Hæstiréttur íslands
Mál nr. 157/2005
Lykilorð
- Skilasvik
- Hlutdeild
- Skilorð
|
Nr. 157/2005. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson)gegn X (Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) Y (Jón Magnússon hrl.) |
Skilasvik. Hlutdeild. Skilorð.
X og lögmaðurinn Y voru ákærð fyrir skilasvik með því að hafa gert fjárnám í fasteign í eigu X á grundvelli tryggingarvíxils að fjárhæð 5.000.000 krónur, þó að krafa Y á hendur X og eiginmanni hennar væri mun lægri. Var í ákæru talið að með þessu hefðu þau skert rétt þrotabús eiginmanns X til að öðlast fullnustu af andvirði fasteignarinnar á grundvelli dóms Hæstaréttar frá […]2002 en þar var X dæmd til að greiða þrotabúinu tiltekna fjárhæð. Upplýst var að greiðsluáskorun, birtingarvottorð og aðfararbeiðni höfðu verið útbúin á vegum Y eftir að dómurinn féll en að með hagræðingu dagsetninga hefði verið látið líta út fyrir að þau væru frá fyrri tíma. Þá þótti sannað að krafa Y vegna vinnu í þágu X og eiginmanns hennar hefði að hámarki getað numið 1.457.375 krónum. Var talið að X hefði skert rétt lánardrottins síns til að öðlast fullnægju af fasteign hennar með málamyndagerningi um þá fjárhæð er nam mismuninum á fjárhæð víxilsins og þeirri fjárhæð, sem Y gat krafið hana um vegna vinnu í þágu hennar og eiginmanns hennar, með því að greiða fyrir því að Y fengi gert fjárnám í eigninni á undan þrotabúinu. Með því gerðist hún sek um skilasvik samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga. Þá var talið að Y hefði liðsinnt X í skilasvikum hennar með því að nota víxilinn með fjárhæðinni 5.000.000 krónum og þannig gerst hlutdeildarmaður í broti hennar. Var hann því sakfelldur samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga. Var refsing X ákveðin 4ra mánaða skilorðsbundið fangelsi. Með hliðsjón af því að brot Y voru framin í skjóli stöðu hans sem lögmanns var hæfileg refsing hans ákveðin 6 mánaða óskilorðsbundið fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. apríl 2005 í samræmi við yfirlýsingu beggja ákærðu um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing þeirra verði þyngd.
Ákærðu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvalds en til vara, komi til sakfellingar, að þeim verði ekki gerð refsing, en að ákvörðun refsingar verði að öðrum kosti frestað skilorðsbundið. Til þrautavara krefjast þau vægustu refsingar sem lög heimila og að fullnustu verði þá frestað skilorðsbundið.
I.
Bú A, eiginmanns ákærðu X, var tekið til gjaldþrotaskipta 18. janúar 2000. Í ljós kom að fasteignin Z í Garðabæ, eign þrotamanns, hafði verið seld skömmu áður og lögmaður ákærðu X og þrotamannsins, ákærði Y, hafði tekið að sér að ráðstafa greiðslum samkvæmt kaupsamningnum. Þrátt fyrir vitneskju um slæma fjárhagsstöðu eiganda eignarinnar var andvirði hennar að frádregnum skuldum ráðstafað til ákærðu X til kaupa á fasteigninni að L í Reykjavík. Mál var höfðað í ágúst 2000 af hálfu þrotabúsins til riftunar þessum ráðstöfunum og lauk því með dómi Hæstaréttar […] í máli nr. […], þar sem rift var greiðslum þrotamanns til eiginkonu sinnar á samtals 3.495.943 krónum og henni gert að greiða þrotabúinu 5.095.943 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum og 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Svo sem reifað er í héraðsdómi voru tvö fjárnám gerð 7. júní 2002 í fasteigninni L, annað að beiðni ákærða Y og hitt að beiðni þrotabúsins. Hlaut fjárnám ákærða Y forgang fram yfir fjárnám þrotabúsins, en fjárnámsbeiðni frá honum hafði borist skömmu á undan beiðni þrotabúsins og fjárnáminu verið þinglýst samdægurs. Hinn 21. ágúst sama ár lagði skiptastjóri þrotabúsins fram kæru á hendur ákærðu X þar sem farið var fram á að rannsakað yrði hvort hún hefði gerst sek um skilasvik samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna fjárnámsins og að rannsókninni yrði enn fremur beint að hugsanlegum hlutdeildarmönnum í broti hennar. Rannsókn lögreglu leiddi til þess að ákæra var gefin út 18. júní 2004 á hendur báðum ákærðu fyrir skilasvik. Nauðungarsala fór fram á fasteigninni L þann 13. janúar 2003. Frumvarp til úthlutunar á söluverði var gert 21. maí sama ár, en samkvæmt því skyldu 5.348.066 krónur greiddar upp í kröfu ákærða Y en ekkert upp í kröfu þrotabúsins. Þrotabú A höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í maí 2003 gegn ákærða Y og sýslumanninum í Reykjavík til þess að fá því breytt.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt endurrit af sátt, sem gerð var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 11. maí 2005 í framangreindu máli. Samkvæmt henni skyldi frumvarpi sýslumanns til úthlutunar söluverðs breytt þannig að krafa þrotabúsins greiddist áður en til úthlutunar kæmi til ákærða Y samkvæmt fjárnámi á 5. veðrétti. Var jafnframt lagt fram bréf nýs skiptastjóra þrotabúsins 18. maí 2005 þess efnis að ágreiningi þrotabúsins við ákærða Y um úthlutun uppboðsandvirðis fasteignarinnar væri lokið með framangreindum hætti. Þar með fái þrotabúið kröfu sína að fullu greidda. Því var jafnframt lýst yfir að þrotabúsins vegna þyrfti ekki að halda áfram máli ákæruvaldsins á hendur ákærðu Y og X.
Í málflutningi fyrir Hæstarétti var því jafnframt lýst yfir af hálfu beggja ákærðu að forsenda dómsáttarinnar hafi verið að fallist hafi verið á að birting greiðsluáskorunar á hendur ákærðu X 22. mars 2002 hafi ekki verið í samræmi við 2. mgr. 7. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og hún því ekki lögmætur grundvöllur aðfarar. Krafa ákærða Y hafi því ekki getað notið forgangs gagnvart kröfu þrotabúsins og því hafi aldrei verið efni til ákæru. Af hálfu ákæruvalds var því til svarað að það fari með sókn sakar í málum sem þessum og hafi fullt forræði gerðar ákæru og að ákvæði 3. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga eigi ekki við þessa stöðu málsins.
II.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir ítarlegri rannsókn lögreglu á árunum 2003 og 2004 á þætti ákærða Y í málinu, sem meðal annars fólst í húsleit á lögmannsstofu hans. Leiddi rannsóknin meðal annars í ljós að föst tímaskráning í tölvu á stofunni 29. apríl 2002, […] dögum eftir uppsögu dóms Hæstaréttar í riftunarmáli þrotabúsins gegn ákærðu X, sýndi að þann dag hafði víxilkrafa á hendur henni að fjárhæð 5.000.000 krónur fyrst verið skráð í innheimtukerfi lögmanna og greiðsluáskorun skrifuð með dagsetningunni 20. mars 2002. Þetta hafði verið gert með merkingu upphafsstafanna […], sem áður voru notaðir af starfsmanni sem þá starfaði ekki lengur á stofunni. Þótt greiðsluáskorunin sé dagsett 20. mars 2002 og birt fyrir ákærðu X tveimur dögum síðar samkvæmt meðfylgjandi birtingarvottorði, undirrituðu af henni sjálfri og starfsmanni á lögmannsstofunni, kemur engu að síður fram í greiðsluáskoruninni að auk höfuðstóls víxils og kostnaðar séu reiknaðir dráttarvextir á kröfuna til 29. apríl 2002. Rennir það enn frekari stoðum undir að greiðsluáskorunin hafi verið útbúin á þeim degi en ekki 20. mars 2002. Á grundvelli þessarar greiðsluáskorunar sendi lögmannsstofan sýslumanninum í Reykjavík aðfararbeiðni, sem dagsett er 29. apríl 2002. Þessu til viðbótar hafa verið lagðar fyrir Hæstarétt vinnuskýrslur ákærða Y vegna A og X meðal annars fyrir árin 2001 og 2002. Hinn 29. apríl 2002 skráði ákærði Y 3 tíma vegna „gerð víxils og aðfararmáls v/[X].“
Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var því borið við af verjanda ákærða Y að klukka tölvunnar gæti hafa verið rangt stillt, en það hafi ekki verið rannsakað sérstaklega. Því sé ekkert að marka hina föstu tímaskráningu tölvunnar. Varðandi þetta er þess að gæta að aðfararbeiðni ákærða Y á hendur ákærðu X vegna víxilsins ásamt vöxtum og kostnaði, samtals 5.487.980 krónur, er sem fyrr segir dagsett 29. apríl 2002. Hin fasta tímaskráning tölvunnar sýnir hins vegar að aðfararbeiðnin hafi verið gerð 30. apríl, enda eru í henni dráttarvextir reiknaðir til þess dags. Ákærði Y hefur ekki haldið því fram að aðfararbeiðni hans hafi verið gerð á öðrum tíma en hún tilgreinir. Hefði klukka tölvunnar verið röng hefði lagfæring hennar því þurft að vera gerð fyrir 30. apríl. Ákærði Y hefur á engan hátt sýnt eða haldið fram að slík leiðrétting hafi verið gerð og eru andmæli þessi því haldlaus. Í héraðsdómi er greint frá framburði J, tölvunarfræðings hjá D hf. um þetta atriði. Engin ástæða er til annars en telja að hin fasta tímaskráning tölvunnar hafi verið rétt varðandi dagsetningar. Gögn sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt af hálfu ákærða Y og stafa frá D hf., fá engu breytt um það.
Ákærði Y kveðst hafa tekið við víxileyðublaði úr hendi ákærðu X, árituðu af henni sjálfri sem samþykkjanda og vinkonu hennar, B, sem útgefanda, sennilega á árinu 2000. Hann kveðst síðar hafa viljað tryggja sig með fjárnámi til þess að öðlast veðrétt í fasteigninni að L. Hann neitaði hins vegar fyrir dómi vitneskju um það hver hefði fyllt út fjárhæð víxilsins. Víxillinn ber útgáfudaginn 1. mars 2002 og gjalddaga 15. sama mánaðar. Greiðsluáskorun vegna greiðslufalls víxilsins kveður ákærði Y hafa verið gerða 20. mars 2002 og hún birt 22. mars af starfsmanni lögmannsstofunnar og aðfararbeiðni gerð 29. apríl 2002 og móttekin af sýslumanni degi síðar. Svo sem fyrr greinir ber bæði skráning ákærða Y sjálfs á þremur vinnustundum 29. apríl 2002 við gerð víxils og aðfarargerðar vegna L og hin fasta tímaskráning tölvunnar á lögmannsstofu hans að því er varðar greiðsluáskorun og aðfararbeiðni að þetta hafi í raun verið gert 29. og 30. apríl 2002. Er því fallist á með héraðsdómi að í ljós sé leitt að eftir dóm Hæstaréttar […] hafi þessi atburðarás farið af stað og skjöl verið gerð, sem látin hafi verið líta svo út sem þau væru frá fyrri tíma. Er fallist á með ákæruvaldi, svo sem nánar er rakið í héraðsdómi, að miðað við útgáfudag víxilsins 1. mars 2002 hafi krafa ákærða Y á hendur ákærðu X og eiginmanni hennar fyrir störf í þeirra þágu að hámarki getað numið 1.457.375 krónum eins og í ákæru greinir, og að kröfur fyrir vinnu ákærða Y fyrir þau eftir þann tíma séu málinu óviðkomandi. Samt sem áður nýtti ákærði Y sér víxilinn með fjárhæðinni 5.000.000 krónum.
