Hæstiréttur íslands
Mál nr. 174/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Ábyrgð
- Banki
- Lögbann
|
|
Föstudaginn 12. júní 2009. |
|
Nr. 174/2009. |
Lárus Guðmundsson Atli Ómarsson og Mynt ehf. (Eiríkur S. Svavarsson hdl.) gegn Íslandsbanka hf. (enginn) |
Kærumál. Ábyrgð. Bankar. Lögbann.
L, A og M kröfðust þess að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að leggja ekki lögbann við þeirri fyrirætlun Í að greiða MÖ tiltekna fjárhæð á grundvelli tveggja bankaábyrgða. Með úrskurði héraðsdóms var kröfu L, A og M hafnað þar sem dómurinn taldi að ekki væri uppfyllt skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990. Í dómi Hæstiréttar var hins vegar talið að L, A og M hefðu gert nægilega sennilegt að umræddar greiðslur myndi brjóta gegn lögvörðum rétti þeirra og að réttindi þeirra gætu skaðast að marki þannig að ekki yrði úr bætt síðar. Þá var jafnframt talið að sýnt hefði verið fram á að greiðsla af hálfu Í yrði að teljast yfirvofandi athöfn í merkingu 1. mgr. 24. gr. lagana nr. 31/1990. Önnur skilyrði lagaákvæðisins voru jafnframt talin uppfyllt, enda áttu ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna ekki við í málinu. Hæstiréttur féllst því á lögbannskröfu L, A og M og var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar..
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 3. apríl 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. apríl og 4. júní 2009. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 6. febrúar 2009 um synjun lögbannsgerðar í máli nr. L-12/2009. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför með áorðnum breytingum. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við þeirri fyrirætlan varnaraðila að greiða Mønten København ApS, á grundvelli tveggja bankaábyrgða, fjárhæð sem nemur 3.290.040 dönskum krónum. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Í hinum kærða úrskurði er greint frá samningi 30. janúar 2008 um kaup á 30 hótelíbúðum í Kaupmannahöfn, sem þá voru á byggingarstigi. Seljandi var Mønten København ApS. Kaupendur íbúðanna voru nokkrir einstaklingar og lögaðilar fyrir hönd óstofnaðs félags, en meðal þeirra voru sóknaraðilarnir Lárus Guðmundsson og Atli Ómarsson. Í málatilbúnaði sóknaraðila kemur fram að kaupendur hafi nokkru síðar gerst hluthafar í sóknaraðilanum Mynt ehf. og teljist það félag vera kaupandi að þeim 30 íbúðum, sem voru keyptar í það sinn, en félagið hafði áður keypt 50 hótelíbúðir af sama seljanda. Heildarkaupverð í samningnum 30. janúar 2008 var 61.663.550 danskar krónur.
Í samningnum var ákvæði þess efnis að kaupendur skyldu afhenda seljanda bankaábyrgð fyrir fjárhæð, sem mun svara til nærri 30% af heildarkaupverðinu. Samkvæmt samningnum skyldi bankaábyrgð nema 18.499.065 dönskum krónum. Glitnir banki hf. gaf í samræmi við þetta út ábyrgð fyrir Lárus Guðmundsson til seljanda fyrir 1.212.960 krónum og Atla Ómarsson fyrir 2.077.080 krónum eða samtals 3.290.040 dönskum krónum Aðrir íslenskir bankar og sparisjóðir gáfu út ábyrgðir til seljanda fyrir því, sem eftir stóð af fjárhæðinni, sem ábyrgð skyldi veitt fyrir samkvæmt kaupsamningnum. Ekki liggur annað fyrir en að varnaraðili hafi tekið yfir skyldur, sem Glitnir banki hf. tókst á herðar samkvæmt framansögðu.
Í málatilbúnaði sóknaraðila er sérstaklega vísað til ákvæða í 4. gr. kaupsamningsins, sem fjalla um verklok, afhendingu hins selda og galla á því. Samkvæmt grein 4.1 skyldi afhending miðast við 1. nóvember 2008, en grein 4.2 hafi veitt seljanda heimild til að tilkynna kaupanda um frestun á afhendingu hins selda í allt að sex mánuði frá 1. nóvember 2008, að því tilskyldu þó að tilkynning um framlengingu bærist kaupanda ekki síðar en þremur mánuðum fyrir ráðgerðan afhendingardag. Í sömu grein segir, sbr. einnig grein 4.4, að standi seljandi ekki við að afhenda íbúðirnar fullbúnar á tilkynntum afhendingardegi eigi kaupandi rétt á að rifta kaupunum og skuli þá hvorugur samningsaðila eiga frekari kröfur á hinn. Sóknaraðilar kveða seljanda hafa 19. maí 2008 nýtt sér heimild til að fresta afhendingu og tilkynnt að hótelíbúðirnar yrðu afhentar 28. nóvember sama ár. Hann hafi enn tilkynnt 30. júní 2008 um frekari seinkun og skyldi afhending nú verða 30. janúar 2009. Í grein 4.2 hafi aðeins verið gert ráð fyrir einni frestun á afhendingu, en þrátt fyrir það hafi sóknaraðilar fallist á síðari framlenginguna. Umsaminn afhendingardagur hafi samkvæmt því verið 30. janúar 2009. Glitnir banki hf. mun því til samræmis hafa framlengt ábyrgðir sínar.
Sóknaraðilar skýra svo frá að í nóvember 2008 hafi þeim orðið ljóst að seljandi myndi ekki geta staðið við að afhenda umræddar íbúðir á umsömdum tíma. Hafi verkfræðistofan Radius í Kaupmannahöfn verið fengin til að gera úttekt á stöðu verksins og sé ítarleg skýrsla hennar dagsett 22. desember 2008. Samkvæmt henni hafi þá mjög mikið vantað upp á að verkinu væri lokið. Verkfræðistofan hafi gert aðra úttekt 23. janúar 2009 og þá þriðju 30. sama mánaðar. Niðurstaðan hafi enn orðið sú að mikið verk væri óunnið þar til hótelíbúðirnar kæmust í afhendingarhæft ástand. Fullljóst hafi verið að seljanda yrði ókleift með öllu að standa við samninginn. Seljandi hafi ekki afhent íbúðirnar 30. janúar 2009 og að auki hafi danskur dómstóll fallist á mótmæli hans gegn því að dómkvaddur yrði maður sem sóknaraðilar hugðust kveðja til að staðfesta hver staða framkvæmda væri á umsömdum afhendingardegi. Sóknaraðilar lýstu síðan yfir riftun kaupanna 30. janúar 2009 vegna vanefnda seljanda.
