Hæstiréttur íslands
Mál nr. 402/1998
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Kjarasamningur
- Slysatrygging
|
|
Fimmtudaginn 6. maí 1999. |
|
Nr. 402/1998. |
Borgarbyggð Hvalfjarðarstrandarhreppur Leirár- og Melahreppur Borgarfjarðarsveit Innri-Akraneshreppur og Hvítársíðuhreppur (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Bjarna Stefáni Óskarssyni (Karl Axelsson hrl.) og gagnsök |
Ráðningarsamningur. Kjarasamningur. Slysatrygging.
B starfaði sem byggingarfulltrúi nokkurra hreppa. Í ráðningarsamningi hans var ákvæði þess efnis að um réttindi og skyldur samningsaðila færi „að öðru leyti” samkvæmt kjarasamningum starfsmanna ríkisins. B varð fyrir slysi og hlaut varanlega örorku. Stefndi hann hreppunum til greiðslu bóta á þeim grunni að samkvæmt kjarasamningum starfsmanna ríkisins skyldu þeir tryggðir fyrir varanlegri örorku. Ekki var ágreiningur um að ríkið keypti ekki slysatryggingar hjá vátryggingafélögum fyrir starfsmenn sína heldur bar sjálft áhættuna af slysum. Var talið að hrepparnir yrðu með sama hætti að bera ábyrgð á tjóni B og voru þeir dæmdir til að greiða B bætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 30. september 1998. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er krafist lækkunar á þeirri fjárhæð, sem gagnáfrýjanda var dæmd í héraðsdómi og að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði látinn niður falla.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 13. nóvember 1998. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjendur verði dæmdir til að greiða sér óskipt 3.377.025 krónur, en til vara 2.873.550 krónur, með nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum. Til þrautavara krefst hann staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. var stefnt til réttargæslu.
I.
Í héraðsdómi er því lýst, að gagnáfrýjandi gegndi starfi byggingarfulltrúa í nokkrum byggingarumdæmum á Vesturlandi í gildistíð laga nr. 108/1945 um byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp, sem ekki eru löggiltir verslunarstaðir, allt frá árinu 1971. Var hann þá starfsmaður sýslufélaga. Í kjölfar þess að málefni byggingarfulltrúa voru með byggingarlögum nr. 54/1978 færð frá sýslufélögum varð gagnáfrýjandi starfsmaður nokkurra hreppa.
Með samningi 30. desember 1982 réð stjórn embættis byggingarfulltrúa í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum gagnáfrýjanda í stöðu byggingarfulltrúa í báðum sýslunum. Í samningnum var kveðið á um laun og önnur starfskjör gagnáfrýjanda, meðal annars að hann skyldi njóta lífeyrissjóðsréttinda hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ekki var berum orðum vikið að slysatryggingum í samningnum. Í 8. tölulið hans sagði hins vegar að um réttindi og skyldur samningsaðila færi að öðru leyti samkvæmt hinum almennu kjarasamningum starfsmanna ríkisins.
Þegar ráðningarsamningurinn var gerður höfðu um nokkurt árabil verið ákvæði um atvinnuslysatryggingu í kjarasamningum við starfsmenn ríkisins. Skyldu starfsmenn „slysatryggðir fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku“, eins og sagði í aðalkjarasamningi. Er ekki ágreiningur um að samningsákvæðin hafi verið framkvæmd þannig, að ríkið keypti ekki atvinnuslysatryggingar hjá vátryggingafélögum, heldur bar sjálft áhættu af slysum að því marki, sem kjarasamningar stóðu til. Ef slys bar að höndum, greiddi ríkissjóður því bætur í samræmi við samningsskyldur sínar til hinna slösuðu eða eftir atvikum aðstandenda þeirra. Skipan þessi, sem enn er við lýði, var fest í sessi með reglum nr. 30/1990 um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum, vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi, og reglum nr. 31/1990, sem taka til slysa utan starfs.
Þegar litið er til þess, sem nú var rakið, verður að skýra 8. tölulið ráðningarsamningsins við gagnáfrýjanda svo, að aðaláfrýjendur hafi skuldbundið sig til að bera slysatryggingaráhættu án vátryggingar á sama hátt og ríkið gerði gagnvart starfsmönnum sínum. Verður því ekki fallist á með aðaláfrýjendum að sveitarfélögin, sem gerðu kjarasamninginn, hafi einungis tekið á sig að kaupa og halda við atvinnuslysatryggingu hjá vátryggingafélagi vegna gagnáfrýjanda. Af því leiðir að ekki er hald í þeirri málsástæðu aðaláfrýjenda, að gagnáfrýjandi hafi með því að vanrækja að sjá um að slysatrygging væri í gildi á samningstímanum fyrirgert rétti sínum til að krefja þá um samningsbundnar bætur vegna slyssins 4. nóvember 1988. Þarf þá ekki að skera úr um, hvort gerðir gagnáfrýjanda á þeim tíma, sem hér um ræðir, hefðu spillt rétti hans til efndabóta úr hendi aðaláfrýjenda, ef loforð þeirra um slysatryggingarkjör hefði einskorðast við að kaupa slysatryggingu hjá vátryggingafélagi og halda henni í gildi.
Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að aðaláfrýjendum sé skylt að greiða gagnáfrýjanda slysabætur.
II.
Leitt er í ljós, að staðgengill gegndi starfi byggingarfulltrúa í veikindaforföllum gagnáfrýjanda frá 27. ágúst til ársloka 1988. Hefur gagnáfrýjandi ekki sýnt nægilega fram á, að hann hafi verið við störf í þágu aðaláfrýjenda, þegar slysið varð 4. nóvember 1988. Er því fallist á með héraðsdómi að um fjárhæð slysabóta til gagnáfrýjanda fari eftir reglum nr. 31/1990.
Ágreiningslaust er að bætur eftir reglum nr. 31/1990 skuli reikna á grundvelli læknisfræðilegrar örorku. Fallist er á það álit héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að leggja beri til grundvallar það mat dómkvaddra manna, að varanleg læknisfræðileg örorka gagnáfrýjanda vegna slyssins sé 35%.
Verður ákvæði héraðsdóms um bótafjárhæð því staðfest, en aðaláfrýjendur hafa ekki gert athugasemd við niðurstöðu héraðsdóms um viðmiðun og útreikning bóta.
Ákvæði héraðsdóms um dráttarvexti er staðfest með skírskotun til forsendna hans, en það athugast að rétt er að um gjalddaga bótanna fari eftir meginreglum 24. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga með áorðnum breytingum.
