Hæstiréttur íslands

Mál nr. 387/2010


Lykilorð

  • Vátrygging
  • Slysatrygging ökumanns
  • Uppsögn
  • Tilkynning
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 10. febrúar 2011.

Nr. 387/2010.

Ásdís Rán Gunnarsdóttir

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

Verði tryggingum hf.

(Björn L. Bergsson hrl.)

Vátrygging. Slysatrygging ökumanns. Uppsögn. Tilkynning. Miskabætur.

Á krafði V hf. um bætur úr slysatryggingu ökumanns bifreiðar eiginmanns hennar vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í bílslysi. Ágreiningur aðila laut að því hvort vátrygging bifreiðarinnar hefði verið fallin úr gildi á slysdegi vegna vanefnda við greiðslu iðgjalds. Var fallist á að svo hefði verið og V hf. sýknað af kröfum Á.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2010. Hún krefst þess að viðurkenndur verði réttur hennar til bóta úr slysatryggingu ökumanns, samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, úr hendi stefnda vegna líkamstjóns sem hún hafi orðið fyrir í bílslysi 2. mars 2007 þar sem hún var ökumaður bifreiðarinnar RH 128. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi var ökumaður bifreiðar eiginmanns síns er hún lenti í árekstri 2. mars 2007. Stefndi hefur hafnað kröfu hennar um viðurkenningu á bótaskyldu úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga. Telur stefndi að vegna vanefnda við greiðslu iðgjalds hafi vátrygging vegna bifreiðarinnar fallið úr gildi tæpum átta mánuðum fyrir slysið, eða 9. ágúst 2006.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi reisir áfrýjandi kröfu sína í fyrsta lagi á því að eiginmanni hennar hafi ekki borist lögboðnar tilkynningar varðandi niðurfellingu tryggingarinnar. Í öðru lagi að stefndi hafi einungis fellt niður ábyrgðartryggingu ökutækisins samkvæmt 91. gr. umferðarlaga en ekki slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. laganna. Í þriðja lagi hafi skylda stefnda til vátryggingar ökutækisins raknað við vegna iðgjaldsgreiðslu 6. september 2006 að fjárhæð 30.000 krónur.

Málsaðilar miða báðir við að eiginmaður áfrýjanda hafi tekið ökutækjatryggingu 13. desember 2005 er hann keypti umrædda bifreið og skyldi hún gilda frá þeim degi til 30. nóvember 2006. Óumdeilt er að iðgjaldið var ekki greitt að fullu fyrir 9. ágúst 2006 sem er sá dagur er stefndi kveður trygginguna hafa fallið úr gildi. Samkvæmt gögnum málsins voru eiginmanni áfrýjanda send fjögur bréf í almennum pósti með áskorunum um greiðslu iðgjalds, eða 30. maí, 8. júní, 17. júlí og 8. ágúst 2006. Í bréfunum var ætíð viðvörun um að vanefndir gætu leitt til þess að vátrygging yrði felld úr gildi. Bréf þessi voru öll stíluð á sama heimilisfang sem óumdeilt er að hafi verið lögheimili eiginmanns áfrýjanda. Þá var bréf dagsett 9. ágúst 2006 borið út með ábyrgðarpósti á lögheimili hans 14. sama mánaðar með tilkynningu um niðurfellingu tryggingar. Er fallist á með héraðsdómi að þessi háttur sem viðhafður var við innheimtutilraunir og uppsögn tryggingar í kjölfarið hafi verið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 33. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og fyrirmæli 2. mgr. 11. gr. þágildandi reglugerðar nr. 392/2003 um lögmæltar ökutækjatryggingar.

