Hæstiréttur íslands
Mál nr. 292/2003
Lykilorð
- Hlutafélag
- Einkahlutafélag
- Félagasamstæða
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 4. mars 2004. |
|
Nr. 292/2003. |
Þrotabú TL rúllna ehf. (Reynir Karlsson hrl.) gegn TV fjárfestingafélaginu ehf. og Húsasmiðjunni hf. (Tómas Jónsson hrl.) |
Hlutafélag. Einkahlutafélag. Félagasamstæða. Skaðabætur.
Þrotabú TL (Þ) leitaði eftir skaðabótum úr hendi TV og H vegna þess að eignir TL voru ekki lengur fyrir hendi þegar bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Á þeim tíma sem hér skipti máli voru TL og H í eigu TV, sem var samkvæmt því móðurfélag beggja hinna, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 138/1994. Þá voru náin stjórnunarleg tengsl milli allra félaganna. Talið var að eignum TL hafi sannanlega verið ráðstafað til hagsbóta fyrir TV og H, þó sérstaklega H. Engin lagaskilyrði voru til þess að TV gæti tekið verðmæti út úr TL og engin formleg ákvörðun var heldur tekin í þá veru. TV var samkvæmt þessu skaðabótaskyldur gagnvart Þ samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994. Gögn málsins þóttu sýna að allir þræðir hefðu verið í sömu hendi til að taka samræmda ákvörðun fyrir öll félögin í senn og að bæði TV og H hefðu haft raunveruleg yfirráð yfir TL. Í samræmi við þetta var talið að ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 2/1995 tæki til H sem móðurfélags TL. Í sameiningu hefðu TV og H stuðlað að því að eignir dótturfélags þeirra gengju að verulegu leyti til H og um leið borið fyrir borð hagsmuni annarra kröfuhafa. Bar H skaðabótaábyrgð á tjóni sem Þ varð fyrir af þessum sökum. Í samræmi við þetta voru TV og H dæmd til greiðslu skaðabóta óskipt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 22. maí 2003, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 2. júlí sama árs. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994, áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 25. júlí 2003. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 72.314.229 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. apríl 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Stefndi TV fjárfestingafélagið ehf., sem þá hét Timburvinnslan ehf., keypti 22. september 1996 alla hluti í Teppalandi hf., en nafni þess félags var á árinu 1997 breytt í TL rúllur ehf. Virðist mega ráða af fundargerð stjórnar félagsins og hluthafafundar og vottorði Hagstofu Íslands að það hafi verið gert 29. júlí á því ári. Síðastnefnda félagið var fjárhagslega illa statt við kaupin og var umsamið kaupverð aðeins ein króna. Til að rétta við hag félagsins lánaði kaupandinn því fé á árinu 1996 og gekkst jafnframt í ábyrgð fyrir lánum frá öðrum, svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Tilraunir til að koma félaginu á réttan kjöl báru ekki árangur og var bú TL rúllna ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 8. apríl 1998. Ágreiningur reis um kröfur stefnda TV fjárfestingafélagsins ehf. í þrotabúið, sem lauk með dómi Hæstaréttar 18. nóvember 2002 í máli nr. 495/2002. Var með honum fallist á að stefndi ætti kröfu í þrotabúið vegna lánveitinga og ábyrgða að fjárhæð 39.189.930 krónur, en hafnað kröfu um að hann nyti veðréttar í lausafé samkvæmt tryggingabréfi, sem félagið hafði gefið út til stefnda 25. september 1996. Var kröfunni skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Eftir að Teppaland hf., síðar TL rúllur ehf., komst í eigu stefnda TV fjárfestingafélagsins ehf. rak fyrrnefnda félagið smásöluverslun fram í maí 1997, en þá var verslun þess í Mörkinni 4 í Reykjavík lokað. Gekk reksturinn illa frá byrjun, svo sem staðfest er í fundargerðum stjórnar félagsins frá þessum tíma. Þegar hinn 18. nóvember 1996 kemur þar fram að staða félagsins hafi verið lakari en búast mátti við og sala ekki verið í samræmi við væntingar. Á stjórnarfundi 27. janúar 1997 var bókað að ljóst sé að hvorugur stefndu myndi leggja fram frekara fé í reksturinn að svo stöddu. Í fundargerðinni segir einnig: „Skv. ofanskráðu er stjórninni í raun skylt skv. lögum að óska eftir því að fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta.“ Eins kom fram á stjórnarfundi 13. mars 1997 að rekstur fyrirtækisins gengi ekki upp miðað við skuldabyrði þess og 24. sama mánaðar var ákveðið að segja upp leiguhúsnæði og öllum starfsmönnum. Í apríl 1997 var haldin útsala „til að losa um lagerinn“, eins og segir í fundargerð 11. sama mánaðar. Í fundargerð 28. maí segir síðan að „lagerinn og allt lausafé hefur verið flutt í Holtagarða, húsnæði í eigu Húsasmiðjunnar hf.“ Á fundi 29. júlí kom fram að ljóst væri að félagið færi í gjaldþrot og stefnt væri að því að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta í byrjun næsta mánaðar. Var þá jafnframt ákveðið að breyta félaginu í einkahlutafélag og fækka stjórnarmönnum úr þremur í einn. Í fundargerðum stjórnar frá síðari hluta árs 1997 sést að hugmyndir hafa verið uppi um að leita nauðasamnings og „nýta skattalegt tap félagsins“. Ekki varð af því að félaginu yrði bjargað með þeim hætti. Eftir árangurslaust fjárnám kröfuhafa fór stjórnin þess loks á leit 18. mars 1998 að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta, sem var gert 8. apríl sama árs eins og áður var getið. Málavextir eru nánar raktir í hinum áfrýjaða dómi.
II.
Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að stefndu hafi bakað sér skaðabótaskyldu vegna meðferðar sinnar á eignum Teppalands hf., síðar TL rúllna ehf. fram að gjaldþroti félagsins. Þeir hafi valdið áfrýjanda verulegu fjárhagstjóni með því að taka til sín öll verðmæti í hinu gjaldþrota félagi og skilið kröfuhafa þess eftir með eignalaust bú. Félagið hafi upphaflega verið hlutafélag, en síðar verið breytt í einkahlutafélag og taki bæði lög nr. 2/1995 um hlutafélög og lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög til málsins. Eignatengsl hafi verið milli stefndu á þeim tíma, en bæði hafi félögin verið í eigu þriggja nafngreindra manna. Óumdeilt sé að stefndi TV fjárfestingafélagið ehf. hafi verið móðurfélag TL rúllna ehf. og Húsasmiðjan hf. hafi í reynd einnig notið stöðu sem móðurfélag TL rúllna ehf., sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 2/1995 og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 138/1994. Beri stefndu ábyrgð á starfi þeirra manna, sem sátu í stjórn Teppalands hf. og síðar TL rúllna ehf. Kveðst áfrýjandi láta við það sitja að leita skaðabóta hjá þeim, sem nutu hagsmunanna í reynd, en reisa kröfu sína jafnframt á því að stjórnarmenn í Teppalandi hf. hafi í störfum sínum fyrir hönd stefndu átt þátt í að valda áfrýjanda tjóni með því að láta stefndu njóta verðmæta, sem þeir áttu ekkert tilkall til. Telur áfrýjandi stefndu skylt að skila andvirði verðmæta úr búi TL rúllna ehf., sem hafi verið hirt í trássi við ákvæði XII. kafla laga nr. 2/1995, sbr. einkum 102. gr. laganna. Engin skilyrði hafi verið til að úthluta fjármunum félagsins til hluthafa, en í 98. gr. laganna sé mælt fyrir um skilyrði slíkra greiðslna. Ekki komi til álita að stefndi TV fjárfestingafélagið ehf. hafi getað tekið út arð, enda hvorki skilyrði til þess né ákvörðun verið tekin um það. Ekki hafi heldur verið skilyrði til endurgreiðslu vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs eða vegna félagsslita, sbr. VII. kafla laga nr. 2/1995. Um sambærileg ákvæði vísar áfrýjandi til XII. kafla laga nr. 138/1994 og einkum 77. gr. um endurheimturétt félags. Stefndi Húsasmiðjan hf. hafi ekki verið formlegur hluthafi í TL rúllum ehf., en notið greiðslna frá félaginu í formi dulinnar arðsúthlutunar. Krafan byggi að því leyti einnig á 76. gr. og 95. gr. laga nr. 2/1995, sbr. 51. gr. og 70. gr. laga nr. 138/1994 og jafnframt á almennum skaðabótareglum. Séu báðir stefndu ábyrgir vegna þessara brota. Þá vísar áfrýjandi til þess að stefndu hafi ráðstafað eigum TL rúllna ehf. í skjóli yfirburðavalds samkvæmt X. kafla laga nr. 2/1995 og X. kafla laga nr. 138/1994. Hafi þeir með saknæmum og ólögmætum hætti dregið verðmæti út úr félaginu sér til hagsbóta og brotið ákvæði 76. gr. eða 95. gr. laga nr. 2/1995 og 51. eða 70. gr. laga nr. 138/1994. Leiði skaðabótaskylda stefndu af 134. gr. fyrrnefndu laganna og 108. gr. hinna síðarnefndu, en auk þess af meginreglum skaðabótaréttar og almennu skaðabótareglunni. Ennfremur er á því byggt að stefndu hafi orðið skaðabótaskyldir fyrir það að ekki var hirt um að gefa bú TL rúllna ehf. upp til gjaldþrotaskipta þegar tilefni var til, sbr. 105. gr. laga nr. 2/1995 og 80. gr. laga nr. 138/1994. Áfrýjandi kveðst loks reisa kröfu sína á því að stefndu hafi með háttsemi sinni sniðgengið svo ákvæði laga um hlutafélög og einkahlutafélög að það leiði til beinnar ábyrgðar gagnvart áfrýjanda. Þannig hafi af hálfu stefndu með villandi upplýsingum verið látið sem Teppaland hf. uppfyllti skilyrði til að vera hlutafélag og komið þannig í veg fyrir að félaginu yrði slitið samkvæmt ákvæði 2. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995 þar eð hluthafi var þá orðinn aðeins einn. Hefði búinu verið skipt eigi síðar en í byrjun árs 1997 ef ákvæðin hefðu verið virt. Gögn málsins sýni að fyrirsvarsmönnum stefndu hafi verið kunnugt um þessa skyldu, en tilkynning af þessum toga hafi verið send hlutafélagaskrá vegna stefnda TV fjárfestingafélagsins ehf. 5. nóvember 1996. Heldur áfrýjandi fram að allar kröfur á félagið hefðu greiðst á þessu tímamarki, en að minnsta kosti leiði rangar upplýsingar stefndu til þess að þeir beri sönnunarbyrði fyrir hinu gagnstæða. Stefndu hafi brotið reglur félagaréttar með háttsemi sinni og í reynd stjórnað hinu gjaldþrota félagi með eigin hagsmuni að leiðarljósi. Félagið hafi ekki notið sjálfstæðis gagnvart eiganda sínum eða félagasamstæðunni í heild. Leiði það til þess að stefndu geti ekki skýlt sér á bak við reglur laga um hlutafélög og einkahlutafélög um takmarkaða ábyrgð eigenda, enda sé takmörkuð ábyrgð undantekningarregla, sem byggi á því að lagareglur um þessi félög séu virtar. Háttsemi stefndu sjáist til dæmis af því að öllum rekstri hins gjaldþrota félags, þar með talið nafni þess og umboðum, sé haldið áfram undir nýrri kennitölu. Öðrum þræði sé krafan reist á því að stefndu hafi í reynd blandað saman hagsmunum áðurnefndrar hlutafélagasamsteypu stefndu í hag en áfrýjanda til tjóns. Þá hafi eignum hins gjaldþrota félags ekki verið haldið aðgreindum frá eignum stefndu sjálfra og hagsmuna áfrýjanda þannig ekki gætt.
Krafa áfrýjanda er í þremur liðum, sem samanlagðir mynda kröfufjárhæðina. Er í fyrsta lagi krafist bóta fyrir missi álagningar af seldum vörubirgðum og er þá meðal annars lagt til grundvallar að mikill vörulager hafi verið í Teppalandi hf. í ársbyrjun 1997. Hafi stefndu ráðstafað vörubirgðum félagins sér til hags án tillits til annarra kröfuhafa og blandað saman við eignir stefnda Húsasmiðjunnar hf. Í annan stað hafi stefndu fénýtt sér nafn félagsins og viðskiptavild. Loks hafi innréttingar og margs kyns vélar og tæki í eigu hins gjaldþrota félags horfið og byggir áfrýjandi á því að stefndu hafi hirt þessi verðmæti. Í V. kafla verður fjallað nánar um einstaka kröfuliði áfrýjanda.
III.
Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Er krafan á því reist að málatilbúnaður áfrýjanda sé óljós og vanreifaður, bæði að því er tekur til málsástæðna og kröfugerðar. Komi ekki skýrt fram hvaða málsástæðum krafan sé studd gagnvart hvorum stefndu um sig, en annar þeirra hafi verið eigandi hins gjaldþrota félags, en hinn verið í viðskiptum við það. Í kröfu áfrýjanda felist meðal annars að skilað sé andvirði úttekta af lager, en hvernig sem á málið sé litið hafi stefndi TV fjárfestingafélagið ehf. engar vörur keypt af hinu gjaldþrota félagi. Verði að greina skýrt á milli hvaða málsástæður eigi við um hvorn stefndu um sig. Stefnufjárhæð sé jafn vanreifuð og málsástæður. Stefndu styðja frávísunarkröfu sína jafnframt við það að skilyrði samlagsaðildar séu ekki uppfyllt í málinu.
Til vara krefjast stefndu þess að sýknudómur héraðsdóms verði staðfestur. Þeir mótmæla að stefndi Húsasmiðjan hf. hafi notið stöðu sem móðurfélag TL rúllna ehf. Fyrrnefnda félagið hafi ekki átt hlut í því síðarnefnda, heldur hafi þau bæði verið í eigu sömu aðila og telja þeir félögin hafa verið svokölluð systurfélög. Lagaákvæði um samstæður hlutafélaga eigi ekki við og ekki sé heldur fyrir hendi sú aðstaða, sem getur í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 2/1995. Gildi hér ákvæði um ábyrgð stjórnarmanna og riftunarreglur laga nr. 21/1991. Stefndi TV fjárfestingafélagið ehf. hafi átt Teppaland hf., síðar TL rúllur ehf., og takmarkist ábyrgð stefnda við hlutaféð, sem lagt var fram. Hluthafi beri ekki ábyrgð á stjórnarmönnum, sem starfi í umboði hans, en það geri þeir sjálfir. Hann geti aðeins borið ábyrgð á tjóni, sem hann valdi félagi á grundvelli 2. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995, sem eigi ekki við hér. Ekkert slíkt geti heldur átt við um Húsasmiðjuna hf., sem var ekki hluthafi. Hinu sama gegni um málsástæðu áfrýjanda, sem lúti að því að bú Teppalands hf., síðar TL rúllna ehf. var ekki gefið upp til gjaldþrotaskipta fyrr en raun varð á. Ábyrgð á því hafi hvílt á stjórn þess félags, en hér hafi einnig verið réttmætar ástæður fyrir því að beiðni um gjaldþrotaskipti dróst á langinn. Krafa áfrýjanda um skaðabætur geti ekki náð fram að ganga, enda sé ekkert fram komið um skaðabótaskylda háttsemi stefndu eða að skilyrði bótareglna, sem áfrýjandi beri fyrir sig, séu uppfyllt. Tjón áfrýjanda sé heldur ekki sannað.