Lögmaður seljanda krafði varnaraðila um greiðslu samkvæmt áðurnefndum bankaábyrgðum með bréfum 26. janúar 2009. Þar var vísað til 20. gr. reglna, sem gildi um ábyrgðirnar, og kallist ICC Uniform Rules for Demand Guarantees (URDG) og jafnframt staðhæft að sóknaraðilar hafi vanefnt samninga sína við seljanda og að samningsbrot þeirra hafi falist í því að gera ljóst að þeir myndu ekki greiða kaupverðið í banka seljanda. Varnaraðili óskaði af þessu tilefni 4. febrúar 2009 nánari skýringa lögmannsins á ætluðum samningsbrotum sóknaraðila. Í svari hans 5. febrúar 2009 var einkum vísað til bréfs fulltrúa sóknaraðila 13. janúar 2009, sem líta yrði á sem yfirlýsingu um fyrirfram vanefnd á greiðslu kaupverðs, hvort heldur væri 26. janúar eða á afhendingardegi 30. sama mánaðar.
II
Sóknaraðilar reisa kröfu sína á því að seljandi hótelíbúðanna hafi án nokkurs vafa vanefnt samningsskyldur sínar, svo sem rakið er að framan, þannig að þeim fyrrnefndu hafi verið heimil riftun. Þeir mótmæla jafnframt að þeir hafi sjálfir brotið samninginn, enda hafi þeim verið heimilt að fella niður greiðslur eftir að ljóst varð að seljanda yrði ókleift að efna af sinni hálfu. Þrátt fyrir vangetu til að efna samninginn réttilega krefjist seljandinn engu að síður greiðslu samkvæmt bankaábyrgðunum. Sú háttsemi feli í sér tilraun til fjársvika og sé refsiverð, enda sé honum fullljóst að af réttum efndum af hans hálfu geti ekki orðið og að sóknaraðilar hafi ekki vanefnt sínar skyldur. Áðurnefndar reglur, sem gildi um bankaábyrgðirnar verði ekki skýrðar svo að þær hindri að sóknaraðilar geti varist þeirri tilraun til fjársvika, sem seljandinn hafi viðhaft. Samkvæmt reglunum sé mat á því hvort skylt sé að greiða í höndum dómstóla í því ríki þar sem bankaábyrgðirnar séu gefnar út. Þá telja sóknaraðilar skilyrði samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 til að fá lagt lögbann á greiðslu varnaraðila vera uppfyllt. Líta verið svo á að greiðsla varnaraðila sé yfirvofandi, en í því sambandi verði að gæta að því að rík skylda hvíli á bönkum að greiða samkvæmt bankaábyrgð, komi fram krafa um það, og viðskiptin að baki séu að meginstefnu ábyrgðinni óviðkomandi. Í því ljósi verði að telja að greiðsla sé yfirvofandi. Hag seljandans sé svo komið að gjaldþrot blasi við. Sú athöfn, sem fælist í því að greiða samkvæmt ábyrgðunum, myndi óhjákvæmilega leiða til verulegs tjóns og valda sóknaraðilum réttarspjöllum, enda hætta á að lögmæt endurkrafa þeirra myndi glatast í gjaldþrotameðferð. Afleiðingarnar yrðu alvarlegar fyrir sóknaraðila, sem hafi veitt varnaraðila sjálfskuldarábyrgð eða veð vegna bankaábyrgðanna. Málsástæður sóknaraðila eru að öðru leyti raktar í hinum kærða úrskurði.
III
Reglur, sem gilda um þær ábyrgðir sem hér um ræðir og vísað hefur verið til, fela í sér fyrirvara til hags fyrir þann greiðsluskylda, þrátt fyrir almennt sterka stöðu rétthafans. Sérhver staðhæfing rétthafa samkvæmt bankaábyrgð um vanefnd af hálfu gagnaðilans leiðir ekki til skilyrðislausrar greiðsluskyldu.
Í málinu nýtur gagna um það á hvaða byggingarstigi umræddar hótelíbúðir voru í þann mund sem þær skyldu afhentar sóknaraðilum fullbúnar. Þeir síðastnefndu hafa með þeim gert líklegt að seljandi umræddra íbúða hafi vanefnt samning sinn við þá þannig að riftun kaupanna hafi verið þeim heimil samkvæmt grein 4.2, sbr. einnig grein 4.4 í kaupsamningnum. Ekki er fram komið að sóknaraðilar hafi sjálfir vanefnt samninginn. Þeir hafa þannig gert nægilega sennilegt að greiðsla varnaraðila samkvæmt áðurnefndum bankaábyrgðum muni brjóta gegn lögvörðum rétti þeirra. Með gögnum um fjárhagsstöðu seljandans hafa sóknaraðilar með sama hætti skotið stoðum undir þá staðhæfingu sína að réttindi þeirra geti skaðast að marki þannig að ekki verði bætt úr síðar verði stór hluti kaupverðsins afhentur seljandanum nú. Sú aðstaða er því fyrir hendi í málinu að ósamræmi er milli kröfugerðar um greiðslu ábyrgðarfjárhæðar og þess réttar, sem gögn málsins benda til að seljandi hótelíbúðanna raunverulega eigi.
Að fenginni kröfu frá lögmanni seljanda um greiðslu beindi varnaraðili fyrirspurn til hans. Annað liggur ekki fyrir um viðbrögð varnaraðila og þá ekki heldur hvort hann hyggst verða við kröfunni eða synja um greiðslu. Að því virtu, svo og sterkri stöðu rétthafa og ríkri skyldu banka til athafna verður fallist á með sóknaraðilum að greiðsla af hálfu varnaraðila teljist vera yfirvofandi athöfn í merkingu 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Önnur skilyrði samkvæmt lagaákvæðinu eru jafnframt uppfyllt til þess að krafa sóknaraðila geti náð fram að ganga, enda eiga ákvæði 3. mgr. 24. gr. ekki við í málinu.
