Hæstiréttur íslands
Mál nr. 240/2012
Lykilorð
- Fasteign
- Galli
- Ábyrgðartrygging
- Vátryggingarsamningur
- Skaðabætur
|
|
Miðvikudaginn 19. desember 2012. |
|
Nr. 240/2012.
|
Vátryggingafélag Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Rjúpnasölum 10, húsfélagi (Marteinn Másson hrl.) |
Fasteign. Galli. Ábyrgðartrygging. Vátryggingarsamningur. Skaðabætur.
Húsfélag fjöleignarhússins að Rjúpnasölum 10 í Reykjavík höfðaði mál gegn vátryggingarfélaginu V hf. til heimtu bóta úr starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra, sem annaðist byggingu fjöleignarhússins, vegna galla á því. Í málinu var ráðið til lykta ágreiningi aðila um framreikning vátryggingafjárhæðarinnar, sem að öðru leyti var óumdeild, og upphafstíma dráttarvaxta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. apríl 2012. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins stóð JB byggingarfélag ehf. á árunum 2003 og 2004 að smíði fjöleignarhúss að Rjúpnasölum 10 í Kópavogi, en í húsinu, sem er á tíu hæðum, munu vera 38 íbúðir. Byggingarstjóri við verkið var Bjarni M. Bjarnason og hafði byggingarfélagið tekið starfsábyrgðartryggingu fyrir hann hjá áfrýjanda allt frá árinu 1998. Eftir skilmálum um þessa vátryggingu náði hún til skaðabótaskyldu, sem falla kynni á vátryggingartaka sem byggingarstjóra vegna almenns fjártjóns þriðja manns sem rakið yrði til þess að ekki hafi verið byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, sbr. 3. mgr. 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda hafi vátryggingartakinn staðfest ábyrgð sína á hlutaðeigandi mannvirki fyrir byggingarfulltrúa og tjónið félli undir hana að lögum. Um vátryggingarfjárhæð sagði í skilmálunum að ábyrgð áfrýjanda vegna hvers einstaks tjónsatviks væri takmörkuð við 5.000.000 krónur og gæti heildargreiðsla hans vegna allra tjónsatvika innan hvers tólf mánaða vátryggingartímabils ekki orðið hærri en þreföld sú fjárhæð. Til viðbótar henni gæti þó komið kostnaður, sem vátryggingartakinn kynni að stofna til vegna ákvörðunar um skaðabótaskyldu eða bótafjárhæð, og vextir, sem hann yrði dæmdur til að greiða. Vátryggingarfjárhæðin átti að taka breytingum í samræmi við byggingarvísitölu frá grunntölunni 229,8 stig „1. janúar ár hvert í hlutfalli við breytingar á þeirri vísitölu.“ Um tímatakmörk voru svofelld ákvæði í skilmálunum: „Komi afleiðingar atvika, sem tjón hefur hlotist af og gerst hafa á vátryggingartímanum, ekki í ljós fyrr en vátryggingin er fallin úr gildi, greiðir félagið samt sem áður bætur sbr. 91. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Bætur greiðast þó ekki, ef afleiðingar koma í ljós 5 árum eftir lokaúttekt á mannvirki því, sem vátryggingartaki annaðist byggingarstjórn á og ábyrgð hans tekur til, sbr. 53. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Félagið greiðir ekki bætur fyrir tjón vegna atvika, sem verða áður en vátryggingartíminn hefst, enda þótt tjónið komi ekki í ljós fyrr en á vátryggingartímanum.“ Loks er þess að geta að samkvæmt skilmálunum áttu kröfur, sem féllu undir vátrygginguna, að fyrnast á tveimur árum frá lokum þess almanaksárs þegar kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.