Samkvæmt þessu verður héraðsdómur staðfestur um annað en málskostnað, sem aðaláfrýjendur verða dæmdir til að greiða óskipt og ákveðinn verður í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjendur, Borgarbyggð, Hvalfjarðarstrandarhreppur, Leirár- og Melahreppur, Borgarfjarðarsveit, Innri-Akraneshreppur og Hvítársíðuhreppur, greiði gagnáfrýjanda, Bjarna Stefáni Óskarssyni, óskipt samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 1. júlí 1998.
Ár 1998, miðvikudaginn 1. júlí, var á dómþingi Héraðsdóms Vesturlands í málinu nr. E- 200/1994: Bjarni Stefán Óskarsson gegn Hvalfjarðarstrandarhreppi, Innri-Akraneshreppi, Leirár- og Melahreppi, Andakílshreppi, Reykholtsdalshreppi, Hálsahreppi, Hvítársíðuhreppi, Þverárhlíðarhreppi, Álftaneshreppi, Borgarhreppi og Borgarbyggð og Sjóvá- Almennum tryggingum hf. til réttargæslu kveðinn upp svohljóðandi dómur:
I.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 22. maí sl, að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað fyrir dómþinginu með stefnu þingfestri hinn 6. desember 1994 af Bjarna Stefáni Óskarssyni, kt. 071125-5139 á hendur eftirtöldum hreppum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu: Hvalfjarðarstrandarhreppi, kt. 630269-6449, Innri- Akraneshreppi, kt. 660169-5479, Leirár- og Melahreppi, kt. 420269-7579, Andakílshreppi, kt. 420169-3969, Reykholtsdalshreppi, kt. 530269-7799, Hálsahreppi, kt. 590169-0999, Hvítársíðuhreppi, kt. 650169-7359, Þverárhlíðarhreppi, kt. 420369-4259, Álftaneshreppi, kt. 410169-7709, Borgarhreppi, kt. 480169-6469 og Borgarbyggð, kt. 510694-2289.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu verði dæmdir til að greiða honum skaðabætur in solidum kr. 3.377.025 með 6% ársvöxtum frá slysdegi 4. nóvember 1988 til 1. desember 1988, en með 4% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1989, en með 6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 1989, en með 8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars 1989, en með 10% ársvöxtum frá þeim degi til 21. mars 1989, en með 13% ársvöxtum frá þeim degi til 11. apríl 1989, en með 15% ársvöxtum frá þeim degi til 11. júní 1989, en með 17% ársvöxtum frá þeim degi til 21. júlí 1989, en með 12% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 1989, en með 10% ársvöxtum frá þeim degi til 1. september 1989, en með 6% ársvöxtum frá þeim degi til 21. september 1989, en með 8% ársvöxtum frá þeim degi til 21. október 1989, en með 9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 1989, en með 11% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 1990, en með 9% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1990, en með 7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars 1990, en með 5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1990, en með 3% ársvöxtum frá þeim degi til 24. ágúst 1990 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 24. ágúst 1990 til greiðsludags.
Til vara gerir stefnandi þær dómkröfur, að stefndu verði dæmdir til að greiða skaðabætur in solidum krónur 2.873.550, með 6% ársvöxtum frá slysdegi 4. nóvember 1988 til 1. desember 1988, en með 4% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1989, en með 6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 1989, en með 8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars 1989, en með 10% ársvöxtum frá þeim degi til 21. mars 1989, en með 13% ársvöxtum frá þeim degi til 11. apríl 1989, en með 15% ársvöxtum frá þeim degi til 11. júní 1989, en með 17% ársvöxtum frá þeim degi til 21. júlí 1989, en með 12% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 1989, en með 10% ársvöxtum frá þeim degi til 1. september 1989, en með 6% ársvöxtum frá þeim degi til 21. september 1989, en með 8% ársvöxtum frá þeim degi til 21. október 1989, en með 9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 1989, en með 11% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 1990, en með 9% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1990, en með 7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars 1990, en með 5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1990, en með 3% ársvöxtum frá þeim degi til 24. ágúst 1990 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 24. ágúst 1990 til greiðsludags.
Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu.
Dómkröfur stefndu eru þær aðalleg, að þeir verði sýknaðir af kröfu stefnanda, en til vara að krafa stefnanda verði stórlega lækkuð. Þá krefjast stefndu málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda, að mati dómsins.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. var stefnt til að veita stefndu styrk vegna málsins og gæta réttar síns að öðru leyti, en engar kröfur voru gerðar á hendur honum.
Sjóvá- Almennar gerði engar kröfur í málinu.
II.
Stefnandi var byggingarfulltrúi hjá hinum stefndu sveitarfélögum. Samkvæmt lögum nr. 108/1945 um byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp sem ekki eru löggiltir verslunarstaðir, heyrðu málefni byggingarfulltrúa undir sýslunefndir. Með samningi dags. 1. nóvember 1971 réðu sýslumenn Mýra-, Borgarfjarðar-, Hnappadals-, Snæfells- og Dalasýslu, stefnanda í starf byggingarfulltrúa í umdæmum sínum. Sama dag fékk stefnandi erindisbréf, sem byggingarfulltrúi Mýra-, Borgarfjarðar-, Hnappadals-, Snæfells- og Dalasýslu. Kom þar fram, að hann starfaði samkvæmt lögum nr. 108/1945 og byggingarsamþykktum sýslanna og starfaði undir stjórn sýslumanna umdæmisins.
Með byggingarlögum nr. 54/1978 voru málefni byggingarfulltrúa færð til sveitarfélaga. Hinn 7. október 1982 sömdu oddvitar hreppa í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu um skipan byggingar- og skipulagsmála. Upphaflegir samningsaðilar voru Þverárhlíðarhreppur, Álftaneshreppur, Leirár- og Melahreppur, Innri-Akraneshreppur, Hvalfjarðarstrandarhreppur, Skorradalshreppur, Lundarreykjadalshreppur, Hálsahreppur, Reykholtsdalshreppur, Norðurárdalshreppur, Hraunhreppur, Andakílshreppur, Borgarhreppur, Stafholtstungnahreppur og Hvítársíðuhreppur. Í framangreindum samningi oddvita hreppanna segir í tl. 1.1. að ráða skuli einn byggingarfulltrúa fyrir svæði samningsaðila í samræmi við byggingarreglugerð. Í tl. 2.1. kemur fram að stjórn embættis byggingarfulltrúa skuli skipuð fimm einstaklingum og skuli sýslumaður Mýra- og Borgarfjarðarsýslu vera sjálfkjörinn í stjórn. Í tl. 2.2. segir m.a. að hlutverk stjórnar skuli vera að hafa á hendi yfirumsjón byggingarfulltrúaembættisins, þ.m.t. að annast mannaráðningar, semja um kaup og kjör og setja byggingarfulltrúa erindisbréf. Í tl. 2.3. segir að sýslumaður Mýra- og Borgarfjarðarsýslu hafi rétt til ákvarðanatöku í minniháttar atriðum ásamt byggingarfulltrúa, en daglegur rekstur embættisins sé í höndum byggingarfulltrúa. Þar kemur fram að stjórn embættis byggingarfulltrúa hafi yfirumsjón embættisins þ.m.t. mannaráðningar og samninga um kaup og kjör. Sýslumannsembættið í Borgarnesi annist fjárreiður og greiði laun og annan kostnað og annist innheimtu hjá samningsaðilum svo og öðrum aðilum sem greiðsluskyldu bera samkvæmt samningum eða reikningum. Einnig eru í samningi þessum ákvæði um úrsögn, m.a. að hún skuli miðast við áramót.