Að því er varðar einstaka liði í bótakröfu áfrýjanda telja stefndu að viðskipti Húsasmiðjunnar hf. með vörulagar TL rúllna ehf. hafi verið eðlileg í ljósi aðstæðna. Hinu sama gegni um viðskipti TV fjárfestingafélagsins ehf. með vörumerkið „Teppaland“ og önnur vörumerki. Að því er varðar vörulagerinn sérstaklega hafi hann verið mun lakari en búist hafði verið við. Þótt birgðirnar hafi verið metnar á kostnaðarverði í ársreikningi felist ekki í því nein vottun um raunverlegt verðmæti þeirra eða hversu söluhæfar þær voru. Ef rekstur fyrirtækis stöðvist verði slíkar eignir, sem hér um ræðir, að auki fljótt lítils eða einskis virði. Á útsölu í apríl 1997 hafi vörur verið seldar langt undir kostnaðarverði og þegar versluninni var lokað hafi miklu af lagernum verið fleygt, jafnvel heilu gámunum. Tilraunir áfrýjanda til að gera viðskipti við Húsasmiðjuna hf. á þessum tíma tortryggileg, séu ástæðulausar. Vörur, sem keyptar voru með eignarréttarfyrirvara, hafi verið afhentar erlendum seljendum þeirra. Þá hafi lausafé verið verulega ofmetið bæði í ársreikningi og á lista, sem fylgdi tryggingabréfi 25. september 1996. Loks gagnrýna stefndu framgöngu skiptastjóra áfrýjanda í samskiptum við sig. Hafi hann ekki fyrr en í október 1998 skoðað vörulagar frá TL rúllum ehf., sem var í vörslum Húsasmiðjunnar hf., og ekki sinnt áskorunum þessa stefnda um að taka lagerinn til sín. Þá hafi skiptin tekið óheyrilega langan tíma. Í V. kafla hér á eftir verður fjallað nánar um málsástæður stefndu varðandi einstaka kröfuliði áfrýjanda.
IV.
Fyrir héraðsdómi kröfðust stefndu þess að málinu yrði vísað frá dómi með sömu rökum og sú krafa er studd fyrir Hæstarétti. Var ágreiningur um kröfuna tekinn til munnlegs málflutnings í héraði og kveðinn upp úrskurður 8. apríl 2002 þar sem kröfu stefndu var hafnað. Þá niðurstöðu var ekki heimilt að kæra til Hæstaréttar. Eftir áfrýjun efnisdóms í málinu áttu stefndu þess hins vegar kost að leita eftir endurskoðun fyrir Hæstarétti á úrskurði héraðsdóms um frávísunarkröfuna með áfrýjun af sinni hálfu. Það hafa þeir ekki gert og kemur frávísun ekki sérstaklega til álita að öðru leyti en því sem krafa áfrýjanda eða einstakir liðir hennar kunna að varða frávísun af sjálfsdáðum.
Áfrýjandi leitar í málinu eftir skaðabótum óskipt úr hendi stefndu vegna þess að eignir TL rúllna ehf. voru ekki lengur fyrir hendi þegar bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Var í II. og III. kafla að framan rakið að á þeim tíma, sem hér skiptir máli, var það félag og Húsasmiðjan hf. í eigu hins þriðja, stefnda TV fjárfestingafélagsins ehf. Það félag var samkvæmt því móðurfélag beggja hinna, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 138/1994. Þá voru náin stjórnunartengsl milli allra félaganna. Skipuðu sömu menn stjórnir beggja stefndu fram yfir mitt ár 1997 og einn þeirra átti jafnframt sæti í þriggja manna stjórn Teppalands hf. til loka júlí 1997 og var framkvæmdastjóri félagsins. Kvaðst hann ekki hafa þegið laun fyrir það starf hjá Teppalandi hf. þar eð þar hafi „enginn afgangur“ verið. Stjórnarformaðurinn, sem var nafngreindur lögmaður, sat áfram í stjórn sem eini stjórnarmaðurinn eftir að félagið var gert að einkahlutafélagi, en framkvæmdastjórinn var varamaður hans. Í skýrslu stjórnarformannsins hjá skiptastjóra áfrýjanda 13. nóvember 1998 gerði hann þá grein fyrir stöðu sinni hjá hinu gjaldþrota félagi að hann starfaði mikið sem lögmaður fyrir stefnda Húsasmiðjuna hf. og fyrirtæki tengd henni. Hafi hann tekið að sér stjórnarsetu í Teppalandi hf. og síðar TL rúllum ehf. sem hluta af því starfi. Ekki hafi verið greitt sérstaklega fyrir það, en reikningar fyrir störf hans fyrir Húsasmiðjuna hf. og tengd fyrirtæki hafi á þessum tíma einungis verið gefnir út til Húsasmiðjunnar hf.
Af gögnum málsins er hafið yfir vafa að eignir Teppalands hf. rýrnuðu mjög og einkum á fyrri hluta árs 1997. Ekki er þó krafist skaðabóta úr hendi stjórnarmanna Teppalands hf., síðar TL rúllna ehf., og reynir ekki á persónulega ábyrgð þeirra í málinu. Ábyrgð, sem þeir kunna að bera, útilokar ekki að stefndu, annar eða báðir séu jafnframt skaðabótaskyldir, en eignum TL rúllna ehf. var sannanlega ráðstafað til hagsbóta fyrir stefndu og þá fyrst og fremst Húsasmiðjuna hf., svo sem nánar greinir í V. kafla.
Áfrýjandi reisir kröfu sína meðal annars á því að stefndu hafi borið að gefa bú Teppalands hf. upp til gjaldþrotaskipta þegar í ársbyrjun 1997. Hefðu allar kröfur fengist greiddar ef þessi skylda hefði verið virt. Ekki eru alveg næg efni til að fallast á þetta. Skylda til að hlutast til um gjaldþrotaskipti hvíldi fyrst og fremst á stjórnarmönnum Teppalands hf., sem drógu úr hömlu að gera það. Er ekki í ljós leidd slík bein þátttaka af hálfu stefndu, sem nægt getur til að fella á þá skaðabótaskyldu vegna tjóns kröfuhafa, sem leiddi af aðgerðarleysi stjórnarinnar um þetta. Hið sama á við um þá málsástæðu áfrýjanda að stefndu hafi verið skylt að tilkynna að Teppaland hf. væri ekki hlutafélag heldur einkahlutafélag.
Svo sem áður var getið var stefndi TV fjárfestingafélagið ehf. móðurfélag hins gjaldþrota félags. Verður lagt til grundvallar að stjórn síðarnefnda félagsins hafi ekki verið unnt að ráðstafa eignum þess í svo ríkum mæli sem gert var án þess að það væri jafnframt gert með vilja og fullri vitneskju stjórnar móðurfélagsins. Af skýrslum tveggja stjórnarmanna stefnda TV fjárfestingafélagsins ehf. hjá skiptastjóra og fyrir dómi verður heldur ekkert annað ráðið en að sú hafi verið raunin. Breytir þá engu að ráðstöfun eignanna var ekki gerð móðurfélaginu sjálfu til hagsbóta heldur öðru dótturfélagi þess, stefnda Húsasmiðjunni hf. Voru engin skilyrði til þess að eigandi Teppalands hf. gæti tekið verðmætin út úr félaginu á grundvelli VII. eða XII. kafla laga nr. 2/1995 eða sambærilegra ákvæða í lögum nr. 138/1994 og engin formleg ákvörðun var heldur tekin í þá veru. Er niðurstaðan af því, sem að framan greinir sú, að þessi stefndi er skaðabótaskyldur gagnvart áfrýjanda samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994. Almennar skaðabótareglur leiða til sömu niðurstöðu.
Meðal gagna málsins eru nokkur bréf stefnda Húsasmiðjunnar hf. á tímabilinu júní til september 1996 varðandi kaup á Teppalandi hf. Er ljóst að fyrrnefnda félagið stjórnaði samningaviðræðum um kaup á því síðarnefnda og kom fram sem væntanlegur kaupandi í þeim samningum. Eru öll bréfin undirrituð af stjórnarformanni Húsasmiðjunnar hf., sem einnig sat í stjórn stefnda TV fjárfestingafélagsins ehf. Verður ráðið að ákvörðun um að gera kaupin í nafni síðastnefnda félagsins hafi verið tekin skömmu fyrir kaupin 22. september 1996. Í skýrslu stjórnarformanns Húsasmiðjunnar hf. fyrir dómi kom fram að honum hafi sérstaklega verið kynnt bág staða Teppalands hf. seint um haustið 1996 og bæði þá og 1997 átti stefndi Húsasmiðjan hf. mikil viðskipti við Teppaland hf. Af því, sem áður var rakið um stjórn síðastnefnda félagsins er ljóst, að stjórnarformaður þess naut að minnsta kosti takmarkaðs sjálfstæðis gagnvart stefnda Húsasmiðjunni hf. um töku ákvarðana með jafnræði kröfuhafa að leiðarljósi þegar sýnt mátti vera að stefndi í óefni. Annar stjórnarmaður og um leið framkvæmdastjóri Teppalands hf. átti jafnframt sæti í stjórnum beggja stefndu. Voru allir þræðir þannig í sömu hendi til að taka samræmda ákvörðun fyrir öll félögin í senn. Er ekki varhugavert að leggja til grundvallar niðurstöðu að báðir stefndu hafi haft raunveruleg yfirráð yfir Teppalandi hf. og að ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 2/1995 taki til stefnda Húsasmiðjunnar hf. sem móðurfélags Teppalands hf. Er ljóst af athugasemdum, sem fylgdu þessari grein í frumvarpi til laganna, að skýra verður orðið „samninga“ rúmt þegar metið er hvort sú aðstaða er fyrir hendi, sem þar er lýst. Stuðluðu stefndu að því í sameiningu að eignir dótturfélags þeirra gengju að verulegu leyti til Húsasmiðjunnar hf. og báru um leið fyrir borð hagsmuni annarra kröfuhafa. Ber stefndi Húsasmiðjan hf. skaðabótaábyrgð samkvæmt almennum skaðabótareglum á tjóni, sem áfrýjandi varð fyrir af þessum sökum.
V.
Fyrsti kröfuliður áfrýjanda ber fyrirsögnina „Missir álagningar á seldum vörubirgðum“ og er að fjárhæð 32.594.339 krónur. Er hann ákveðinn þannig að verðmæti bókfærðra vörubirgða í ársbyrjun 1997 hafi verið 54.075.049 krónur, vörukaup á því ári hafi numið 34.670.917 krónum og vörunotkun því samtals numið 88.745.966 krónum. Sölutekjur fram að úrskurðardegi um gjaldþrot hafi numið alls 82.775.417 krónum. Meðalálagning hafi því verið neikvæð um 6,70%, en heldur minna neikvæð að því gefnu að verðmæti vörulagers á úrskurðardegi hafi verið 3.000.000 krónur. Ásættanleg álagning á vörum Teppalands hf. hafi hins vegar ekki átt að vera lægri en 30%, en slík meðalálagning hefði skilað fyrirtækinu 32.594.339 krónum til viðbótar. Í ljósi þess að meðalálagning stefnda Húsasmiðjunnar hf. í sinni vörusölu hafi á árinu 1997 verið 52,1% sé viðmiðun við 30% álagningu augljóslega ekki úr hófi. Byggir áfrýjandi á því að stefndi Húsasmiðjan hf. hafi haft öll tök á og nýtt sér að unnt var að selja vörur Teppalands hf. í eigin verslun þessa stefnda með mun hærri álagningu en selt var frá Teppalandi hf. Hann hafi einnig getað selt úr verslun nýs fyrirtækis, Gólfefna ehf., sem stefndu hafi komið á fót eftir lokun Teppalands hf. um viðskipti með sams konar vörur.
Í ítarlegri skýrslu, sem Kristinn Gestsson endurskoðandi gerði 30. apríl 2001 fyrir skiptastjóra áfrýjanda, kemur fram að álagning í vörusölu Teppalands hf. til stefnda Húsasmiðjunnar hf. á síðari hluta árs 1996 var 30,94%. Á árinu 1997 var álagning í viðskiptum þeirra hins vegar aðeins 7,95%, en þau fóru fyrst og fremst fram á tímabilinu janúar til mars. Á síðastnefndu tímabili var verslun Teppalands hf. enn opin og er haldlaus sú viðbára stefndu, að því er þetta tímabil varðar, að verðmæti vörulagers hrynji við það að verslun sé lokað. Er engin skýring fram komin á þessari lágu álagningu. Lýsti stjórnarformaður Teppalands hf. því yfir við skýrslutöku hjá skiptastjóra að hann vissi ekki hvað lá til grundvallar álagningunni og jafnframt að stefndi Húsasmiðjan hf. hafi ekki keypt neitt á þessum tíma nema vera áður búinn að selja það. Hann hafi ekki keypt hluti úr vörulagernum til að sitja uppi með. Óskaði skiptastjóri áfrýjanda þess jafnframt af stjórnarformanni Húsasmiðjunnar hf. að sölunótur um viðskipti félaganna yrðu afhentar hinum fyrrnefnda, en þessum tilmælum var hafnað. Verður lagt til grundvallar að stefndu hafi með óeðlilegri verðlagningu vörunnar komið fjármunum úr höndum Teppalands hf. þegar gjaldþrot félagins blasti við og séu skaðabótaskyldir fyrir það tjón. Verður þeim gert að bæta áfrýjanda muninn á 7,95% og 30% álagningu í viðskiptum Teppalands hf. við Húsasmiðjuna hf. á umræddu tímabili miðað við kostnaðarverð seldra vara á árinu 1997, sem samkvæmt skýrslu Kristins Gestssonar var 20.839.111 krónur. Eru skaðabætur, sem þannig eru ákveðnar, 4.595.024 krónur.
Um vörubirgðir hins gjaldþrota félags er að öðru leyti veruleg óvissa. Stefndu telja mikið hafa verið selt á útsölu í apríl 1997 undir kostnaðarverði, vörum sem keyptar voru með eignaréttarfyrirvara hafi verið skilað og miklu fleygt að útsölunni afstaðinni. Áfrýjandi vefengir hið síðastnefnda og telur stefndu hafa um það sönnunarbyrði. Það sem þá var enn eftir kveða stefndu hafa verið flutt í húsnæði Húsasmiðjunnar hf. Hvert var verðmæti þess hluta lagersins liggur í raun ekki annað fyrir en álit stjórnarformanns TL rúllna ehf. í bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 1998 að það væri „ca. kr. 3.000.000.“ Við skýrslugjöf hjá skiptastjóra áfrýjanda kvaðst hann hafa „slumpað“ á verðmæti vörubirgðanna í þessu bréfi, en ekki gert nákvæma rannsókn á því. Verður niðurstaðan sú að stefndu verður gert að bæta áfrýjanda verðmæti þessa hluta vörulagersins með 3.000.000 krónum, en eins og sönnunaraðstaðan er í málinu verður bótakrafa áfrýjanda í þessum lið ekki tekin til greina að öðru leyti. Áskorun lögmanns stefndu til skiptastjóra í bréfi 25. september 2000 um að taka „nú þegar við þeim lager þrotabús TL rúllna ehf., sem enn er í vörslu Húsasmiðjunnar hf.“ skiptir engu máli, en fram er komið að vörulagernum var ekki haldið aðskildum frá öðrum vörum þessa stefnda auk þess sem selt var úr honum lengi eftir að stefndi tók hann til sín. Verður krafa áfrýjanda í fyrsta lið bótakröfunnar samkvæmt öllu framanröktu tekin til greina með samtals 7.595.024 krónum.
