans hafi verið 90 með reglulegum takti. Þá hafi hegðun hans verið sljóleg, framburður óskýr og þráður tals að hluta til óeðlilegur. Athygli hans hafi verið sæmileg og samvinna góð. Taldi læknirinn ákærða vera í annarlegu ástandi vegna vímuefna.
Samkvæmt niðurstöðu mælingar á blóð- og þvagsýni ákærða kemur fram að 245 ng/ml af amfetamíni hafi mælst í þvagi. Styrkur þess hafi verið töluvert hærri en eftir lækningalega skammta og hafi hlutaðeigandi því verið undir miklum örvandi áhrifum afmetamíns er sýnið var tekið 31. júlí sl.
I lagði fram kæru 25. ágúst sl. fyrir hönd Bónusvídeós hf. á hendur ákærða vegna ráns á skrifstofum fyrirtækisins. Samkvæmt framlögðum gögnum hans hafði ákærði komið undan 1.455.344 krónum í reiðufé. Var I afhent það fé sem haldlagt var á vettvangi samtals 353.737 krónur.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Kvaðst ákærði einungis muna eftir því að hafa losnað út úr Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg umræddan dag og farið upp á Vog. Þar hafi hann ,,dottið í það“. Svo kvaðst ákærði ekki muna eftir sér fyrr en í einhverjum slagsmálum fyrir utan Bónusvídeó og lögreglubíl þar. Spurður um þann sem ók bifreiðinni umrætt sinn, sem hafi þá verið vitorðsmaður ákærða, kvaðst ákærði ekki muna neitt annað. Hann kvaðst ekki hafa séð krónu af því sem tekið var, þ.e. þeim 1.455.344 krónum sem teknar voru. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa komið inn í Bónusvídeó, Hafnarfirði og slegið tvær konur í höfuðið. Þá kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa brotið rúðu í Bónusvídeói og stokkið út um gluggann.
Ákærði var spurður um samtal sem ákærði átti við lögreglumanninn Helga Kr. Gunnarsson eftir að ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald, en skjalið er merkt VII.1. Kvaðst ákærði ekki munu gera þá hluti sem hann lýsti í samtalinu, ef hann væri án vímuefna, en hann væri hræddur um að gera slíka hluti undir áhrifum vímuefna. Kvaðst ákærði hafa á þessum tíma verið orðinn hræddur um geðheilsu sína og því viljað leita til geðdeildar. Í samtalinu lýsti ákærði því að hann vildi ganga niður Laugaveg með haglabyssu og svipta einhverja manneskju lífi, til að sjá á henni ,,angistarsvipinn“.
Vitnið, B, kvað mann hafa komið inn í Bónusvídeó um hálfeitt umræddan dag og spurt um rekstrarstjórann. Honum hafi verið sagt að hann væri ekki við. Skömmu síðar hafi annar maður komið inn í búðina og sagðist sá maður vera að athuga með vinnu. Vitnið hafi sagt honum að hann þyrfti að fara niður ef hann væri að athuga með vinnu. Ákærði hafi þá lamið vitnið ítrekað í höfuðið með krepptum hnefa og hafi hann beint höfði hennar að borðinu sem hún sat við, meðan hann lamdi hana í höfuðið. Maðurinn hafi verið í svartri úlpu og í hettupeysu og með svarta hettu á höfði. Vitnið kvaðst kannast við þann framburð sinn í lögregluskýrslu að ákærði hefði einnig verið með sólgleraugu með bláleitu gleri. Ákærði hafi síðan farið inn í herbergi, sem var inn af herbergi því sem hún var í. Þar hefði ákærði slegið aðra starfsstúlku og síðan hafi hann stokkið út um gluggann. Vitnið kvað C, samstarfsstúlku sína, hafa náð að læsa ákærða inni, en síðan hafi heyrst brothljóð. Þegar ákærði var kominn út hafi vitnið hlaupið niður og séð að einhverjir menn höfðu náð ákærða. Vitnið kvaðst hafa borið kennsl á ákærða í myndflettingu hjá lögreglu. Þá kvaðst vitnið hafa borið kennsl á ákærða á mynd sem merkt er VII-4 í skjalaskrá. Vitnið kvaðst hafa fengið kúlur á höfuðið og orðið aum við árás ákærða. Hún kvaðst hafa farið á bráðamóttökuna sama dag og atvikið varð. Vitnið kvaðst vera varari um sig eftir þennan atburð og kveðst ætíð vera á varðbergi er hún mætir í vinnuna.
