Hæstiréttur íslands

Mál nr. 247/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sakarauki
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                         

Þriðjudaginn 24. ágúst 1999.

Nr. 247/1999.

Jón Brynjólfsson og

Magnús B. Brynjólfsson

(Magnús B. Brynjólfsson hdl.)

gegn

Sigurði K. Brynjólfssyni

Stefáni H. Brynjólfssyni

Þorbirni Brynjólfssyni og

Guðmundi Brynjólfssyni

(Örn Höskuldsson hrl.)

Kærumál. Sakaukasök. Frávísunarúrskurður staðfestur.

J og M sakaukastefndu SI, ST, Þ og G vegna máls sem þeir höfðu áður höfðað. Talið var að J og M hefðu ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að þeim yrði ekki metið til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur á hendur SI, ST, Þ og G í upphaflega málinu. Var því staðfestur úrskurður héraðsdómara um að vísa sakaraukningunni sjálfkrafa frá dómi með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 25. maí 1999, þar sem sakaukasök sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka sakaraukningu þeirra til efnislegrar meðferðar. Þeir krefjast einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins þingfestu sóknaraðilar 3. mars 1999 mál á hendur Ágústi Sigurðssyni, Ásgerði Pálsdóttur, Glaumbæ ehf., Brynjólfi Friðrikssyni, Óskari Ólafssyni, Gróu M. Lárusdóttur, Framleiðsluráði landbúnaðarins, landbúnaðarráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Með sakaukastefnu, sem var birt 23., 24. og 29. sama mánaðar, beindu sóknaraðilar fyrst kröfum að varnaraðilum í tengslum við það mál. Sóknaraðilar hafa ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að þeim verði ekki metið til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur á hendur varnaraðilum þegar í upphaflega málinu. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 25. maí 1999.

I.

                Með stefnu þingfestri 3. mars. sl,. höfðuðu stefnendur máls þessa mál á hendur Ágústi Sigurðssyni, Ásgerði Pálsdóttur, Glaumbæ ehf., Brynjólfi Friðrikssyni, Gróu M. Lárusdóttur, framleiðsluráði landbúnaðarins, landbúnaðarráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu.  Aðalkrafa stefnenda í því máli er að ógild verði með dómi sala á greiðslumarki mjólkur frá lögbýlinu Geitaskarði.  Til vara er gerð krafa um greiðslu skaðabóta frá stefnda Ágústi.

                Með sakaukastefnu birtri 23., 24 og 29. mars en þingfestri 7. apríl sl., höfða stefnendur aðalmálsins Jón Brynjólfsson, kt. 201049-7849, Víðihlíð 6, Sauðárkróki og Magnús Brynjólfsson, kt. 010853-3469, Hafnarstræti 20, Reykjavík mál á hendur Sigurði K. Brynjólfssyni 051142-8299, Fornuströnd 12, Seltjarnarnesi, Stefáni H. Brynjólfssyni, kt. 160447-3709, Víðihlíð 2, Reykjavík, Þorbirni Brynjólfssyni kt.

150744-2459, Blikahólum 6, Reykjavík og Guðmundi Brynjólfssyni, kt. 011058-2569, Blikahólum , Reykjavík.

               

Dómkröfur stefnenda.

                Stefnendur krefjast þess, að stefndu verði dæmdir til að þola riftun og ógildingu á samningum um sölu greiðslumarks mjólkur, sem var að heildarmagni 54.061 lítri á ársgrundvelli frá lögbýlinu Geitaskarði, Engihlíðarhreppi þannig að þeir verði án vafa bundnir af niðurstöðu dómsins.  Þess er krafist að sakaraukning þessi verði sameinuð aðalmáli.

Dómkröfur stefndu.

                Stefndu krefjast þess aðallega, að málinu verði vísað frá dómi.  Til vara að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnenda.  Í báðum tilfellum krefjast þeir málskostnaðar úr hendi stefnenda að viðbættum virðisaukaskatti. 

II.

                Svo sem fyrr er getið höfðuðu stefnendur mál, sem þingfest var 3. mars sl., á hendur nafngreindum aðilum.  Með sakaukastefnu þessari vilja þeir koma sakaukastefndu inn í það mál og gera kröfu um að sakaukamál þetta verði sameinað aðalmáli. 

                Í þinghaldi 20. þ.m. gaf dómari lögmönnum aðila kost á að tjá sig munnlega um það álitaefni hvort hugsanlega séu gallar á höfðun máls þessa að sætt gæti frávísun frá dómi án kröfu.

                Að mati dómsins stóð ekkert því í vegi fyrir stefnendum við höfðun aðalmálsins að stefna þeim sakaukastefndu inn í aðalmálið strax við útgáfu stefnu.  Jafnvel þó stuttur tími sé liðinn frá því að aðalmálið var þingfest telur dómurinn að meta verði þetta til vanrækslu af hálfu stefnenda og því sé rétt að vísa máli þessu frá dómi ex officio með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

                Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður stefnendum sameiginlega gert að greiða stefndu 40.000 krónur í málskostnað auk virðisaukaskatts.

                Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp úrskurð þennan. 

Úrskurðarorð:

                Mál þessu er vísað frá dómi.

                Stefnendur Jón Brynjólfsson og Magnús Brynjólfsson greiði, sameiginlega, stefndu Sigurði Brynjólfssyni, Stefáni H. Brynjólfssyni, Þorbirni Brynjólfssyni og Guðmundi Brynjólfssyni 40.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti í málskostnað.