Að virtu öllu því, sem að framan er rakið verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og fallist á að lögbannskrafa sóknaraðila nái fram að ganga.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Lagt er fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við því að varnaraðili, Íslandsbanki hf., greiði Mønten København ApS á grundvelli tveggja bankaábyrgða, sem settar voru fyrir sóknaraðila Lárus Guðmundsson og Atla Ómarsson fjárhæð sem nemur 3.290.040 dönskum krónum.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2009.
Með bréfi mótteknu 13. febrúar 2009 kröfðust sóknaraðilar, Lárus Guðmundsson, kt. 010460-4179, Súlunesi 33, Garðabæ, Atli Ómarsson, kt. 080866-3729, Faxahvarfi 10, Kópavogi og Mynt ehf., kt. 421007-1440, Aðalstræti 6, Reykjavík, þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 6. febrúar 2009 um synjun lögbannsgerðar í máli nr. L-12/2009 verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við þeirri fyrirætlan varnaraðila, Nýja Glitnis hf., kt. 491008-0160, Kirkjusandi, Reykjavík, að greiða Mønten København ApS út tvær bankaábyrgðir samtals að fjárhæð 3.290.040 danskar krónur. Þá var krafist málskostnaðar.
Málið var þingfest 20. febrúar 2009.
Af hálfu varnaraðila eru ekki hafðar uppi kröfur í málinu.
Sóknaraðilar hafa fallið frá kröfu um málskostnað.
Málið var tekið til úrskurðar 27. sama mánaðar.
I
Sóknaraðilar kveða málavexti þá að með kaupsamningi dags. í desember 2007, hafi tilgreindir einstaklingar og lögaðilar f.h. óstofnaðs félags þeirra keypt 30 hótelíbúðir „Business Apartments“ í Amager Bros Kvarter við Amager Boulevard 115 í Kaupmannahöfn. Hafi sóknaraðilarnir Lárus Guðmundsson og Atli Ómarsson, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags þeirra, verið meðal kaupenda samkvæmt þessum kaupsamningi. Seljandinn, Mønten København ApS, sé danskt dótturfélag verktakafyrirtækisins Keflar Invest sem hafi á þeim tíma hafið byggingu 80 hótelíbúða ásamt móttöku, eldhúsi, veitingasölu, garði og öðrum sameiginlegum svæðum á grunni eldri byggingar við Amager Boulevard í Kaupmannahöfn. Samkvæmt 7. gr. kaupsamningsins hafi heildarkaupverðið numið 61.663.550 dönskum krónum og átti það að greiðast við afhendingu íbúðanna. Samkvæmt grein 7.2.2. í kaupsamningnum hafi kaupandi átt að leggja fram bankaábyrgð að fjárhæð 18.499.065 danskar krónur til tryggingar greiðslu kaupverðs en fjárhæð þessi hafi numið 30% af heildarkaupverði. Bankaábyrgðir til tryggingar kaupsamningsgreiðslu, samtals að fjárhæð 18.499.065 danskar krónur hafi verið veittar af fjórum íslenskum bönkum, Landsbanka Íslands, BYR sparisjóði, Glitni og Kaupþing í 7 aðgreindum bankaábyrgðum. Í samræmi við kaupsamninginn hafi kaupendur stofnað með sér einkahlutafélag utan um þessi kaup. Það hafi gerst þannig að tilgreindir einstaklingar og lögaðilar, þar á meðal sóknaraðilarnir Lárus Guðmundsson og Atli Ómarsson hafi gengið inn í hlutafélagið Mynt ehf. með kaupsamningi dags. 13. mars 2008 en þetta félag hafi verið stofnað þann 25. september 2007 af aðilum sem höfðu gert sambærilegan kaupsamning þann 18. september 2007 um kaup á 50 hótelíbúðum í sömu byggingu. Samkvæmt þessum kaupsamningi sé seljandi sá sami og í fyrri kaupsamningi og séu ákvæði og orðalag þess kaupsamnings, réttindi og skyldur kaupanda og seljanda á allan hátt þau sömu en Mynt ehf. sé kaupandi íbúðanna. Þannig hafi Mynt ehf. í raun verið kaupandi 80 hótelíbúða samkvæmt tveimur kaupsamningum, gerðum annars vegar í september og hins vegar í desember 2007.
Á grundvelli kaupsamningsins sem gerður hafi verið í desember 2007 hafi varnaraðili gefið út tvær bankaábyrgðir þann 16. og 21. janúar 2008 samtals að fjárhæð 3.290.040 danskar krónur vegna sóknaraðilanna Atla Ómarssonar (DKK 2.077.080) og Lárusar Guðmundssonar (DKK 1.212.960), til seljandans, Mønten København ApS, allt í samræmi við ákvæði kaupsamningsins. Hafi þessi ábyrgð gilt til 1. nóvember 2008 sem hafi verið áætlaður afhendingadagur samkvæmt kaupsamningi.
