Hæstiréttur íslands
Mál nr. 356/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 8. september 2008. |
|
Nr. 356/2008. |
Fasteigna- og fyrirtækjasalan ehf. (Ingólfur Hjartarson hrl.) gegn Geislum ehf. (Skúli Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
F kærði úrskurð héraðsdóms um að hafna kröfu hans um að honum yrði heimilað að leiða tilgreint vitni í máli G gegn F. Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp eftir að aðalmeðferð var hafin í máli aðila. Samkvæmt 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, nýtur synjun á kröfu um að leiða vitni fyrir dóm eftir að aðalmeðferð er hafin ekki kæruheimildar. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 18. júní 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að leiða Valgeir Kristinsson sem vitni í máli varnaraðila gegn sóknaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum heimilað að leiða vitnið fyrir dóm. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp eftir að aðalmeðferð var hafin í máli aðila. Samkvæmt 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför fer um meðferð kæru í máli um aðfararbeiðni eftir sömu reglum og gilda um kæru í almennu einkamáli. Í 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 eru tæmandi taldir þeir úrskurðir héraðsdóms sem kæra má til Hæstaréttar eftir að aðalmeðferð máls er hafin. Úrskurður um synjun á kröfu um að leiða vitni fyrir dóm er ekki meðal þeirra. Samkvæmt þessu nýtur ekki kæruheimildar í málinu og verður því vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, Fasteigna- og fyrirtækjasalan ehf., greiði varnaraðila, Geislum ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2008.
Í máli þessu krefst sóknaraðili, Geislar ehf., kt. 670286-1859, Smyrlahrauni 20, Hafnarfirði, þess að varnaraðili, Fasteigna- og fyrirtækjasalan ehf., kt. 421106-0370, Síðumúla 35, Reykjavík, verði ásamt öllu sem honum tilheyrir borinn út úr skrifstofuhúsnæði að Síðumúla 35, Reykjavík, eignarhluta merktur 01-0201 með fastanr. 201-5604 og sóknaraðila úrskurðuð umráð húsnæðisins.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila um útburð verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að Valgeir Kristinsson gefi skýrslu fyrir dóminum sem vitni. Lögmaður sóknaraðila mótmælir kröfunni. Krafan var tekin til úrskurðar 5. júní 2008.
Í málavaxtalýsingu sóknaraðila kemur m.a. fram að varnaraðili hafi með munnlegum leigusamningi gerðum í september 2006 tekið á leigu umrætt skrifstofuhúsnæði sem sé í eigu sóknaraðila. Upphaf leigutímans hafi verið 1. september 2006. Leigusamningnum hafi verið sagt upp þann 30. september 2007 og hafi uppsögnin verið móttekin af hálfu varnaraðila sama dag. Þetta teljist fullnægjandi uppsögn samkvæmt 3. mgr. 56. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Varnaraðili hafi átt að vera búinn að rýma húsnæðið 1. apríl 2008. Það hafi hann ekki enn gert. Því beri sóknaraðila nauðsyn að fá úrskurð um að varnaraðili skuli borinn út úr húsnæðinu.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að krafa sóknaraðila sé byggð á skriflegri uppsögn sem varamanni í stjórn varnaraðila, Valgeiri Kristinssyni, hafi verið afhent á heimili hans um kl. 23:00 þann 30. september 2007. Valgeir hafi upplýst forsvarsmann sóknaraðila, Leif Sörensen, sem kom með uppsögnina, um að hann hefði ekki umboð til að taka við henni fyrir hönd varnaraðila þó að hann tæki engu að síður við henni að ósk Leifs. Strax og stjórnarmönnum varnaraðila hafi verið kunnugt um uppsögnina hafi forsvarsmanni sóknaraðila verið gert ljóst að ekki væri litið á uppsögnina sem lögformlega rétta. Engu að síður hafi sóknaraðili ekkert gert til að endurnýja uppsögnina og töldu forsvarsmenn varnaraðila því að málið væri niður fallið. Sérstaklega þar sem deilur séu með aðilum um eignarhald að umræddu húsnæði.
Byggir varnaraðili á því að móttakandi uppsagnar sé varamaður í stjórn varnaraðila og geti ekki skuldbundið félagið nema sem þátttakandi í stjórn í stað aðalmanns.
Varnaraðili byggir kröfu sína um að vitnið, Valgeir Kristinsson, gefi skýrslu á því að hann geti borið um hina umdeildu birtingu, m.a. þá fyrirvara sem hann hafi haft uppi um að hann hefði ekki umboð til að taka við henni.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á að vitnaskýrslur sé ekki heimilar í málum um aðför sbr. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Í 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 2. mgr. 78. gr. sömu laga, koma fram veigamiklar takmarkanir á heimild til öflunar sönnunargagna við meðferð máls um aðfararbeiðni, en þar er kveðið á um að vitnaleiðslur og mats- og skoðunargerðir skuli að jafnaði ekki fara fram. Í greinargerð segir að regla þessi eigi stoð í því viðhorfi að ætlast sé til að aðfararhæfar kröfur séu það skýrar að þær þarfnist ekki stuðnings slíkra gagna. Ef brestur sé á því, beri að jafnaði að hafna um aðför, sbr. 3. mgr. 83. gr. Ástæður þær er varnaraðili færir fram fyrir kröfu sinni þykja ekki geta réttlætt að vikið verði frá þeirri meginreglu, sem fram kemur í 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, um bann við vitnaleiðslum. Verður kröfu hans þar að lútandi því hafnað.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Fasteigna- og fyrirtækjasölunnar ehf., um að honum verði heimilað að leiða Valgeir Kristinsson sem vitni í máli þessu.