Hæstiréttur íslands
Mál nr. 612/2009
Lykilorð
- Áfrýjun
- Áfrýjunarfrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 3. júní 2010. |
|
Nr. 612/2009. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Áfrýjun. Áfrýjunarfrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Bréf X þar sem hann lýsti þeirri ákvörðun sinni að áfrýja dómi á hendur sér til Hæstaréttar barst ríkissaksóknara að liðnum fjögurra vikna fresti til áfrýjunar frá birtingu dómsins, sbr. 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. október 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að málinu verði vísað frá Hæstarétti.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 16. janúar 2009, en birtur ákærða 17. september sama ár. Í birtingarvottorði, sem ákærði undirritaði, segir: „Framanskráður dómur er birtur mér í dag. Ég hef tekið við leiðbeiningum um rétt til áfrýjunar og áfrýjunarfrest tek áfrýjunarfrest.“ Samkvæmt 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal ákærði „lýsa yfir áfrýjun héraðsdóms í bréflegri tilkynningu sem berast verður ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins“. Geymi lagaákvæði fyrirmæli um tiltekinn frest sem ákveðinn er í vikum, ber að skýra það þannig að fresturinn renni út við lok sama vikudags og hann hófst, sjá dóm Hæstaréttar 15. júní 2000 í máli nr. 90/2000. Með bréfi til ríkissaksóknara 15. október 2009 lýsti ákærði þeirri ákvörðun sinni að áfrýja héraðsdómi fyrir sitt leyti. Bréfið barst ríkissaksóknara 16. október 2009. Þá var áfrýjunarfrestur liðinn. Verður máli þessu því vísað frá Hæstarétti.
Þar sem starfsmönnum embættis ríkissaksóknara yfirsást við móttöku bréfs ákærða að áfrýjunarfrestur var liðinn er rétt að leggja allan kostnað af áfrýjun málsins á ríkissjóð eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2009.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 15. júlí 2008 á hendur:
,,X, kennitala [...],
[...], Reykjavík,
Y, kennitala [...],
[...], Reykjavík,
Z, kennitala [...],
[...], Mosfellsbæ, og
Þ, kennitala [...],
[...], Reykjavík
A.
Á hendur ákærða X fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins [...], kennitala [...], sem ákærði X var starfandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður fyrir með því að hafa:
1. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd félagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl til og með nóvember-desember rekstrarárið 2005 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna tímabilanna janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2005, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 9.064.700, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Uppgjörstímabil:
|
Vantalin skattskyld velta: |
Vangoldinn VSK: |
|
Árið 2005 janúar-febrúar mars-apríl maí-júní júlí-ágúst september-október nóvember-desember
Samtals: |
kr. 200 kr. 10.949.856 kr. 14.038.850 kr. 10.056.125 kr. 8.462.900 kr. 12.111.494
kr. 55.619.425 |
kr. 1.072.428 kr. 2.066.880 kr. 1.916.824 kr. 1.703.933 kr. 1.555.201 kr. 749.434
kr. 9.064.700 |
B.
Á hendur ákærðu öllum fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins [...], kennitala [...], sem ákærði X var stjórnarformaður fyrir frá 12.07.2007 og framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrir frá 06.09.2006, ákærði Y var stjórnarformaður fyrir frá 06.09.2006 til 12.07.2007, ákærði Z var stjórnarmaður fyrir frá 06.09.2006 til 12.07.2007 og ákærði Þ var stjórnarmaður fyrir frá 12.07.2007, með því að hafa:
1. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd félagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar og mars-apríl rekstrarárið 2007 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna sömu tímabila, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 1.762.346, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Uppgjörstímabil:
|
Vangoldinn VSK: |
|
|
Árið 2007 janúar-febrúar mars-apríl Samtals:
|
kr. 155.025 kr. 1.607.321
kr. 1.762.346 |
|
2. Eigi staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna febrúar, mars, apríl, og maí rekstrarárið 2007, ákærðu X og Þ einnig vegna júlí 2007, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna sömu tímabila, samtals að fjárhæð kr. 3.329.370, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Greiðslutímabil: |
Vangoldin staðgreiðsla |
|
|
Árið 2007 |
|
|
|
febrúar |
kr. 717.999 |
|
|
mars |
kr. 536.668 |
|
|
apríl |
kr. 631.665 |
|
|
maí |
kr. 763.575 |
|
|
júlí |
kr. 679.463 |
|
|
|
|
|
|
Samtals: |
kr. 3.329.370 |
|
Framangreind brot ákærðu samkvæmt A-hluta og 1. og 2. tölulið B-hluta ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:
a) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar A-hluta og 1. tölulið B-hluta ákæru.
b) 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 2. tölulið B-hluta ákæru.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.“
Framhaldsákæra var gefin út 4. september 2008, þar sem leiðrétt var dagsetning stjórnarsetu ákærða Þ sem um getur í inngangi B kafla ákæru, en ákærði Þ var stjórnarmaður [...] frá 06.09.2006 en ekki frá 12.07.2007 eins og segir í upphaflegri ákæru.
