Hæstiréttur íslands
Mál nr. 229/2011
Lykilorð
- Líkamsárás
- Frelsissvipting
- Ólögmæt nauðung
- Skaðabætur
- Sakartæming
- Ávana- og fíkniefni
- Upptaka
|
|
Þriðjudaginn 20. desember 2011. |
|
Nr. 229/2011.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari) gegn Gesti Hrafnkeli Kristmundssyni (Gunnar Sólnes hrl.) (Árni Pálsson hrl. réttargæslumaður) |
Líkamsárás. Frelsissvipting. Ólögmæt nauðung. Skaðabætur. Sakartæming. Ávana- og fíkniefni. Upptaka.
G var ákærður ásamt X fyrir frelsissviptingu, stórfellda líkamsárás, ólögmæta nauðung og tilraun til fjárkúgunar. Í héraði var G dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 2. mgr. 226. gr. sömu laga fyrir frelsissviptingu og tilraun til fjárkúgunar samkvæmt 251. gr., sbr. 20. gr. laganna. Í ljósi aðferðar og afleiðingar atlögunnar gegn A var G í Hæstarétti sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laganna. Þá var eins og í málinu hagaði til ekki talið að ákvæði 2. mgr. 226. gr. laganna um frelsissviptingu tæmdi sök gagnvart 225 gr. sömu laga um ólögmæta nauðung. Var G sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd. Einnig var hann dæmdur til að greiða A hærri miska- og skaðabætur en í héraði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari, Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari og Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. mars 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákærum og refsing þyngd en að öðru leyti verði hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.
A gerir þá kröfu að ákærða verði gert að greiða sér 4.062.386 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 frá 10. ágúst 2009 til 2. júlí 2010 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
I
Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er á því reist að ákæra ríkissaksóknara 26. júlí 2010 sé óskýr um þátt ákærða í málinu. Þá sé ekki ljóst af forsendum héraðsdóms fyrir hvaða háttsemi ákærði hafi verið sakfelldur.
Ríkissaksóknari gaf út ákæru 26. júlí 2010 á hendur ákærða og meðákærða í héraði fyrir frelsissviptingu, stórfellda líkamsárás, ólögmæta nauðung og tilraun til fjárkúgunar. Í inngangskafla ákæru er háttsemi ákærðu almennt lýst, en svo sem þar er rakið lýtur ákæruefnið að því að hafa í herbergi nr. [...] á [...] að [...] á Akureyri, svipt brotaþola frelsi og haldið honum nauðugum frá um klukkan 21 að kvöldi sunnudagsins 9. ágúst 2009 til um klukkan 9 að morgni næsta dags, og að hafa á meðan á frelsissviptingunni stóð beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi og ítrekað hótað honum og hans nánustu líkamsmeiðingum og lífláti greiddi hann ekki ákærðu allt að einni milljón króna. Í framhaldi þessa inngangskafla er háttsemi ákærða og meðákærða í héraði lýst sérstaklega í tveim aðskildum köflum fyrir hvorn um sig.
Að því er háttsemi ákærða varðar er verknaði hans lýst á þann veg að hann hafi komið inn í herbergið eftir að meðákærði í héraði hafði svipt brotaþola frelsi sínu og tekið þátt í atburðarásinni eftir það. Hann hafi meðal annars ásamt meðákærða í héraði sparkað í brotaþola þar sem hann lá á dýnu á gólfinu, slegið hann ítrekað í höfuð og líkama með krepptum hnefa og stappað á líkama hans, lagst ítrekað ofan á brotaþola, hótað honum lífláti og hótað að drepa og nauðga systur hans og nauðga móður hans og ásamt meðákærða í héraði neytt brotaþola til að þrífa húsnæðið, meðal annars að vaska upp og þrífa baðherbergi og hafi ákærði neytt brotaþola til að sleikja salernisskál. Afleiðingar háttseminnar koma fram í ákæru og þau lagaákvæði er hún er talin varða við.
Svo sem hér er rakið er ákæra í málinu skýr um þátt ákærða og fullnægir skilyrðum 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Annmarki að því leyti getur varðað frávísun máls frá héraðsdómi, sbr. 159. gr. laga nr. 88/2008 en ekki ómerkingu héraðsdóms, svo sem byggt er á í kröfugerð ákærða. Að því er varðar sakfellingu eru færð rök fyrir henni í niðurstöðu héraðsdóms. Þar kemur fram að ákærði er sýknaður af þeirri háttsemi að hafa lagst ofan á brotaþola. Einnig var líkamsárás ákærða ekki talin stórfelld heldur varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þótti ákvæði 2. mgr. 226. gr. laga nr. 19/1940 tæma sök gagnvart 225. gr. laganna. Að öðru leyti var ákærði með þeim rökstuðningi er fram kemur í héraðsdómi sakfelldur samkvæmt ákæru. Verður af þessu ráðið fyrir hvað ákærði var sakfelldur í héraði. Kröfu ákærða um ómerkingu og heimvísun er því hafnað.
II
Ákærði hefur frá upphafi málsins neitað sök samkvæmt ákæru 26. júlí 2010. Fjölskipaður héraðsdómur var þeirrar niðurstöðu að framburður brotaþola hjá lögreglu og fyrir dómi hefði verið skilmerkilegur og staðfastur. Þá hefði frásögn hans að auki verið í samræmi við gögn málsins, þar á meðal læknisvottorð og ítarleg rannsóknargögn lögreglu, en hann hefði verið án áfengis- og vímuáhrifa er atvik gerðust. Var það niðurstaða dómsins að framburður brotaþola hefði verið trúverðugur í öllum meginatriðum. Hæstiréttur endurmetur ekki niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi, nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu þar fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Í málinu er ekkert fram komið sem bendir til að héraðsdómur hafi ranglega ályktað út frá þeim sönnunargögnum sem fyrir dóminum lágu. Verður héraðsdómur því staðfestur um sakfellingu samkvæmt þessari ákæru. Jafnframt verður héraðsdómur staðfestur um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru 18. október 2010.
Svo sem áður er rakið þótti héraðsdómi líkamsárás ákærða ekki stórfelld í skilningi 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Samkvæmt nefndu ákvæði varðar það fangelsi allt að 16 árum hljótist stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þar á meðal tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, sem sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu. Ákærði hefur meðal annars verið sakfelldur fyrir að hafa sparkað í brotaþola þar sem hann lá á gólfi, slegið hann ítrekað í höfuð og víðs vegar um líkamann með krepptum hnefa og að hafa stappað á líkama hans. Brotið framdi ákærði ásamt meðákærða í héraði, sem á sama tíma beitti brotaþola margvíslegu ofbeldi, en hann hefur meðal annars verið sakfelldur fyrir að berja brotaþola ítrekað, sparka í hann og slá hann í höfuðið og víðs vegar um líkama með krepptum hnefa og barefli. Slík atlaga tveggja fullorðinna manna gegn einum var sérstaklega hættuleg í skilningi 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.
Í héraðsdómi er meðal annars rakið efni áverkavottorðs 10. ágúst 2009 er varðar brotaþola. Svo sem þar kemur fram var brotaþoli eftir árásina með miklar bólgur yfir vinstra auga og náði vart að opna það. Hann var með ,,hrufl-skurðsár“ um neðanverðan háls og bólgur á eyrum. Þá var brotaþoli mikið marinn yfir hægri hnéskel. Yfir sköflungi hægra megin sem og ökkla var hann með sár, mikið mar og roða. Var hann hvellaumur við snertingu frá hægra hné og niður fyrir ökkla. Fram kemur að brotaþoli hafi mátt þola mikið þann tíma sem honum var haldið. Flest áverkamerki hafi verið á mjúkpörtum og þá sérstaklega á höfði og hægri ganglim. Hafi brotaþola verið kalt og hann greinilega mjög hræddur. Í læknisvottorði, sem ritað er sama dag, kemur meðal annars fram að stórt mar hafi verið á innanverðu vinstra læri og hafi virst sem vottaði fyrir skófari í marinu. Í héraðsdómi er jafnframt fjallað um gögn um andlega líðan brotaþola eftir atvikið. Auk þess hefur fyrir Hæstarétt verið lagt vottorð geðlæknis frá 5. desember 2011 þar sem fram kemur að brotaþola hafi verið vísað til geðlæknis af heimilislækni og sálfræðingi vegna kvíðaeinkenna. Fram kemur að brotaþoli hafi áfallastreitu- og félagskvíðaeinkenni sem verulega hái honum í daglegu lífi. Einnig segir að hann sé óvinnufær og lítt virkur vegna þeirra einkenna, en áfallastreitan tengist líkamsárásinni. Félagskvíði hafi líklega verið fyrir hendi að einhverju leyti en versnað í kjölfar árásarinnar. Svo sem hér er rakið hlaut brotaþoli alvarlega líkamlega áverka af árás ákærða og meðákærða í héraði. Þá eru afleiðingar árásarinnar slíkar að brotaþoli er enn óvinnufær vegna hennar. Er hér um stórfellt líkams- og heilsutjón að ræða í skilningi 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.
Samkvæmt öllu framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.
Í héraðsdómi er við það miðað að ákvæði 2. mgr. 226. gr. laga nr. 19/1940 um frelsissviptingu tæmi sök gagnvart ákvæði 225. gr. laganna um ólögmæta nauðung. Ákærði hefur meðal annars verið sakfelldur fyrir að hafa neytt brotaþola til að þrífa herbergi þar sem honum var haldið og að hafa neytt hann til að sleikja salernisskál. Nauðung til slíkra verka getur ekki fallið undir verknaðarlýsingu 2. mgr. 226. gr. laga nr. 19/1940 og verður því ekki talið að það ákvæði tæmi sök gagnvart 225. gr. laganna. Af þeirri ástæðu verður ákærði samhliða 2. mgr. 226. gr. laga nr. 19/1940 einnig sakfelldur fyrir brot gegn 225. gr. laganna.
III
Sakarferli ákærða er lýst í héraðsdómi. Brot samkvæmt ákæru 26. júlí 2010 framdi ákærði í félagi við meðákærða í héraði. Var atlagan í senn hrottafengin og langvinn, en brotaþoli var frelsissviptur í um 12 klukkustundir. Ber háttsemi ákærða þess augljós merki að um svonefnda handrukkun hafi verið að ræða, en ákærði og meðákærði í héraði veittu brotaþola ítrekað högg og spörk þannig að sem mestur sársauki hlytist af án beinbrota eða viðlíka áverka. Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. janúar 2010 þar sem ákærði var dæmdur í sekt fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í málinu, sbr. 78. gr. laga nr. 19/1940, þó svo hann hafi verið kveðinn upp eftir að brot það sem hér er til meðferðar var framið. Refsing ákærða verður ákveðin fangelsi í 3 ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald hans frá 12. til 18. ágúst 2009.
IV
Í héraðsdómi voru ákærði og meðákærði í héraði óskipt dæmdir til að greiða brotaþola 962.386 krónur, en um var að ræða kröfu vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð 62.386 krónur og miskabætur að fjárhæð 900.000 krónur. Með hliðsjón af gögnum um andlega hagi brotaþola eftir atburðinn verða honum dæmdar hærri miskabætur en ákveðnar voru í héraði. Að öllu virtu eru þær ákveðnar 1.500.000 krónur og verða skaðabætur, að teknu tilliti til útlagðs kostnaðar, þar með 1.562.386 krónur. Um vexti fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Samkvæmt framansögðu eru bætur ákveðnar hærri en í héraði en sú breyting nær einungis til ákærða og stendur héraðsdómur óraskaður um þátt meðákærða í héraði.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um upptöku haldlagðra fíkniefna og óskiptan sakarkostnað. Ákærði verður dæmdur til að greiða að fullu málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og réttargæslulaun brotaþola fyrir héraðsdómi, eins og þau voru þar ákveðin. Ákærði verður jafnframt dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Gestur Hrafnkell Kristmundsson, sæti fangelsi í 3 ár. Frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald hans 12. til 18. ágúst 2009.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna skal vera óraskað.
Ákærði greiði A 1.562.386 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. ágúst 2009 til 2. júlí 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir héraðsdómi, Ólafs Rúnars Ólafssonar héraðsdómslögmanns, 966.350 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Gunnars Sólness hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir héraðsdómi, Arnars Sigfússonar héraðsdómslögmanns, 502.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Árna Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 213.350 krónur. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað að öðru leyti er staðfest. Ákærði greiði annan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 111.021 krónu.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 3. mars 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 8. janúar s.l., er höfðað af ríkissaksóknara og lögreglustjóranum á Akureyri með fimm ákærum á hendur X, kt. [...], nú til heimilis að [...], [...], og Gesti Hrafnkeli Kristmundssyni, kt. [...], nú til heimilis að [...] ,[...].
1. Ákæra ríkissaksóknara, útgefin 26. júlí 2010 (S-201/2010).
Í þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærðu X og Gesti;
„fyrir frelsissviptingu, stórfellda líkamsárás, ólögmæta nauðung og tilraun til fjárkúgunar, framin í herbergi nr. ,[...].á ,[...].. hæð að ,[...]., Akureyri, með því að hafa svipt A frelsi sínu og haldið honum nauðugum frá klukkan 21.00 að kvöldi sunnudagsins 9. ágúst 2009 til um klukkan 9.00 að morgni mánudagsins 10. ágúst 2009, og hafa á meðan á frelsissviptingunni stóð beitt hann líkamlegu ofbeldi og ítrekað hótað honum og hans nánustu líkamsmeiðingum og lífláti greiddi hann þeim ekki allt að einni milljón króna, m.a. hafi:
1. Ákærði X eftir að A hafði komið sjálfviljugur á vettvang, svipt hann frelsi með því að ógna honum með hnífi og láta hann setjast í stól og þá vafið kaðli utan um líkama hans og hafi ákærði hert kaðlinum að hálsi hans þannig að A hafi átt erfitt með andardrátt og barið A ítrekað með ryksuguröri m.a. á vinstri vanga. Á meðan á frelsissviptingunni stóð hafi ákærði síðan einn sér og ásamt meðákærða Gesti Hrafnkeli ítrekað veist að A, sparkað ítrekað í hann og slegið hann í höfuðið og víðs vegar um líkamann með krepptum hnefa og „járnröri“ eða öðru barefli, stappað á líkama hans, hótað að smita hann af lifrarbólgu C, ógnað honum með sprautunál, stungið blóðugri sprautunál í eyrnasnepil A, klipið hann með flísatöng víðsvegar í handleggina, skvett tvisvar heitu kertavaxi á A, tvisvar kastað af sér þvagi yfir hann, hellt yfir hann áfengi og í kjölfar þess hent logandi pappír á A og hafa ásamt meðákærða Gesti Hrafnkeli neytt A til að þrífa húsnæðið, m.a. að vaska upp og þrífa baðherbergi.
2. Ákærði Gestur Hrafnkell komið inn í herbergið eftir að meðákærði X hafði svipt A frelsi sínu og tekið þátt í atburðarásinni eftir það. Hann hafði m.a. ásamt meðákærða X sparkað í A þar sem hann lá á dýnu á gólfinu, slegið hann ítrekað í höfuð og víðs vegar um líkamann með krepptum hnefa og stappað á líkama hans, lagst ítrekað ofan á A, hótað honum lífláti og hótað að drepa og nauðga systur hans og nauðga móður hans og ásamt meðákærða X neyddi ákærði A til að þrífa húsnæðið, m.a. að vaska upp og þrífa baðherbergi og hafi ákærði neytt A til að sleikja salernisskálina.
Afleiðingar árásarinnar urðu þær að A smitaðist af lifrarbólgu C og hlaut miklar bólgur yfir vinstra auga út á kinn og gagnauga, eymsli yfir vöðvafestum á hnakka, grunn skurðsár á neðanverðum hálsi, bólgur á eyrum, mar á hægri öxl, stórt mar á innanverðu vinstra læri, mikið mar og roða yfir hægri hnéskel, hruflsár, mikið mar og roða yfir sköflungi og ökkla hægra megin.
Telst háttsemi ákærðu varða við 2. mgr. 218. gr., 251. gr., sbr. 20. gr., 225. og 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot ákærða Gests Hrafnkels samkvæmt 2. mgr. 226. gr. telst til vara varða við það ákvæði sbr. 22. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til greiðslu bóta að fjárhæð 4.062.386 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. ágúst 2009 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“
2. Ákæra lögreglustjórans á Akureyri, útgefin 16. ágúst 2010 (S-233/2010).
Í þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærða X;
„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudagskvöldið 15. júlí 2010 verið með í vörslum sínum í fangaklefa sínum, í Fangelsinu á [...], við [...], 3,75 grömm af hassi og 0,84 grömm af tóbaksblönduðu hassi.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. lög nr. 13, 1985 og sbr. lög nr. 82, 1998 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá nr. 18.362, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
3. Ákæra lögreglustjórans á Akureyri, útgefin 18. október 2010 (S-307/2010).
Í þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærða Gesti;
„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 11. maí 2009, verið með í vörslum sínum 29,75 grömm af amfetamíni, en lögreglan fann efnið við leit á heimili ákærða að [...] á [...].
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. lög nr. 13, 1985 og sbr. lög nr. 82, 1998 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá nr. 15.706, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
4. Ákæra lögreglustjórans á Akureyri, útgefin 22. október 2010 (S-311/2010).
Í þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærðu X og H.;
„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 28. september 2010, verið með saman í vörslum sínum að [...] á [...], 5,25 grömm af maríhúana, en lögreglan fann efnin við leit í íbúðinni.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. lög nr. 13, 1985 og sbr. lög nr. 82, 1998 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá nr. 18.835, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
Máli H var lokið með viðurlagaákvörðun á dómþingi þann 7. janúar sl. sbr. heimildarákvæði 163. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.
5. Ákæra lögreglustjórans á Akureyri, útgefin 1. desember 2010 (S-376/2010).
Í þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærða X;
„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 9. október 2010, verið með í vörslum sínum, 0,98 grömm af hassi, en efnið fannst við leit á honum í fangaklefa á lögreglustöðinni við [...] á [...].
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. lög nr. 13, 1985 og sbr. lög nr. 82, 1998 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá nr. 18.893, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
Með heimild í 169. gr. laga nr. 88, 2008 voru ofangreindar ákærur sameinaðar í eitt mál.
Af hálfu ákærðu var krafist frávísunar á ákæru ríkissaksóknara. Að loknum munnlegum flutningi 10. nóvember 2010 var kröfunni hafnað með úrskurði.
Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi áréttaði sækjandi dómkröfur samkvæmt lýstum ákærum.
Skipaður réttargæslumaður brotaþola, Arnar Sigfússon héraðsdómslögmaður, áréttaði efni einkaréttarkröfu samkvæmt ákæru ríkissaksóknara og krafðist dráttarvaxta frá 2. júlí 2010, en jafnframt hæfilegrar málflutningsþóknunar.
Ákærðu X og Gestur játuðu við meðferð málsins skýlaust sakarefni þeirra ákæra sem lögreglustjórinn á Akureyri gaf út í máli þessu. Þeir halda hins vegar báðir uppi vörnum að því er varðar það sakarefni, sem lýst er í ákæru ríkissaksóknara. Eru endanlegar kröfur þeirra sem hér segir:
Skipaður verjandi, Ingvar Þóroddsson héraðsdómslögmaður, krefst þess fyrir hönd ákærða X að hann verði sýknaður af ákæru ríkissaksóknara frá 26. júlí 2010 að því er varðar frelsissviptingu, stórfellda líkamsárás og tilraun til fjárkúgunar, en gerð eins væg refsing og lög leyfa fyrir minniháttar líkamsárás, ólögmæta nauðung og fyrir þau fíkniefnabrot, sem hann játaði skýlaust fyrir dómi, sbr. ákærur lögreglustjóra frá 16. ágúst, 22. október og 1. desember 2010. Þá er þess krafist að miskabótakrafa sæti lækkun höfuðstóls og að sýknað verði af vaxtakröfu, en að upphafsdagur dráttarvaxta verði eftir atvikum miðaður við 2. júlí 2010. Þess er krafist að ákærði verði sýknaður af greiðslu útlagðs kostnaðar vegna starfa sálfræðings að fjárhæð 35.000 krónur, en viðurkennd er greiðsluskylda á öðrum útlögðum kostnaði, samtals að fjárhæð 27.386 krónur, auk vaxtakostnaðar skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 1. september 2009 til 2. júlí 2010, og með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði verði aðeins dæmdur til að greiða hluta málskostnaðar og þá í samræmi við þau brot sem hann verður sakfelldur fyrir og að tekið verði tillit til þess til lækkunar að aðalmálið beinist einnig gegn meðákærða Gesti. Verjandinn krefst hæfilegra málsvarnarlauna úr ríkissjóði, og að tekið verði tillit til starfa hans á rannsóknarstigi málsins.
Skipaður verjandi, Ólafur Rúnar Ólafsson héraðsdómslögmaður, krefst þess fyrir hönd ákærða Gests að hann verði sýknaður af ákæru ríkissaksóknara frá 26. júlí 2010, en til vara að verða dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og þá með hliðsjón af játningu hans á sakargiftum í ákæru lögreglustjóra frá 18. október 2010. Þess er og krafist að ákærði verði sýknaður af einkaréttarkröfu brotaþolans A, en til vara verulegrar lækkunar hennar. Þess er krafist að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, en til vara að einungis hluti hans falli á ákærða. Að lokum krefst verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna.
I.
Ákærðu, X og Gestur, hafa eins áður var rakið, skýlaust játað sök að því er varðar þá háttsemi sem lýst er í fyrrnefndum ákærum lögreglustjórans á Akureyri, útgefnum 16. ágúst, 18. og 22. október og 1. desember 2010. Játningar ákærðu eru í samræmi við rannsóknargögn lögreglu, þ. á m. framburðarskýrslur.