Með umræddum kaupsamningum hafi fylgt 13 fylgiskjöl sem töldust hluti kaupsamninganna. Eins og að framan greini hafi afhendingadagur allra framangreindra íbúða verið áætlaður þann 1. nóvember 2008. Samkvæmt kaupsamningunum og fylgiskjali þeirra nr. 10 hafi umræddar íbúðir átt að afhendast full kláraðar, með öllum húsgögnum og öðru lausafé, allt niður í gaffla og skeiðar í hverri íbúð og svo búnar að unnt væri að hefja útleigu og rekstur þeirra strax við afhendingu. Í 4. grein kaupsamninganna, hafi verið afar mikilvægar samningsbundnar heimildir til handa kaupanda. Samkvæmt grein 4.2. í kaupsamningum aðila hafði seljandi heimild til að tilkynna kaupanda, þremur mánuðum fyrir ráðgerðan afhendingardag um frestun afhendingar. Þessi framlenging hafi getað numið allt að 6 mánuðum frá hinum upphaflega ráðgerða afhendingadegi (sem var 1. nóvember 2008) en þó að því tilskildu að tilkynning um slíka framlengingu bærist kaupanda aldrei síðar en þremur mánuðum fyrir ráðgerðan afhendingardag. Í grein 4.2., sbr. og grein 4.4. sé skýrt kveðið á um, að standi seljandi ekki við það að afhenda allar umræddar íbúðir á tilkynntum afhendingardegi í því ástandi sem kaupsamningar og skilalýsing þeirra kveði á um eigi kaupandi samningsbundinn rétt til að rifta og ganga frá kaupsamningnum án þess að annar hvor aðilinn eigi frekari kröfu á hendur hinum. Við þessar aðstæður eigi kaupandi jafnframt rétt til endurgreiðslu þeirra kaupsamningsfjárhæðar sem hann hafi þá þegar innt af hendi sem samkvæmt grein 7.2.1. í kaupsamningunum nemi samtals 2.250.000 dönskum krónum. Beri seljanda að endurgreiða þessa fjárhæð með uppsöfnuðum vöxtum frá því að kaupsamningsgreiðslur þessar hafi verið afhentar seljandanum.
Með bréfi, dags. 19. maí 2008, hafi seljandi neytt framangreindrar heimildar og tilkynnt að afhendingadagur hótelíbúðanna yrði þann 28. nóvember 2008. Með tölvubréfi þann 30. júní 2008, hafi seljandi tilkynnt um enn frekari framlengingu afhendingardagsins sem nú átti að vera 30. janúar 2009. Þrátt fyrir að ákvæði greinar 4.2. í kaupsamningum gerði aðeins ráð fyrir einni framlengingu á afhendingardegi hafi kaupandi fallist á þessa framlengingu enda hafi hún borist langt innan þeirra þriggja mánaða tímamarka sem áskilin séu í grein 4.2. fyrir slíka tilkynningu. Í ljósi framlengingar á afhendingardegi, hafi varnaraðili framlengt bankaábyrgðir sínar til 1. febrúar 2009.
Umræddar bankaábyrgðir hafi þannig verið í gildi til 1. febrúar 2009 en íbúðirnar hafi átt að afhenda þann 30. janúar 2009 og þá fullbúnar í samræmi við ítarlega skilalýsingu sem sé hluti kaupsamninganna. Þegar tekið hafi að líða á nóvember 2008 hafi farið að koma í ljós að seljandi myndi með engu móti geta uppfyllt þá samningsskuldbindingu sína að afhenda umræddar hótelíbúðir þann 30. janúar 2009, hvað þá í hinu samningsbundna ástandi. Í desember 2008 hafi kaupandinn, Mynt ehf., fengið verkfræðistofuna Radius í Kaupmannahöfn til að gera úttektir á stöðu verksins (þ.e. byggingu hótelíbúðanna). Eins og sjá megi af ítarlegri úttekt verkfræðistofunnar, dags. 22. desember 2008, hafi verkið verið langt frá lokastigi og augljóst að kraftaverk þyrfti til að ljúka byggingunni fyrir afhendingardag. Radius hafi svo gert aðra úttekt á verkinu þann 23. janúar 2009 eða 7 dögum fyrir afhendingardag og hafi niðurstaða hennar verið á sama veg. Afar langt væri frá því að byggingunni væri að ljúka hvað þá að hótelíbúðirnar væru að komast í afhendingarhæft ástand og að þar væri unnt að reka hótel frá og með 30. janúar 2009 eins og kaupsamningar kveða á um. Af því sem sjá mátti í úttektunum hafi sóknaraðilum þótt fulljóst að ekki yrði með neinu móti unnt að afhenda íbúðirnar þann 30. janúar nk. Sóknaraðilar hafi því ráðið sér lögmann í Kaupmannahöfn í byrjun desember sem hafi annast öll samskipti við seljanda vegna málsins. Með bréfi þann 13. janúar sl., hafi hann f.h. sóknaraðila sent framangreinda úttektarskýrslu frá 22. desember sl. á ástandi hússins til seljanda og áskilið sér allan rétt til beitingar þeirra réttarúrræða sem kaupsamningur og lög kvæðu á um. Þrátt fyrir framangreindar úttektir og bréfasamskipti lögmanns sóknaraðila og lögmanna seljanda hafi lögmaður seljanda engu að síður ritað bréf til varnaraðila þann 26. janúar 2009, þar sem gerðar hafi verið kröfur til greiðslu á bankaábyrgðum þeim er varnaraðili hafði gefið út á grundvelli fyrrnefndra kaupsamninga fyrir sóknaraðila.
Það hafi því komið gerðarbeiðendum verulega í opna skjöldu að Mønten København ApS skyldi krefjast greiðslna á bankaábyrgðum sem settar voru sem trygging fyrir greiðslu kaupverðs, enda öllum aðilum löngu orðið fullljóst að seljandi gæti ekki afhent hótelíbúðirnar. Byggingin hafi aðeins verið hálfkláruð og engin lokaúttekt á vegum yfirvalda hefði farið fram. Þvert á móti hafi byggingaryfirvöld í Kaupmannahöfn gert alvarlegar athugasemdir við ýmislegt til að mynda brunöryggismál. Bæði fyrir og í kjölfar sendingar kröfubréfa vegna greiðslu umræddra bankaábyrgða hafi lögmaður sóknaraðila sent varnaraðila ýmis gögn og upplýsingar auk hinna ítarlegu úttektarskýrslna verkfræðistofunnar Radíus.
Þann 30. janúar s.l. hafi seljandi ekki afhent sóknaraðilum hinar umræddu hótelíbúðir og hafi meinað sóknaraðilum að skoða hina hálfkláruðu byggingu sem hafi átt að vera fullbúin og tilbúin til hótelrekstrar þann dag. Í kjölfarið hafi lögmaður sóknaraðila í Danmörku ritað bréf, dags. 30. janúar s.l., þar sem kaupsamningum aðila hafi verið rift með vísan til samningsbundinna réttinda kaupanda í greinum 4.2. og 4.4. í kaupsamningum. Þann dag sem afhending hafi átt að fara fram hafi verkfræðistofan Radíus tekið myndir og tekið saman í skýrslu, dags. 30. janúar 2009. Hafa beri í huga við skoðun á þessari skýrslu að hvorki fulltrúi sóknaraðila né verkfræðistofan Radíus hafi fengið aðgang að byggingunni við hina svokölluðu „afhendingu“ hennar. Eins og sjá megi af framlögðum myndum hafi verkið vart verið hálfklárað þann dag sem afhending átti að fara fram.