Annar liður bótakröfu áfrýjanda er fyrir „nafn og viðskiptavild“, samtals að fjárhæð 24.489.890 krónur. Er hann nánar skýrður svo að í honum felist umboðslaun vegna tiltekinnar erlendrar vöru og þá tekið mið af samkomulagi, sem stefndu gerðu við nýtt félag, Gólfefni ehf., 17. apríl 1997 „sem mun reka verslun með nafninu Teppaland“ eins og segir í samningnum. Samkvæmt honum skyldi nýja félagið taka að sér heildsöludreifingu á erlendu vörunni og greiða Húsasmiðjunni hf. umboðslaun. Hið gjaldþrota félag átti áður viðskipti með vörur frá þeim erlendu framleiðendum, sem hér um ræðir, en Húsasmiðjan hf. mun einnig hafa gert það. Er ekki nægilega í ljós leitt að stefndu hafi gerst sekir um skaðabótaskyldan verknað með þessum samningi. Af málatilbúnaði áfrýjanda verður auk þess ráðið að í þessum lið krefjist hann einnig skaðabóta fyrir vörumerkin Teppaland, Dúkaland, Parketland og Flísaland, sem seld voru út úr Teppalandi hf. fyrir rekstrarstöðvum félagsins fyrir 3.500.00 krónur. Við meðferð lýstra krafna lækkaði skiptastjóri áfrýjanda kröfu stefnda TV fjárfestingafélagsins ehf. um 3.500.000 krónur með skuldajöfnuði vegna þessarar sölu og var krafan svo breytt viðurkennd með dómi Hæstaréttar í máli nr. 495/2002, sem getið var um í I. kafla að framan. Kemur þetta atriði því ekki til frekari álita í málinu. Samkvæmt þessu verður hafnað kröfu áfrýjanda samkvæmt öðrum kröfulið hans.
Þriðji og síðasti kröfuliður áfrýjanda er fyrir „innréttingar, áhöld o.fl.“, samtals að fjárhæð 15.230.000 krónur. Nánar tiltekið er þar um að ræða verðmæti innréttinga, sem tengdar voru teppa- og dúkastöndum samkvæmt lista, sem fylgdi tryggingabréfi 25. september 1996 og getið var um í I. kafla að framan, verðmæti hillna og hillukerfis samkvæmt sama lista og loks verðmæti véla og annarra áhalda að frádregnum lyftara, einnig samkvæmt nefndum lista. Er sitthvað fram komið í málinu sem styður þá staðhæfingu áfrýjanda að stefndi Húsasmiðjan hf. hafi tekið þetta lausafé til sín eða að minnsta kosti mestan hluta þess. Þannig var bókað á stjórnarfundi hjá Teppalandi hf. 28. maí 1997 að „lagerinn og allt lausafé hefur verið flutt í Holtagarða ...“ og einnig var bókað 14. júlí sama árs að eitthvað af lausafénu hafi verið flutt þangað. Hinn 29. sama mánaðar var bókað að „búið er að gera skrá yfir allt það lausafé sem Húsasmiðjan hf. hefur undir höndum og veðsett er Timburvinnslunni ehf.“ Þá segir í bréfi lögmanns stefndu 3. maí 2002 að „hillur, rekkar og aðrir standar eru í geymslu hjá Húsasmiðjunni hf.“ og að „tveir rafmagnsstandar voru lánaðir Gólfefnum ehf.“. Þegar framangreint er virt verður lagt til grundvallar niðurstöðu að allt það lausafé, sem krafist er skaðabóta fyrir samkvæmt þessum lið, hafi komist undir umráð stefnda Húsasmiðjunnar hf.
Við skýrslugjöf hjá skiptastjóra og fyrir dómi staðhæfðu forráðamenn stefndu að sumar þeirra véla, sem um ræðir, hafi verið gamlar og jafnvel ónýtar. Hefur því einkum verið haldið fram varðandi tiltekna teppahreinsivél, en flest annað hafi verið lítils virði og óseljanlegt. Áfrýjandi mótmælir þessu. Varðandi þetta verður litið til þess að við verðmat samkvæmt áðurnefndum lista, er fylgdi tryggingabréfi, var farið eftir bókfærðu verði hlutanna, en ekki liggur annað fyrir en að þá hafi verið búið að taka tillit til fyrninga. Stefndu hafa ekki fært fram haldbær rök fyrir því að verðmæti lausafjárins, sem stefndi Húsasmiðjan hf. tók til sín, hafi verið eitthvað annað en gert var ráð fyrir í bókhaldi Teppalands hf. Verður krafa samkvæmt þriðja kröfulið áfrýjanda samkvæmt því tekin til greina eins og hún er sett fram með 15.230.000 krónum.
Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða málsins sú að stefndu verður gert að greiða áfrýjanda óskipt 22.825.024 krónur með dráttarvöxtum eins og krafist er, en upphafstíma dráttarvaxta hefur ekki verið mótmælt sérstaklega. Stefndu verða jafnframt dæmdir til að greiða áfrýjanda óskipt málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndu, TV fjárfestingafélagið ehf. og Húsasmiðjan hf., greiði óskipt áfrýjanda, þrotabúi TL rúllna ehf., 22.825.024 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. apríl 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði áfrýjanda óskipt samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. janúar sl., er höfðað 11. júní 2001 af þrotabúi TL-rúllna ehf., Sundagörðum 2, á hendur Húsasmiðjunni hf., Súðarvogi 3-5, og TV fjárfestingafélaginu ehf., Ásholti 2, öllum í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða stefnanda, in solidum, 72.315.429 krónur að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. apríl 1998 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum í samræmi við málskostnaðaryfirlit.
Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Krafist er málskostnaður að mati réttarins úr hendi stefnanda og að málskostnaðurinn beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 að 15 dögum liðnum frá dómsuppkvaðningu.
Stefndu kröfðust frávísunar en kröfunni var hafnað með úrskurði sem kveðinn var upp 8. apríl 2002.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Hinn 22. september 1996 keypti stefnda TV fjárfestingafélagið ehf., sem þá hét Timburvinnslan ehf., alla hluti í Teppalandi hf. Hinn 26. september sama ár lagði Timburvinnslan ehf. fram 10.000.000 krónur og var þeim ráðstafað með þeim hætti að greiddar voru tilteknar áfallnar skuldir Teppalands hf., samtals að fjárhæð 9.243.356,43 krónur, en 756.643,57 krónur voru lagðar á bankareikning Teppalands hf. Einnig lagði stefndi fram 5.000.000 krónur til stefnanda 30. september sama ár og aftur 5.000.000 krónur 3. október sama ár sem greiddar voru á bankareikninga Teppalands hf. Vegna þessa gáfu fyrirsvarsmenn Teppalands hf. út skuldaviðurkenningu, dagsetta 5. október 1996, og veðtryggingarbréf, dagsett 25. september sama ár, til tryggingar allt að 40.000.000 króna skuld og voru vörubirgðir Teppalands hf. og lausafé samkvæmt lista, sem fylgdi bréfinu, veðsett með fyrsta veðrétti. Einnig voru tekin lán af hálfu Teppalands hf. hjá Íslandsbanka hf. með sjálfskuldarábyrgð stefnda TV fjárfestingafélagsins ehf., samtals að fjárhæð 35.000.000 krónur. Samkvæmt ársreikningi Teppalands hf. fyrir árið 1996 voru eignir félagsins í árslok 1996 samtals 119.494.988 krónur og skuldir 135.210.513 krónur. Bókfært eigið fé var því neikvætt um 15.715.525 krónur. Í gögnum málsins kemur ekki fram hver bókfærð staða félagsins var þegar stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., keypti öll hlutabréfin.
Í fundargerð stjórnarfundar Teppalands hf. frá 27. janúar 1997 er bókað að staða félagsins væri mun verri en ætla mætti miðað við upplýsingar sem legið hefðu fyrir við kaupin. Um 20.000.000 króna tap hefði orðið á rekstrinum árið áður. Staða félagsins væri mjög slæm og stjórninni í raun skylt að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Á stjórnarfundi 13. mars sama ár kom fram að félagið tapaði 1.500.000 krónum í hverjum mánuði og að rekstrarstöðvun blasti við. Á fundi 24. mars 1997 var ákveðið að segja upp öllum starfsmönnum og loka fyrirtækinu en það gæti ekki greitt húsaleigu. Í sama mánuði keypti stefnda, Húsasmiðjan hf., vörur hjá Teppalandi hf. sem voru merktar "Lager 70". Í gögnum málsins kemur fram að álagning var tæplega 8%. Deilt er um lögmæti þessara viðskipta.
Í fundargerð frá stjórnarfundi 11. apríl 1997 er greint frá því að húsnæðið að Mörkinni 4 yrði rýmt í byrjun maí það ár og ákveðið var að halda útsölu til þess að minnka lager félagsins og stóð hún út apríl. Það sem ekki seldist skyldi flutt í geymslu í húsnæði stefndu, Húsasmiðjunnar hf., í Holtagörðum. Samkomulag var við leigusala um að rifta leigusamningnum sem var til þriggja ára. Fram kemur í fundargerðinni að öllum starfsmönnum hafi verið afhent uppsagnarbréf hinn 25. mars og einnig kom fram að eftir væri að senda inn tilkynningu til hlutafélagaskrár vegna breytinga á nafni Teppalands hf. í TL-rúllur ehf. Versluninni var lokað í maí og húsnæðið að Mörkinni 4 rýmt en innréttingar, sem Teppaland hf. hafði keypt, tilheyrðu leigusala samkvæmt leigusamningnum.
Ástæður fyrir rekstrarerfiðleikum Teppalands hf. voru að sögn fyrirsvarsmanna félagsins meðal annars lausafjárskortur í tengslum við fjárfestingar vegna flutnings félagsins að Mörkinni 4 og reksturinn hafi verið óskynsamlegur. Því er haldið fram að viðskipti hefðu dregist saman þar sem ekki hafi tekist að kaupa inn á lagerinn, en vörur sem félagið seldi hafi úrelst mjög fljótt. Á lager hafi verið mikið af óseljanlegri vöru og félagið hafi staðið frammi fyrir vöruþurrð.
Ástæða málshöfðunarinnar er sú að stefnandi telur stefndu bera ábyrgð á því að öll verðmæti Teppalands hf. hafi verið horfin þegar búið var afhent til gjaldþrotaskipta. Hin horfnu verðmæti hafi lent í höndum stefndu vegna aðgerða þeirra eða annarra sem stefndu beri ábyrgð á. Þar er átt við vörubirgðir, innréttingar, nafn félagsins og viðskiptavild. Stefnandi krefst þess að stefndu bæti tjón hans vegna þessa. Stefndu mótmæla bótaskyldu og forsendum stefnanda fyrir henni.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Málsatvikum er lýst þannig af stefnanda hálfu að TL-rúllur ehf. hafi áður heitið Teppaland hf. Félagið hafi verið í eigu stefnda, TV fjárfestingafélagsins ehf., áður Timburvinnslunnar ehf., en það félag sé systurfélag stefndu, Húsasmiðjunnar hf.
Teppaland hf. hafi um árabil rekið verslun með alls kyns gólfefni. Á árinu 1996 hafi þáverandi eigendur félagsins átt í viðræðum við stefndu, Húsasmiðjuna hf., og síðar einnig Timburvinnsluna hf., um kaup á öllum hlutum í félaginu. Viðræðurnar hafi endað með kaupum síðarnefnda félagsins á öllum hlutum í Teppalandi hf. í september 1996 og hafi kaupverðið verið 1 króna.
Nýr eigandi hafi hinn 26. september 1996 lagt fram 10.000.000 krónur með því að greiða valdar áfallnar skuldir félagsins að fjárhæð 9.243.356,43 krónur, þar af 3.960.060,07 krónur til Tarkett Pegulan. Í kjölfarið hafi verið gerðir samningar við birgja um yfirtöku stefndu, Húsasmiðjunnar hf., á umboðum við Tarkett AB og Tarkett Export GmbH. Greiddar hafi verið 5.000.000 krónur til Teppalands hf. 30. september 1996 og 5.000.000 krónur 30. október (sic) 1996. Alls hafi því verið lagðar fram 20.000.000 krónur í nafni stefnda, TV fjárfestingarfélagsins ehf., en markmiðið hafi verið að bæta rekstur Teppalands hf. og efla traust viðskiptamanna. Til tryggingar endurgreiðslu þessa framlags hafi verið útbúið veðtryggingarbréf hinn 25. september 1996, þar sem stefnda, TV fjárfestingafélaginu ehf., hafi verið veittur 1. veðréttur í lager Teppalands hf. og lausafé samkvæmt meðfylgjandi lista að fjárhæð allt að 40.000.000 krónur. Mat aðila á tilgreindu lausafé, áritað af endurskoðanda, hafi numið 21.200.000 krónum. Auk þessarar fjármögnunar hafi stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hlutast til þess að tekin hafi verið lán hjá Íslandsbanka hf. á nafni Teppalands hf. en með sjálfskuldarábyrgð stefnda, TV fjárfestingafélagsins ehf. Lánin hafi verið tekin 8. nóvember 1996 og 12. febrúar 1997 að fjárhæð samtals 35.000.000 krónur. Þau hafi að hluta verið notuð til að skuldbreyta yfirdrætti á bankareikningi Teppalands hf. en að hluta með útgreiðslu fjár.
Í árslok 1996 hafi eignir Teppalands hf. verið samkvæmt ársreikningi 119.494.988 krónur, þar af fastafjármunir 41.499.654 krónur og vörubirgðir 54.075.049 krónur. Skuldir hafi verið 135.210.513 krónur og hafi eigið fé þannig verið neikvætt um 15.715.525 krónur. Endurskoðandi hafi gert athugasemdir við ársreikning 1996 þess efnis að fastafjármunir væru færðir á of háu verði, svo sem eignfærsla ýmissa áhalda, tækja og jafnvel greiddra launa starfsmanna. Þá hafi endurskoðandi vakið athygli á að tap hefði verið á fyrirtækinu 1996 og vafi léki á um rekstrarhæfi þess. Engin athugasemd hafi verið gerð um eignfærslu vörubirgða. Ársreikningurinn hafi verið áritaður af Smára Hilmarssyni og Sigurbjörgu Snorradóttur stjórnarmönnum.
Á stjórnarfundi í Teppalandi hf. 27. janúar 1997 hafi komið fram að staða félagsins væri mjög slæm, þrátt fyrir að 50.000.000 króna hefðu verið lagðar inn hjá því. Væri því ekki um annað að ræða en að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Ákvörðun um það hafi þó ekki verið tekin heldur hafi þess verið freistað að ná samkomulagi um hagstæðari kjör lánardrottna. Hinn 13. mars 1997 hafi verið haldinn stjórnarfundur í félaginu. Þar hafi komið fram að félagið tapaði 1.500.000 krónum á hverjum mánuði og ekkert annað blasti við en rekstrarstöðvun. Stjórninni hafi ekki litist á að reyna nauðasamningaleið og því talið að gefa þyrfti félagið upp til gjaldþrotaskipta þar sem félagið væri „í raun insolvent“. Tryggja þyrfti þó greiðslu virðisaukaskatts og launatengdra gjalda vegna ábyrgðar stjórnarmanna.
Hinn 24. mars 1997 hafi verið ákveðið að segja upp öllum starfsmönnum og loka fyrirtækinu en félagið stæði ekki undir leigugreiðslum. Sama dag hafi stefnda, Húsasmiðjan hf., keypt eða leyst til sín vörur að fjárhæð 9.656.789 krónur og þremur dögum fyrr hefði sama félag keypt eða leyst til sín vörur að fjárhæð 6.236.134 krónur. Í mars 1997 hafi heildarviðskipti stefndu, Húsasmiðjunnar hf., við Teppaland hf. numið 23.389.036 krónum með virðisaukaskatti og hafi viðskiptin verið næstum án álagningar. Viðskipti næsta mánuð hafi numið 2.036.321 krónu og hafi þau að nær öllu leyti verið gerð upp með afturvirkum afslætti til stefndu, Húsasmiðjunnar hf., að fjárhæð 758.544 krónur og kreditfærslu vegna „vöntunar á síðustu pöntun“ að fjárhæð 1.156.969 krónur. Vörur sem hafi með þessu orðið eign stefndu, Húsasmiðjunnar hf., hafi ekki verið teknar úr húsnæði Teppalands hf. fyrr en síðar. Þær hafi verið auðkenndar sem „Lager 70“.