Með hliðsjón af 3. mgr. 183. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála er ekki ástæða til að fjalla frekar um málavexti.
Brot ákærðu samkvæmt nefndum ákærum lögreglustjóra þykja að framangreindu virtu nægjanlega sönnuð. Brotin eru rétt heimfærð til laga- og reglugerðarákvæða.
II.
Ákæra ríkissaksóknara, útgefin 26. júlí 2010. Mál nr. S-201/2010.
1. Samkvæmt rannsóknargögnum eru helstu málsatvik þau að ákærðu, X og Gestur, voru handteknir af lögreglu í og við fjölbýlishúsið að [...] í [...], að morgni 10. ágúst 2009, laust fyrir kl. 10:00. Í frumskýrslu lögreglu segir að tildrög afskiptanna hafi verið þau, að fyrr um morguninn hefðu B og C tilkynnt til lögreglu að sonur þeirra, A, hefði í þrígang hringt til þeirra úr leyninúmeri, á tímabilinu frá kl. 08:45 til 09:15. Skýrðu þau frá því að erindi sonarins hefði verið að fá þau til að afhenda honum fjármuni, allt að einni milljón króna, vegna eigin skulda hans. Þá hefði hann tjáð þeim að ef það yrði ekki gert myndi hann verða barinn, sprautaður og sýktur af lifrarbólgu, en að auki myndi fjölskylda hans verða fyrir líkamstjóni. Um atvik og aðstæður á vettvangi segir í frumskýrslu lögreglu að í anddyri fjölbýlishússins hafi lögreglumenn veitt ákærða Gesti og A eftirtekt þar sem þeir hafi verið á leið niður stigahúsið. Segir í skýrslunni að för þeirra hafi verið stöðvuð á milli 1. og 2. hæðar, en um viðbrögð þeirra segir nánar: „A horfði ... á okkur og byrjaði hreyfingar með hendinni eins og hann vildi banda okkur frá. A var bólginn í andliti og annað augað sokkið, auk þess sem sást að hann haltraði. Fyrstu viðbrögð A þegar við komum að honum voru að hann sagði: „Fokk, nú verð ég drepinn.“ Greint er frá að A hafi verið íklæddur náttbuxum og bol og hafi bolurinn verið blautur á bakinu og kringum hálsmálið. Þá segir að A hafi virst vera miður sín, en verið sæmilega rólegur þegar hann hafi verið færður í lögreglubifreið.
Í rannsóknargögnum segir frá því að ákærði Gestur hafi verið færður út úr fjölbýlishúsinu og leitað á honum. Hann hafi verið frekar ósamvinnuþýður og virst vera undir áhrifum lyfja eða annarra vímugjafa. Hafi honum verið gefin fyrirmæli um að staldra við á lóðinni á meðan lögreglumenn könnuðu aðstæður frekar, en af þeim sökum hafi lögreglumaður og verið hafður á vakt til að fylgjast með ferðum hans. Segir í upplýsingaskýrslu lögreglumannsins að ákærði Gestur hafi eftir þetta ráfað um lóðina austan við húsið og virst vera stressaður. Hafi hann farið suður fyrir húsið og þar í gegnum op á runna við suðurhlið lóðarmarka, en þá verið fyrirskipað að koma til baka. Hann hafi hlýtt, en haft á orði að hann hefði einungis verið að ganga framhjá fjölbýlishúsinu þegar lögreglan kom þar að. Sagt er frá því að um líkt leyti hafi lögreglu borist upplýsingar um að ákærði Gestur hefði verið einn af þeim sem gert hefðu á hlut brotaþola. Hafi ákærði því verið handtekinn, grunaður um frelsissviptingu og líkamsárás. Hann hafi verið færður á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa eftir að ítarleg leit hafði verið gerð á honum. Í handtökuskýrslu segir um ákærða að jafnvægi hans hafi verið stöðugt, málfar skýrt en ruglingslegt.
Í rannsóknargögnum er greint frá því að við upphaf lögreglurannsóknar hafi legið fyrir að A hefði hringt úr tilteknum síma í foreldra sína að morgni 10. ágúst 2009. Það símtæki hefði ekki fundist við leit lögreglu í fyrrnefndu fjölbýlishúsi eða í herberginu nr. [...], vistarverum ákærða X og sambýliskonu hans D og ekki heldur á hinum handteknu. Af þessum sökum hafi rannsóknaraðilar gert leit á lóð áðurnefnds fjölbýlishúss þann 14. ágúst, en við þá aðgerð hefði m.a. verið höfð í huga áðurrakin gönguleið ákærða Gests við húsið eftir að lögreglan hafði fyrst haft afskipti af honum umræddan morgun. Segir í gögnum að í trjárunna, sem ákærði Gestur var við þegar lögreglumaður fyrirskipaði honum að snúa við, hefði lögreglan fundið svartan Vodafone GSM farsíma. Er staðhæft að við frekari rannsókn hafi komið í ljós að úr þessum síma hafi A hringt til foreldra sinna. Símann hafi D, sambýliskona ákærða X átt.
Í skýrslum lögreglu er fjölbýlishúsinu við [...] lýst, en við rannsókn var gerð þar ítarleg leit, bæði innandyra sem utan. Segir að um sé að ræða þriggja hæða hús með mörgum sambærilegum vistarverum, sem séu til útleigu. Fram kemur að gengið sé inn í anddyri hússins á miðri austurhliðinni, en þar innan við sé gangur á hvora hönd og stigagangur gegnt anddyrinu. Liggur fyrir að eftir afskipti lögreglumanna af ákærða Gesti og A í stigahúsinu hafi þeir farið á 2. hæðina og að sameiginlegri forstofuhurð að herbergjum nr. [...] og [...]. Fram kemur að inn af forstofunni sé sameiginlegt baðherbergi. Því er lýst í rannsóknarskýrslu að nefndan morgun hafi forstofuhurðin verið ólæst og þegar inn hafi verið komið hafi hurðin að herbergi nr. [...] staðið galopin. Þar inni hafi ákærði X og sambýliskona hans D legið hreyfingarlaus uppi í rúmi. Á kolli stutt frá rúminu hafi blasað við sprauta með óvarinni nál. Hafi parið verið handtekið kl. 09:55, fært á lögreglustöð og bæði vistuð í fangaklefa. Samkvæmt handtökuskýrslum var jafnvægi þeirra stöðugt, málfar skýrt og framburður greinargóður.
Vegna rannsóknarhagsmuna voru öll hin handteknu, að kröfu lögreglustjóra, úrskurðuð í gæsluvarðhald, en í framhaldi af því voru þau ítrekað yfirheyrð um sakaratriði málsins, að viðstöddum skipuðum verjendum sínum. Daginn eftir handtók lögregla E, sem fæddur er [...], og F, sem fædd var [...]. Voru þau yfirheyrð sem sakborningar.
A gaf skýrslu fyrir lögreglu að lokinni læknisskoðun þann 10. ágúst 2009. Eftir það var hann ítrekað yfirheyrður um málsatvik, líkt og fleiri vitni sem höfðu haft samskipti við hin handteknu umrædda helgi í ágúst 2009.
2. Samkvæmt rannsóknarskýrslum skýrði A frá því í lögreglubifreið á vettvangi við [...] að morgni 10. ágúst 2009 að hann hefði m.a. mátt þola líkamsmeiðingar þá um nóttina. Segir að vegna þessa og þeirra sýnilegu áverka sem hann var með hafi hann verið fluttur á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri til aðhlynningar og skoðunar. Læknisskoðunina annaðist G [...] og ritaði hún vottorð þar um samdægurs. Í niðurlagi vottorðsins segir að efni þess hafi verið yfirfarið af H, lækni [...]deildar, og samþykkt af honum þann 11. ágúst. Upphafsorð vottorðsins eru þessi: „A segir að þeir hafi ítrekað barið hann í andlit ... með hnefum og spörkum og barið mikið á sömu staði og gert var áður, en gætt að því að láta nef og tennur ósnert. Við komu á slysadeild kemur A í fylgd lögreglu. Virðist þessi árás hafa mikið á hann fengið. Honum er kalt og hann er illa haldinn. Hann er vel áttaður á stað og stund. Gefur góða sögu.“ Í meginmáli vottorðsins er áverkum A nánar lýst þannig:
„Höfuð: Við skoðun á höfði mátti sjá miklar bólgur yfir vinstra auga, svo mikið að hann nær vart að opna augað. Engar blæðingar inn á augnhvítu. Það gætti ekki neinnar tvísýni og gróf heilataugaskoðun í lagi. Hann er með hrufl-skurðsár circulert um neðanverðan háls. Bólgur á eyrum.
Tennur óskaðaðar og bit ekki skakkt. Ekki að þreifa áverka á temporo-mandibularlið. Nef virðist vera með eldri skaða þar sem það er ekki beint við skoðun en nef óskaðað nú.
Hægri fótleggur: Hann er mikið marinn yfir hægri hnéskel sem liggur upp í quadriceps vöðvann. Er þar hiti og roði. Hruflsár, mikið mar og roði yfir öllum sköflungi hægra megin sem og ökkla. Er komið mikið haematoma yfir rist og lateral malleolus. Hvellaumur við snertingu frá hægra hné niður fyrir ökkla.
Honum er kalt og greinilega mjög hræddur. Bendi ég á að teknar voru myndir af flestum áverkum og hægt að styðjast við þær frekar.
Á slysadeildinni var framkvæmd tölvusneiðmynd af höfði og voru ekki merki um blæðingar í heila og engin brotamerki. Þó mikil mjúkvefjabólga yfir vinstra auga og kinnbeini.
Tekin var röntgenmynd af hægra fæti og ökkla sem greindust ekki brot í.
Samantekt: Ljóst er að A mátti þola mikið þennan tíma sem honum var haldið nauðugum. Á þessum tímapunkti er þó erfitt að meta hvort hann muni hljóta af varanleg líkamleg meiðsl. Flest áverkamerki voru á mjúkpörtum og þá sérstaklega á höfði og hægri ganglim.
Á slysadeild fær hann einungis skoðun og fær að matast og fer síðan aftur í fylgd lögreglu.“
Á meðal rannsóknargagna eru ljósmyndir sem teknar voru af A á Sjúkrahúsinu á Akureyri við ofangreinda læknisskoðun. Einnig liggja fyrir fjórar ljósmyndir sem lögregla tók af honum. Var ein þeirra tekin á vettvangi í [...] að morgni 10. ágúst, en þrjár síðar um daginn á lögreglustöð. Myndirnar eru í möppu, sem rannsóknarlögreglumaðurinn I útbjó, og er skýringartexti með hverri mynd. Um fyrstu myndina segir að þar megi sjá roða í hægra eyra A og för á hálsi hans. Á annarri mynd segir að sjá megi áverka í andliti og för á hálsi, en einnig óhreinindi á hálsinum og herðum „líklegt er að þar sé um að ræða munntóbak og/eða malað kaffi“. Á þriðju mynd segir að sjá megi áverka í andliti, á fjórðu mynd segir að sjá megi áverka á fótum, á fimmtu mynd segir að sjá megi för/rispur á baki, á sjöttu mynd segir að sjá megi áverka á aftanverðum lærum og á sjöundu mynd, sem tekin var á vettvangi í [...], segir að sjá megi að bolur A hafi verið blautur í kringum hálsmálið.
Í vottorði J [...]læknis, sem dagsett er 7. maí 2010, er frá því greint að við fyrrnefnda læknisskoðun hafi vaknað grunsemdir um að A hefði verið stunginn í eyra með sýktri sprautunál. Vegna þessa hafi verið tekið blóðsýni úr A nefndan dag, en síðan endurtekið eftir það, til að athuga hvort að mótefni fyrir lifrarbólgu C fyndist hjá honum. Segir frá því að við rannsókn á fyrsta blóðsýninu hafi hann reynst vera neikvæður fyrir lifrarbólgu C. Um annað blóðsýnið, sem tekið var í lok febrúar 2010, segir að rannsókn á því hafi sýnt að A var jákvæður fyrir lifrarbólgu C. Þá segir að í apríl sama ár hafi verið tekið sýni úr A og hafi rannsókn á þeim sýnum sýnt að hann væri sýktur af lifrarbólgu C, en að PCR magn hafi mælst mjög lágt. Loks segir að í júní og júlí 2010 hafi enn verið tekin blóðsýni úr A, en þá hafi, í báðum tilvikum, rannsóknir sýnt að hann væri neikvæður fyrir lifrarbólgusmiti C.
3. Með framburði ákærðu við rannsókn málsins, skýrslum vitna og öðrum rannsóknargögnum lögreglu er upplýst að ákærði X og sambýliskona hans D voru í ágúst 2009 búsett í herbergi nr.[...] í fjölbýlishúsinu að [...], en þau höfðu hafið sambúð í byrjun ársins. Óumdeilt er að mikil kynni og samskipti voru með þeim og E og F. Þá liggur fyrir að er atvik gerðust höfðu ákærðu X og Gestur þekkst í fáeina daga og að sá síðarnefndi hafði vegna húsnæðisvandkvæða fengið leyfi til að flytja nokkuð af búslóð sinni í forstofurýmið við vistarverur ákærða X í [...]. Ágreiningslaust er að takmörkuð kynni voru með ákærða X og brotaþolanum A og að þau hófust í ársbyrjun 2009. A og ákærði Gestur þekktust ekkert.
Af framlögðum gögnum og skýrslum verður helst ráðið að nokkru eftir hádegið sunnudaginn 9. ágúst hafi ákærði X, með liðsinni móður sinnar, aðstoðað ákærða Gest við að flytja hluta af búslóð hans frá leiguíbúð sem hann var að skila af sér í [...] í [...] í fyrrnefnt forstofurými við herbergin nr. [...] og [...] í [...], og að ákærði Gestur hafi eftir það haldið áfram frágangi í leiguíbúðinni, en þá um kvöldið, um kl. 19, fengið við það verk nokkra aðstoð frá sambýliskonu ákærða X, D. Hafi ákærði X aftur á móti haldið kyrru fyrir í herbergi sínu í [...], en að um kl. 16:00 hafi hann fengið heimsókn vinafólksins E og F. Óumdeilt er að þau voru þá virkir fíkniefnaneytendur og höfðu bæði greinst með lifrarbólgu C. Að þeirra sögn sprautuðu þau sig með amfetamíni eftir að þau komu í vistarverur ákærða X þennan dag. Samkvæmt skýrslum þeirra var ákærða X tíðrætt um fjárhagsvandræði sín, m.a. vegna húsaleiguskulda og eigin kaupa á fíkniefnum og að hann hefði af þeim sökum reynt að innheimta fjármuni sem hann taldi sig eiga inni hjá öðrum, m.a. vegna fíkniefnaviðskipta. Liggur m.a. fyrir að hann reyndi árangurslaust að hringja í A. Óumdeilt er að um kl. 19:00 fóru ákærði X, E og F á veitingastað í Lundarhverfi, höfðust þar við í um 1½ klukkustund og neyttu áfengra drykkja. Er hér var komið sögu náði ákærði X símasambandi við A og varð að ráði með þeim að ákærði X kæmi til hans til að ræða um skuld A. Fór ákærði X í framhaldi af þessu ásamt E og F í leigubifreið, um kl. 20:20, að heimili A. Knúði F dyra, hitti fyrir heimilisföðurinn B, en spurði því næst eftir A. Fór A af heimili sínu með leigubifreiðinni íklæddur bol og kokkabuxum/náttbuxum, en skildi eftir GSM síma og veski. Að fyrirlagi ákærða X var leigubifreiðinni ekið að bensínstöð við [...] í [...], þar sem hann keypti hvítan kaðal og tvær rúllur af límbandi. Með honum í verslunina fór E og var hann þá íklæddur rauðum bol, eins og fram kemur á ljósmynd sem lögregla kallaði fram úr eftirlitsmyndakerfi og staðfest var fyrir dómi. Eftir viðskiptin var ekinn stuttur spölur að [...]. Fóru þau þar öll úr leigubifreiðinni, gengu um anddyri fjölbýlishússins, um stigahúsið, upp á 2. hæðina og í herbergi nr. [...]. Verður ráðið af gögnum að á þeirri stundu hafi ákærði Gestur og D setið í sófa í anddyri fjölbýlishússins, en að þau hafi þá nýlega verið komin þangað með hluta af búslóð ákærða Gests. Þau síðastnefndu fylgdu fjórmenningunum ekki upp í herbergið heldur biðu átekta, að því er virðist samkvæmt fyrirmælum ákærða X og/eða E.
Ágreiningslaust er að brotaþolinn A hafðist við í vistarverum ákærða X í [...] samfellt frá því um kl. 21 sunnudagskvöldið 9. ágúst og allt þar til hann fór þaðan út skömmu áður en lögreglumenn hittu hann fyrir þar sem hann var ásamt ákærða Gesti á leið niður stigahúsið rétt fyrir kl. 10:00 mánudagsmorguninn 10. ágúst. Við lögreglurannsókn málsins lýsti A atgangi og barsmíðum sem hann hefði orðið fyrir. Var frásögn hans að nokkru leyti í samræmi við skýrslur ákærða X hjá lögreglu, en einnig þær lögregluskýrslur sem F og E gáfu, þar sem þau báru að strax við komu í herbergið hefði ákærði X hafið orðræðu um ætlaða skuld brotaþolans A vegna fíkniefnakaupa hans og félaga hans fyrr á árinu 2009 og að hann hafi skömmu síðar fengið áverka við vinstra auga og verið stunginn með sprautunál í hægri eyrnasnepil. Síðan hafi hann verið látinn leggjast fyrir á dýnu í austurhorni herbergisins, þar sem sæng hafi verið breidd yfir hann, settur yfir hann stóll og teppi lagt þar yfir. Af gögnum og skýrslum verður ráðið að eftir þetta hafi D og ákærða Gesti verið boðið að koma inn í herbergið. Um athafnir ákærðu og annarra eftir þetta verður helst ráðið að skömmu eftir miðnættið hafi ákærði X og E farið út úr herberginu og verið fjarverandi í um 1 til 1½ klukkustund. Hafi þá hafst við í vistarverunum með A, húsráðandinn D, ákærði Gestur og að einhverju leyti F heitin. Þá liggur fyrir að eftir að ákærði X og E komu á ný í vistarverurnar hafi komið þangað í heimsókn, með leigubifreið, K og L. Varð nokkur atgangur með K og ákærða X, fyrst í herberginu og síðan utandyra. Skiptum þeirra lauk á bílastæði fyrir utan húsið eftir að aðrir íbúar hússins höfðu kvartað vegna hávaða til lögreglu sem kom á vettvang kl. 02:26. Áttu lögreglumenn í framhaldi af því nokkur samskipti við ákærða X og K. Segir frá því í lögregluskýrslu að ákærði X hafi eingöngu verið íklæddur nærbuxum, sokkaleistum og stuttermabol og að hann hafi verið í nokkru uppnámi, í annarlegu ástandi og að hann hafi verið með ásakanir í garð K. Hann hafi gníst tönnum ítrekað og m.a. brostið í grát þegar hann hafi verið spurður um hvort ekki væri allt með felldu. Í skýrslunni segir að hann hafi verið margsaga um íverustað sinn, en að lokum sagt að hann byggi í fjölbýlishúsinu ásamt sambýliskonu sinni og hafi málalyktir að lokum orðið þær að hann hafi farið til síns herbergis en vitnið K horfið af vettvangi með leigubifreið. Af gögnum verður ráðið að E og F hafi gripið tækifærið og farið úr húsakynnum ákærða um svipað leyti og lýstur atgangur varð.
Samkvæmt rannsóknargögnum fór eldvarnarkerfi fjölbýlishússins í gang umrædda nótt kl. 03:36 vegna boða frá reykskynjara í herbergi nr. [...]. Er ekki ágreiningur um að það hafi gerst í kjölfar þess að ákærði X kveikti í salernispappír þar innandyra. Enginn eldsvoði eða eldhætta hlaust af því athæfi samkvæmt rannsóknarskýrslum lögreglu.
Ágreiningslaust er að ákærðu X og Gestur héldu, ásamt D og A, kyrru fyrir í herberginu það sem eftir lifði nætur. Samkvæmt skýrslum ákærða X, sem eru í samræmi við rannsóknarskýrslur lögreglu átti hann þá um morguninn í nokkrum símasamskiptum við M, frá kl. 07:05 til 07:19. A hringdi þrívegis úr leyninúmeri eftir það í foreldra sína, á tímabilinu frá kl. 08:49 til 09:15.
Í skýrslum lögreglu er greint frá því að , kl. 04:30, hafi fyrrnefndur K hringt á lögreglustöð og tilkynnt að ákærði X hefði A í haldi. Tilkynningin hafi ekki verið talin trúverðug. Hún hafi verið endurmetin um morguninn þegar foreldrar brotaþola komu á lögreglustöðina og sögðu sögu sína. Leiddi það að lokum til viðbragða af hálfu lögreglu, en eins og áður var rakið voru ákærðu, X og Gestur, handteknir laust fyrir kl. 10:00 mánudagsmorguninn 10. ágúst 2009.
4. Við lögreglurannsókn málsins fór fram ítarleg vettvangsathugun í [...]. Liggja fyrir teikningar og ljósmyndir af vettvangi. Einnig kannaði lögreglan símasamskipti ákærðu og vitna á því tímabili sem hér um ræðir. Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu rannsóknaratriðum og niðurstöðum sem máli skipta.