Með bréfi lögmanns sóknaraðila, dags. 2. febrúar 2009, hafi ítarlega verið farið yfir ástæður þess að ekki ætti að verða við kröfu seljanda um greiðslu bankaábyrgðanna og hafi verið skorað á varnaraðila að greiða ekki út umræddar bankaábyrgðir. Vísast að öðru leyti til bréfsins en þar hafi sóknaraðilar áskilið sér allan rétt til beitingar nauðsynlegra réttarúrræða til að koma í veg fyrir greiðslu ábyrgðanna. Þrátt fyrir framangreint virðist varnaraðili fyrirhuga að greiða seljanda þær bankaábyrgðir sem hann hafi krafist greiðslu á og því hafi sóknaraðilum verið sá kostur að leita eftir lögbanni.
Þann 6. febrúar sl. lögðu sóknaraðilar fram beiðni um lögbann hjá sýslumanninum í Reykjavík. Þann sama dag tók sýslumaður þá ákvörðun að fallast ekki á kröfu sóknaraðila um lögbann. Niðurstaða sýslumanns byggði á því að það væri á áhættu gerðarþola að greiða út fjármuni á grundvelli bankaábyrgðanna, ennfremur að ekki fengist séð af beiðninni og gögnum með henni að gerðarbeiðandi hafi sýnt fram á eða gert sennilegt að yfirvofandi væri athöfn af hálfu gerðarþola sem bryti gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðanda. Það var einnig mat sýslumanns að hagsmunir gerðarbeiðanda vegna ráðstöfunar gerðarþola á bankaábyrgðunum væru nægilega tryggðir með réttarreglum um refsingu og skaðabætur.
II
Sóknaraðilar segja kröfu sína um lögbann byggja á tveimur útgefnum bankaábyrgðum varnaraðila, sem gefnar hafi verið út á grundvelli tveggja kaupsamninga. Þessar bankaábyrgðir séu annars vegar að fjárhæð 2.077.080 danskra króna og hins vegar 1.212.960 danskra króna eða samtals 3.290.040 danskra króna.
Sóknaraðilar telja rökstuðning sýslumannsins í Reykjavík frá 6. febrúar s.l. fyrir synjun á lögbannsbeiðni sóknaraðila afar stuttorðan og fátæklegan. Án þess að skýra það út frekar sé látið nægja að segja að það sé mat sýslumannsins í Reykjavík að það sé á áhættu varnaraðila hvort hann greiði út fjármuni á grundvelli bankaábyrgðanna. Þess sé ekki getið á hvern hátt sýslumaður telji að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hér sé á ferðinni yfirvofandi athöfn sem brjóti gegn lögvörðum hagsmunum hans. Þá sé ekki heldur tilgreint í rökstuðningi sýslumanns hvernig réttarreglur og skaðabætur tryggi hagsmuni sóknaraðila nægjanlega.
Sóknaraðilar telji ótvírætt að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann, o.fl., sé fullnægt til að leggja lögbann við greiðslu varnaraðila á bankaábyrgðum til Mønten København ApS. Hér sé um að ræða yfirvofandi athöfn af hálfu varnaraðila sem sóknaraðilar telji ólögmæta og hún muni klárlega brjóta gegn lögvörðum rétti sóknaraðila. Fyrir liggi að Mønten København ApS hafi sent varnaraðila kröfubréf, dags. 26. janúar s.l., þar sem krafist sé greiðslu á framangreindum bankaábyrgðum og af samskiptum sóknaraðila við varnaraðila að dæma virðist varnaraðili vera við það að hefjast handa við þá athöfn að greiða út umræddar bankaábyrgðir til Mønten København ApS.
Sóknaraðilar byggi á því að umræddar bankaábyrgðir, hafi verið veittar á grundvelli kaupsamnings til tryggingar á greiðslu kaupverðs og nemi bankaábyrgðirnar 30% af kaupverði sóknaraðila við umrædd fasteignakaup. Telja sóknaraðilar að varnaraðili sé ekki í rétti til að greiða út umræddar bankaábyrgðir. Í umræddum bankaábyrgðum segi beinlínis að skilyrði útgreiðslu á ábyrgðinni sé að sóknaraðilar (Principal) hafi vanefnt undirliggjandi samning, sem í þessu tilviki sé kaupsamningur milli sóknaraðila og seljandans Mønten København ApS. Fyrir liggi að sóknaraðilar hafi ekki vanefnt kaupsamninginn heldur þvert á móti fylgt honum í einu og öllu fram að samningsbundinni afhendingu. Varnaraðili hafi í höndum öll gögn því til staðfestu. Ekki verði með neinu móti skilið hvers vegna þetta ákvæði sé í sjálfri bankaábyrgðinni hafi það ekkert vægi eða tilgang. Sóknaraðili telur að hér sé um að ræða beinan efnisrétt í sjálfri bankaábyrgðinni til að hafna greiðslu sé ekki sýnt fram á að sóknaraðilar hafi vanefnt hinn undirliggjandi samning. Ekki hafi verið sýnt fram á þær vanefndir og því telji sóknaraðilar það beinlínis ólögmætt af varnaraðila og brjóta gegn skilmálum bankaábyrgðanna að greiða umræddar ábyrgðir út. Tilgangur lögbannsbeiðnar sóknaraðila sé að koma í veg fyrir að þessi ólögmæta athöfn eigi sér stað. Ennfremur bendi sóknaraðilar á að hinum undirliggjandi kaupsamningi hafi verið rift. Þannig sé sjálfur grundvöllurinn sem bankaábyrgðirnar hafi verið veittar fyrir á sínum tíma ekki lengur til staðar. Eftir riftun kaupsamningsins muni þannig aldrei reyna á hvort sóknaraðilar hafi vanefnt undirliggjandi samning eins og áskilið sé í bankaábyrgðunum. Allt að einu undirbúi varnaraðili útgreiðslu bankaábyrgðanna.