III.
Skiptastjóri þrotabúsins, F, sem starfaði sem hæstaréttarlögmaður á árinu 2002, bar fyrir héraðsdómi í máli þessu, að eftir dóm Hæstaréttar hafi hann og lögmaður hjónanna, ákærði Y, rætt saman og lögmaðurinn þá nefnt hvort unnt væri að „ná einhverjum sáttum í málinu alla vega varðandi uppgjör“. Hann hafi svarað að það yrði athugað að fenginni tillögu. Hann hafi því beðið með framhaldið til þess að sjá hvað kæmi fram hjá lögmanninum. Svo þegar ekkert hafi gerst í nokkrar vikur, hafi hann hringt í lögmanninn og spurst fyrir um uppgjörið. Þá hafi lögmaðurinn svarað því til að hann hefði talað við sína umbjóðendur og það væri ekkert inni í myndinni, það ætti ekkert að gera í málinu „og það yrði væntanlega allt reynt til þess að reyna að komast hjá því að ganga frá því.“ Þetta hafi komið skiptastjóranum óþægilega á óvart þar sem hann hafi sýnt þeim biðlund og talið málið komið á lokastig og menn myndu reyna að ganga frá því. Vegna þessara viðbragða hafi hann talið rétt að biðja um aðför hjá dómþolanum X og strax lagt inn aðfararbeiðni hjá sýslumanni. Hann hafi kannað veðstöðuna og allt verið óbreytt frá því að kyrrsetning var gerð í fasteigninni 17. júlí 2000 til tryggingar kröfu þrotabúsins. Við fyrirtöku málsins 7. júní 2002 hafi ákærða X ekki mætt hjá sýslumanni og hann hafi fyrir hönd þrotabúsins fengið gert fjárnám í fasteign hennar að L og ákveðið að fara með það tafarlaust í þinglýsingu hjá sýslumannsembættinu. Þá hafi honum verið tjáð „að það væri nú annað fjárnám sem hefði verið að koma inn á eignina sem hefði verið gert bara þá um morguninn.“ Kærði skiptastjórinn ákærðu X til ríkislögreglustjóra 21. ágúst 2002 fyrir hönd þrotabúsins vegna gruns um skilasvik og eru í kærunni raktir þessir málavextir.
Ákærða X áritaði birtingu greiðsluáskorunar ákærða Y á hendur sér með dagsetningunni 20. mars 2002, sem sýnt er að var röng. Greiðsluáskorunin var vegna víxils að fjárhæð 5.000.000 krónur. Henni hlaut þó að vera ljóst að ákærði Y átti ekki slíka kröfu á hendur henni, heldur miklum mun lægri. Með árituninni á greiðsluáskorunina greiddi ákærða X fyrir fjárnámi því sem ákærði Y fékk gert í eign hennar 7. júní 2002. Þrotabú eiginmanns hennar átti kröfu á hana samkvæmt dómi Hæstaréttar […], sem henni var fullkunnugt um, og var henni því einnig kunnugt að fjárnám í fasteign hennar eftir dóm Hæstaréttar væri yfirvofandi. Af framburði ákærðu X fyrir héraðsdómi má ennfremur ráða, að hún hafi gert ráð fyrir því að kæmi í ljós við uppgjör á skuld þeirra hjóna við ákærða Y að hún ætti inni hjá honum, fengi hún inneignina endurgreidda. Með því að greiða fyrir því að ákærði Y fengi gert fjárnám í eign hennar á undan þrotabúinu skerti hún rétt lánardrottins síns til þess að öðlast fullnægju af fasteign hennar með málamyndagerningi um þá fjárhæð er nam mismuninum á fjárhæð víxilsins, 5.000.000 krónum, og þeirri fjárhæð sem ákærði Y gat krafið hana um vegna vinnu í þágu hennar og eiginmanns hennar. Með þeirri háttsemi sem hér hefur verið rakin gerðist ákærða X sek um skilasvik samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir.
IV.
Svo sem greinir í II. kafla hér að framan sá ákærði Y um gerð skjala þeirra sem til þurfti svo að skilasvik ákærðu X næðu fram að ganga. Af þeirri atburðarás allri má ljóst vera að hann hafi vísvitandi hagrætt dagsetningum á víxli og greiðsluáskorun til þess að verða á undan aðför þeirri sem hann vissi að dómhafi hæstaréttardóms […], þrotabú A, gat gert í fasteign ákærðu X. Hann hefur borið því við að hann hafi verið að tryggja eigin kröfu á hendur ákærðu X. Samkvæmt gögnum málsins gat sú krafa ekki verið hærri en 1.457.375 krónur í mars 2002. Notkun víxilsins með fjárhæðinni 5.000.000 krónum var því augljóslega til þess að liðsinna ákærðu X í skilasvikum hennar. Vegna þessa og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er leitt í ljós að með aðgerðum sínum í lok apríl 2002 hafi ákærðu í auðgunarskyni tekið þá ákvörðun að hlutast til um að kröfuhafi samkvæmt dómi Hæstaréttar […] sama ár næði ekki fram fullnustu af andvirði fasteignar ákærðu X að L í Reykjavík. Eins og atvikum er háttað verður ákærði Y talinn hafa veitt ákærðu X liðsinni sitt og þannig gerst hlutdeildarmaður í broti hennar. Er brot hans heimfært undir 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga. Skiptir ekki máli þótt hann hafi í ákæru verið talinn aðalmaður í broti en ekki hlutdeildarmaður í brot annars manns, enda var vörn hans ekki áfátt að þessu leyti.
V.
Með vísan til röksemda þeirra er í héraðsdómi greinir þykir refsing ákærðu X hæfilega ákveðin fangelsi 4 mánuði. Refsing ákærða Y þykir með vísan til nefndra röksemda hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi. Rétt þykir með vísan til forsendna héraðsdóms að skilorðsbinda refsingu ákærðu X, en ekki eru efni til að skilorðsbinda refsingu ákærða Y.
Ákærðu greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærðu X.
Ákærði Y sæti fangelsi 6 mánuði.
Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Björns Ólafs Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 1.058.250 krónur.
Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, samtals 996.000 krónur.
Annan sakarkostnað að fjárhæð 99.301 krónu greiði ákærðu óskipt.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra 18. júní 2004 á hendur X, [...], L, Reykjavík, og Y, [...], fyrir skilasvik, með því að hafa í því skyni að skerða rétt þrotabús A, eiginmanns ákærðu X, til að öðlast fullnustu af andvirði fasteignar X að L, Reykjavík, gert fjárnám í eigninni vegna kröfu að fjárhæð 5.487.980 krónur sem gert var að beiðni ákærða Y í hans nafni 7. júní 2002 á grundvelli tryggingarvíxils, sem dagsettur var 1. mars 2002, útgefinn af B, sem ákærða X var greiðandi að og var að fjárhæð 5.000.000 króna þrátt fyrir að skuld ákærðu X, A og félaga þeim tengdum við lögmannsstofu ákærða Y, sem tryggingarvíxillinn átti að tryggja, hafi ekki numið nema að mesta lagi 1.457.375 krónum, og víxillinn því að öðru leyti gerður til málamynda til að koma eigum ákærðu X undan væntanlegri fullnustu þrotabús A, á grundvelli riftunarmáls sem þá var rekið fyrir Hæstarétti samanber dóm Hæstaréttar uppkveðnum […], í máli […].
Þetta er talið varða við 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.
Ákærða X neitar sök. Af hálfu verjanda er þess aðallega krafist að ákærða verði sýknuð af kröfum ákæruvalds, en til vara er gerð krafa um vægustu refsingu er lög leyfa. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Ákærði Y neitar sök. Af hálfu verjanda er þess aðallega krafist að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara er gerð krafa um vægustu refsingu er lög leyfa. Loks er þess krafist að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Með bréfi 21. ágúst 2002 beindi skiptastjóri þrotabús A kæru til lögreglu með kröfu um að rannsakað yrði hvort ákærða, X, hefði brotið gegn ákvæðum 4. tl., 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940, með því að útbúa í samvinnu við lögmann sinn víxil til málamynda í því skyni að lögmaðurinn gæti komið fram fjárnámi á eign hennar, sem þannig hafi skert verulega eða jafnvel útilokað möguleika þrotabúsins sem lánadrottins hennar til að öðlast fullnægju af eignum hennar. Um málavexti er þess getið að með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness […] hafi bú A, eiginmanns ákærðu X, verið tekið til gjaldþrotaskipta. Við skýrslutöku af þrotamanni og athugun skiptastjóra á málefnum búsins hafi komið í ljós að fasteignin Z í Garðabæ, sem verið hafi þinglýst eign þrotamannsins, hafi þá skömmu áður verið seld. Síðar hafi komið í ljós að lögmaður ákærðu og eiginmanns hennar, hafi tekið að sér að ráðstafa greiðslum samkvæmt kaupsamningi þeim er gerður hafi verið. Þrátt fyrir fulla vitneskju um stöðu mála hjá eiganda eignarinnar hafi andvirði hennar, að frádregnum tilteknum skuldum, verið ráðstafað að öllu leyti til ákærðu, til kaupa á fasteign hennar að L í Reykjavík. Með dómi Hæstaréttar Íslands […] í málinu nr. […] hafi greiðslum frá A til ákærðu X verið rift og henni gert að greiða þrotabúinu 5.095.943 krónur ásamt dráttarvöxtum og kostnaði. Á grundvelli þess dóms hafi skiptastjóri þrotabúsins óskað eftir því við sýslumanninn í Reykjavík að gert yrði fjárnám að liðnum aðfarafresti í eignum ákærðu X. Boðað hafi verið til þess fjárnáms hjá sýslumanni 7. júní 2002. Enginn hafi mætt af hálfu ákærðu og að ósk skiptastjóra hafi verið gert fjárnám í fasteigninni að L. Við þinglýsingu á fjárnáminu þann sama dag hafi komið í ljós að lögmaður ákærðu X, hafi þá fyrr um daginn komið fram fjárnámi í sömu eign, sem fengið hafi forgang fram yfir fjárnám þrotabúsins, þar eð beiðnin hafi verið afhent […] 2002, skömmu á undan beiðni þrotabúsins, en 6 dögum eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar Íslands. Heildarkrafa lögmanns ákærðu hafi á fjárnámsdegi numið 5.487.980 krónum. Veðskuldir á undan kröfu hans hafi numið samtals 11.954.521 krónu og hafi því verið áhvílandi samtals 17.442.501 króna á undan kröfu þrotabúsins. Fasteignin að L væri 225 fermetra ófullgert einbýlishús. Fasteignamat hússins næmi 22.412.000 krónum en brunabótamat eignarinnar væri 26.560.000 krónur. Ólíklegt yrði hins vegar að telja að verðmæti eignarinnar færi yfir 20.000.000 króna og líklegt uppboðsverð yrði þá enn lægra. Að óbreyttu virtust því engar líkur á að þrotabúið fengi greitt nema þá lítið brot af heildarkröfu sinni ef til uppboðs kæmi. Í kærunni kemur fram að lögmaður ákærðu hafi beðið um fjárnám í fasteigninni að L í eigin nafni. Hafi fjárnámið verið gert á grundvelli tryggingarvíxils að höfuðstól 5.000.000 króna sem hafi verið gefinn út 1. mars 2002 af B og samþykktur til greiðslu 15. mars 2002 af ákærðu X. Víxlinum hafi lögmaður ákærðu framvísað í eigin nafni og óskað eftir fjárnámi á grundvelli hans. Samkvæmt því hafi hann talið sig eiga kröfu á hendur ákærðu X upp á andvirði víxilsins með dráttarvöxtum og kostnaði. Fjárhæð skuldarinnar, tímasetning á frágangi víxilsins og framkvæmd fjárnámsins og það að kröfuhafinn hafi verið lögmaður ákærðu í málaferlum hennar bendi ótvírætt til þess að eini tilgangurinn með víxlinum og fjárnámi á grundvelli hans hafi verið að hindra þrotabúið í að ná fram þeim rétti sem Hæstiréttur hafi þá nýlokið við að staðfesta. Yfirgnæfandi líkur væru á því að víxillinn væri málamyndagerningur og að engin lögskipti eða raunveruleg skuld væri á bak við hann. Væru líkur á að með þessu framferði væri brotið gegn skilasvikaákvæði 250. gr. laga nr. 19/1940. Kæmi eitthvað það fram við rannsókn málsins sem benti til sektar annarra en ákærðu X, væri gerð krafa um að þeir hinir sömu myndu sæta refsingu fyrir hlutdeild í broti ákærðu X.
