Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-66

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Guðbjarni Eggertsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Ólögmæt nauðung
  • Kynferðisleg áreitni
  • Börn
  • Sönnun
  • Miskabætur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 18. mars 2025 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 20. febrúar sama ár í máli nr. 40/2024: Ákæruvaldið gegn X. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 5. mars 2025. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærður annars vegar fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni með því að hafa, án samþykkis og með því að beita ólögmætri nauðung, haft samræði við brotaþola, sem þá var 13 ára, ásamt því að láta hana hafa við sig munnmök. Var háttsemi leyfisbeiðanda í ákæru talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar var leyfisbeiðandi ákærður fyrir kynferðislega áreitni með því að hafa í nokkur skipti á um sex mánaða tímabili áreitt annan brotaþola kynferðislega með því að þukla að minnsta kosti fjórum sinnum á brjóstum hennar innanklæða og reyna tvisvar að færa hönd að kynfærum hennar, rassskellt hana einu sinni og segja að hún væri með flottan rass. Sú háttsemi leyfisbeiðanda var í ákæru talin varða við 199. gr. almennra hegningarlaga.

4. Leyfisbeiðandi var sakfelldur í héraðsdómi samkvæmt fyrsta ákærulið að því undanskildu að háttsemi hans var einvörðungu talin varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga um kynferðisbrot gegn barni en ekki fela í sér nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. laganna. Um þennan ákærulið var ekki talið sannað að hann hefði látið brotaþola hafa við sig munnmök. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um þá háttsemi sem leyfisbeiðanda var gefin að sök í fyrsta ákærulið, en heimfærði hana jafnframt til 1. mgr. 194. gr. laganna. Var vísað til þess að hann hefði beitt brotaþola ólögmætri nauðung í skilningi 3. málsliðar 1. mgr. greinarinnar. Landsréttur tók fram að það leiddi jafnframt af 1. mgr. 202. gr. laganna að samþykki brotaþola til kynmaka hefði aldrei getað verið fyrir hendi. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda samkvæmt öðrum ákærulið var staðfest. Refsing hans sem var ákveðin tveggja ára fangelsi í héraði var í Landsrétti ákveðin þriggja ára og sex mánaða fangelsi.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi fordæmisgildi um hvort barn undir 15 ára aldri geti gefið samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum. Hann hafi verið sýknaður af nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga með héraðsdómi en sakfelldur í Landsrétti og því skuli verða við ósk hans um áfrýjunarleyfi. Þá telur leyfisbeiðandi dóm Landsréttar bersýnilega rangan að formi og efni til, niðurstaða málsins byggi á reikulum framburði brotaþola og rangt mat hafi verið lagt á samskipti aðila á samfélagsmiðlum. Með dóminum sé brotið gegn grundvallarsjónarmiðum um sönnun í sakamálum.

6. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu leyfisbeiðanda og um önnur atriði að því leyti sem hún byggir á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar verður ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laganna skal hins vegar verða við ósk ákærðs manns, sem sýknaður er af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Þar sem slíku verður ekki slegið föstu í tilviki leyfisbeiðanda verður beiðnin samþykkt.