Vitnið, C, kvaðst hafa verið að vinna umræddan dag í uppgjöri Bónusvideó. Hún hafi heyrt hljóð í B og hafi hún gengið í átt að hurðinni. Þá hafi svartklæddur, grannur maður, með blá sólgleraugu og með svarta hettu komið á móti henni og kýlt hana í höfuðið í krepptum hnefa. Við það hafi hún dottið og skollið harkalega á bakið og fengið mar á rassinn. Ákærði hafi ekki sagt orð, en gengið í átt að uppgjörspokunum og hafi þá vitnið náð í lykil að hurðinni og náð að læsa ákærða inni í herberginu. Ákærði hafi náð að lemja mjög fast á hurðina með hamri og stuttu síðar, er vitnið var að reyna að ná sambandi við lögreglu, hafi ákærði brotið gluggann í herberginu og stokkið út. Þá hafi vitnið hlaupið niður og ætlað sér að ná í pokana sem ákærði hafði hent út um gluggann. Þá hafi vitnið séð að lögregla var komin og hafi lögreglumenn verið búnir að handtaka ákærða. Vitnið kvað þessa árás hafa haft meiri andleg áhrif á sig, en líkamleg og kvaðst vera mun varari um sig, en áður. Tilhugsunin um að koma fyrir dóm vegna þessa, hafi til að mynda komið henni í uppnám. Vitnið kvaðst hafa farið á slysadeild eftir árásina.
Vitnið, I, kvaðst ekki hafa verið viðstaddur er ránið átti sér stað. Spurður um það fé sem stolið var í ráninu, kvað vitnið það hafa verið 1.455.344 krónur, samkvæmt uppgjörskerfi fyrirtækisins. Ránið hafi átt sér stað á mánudegi og þá séu gerðir upp þrír dagar fyrir allar videóleigur höfuðborgarsvæðisins. Þá hafi verið eyðilagðir gluggar í fyrirtækinu, skemmdir hafi orðið á hurð og einnig á skrifborðsstól. Vitnið kvað fyrirtækið ekki tryggt fyrir því peningatjóni sem félagið varð fyrir, en það væri tryggt fyrir öðru tjóni. Vitnið kvað bótakröfuna vera gerða fyrir lögreglu 25. ágúst 2006.
Vitnið, G, kvaðst hafa verið á bíl á gatnamótum við Bónusvideó í Hafnarfirði, umræddan dag, þegar hann hafi séð glerbrot hrynja úr rúðu, tveimur eða þremur töskum hafi verið hent út um gluggann og einnig hafi vitnið séð mann stökkva út um gluggann. Maðurinn hafi reynt að hlaupa inn í bláan Golf sem var þarna og hafi hann náð að setja eina, frekar en tvær töskur inn í Golfinn. Ökumaður Golfsins hafi ekið af stað, en tveir menn hafi náð að stöðva manninn og vitnið hafi einnig skorist í leikinn. Hafi þeir í sameiningu náð að draga manninn út úr bílnum áður en bílnum var ekið af stað og halda honum þar til lögregla kom. Vitnið kvaðst aldrei hafa misst sjónar á manninum, frá því að hann stökk út um gluggann og þar til lögregla handsamaði hann.
