Hæstiréttur íslands

Mál nr. 709/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Fimmtudaginn 5. nóvember 2014.

Nr. 709/2014.

Ákæruvaldið

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. 

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. nóvember 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. nóvember 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. nóvember 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að ákærða, X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. nóvember nk. kl. 16.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögregla hafi haft til rannsóknar umfangsmikil auðgunar- og kynferðisbrot kærða, en rannsókn málanna sé nú lokið. Ríkissaksóknari hafi nú til meðferðar 11 kynferðisbrotamál gegn 11 brotaþolum þar sem kærði hafi stöðu sakbornings, en ætluð brot kunni að varða við 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 202. gr., 3. mgr. 202. gr., 1. og 2. mgr. 206. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga. Ætluð brot séu framin á árunum 2010 til loka árs 2013. Hinn 20. maí sl. hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefið út ákæru vegna auðgunarbrotanna og séu þau talin varða m.a. við 244. gr., 247. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga.

Í greinargerðinni kemur fram að kærði ljúki afplánun 2. nóvember nk. vegna dóms sem hann hafi hlotið fyrir kynferðisbrot gegn 17 ára dreng, sem hann hafi tælt til kynferðismaka, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. [...]. Fyrir brotin hafi hann verið dæmdur í átta mánaða fangelsi en brot hans hafi verið framin í maí og byrjun júlí 2012. Ákæra hafi verið gefin út í mars 2013. Nokkur hinna ætluðu kynferðisbrota sem ríkissaksóknari hafi nú til meðferðar séu því framin eftir að kærði var ákærður fyrir kynferðisbrot, sem sýni einbeittan brotavilja hans. Þau fjársvik sem hann hafi verið ákærður fyrir af lögreglustjóra séu einnig af þeim toga að kærði beiti blekkingum en í þeim tilgangi að hafa af brotaþolum fé. Ákæra lögreglustjóra fyrir auðgunarbrot sé í 18 liðum og hafi þau átt sér stað á árunum 2011-2014.

Fyrir liggi greinargerð A geðlæknis um geðrannsókn á kærða. Niðurstöður hennar séu þær m.a. að kærði sé sakhæfur [...].

Með vísan til brotaferils kærða og greinargerðar geðlæknisins sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna á meðan málum hans er ekki lokið.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

Eins og að framan greinir hefur verið gefin út ákæra á hendur kærða fyrir fjölmörg auðgunarbrot á árunum 2011, 2012, 2013 og fram í janúar 2014. Þá hefur ríkissaksóknari nú til meðferðar 11 kynferðisbrotamál gegn 11 brotaþolum, þar sem kærði hefur stöðu sakbornings og eru brotin talin framin á árunum 2010 til loka árs 2013. Nokkur þeirra brota munu hafa verið framin eftir að ákæra var gefin út á hendur kærða fyrir brot af sama meiði, sem lauk með dómi Hæstaréttar [...], sbr. mál nr. [...]. Þykir það sýna einbeittan brotavilja kærða.

Samkvæmt gögnum málsins sætti kærði gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á ætluðum kynferðisbrotum hans frá 31. janúar 2014 þar til afplánun átta mánaða fangelsisrefsingar samkvæmt áðurgreindum hæstaréttardómi hófst í byrjun mars sl. Samkvæmt framangreindu stóð brotastarfsemi kærða yfir nánast samfellt frá árinu 2010 þar til kærði var hnepptur í gæsluvarðhald í lok janúar sl. Með hliðsjón af framangreindu og með sérstakri skírskotun til niðurstöðu áðurgreindrar greinargerðar geðlæknis um geðrannsókn á kærða þykir í ljós leitt að fullnægt sé skilyrðum til að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt því verður krafa lögreglustjóra tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. nóvember nk. kl. 16.00.