Hæstiréttur íslands
Mál nr. 83/2011
Lykilorð
- Skráning
- Einkahlutafélag
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Lögvarðir hagsmunir
- Aðildarhæfi
|
|
Föstudaginn 18. febrúar 2011. |
|
Nr. 83/2011. |
Jens
Guðmundur Jensson og Seaflower Ísland
ehf. (Baldvin Hafsteinsson hrl.) gegn Björgvini
R. Kjartanssyni (enginn) Sebastes ehf. (enginn) Bjarna
Thorarensen Jónssyni og (enginn) Hamrafelli
ehf. (enginn) |
Kærumál. Einkahlutafélög. Skráning. Aðildarhæfi. Lögvarðir hagsmunir.
Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var
úrskurður héraðsdóms þar sem máli J og SÍ ehf. gegn BK, S ehf., BJ og H ehf.
var vísað frá dómi. Í málinu kröfðust J og SÍ ehf. þess annars vegar að ógiltur
yrði með dómi kaupsamningur milli S ehf. og H ehf. þar sem sá fyrrnefndi seldi
þeim síðarnefnda skipið S og hins vegar að hlutafjárhækkun í varnaraðilanum S
ehf. yrði dæmd ólögmæt og lagt fyrir fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra að færa
hlutafé félagsins aftur í fyrra horf. Í málinu lá fyrir að undir rekstri
málsins hlutaðist H ehf. til um það með tilkynningu til fyrirtækjaskrár
ríkisskattstjóra að skráð yrðu slit á S ehf. eftir heimild í 83. gr. a. laga
nr. 138/1994 um einkahlutafélög, sbr. 8. gr. laga nr. 52/2003, en á grundvelli
þessi mun félagið hafa verið afskráð. Skorti félagið því hæfi til að eiga aðild
að dómsmálum og var málinu því vísað frá héraðsdómi hvað varðar S ehf. Þar sem
málatilbúnaður J og SÍ ehf. tók ekki mið af því hvernig með málið ætti að fara
án aðildar S ehf. að málinu og ekki höfðu komið fram neinar haldbærar skýringar
á því hvernig J og SÍ ehf. gætu haft lögvarða hagsmuni af dómi um ógildingu
hlutafjárhækkunar í félagi sem ekki væri lengur til, var málinu í heild vísað
frá héraðsdómi og staðfest þar með niðurstaða hins kærða úrskurðar.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 2. febrúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið
til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í hinum kærða
úrskurði á málið rætur að rekja til þess að sóknaraðilar ásamt varnaraðilanum
Hamrafelli ehf. stofnuðu varnaraðilann Sebastes ehf.
4. maí 2006. Í stjórn síðarnefnda félagsins áttu sæti varnaraðilinn Björgvin R.
Kjartansson ásamt Ólöfu Laufeyju Sigurþórsdóttur, en varamaður var
varnaraðilinn Bjarni Thorarensen Jónsson og höfðu þessir tveir varnaraðilar
prókúruumboð. Sóknaraðilar höfðuðu málið 21. janúar 2010 gegn varnaraðilunum
öllum og kröfðust þess annars vegar að ógiltur yrði kaupsamningur 3. nóvember
2008 milli varnaraðilanna Sebastes ehf. og Hamrafells
ehf., þar sem sá fyrrnefndi seldi þeim síðarnefnda skipið Skafta HF 48, og hins
vegar að hlutafjárhækkun síðastgreindan dag í varnaraðilanum Sebastes ehf. yrði „dæmd ólögmæt“ og lagt „fyrir
fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra að færa hlutafé félagsins aftur í það horf sem
það var eða kr. 500.000.“
Fyrir liggur að undir rekstri málsins
í héraði hlutaðist varnaraðilinn Hamrafell ehf. til um það með tilkynningu til
fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra 9. apríl 2010 að skráð yrðu slit á
varnaraðilanum Sebastes ehf. eftir heimild í 83. gr.
a. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, sbr. 8. gr. laga nr. 52/2003, en á
grundvelli þess mun félagið hafa verið afskráð. Af þeim sökum og með vísan til
síðari málsliðar 1. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 skortir þetta félag orðið
hæfi til að eiga aðild að dómsmálum, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa málinu frá héraðsdómi að því er varðar
þennan varnaraðila, enda hafa sóknaraðilar ekki borið því við að atvik þessi
valdi því að aðilaskipti eigi að verða til varnar í málinu samkvæmt ákvæðum 23.
gr. laga nr. 91/1991. Dómkröfur sóknaraðila snúast sem áður segir um ógildingu
kaupsamnings þessa varnaraðila og hækkunar á hlutafé í honum. Málatilbúnaður
sóknaraðila um fyrrgreindu kröfuna tekur ekki mið af því hvernig með hana ætti
að fara án aðildar þessa varnaraðila að málinu. Af hendi sóknaraðila hafa
heldur ekki komið fram haldbærar skýringar á því hvernig þeir geti haft
lögvarða hagsmuni af dómi um ógildingu hlutafjárhækkunar í félagi, sem ekki er
lengur til. Að þessu virtu verður að vísa málinu í heild frá héraðsdómi og
staðfesta þar með niðurstöðu hins kærða úrskurðar, þar með talið ákvæði hans um
málskostnað.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2010.
Mál þetta, sem tekið var
til úrskurðar hinn 17. desember sl., að loknum munnlegum málflutningi, var
höfðað fyrir dómþinginu af Jens Guðmundi Jenssyni og Seaflower
ehf., á hendur Björgvini R. Kjartanssyni, Austurfold 4, Reykjavík, Bjarna Th. Jónssyni, Ytra- Garðshorni Dalvík, Hamrafelli ehf.,
Austurfold 4, Reykjavík, og Sebastes ehf., Austurfold
4, Reykjavík, með stefnu birtri 8. og 10. febrúar 2010.
Dómkröfur stefnenda eru
þær, að viðurkennt verði með dómi að kaupsamningur, dagsettur 3. nóvember 2008,
þar sem stefndi, Sebastes ehf., selur Hamarsfelli
ehf. skipið Skafta HF-48 skipaskrárnúmer 1337, verði dæmdur ógildur og að
hlutafjárhækkun sem framkvæmd var í félaginu Sebastes
hinn 3. nóvember 2008, þar sem hlutafé var hækkað um 200.000 krónur, verði dæmd
ólögmæt og lagt verði fyrir fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra að færa hlutafé
félagsins aftur í það horf sem það var eða 500.000 krónur.
Þá krefjast stefnendur
málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu.
Dómkröfur stefndu, Björgvins R. Kjartanssonar, Bjarna Th. Jónssonar, og Hamrafells ehf., eru þær aðallega, að
málinu verði vísað frá dómi, en til vara að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum
stefnanda auk málskostnaðar úr hendi stefnenda, þ.m.t. virðisaukaskatts á
málflutningsþóknun.
Af hálfu stefnda, Sebastes ehf., var ekki sótt þing. Málið var flutt um frávísunarkröfu stefndu hinn 17. desember
sl., og er einungis sá þáttur málsins til meðferðar hér.
Dómkröfur stefnenda í
þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfu stefndu verði hrundið en auk
þess krefjast þau málskostnaðar úr hendi stefndu.
Gætt var ákvæða
115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Málavextir eru þeir, að
með stofnsamningi sem undirritaður var hinn 4. maí sl., stofnuðu aðilar
fyrirtækið Sebastes ehf. í þeim tilgangi að hafa með
höndum eignarhald á togaranum Skafta hf.-48, sem hét áður Sléttunes
HF.-808. Stofnendur voru stefnendurnir, Seaflower á Íslandi ehf. með 40% eignarhlut, Jens Guðmundur
Jensson með 20% eignarhlut og stefndi, Hamrafell ehf., með 40% eignarhlut. Skipið var leigt Hamrafelli ehf. sem tók að
sér útgerð þess ásamt öllu viðhaldi og rekstri.