Með samningi dags hinn 30. desember 1982 var stefnandi ráðinn byggingarfulltrúi Mýra- og Borgarfjarðarsýslu af stjórn embættis byggingarfulltrúa í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Í þeim samningi var kveðið á um kaup hans og kjör. Segir þar að hann skuli taka laun samkvæmt 24. launaflokki, 3. þrepi, hinna almennu samninga ríkisins og BSRB og njóta hámarksstarfsaldurs til launa, orlofs og veikindaréttar samkvæmt þeim samningum auk þess sem daglegur vinnutími skuli fara eftir þeim. Í samningnum var mælt fyrir um greiðslu fyrir 20 klst. yfirvinnu á mánuði og greiðslu kostnaðar vegna bifreiðarafnota og húsaleigu og lífeyrisréttindi. Uppsagnarfrestur var ákveðinn 6 mánuðir miðað við mánaðamót. Samkvæmt ákvæði í samningnum skyldi að öðru leyti fara samkvæmt hinum almennu kjarasamningum ríkisins og lögum og reglum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eftir því sem við eigi.
Hinn 7. nóvember 1983 var stefnanda sett erindisbréf af hálfu stjórnar embættis byggingarfulltrúa. Þar kemur fram í inngangi að starfssvið hans skuli vera samkvæmt lögum nr. 54/1978, reglugerð nr. 197/1979 og byggingarsamþykktum þeirra sveitarfélaga, sem hann starfi fyrir. Síðan eru talin upp helstu verkefni byggingarfulltrúans. Í 5. tl. erindisbréfsins segir að verkefni byggingarfulltrúa sé að veita embættinu forstöðu undir yfirstjórn byggingarnefndanna og stjórnar embættisins og vera þeim aðilum í hvívetna til ráðuneytis og aðstoðar um byggingarmálefni og stjórnun embættisins.
Frá því að fyrrgreindur samningur var gerður hafa orðið nokkrar breytingar á aðild að samstarfi sveitarfélaganna í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu um byggingaeftirlit. Árið 1988 sögðu Andakílshreppur, Reykholtsdalshreppur og Hvalfjarðarstrandarhreppur sig úr samstarfinu og tók uppsögnin gildi áramótin 1988/1989 samkvæmt fyrrgreindum samningi. Í framhaldi af því eða 29. júní 1988 var stefnanda sagt upp störfum og tók uppsögnin gildi 1. janúar 1989. Stefnandi fékk greidd laun út uppsagnarfrestinn, eða til 31. desember 1988.
Hinn 4. nóvember 1988 slasaðist stefnandi alvarlega í bílslysi við bæinn Skipanes í Leirár-og Melahreppi í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Við áreksturinn fékk stefnandi mikið höfuðhögg, meðal annars sár í andlit, brot á nef og rifjabrot. Þá marðist stefnandi á hægra lunga og fékk hnykk og togáverka á bak. Stefnandi lá á sjúkrahúsi Akraness til 18. nóvember 1988. Björn Önundarson læknir mat örorku stefnanda vegna slyssins. Samkvæmt þeirri matsgerð, dagsettri 10. júlí 1990 var örorka stefnanda 100% í 20 mánuði og 75% varanlega. Þar segir m.a.:„Slasaði kom til viðtals og skoðunar hjá undirrituðum í tvö skipti, þ.e. hinn 29. nóvember 1989 og hinn 05. júlí 1990. Honum segist frá atburðum og afleiðingum slyss þessa líkt og að framan er fram komið. Slasaði varð fyrir miklu höfuðhöggi í nefndu slysi m.a. broti á nefbeini. Hann fær oft höfuðverk, en einnig á hann við erfiðleika að stríða hvað varðar andlega getu, t.d. er um minnisskerðingu að ræða en einnig erfiðleika við einbeitingu. Slasaði þreytist mjög í hægra augnloki sínu, og fær þá gjarnan ptosis. Þetta kemur sér að sjálfsögðu illa, þar sem slasaði er verulega skertur að sjón á vinstra auga. Stífla kemur í hægri nös og telur slasaði að breytingar til hins verra hafi orðið á lyktarskyni og bragðskyni, þ.e. að þessir eiginleikar séu nú mun ónæmari en áður, en þó ekki upphafnir. Slasaði hefur verk í hnakka, aftan í hálsi, í herðum og segir hann verki liggja niður paravertebralt með hrygg alveg niður í hægri mjöðm. Þá hefur slasaði mikið kuldaóþol hægra megin í andliti, yfir hægra kinnbeini, hægri hluta nefs og hægra augnloki. Dofi er í hægri hluta efri varar og slefa rennur úr munni af þeim sökum. Slasaði fær oft svimakennd (svo), einkum ef hann rís snögglega upp úr lotinni stellingu. Þá eru baugfingur og litlifingur hægri handa dofnir og valda slasaða óþægindum, þar sem gripið á millum þumalfingurs annars vegar og litlafingurs og baugfingurs hins vegar á hægri hendi er verulega skert. Slasaði varð og fyrir slynk á bak sitt, nánast í heild, en fyrir hafði hann slæmar slitgigtarbreytingar og með þröngan hrygggang á lumbalsvæði. Líklegt er að hann hafi fengið brjósklos á millum L IV. og LV. Allar líkur benda til að það brjósklos stafi af þessu slysi. Þetta áfall á bak veldur verkjum þar, stundum rótarverkjum eftir L V. og S 1 hægra megin og slasaði hefur einkenni sem geta svarað til þess við skoðun. Hann á því erfitt bæði með stöður og setur.
