Hæstiréttur íslands
Mál nr. 702/2011
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Riftun
- Endurgreiðslukrafa
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 27. september 2012. |
|
Nr. 702/2011.
|
Landsbanki Íslands hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Rekstrarfélagi verðbréfasjóða ÍV hf. og til vara Íslenskum verðbréfum hf. (Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Riftun. Endurgreiðslukrafa. Aðild.
L hf. krafðist þess að rift yrði tveimur greiðslum til R hf. sem áttu sér stað 6. október 2008, vegna greiðslu á tveimur víxlum með gjalddaga 5. nóvember sama ár, en víxlarnir voru gefnir út af L hf. Þá var þess jafnframt krafist að R hf. yrði gert að endurgreiða L hf. þá fjárhæð sem greidd hafði verið vegna víxlanna. Deildu aðilar um það hvort L hf. hefði með greiðslunum greitt skuld samkvæmt víxlunum fyrr en eðlilegt var, þannig að heimilaði riftun þeirra á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti, eða hvort hann hefði keypt víxlana af R hf. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að líta yrði svo á að L hf. hefði samið um að greiða kröfu R á hendur sér 3. október 2008 og efnt þann samning með uppgjöri 6. sama mánaðar. Á þeim tíma hefði verið um mánuður í gjalddaga kröfunnar og hefði L hf. því greitt skuld sína við R hf. fyrr en eðlilegt var. Hefði R hf. ekki leitt líkur að því að hann hefði mátt reikna með því að tilboðin stöfuðu frá öðrum en L hf. vegna hlutverks hans sem viðskiptavaka og hefði R hf. því ekki sýnt fram á að greiðsla skuldarinnar hefði við þessar aðstæður getað virst venjuleg eftir atvikum. Með vísan til þessa var krafa L hf. um riftun greiðslnanna tekin til greina. Var fjárkrafa L hf. á hendur R hf. einnig tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. desember 2011. Hann krefst þess aðallega að staðfest verði riftun á tveimur greiðslum hans 6. október 2008 til aðalstefnda Rekstrarfélags verðbréfasjóða ÍV hf. vegna Skuldabréfasjóðs ÍV, annars vegar að fjárhæð 49.297.500 krónur og hins vegar að fjárhæð 98.645.000 krónur, vegna greiðslu á víxlum að nafnverði 50.000.000 krónur og 100.000.000 krónur með gjalddaga 5. nóvember 2008, sem gefnir voru út af áfrýjanda 20. júní 2008. Þá krefst áfrýjandi þess að aðalstefnda verði gert að greiða sér 147.942.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. september 2010 til greiðsludags. Til vara gerir áfrýjandi sömu kröfur á hendur varastefnda Íslenskum verðbréfum hf. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að fjárkrafa áfrýjanda verði felld niður eða lækkuð. Að þessu frágengnu krefjast stefndu þess að dráttarvextir verði fyrst dæmdir frá uppsögu dóms Hæstaréttar, en ella frá þingfestingu málsins í héraði. Þá krefjast stefndu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi gaf áfrýjandi út víxla 20. júní 2008 í flokki, sem auðkenndur var LAIS 08 1105 með ISIN-númerinu IS000001720, á grundvelli útgefendalýsingar sem mun hafa verið birt 22. desember 2007. Við skráningu í kauphöll 15. júlí 2008 voru útgefnir víxlar samtals að nafnvirði 100.000.000 krónur og var sú fjárhæð hækkuð um 900.000.000 krónur 13. ágúst sama ár, en heildarheimild víxlaflokksins 20.000.000.000 krónur. Stóð fjárhæð útgefinna víxla óbreytt upp frá því, en gjalddagi þeirra 5. nóvember 2008. Í útgefandalýsingu kom fram að óheimilt væri að greiða eða innleysa víxlana fyrir gjalddaga, svo og að áfrýjandi væri viðskiptavaki víxlanna og bæri honum af þeim sökum að halda úti kauptilboðum í þá að fjárhæð allt að 300.000.000 krónur daglega.
Í málinu er óumdeilt að varastefndi Íslensk verðbréf hf. keypti tvo víxla í framangreindum flokki að fjárhæð 50.000.000 krónur og 100.000.000 krónur. Áfrýjandi gaf síðan út kvittanir til varastefnda, þar sem fram kemur að sá síðarnefndi hafi selt báða víxlana 3. október 2008, þann hærri fyrir 98.645.000 krónur kl. 12.21 þann dag og þann lægri kl. 14.11 fyrir 49.297.500 krónur. Samkvæmt þessum kvittunum skyldu viðskiptin gerð upp 6. október 2008 og liggur fyrir að það hafi gengið eftir. Í kvittununum kemur ekki fram hver hafi keypt víxlana, en óumdeilt er að það var áfrýjandi.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í áfrýjanda, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Áfrýjanda var síðan skipuð slitastjórn 29. apríl 2009. Með bréfi til varastefnda 16. ágúst 2010 lýsti slitastjórnin yfir riftun á greiðslu víxlanna tveggja og krafðist endurgreiðslu fjárins. Varastefndi svaraði með bréfi 7. september sama ár og taldi að riftuninni væri beint gegn röngum aðila þar sem aðalstefndi væri eigandi víxlanna. Með bréfi 17. sama mánaðar beindi áfrýjandi riftunaryfirlýsingu að aðalstefnda, sem hafnaði henni með bréfi 22. desember 2010.
II
Í málinu byggja stefndu kröfu sína um sýknu meðal annars á því að áfrýjandi sé ekki réttur aðili að málinu. Telja stefndu að skjöl, sem varða hin umdeildu viðskipti, beri með sér að þau stafi frá NBI hf., sem nú heitir Landsbankinn hf., en þar sé getið kennitölu og bankareiknings þess félags.
Í framhaldi af því að áfrýjandi var tekinn til slita 7. október 2008 voru innlendar innstæður hjá honum sem og helstu eignir hans, sem tengdust innlendri starfsemi, fluttar til nýs banka, Nýja Landsbanka Íslands hf. sem síðar fékk nafnið NBI hf., með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. sama mánaðar. Viðskiptin sem hér er fjallað um fóru fram áður en hinn nýi banki hóf starfsemi og eru engin gögn í málinu um að hann hafi tekið yfir þau réttindi á hendur stefndu, sem áfrýjandi reisir málsókn sína á. Verða stefndu því ekki sýknaðir af kröfum áfrýjanda á þeirri forsendu að hann sé ekki réttur aðili að málinu.
Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti féll aðalstefndi frá þeirri málsástæðu að hann væri ekki réttur aðili að málinu. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafði varastefndi einungis milligöngu sem verðbréfamiðlari fyrir aðalstefnda í þeim viðskiptum sem mál þetta fjallar um. Þegar af þeirri ástæðu verður varastefndi sýknaður af kröfum áfrýjanda.
III
Kröfur áfrýjanda á hendur aðalstefnda eru reistar á því að áfrýjandi hafi greitt víxilkröfurnar 6. október 2008 og þar með fyrr en eðlilegt var þar sem gjalddagi þeirra hafi ekki verið fyrr en 5. nóvember sama ár. Séu greiðslurnar því riftanlegar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Ekki er deilt um að viðskipti aðilanna fóru fram innan þessa tímafrests. Ágreiningur þeirra snýst á hinn bóginn um það hvort um hafi verið að ræða greiðslu skuldar og ef svo var hvort hún hafi virst venjuleg eftir atvikum.