Í málinu er óumdeilt að framangreind starfsábyrgðartrygging hafi verið í gildi á þeim tíma, sem húsið að Rjúpnasölum 10 var reist, en síðast mun hún hafa verið endurnýjuð fyrir vátryggingartímabilið frá 1. janúar 2005 til 1. janúar 2006. Samkvæmt framlagðri staðfestingu áfrýjanda á þeirri endurnýjun var vátryggingarfjárhæðin á því tímabili 6.612.000 krónur af hverju tjóni, en eigin áhætta 196.000 krónur. Áfrýjandi tilkynnti umhverfisráðuneytinu 4. janúar 2006 að vátryggingin hafi fallið úr gildi 1. sama mánaðar, en kveðið var á um skyldu til slíkrar tilkynningar í 5. mgr. 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Fram er komið í málinu að bú JB byggingarfélags ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2010 og er óumdeilt að lokaúttekt hafi aldrei farið fram á húsinu að Rjúpnasölum 10.
Stefndi fékk mann dómkvaddan 9. apríl 2010 til að leggja mat á ýmsa galla, sem hann taldi hafa komið fram á húsinu. Í matsgerð 7. júlí sama ár var komist að þeirri niðurstöðu að nánar tilteknir gallar væru á þaki yfir hluta hússins og næmi kostnaður af viðgerð þeirra 11.850.000 krónum. Þá hafi einnig komið fram annmarkar á gluggum og svalahurðum, sem hafi að auki valdið rakaskemmdum innan dyra, og væri viðgerðarkostnaður vegna þessa alls 16.605.000 krónur. Þess var getið í matsgerðinni að fjárhæðir þessar tækju mið af verðlagi á matsdegi. Stefndi, sem kveðst á fyrri stigum hafa krafist þess að byggingarfélagið bætti úr göllum, sendi áfrýjanda matsgerðina 3. ágúst 2010 og óskaði eftir afstöðu hans til bótaskyldu samkvæmt fyrrnefndri starfsábyrgðartryggingu. Í svari áfrýjanda við þessu erindi 24. september sama ár kom fram að hann teldi bótaskyldu vera fyrir hendi „vegna galla á þaki að því marki sem það fyllir hámarksvátryggingarfjárhæð kr. 6.612.000“ og byði hann greiðslu á þeirri fjárhæð auk þóknunar lögmanns, 437.413 krónur, eða samtals 7.049.413 krónum. Samkvæmt ódagsettu svarbréfi stefnda taldi hann að vátryggingarfjárhæðin ætti að breytast í samræmi við byggingarvísitölu fram til ársins 2010, en ekki aðeins til 2005, svo sem áfrýjandi hafi miðað boð sitt við, auk þess sem greiða ætti dráttarvexti af bótum frá 7. ágúst 2010, kostnað af matsgerð og hærri fjárhæð vegna þóknunar lögmanns en boðin hafi verið. Þá áskildi stefndi sér rétt til að krefjast uppgjörs á tjóni sínu á þeim grundvelli að um væri að ræða tvö tjónsatvik í skilningi áðurgreinds ákvæðis vátryggingarskilmálanna, annars vegar vegna galla á þaki og hins vegar á gluggum og svalahurðum. Áfrýjandi varð ekki við þessum kröfum stefnda að öðru leyti en því að kostnaði af öflun matsgerðar, 746.349 krónum, var bætt við fjárhæðina, sem hann hafði áður boðið fram, og greiddi hann þannig stefnda samtals 7.795.762 krónur í bætur, sem sá síðarnefndi tók við með fyrirvara 22. október 2010.
Stefndi höfðaði mál þetta 2. febrúar 2011 og krafðist þess að áfrýjanda yrði aðallega gert að greiða sér 21.805.918 krónur en til vara 10.902.959 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum frá 3. september 2010 til greiðsludags en að frádreginni innborgun að fjárhæð 7.795.762 krónur. Samkvæmt héraðsdómsstefnu taldi stefndi að vátryggingarfjárhæðin ætti að réttu lagi að teljast 10.902.959 krónur með því að hún tæki mið af breytingum á byggingarvísitölu fram til ársins 2010. Í aðalkröfu lagði stefndi til grundvallar að tjónsatvik hafi verið tvö og næmi hún því tvöfaldri vátryggingarfjárhæðinni, en í varakröfu að atvikið hafi aðeins verið eitt. Undir rekstri málsins í héraði féll stefndi frá aðalkröfu sinni að gengnum dómi Hæstaréttar 20. október 2011 í máli nr. 3/2011 og stóð að því gerðu eftir ágreiningur um framreikning vátryggingarfjárhæðar, svo og um upphafstíma dráttarvaxta.
