Hæstiréttur íslands
Mál nr. 772/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Gagnaöflun
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Föstudaginn 13. desember 2013. |
|
Nr. 772/2013. |
Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari) gegn X og Y ehf. (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Gagnaöflun. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X og Y ehf. um að ákæruvaldinu yrði gert að afla nánar tiltekinna upplýsinga. Kærunni var vísað frá Hæstarétti þar sem úrskurðurinn sætti ekki kæru samkvæmt 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2013, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að lagt yrði fyrir sóknaraðila að afla nánar tiltekinna tölulegra upplýsinga. Í kærunni er ekki vísað til kæruheimildar. Varnaraðili krefst þess að úrskurðinum verði hrundið og lagt fyrir sóknaraðila að afla greindra upplýsinga.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Samkvæmt p. lið 1. mgr. 192. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sætir kæru til Hæstaréttar úrskurður héraðsdómara um skyldu til að láta af hendi sönnunargagn til framlagningar í máli eða hald til að fylgja þeirri skyldu eftir. Þetta ákvæði tekur samkvæmt orðanna hljóðan til gagna sem þegar eru fyrir hendi. Krafa varnaraðila lýtur á hinn bóginn að því að lögregla eða ákæruvald taki saman tilteknar upplýsingar í þágu meðferðar sakamálsins sem höfðað hefur verið gegn honum. Úrskurður þess efnis sætir ekki kæru eftir fyrrgreindri heimild eða öðrum stafliðum 1. mgr. 192. gr. laganna, sbr. dóma Hæstaréttar 21. nóvember 2012 í máli nr. 692/2012 og 4. apríl 2013 í máli nr. 220/2013. Kæruheimild er því ekki fyrir hendi og verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2013.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 25. nóvember 2013, höfðaði sérstakur saksóknari með ákæru 10. maí 2013 á hendur:
„X, kt. [...], [...], [...] og Y ehf., kt. [...], [...], [...], fyrirsvarsmaður X, kt. [...] fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum,
X sem stjórnarmaður einkahlutafélagsins Y, kt. [...], [...] [...], með því að hafa:
1. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar febrúar rekstrarárið 2009 til og með nóvember desember rekstrarárið 2010, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni, vegna uppgjörstímabilanna janúar febrúar rekstrarárið 2009 til og með maí júní rekstrarárið 2010 og september október og nóvember desember rekstrarárið 2010, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 18.634.669, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Árið 2009 |
|
|
janúar febrúar |
kr. 442.319 |
|
mars apríl |
kr. 1.210.575 |
|
maí - júní |
kr. 1.454.949 |
|
júlí ágúst |
kr. 1.147.195 |
|
september október |
kr. 1.220.404 |
|
nóvember desember |
kr. 1.208.767 |
|
|
kr. 6.684.209 |
|
Árið 2010 |
|
|
janúar febrúar |
kr. 687.716 |
|
mars apríl |
kr. 1.778.287 |
|
maí - júní |
kr. 3.665.728 |
|
júlí ágúst |
kr. -10.260 |
|
september október |
kr. 1.895.548 |
|
nóvember desember |
kr. 3.933.441 |
|
|
kr. 11.950.460 |
|
Samtals: |
kr. 18.634.669 |
2. Látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald einkahlutafélagsins, rekstrarárin 2009 og 2010.
Framangreind brot ákærða X samkvæmt ákæru teljast varða við 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:
a) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.
b) 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, að því er varðar 2. tölulið ákæru.
Framangreind brot ákærða Y ehf. samkvæmt ákæru teljast varða við:
a) 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.
b) 40. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, að því er varðar 2. tölulið ákæru.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Í þinghaldi 29. ágúst sl. lagði verjandi ákærðu fram bókun, sbr. dómskjal nr. 7, þar sem hann skoraði á ákæruvaldið að upplýsa eftirfarandi atriði:
„1. Hversu margir einstaklingar og lögaðilar notfærðu sér þau úrræði er skuldurum virðisaukaskatts, staðgreiðslu opinberra gjalda o.fl. voru gefin samkvæmt lögum nr. 24/2010?
2. Hversu margir af þeim sem notfærðu sér úrræði laganna stóðu við greiðslur eins og um var samið?
3. Hversu margir af þeim sem notfærðu sér úrræði laganna hafa verið ákærðir fyrir að skila ekki skýrslum á réttum tíma til innheimtumanns ríkissjóðs eða fyrir vanskil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þeirra tímabila sem úrræðin tóku til?
4. Hversu margir einstaklingar og lögaðilar voru í vanskilum með virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda þegar lög nr. 24/2010 voru sett og hversu há voru vanskil hvers og eins?