Aðalstefndi byggir á því að áfrýjandi hafi ekki með fyrrgreindum ráðstöfunum greitt skuld samkvæmt víxlunum, heldur hafi áfrýjandi keypt þá af aðalstefnda. Samkvæmt skilmálum fyrir útgáfu víxlanna hafði áfrýjandi umsjón með þeim og gegndi jafnframt hlutverki viðskiptavaka, en á grundvelli þess bar honum að setja fram í kauphöll tilboð um kaup og sölu á þeim fyrir tiltekna lágmarksfjárhæð. Í skilmálunum kom fram að víxlarnir skyldu greiddir í einu lagi á gjalddaga og að hvorki væri heimilt að greiða þá né innleysa fyrir þann tíma. Með þessu hefur sýnilega verið gengið út frá því að áfrýjandi kynni að eiga viðskipti með víxlana, sem hann hafði sjálfur gefið út. Þrátt fyrir þá ráðagerð stendur engin haldbær heimild til að víkja við þessar aðstæður frá þeirri meginreglu fjármunaréttar að krafa falli niður með því að réttindi og skyldur komist á sömu hendi og getur þar engu breytt þótt áfrýjandi hefði í kjölfar kaupa á víxlunum getað stofnað á nýjan leik til skuldar með því að selja þá öðrum. Verður því að líta svo á að áfrýjandi hafi samið um að greiða kröfu aðalstefnda á hendur sér 3. október 2008 og efnt þann samning með uppgjöri 6. sama mánaðar. Á þeim tíma sem greiðsla fór fram var um mánuður í gjalddaga kröfunnar 5. nóvember 2008 og greiddi áfrýjandi því þessa skuld við aðalstefnda fyrr en eðlilegt var í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá málatilbúnaði áfrýjanda, sem lýtur að erfiðleikum fjármálafyrirtækja hér á landi og erlendis allt frá árinu 2007, svo og hvernig þeir erfiðleikar hafi ágerst þegar leið að hausti 2008. Að því er varðar áfrýjanda sérstaklega er þar getið um kröfur, sem breska fjármálaeftirlitið beindi að honum í byrjun október 2008 í tengslum við innlán í útibúi hans í Bretlandi, svo og breytingar, sem Seðlabanki Evrópu boðaði um þær mundir á skilmálum um endurhverf viðskipti við áfrýjanda, en í tengslum við þetta hefur hann meðal annars vísað til framlagðrar fundargerðar stjórnar félagsins, þar sem rætt hafi verið um erfiðleika af þessum sökum. Ekkert liggur fyrir um að aðalstefnda hafi á þeim tíma mátt vera kunnugt um þessi atriði. Til þess verður á hinn bóginn að líta að tilkynnt var 29. september 2008 að Glitnir banki hf. hafi leitað til Seðlabanka Íslands um aðstoð vegna lausafjárvanda, sem ákveðið var að bregðast við með því að íslenska ríkið legði þeim banka til aukið hlutafé gegn því að eldra hlutafé yrði fært verulega niður. Vegna starfsemi sinnar á fjármálamarkaði gat aðalstefnda ekki dulist að veruleg hætta var á að niðurfærsla hlutafjár í Glitni banka hf. gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir stöðu áfrýjanda sem lánveitanda til hluthafa í því félagi. Einnig lá fyrir að í framhaldi af ákvörðun um aðgerðir varðandi Glitni banka hf. hækkaði svonefnt skuldatryggingarálag annarra íslenskra fjármálafyrirtækja verulega á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og lánstraust þeirra fór þverrandi. Ekki síðar en 3. október 2008 var hafið áhlaup á íslenska viðskiptabanka hér á landi og erlendis með stórfelldum úttektum innstæðna á innlánsreikningum. Þótt aðalstefndi hafi þann sama dag stofnað til þeirra viðskipta, sem leiddu til greiðslu kröfu hans á hendur áfrýjanda, með því að taka í kauphöll tilboðum ótilgreinds kaupanda hefur aðalstefndi engar líkur leitt að því að hann hafi mátt reikna með því að þessi tilboð hafi stafað frá öðrum en áfrýjanda vegna hlutverks hans sem viðskiptavaka. Að þessu öllu virtu hefur aðalstefndi ekki sýnt fram á að greiðsla skuldar áfrýjanda við hann hafi við þessar aðstæður getað virst venjuleg eftir atvikum í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Verður krafa áfrýjanda um riftun greiðslnanna því tekin til greina.
Samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 skal sá sem hefur hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum. Ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfu áfrýjanda en aðalstefndi krefst þess til vara að hún verði lækkuð eða felld niður og vísar í því sambandi til 145. gr. sömu laga. Þar segir að ef sérstaklega standi á megi lækka eða fella niður kröfu á þann sem hafði hag af ráðstöfun ef greiðsla kröfunnar væri svo miklum erfiðleikum bundin að ósanngjarnt megi teljast og önnur atvik leiði til þess sama. Stefndi hefur ekki með haldbærum gögnum sýnt fram á að svo standi sérstaklega á í þessu máli að skilyrði séu til að beita undantekningarákvæði þessu og verður hann að bera hallann af því.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður fjárkrafa áfrýjanda á hendur aðalstefnda tekin til greina. Rétt er að hún beri dráttarvexti frá 17. desember 2010, en þá var liðinn mánuður frá því að áfrýjandi krafði aðalstefnda um greiðslu hennar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Aðalstefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir, en eftir atvikum er rétt að málskostnaður milli áfrýjanda og varastefnda falli niður á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Rift er greiðslum áfrýjanda, Landsbanka Íslands hf., til aðalstefnda, Rekstrarfélags verðbréfasjóða ÍV hf., 6. október 2008 annars vegar að fjárhæð 49.297.500 krónur og hins vegar 98.645.000 krónur.
Aðalstefndi greiði áfrýjanda 147.942.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. desember 2010 til greiðsludags.
Varastefndi, Íslensk verðbréf hf., er sýkn af kröfum áfrýjanda.
Aðalstefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en að öðru leyti fellur málskostnaður niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. desember 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 14. október, er höfðað með stefnu, þingfestri 3. febrúar 2011, af Landsbanka Íslands hf. í slitameðferð, kt. 540291-2259, Austurstræti 16, Reykjavík, á hendur aðallega Rekstrarfélagi verðbréfasjóða ÍV hf., kt. 491001-2080, Strandgötu 3, Akureyri, vegna Skuldabréfasjóðs ÍV sem sé deild í Verðbréfasjóði ÍV, og til vara Íslenskum verðbréfum hf., kt. 610587-1519, Strandgötu 3, Akureyri.
Dómkröfur
Gagnvart aðalstefnda krefst stefnandi þess, að staðfest verði riftun tveggja greiðslna Landsbanka Íslands hf. til aðalstefndu vegna Skuldabréfasjóðs ÍV sem átt hafi sér stað hinn 6. október 2008, annars vegar að fjárhæð 49.297.500 krónur og hins vegar að fjárhæð 98.645.000 krónur, vegna greiðslu á víxlum að nafnverði 50.000.000 krónur og 100.000.000 krónur og verið hafi með gjalddaga hinn 5. nóvember 2008 og gefnir út af Landsbanka Íslands hf. með auðkennin LAIS 08 1105 og ISIN númer IS0000017200. Jafnframt verði aðalstefnda, vegna Skuldabréfasjóðs ÍV, dæmt til að greiða stefnanda 147.942.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. september 2010 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi aðalstefnda að mati dómsins í samræmi við hagsmuni sem um sé teflt, vinnu málflytjanda og annan kostnað.