ÁLYKTUN
Það er um að ræða tæplega sextíu og fimm ára gamlan mann, sem hinn 04. nóvember 1988 varð fyrir fjöltrauma, er bifreið sem slasaði stýrði lenti í árekstri við aðra bifreið. Slys þetta skeði á svonefndum Skorholtsmelum í Borgarfirði. Slasaði var þegar eftir slys þetta fluttur með sjúkrabíl í Sjúkrahúsið á Akranesi, þar sem meiðsl slasaða voru könnuð og þar sem hann fékk meðferð um sinn. Þar var hann vistaður til 18. nóvember 1988. Síðar var slasaði svo til meðferðar hjá Guðmundi J. Guðjónssyni bæklunarskurðlækni í Reykjavík en einnig hjá Sverri Bergmann taugasjúkdómafræðingi í Reykjavík.
Alveg óvinnufær vegna nefnds slyss er slasaði talinn hafa verið í um tuttugu mánuði. Eftir það er um verulega varanlega örorku að ræða.
Svo sem að framan greinir varð slasaði fyrir fjöltrauma í nefndu slysi. Við komu á Sjúkrahúsið á Akranesi var slasaði fullkomlega áttaður á stað og stund. Mjög stórt sár í efri vör rétt hægra megin við miðlínu. Náði sárið í gegnum vörina, ca. 1 1/2 cm., hélt áfram í húðinni sjálfri upp í hægri nös. Hægri nefvængur rifinn frá. Stórt sár fremst á septum og stóð septumbrjóskið út úr. Það var sprungið með dálítilli dislocatio. Þá var rifa á septum vinstra megin lengst frammi, en lítil, ca 3 mm. Upp í fornix efri varar í miðlínu var sár sem lá upp í nef premaxillert. Sár var ofan við hægra auga, rétt neðan við augabrúnina, ca. 5 cm. langt. Sjálft augað eðlilegt og sá sjúklingur vel með því. Mikil palpationseymsli voru yfir IV. til VIII. rifi hægra megin og IV. og V. rifi vinstra megin. Lungnahlustun var hrein og symmetrisk. Actio cordis 76/mín. og blóðþrýstingur 160/90. Kviðskoðun og útlimaskoðun var ómarkverð.
Hér að framan hafa verið rakin þau einkenni, sem slasaði nú kvartar um sem afleiðingu af nefndu slysi og þykir ekki ástæða til að endurtaka þau.
Slasaði býr nú við verk í hnakka, aftan í hálsi og í herðum en einnig niður eftir baki, meira hægra megin, alveg niður í hægri mjöðm. Þá fær slasaði svæsin höfuðverkjaköst, sem hann ekki hafði áður og eru til mun verri en sá hnakkaverkur sem hann ber að jafnaði. Slasaði sér ver með hægra auga sínu en áður vegna þess að augnlokið vill síga og hann þannig fá ptosis. Þetta er mjög bagalegt, þar sem slasaði er skertur að sjón á vinstri auga. Þá er lyktar- og bragðskyn að einhverju marki skert, þó erfitt sé að mæla það. Slasaði hefur stöðugan verk í baki, en hann mun hafa fengið áverka á nær allt bak sitt, sem fyrir bar mikla slitgigt. Þá er talið nær fullvíst að hann hafi fengið L V. S 1 protrusio hægra megin.
Líklegt er talið að slasaði hafi litlar emboliur í heila og verður á engan hátt útilokað að slíkar emboliur geti borist frá carotisæðum og verður meira að segja að telja líklegt.
Verst er þó að slasaði er nú skertur að minni og einbeitingu. Undir áðurgreindum viðtölum við undirritaðan kemur fram að slasaði þarf að leita að orðum, hann virðist svara í nokkurri óvissu þó greinilegt sé að hér sé um vel gefinn mann að ræða. Tekið skal fram, að undirritaður hafði ekki þekkingu af slasaða fyrir nefnt slys, en nær fullvíst má telja að megin hluti þeirrar skerðingar á andlegu atgervi sem slasaði nú ber stafi af nefndu slysi.
Ekki verður séð, að þessi maður komist til nokkurra þeirra starfa sem krefjast andlegs atgervis né heldur líkamlegs. Slasaði mun vera tæknifræðingur að menntun og verður að teljast nánast útilokað að hann komist til þeirra starfa hér eftir. Þá mun hann ekki geta sinnt líkamlegum störfum af ástæðum sem að framan er frá greint.
Með tilliti til þess sem að framan greinir svo og hins að nokkuð á annað(svo) er nú liðið frá því áðurnefnt slys átti sér stað þykir eðlilegt að meta nú þá tímabundnu og varanlegu örorku, sem slasaði telst hafa hlotið af völdum þessa slyss og þykir sú örorka hæfilega metin, sem hér segir:
Í tuttugu mánuði....................................100%
Varanleg örorka.....................................75%”
Eftir að mál þetta var höfðað óskuðu stefndu eftir dómkvaðningu matsmanna til þess að meta örorku stefnanda. Voru dómkvaddir læknarnir Júlíus Valsson og Sigurður Thorlacíus og er matsgerð þeirra dags. 30. júlí 1996. Í þeirri matsgerð segir svo í niðurstöðu matsmanna: „Undirritaðir hafa kynnt sér fyrirliggjandi gögn og skoðað Bjarna Stefán Óskarsson, kt. 071125-5139. Ljóst er að slasaði hefur við bílslysið þann 4. nóvember 1988 orðið fyrir útbreiddum líkamsáverkum. Hann skarst m.a. í andliti og afleiðingar þessa áverka hafa orðið örmyndun á hægra augnloki og hægri efri vör með ofholdgun sem valda því að hann hefur viss óþægindi við að matast og einnig hefur hann óþægindi frá hægra auga. Einnig er lyktaskyn minnkað og þ.a.l. bragðskyn. Einnig er stífla um hægri nösina. Hér er þó ekki um mikla varanlega örorku að ræða vegna ofantaldra atriða.
Í öðru lagi er ljóst að slasaði hefur hlotið áverka á háls, hrygg og brjósthol. Hann hlaut m.a. rifbrot með vökvasöfnun og loftbrjósti. Einnig hefur hann hlotið tognun á hálsi og baki, sem valda honum vissum erfiðleikum enn í dag.