Samkvæmt leigusamningi dagsettum 23. nóvember 2006 var skipið leigt
leigutaka tímabundinni leigu frá 24. nóvember 2006 og átti hún að renna út hinn
24. nóvember 2010. Í 2. gr. samningsins
var kveðið á um það að leigusala væri óheimilt að selja skipið meðan á
leigutíma stæði. Í 4. gr. samningsins,
sem ber yfirskriftina „ástand hins leigða“ var jafnframt tekið fram að
leigutaki hefði tekið skipið út og lagt út fyrir viðgerðarkostnaði.
Samkvæmt leigusamningnum
átti leigutaki að greiða 1 krónu fyrir hvert landað kg af fiski. Stefnendur kveða að aldrei hafi verið boðað
til hluthafafundar í félaginu til þess að fara yfir stöðu mála eða rekstur
félagsins eða til að leggja fyrir félagsmenn ársreikninga þess. Á vormánuðum 2009, segjast stefnendur hafa
komist að því að gengið hafi verið frá kaupsamningi þar sem togarinn Skafti
HF.-48 hafi verið seldur leigutakanum á 48 milljónir króna. Hafi þá strax verið leitað upplýsinga frá
fyrirtækjaskrá og samkvæmt upplýsingum þaðan hafi komið í ljós, að á
hluthafafundi 28. janúar 2008 hafi verið upplýst að viðskiptaskuld leigusala
við leigutaka hafi stefnt í 40-50 milljónir króna án þess að nánari grein hafi
verið gerð fyrir því með hvaða hætti sú viðskiptaskuld hafi stofnast. Þá hafi á sama fundi verið lagt til að gengið
yrði að tilboði leigutakans um kaup á togaranum. Samkvæmt sömu upplýsingum komi fram, að á
stjórnarfundi sem haldinn hafi verið hinn 3. nóvember 2008, hafi verið samþykkt
að auka hlutafé félagsins, en öðrum hluthöfum en stefnda, Hamrafelli, ekki
gefinn kostur á að neyta forkaupsréttar að tiltölu. Stefnendur staðhæfa að þeir hafi aldrei
fengið boð um þessa fundi eða tilkynningu um að til stæði að selja skipið.
Stefnendur benda á að
stefndu, Björgvin og Bjarni, séu hvor um sig stjórnarmenn í stjórnum beggja
félaganna. Þeir hafi því haft beinan hag
af því að selja stefnda, Hamrafelli ehf. skipið, en Hamrafell ehf. sé félag í
þeirra eigu og hafi þeir því í raun verið að semja við sjálfa sig um yfirfærslu
á eignarrétti á togaranum Skafta HF. 48.
Telja stefnendur báða gerningana svo og það hvernig að ákvörðunum hafi
verið staðið vera alvarlegt brot á lögum um einkahlutafélög. Því sé þeim, sem hluthöfum í Sebastes ehf., nauðsynlegt að bera umræddar ákvarðanir
undir dómstóla og freista þess að fá báðum gerningunum hnekkt til þess að
tryggja hagsmuni sína og félagsins um áframhaldandi rekstur. Þá áskilja þeir sér rétt til að krefjast þess
að fram fari óháð rannsókn á bókhaldi og reikningum félagsins Sebastes ehf.