Gagnvart varastefnda krefst stefnandi þess, að staðfest verði riftun tveggja greiðslna Landsbanka Íslands hf. til varastefnda sem átt hafi sér stað hinn 6. október 2008, annars vegar að fjárhæð 49.297.500 krónur og hins vegar að fjárhæð 98.645.000 krónur, vegna greiðslu á víxlum að nafnverði 50.000.000 króna og 100.000.000 króna og verið hafi með gjalddaga hinn 5. nóvember 2008 og gefnir út af Landsbanka Íslands hf. með auðkennin LAIS 08 1105 og ISIN númer IS0000017200. Jafnframt verði varastefnda dæmt til að greiða stefnanda 147.942.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. september 2010 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi varastefndu að mati dómsins í samræmi við hagsmuni sem um sé teflt, vinnu málflytjanda og annan kostnað.
Aðal- og varastefnda krefjast bæði sýknu af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt krefjast bæði þess að dæmt verði að riftun stefnanda á tveimur greiðslum Landsbanka Íslands hf. til aðalstefnda vegna Skuldabréfasjóðs ÍV, sem átt hafi sér stað hinn 6. október 2008, annars vegar að fjárhæð 49.297.500 krónur og hins vegar að fjárhæð 98.645.000 krónur, vegna kaupa á víxlum að nafnvirði 50.000.000 króna og 100.000.000 króna, sem verið hafi með gjalddaga hinn 5. nóvember 2008 og gefnir hafi verið út af Landsbanka Íslands hf. með auðkennin LAIS 08 1105 og ISIN númer IS0000017200 sé ólögmæt og ógild.
Til vara krefjast bæði aðal- og varastefnda þess að krafa stefnanda verði felld niður eða lækkuð stórlega. Önnur varakrafa beggja er að upphafstími dráttarvaxta verði markaður við dómsuppsögu en þriðja varakrafa að upphafstíminn verði markaður við þingfestingu í héraði hinn 3. febrúar 2008.
Bæði aðal- og varastefnda krefjast málskostnaðar að mati dómsins í samræmi við hagsmuni sem um sé teflt, vinnu málflytjanda og annan kostnað, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Málavextir
Hinn 14. júlí 2008 gaf Landsbanki Íslands hf. út víxlaflokk, auðkenndan LAIS 08 1105 og með ISIN-númerinu IS0000017200. Víxilútgáfan var byggð á útgefendalýsingu sem gefin var út hinn 21. desember 2007. Víxlarnir voru gefnir út hinn 20. júní 2008 en skráðir og teknir til viðskipta í kauphöllinni hinn 15. júlí 2008. Voru útgefnir víxlar við skráningu samtals að nafnvirði eitt hundrað milljónir króna en heildarheimild víxlaflokksins tuttugu milljarðar króna. Hinn 13. ágúst 2008 var víxlaútgáfan hækkuð um 900 milljónir króna og skráð stærð víxlaflokksins í kauphöll að nafnvirði einn milljarður króna frá þeim degi til gjalddaga, sem samkvæmt skilmálum verðbréfalýsingar var 5. nóvember 2008.
Í útgefendalýsingu víxilflokksins segir að ekki sé heimilt að greiða upp víxlana fyrir skráðan gjalddaga. Jafnframt kemur fram í lýsingunni að Landsbanki Íslands hf. sé viðskiptavaki víxlanna og felist í því hlutverki að bankinn setji kaup- og sölutilboð í víxlana í kauphöll fyrir opnun markaða. Skuli bankinn almennt setja nýtt tilboð fram innan tíu mínútna frá því tilboði hefur verið tekið.
Varastefnda, Íslensk verðbréf hf., var skráður kaupandi að hlutum í víxlaútgáfunni, en félagið keypti tvo víxla, annan að fjárhæð fimmtíu milljónir króna en hinn að fjárhæð eitt hundrað milljónir króna.
Í málinu liggja fyrir tvö yfirlit um viðskipti með umrædda víxla varastefnda Íslenskra verðbréfa hf. Á fyrra segir að Íslensk verðbréf hf. hafi selt víxil að nafnvirði eitt hundrað milljónir króna og hafi söluverð verið 98.645.000 krónur. Dagsetning viðskipta er sögð 3. október 2008, tími viðskiptanna klukkan 12:21, en dagsetning uppgjörs 6. október 2008. Á síðara yfirlitinu segir að Íslensk verðbréf hf. hafi selt víxil að nafnvirði fimmtíu milljónir króna og hafi söluverð verið 49.297.500 krónur. Dagsetning viðskipta er sögð 3. október 2008, tími viðskiptanna klukkan 14:11, en dagsetning uppgjörs 6. október 2008. Aðila greinir á um eðli þessara viðskipta. Stefnandi segir að mánudaginn 6. október hafi Landsbanki Íslands greitt upp skuldir við Íslensk verðbréf hf. samkvæmt víxlunum og hafi greiðslurnar verið „færðar í búning kaupa á víxlunum þar sem ekki [hafi verið] komið að gjalddaga þeirra.“ Á kvittunum hafi viðskiptadagur verið tilgreindur sem 3. október. Stefndu mótmæla bæði því að viðskiptin hafi farið fram mánudaginn 6. október og segja þau hafa farið fram föstudaginn 3. október, klukkan 12:21 og 14:11. Hafi þau átt sér stað með svokölluðu T+1 kerfi, en í því felist að viðskipti eigi sér stað á tilteknum degi en séu gerð upp með sjálfvirku greiðslujöfnunarkerfi næsta bankadag.
Í málinu liggja fyrir reglur Verðbréfaskráningar Íslands, dagsettar 4. júlí 2008. Í grein 4.1.3. segir að í lok viðskiptadags sendi Verðbréfaskráning Íslands, í umboði viðkomandi reikningsstofnunar, greiðslufyrirmæli inn í greiðslukerfið til Reiknistofu bankanna. Reiknistofan setji greiðslufyrirmælin á bið fram á næsta dag og séu þau skráð sem fyrstu færslur þann dag. Í grein 4.1.4. segir að þegar greiðsluuppgjör hafi verið staðfest að morgni fyrir klukkan níu, færi Verðbréfaskráningin rafbréf milli svonefndra VS-reikninga, sem eru skrár um lokafærslur reikningseiganda yfir rafbréfi í verðbréfamiðstöð, enda hafi greiðslufyrirmæli vegna þeirra verið skráð í greiðslukerfið.