Ljóst er að slasaði hefur hlotið höfuðhögg og í kjölfarið svokallað post traumatiska encephalopathiu. Þetta kemur fram sem einbeitingarörðugleikar og vægar minnistruflanir en þess ber þó að geta að slasaði er með útbreiddan æðakölkunarsjúkdóm og hefur að öllum líkindum fengið væg heilaáföll sem sjást á sneiðmyndatöku af heila. Þessi atriði er því erfitt að meta og aðgreina. Einnig er ljóst að slasaði hefur fyrir slysið haft talsverðar slitgigtarbreytingar í nánast öllum hryggnum þótt hann væri að mestu einkennalaus vegna þessa. Telja má að slysið hafi leyst úr læðingi óþægindi frá baki vegna undirliggjandi slitgigtarsjúkdóms í hrygg.
Niðurstöður undirritaðra eru að öðru leyti eftirfarandi:
Svör við spurningum:
1.Við undirritaðir teljum, að Bjarni Stefán Óskarsson hafi orðið fyrir varanlegri (læknisfræðilegri) örorku af völdum umferðarslyssins þann 4. nóvember 1988, sem telst vera 35% (þrjátíu og fimm af hundraði).
2.Varanleg fjárhagsleg örorka vegna slyssins telst einnig vera 35% (þrjátíu og fimm af hundraði).
3.Ljóst er að Bjarni Stefán hefur fyrir slysið í nóvember 1988 átt við þrálát bakóþægindi að stríða vegna slitgigtar, sem þó ollu ekki óvinnufærni. Við slysið hafa einkenni hans frá baki hins vegar versnað til muna og eiga einn stærstan þátt í óvinnufærni hans nú. Eftir slysið hafa einnig komið til alvarlegir sjúkdómar sem eiga sinn þátt í óvinnufærni hans nú. Sú læknisfræðilega og fjárhagslega örorka, sem metin er hér að ofan er því einungis talin vera vegna umferðarslyssins þann 4. nóvember 1988.”
Stefnandi hefur haldið því fram, að hann hafi verið á ferð um héraðið sitt í embættiserindum er hann varð fyrir fyrrgreindu slysi. Stefnandi var frá vinnu af og til þetta ár, eða 21. mars til 9. júní 1988 og frá 1. júlí til 13. ágúst 1988 og svo frá 27. ágúst 1988, en ágreiningur er með aðilum hvort stefnandi hafi enn verið í veikindaleyfi er slysið varð. Samkvæmt yfirlýsingu og framburði Ólafs Guðmundssonar, sem leysti stefnanda af í veikindum hans, var Ólafur í starfi byggingarfulltrúa Mýra- og Borgarfjarðarsýslu frá fyrrgreindan tíma og út árið 1988. Við aðilayfirheyrslu fyrir dómi kvaðst stefnandi hafa komið til starfa eftir veikindaleyfi í byrjun september 1988 og þá annast símavörslu, en Ólafur Guðmundsson hafi verið honum áfram til aðstoðar. Þá kvaðst hann hafa verið á fundi byggingarnefndar í Reykholtsdal hinn 12. september það ár. Kvaðst hann hafa verið á leið suður til Reykjavíkur í Stofnlánadeild að gefa þar skýrslu, sem hann kvaðst alltaf hafa gert fyrir 15. nóvember ár hvert.
III.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að vegna slyssins og hinnar miklu örorku hafi hann ekki getað fengið sér aðra vinnu eftir að uppsagnarfrestur leið. Gerir stefnandi kröfu á hendur stefndu vinnuveitendum sínum um bætur samkvæmt slysatryggingu. Styður stefnandi kröfur sínar við 8. lið ráðningarsamnings stefnanda frá 30. desember 1982, þar sem segir að um réttindi og skyldur samningsaðila fari að öðru leyti samkvæmt hinum almennu kjarasamningum starfsmanna ríkisins eftir því sem við á. Þegar ráðningarsamningurinn sé skoðaður í heild sinni sjáist að það hafi verið ætlun samningsaðila að stefnandi nyti að engu leyti lakari kjara en almennt gerist um opinbera starfsmenn, þ.e.a.s. félaga innan BSRB. Stefnandi kveður að um langa hríð hafi verið ákvæði í kjarasamningum allra ríkisstarfsmanna um slysabætur. Á þessum tíma hafi ekki verið í gildi neinn heildarkjarasamningur fyrir alla félagsmenn BSRB. Eðlilegt sé því að þessu leyti að miða við samninga þá sem gilt hafi um starfsmenn stærsta aðildarfélags BSRB, þ.e. Starfsmannafélags ríkisstofnanna, en það hafi m.a. innan sinna vébanda félagsmenn, sem gegnt hafi svipuðum störfum og stefnandi gerði.
Í samkomulagi fjármálaráðherra og Starfsmannafélags ríkisstofnanna um slysatryggingar frá 26. febrúar 1990, sbr. reglur nr. 30/1990 og nr. 31/1990, er kveðið á um dánarbætur og bætur fyrir varanlega örorku. Vegna bókunar í eldri kjarasamningum hafi samkomulag þetta gilt aftur í tímann og þann tíma sem stefnandi slasaðist á. Samkvæmt þessu samkomulagi séu allir ríkisstarfsmenn tryggðir allan sólarhringinn en bætur misháar eftir því hvort menn slasast í starfi eða utan þess. Stefnandi kveðst miða stefnufjárhæð í aðakröfu við tryggingafjárhæð þá sem gilt hafi um slys í starfi frá 1. júlí 1988 - 1. janúar 1989 samkvæmt lið 2.2. í ofangreindu samkomulagi fjármálaráðherra og Starfsmannafélags ríkisstofnanna.
Ríkið hafi ekki keypt sérstaka slysatryggingu vegna samningsákvæða af því tagi sem hér sé vitnað til heldur tekið sjálft á sig að greiða bætur á grundvelli kjarasamnings um þetta efni. Hins vegar hafi mörg sveitarfélög keypt slysatryggingar vegna sinna starfsmanna þ.á.m. byggingarfulltrúa.
Stefnandi gerir kröfur á hendur stefndu á grundvelli ráðningarsamnings síns og ákvæða kjarasamninga ríkisstarfsmanna um slysatryggingu hvort sem vinnuveitendur hans, stefndu, hafi keypt slíka tryggingu eður ei.
Þá byggir stefnandi á því að lengi vel hafi í rekstrarreikningum embættis byggingarfulltrúa, verið gert ráð fyrir kostnaði vegna trygginga.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að hann hafi slasast í starfi enda hafi slysið orðið í vinnutíma. Breytir þar engu þótt stefnandi hafi verið akandi á bifreið sinni er slysið varð, enda hafi akstur um héraðið verið ríkur þáttur í starfi hans. Stefnandi kveðst hafa verið á ferð um hérað sitt á tilgreindum tíma í embættiserindum, og hafi m.a. komið við á bæjum í Leirár-og Melahreppi. Hafi staðið til að lokinni vinnu, að keyra til Akraness, þar sem stefnandi hafi ætlað að taka ferjuna til Reykjavíkur.