Með kæru skiptastjóra var lögreglu sent afrit af gögnum um kröfu lögmanns ákærðu og kröfu þrotabús A á hendur ákærðu X. Var í fyrsta lagi um að ræða greiðsluáskorun er ákærði Y beindi til ákærðu X 20. mars 2002, en í áskoruninni er um heimildarskjal að baki kröfu vísað til víxils með útgáfudag 1. mars 2002, en gjalddaga 15. mars 2002. Með greiðsluáskoruninni var sent afrit af birtingarvottorði vegna birtingar á greiðsluáskoruninni. Vottorð þetta ber með sér að hafa verið birt fyrir ákærðu X að L, föstudaginn 22. mars 2002 kl. 16.00. Undir skjal þetta rita C sem birtingamaður og ákærða X sem viðtakandi. Í öðru lagi var lögreglu sent ljósrit af aðfararbeiðni er ákærði Y sendi sýslumanninum í Reykjavík 29. apríl 2002, vegna kröfu að fjárhæð 5.487.980 krónur. Í aðfararbeiðninni er kröfufjárhæðin sundurliðuð, en þar kemur fram að krafan sé að höfuðstól 5.000.000 króna, en við bætist dráttarvextir, innheimtuþóknun, aðfararbeiðni, vextir af kostnaði, virðisaukaskattur og fjárnámsgjald í ríkissjóð. Í þriðja lagi var lögreglu sent afrit af bréfi sýslumannsins í Reykjavík 23. maí 2002 til ákærðu X. Í bréfinu er ákærða boðuð á skrifstofu sýslumanns föstudaginn 7. júní 2002 vegna beiðni um fjárnám fyrir kröfu að fjárhæð 5.487.980 krónur. Bréfinu fylgdi afrit af birtingarvottorði vegna boðunar sýslumanns, en vottorðið ber með sér að hafa verið birt fyrir ákærðu 4. júní 2002. Í fjórða lagi var lögreglu sent endurrit úr gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík 7. júní 2002, vegna kröfu ákærða Y um fjárnám fyrir kröfu að fjárhæð 5.487.980 krónur. Samkvæmt endurritinu hefur ákærða X ekki mætt við gerðina og að ábendingu gerðarbeiðanda hefur verið gert fjárnám fyrir kröfu hans í eignarhluta gerðarþola í L í Reykjavík. Í fimmta lagi var lögreglu sent ljósrit tryggingarvíxils að fjárhæð 5.000.000 króna. Víxillinn er samþykktur til greiðslu af ákærðu X, en gefinn út af B. Er víxillinn dagsettur 1. mars 2002, en með gjalddaga 15. mars 2002. Í sjötta lagi var lögreglu sent endurrit úr gerðarbók sýslumanns 7. júní 2002 vegna kröfu þrotabús A að fjárhæð 8.102.714 krónur. Að kröfu gerðarbeiðanda hefur sýslumaður lýst yfir fjárnámi í eignarhluta ákærðu X í fasteigninni að L í Reykjavík. Meðfylgjandi endurritinu er afrit af beiðni skiptastjóra þrotabús A til sýslumannsins í Reykjavík vegna beiðni um nauðungarsölu á einbýlishúsinu að L í Reykjavík. Að endingu sendi skiptastjóri lögreglu afrit af samhljóða bréfum er hann hefur ritað ákærðu 28. júní 2002 varðandi málefni þrotabúsins. Í bréfunum eru rakin atvik eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. […] og athafnir skiptastjóra í kjölfarið við innheimtu kröfu samkvæmt dóminum. Er tekið fram í bréfunum að það sé samdóma álit skiptastjóra og þeirra kröfuhafa þrotabúsins sem ábyrgð hafi tekið á málarekstri á hendur ákærðu X, að ýmis rök hnígi til að ætla að víxill sá sem sé grundvöllur fjárnámsgerðar ákærða Y á hendur ákærðu X sé málamyndagerningur, útbúinn í þeim tilgangi að skerða rétt þrotabúsins vegna yfirvofandi fjárnámsaðgerða. Er skorað á ákærðu að draga kröfu samkvæmt víxlinum til baka og aflýsa fjárnáminu eða greiða kröfu þrotabúsins að fullu eða semja um hana. Að öðrum kosti megi ákærðu vænta þess að málið verði kært til lögreglu til rannsóknar á því hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum 250. gr. laga nr. 19/1940.
Með bréfi lögreglu 29. apríl 2003 var leitað eftir því við ákærða Y að hann upplýsti lögreglu um hvort hann hefði undir höndum gögn er vörðuðu tryggingarvíxil að fjárhæð 5.000.000 króna, útgefinn 1. mars 2002. Í bréfinu var tekið fram að uppi væru grunsemdir um að tryggingarvíxillinn væri málamyndagerningur, til að koma í veg fyrir að þrotabú A gæti með aðfarargerð knúið á um fullnustu skyldu, sem fólgin væri í fjárnámi í fasteigninni að L í Reykjavík, sem ákærða X væri eigandi að, en með því væri skertur réttur þrotabúsins til að öðlast fullnægju af eigninni. Var í bréfinu farið á leit við ákærða að hann afhenti lögreglu umbeðin gögn hið fyrsta í þágu rannsóknar málsins. Ákærði Y ritaði lögreglu bréf 7. maí 2003. Í því lýsti hann yfir að honum væri fyrirmunað að veita lögreglu upplýsingar af þeim toga sem óskað væri eftir. Um rökstuðning fyrir synjuninni vísaði ákærði til skyldu sinnar samkvæmt lögum um lögmenn, nr. 77/1998, auk þess sem hann vísaði til 1. mgr. 17. gr. Codex Ethicus fyrir Lögmannafélag Íslands, b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 136. gr. laga nr. 19/1940 og dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 189/2000.
Lögregla ritaði ákærða Y á ný bréfi 2. júní 2003 vegna lögreglurannsóknar málsins. Er tekið fram að ákærða X hafi í skýrslu hjá lögreglu gefið þá skýringu á útgáfu nefnds víxils að hann hafi verið gefinn út til tryggingar lögmannskostnaði vegna vinnu ákærða Y fyrir hana og eiginmann hennar. Lögreglu sé nauðsynlegt að fá upplýsingar um hjá ákærða hvaða viðskipti liggi að baki umræddum víxli svo unnt sé að taka afstöðu til þess hvort hegningarlagabrot hafi verið framið. Í því skyni sé ítrekuð sú krafa að ákærði afhendi yfirlit úr bókhaldi sínu og afrit af reikningum sem hann hafi gefið út vegna vinnu fyrir ákærðu X, eiginmann hennar og umræddur tryggingarvíxill standi til tryggingar fyrir. Umrædd gögn um sölu á þjónustu til ákærðu og eiginmanns hennar eigi að vera aðgengileg í bókhaldi lögmannsstofu ákærða og um það vísað til 1. og 2. mgr. 20. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Þjónusta ákærða hafi verið greidd með umræddum víxli. Ef aðrar skýringar séu á fjárhæð hans sé þess óskað að þær verði gefnar. Í framhaldi er rakið að ákærði hafi í bréfi 7. maí 2003 vísað til lagaákvæða er ákærði telji að komi í veg fyrir að hann veiti lögreglu upplýsingar í málinu. Er vakin athygli á því að einföld þagnarskylda ákærða samkvæmt lögum nr. 77/1998 sem opinbers sýslunarmanns, komi ekki í veg fyrir að hann veiti lögreglu upplýsingar í tengslum við rannsókn opinbers máls frekar en aðrir opinberir starfsmenn. Þá er rakið efni b-liðar 1. mgr. 55. gr. laga nr. 19/1991. Er lýst yfir að lögregla telji ákærða rétt og skylt að afhenda lögreglu umbeðin gögn enda sé ekki um að ræða upplýsingar sem um geti í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 19/1991 og varði einkahagi umbjóðanda ákærða. Þvert á móti sé um að ræða upplýsingar úr viðskiptamannabókhaldi lögmannsstofu ákærða um útgefna reikninga ákærða á hendur ákærðu X eða eiginmanni hennar. Umrætt ákvæði 1. mgr. 55. gr. laga nr. 19/1991 verði að skýra þannig að með því sé verið að veita aukna vernd því trúnaðarsambandi sem verði að vera á milli lögmanns og umbjóðanda hans um persónuleg- eða viðskiptaleg málefni eða önnur málefni sem leynt þurfi að fara. Fráleitt sé að ætla að ríkari þagnarskylda lögmanna samkvæmt ákvæðinu eigi við um greiðslu fyrir þjónustu lögmanns og að þær upplýsingar verði flokkaðar sem atriði sem varði einkahagi. Ef umbeðnar skýringar varði önnur lögskipti en þau er í bréfinu eru rakin er ákærða bent á að þagnarskylda sé ekki án undantekninga enda sé ákærða heimilt að afhenda upplýsingar um einkahagi umbjóðenda sinna með þeirra samþykki. Í ljósi þess að umbjóðandi ákærða liggi undir grun um refsiverða hegðun sé mikilvægt fyrir hana að atvik málsins verði skýrð og hún eftir atvikum leyst undan grun. Með vísan til þess sé ákærði hvattur til að leita eftir afstöðu umbjóðenda sinna gagnvart afhendingu gagnanna, en sú afstaða virðist ekki liggja fyrir.