Í málinu liggur fyrir riftunaryfirlýsing, dagsett 16. ágúst 2010, frá slitastjórn Landsbanka Íslands til Íslenskra verðbréfa hf. Segir þar að rift sé „greiðslum á skuld bankans við Íslensk verðbréf hf. sem fram fóru þann 3. október 2008 annars vegar að fjárhæð kr. 49.297.500 og hins vegar að fjárhæð kr. 98.645.000“, og er jafnframt krafizt endurgreiðslu 147.942.500 króna. Með bréfi dagsettu 7. september 2010 höfnuðu Íslensk verðbréf hf. riftunaryfirlýsingunni. Segir í bréfinu að riftuninni sé beint að röngum aðila en Skuldabréfasjóður ÍV, verðbréfasjóður rekinn af Rekstrarfélagi verðbréfasjóða ÍV, hafi verið eigandi bréfanna. Sá sjóður hafni öllum málsástæðum bankans og er tekið fram í bréfinu að ekki hafi verið greidd skuld heldur hafi farið fram viðskipti með verðbréf. Með bréfi dagsettu 17. nóvember beindi slitastjórn Landsbanka Íslands hf. sambærilegri riftunaryfirlýsingu að Skuldabréfasjóði ÍV. Með bréfi dagsettu 22. desember 2010 hafnaði Skuldabréfasjóður ÍV riftuninni. Var riftunaryfirlýsingin sögð vera án viðhlítandi stoðar, svo sem yrði rökstutt fyrir dómstólum ef á reyndi.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Rétt þykir að geta þess hér, að í málavaxtalýsingu sinni segir stefnandi meðal annars að upp úr miðju ári 2007 hafi hafizt lausafjárkreppa á fjármálamörkuðum í heiminum. Upphaf hennar hafi mátt rekja til þess að svokölluð undirmálslán til fasteignakaupa í Bandaríkjunum hafi verið talin mun minna virði en áður hefði verið haldið. Á árinu 2008 hafi ástandið á erlendum og íslenzkum fjármálamörkuðum farið versnandi og hafi staða Landsbanka Íslands hf. og flestra annarra íslenzkra fjármálafyrirtækja verið orðin mjög alvarleg sökum hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu þegar liðið hafi á árið. Hinn 29. september hafi verið tilkynnt að ríkisstjórn Íslands og helztu hluthafar Glitnis banka hf. hefðu gert með sér samning um yfirtöku ríkisins á 75% hlutafjár bankans. Með þeirri aðgerð hafi verið reynt að mæta lausafjárþörf bankans þar sem allar leiðir til lánsfjáröflunar íslenzku bankanna hafi verið lokaðar. Hafi þetta haft í för með sér að virði eignarhluta annarra hluthafa í bankanum hafi rýrnað verulega frá skráðu markaðsvirði. Stærsti eigandi Glitnis banka hf., FL Group hf. og fleiri tengdir aðilar, hafi verið stórir lántakendur í Landsbanka Íslands hf. Ljóst hafi verið að þetta myndi hafa veruleg áhrif á stöðu fjármálafyrirtækja í landinu. Á fundi bankaráðs Landsbanka Íslands hf. hinn 29. september 2008 hafi verið rætt um að þetta hafi haft neikvæð áhrif á eigið fé bankans. Þá hafi komið fram á fundinum að leita þyrfti allra skynsamlegra leiða til að treysta og styrkja eiginfjárstöðu hans. Hafi legið fyrir að bankinn uppfyllti ekki þær kröfur sem til hans væru gerðar um stöðu eiginfjárgrunns. Síðdegis hinn 3. október hafi fjármálaeftirlit Bretlands gert kröfu um að bankinn greiddi Englandsbanka 400 milljónir punda að morgni mánudagsins 6. október til að auka við varasjóð vegna reikninga hans þar. Á sama tíma hafi Seðlabanki Evrópu tilkynnt breytingar á skilmálum í endurhverfum viðskiptum. Fyrir breytinguna hafi Landsbankinn átt 400 milljónir evra upp á að hlaupa hjá Seðlabanka Evrópu en breytingar hafi hins vegar leitt til þess að bankinn þurfti að leggja Seðlabanka Evrópu til 400 milljónir evra. Samtals hefðu þessar breytingar haft í för með sér að lausafjárþörf bankans hafi aukizt um 800 milljónir evra. Sunnudaginn 5. október hafi hins vegar legið fyrir að Seðlabanki Evrópu hefði frestað því að gera kröfu um 400 milljón evra fyrirgreiðslu en hafi haldið til streitu að lækka fyrirgreiðslu sína um 400 milljónir evra. Brezka fjármálaeftirlitið hafi lækkað kröfu sína en hafi áfram krafizt 200 milljóna punda. Eini möguleiki Landsbankans til að fjármagna slíka kröfu hafi verið að leita hennar hjá Seðlabanka Íslands. Helgina 4. og 5. október hafi beiðnir um úttektir af reikningum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi, svonefndum Icesave-reikningum, aukizt verulega. Hafi tölvukerfi sem tók við beiðnunum ekki haft undan og hafi orðið að loka heimasíðu reikninganna og þar með fyrir úttektir. Vegna skorts á erlendum gjaldeyri hinn 6. október hafi ekki verið unnt að greiða út allar beiðnir um úttektir sem safnazt hefðu um helgina. Við upphaf viðskipta mánudaginn 6. október hafi legið fyrir að Landsbanki Íslands hf. fengi ekki hjá Seðlabanka Íslands þá fjármuni sem hann hefði þurft til að mæta kröfu fjármálaeftirlits Bretlands. Hafi bankinn þá ekki getað staðið við skuldbindingar sínar og verið ógjaldfær við upphaf viðskipta þessa viðskiptadags. Upp úr hádegi þann dag hafi verið boðað að þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, myndi flytja ávarp til þjóðarinnar kl. 16:00. Í ávarpinu hafi verið formlega tilkynnt um yfirvofandi hrun bankakerfisins og að lagt yrði fyrir Alþingi frumvarp að lögum til að bregðast við hinum bráða og aðsteðjandi vanda. Frumvarpið hafi verið lagt fram síðar þann dag og hafi orðið að lögum nr. 125/2008 um kvöldið.
Stefnandi segir að við slit fjármálafyrirtækis ráðstafi slitastjórn hagsmunum þess eftir sömu reglum og gildi um bústjórn skiptastjóra við gjaldþrotaskipti samkvæmt 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laganna geti slitastjórn rift ráðstöfunum fjármálafyrirtækis í slitameðferð eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti enda sé sýnt að eignir fyrirtækisins muni ekki nægja til að efna skuldbindingar þess. Fyrir liggi að stefnandi geti ekki efnt að fullu skuldbindingar sínar við kröfuhafa sína svo sem fram hafi komið á kröfuhafafundi stefnanda hinn 23. nóvember 2009 í samræmi við fyrirmæli í 5. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009.
Stefnandi segir að slitastjórn Landsbanka Íslands hf. lýsi yfir riftun gagnvart stefndu á þeim tveimur greiðslum sem stefnandi hafi innt af hendi til stefndu hinn 6. október 2008 og sé þess krafizt að dómurinn staðfesti riftunaryfirlýsingar og fjárkröfur sem sendar hafi verið stefndu með tveimur bréfum, dagsettum 16. ágúst og 18. nóvember 2010. Séu dómkröfur stefnanda aðallega byggðar á því að Landsbanki Íslands hf. hafi hinn 6. október 2008 greitt skuld við stefndu fyrr en eðlilegt hafi verið, þar sem framangreindar víxlakröfur hafi verið greiddar fyrir gjalddaga. Samkvæmt skilmálum víxlaútgáfunnar hafi gjalddagi hennar verið 5. nóvember 2008 og telji stefnandi greiðslurnar því riftanlegar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991. Vísi stefnandi þessu til stuðnings til dóma Hæstaréttar í málum nr. 162/2010 og 163/2010.