Í vettvangsskýrslu lögreglu er húsaskipan í fjölbýlishúsinu [...] lýst, en m.a. kemur þar fram að í forstofurými við herbergi nr. [...] og [...] hafi verið mikið af dóti, þ. á m. ferðatöskur, pappakassar og verkfæratöskur, að mestu leyti í eigu ákærða Gests. Fram kemur að enginn hafi búið í herbergi nr. [...]. Þá er því lýst að í baðherberginu inn af forstofunni hafi neftóbak verið í vaski og þar hafi fundist umbúðir utan af ætluðu fíkniefni. Að öðru leyti segir um baðherbergið að það hafi virst nýlega þrifið og verið mjög hreint, bæði klósett og sturta. Í lögregluskýrslu er herbergi nr. [...] nánar lýst þannig:
„Íbúðin er sjálf um 5 x 3,6 metrar að stærð. Gengið er inn í íbúðina um dyr á suðurvegg. Á austurvegg er gluggi. Þegar gengið var inn í íbúðina mátti sjá svampdýnu á gólfi við austurvegg. Við hlið dýnunnar stóð stóll með setu og bak úr plasti. Við norðurvegg íbúðarinnar stóðu tveir stólar, annar nokkurs konar hægindastóll en hinn eldhússtóll. Meðfram vesturvegg íbúðarinnar, undir glugganum var staðsett rúm. Rúmið var um 125 sentímetra breitt og 205 sentímetra langt. Höfðagafl rúmsins var við norðurvegg. Vestast á suðurvegg íbúðarinnar var bekkur sem virtist vera notaður sem skrifborð. Talsvert af dóti var á skrifborðinu, tölvuskjáir og körfur með ýmsum munum. Undir skrifborðinu var skrifborðsstóll. Þar sem skrifborðið endar var staðsettur fataskápur. Fyrir framan fataskápinn stóð náttborð á gólfinu. Í lofti herbergisins voru tvö loftljós en einungis var ljós á öðru. Einnig var þar reykskynjari tengdur brunaviðvörunarkerfi [...]. Á dýnunni rétt fyrir innan dyrnar lá dökkblátt teppi með ljósbláu munstri og tveir koddar. Dýnan sjálf var blaut og einnig koddarnir sem á henni lágu. Talsverð ólykt var af dýnunni. Á gólfi við dýnuna var einnig að sjá talsvert af brúnu grófu dufti. Á gólfi við hlið dýnunnar mátti sjá rautt vax í dropum. Einnig var að finna samskonar vax á vegg fyrir ofan dýnuna. Í kringum dýnuna var einnig að finna hárlokka sem lágu þar á gólfinu. Við austurvegg íbúðarinnar á bak við hurðina stóð blátt skaft með skúringamoppu. Vinstra megin við hurðina inn í íbúðina lá ryksuga. Við ryksuguna var hvorki tengt rör né ryksuguhaus, en sjá mátti hluta úr ryksuguhausnum liggja á víð og dreif um herbergið. Við leit í íbúðinni fannst rörið af ryksugunni á bak við rúmið. Rörið var talsvert dældað og á því voru einnig brot úr ryksuguhausnum. Á gólfi herbergisins mátti sjá á mörgum stöðum hálf brunninn klósettpappír. Pappírinn var m.a. við dýnuna og undir hægindastól. Einnig voru á gólfinu áfengisumbúðir, bæði vodkaflöskur sem og bjórdósir. Við dýnuna mátti sjá hrúgu af hlutum sem virtist hafa verið sópað saman. Þar var meðal annars rifinn smokkur, brunnið sprittkerti, hárlokkar og kaffikorgur eða munntóbak. Nokkurn veginn á miðju gólfinu stóð lítið náttborð. Ofan á náttborðinu lá sprauta sem í var glær vökvi. Áföst sprautunni var sprautunál, sem virtist vera notuð. Á náttborðinu var einnig límbandsrúlla. Var þar um að ræða límbandsrúllu með brúnu málningarlímbandi. Í hægindastól við norðurvegg fannst svartur jakki. Þegar hreyft var við jakkanum gaus upp megn hlandlykt í íbúðinni. Við leit fannst inni í fataskáp límbandsrúlla með glæru kassalímbandi. Einnig var þar að finna dráttarkaðal, hvítan með bleikum þræði. Á skrifborði var mikið af ýmiskonar dóti. Í körfu á borðinu mátti finna marga pappírsmiða. Á marga þeirra voru skrifuð nöfn og tölur og er það ætlun lögreglu að þarna sé um skuldalista að ræða. Á einhverjum þessara lista kom nafnið A fyrir. Í sömu körfu var einnig að finna notað hasslón. Á skrifborðinu stóðu einnig tveir hreinir matardiskar ásamt einhverjum hnífapörum. Einnig var leitað í sameiginlegu þvottahúsi [...]. Við leit fannst sæng á bekk í þvottahúsinu. Í sænginni voru meðal annars blóðblettir og rauðleitt vax líkt því sem fannst á gólfi og veggjum íbúðar [...].“
Á vettvangi lagði lögregla hald á fjölmarga muni, þ. á m. sprautu með nál og glærum vökva sem fannst á náttborði, tvær límbandsrúllur, dráttarkaðal, fimm metra langan, með brúnum óhreinindum á nokkrum stöðum, ryksugurör, dældað, 56 cm. langt og vó 520 grömm. Rörið er tvöfalt en ekki var hægt að renna því í sundur, líklega vegna dældanna, segir í athugasemd. Einnig var lagt hald á tvær myndavélar, aðra af gerðinni Nikon, sem lá á skrifborði, hina af gerðinni Sony, sem var í náttborðsskúffu. Þá var lagt hald á Nokia farsíma, sem lá á skrifborði. Var hann skráð eign ákærða Gests og innistæðulaus. Lagt var hald á Vodafone farsíma, sem var í krús á skrifborði, án rafhlöðu, flísatöng, sem fannst í krús á skrifborðinu, skúringamoppu, tvær bjórdósir og eldhúshníf með svörtu haldi sem fannst undir rúmi alveg upp við austurvegg. Á hnífnum voru rauðar/appelsínugular matarleifar. Lagt var hald á sprautu með sprautunál og sprautunál með hettu, sem fundust í ruslapoka í anddyri, dökkt hvítmunstrað flísteppi og rifinn smokk sem lágu á gólfi rétt innan við hurð inn í herbergið, brunnin sprittkerti og brunninn klósettpappír sem fundust á gólfi m.a. við fyrrnefnda dýnu, en einnig fundust þar tvær 0,7 lítra flöskur af Vodka, hárlokkar og kremtúba við hlið hægindastóls. Lagt var hald á rafmagnsrakvél sem í var töluvert af föstum hárum. Þá var kertavax skafið upp af gólfi í því horni sem dýnan lá, við austurvegg herbergisins. Loks var lagt hald á sæng með blóðblettum sem fannst í þvottahúsi á fyrstu hæð.
Við rannsókn lögreglu voru afritaðar tvær ljósmyndir úr fyrrnefndri Nikon myndavél og eru þær á meðal gagna málsins. Um myndir þessar segir í skýringartexta lögreglu, að þær séu ekki tímasettar. Myndirnar eru af A. Í myndatexta segir m.a:
„Á efri myndinni má m.a. sjá að sprautunál stendur í hægri eyrnasnepli A. Rauður litur, líklega blóð, er sýnilegt í nálinni. Maður í rauðum bol, er E, stendur á bak við A á myndinni.
Á neðri myndinni má sjá bólginn vinstri vanga A og för á hálsi. Á báðum myndunum má sjá hárlokka á öxlum A.“
Auk þeirra ljósmynda sem lögregla tók innandyra í [...] voru við rannsókn málsins teknar myndir utandyra og í næsta nágrenni fjölbýlishússins, en einnig af þeim munum sem haldlagðir voru. Segir í myndatexta um hnífinn, sem fannst undir rúmi, að um sé að ræða eldhúshníf með 22 cm löngu blaði. Á því voru harðnaðar matarleifar, rauðar á lit.
5. Ákærði X var handtekinn að morgni 10. ágúst 2009. Hann var yfirheyrður af lögreglu um sakarefnið 12., 14., og 17. ágúst, en einnig 8. september sama ár og 28. maí 2010. Hann játaði við lögregluyfirheyrslurnar, líkt og síðar fyrir dómi, hluta sakargifta. Fyrir dómi hefur hann játað að hafa gengið í skrokk á A. Staðfesti hann að því leyti að nokkru verknaðarlýsingu í ákæru, en einnig að atvik máls hefðu gerst 9. og 10. ágúst 2009 og að aðalvettvangurinn hefði verið á þáverandi heimili hans að [...]. Hann staðfesti og áréttaði að þessu leyti efni skýrslna sinna fyrir lögreglu, en kvaðst þó hafa gert þar heldur minna úr hlut annarra en efni voru til.
Fyrir dómi játaði ákærði, nánar aðspurður um sakargiftir, að hafa barið brotaþolann A einu sinni til tvisvar með ryksuguröri, á vinstri vanga. Þá játaði hann að hafa slegið A í höfuð og að hafa sparkað og slegið hann ítrekað í fætur, m.a. með ryksugurörinu. Ákærði kvaðst ekki draga í efa og taldi reyndar líklegt að afleiðingar þessa verknaðar hans hefðu verið þær sem í ákæru greinir, þ.e. að A hefði fengið bólgur og mar á höfði og á ganglimum. Hanni neitaði því á hinn bóginn að árás hans gegn brotaþola hefði verið stórfelld í skilningi hegningarlaganna. Ákærði játaði að hafa hent logandi pappír að A en bar að hann hefði ekki drifið nægilega langt og því hefði enginn skaði eða hætta hlotist af þeirri háttsemi hans. Hann játaði að hafa skvett heitu kertavaxi á brotaþola þar sem hann lá á dýnu i vistarverum hans. Þá játaði hann að hafa beitt brotaþola tiltekinni þvingun og sagði að það hefði hann gert þegar hann var að reyna að innheimta peningaskuld sína. Fyrir dómi neitaði ákærði að öðru leyti sök og verknaðarlýsingu í upphafskafla og 1. kafla ákæru. Hann neitaði þannig að hann hefði ógnað brotaþola með hnífi og að hafa vafið kaðli að hálsi hans og þrengt að, ógnað honum eða stungið með smitandi sprautunál, að hafa klipið hann með flísatöng, hellt yfir hann áfengi og hótað honum eða hans nánustu ættingjum líkamsmeiðingum og lífláti greiddi hann ekki umkrafða fjármuni. Ákærði vísaði til minnisleysis varðandi það sakaratriði að hafa kastað þvagi á brotaþola, en neitaði því að hann hefði með framferði sínu gerst sekur um frelsissviptingu, ólögmæta nauðung, tilraun til fjárkúgunar eða að hafa smitað brotaþola af lifrarbólgu C.
Fyrir dómi lýsti ákærði ástandi sínu og aðstæðum umrædda helgi í ágústmánuði 2009 á þá leið að hann hefði þá verið í mikilli óreglu og hefði svo einnig verið dagana þar á undan. Hann kvaðst hafa neytt fíkniefna, m.a. amfetamíns, ritalíns, kókaíns og kannabisefna, en að auki drukkið talsvert af áfengi, en þar á ofan hefði hann verið vansvefta. Þá kvaðst hann hafa haft áhyggjur af bágum fjárhag sínum og vísaði m.a. til þess að honum hefði gengið illa að innheimta eigin fjármuni, m.a vegna sölu hans á fíkniefnum.
Ákærði lýsti athöfnum sínum sunnudaginn 9. ágúst 2009 á sama veg og hér að framan var rakið. Ákærði skýrði frá því að E og F heitin hefðu á þessum tíma skuldað honum umtalsverða fjármuni vegna eigin fíkniefnakaupa. Hann kvaðst umræddan dag árangurslaust hafa reynt að hringja í A vegna slíkrar skuldar og bar að áður en hann hefði farið á veitingastaðinn í Lundarhverfi, hefði hann verið með hugmyndir um að berja hann ef á þyrfti að halda. Eftir að hann hafði náð í A í leigubifreið þá um kvöldið kvaðst ákærði með kaupum sínum á kaðli og límbandi í bensínafgreiðslu hafa verið að senda honum ákveðin skilaboð um að eitthvað stæði til; „Ég játa þarna sko ákveðna þvingun, ég var náttúrulega að fá þetta í gegn, þetta var svoleiðis, að fá peningana mína frá A, það voru í kringum 150.000 til 200.000, og þá bara einhvern hlut af því.“ Ákærði sagði að hann hefði hagað málum í umrætt sinn á þann veg að þegar þau hefðu komið með A í íbúðina í [...] hefðu sambýliskona hans og meðákærði ekki verið nærri og staðhæfði jafnframt að þau hefðu ekki verið höfð með í ráðum í aðgerðum hans gegn A.
Fyrir dómi sagði ákærði að þegar þau voru komin í herbergið hefði A verið gert að setjast á stól, en í beinu framhaldi af því kvaðst hann hafa sagt honum að mál væru orðin harla alvarleg þar eð hann hefði svikist um að greiða skuldir sínar um langan tíma. Ákærði bar að á meðan á þessum fyrstu orðaskiptum stóð hefðu E og F ráfað um herbergið „svona í einhverri neyslugeðshræringu“. Ákærði kvaðst hafa haldið orðræðunni áfram, sagt A að hann gæti ekki lengur vikist undan því að efna greiðsluloforð sín, en á þeirri stundu hefði honum verið ljóst að A gæti ekki greitt skuld sína þá um kvöldið. Hann hefði því rétt A blað og blýant og fyrirskipað honum að rita hugmyndir sínar um það hvernig hann ætlaði að leysa sín mál. Fyrir dómi andmælti ákærði því alfarið að hann hefði er þarna var komið sögu hótað A og kannaðist m.a. ekki við að hafa ógnað honum með hnífi. Ákærði kannaðist heldur ekki við að hafa handleikið þann hníf sem lögreglan fann í herberginu við vettvangsleit daginn eftir, en staðhæfði að hnífurinn hefði verið með pítsuleifum. Ákærði bar að eftir að hann hafði tekið við fyrrnefndu blaði frá A og séð að hann hafði aðeins ritað nafn móður sinnar og tveggja sameiginlegra kunningja þeirra hafi hann gert sér grein fyrir að A ætlaði sér alls ekki að greiða skuld sína. Vegna þessa kvaðst hann hafa misst stjórn á sér og lýsti hann viðbrögðum sínum nánar þannig: „Ég svona dett út, ég trompast bara, og ég lem hann, eða ég lem hann alla vega í einhverri hræðslu og ég byrja að lemja hann bara með höndunum ... í skrokk og andlit, 5-10 högg en ég er ekki viss. ... Og síðan gríp ég þetta ryksugurör, sem var staðsett þarna ... hann dettur af stólnum á gólfið og ég fylgi á eftir og er að lemja hann og ég gríp þetta ryksugurör þarna og lem því í andlitið á honum ... einu sinni eða tvisvar, ég þori ekki að fara með það ...“. Ákærði sagði A hefði verið með sýnilega áverka í andliti eftir barsmíðarnar, þ. á m. glóðarauga. Hann staðhæfði að við þetta hefðu E og F æst mikið upp og haft sig frekar í frammi, þar á meðal hefði annað þeirra hrækt á A. Ákærði treysti sér ekki til að fullyrða nánar um gjörðir þeirra eða um atburðarásina eftir þetta og vísaði þar um til eigin vímu og hugaræsings. Ákærði kvaðst þó minnast þess að eftir að A var sestur aftur á stólinn hefðu nefndir félagar hans eitthvað verið að bisast þar með fyrrnefndan kaðal, en þar sem hann hefði ekki náð utan um A á stólnum hefði hann í raun verið laus. Kvaðst ákærði vegna þessa hafa hrifsað kaðalinn til sín og hent honum inn í skáp, en er þarna var komið sögu hefði hann verið í mjög æstu skapi. Kvaðst ákærði hafa tekið það til bragðs að fara inn á baðherbergið til að skvetta á sig köldu vatni og ná áttum. Hann minntist þess að E hefði komið til hans þegar hann var á baðherberginu og reynt að róa hann niður, en fljótlega farið aftur inn í herbergið til A og F. Var það ætlan ákærða að þegar þetta gerðist hefðu verið liðnar um 20-30 mínútur frá því að A kom fyrst í vistarverur hans. Það var ætlan ákærða að eftir þetta hefði hann farið niður í anddyri, þar sem sambýliskona hans D og meðákærði Gestur biðu átekta, til að tilkynna þeim að atganginum í herberginu væri lokið og að þeim væri því óhætt að fylgja honum þangað. Minnti ákærða það helst að þegar hann hefði komið á ný inn í herbergið hefði hann séð E og F standa hjá A þar sem hann sat á fyrrnefndum stól og voru eitthvað að „bisast við hann“. Þá hefði hann jafnframt veitt því eftirtekt að sprautunál hafði verið stungið í eyrnasnepil A. Hann kvaðst minnast þess að F hefði haft orð á því að A hefði verið stunginn með nálinni í þeim tilgangi að hræða hann en jafnframt hefði hún verið með útskýringar um að engin smithætta væri af nálinni þar sem henni hefði verið stungið í eyrnasnepil. Kvaðst hann hafa ályktað af þessum orðum F að það hefði verið hún sem hefði stungið sprautunálinni í eyrað á A, og þá eftir atvikum þegar E var hjá honum inni á baðherberginu skömmu áður. Ákærði kvaðst hafa haft vitneskju er atvik þessi gerðust um að F var smituð af lifrarbólgu. Hann kvaðst ekki hafa gert athugasemdir við athæfið, en bar að hann hefði aldrei samþykkt að gera slíkt. Vísaði hann í því sambandi til þess og áréttaði að nefndar innheimtuaðgerðir hans gagnvart A hefðu tekið mið af því að sambýliskona hans yrði ekki vitni að þeim eða öðrum ofbeldisverkum. Ákærði staðhæfði jafnframt að hann hefði ekki haft vitneskju um þær ljósmyndatökur sem fram fóru af A í greint sinn, en hann kvaðst ekki hafa átt myndavélina sem myndirnar voru teknar með. Nánar aðspurður kvaðst ákærði ekki treysta sér til að segja til um það hvenær nálin var tekin úr eyra A og þá ekki hver hefði gert það. Ákærði skýrði frá því að það hefði verið venjan hjá F að geyma sprautur og nálar í sérstöku veski innanklæða og staðhæfði að slík tól hefðu því ekki legið á glámbekk í íbúð hans. Þá bar ákærði að hann hefði hræðst sprautur og nálar og því hefði hann m.a. ekki treyst sér til að sprauta sjálfan sig með fíkniefnum heldur fengið aðstoð annarra við slíkar athafnir. Vegna þessa hefði hann beðið E þá um nóttina að útbúa fyrir sig fíkniefnasprautu og bar að hún hefði legið á náttborðinu í íbúðinni þegar lögreglan kom á vettvang morguninn eftir.
Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa gert sér grein fyrir því þegar þarna var komið sögu að atburðarásin var orðin stjórnlaus. Hann kvaðst því hafa tekið það til bragðs að ræða einslega við A, en vísa öðrum út úr herberginu um stundarsakir. Hann kvaðst í framhaldi af því hafa spurt A hvort hann hefði einhverja raunhæfa lausn á því hvernig hann ætlaði að greiða skuld sína og m.a. innt hann eftir innistæðum í banka ellegar hvort hann hefði möguleika á yfirdráttarláni. Staðhæfði ákærði að A hefði svarað því til að slíkar lausnir væru ekki útilokaðar og bar að í kjölfar þessa hefði orðið að ráði þeirra í millum að A héldi kyrru fyrir í herberginu þar til bankar opnuðu daginn eftir, „þetta verður bara nokkurn veginn samningsatriði á milli okkar“. Vísaði hann í þessu sambandi einnig til þess að A hefði áður dvalið í vistarverum hans næturlangt, enda þótt hann hefði ekki gist þar. Ákærði bar að á þessari stundu hefði hann einnig haft í hyggju að fara í eigin banka um morguninn.
Fyrir dómi staðhæfði ákærði að A hefði aldrei farið fram á að fá að fara út úr vistarverum hans og sagði að í raun hefði hann ekki þurft að halda þar kyrru fyrir. Hann kvaðst ekki geta útskýrt þessi orð sín frekar, en vísaði til þess „að algjör skortur á rökhugsun hefði verið hjá [honum] vegna vímuefnaástands“. Ákærði sagði að í kjölfar fyrrgreinds samkomulags hefði verið útbúið einskonar afdrep fyrir A á dýnu í einu horni herbergisins. Ákærði áréttaði að hann hefði ekki litið svo á að A hefði með greindum hætti verið beittur nauðung. Hann hefði þannig ekki verið í stöðugri gæslu og fullyrti ákærði að engum hefði verið falið að hafa eftirlit með honum og þá ekki þegar hann fór sjálfur út úr herberginu um miðnættið ásamt E, en þeir hafi þá verið að ná sér í fíkniefni. Ákærði bar að þegar líða tók á nóttina og komið var undir morgun hefði „dregið verulega“ af honum vegna inntöku lyfja sem hann hefði fengið hjá E í nefndum fíkniefnaleiðangri þeirra. Hann minntist þess ekki að hafa heyrt í brunaboða um nóttina.
Ákærði skýrði frá því að eftir að hann kom úr nefndum leiðangri með E, um klukkan 02:00, hefði hann farið að „abbast eitthvað í A“. Hann kvaðst m.a. hafa skvett kertavaxi að A þar sem hann lá á dýnunni í herbergishorninu, en minntist þess ekki gjörla hvort hann hefði einnig kastað af sér vatni á hann. Hann kannaðist hins vegar ekki við að hafa klipið A með flísatöng.