II
Vátryggingarsamningurinn, sem um ræðir í málinu, var gerður í tíð laga nr. 20/1954 og féll úr gildi 1. janúar 2006, sama dag og lög nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga leystu þau af hólmi. Áfrýjandi hefur ekki borið fyrir sig að tjónþola hafi brostið heimild samkvæmt lögum nr. 20/1954 til að krefjast bóta í skjóli ábyrgðartryggingar beint úr hendi vátryggingafélags, sbr. á hinn bóginn 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004, og kemur aðild að málinu því ekki frekar til athugunar.
Samkvæmt áðurnefndum vátryggingarskilmálum tók áfrýjandi á sig ábyrgð allt að tiltekinni fjárhæð á skaðabótum, sem kynnu að falla á hlutaðeigandi byggingarstjóra vegna almenns fjártjóns þriðja manns af því að mannvirki hafi ekki verið byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög eða reglugerðir. Óumdeilt er að tjón stefnda stafi af slíkri missmíð á húsinu að Rjúpnasölum 10, sem mun eins og áður segir hafa verið byggt á árunum 2003 og 2004, en byggingarfélagið, sem að því stóð, mun hafa afhent íbúðir í húsinu til kaupenda á síðarnefnda árinu. Krafa um skaðabætur vegna ágalla af þessum orsökum, sem áfrýjandi tók ábyrgð á með vátryggingarsamningnum, var því orðin til ekki síðar en í upphafi árs 2005, en ekkert liggur fyrir um að saknæm vanræksla byggingarstjórans hafi spannað yfir tímabil eftir það. Miða verður greiðsluskyldu áfrýjanda við fjárhæð vátryggingarinnar, sem þá var í gildi samkvæmt skilmálum um hana, enda var þar ekki kveðið á um annað tímamark til útreiknings á fjárhæðinni, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 12. desember 2002 í máli nr. 244/2002 og 17. nóvember 2011 í máli nr. 123/2011. Eins og málið liggur fyrir orkar ekki tvímælis að fjárhæð skaðabótakröfu stefnda, ef metin væri til verðlags í ársbyrjun 2005, væri hærri en nemur þessari vátryggingarfjárhæð. Áfrýjandi greiddi því stefnda fjárhæðina, sem honum bar samkvæmt vátryggingarsamningnum, 22. október 2010 að því er höfuðstól kröfunnar varðar. Í málinu er ekki deilt um að áfrýjandi hafi jafnframt staðið stefnda réttilega skil á kostnaði af ákvörðun skaðabótakröfunnar og innheimtu. Um vexti af kröfunni verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi hafi með matsgerðinni, sem stefndi sendi honum 3. ágúst 2010, fengið í hendur nauðsynlegar upplýsingar til að leggja mat á vátryggingaratburðinn og ákveða fjárhæð bóta, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1954, og féll því krafa stefnda í gjalddaga 14 dögum eftir það. Samkvæmt 3. mgr. sama lagaákvæðis átti stefndi rétt til dráttarvaxta af kröfu sinni frá þeim gjalddaga, en þeirra hefur hann þó ekki krafist fyrr en frá 3. september 2010. Áfrýjandi verður samkvæmt þessu dæmdur til að greiða dráttarvexti af höfuðstól kröfu stefnda eins og í dómsorði greinir, en af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefndi hafi krafist greiðslu á öðrum liðum kröfu sinnar svo tímanlega að vextir verði dæmdir af þeim.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnda, Rjúpnasölum 10, húsfélagi, dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 6.612.000 krónum frá 3. september til 22. október 2010.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2012.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 6. janúar sl., er höfðað af Húsfélaginu Rjúpnasölum 10, Kópavogi, með stefnu birtri 2. febrúar 2011, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Endanlegar kröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 10.902.959 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 10.902.959 kr. frá 3. september 2010 til greiðsludags allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 7.795.762 kr. sem greidd var þann 12. október 2010. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfu stefnanda í málinu. Til vara er þess krafist að tildæmd bótafjárhæð verði lækkuð. Stefndi gerir jafnframt kröfu um að sér verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.
