Hæstiréttur íslands

Mál nr. 337/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 30. maí 2011.

Nr. 337/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. júní 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 23. apríl 2011, nú síðast samkvæmt dómi Hæstaréttar 3. maí 2011 í máli nr. 261/2011, þar sem staðfestur var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2011 um gæsluvarðhald til 27. maí sama ár. Þar var talið að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 væri fullnægt og var dómurinn reistur á því lagaákvæði. Ekkert hefur komið fram við rannsókn málsins síðan sem breytir þessu mati réttarins. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins  24. júní  2011,  kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að upphaf máls þessa megi rekja til útkalls lögreglu á neyðarmóttöku slysadeildar 22. apríl sl. vegna þolanda, A, kt. [...], sem þar hafi verið í skoðun vegna meintrar nauðgunar. Samkvæmt frásögn brotaþola hafi hún orðið fyrir nauðgun tveggja manna um nóttina. Hún hafi verið að skemmta sér ásamt öðrum þeirra, kærða Y, sem hún hafi þekkt fyrir m.a. vegna vensla við hann og vinkonu hennar B. Hafi þau verið í miðbæ Reykjavíkur og farið á nokkra skemmtistaði. Síðan hafi þau farið heim til brotaþola að [...] í Reykjavík og spjallað saman. Hafi B fljótlega farið að sofa en hin haldið áfram að spjalla. Skömmu síðar hafi kærði X boðað komu sína að [...], en brotaþoli hafi þekkt hann fyrir en kærði Y ekki. X hafi farið inn í herbergi ásamt brotaþolanum en hún hafi haft kynferðislegan áhuga á honum. Hann hafi hins vegar skipað kærða Y að koma til þeirra inn í herbergið og lagt til að þau færu saman í „þreesome.“ Undir þetta hafi A og kærði Y þó hvorug tekið. X hafi hins vegar gengið hreint til verks og þvingaði brotaþola með ofbeldi til munnmaka og stjórnað því sem fram hafi farið með því að skipa Y að hafa kynmök við brotaþola.  Samkvæmt frásögn brotaþola hafi kærði X neytt hana til munnmaka og hafi kærði Y jafnframt haft samfarir við brotaþola. Samkvæmt frásögn brotaþola hafi hún verið afar hrædd við X og hafi tekið þá ákvörðun að berjast ekki á móti til að hljóta ekki skaða af. Hafi hann verið afar harkalegur við hana, rifið í hár hennar, klipið hana og stjórnað hreyfingum hennar. Eftir um hálftíma hafi kærði X hætt kynmökunum og gengið út úr herberginu en skipað kærða Y að halda áfram að eiga kynmök við brotaþola. Beri kærða Y og A saman um að fljótlega eftir að X hafi farið fram hafi þau hætt. Eftir þetta hafi kærði X reiðst heiftarlega og gert athugasemdir við það sem fram hafi farið í svefnherberginu þrátt fyrir að hann hafi átt frumkvæðið að því. Hafi hann m.a. haft frammi hótanir við brotaþola um að berja hana og kærða Y. X hafi farið af heimili brotaþola milli klukkan 06:00 og 07:00, en meðkærði Y hafi yfirgefið vettvang aðeins síðar. Ber brotaþola og kærða Y saman um að Y hafi sýnt mikla iðrun og að hann hafi verið hjá henni áfram að hennar beiðni,  þar sem hún hafi óttast mjög að X myndi koma aftur. Næsta morgun hafi brotaþoli greint B, sem hafi verið sofandi í öðru herbergi, frá atvikum svo og fleiri vitnum. Þá hafi hún í framhaldinu farið á slysa- og bráðadeild Landsspítala til skoðunar. Fram hafi komið að kærðu hefðu ekki fengið sáðlát.

Kærði X hafi verið handtekinn hinn 23. apríl og kannist hann við að hafa verið á heimili brotaþola aðfaranótt 22. apríl og  haft samfarir og munnmök við brotaþola ásamt meðkærða Y.  Kvaðst kærði hafa haft frumkvæði að þessu en kvað kærða Y og A hafa verið samstíga í því sem fram fór. Hann hafi kannast við að vera „skapmikill maður“ og hafi hann sagst hafa upplifað A sem „hóru“ og „druslu“ vegna framkomu hennar. Framburður hans sé á annan veg um það sem gerðist í svefnherberginu en kærða Y og A.

Samkvæmt skýrslu sem tekin hafi verið af kærða Y hafi hann viðurkennt samfarir og munnmök við brotaþola en kvað það sem fram hafi farið hafa verið gegn sínum vilja. Hafi hann í fyrstu talið að brotaþoli væri samþykk því sem fram fór, eða látið til leiðast, en þegar kærði X hafi einnig tekið þátt hafi það greinilega breyst. Hann kvaðst hafa upplifað X sem ógnandi persónu en allt hans fas hafi verið slíkt þó hann hafi ekki beitt sig ofbeldi heldur aðeins gefið honum fyrirskipanir. Hann kvað kærða hafa verið ógnandi og mjög harkalegan gegn brotaþola m.a. klipið í brjóst brotaþola, rifið í hár hennar og stjórnað hreyfingum hennar í einu og öllu, m.a. stjórnað því er hún hafði munnmök við sig. Kvaðst hann ekki hafa talið sig hafa möguleika á að andmæla kærða, en kærði Y sé bæði lág- og grannvaxinn.