Varakröfu sína byggir stefnandi á því, að slysið hafi orðið utan vinnutíma og honum dæmdar bætur á grundvelli liðs 2.2. í samkomulagi fjármálaráðherra og Starfsmannafélags ríkisstofnanna frá 26. febrúar 1990, en þar sé gert ráð fyrir lægri bótum vegna slyss utan starfs en vegna slyss í starfi.
Stefnandi hefur gert eftirfarandi grein fyrir fjárhæð bótakröfu:
Aðalkrafa:
Tryggingarfjárhæð vegna slyss í starfi er kr. 2.501.500 skv. lið 2.2 í samkomulagi fjármálaráðherra og Starfsmannafélags ríkisstofnanna frá 26. febrúar 1990. Skv. 2. tl. 10. gr. reglna nr. 30/1990 vegur hvert örorkustig frá 26-50% tvöfalt og hvert örorkustig frá 51-100% þrefallt. Aðalkrafan sé því fundin út með eftirfarandi hætti, en stefnandi sé 75% öryrki:
Örorkustig 1-250,25 x 1 x kr. 2.501.500 =kr. 625.375
Örorkustig 26-500,25 x 2 x kr. 2.501.500 =kr. 1.250.750
Örorkustig 51-750,25 x 3 x kr. 2.501.500 =kr. 1.876.125
Samtalskr. 3.725.250
Varakrafa:
Tryggingarfjárhæð vegna slyss utan starfs er kr. 1.915.700 skv. lið 2.2. í samkomulagi fjármálaráðherra og Starfsmanna ríkisstofnanna frá 26. febrúar 1990. Skv. 2. tl. 10. gr. reglna nr. 31/1990 vegur hvert örorkustig frá 26-50% tvöfalt og hvert örorkustig frá 51-100% þrefalt. Aðalkrafa er því fundin út með eftirfarandi hætti, en stefnandi sé 75% öryrki.:
Örorkustig 1-250,25 x 1 x kr. 1.915.700 =kr. 478.925
Örorkustig 26-500,25 x 2 x kr. 1.915.700 =kr. 957.850
Örorkustig 51-750,25 x 3 x kr. 2.501.500 =kr. 1.436.775
Samtalskr. 2.873.550
Bæði í aðal- og varakröfu er krafist almennra sparisjóðsvaxta Landsbanka Íslands frá slysdegi en dráttarvaxta frá 24. ágúst 1990, er mánuður var liðinn frá því að stefndu hafi verið krafðir um hinar samningsbundnu bætur.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samningaréttar og kröfuréttar og reglna nr. 30/1990 og 31/1990, um slysatryggingar.
Kröfu um vexti, dráttarvexti og vaxtavexti byggir stefnandi á 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og III. kafla sömu laga.
IV.
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, að aldrei hafi verið sérstaklega fjallað um slysatryggingarmál stefnanda í tengslum við 8. tl. ráðningarsamnings aðila. Í þeim lið segir um réttindi og skyldur samningsaðila fari að öðru leyti samkvæmt hinum almennu kjarasamningum starfsmanna ríkisins og lögum og reglum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eftir því sem við á. Samkvæmt kjarasamningum fjármálaráðherra og BSRB frá 1. febrúar 1986 til 31. desember 1986, sem síðast hafi verið í gildi fyrir slys stefnanda hafi starfsmenn BSRB notið slysabóta, þ.m.t. örorkubóta, sbr. tl. 7.1.3. og 7.1.4. í nefndum samningi. Þegar það sé virt svo og fyrri ráðningarsamningur stefnanda frá 26. október 1971 ásamt greiðslu iðgjalda fyrir slíka tryggingu árin 1983-1986 að báðum árum meðtöldum sé af hálfu stefndu viðurkennt að ætlast hafi verið til þess að stefnandi nyti slysatryggingar.
Andstætt því sem venja sé til hjá ríkinu, hafi byggingarfulltrúaembættið í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, að frumkvæði byggingarfulltrúans sjálfs og í samræmi við ráðningarsamning hans almenna slysatryggingu fyrir byggingarfulltrúa embættisins til þess að firra embættið tjóni sem upp kynni að koma, enda hafi iðgjöld slíkrar tryggingar verið lág. Tryggingin hafi verið tekin hjá Sjóvátryggingafélagi Íslands h/f, en stefnandi hafi verið umboðsmaður þess tryggingafélags. Stefnandi hafi séð um þennan þátt f.h. embættisins, án nokkurra afskipta stjórnar þess eða formanns hennar. Tryggingariðgjöld vegna slysatryggingarinnar hafi verið greidd með eðlilegum hætti fyrir árin 1983, 1984, 1985 og 1986. Árin 1987 og 1988 virðist ekki hafa verið gætt að tryggingunni af hálfu byggingarfulltrúans, sem forstöðumanns embættisins, sem hafi því augljóslega verið í hans verkahring. Tryggingunni hafi ekki verið sagt upp af hálfu vátryggjenda. Stjórn embættisins hafi með engum hætti verið tilkynnt uppsögn af þess hálfu eða gerð grein fyrir að slíkt stæði til af hálfu tryggingarfélagsins. Uppsögn tryggingarinnar hafi ekki borist stjórn embættisins og frumkvæðið að uppsögn hennar hafði hvorki stjórn eða formaður hennar. Stefndu kveða engin gögn um uppsögn finnist nú hjá vátryggingafélaginu.