Í 92. gr. umferðarlaga er að finna ákvæði um sérstaka slysatryggingu vegna tjóns sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar skal, auk ábyrgðartryggingar samkvæmt 91. gr., hver ökumaður sem ökutækinu stjórnar tryggður sérstakri slysatryggingu, enda hafi hann ekki notað ökutækið í algeru heimildarleysi, sbr. 2. mgr. 90. gr. laganna. Eftir 1. mgr. 93. gr. hvílir vátryggingarskylda samkvæmt 91. og 92. gr. á eiganda ökutækisins eða þeim sem hefur varanlega umráð þess. Þá er kveðið á um í 1. mgr. 94. gr. lagana að ráðherra setji reglur um framkvæmd vátryggingarskyldunnar. Var þágildandi reglugerð nr. 392/2003 sett meðal annars með heimild í því ákvæði, en samkvæmt 1. gr. hennar tók hún bæði til lögmæltrar ábyrgðartryggingar og lögmæltrar slysatryggingar ökumanns og vátryggingartaka sem farþega í eigin ökutæki. Í 11. gr. reglugerðarinnar, sem stefndi vísaði til í bréfum 30. maí og 9. ágúst 2006 og í 2. gr. reglugerðarinnar, sem stefndi vísaði til í bréfi 8. ágúst 2006, var síðan að finna fyrirmæli um tilkynningar, innheimtu og lok slíkra trygginga. Í bréfum stefnda 8. júní og 17. júlí 2006 var vísað til ökutækjatryggingar vegna bifreiðarinnar samkvæmt tilgreindu vátryggingarskírteini, en tryggingar samkvæmt því voru ábyrgðartrygging ökutækis, slysatrygging ökumanns og eiganda og rúðutrygging ökutækis. Í öðrum framangreindum bréfum var vísað til lögboðinnar vátryggingar eða ökutækjatryggingar vegna bifreiðarinnar. Með þessum athugasemdum verður fallist á með héraðsdómi að réttmætur vafi hafi ekki getað leikið á að bréfin hafi tekið bæði til lögmæltrar ábyrgðar- og slysatryggingar samkvæmt 91. og 92. gr. umferðarlaga og reglugerð nr. 392/2003.

Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti voru aðilar sammála um að greiðsla, að fjárhæð 20.000 krónur sem færð var á viðskiptareikning stefnda 22. febrúar 2006, hafi stafað frá áfrýjanda og verið ætluð til greiðslu á iðgjaldi af bifreið í hennar eigu, RH 594. Að ósk áfrýjanda mun sú greiðsla hafa verið bakfærð af fyrrgreindum reikningi og færð á viðskiptareikning áfrýjanda hjá stefnda 8. maí 2006. Eins og að framan greinir var við það miðað þegar trygging var tekin að tryggingartímabilið skyldi vera frá 13. desember 2005 til 30. nóvember 2006. Iðgjaldið var 59.358 krónur. Er óumdeilt að vegna tryggingarinnar voru stefnda greiddar samtals 55.000 krónur í iðgjald, eða 25.000 krónur 12. júní 2006 og 30.000 krónur 6. september 2006. Höfuðstóll iðgjaldsins fyrir tímabilið frá 13. desember 2005 til og með 8. ágúst 2006 nam 40.190 krónum, en vextir og innheimtukostnaður 14.810 krónum, eða samtals þeirri fjárhæð sem innt var af hendi vegna tryggingarinnar. Þegar í ljósi þessa verður ekki fallist á með áfrýjanda að líta megi svo á að framangreind greiðsla að fjárhæð 30.000 krónur 6. september 2006 hafi verið ósk um nýja vátryggingu samkvæmt 3. mgr. 33. gr. laga nr. 30/2004 og að hún skuli leiða til þess að tryggingin hafi haldið gildi sínu eftir 8. ágúst 2006.