Ákærði Y ritaði lögreglu bréf 19. júní 2003. Er í upphafi tekið fram að í tilefni bréfs 2. júní sé lögreglu sent viðskiptamannayfirlit lögmannsstofunnar ásamt ljósriti útgefinna reikninga vegna viðskipta ákærðu X og eiginmanns hennar og fyrirtækja þeirra við lögmannsstofuna. Er rakið að umræddur víxill sé tryggingarvíxill vegna lögfræðiþjónustu, málskostnaðar o.fl., sem veitt sé hjónunum X og A. Þegar skuld vegna veittrar þjónustu hafi verið orðin veruleg og vinnuframlag ófyrirséð hafi lögmannsstofan gert kröfu um greiðslu fyrir veitta þjónustu. Hafi ákærða X og eiginmaður hennar þá upplýst að þau gætu ekki greitt fyrir þjónustuna sökum fjárhagserfiðleika. Hafi þau boðið fram tryggingu með nefndum tryggingarvíxli. Þar sem eiginmaður ákærðu hafi verið undir gjaldþrotaskiptum og eiginkonan haft ótryggar tekjur og staðið höllum fæti fjárhagslega, hafi verið talið að umræddur tryggingarvíxill hafi ekki haft mikla sjálfstæða tryggingu í för með sér nema fleira kæmi til. Hafi ákærða X þá boðið fram ábyrgð B og hafi verið fallist á að taka við víxlinum með hennar ábyrgð. Endanlegt uppgjör á veittri þjónustu til handa ákærðu X og eiginmanni hennar hafi ekki farið fram, en ríkisskattstjóri hafi talið að vegna eðlis þjónustunnar væri heimilt að ganga frá uppgjöri við lok hennar. Í bréfinu er bent á að það sé venja á lögmannsstofunni, þegar skuld vegna lögfræðiþjónustu sé orðin talsverð og ekki sé fyrirsjáanlegt að þeir sem unnið sé fyrir geti greitt að sinni, sé gerð krafa um að trygging sé lögð fram. Ljóst megi því vera að við þær aðstæður standi lögmaður frammi fyrir því að hafna frekari þjónustu og eiga á hættu að tapa því sem þegar hafi verið unnið fyrir eða gera kröfu um tryggingu fyrir áföllnum og áfallandi kostnaði og vinnu í þeirri von að úr vandamálum viðkomandi muni rætast. Hafi sú aðferð verið viðurkennd.
Með bréfi ákærða fylgdu boðað viðskiptayfirlit ákærðu X og A sem samkvæmt yfirskrift tekur til áranna 1999 til 2003. Á viðskiptayfirlitinu eru tilgreindar sundurliðaðar fjárhæðir eftir árum miðað við vinnu, akstur, virðisaukaskatt, útlagðan kostnað og mót. Samtala ársins 1999 nemur alls 486.957 krónum, ársins 2000 alls 628.034 krónum, ársins 2001 alls 939.986 krónum, ársins 2002 alls 653.631 krónu og ársins 2003 alls 454.813 krónum. Samanlagt nemur kostnaður áranna 3.163.421 krónu. Á yfirlitið er fært sérstaklega undir ,,Ýmislegt”, ógreidd lögfræðiþjónusta að fjárhæð 3.163.421 króna, útlagður kostnaður að fjárhæð 1.402.108 krónur, vextir fyrir tímabilið 31. desember 1999 til 18. júní 2003 að fjárhæð 815.157 krónur og innborgun samkvæmt útgefnum reikningum 27. júlí 1999 til 6. júlí 2001 að fjárhæð 623.801 króna. Alls sé því ógreitt 4.756.885 krónur. Meðfylgjandi yfirlitinu eru 4 reikningar. Reikningur nr. 1497 er gefinn út á A 27. ágúst 1999. Er reikningurinn að fjárhæð 50.000 krónur og tilgreint að um sé að ræða innborgun á lögmannskostnað, skuldfært af viðskiptamannareikningi. Reikningur nr. 1570 er gefinn út á A 31. desember 1999. Er reikningurinn að fjárhæð 89.351 króna og tilgreint að um sé að ræða innborgun á lögmannskostnað. Reikningur nr. 1571 er gefinn út á Y ehf., A, 31. desember 1999. Er reikningurinn að fjárhæð 160.649 krónur og tilgreint að um sé að ræða innborgun á lögmannskostnað. Reikningur nr. 1564 er gefinn út á Y ehf. 18. janúar 2000. Er hann að fjárhæð 350.000 krónur og tilgreint að um sé að ræða lögfræðiþjónustu sundurliðað fyrir árin 1999 og 2000. Loks er um að ræða reikning nr. 1843, sem er dagsettur 6. júlí 2001, og gefinn er út á Y ehf. Reikningurinn er kreditreikningur að fjárhæð 26.199 krónur og er tilgreint að um sé að ræða leiðréttingu vegna lögmannsþjónustu fyrir árin 1999 til 2000.
Með bréfi lögreglu 8. júlí 2003 var ákærða Y ritað erindi í tilefni af bréfi hans 19. júní. Er í upphafi tekið fram að ákærði hafi með bréfi 19. júní afhent lögreglu viðskiptayfirlit hjónanna X og A. Í því hafi fjárhæðir verið tilgreindar vegna vinnu er ákærði hafi staðhæft að hann hafi innt af hendi og hafi verið skírskotað til vinnuskýrslna vegna áranna 1999 til 2003, án þess að fram hafi verið lögð frekari gögn því til staðfestingar. Í þágu rannsóknar málsins sé farið á leit við ákærða að afhentar verði sundurliðaðar vinnuskýrslur vegna tilgreindra ára. Áréttað er að mál það sem sé til rannsóknar, sé vegna atviks er átt hafi sér stað á fyrri hluta árs 2002 og sé vísað til þess að gjalddagi tryggingarvíxils sem verið hafi grundvöllur aðfararinnar sé 15. mars 2002. Þann 20. mars 2002 hafi ákærði sent ákærðu X greiðsluáskorun vegna kröfu að fjárhæð 5.466.961 króna og 29. apríl s.á. hafi ákærði lagt fram aðfararbeiðni til sýslumannsins í Reykjavík vegna þeirrar kröfu. Eðli máls samkvæmt sé því mikilvægt að fá sundurliðaða vinnuskýrslu vegna þess árs, gagngert til að upplýsa hvenær á árinu vinna hafi verið innt af hendi. Vinna á árinu 2003 komi vart til skoðunar við rannsókn málsins, en augaleið gefi að krafa ákærða hafi þá ekki myndast. Sé því ekki farið fram á að ákærði láti í té vinnuskýrslu vegna þess árs. Loks er tekið fram að í viðskiptayfirliti ákærða komi fram að útlagður kostnaður hafi numið 1.402.108 krónum, auk þess sem útlagður kostnaður hafi verið tiltekinn 54.435 krónur, en ætla megi að ákærði hafi gefið út reikninga vegna þess kostnaðar. Er ákærði því beðinn um að láta lögreglu í té alla reikninga vegna hins útlagða kostnaðar. Með bréfi 30. júlí 2003 er fyrra bréf lögreglu ítrekað, þar sem umbeðin gögn hafi ekki borist lögreglu.
Ákærði Y ritaði lögreglu bréf 2. september 2003 og vísaði um efni til bréfa lögreglu 8. og 30. júlí 2003. Rekur hann í upphafi bréfsins að hann hafi orðið fyrir þráðfaldri beiðni lögreglu um að afhenda tiltekin gögn varðandi skjólstæðinga sína, sem hann hafi með þráðfaldri beiðni og fortölum fengið þau til að samþykkja afhendingu á. Í bréfi lögreglu hafi komið fram ný beiðni og ósk um frekari gögn en áður hafi komið fram. Eftir að hafa kynnt efni bréfsins fyrir umbjóðendum sínum sé það ósk þeirra að frekari gögn varðandi málefni þeirra verði ekki afhent lögreglu. Telji umbjóðendur ákærða fjölmargt í umbeðnum viðbótargögnum er beri að halda trúnað um og þeim persónulega einum viðkomandi, en af lögmannsstofunni krefjist þau nú fullkomins trúnaðar. Af þeirri ástæðu geti ákærði ekki orðið við óskum lögreglu, nema því aðeins að annað kæmi til, s.s. dómsúrskurður. Er á það bent að hjá lögreglu eigi að liggja fyrir fullnægjandi gögn er byggja megi á afstöðu til kæruefnisins. Þau viðbótargögn er óskað hafi verið afhendingar á hafi tæplega úrslitaáhrif á það hvort umbjóðandi ákærða verði ákærður í opinberu máli. Í niðurlagi bréfs ákærða gagnrýnir hann aðferðir lögreglu við rannsókn málsins.
Fimmtudaginn 2. október 2003 lagði embætti ríkislögreglustjórans fram kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um að lögreglu yrði heimiluð leit í starfsstöð ákærða Y, í húsnæði H ehf. að […] í Reykjavík, í því skyni að finna muni og gögn sem hald yrði lagt á í þágu rannsóknar málsins. Um grundvöll kröfunnar var vísað til þess að lögregla hafi leitast við að fá frá ákærða og skjólstæðingum hans gögn og upplýsingar um kröfu er umbjóðendur ákærða fullyrði að stæði að baki tryggingarvíxli. Ákærði hafi borið fyrir sig þagnarskyldu lögmanns um málefni skjólstæðinga sinna. Samkvæmt upplýsingum frá ákærða Y hafi skjólstæðingar hans ekki fallist á að heimila honum að afhenda umbeðin gögn. Gögn er ákærði Y hafi afhent lögreglu varðandi viðskipti að baki tryggingarvíxlinum hafi á engan hátt skýrt fjárhæð hans. Ákærði sé bókhaldsskyldur og beri honum að gefa út reikninga vegna þjónustu sinnar. Gera verði ráð fyrir að ákærði hafi yfir að ráða reikningum vegna útlagðs kostnaðar er fram komi á viðskiptayfirliti er hann hafi afhent lögreglu. Í bókhaldi lögmannsstofu hans eigi að vera færslur sem geri grein fyrir viðskiptum hans og sölu. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans komist ekki hjá að gera kröfu um heimild til að leita þessara gagna og upplýsinga vegna ,,ósamvinnuþýði” ákærða sem hafi þrátt fyrir margítrekaðar beiðnir um skýringar og gögn neitað að gefa þær. Leitin muni beinast að því hvort í bókhaldsgögnum, tímaskráningarkerfi lögmannsstofunnar eða öðrum gögnum sé að finna upplýsingar um vinnuframlag ákærða Y og útlagðan kostnað hans fyrir ákærðu X og eiginmann hennar. Að fengnum þeim upplýsingum verði unnt að meta hvort framburður ákærðu sé réttur og hvort og að hve miklu leyti umræddur tryggingarvíxill hafi verið útbúinn og innheimtur í því skyni að koma eignum ákærðu X undan innheimtu kröfuhafa hennar. Með úrskurði héraðsdóms 3. október 2003 var lögreglu heimiluð umbeðin leit.