Stefnandi segist beina kröfu sinni að Rekstrarfélagi verðbréfasjóða ÍV vegna Skuldabréfasjóðs ÍV. Varastefnda, Íslensk verðbréf hf., hafi verið skráður eigandi og seljandi víxlanna í viðskiptunum sem hafi átt sér stað og jafnframt tekið við greiðslunum. Varastefnda Íslensk verðbréf hf. hafi vísað til þess að Skuldabréfasjóður ÍV hafi í raun átt víxlana og að Íslensk verðbréf hf. hafi aðeins komið að viðskiptunum sem verðbréfamiðlari. Samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 beri þeim, sem haft hafi hag af ráðstöfun, að greiða stefnanda ávinninginn. Krafan á hendur aðalstefndu sé byggð á því að Skuldabréfasjóður ÍV hafi haft allan hag af ráðstöfuninni. Greiðslurnar hafi numið alls 147.942.500 krónum og sé kröfugerð miðuð við að auðgun Skuldabréfasjóðsins hafi numið samanlagðri fjárhæð greiðslnanna og beri því aðalstefnda, Rekstrarfélagi verðbréfasjóða ÍV vegna Skuldabréfasjóðs ÍV að endurgreiða þá fjárhæð. Krafa stefnanda sé sett fram á hendur varastefnda, Íslenskum verðbréfum hf., þar sem félagið hafi verið skráður eigandi víxlanna og viðtakandi greiðslnanna. Þyki stefnanda því nauðsynlegt að stefna Íslenskum verðbréfum hf. til vara, verði krafan á hendur aðalstefnda ekki talin réttmæt. Aðalstefnda hafi stofnað og reki Verðbréfasjóð ÍV á grundvelli laga nr. 30/2003. Verðbréfasjóður ÍV sé starfræktur í tveimur aðskildum sjóðsdeildum með heimild í 13. gr. laganna. Í ákvæðinu komu jafnframt fram að hver sjóðsdeild sé með aðgreindan fjárhag innan rekstrarfélags og að hver sjóðsdeild beri ábyrgð á skuldbindingum sínum. Hvorki Verðbréfasjóður ÍV né sjóðsdeildin Skuldabréfasjóður ÍV séu sjálfstæðir lögaðilar og sé því rétt að stefna Rekstrarfélagi verðbréfasjóða ÍV hf. vegna skuldabréfasjóðs ÍV sem sé deild í Verðbréfasjóði ÍV.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á lögum nr. 21/1991, einkum 134. gr. laganna. Undir rekstri málsins féll stefnandi frá málsástæðum sem byggðar voru á 131. og 141. gr. laganna. Kröfu um málskostnað kvaðst stefnandi byggja á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 en vegna kröfugerðar aðallega á hendur aðalstefnda en til vara á hendur varastefnda sé vísað til 2. mgr. 19. gr. laganna. Málið sé rekið hér fyrir dómi með heimild í 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök aðalstefnda Rekstrarfélags verðbréfasjóða ÍV hf. og varastefnda Íslenskra verðbréfa hf.
Sami lögmaður flutti mál þetta fyrir aðal- og varastefnda og eru málsvarnir beggja í stórum dráttum hinar sömu. Verða þær til einföldunar raktar sameiginlega en þess sem á milli ber getið sérstaklega þar sem það á við.
Bæði stefndu segjast hafna öllum málsástæðum stefnanda og mótmæla þeim sem ýmist röngum eða ósönnuðum. Séu stefndu ekki aðilar að málinu og beri þess vegna að sýkna þau. Verði ekki fallizt á þetta sé teflt fram efnislegum vörnum. Sé því hafnað algerlega sem ósönnuðu að ljóst hafi mátt vera að stefnandi væri ógjaldfær þegar viðskiptin hafi átt sér stað. Sé mótmælt sem ósönnuðum fullyrðingum að nokkuð hafi legið fyrir um ógjaldfærni stefnanda fyrr en langt hafi verið liðið á 6. október 2008.
Bæði stefndu segjast telja að sýkna eigi sig vegna aðildarskorts og veilu sem sé í málsgrundvelli stefnanda. Stefnandi hafi lagt fram skjöl sem beri með sér að vera greiðsluviðurkenning af reikningi sem sé í eigu NBI hf., kt. 471008-0280, „Nýja Landsbanka Íslands“. Vísi skjölin á bankareikning nr. 0100-26-010600, sem sé í eigu NBI hf. Af þeim sökum verði að telja með öllu ósannað að stefnandi hafi innt af hendi þær greiðslur sem krafizt sé riftunar á. Enn síður verði ráðið af gögnum málsins að stefnandi sé réttur aðili málsins. Engra gagna njóti við sem sýni stefnanda eiga þá hagsmuni sem hann byggi málatilbúnað sinn á. Umræddar greiðsluviðurkenningar beri alls ekki með sér að stafa frá stefnanda heldur beri firmamerki NBI hf., en stefnandi noti gerólíkt merki. Beri því að sýkna.
Bæði stefndu segjast vera rangur aðili til varnar í málinu og eigi að sýknast vegna aðildarskorts. Réttara hefði verið að stefna Verðbréfasjóði Íslenskra verðbréfa eða Skuldabréfasjóði ÍV. Samkvæmt lögum nr. 30/2003 sé verðbréfasjóður sjóður með starfsleyfi á hinu evrópska efnahagssvæði og gefi út hlutdeildarskírteini eða hlutabréf. Verðbréfasjóður sé í eigu sjóðsfélaga eða hlutdeildarskírteinishafa, sbr. 14. gr. laga nr. 30/2003. Skuldabréfasjóður ÍV sé deild í Verðbréfasjóði ÍV, sbr. 13. gr. laga nr. 30/2003. Hver sjóðsdeild beri ábyrgð á skuldbindingum sínum, þó deildir beri óskipta ábyrgð á sameiginlegum kostnaði þeirra. Einstakar sjóðdeildir eigi því réttindi og beri skyldur samkvæmt landslögum og séu aðildarhæfar. Breyti þar engu hvort sjóðdeildin hafi sérstaka kennitölu eða ekki, enda sé slíkt auðkenni hvorki nauðsynlegt né nægjanlegt skilyrði þess að njóta aðildarhæfis. Í 1. mgr. 18. gr. eldri laga nr. 20/1989 hafi verið sérstætt ákvæði þar sem sjálfstætt aðildarhæfi verðbréfasjóða hafi að verulegu leyti verið útilokað. Á grundvelli þeirrar reglu hafi máli verið vísað frá dómi í hæstaréttarmáli nr. 1989:1624. Í lögum nr. 10/1993 um verðbréfasjóði hafi hins vegar verið horfið frá þessari skerðingu aðildarhæfis og í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga hafi meðal annars verið sagt að felldar væru brott takmarkanir þágildandi kaga að því er varði aðild verðbréfasjóðs að dómsmálum. Af þessu verði ráðið að stefndu eigi ekki aðild að máli þessu. Verði fallizt á kröfu stefnanda eignist hann aðfararhæfa kröfu á hendur stefndu og geti gengið að hvaða eign þess sem stefnandi kjósi. Sé það í andstöðu við ákvæði laga nr. 30/2003 og fái þessi túlkun stoð með gagnályktun frá 16. gr. laganna. Auk þessa tekur varastefnda Íslensk verðbréf hf. fram að það sé verðbréfafyrirtæki og starfi á grundvelli starfsleyfis Fjármálaeftirlitsins. Starfsheimildir félagsins nái samkvæmt því meðal annars til þess að miðla fjármálagerningum fyrir viðskiptavini sína. Í því tilviki sem stefna og riftunaryfirlýsing lúti að hafi atvik verið þannig að eigandi bréfanna hafi haft samband við verðbréfamiðlara félagsins og óskað eftir því að hann „seldi fyrir sig inn á kauptilboð sem sett hafði verið fram í viðskiptakerfi kauphallarinnar í umrædd skuldabréf eða víxla.“ Eigandi bréfanna hafi verið Skuldabréfasjóður ÍV, deild í Verðbréfasjóði ÍV sem rekinn sé af Rekstrarfélagi verðbréfasjóða ÍV.