Í lýsingu stefndu á
málsatvikum kemur fram, að aðeins einn hluthafi félagsins Sebastes
ehf. hafi greitt félaginu hlutafé, í samræmi við stofnsamning þess, en það sé
félagið Hamrafell ehf. Hamrafell ehf.
hafi lánað félaginu Sebastes ehf. peninga til
greiðslu umsamins kaupverðs, 12.000.000 króna, við sölu skipsins Sléttaness
HF.808, síðar Skafta HF-48 frá Oson ehf. til
félagsins Sebastes ehf. Stefndu kveða stefnandann, Jens Guðmund
Jensson, hafa veitt stefnda, Björgvini Kjartanssyni, umboð. Umboðið sé dagsett 28. janúar 2007. Samkvæmt umboðinu hafi stefndi, Björgvin,
haft fullt og ótakmarkað umboð til þess að mæta á hluthafafundi í félaginu Sebastes ehf. og fara með atkvæði umboðsveitanda og gæta
hagsmuna umboðsveitanda. Þá komi fram að
allt sem Björgvin geri varðandi boðun hluthafafunda, mætingu á hluthafafundi og
meðferð atkvæða skuli vera eins og umboðsveitandi, Jens Guðmundur Jensson, hafi
það gert. Stefndi, Björgvin, hafi mætt á
hluthafafundi í félaginu Sebastes ehf. í umboði
stefnanda, Jens Guðmundar Jenssonar.
Stefndu kveða félagið
Hamrafell ehf. og Björgvin Kjartansson hafa, með umboði frá stefnanda, Jens
Guðmundi Jenssyni, ráðið 60% eignarhlut í félaginu Sebastes
ehf. á hluthafafundum. Boðun á
ofangreinda hluthafafundi hafi verið í samræmi við lög og samþykktir félagsins Sebastes ehf. og hafi hluthafinn og stefnandi, Seaflower Ísland ehf., verið boðaður á fundi með
ábyrgðarbréfum, þar sem útilokað hafi verið að ná símasambandi við forsvarsmenn
þess félags, Þorvald Jón Ottósson.
Fundarboð í ábyrgðarbréfum hafi verið send stefnanda, Seaflower á Íslandi ehf., á skráð lögheimili félagsins í
nóvember 2007 og janúar 2008.
Hluthafarnir, Hamrafell
ehf. og Björgvin Kjartansson, í umboði Jens Guðmundar Jenssonar, hafi á engan
hátt brotið gegn hagsmunum félagsins Sebastes
ehf. Engar ráðstafanir hafi verið gerðar
sem til þess hafi verið fallnar að afla stefndu ótilhlýðilegra hagsmuna á
kostnað annarra hluthafa eða félagsins.
Félagið Hamrafell ehf. hafi tapað umtalsverðum peningum á eignarhaldi á
40% eignarhluta í félaginu Sebastes ehf., sem félagið
hafi borið og sannarlega séu í reikningum félagsins, án þess að krefja aðra
hluthafa eða félagið Sebastes ehf. um endurgreiðslu
þess tjóns. Söluverð skipsins Skafta
HF-48 í nóvember 2008 hafi verið í samræmi við metið verðmæti skipsins, en
skipið hafi verið metið af löggiltum skipasala í nóvember 2008. Hafi sú matsgerð legið fyrir við sölu
skipsins.
IV
Stefnendur byggja kröfu
sína á því að þær ráðstafanir sem deilt sé um séu með öllu ólögmætar auk þess
sem að ákvörðununum hafi verið staðið með ólögmætum hætti og því beri að ógilda
þær með dómi.
Stefnendur byggja kröfu
sína um ógildingu á kaupsamningi um Skafta HF-48, á því, að þeir séu eigendur
að 60% eignarhlut í félaginu Sebastes ehf. á móti 40%
eignarhlut stefnda, Hamrafells ehf., sem jafnframt hafi verið leigutaki
skipsins. Í stjórnum félaganna hafi
setið Bjarni Thorarensen Jónsson sem stjórnarformaður í Hamrafelli ehf. og
stefndi Björgvin R. Kjartansson stjórnarmaður í Sebastes
ehf. hafi verið framkvæmdastjóri Hamrafells ehf. Meðstjórnandi í báðum félögunum hafi verið
Ólöf Laufey Sigurþórsdóttir, eiginkona stefnda, Björgvins. Vegna þessara nánu tengsla milli félaganna
hafi stefndu verið með öllu óheimilt að gera kaupsamning um togarann Skafta
HF-48, án samþykkis annarra hluthafa í félaginu Sebastes. Stefnendur hefðu aldrei samþykkt söluna þó
svo að óskað hefði verið eftir því.