Miðvikudaginn 15. október 2003 framkvæmdi efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans húsleit í starfsstöð ákærða Y í skrifstofuhúsnæði H ehf. að […] í Reykjavík. Um framkvæmd húsleitarinnar kemur fram í lögregluskýrslu að starfsfólk á skrifstofu lögmannsstofunnar hafi upplýst lögreglu um að á stofunni væru þrjár tölvur. Ein þeirra væri notuð af D löggiltum fasteignasala, önnur af C ritara og sú þriðja af ákærða Y. Enginn sameiginlegur netþjónn, eða ,,tölvuserver”, væri fyrir tölvur lögmannsstofunnar, en til staðar væri sameiginleg nettenging. Stofan notaðist við tölvubókhaldskerfið TOK og innheimtukerfið IL. Lögreglu hafi verið veitt aðstoð við að komast inn í tölvu á starfsstöð ritara. Er leit hafi verið lokið í þeirri tölvu og prentað hafi verið út úr tölvukerfunum hafi lögreglu verið veitt aðstoð við að finna fylgiskjöl í bókhaldi lögmannsstofunnar vegna færslna á hreyfingalistum er prentaðir hafi verið út úr tölvukerfinu. Þá hafi tölvubókhaldskerfið TOK vegna áranna 1999 til 2002 verið vistað á tölvudiskling. Leitað hafi verið á skrifstofu ákærða Y, auk þess sem leitað hafi verið í fundarherbergi lögmannsstofunnar, en þar hafi bókhaldsgögn verið geymd. Lagt hafi verið hald á tölvu ákærða Y í þeim tilgangi að afrita harðan disk hennar, en það hafi verið gert á starfsstöð lögreglu. Er fært í lögregluskýrslu frá fimmtudeginum 23. október 2003, að ákærða Y hafi á ný verið afhent tölva eftir að afritun hafi farið fram. Lögregla hefur ritað skýrslu um þá hluti er á var lagt hald á starfsstöð ákærða Y. Þar kemur fram að lagt hafi verið hald á tölvu ákærða Y, bókhaldskerfið TOK hafi verið afritað, lagt hafi verið hald á bréfabindi merkt A, Y sf., Þrotabúi A og ákærðu X, ársreikninga fyrir árin 2000 til 2003, lista yfir hreyfingar viðskiptamanna fyrir sama tímabil, lista yfir stöðu viðskiptamanna fyrir nefnt tímabil, útprentun úr innheimtukerfinu IL vegna kröfu nr. 0700-000108 og loks ljósrit 44 fylgiskjala úr bókhaldi lögmannsstofu ákærða Y varðandi A og Y ehf.
Að beiðni lögreglu hefur endurskoðunarfyrirtækið M hf. ritað greinargerð um bókhald og gögn því tengd er lögregla lagði hald á í húsleit í húsakynnum H ehf. 15. október 2003. Er tekið fram að leit í tölvubókhaldi hafi beinst að því hvort bókhald ákærða Y og H ehf. hefði að geyma bókhaldslykla og færslur á þá í nafni ákærðu X, A, I, Y sf. og Y ehf. Í kafla um niðurstöður greinargerðarinnar er tekið fram um bókhald ákærða Y og H ehf., að viðskiptastaða þeirra aðila er skoðaðir hafi verið í tölvubókhaldi (fjárhags-/viðskiptamannakerfi) Y og H ehf. og/eða samkvæmt yfirliti úr innheimtukerfi lögmanna á kröfunúmerið 0700-000108 hafi ekki gefið til kynna á hverju innheimta ákærða Y á tryggingarvíxli, dagsettum 1. mars 2002, að fjárhæð 5.000.000 króna hafi byggst. Krafan virðist því einungis geta byggst á óbókuðum útlögðum kostnaði svo og á óútgefnum reikningum ákærða Y eða H ehf. Samkvæmt yfirlitum hafi síðast verið gefinn út reikningur vegna veittrar lögfræðiþjónustu á þá aðila sem leitað hafi verið eftir 31. ágúst 2000. Því megi ætla að ekki hafi verið gefnir út reikningar vegna veittrar þjónustu til handa þessum aðilum eftir þann tíma.
Samkvæmt frumvarpi sýslumannsins í Reykjavík 21. maí 2003 til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar að L í Reykjavík, sem seld var nauðungarsölu á uppboði sem fram fór 13. janúar 2003, er söluverði eignarinnar, 18.900.000 krónum, úthlutað þannig að 13.551.934 krónum er úthlutað kröfuhöfum næstum á undan Y hdl., en Y úthlutað 5.348.066 krónum upp í fjárnám á 5. veðrétti eignarinnar. Er tekið fram að athugasemdir vegna frumvarpsins verði að hafa borist sýslumanni fyrir 5. júní 2003, að öðrum kosti skoðist frumvarpið samþykkt og verði lagt til grundvallar við úthlutun söluverðs. Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur er nú rekið ágreiningsmálið nr. […]: Þrotabú A gegn Y og sýslumanninum í Reykjavík og varðar það mótmæli skiptastjóra þrotabús A gegn úthlutun samkvæmt framangreindu frumvarpi. Hefur úrlausn þess máls verið frestað, með samþykki aðila málsins, á meðan beðið er niðurstöðu í því máli er hér er til úrlausnar.
Ákærða, X, hefur skýrt þannig frá atvikum að hún hafi rekið […] frá árinu 1994. Farið hafi að bera á fjárhagslegum erfiðleikum hjá ákærðu og eiginmanni hennar á árunum um 2000 og hafi bruni í fyrirtæki eiginmanns hennar átt þar stóran hlut að máli. Hafi ákærða m.a. orðið að hverfa með […] sitt af vinnustað á […] og hafi hún farið með það á heimili sitt. Meðákærði, Y, hafi sem lögmaður unnið fyrir ákærðu og eiginmann hennar allt frá árinu 1980. Til fjölmargra ráðstafana hafi komið hjá þeim hjónum, m.a. hafi fasteign þeirra að Z í Garðabæ verið seld og fasteignin að L verið keypt. Hafi ákærða ráðfært sig við meðákærða um ýmis atriði tengd þessum viðskiptum. Hafi meðákærði t.a.m. tekið við greiðslum vegna sölu á Z og annast uppgreiðslu skulda. Ákærða kvað tilurð tryggingarvíxils að fjárhæð 5.000.000 króna, með dagsetningu 1. mars 2002, mega rekja til áðurnefndra fjárhagslegra erfiðleika, en þau hjónin hafi orðið að leita sér lögmannsaðstoðar vegna málaferla í tengslum við þá, en þeir hafi leitt af sér gjaldþrot eiginmanns ákærðu. Þá hafi eiginmaður ákærðu rekið fyrirtækið Y sf., sem síðar hafi orðið Y ehf., en fyrir þessi fyrirtæki hafi meðákærði einnig unnið. Vegna kyrrsetningar á fasteign ákærðu að L hafi hún ekki getað veðsett eignina. Af þeim ástæðum hafi hún ekki heldur fengið fyrirgreiðslu í banka. Útbúinn hafi verið tryggingarvíxill sem átt hafi að vera trygging fyrir því að meðákærði fengi greitt fyrir þá vinnu er hann myndi inna af hendi fyrir þau hjónin. Á þeim tíma er tryggingarvíxillinn hafi verið stofnaður hafi ákærða skuldað meðákærða fjármuni vegna vinnu er meðákærði hafi innt af hendi fyrir ákærðu og eiginmann hennar. Víxillinn hafi sennilega verið útbúinn snemma árs 2000. Vinkona ákærðu, B, hafi að beiðni ákærðu ritað á víxilinn sem útgefandi, en B hafi verið kunnugt um að víxillinn ætti að vera til tryggingar á greiðslu. B hafi ritað á víxilinn á sama tíma og ákærða hafi ritað á hann sem greiðandi, en á þeim tíma hafi víxillinn verið óútfylltur að öðru leyti. Meðákærði hafi ekki aðstoðað við útgáfu víxilsins. Ekki hafi legið fyrir hver skuldastaða hennar og eiginmanns hennar hafi verið gagnvart meðákærða er tryggingarvíxillinn hafi verið settur í umferð. Það uppgjör hafi enn ekki farið fram og sé því óvíst hver endanleg útkoma úr því verði. Ekki kvaðst ákærða muna hver staða hennar og eiginmanns hennar hafi verið gagnvart meðákærða, er meðákærði hafi beint að henni greiðsluáskorun 20. mars 2002. Ákærða kvaðst lítið muna eftir þeim skjölum er í umferð hafi verið í kringum greiðsluáskorunina og fjárnámsaðgerðir í kjölfarið. Kvaðst hún þó kannast við nafnritun sína á birtingarvottorð er fylgt hafi greiðsluáskorun meðákærða 20. mars 2002. Aðspurð kvaðst ákærða ekki hafa séð viðskiptayfirlit í gögnum málsins varðandi sig og eiginmann sinn. Heildarniðurstaða um ógreidda skuld að fjárhæð 4.756.885 krónur kæmi þó ekki á óvart miðað við þá vinnu er meðákærði hafi unnið fyrir sig og eiginmann hennar. Þá kvaðst ákærða ekki hafa séð reikninga er gefnir hafi verið út á Y ehf. og eiginmann ákærðu og fylgt hafi viðskiptayfirliti er meðákærði hafi sent lögreglu. Ákærða staðfesti að hún og eiginmaður hennar hafi lagt fyrir meðákærða Y, að synja fyrir að lögreglu yrðu afhent gögn um viðskipti þeirra og meðákærða. Kvaðst hún hafa litið svo á að umrædd gögn væru málinu óviðkomandi og myndu þar af leiðandi ekki skipta máli fyrir lögreglu. Ákærða kvaðst vera fjár síns ráðandi, þó svo hún væri ekki eigandi að öðrum eignum en bifreið er skráð væri á hennar nafn, en bifreiðin væri verðlaus.
Ákærði, Y, staðfesti að hann hafi sent lögreglu viðskiptayfirlit og reikninga er hafi varðað umbjóðendur hans, meðákærðu og eiginmann hennar. Þá staðfesti ákærði að hann hafi gert kröfu um fjárnám í fasteign meðákærðu að L í Reykjavík á grundvelli tryggingarvíxils. Ákærði kvaðst hafa haft með höndum ýmis lögfræðileg verkefni fyrir meðákærðu og eiginmann hennar. Uppgjör vegna þeirra starfa hafi enn ekki farið fram en tryggingarvíxillinn hafi átt að tryggja greiðslu fyrir þá vinnu. Ástæða þess að ekki hafi tekist að ljúka því uppgjöri væri hin opinbera rannsókn er af stað hafi farið, en hún hafi sett allt úr skorðum. Ekki kvaðst ákærði vilja gefa frekari upplýsingar um vinnuskýrslur að baki vinnu fyrir umbjóðendur sína en fyrir væru í gögnum málsins. Ákærði kvað þó ljóst að mikið væri af óskráðum tímum fyrir vinnu í þágu meðákærðu og eiginmanns hennar er ekki hafi verið færðir niður í vinnuskýrslur. Ákærði kvað tímaskráningu vegna vinnu fyrir skjólstæðinga vera háttað með ýmsu móti. Að jafnaði væri reynt að skrá tíma í vinnuskýrslur, en að öðrum kosti væru tímar færðir inn í málin sjálf. Við uppgjör væri málum gjarnan flett og gætu því legið tímar á lausum blöðum í málum, innan á kápum sem væru utan um þau o.s.frv. Ákærði kvaðst ósáttur við samskipti sín við skiptastjóra þrotabús A. Kvaðst hann einungis hafa átt eitt símtal við skiptastjórann þar sem hann hafi upplýst að meðákærða væri ekki sátt við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málinu nr. […] og að hún væri að skoða málskotsleiðir í því sambandi, svo sem til Mannréttindadómstóls Evrópu. Á engum tíma hafi ákærði óskað eftir sérstökum fresti í samskiptum sínum við skiptastjórann. Þá hafi skiptastjórinn aldrei leitað eftir upplýsingum frá ákærða um tilurð umrædds tryggingarvíxils eða hvort raunveruleg skuld væri á bak við hann eða hvort fjárhæð hans væri rétt. Ákærði kvaðst líta svo á að ráðstafanir sínar varðandi fasteignina að L í Reykjavík hafi að öllu leyti lotið að tryggingaráðstöfunum af sinni hálfu. Þrotabú A hafi óskað eftir nauðungarsölu á eigninni og hafi ákærði orðið að fylgja málinu eftir með áframhaldandi tryggingaráðstöfunum af sinni hálfu. Hafi hann sett fram boð í eignina á sínum tíma til að tryggja hagsmuni að baki víxlinum. Þegar upp verði staðið muni fara fram uppgjör í samskiptum sínum við meðákærðu og eiginmanni hennar, sem hugsanlega geti leitt til inneignar þeirra hjá ákærða. Ákærði kvaðst hafa lagt út fyrir uppboðsandvirði fasteignarinnar að L. Jafnframt hafi hann tekið yfir áhvílandi skuldir á eigninni og greiði hann af þeim í dag. Hann hafi hins vegar ekki fengið í hendur afsal fyrir eigninni og þar með virk umráð hennar vegna þeirra málaferla er væru í gangi. Af þeim ástæðum hafi hann orðið fyrir miklu tjóni, en hann hafi t.a.m. ekki getað leigt eignina út. Hafi hann fallist á að fresta meðferð ágreiningsmáls er rekið sé fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna úthlutunar söluverðs fasteignarinnar að L, þar til niðurstaða sé komin í þessu máli.