II
Málavextir
JB byggingafélag ehf. (áður Járnbending ehf.) byggði á árunum 2002-2004 fjöleignahúsið að Rjúpnasölum 10, Kópavogi og seldi íbúðirnar á almennum markaði. Félagið var úrskurðað gjaldþrota á árinu 2010. Byggingarstjóri hússins var Bjarni Már Bjarnason og seldi hið stefnda tryggingafélag Bjarna starfsábyrgðartryggingu vegna starfa hans sem byggingarstjóri við þetta verk og önnur. Stefnandi segir að allt frá því íbúðir í fasteigninni voru afhentar hafi húsfélagið glímt við leka í húsinu. Stefnandi aflaði sér matsgerðar dómkvadds matsmanns sem staðfesti að þak hússins, sem jafnframt eru svalir 10. hæðar þess að hluta, sem og gluggar og hurðir voru haldin verulegum göllum. Var það niðurstaða matsins að kostnaður við úrbætur og lagfæringar á þaki og gluggum næmi samtals 30.731.400 kr. Eftir að framlögð matsgerð lá fyrir óskaði stefnandi eftir afstöðu stefnda varðandi bótaskyldu. Stefndi féllst á bótaskyldu vegna þaksins og var greiðsla að fjárhæð 7.049.413 kr. boðin. Þá samþykkti stefndi að greiða útlagðan matskostnað, 746.349 kr., auk lögfræðikostnaðar. Útreikningur stefnda miðaðist við að tjónið hafi orðið árið 2005, og uppfærði hann grunnupphæð tryggingarinnar, sem er 5.000.000 kr., miðað við byggingarvísitölu janúar 2005. Samkvæmt 2. mgr. 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er kveðið á um að lágmarksfjárhæð vegna hvers einstaks tjónstilviks skuli vera 5.000.000 kr. sem skuli miðast við byggingarvísitölu, 229,8 stig, og breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölunni
Ágreiningur var milli aðila um hvort tjón stefnanda skyldi teljast sem eitt tjónstilvik eða fleiri. Miðuðust upphaflegar kröfur stefnanda við að um tvö tjónstilvik væri að ræða. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 20. október sl., í málinu nr. 3/2011, var í sambærilegu máli lagt til grundvallar að þótt ætlað gáleysi byggingarstjóra kynni að hafa leitt til margháttaðs tjóns, hefði ætluð vanræksla hans verið ein órofa heild allt þar til lokaúttekt á byggingarframkvæmdunum fór fram. Var því talið að um væri að ræða eitt tjónsatvik í skilningi starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra húss þess sem um ræddi. Stefnandi féll því frá þeim kröfum sínum í máli þessu að um tvö tjónstilvik væri að ræða. Eftir stendur ágreiningur aðila um hvort miða skuli bótafjárhæðir miðað við vísitölur ársins 2010, eða 2005 eins og stefndi miðaði útborgun sína við.
III
Málsástæður stefnanda
Af hálfu stefnanda er á því byggt að hann hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna galla á fasteigninni Rjúpnasalir 10, Kópavogi, galla er taka til sameignar. Starfsábyrgðartrygging byggingarstjóra fasteignarinnar hjá stefnda sé enn í fullu gildi þar sem tímamörk hennar miðast við fimm ár eftir lokaúttekt á mannvirki því sem vátryggingartaki annaðist byggingarstjórn á og ábyrgð hans tekur til, sbr. 53. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og 5. grein starfsábyrgðartryggingar. Í 3. grein starfsábyrgðartryggingarinnar komi fram að ábyrgð vegna hvers einstaks tjónstilviks takmarkist við 5.000.000 kr. sem breytist eftir vísitölu, sbr. 11. grein tryggingarskilmálanna.