Verjandi ákærðu X og Þ krefst aðallega sýknu vegna beggja ákærðu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Verjandi ákærða Y krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og málsvarnarlauna að mati dómsins.
Verjandi ákærða Z krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og málsvarnarlauna að mati dómsins.
Ákæruliður A, 1.
Ákærði X kvaðst hafa verið starfandi framkvæmdastjóri og stjórnarformaður [...] á þeim tíma sem í þessum ákærulið greinir. Hann kvað virðisaukaskattskýrslum vegna uppgjörstímabilanna mars til apríl og nóvember til desember 2005 ekki hafa verið skilað á réttum tíma. Engin sérstök ástæða hafi verið þar að baki.
Ákærði neitar að hafa ekki skilað innheimtum virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilanna janúar til febrúar til og með nóvember til desember 2005, eins og ákært er fyrir. Ákærði kvað innheimtum virðisaukaskatti hafa verið skilað.
Niðurstaða ákæruliðar A, 1.
Sannað er með játningu ákærða og með öðrum gögnum málsins að ákærði var starfandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins [...] þann tíma sem hér um ræðir og ber hann ábyrgð sem slíkur. Sannað er með játningu ákærða og með öðrum gögnum málsins að virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna mars til apríl til og með nóvember til desember 2005 var ekki skilað á lögmæltum tíma. Þá er sannað að hluta með játningu ákærða og með öðrum gögnum málsins að öðru leyti að innheimtum virðisaukaskatti vegna tímabilanna sem hér um ræðir var ekki skilað á lögmæltum tíma.
Háttsemi ákærða varðar við þau lagaákvæði sem í ákærunni greinir.
Við sektarákvörðun vegna háttsemi í þessum ákærulið er tekið mið af því að greiddur hefur verið verulegur hluti innheimts virðisaukaskatts fyrir önnur tímabil en hið síðasta sem lýst er í ákærunni.
Ákæruliður B, 1 og 2.
Ákærði X kvað lýsingu á stöðu sinni hjá [...] rétt lýst í þessum ákærulið. Hann kvað alla fjóra ákærðu hafa komið að stjórn fyrirtækisins. Þeir hefðu sameiginlega ákveðið á vikulegum fundum hvernig staðin yrðu skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Ákærði kvaðst ekki hafa borið undir meðákærðu eða kynnt þeim efni skýrslna hverju sinni en hann hefði talið að meðákærðu hefðu verið meðvitaðir um það sem gerðist hjá fyrirtækinu á þessum tíma. Meðákærðu hefðu þannig vitað um fjárhæðir í hvert sinn. Ákærði X lýsti því að ástæða þess að virðisaukaskattsskýrslum var ekki skilað, eins og lýst er í ákærunni, hafi verið erfiðleikar í rekstri fyrirtækisins. Það væru sín mistök að skila ekki inn virðisaukaskattsskýrslum. Skýrslum hafi hins vegar verið skilað inn síðar og virðisaukaskattur að fullu greiddur.
Ákærði X kvað sömu ástæðu og varðandi virðisaukaskattsskýrslur, eða erfiðleika í rekstri fyrirtækisins, liggja að baki þess að skilagreinum var ekki skilað eins og ákært er útaf. Sömu rekstrarerfiðleikar ollu því að ekki voru staðin skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda. Skilagreinum hafi hins vegar verið skilað síðar og samkomulag gert um greiðslu afdreginnar staðgreiðslu.
Ákærði Y kvað lýsingu í þessum ákærulið rétta en kvaðst gera fyrirvara um fjárhæðir.
Tekin var skýrsla af Y hjá lögreglunni 9. apríl 2008. Þá kvað hann meðákærða X hafa annast allt sem laut að daglegum rekstri félagsins og meðákærðu Z og Þ hefðu hvorugur annast þau mál eða komið að ákvörðunum um fjármál og eða skattskil félagsins þann tíma sem hér um ræðir.
Ákærði Z kvað lýsinguna í þessum ákærulið rétta en gerði fyrirvara varðandi fjárhæðir. Hann neitar hins vegar sök á þeim forsendum að hann hafi einungis verið stjórnarmaður en ekki annast daglegan rekstur og fjármálastjórn. Hann kvaðst hafa annast verkstjórn í járnavinnu en framkvæmdastjóri, meðákærði X, hefði annast daglegan rekstur. Ákærði kvaðst hafa verið í stjórn í því skyni að annast verkstjórnina og taka ákvarðanir um verk sem fyrirtækið vann. Er hann kom inn í fyrirtækið hefði hann tekið skýrt fram að hann ætlaði hvorki að annast né sjá um nein peningamál hjá fyrirtækinu og því hefði hann ekki haft afskipti af þeim. Ákærði kvað skattskil ekki hafa verið rædd á vikulegum fundum sem haldnir voru. Fundirnir hefðu verið um verk sem unnin voru og aldrei hefði verið rætt um þau málefni félagsins sem leiddu til ákærunnar. Hann kvað sér fyrst hafa verið kunn vanskil skömmu áður en hann fór úr stjórn fyrirtækisins.