Hinn 11. apríl 1997 hafi enn verið haldinn fundur hjá stjórn Teppalands hf. Þar hafi verið ákveðið að breyta nafninu í TL-rúllur. Haldin yrði útsala til að freista þess að losa lagerinn en afgangur yrði færður til geymslu í húsnæði stefndu, Húsasmiðjunnar hf., í Holtagörðum ásamt lausafé fyrirtækisins.
Hinn 17. apríl 1997 hafi stefndu ásamt Skafta Harðarsyni, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags, gert samkomulag um að stofnað yrði nýtt félag með þátttöku stefndu, Húsasmiðjunnar hf. Skyldi hún leggja fram nafnið „Teppaland“ sem 3.500.000 króna hlutafjárframlag. Einnig skyldi stefnda, Húsasmiðjan hf., fá 4% þóknun af fob verði Tarkett eða Uzin vöru. Hið nýja félag skyldi selja það sem eftir stæði af lager Teppalands hf. Samið hafi verið um að TL-rúllur fengju einungis 4,5% álagningu en stefnda, Húsasmiðjan hf., fengi umboðslaun til viðbótar vegna lagers stefnanda frá 3,5% og allt að 20,5% eftir vöruflokkum. Hið nýstofnaða félag nyti sjálft smásöluálagningar.
Félagið sem stofnað hafi verið á grundvelli samkomulagsins heiti Gólfefni ehf. Í tilkynningu um stofnun þess komi ekki fram að stefnda, Húsasmiðjan hf., ætti aðild að því og ekki hafi verið getið um samning þennan á stjórnarfundi í TL-rúllum hinn 28. apríl 1997 eða síðar. Samningurinn hafi ekki einu sinni verið kynntur stjórnarmanni félagsins. Frá því að samkomulagið var gert og þangað til Gólfefni ehf. var formlega stofnað í júní 1997, hafi annað félag í eigu Skafta Harðarsonar, Hjaltabakki ehf., annast viðskipti samkvæmt samkomulaginu.
Á stjórnarfundi 28. apríl 1997 hafi verið bókað að útsalan gengi sæmilega en framlegð væri ekki mikil. Ákveðið hafi verið að lager félagsins yrði fluttur í Holtagarða þegar versluninni yrði lokað. Stjórnin hafi síðan haldið fundi 15. og 28. maí og 18. júní 1997. Þar hafi verið ákveðið að „drífa af“ að tilkynna nýjan rétthafa nafnsins „Teppalands“ og fleiri nafna sem félagið hefði notað. Það hafi verið gert 2. júlí 1997 með tilkynningu til vörumerkjaskrár, dagsettri 16. janúar 1997. Tilkynning til hlutafélagaskrár um breytingu á nafni stefnanda hafi borist 14. júlí 1997. Í greinargerð Kristins Gestssonar endurskoðanda komi fram að af fylgiskjalanúmerum megi ráða að kaupsamningurinn, þ.e. sala Teppalands hf. á nafninu til Timburvinnslunnar ehf., hafi verið dagsettur aftur í tímann.
Á stjórnarfundi 14. júlí 1997 hafi stjórnin talið rétt að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta. Stjórnin hafi talið ljóst að stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., væri með veð í lager og lausafé og því ekki rétt að selja meira til að ganga ekki á rétt veðhafa. Á fundi 29. júlí 1997 hafi enn komið fram það mat stjórnarinnar að fyrirtækið færi í gjaldþrot. Hafi verið ákveðið að breyta félaginu í einkahlutafélag og fækka stjórnarmönnum úr þremur í einn. Smári Hilmarsson hafi verið kosinn stjórnarmaður félagsins og Sigurbjörg Snorradóttir til vara. Bakslag hafi komið í umræður um gjaldþrot meðan kannaður hafi verið möguleiki á að stefndu nýttu sér rekstrartap stefnanda síðustu ár í skattalegu skyni. Ekki hafi orðið úr því og að mati stjórnar hafi verið fullljóst 4. febrúar 1998 að félagið færi í þrot. Fram hafi komið á þeim fundi að enn væri verið að selja úr lager og þess gætt að greitt væri inn á skuldir sem stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., væri í ábyrgðum fyrir.
Með bréfi, dagsettu 18. mars 1998, hafi stjórnarmaður TL-rúllna ehf. óskað eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Með gjaldþrotaskiptabeiðni hafi fylgt ársreikningur fyrir árið 1997. Í áritun endurskoðanda komi fram að bókhald hefði ekki sætt neinni skoðun að telja. Endurskoðandinn hafi talið ljóst að birgðir í árslok 1997 væru óverulegar. Af hálfu félagsins hafi því verið lýst yfir, þegar eftir því hafi verið gengið af hálfu dómsins, að verðmæti lagers næmi um 3.000.000 króna. Úrskurður um gjaldþrotaskipti hafi verið kveðinn upp 8. apríl 1998 og skiptastjóri skipaður.
Skömmu eftir að skiptastjóri tók til starfa hafi hann boðað Smára Hilmarsson, stjórnarmann hins gjaldþrota félags, til skýrslutöku. Í skýrslutöku 22. apríl 1998 hafi meðal annars komið fram að allar eigur félagsins hefðu verið fluttar í húsnæði stefndu, Húsasmiðjunnar hf., en hluti þeirra kynni að vera skemmdur eða ónýtur.
Lýstar kröfur í stefnanda hafi numið 86.999.794,61 krónum, þar af hafi lýst veðkrafa stefnda, TV fjárfestingafélagsins ehf., verið 42.689.930,11 krónur. Á skiptafundi 7. júlí 1998 hafi skiptastjóri fallist á kröfur að fjárhæð 34.458.635 krónur en öðrum hafi verið hafnað að svo stöddu, þar á meðal nefndri veðkröfu. Samþykktar kröfur hafi numið alls 29.756.258 krónum miðað við úrskurðardag.
Strax hafi verið boðið að stefnda, Húsasmiðjan hf., gerði skiptastjóra tilboð í verðmæti lagersins en það hafi þó aldrei orðið. Í ljós hafi komið að lager félagsins væri ósérgreindur á lager stefndu, Húsasmiðjunnar hf., og innan um eignir hennar. Skiptastjóra hafi verið meinað að taka það sem hann hafi talið verðmætt í lager merktum stefnanda á þeim grundvelli að stefnda, Húsasmiðjan hf., væri eigandi þeirra vara. Þá hafi lausafé úr fyrri starfsstöð stefnanda ekki verið tiltækt.
Vegna misvísandi skilaboða um umfang lagers stefnanda hafi skiptastjóri boðað Smára á ný til skýrslutöku þann 13. nóvember 1998. Þar hafi komið fram að hann hefði „slumpað“ á verðmæti lagers stefnanda, 3.000.000 krónur, fyrir héraðsdómi. Hann gerði sér þó ekki grein fyrir verðmæti lagersins en viðurkenndi að lagerinn væri ekki að öllu leyti aðgreindur frá eignum stefndu, Húsasmiðjunnar hf. Smári hafi talið að „Lager 70“ væri eign stefnanda en lagerstjórinn kynni á þessu skil.
Í kjölfar skýrslutöku hafi skiptastjóri haft samband við lagerstjóra stefndu, Húsasmiðjunnar hf., sem hafi ítrekað að Húsasmiðjan ætti „Lager 70“. Við svo búið hafi skiptastjóri tilkynnt Smára, sem á þessum tíma hafi komið fram fyrir hönd stefndu, að hann teldi að stefnda, Húsasmiðjan hf., hefði slegið eign sinni á lagerinn og yrði hann því ekki sóttur heldur látið við sitja að heimta verðmæti hans í peningum. Þessari afstöðu skiptastjóra hafi þegar verið mótmælt af hálfu stefndu. Í skýrslutöku hjá skiptastjóra 1. mars 2000 hafi komið fram af hálfu endurskoðanda stefndu, Húsasmiðjunnar hf., að „Lager 70“ væri eign hennar.
Skiptastjóri hafi látið fara fram bókhaldsrannsókn hjá stefnanda og einnig hafi hann óskað að stefnda, Húsasmiðjan hf., upplýsti um kaup hennar úr lager stefnanda fyrir gjaldþrotið. Í skýrslutöku af Jóni Snorrasyni, forstjóra stefndu, Húsasmiðjunnar hf., 28. desember 1998, hafi hann gefið fyrirheit um að veita skiptastjóra umbeðnar upplýsingar en í bréfi, dagsettu 28. maí 1999, hafi hann tilkynnt að skiptastjóri fengi þær ekki.
Grunnrannsókn endurskoðanda hafi leitt í ljós að stefnda, Húsasmiðjan hf., hefði leyst til sín verulegan hluta lagersins á sem næst kostnaðarverði. Stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hafi ekki sinnt kröfum um framlagningu gagna til staðfestu á því að framlög hefðu verið innt af hendi. Skiptastjóri hafi talið miklar líkur á að hugsanleg krafa á hendur stefndu, vegna meðferðar þeirra á eigum félagsins fram að gjaldþroti, yrði verulega hærri en lýstar kröfur. Af þessum ástæðum hafi skiptastjóri gefið Smára Hilmarssyni, fyrir hönd stefndu, kost á að leysa búið til sín en stefndu hafi ekki svarað því. Skiptastjóri hafi vísað málinu til ríkislögreglustjóra 13. mars 2000.
Stefnda, Húsasmiðjan hf., og Hjaltabakki ehf. og síðar Gólfefni ehf. hafi keypt mikinn hluta lagers stefnanda. Hið gjaldþrota félag hafi verið látið kaupa vörur af þessum aðilum, jafnvel eftir að versluninni hafi verið lokað. Bakfærslur hafi verið framkvæmdar og afslættir veittir afturvirkt til sömu aðila á þessum tíma. Í því skyni að rannsaka hvað raunverulega hafi búið að baki þessum viðskiptum hafi endurskoðandi óskað eftir því að fá sölureikninga í númeraröð, en af hálfu stjórnarmanns félagsins hafi komið fram að ekki hafi verið haldið utan um slíkt.
Vísað sé til skýrslu Kristins Gestssonar endurskoðanda en þar komi meðal annars fram að varla geti talist trúverðugt hvernig fjármunir hafi skilað sér til þrotabúsins fyrir vörubirgðir, fastafjármuni og ýmiss önnur verðmæti. Skiptastjóri stefnanda telji að aðgerðir stefndu hafi í reynd valdið stefnanda verulegu fjárhagstjóni og leitt til þess að öll verðmæti hins gjaldþrota félags hafi horfið út úr félaginu og lent í höndum stefndu. Málsóknin sé því nauðsynleg svo raunverulegir kröfuhafar búsins sitji ekki eftir með eignalaust bú. Stefndu hafi með tilfæringum sínum „tæmt“ stefnanda, þ.e. hirt öll verðmæti en skilið eftir félag sem hafi verið ókleift að efna skyldur sínar við viðskiptamenn og kröfuhafa.
Stefnandi hafi verið hlutafélag þegar stefndu komu að málinu en verið breytt í einkahlutafélag síðar. Byggt sé á því að bæði lög nr. 2/1995 um hlutafélög og lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög taki til málsins. Þá sé byggt á því að stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi í reynd einnig notið stöðu móðurfélags stefnanda, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 2/1995 og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 138/1994. Helgist það af eignatengslum en báðir stefndu hafi á þessum tíma verið í eigu sömu einstaklinga, þeirra Jóns Snorrasonar, Sturlu Snorrasonar og Sigurbjargar Snorradóttur. Stefndu beri ábyrgð á störfum stjórnarmanna Teppalands hf. og síðar TL-rúllna ehf. Stefnandi láti sitja við að stefna þeim aðilum sem notið hafi hagsmunanna í reynd en að þessir stjórnarmenn hafi í störfum sínum fyrir hönd stefndu átt þátt í að skapa stefnanda tjón.
Tjónið sé í fyrst lagi að rekja til ólögmætra úttekta fjármuna. Stefndu beri að skila til baka peningalegum verðmætum sem tilheyrt hafi í raun hinu gjaldþrota félagi og hafi verið hirt úr því í trássi við ákvæði XII. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög, sbr. 102. gr. laganna. Engin skilyrði hafi verið til að úthluta hluthafa fjármunum félagsins. Í 98. gr. laga nr. 2/1995 sé slíkt óheimilt nema það fari eftir reglum um úthlutun arðs, sem endurgreiðsla vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs eða vegna félagsslita. Stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hafi ekki tekið út arð, þar sem hvorki hafi verið uppfyllt skilyrði til þess, né hafi verið tekin ákvörðun um slíkt. Þá hafi ekki verið skilyrði til endurgreiðslu vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs, hvorki bókhaldsleg né formleg, enda hafi ákvæði VII. kafla laga nr. 2/1995 ekki verið uppfyllt um lækkun eða ákvæði 100. gr. sömu laga um varasjóð. Sambærileg ákvæði um einkahlutafélög sé að finna í XII. kafla laga nr. 138/1994, og endurheimturéttur félags í 77. gr. þeirra laga.
Gagnvart stefnda, Húsasmiðjunni hf., sem formlega hafi ekki verið hluthafi í TL-rúllum ehf., sé byggt á því að félagið hafi notið greiðslna úr stefnanda í formi dulinnar arðsúthlutunar. Viðskipti með nafn félagsins og vörubirgðir hafi verið til þess fallin og hafi í reynd skapað verðmæti til handa stefndu, Húsasmiðjunni hf. Byggi krafan að þessu leyti einnig á 76. gr. og 95. gr. laga nr. 2/1995, sbr. 51. gr. og 70. gr. laga nr. 138/1994, sbr. einnig með stoð í almennum skaðabótareglum. Beri bæði félögin ábyrgð gagnvart stefnanda vegna brota á lagaákvæðum þessum.
Stefnukrafan byggi í öðru lagi á því að stefndu hafi með háttsemi sinni valdið hinu gjaldþrota félagi bótaskyldu tjóni sem þeim beri að bæta samkvæmt ákvæðum 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög eða samkvæmt meginreglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga og almennu skaðabótareglunni. Framangreind ákvæði taki til stefnda, TV fjárfestingafélagsins ehf., sbr. 2. mgr., en báðir stefndu beri ábyrgð samkvæmt almennum skaðabótareglum. Byggt sé á því að stefndu, eða tilteknir einstaklingar fyrir þeirra hönd, hafi með saknæmum og ólögmætum hætti dregið verðmæti út úr félaginu til hagsbóta fyrir stefndu. Ráðstafanir þessar hafi verið gerðar í skjóli yfirburðavalds samkvæmt X. kafla laga nr. 2/1995 og X. kafla laga nr. 138/1994. Stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hafi ekki kynnt stjórnarmanni hins gjaldþrota félags allar ráðstafanir, sem þó hafi snert félagið, sbr. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 2/1995 og 2. mgr. 45. gr. laga nr. 138/1994. Sem dæmi um það sé ákvörðun um að setja á laggirnar nýtt félag um sama rekstur og félagið hafi haft með höndum. Stefndu hafi í skjóli yfirburðavalds síns beitt sér fyrir því að brotin hafi verið ákvæði 76. gr. eða 95. gr. laga nr. 2/1995 og 51. gr. eða 70. gr. laga nr. 138/1994. Enn fremur sé byggt á því að stefndu, eða einstaklingar fyrir þeirra hönd, hafi bakað stefndu bótaskyldu vegna þess að ekki hafi verið hirt um að gefa stefnanda upp til gjaldþrotaskipta ef og þegar tilefni var til þess, sbr. 105. gr. laga nr. 2/1995 og 80. gr. laga nr. 138/1994, en einnig sbr. almennar reglur skaðabótaréttarins.