Vitnið, H, kvaðst hafa verið á bíl við Bónusvídeó umræddan dag, þegar glerbrotum hafi rignt yfir götuna. Þá hafi vitnið séð mann henda töskum niður á götu og á eftir hafi maðurinn hent sér út um gluggann. Síðan hafi maðurinn tekið á rás og hafi vitnið hlaupið eftir honum. Á bílastæði við Bónus hafi staðið blár Golf og hafi maðurinn reynt að koma sér inn í bílinn, en vitnið hafi dregið manninn út úr bílnum. Ökumaður bílsins hafi ,,spólað“ af stað og ekið burt. Vitnið kvað íslenskan mann hafa aðstoðað vitnið við að halda manninum.
Niðurstaða.
Ákærði kvaðst fyrir dómi ekki minnast annars en einhverra slagsmála fyrir utan Bónusvídeó umræddan dag og lögreglubíls þar.
Vitnin B og C gáfu báðar greinargóða lýsingu á manni þeim sem kom inn á skrifstofuna umræddan dag og kemur sú lýsing heim og saman við ákærða. Þá bar vitnið B kennsl á ákærða við myndflettingu hjá lögreglu. Vitnið C sagðist hafa náð að læsa manninn inni á skrifstofu og síðan hafi hún heyrt brothljóð. Þær sögðust báðar hafa séð ákærða fyrir utan er búið var að handsama hann. Vitnin H og G kváðust báðir hafa séð er glerbrotum rigndi yfir götuna frá glugga í Bónusvídeó og töskum hafi verið hent þaðan út, en síðan hafi maður stokkið út um gluggann. Vitnið H kvaðst hafa veitt manninum eftirför og náð að handsama hann, er hann var á leið inn í bláan Golf, og hafi vitnið G aðstoðað hann. Bæði G og H sögðust hafa haft manninn í augsýn allan tímann, en maðurinn sem þeir handsömuðu var síðar handtekinn af lögreglu og reyndist vera ákærði í máli þessu. Vitnin H og G kváðust báðir hafa séð manninn hafa hent töskum út um gluggann og samkvæmt framburði vitnisins C var hún að vinna að helgaruppgjöri og hafði nýlokið við að setja peninga í þar til gerðar töskur. Þegar framangreint er virt er hafið yfir skynsamlegan vafa að sá maður sem kom inn í skrifstofu Bónusvídeó umrætt sinn, braut þar rúðu á 2. hæð og henti út töskum með peningum var ákærði í máli þessu.
Vitnisburður B um líkamsmeiðingar ákærða var trúverðugur og í samræmi við þann framburð sem hún gaf hjá lögreglu. Vitnið C kvaðst hafa heyrt hljóð í B og því gengið fram. Samkvæmt framlögðu áverkavottorði hennar samrýmast þeir áverkar sem hún hlaut þeirri lýsingu sem hún gaf á ofbeldi ákærða í hennar garð.
Vitnisburður C um líkamsmeiðingar ákærða í hennar garð er einnig trúverðugur og í samræmi við þann framburð er hún gaf hjá lögreglu og samkvæmt framlögðu áverkavottorði hennar samrýmast þeir áverkar er hún hlaut þeirri lýsingu sem hún gaf á árás ákærða í hennar garð.
Samkvæmt vætti vitnisins I voru teknar í ráninu 1.455.344 krónur, en vitnið kvað að sú fjárhæð væri fengin úr uppgjörskerfi fyrirtækisins. Í málinu liggur frammi sundurliðun á fjárhæðinni. Í framburði C hjá lögreglu, sem var umræddan dag að vinna í helgaruppgjöri fyrir fyrirtækið, kom fram að hún hefði haft á borði sínu 1.207.608 krónur í taupokum er ákærði réðist inn á skrifstofuna. Þá kemur fram í frumskýrslu lögreglu að er lögregla kom á vettvang hafi legið mikið af mynt á götunni fyrir utan brotavettvang, en hluti þess sem saknað er úr ráninu er mynt.
Þegar allt framangreint er virt er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og er háttsemi hans réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Skaðabótakrafa Bónusvideós.