Bæði stefndu segja að stefnandi byggi mál sitt ekki á 135. gr. laga nr. 21/1991, en það sé sérregla um riftun víxilgreiðslna. Sýna verði fram á að undantekningarskilyrðum greinarinnar sé fullnægt til að unnt sé að rifta greiðslu á víxli. Með því að ekki sé byggt á þeirri lagagrein eða málsástæðum sem henni tengist beri að sýkna aðalstefnda enda sé það á ábyrgð stefnanda að afmarka málsgrundvöll.
Bæði stefndu segja stefnanda byggja á því, að með kaupum á víxlunum hafi stefnandi greitt skuld við stefndu fyrr en eðlilegt hafi verið, þar sem kröfurnar hafi verið greiddar fyrir gjalddaga. Vísi stefnandi hér til 134. gr. laga nr. 21/1991. Þessu segjast bæði stefndu mótmæla, en skilyrði greinarinnar séu ekki uppfyllt. Fyrir þeirri skoðun telja bæði stefndu fram nokkurar ástæður. Í fyrsta lagi séu engin gögn í málinu um að stefnandi hafi greitt fyrir víxlana. Í öðru lagi hafi ekki verið um að ræða greiðslu á skuld. Í skilmálum verðbréfalýsingar komu fram að óheimilt sé að greiða víxlana upp fyrir gjalddaga. Þetta verði að skoðast í samhengi við 11. gr. laga nr. 93/1993 þar sem berum orðum sé gert ráð fyrir því að unnt sé að framselja víxil til greiðanda og útgefanda. Þessir aðilar geti svo framselt víxilinn aftur. Þegar litið sé til þess að um sé að ræða markaðsvíxil sem skráður sé í kauphöll, gagngert til að unnt sé að eiga með hann viðskipti fyrir gjalddaga, og að stefnandi hafi verið með viðskiptavakt á víxlunum, þá sé ekki með nokkuru móti hægt að segja að skuld hafi verið greidd með því að stefnandi hafi keypt víxilinn á markaði samkvæmt tilboði sem hann sjálfur hafi haft frumkvæði af því að setja fram á markaði föstudaginn 3. október 2008. Í þriðja lagi, verði talið að stefnandi sé réttur aðili málsins og að hann hafi með greiðslu greitt skuldina fyrir gjalddaga, hafi ekki verið um að ræða greiðslu sem með nokkuru móti geti talizt óeðlileg eftir atvikum. Stefndu hafi ekki getað gert ráð fyrir því að greiðsla, kaup markaðsvíxils á markaði, þar sem tekið hefði verið kauptilboði í viðskiptakerfi kauphallarinnar, hafi verið á nokkurn máta óvenjuleg. Þvert á móti hafi hún ekki getað talizt annað en venjuleg eftir atvikum. Sé til þess að líta að í kauphallarkerfinu komi ekki fram hver mótaðili í viðskiptunum sé og hafi stefndu ekki getað vitað að það hafi verið stefnandi. Allt að einu hefði tilboð stefnanda verið venjulegt þar eð hann hafi haft viðskiptavakt á bréfunum og í alla staði venjulegt að frá honum kæmi tilboð um kaup víxlanna. Séu skilyrði riftunar því ekki fyrir hendi. Greitt hafi verið fyrir víxlana með peningum. Sé það hinn venjulegi greiðslumáti í kauphallarviðskiptum. Þá liggi fyrir að fjárhæðir þessa máls séu ekki slíkar að viðskiptin hafi skert greiðslugetu stefnanda verulega. Samkvæmt verðbréfalýsingu hafi stefnandi skuldbundið sig til að halda úti viðskiptavakt fyrir allt að þrjú hundruð milljónir króna á hverjum degi, eða um tvöfalda þá upphæð sem hér sé deilt um. Önnur viðskipti þennan dag, ef fallizt verði á að viðskipti á reikningi NBI hf. samkvæmt gögnum málsins, séu greinilega langt yfir þessum mörkum, svo ljóst megi vera að viðskipti þessa máls hafi ekki ein og séð getað skert greiðslugetu stefnanda. Þá megi líta til yfirlýsinga stefnanda sjálfs um fjárhagsstöðu sína, sem liggi fyrir í málinu. Þá segjast stefnu byggja á því, verði talið að í kaupunum hafi falizt greiðsla á víxli, að sú greiðsla hafi verið á ábyrgð stefnanda sjálfs, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga nr. 93/1933. Hafi stefnandi þar ekki við annan að sakast en sjálfan sig.
Stefndu segjast byggja á því, að ekki hafi verið um greiðslu á víxli að ræða, enda beri málavextir ekkert slíkt með sér. Stefnandi hafi sett fram tilboð sem kauptilboð á víxli undir nafnverði, enda hefði ekki þurft að afhenda víxilinn að öðrum kosti vegna ákvæða 39. gr. laga nr. 93/1933, heldur hefði verið gefin út greiðsluviðurkenning vegna hlutagreiðslu.
Þá segja bæði stefndu að réttaráhrif viðskipta aðila miðist við 3. október 2008. Sé alls ósannað að stefnandi hafi þá verið ógjaldfær. Bæði þá og svo einnig þegar viðskiptin hafi verið gerð upp hinn 6. október, hafi bankinn verið í rekstri og sleitulaust unnið að því að bjarga honum frá falli. Þá segja stefndu að tilgangur aðila hafi ekki verið sá að stefndu auðguðust á þeim, hvorki þegar þau hafi átt sér stað né þegar þau hafi verið gerð upp. Ósannað sé að stefnandi hafi haft ásetning um að gefa stefndu nokkura fjármuni, eingöngu hafi verið um viðskiptagerning að ræða.
Eins og áður segir féll stefnandi frá þeim málsástæðum sem hann hafði stutt við 131. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Þykir því ekki ástæða til að rekja sérstaklega öll þau sjónarmið stefndu sem vissu að þeim.