Stefnandi telur að reikna beri tjónsfjárhæð miðað við tryggingarskilmála á þeim tíma sem tjón hafi verið sannað og krafa gerð. Í framlagðri matsgerð, sem dagsett sé 7. júlí 2010 og hafi ekki verið mótmælt, sé staðfest að stefnandi hafi orðið fyrir verulegu tjóni. Stefnandi hafi krafið stefnanda um uppgjör miðað við uppreikning byggingarvísitölu janúar 2010, með vísan til 11. greinar skilmálanna, sbr. bréf stefnanda dagsett 21. október 2010. Stefndi hafi hafnað útreikningum stefnanda og reiknað bótafjárhæð miðað við byggingarvísitölu janúar 2005, og byggir á tjónsdegi 1. mars 2005. Í grein 33.2 í byggingarreglugerð komi þessi ákvæði einnig fram, þ.e. að höfuðstóll hvers tjónstilviks sé 5.000.000 kr., bundið byggingarvísitölu 229.8 að grunni. Ekki sé á neinn hátt útlistað í tryggingarskilmálum með hvaða hætti reikna eigi hvert tjónstilvik, né að einhver tiltekinn dagur í sögu byggingarinnar teljist sem ákveðið viðmið til útreiknings. Mótmælir stefnandi þeirri túlkun stefnda að miða eigi við óskilgreindan dag í mars 2005. Slík túlkun standist ekki þar sem tryggingum sé ætlað að bæta tjón þess aðila sem fyrir tjóni verði. Enn fremur bendir stefndi á að fasteignin hafi ekki verið tekin til lokaúttektar. Slík úttekt er á ábyrgð byggingarstjóra og fæst þegar byggingarfulltrúi hefur farið yfir fasteignina og engar athugasemdir eru gerðar. Ábyrgðin sé í gildi í 5 ár eftir slíka úttekt. Framkvæmd geti ekki talist lokið fyrr en við lokaúttekt.
Um lagarök vísar stefnandi til skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 411/1998, 1. mgr. 6. greinar, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, og 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda
Af hálfu stefnda er á því byggt að tjón stefnanda hafi orðið á árinu 2005. Stefndi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 skuli byggingarstjóri hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt geti af gáleysi í starfi hans. Tryggingin skuli gilda í a.m.k. 5 ár frá lokum framkvæmdar sem hann hafi stýrt. Samkvæmt 2. mgr. 33. gr. byggingarreglugerðar skuli tryggingin nema minnst 5.000.000 kr. vegna hvers einstaks tjónsatviks og heildarfjárhæð tryggingarbóta innan hvers tólf mánaða tímabils skuli nema minnst 15.000.000 kr. Fjárhæðirnar skuli miðast við byggingarvísitölu, 229,8 stig, og breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölunni. Samkvæmt 5. gr. skilmála sem gilt hafi um viðkomandi vátryggingu séu ákvæði um tímatakmörk. Fram komi, að komi afleiðingar atvika, sem tjón hefur hlotist af og gerst hafa á vátryggingartímanum, ekki í ljós fyrr en vátryggingin er fallin úr gildi, greiðir félagið samt sem áður bætur sbr. 91. gr. laga nr. 20/1954. Bætur greiðast þó ekki, ef afleiðingar koma í ljós 5 árum eftir lokaúttekt á mannvirki því, sem vátryggingartaki hafi annast byggingarstjórn á og ábyrgð hans taki til, sbr. 53. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Félagið greiði ekki bætur fyrir tjón vegna atvika, sem verði áður en vátryggingartíminn hefjist, enda þótt tjónið komi ekki í ljós fyrr en á vátryggingartímanum. Samkvæmt þessu sé ljóst að lögð sé til grundvallar svonefnd orsakaregla, það sé sú meginregla vátryggingaréttar sem gildi um ábyrgðartryggingar, að tjón sem á sér stað á vátryggingartíma er bætt, en ekki tjón sem á sér stað fyrir eða eftir vátryggingartímann. Hins vegar sé unnt að setja fram bótakröfu síðar svo lengi sem hún sé ekki fyrnd, og hvað varði starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra, séu ekki liðin meira en 5 ár frá því að lokaúttekt fór fram. Ef talið yrði að tjónið vegna þessa máls hafi átt sér stað á árinu 2010 sé því enginn bótaréttur fyrir hendi og það sem félagið hafi þegar greitt í bætur vegna málsins því ofbætt. Stefnanda bæri því eftir atvikum að snúa sér til þess vátryggingafélags sem hefði selt byggingarstjóra lögboðna starfsábyrgðartryggingu á árinu 2010.