Við málflutning fyrir Hæstarétti reisti áfrýjandi einnig kröfu sína meðal annars á því að trygging sú sem hér um ræðir sé þess eðlis að henni verði ekki sagt upp samkvæmt íslenskum lögum en að 4. gr. reglugerðar nr. 392/2002  byggi á „ökutækjatilskipunum EES samningsins“ og af þeim leiði að vátryggingafélag sé alltaf greiðsluskylt, jafnvel þótt iðgjöld séu í vanskilum, hafi trygging verið tekin á annað borð. Þá hafi stefndi við uppsögn tryggingarinnar ekki fylgt fyrirmælum í vátryggingarskilmálum sínum, sem kveði meðal annars á um að tilkynna bæri lögreglu um uppsögnina, auk þess sem gera verði vátryggingartaka skýra grein fyrir réttaráhrifum slíkrar uppsagnar og möguleikum hans til að kvarta til úrskurðarnefndar vátryggingarmála. Um síðastgreind atriði var af hálfu áfrýjanda við flutning málsins fyrir Hæstarétti vísað til skilmála tryggingarinnar sem freistað var að leggja fram löngu eftir lok gagnaöflunarfrests, eða nokkrum dögum fyrir flutning málsins fyrir Hæstarétti, án þess að tilraun væri gerð til að færa rök fyrir því að lokamálsliður 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ætti við. Engum þessara málsástæðna var hreyft fyrir héraðsdómi og eru þær of seint fram komnar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. sömu laga og koma því ekki til álita við úrlausn málsins.

Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Eftir þessum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ásdís Rán Gunnarsdóttir, greiði stefnda, Verði tryggingum hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 27. janúar sl., er höfðað með stefnu, birtri 18. júní 2009.

Stefnandi er Ásdís Rán Gunnarsdóttir, til heimilis í Sofiu, Búlgaríu, en stefndi er Vörður tryggingar hf., Borgartúni 25 í Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hennar til skaðabóta úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 úr hendi stefnda, vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir er hún lenti í bílslysi 2. mars 2007, þegar hún var ökumaður bifreiðarinnar RH-128, sem vátryggð var af stefnda. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

 Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.

Málsatvik og ágreiningsefni

Stefnandi var ökumaður bifreiðarinnar RH-128, er hún lenti í árekstri 2. mars 2007. Bifreiðin var í eigu eiginmanns stefnanda, Garðars B. Gunnlaugssonar. Nokkuð tjón varð á bifreiðunum og hlutu ökumenn þeirra beggja nokkra líkamsáverka. Bifreiðin RH-128 hafði verið tryggð lögboðinni ökutækjatryggingu hjá stefnda 13. desember 2005.

Stefndi hafnaði bótaskyldu og tilkynnti lögmanni stefnanda í tölvupósti 12. mars 2007 að vátrygging á bifreiðinni hefði verið fallin niður og hún því ekki í gildi á slysdegi. Var sú afstaða stefnda staðfest með úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 13. janúar 2009. Er álit úrskurðarnefndar svohljóðandi: „Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum  var umrædd vátrygging fallin niður sökum vanskila á iðgjaldi. Ekki verður annað ráðið en að vátryggingafélagið hafi gætt tilkynningarskyldu sinnar samkvæmt reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar nr. 392/2003 sbr. og ákvæði vátryggingarsamningalaga nr. 30/2004.“

Í stefnu segir að stefnandi geti ekki fallist á afstöðu stefnda og úrskurðarnefndarinnar, en telji þvert á móti að ökutækjatryggingar hafi verið í fullu gildi þegar slysið átti sér stað. Því sé mál þetta höfðað.

Við aðalmeðferð gaf stefnandi skýrslu í gegnum síma, svo og eiginmaður hennar og vátryggingartaki, Garðar B. Gunnlaugsson. Verður vikið að framburði þeirra svo sem efni þykja til.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að ætlaðar tilkynningar stefnda um niðurfellingu ökutækjatryggingar RH-128 hafi ekki borist stefnanda og því ekki komist til hennar vitundar. Tilkynningarnar hafi því ekkert gildi gagnvart henni. Vísar stefnandi til þess að í 2. mgr. 11. reglugerðar nr. 392/2003, um lögmæltar ökutækjatryggingar, sé kveðið á um að falli vátrygging vegna skráðs ökutækis úr gildi vegna vanskila á iðgjaldi, skuli vátryggingafélagið gera vátryggingartaka aðvart og kynna honum réttaráhrif þess. Fullyrðir stefnandi að hvorki henni né eiginmanni hennar hafi borist tilkynning um niðurfellingu ökutækjatryggingarinnar 14. ágúst 2006, enda hafi þau hjón flutt búferlum til Svíþjóðar í byrjun þess mánaðar. Telur stefnandi það ófullnægjandi af hálfu vátryggingafélagsins, og beri jafnframt vott um óvönduð vinnubrögð þess, að senda tilkynningu um niðurfellingu tryggingarinnar á lögheimili vátryggingartaka, án þess að frekar sé gengið eftir því að hann kynni sér efni tilkynningarinnar. Í tilviki stefnanda hefði félagið átt að kynna sér betur hvort raunverulegur dvalarstaður vátryggingartaka væri á lögheimili hans, ekki síst í ljósi þess að ekki var brugðist við áður sendum innheimtubréfum félagins.