Stefndu segjast bæði byggja varakröfu sína á 145. gr. laga nr. 21/1991. Væri í alla staði ósanngjarnt að gera þeim að endurgreiða þá fjármuni sem krafizt sé í málinu. Skuldabréfasjóður ÍV sé sjóður um sameiginlega fjárfestingu sjóðfélaga. Innlausnarkrafa sjóðfélaga hafi verið tilefni víxilsölunnar. Vegna þeirra reglna er um sjóðinn hafi gilt hafi sjóðnum borið að verða við þeirri kröfu. Mótteknir fjármunir hafi þegar verið greiddir til þess eða þeirra aðila sem innleyst hafi hlutdeildarskírteini sín og gangi sá eða þeir skaðlausir frá borði. Aðalstefnda segir að verði það dæmt til greiðslunnar verði það á kostnað þeirra sjóðfélaga sem ekki höfðu innleyst skírteini sín, en varastefnda Íslensk verðbréf hf. segir, að verði það dæmt til greiðslunnar geti félagið ekki aflað þess fjár hjá fyrrum sjóðfélögum, Skuldabréfasjóði ÍV, eða öðrum aðilum, og muni stefnandi þá hagnast með óréttmætum hætti á kostnað varastefnda, sem ekki hafi notið fjármunanna. Segir hvort um sig, aðalstefnda og varastefnda, að niðurstaðan að því er það varðar yrði svo ósanngjörn að rétt væri að beita 145. gr. laga nr. 21/1991 og fella kröfuna niður.
Þá segja bæði stefndu að til þess sé að líta að með því að stefnandi hafi sett kauptilboð í viðskiptakerfi kauphallarinnar hafi hann sjálfur tekið áhættuna af því að viðskiptin reyndust arðbær. Ósanngjarnt væri að núverandi sjóðfélagar, sem ekki hafa haft hag af ráðstöfuninni, þurfi að þola skerðingu endurgreiðslna sinna vegna hagsmuna stefnanda. Sé og til þess að líta að umkrafðir fjármunir séu smámunir í „búmassa“ stefnanda og muni í raun ekki hafa nein áhrif á endurheimtur kröfuhafa stefnanda. Sé því fullt tilefni til að beita lækkunarreglu 145. gr. laga nr. 21/1991 að fullu.
Bæði stefndu segjast gera þá þrautavarakröfu að upphafstími dráttarvaxta verði við dómsuppsögu. Riftunaryfirlýsing hafi ekki verið send fyrr en 17. nóvember 2010 og dómsmál ekki höfðað fyrr en með þingfestingu stefnu hinn 3. febrúar 2011. Þá sé svo mikill vafi um greiðsluskyldu að ótækt sé að verða við greiðslukröfunni og því síður hægt að greiða hana með fyrirvara þar sem stefnandi sé þrotabú og ógjaldfært og ekki fært um að endurgreiða ofgreidda fjármuni.
Bæði stefndu segjast byggja málskostnaðarkröfu sína á reglum XXI. kafla laga nr. 19/1991. Þar sem hvorugt sé virðisaukaskattskylt sé báðum nauðsynlegt að fá tildæmdan virðisaukaskatt á málskostnað úr hendi stefnanda.
Verða nú rakin skýrsla og framburður fyrir dómi eftir því sem ástæða þykir til.
Jón Helgi Pétursson, framkvæmdastjóri stefnda Rekstrarfélags verðbréfasjóða ÍV, sagðist hafa tekið ákvörðun um sölu umræddra víxla. Viðskiptavinur sem hefði átt fé í sjóði hefði farið fram á innlausn hinn þriðja október og félaginu borið að verða við því innan sólarhrings og losa hefði þurft um eignir til að mæta innlausninni. Beinast hefði þá legið við að „losa bankavíxla“, sem yfirleitt hefðu verið nýttir til skammtímafjárfestinga enda verið auðseljanlegir. Hefðu, að því er vitnið minnti, verið seldir víxlar þriggja aðila, Landsbankans og tveggja annarra. Vitnið kvaðst engin samskipti hafa átt við Landsbankann um kaup og kjör vegna víxlasölunnar. Þegar vitnið hefði komið til vinnu um morguninn hefði því verið skýrt frá innlausnarbeiðninni og „á þinginu“ hefði það séð kauptilboð í víxlana og þá haft samband við miðlara og beðið þá um að selja víxlana. Eftir þetta hefði vitnið orðið að hverfa af vinnustaðnum af persónulegum ástæðum.
Vitnið sagði að verðbréf sem þessi væru keypt og seld á markaðinum en gerð upp í gegnum nær alsjálfvirkt greiðslukerfi næsta virkan dag. Væru baktryggingar fyrir hendi ef greiðsla brygðist. Viðskiptin með víxlana hefðu komizt á hinn þriðja október og hvorki kaupandi né seljandi hefðu eftir það getað horfið frá þeim. Ekki hefði verið annað eftir en „uppgjörsferli“.
Vitnið sagði að Íslensk verðbréf hf. hefðu aldrei haft peninga vegna víxilsölunnar til eigin ráðstöfunar. Félagið hefði eingöngu verið miðlari í viðskiptunum. Hefðu Íslensk verðbréf hf. aðild að kauphöllinni en Rekstrarfélagið ekki.
Vitnið Kjartan Þórólfsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum hf., kvaðst hafa sett inn tilboð um víxlakaup í kauphöllina, vegna viðskiptavaktar Landsbankans á eigin víxlaútgáfu. Hefði vitnið sett tilboðin inn við opnun viðskipta að morgni föstudagsins þriðja október og hefðu Íslensk verðbréf hf. gengið að þeim um klukkan tólf og aftur eftir hádegið. Íslensk verðbréf hf. hefðu ekki haft neitt frumkvæði að því að tilboðin hafi verið sett fram heldur einfaldlega tekið boðum sem bankinn hefði sett fram á kauphöllinni. Viðskiptin hefðu verið eðlileg og hver sem hefði haft aðgang að kauphöllinni hefði getað gengið að tilboðunum. Verðið á víxlunum hefði verið miðað við markaðsvexti í krónum en ekki með hliðsjón af skuldatryggingaálagi bankans í erlendri mynt. Vitnið hefði haft samráð við þá starfsmenn fjárstýringar bankans sem hefðu séð um „lausafjárstýringu í krónum“, þegar tilboðsverðið hefði verið ákveðið.
Þegar ákvörðun hefði verið tekin um viðskiptin hinn þriðja október færu þau „inn í uppgjör verðbréfaskráningar þann sjötta“. Vitnið kvaðst ekki vita nákvæmlega hvernig bakvinnsla bankans stæði að framkvæmd þessa, en kvaðst álíta að einhver yrði að framkvæma greiðsluna hinn sjötta en hún gerðist ekki fullkomlega sjálfvirkt. Ef engin fyrirmæli kæmu frá yfirmönnum um að framkvæma hana ekki, þá yrði hún hins vegar framkvæmd. Sjálft hefði vitnið engin fyrirmæli gefið varðandi þessi viðskipti og enginn annar yfirmaður sem vitnið vissi um.
Vitnið sagði að með viðskiptum sem þessum hefði bankinn keypt til baka eigin útgáfu og yrðu víxlarnir eftir það til í bókum bankans. Aðrir hefðu svo getað keypt þá aftur af bankanum allt fram að gjalddaga. Ekki hefðu verið mikil viðskipti á eftirmarkaði með bréfin og Landsbankinn verið sá eini sem „var með viðskiptavakt á þetta“. Mjög lítil viðskipti hefðu verið í kring um þá viðskiptavakt.