Við meðferð málsins neitaði ákærði því að hafa hótað brotaþola eða nánum ættingjum hans líkamstjóni, ófarnaði eða lífláti greiddu þeir ekki umkrafða fjármuni og sagði um þær sakir m.a.: „hann hefði lítið gagnast mér dauður sko.“ Ákærði kvaðst reyndar alls ekki minnast þess að hótanir hefðu verið hafðar í frammi gagnvart A og þá ekki eftir að meðákærði Gestur kom inn í herbergið og átti í orðaskiptum við hann.
Fyrir dómi játaði ákærði að hafa gengið í skrokk á A síðar þessa nótt. Sagði hann að það hefði gerst eftir að hann kom úr fyrrnefndum fíkniefnaleiðangri, í kjölfar símhringingar frá K, ekki síst vegna fyrirskipunar hans um að láta A lausan. Um viðbrögð sín vegna þessa sagði ákærði: „Eftir þetta trompast ég og ræðst aftur á A og þá með einhverjum spörkum þarna í fæturna þar sem hann er á dýnunni.“ Staðhæfði ákærði að meðákærði hefði tekið þátt í þessari atlögu. Fullyrti hann að meðákærði hefði þannig verið með eigin fætur ofan á höfði A. Hann kvaðst hafa skipað meðákærða að hætta athæfinu vegna þeirra áverka sem fyrir voru á andliti A, en að auki hefði honum fundist málið vera honum óviðkomandi. Ákærði ætlaði að meðákærði hefði verið skólaus er þetta gerðist og því hefði A ekki hlotið sýnilega áverka af hans völdum. Ákærði bar að greind atlaga hans gegn A hefði staðið yfir í stuttan tíma eða aðeins á meðan K var í símanum. Hann ætlaði og að er atburður þessi gerðist hefðu E og F verið farin úr vistarverum hans.
Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki hafa séð meðákærða veitast frekar að A þessa nótt, hvorki með barsmíðum, höggum né spörkum, en minntist þess að þeir hefðu átt orðastað vegna einhverra bílaviðskipta sem vinkona meðákærða tengdist. Kvaðst ákærði hafa talið að um einhvern misskilning hefði verið að ræða af hálfu meðákærða, en minntist þess að hann hefði nefnt peningafjárhæðir, allt að einni milljón króna. Ákærði kannaðist við að hann hefði sjálfur á einhverjum tímapunkti þessa nótt sagt við A að hann skuldaði sér 780.000 krónur, en bar að sú upphæð hefði ekki átt við nein rök að styðjast. Staðhæfði hann að ef A hefði reitt fram 50.000 til 75.000 krónur hefðu málalyktir orðið allt aðrar en raun varð á.
Fyrir dómi áréttaði ákærði X þann framburð sinn að er leið á nóttina hefði smám saman dregið af honum og bar að hann hefði að lokum lognast útaf, að hann ætlaði vegna áhrifa fyrrnefndra lyfja sem hann hefði fengið hjá E. Hann kvaðst hafa lagst fyrir uppi í rúmi og í raun næst muna eftir gjörðum sínum morguninn eftir, en þá aðeins að takmörkuðu leyti. Hann kvaðst þá hafa haft í hyggju að fara í banka og því hringt til E í þeim tilgangi að fá hann til að koma til sín og sprauta með amfetamínefni. Vísaði ákærði til þess að E hefði skilið slíka sprautu eftir í herberginu þá um nóttina. Vegna bágs ástands og minnisglapa treysti ákærði sér ekki til að skýra frekar frá gjörðum sínum þá um morguninn og þá ekki gjörðum annarra í herberginu. Hann kvaðst m.a. ekki minnast þess að hafa hringt til annarra en E. Aðspurður kvaðst hann kunna að slá inn númeraleynd í GSM síma.
Ákærði Gestur Hrafnkell Kristmundsson, var eins og áður er fram komið handtekinn í stigahúsinu í [...], að morgni 10. ágúst 2009. Hann var yfirheyrður 11., 12., 14. og 16. ágúst það ár, 9. mars og 2. júní 2010. Hann staðfesti þessar skýrslur fyrir dómi. Ákærði hefur frá upphafi lögreglurannsóknar og við alla meðferð málsins neitað sök.
Fyrir dómi lýsti ákærði, líkt og við fyrrnefndar yfirheyrslur, yfir verulegum minnisglöpum um atvik og eigin gjörðir helgina 8.-10. ágúst 2009 vegna áfengisóreglu, en minntist þess að hafa verið í samskiptum við ákærða X og sambýliskonu hans D. Lýsti hann þessum samskiptum sínum, en einnig við E og F, með líkum hætti og hér að framan hefur verið rakið. Hann staðfesti m.a. að er atvik gerðust hefði hann verið í húsnæðishraki og að hann hafi af þeim sökum haft leyfi húsráðanda til að geyma eigur sínar um stundarsakir í forstofu við herbergi nr. [...] í [...]. Hann kvaðst síðdegis sunnudaginn 9. ágúst hafa verið í búferlaflutningum og frágangi á þeim vistarverum sem hann var að skila af sér. Hann kvaðst minnast þess að E hefði hringt til hans og tjáð honum að D myndi koma til hans og aðstoða hann við verkið. Hann lýsti fyrir dómi hugrenningum sínum vegna þessa þannig: „Ég svo sem hafði grun um að það væri eitthvað í gangi, en ég vildi bara sem minnst vita um það. Sko þeir voru búnir að tala um að innheimta einhverjar fíkniefnaskuldir, X og E, ég vildi því í raun vita minna heldur en meira.“ Þá um kvöldið kvaðst ákærði hafa farið ásamt D í leigubifreið með afganginn af búslóðinni í [...], en bar að áður en það gerðist hefðu þau fengið tilkynningu um að þau mættu ekki fara í herbergi nr. [...], en skyldu í þess stað bíða átekta í anddyrinu. Hann kvað þau hafa fylgt þessum fyrirmælum og því haldið kyrru fyrir á sófa í anddyrinu. Hann treysti sér ekki til að segja til um hversu löng biðin var, nefndi 1-3 klukkustundir, en vísaði þar um til ölvunarástands síns. Á þeirri stundu kvaðst hann ekki hafa haft vitneskju um hver var með meðákærða X, E og F í herberginu, en sagði: „það var búið að segja mér að það væri handrukkun í gangi“. Nánar aðspurður um veru sína og gjörðir í anddyrinu kvaðst ákærði fyrir dómi ekki véfengja gögn lögreglu sem sýndu að hann hefði sent eftirfarandi SMS skilaboð í síma klukkan 21:34 til fyrrverandi unnustu sinnar: „Vinur þinn er búinn, við vorum að klára hann. Sorry svona er lífið. Dreptu eða vertu drepinn.“ Um efni skilaboðanna vísaði ákærði sem fyrr til ölvunarástands síns og sagði: „Einhver samsláttur var í hausnum á mér og ég hafði bara verið að rugla eitthvað í henni. Þarna hef ég verið búinn að spinna einhverja sögu upp í haus á mér til þess að senda henni.“ Nánar aðspurður kvaðst ákærði hafa talið að „eitthvað væri að gerast þarna uppi“ og bar að ef til vill væri skýringa frekast að leita til þeirrar spennu sem hefði verið í sambandi hans og vinkonu hans.
Fyrir dómi, líkt og hjá lögreglu, kvaðst ákærði fyrst hafa farið inn í umrætt herbergi ásamt D þegar boð komu um það frá E eða meðákærða X að þeim væri það heimilt. Ætlaði hann að það hefði gerst um miðnættið.
Fyrir dómi og við lögreglurannsókn málsins var ákærði ítarlega yfirheyrður um gjörðir hans í herberginu og um afskipti eða samskipti við brotaþolann A. Ákærði neitaði alfarið sakargiftum og kannaðist á engan hátt við að hafa gengið í skrokk á A eða veitt meðákærða liðsinni í því verki. Þá kvaðst hann ekki hafa orðið vitni að slíkri háttsemi og bar að A hefði legið á dýnu með teppi yfir sér þegar hann kom fyrst inn í herbergið.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu var ákærði inntur eftir vitneskju hans um þær myndir sem lögregla afritaði úr Nikon myndavél, sem fannst við húsleit og sýndu annars vegar andlitsáverka A og hins vegar að hann var með sprautunál í hægra eyra. Ákærði sagðist eiga vélina og að hún hefði verið í þeirri búslóð sem hann hafði fengið að geyma hjá meðákærða. Við skýrslutöku lögreglu þann 16. ágúst 2009 kvaðst ákærði ekki fyrr hafa séð myndirnar eða haft vitneskju um að þær hefðu verið teknar á myndavélina þessa nótt. Þá svaraði hann því til að hann væri ekki viss um hver sá maður væri sem sæist á myndunum, en ætlaði helst að það væri sá sem hefði farið með honum út úr herberginu að morgni mánudagsins 10. ágúst. Við yfirheyrslu lögreglu kvaðst hann ekki hafa vitneskju um hvernig andlitsáverkar mannsins væru til komnir og ekki af hverju eða hvernig sprautunálin hefði komist í eyrað. Hann bætti því þó við að nefnda nótt hefðu E og F handleikið nálar í herberginu. Við yfirheyrslu lögreglu þann 9. mars 2010 skýrði ákærði nánar frá málavöxtum og sagði að þegar hann hefði fyrst komið inn í herbergið hefði meðákærði ekki verið þar fyrir heldur einungis E, F og A. Hann áréttaði að A hefði legið á dýnu og undir teppi og hefði hann ætlað að hann væri sofandi. Hann staðhæfði að við þessar aðstæður hefðu E og F skýrt honum frá því að þau hefðu stungið A með nálum í eyrað og bar að þau hefðu hálfpartinn verið að monta sig af því verki. Sagði ákærði að þessi atburðarás hefði smám saman skýrst fyrir sér eftir því sem frá leið og hann hætti neyslu áfengis. Fyrir dómi staðfesti ákærði þessa síðastgreindu frásögn, en bætti því við að E og F hefðu sýnt honum umræddar myndir af A á skjá fyrrnefndrar myndavélar og fullyrti að honum hefði verið brugðið vegna þessa og sagði: „Ég varð svona eitthvað upptekinn af þessu.“
Við lögregluyfirheyrslur minntist ákærði ekki sérstakra orðaskipta á meðal þeirra sem voru í herberginu þegar atvik máls gerðust, fyrir utan að hann kvað meðákærða X hafa skýrt veru A þar inni með þeim orðum að hann skuldaði honum fjármuni, og í því sambandi nefnt 800 þúsund til 1 milljón króna. Kvaðst ákærði hafa heyrt þessa frásögn meðákærða skömmu eftir að hann kom í herbergið og áréttaði að þá hefði A legið á dýnu og undir teppi, en af þeim sökum hefði hann ekki séð andlit hans fyrr en allnokkru síðar, en þá hefði hann séð að A var blóðugur í andlitinu og með stórt glóðarauga.
Við meðferð málsins áréttaði ákærði minnisglöp sín vegna nefnds óreglu- og ölvunarástands. Hann kvaðst helst minnast þessa að E og F hefðu ekki dvalið lengi í herberginu eftir að hann kom þangað. Þar var og ætlan hans að harla lítið hefði markvert gerst eftir það og minntist þess m.a. ekki að aðrir gestir hefðu komið í heimsókn. Hann kvaðst óljóst minnast þess að hafa heyrt í reykskynjara þá um nóttina.
Við alla meðferð málsins kvaðst ákærði mjög óljóst minnast samskipta sinna við A umrædda nótt, en taldi þó öruggt að þau hefðu einhver verið og að hann hefði eitthvað rætt við hann. Hann kannaðist ekki við að hafa mislíkað við A, en rámaði í að samskipti þeirra hefðu varðað tiltekin bílaviðskipti unnustu hans, en að hann hefði um síðir áttað sig á að hann hefði farið mannavillt og að A tengdist því máli ekkert eins og hann hefði ætlað í fyrstu. Ákærði neitaði því að hann hefði krafið A um fjármuni vegna þessa misskilnings og þá ekki að hann hefði ætlað sér að hafa einhvern ávinning af rukkunaraðgerðum meðákærða.
Fyrir dómi kvaðst ákærði helst minnast gjörða sinna þessa nótt þannig að hann hefði setið við áfengisdrykkju og einnig að á einhverjum tímabilum sofið á stól. Í raun kvaðst hann helst minnast gjörða sinna í anddyri fjölbýlishússins fyrr um kvöldið og síðar þegar hann heyrði orð og skýringar E og F um fyrrnefndar ljósmyndir þegar hann kom fyrst inn í herbergið. „Það sem er minnisstæðast er að ég sá andlitsmynd af A með sprautunálina í eyranu og mig minnir að ég hafi séð áverka við augað.“
Þá kvaðst ákærði ekkert hafa þekkt til fjölskyldu A og neitaði því að hann hefði hótað honum eða fjölskyldu hans. Ákærði neitaði því einnig að hann hefði haldið A nauðugum í herberginu og áréttaði að hann hefði talið að hann mætti fara út þegar honum sýndist. Í því sambandi kvaðst hann helst ráma í að hann hefði séð A fara á klósett og á einhverjum tímapunkti séð hann reykja sígarettu, en þá hefðu meðákærði X og D verið uppi í rúmi sofandi eða hálfsofandi. Ákærði neitaði því ennfremur að hann hefði knúið A til að sinna húsverkum eða þrifum þessa nótt svo og því að hann hefði látið hann hringja í foreldra sína eða verið á leið með hann í banka þá um morguninn. Ákærði kvaðst engar skýringar hafa á andstæðri frásögn brotaþolans A eða annarra að þessu leyti. Kvaðst hann helst hafa velt því fyrir sér eftir að mál þetta kom upp, að skýringa væri að leita til laga um bætur tilhanda þolendum ofbeldis. Ákærði kvaðst heldur engar skýringar hafa á framburði meðákærða X eða sambýliskonu hans um að hann hefði gengið í skrokk á A eða viðhaft annað ólögmætt athæfi gagnvart honum.
Ákærði skýrði frá því við meðferð málsins að er hann hefði vaknað mánudagsmorguninn 10. ágúst hefði hann verið nokkra stund að ná áttum og hvar hann væri staddur, en staðhæfði að þegar það gerðist hefði A verið vakandi. Hann kvaðst fljótlega hafa afráðið að fara á bensínstöð og kaupa inneign í símann sinn. A hefði þá sagt að hann ætlaði að slást í för með honum, án þess að hafa um það frekar orð eða skýringar. Ákærði sagði að þegar þeir tveir hefðu nokkru síðar farið út úr herberginu hefði hann skilið eigin síma eftir þar inni; „sennilega bara gleymt að taka hann með mér, því ég skil hann yfirleitt ekki eftir svona“. Hann kvaðst hafa verið í stigahúsinu ásamt A þegar lögreglumenn höfðu fyrst tal af honum. Hann hefði haldið för sinni áfram, en farið að velta því fyrir sér hvort eitthvað hefði komið fyrir og því gengið hring á lóðinni en þá verið handtekinn. Ákærði kannaðist ekki við að hafa kastað frá sér því símtæki sem lögreglan fann í runna skammt frá fjölbýlishúsinu umræddan morgun.
Brotaþoli, A, fæddur [...], var eftir læknisskoðun á sjúkrahúsi að morgni 10. ágúst 2009 yfirheyrður af lögreglu um atvik, en einnig 11. og 17. ágúst sama ár. Þá gaf hann skýrslu hjá lögreglu 2. júní 2010 og loks fyrir dómi, við aðalmeðferð málsins, þann 7. janúar sl. Hann skýrði frá því að hann hefði kynnst ákærða X nokkrum misserum fyrir þau atvik sem hér eru til umfjöllunar, en einnig kvaðst hann hafa kannast við sambýliskonu hans, D. Hann kvaðst hafa þekkt til E, en ekki þáverandi sambýliskonu hans F, og þá ekki ákærða Gest.
Fyrir dómi staðfesti A efni nefndra lögregluskýrslna og þar á meðal að atvik hefðu gerst á heimili ákærða X 9. og 10 ágúst 2009. Hann bar að er frá leið nefndum atburðum hefðu atvik máls rifjast frekar upp fyrir sér og sagðist hafa gert heldur lítið úr hlut E og F.
Við meðferð málsins skýrði A frá atvikum á þá leið að hann hefði heyrt af því frá kunningja sínum síðdegis sunnudaginn 9. ágúst að ákærði X væri að leita að honum og hefði hann því um kvöldið svarað símhringingu hans. Kvaðst hann hafa fallist á í samtali þeirra að þeir hittust og vísaði til þess að allnokkru áður hefði hann keypt nokkur grömm af fíkniefnum og því skuldað honum um 30.000 krónur. Skömmu síðar kvaðst hann hafa farið frá heimili sínu í þeirri leigubifreið sem ákærði X, F og E komu með og bar að ökumaðurinn hefði að fyrirmælum ákærða X ekið sem leið lá að bensínstöð í [...], en þar kvaðst hann hafa veitt því eftirtekt að ákærði og E keyptu kaðal og límband. Vegna þessa kvaðst hann hafa orðið hugsi og sagði; „ég varð svolítið smeykur, en þorði ekki að segja neitt.“ Í framhaldi af þessum viðskiptum sagði hann að þeim hefði verið ekið að fjölbýlishúsinu [...], og hefði hann síðan fylgt ákærða X og félögum hans í herbergi á 2. hæð. Var það ætlan hans að þar hefði þá verið fyrir D, sambýliskona ákærða X, en hann kvaðst ekki fyrr hafa komið í vistarverur þeirra. A kvaðst er atvik gerðust, hafa verið allsgáður, en hann hefði séð að ákærði X, E og F voru með bjór og bar að frekar létt stemmning hefði verið með þeim. Hann sagði að andrúmsloftið hefði breyst eftir að komið var í herbergið og staðhæfði að ákærði X hefði tekið fram stóran kjöthníf og fyrirskipað honum með öskrum að setjast á stól. Þá kvað hann orðræðuna strax hafa snúist um fyrrnefnda skuld hans og hefðu ákærði X, F og E skammað hann fyrir trassaskapinn. Hann hefði verið inntur eftir því hvernig hann ætlaði að greiða skuld sína, en í framhaldi af því hefði sér verið boðið að hringja í einhvern sem gæti aðstoðað hann í því efni. Að auki hefði sér verið fyrirskipað að rita á blað nöfn þeirra sem gætu orðið honum að liði. Vegna þessara aðstæðna kvaðst hann hafa ritað á blaðið nafn besta vinar síns en samhliða reynt að hugleiða einhverja lausn og vísaði til þess að strax í upphafi orðræðunnar hefði verið sagt að ef hann borgaði ekki skuldina yrði hann barinn, en auk þess hefði sér verið bannað að fara út úr herberginu fyrr en hann hefði staðið skil á henni.
Brotaþoli staðhæfði að við ofannefndar aðstæður hefði ákærði X, en einnig E og F fjötrað hann með hinum nýkeypta kaðli; „þau svona binda létt utan um mig allan“. Að þessu leyti leiðrétti ákærði framburð sinn hjá lögreglu og bar að þrátt fyrir að ákærði X hefði haft ákveðna stjórn á öllum aðgerðum hefði hann ekki staðið einn að verki. Hann sagði að kaðlinum hefði verið vafið um hann þar sem hann sat á stólnum og í eitt skiptið hefði ákærði X vafið um háls hans og hert að í stutta stund. Vegna þessa kvaðst hann hafa hóstað, en ákærði þá losað um takið.
Líkt og við yfirheyrslur hjá lögreglu, greindi brotaþoli frá því að eftir þessar orðræður og athafnir á fyrstu mínútum hans í herberginu hefði ákærði X skyndilega umturnast í skapi. Kvað hann ákærða hafa tekið fram ryksugurör og barið hann fyrirvaralaust með því í andlitið, undir vinstra auga. Hann kvaðst hafa vankast um stund við höggið en einnig fengið áfall. Vegna þessa væri það sem á eftir gerðist ekki fyllilega skýrt í huga sér, en hann lýsti framhaldinu þannig: „Og svo þegar ég vakna aftur þá eru þau hlæjandi þarna og eru með myndavél framan í mér, ég man ekki hver tók akkúrat myndina, en þarna á þessum tímapunkti var ég kominn með þessa nál í eyrað á mér.“ Ítrekað aðspurður fyrir dómi treysti A sér ekki til að segja til um hver það hefði verið sem hefði stungið hann með sprautunálinni í eyrað. Þar um vísaði hann til fyrrnefndra afleiðinga barsmíða ákærða X og bar að vegna óskýrleikans og nefndra minnisglapa vildi hann draga þá frásögn sína til baka, sem hann gaf hjá lögreglu, að það hefði verið ákærði X sem hefði stungið nálinni í eyra hans. Hann áréttaði hins vegar þá frásögn sína hjá lögreglu að þegar ljósmyndir voru teknar af honum í herberginu í greint sinn hefði ákærði X verið þar viðstaddur ásamt E og F. Andmælti hann að því leyti andstæðri frásögn ákærða X við meðferð málsins. Ítrekað aðspurður kvaðst A helst ætla að það hafi verið F heitin sem hefði tekið ljósmyndirnar, en áréttaði að vegna hins þokukennda hugarástands gæti hann ekki sagt til um hver hefði tekið sprautunálina úr eyra hans.