5. Hversu margir af þeim sem voru í vanskilum þegar lög nr. 24/2010 voru sett hafa verið ákærðir fyrir meint brot sín?“
Í þinghaldi 2. október sl. lýsti sækjandi því yfir að ekki yrði orðið við áskorun verjanda, enda teldi ákæruvaldið umrædd atriði ekki hafa þýðingu fyrir málið. Gerði verjandinn þá kröfu, með vísan til 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að dómari legði fyrir sækjanda að afla hinna umbeðnu gagna. Var því mótmælt af hálfu sækjanda og var málið flutt um þann ágreining 25. nóvember sl.
Ákærðu, sem í þessum þætti málsins eru varnaraðilar, krefjast þess að dómari leggi fyrir sækjanda að afla upplýsinga er fram koma í bókun á dómskjali nr. 7. Varnaraðilar byggja kröfu sína á því að við málsvörn þeirra skipti máli að aðilar, sem nýttu sér ívilnandi úrræði samkvæmt lögum nr. 24/2010 um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, hafi í raun verið í svipaðri stöðu og ákærðu. Þar með hafi ákærðu ekki notið jafnræðis á við aðra í sambærilegri stöðu. Slíkt hafi áhrif á refsinæmi verknaðar þeirra og eftir atvikum ákvörðun refsingar. Varnaraðilum sé því þörf á umræddum gögnum til að þeir geti hagað vörnum sínum í málinu með fullnægjandi hætti. Vísa þeir í þessum efnum jafnframt til 65. gr. stjórnarskrárinnar og 7. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Sérstakur saksóknari, sem í þessum þætti málsins er sóknaraðili, krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Byggir hann afstöðu sína á því að beiðni varnaraðila um gagnaöflun tengist úrræði samkvæmt lögum nr. 24/2010, en ekkert liggi fyrir um að varnaraðilar hafi sjálfir nýtt sér það úrræði, enda sé því ekki haldið fram af hálfu varnaraðila. Umrædd lög geti þar með ekki haft áhrif á refsinæmi verknaðar varnaraðila í þessu máli. Hin umbeðna gagnaöflun sé því þýðingarlaus fyrir úrlausn málsins.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 er rannsókn sakamáls í höndum lögreglu nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum. Er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi, sbr. 53. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laganna leggja aðilar síðan fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem þeir vilja að tekið sé tillit til við úrlausn máls. Frumkvæðisskylda dómara við öflun sönnunargagna er að íslenskum rétti verulega takmörkuð og sú undantekning ein gerð í 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 að dómara er unnt að beina því til ákæranda að afla gagna til að upplýsa mál eða skýra ef það verður talið nauðsynlegt. Styðst þetta við þau grunnrök að það er ákæruvaldsins að sýna fram á sekt ákærðu og verður skynsamlegur vafi í þeim efnum metinn ákærðu í hag, sem aftur getur leitt til sýknu í máli, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Með samsvarandi hætti er það ákærðu að benda á veikleika í málatilbúnaði ákæruvaldsins, meðal annars að því er framlögð gögn varðar, sem kann þá að leiða til skynsamlegs vafa í málinu.
Í þessum þætti málsins krefjast varnaraðilar þess að dómari leggi fyrir sóknaraðila að afla umfangsmikilla tölulegra upplýsinga um stöðu annarra en þeirra sjálfra. Krafan á rætur að rekja til þess sjónarmiðs varnaraðila að við málsvörn þeirra skipti máli að aðilar, sem hafi nýtt sér ívilnandi úrræði samkvæmt lögum nr. 24/2010 um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, hafi í raun verið í svipaðri stöðu og varnaraðilar. Þar með hafi varnaraðilar ekki notið jafnræðis á við aðra í sambærilegri stöðu. Slíkt hafi áhrif á refsinæmi verknaðar þeirra og eftir atvikum ákvörðun refsingar. Að mati dómsins verður ekki annað séð en að verjandi geti við málsvörn varnaraðila byggt á sjónarmiðum sínum varðandi lög nr. 24/2010 óháð því hvort umræddra tölulegra upplýsinga verður aflað eður ei. Hafa varnaraðilar þar með ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að þær upplýsingar, sem þeir fara fram á að dómari leggi fyrir sóknaraðila að afla, geti haft þýðingu við málsvörn varnaraðila, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 9. nóvember 2012 í máli nr. 670/2012. Verður kröfu varnaraðila því hafnað.
Arnaldur Hjartarson, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu varnaraðila, X og Y ehf., um að lagt verði fyrir sækjanda að afla þeirra upplýsinga sem farið er fram á í bókun verjanda, sbr. dómskjal nr. 7.