Stefnandi leggur á það áherslu að ábyrgðarbréf stefnda um niðurfellingu vátryggingarinnar, sem sent var á lögheimili stefnanda, hafi verið afhent manni sem sé algerlega ótengdur stefnanda eða eiginmanni hennar. Beri ljósrit bókar um ábyrgðarsendingar það með sér. Slík handvömm af hálfu stefnda hljóti að teljast alvarleg í ljósi þess að ábyrgðarsendingin hafði að geyma tilkynningu um niðurfellingu vátryggingarinnar. Slík ákvörðun sé afar íþyngjandi í garð vátryggingartaka og geti almennt haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar, eins og raun beri vitni í tilviki stefnanda. Jafnframt verði að hafa í huga að skylt sé að vátryggja ökutæki, sbr. XIII. kafli umferðarlaga nr. 50/1987, og sé vátryggingafélagi skylt að taka að sér lögmælta slysatryggingu og ábyrgðartryggingu, sbr. 1. gr. reglugerðar um lögmæltar ökutækjatryggingar. Í ljósi ofanritaðs telur stefnandi það ekki standast hinn skýra áskilnað 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 392/2003 að senda aðeins tilkynningu á lögheimili stefnanda. Loks bendir stefnandi á að tilgangur laga um vátryggingarsamninga og umræddrar reglugerðar sé m.a. að tryggja réttarstöðu neytenda gagnvart vátryggingafélögum. Þurfi því að túlka óskýr laga- og reglugerðarákvæði neytanda í hag. 

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að vátryggingartaki hafi greitt stefnda 30.000 krónur 6. september 2006. Hafi aðstaðan þá verið sú sem stefndi haldi fram, að hinar lögboðnu ökutækjatryggingar hafi verið niður fallnar, heldur stefnandi því fram að stefnda hafi borið að líta á þá greiðslu sem ósk um nýja vátryggingu, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga um vátryggingarsamninga. Til frekari stuðnings þeirri málsástæðu vísar stefnandi til athugasemda með frumvarpi til laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, en einnig til 3. mgr. 13. gr. þeirra laga, og heldur því fram að stefndi geti ekki komið sér undan ábyrgð á grundvelli tilvitnaðra ákvæða,  með vísan til óstaðfestra vinnureglna sinna. Telur stefnandi að sú vinnuregla stefnda, að hafna frekari viðskiptum hafi vátrygging verið felld niður vegna vanskila, nema heils árs vátryggingariðgjald sé staðgreitt við töku nýrrar vátryggingar, fái ekki samrýmst 3. mgr. 33. gr. tilvitnaðra laga.

Stefnandi leggur einnig áherslu á að stefndi hafi ekki gert neinar athugasemdir við áðurnefnda greiðslu vátryggingartaka. Stefnandi og eiginmaður hennar hafi því mátt gera ráð fyrir að vátrygging ökutækisins væri í fullu gildi. Jafnframt er því haldið fram að þótt heildariðgjöld ársins næmu 59.258 krónum, þá hafi heildargreiðslur vátryggingartaka samtals verið 75.000 krónur. M.a. af þessum sökum þyki stefnanda undarleg sú afstaða félagsins að telja bifreiðina óvátryggða, enda hafi í raun verið búið að greiða upp tryggingariðgjald næsta árs.