Þá byggi krafan í þriðja lagi á því að takmörkun ábyrgðar hafi fallið brott en stefndu, eða einstaklingar fyrir þeirra hönd, hafi með háttalagi sínu sniðgengið svo ákvæði laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög að það leiði til beinnar ábyrgðar stefndu gagnvart stefnanda. Auk þess sem áður greini um háttsemi stefndu hafi einstaklingar fyrir hönd stefndu látið sem félagið uppfyllti skilyrði til að vera hlutafélag með villandi upplýsingum til hlutafélagaskrár og komið þannig í veg fyrir að félaginu yrði slitið, sbr. skýlaus ákvæði 2. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995, en búi þess hefði verið skipt eigi síðar en í ársbyrjun 1997 hefðu ákvæðin verið uppfyllt. Allar kröfur á hendur stefnanda hefðu fengist greiddar á þessu tímamarki. Að minnsta kosti leiði rangar upplýsingar stefndu til þess að þeir beri sönnunarbyrði fyrir því að staðhæfing stefnanda sé að þessu leyti sé röng. Þá sé á því byggt að stefndu hafi brotið reglur félagaréttarins með háttseminni sem lýst hafi verið og að það leiði til þess að stefndu geti ekki skýlt sér með ákvæðum hlutafélagalaga eða einkahlutafélagalaga um takmarkaða ábyrgð eigenda félags, enda sé takmörkuð ábyrgð undantekningarregla og byggi á því að reglur um hlutafélög og einkahlutafélög séu virtar. Krafa þessi byggi öðrum þræði á því að stefndu hafi í reynd blandað saman hagsmunum hlutafélagasamstæðunnar og að öðru leyti hagað sér með slíkum hætti að rétt sé að þau greiði stefnanda allar lýstar kröfur á hendur stefnanda undir gjaldþrotaskiptum félagsins. Stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hafi í reynd ákveðið að sameina stefnanda félaginu, sbr. 104. gr. laga nr. 138/1994, enda þótt formskilyrði hafi ekki verið uppfyllt.
Eignum hins gjaldþrota félags hafi ekki verið haldið aðgreindum frá eignum stefndu. Félaginu hafi í reynd verið stjórnað af stefndu með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Það hafi því ekki notið sjálfstæðis gagnvart eiganda sínum eða félagasamstæðunni í heild og því geti stefndu ekki skýlt sér bak við lagaákvæði um ábyrgðartakmörkun einkahlutafélaga og hlutafélaga. Öllum rekstri hins gjaldþrota félags, þar með talið nafni og umboðum, hafi verið haldið áfram undir nýrri kennitölu.
Stefnufjárhæðin sundurliðist þannig:
1. Missir álagningar á seldum vörubirgðum............................................ 32.594.339... krónur
2. Nafn og viðskiptavild....................... 24.491.090................................................ "
3. Innréttingar................................................................................................. 15.230.000.......... "
Alls....................................................... 72.315.429 krónur
Um 1. tölulið:
Bókfærðar eignir stefnanda hafi numið 119.494.988 krónum í ársbyrjun 1997, þar af hafi verðmæti vörubirgða verið 54.075.049 krónur. Vörukaup hins gjaldþrota félags hafi á árinu 1997 numið 34.670.917 krónum. Vörubirgðum þessum hafi verið blandað saman við eignir stefndu, Húsasmiðjunnar hf. Reikningar hafi verið gerðir milli félaganna og þess gætt að andvirði yrði notað til hagsbóta fyrir stefndu. Þegar skiptastjóri hóf starf sitt hafi verið innbyrðis ágreiningur hjá stefndu um það hvað tilheyrði eignum þrotabúsins og hvað stefndu, Húsasmiðjunni hf. Það mál hafi ekki komist á hreint fyrr en með skýrslu endurskoðanda stefndu 1. febrúar 2000. Stefndu hafi með þessu slegið eign sinni á allar vörubirgðir stefnanda, að því leyti sem þær hafi ekki verið seldar öðrum í apríllok 1997, en vörulager stefnanda hafi verið 0 krónur á úrskurðardegi 8. apríl 1998.
Vörunotkun á árinu 1997 og fram að úrskurðardegi hafi numið 88.745.966 krónum. Tilfærðar sölutekjur hafi numið 81.321.100 krónum árið 1997 og 1.454.317 krónum árið 1998 samkvæmt bókhaldi félagsins, eða alls 82.775.417 krónum. Meðalálagning hafi því verið neikvæð um 6,7% miðað við áðurgreindar forsendur en neikvæð um 5,16 % miðað við að lager hafi verið 3.000.000 króna virði á úrskurðardegi. Ásættanleg álagning hafi ekki átt að vera lægri en 30%. Slík meðalálagning hefði skilað stefnanda 32.594.339 krónum til viðbótar. Stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi haft öll tök á að nýta sér að selja þessar vörur í eigin verslun eða í verslun hins nýja fyrirtækis með mun hærri álagningu. Hún hafi gjörþekkt allt sem viðkomi rekstri af því tagi sem rekinn hafi verið í nafni Teppalands hf., sé sjálf í samskonar rekstri og hafi auk þess sett á laggirnar alveg hliðstæðan rekstur þegar verslun stefnanda hafði verið lokað. Samkvæmt upplýsingum, unnum úr útboðs- og skráningarlýsingu stefndu, Húsasmiðjunnar hf., frá í maí 2000, hafi meðalálagning þess félags numið 52,1% á árinu 1997. Krafa um 30% meðalálagningu sé því ekki úr hófi fram.
Um 2. tölulið:
Stefndu hafi fénýtt sér nafn hins gjaldþrota félags og viðskiptavild í þágu stefndu, Húsasmiðjunnar hf., með þeim hætti að stefnandi hafi orðið af verulegum tekjum þess vegna. Nafnið Teppaland hafi verið lagt fram sem 1/3 hlutur í nýju félagi, Gólfefni ehf. Ekki njóti við gagna um hvort tilfært verðmat á nafninu, 3.500.000 krónur, hafi numið sama hlutfalli í framlögðu hlutafé félagsins, þar sem þetta sé ekki tilgreint í stofnskjölum Gólfefna ehf. Það kunni því að vera að framlag stefndu, Húsasmiðjunnar hf., hafi numið hærri fjárhæð en þessu nemi. Auk þessa hafi stefnda, Húsasmiðjan hf., notið sérstakrar greiðslu vegna nafnsins, eða annars sem tekið hafi verið úr stefnanda, og hafi þessi greiðsla samkvæmt upplýsingum stefndu numið 2.664.272 krónum árið 1998 og 2.233.705 krónum árið 1999, eða að meðaltali 2.448.989 krónum hvort ár. Samningur um þessa þóknun taki til 10 ára og sé lagt til grundvallar að verðmæti þessi, sem stefnanda hafi borið, nemi 24.491.090 krónum. Að auki eigi stefnda, Húsasmiðjan hf., arðsvon úr rekstri Gólfefna ehf. auk verðhækkunartekna. Ómögulegt sé að meta verðmæti þessa nema að fengnum upplýsingum um það frá stefndu, Húsasmiðjunni hf., og væru ekki gerðar sérstakar kröfur á þessum grunni.
Um 3. tölulið:
Allar innréttingar hins gjaldþrota félags, sem átt hafi að standa til tryggingar skilvísri endurgreiðslu á meintu láni við stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., virtust hafa horfið sporlaust án þess að grein hafi verið gerð fyrir andvirði þeirra, sem í september 1996 hafi verið talið ekki minna en 21.200.000 krónur. Sé á því byggt að annar hvor stefndu hafi hirt þessar innréttingar þegar versluninni var lokað í apríllok 1997. Á lista, sem fylgt hafi veðtryggingarbréfinu, komi fram að innréttingar tengdar teppa- og dúkastöndum hafi numið 7.450.000 krónum, hillur og hillukerfi 3.740.000 krónum og vélar og önnur áhöld 4.040.000 krónum, en þá hafi andvirði lyftara verið dregið frá. Væri lagt til grundvallar að skrifstofuáhöld og fastar innréttingar hafi tapað verðgildi sínu að öllu leyti við lokun verslunarinnar nemi krafa stefnanda að þessu leyti 15.230.000 krónum. Stefnandi líti svo á að hér sé afar varlega farið með fjárhæðir en bókfært verð innréttinga hafi í árslok 1996 numið 37.812.492 krónum. Vísað sé til greinargerðar Kristins Gestssonar endurskoðanda en í henni sé vakin athygli á því að allir rekstrarfjármunir félagsins hafi verið nýlegir þegar gjaldþrot bar að höndum.
Haldið sé fram að það heyri undir stefndu að sanna að viðskiptin hafi verið „eðlileg miðað við aðstæður“. Stjórn Teppalands hf. hafi metið það svo í febrúar 1997 að félagið væri í raun gjaldþrota. Þrátt fyrir það hafi ekkert verið að gert, heldur hafi hafist könnun á því hvort stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., gæti ekki grætt enn meira á félaginu með því að nýta skattalegt tap þess. Dráttur á að stefndu sinntu brýnni skyldu sinni, sbr. 105. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 80. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. og lög nr. 145/1994 um bókhald, ef þeirra mat var rétt, hafi þannig verið í þeim eina tilgangi að leitast við að tryggja eigin hagsmuni en hagsmunir félagsins sjálfs og þar með kröfuhafa þess hafi verið látnir sitja á hakanum. Á meðan á þessum drætti stóð hafi átt sér stað viðskipti sem ekki sé hægt að rekja nákvæmlega en félagið hafi skyndilega orðið eignalaust.
Stefnandi geri kröfu til þess að stefndu verði gert að greiða stefnanda, in solidum, dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga af 68.901.817 krónum frá 8. apríl 1998 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til greiðsludags. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggi á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laganna.
Skaðabótakrafa stefnanda byggi á ákvæðum XV. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög, einkum á 134. gr., og ákvæðum XV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, sbr. einkum 108. gr. Einnig sé hún byggð á almennu sakarreglunni og meginreglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga. Stefnukrafa byggi einnig á 102. gr. laga nr. 2/1995 og 73. gr. laga nr. 138/1994. Um efnisatriði sé vísað til laga þessara í heild en einnig til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og laga nr. 145/1994 um bókhald.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu telja málsatvikalýsingu stefnanda alls ekki hlutlausa og sé hún í veigamiklum atriðum röng. Stefndu lýsi málsatvikum þannig að á árinu 1996 hafi Birgir Þórarinsson og Egill Árnason hf. boðið stefnda, TV fjárfestingafélaginu ehf., sem þá hét Timburvinnslan ehf., að kaupa Teppaland hf. Upphafleg verðhugmynd seljenda á öllu hlutafé fyrirtækisins hafi verið um tíu milljónir króna. Eftir athugun á rekstri Teppalands hf. hafi niðurstaða forsvarsmanna stefnda, TV fjárfestingafélagsins ehf., verið sú að staða Teppalands hf. væri það slæm að fyrirtækið væri einskis virði. Eigendum Teppalands hf. hafi því verið gert tilboð 4. september 1996 um kaup á öllum hlutabréfum fyrirtækisins fyrir aðeins eina krónu. Í bréfi Jóns Snorrasonar, þáverandi framkvæmdastjóra stefndu, Húsasmiðjunnar hf., sama dag komi fram að alvarlegt greiðsluþrot blasti við Teppalandi hf. og seljanlegar birgðir væru af skornum skammti. Eigendur Teppalands hf. hafi gengið að tilboðinu og 22. september 1996 hafi verið undirritaður kaupsamningur milli aðila. Sama sjónarmið komi fram í bréfi Víðis Finnbogasonar, fyrrum eiganda Teppalands hf., til Jóns Snorrasonar frá 29. janúar 1998, en þar segi að reksturinn hafi engan veginn gengið upp og taprekstur og fjárskortur hafi verið augljós.
Rekstur Teppalands hf. í eigu hins nýja aðila hafi gengið mjög erfiðlega frá byrjun. Lager hafi verið mun verri en reiknað hefði verið með. Á honum hafi aðallega verið teppi og dúkar, sem væru tískuvörur og fljótar að úreldast, og lítið hafi verið til af seljanlegum birgðum. Einnig hafi komið í ljós að lausafjárstaða fyrirtækisins hafi verið mjög slæm og félagið hafi ekki haft burði til þess að leysa til sín vörubirgðir úr tolli. Af þeirri ástæðu hafi stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., lánað stefnanda samtals 20.000.000 króna á árinu 1996 og hafi skuldaviðurkenning frá 5. október 1996 verið útbúin af því tilefni. Stefndi hafi lýst kröfu í bú stefnanda vegna þessa láns.
Í þeim tilgangi að rétta við lausafjárstöðu sína og fjármagna kaup á nýjum vörubirgðum hafi stefnandi einnig tekið 4 skuldabréfalán á tímabilinu nóvember 1996 til febrúar 1997 fyrir samtals um 35.000.000 króna á þáverandi gengi, en tvö lánanna hafi verið tekin í erlendum gjaldmiðlum. Skuldunum hafi verið lýst í bú stefnanda. Báðir stefndu hafi ábyrgst greiðslu samkvæmt skuldabréfunum og sé fullvíst að stefnandi hefði ekki fengið lánveitingarnar að öðrum kosti. Skiptastjóri hafi viðurkennt að andvirði bréfanna hafi runnið inn í bú stefnanda. Til tryggingar endurgreiðslu ofangreindra fjármuna og ábyrgðarskuldbindinga hafi verið gefið út tryggingarbréf en þar hafi stefnda, TV fjárfestingafélaginu ehf., verið veðsettur allur lager stefnanda ásamt öllu lausafé félagsins.
Samkvæmt bókhaldi Teppalands hf. hafi eignir þess í árslok 1996 numið 119.494.988 krónum og vörubirgðir þar af verið metnar á 54.075.049 krónur. Stefndu telji þessa eignfærslu stórlega ofmetna. Eigi það sérstaklega við ef rekstur fyrirtækis stöðvist en þá verði slíkar eignir lítils eða einskis virði. Fyrirvari endurskoðandans í ársreikningnum fyrir árið 1996 taki einmitt til þessa en þar sé um að ræða svokallaðan “going concern” fyrirvara. Fyrirvarinn þýðir í raun að eignfærslan sé byggð á þeirri forsendu að rekstri fyrirtækisins verði framhaldið. Þetta eigi einnig við um vörubirgðir. Þegar verslun hætti rekstri falli vörubirgðir hennar eðlilega í verði. Fundargerðir stjórnar hins gjaldþrota félags hafi í upphafi árs 1997 lýst áhyggjum forsvarsmanna fyrirtækisins á erfiðri stöðu.
Fastafjármunir hafi samkvæmt leigusamningi farið til leigusala en samkvæmt honum skyldu allar naglfastar innréttingar verða eign leigusala að leigutíma loknum. Í júní 1997 hafi verið gert samkomulag við leigusala um skil á húsnæðinu þó að meira en 3 ár hafi verið eftir af leigutímanum. Vegna þess að nýlegar innréttingar voru skyldar eftir í húsnæðinu hafi leigusali verið reiðubúinn að falla frá kröfu um efnda- og skaðabætur.
Eins og skýrt komi fram í ársreikningi fyrir árið 1996 og í skýrslutöku hjá skiptastjóra hafi birgðir verið metnar við kostnaðarvirði. Í því felist engin vottun á dagvirði birgðanna. Allra síst felst í því vottun um að vörurnar séu allar svo seljanlegar að vissa sé fyrir 30% álagningu. Engin tilraun hafi verið gerð til þess að meta dagverð lagersins eða hvort hann hafi verið í söluhæfu ástandi.