Auk þess að horfa algjörlega framhjá framangreindum skilmálum bankaábyrgðanna sé í ákvörðun sýslumanns algerlega horft framhjá því sem mikilvægast sé varðandi grundvöll lögbannsbeiðnar sóknaraðila. Umræddar bankaábyrgðir séu veittar á grundvelli alþjóðlegra viðurkenndra reglna sem samdar séu að tilstuðlan Alþjóða viðskiptaráðsins og kallist ICC Uniform Rules for Demand Guarantees. Þessar reglur gildi um umræddar bankaábyrgðir og af 27. og 28. gr. reglnanna verði glögglega ráðið að umræddar bankaábyrgðir og mögulegur ágreiningur vegna þeirra fari eftir íslenskum lögum þar sem útgefandi bankaábyrgðanna sé íslenskur banki. Sóknaraðilar geti því einungis beint kröfum sínum varðandi bankaábyrgðirnar að varnaraðila og þeirri athöfn sem hann fyrirhugi nú að framkvæma. Í inngangskafla reglnanna sé skýrt tekið fram að reglunum sé ætlað að vernda og koma í veg fyrir að ábyrgðarhafi (sóknaraðili) þurfi að sæta því að bankaábyrgðirnar séu greiddar út þegar slíkar kröfur byggja á ólögmætum og/eða sviksamlegum athöfnum rétthafans. Eins og fram komi í lögbannsbeiðni sóknaraðila sé byggt á því að krafa rétthafa til útgreiðslu bankaábyrgðanna sé gerð á röngum og ósönnuðum forsendum, eingöngu í hagnaðarskyni fyrir Mønten København ApS. Krafan sé ólögmæt og gerð í því skyni að skaða hagsmuni sóknaraðila. Rétthafi bankaábyrgðanna, Mønten København ApS, hafi gert kröfu um greiðslu bankaábyrgða þann 26. janúar s.l., verandi fullkomlega grandsamur um á þeim tíma að efndir hans myndu ekki fara fram þann 30. janúar s.l. eins og kaupsamningur kveði á um. Sú varð einnig raunin. Krafan sé gerð í nafni Karsten Kristoffersen lögmanns sem undirriti kröfubréf til bankanna í nafni Mønten København ApS en hann hafi fram til þess tíma komið fram sem lögmaður Alm. Brand Bank en sá banki treysti á greiðslu bankaábyrgðanna vegna lánahagsmuna sinna gagnvart Mønten København ApS, sbr. framlagt veðbókarvottorð. Sóknaraðilar telji það engum vafa undirorpið að hér sé af ásetningi gerð tilraun til greiðslu á bankaábyrgðum, að því er virðist með vitund Alm. Brand Bank, án þess að lögmætur grundvöllur sé til þeirrar kröfugerðar. Gegn betri vitund og með sviksamlegum hætti sé þannig leitast við að auðgast á ólögmætan hátt enda sé seljanda fullkunnugt að honum sé ókleift að afhenda þá söluvöru sem bankaábyrgðir hafi verið veittar fyrir og fyrir liggi á þessu stigi að söluvaran verði ekki afhent. Sóknaraðilar vísa í þessu samhengi til 26. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum og ekki síst til 248. gr. laganna.
Sóknaraðilar vísa til þess að í inngangskafla hinna alþjóðlegu reglna um bankaábyrgðir segi að reglur landsréttar viðkomandi ríkis gildi varðandi refsiverða háttsemi þegar gerðar séu kröfur til útgreiðslu bankaábyrgða með sviksamlegum eða ólögmætum hætti. Af framangreindu telji sóknaraðilar ekki neinum vafa undirorpið að með kröfum um útgreiðslu bankaábyrgðanna geri rétthafinn tilraun til fjársvika. Hann viti að hann geti ekki afhent þá söluvöru sem bankaábyrgð var veitt fyrir. Allt að einu reyni hann nú að fá greitt 30% af kaupverði þessarar sömu söluvöru í gegnum bankaábyrgð. Greiði varnaraðili umræddar bankaábyrgðir brjóti hann þannig gegn lögvörðum réttindum sóknaraðila og staðfesti ólögmæta athöfn. Með lögbannsbeiðni sóknaraðila sé verið að koma í veg fyrir þá ólögmætu athöfn og að mati sóknaraðila sé algjörlega framhjá þessu horft í ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík.
Þá sé ljóst að varnaraðili sjálfur sé í miklum vafa um það hvort hann geti greitt út umræddar ábyrgðir og telji greinilega að krafa um útgreiðslu þeirra sé vægast sagt hæpin. Sóknaraðila sé kunnugt um að varnaraðili hafi ritað rétthafa ábyrgðanna bréf þar sem vísað sé í framangreinda skilmála bankaábyrgðarinnar um að vanefndir sóknaraðila séu fyrir hendi og óskað upplýsinga um þær hugsanlegu vanefndir sóknaraðila. Með hliðsjón af framangreindu og framkomu rétthafa ábyrgðanna megi því vera ljóst að það sé a.m.k. verulegur vafi á því að útgreiðsla bankaábyrgðanna sé lögmæt, hvað þá að slík útgreiðsla styðjist við þær reglur sem gildi um viðkomandi bankaábyrgðir. Vísar sóknaraðili í þessu samhengi einkum til hæstaréttardóms í máli nr. 48/2005.