Skaðabótakrafa Bónusvideós er sett fram í lögregluskýrslu frá 25. ágúst 2006 að fjárhæð 1.455.344 krónur auk tjóns sem varð á rúðu, hurð, skrifborðsstól og leðurtösku. Ákærði hefur mótmælt kröfunni. Sundurliðun fjárhæðarinnar liggur frammi í málinu. Vitnið I skýrði fyrir dóminum hvernig fjárhæðin var fundin, en auk þess kom fram hjá vitninu C, að hún hefði haft fyrir framan sig uppgjör vegna föstudagssölunnar að fjárhæð 1.207.608 krónur, er ákærði réðist inn í skrifstofuna. Auk þess hafi hún verið að vinna í laugardagssölunni og þá hafi sunnudagssalan verið í leðurtöskum sem lágu á gólfinu ásamt helmingi af sunnudagsuppgjörinu sem var í taupoka. Vitnið I bar fyrir dómi að einungis væri krafist bóta fyrir tjón sem ekki hefði fengist bætt frá tryggingum. Þegar litið er til framangreinds verður ákærði dæmdur til greiðslu skaðabótakröfu Bónusvídeós að fjárhæð 1.455.344 krónur.
Ákæra lögreglustjórans í Reykjavík, dagsett 8. nóvember 2006.
Ákærði játaði þá háttsemi sem greinir í ákæru þessari. Spurður um ákærulið 1, kvaðst hann hafa verið einn að verki, en D hefði leigt fyrir hann bíl. D hefði ekki verið með í þjófnaði þeim er greinir í ákærulið 1 í ákærunni. Spurður um ákærulið 4, kvaðst ákærði vilja taka fram að hann hafi ekki vitað að hann myndi hitta fyrir gamla konu, sem var móðir mannsins sem ákærði ætlaði að hitta.
Spurður um afstöðu til bótakrafna þeirra er greinir í þessum ákærukafla kvaðst ákærði samþykkja bótaskyldu varðandi þær bótakröfur sem lagðar hafa verið fram, en mótmælir bótafjárhæðum. Ákærði er samkvæmt framangreindu sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru þessari greinir og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Skaðabótakröfur
1. Landsbanki Íslands hf. hefur krafist bóta að fjárhæð 1.608.997 krónur auk vaxta og dráttarvaxta. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir þjófnað í félagi við annan mann. Ákærði ber, ásamt honum, skaðabótaábyrgð á því tjóni sem Landsbanki Íslands varð sannanlega fyrir af þeirra völdum, en þar sem skaðabótakröfunni hefur í þessu máli ekki verið beint að öllum sem bótaábyrgð bera, verður ekki hjá því komist að vísa henni frá dómi.
2. Skeljungur hf. hefur krafist bóta að fjárhæð 300.000 krónur auk vaxta og dráttarvaxta. Með vísan til þess sem segir hér að ofan um skaðabótakröfu Landsbanka Íslands hf., verður þessari skaðabótakröfu einnig vísað frá dómi.
3. Gistiheimilið Tærgesen krefst bóta að fjárhæð 23.600 krónur auk vaxta og dráttarvaxta. Í málinu liggur frammi reikningur að fjárhæð 9.200 krónur, stílaður á ákærða vegna gistingar í 2 nætur á gistiheimilinu Tærgesen. Verður ákærði dæmdur til greiðslu 9.200 króna í samræmi við framangreint.