Í skýrslu fyrrverandi endurskoðanda stefnanda frá 1. mars 2000 komi fram að einhverjum vörubirgðum hafi verið fleygt út við birgðatalningu í árslok 1996 vegna þess að þær hafi verið ónýtar eða mjög gamlar. Það þýði þó ekki að þær vörur sem eftir stóðu hafi verið í söluhæfu ástandi, eingöngu að þær hafi ekki verið ónýtar eða mjög gamlar.
Áður en versluninni var lokað hafi verið haldin umfangsmikil útsala allan aprílmánuð en vörur í miklu magni hafi verið seldar langt undir kostnaðarverði. Þegar versluninni var lokað hafi miklu verið fleygt af lagernum eins og fram komi á reikningum frá Gámaco hf., sem sendir hafi verið skiptastjóra.
Stefnandi hafi í málatilbúnaði sínum lýst viðskiptum Teppalands hf. og stefndu, Húsasmiðjunnar hf., í mars 1997 og reynt að gera þau tortryggileg. Viðskiptin hafi verið að upphæð 23.389.036 króna með virðisaukaskatti og fullyrði stefnandi að viðskiptin hafi verið án álagningar en það sé alrangt. Í skjölum málsins komi álagningarprósenta á þessu tímabili fram. Hún hafi verið mismunandi en að jafnaði á bilinu 8-9% og í mörgum tilfellum hærri. Að jafnaði hafi hún verið 7,95% fyrir allt árið 1997 þrátt fyrir að verslun stefnanda hafi verið lokað í maí mánuði og umtalsverð viðskipti hafi átt sér stað eftir þann tíma. Álagningarhlutfall stefnanda í viðskiptum við stefndu, Húsasmiðjuna hf., á árinu 1996 hafi verið að meðaltali 30,94%. Það sé mjög í takt við sambærileg viðskipti stefnanda á sama tíma. Viðskiptin á árinu 1997 hafi hins vegar verið mun umfangsmeiri og hafi hið gjaldþrota fyrirtæki ekki átt í neinum öðrum sambærilegum viðskiptum að magni og verði. Engu sé því hægt að slá föstu um hvað sé eðlilegt álagningarhlutfall í þeim viðskiptum en eðlilegt sé þó að álagning lækki eftir því sem viðskiptin verði umfangsmeiri. Til samanburðar megi þó nefna að álagningarhlutfall stefnanda við viðskiptavini sína sem næstir hafi komið að stærð hafi á sama tímabili verið 7,94% við Teppahúsið, 0% við Bæjarsjóð Garðbæjar, 4,45% við Vegmúla sf. og 18,82% við Egil Árnason hf. Miðað við þessi viðskipti hafi umrædd viðskipti stefnanda við stefndu, Húsasmiðjuna hf., í mars og apríl 1997 verið í góðu meðaltali hvað varði álagningarhlutfall. Framangreind viðskipti hafi öll verið heildsöluviðskipti en ekki smásöluviðskipti. Áreiðanleika sölugreiningalistanna megi einnig draga í efa. Vörur sem stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi keypt af stefnanda á árinu 1997 hafi verið auðkenndar sem “Lager 70” hjá Húsasmiðjunni hf. og fluttar til hennar eftir kaupin.
Í janúar 1997 hafi nafnið Teppaland ásamt fleiri nöfnum verið selt stefnda, TV fjárfestingafélaginu ehf., á 3.500.000 krónur. Í samræmi við það hafi verið ákveðið í apríl 1997 að breyta nafni stefnanda í TL-rúllur ehf.
Stefnandi hafi reynt að gera tortryggilega stofnun fyrirtækisins Gólfefni ehf., sem stofnað hafi verið í apríl 1997 af stefndu, Húsasmiðjunni hf., og Skafta Harðarsyni. Viðskiptahugmyndin að baki félaginu komi fram í hluthafasamkomulagi þeirra frá 17. apríl 1997. Hún hafi m.a. verið að nýja félagið seldi vörur frá Tarkett og Uzin, sem framleiði gólfefni. Einnig hafi tilgangur félagsins verið að nýta viðskiptavild sem falist hafi í vörumerkinu Teppaland en stefndi, TV fjárfestingafélagið ehf., hefði keypt það í janúar 1997 ásamt öðrum skráðum vörumerkjum af Teppalandi hf. fyrir 3.500.000 krónur. Loks megi segja að tilgangur félagsins hafi verið að koma í verð því sem eftir hafi staðið af lager TL-rúllna ehf. og vörulagernum sem stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi keypt af TL-rúllum ehf., auðkenndur sem “Lager 70”. Þessi hluti samkomulagsins hafi reyndar aldrei komist til framkvæmda og því hafi engin ástæða verið til þess að kynna það fyrir stjórn stefnanda. Álagningarhlutfall stefnanda hafi verið sniðið að aðstöðu félaganna en stefnandi hafi ekki lengur haft burði til að selja vörubirgðir í smásölu og hafi því ekki getað krafist smásöluálagningar. Stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi eignast þriðjungshlut í Gólfefnum ehf. og hafi stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., greitt fyrir hlutinn með 3ja ára leigugreiðslum fyrir vörumerkið Teppaland. Eftirstöðvar lagersins hafi verið fluttar til geymslu í húsnæði stefndu, Húsasmiðjunnar hf., að Holtagörðum, en annað lausafé hafi ýmist verið skilið eftir, selt, fleygt eða komið í geymslu.
Við lokun verslunarinnar hafi fastar innréttingar og ljósabúnaður verið skilinn eftir í samráði við leigusala. Tölvur og ýmislegt annað lausafé hafi verið selt og hafi andvirðið runnið til stefnanda. Teppa- og dúkastöndum hafi verið komið fyrir í geymslu hjá Gólfefnum ehf. Sumu hafi verið fleygt, t.a.m. hafi einn lyftari verið talinn ónýtur. Öðru hafi verið komið fyrir í geymslu hjá stefndu, Húsasmiðjunni hf. Þegar stefnandi var úrskurðaður gjaldþrota hafi verið búist við að skiptastjóri þrotabúsins tæki hlutina til sín og reyndi að koma þeim í verð. Skiptastjóri hafi allt frá byrjun gjaldþrotaskipta haft undir höndum lista yfir hlutina, bæði ársreikninga og lista með tryggingarbréfinu. Hann hafi hins vegar aldrei virst hafa grennslast fyrir um þá eða afdrif þeirra. Enginn af fyrirsvarsmönnum félaganna hafi verið spurðir og hvorki hafi fyrirspurn borist stefndu um hlutina né kröfubréf um afhendingu þeirra. Fyrst með stefnunni hafi stefndu verið sakaðir um að bera ábyrgð á hvarfi hlutanna og krafðir um skaðabætur á þeim grundvelli. Þessum vinnubrögðum skiptastjóra sé harðlega mótmælt.
Gagnkvæmur skilningur hafi verið milli skiptastjórans og forráðamanna stefnda, TV fjárfestingafélagsins ehf., á því að umrætt lausafé væri veðsett hinu stefnda félagi og að andvirði þess myndi renna til greiðslu á veðkröfu félagsins á hendur búinu. Skiptastjórinn hafi því engan hag séð í því að fá vörslur lausafjárins og koma því í verð. Lausaféð hafi verið mjög ofmetið í ársreikningum félagsins og í listanum sem fylgdi veðtryggingarbréfinu frá 25. september 1996. Þremur og hálfu ári síðar hafi verðmæti lausafjárins eðli málsins samkvæmt minnkað mjög mikið og í dag leiki mikill vafi á því hvort að það hafi eitthvað verðgildi.
Eftir lok verslunarinnar hafi verið selt úr lager fyrirtækisins og andvirðið notað til greiðslu opinberra gjalda og á láni sem stefnda, TV fjárfestingarfélagið ehf., hafi verið í ábyrgðum fyrir. Það hafi verið í samræmi við veðsetningu lagersins og samkomulag frá 2. júní 1997.
Til samræmis við minnkandi umsvif og fjölda hluthafa hafi verið ákveðið að breyta félaginu í einkahlutafélag á stjórnarfundi 29. júlí 1997.
Í júlí 1997 hafi lagervörur að verðmæti DM 13.815,92 verið afhentar Uzin vegna eignarréttarfyrirvara en í íslenskum krónum hafi verðmæti varanna verið talið u.þ.b. 550.000 krónur.
Fjölmargar kreditfærslur hafi í lok árs 1997 mátt rekja til mistaka framkvæmdarstjóra stefnanda en þar hafi verið um að ræða sölu á vörum til Gólfefna ehf. sem framkvæmdarstjórinn hafi talið að teknar hefðu verið af lager hins gjaldþrota félags í geymslu stefndu, Húsasmiðjunnar hf. Vörusala þessi hafi verið skráð á blöð úr nótubók sem framkvæmdarstjórinn hafi talið að tilheyrði hinu gjaldþrota félagi. Síðar hafi komið í ljós að vörusalan á nótunum hafi verið frá stefndu, Húsasmiðjunni hf. til Gólfefna ehf. og hafi salan þá verið bakfærð.
Á ofangreindu tímabili, þ.e. frá júlí 1997 til febrúar 1998, hafi ýmsar leiðir verið ræddar til þess að forða félaginu frá gjaldþroti, svo sem skuldbreytingar, nauðasamningar og samruni. Niðurstaðan hafi orðið sú að engin leið væri raunhæf til árangurs og þann 18. mars 1998 hafi stjórn félagsins óskað eftir gjaldþrotaskiptum.
Gjaldþrotaúrskurður hafi verið kveðinn upp 8. apríl 1998. Þar komi fram að lager félagsins hafi verið metinn á 3.000.000 krónur af stjórnarformanni félagsins. Sú tala hafi ekki byggst á traustum grunni en í raun hafi verið um hreina ágiskun að ræða og hafi skiptastjóri verið upplýstur um það. Í skýrslutöku 22. sama mánaðar hafi skiptastjóra verið bent á að eftirstöðvar af lager félagsins væri í vörslum stefndu, Húsasmiðjunnar hf., en skiptastjóri virtist ekki hafa hafist handa við að taka lagerinn í sínar vörslur fyrr en 1. október sama ár þegar eftir því hafi verið gengið af hálfu stefndu, Húsasmiðjunnar hf.
Um svipað leyti virtist skiptastjóri stefnanda fyrst hafa hafist handa við að koma lagernum í verð. Hann hafi spurt stefndu, Húsasmiðjuna hf., hvort fyrirtækið vildi gera tilboð í lagerinn. Það hafi hins vegar aldrei komið til greina af hennar hálfu og sé því mótmælt að forsvarsmenn stefndu, Húsasmiðjunnar hf., hafi boðið það. Skiptastjórinn virtist fyrst hafa skoðað lagerinn 12. október 1998, eða um hálfu ári eftir að hann hafi tekið til starfa sem skiptastjóri. Honum hafi strax verið sagt að vörur merktar "Lager 70" tilheyrðu stefndu, Húsasmiðjunni hf. Skiptastjóranum hafi ítrekað verið bent á að hann yrði að taka vörur stefnanda og hafi honum verið bent á hvar þær væru. Hann hafi hins vegar ekki gert það. Því sé alfarið mótmælt að lagerinn, sem tilheyrði stefnanda, hafi ekki verið nægilega sérgreindur hjá stefndu, Húsasmiðjunni hf., og að skiptastjóra hafi verið meinað að taka hann. Skiptastjóri hafi tekið þá afstöðu með bréfi, dagsettu 18. nóvember 1998, að stefnda, Húsasmiðjan hf., hefði “slegið eign sinni” á allan lager stefnanda. Þessari afstöðu hafi stefnda, Húsasmiðjan hf., mótmælt og hafi skorað á skiptastjórann enn og aftur að taka lagerinn, en hann hafi ekki orðið við því. Lagerinn sé enn í vörslum stefndu, Húsasmiðjunnar hf. og hafi hún þann 13. desember 2000 sent inn kröfulýsingu í þrotabúið vegna geymslukostnaðar til október 2000.
Stefndu mótmæli yfirlýsingum stefnanda um að bókhald TL-rúllna ehf. hafi ekki verið í réttu horfi og að ekki hafi verið hægt að átta sig á sölutölum. Stefndu hafi ýmislegt við skýrslu Kristins Gestssonar endurskoðanda frá 30. apríl 2001 að athuga. Athugasemdir hans bentu ótvírætt til þess að margar ályktanir og fullyrðingar endurskoðanda stefnanda séu reistar á sandi og beinlínis rangar. Stefndu séu alls ekki neinir sérfræðingar á gólfefnamarkaðnum. Markaðshlutdeild stefndu, Húsasmiðjunnar hf., þar sé varla mælanleg og stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hafi aldrei verið á þeim markaði fyrir utan umrædd kaup á Teppalandi hf., sem hafi verið félaginu dýrkeypt mistök. Stefndu geri alvarlegar athugasemdir við störf skiptastjórans. Að þeirra mati hafi hann farið með rangt mál og sakað stefndu um refsiverða háttsemi án þess að fótur væri fyrir því. Þá hafi gjaldþrotaskiptin tekið óheyrilega langan tíma auk þess sem skiptastjórinn hafi ekki hirt um að taka yfir vörslur eigna búsins og afgreiða kröfulýsingar með réttmætum hætti.
Stefndu mótmæli því að þau hafi "tæmt" hið gjaldþrota félag. Gera megi ráð fyrir að í þessu felist ásökun um að stefndu hafi tekið út úr hinu gjaldþrota félagi allar eignir þess, sem felist í vörubirgðum, nafni, viðskiptavild og innréttingum. Sé það rétt felist í þessari málsástæðu það sama og í málsástæðum stefnanda sem lúti að því að stefndu beri að skila ólögmætum úttektum og að stefndu hafi með saknæmum hætti valdið stefnanda bótaskyldu tjóni, með því að hafa dregið sér verðmæti út úr félaginu og gefa félagið of seint upp til gjaldþrotaskipta.
Stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi ekki notið stöðu móðurfélags. Hún hafi aldrei átt hlut í hinu gjaldþrota félagi og hún hafi alls engin yfirráð haft yfir því. Stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi heldur ekki átt eignarhluti í meðstefnda, TV fjárfestingafélaginu ehf. Stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi hins vegar verið systurfélag hins gjaldþrota félags, þ.e. félögin hafi verið í eigu sömu aðila. Skyldleiki hlutafélaga, sem hafi sömu eigendur, leiði ekki til að þau falli undir ákvæði laga um samstæður hlutafélaga. Í slíkum tilvikum verði að grípa til laga um ábyrgð stjórnarmanna og riftunarreglna gjaldþrotalaga.
Því sé mótmælt að stefndu beri ábyrgð á gerðum stjórnarmanna Teppalands hf. eða TL-rúllna ehf. Stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hafi verið hluthafi í hinu gjaldþrota félagi og takmarkist ábyrgð þess við það hlutafé sem félagið hafi lagt fram. Það sé í samræmi við 9. gr. samþykkta stefnanda um að hluthafar beri ekki ábyrgð á skuldbindingum félagsins fram yfir hlut sinn í félaginu. Hluthafar geti einnig samkvæmt hlutafélagalögum borið ábyrgð á því tjóni sem þeir valdi félaginu á grundvelli 2. mgr. 134. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Hluthafar beri hins vegar ekki ábyrgð á þeim stjórnarmönnum sem starfi í umboði þeirra og stefnandi byggi ekki kröfur sínar á vinnuveitendaábyrgð. Vangaveltur stefnanda um ábyrgð hluthafa geti fráleitt átt við um stefndu, Húsasmiðjuna hf., sem hafi aldrei verið í stöðu hluthafa.