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, að stefnandi sjálfur hafi sem starfsmaður stefndu og forsvarsmaður byggingafulltrúaembættisins vanrækt að sjá til þess að slysatrygging hans fyrir árin 1987 og 1988 viðhéldist á sama hátt og árin á undan og félli ekki niður. Á honum hafi ótvírætt hvílt sú ábyrgð og skylda sem forsvarsmanni embættisins. Sem umboðsmaður vátryggingafélagsins, sitjandi beggja megin borðsins, hafi hann haft fullkomna yfirsýn yfir tryggingamálin í heild, betur en nokkur annar sem byggingarfulltrúaembættinu tengdist. Ef einhver breyting varð þar á hafi honum borið skylda til þess, sem starfsmanni byggingafulltrúaembættisins, að gera stjórn þess viðvart með formlegum hætti, svo að embættinu og stefndu gæfist kostur á að grípa til viðeigandi ráðstafana og draga úr hugsanlegu tjóni sínu. Sem umboðsmanni vátryggingafélagsins hafi honum jafnframt borið skylda til að senda embættinu greiðsluáskorun vegna ógreiddra iðgjalda af tryggingunni svo og viðvörun um að tryggingin kynni að falla niður af þeim sökum. Engar slíkar tilkynningar hafi borist stjórn embættisins. Stefnandi, sem starfsmaður stefndu, forsvarsmaður byggingarfulltrúaembættisns og ábyrgðaraðili hvað varði allan daglega rekstur þess og umsýslu aldrei á að neitt væri athugavert við tryggingamál sín eða gera þyrfti einhverjar sérstakar ráðstafanir vegna nýrra eða breyttra aðstæðna til þess að tryggja rétt hans sem starfsmanns og takmarka um leið hugsanlegt tjón embættisins, vinnuveitanda síns og stefndu. Stefnandi hljóti að hafa verið öllum hnútum kunnugur, þar sem hann hafi bæði tekið trygginguna á sínum tíma, samþykkt hana sem umboðsmaður tryggingafélagsins, hafði umsjón og eftirlitsskyldu með greiðslu af hálfu vátryggingartakans og tók við greiðslum fyrir hönd vátryggjanda, sem umboðsmaður hans. Við þessar aðstæður sé fráleitt að stefnandi eigi einhvern bótarétt á hendur stefndu. Stefnandi beri sjálfur ábyrgð á að trygging sú, sem hann sjálfur hafi upphaflega tekið hafi ekki verið til staðar þegar slysið varð. Slík augljós vanræksla stefnanda leiði því til sýknu stefndu enda bersýnilega ósanngjarnt og í andstöðu við grundvallarsjónarmið skaðabótaréttarins að leggja bótaábyrgð á stefndu vegna missis stefnanda á tryggingabótum sem hann annars hefði átt rétt á, en fáist ekki vegna eigin athafna, mistaka og aðgerðarleysis stefnanda sjálfs. Ef stefnandi hefði rækt starfa sinn sem skyldi hefði hann notið eðlilegrar tryggingar svo sem til hafi verið ætlast. Ljóst sé, að ef stefnandi hefði sem forsvarsmaður embættisins vanrækt að sjá til þess að stefndu hefðu orðið að greiða bætur til þess aðila, þá hefðu stefndu ótvírætt átt endurkröfurétt á hendur stefnanda fyrir þá vanrækslu. Sama hljóti að eiga við þegar viðkomandi eigi sjálfur í hlut.
Stefndu byggja varakröfu sína á sömu grundvallarsjónarmiðum og að framan greinir varðandi aðalkröfu og beri að takmarka bótarétt stefnanda á hendur stefndu vegna stórkostlegrar eigin vanrækslu og mistaka stefnanda.
Stefndu mótmæla og bótaviðmiðunum stefnanda. Stefnandi hafi verið starfsmaður sveitarfélaga þegar slysið hafi átt sér stað og því sé eðlilegt að viðmiðun hans byggi á samningi BSRB, sem í gildi hafi verið þegar slysið átti sér stað. Óeðlilegt sé, án samþykkis stefndu, að byggja útreikning bótafjárhæðar á grundvellli reglna, sem settar hafi verið löngu eftir að slysið átti sér stað eða 26. febrúar 1990 og virki aftur fyrir sig hvað bótafjárhæð varði. Slíkt sé í andstöðu við þau grundvallarsjónarmið, að lög og reglur skuli ekki með íþyngjandi hætti virka aftur fyrir sig. Þá hafi stefnandi bæði verið í uppsagnarfresti og veikindaleyfi þegar umrætt slys átti sér stað og því sé fráleitt að miða bætur við bætur vegna slyss í starfi eins og fram komi í aðalkröfu stefnanda. Samkvæmt upplýsingum starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sé viðmiðunarfjárhæð starfsmanna BSRB miðað við 75% örorku byggð á grundvelli þeirra reglna, sem í gildi hafi verið á slysdegi hinn 4. nóvember 1988 krónur 2.137.200 (1.424.800 x 1,5). Hærri viðmiðunartölu mótmæla stefndu auk þess sem tekið verði tillit til eigin sakar og /eða endurkröfuréttar stefndu á hendur stefnanda og bótafjárhæð lækkuð.
Þá byggja stefndu á því, að vaxtakrafa stefnanda sé a.m.k. að hluta niður fallin fyrir fyrningu, sbr. 2. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Eldri vaxtakröfur en fjögurra ára frá stefnubirtingardegi í nóvember 1994 séu fyrndar. Þá mótmæla stefndu dráttarvaxtakröfu stefnanda.
Um lagarök vísa stefndu til almennra reglna skaðabótaréttarins, samningaréttar og kröfuréttar. Þá vísa stefndu til byggingalaga nr. 54/1978, með síðari breytingum og reglugerða settra á grundvelli þeirra, sbr. reglugerðir nr. 197 og 292/1979, svo og eldri byggingalaga nr. 108/1945, með síðari breytingum. Þá byggja stefndu kröfur sínar á lögum nr. 14/1905 og lögum nr. 91/1991. Málskostnaðarkröfu byggja stefndu á 129.gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V.
Eins og fram hefur komið slasaðist stefnandi í umferðarslysi hinn 4. nóvember 1988. Samkvæmt framlögðum örorkumatsgerðum og matsgerð dómkvaddra matsmanna hlaut stefnandi varanlega örorku af völdum þess. Jónas Hallgrímsson, læknir, mat varanlega örorku stefnanda hinn 11. júní 1990 65%, en Björn Önundarson, læknir, mat varanlega örorku hans, hinn 10. júlí 1990, 75%. Hinn 30. júlí 1996 mátu dómkvaddir matsmenn, læknarnir Júlíus Valsson og Sigurður Thorlacíus, varanlega örorku stefnanda 35%. Í því mati og framburði stefnanda kemur fram, að stefnandi treysti sér í hálft starf eftir slysið, ef hann hefði aðgang að því. Með hliðsjón af því, gögnum málsins um meiðsl stefnanda og fyrri sjúkrasögu, er það mat hinna sérfróðu meðdómsmanna, að örorka stefnanda sé hæfilega metin í matsgerð dómkvaddra matsmanna og sá tími sem leið frá slysi og fram til þess er dómkvaddir matsmenn mátu örorku stefnanda skipti ekki máli í því sambandi. Með vísan til þess ber að leggja mat hinna dómkvöddu matsmanna til grundvallar um örorku stefnanda af völdum slyssins.