C kvaðst starfa sem innheimtufulltrúi á lögmannsstofu ákærða, Y, en þar hafi vitnið hafið störf í ágúst 2001. Hafi vitnið m.a. haft með höndum að færa bókhald lögmannsstofunnar í bókhaldskerfið TOK, auk þess sem vitnið hafi annast færslur í innheimtukerfi stofunnar. Í innheimtukerfinu væru allir þeir er ynnu í kerfinu skilgreindir með tilteknum hætti. Kvaðst vitnið telja að notandi með kenniorðið […] væri sennilega E, er starfað hafi sem innheimtufulltrúi á lögmannsstofunni á undan vitninu. Vitnið kvaðst ekki hafa þekkt leyniorð E og því ekki hafa getað fært inn í kerfið undir hennar kenniorði. Vitnið kvað aðra er fært hafi í innheimtukerfið hafa verið ákærða Y og eiginkonu hans D. Umrætt innheimtukerfi hafi verið í öllum tölvum á lögmannsstofunni. Vitnið kvað skjámyndir í innheimtukerfinu sýna einstaka færslur í kerfinu. Er vitninu voru sýndar skjámyndir á dskj. nr. 25 kvað það notanda með kenniorðið […] væntanlega vera umrædda E. Á skjámynd úr kerfinu væru dálkar en þar kæmu fram ákveðnar dagsetningar. Yfir þeim dálki sem væri lengst til vinstri kæmi fram dagsetning, en til hliðar við hana kæmi fram hvenær viðkomandi færsla væri skráð inn. Vitnið kvaðst hafa prentað greiðsluáskoranir út úr innheimtukerfinu. Í slíkum tilvikum væru dráttarvextir jafnan reiknaðir miðað við þann dag sem áskorunin væri prentuð út. Er undir vitnið var borin tilgreining dráttarvaxta á greiðsluáskorun frá 20. mars 2002, er beint hafi verið að ákærðu X, kvaðst vitnið ekki hafa skýringu á því af hverju dráttarvextir í því tilviki væru miðaðir við síðari dagsetningu en dagsetningu greiðsluáskorunarinnar. Dagsetning við kröfulið um dráttarvexti ætti almennt að fylgja útgáfudegi greiðsluáskorunarinnar. Vitnið staðfesti undirritun þess undir birtingarvottorð vegna birtingar á greiðsluáskorun á hendur ákærðu X, en vottorðið er dagsett 22. mars 2002. Ekki kvaðst vitnið muna sérstaklega eftir birtingarvottorðinu, en ekki hafi verið algengt að vitnið birti greiðsluáskoranir með þeim hætti. Vitnið kvað bókhald lögmannsstofunnar fært í TOK bókhaldskerfi. Kvaðst það hafa fært bókhald ársins 2001. Ef um hafi verið að ræða útlagðan kostnað, hafi hann verið færður í bókhaldskerfið, bókaður á útlagðan kostnað og færður á viðskiptamannareikning viðkomandi. Ef um hafi verið að ræða útlagðan kostnað í tengslum við sölu á lögfræðiþjónustu hafi hann verið færður á vinnuskýrslur er ákærði Y hafi verið með hjá sér. Ef um hafi verið að ræða útlagðan kostnað tengdan lögfræðilegri innheimtu, hafi hann verið færður í innheimtukerfið.
E kvaðst hafa verið starfsmaður á lögmannsstofu ákærða Y fram til sumarsins 2001, er það hafi hætt störfum. Hafi vitnið annast mál tengd innheimtum, auk þess sem það hafi fært bókhald stofunnar og unnið þar almenn skrifstofustörf. Kröfur til innheimtu hafi verið færðar í innheimtukerfi. Vitnið kvaðst kannast við kenniorðið […] í innheimtukerfinu sem kenniorð vitnisins á dskj. nr. 25. Kvaðst vitnið telja að aðrir starfsmenn á lögmannsstofunni hafi þekkt leyniorð vitnisins í innheimtukerfinu. Þrátt fyrir að kenniorð vitnisins væru við innfærslur á kröfu nr. 0700-000108 á dskj. nr. 25 kvaðst vitnið ekki hafa fært umræddar færslur í innheimtukerfið þar sem það hafi verið hætt störfum á þeim tíma sem færslurnar hafi verið færðar inn, auk þess sem vitnið hafi verið búsett í útlöndum á þeim tíma. Vitnið kvaðst að mestu hafa annast færslur í kerfið á meðan það hafi verið við störf, en auk þess hafi aðrir starfsmenn á stofunni haft aðgang að kerfinu og skráð í það.
B staðfesti, að tryggingarvíxill dagsettur 1. mars 2002, hafi verið gefinn út af vitninu. Ekki kvaðst vitnið muna hvenær það hafi ritað undir víxilinn, en það hafi sennilega verið á árinu 1999. Ákærða X hafi leitað til vitnisins með ábyrgð. Ekki hafi víxillinn verið fylltur út er vitnið hafi ritað nafn sitt á hann. Vitnið kvað engar innheimtutilraunir hafa verið viðhafðar gagnvart því á grundvelli víxilsins. Það væri skráð fyrir fasteign og bifreið.
A kvað ákærða Y hafa aðstoðað þau hjónin við sölu á fasteigninni Z í Garðabæ og kaup á fasteigninni að L í Reykjavík í kjölfarið. Hafi vitninu verið kunnugt um meðferð ágreiningsmáls er farið hafi fyrir Hæstarétt Íslands þar sem þrotabú A hafi rift greiðslum vegna kaupa ákærðu X á fasteigninni að L. Vitnið kvaðst hins vegar lítið þekkja til kæru er skiptastjóri þrotabúsins hafi beint til lögreglu vegna meðferðar á tryggingarvíxli sem sakamál þetta væri sprottið af. Vitnið kvað þau hjónin ekki hafa getað tekist á hendur ábyrgðir vegna fjárhagsstöðu sinnar og hafi eiginkona vitnisins þá brugðið á það ráð að útbúa tryggingarvíxil vegna vinnu ákærða Y fyrir þau hjónin. Er umræddur tryggingarvíxill hafi verið útbúinn, hafi þegar myndast skuld hjá þeim hjónum gagnvart ákærða Y, sem vitninu hafi þó ekki verið ljóst hver hafi verið. Þá kvaðst vitnið ekki hafa fengið í hendur viðskiptayfirlit frá ákærða um skuldastöðu þeirra hjóna við ákærða áður en ákærði hafi beint greiðsluáskorun að þeim eða eftir þann tíma. Vitnið staðfesti að það hafi lagst gegn því að ákærði Y afhenti lögreglu gögn um viðskipti þeirra hjóna við lögmanninn.
F kvað skiptastjóra þrotabús A hafa verið falið að leita eftir riftun á gjafagerningi á milli hjónanna X og A í tengslum við kaup ákærðu X á fasteign að L í Reykjavík. Ágreiningi vegna þess hafi lyktað með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. […], en með þeim dómi hafi ákærða X verið dæmd til að greiða þrotabúinu tiltekna fjárhæð. Kvaðst vitnið hafa rætt við lögmann ákærðu X, ákærða Y, um uppgjör eftir dóm Hæstaréttar, en niðurstaða þess samtals hafi verið sú að vitnið dokaði við með innheimtu kröfunnar þar til ákærði Y kæmi með tillögur að lausn. Ekkert hafi heyrst frá ákærða Y eftir þetta og hafi vitnið hringt í hann einhverju síðar. Í því símtali hafi ákærði lýst því að umbjóðendur sínir myndu ekki greiða kröfuna og að allt yrði reynt til að komast undan greiðslu samkvæmt dóminum. Umrætt símtal hafi slegið vitnið illa og hafi það í kjölfar þessa beðið um aðför í fasteign ákærðu X. Hafi vitnið í tengslum við það athugað veðstöðu á fasteigninni að L og hafi hún verið óbreytt frá því einhverju áður. Er þinglýsa hafi átt fjárnámi þrotabúsins á eignina hafi komið í ljós að ákærði Y hafi fyrr þann sama dag þinglýst fjárnámi á eignina. Hafi vitninu brugðið mjög við það. Hafi vitnið lagt þessi málefni fyrir skiptafund þrotabúsins og hafi niðurstaða fundarins verið sú að skiptastjóri ætti að hlutast til um athugun á því um hvaða gerning væri að ræða. Hafi verið tekin ákvörðun um að skiptastjóri myndi hnekkja gerningnum og jafnframt beina kæru til lögreglu vegna gruns um refsilagabrot. Vitnið kvað fasteignina að L hafa verið selda nauðungarsölu og hafi ákærði Y verið viðstaddur uppboð til að tryggja hagsmuni fjárnámshafa. Vitnið hafi síðan sem skiptastjóri mótmælt fyrirhugaðri úthlutun sýslumanns á söluverði fasteignarinnar. Ágreiningsmáli vegna úthlutunarinnar hafi verið skotið til héraðsdóms og væri það mál í bið á meðan beðið væri úrlausnar héraðsdóms í þessu sakamáli. Ekki hafi verið leitað eftir frekari fullnustu hjá ákærðu X eftir aðför í fasteign hennar, en talið hafi verið að fasteignin væri hennar eina eign.
N endurskoðandi staðfesti greinargerð er vitnið ritaði í nafni endurskoðunarfyrirtækisins M hf. 10. janúar 2004. Vitnið kvað því hafa verið falið að skoða bókhald ákærða Y og H ehf. m.t.t. gagna að baki víxli að fjárhæð 5.000.000 króna. Í bréfi lögreglu hafi komið fram að hverju vinna vitnisins hafi átt að beinast. Skoðaðar hafi verið allar færslur í bókhaldi á lyklum er taldar hafi verið koma til greina. Niðurstöður rannsóknarinnar hafi verið þær að 29. apríl 2002 og 31. desember sama ár hafi lögmannsstofan H ehf. verið í skuld við A. Ekki hafi fundist gögn um á hverju krafa að baki víxils að fjárhæð 5.000.000 króna hafi getað byggst. Vitnið kvaðst hafa haft í hendi viðskiptayfirlit er ákærði hafi afhent lögreglu. Á viðskiptayfirlitinu kæmi fram útlagður kostnaður að fjárhæð 1.402.108 krónur. Ekki hafi fundist gögn að baki þeim kostnaði í færslum í bókhaldi.