Ákærði Þ kvaðst hafa verið stjórnarmaður í [...] eins og lýst er í ákærunni að teknu tilliti til breytinga sem fram komu í framhaldsákæru. Ákærði neitar sök og vissi ekki hvort virðisaukaskattsskýrslum, skilagreinum eða fjárhæðum hefði verið skilað. Skilja mátti á framburði ákærða svo að neitun hans byggist á því að hann hefði ekki annast daglega fjármálastjórn fyrirtækisins. Ákærði kvaðst hafa setið í stjórn [...] frá 6. september 2006, til 18. október 2007 en fjármálastjórn fyrirtækisins hefði verið í höndum meðákærðu X og Y. Ákærði kvað skyldur sínar hjá fyrirtækinu hafa verið að annast verkstjórn úti við. Ákærði kvað vikulega fundi hafa verið haldna hjá fyrirtækinu, þar hafði aðallega verið rædd verk sem fyrirtækið vann.
Niðurstaða ákæruliðar B 1 og 2.
Ákærðu Þ og Z hafa báðir neitað sök á þeirri forsendu að hvorugur hafi annast daglega fjármálastjórn og ekki tekið ákvarðanir sem lúta að sakarefninu sem í þessum kafla ákæru greinir. Meðákærði Y hefur borið efnislega á sama veg um þetta hjá lögreglu en hann kom ekki fyrir dóm undir aðalmeðferð málsins. Þrátt fyrir að ákærðu Z og Þ hafi á þeim tíma sem hér um ræðir, gagnvart hvorum um sig, verið stjórnarmenn [...] hefur ákæruvaldið ekki, gegn neitun þeirra, sannað að þeir hafi annast ráðstöfun fjármuna og þar með skattskilin sem lýst er í ákærulið B 1 og B 2. Hið sama á við um skil virðisaukaskattsskýrslna og skil á skilagreinum, en ákærði X kvað það hafa verið sín mistök að skila ekki skýrslunum. Fram hefur komið í málinu að þetta hafi verið í verkahring ákærða X og Y. Ekki nægir til sakfellingar ákærðu Z og Þ að þeir hafi setið í stjórn félagsins. Áskilið er að þeir hafi haft með þau mál að gera hjá félaginu sem mál þetta fjallar um, þ.e. ákvarðanir um fjármál og skil vörsluskatta og afdreginnar staðgreiðslu. Sjá í þessu sambandi hæstaréttarmálið nr. 392/2006. Að þessu virtu er, gegn neitun ákærða Z og Þ, ósannað að þeir hafi gerst sekir um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og eru þeir báðir sýknaðir.
Sannað er með framburði X og Y og með öðrum gögnum málsins að þeir hafi gerst sekir um háttsemina sem í þessum ákæruliðum greinir og eru brot ákærða X rétt færð til refsiákvæða í ákærunni. Brot ákærða Y varða við sömu lagaákvæði, utan að brot hans þykja ekki stórfelld og varða þau því ekki við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði X hefur ekki áður sætt refsingu. Refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsivistarinnar skilorðsbundið eins og í dómsorði greinir.
Dæma ber ákærðu X og Y til sektargreiðslu. Vísað er til sjónarmiða sem rakin voru við A-lið ákæru um innágreiðslur sem teljast verulegur hluti fjárhæðar sem ákært er vegna og áhrif þeirra við sektarákvörðun. Í B-lið ákæru hefur verið greiddur verulegur hluti virðisaukaskatts vegna tímabilsins mars til apríl 2007, og er tekið mið af ofanrituðu við sektarákvörðun í samræmi við dómvenju. Ákærði Y gekk úr stjórn [...]12. júlí 2007 og verður hann því ekki sakfelldur fyrir vangoldna staðgreiðslu vegna júlímánaðar. Við sektarákvörðun er tekið mið af afdreginni staðgreiðslu vegna ákærðu X og Y í samræmi við dómaframkvæmd og sú fjarhæð dregin frá brotaandlagi. Að þessu virtu þykir sektarrefsing ákærða X hæfilega ákvörðuð 5.755.000 krónur og komi 3 mánaða fangelsi í stað sektarinnar. Ákærði Y greiði 2.190.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 2 mánaða fangelsi í stað sektarinnar.
Ákærði X greiði Sigmundi Hannessyni hæstaréttarlögmanni 311.250 krónur í málsvarnarlaun en þóknunin er fyrir vinnu verjandans undir rannsókn málsins og dómsmeðferð.
Ákærði Y greiði Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni 249.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ríkissjóður greiði 217.875 króna málsvarnarlaun til Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, verjanda ákærða Z, og 124.500 króna málsvarnarlaun til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Þ.
Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar til verjenda.
Eyjólfur Ármannsson fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærðu, Z og Þ, eru sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði X greiði 5.755.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 3 mánaða fangelsi í stað sektarinnar.
Ákærði Y greiði 2.190.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 2 mánaða fangelsi í stað sektarinnar.
Ákærði X greiði Sigmundi Hannessyni hæstaréttarlögmanni 311.250 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Y greiði Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni 249.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ríkissjóður greiði 217.875 króna málsvarnarlaun til Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, verjanda ákærða Z, og 124.500 króna málsvarnarlaun til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Þ.