Brotaþola og kærða Y beri saman um atburðarrásina í veigamiklum atriðum, m.a. um það hvernig kærði X hafi stjórnað kynmökunum í einu og öllu og að þeim hafi staðið ógn af honum. Þá beri þeim saman um að kærði hafi státað sig af ofbeldisverkum sínum í almennu tali þeirra fyrir atburðinn.

Til rannsóknar hjá lögreglu sé önnur kæra á hendur X fyrir nauðgun. Hún hafi verið lögð fram. hinn 18. apríl sl. af forráðamanni C sem þá hafi verið 17 ára gömul. Í skýrslu sem tekin hafi verið af C hafi hún greint frá því að kærði hefði brotið gegn henni aðfaranótt 27. mars sl. á dvalarstað hans í Reykjavík. Hafi þau áður verið í samskiptum á Facebook en hafi ákveðið að hittast umrædda nótt og hafi kærði sótt hana. Hafi C lýst því að hún hafi viljað hafa við hann samræði og hafi það haft eðlilegan aðdraganda. Skyndilega hafi kærði byrjað að vera ógnandi í hegðun og beitt hana ofbeldi og stjórnað hreyfingum hennar. Hafi hann m.a. þvingað hana til munnmaka, endaþarmsmaka, rifið í hár hennar, bitið hana, slegið hana utanundir og klipið fast í brjóst hennar. Þá hafi hann sagt hana vera hans „eign“ og gripið þéttingsfast um háls hennar og hótað því að hálsbrjóta hana ef hún hefði aftur samræði við fyrrverandi kærasta sinn. Hafi hún af þessum sökum óttast X og ekki þorað að andmæla honum nema að litlu leyti. C hafi leitað aðhlynningar fyrst á heilsugæslu og síðar á sjúkrahúsi,  en samkvæmt upplýsingum þaðan hafi hún borið áverka, m.a á brjóstum sem geti samrýmst því að hún hafi verið klipin og bitin. Þá hafi hún greint vitnum frá því sem gerst hafi.

Kærði hefur sagt kynferðismökin við C hafa verið með hennar samþykki. Hafi hann kannast við að hafa verið „smá harkalegur“ en hún hafi vitað hvað hann vildi, enda hafi hann sagt við hana að hann væri „ekki góður strákur og enginn trúboðagaur.“ Kvaðst hann aðyllastrough sex“ og hafi C mátt vita það.

Kynferðisbrotamálin hvort um sig varði allt að 16 ára fangelsi. Um sé að ræða gróf brot þar sem kærði hafi beitt yfirburðastöðu sinni og ógnandi tilburðum og hafi haft samræði við tvær ungar konur gegn vilja þeirra með ofbeldi, hótunum og ólögmætri nauðung, sbr. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Líkindi séu með málunum tveimur, sérstaklega þegar litið sé til aðferða kærða við að koma fram vilja sínum með það eitt í huga að fullnægja eigin hvötum. Hafi hann virt að vettugi kynfrelsi kvennanna. Í báðum tilvikum sé um að ræða stutt kynni og hafi hann ekki áður haft samræði við þær. Þá hafi þær báðar reynt að mótmæla honum í upphafi en hætt því af ótta við hann.

Framburður brotaþolanna hvors um sig þyki trúverðugur en engin tengsl séu á milli þeirra. Í máli nr. [...] fái framburður A styrka stoð af framburði annars gerandans. Þyki lýsing hans á aðstæðum samræmast í öllum atriðum því sem hún hafi lýst. Hafi hún borið á sama veg um það sem gerst hafi í svefnherberginu umrætt sinn, hjá lögreglu og hjá neyðarmóttöku. Þá samræmist marblettir á líkama hennar þeirri lýsingu sem hún hafi gefið á ofbeldi X. Þessu til viðbótar séu til staðar óbein sönnunargögn.

Framburður C, í máli nr. [...] hafi verið borinn undir X og hafi hann kannast við að hafa verið harkalegur, m.a. „nartað í eyra og háls“ og „gripið í hár.“ Brotaþoli hafi farið í læknisskoðun en í skýrslu komi fram að áverkar hafi verið á líkama hennar. Hafi framburður hennar verið á sama veg frá upphafi. Til viðbótar séu til staðar óbein sönnunargögn.

Rannsókn málanna sé nú lokið og verði þau send ríkissaksóknara í beinu framhaldi af réttarhaldi þessu.

Að mati lögreglu sé fram kominn sterkur grunur um að kærði hafi framið brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu, eins og rakið hafi verið. Þá þyki almannahagsmunir krefjast þess, vegna eðlis brotanna, að kærði gangi ekki laus.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr.  88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Fallist er á með lögreglustjóra að sterkur grunur sé um að kærði hafi gerst sekur um tvö brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn ákvæðinu varðar allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að rannsókn málsins sé lokið og verði rannsóknargögn nú send ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn. Með hliðsjón af eðli hinna meintu brota verður talið að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður því orðið við kröfunni eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins  24. júní  2011,  kl. 16:00.