Brotaþoli bar að eftir fyrrgreindar barsmíðar og athafnir hefði atgangurinn gegn honum í raun haldið áfram. Þannig hefði ákærði X klipið hann í handlegginn með flísatöng, en hann kvaðst ekki hafa fengið sýnilega áverka af þeim verknaði. Hann staðhæfði jafnframt að E og F hefðu ekki látið sitt eftir liggja og fullyrti að þau hefðu líkt og ákærði X barið hann, pínt og pyntað, enda þótt ákærði X hefði gengið lang lengst í því efni. Hann minntist þess sérstaklega að parið hefði ítrekað öskrað á hann og kallað hann ljótum nöfnum og að ákærði X hefði m.a. hellt yfir hann alls konar ógeði, þ. á m. munntóbaki, en einnig sprautað yfir hann kremi og kastað af sér vatni yfir hann þar sem hann sat á fyrrnefndum stól. Hann kvaðst ekki minnast þess að D hefði tekið þátt í þessu athæfi.
Brotaþoli sagði sérstaklega aðspurður um aðfarir F heitinnar, að fyrir utan framferði hennar í upphafi hefði hún leikið þann leik þegar hann hefði setið á stól í herberginu, að teygja smokk utan um háls hans, en síðan hefði hún látið hann smella á húðinni nokkrum sinnum. Var það ætlan hans að þá áverka sem hann var með á hálsinum eftir nóttina hefði hann fengið vegna þessa athæfis hennar, en ætlaði að ella væru þeir eftir fyrrnefndan kaðal.
Þá kvaðst A ætla að sá atgangur sem hann varð fyrir á meðan hann sat á stólnum hefði varað í um hálfa klukkustund. Hann sagði að hugarástand sitt hefði batnað eftir því sem frá leið og af þeim sökum taldi hann sig muna vel alla atburðarásina þá um kvöldið og nóttina. Hann kvaðst m.a. minnast þess að er F og ákærði X hefðu brugðið sér út úr herberginu hefði E sagt við hann að atlagan gegn honum hefði gengið of langt og að hann ætlaði að ræða það við ákærða X, að e.t.v. gæti hann greitt skuld sína daginn eftir. Þá kvað hann E og F hafa komið betur fram við sig eftir því sem á leið á kvöldið og minntist þess að F hefði gefið honum vatn að drekka, en að E hefði gefið honum að reykja.
Við meðferð málsins greindi A frá því að ákærði X, E og F hefðu tilkynnt honum þá ákvörðun þeirra að hann skyldi hafast við á dýnu í einu horni herbergisins. Bar hann að þau hefðu skýrt þessa ákvörðun sína þannig að von væri á gestum og þau vildu ekki að hann væri fyrir allra augum. Bar hann og að þessi orð og sú ráðstöfun sem á eftir fylgdi hefði verið í samræmi við áðurnefnd fyrirmæli um að hann mætti ekki fara út úr íbúðinni fyrr en hann hefði gert ráðstafanir til að greiða skuld sína. Hann sagði að í framhaldi af þessu hefði hann verið færður á dýnuna, en þar hefði hann síðan verið látinn liggja á bakinu, en jafnfram hefði verið breidd yfir hann sæng, settur yfir hann stóll og loks tjaldað yfir með teppi. Vegna þessara ráðstafana kvaðst hann lítið hafa séð hvað fram fór í herberginu og í raun aðeins hafa orðið var við umgang. Hann kvaðst því ekki með vissu hafa áttað sig á því hvað gerðist í herberginu, hverjir komu þangað eða hvað tímanum leið. Vísaði hann til þess að honum hefði alfarið verið bannað að hreyfa sig eða bæra á sér með öðrum hætti og ef það gerðist hefði ákærði X gengið í skrokk á honum með frekari barsmíðum og spörkum. Hann staðhæfði að auk þessa hefði ákærði X skvett á hann kertavaxi, hellt yfir hann áfengi og síðar um nóttina kveikt í bréfi og hent því að honum. Hann kvaðst hafa náð að slökkva í bréfinu í tæka tíð, en áréttaði að allar aðstæður hefðu verið honum mjög erfiðar.
Þá kvaðst A umrædda nótt hafa orðið var við nokkurn gestagang í herberginu og þar á meðal þegar K kom í vistarverurnar. Var það ætlan hans að K hefði á einhvern hátt séð eða vitað af honum og bar að mikill atgangur og háreysti hefði hafist með honum og ákærða X. Hann kvað einhvern nærstaddan aðila hafa komið í veg fyrir slagsmálin með því að segja að best væri að þeir færu út „áður en löggan kemur þarna upp“. Skömmu síðar kvaðst hann hafa heyrt ákærða X segja að hann hefði logið því að lögreglunni að K hefði verið með ólæti í vistarverum hans.
A staðhæfði að fyrrnefnt par, E og F, hefðu ekkert komið við sögu eftir brottför K úr vistarverunum. Það var og ætlan hans að ákærði Gestur hefði fyrst komið til sögunnar þegar um klukkustund var liðin frá komu hans og ætlaði að það hefði gerst nokkrum mínútum eftir að K hvarf á braut. Hann staðhæfði að fram til þess tíma hefði ákærði X verið sá eini sem hefði veist að honum þar sem hann lá á dýnunni. Bar hann að um það leyti sem ákærði Gestur kom í herbergið hefði sá umbúnaður sem hafði verið settur yfir hann verið tekinn af og því hefði ákærði Gestur séð vel til hans, enda hefðu ljós verið kveikt í herberginu. Hann kvaðst minnast þess að það fyrsta sem ákærði Gestur hefði sagt þegar hann leit til hans hefði verið eftirfarandi: „já þetta er gaurinn sem nauðgaði konunni minni.“ A áréttaði að hann hefði aldrei séð ákærða Gest fyrr en þetta gerðist og kvaðst hann af þeim sökum hafa spurt hann um tilefni þessara orða, en þá komist að því að ákærði Gestur ætlaði að hann væri maður sem hefði selt konunni hans bifreið á yfirverði. Hann hefði reynt að leiðrétta þann misskilning með því benda á að hann hefði aldrei tekið bílpróf og ekki átt ökutæki. Hann kvað ákærða Gest hafa brugðist við orðum hans með því að sparka í andlit hans hægra megin. Staðhæfði hann að eftir þetta hefði ákærði Gestur reglulega og nær alla nóttina sparkað í höfuð hans, en hann þá jafnan reynt að hlífa vinstri vanganum vegna þeirra áverka sem þar voru þar fyrir eftir fyrri barsmíðar ákærða X. Hann áréttaði að það sem eftir lifði nætur hefðu ákærðu þannig báðir gengið í skrokk á honum með barsmíðum og spörkum. Þar á meðal hefði það gerst eftir að fyrrnefndur K hringdi til ákærða X og viðhafði einhver orð sem vörðuðu hann. Hann kvað ákærða X hafa brugðist við þessum afskiptum með því að segja ákærða Gesti að ganga í skrokk á honum, fyrst með því að berja hann tvö högg í andlitið, en síðan með því að sparka þrívegis í höfuð hans.
A bar um athæfi ákærða Gests á þá leið að hann hefði veist að honum með fyrrnefndum barsmíðum og ítrekuðum spörkum. Staðhæfði hann að spörk ákærða Gests hefðu verið á milli tíu og tuttugu, og hann þá stundum verið íklæddur svörtum götuskóm. Hann kvaðst hafa fengið roðaáverka og skófar á innanverðu læri af hans völdum, en hins vegar ekki eiginlega áverka í andliti og vísaði til þess að fremur hefði verið um traðk að ræða heldur en bein spörk og dró hann að því leyti nokkuð úr frásögn sinni hjá lögreglu. Þá kannaðist hann ekki við að ákærði Gestur hefði lagst ofan á hann umrædda nótt eins og segir í ákæru, en vísaði að öðru leyti um hina sýnilegu áverka til læknisvottorðs og framlagðra ljósmynda.
A sagði aðspurður um athæfi ákærða X að auk áðurrakins athæfis hans væri það sér minnisstæðast að hann hefði, líkt og meðákærði nokkuð reglulega gengið í skrokk á honum með barsmíðum. Hann hefði þannig barið til hans með ryksugurörinu a.m.k. tíu högg, en þá einkum í fótleggi. Að auki hefði hann traðkað á fótum hans og í eitt skipti reynt að fótbrjóta hann með því að taka um hné hægri fótar og ökkla og traðka síðan á sköflungnum. Vegna atgangs ákærða X kvaðst hann hafa hlotið mikla bólguáverka um líkamann, en þó einkum á hægri fæti og af þeim sökum hefði hann þurft að ganga við hækjur í um vikutíma eftir atburðinn. Hann kvaðst í raun aldrei hafa náð sér fullkomlega í fætinum og gæti m.a. ekki stundað íþróttir vegna verkja. Einnig hefði hann fengið bólgur á hægri síðu svo og fyrrnefnda andlitsáverka við vinstra auga.
A áréttaði að fíkniefnaskuld hans við ákærða X hefði upphaflega verið 30.000 krónur. Hann sagði að ákærði X hefði síðar farið að ræða um vexti og bar að skuldin hefði sífellt farið hækkandi eftir því sem leið á kvöldið og nóttina. Hún hefði þannig hækkað í 200.000 krónur, síðan í 300.000 krónur og loks hefði ákærði öskrað að skuldin væri komin í 500.000 krónur. Til skýringar hefði það m.a. verið nefnt að E og F ættu að fá hluta af greiðslunni. Þá kvað hann fjárhæðina enn hafa hækkað eftir að ákærði Gestur kom á vettvang og bar að hann hefði farið fram á 500.000 krónur „fyrir að handrukka mig, og að þetta væri hans djobb“. Vegna þessa hefði skuldin að lokum verið komin í 1.000.000 króna.
A kvað ákærðu margsinnis hafa hótað sér og fjölskyldu sinni líkamsmeiðingum, limlestingum og lífláti. Sagði hann að ákærði Gestur hefði verið höfuðpaurinn í þeirri orðræðu allri, en ákærði X tekið undir, m.a. varðandi líflátshótanirnar. Staðhæfði hann að ákærði Gestur hefði verið með sérstaklega gróft orðbragð að þessu leyti og m.a. verið með hótanir um kynferðisbrot gagnvart móður hans og systur svo og viðhaft lýsingar um limlestingar þeirra að honum ásjáandi „ef að ég myndi ekki borga 1.000.000 króna“. Þá kvað hann ákærða Gest í orðræðu sinni hafa kallað sjálfan sig djöful og að hann væri ,,maðurinn með ljáinn.“ Hann sagði að ákærði Gestur hefði verið mjög ölvaður er atvik gerðust. Hann kvaðst í raun ekki hafa lagt mikinn trúnað á hótunarorð X, en hins vegar verið mjög hræddur við ákærða Gest.
A kvaðst aldrei hafa farið fram á það við ákærðu að hann fengi að fara úr herberginu. Að því leyti áréttaði hann frásögn sína um að ákærðu hefðu báðir haft á orði að hann mætti ekki fara út fyrr en hann væri búinn að borga skuldir sínar, en vísaði jafnframt til þess að lengi vel hefði honum verið meinað að fara á klósett. Þar fyrir utan hefði hann ekki talið sig hafa haft möguleika á því að komast undan ákærðu, bæði vegna fyrrnefndra aðstæðna á dýnu úti í horni herbergisins, en einnig vegna þeirra líkamlegu áverka sem hann hafði orðið fyrir, einkum á hægra fæti. Hann kvaðst og hafa skynjað það svo að ákærðu hefðu verið samhentir í aðgerðum sínum þessa nótt. Hann hefði gripið til þess ráðs að segja við ákærðu að hann gæti ekki leyst skuldamál sín nema þeir leyfðu honum að hringja í foreldra sína. Hefði hann sagt þeim að hann myndi biðja foreldrana að fara í banka um morguninn til að ná í þá fjármuni, sem þeir hefðu krafið hann um. Hann kvað ákærðu hafa samþykkt þessa ráðagerð og því hefðu þeir allir beðið átekta í herberginu. A áréttaði að af hans hálfu hefði alls ekki verið um neitt samkomulag að ræða og vísaði m.a. til þess að hann hefði talið sig vita að viðbrögð foreldra sinna, næði hann að hringja til þeirra, yrðu með þeim hætti sem síðar varð. A staðfesti að þá um morguninn hefði hann hringt til foreldra sinna í þrígang, en bar að áður en hann fékk leyfi til þess hefði ákærði X slegið númersleynd í símtækið. Hann lýsti samtölum sínum við foreldrana í samræmi við það sem áður hefur verið rakið, en sagði að á meðan á samræðunum stóð hefði ákærði X viðhaft hótanir gagnvart honum, þ. á m. að hann yrði stunginn með smitandi nál ef foreldrar hans kæmu ekki með umkrafða fjármuni. Hann sagði að skömmu áður en hann átti að fara út úr íbúðinni með ákærðu í nefndum erindagjörðum hefði ákærði Gestur að beiðni ákærða X sprautað hann með fíkniefnum og staðhæfði að eftir það hefði ákærði X enga burði haft til að fara með þeim. Hann staðhæfði og að þegar það loks gerðist hefði ákærði Gestur verið með símtæki með sér. Hann kvaðst fyrst hafa séð til lögreglumanna þegar þeir tveir gengu saman niður stigahúsið í fjölbýlishúsinu, en vegna áðurnefndra hótana ákærðu svo og þeirra orða sem þeir höfðu skömmu áður viðhaft, að þeir myndu drepa hann og fjölskyldu hans ef lögreglunni yrði gert viðvart, hefði hann sagt orðrétt: „jæja þá er ég dauður“. Hann kvað ákærða Gest þrátt fyrir þetta hafa haldið för sinni áfram í rólegheitum og hefði hann verið við það að hverfa af vettvangi þegar hann hefði bent lögreglumönnunum á að hann væri viðriðinn málið.
A staðhæfði að vegna lýstrar háttsemi ákærðu hefði hann auk hinna sýnilegu áverka átt við sálræna erfiðleika að stríða, m.a verið í andlegu ójafnvægi og fundið fyrir þunglyndi. Vegna þessa hefði hann leitað sér sálfræðiaðstoðar um tíma. Og vegna þeirra fregna sem hann hefði síðar fengið þess efnis að hann hefði smitast af lifrarbólgu hefði hann hugsað með sér að lífi hans væri lokið. Hann kvaðst aldrei hafa fengið einkenni slíks smits, en áréttaði að þrátt fyrir það hefði háttsemi ákærðu haft veruleg áhrif á hann, bæði líkamlega og andlega.
F, fædd [...] var samkvæmt rannsóknargögnum handtekin á heimili þáverandi unnusta síns E þriðjudaginn 11. ágúst 2009. Tilefnið var að hún var grunuð um aðild að líkamsárás, ólögmætri nauðung og frelsissviptingu gagnvart brotaþolanum A. Hún var yfirheyrð tvívegis 11. ágúst, en í framhaldi af því vistuð í fangaklefa. Þriðja skýrslan var tekin af F 12. ágúst sama ár, en hún var látin laus í framhaldi af því. Við yfirheyrslurnar óskaði F ekki eftir aðstoð verjanda, en skýrslur hennar voru hljóðritaðar samkvæmt heimild lögreglu í 66. gr. laga nr. 88, 2008, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 826/2005. Samkvæmt rannsóknargögnum andaðist F þann [...]. Af þeim sökum er ekki við framburð hennar fyrir dómi að styðjast.
Við nefndar yfirheyrslur hjá lögreglu skýrði F frá því að hún hefði ásamt E verið í mikilli óreglu er atvik máls þessa gerðust. Hún kvað þau m.a. hafa sprautað sig nefndan sunnudag með amfetamíni og rítalíni á heimili ákærða X, en sagði jafnframt frá því að þau hefðu þá bæði verið smituð með lifrarbólgu C.
Við lögregluyfirheyrslur skýrði F nánar frá atvikum máls þannig að umræddan dag hefði ákærði X farið fram á það við hana og E, að þau færu með honum til viðræðna við mann eða dreng, sem hafi reynst vera A. Hefði tilefnið verið að A skuldaði ákærða um 130.000 krónur vegna fíkniefnakaupa. Hún kvað þau hafa fallist á beiðnina, enda talið að einungis yrði um viðræður að ræða en ekki það ofbeldi sem síðar varð. Í lögregluskýrslum sínum lýsir F framhaldinu með svipuðum hætti og áður er fram komið, og þar á meðal að þau þrjú hefðu fyrst farið á veitingastað í Lundarhverfi, en þaðan með leigubifreið að heimili A, en hún hefði ekki hafa þekkt hann fyrir. Þá hefði leið þeirra legið á bensínstöð, þar sem ákærði hefði keypt reipi og loks hefði verið ekið að [...]. Er þangað kom hefði hún séð að D, sambýliskona ákærða X, og meðákærði Gestur, sátu í sófa í anddyrinu.
Í skýrslum sínum hjá lögreglu greinir F frá því að þegar í herbergi ákærða X var komið hefði A verið sagt að setjast í stól, en síðan hefði hann verið inntur eftir því hvernig hann ætlaði að greiða skuld sína. Hefði hún líkt og E tekið þátt í þeirri orðræðu, m.a. með því að hrópa að A, en jafnframt þessu hefði A verið gert að rita á blað nöfn tveggja aðila sem gætu aðstoðað hann með greiðsluna. Skýrði F frá því að við þessar aðstæður hefði ákærði X skyndilega umturnast í skapi og í framhaldi hafið barsmíðar gegn A. Henni hefði verið brugðið vegna þessa, en einnig vegna þess hversu harkalega ákærði X gekk fram. Bar hún að ákærði X hefði m.a. barið A með ryksuguröri um allan líkamann og þ. á m. í andlit. Hún hefði álitið að A hefði kinnbeinsbrotnað og jafnvel óttast að hann myndi deyja, en greinilegt hefði verið að hann hefði vankast við barsmíðarnar. Vegna þess hefði hún beðið ákærða X að hætta athæfi sínu, enda greinilegt að A var orðinn mjög skelkaður. Skýrði F frá því að eftir þetta hefði ákærði X bundið kaðal utan um háls A, en síðan leikið sér annað slagið að því að herða að. Hún hefði reynt að losa um kaðalinn, en ákærði X komið í veg fyrir það og orðið sífellt æstari. Kvaðst hún hafa reynt að verja A fyrir höggum hans, en við þær aðgerðir fengið eitt ryksugurörshöggið á hendi og bólgnað við það.
Í nefndum skýrslum skýrði F frá því að á borði í herberginu hefðu legið notaðar sprautunálar, sem hún og A höfðu notað nokkru áður til að sprauta í sig fíkniefnum, en af þeim sökum hefðu og verið blóðleifar í þeim. Staðhæfir hún að ákærði X hefði tekið nálarnar og stungið þeim víðs vegar í líkama A, en þó einkum í bakið. Hefði hún grátbeðið ákærða X að hætta athæfinu en hann því engu sinnt. Hann hefði m.a. tekið sprautu sem í var saltvatn og sprautað því í A, en að auki hefði hann stungið einni sprautunálinni í eyrað á A. Hefði hún tekið ljósmynd af þessum síðasta verknaði ákærða X og staðhæfði að það hefði hún gert í þeim tilgangi að sýna A hvernig útlit hans var orðið eftir barsmíðarnar, m.a. augnáverkann, en einnig til að sýna honum fram á hversu alvarleg staða hans almennt var orðin. Staðhæfði F að hún hefði tekið myndirnar þegar ákærði og E höfðu brugðið sér út úr herberginu og hefði hún því verið einsömul með A. Auk þessa hefði hún reynt að hlúa að honum, m.a. með því að gefa honum vatn að drekka og sígarettu. Ákærða X hefði mislíkað þessi hjálpsemi hennar og sýnt það í verki með því að ganga hart að A með barsmíðum og spörkum. Þá kvað hún A hafa verið komið fyrir á dýnu í einu horni herbergisins, en þar hefði verið breitt yfir hann með teppi og sæng. Eftir þessar ráðstafanir kvað hún ákærða X hafa haldið áfram að slá til A, en að auki hefði hann kastað af sér vatni yfir hann svo og hrækt á hann og hellt ösku og kaffikorgi yfir hann.
Ítrekað aðspurð við yfirheyrslur lögreglu minntist F þess að ákærði X og E hefðu farið út úr herberginu og verið fjarverandi um nokkurn tíma, en um svipað leyti hefðu ákærði Gestur og D komið í herbergið. Kvaðst hún hafa heyrt að ákærði Gestur viðhafði munnlegan skæting við A, en ekki séð hann veitast að A með líkamlegu ofbeldi og í rauninni ekki aðra en ákærða X. Hún skýrði frá því að eftir að ákærði X og E voru komnir á ný í herbergið hefði komið þangað K ásamt félaga sínum L. Bar hún að í kjölfar þess hefðu orðið mikil orðaskipti með ákærða X og K, en einnig einhverjar ryskingar. Hefðu þau viðskipti endað á bifreiðastæði fyrir utan fjölbýlishúsið. Hún kvaðst vegna þessa alls hafa ákveðið að kom sér af vettvangi ásamt E, en það hefðu þau gert í flýti, en af þeim sökum hefði hún skilið dótið sitt eftir í vistarverum ákærða X. Fyrir utan fjölbýlishúsið hefði hún séð lögreglubifreið og því ætlað að A myndi fljótlega berast aðstoð. Bar hún að skömmu eftir að þau E voru komin til síns heima hefði ákærði X hringt og farið fram á að þau kæmu aftur í vistarverur hans. Hann hefði verið grátandi, en haft í frammi hótanir um að hann myndi drepa A ef þau kæmu ekki aftur.
Í lokaorðum sínum við nefndar yfirheyrslur hjá lögreglu er haft eftir F að hún hefði ekki tilkynnt lögreglu um það athæfi sem hún varð vitni að í [...] sökum þess að hún hefði talið að hún gæti verið samsek því sem þar hafði gerst.