Refsiákvörðun.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hlaut hann fyrst dóm 5. nóvember 1999, 45 daga fangelsi fyrir þjófnað og ölvunarakstur. Refsing hans var skilorðsbundin í tvö ár og hélt ákærði það skilorð. Ákærði var dæmdur í 3 mánaða fangelsi fyrir þjófnað og brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni, 14. júlí 2004. Refsing hans var bundin skilorði í 2 ár. Þá hlaut ákærði 20 mánaða fangelsisdóm, uppkveðinn í Tingsrätten í Malmö, Svíþjóð, 10. febrúar 2005, fyrir fíkniefnasmygl. Skilorðsdómurinn frá 14. júlí 2004 var þá ekki tekinn upp. Ákærða var veitt reynslulausn í 2 ár á 300 daga eftirstöðvum þessa dóms hinn 14. nóvember 2005. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 24. maí 2005 var ákærða ekki gerð sérstök refsing fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni. Þá var honum ekki gerð sérstök refsing með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. júní 2005, vegna brots gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Hinn 9. nóvember 2005 var ákærða ekki gerð sérstök refsing fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni, ölvunarakstur og fleiri umferðarlagabrot en í því máli var um að ræða hegningarauka við sænska dóminn. Hann var sviptur ökuréttindum í 2 ár frá 30. nóvember 2005. Á árinu 2006 gekkst ákærði undir tvær sáttir hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, 28. apríl 2006, vegna brots gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Þá var ákærði 7. júní sl. dæmdur til greiðslu 200.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. og 1. sbr. 3. mgr. 37. gr. umferðarlaga og var auk þess sviptur ökuréttindum í 4 mánuði frá 30. nóvember 2007. Loks gekkst ákærði undir sátt hjá lögreglustjóranum í Reykjavík 19. júlí sl. og var gert að greiða 215.000 króna sekt fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.
Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir 2 ránsbrot, líkamsárás, fjársvik, þjófnað, húsbrot, eignaspjöll, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Ránsbrot ákærða voru gróf og líkamlegt ofbeldi ákærða í garð starfsmanna þeirra er fyrir honum urðu, sérlega fólskulegt. Einkum á það við um annað ránsbrotið, þar sem starfsmaður nefbrotnaði við árás ákærða.
Þá var hluti brota ákærða unninn í félagi með öðrum og verðmæti sem stolið var í þjófnaðarbroti voru töluverð, auk þess sem verðmæti í öðru ránsbroti voru töluverð og komst ekki nema lítill hluti þeirra til skila.
Varðandi ákvörðun refsingar vegna umferðarlagabrots ákærða ber að líta til þess að ákærði hefur tvisvar áður verið gerð refsing vegna aksturs sviptur ökurétti.
Ákærði hefur með brotum sínum rofið skilorð reynslulausnar sem hann hlaut á 300 daga eftirstöðvum refsingar 14. nóvember 2005.
Ber því með vísan til 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, að ákvarða refsingu ákærða í einu lagi fyrir brot hans nú samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga og með hliðsjón af hinni óafplánuðu refsingu. Verður refsingin jafnframt ákveðin með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga, þar sem um mörg brot er að ræða og 78. gr. almennra hegningarlaga, þar sem hluti brota ákærða eru framin fyrir uppkvaðningu dómsins frá 7. júní 2006. Þá verður horft til þess að ákærði hefur áður gerst sekur um auðgunarbrot og ofbeldisbrot, sbr. 255. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga.
Jafnframt verður við ákvörðun refsingar litið til þess að ákærði játaði þann hluta brota sinn greiðlega sem hann mundi eftir og var samvinnuþýður við meðferð málsins fyrir dómi.
Með vísan til framangreinds verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 4 ár. Til frádráttar refsingu ákærða kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 17.-22. febrúar 2006 og 1.-11. ágúst 2006.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins, 935.454 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 405.372 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk aksturskostnaðar hans, 10.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Dagmar Arnardóttir fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Ívar Smári Guðmundsson, sæti fangelsi í 4 ár. Til frádráttar refsingu ákærða kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 17.-22. febrúar 2006 og 1.- 11. ágúst 2006.
Ákærði greiði Bónusvídeó ehf. 1.455.344 krónur, gistiheimilinu Tærgesen 9.200 krónur, A 212.000 krónur, með almennum vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 15. júlí 2006 til dómsuppsögudags, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga af sömu fjárhæð til greiðsludags. Þá greiði ákærði lögmannsþóknun hennar 50.796 krónur.
Bótakröfum Landsbanka Íslands hf. og Skeljungs hf. er vísað frá dómi.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins 935.454 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 405.372 krónur, auk aksturskostnaðar hans, 10.000 krónur.