Við munnlegan flutning málsins byggði stefnandi einnig á því að öll gögn stefnda í málinu bæru það með sér að stefndi hefði fellt niður ábyrgðartryggingu ökutækisins samkvæmt 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en ekki slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. sömu laga. Um tvær aðskildar tryggingar sé að ræða, en krafa stefnanda lúti að viðurkenningu um skaðabætur úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr., en ekki úr ábyrgðartryggingu ökumanns samkvæmt 91. gr. laganna.

Við sama tækifæri hélt stefnandi því fram stefnda hafi ekki getað dulist að stefnandi og eiginmaður hennar væru ekki búsett á Íslandi, þegar tilkynningar voru sendar þeim um vanskil tryggingariðgjalds og síðan um niðurfellingu tryggingarinnar, enda væru þau hjón mjög þekkt hér á landi og mikið í fjölmiðlum.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, en einnig til meginreglna samningaréttar. Þá er vísað til umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 92. gr., svo og reglugerðar nr. 392/2003, um lögmæltar ökutækjatryggingar. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.

Málsástæður stefnda og lagarök

Sýknukrafa stefnda er á því reist að ábyrgðartrygging fyrir bifreiðina RH-128 hafi verið felld niður 8. ágúst 2006 vegna vanskila vátryggingartaka á iðgjöldum. Því eigi stefnandi ekki rétt á skaðabótum úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga vegna afleiðinga þess slyss sem hún varð fyrir 2. mars 2007. Niðurfelling vátryggingarinnar hafi verið í samræmi við tilkynningu til vátryggingartaka 17. júlí 2006, þar sem fram kom að tryggingin yrði felld úr gildi án frekari fyrirvara, yrðu vanskil ekki greidd. Hafi stefndi síðan fylgt því eftir með ábyrgðarbréfi 9. ágúst sama ár. Heldur stefndi því fram að með tilkynningum þessum hafi verið uppfyllt skilyrði 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 392/2003, þar sem fram komi skylda tryggingafélags til að gera vátryggingartaka viðvart um niðurfellingu tryggingar vegna vanskila. Hvorki stefnandi né vátryggingartaki hefði tilkynnt stefnda um að þau hefðu aðsetur annars staðar en á lögheimili sínu, eða að þau hefðu flutt lögheimili sitt, og beri þau ábyrgð á því. Mótmælir stefndi því að honum beri skylda til að ganga úr skugga um að skráð lögheimili vátryggingartaka sé raunverulegur dvalarstaður hans, eins og stefnandi haldi fram. Telur stefndi fjarri að vátryggingartaki geti komist hjá niðurfellingu ábyrgðartryggingar með því einu að dvelja ekki á lögheimili sínu og láta farast fyrir að tilkynna stefnda um breyttan dvalarstað.

Stefndi mótmælir því að líta beri á greiðslu vátryggingartaka 6. september 2006, að fjárhæð 30.000 krónur, sem ósk um nýja vátryggingu. Því til stuðnings bendir hann á að í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 30/2004 komi fram að ef iðgjaldið er greitt eftir lok greiðslufrests, skuli líta á greiðsluna sem ósk um nýja vátryggingu. Heldur stefndi því fram að ákvæðið eigi aðeins við í þeim tilvikum þegar iðgjaldið er greitt í heild, en ekki að hluta. Í tilviki stefnanda hafi áðurnefndri innborgun hins vegar verið ráðstafað inn á vanskil vegna liðins vátryggingartímabils. Að áliti stefnda nægi ekki að greiða hluta iðgjalds eða vanskila til þess að vátrygging taki gildi, án frekari aðgerða eða samþykkis stefnda. Því eigi túlkun stefnanda á 3. mgr. 33. gr. laga nr. 30/2004 ekki við rök að styðjast, enda væri vátryggjendum þá í lófa lagið að greiða eingöngu hluta af vanskilum til þess að knýja vátryggjandann til að viðhalda tryggingunni. Slík túlkun fái hvorki stoð í sjálfu lagaákvæðinu né í lögskýringargögnum. Stefndi hafnar því jafnframt að athugasemdalaus móttaka á innborgun vátryggingartaka 6. september 2006 hafi nokkur réttaráhrif í máli þessu.