Vitnið E, fæddur [...], var handtekinn á heimili sínu ásamt F þann 11. ágúst 2009. Hann var yfirheyrður sem sakborningur þann 11. og 12. ágúst.
Fyrir dómi, líkt og við yfirheyrslur hjá lögreglu, bar E að þau F heitin hefðu verið vinir ákærða X er atvik gerðust í ágústmánuði 2009. Hann kvaðst fyrst hafa hitt ákærða Gest 8. ágúst það ár, en raunar lítið þekkt hann, líkt og sambýliskonu ákærða X, D. Þá kvaðst hann ekkert hafa þekkt til brotaþolans A.
Fyrir dómi var frásögn E m.a. um fíkniefnaneyslu hin sama og F hér að framan. Bar hann að þau hefðu verið undir áhrifum vímuefna og áfengis, en þau hefðu m.a. sprautað sig með fíkniefnum í íbúð ákærða X og þá notað sömu sprautunálina. Hann kvað þau hafa geymt spraututól sín í litlu veski og kannaðist ekki við að þau hefðu verið á glámbekk í íbúð ákærða X. Hann staðhæfði að í greint sinn hefði ákærði X einnig sprautað sig með fíkniefnum, en sagði að hann hefði þurft aðstoð við það verk og hefði það komið í hans hlut. Hann kvaðst er atvik þessi gerðust hafa skuldað ákærða X verulega fjármuni vegna eigin fíkniefnakaupa og bar fyrir lögreglu að það hefði verið um 1,2 milljónir króna.
Við meðferð málsins skýrði E frá tildrögum þess að hann fylgdi ákærða X á fund brotaþolans A sunnudagskvöldið 9. ágúst 2009 með líkum hætti og hér að framan var rakið. Hann kvaðst þá hafa vitað um skuld A við ákærða X, en neitaði því að hann hefði haft vitneskju um fyrirætlanir ákærða að öðru leyti. Hann lýsti ferðum þeirra í veitingahús, ökuferð með leigubifreið að heimili A, en síðan að [...] með viðkomu á bensínstöð.
Við alla meðferð málsins vísaði E ítrekað til minnisglapa um málsatvik vegna fyrrnefnds vímuástands, en kannaðist við að þegar þau fjögur voru öll komin í herbergi ákærða X í [...] hefði orðræðan varðað skuldamál A og minnti hann að sú fjárhæð sem þá var nefnd hefði verið 45.000 krónur. Hann kvaðst og minnast þess að ákærði X hefði fyrirskipað A að setjast á stól, en kannaðist ekki við að hann hefði ógnað brotaþola með hnífi. Hann kvaðst hafa tekið þátt í orðræðunni um skuldamálin og þar á meðal með því að öskra að A. Þá minntist hann þess að ákærði X hefði notað kaðal sem hann hafði keypt á bensínstöðinni til að vefja utan um A en án þess að binda hann, en sagði; „einhvern veginn undir hendina ... og yfir hálsinn og þannig hafi hann strekkt „eitthvað aðeins.“ Hann minntist þess og að ákærði X hefði skyndilega tekið fram ryksugurör og í beinu framhaldi af því séð hann berja því í andlit A, en samtímis sagt reiðilega að hann hefði ekki sinnt því að greiða skuld sína í marga mánuði. Hann kvaðst aðeins hafa séð ákærða X slá A þessu einu höggi með ryksugurörinu, en sagði að hann hefði í framhaldi af því atyrt brotaþola á ýmsa vegu. Ákærði X hefði m.a. hrækt á A og hellt yfir hann kaffikorgi. Bar hann að þau F hefðu að einhverju leyti tekið þátt í þessu athæfi gegn brotaþola og hafði þá skýringu helsta að það hefðu verið stælar af hans hálfu. Hann kvaðst aldrei hafa séð F beita A líkamlegu ofbeldi eða viðhafa niðurlægjandi athafnir gagnvart honum. Hann staðhæfði og að ákærði X hefði haft alla forgöngu við nefndar aðgerðir gagnvart A og kvaðst m.a. minnast þess að eftir að A var lagstur fyrir á dýnu hefði hann ekki mátt hreyfa sig og ef hann hefði gert það hefði ákærði X öskrað á hann.
Við meðferð málsins kannaðist E við að á ljósmynd sem lögregla framkallaði við rannsókn málsins mætti sjá A með sprautunál í eyra. Hann þekkti og sjálfan sig á mynd sem tekin var í nefndum vistarverum og bar að þar mætti m.a. sjá að hann var fyrir aftan A. Líkt og við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði E því alfarið fyrir dómi að hann hefði stungið A með sprautunál. Þá áréttaði hann þann framburð sem hann hafði áður gefið hjá lögreglu, að hann teldi líklegast að F heitin hefði átt hlut að máli og lýsti hann hugrenningum sínum þar um þannig: „Ég tók bara eftir því að það var komin nál í eyrað á honum, en ég sá aldrei neinn stinga nálinni í hann, þannig að ég get ekki staðfest hvort að það var X eða F sem stakk nálinni í hann ... annað hvort ég eða F átti nálina.“ Var frásögn hans að þessu leyti samhljóða skýrslu þeirri sem hann hafði gefið hjá lögreglu þann 11. ágúst 2009. Hann staðfesti einnig að er atvik gerðust hefðu þau F verið smituð af lifrarbólgu C. Fyrir dómi kvaðst E aldrei hafa heyrt F hafa orð á því eftir þennan atburð að hún hefði stungið A með sprautunál, en ekki heldur heyrt hana segja að ákærði X hefði gert það.
Fyrir dómi staðfesti E að nokkru eftir miðnætti umrædda nótt hefði hann ásamt ákærða X farið í ökuferð með V og bar að tilgangur þeirrar ferðar hefði verið að ná í fíkniefni til eigin nota. Hann kvað það hafa gengið eftir, en kannaðist ekki við að hafa látið ákærða X hafa pillur föður síns í þeirri ferð. Hann bar að þegar þeir hefðu komið til baka hefðu verið fyrir í herberginu ákærði Gestur, D og brotaþolinn A. Hann minntist þess að síðar þessa nótt hefðu komið í heimsókn vitnið K og félagi hans L. Hann kvaðst við það tækifæri hafa farið út úr íbúðinni, enda misboðið framangreindar gjörðir ákærða X. Hann kvaðst aldrei hafa séð ákærða Gest veitast að A.
Fyrir dómi bar E að er atvik gerðust hefði hann hræðst ákærða X. Hann lýsti því og fyrir dómi að fyrir aðalmeðferð málsins, um áramótin 2010/2011, hefði hann mátt þola hótanir af hálfu ákærða X og bar að þær hótanir hefðu einnig beinst að núverandi sambýliskonu hans og barni þeirra. Hann staðhæfði að þetta athæfi ákærða hefði ekki haft áhrif á frásögn hans.
Vitnið D, fædd [...], var handtekin að morgni 10. ágúst 2009, að[...] ásamt sambýlismanni sínum, ákærða X. Hún var við lögreglurannsókn úrskurðuð í gæsluvarðhald til 14. ágúst sama ár, en yfirheyrð um málsatvik, 11., 12., 14., 17. og 18. ágúst 2009. Skýrslurnar voru hljóðritaðar og teknar upp á mynd samkvæmt heimild lögreglu, sbr. ákvæði 66. gr. laga nr. 88, 2008, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 826/2005, en viðstaddur skýrslutökurnar var skipaður verjandi hennar.
D neitaði við yfirheyrslu lögreglu sakargiftum. Fyrir dómi var henni kynnt undanþáguákvæði 3. mgr. 117. gr., en einnig ákvæði 1. mgr. 118 gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, en hún kvaðst hafa hafið sambúð með ákærða X í [...]mánuði [...]. Hún bar að nokkru við minnisleysi um atvik máls og eigin gjörðir, en hún kvaðst hafa verið án allra fíkniefna, en hafa tekið inn viðeigandi lyf samkvæmt læknisráði.
Við meðferð málsins skýrði D frá því að um kl. 16:00 sunnudaginn 9. ágúst 2009 hefði parið E og F komið á heimili hennar í [...], en bar að þau hefðu farið út eftir skamma viðdvöl ásamt ákærða X. Hún hefði í fyrstu haldið kyrru fyrir í herberginu en síðan farið að aðstoða ákærða Gest við flutninga á búslóð hans og staðfesti að því leyti að hann hefði haft leyfi til að geyma eigur sínar tímabundið á þáverandi heimili hennar í [...]. Hún sagði að þá um kvöldið hefðu þau farið með búslóð hans í leigubifreið í [...], en bar að er þangað kom hefðu þau beðið átekta í anddyrinu samkvæmt tilmælum E og því ekki farið í herbergið. Þar í anddyrinu kvaðst hún hafa veitt því eftirtekt að ákærði Gestur sendi þáverandi vinkonu sinni skilaboð í síma en ekki séð eða vitað um efni þeirra. Það var ætlan hennar að um miðnættið hefði þeim verið gefið leyfi til að koma í herbergið og bar að þar hefðu þá verið fyrir auk ákærða X, nefnt par E og F, svo og brotaþolinn A, sem hefði legið fyrir á dýnu og undir teppi í einu horni herbergisins. Staðhæfði hún að allt hefði verið með kyrrum kjörum og kvaðst hún hafa ætlað að A væri sofandi og ætlaði að gista. Fyrir dómi kvaðst hún á nefndri stundu ekki hafa haft vitneskju um það sem gengið hafði á í herberginu fyrr um kvöldið. Við yfirheyrslur hjá lögreglu kvaðst hún þannig enga vitneskju haft um að þeim sprautunálum, sem voru fyrir í herberginu, hefði verið beitt gegn A. Fyrir dómi sagði hún aftur á móti varðandi sprautunálarnar að hún hefði heyrt af því að slíkt athæfi hefði viðgengist áður en hún kom í herbergið. Staðhæfði hún að F heitin hefði haft orð á þessu og fullyrti að hún „hefði talað um að það hefði verið hún sem hefði stungið A í eyrað, hún talaði um það um nóttina og hún talaði um það seinna.“
Við meðferð málsins skýrði D frá því að allnokkru eftir að hún kom í herbergið umrædda nótt hefði hún fylgst með því að nokkru þegar gengið var í skrokk á A, en jafnframt heyrt að honum var ítrekað hótað. Bar hún að þetta hefði gerst eftir að ákærði X og E komu úr þeirri ökuferð sem þeir fóru í skömmu eftir miðnættið og eftir að sá síðarnefndi og F voru farin úr húsakynnunum, líkt og vitnið K sem hefði haft þar stutta viðdvöl.
Við alla meðferð málsins neitaði D því alfarið að hún hefði tekið þátt í atganginum gegn A, a.m.k. hefði hún ekki gert það viljandi, en vísaði til þess að hún hefði nefnda nótt, 10. ágúst, skúrað við þá dýnu sem hann lá á. Bar hún að það hefði hún gert skömmu eftir miðnættið er ákærði X og E voru fjarverandi. Hún hefði þá verið ein í íbúðinni ásamt ákærða Gesti og brotaþola. Hefði A þá sem fyrr legið á fyrrnefndri dýnu og kannaðist hún við að hafa sagt honum að halda þar kyrru fyrir.
Er atgangurinn varð gegn A þá um nóttina kvaðst hún hafa verið í íbúðinni með ákærðu, X og Gesti. Hún kvaðst hafa fylgst með því er þeir veittust að Ai þar sem hann lá á dýnunni, ákærði X að fótum hans, en ákærði Gestur að höfði; „ég sá þetta en ég leit undan þegar ég sá að þeir voru að fara að honum ... ég man ekki eftir að hafa horft á atlöguna, ég man bara að hafa séð hana byrja, en ég man eftir að hafa heyrt X skamma Gest og segja að hann ætti ekki að ganga of hart að honum.“ Bar hún að fljótlega eftir þetta hefði ákærði X róast og sagði að eftir að brunakerfið fór í gang í íbúðinni, er kerti valt um koll, hefði hann lagst fyrir og sofnað um stund. Fyrir dómi kvaðst hún ekki minnast þess að áfengi hefði verið hellt yfir A eða að logandi pappír hefði verið kastað að honum.
Um athafnir ákærða Gests sérstaklega bar D að hann hefði í fyrstu verið mjög rólegur en að síðan hefði öll framkoma hans breyst og hefði hann þá verið ólíkur sjálfum sér eftir því sem hún þekkti best til. Bar hún að hann hefði verið mjög undarlegur í háttum og lýsti hún athæfi hans sem geðveikislegu. D kvað ákærða Gest hafa neytt áfengis, en nánar aðspurð kvaðst hún ekki hafa fylgst svo gjörla með gjörðum hans og vísaði þar um einnig til minnisleysis. Hún kvaðst þó minnast þess og að hann hefði haft á orði að A hefði svikið konu hans í bílaviðskiptum. Frásögn D var öllu ítarlegri við yfirheyrslur hjá lögreglu, en hún treysti sér ekki fyrir dómi til að staðfesta þá frásögn sína fyllilega og þar á meðal þá frásögn sem hún gaf hjá lögreglu þann 18. ágúst 2009. Þar bar hún að ákærði Gestur hefði í öllum athöfnum spilað sig sem harðjaxl gagnvart A. Hann hefði og verið mjög reiður og talað illa um A. Bar hún að tal hans hefði snúist um peninga og bílaviðskipti. Þá hefði hann stöðugt verið að atast í A og þá ekki síst eftir að X hafði lagst fyrir uppi í rúmi. Jafnframt staðhæfir hún í nefndri lögregluskýrslu að ákærði Gestur hefði hellt áfengi yfir A og hent að honum logandi pappír. Þá kvaðst hún hafa ætlað að hann hefði kastað af sér vatni yfir A enda þótt hún hafi ekki séð það með eigin augum. Að auki hefði hún veitt því eftirtekt að hann hefði farið með A á baðherbergið. Síðast nefnda atriðið staðfesti hún fyrir dómi, en hún kvaðst í raun ekki hafa séð hvað þar gerðist.
Fyrir dómi skýrði D frá því, líkt og hún hafði áður gert hjá lögreglu, að ákærði Gestur hefði verið með hótanir, þ.á m. líflátshótanir, í garð A og fjölskyldu hans og bar að hann hefði notað mjög ógeðfelld orð í því sambandi, en skýrði það ekki nánar.
Fyrir dómi greindi D frá því að þegar komið var fram undir morgun hefði hún verið hálf sofandi, en þrátt fyrir það að einhverju leyti fylgst með gjörðum ákærðu. Hún kvaðst m.a. hafa fylgst með því er ákærðu leyfðu A að hringja í foreldra sína og var það ætlan hennar að þá hefðu þeir notað hennar farsíma. Bar hún að fyrir símtalið hefði ákærði X slegið númersleynd í símann. Hún kvaðst og hafa heyrt ákærða Gest segja Ai til um hvað hann skyldi segja við foreldrana og m.a. heyrt hann segja að A yrði drepinn ef að hann borgaði ekki. Þá kvaðst hún nokkru síðar hafa fylgst með því er ákærðu Gestur og A fóru saman út úr íbúðinni. Við skýrslugjöf hjá lögreglu staðhæfði D að nefndur sími hennar hefði ekki verið í íbúðinni eftir umrædda nótt og hefði hún því talið að A og ákærði Gestur hefðu tekið hann með sér þegar þeir fóru út úr íbúð hennar umræddan morgun.
Fyrir dómi líkt og við yfirheyrslu hjá lögreglu bar D að A hefði aldrei borið hönd fyrir höfuð sér í þeim atgangi sem að honum var beint umrædda nótt.
Vitnið Þ, fæddur [...], skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði eftir símtal við E um kvöldmatarleytið sunnudaginn 9. ágúst 2009 farið á veitingastað í Lundarhverfi í þeim tilgangi að ræða við ákærða X, en hann kvaðst hafa skuldað þeim síðarnefnda 5.000 krónur vegna fíkniefnakaupa nokkru áður. Þar á barnum kvaðst hann hafa hitt nefnda menn og F. Í samræðum sínum við þau kvaðst hann m.a. hafa hlýtt á E og F hvetja ákærða X til að fara að heimili A og rukka hann um þá fjármuni sem hann skuldaði. Hann kvaðst hafa hafnað beiðni þeirra um að fara með þeim og þá í þeim tilgangi að lokka A út af heimili sínu, en hann kvaðst hafa skilið orð þeirra þannig að um svokallaða handrukkun væri að ræða, með ógnunum og barsmíðum, og bar að ákærði X hefði sagt „að hann ætlaði að tuska hann aðeins til“.
Vitnið Æ gaf skýrslu við rannsókn málsins hjá lögreglu. Bar hún þá, líkt og fyrir dómi, að hún hefði verið í nokkrum samskiptum við son sinn, ákærða X, sunnudaginn 9. ágúst 2009. Hún kvaðst m.a. eftir hádegi þann dag hafa aðstoðað hann og ákærða Gest við flutninga á búslóð frá [...] að [...], en einnig hefði hún hitt hann að máli um kvöldmatarleytið og staðhæfði að þá hefði hann verið í fylgd vitnisins K. Hún kvaðst að lokum hafa heyrt í X um kl. 02:30 aðfaranótt mánudagsins 10. ágúst, og sagði að hann hefði þá, í símtali, spurt hana eftir símanúmeri K. Vitnið sagði að hann hefði er þetta gerðist verið í mjög æstu skapi.
Vitnið V, fædd [...], skýrði frá því fyrir dómi, líkt og hjá lögreglu 14. ágúst 2009, að hún hefði komið á heimili ákærða X í [...], um kl. 01:00, aðfaranótt mánudagsins 10. ágúst 2009. Tilefni heimsóknarinnar hefði verið áhyggjur hennar af líferni X, en hún hefði haft vitneskju um að hann hefði verið í mikilli óreglu dagana þar á undan. Þar á heimilinu kvaðst hún hafa hitt fyrir ákærða X, en hún kvaðst hafa rætt við hann í forstofurýminu fyrir framan herbergi hans. Þar inni kvaðst hún hafa veitt því eftirtekt að voru D, F, E og ákærði Gestur. Hún kvað lýsingu hafa verið í herberginu og staðhæfði að allt hefði verið rólegt þar að sjá, en að augljóst að ákærðu, X og Gestir, hefðu verið ölvaðir. Vitnið kvaðst hafa dvalið í íbúðinni í um 5 til 10 mínútur en þá farið út, en skömmu síðar komið aftur á bifreið sinni að húsinu að beiðni ákærða X. Vitnið kvaðst ekki hafa farið inn í húsið í þetta skiptið, en í stað þess hefðu E og X komið út, en einnig F og kvaðst hún hafa ekið þeim samkvæmt þeirra ósk. Hún kvaðst hafa ekið F stuttan spöl að bensínstöð þar sem hún hefði farið út, en í framhaldi af því hefði hún ekið E og ákærða X að einbýlishúsi í [...] og beðið þar í 10 til 15 mínútur, en síðan ekið að heimili foreldra E í [...], þar sem þeir hefðu farið út. Vitnið kvaðst ekki hafa hitt þessa aðila frekar um nóttina og staðhæfði að hún hefði heldur enga vitneskju haft um hvað á hafði gengið í [...].
Vitnið K, fæddur [...], skýrði frá því fyrir dómi, líkt og við rannsókn málsins hjá lögreglu, að hann hefði þekkt til ákærða X og kannaðist jafnframt við að hafa farið á heimili hans aðfaranótt 10. ágúst 2009. Hann kvaðst hafa verið mjög ölvaður, en hann hefði verið í fylgd félaga síns L . Þar á heimilinu kvaðst hann hafa hitt fyrir ákærða X, en einnig séð þar E og F, unnustu X og eldri karlmann. Að auki kvaðst hann hafa veitt því eftirtekt að í herberginu var pilturinn A, en hann hafi ætlað á þeirri stundu að hann væri sofandi. Vitnið bar að hann hefði staldrað við í íbúð ákærða X í um tvær mínútur en sagði að þeir hefðu rifist. Hann hefði því farið út á bifreiðastæðið, en þá séð lögreglu koma á vettvang. Vitnið kveðst hafa farið af vettvangi í leigubifreið, en með honum hefðu þá verið nefndur L svo og parið E og F. Vitnið kvaðst síðar þessa nótt hafa hringt í ákærða X, en um efni þess samtals gat hann ekki sagt vegna minnisleysis.
Vitnið L, fæddur [...], lýsti fyrir dómi atvikum máls mjög á sama veg og síðast nefnt vitni. Vitnið staðfesti m.a. að K hefði rifist við ákærða X, fyrst í síma en síðan í herbergi í [...]. Er haft eftir vitninu í lögregluskýrslu að ástand ákærða X hefði verið mjög slæmt er atvik gerðust. Þar í herberginu hefði hann séð fullorðinn karlmann, stelpu og E, sem hann kannaðist við. Er haft eftir vitninu í nefndri skýrslu að vegna athugasemda E hefði hann tekið eftir því að maður lá úti í einu horni herbergisins, sem hafði verið tjaldað yfir. Fyrir dómi bar vitnið að það hefði enga vitneskju haft um að nefndur maður hefði verið í haldi og leiðrétti hann lögregluskýrsluna að því leyti. Vitnið kvaðst eftir skamma viðdvöl hafa farið af vettvangi ásamt K, E og F. Skömmu síðar kvaðst hann hafa verið vitni að því að K hefði hringt til ákærða X til að grennslast frekar um þann mann sem var undir tjaldinu, en að auki hefði hann hringt til lögreglu og tilkynnt um atburðinn.