Salan hafi þannig verið ákveðin af minnihluta eigenda í félaginu og án
nokkurs samráðs við meirihlutann. Benda
stefnendur í þessu sambandi á ákvæði 48. gr., 51. gr. og 52. gr. laga nr.
138/1994, um einkahlutafélög. Á
grundvelli 2. tl. 52. gr. laganna sé samningurinn
óskuldbindandi fyrir félagið enda hafi þeir er að kaupsamningnum hafi staðið
farið út fyrir þær heimildir sem stjórnarmönnum og framkvæmdastjórn séu settar
með lögum um einkahlutafélög og hafi viðsemjendum þeirra mátt vera það
ljóst.
Stefnendur hafi aldrei
verið boðaðir til hluthafafundar í félaginu til þess að ræða stöðu félagsins og
meint tilboð leigutaka um kaup á togaranum Skafta hf. Þá draga stefnendur í efa að fundur sá sem
sagður er hafa verið haldinn 28. janúar 2008 hafi farið fram. Jafnvel þótt umræddur fundur hafi verið
haldinn séu allar ákvarðanir sem þar hafi verið teknar ógildar, samkvæmt 70.
gr. laga nr. 138/1994, þar sem þær hafi verið sérstaklega til þess fallnar að
afla ákveðnum hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað stefnenda. Stefndu hafi þannig á ólögmætan hátt slegið
eign sinni á skipið en skilið skuldir vegna reksturs skipsins eftir í félaginu.
Kröfu sína um ógildingu á
hlutafjárhækkun í félaginu, sem tekin hafi verið á fundi stjórnar hinn 3.
nóvember 2008, byggja stefnendur á því að það sé eingöngu hluthafafundur sem
geti tekið ákvörðun um hækkun hlutafjár, sbr. 23. gr. laga um
einkahlutafélög. Þá segi jafnframt í 5.
gr. samþykkta félagsins að til hækkunar á hlutafé þurfi samþykki aukins
meirihluta hluthafa eða 2/3 hluta, sbr. 22. gr. samþykktanna. Þar að auki eigi hluthafar forgangsrétt að
öllum nýjum hlutum í hlutfalli við skráða hlutafjáreign sína. Ljóst sé, að umrædd hlutafjárhækkun hafi
hvorki verið borin undir hluthafafund né hafi ákvæði um forgangsrétt hluthafa
verið virt. Samkvæmt sömu rökum sé þessi
hækkun hlutafjár því með öllu ólögmæt og sé stefnendum nauðsynlegt að fá það
staðfest með dómi og hækkunina fellda úr gildi.
Stefnendur kveða
málshöfðunarfrest í máli þessu vera óháðan ákvæði 2. mgr. 71. gr. laganna en að
líta beri til ákvæða 3. mgr. 71. gr. þeirra.
Þá sé mál þetta höfðað á hendur stefndu persónulega þar sem þeir hafi
farið út fyrir heimildir sínar samkvæmt lögum og samþykktum félagsins og beri
þeim að sæta persónulegri ábyrgð á því tjóni sem athafnir þeirra kunni að hafa
bakað stefnendum.
Um lagarök vísa stefnendur
til almennra reglna félagaréttarins og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
Kröfu um málskostnað
byggja stefnendur á 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV
Stefndu byggja kröfu sína
um frávísun á því að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að þeir hafi hagsmuni af
því að fá ógiltan umræddan kaupsamning.