Þá sé því mótmælt að stefndu hafi verið úthlutað peningalegum verðmætum með ólögmætum hætti. Viðskipti stefndu, Húsasmiðjunnar hf., með vörubirgðir hafi verið eðlileg í ljósi aðstæðna. Sama eigi við um viðskipti stefnda, TV fjárfestingafélagsins ehf., með vörumerkið “Teppaland”. Engin viðskipti hafi átt sér stað með aðra viðskiptavild hins gjaldþrota félags eða umboð í þess eigu enda hafi engin slík verðmæti verið fyrir hendi hjá félaginu. Stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hafi keypt nafnið í janúar 1997 og leigt það til Gólfefna ehf. í apríl 1997 til 3ja ára. Leiguverðið hafi verið 3.500.000 krónur og hafi sú greiðsla gengið upp í hlutafjárloforð stefndu, Húsasmiðjunnar hf. Þessi greiðsluháttur varði eingöngu innbyrðis uppgjör stefndu og sé stefnanda óviðkomandi.
Samkvæmt sama samkomulagi hafi stefnda, Húsasmiðjan hf., samið um umboðslaunagreiðslur frá Gólfefnum ehf. vegna vörusölu frá framleiðendunum Tarkett og Uzin. Það samkomulag sé einnig óviðkomandi stefnanda. Hann hafi ekki sýnt að hann hafi haft umboð fyrir þessa framleiðendur eða átt tilkall til umboðslauna vegna vörusölu á þeirra vegum. Stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi selt vörur frá umræddum framleiðendum áður en stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hafi keypt stefnanda, sem hafi um það leyti verið að missa viðskipti sín við Tarkett eins og fram komi í 10. gr. kaupsamningsins frá 22. september 1996 um kaup Timburvinnslunnar ehf. á hlutafé í Teppalandi hf.
Stefndu beri enga ábyrgð á því hvað varð um innréttingar og annað lausafé, sem hafi verið í eigu hins gjaldþrota fyrirtækis. Lausaféð hafi verið verulega ofmetið í ársreikningum félagsins og á listanum sem fylgdi veðtryggingarbréfinu. Þremur og hálfu ári síðar hafi verðmæti lausafjárins stórlega minnkað og sé sennilega sáralítið í dag. Lausafjármunirnir hafi verið löglega veðsettir stefnda, TV fjárfestingafélaginu ehf., og nemi krafa félagsins mun hærri fjárhæð heldur en verðmæti lausafjárins. Útilokað sé því fyrir stefnanda að byggja á því að hann hafi orðið fyrir tjóni ef verðmæti lausafjárins hafi ekki skilað sér inn í þrotabúið.
Engin arðsúthlutun hafi farið fram til hluthafa í Teppalandi hf. og því sé alfarið hafnað að stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hafi “hirt” verðmæti út úr félaginu. Stefnda hafi ekki átt aðild að viðskiptum með vörubirgðir hins gjaldþrota félags og viðskipti með nafnið “Teppaland” hafi verið eðlileg í ljósi aðstæðna. Stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hafi átt veðrétt í vörubirgðum og lausafé félagsins og í samræmi við það hafi andvirði veðandlagsins verið notað til þess að greiða inn á lán sem fyrirtækið hafi verið í ábyrgðum fyrir. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna þessa. Þá sé því alfarið hafnað að stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi notið svokallaðra “dulinna arðsgreiðslna” úr hinu gjaldþrota félagi. Hún hafi ekki átt rétt til neinna arðgreiðslna úr félaginu enda ekki hluthafi í því. Viðskipti með vörubirgðir hafi verið eðlileg og félagið hafi ekki staðið að lögbrotum gagnvart stefnanda með þeim viðskiptum.
Því sé alfarið vísað á bug að stefndu hafi með saknæmum og ólögmætum hætti dregið verðmæti út úr félaginu til hagsbóta fyrir stefndu í skjóli yfirburðavalds, að stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hafi ekki kynnt ráðstafanir fyrir stjórnarmanni hins gjaldþrota félags, að stefndu hafi beitt sér fyrir brotum á ákvæðum 76. gr. eða 95. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og hafi ekki hirt um að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta. Stefnda, TV fjárfestingafélaginu ehf., hafi engin skylda borið til að tilkynna stjórnarmanni stefnanda um stofnun Gólfefna ehf. og samningagerð þar að lútandi. Stefnandi hafi ekki verið aðili að félaginu eða samkomulaginu og sá hluti samkomulagsins, sem fjallaði um vörulager stefnanda, hafi aldrei komist í framkvæmd. Jafnvel þó að um vanrækslu hafi verið að ræða hafi ekki verið sýnt fram á að tjón hafi hlotist af þeim sökum.
Aðdróttun stefnanda um að stefndu hafi beitt sér fyrir brotum á ákvæðum 76. gr. og 95. gr. laga nr. 2/1995, sbr. 51. og 70. gr. laga nr. 138/1994, sé harðlega mótmælt. Óljóst sé hvað átt sé við af hálfu stefnanda og því útilokað að svara þessari ásökun. Stefnda, Húsasmiðjan hf., geti ekki átt neina aðild að því að stefnandi var ekki gefin upp til gjaldþrotaskipta. Hún hafi ekkert boðvald eða forræði haft yfir félaginu. Ábyrgð TV fjárfestingafélagsins ehf. sem hluthafa í hinu gjaldþrota félagi geti ekki náð til þessa heldur. Ábyrgð á að gefa fyrirtækið upp til gjaldþrotaskipta hvíli á stjórn þess en að mati stefndu hafi verið réttmætar ástæður fyrir því að beiðni um gjaldþrotaskipti dróst á langinn. Af hálfu stefnanda hafi ekki verið sýnt fram á að tjón hafi hlotist af þeim sökum.
Þótt stefnandi krefjist skaðabóta sé engin umfjöllun um skilyrði þess að unnt sé að krefjast bóta úr hendi stefndu né rökstuðningur fyrir því að þau skilyrði séu uppfyllt. Engin umfjöllun sé um ólögmæti, saknæmi, sennilega afleiðingu eða orsakatengsl. Því sé mótmælt að skilyrði bótareglnanna séu fyrir hendi. Tjón sé heldur ekki sannað og því þýðingarlaust að krefja um skaðabætur.
Stefnandi haldi því fram að stefndu hafi sniðgengið svo ákvæði hlutafélagalaga að það leiði til beinnar ábyrgðar gagnvart hluthöfum. Vangaveltur stefnanda um brottfall ábyrgðartakmörkunar geti þó aðeins beinst að stefnda, TV fjárfestingafélaginu ehf. Gagnvart stefndu, Húsasmiðjunni hf., verði ábyrgð aðeins reist á almennu skaðabótareglunni þar sem ábyrgð sé hvort eð er ekki takmörkuð. Stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., geti borið ábyrgð gagnvart stefnanda sem hluthafi á grundvelli 2. mgr. 134. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Ásetningur eða stórfellt gáleysi þurfi að koma til en því sé alfarið hafnað að regla þessi eigi við um háttsemi stefnda. Meginreglan sé sú að hluthafar beri ekki ábyrgð á skuldbindingum félagsins og sé brottfall ábyrgðartakmörkunar algjör undantekning.
Mótmælt sé að einstaklingar fyrir hönd stefnda, TV fjárfestingafélagsins ehf., hafi gefið villandi upplýsingar til hlutafélagaskrár og þannig komið í veg fyrir að stefnanda yrði slitið og að stefnandi hafi átt fyrir skuldum í ársbyrjun 1997. Því sé einnig mótmælt að stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hafi ætlað að sameina stefnanda félaginu. Eignum hins gjaldþrota félags hafi verið haldið aðskildum, félagið hafi haft réttkjörna stjórn, sem hafi verið sjálfstæð í störfum sínum, og engin ákvörðun hafi verið tekin um sameiningu félaganna. Rekstri hins gjaldþrota félags hafi ekki verið haldið áfram undir nýrri kennitölu. Tilteknar eignir hins gjaldþrota félags hafi verið seldar öðru félagi, þar á meðal eignir sem að öðrum kosti hefðu orðið verðlausar. Umboð hafi ekki verið þar á meðal enda hafi stefnandi engin umboð átt til þess að selja.
Því sé mótmælt að stefndu hafi slegið eign sinni á allar vörubirgðir stefnanda, að því leyti sem þær hafi ekki verið seldar öðrum í apríllok 1997. Selt hafi verið úr lagernum til margra aðila eftir að verslun félagsins var lokað. Með bréfi 18. nóvember 1998 hafi skiptastjóri stefnanda lýst því yfir að hann liti svo á að stefnda, Húsasmiðjan hf., hefði slegið eign sinni á lager Teppalands. Þeirri afstöðu hafi stefnda, Húsasmiðjan hf., þegar í stað mótmælt enda engin efnisleg rök sem réttlættu hana. Stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., hafi aldrei haft vörslur lagersins og ekki átt nein viðskipti með hann. Alrangt sé að Húsasmiðjan hf. hafi slegið eign sinni á lagerinn en félagið hafi tekið hann í geymslu fyrir hið gjaldþrota félags og hafi haft samþykki skiptastjóra stefnanda fyrir því.
Útreikningi og rökstuðningi stefnanda fyrir stefnufjárhæðinni sé mótmælt með eftirfarandi rökum:
1. Um missi álagningar á seldum vörubirgðum.
Stefnandi hafi reiknað missi hagnaðar þannig að hann geri ráð fyrir 30% álagningu ofan á samtölu vörubirgða í árslok 1996 samkvæmt bókhaldi og vörukaupum á árinu 1997. Við þessa aðferð geri stefndu eftirfarandi athugasemdir:
a. Verðmæti vörubirgða samkvæmt bókhaldi í árslok 1996 hafi verið stórlega ofmetið. Engin tilraun hafi verið gerð til að meta hve miklu af lagernum þyrfti að selja undir kostnaðarverði eða hversu miklu þyrfti að henda óseldu ef ákvörðun yrði tekin að loka versluninni í kjölfar mánaðar útsölu. Því sé ótækt að byggja bótakröfu á þessum grundvelli.
b. Á meðal vörukaupa ársins 1997 sé “aðkeypt vinna” að upphæð 3.826.218 krónur og reikni stefnandi 30% álagningu af henni inn í bótakröfu sína.
c. Fyrirvari endurskoðanda við ársreikninga félagsins feli í sér fyrirvara við verðmat vörubirgða ef rekstur félagsins hætti.
d. Sölugreiningarlistarnir séu ekki áreiðanlegir.
e. Stefnandi hafi selt vörur til margra óskyldra aðila á árinu 1997, eins og fram komi á sölugreiningarlista. Í mjög mörgum tilvikum hafi álagningin verið undir viðmiðunarmarkinu 30%. Oft hafi hún verið lítil eða neikvæð. Stefndi taki ekkert tillit til þess við útreikninga sína. Það sé algerlega óútskýrt hvernig stefndu eigi að bera ábyrgð á þeim hluta af missi hagnaðar stefnanda.
f. Meginhluti viðskipta stefnanda við stefndu Húsasmiðjuna hf. á árinu 1997 og aðra stóra viðskiptavini hafi verið heildsöluviðskipti. Engu að síður miði stefnandi bótakröfu sína við smásöluálagningu.
g. Við gjaldþrot eða rekstrarstöðvun smásölufyrirtækja verði lager þeirra jafnan lítils virði. Stefnandi taki ekkert tillit til þess og áskilji sér smásöluálagningu fram á úrskurðardag. Ef stefnandi hefði verið úrskurðaður gjaldþrota í upphafi árs 1997 hefði skiptastjóri þurft að hafa opna verslun til þess að eiga möguleika til þess að fá 30% álagningu. Því hefði fylgt kostnaður og óvíst hvort hagnaður hefði orðið af þeim rekstri.
h. Stefnandi taki ekkert tillit til þess að áður en verslun stefnanda var lokað hafi verið haldin viðamikil útsala í einn mánuð þar sem veittur hafi verið mikill afsláttur og í mörgum tilvikum hafi vörur verið seldar langt undir kostnaðarverði.
i. Stefnandi taki ekkert tillit til þess að við lok verslunarinnar hafi umtalsverðu magni af lagernum verið fleygt þar sem hann hafi ekki verið talinn söluhæfur.
j. Verslun stefnanda hafi verið lokað í byrjun maí 1997 eftir að útsölunni lauk. Krafa hans um smásöluálagningu eftir það sé greinilega ekki á rökum reist.
k. Sú forsenda fyrir útreikningum stefnanda um að stefndu hafi slegið eign sinni á vörubirgðir stefnanda sé röng. Stefnandi hafi vanrækt að taka yfir vörslur og meta vörubirgðir félagsins, sem eftir hafi staðið við gjaldþrotaskiptin.
l. Engin rök liggi að baki álagningarhlutfallinu 30% önnur en þau að álagning stefndu, Húsasmiðjunnar hf., hafi á árinu 1997 verið 52%. Staða fyrirtækjanna sé hins vegar gjörólík og samanburður augljóslega ómarktækur. Annars vegar sé um að ræða aðra af stærstu byggingavöruverslunum landsins með sterka fjárhags- og markaðsstöðu en hins vegar fyrirtæki sem lengi hafi verið búið að berjast í bökkum og hafi verið metið einskis virði í árslok 1996. Allt árið 1997 hafi gjaldþrotaskipti vofað yfir félaginu og hafi það ekki einu sinni haft opna verslun stærstan hluta af því ári.
2. Um nafn og viðskiptavild.
Stefnandi byggi á því að hann hafi orðið af tekjum vegna þess að stefndu hafi fénýtt sér nafn hans og viðskiptavild. Útreikningur hans byggði á því að stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi notið greiðslna að upphæð 2.448.989 króna að meðaltali á ári og muni gera á 10 ára tímabili. Þessi útreikningur stefnanda byggði greinilega á röngum forsendum. Hann noti reikninga stefndu, Húsasmiðjunnar hf., vegna umboðslauna fyrir sölu á Tarkett og Uzin vörum en ekki fyrir nafn og viðskiptavild stefnanda. Stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi þegið umboðslaun frá Gólfefnum ehf. fyrir sölu á vörum þessara framleiðenda. Þau viðskipti hafi ekki tengst nafni eða viðskiptavild stefnanda. Burtséð frá þessu séu engar forsendur fyrir því að reikna umrætt meðaltal um 10 ára tímabil.
3. Um útreikninga stefnanda á verðmæti innréttinga og annars lausafjár.
Þessir útreikningar byggðust á lista sem fylgdi veðskuldabréfinu frá 25. september 1996. Listinn hafi verið útbúinn þá og sé áritaður af þáverandi endurskoðanda stefnanda. Um hafi verið að ræða allt lausafé stefnanda á þeim tíma. Stefnandi taki réttilega tillit til þess að öll skrifstofuáhöld og fastar innréttingar hafi tapað verðgildi sínu við lokun verslunarinnar. Lausaféð hafi verið veðsett stefnda, TV fjárfestingafélaginu ehf., langt umfram verðmæti þess og geti stefnandi því ekki hafa orðið fyrir tjóni þótt það hafi ekki skilað sér til stefnanda.
Mótmælt sé að sönnunarbyrði verði snúið við en í samræmi við meginreglur um sönnun beri stefnanda að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni og að stefndu beri ábyrgð á því. Stefndu telji tilburði stefnanda í þá átt alls ekki standast. Stefnandi hafi uppi ýmsar vafasamar og órökstuddar fullyrðingar, sem hann hafi sönnunarbyrði fyrir. Hinar röngu forsendur fyrir útreikningi á bótakröfunni ættu að minnsta kosti að leiða til lækkunar á kröfunum verði ekki fallist á sýknu.