Í ráðningarsamningi aðila frá 30. desember 1982, er stefnandi var ráðinn byggingarfulltrúi Mýra- og Borgarfjarðarsýslu af stjórn embættis byggingarfulltrúa í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, segir í 8. tl. að um réttindi og skyldur samningsaðila fari að öðru leyti samkvæmt hinum almennu kjarasamningum starfsmanna ríkisins og lögum og reglum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eftir því sem við á. Samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og BSRB frá 1. febrúar 1986 nutu starfsmenn BSRB slysatryggingar. Í ljósi fyrrgreinds ákvæðis kjarasamnings aðila átti stefnandi því að njóta slysatryggingar samkvæmt kjarasamningi ríkisins og BSRB.
Fyrir liggur, að almenn slysatrygging var tekin hjá Sjóvátryggingafélagi Íslands h.f. fyrir stefnanda árin 1983 til 1986 og að hans frumkvæði, en stefnandi var jafnframt umboðsmaður þess tryggingafélags á þeim tíma. Samkvæmt framburði þáverandi sýslumanns í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu stjórnarmanns í stjórn embættis byggingarfulltrúa Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, fyrir dómi, samþykkti hann greiðslu reikninganna, er stefnandi framvísaði þeim. Jafnframt liggur fyrir, að á sama tíma og stefnandi hætti störfum umboðsmanns tryggingafélagsins, var hætt að greiða iðgjöld af tryggingunni.
Ljóst er að það var á ábyrgð stefndu hvort þeir keyptu umsamda slysatryggingu fyrir stefnanda hjá tryggingarfyrirtæki. Af gögnum málsins verður ekki séð að sérstök ákvörðun hafi verið tekin um það af hálfu stefndu, að taka slíka tryggingu. Þá liggur fyrir að embætti sýslumannsins í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu sá um greiðslu reikninga fyrir byggingafulltrúaembættið. Í rekstrarreikningum embættis byggingarfulltrúa kom fram að iðgjöld vegna slysatrygginga voru ekki meðal útgjalda embættisins árið 1987. Verður ekki talið, að þó svo stefnandi hafi, meðan hann var umboðsmaður tryggingafélagsins framvísað reikningum vegna slysatryggingar, að hann hafi með því tekið að sér um ókominn tíma að sjá til þess að stefndu tækju slíka tryggingu eða var það stefnanda að taka ákvörðun um það. Með því, að slysatrygging var hluti af starfskjörum stefnanda, samkvæmt ráðningarsamningi og kjarasamningum, verður að telja það á ábyrgð stefndu, sem launagreiðenda, að stefnandi nyti þeirra kjara.
Í samkomulagi fjármálaráðherra og Starfsmannafélags ríkisstofnanna um slysatryggingar frá 26. febrúar 1990, sbr. reglur nr. 30/1990 og nr. 31/1990, er kveðið á um dánarbætur og bætur fyrir varanlega örorku. Samkvæmt 15. gr. reglna nr. 30/1990 og 15. gr. reglna nr. 31/1990, skal beita ákvæðum þeirra um slys, sem áttu sér stað frá og með 1. apríl 1989. Í framlögðu bréfi fjármálaráðuneytisins frá 31. janúar 1995, kemur fram að vegna bókana með kjarasamningum ríkisstarfsmanna 1987 og 1989 hafi skilmálar og bótafjárhæðir verið teknar til gagngerrar endurskoðunar, sem lokið hafi með birtingu fyrrgreindra reglna í Stjórnartíðindum. Í framlögðu samkomulagi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og starfsmannafélags ríkisstofnanna, dags. 26. febrúar 1990 skyldu skilmálar fyrrgreindra reglna gilda frá 1. febrúar 1987 til 31. mars 1989. Með vísan til þess, sem fyrr greinir um ákvæði í 8tl. ráðningarsamnings aðila, voru stefnanda tryggð sömu kjör hvað varðar slysatryggingu og um samdist milli ríkisins og stéttarfélags ríkisstarfsmanna. Þegar litið er til fyrrgreindra bókana og samnings aðila verður að fallast á það með stefnanda að samkomulag þetta gildi jafnt fyrir aðila máls þessa, sem aðra aðila kjarasamningsins.
Samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi voru allir ríkisstarfsmenn tryggðir allan sólarhringinn en bætur misháar eftir því hvort menn slösuðust í starfi eða utan þess. Eins og fram hefur komið var Ólafur Guðmundsson í starfi byggingarfulltrúa í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu er umrætt slys varð vegna veikinda stefnanda og er ekkert það fram komið í málinu, sem styður þá fullyrðingu stefnanda, að hann hafi verið við störf þann dag.
Að öllu framanrituðu virtu ber stefnanda því bætur samkvæmt reglum 31/1990 vegna 35% örorku vegna slyss utan starfs, eða krónur 862.065. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 14//1905 fyrnast vextir á fjórum árum. Stefnur í máli þessu voru birtar frá 18. nóvember til 26. nóvember 1994. Samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði eru því áfallnir vextir fyrir 26. nóvember 1990 fyrndir. Stefndu voru krafðir um bætur hinn 24. júlí 1990, í samræmi við mat Björns Önundarsonar á örorku stefnanda og bar krafa stefnanda dráttarvexti að liðnum 30 dögum eftir að mat lá fyrir. Samkvæmt framanrituðu verður vaxtakrafa stefnanda tekin til greina með þeim hætti, að dæma dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 26. nóvember 1990 til greiðsludags.
Eftir þessari niðurstöðu bera að dæma stefndu til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Dóminn kvað upp, Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari ásamt læknunum, Bjarna Hannessyni og Ísak Hallgrímssyni. Uppkvaðning dóms þessa hefur dregist nokkuð vegna embættisanna dómsformanns.
Dómsorð:
Stefndu, Hvalfjarðarstrandarhreppur, kt. 630269-6449, Innri- Akraneshreppur, kt. 660169-5479, Leirár- og Melahreppur, kt. 420269-7579, Andakílshreppur, kt. 420169-3969, Reykholtsdalshreppur, kt. 530269-7799, Hálsahreppur, kt. 590169-0999, Hvítársíðuhreppur, kt. 650169-7359, Þverárhlíðarhreppur, kt. 420369-4259, Álftaneshreppur, kt. 410169-7709, Borgarhreppur, kt. 480169-6469 og Borgarbyggð, kt. 510694-2289, greiði in solidum stefnanda, Bjarna Stefáni Óskarssyni, krónur 862.065, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. nóvember 1990 til greiðsludags.
Stefndu greiði in solidum stefnanda krónur 350.000 í málskostnað.