Þá hafna sóknaraðilar því mati sýslumanns að hagsmunir sóknaraðila séu nægjanlega tryggðir með réttarreglum um refsingar og skaðabætur. Af fyrirliggjandi gögnum og samskiptum milli sóknaraðila og varnaraðila, einkum bréfi dagsettu 2. febrúar 2009, megi vera ljóst að sú athöfn sem felast myndi í því að greiða út ábyrgðirnar fæli í sér stórkostleg réttarspjöll og verulegt tjón fyrir sóknaraðila. Tjónið yrði margþætt og telji sóknaraðilar að komi til þess að ábyrgðirnar verði greiddar út á þessum tímapunkti sé ljóst að það tjón muni ekki fást bætt. Við rétthafa ábyrgðanna, Mønten København ApS, blasi gjaldþrot og virðist lánveitandi rétthafans, Alm. Brand Bank hafa tekið við allri framkvæmd aðgerða samkvæmt bestu upplýsingum sóknaraðila. Af veðbókarvottorði verði séð að áhvílandi veðskuldir Alm. Brand Bank auk annarra banka séu vel yfir því kaupverði sem undirliggjandi kaupsamningur kveði á um. Komi til þess að framangreindum kröfubréfum rétthafans verði svarað með greiðslum af varnaraðila, þrátt fyrir allt framangreint, liggi fyrir að sú lögmæta endurkrafa sem sóknaraðilar hafi þá rétt til úr hendi seljanda kunni svo gott sem að glatast í gjaldþrotameðferð. Afleiðingar þess verði skelfilegar fyrir sóknaraðila og hluthafa sóknaraðilans Myntar ehf. Að baki umræddum bankaábyrgðum liggi í öllum tilvikum sjálfsskuldaábyrgðir og/eða veðábyrgðir hlutahafa sóknaraðila. Á hvern og einn þeirra muni því falla háar fjárhæðir jafnvel án þess að nokkur endurgreiðsla, sem sóknaraðilar hefðu þó rétt til, kæmi á móti því tjóni. Þetta gerist um leið og bankaábyrgðirnar verði greiddar út því þá þegar myndist skuld þeirra gagnvart varnaraðila. Langan tíma geti tekið að ná fjármununum til baka sem verði þó líklega aldrei greiddir til baka fari þeir einu sinni úr landi sé tekið mið af fjárhagsstöðu rétthafa bankaábyrgðanna. Þá taki það langan tíma að fá skorið úr réttarágreiningi um skaðabótaábyrgð varnaraðila eftir útgreiðslu bankaábyrgðanna. Á meðan verði sóknaraðilar fyrir tjóni sem enginn beri nema þeir.
Að baki ákvörðun sýslumanns virðist liggja það mat að varnaraðili sé það sterkur fjárhagslega að skaðabótareglur muni verja sóknaraðila fyrir fullri endurkröfu leiði greiðsla ábyrgðanna til tjóns fyrir sóknaraðila. Þessu mati hafni sóknaraðilar. Miðað við gengi dönsku krónunnar nú nemi fjárhæð umræddra bankaábyrgða rúmlega 760.000.000 íslenskra króna. Miðað við bága stöðu íslenskra banka í dag, ekki síst varnaraðila, verði ekki með neinu móti tryggt að slík endurgreiðslukrafa fáist fullbætt. Sóknaraðilar bendi á að efnahagsreikningur varnaraðila liggi ekki einu sinni fyrir. Ekki verði séð af bréfi sýslumanns hvaða grundvöll sýslumaður geti lagt undir þá vissu sína að sóknaraðilar séu nægjanlega tryggðir af skaðabótareglum og því beri að synja um lögbannsbeiðni sóknaraðila. Þá benda sóknaraðilar á að þrátt fyrir mikil samskipti við varnaraðila að undanförnu og áskoranir um að greiða ekki umræddar bankaábyrgðir hafi varnaraðili ekki boðist til að leggja fram tryggingu fyrir tjóni sóknaraðila. Það bendi ekki til þess að það sé hafið yfir allan vafa að varnaraðili bæti eða geti bætt sóknaraðila umrætt tjón. Ljóst megi vera að verði ábyrgðirnar greiddar út vegna ólögmætrar kröfu Mønten København ApS muni hagsmunir sóknaraðila skaðast svo stórkostlega að óbætanlegt verði. Þá sýni framangreind atriði að það mat sýslumannsins í Reykjavík sé ekki rétt að ákvæði 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 standi því í vegi að lögbannsgerðin nái fram að ganga.
Af öllu framangreindu telji sóknaraðilar sig hafa sýnt fram á að útilokað sé að þeir geti tryggt hagsmuni sína með öðrum hætti en að fá lögbann lagt við þeirri athöfn að greiða umræddar bankaábyrgðir til rétthafans. Auk framangreindra röksemda megi vera ljóst að sóknaraðilar hafi af því verulega meiri hagsmuni af því að fá lögbannsbeiðni sinni framgengt en varnaraðili að fá að greiða umræddar bankaábyrgðir miðað við þær aðstæður sem hér séu uppi. Þá bendi sóknaraðilar á að lögbannsgerðin fari fram á þeirra ábyrgð.
III
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að honum hafi borist krafa Mønten København ApS þann 22. janúar sl. Varnaraðili hafi svarað með bréfi dags. 30. jan. sl. þar sem frekari skýringa á kröfunni hafi verið óskað um leið og bent hafi verið á að athugasemdir hefðu komið fram frá sóknaraðilum varðandi réttmæti hennar. Í bréfinu hafi ábyrgðarhafa, Mønten, verið bent á að fyrirsjáanlegar vanefndir væru ekki taldar upp sem ástæða fyrir kröfu samkvæmt ábyrgðinni með vísan til texta hennar.
Þessu hafi lögmenn Mønten svarað með bréfi dags. 5 febrúar s.l. þar sem þeir hafi lýst yfir því að þeir teldu yfirlýsingar sóknaraðila um að þeir myndu ekki greiða kaupsamningsgreiðslur á afhendingartíma jafngilda vanefnd og að ábyrgðin væri ekki takmörkuð við tiltekna tegund vanefndar, þ.e. fyrirsjáanlega vanefnd. Hafi kröfur Mønten síðan verið ítrekaðar.
Varnaraðili telur það rangt hjá sóknaraðila að ákvæði reglna Alþjóða viðskiptaráðsins um ábyrgðir (Uniform Rules for Demand Guarantees) gildi um þær bankaábyrgðir sem tekist er á um í þessu máli. Hið rétta sé að ekki sé vísað til þessara alþjóðlegu reglna í viðkomandi ábyrgðaryfirlýsingum bankans.