Eins og málssókn þessi sé vaxin sé óhjákvæmilegt annað en að gera kröfu um að við ákvörðun málskostnaðar verði höfð hliðsjón af a og c liðum 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að mati stefndu sé málssóknin án tilefnis og hafi stefnandi haft uppi kröfur og staðhæfingar, sem hann hafi mátt vita að væru rangar og haldlausar.
Niðurstaða
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að hin stefndu félög beri ábyrgð á tjóni sem stefnandi telur að hann hafi orðið fyrir við það að eignir TL-rúllna ehf. voru ekki til staðar þegar skiptastjóri tók við stjórn þrotabús þess. Ráðstöfun eignanna megi rekja til brota á reglum hlutafélagalaga og annarra ólögmætra athafna. Stefnandi telur að hin stefndu félög beri ábyrgð á þessari stöðu vegna hinna nánu eignatengsla milli þeirra og stefnanda og náinna tengsla á milli stjórnarmanna stefnanda og stefndu.
Stefnandi heldur því meðal annars fram að stefndu hafi valdið stefnanda tjóni sem þeim beri að bæta á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og eins með vísan til ákvæða 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög í tilviki stefnda, TV fjárfestingafélagsins ehf.
Með fundargerð stjórnar stefnanda frá 27. janúar 1997 var með ótvíræðum hætti staðfest það mat stjórnarmanna að hið gjaldþrota félag ætti ekki fyrir skuldum og gæti ekki staðið við fjárhagsskuldbindingar sínar gagnvart lánardrottnum. Kom þar og fram að stjórninni væri í raun skylt samkvæmt lögum að óska eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Dómurinn telur að við þessar aðstæður hafi stjórn félagsins borið að afhenda bú þess til gjaldþrotaskipta samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og 105. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995. Þrátt fyrir þessa stöðu aðhafðist stjórnin ekkert í þá veru að óska eftir gjaldþrotaskiptum fyrr en rúmlega ári síðar eða í mars 1998.
Fyrir liggur að í stjórn TL-rúllna ehf. á þeim tíma sem hér um ræðir voru þau Smári Hilmarsson héraðsdómslögmaður og Sigurbjörg Snorradóttir en hún var einnig framkvæmdastjóri félagsins. Fram hefur komið að báðir framangreindir stjórnarmenn hafi haft veruleg tengsl við stefndu, Húsasmiðjuna hf., á þessum tíma. Smári starfaði í mörg ár sem lögmaður þess félags. Hann vann þau störf þó sem verktaki en ekki launþegi hjá félaginu. Upplýst hefur og verið að Sigurbjörg var einn af aðaleigendum stefndu, Húsasmiðjunnar hf., en ekkert liggur þó fyrir um að hún hafi á þessum tíma talist starfsmaður hennar eða stjórnarmaður.
Af greinargerð stefndu má ráða, og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu stefnanda, að stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi á þeim tíma, sem hér um ræðir verið í eigu sömu aðila og áttu allt hlutafé í móðurfélagi hins gjaldþrota félags, TV fjárfestingarfélaginu ehf. Stefnda, Húsasmiðjan hf., virðist hins vegar ekki hafa átt hlutafé í stefnda, TV fjárfestingarfélaginu ehf., né í hinu gjaldþrota félagi. Samkvæmt þessu verður því ekki fallist á að Húsasmiðjan hf. geti talist móðurfélag stefnanda í skilningi ákvæða 2. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 né að hún hafi, á þeim tíma sem hér um ræðir, haft slík yfirráð í hinu gjaldþrota félagi eða verið í slíkum tengslum við framangreinda stjórnarmenn þess, að leiða eigi til bótaábyrgðar vegna tjóns sem kann að hafa hlotist af því að félagið var ekki afhent til gjaldþrotaskipta þegar það var skylt samkvæmt framangreindum lagaákvæðum eða vegna annarra meintra brota á hlutafélagalögum eða lögum um einkahlutafélög.
Tengsl stefnda, TV fjárfestingafélagsins ehf., við hið gjaldþrota félag voru hins vegar veruleg og náin þar eð félagið hafði keypt allt hlutafé þess og telst því móðurfélag þess í skilningi 2. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þykir verða við það að miða að þessi nánu stjórnunar- og eignatengsl félaganna geti leitt til bótaábyrgðar að uppfylltum öðrum skilyrðum skaðabótaábyrgðar.
Stefnandi telur að hið bótaskylda tjón sé að rekja til eftirfarandi atvika og ráðstafana:
1) Sala vörubirgða án nægilegrar álagningar.
Krafa stefnanda byggist að þessu leyti á því, að vörur í eigu TV-rúllna ehf. hafi verið seldar til stefndu, Húsasmiðjunnar hf., í verulegum mæli á árinu 1997. Kemur þannig fram í stefnu að seldar vörur til félagsins hafi í mars það ár numið 23.389.036 krónum með virðisaukaskatti og 2.036.321 krónum í apríl. Samkvæmt útskrift úr bókhaldi stefnanda, sölugreiningarlista, nam salan alls 22.494.825 krónum án virðisaukaskatts á árinu 1997. Er því haldið fram af hálfu stefnanda að stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi leyst til sín verulegan hluta lagersins á verði sem hafi verið nærri kostnaðarverði. Kröfugerð stefnanda vegna þessa liðar virðist við það miðuð að heildarvörunotkun stefnanda á árinu 1997, allt þar til félagið var tekið til gjaldþrotaskipta, hafi numið 88.745.966 krónum. Tilfærðar sölutekjur hafi hins vegar numið 81.321.100 krónum árið 1997 og 1.454.317 krónum árið 1998, eða alls 82.775.417 krónum. Telur stefnandi að ásættanleg álagning vegna heildarsölunnar hefði ekki átt að vera lægri en sem nam 30% og að slík meðalálagning á allar seldar vörur hefði skilað honum 32.594.339 krónum til viðbótar við framangreindar sölutekjur. Stefnandi krefst þess að stefndu greiði honum þessa fjárhæð. Röksemdir stefnanda fyrir þessum kröfulið eru annars vegar þær að stefnda, Húsasmiðjan hf., hefði slegið eign sinni á lager hins gjaldþrota félags þegar verslun þess var lokað vorið 1997 og það sem eftir var af lagernum var flutt til geymslu í húsnæði stefndu, Húsasmiðjunnar hf., og hins vegar að stefndu beri ábyrgð á álagningu á heildarvörusölu TL-rúllna ehf. allt árið 1997 og þar til félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 8. apríl 1998. Stefnandi byggir á því að stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi haft öll tök á að nýta sér að selja umræddar vörur með mun hærri álagningu en 30% og sé krafa um slíka meðalálagningu því hófleg. Dómurinn telur að þrátt fyrir að vörusala til stefndu, Húsasmiðjunnar hf., hafi á árinu 1997 verið veruleg, eða rúmlega ¼ hluti af heildarvörusölu TL-rúllna ehf. á því ári, með tæplega 8% álagningu samkvæmt gögnum málsins, hafi ekki verið um óeðlilega álagningu að ræða eins og ástatt var með rekstur TL-rúllna ehf. á þeim tíma sem viðskipti þessi áttu sér stað. Stefnanda hefur því ekki tekist að sýna fram á að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt viðskiptin hafi skapað stefndu, Húsasmiðjunni hf., verðmæti. Ákveðið var á stjórnarfundi hjá TL-rúllum ehf. hinn 11. apríl 1997 að það sem óselt væri af lager félagsins þegar versluninni yrði lokað í maí sama ár yrði flutt til geymslu hjá stefndu, Húsasmiðjunni hf. Var það síðan gert að beiðni framkvæmdastjóra TL-rúllna ehf. Verður að telja ósannað að stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi slegið eign sinni á allar vörubirgðir TL-rúllna ehf. þrátt fyrir staðhæfingar stefnanda um að vörunum hafi ekki verið haldið aðgreindum frá vörum í eigu stefndu, Húsasmiðjunnar hf. Með vísan til þessa verður ekki fallist á að stefndu beri bótaábyrgð á hinu meinta tjóni stefnanda að þessu leyti.
2) Ráðstöfun á nafni félagsins og viðskiptavild.
Með kaupsamningi, dagsettum 16. janúar 1997, seldu TL-rúllur ehf. til Timburvinnslunnar ehf., síðar stefnda, TV fjárfestingafélagið ehf., skráðan rétt sinn til þeirra nafna, sem skráð voru hjá Einkaleyfastofunni, þ.e. nafnanna Teppalands, Dúkalands, Parketlands og Flísalands. Kaupverð samkvæmt samningnum var 3.500.000 krónur og var það greitt með skuldajöfnun vegna skulda Teppalands hf. við Timburvinnsluna ehf. Skiptastjóri stefnanda hefur í munnlegum málflutningi borið brigður á að kaupsamningur þessi hafi í raun verið undirritaður á þeim tíma sem að framan greinir og bendir í því sambandi á að tilkynning til hlutafélagaskrár um breytingu á nafni Teppalands hafi borist þangað hinn 14. júlí 1997. Einnig vísar hann til skýrslu endurskoðanda þrotabúsins um að kaupsamningurinn hafi í bókhaldi félagsins verið færður með sama fylgiskjalsnúmeri og annað fylgiskjal, dagsett 15. janúar 1997, sem bendi til þess að hann hafi verið dagsettur aftur í tímann. Í fundargerð stjórnar Teppalands ehf. hinn 28. maí 1997 er hins vegar bókað að rétt sé að kanna skráningu á þessum nöfnum, sem tilheyrt hafi félaginu en verið seld Timburvinnslunni ehf. í október 1996, og hvort tilkynna þurfi um nýjan rétthafa á þessum nöfnum. Með hluthafasamkomulagi beggja stefndu og Skafta Harðarsonar f.h. nýs fyrirtækis, sem dagsett er 17. apríl 1997, var síðan um það samið m.a., að Timburvinnslan ehf. leigði hinu nýja félagi nafnið Teppaland til þriggja ára gegn eingreiðslu að fjárhæð 3.500.000 krónur. Með vísan til framangreinds þykir hér verða við það að miða að umrædd ráðstöfun hafi átt sér stað hinn 16. janúar 1997, það er áður en stjórnarmönnum Teppalands ehf. var sannanlega ljóst að þeim bæri að óska eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu. Ábyrgð stefnda, TV fjárfestingafélags ehf., á hugsanlegu tjóni vegna ráðstöfunarinnar verður því ekki talin fyrir hendi að þessu leyti.
Stefnandi heldur því og fram að viðskiptavild hins gjaldþrota félags hafi falist í einkaumboðum sem hann hafi haft, sérstaklega fyrir stórfyrirtækin Tarkett og Uzin, og að þeim hafi verið ráðstafað með ólögmætum hætti til stefndu, Húsasmiðjunnar hf. Umfjöllun hans um þennan þátt málsins er hins vegar mjög af skornum skammti og gögn ófullnægjandi. Er ósannað að þar hafi verið um að ræða ráðstöfun raunverulegra verðmæta sem verið hafi á forræði Teppalands hf. eða TV-rúllna ehf. Verður því ekki fallist á að um hafi verið að ræða ólögmæta ráðstöfun úr hinu gjaldþrota félagi, sem stefndu beri ábyrgð á. Ber því að hafna bótakröfu stefnanda á hendur stefndu að þessu leyti.
3) Hvarf innréttinga.
Krafa stefnanda vegna innréttinga hins gjaldþrota félags byggir á því að þær hafi horfið sporlaust án þess að grein hafi verið gerð fyrir andvirði þeirra. Byggir stefnandi á því að annar hvor stefndu hafi hirt þessar innréttingar þegar verslun félagsins var lokað í maí 1997. Byggist krafan á því að óútskýrt sé hvarf á innréttingum tengdum teppa- og dúkastöndum, að fjárhæð 7.450.000 krónur, hillum og hillukerfum, að fjárhæð 3.740.000 krónur, og vélum og öðrum áhöldum, að fjárhæð 4.040.000 krónur, eða samtals 15.230.000 krónur. Óljóst er hvort fram hefur farið á vegum skiptastjóra sérstök og ítarleg rannsókn á því hvað varð um þá muni sem að ofan greinir. Við skýrslutökur af vitnum fyrir dóminum kom þó fram að einhverjir dúkastandar væru í vörslu Gólfefna ehf. og hefðu forsvarsmenn þess talið að skiptastjóri vissi um það. Í skýrslu endurskoðanda þrotabúsins kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi sölunótum hafi nánar tilgreindar vélar verið seldar stefndu, Húsasmiðjunni hf. Ekki er þó ljóst hvort tillit hafi verið tekið til þessa í samantekt skiptastjóra yfir horfna muni. Verður að telja með öllu ósannað að stefndu hafi tekið umrædda muni í sínar vörslur án greiðslu eða átt sök á hvarfi þeirra með saknæmum eða ólögmætum hætti. Samkvæmt því er bótaábyrgð stefndu ekki fyrir hendi að þessu leyti.
Stefnandi reisir stefnukröfur sínar á hendur stefndu jafnframt á því að stefndu beri að skila til baka peningalegum verðmætum, sem tilheyrt hafi hinu gjaldþrota félagi og hafi verið hirt úr því í trássi við ákvæði XII. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög, sbr. 102. gr. laganna. Engin skilyrði hafi verið til að úthluta til hluthafa fjármunum félagsins, hvort sem er í formi arðgreiðslna, endurgreiðslna vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs. Telur stefnandi að rök þessi eigi jafnt við um stefndu, Húsasmiðjuna hf., þó að hún hafi ekki verið formlegur hluthafi í TL-rúllum ehf., á þeim grundvelli að félagið hafi notið dulinnar arðsúthlutunar. Stefndu hafa mótmælt því að um einhvers konar úttektir úr félaginu hafi verið að ræða af þeirra hálfu, hvað þá að þær hafi byggst á heimildum í hlutafélagalögum.
Hinar meintu úttektir stefndu úr hinu gjaldþrota félagi grundvallast á gagnkvæmum samningum að því marki sem sannað þykir að þær hafi átt sér stað, sbr. það sem að framan hefur verið rakið. Það er mat dómsins að engin líkindi hafi verið veitt fyrir því að yfirfærðir hafi verið fjármunir eða fjárhagsleg réttindi frá hinu gjaldþrota félagi til stefnda, TV fjárfestingafélags ehf., umfram það sem greitt hefur verið fyrir með 3.500.000 krónum vegna kaupa á nöfnum Teppalands og skyldum nöfnum. Varðandi meintar úttektir stefndu, Húsasmiðjunnar hf., úr hinu gjaldþrota félagi vegna hagstæðra birgðakaupa eða hags af yfirfærslu viðskiptavildar í þágu þess félags, verður að líta til þess sem áður er komið fram að ekkert liggur fyrir um að stefnda, Húsasmiðjan hf., hafi verið hluthafi í félaginu né að hún geti með nokkrum hætti talist móðurfélag þess samkvæmt skilgreiningu 2. gr. hlutafélagalaganna nr. 2/1995, enda þótt eigendur þeirra hafi verið þeir hinir sömu. Eru því ekki skilyrði til að endurheimtir verði þeir hagsmunir sem um ræðir úr hendi stefndu á þeim grundvelli sem stefnandi hefur hér vísað til.
Dómurinn telur reglur um takmörkun ábyrgðar, sem stefnandi vísar til, ekki eiga við um sakarefnið og að þær komi því ekki til álita við úrlausn þess.
Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á að kröfur stefnanda hafi lagastoð og ber með vísan til þess að sýkna stefndu af þeim.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu samtals 750.000 krónur í málskostnað.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómendunum Ásgeiri Magnússyni hæstaréttarlögmanni og Lárusi Finnbogasyni löggiltum endurskoðanda.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Húsasmiðjan hf. og TV fjárfestingafélagið ehf., skulu sýkn vera af kröfum stefnanda, þrotabús TL-rúllna ehf.
Stefnandi greiði stefndu 750.000 krónur í málskostnað.