Vitnið M, fæddur [...], staðfesti fyrir dómi skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu við rannsókn málsins þess efnis að ákærði X hefði að morgni 10. ágúst 2009 sent til hans sms skeyti, kl. 07:05 og 07:16. Vitnið vefengdi að því leyti heldur ekki rannsókn lögreglu um að þeir hefðu átt örstutt símtal saman þennan morgun.
Vitnin N og O, sem báðir voru við akstur leigubifreiða sunnudaginn 9. ágúst og aðfaranótt mánudagsins 10. ágúst 2009 staðfestu fyrir dómi að hafa ekið ákærðu í máli þessu, þ. á m. með búslóð, að og frá veitingastað og á milli íbúðarhúsa í bæjarfélaginu.
Vitnið P afgreiðslumaður á bensínstöð staðfesti fyrir dómi viðskipti ákærða X og vitnisins E að kveldi sunnudagsins 9. ágúst 2009, þar á meðal kaup þess fyrr nefnda á hvítum kaðli og límbandsrúllum.
Vitnið C, fædd [...], skýrði frá því fyrir dómi, líkt og hún hafði áður gert hjá lögreglu, að þau hjón hefðu veitt því eftirtekt sunnudagskvöldið 9. ágúst 2009 að sonur þeirra A hefði farið af heimilinu eftir að ung kona hafði kvatt þar dyra. Vitnið bar að þau hefðu talið þetta nokkuð grunsamlegt þar eð sonurinn hefði farið út án síma, útidyralykils og seðlaveskis. Af þeim sökum hefði eiginmaður hennar sett sig í samband við þann leigubílstjóra sem hefði ekið leigubifreið þeirri sem komið hafði að heimilinu, en í framhaldi af því hefðu þau fengið frekari upplýsingar um ferðir sonarins. Vitnið vísaði til aldurs A og að hann hefði áður farið af heimilinu og dvalið yfir nótt, en af þeim sökum hefðu þau ekki aðhafst frekar að sinni. Vitnið bar að mánudagsmorguninn 10. ágúst, um kl. 08:30, og eftir að það var mætt til vinnu hefði nefndur sonur hennar hringt í síma hennar. Kvaðst vitnið strax hafa heyrt að hann var eitthvað öðru vísi en venjulega, m.a. verið vandræðalegur í tali, en hann hefði að lokum sagt að hún yrði að gera sér rosalega stóran greiða. Hann hefði í framhaldi af því nefnt að hún yrði að fara í banka og taka þar út eins mikla peninga og hún mögulega gæti. Þá hefði hann sagt að hann gæti ekki sagt henni hvar hann væri, bara það að hann skuldaði peninga og hann þyrfti að borga allt að einni milljón króna, en að öðrum kosti myndi hann ekki losna. Vegna þessara síðustu orða kvaðst vitnið hafa fengið það á tilfinninguna að syni hennar væri haldið í gíslingu. Vitnið bar að í þessu símtali hefði A einnig nefnt að hann þyrfti að fara á sjúkrahús og hún því spurt hvort hann hefði verið laminn og hann játað því. Í framhaldi af þessum síðustu orðum kvaðst vitnið hafa heyrt karlmannsrödd segja A að skella á og hefði samtalinu eftir það lokið. Vitnið bar að eftir þetta hefði hún haft samband við eiginmann sinn og þau strax ákveðið að hafa samband við lögreglu. Skömmu eftir það sagði hún að síminn hefði á ný hringt og þá hefði sonurinn á ný verið í símanum. Í þessu símtali hefði hann áréttað það að hún yrði að útvega fjármuni þar sem að öðrum kosti myndu ,,þeir“ stinga hann með sýktri nál. Vitnið kvaðst hafa heyrt að syni hennar leið ekki vel, en hann hefði haft á orði að hún yrði að hitta „þá“ á bensínstöð. Vitnið kvaðst hafa tjáð A að hún þyrfti frekari tíma til að sinna erindinu og hefði sonurinn þá sagt að þeir myndu hringja aftur. Vitnið kvaðst hafa fengið á tilfinninguna að A væri nokkuð hræddur og hann vildi að þau kæmu með peningana þannig að hann losnaði. Vitnið kvaðst eftir þetta hafa farið ásamt eiginmanni sínum á lögreglustöðina, en er þangað var komið hefði A hringt í þriðja skiptið, en eiginmaður hennar þá tekið símann. Í því símtali hefði m.a. verið sagt að ef þau hjónin myndu hafa samband við lögreglu myndi fjölskylda þeirra hafa verra af.
Vitnið skýrði frá því að eftir þennan atburð hefði líðan A verið bágborin bæði líkamlega og andlega og bar að þar hefði ráðið miklu niðurstaðan um að hann hefði smitast af lifrarbólgu. Vegna þessa alls hefði hann þurft að þiggja sálfræðiaðstoð og bar að hann þyrfti á enn frekari aðstoð að halda á því sviði. Vitnið staðhæfði að A hefði ekki náð sér fullkomlega líkamlega og m.a. vegna áverkans á ökkla.
Vitnið B, eiginmaður síðast nefnds vitnis, lýsti upphafi málsins fyrir dómi á sömu lund og hér að framan var rakið. Hann kvaðst þannig hafa tekið við þriðja símtali A þegar þau hjón voru komin á lögreglustöðina. Vitnið kvaðst greinilega hafa heyrt að sonur hans var skelkaður, ekki síst þegar hann hefði endurtekið að hann þyrfti að greiða eina milljón króna. Vitnið kvaðst í símtalinu hafa heyrt bakraddir sem hefðu kallað að þau yrðu að drífa sig með peningana því ella yrði sonur þeirra fyrir líkamsmeiðingum og fjölskylda hans öll. Vitnið kvaðst hafa heyrt það frá A að verið væri að fara með hann úr einhverju húsi en að óvíst væri um ákvörðunarstað. Vitnið kvaðst hafa svarað erindinu á þá leið að klukkan væri rétt rúmlega níu og hann þyrfti frekari tíma til að útvega peningana. Vitnið kvaðst hafa fengið það svar frá A að hann myndi hringja aftur en hann yrði að drífa sig með peningana. Vitnið áréttaði að það hefði skynjað það á rödd A að hann var hræddur, örvæntingarfullur og þreyttur. Vitnið kvað lögreglu eftir þetta hafa brugðist hratt við og skömmu síðar hefði það hitt soninn á lögreglustöðinni, en síðan á sjúkrahúsinu.
Vitnið staðhæfði að líðan A eftir þennan atburð hefði verið skelfileg í fyrstu, en almennt hefði þessi atburður haft miður góð áhrif á hann í langan tíma líkt og á fjölskylduna alla. Vegna þessa hefði A þurft á aðstoð sálfræðings að halda og bar að til stæði að hann færi í endurhæfingu á göngudeild geðdeildar.
Þeir lögreglumenn sem unnu að rannsókn málsins, þeir Q, R, I og S staðfestu verk sín og efni framlagðra rannsóknargagna. Sá síðast nefndi skýrði m.a. frá því að F hefði við yfirheyrslur lögreglu skýrt sjálfstætt frá atvikum máls. Var það mat vitnisins að hún hefði verið skýr í allri hugsun enda þótt hún hefði verið drafandi vegna töku róandi lyfja skömmu fyrir yfirheyrslurnar.
6. Með heimild í 128. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála var á dómþingi þann 19. nóvember 2010, og eftir að skipaðir verjendur ákærðu höfðu lagt fram greinargerðir sínar gagnvart ákæru ríkissaksóknara, kvaddur til sem hæfur og óvilhallur matsmaður T, [...]læknir og [...] í [...]lækningum, til að svara eftirgreindum matsspurningum um álitaefni sem varðaði ætlað lifrarbólgusmit A:
1. Ef miðað er við læknisfræðileg gögn sem liggja fyrir í málinu sýktist brotaþoli (A) af lifrarbólgu C? Er það rétt?
2. Er hægt að draga þá ályktun af fyrrgreindum rannsóknarniðurstöðum að brotaþoli hafi sýkst af lifrarbólgu C við ætlaða árás þann 10. ágúst 2009, ef spurningu nr. 1 er svarað játandi?
3. Hvaða læknisfræðilegu skýringar eru á mismunandi niðurstöðum rannsókna á blóðsýnum sem tekin voru úr brotaþola eftir 10. ágúst 2009.
4. Miðað við læknisfræðileg gögn málsins er brotaþoli laus við sýkingu og/eða er hætta á því að sýkingin taki sig upp aftur?
5. Hvernig smitast lifrarbólga? Hvers konar sjúkdómur er lifrarbólga C og hverjar eru afleiðingar sýkingar? Hvernig eru möguleikar á að lækna sjúkdóminn?
Með matsskýrslu, sem dagsett er 30. nóvember 2010, svarar hinn dómkvaddi matsmaður ofangreindum spurningum með eftirfarandi hætti:
Svar við spurningum 1. og 2: „Ótvírætt er að brotaþoli hafi sýkst af lifrarbólgu C. Miðað við að engin merki voru um smit þegar árás var gerð 10. ágúst 2009 (sbr. dómsskjal nr. 23, rannsókn dags. 12.8.2009) má ætla að sýking hafi orðið um eða eftir þann tíma enda er meðgöngutími sjúkdómsins allt frá tveim vikum til sex mánaða, oftast sex - níu vikur. Meginsmitleiðir lifrarbólgu C eru neysla fíkniefna með menguðum sprautum og nálum eða stungur með slíkum menguðum nálum af öðrum ástæðum. Ætluð árás þann 10. ágúst 2009 kann því að hafa valdið sýkingu en í læknabréfum frá 7.5.2010 og 20.8.2010 er því haldið fram að brotaþoli hafi verið stunginn með sýktum nálum í árásinni (sbr. dómsskjal nr. 19).“
Svar við spurningu 3: „Mismunandi niðurstöður blóðrannsókna stafa af því að annars vegar að mæld eru mótefni gegn lifrarbólgu C veiru og hins vegar að veiran sjálf er mæld eða mótefnavaki hennar (með PCR tækni). Eftir sýkingu fjölgar veiran sér í líkamanum og hægt verður að mæla hana. Líkaminn byrjar síðan að mynda mótefni sem einnig er hægt að mæla. Í flestum tilfellum (u.þ.b. 70-80% tilvika) verður sýkingin viðvarandi og mælast þá ávallt bæði mótefni og veiran sjálf og prófin eru nefnd jákvæð. Í 20-30% tilfella læknast sjúklingur sjálfkrafa en þá hættir veiran að mælast í blóði og prófið verður neikvætt fyrir viðvarandi veirusýkingu. Mótefnamælingin sýnir eftir sem áður mótefni gegn veirusýkingunni þótt hún sé brunnin út, prófið verður áfram jákvætt þótt engin sýking sé til staðar. Atburðarásin hjá brotaþola bendir til að hann hafi smitast af lifrarbólgu C veirusýkingu en náð að læknast sjálfur af henni. Þann 14.4.2010 mælist veirumagn mjög lágt en er til staðar (sbr. dómsskjal nr. 22). Á dómsskjalinu er mótefnamælingar ekki getið en ganga má út frá því sem vísu að hún hefur mælst jákvæð. Veirurannsókn sem gerð var 10.6.2010 sýnir að mótefnamæling gegn lifrarbólguveiru C er jákvætt (sbr. dómsskjal nr. 21). Veirurannsókn sem gerð var 25.7.2010 leiðir ekki í ljós neina mælanlega veiru í blóði brotaþola (sbr. dómsskjal nr. 20). Á dómsskjalinu er mótefnamælingar ekki getið en ganga má út frá því sem vísu að hún hefur mælst jákvæð.“
Svar við spurningu 4: „Niðurstöður rannsókna benda eindregið til þess að brotaþoli sé laus við sýkinguna, sbr. svar 3. við spurningu. Sýkingin tekur sig að öllum líkindum ekki upp aftur. Rannsókn sem gerð var 10.6.2010 sýnir enga bólgu í lifur sjúklings (sbr. dómsskjal nr. 21).
Svar við spurningu 5: „Samkvæmt gögnum hér á landi eru flestir þeirra sem hafa þekkta smitleið sprautufíklar (89,6%), blóðþegar (6,4%) og blæðarar (2,3%). Aðrar smitleiðir eins og kynmök eða smit frá móður til barns eru afar sjaldgæfar. Skimun blóðgjafa hefur nánast komið í veg fyrir þá smitleið. Aðrar hugsanlegar smitleiðir eru með kynmökum eða frá móður til barns í meðgöngu eða fæðingu en fágætt er að smit berist með þeim hætti.“
„Lifrarbólga C er blóðsmitandi veirusjúkdómur. Talið er að um 70-80% þeirra sem sýkjast fái króníska (viðvarandi) sýkingu en hinir læknist sjálfkrafa. Oftast nær er sjúkdómurinn einkennalaus framan af þótt hann valdi fyrst og fremst lifrarbólgu. Viðvarandi sjúkdómur getur valdið einkennum sem stafa af bilandi lifur s.s. þreytu, vöðvaverkjum og höfuðverk. Sjaldgæfari eru einkenni frá húð, augum og liðum. Lifrarbilun (skorpulifur) veldur alvarlegum einkennum s.s. blæðingum frá vélinda og efnaskiptatruflunum. Svo getur þessi veirusýking á endanum valdið lifrarfrumukrabbameini.“
„Óljóst er hve margir þeirra sem sýkjast af völdum lifrarbólgu C veikjast af líffæraskemmdum. Niðurstöður rannsókna eru nokkuð misvísandi um afleiðingar smitunar. Það skiptir máli hvort verið sé að kanna þá sem veikjast af völdum lifrarskemmda annars vegar eða alla þá sem smitast hins vegar. Séu þeir rannsakaðir sem veikjast af lifrarsjúkdómi af völdum lifrarbólgu C virðist tími frá smitun til skorpulifrar vera um 20 ár og tíminn frá smitun til lifrarfrumukrabbameins vera tæp 30 ár. Raunverulegar horfur allra þeirra sem smitast af lifrarbólgu C veiru er hins vegar erfitt að meta og til er rannsókn sem bendir til að langtímahorfur smitaðra séu ekki verri en ósmitaðra.“
„Unnt að lækna sjúkdóminn með lyfjameðferð í 40-80% tilvika en arfgerð veirunnar skiptir máli fyrir árangur lyfjameðferðarinnar.“
T staðfesti fyrir dómi efni matsgerðarinnar og útskýrði hana við aðalmeðferð málsins. Hann bar að vegna sýkingarinnar hefði A hugsanlega fengið einhver einkenni, þrátt fyrir að merki um slíkt hefðu ekki verið í gögnum málsins. Umrædd lifrarbólgusýking brotaþola hefði í raun brunnið út og hefði hann því náð endanlegum bata og væri ónæmur fyrir þeim stofni sem hann hefði sýkst af.
Vitnið J [...]læknir bar fyrir dómi að vegna ætlaðrar lifrarbólgusýkingar hefði A endurtekið farið í blóðrannsóknir. Vitnið kvaðst síðast hafa hitt A í lok desember sl. og bar að þá líkt og áður hefði hann verið óvinnufær vegna óþæginda víða í líkamanum en einnig andlegrar vanlíðunar. Vitnið staðhæfði að þessi veikindi A væru afleiðing þeirrar líkamsárásar sem hann hefði orðið fyrir þann 9. og 10. ágúst 2009. Vitnið bar að vegna lýsts ástands væri A nauðsynlegt að þiggja frekari sálgæsluaðstoð.
Vitnið U sálfræðingur kvaðst fyrst hafa hitt A í desember 2009 og verið með hann til meðferðar þar til í mars 2010. Því til viðbótar hefði hann hitt A í október það ár. Vitnið bar að tilefni meðferðarinnar hefði verið sú árás sem A varð fyrir í ágústmánuði 2009. Vitnið staðhæfði að við upphaf meðferðar hefði A greinilega verið þunglyndur, með kvíðaeinkenni og endurupplifanir í draumum, en auk þess hefðu komið fram minningarleiftur í vöku. Vitnið staðhæfði að A hefði verið með greinileg einkenni áfallastreituröskunar og hefði af þeim sökum þurft á sálgæslumeðferð að halda. Vitnið sagði að A hefði verið á góðum batavegi þegar hann hefði orðið fyrir enn frekara áfalli um mánaðamótin febrúar/mars 2010, en þá hefðu læknisfræðilegar niðurstöður borist um að hann hefði smitast af lifrarbólgu C. Vitnið bar að greindur atburður hefði haft mikil áhrif á líðan A, en að ræst hefði úr með tímanum og ekki síst þegar endanleg niðurstaða hefði komið um að hann væri endanlega laus við lifrarbólgusýkingu. Vitnið lét það álit í ljós að batahorfur A væru ágætar og að ekki væru ástæða til að ætla að umræddir atburðir í lífi hans settu varanleg ör á hann, að því tilskyldu að hann fengi viðeigandi meðferð. Vegna þessa hefði hann nýverið fengið göngudeildartilvísun á geðdeild sjúkrahúss.
Vitnið G, [...], kvaðst hafa unnið sem [...]læknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri þegar brotaþolinn A kom þangað til meðferðar að morgni 10. ágúst 2009. Vitnið staðfesti efni áður rakins læknisvottorðs, en bar að við ritun þess hefði fallið niður sú frásögn A að hann hefði auk barsmíða með höndum og fótum mátt þola barsmíðar með járnstykki og jafnframt að honum hefði verið ógnað með sprautunál sem honum hefði verið tjáð að væri sýkt. Vitnið bar að A hefði m.a. verið með sýnilega áverka á hálsi, líkt því að nál hefði verið dregin eftir húðinni; ,,þetta voru litlar grannar línur“, en ekki stungur eða punktsár, líkt og eftir nálarstungur og heldur ekki núningssár eða mar líkt og ætla mætti að kæmi eftir t.d. kaðal eða reipi“. Vitnið áréttaði þá skoðun sína að um hruflsár hefði verið að ræða, líkt og eftir oddhvassan hlut, og bar að frásögn A hefði verið í samræmi við það. Vitnið bar að A hefði ennfremur sagt við læknisskoðunina að hann hefði verið stungin í eyrað með nál og kvaðst það hafa veitt því eftirtekt að hann var rauður á öðru eyranu. Vitnið minntist þess ekki að hafa séð áverka á baki A og kannaðist heldur ekki við að hann hefði kvartað um verki þar. Vitnið áréttaði að auk hinna sýnilegu áverka í andliti hefði A verið frekar þrútinn og rauður yfir öllu andlitinu, en þó ekki verið með eiginleg áverkamerki á hægri andlitshelmingi. Vitnið vísaði til þeirra mynda sem það hafði tekið á slysadeildinni og áður er lýst, en jafnframt til þess að maráverkar kæmu oft ekki fram fyrr en eftir tvo til þrjá daga. Vitnið staðhæfði að frásögn A hefði verið trúverðug og í samræmi við þau áverkamerki sem hann bar. Vitnið kvaðst m.a. hafa veitt því eftirtekt að kaffikorgur var á húð hans og sagði að það hefði verið í samræmi við frásögn hans um að hann hefði þá um nóttina fengið yfir sig kaffi og allskonar rusl. Vitnið bar að helstu sýnilegu áverkar A hefðu verið mikil bólga á hægri ganglim, stórt og mikið glóðarauga og áðurnefndar ákomur á hálsi og eyra. Vitnið staðhæfði að við komu á slysadeildina hefði A verið mjög miður sín og ætlaði að í raun hefði helsti áverki hans verið af andlegum toga.
Niðurstaða.
Samkvæmt ákæru er ákærðu X og Gesti Hrafnkeli Kristmundssyni gefin að sök frelsissvipting, stórfelld líkamsárás, ólögmæt nauðung og tilraun til fjárkúgunar með því að hafa svipt A frelsi sínu og haldið honum nauðugum frá klukkan 21:00 að kvöldi sunnudagsins 9. ágúst 2009 til um klukkan 9:00 að morgni mánudagsins 10. ágúst 2009, og hafa á meðan á frelsissviptingunni stóð beitt hann líkamlegu ofbeldi og ítrekað hótað honum og hans nánustu líkamsmeiðingum og lífláti greiddi hann þeim ekki allt að einni milljón króna. Er í 1. og 2. tölulið ákærunnar ætlaðri háttsemi ákærðu lýst nánar, en í niðurlagi hennar afleiðingunum. Háttsemin er talin varða við 2. mgr. 218. gr., 251. gr., sbr. 20. gr., 225. og 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot ákærða Gests Hrafnkels samkvæmt 2. mgr. 226. gr. eru til vara talin varða við það ákvæði sbr. 22. gr. sömu laga.
Samkvæmt framburði ákærða X og brotaþolans A fyrir dómi mæltu þeir sér mót að kveldi sunnudagsins 9. ágúst 2009, en í slagtogi með ákærða X voru þá E og F heitin. Óumdeilt er að þau fóru öll saman í leigubifreið í húsakynni ákærða X að [...], en með viðkomu á bensínstöð þar sem ákærði keypti meðal annars kaðal. Samkvæmt skýrslu ákærða X fyrir dómi hafði hann er atvik gerðust í hyggju að innheimta hjá brotaþola peningaskuld vegna eldri fíkniefnaviðskipta þeirra. Var það ætlan hans að beita ákveðinni þvingun við innheimtuna ef á þyrfti að halda fengi hann ekki kröfum sínum framgengt ellegar tryggingu fyrir efndum. Við meðferð málsins hefur brotaþoli borið að hann hafi hlýtt boði ákærða X um að ræða við hann augliti til auglitis um nefnt skuldamál. Hann hefur jafnframt borið að hann hafi ætlað að skuld hans við ákærða X hefði verið 30.000 krónur. Ákærði X hefur aftur á móti haldið því fram að skuld brotaþola hafi verið allt að 200.000 krónur, en játaði að í samskiptum sínum við brotaþola aðfaranótt mánudagsins 10. ágúst hafi hann krafist verulega hærri fjárhæðar eða tæplega 800.000 króna. Hann hefur jafnframt borið að meðákærði Gestur hafi bætt um betur og hafi hann krafið brotaþola um allt að 1.000.000 króna þá um nóttina. Er þessi frásögn ákærða X í samræmi við framburð brotaþola og trúverðugan vitnisburð foreldra hans, en óumdeilt er að ákærði Gestur kom í húsakynni meðákærða um miðnættið 10. ágúst. Liggur og fyrir að ákærði Gestur hafðist þar við allt til morguns er hann fór út ásamt brotaþola, en í framhaldi af því hittu þeir fyrir lögreglumenn sem komnir voru á vettvang.