Ekkert liggi fyrir er bendi til þess að stefnendur hafi orðið fyrir
tjóni eða hvaða aðra hagsmuni þeir geti haft af því að fá kaupsamninginn
ógiltan, þar sem andlag kaupsamningsins sé skip, sem í janúar 2010 hafi verið
selt til niðurrifs.
Í stefnu sé í engu vikið
að því að sala skipsins Skafta HF-48 hafi verið félaginu Sebastes
ehf. til tjóns. Í stefnu sé ekki að því
vikið hvaða hagsmuni stefnendur vilji tryggja með því að ógilda umræddan
kaupsamning. Stefnandinn, Jens
Guðmundsson, hafi með stefnu afturkallað ofangreint umboð og ásamt Seaflower Íslandi ehf. geti stefnendur krafist þess með
vísan til XI. kafla laga nr. 138/1994, að boðað verði til hluthafafundar í
félaginu Sebastes ehf. Að því loknu hafi stefnendur heimild til þess
að óska eftir skipun rannsóknarmanna er leitt geti í ljós hvort ávirðingar þær
sem stefnendur saki stefndu um eigi við rök að styðjast. Eins og mál þetta sé upp byggt af stefnendum
hafi stefnendur ekki lögvarða hagsmuni af ógildingu kaupsamningsins.
Þá vísa stefndu til þess
að afsal fyrir skipinu Skafti HF-48, hafi verið gefið út 23. desember
2008. Stefnendur geri ekki kröfu til
þess í stefnu að afsal verði ógilt.
Verði því ekki séð hvaða þýðingu ógilding kaupsamnings hafi á gildi
eignarheimildar samkvæmt afsali.
Stefndu telja stefnendur
ekki hafa sýnt fram á það í stefnu að stefnendur hafi einhverja hagsmuni af
lækkun hlutafjár. Ekkert liggi fyrir í
stefnu er skýri hvaða lögvörðu hagsmuni stefnendur hafi af því að ógilda
ákvörðun um hækkun hlutafjár í félaginu Sebastes ehf.
úr 500.000 krónum í 700.000 krónur.
Félagið Sebastes ehf. sé í bókum félagsins án
eigna og án skulda og félaginu hafi verið slitið á grundvelli 83. gr. laga nr.
138/1994, um einkahlutafélög.
Í stefnu sé í engu vikið
að því að hækkun hlutafjár hafi verið félaginu Sebastes
ehf. og þar með stefnendum sem hluthöfum þess félags til tjóns, enda bendi allt
til þess að hækkun hlutafjár í félaginu og sala þeirra bréfa til félagsins Hamrafells
ehf. hafi verið gerð í þeim tilgangi að jafna út kröfur félagsins Hamrafells
ehf. á félagið Sebastes ehf., án greiðslu til
Hamrafells ehf. Stefnandi, Jens
Guðmundur, sem hafi með stefnu afturkallað ofangreint umboð og ásamt Seaflower Íslandi ehf. geti krafist þess með vísan til XI.
kafla laga nr. 138/1994 að boðað verði til hluthafafundar í félaginu Sebastes ehf. og síðan óskað eftir skipun rannsóknarmanna
er leitt geti í ljós hvort hækkun hlutafjár í félaginu hafi valdið stefnendum
tjóni. Eins og mál þetta sé lagt fyrir
sé ekkert sem bendi til þess að stefnendur hafi lögvarða hagsmuni af ákvörðun
um lækkun hlutafjár í félaginu Sebastes ehf.
Um lagarök vísa stefndu
til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, laga nr. 138/1994, um
einkahlutafélög, laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, almennra reglna
samningaréttar og laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað
byggja stefndu á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt
á málflutningsþóknun byggja stefndu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Stefnandi hafnar öllum rökum stefnda um frávísun
málsins. Kröfugerð hans
sé skýr
og klár og engir formgallar séu á málinu.
Tildrögum málshöfðunarinnar séu gerð skil í stefnu og hafi stefnendur
því lögvarða hagsmuni af að fá úr því skorið hvort stefndu hafi haft af þeim
eignir með ólögmætum hætti.