Vegna málsástæðna stefnanda, sem fram komu við munnlegan flutning málsins, tekur stefndi fram að fullyrðingar stefnanda um að aðeins ábyrgðartrygging bifreiðarinnar RH-128 hafi fallið niður, en ekki slysatrygging ökumanns, eigi ekki við rök að styðjast. Bendir hann á að bæði í greinargerð sinni og víða í framlögðum gögnum sé tekið fram að um lögboðnar ökutækjatryggingar sé að ræða. Þá mótmælir hann því að stefnda hafi átt að vera kunnugt um að stefnandi og eiginmaður hennar væru flutt af landi brott í byrjun ágúst 2006, þar sem þau hjón væru mjög þekkt hér á landi.    

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, og reglugerðar nr. 392/2004. Krafa hans um málskostnað styðst við 130., sbr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Í gögnum málsins kemur fram að stefndi, Vörður tryggingar hf., tók að sér að tryggja bifreiðina RH-128, Mitsubishi Carisma, lögboðinni ökutækjatryggingu 13. desember 2005, með gildistíma til 30. nóvember 2006. Vátryggingartaki var Garðar B. Gunnlaugsson, eiginmaður stefnanda. Iðgjaldið nam alls 59.358 krónum og var gjalddagi þess 12. janúar 2006.

Með bréfi stefnda 30. maí 2006 var vátryggingartaka tilkynnt að lögboðin ökutækjatrygging vegna bifreiðarinnar yrði felld úr gildi eftir 13. júní, yrðu iðgjöld ekki greidd fyrir þann tíma. Fram kemur einnig í bréfinu að áður sendum greiðsluáskorunum hafi ekki verið sinnt. Var krafan ítrekuð með bréfi 8. júní 2006. Á framlögðu greiðsluyfirliti sést að greiddar voru 25.000 krónur inn á iðgjaldið 12. júní sama ár.

Stefndi sendi vátryggingartaka lokaviðvörðun vegna vangoldinna iðgjalda 17. júlí 2006. Samkvæmt því bréfi námu ógreiddar eftirstöðvar 39.829 krónum. Þar segir einnig: „Nú er svo komið að verði þessu ítrekunarbréfi ekki sinnt og iðgjald greitt eða samið um greiðslu þess þá mun félagið, eftir 15 daga frá dagsetningu þessa bréfs, fella niður vátryggingaverndina án frekari viðvörunar skv. skilmálum félagsins.“ Fyrir liggur einnig bréf frá stefnda, dagsett 8. ágúst, þar sem skorað er á vátryggingartaka að greiða iðgjaldið, 59.358 krónur, þegar í stað og eigi síðar en sjö dögum eftir dagsetningu. Að öðrum kosti verði vátryggingin felld úr gildi. 

Með ábyrgðarbréfi 9. ágúst 2006 var vátryggingartaka tilkynnt að lögboðin ökutækjatrygging  vegna RH-128 væri fallin úr gildi, þar sem áður sendum ítrekunum og greiðsluáskorunum hefði ekki verið sinnt. Af ljósriti úr póstkvittanabók má sjá að bréfið var sent til Garðars B. Gunnlaugssonar, Álfkonuhvarfi 29, Kópavogi, og móttekið þar 14. ágúst af Orra.

Ekki er um það deilt að lögheimili stefnanda og eiginmanns hennar var að Álfkonuhvarfi 29 í Kópavogi á þeim tíma sem hér skiptir máli. Í skýrslum sínum fyrir dómi kvaðst hvorugt þeirra hins vegar kannast við að hafa séð viðvaranir stefnda um niðurfellingu ökutækjatryggingar bifreiðarinnar, vegna vanskila á greiðslu iðgjalds, enda hefðu þau hjón verið mikið á flakki um heiminn á þessum tíma. Sérstaklega kvaðst eiginmaðurinn ekkert kannast við að hafa fengið í hendur tilkynningu félagsins um niðurfellingu tryggingarinnar frá 9. ágúst 2006, og vissi heldur engin deili á þeim manni, Orra að nafni, sem sagður er hafa móttekið ábyrgðarbréf stefnda.

Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, er almennur greiðslufrestur á iðgjaldi vátryggingar einn mánuður hið skemmsta frá þeim degi sem félagið sendi tilkynningu um greiðslu til vátryggingartakans. Í 1. mgr. 33. gr. sömu laga kemur fram að sé iðgjaldið ekki greitt að liðnum greiðslufresti, og félagið ber ábyrgð, geti það losnað undan henni með því að senda nýja tilkynningu þar sem greiðslu er krafist innan 14 daga. Skuli tilkynningin skýrlega bera með sér að vátryggingin falli niður ef iðgjaldið er ekki greitt innan hins tilskilda frests. Í samræmi við framangreind ákvæði var svo mælt fyrir í 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 392/2003, um lögmæltar ökutækjatryggingar, að falli vátrygging ökutækis úr gildi vegna vanskila á iðgjaldi skuli félagið gera vátryggingartaka (eiganda eða varanlegum umráðamanni ökutækis) aðvart og kynna honum réttaráhrif slíkrar tilkynningar.

Ekki er unnt að slá því föstu að vátryggingartaka hafi borist tilkynning stefnda frá 9. ágúst 2006, sem móttekin var 14. sama mánaðar, um niðurfellingu vátryggingarverndar, enda kvittaði hvorki stefnandi né vátryggingartaki fyrir móttöku ábyrgðarbréfsins. Hins vegar hefur stefnandi ekki fært sönnur á að önnur bréf félagsins hafi ekki borist vátryggingartaka, en í þeim öllum var vátryggingartaki varaður við því að frekari vanskil á greiðslu iðgjalds leiddi til brottfalls vátryggingarverndar. Voru bréfin stíluð á vátryggingartaka, Garðar B. Gunnlaugsson, á lögheimili hans að Álfkonuhvarfi 29 í Kópavogi, og verður ekki stefnda um kennt þótt stefnandi og vátryggingartaki hafi á sama tíma ekki dvalið þar eða ekki hirt um þau bréf sem þangað bárust. Breytir hér engu þótt stefnandi og eiginmaður hennar hafi flutt af landi brott í byrjun ágúst 2006, enda verður ekki séð að stefnda hafi verið tilkynnt um flutninginn og hið nýja heimilisfang. Því síður hafa verið færðar sönnur á þá staðhæfingu stefnanda að stefnda hafi mátt vera ljóst að þau hjón hefðu flutt búferlum, þar sem þau væru mjög þekkt hér á landi og mikið í fjölmiðlum. Í ljósi þessa hafnar dómurinn þeirri málsástæðu stefnanda að tilkynning stefnda um niðurfellingu ökutækjatryggingar RH-128 hafi verið ófullnægjandi og í andstöðu við fyrirmæli 2. mgr. 11. reglugerðar nr. 392/2003, um lögmæltar ökutækjatryggingar. Þvert á móti er það álit dómsins að stefndi hafi staðið rétt að sendingu bréfanna á lögheimili vátryggingartaka og að með þeim hafi hann bæði aðvarað vátryggingartaka um yfirvofandi niðurfellingu vátryggingarverndar, vegna vanskila á iðgjöldum, svo og kynnt honum þau réttaráhrif sem af því leiddi, allt í samræmi við 1. mgr. 33. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, sbr. og 2. mgr. 11. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 392/2003. Í kjölfar þessa var stefnda því heimilt að fella niður ökutækjatryggingar RH-128. Skiptir þá ekki sköpum þótt tilkynning stefnda frá 9. ágúst 2006 um niðurfellingu vátryggingarverndar hafi ekki borist vátryggingartaka, enda var í fyrri bréfum, og þá sérstaklega frá 17. júlí sama ár, skýrlega varað við því að frekari vanskil leiddu til slíks.     