J kvaðst vera tölvunarfræðingur og starfa hjá D hf. Á vegum fyrirtækisins hefði vitnið umsjón með innheimtukerfinu IL og veitti viðskiptavinum þess þjónustu við kerfið. Vitnið kvað einstaka færslur í innheimtukerfið koma fram í yfirliti er bæri yfirskriftina ,,Málsaga”. Ef litið væri á yfirlit á dskj. nr. 25 er bæri yfirskriftina ,,Málsaga” fyrir kröfunúmer 0700-000108, þá myndi innheimtukerfið færa inn tíma og sækja dagsetningu í dálk lengst til vinstri. Ekki væri um valkvæðan kost að ræða, heldur myndi innheimtukerfið sjálft sjá um þetta með því að sækja upplýsingar um dagsetningu í tölvuna sjálfa og yrði þeirri dagsetningu ekki breytt. Til hægri við þann dálk kæmi annar dálkur er bæri yfirskriftina ,,Hvenær skráð”. Innfærsla í þann dálk væri í höndum notanda kerfisins og gæti hann sjálfur ráðið þeirri dagsetningu. Ef miðað væri við dskj. nr. 25 og kröfunúmer 0700-000108 og lýsingu aðgerðar ,,Greiðsluáskorun skrifuð”, þá væri þannig ,,29/04/2002” í dálki ,,Dagsetning” tími er vélin sjálf hefði náð í, sem og tími aðgerðarinnar, en ,,20/03/2002” í dálki ,,Hvenær skráð” dagsetning er hefði verið færð inn í kerfið af notandanum. Vitnið kvað birtingarvottorð sjálfkrafa fylgja við útprentun á greiðsluáskorunum. Ef litið væri á greiðsluáskorun í gögnum málsins á skjali I/1.4, þá væri um að ræða greiðsluáskorun er væri prentuð út úr innheimtukerfinu. Fram kæmi í greiðsluáskoruninni, að dráttarvextir væru miðaðir við 29 apríl 2002, en bréfið sjálft væri dagsett 20. mars 2002. Ef útgáfudegi umrædds bréfs hafi verið breytt hefði dagsetning sú er dráttarvextir væru miðaðir við ekki breyst um leið. Sú dagsetning er dráttarvextirnir væru miðaðir væri færð inn af tölvunni sjálfri á grundvelli upplýsingar úr henni og gæfi það til kynna að umrætt skjal hafi verið búið til 29. apríl 2002 en útgáfudagur bréfsins 20. mars 2002 hafi verið færður inn sem valkvæð innfærsla. Á greiðsluáskoruninni kæmi fram kröfunúmer 0700-000108, en það númer ætti við þá tilteknu kröfu sem væri með því númeri.
Lögreglufulltrúarnir R og S staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins og þau gögn er frá þeim stöfuðu. S kvaðst hafa tekið við haldlögðum tölvubúnaði úr húsleit að […]. Hafi vitnið tryggt tölvugögnin og kallað fram skjöl er talið hafi verið að lögregla þyrfti á að halda. Hefði lögregla yfir að ráða sérstökum hugbúnaði til notkunar við slíkar aðstæður. Vitnið kvað afrit hafa verið tekið af innheimtukerfinu IL úr tölvu ákærða Y og hafi það verið sett á disk er væri í rannsóknargögnum málsins. Staðfesti vitnið yfirlit í skjölum málsins merkt III/3.5.1, en á yfirlitinu kæmu fram upplýsingar um einstök skjöl í hinni haldlögðu tölvu. Þar kæmi m.a. fram upplýsingar um hvenær síðast hafi verið aðgangur að tilteknum skjölum, hvenær þau hafi verið stofnuð og hvenær þeim hafi síðast verið breytt. Upplýsingar um þessi atriði kæmu úr stýrikerfi tölvunnar. Vitnið staðfesti að það hafi unnið að skoðun á innheimtukerfinu, en um þá skoðun hafi vitnið ritað skýrslu á dskj. nr. 25. Hafi vitnið farið inn í mál með kröfunúmeri 0700-000108 og hafi það prentað út skjámynd af ferli málsins. Við athugun á kerfinu hafi komið í ljós að upplýsingar um dagsetningu í dálki til vinstri væru skráðar af innheimtukerfinu sjálfu með því að upplýsingar væru sóttar í vélbúnað tölvunnar, en í næsta dálki við hliðina kæmu fram upplýsingar um hvenær færslan væri skráð, en upplýsingar um það væri valkvætt að færa inn.
Niðurstaða:
Í kjölfar kæru skiptastjóra þrotabús A 21. ágúst 2002, hefur rannsókn lögreglu á sakarefni máls þessa í aðalatriðum lotið að tvennu. Í fyrsta lagi að leiða í ljós meðferð innheimtumáls, sem í innheimtukerfi á lögmannsstofu ákærða Y hefur fengið kröfunúmerið 0700-000108, en með vísan til þess innheimtumáls var krafist fjárnáms í fasteign ákærðu X að L í Reykjavík. Í öðru lagi hefur rannsóknin lotið að því að afla gagna um kröfu er ákærði Y hefur staðhæft að hann eigi á hendur meðákærðu og eiginmanni hennar, sem tryggingarvíxill frá 1. mars 2002 að fjárhæð 5.000.000 króna átti að standa til tryggingar á, en á grundvelli þessa tryggingarvíxils er áformað að lögmannsstofu ákærða Y verði úthlutað 5.348.066 krónum af söluverði fasteignarinnar að L.
Með kæru skiptastjóra þrotabús A voru lögreglu send afrit af gögnum, sem áður hefur verið gerð grein fyrir. Svo sem þar er rakið beindi lögmannsstofa ákærða Y greiðsluáskorun að meðákærðu í bréfi 20. mars 2002. Greiðsluáskorun þessi var birt fyrir ákærðu X, en hún hefur fyrir dómi kannast við nafnritun sína undir birtingarvottorð sem dagsett er 22. mars 2002. Á grundvelli þessarar greiðsluáskorunar sendi lögmannsstofa ákærða Y sýslumanninum í Reykjavík aðfararbeiðni 29. apríl 2002. Sýslumaður ritaði ákærðu X bréf 23. maí 2002, þar sem henni er tilkynnt um fyrirhugað fjárnám og hún boðuð á skrifstofu sýslumanns 7. júní 2002. Boðunarbréf þetta var birt fyrir ákærðu af stefnuvotti 4. júní 2002 á heimili ákærðu að L. Samkvæmt endurriti úr gerðarbók sýslumanns 7. júní 2002 var þann dag gert fjárnám í eignarhluta ákærðu X í fasteigninni að L í Reykjavík. Við það tilefni var frumrit tryggingarvíxilsins frá 1. mars 2002 lagt fram, svo og greiðsluáskorun ásamt birtingarvottorði og afrit af boðunarbréfi og birtingarvottorð því fylgjandi. Fjárnámi þessu mun hafa verið þinglýst á fasteignina að L þann sama dag. Þá er einnig í gögnum málsins endurrit úr gerðarbók sýslumanns 7. júní 2002 þar sem sýslumaður, að kröfu skiptastjóra þrotabús A, gerir fjárnám í eignarhluta ákærðu X í fasteigninni að L fyrir kröfu að fjárhæð 8.102.714 krónur. Því fjárnámi hefur verið þinglýst á fasteignina að L sama dag, á eftir fjárnámi fyrir kröfu lögmannsstofu ákærða Y. Loks liggur frammi í málinu afrit af beiðni þrotabús A um nauðungarsölu á fasteigninni að L og afrit af frumvarpi sýslumanns til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar, þinglýst eign ákærðu X, sem seld var nauðungarsölu á uppboði er fram fór 13. janúar 2003. Söluverð eignarinnar var 18.900.000 krónur. Samkvæmt því frumvarpi var lögmannsstofu ákærða Y úthlutaðar 5.348.066 krónur upp í fjárnám á 5. veðrétti eignarinnar, en af því leiðir að kröfuhafar þar á eftir, þ. á m. þrotabú A, hafa engu fengið úthlutað af söluverði eignarinnar.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, skal gerðarbeiðandi, áður en aðfarar er krafist fyrir kröfu samkvæmt víxli og eftir að slík krafa er komin í gjalddaga, beina greiðsluáskorun til gerðarþola með minnst fimmtán daga fyrirvara, þar sem tekið er fram að aðfarar verði krafist fyrir skuldinni ef áskoruninni verði ekki sinnt. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skal slík greiðsluáskorun send gerðarþola með ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða hún birt fyrir honum af stefnuvotti. Er þannig sérstaklega tiltekið í 2. mgr., hvaða þrír kostir eru um birtingu áskorunarinnar, en ekki vísað til annarra kosta laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, í því sambandi. Hefði því ekki komið til álita að fá áritun gerðarþola á greiðsluáskorunina samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Til grundvallar reglum af þessum toga liggja m.a. sjónarmið um jafnræði kröfuhafa, sem leiða til þess að skuldari geti ekki mismunað kröfuhöfum með því að veita tilteknum kröfuhöfum forgang fram yfir aðra. Fyrir liggur í málinu að greiðsluáskorun í nafni lögmannsstofu ákærða Y, sem undirrituð er af honum sjálfum, var birt fyrir meðákærðu af C, innheimtufulltrúa á lögmannsstofu ákærða Y. Var sá háttur um birtingu áskorunarinnar í beinni andstöðu við áðurnefnd fyrirmæli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 90/1989.
Nefnd greiðsluáskorun ber með sér þá sérkennilegu stöðu, að í henni er dráttarvaxta krafist af víxli til 29. apríl 2002, þó svo greiðsluáskorunin sjálf sé gefin út ríflega mánuði áður, eða 20. mars 2002. Greiðsluáskorun þessi er prentuð út úr innheimtukerfi lögmannsstofunnar H ehf. undir kröfunúmerinu 0700-000108. Í húsleit þeirri er fram fór í húsakynnum lögmannsstofu ákærða Y 15. október 2003 lagði lögregla m.a. hald á tölvubúnað ákærða. Úr honum var tekið afrit af innheimtukerfinu. Á dskj. nr. 25 getur að líta útskrift úr því kerfi, en þar birtast tilteknar upplýsingar varðandi innheimtumál á kröfunúmeri 0700-000108. Samkvæmt yfirliti um feril málsins, er ber yfirskriftina ,,Málsaga” hefur greiðsluáskorun verið prentuð út úr þessu kerfi. Í reit fyrir dagsetningu kemur fram færslan 29/04/2002, en í reit fyrir hvenær færslan hafi verið skráð er fært 20/03/2002. Rannsókn lögreglu hefur m.a. beinst að því með hvaða hætti unnt sé að breyta þessum dagsetningum. J, tölvunarfræðingur hjá D hf., þjónustufyrirtæki innheimtukerfisins, hefur fyrir dómi borið að vélbúnaður tölvunnar annist sjálfkrafa innfærslu á dagsetningu hverrar aðgerðar í kerfinu og verði ekki við þeirri dagsetningu hróflað. Á hinn bóginn sé valkvætt að færa inn upplýsingar í reit um hvenær viðkomandi færsla hafi verið skráð. Fram kemur að færslu við ritun greiðsluáskorunarinnar hefur annast starfsmaður með kenniorðið […] Vitnið E hefur borið að hún hafi verið starfsmaður á skrifstofu ákærða Y og að þetta kenniorð hafi hún haft er hún hafi unnið við innheimtukerfið. Hún hafi hins vegar hætt störfum á skrifstofunni á árinu 2001 og dvalið í útlöndum á vormánuðum 2002. Þá hefur vitnið C synjað fyrir að hafa fært í innheimtukerfið undir kenniorði E, en hún hafi ekki þekkt aðgangsorð hennar. Ekki liggur fyrir skynsamleg skýring á því af hvaða ástæðu dráttarvaxta í greiðsluáskorun frá 20. mars 2002 er krafist til 29. apríl s.á. Sú tilhögun bendir hins vegar eindregið til þess að títtnefnd greiðsluáskorun hafi verið rituð á öðrum degi en 20. mars 2002. Þegar við það bætast gögn um á hvaða tíma fært hafi verið í innheimtukerfið, niðurstöður um með hvaða hætti vélbúnaður færir sjálfkrafa í innheimtukerfið og að innheimtufulltrúi á lögmannsstofu ákærða Y hafi haft með höndum að birta greiðsluáskorunina þykir mega slá föstu, að nefnd greiðsluáskorun hafi verið útbúin 29. apríl 2002, eða 5 dögum eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. […].