Vitnið var spurt um mat sitt á virði krafna á hendur Landsbankanum hinn 6. október. Kvaðst vitnið ekki hafa vitað betur en „að bankinn væri í góðu standi“ og vitnið hefði haft „engar betri upplýsingar en svo að sú krafa sem við værum að sýna væri eðlileg, sú ávöxtunarkrafa.“
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og fleira má krefjast riftunar greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamanns verulega, nema greiðslan hafi virzt venjuleg eftir atvikum. Stefnandi byggir kröfur sínar í máli þessu á þessari lagagrein, sbr. 103. gr. laga nr. 161/2002 svo sem henni hefur verið breytt með 7. gr. laga nr. 44/2009.
Ekki er deilt um að þær greiðslur, sem málið snýst um, voru inntar af hendi innan þess tímamarks sem áskilið er í 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi byggir á því að með greiðslum þessum hafi Landsbanki Íslands hf. hinn 6. október 2008 greitt skuld við stefndu fyrr en eðlilegt hafi verið, þar sem víxilkröfurnar hafi verið greiddar fyrir gjalddaga, sem var 5. nóvember sama ár. Segir stefnandi að greiðsla skuldarinnar hafi verið „[færð] í búning kaupa á víxlunum“.
Það er meginregla í íslenzkum fjármunarétti að krafa fellur niður komist réttindi og skyldur vegna hennar á sömu hendi. Verður ekki talið að öðruvísi skuli líta á mál hér, þrátt fyrir að Landsbanki Íslands hf. muni út af fyrir sig hafa getað stofnað að nýju til sambærilegrar skuldar með því að selja aftur þá sömu víxla sjálfs sín sem hann hafði keypt. Verður í þeim skilningi að líta svo á, að með greiðslum sínum fyrir víxlana hafi bankinn greitt að fullu víxilskuld sína samkvæmt þeim.
En þó þetta hafi verið ein afleiðing þeirra gerninga sem mál þetta snýst um, er ekki þar með sagt að þessi fjármunaréttarlega niðurstaða hafi verið tilgangur gerninganna. Eins og áður greinir segir stefnandi að hér hafi verið á ferð greiðsla á skuld sem hafi verið færð í búning kaupa. Þykir þetta verða að skiljast svo, að stefnandi telji að tilgangur greiðslnanna hafi verið að greiða skuld bankans, en sú greiðsla verið færð í annan búning þar sem gjalddagi víxlanna hafi enn verið ókominn. Fyrir því verður stefnandi að bera sönnunarbyrðina. Að mati dómsins hefur ekkert komið fram í málinu sem gefi til kynna að tilgangur aðila, annars eða beggja, hafi verið sá að annað hvort stefndu skyldi fá fullnustu krafna sinna á hendur bankanum og þá hugsanlega á kostnað annarra kröfuhafa hans. Ekkert er komið fram um samskipti aðila fyrir gerninganna, annað en það að bankinn hafi sett tilboð á kauphöllina, í samræmi við skyldu sína sem viðskiptavaki víxlanna, og þeim tilboðum hafi verið tekið, svo sem rakið hefur verið. Að mati dómsins er ekki komið fram að neitt hafi verið óeðlilegt við að bankinn uppfyllti föstudaginn þriðja október þá skyldu sína sem viðskiptavaki víxlanna að senda tilboð í þá á kauphöllina. Ekki er annað komið fram en að bankinn hafi þá verið í fullum rekstri og þykir nær að telja að það hefði verið óeðlilegt af honum að sinna ekki þeirri skyldu sinni að setja fram tilboð í víxlana umræddan morgun. Þá þykir ljóst að gengið hafi verið að tilboðinu þann dag og viðskiptin þá orðið bindandi fyrir aðila, þó uppgjör færi fram næsta bankadag. Ekkert þykir komið fram sem bendi til þess að fyrir aðilum hafi vakað að komast fram hjá gjalddaga víxilsins eða því ákvæði að ekki mætti greiða víxlana upp fyrir gjalddaga. Það ákvæði þykir verða að skýra í ljósi þess að bankinn, útgefandi víxlanna, var viðskiptavaki þeirra og hafði þar með þá skyldu að setja fram dagleg kauptilboð í víxlana, en eins og áður segir verður að líta svo á, að í hvert sinn sem bankinn keypti víxil til baka samkvæmt samþykktu slíku boði, hafi hann í raun greitt víxilskuld sína. Þykja atvik hér ekki sambærileg við atvik sem komu til skoðunar í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 162/2010 og 163/2010, að því leyti að þau þóktu hafa miðað að því að lánardrottinn fengi forgangsrétt sem hann ella hefði ekki notið gagnvart hliðstæðum lánardrottnum og hefðu þannig leitt til tjóns. Þykir hér ekki hafa verið gert sennilegt að slíkt hafi vakað fyrir aðilum. Þykir dóminum sem boð Landsbanka Íslands hf. inn á kauphöll um kaup víxlanna hafi verið eðlilegt, enda bankinn í fullum rekstri og með skyldur sem viðskiptavaki, og að ekki hafi verið leitt í ljós að nokkuð hafi verið óeðlilegt við þá ákvörðun að ganga að boðinu.
Greiðslur fóru fram mánudaginn 6. október. Var bankinn þá í fullum rekstri en Fjármálaeftirlitið tók vald hluthafafundar hans ekki í sínar hendur fyrr en 7. október, en lög nr. 125/2008 öðluðust gildi hinn 7. október 2008.
Ljóst má vera, að hefði Landsbanki Íslands hf. að morgni mánudagsins 6. október ekki staðið við samþykkt kauptilboð sitt frá föstudeginum um fyrrgreind víxilkaup, hefði traust til hans beðið verulegan hnekki og allar tilraunir til að bjarga rekstri hans orðið mun þyngri í vöfum ef þá mögulegar. Ljóst er að samkomulag tókst um kaup víxlanna föstudaginn 3. október og bar að greiða þá mánudaginn 6. október í gegnum það greiðslukerfi sem lýst hefur verið. Þann dag var bankinn í rekstri. Þykir dóminum sem telja verði að slík greiðsla í greiðslukerfinu, samkvæmt hinum samþykktu kaupum, hafi verið eðlileg. Þykir ekki hafa verið sýnt fram á í málinu að skilyrði séu uppfyllt til að umræddum greiðslum verði rift með afli 134. gr. laga nr. 21/1991. Eins og áður hefur komið fram féll stefnandi frá þeim málsástæðum sem byggðar voru á 131. og 141. gr. sömu laga og í ljósi framanritaðs verða stefndu því sýknuð af kröfum stefnanda í máli þessu. Stefnandi verður dæmdur til að greiða hvoru stefndu 564.750 krónur í málskostnað og hefur þá verið litið til skyldu þeirra til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Fyrir stefnanda fór með málið Jóhannes Sigurðsson hæstaréttarlögmaður en fyrir stefndu Ólafur Rúnar Ólafsson héraðsdómslögmaður. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Aðalstefnda og varastefnda, Rekstrarfélag verðbréfasjóða ÍV hf. og Íslensk verðbréf hf., eru sýkn af kröfum stefnanda, Landsbanka Íslands hf. í slitameðferð, í máli þessu.
Stefnandi greiði aðalstefnda og varastefnda 564.750 krónur í málskostnað hvoru.