Eins og áður greinir greiddi vátryggingartaki 30.000 krónur inn á vangoldið iðgjald bifreiðarinnar 6. september 2006, en tryggingin hafði þá verið felld úr gildi. Heldur stefnandi því fram að stefnda hafi borið að líta á þá greiðslu sem ósk um nýja vátryggingu, og vísar til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 30/2004 því til stuðnings. Umrætt ákvæði hljóðar þannig: „Ef iðgjaldið er greitt eftir lok greiðslufrestsins í 1. mgr. ber að líta á greiðsluna sem ósk um nýja vátryggingu. Regla 3. mgr. 13. gr. gildir þá með sama hætti, en ábyrgð félagsins hefst þó fyrst daginn eftir að iðgjaldið er greitt.“

Ljóst er að umrædd greiðsla var ekki fullnaðargreiðsla á iðgjaldinu, aðeins innborgun á það sem gjaldfallið var. Verður því ekki á það fallist að með þeirri greiðslu hafi verið stofnað til nýrrar vátryggingar, án atbeina stefnda. Ekki verður heldur tekið undir þau rök stefnanda að sú vinnuregla stefnda að hafna frekari viðskiptum, hafi vátrygging verið felld niður vegna vanskila, nema heils árs vátryggingargjald sé staðgreitt við töku nýrrar vátryggingar, fari í bága við 3. mgr. 33. gr. laga um vátryggingarsamninga. Er beinlínis gert ráð fyrir því í 1. mgr. 32. gr. sömu laga að vátryggingafélög geti bundið ábyrgð félagsins því skilyrði að iðgjaldið sé greitt þá þegar. Þá verður ekki á það fallist að athugasemdalaus móttaka stefnda á umræddri greiðslu hafi hér nokkra þýðingu. Hafi stefnandi og eiginmaður hennar hins vegar talið að með greiðslunni hafi þau mátt ætla að vátryggingin væri í fullu gildi, mátti þeim einnig vera ljóst að gildistími tryggingarinnar rynni út 30. nóvember 2006.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að greiðslur vátryggingartaka á vátryggingartímabilinu hafi alls numið 75.000 krónum, og hann því að fullu greitt iðgjöld ársins og að hluta iðgjöld næsta árs. Hafi stefndi ekki tekið tillit til innborgunar að fjárhæð 20.000 krónur, sem greiddar hafi verið 22. febrúar 2006. Af hálfu stefnda er þessu mótmælt og bent á að innborgun þessi hafi verið bakfærð, að ósk vátryggingartaka 8. maí 2006, og færð sem innborgun á viðskiptareikning stefnanda. Þannig hafi vátryggingartaki aðeins verið búinn að greiða 25.000 krónur þegar tryggingin var felld niður. Með síðari greiðslu sinni, að fjárhæð 30.000 krónur, sem hann innti af hendi 6. september 2006, hafi hann samtals greitt 55.000 krónur inn á iðgjaldsskuldina. Ársiðgjaldið hafi hins vegar verið 59.358 krónur, og sé þá ekki tekið tillit til áfallinna vaxta.

Framlögð gögn, bæði greiðsluyfirlit og bréf stefnda til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, staðfesta að vátryggingartaki greiddi samtals 55.000 krónur inn á iðgjaldsskuldina, þar af hafði hann aðeins greitt 25.000 krónur þegar tryggingin var felld niður. Augljóst er því að með þeirri fjárhæð hafði hann ekki lokið greiðslu ársiðgjaldsins.

Ekki þykir hald í þeirri málsástæðu stefnanda, sem fyrst kom fram við munnlegan flutning málsins, að stefndi hefði aðeins fellt úr gildi ábyrgðartryggingu ökutækisins, en ekki slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga. Nægir í því sambandi að vísa til þess að með orðnotkuninni „lögmæltar ökutækjatryggingar“ er bæði átt við ábyrgðartryggingu ökutækis og slysatryggingu ökumanns, sbr. reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar nr. 392/2003. Þá fer ekki á milli mála að í greinargerð stefnda er á því byggt að bæði ábyrgðartrygging og slysatrygging hafi fallið úr gildi vegna vanskila vátryggingartaka, og beinlínis vísað þar til 92. gr. umferðarlaga.

Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Í samræmi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 350.000 krónur.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Vörður tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Ásdísar Ránar Gunnarsdóttur.

Stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.