V
Í máli
þessu krefjast stefnendur þess annars vegar að ógiltur verði með dómi kaupsamningur, dagsettur 3. nóvember 2008,
þar sem einn stefnda, Sebastes ehf., seldi öðrum stefnda, Hamrafelli ehf., skipið Skafta
HF-48 og hins vegar að hlutafjárhækkun í félaginu Sebastes
um 200.000 krónur, sem ákveðin var sama dag, verði dæmd ólögmæt og lagt verði
fyrir fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra að færa hlutafé félagsins aftur í fyrra
horf. Í því skyni hafa stefnendur stefnt
tveimur fyrri stjórnarmönnum í stefnda, Sebastes ehf.
og stefnda, Hamrafelli ehf., sem og þeim félögum báðum.
Óumdeilt
er að stefndi Sebastes ehf. seldi skipið Skafta HF-48
félaginu Hamrafelli ehf., öðrum stefnda, með kaupsamningi dagsettum 3. nóvember
2008. Einnig liggur fyrir í málinu að
afsal vegna þeirra kaupa var gefið út í desember 2008. Þar sem þegar hefur verið gefið út afsal
fyrir skipinu verður ekki séð að niðurstaða um ógildingu á kaupsamningi myndi
ein út af fyrir sig leiða til málaloka um sakarefnið og yrði því ekki endir
þrætu aðila. Þá hafa stefndu haldið því
fram að í janúar 2010 hafi umrætt skip verið selt til niðurrifs. Samkvæmt því
er því andlag umdeilds kaupsamnings ekki lengur til og verður því ekki skilað
til stefnenda ef fallist yrði á að kaupin skyldu vera ógild, en krafa stefnenda
er ekki byggð á því að þeir hafi orðið fyrir tjóni vegna sölunnar. Þá verður ekki séð af málatilbúnaði stefnenda
í stefnu á hvaða grundvelli stefndu, Björgvini og Bjarna, er stefnt til að þola
ógildingarkröfu kaupsamnings milli hinna tveggja stefndu fyrirtækja, en krafa
stefnenda er ekki bótakrafa. Þegar
framangreint er virt verður því að telja að krafa stefnenda, eins og hún er
fram sett, sé í andstöðu við skilyrði 25. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr.
91/1991, um meðferð einkamála.
Þá
liggur fyrir í málinu að félaginu Sebastes ehf. var
slitið á grundvelli 83. gr. laga nr. 138/1994, og það afskráð úr
fyrirtækjaskrá. Er það félag því ekki
lengur til. Í ljósi þess, og eins og
krafa stefnenda er úr garði gerð, verður ekki séð að stefnendur hafi lögvarða
hagsmuni af því að leita niðurstöðu um að hlutafjárhækkun í félaginu á árinu
2008 hafi verið ólögmæt.
Samkvæmt
öllu framansögðu verður því fallist á kröfu stefndu, Björgvins R.
Kjartanssonar, Bjarna Th. Jónssonar og Harmafells
ehf., um að vísa beri kröfum á hendur þeim frá dómi. Þá ber með vísan til 16. gr. laga nr.
91/1991, um meðferð einkamála, að vísa
kröfum á hendur stefnda, Sebastes ehf., frá dómi ex officio.
Eftir þessari niðurstöðu
ber að úrskurða stefnendur til þess að greiða stefndu, Björgvini R.
Kjartanssyni, Bjarna Th. Jónssyni, og Hamrafelli
ehf., málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur og hefur þá ekki
verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefndu.
Málskostnaður milli aðila fellur að öðru leyti niður.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli
þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Jens
Guðmundur Jensson og Seaflower ehf., greiði in solidum stefndu, Björgvini R.
Kjartanssyni, Bjarna Th. Jónssyni, og Hamrafelli
ehf., 200.000 krónur í málskostnað.