Eins og áður er getið hefur rannsókn lögreglu jafnframt beinst að því að leiða í ljós gögn um kröfu þá er á að standa að baki tryggingarvíxlinum frá 1. mars 2002. Hafa ákærðu borið því við að endanlegt uppgjör á skuldasambandi ákærðu X og eiginmanns hennar gagnvart ákærða Y hafi enn ekki farið fram, en þau skuldi honum umtalsverðar fjárhæðir vegna vinnu er hann hafi innt af hendi fyrir þau undanfarin ár. Bera þau að vinnuskýrslur og önnur gögn er lögregla hefur lagt fram við rannsókn málsins tilgreini ekki nema hluta af þeirri fjárhæð er ákærða X og eiginmaður hennar skuldi meðákærða. Hafa hvorki þau, né ákærði Y, viljað bera um viðskiptasambandið að öðru leyti og bera við trúnaðarsambandi lögmanns við skjólstæðinga sína.
Ákærðu var báðum skilmerkilega gerð grein fyrir því við lögreglurannsókn málsins, að grunur léki á um að þau hefðu brotið gegn 4. tl. 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940 og að þau hefðu réttarstöðu sakborninga við rannsóknina. Var skorað á þau að leggja fram fullnægjandi gögn um skuldasamband ákærðu X og eiginmanns hennar við ákærða Y, svo ganga mætti úr skugga um hvort kæra þrotabús A ætti við rök að styðjast. Jafnframt því var þeim bent á að trúnaðarsamband ákærða Y við ákærðu X og eiginmann hennar ætti ekki að standa því í vegi að umrædd gögn yrðu afhent lögreglu. Á rannsóknarstigi málsins var ótvírætt að um réttarstöðu ákærðu fór eftir lögum nr. 19/1991. Gátu þau eftir það ekki borið við áðurnefndu trúnaðarsambandi til grundvallar því að afhenda lögreglu ekki umbeðin gögn eða að tjá sig ekki um sakaratriðin öðru leyti. Ákærðu var hins vegar heimilt að neita að tjá sig um þessi atriði á grundvelli 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991.
Ákærði Y afhenti lögreglu viðskiptayfirlit X og A fyrir árin 1999 til 2003, en yfirlitið er í rannsóknargögnum málsins merkt sem skjal II/1.4.1. Samkvæmt yfirlitinu hefur skuld ákærðu og eiginmanns hennar verið sundurliðuð eftir árunum 1999, 2000, 2001, 2002 og 2003, miðað við fjölda unninna tíma, vinnu, akstur, virðisaukaskatt, útlagðan kostnað og mót. Um tímafjölda er vitnað til vinnuskýrslna fyrir hvert ár. Hvert ár ber með sér tilgreinda fjárhæð um hvern framangreindra liða að því gættu að engin fjárhæð er færð á yfirlitið undir mót fyrir árin 2002 og 2003. Yfirlitið ber með sér að ógreidd lögfræðiþjónusta nemi alls 3.163.421 krónu. Þá er á viðskiptayfirlitið sérstaklega færður ósundurliðað útlagður kostnaður til viðbótar útlögðum kostnaði hvers árs, og nemur hann 1.402.108 krónum. Þá bætast við vextir fyrir tímabilið 31. desember 1999 til 16. júní 2003 samtals að fjárhæð 815.157 krónur. Loks er getið innborgunar samkvæmt útgefnum reikningum að fjárhæð 623.801 króna. Yfirlitinu fylgdu 4 reikningar útgefnir á A og Y ehf., samtals að fjárhæð 650.000 krónur. Að auki fylgdi kreditreikningur vegna leiðréttingar á greiðslu fyrir lögmannsþjónustu árin 1999 til 2000, að fjárhæð 26.199 krónur. Útgefnir reikningar miða þannig við að, eiginmaður ákærðu X og félög honum tengd hafi greitt ákærða Y 623.801 krónu fyrir lögmannsþjónustu og svarar það til innborgunar á framangreint viðskiptayfirlit á skjali II/1.4.1.
Við úrlausn á sakarefni þessa máls verður lagt til grundvallar, að áðurnefndur tryggingarvíxill hafi einungis geta staðið til tryggingar kröfu að fjárhæð er komin hafi verið í gjalddaga við greiðsluáskorunina 20. mars 2002, sbr. áðurnefnd 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/1989. Í því efni verður ekki einvörðungu miðað við útgefna reikninga á þeim tíma, heldur verður ákærða Y játað svigrúm til að byggja fjárhæðina einnig á útlögðum kostnaði og færðum vinnuskýrslum miðað við þann dag, sem leiðir til þess að ákærða gæfist færi á að gefa út reikninga á hendur ákærðu X og eiginmanni hennar eftir úthlutun af söluverði fasteignarinnar að L. Húsleit lögreglu 15. október 2003 hefur ekki leitt í ljós aðra útgefna reikninga á hendur ákærðu X, eiginmanni hennar og félögum þeim tengdum, en ákærði Y hefur afhent lögreglu. Rannsókn á bókhaldi ákærða X og lögmannsstofunnar H ehf. hefur leitt N endurskoðanda að sömu niðurstöðu.
Útprentun úr tölvu ákærða Y hefur fært lögreglu í hendur skjal er ber yfirskriftina ,,Yfirlit yfir vinnuskýrslur [A]” og tekur það til áranna 1999 til 2001. Samkvæmt því yfirliti nemur tímafjöldi samkvæmt vinnuskýrslum þessara ára samtals 138 tímum. Er þá ekki tekið tillit til tímabilsins apríl til júlí 1999, en um þann tímafjölda er vísað til vinnuskýrslu. Á yfirlitið er sem fyrr fært undir liðina vinna, akstur, virðisaukaskattur, útlagður kostnaður og mót. Heildarskuld A samkvæmt yfirlitinu er 1.656.233 krónur. Þá er á yfirlitið færðar greiðslur samkvæmt útgefnum reikningum og nema þær alls 623.801 krónu. Er tekið fram að skuld A við ,,SS” sé 1.032.432 krónur. Í skýrslu lögreglu frá 7. nóvember 2003, sem merkt hefur verið III/3.5, er tekið fram að gögn þau er lögregla hafi fundið í tölvu ákærða hafi leitt í ljós með hvaða hætti ákærði Y hafi haldið utan um tímaskráningu umbjóðenda sinna, A og meðákærðu. Er tekið fram að svo virðist sem ekki hafi verið skilið á milli vinnu er ákærði hafi látið í té í þágu meðákærðu, A eða félaga er A hafi verið í fyrirsvari fyrir. Hafi lögregla farið yfir útprentaðar vinnuskýrslur ákærða og borið tímafjölda þeirra saman við framangreint yfirlit um vinnuskýrslur A. Er það niðurstaða rannsóknar lögreglu að tímafjöldi samkvæmt útprentuðum vinnuskýrslum sé nokkuð í samræmi við nefnt yfirlit um vinnuskýrslur A. Rannsókn lögreglu hefur ekki leitt í ljós tilvist vinnuskýrslna fyrir árið 2002, þrátt fyrir að eftir þeim hafi verið gengið.
Svo sem hér að framan hefur verið rakið hefur rannsókn lögreglu einungis sýnt fram á tilvist tiltekinna útgefinna reikninga er lögmannsstofa ákærða Y hefur gefið út á A og einkahlutafélag hans Y og varða þjónustu fyrir veitta lögfræðiþjónustu á árunum 1999 til 2001. Þessir reikningar hafa þegar fengist greiddir. Að öðru leyti hefur rannsóknin einungis leitt í ljós vinnuskýrslur er gætu staðið undir óverulegum hluta þeirrar fjárhæðar er tryggingarvíxillinn frá 1. mars 2002 átti að standa til tryggingar á. Hafa áskoranir lögreglu til ákærðu um að bæta úr ekki leitt til þess að frekari gögn hafi verið lögð fram. Að virtri þeirri aðferð er viðhöfð var um birtingu nefndrar greiðsluáskorunar og að gefinni þeirri staðreynd að sú greiðsluáskorun leiddi af sér fjárnám á grundvelli skjala er færð höfðu verið aftur í tíma og því að rannsókn lögreglu hefur einungis leitt í ljós vinnuskýrslur og kostnað að baki hluta þeirrar fjárhæðar er tryggingarvíxillinn átti að standa til tryggingar á, þykir verða að slá föstu að með aðgerðum sínum í lok apríl 2002 og áður hefur verið lýst, hafi ákærðu tekið ákvörðun um að hlutast til um að girða fyrir að kröfuhafi samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. […], þrotabú A, næði fram fullnustu af andvirði fasteignar ákærðu X að L í Reykjavík, en ákærðu var báðum kunnugt um áhvílandi veðskuldir á fasteigninni og líklegt söluverð eignarinnar á sama tíma. Slík háttsemi gagnvart þrotabúi A eru skilasvik er falla undir 4. tl. 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940. Verða ákærðu því bæði sakfelld samkvæmt ákæru.
Ákærða X hefur ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Er hún ólöglærð og hefur án nokkurs vafa notið leiðsagnar meðákærða, sem er löglærður, við að leggja á ráðin um með hvaða hætti rétt væri að girða fyrir að þrotabú A næði efndum samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands. Þá liggur fyrir að meðákærði hefur í verki borið hita og þunga af þeim ráðstöfunum er viðhafðar voru í þeim efnum. Með hliðsjón af þessu þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði. Rétt þykir að skilorðsbinda refsinguna, svo sem í dómsorði greinir.
Ákærði Y hefur ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Við ákvörðun refsingar hans er litið til þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir auðgunarbrot, framið í skjóli opinbers starfsleyfis. Eru brot hans sérlega ámælisverð, þar sem í þeim felast brot á mikilsverðum starfsskyldum hans sem lögmanns. Með hliðsjón af því þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Með vísan til eðlis brotsins og þeirra hagsmuna er í húfi eru þykir ekki unnt að skilorðsbinda refsingu ákærða að neinu leyti.
Um málsvarnarlaun og greiðslu sakarkostnaðar fer svo sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvalds flutti málið Helgi Magnús Gunnarsson fulltrúi ríkislögreglustjórans.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærða, X, sæti fangelsi í 4 mánuði. Frestað skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 8 mánuði.
Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Ólafs Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns, 500.000 krónur.
Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.
Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.