Stefndi vekur athygli á því að iðgjald það sem greitt hafi verið fyrir vátrygginguna hafi tekið mið af þeirri vátryggingarfjárhæð sem í gildi hafi verið samkvæmt viðkomandi vátryggingarskírteini. Áhætta félagsins vegna tjóns sem verði á þessu síðasta tímabili sem vátryggingin hafi verið í gildi sé þannig afmörkuð af þessari fjárhæð en ekki fjárhæðum sem síðar hafi tekið gildi samkvæmt byggingarvísitölu á hverjum tíma. Ákvæði 2. mgr. 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 leiði ekki til þess að vátryggingarfjárhæð haldi áfram að breytast og hækka eftir að vátryggingin sé fallin úr gildi, heldur mæli eingöngu fyrir um það hver vátryggingarfjárhæð skuli vera á hverjum tíma fyrir sig fyrir gildandi vátryggingar og við endurnýjun þeirra. Vátryggingarfjárhæð sé sú fjárhæð sem tilgreind sé í vátryggingarsamningi og hagsmunir séu að hámarki vátryggðir fyrir. Vátryggingarfjárhæð tiltekins vátryggingarsamnings breytist aldrei eftir að samningi ljúki, enda séu engin lagafyrirmæli eða ákvæði reglugerða sem heimili það.
Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta og gerir athugasemd við hana. Um lagarök almennt vísar stefndi til meginreglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ákvæða byggingarreglugerðar nr. 441/1998.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um greiðslu stefnda til handa stefnanda úr starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra hjá stefnda. Stefndi gerir ekki ágreining um að stefnandi eigi rétt á bótum úr tryggingunni en telur að miða beri vátryggingarfjárhæð við byggingarvísitölu eins og hún hafi verið 1. janúar 2005 en ekki 1. janúar 2010, eins og stefnandi telur rétt.
Vátryggingarfjárhæð umræddrar starfsábyrgðartryggingar var 5.000.000 kr. í hverju einstöku tjónstilviki miðað við byggingarvísitölu með grunnvísitölu 229,8. Skyldi hún breytast 1. janúar ár hvert í hlutfalli við breytingar á þeirri vísitölu, sbr. 2. mgr. 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og 3., sbr. 11. gr. vátryggingarskilmála tryggingarinnar. Í skilmálunum kemur ekki fram með hvaða hætti eigi að reikna hvert tjónstilvik. Að mati dómsins er rétt að miða bótafjárhæðina við uppreikning byggingarvísitölu eins og hún var í janúar 2010 enda var tjón stefnanda fyrst staðfest með matsgerð það ár og honum þá unnt að gera kröfur á hendur stefnda. Önnur niðurstaða myndi leiða til þess að stefnandi þyrfti að sæta skerðingu á bótum sér til handa en umrædd fjárhæð er ekki tryggð með vöxtum frá tjónsdegi. Verður því fallist á kröfu stefnanda um að stefnda hafi borið að greiða honum 10.902.959 kr. úr starfsábyrgðartryggingunni. Fyrir liggur að stefndi sendi stefnanda matsgerð hins dómkvadda matsmanns með tölvupósti hinn 3. ágúst 2010 þar sem óskað var eftir afstöðu stefnda til bótaskyldu vegna starfsábyrgðartryggingarinnar. Í matsgerðinni er ítarlega sundurliðað hvað það myndi kosta að bæta úr göllum á fasteigninni og því unnt að líta svo á að stefndi hafi sannanlega verið krafinn með réttu um greiðslu í skilningi 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og ber því að miða upphaf dráttarvaxta við 3. september 2010. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 10.902.959 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 10.902.959 kr. frá 3. september 2010 til greiðsludags allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 7.795.762 kr. sem greidd var þann 12. október 2010.
Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 600.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Rjúpnasölum 10, húsfélagi, 10.902.959 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 10.902.959 kr. frá 3. september 2010 til greiðsludags allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 7.795.762 kr. sem greidd var þann 12. október 2010.
Stefndi greiði stefnanda 600.000 kr. í málskostnað.