Fyrir dómi hefur ákærði X borið að í umrætt sinn hafi hann verið undir áhrifum áfengis, en einnig undir verulegum fíkniefnaáhrifum, þ.á m. amfetamíns. Er þetta í samræmi rannsóknargögn lögreglu, en fyrir liggur að lögreglumenn hittu ákærða að máli aðfaranótt 10. ágúst, um kl. 02:30. Þá er þetta einnig í samræmi við frásögn þeirra vitna, sem tal höfðu af ákærða X, en þar á meðal voru V og L. Hefur ákærði X vegna greinds ástands síns borið við nokkru minnisleysi um gjörðir sínar.
Fyrir dómi hefur ákærði X borið að á þáverandi heimili sínu umrætt kvöld hafi hann, eftir tiltölulega stuttar viðræður við brotaþola, misst stjórn á skapi sínu. Hefur ákærði játað að í kjölfar þessa hafi hann gengið í skrokk á brotaþola þar sem hann sat á stól í vistarverum hans, en jafnframt borið að fyrrnefndir félagar hans, F og E, hefðu tekið nokkurn þátt í atgangi hans gegn brotaþola. Ákærði hefur játað að hann hafi síðar þetta kvöld, en einnig þá um nóttina, atyrt brotaþola á ýmsa vegu. Að auki hefur hann játað að hann hafi þá um nóttina á ný misst stjórn á skapi sínu og gengið í skrokk á brotaþola, sem þá hafi legið á dýnu í vistarverum hans. Í síðara sinnið hafi hann ekki staðið einn að verki þar eð meðákærði Gestur hafi tekið þátt í verknaði hans. Er þetta í samræmi við frásögn brotaþola en einnig vitnisins D.
Ákærði X lýsti nánar fyrir dómi ofangreindum barsmíðum sínum og atgangi gegn brotaþola. Hann játaði þannig skýlaust að hafa barið brotaþola einu sinni til tvisvar með ryksuguröri, á vinstri vanga. Þá játaði hann að hafa slegið A í höfuð og skrokk, fimm til tíu högg, en einnig kvaðst hann að hafa sparkað og slegið hann ítrekað í fætur, m.a. með ryksugurörinu. Hann hefur ekki dregið í efa að afleiðingar þessarar háttsemi hans hafi verið þær sem í ákæru er lýst, a.m.k að nokkru leyti, og þá þannig að A hafi fengið bólgur og mar á höfði og á hægri fótlegg. Hann neitaði því á hinn bóginn að árás hans hefði verið stórfelld í skilningi 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði játaði jafnframt að hafa hent logandi pappír að brotaþola og að hafa skvett á hann heitu kertavaxi þar sem hann lá á dýnunni. Þá játaði hann að hafa beitt brotaþola tiltekinni þvingun í því skyni að innheimta nefnda peningaskuld.
Fyrir dómi neitaði ákærði X að öðru leyti sök og þeirri verknaðarlýsingu sem tiltekin er í upphafskafla og 1. kafla ákæru. Hann neitaði þannig að hafa ógnað brotaþola með hnífi og að hafa vafið kaðli um háls hans og þrengt að, að hafa ógnað eða stungið brotaþola með smitandi sprautunál, að hafa klipið hann með flísatöng, að hafa hellt yfir hann áfengi, að hafa hótað honum eða hans nánustu ættingjum líkamsmeiðingum og lífláti greiddi hann ekki umkrafða fjármuni og loks að hafa kastað af sér þvagi á brotaþola.
Fyrir dómi neitaði ákærði X því að hann hefði í greint sinn eða með lýstu athæfi gerst sekur um frelsissviptingu, ólögmæta nauðung, tilraun til fjárkúgunar eða að hafa smitað brotaþola af lifrarbólgu C.
Framburður brotaþola A hefur hjá lögreglu og fyrir dómi verið skilmerkilegur og staðfastur. Frásögn hans hefur auk þess verið í samræmi við gögn málsins, þ.á m. læknisvottorð og ítarleg rannsóknargögn lögreglu, sbr. það sem rakið var í kafla II.2 hér að framan. Hann var án áfengis- og vímuáhrifa er atvik gerðust. Að áliti dómsins er frásögn hans trúverðug í öllum meginatriðum.
Brotaþoli hefur lýst því að ákærði X hafi ásamt fyrrnefndum félögum sínum, E og F, fljótlega eftir að hann kom í nefndar vistarverur vafið kaðli um hann og við þær aðstæður hafi ákærði í eitt skipti vafið um háls hans þannig að hertist að í skamma stund og hann varð að hósta. Frásögn brotaþola fær stoð að þessu leyti í framburði E fyrir dómi, en einnig í frásögn F heitinnar hjá lögreglu. Þykir að þessu virtu, þrátt fyrir neitun ákærða nægjanlega sannað að ákærði sé sannur að sök um nefnt sakaratriði.
Framburðarskýrslur F hjá lögreglu hafa ekki sama vægi í máli þessu og skýrslur vitnis fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála. Er það háð mati dómara, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar hvort þær hafi sönnunargildi í málinu og þá eftir atvikum hversu mikið. Af d. lið 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 1994, er hins vegar ljóst að ekki er heimilt að byggja sakfellingu ákærða á skýrslunum einum, þar sem rétti ákærða, samkvæmt nefndri grein Mannréttindasáttmálans til að gagnspyrja var ekki, í samræmi við meginreglur VII. kafla laga nr. 88, 2008, fullnægt við yfirheyrslur lögreglu.
Brotaþoli hefur auk þess sem að framan var sagt lýst því að ákærði X hafi ógnað honum með hnífi í upphafi atburðarásarinnar og að hann hafi síðar klipið hann með flísatöng, hellt yfir hann áfengi og neytt hann til að þrífa húsnæðið eins og nánar segir í ákæru. Í 108. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála er skýrt kveðið á um að sönnunarbyrði um sekt ákærðs manns, og hvaðeina annað sem talið yrði honum í óhag, hvíli á ákæruvaldinu en ekki hinum ákærða. Er þetta meginregla í íslensku sakamálaréttarfari, sbr. og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Að ofangreindu virtu og gegn neitun ákærða er að áliti dómsins varhugavert að telja sannað að ákærði hafi framið þau brot sem hér síðast var lýst. Ber að sýkna hann af nefndum sakaratriðum. Hins vegar þykir með framburði brotaþola og að virtum rannsóknargögnum lögreglu, gegn reikulum framburði ákærða X, nægjanlega sannað að ákærði hafi kastað af sér þvagi yfir brotaþola.
Samkvæmt rannsóknargögnum, þar á meðal framlögðum ljósmyndum og skýrslu dómkvadds matsmanns, er að áliti dómsins hafið yfir vafa að brotaþoli var stunginn með blóðugri sprautunál í húsakynnum ákærða X með þeim afleiðingum að hann smitaðist af lifrarbólgu C.
Við meðferð málsins hefur ákærði alfarið neitað þeim sakaratriðum í ákæru að hann hafi ógnað eða stungið brotaþola með sprautunál og að því leyti alfarið andmælt frásögn F við skýrslugjöf hjá lögreglu. Brotaþoli hefur fyrir dómi ekki getað sagt til um hver það var sem stakk hann með sprautunálinni, en aftur á móti borið að hann ætli það helst að F hafi tekið þá ljósmynd af honum, sem sýni nálina í hægri eyrnasnepli hans. Verður og lagt til grundvallar að myndin hafi verið tekin skömmu eftir þann verknað. Í ljósi fyrrnefndra meginreglna sakamálaréttarfars og að virtum öðrum gögnum, einkum frásögn E, er að mati dómsins varhugavert að telja sannað gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi framið þau brot sem hér um ræðir. Verður hann því sýknaður af þessum sakaratriðum, sbr. 108. gr. laga nr. 88, 2008.
Brotaþoli hefur lýst því að ákærði hafi, líkt og meðákærði, ítrekað hótað honum og hans nánustu líkamlegu ofbeldi og lífláti greiddi hann ekki umkrafða fjárhæð, sbr. það sem segir í ákæru, og jafnframt að honum hafi verið hótað lifrarbólgusmiti undir lok veru hans í húsakynnum ákærða X. Að virtum staðföstum og skilmerkilegum framburði brotaþola, sem stoð hefur í trúverðugum framburði foreldra hans sem hlýddu á orðræður í ítrekuðum símaviðræðum að morgni mánudagsins 10. ágúst, en einnig að virtum framburði D að nokkru og loks framgöngu ákærða X í heild gagnvart brotaþola þykir nægjanlega sannað að ákærði X sé sannur að sök um nefnd sakaratriði.
Brotaþoli hefur lýst því að vegna hinnar harkalegu barsmíðar með ryksuguröri sem hann varð fyrir í upphafi veru hans í vistarverum ákærða X hafi hann vankast. Hefur þessi framburður að áliti dómsins stoð í rannsóknargögnum, þ.á m. læknisvottorði. Brotaþoli hefur jafnframt lýst því að hann hafi mátt þola ítrekaðar og stöðugar barsmíðar auk hótana um langan tíma, ekki síst af hálfu ákærða X, og þar á meðal eftir að hann var færður á dýnu í einu horni herbergisins. Brotaþoli lýsti því að honum hefði nær frá upphafi verið meinað að yfirgefa vettvang nema gegn því skilyrði að hann gengi að kröfu um greiðslu skuldar, sem sífellt hefði farið hækkandi. Að áliti dómsins hefur öll þessi frásögn brotaþola stoð í framburði vitna og í rannsóknargögnum. Verður að þessu virtu að telja framburð ákærða X, þess efnis að brotaþola hafi verið frjálst að yfirgefa vettvang, ótrúverðugan.
Ákærði Gestur neitar hér alfarið sök. Af frásögn hans fyrir dómi verður ráðið að honum hafi verið ljóst þegar hann kom fyrst í herbergið, um miðnættið þann 10. ágúst, að brotaþoli var þar staddur vegna skulda hans við meðákærða. Er óumdeilt að er þetta gerðist lá brotaþoli fyrir á dýnu í horni herbergisins. Af frásögn ákærða Gests verður jafnframt ráðið að nokkru eftir komu hans hafi hann séð að brotaþoli var með nýlega áverka í andliti. Á síðari stigum lögreglurannsóknar og fyrir dómi kvaðst hann auk þess hafa séð ljósmyndir af brotaþola með áverka á andliti og nál í eyra. Ákærði hefur ekki dregið í efa að hann hafi átt orðaskipti við brotaþola þá um nóttina. Fyrir liggur að ákærði Gestur var í herberginu ásamt brotaþola allt þar til þeir fóru saman út þá um morguninn, um það leyti sem lögregla kom á vettvang.
Ákærði Gestur hefur við alla meðferð málsins og að öðru leyti en að ofan var rakið lýst nær algjöru minnisleysi um gjörðir sínar vegna ölvunar og stöðugrar áfengisdrykkju. Er þetta ástand hans í samræmi við frásögn brotaþola, en einnig vætti vitna, þar á meðal V og að nokkru D. Verður í ljósi þessa ekki nema að takmörkuðu leyti byggt á frásögn hans.
Brotaþoli hefur lýst því staðfastlega að ákærði Gestur hafi eftir að hann kom í herbergið beitt hann því líkamlega ofbeldi sem lýst er í 2. tölulið ákæru að því frátöldu að hann bar á móti því fyrir dómi að ákærði hafi lagst ofan á hann. Ber að sýkna ákærða af því sakaratariði. Brotaþoli hefur jafnframt borið að ákærði Gestur hafi hótað honum og ættmennum hans lífláti svo og hótað ættmennum hans mjög grófu ofbeldi, líkt og lýst er í ákæru, auk þess sem hann hafi neytt hann til að þrífa húsnæðið. Að áliti dómsins er framburður brotaþola um þetta skilmerkilegur og trúverðugur. Frásögn brotaþola hefur einnig að nokkru stoð í frásögn D og meðákærða X. Þá er frásögn brotaþola í samræmi við vitnisburð foreldra hans, en þau hlýddu á ítrekuð símtöl hans að morgni mánudagsins 10. ágúst. Frásögn brotaþola þykir auk þess hafa stoð í ítarlegum rannsóknarskýrslum lögreglu, þar á meðal um símanotkun aðila og vettvangsleit. Þegar þetta er virt í heild ásamt læknisvottorði þykir eigi varhugavert að telja sannað að ákærði Gestur sé sannur að sök um þau ákæruatriði sem að honum lúta í ákæru, að því frátöldu að líkamsárás hans þykir ekki vera stórfelld í skilningi hegningarlaganna.
Við heildstætt mat á öllu framangreindu þykir framburður brotaþola studdur nægum gögnum um að hann hafi verið sviptur frelsi sínu, að hann hafi verið beittur ólögmætri nauðung í tilraunum ákærðu, X og Gests, til að hafa af honum fjármuni með ólögmætum hætti. Frelsissvipting brotaþola var framin í ávinningsskyni og var langvarandi.
Að öllu framansögðu virtu og með hliðsjón af atvikum í heild þykir sannað að ákærðu hafi framið þau brot sem lýst er í ákæru og með þeim afleiðingum sem þar greinir, en að því frátöldu sem áður var rakið. Brot ákærðu varða við 251. gr., sbr. 20. gr. og 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 með áorðnum breytingum, en síðast nefnda lagagreinin þykir tæma sök gagnvart 225. gr. Þá varðar líkamsárásarbrot ákærða X vegna barsmíða hans með ryksuguröri við 2. mgr. 218. gr. nefndra laga, en brot ákærða Gests við ákvæði 1. mgr. 217. gr. sömu laga.
III.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði X talsverðan sakaferil að baki. Frá átján ára aldri hefur hann sextán sinnum verið dæmdur, tíðum fyrir fíkniefnalagabrot, umferðarlagabrot, eignaspjöll og auðgunarbrot, en að auki hefur hann tvisvar, á árunum 2006 og 2007, verið dæmdur fyrir líkamsárásir. Hann var hinn 21. ágúst 2009 dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir ávana- og fíkniefnalagabrot og þjófnað, en síðast var honum dæmdur hegningarauki, þann 19. janúar 2010, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, eins mánaðar fangelsi. Þau brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir framdi hann að hluta til fyrir uppsögu þessara dóma og verður honum því ákveðinn hegningarauki, sbr. ákvæði 78. gr. laga nr. 19, 1940.
Við ákvörðun refsingar ákærða ber m.a. að líta til þess að brot hans gegn A voru alvarleg, hrottafengin og niðurlægjandi, en að auki hefur hann í máli þessu verið sakfelldur fyrir að hafa nokkurt magn af fíkniefnum í vörslum sínum. Þá ber að líta til fyrrnefnds sakaferils ákærða, en einnig ber að hafa hliðsjón af 1. tl. 1. mgr., svo og 2. mgr. 70. gr., sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga og því að hann játaði að hluta til brot sín og lýsti iðran. Þykir refsing ákærða X að þessu virtu hæfilega ákveðin fangelsi í tvö og hálft ár, en til frádráttar komi gæsluvarðhald hans frá 12. ágúst til 14. september 2009.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði Gestur þrívegis frá árinu 2008 hlotið sektardóma vegna brota gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Hann var dæmdur 28. ágúst 2009 fyrir umferðarlagabrot, en síðast var hann dæmdur fyrir ávana- og fíkniefnabrot í janúar 2010.
Við ákvörðun refsingar ákærða ber einkum að líta til þess að brot hans gegn A voru alvarleg, hrottafengin og niðurlægjandi, en að auki hefur hann í máli þessu verið sakfelldur fyrir að hafa haft talsvert magn af fíkniefnum í vörslum sínum. Ber að hafa hliðsjón af 1. tl. 1. mgr., svo og 2. mgr. 70. gr., sbr. 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga, en ákærði þykir ekki hafa neinar málsbætur. Hann hefur ekki áður sætt refsingu fyrir ofbeldisbrot. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði, en til frádráttar komi gæsluvarðhald hans frá 12. til 18. ágúst 2009.
Dæma ber ákærðu til að sæta upptöku á fyrrgreindum fíkniefnum svo sem í dómsorði greinir.
IV.
Arnar Sigfússon, héraðsdómslögmaður og réttargæslumaður A, bar fram bótakröfu á hendur ákærðu, fyrir hans hönd, með bréfi, dagsettu 25. maí 2010 og krafðist þess að ákærðu yrðu dæmdir óskipt til greiðslu miska- og skaðabóta að fjárhæð 4.062.386 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. ágúst 2009 til 2. júlí 2010 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krafðist lögmaðurinn hæfilegrar þóknunar við alla meðferð málsins. Hann rökstuddi kröfuna við aðalmeðferð málsins, en um lagarök var vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 og almennu skaðabótareglunnar.
Ákærðu hafa með hinni alvarlegu háttsemi sinni gagnvart brotaþola bakað sér skyldu til greiðslu bóta vegna þess tjóns sem af henni hlaust. Ber við ákvörðun þeirra m.a. að líta til þess að frelsissvipting brotaþola var langvarandi og til þess fallin að valda honum andlegri þjáningu.
Í nefndri bótakröfu er í fyrsta lagi krafist miskabóta að fjárhæð 4.000.000 króna. Í ljósi atvika, 26. gr. skaðabótalaga og með hliðsjón af vitnisburði sérfróðra vitna fyrir dómi, en einnig niðurstöðu dómsins um einstök sakaratriði þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 900.000 krónur.
Í öðru lagi er krafist skaðabóta vegna útlagðs kostnaðar, annars vegar vegna læknishjálpar og lyfja að fjárhæð 27.386 krónur og hins vegar sálfræðimeðferðar að fjárhæð 35.000 krónur, samtals 62.386 krónur. Þessir liðir eru nægjanlega studdir gögnum og verða þeir teknir til greina.
Eru bætur til handa brotaþola að ofangreindu virtu ákveðnar 962.386 krónur. Um þóknun réttargæslumanns svo og um vexti fer eins og í dómsorði greinir.
Samkvæmt yfirliti og yfirlýsingu sækjanda fyrir dómi nemur sakarkostnaður vegna ákæru sem útgefin var 26. júlí 2010 66.679 krónum, sem ákærðu ber að greiða óskipt.
Í ljósi niðurstöðu dómsins um refsiheimfærslu og sakfellingu ákærðu að hluta þykir rétt að málsvarnarlaun verjenda ákærðu verði að ¼ hluta greidd úr ríkissjóði, en að ¾ af ákærðu. Við ákvörðun þeirra verður m.a. litið til umfangs málsins og starfa hinna skipuðu verjenda við alla meðferð þess, en einnig ber að líta til þeirra sjónarmiða sem fram koma t.d. í dómi Hæstaréttar Íslands nr. 290/2000 um hlutverk réttargæslumanna.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, 1.242.450 krónur, greiðist að ¼ hluta úr ríkissjóði, en að ¾ hlutum af ákærða.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Gests Hrafnkels Kristmundssonar, Ólafs Rúnars Ólafssonar héraðsdómslögmanns, 966.350 krónur, greiðist að ¼ hluta úr ríkissjóði, en að ¾ hlutum af ákærða.
Við ákvörðun málsvarnarlauna, en einnig réttargæslulauna var litið til reglna um virðisaukaskatt.
Af hálfu ákæruvalds flutti málið X Þorbergsson sýslumannsfulltrúi.
Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88, 2008.
Mál þetta dæma héraðsdómararnir Ólafur Ólafsson, sem dómsformaður, Erlingur Sigtryggsson og Jón Höskuldsson.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö og hálft ár. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða sem hann sætti frá 12. ágúst til 14. september 2009.
Ákærði, Gestur Hrafnkell Kristmundsson, sæti fangelsi í 20 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða sem hann sætti frá 12. til 14. ágúst 2009.
Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 0,85 gr. af tóbaksblönduðu hassi, 4,73 gr. af hassi, 5,25 gr. af marihúana og 29,75 gr. af amfetamíni, sbr. efnaskrár lögreglu nr. 15.706, 18.362, 18.363, 18.835 og 18.893.
Ákærðu greiði A, kt. [...], óskipt, 962.386 krónur í miska- og skaðabætur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, frá 10. ágúst 2009 til 2. júlí 2010, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærðu greiði óskipt 66.679 krónur í sakarkostnað.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns 1.242.450 krónur greiðist að ¼ hluta úr ríkissjóði, en að ¾ hlutum af ákærða.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Gests Hrafnkels, Ólafs Rúnars Ólafssonar héraðsdómslögmanns 966.350 krónur greiðist að ¼ hluta úr ríkissjóði, en að ¾ hlutum af ákærða.
Réttargæslulaun Arnars Sigfússonar héraðsdómslögmanns, 502.000 krónur, greiðist að ¼ hluta úr ríkissjóði, en að ¾ hlutum af ákærðu.