Varnaraðili mótmælir hvorki kröfu sóknaraðila um lögbann né krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði staðfest. Hann telur ekki ástæðu til að halda uppi vörnum á þessu stigi máls á grundvelli þeirrar meginmálsástæðu að beiðni sóknaraðila um lögbann við umræddri athöfn, þ.e. þeirri að banki efni samningsskyldur sínar samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu sé alfarið á ábyrgð sóknaraðila og með beiðninni takist þeir á hendur að halda varnaraðila skaðlausum af öllum eftirmálum sem ábyrgðarhafi, Mønten, kunni að hafa uppi gagnvart bankanum í kjölfar lögbanns, fallist dómurinn á rök sóknaraðila.
Varnaraðili bendir allt að einu á það, að um sé að ræða ábyrgð sem fylgi alþjóðlegum reglum um greiðsluábyrgðir þó raunar sé ekki vísað til þeirra eins og áður er rakið og þær gildi því ekki fortakslaust um það réttarsamband sem sé kveikjan að þessu máli. Bankinn hafi samþykkt að greiða ábyrgðirnar ef krafa þar að lútandi kæmi fram innan gildistíma þeirra. Einu skilyrðin hafi verið þau að ábyrgðarbeiðandi, sóknaraðilar, hafi að mati ábyrgðarhafa, Mønten, vanefnt tiltekinn samning og hinn síðarnefndi hafi gert kröfu fyrir lok gildistíma. Ekki sé tilskilið að leggja eigi fram sérstakar skjallegar heimildir aðrar þar að lútandi.
Þessi framgangsmáti endurspegli það sjónarmið, að þarfir viðskiptalífsins, ekki síst hins alþjóðlega hluta, séu settar ofar hugsanlegum andmælum aðila viðskiptasambandsins sjálfs, enda væru bankaábyrgðir að öðrum kosti lítils virði. Þetta sé orðað svo í reglum Alþjóða viðskiptaráðsins:„Guarantees by their nature are separate transactions from the contracts or tender conditions on which they are based, and Guarantors are in no way concerned with or bound by such contracts “
Útgefandi ábyrgðar geti almennt ekki hafnað kröfum um greiðslu nema augljóst megi telja að krafan sé ósönn eða byggist á sviksamlegu atferli, eins og vikið sé að í athugasemdum við hinar alþjóðlegu reglur sem sóknaraðili vísi til. Hvað varði vafa varnaraðila um greiðslu ábyrgðanna, þá megi sjá af gögnum að varnaraðili hafi óskað eftir frekari gögnum og skýringum þegar krafa um greiðslu ábyrgðarinnar kom fram. Lögmenn ábyrgðarhafa hafi svarað fyrirspurninni og liggi afrit þeirra bréfasamskipta í málinu.
Vangaveltur sóknaraðila um getu varnaraðila til að standa undir ábyrgð sinni gagnvart hugsanlegum endurkröfum sóknaraðila geti tæpast talist rök fyrir annarri niðurstöðu en þeirri sem varnaraðili telji rétta í málinu. Varnaraðili hafi starfsleyfi frá eftirlitsaðilum. Þá standi hann einungis að baki lítils hluta ábyrgðanna eins og sóknaraðili hafi gert grein fyrir.
IV
Eins og að framan er rakið keyptu sóknaraðilar hótelíbúðir, sem voru í byggingu, með kaupsamningi í desember 2007 af Mønten København ApS. Samkvæmt grein 7.2.2. í kaupsamningnum skyldu kaupendur leggja fram bankaábyrgð til tryggingar greiðslu kaupverðs.
Á grundvelli kaupsamningsins gaf varnaraðili út tvær bankaábyrgðir þann 16. og 21. janúar 2008 samtals að fjárhæð 3.290.040 danskra króna vegna sóknaraðilanna Lárusar Guðmundssonar (DKK 1.212.960) og Atla Ómarssonar (DKK 2.077.080), til seljandans, Mønten København ApS. Eru bankaábyrgðirnar með sjálfskuldarábyrgð og/eða veðábyrgðum hluthafa sóknaraðila Myntar ehf.
Liggur fyrir að Mønten København ApS hefur með bréfi til varnaraðila þann 22. janúar 2009 krafist greiðslu á bankaábyrgðunum. Með bréfi dags 30. sama mánaðar óskaði varnaraðili frekari skýringa á kröfunni og benti á að athugasemdir hefðu komið fram af hálfu sóknaraðila varðandi réttmæti hennar. Þá var bent á að fyrirsjáanlegar vanefndir væru ekki taldar upp sem ástæða fyrir kröfu samkvæmt ábyrgðinni. Svarbréf Mønten København ApS er dagsett 5. febrúar s.á. Þar kemur fram að yfirlýsingar sóknaraðila um að þeir myndu ekki greiða kaupsamningsgreiðslur á afhendingartíma jafngiltu vanefnd og að ábyrgðin væri ekki takmörkuð við tiltekna tegund vanefndar.
Krefjast sóknaraðilar þess í máli þessu að lögbann verði lagt við því að varnaraðili greiði Mønten København ApS út bankaábyrgðirnar.
Samkvæmt bankaábyrgðunum er það skilyrði fyrir útgreiðslu þeirra að sóknaraðili hafi vanefnt kaupsamninginn.
Sóknaraðilar halda því fram að þeir hafi ekki vanefnt kaupsamninginn. Því sé ólögmætt af varnaraðila að greiða út ábyrgðirnar. Þá hafi kaupsamningnum verið rift og því sé grundvöllur bankaábyrgðanna ekki lengur til staðar.
Samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar, ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi gerðarbeiðanda muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum, verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.
Þar sem ekki þykir liggja fyrir í málinu að varnaraðili hafi tekið afstöðu til þess hvort honum beri að greiða umkrafðar bankaábyrgðir er það mat dómsins að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að varnaraðili hafi hafist handa eða muni hefjast handa við athöfn sem gæti valdið sóknaraðila tjóni.
Þykir því ekki vera fullnægt því skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 að athöfn sem leggja á lögbann við sé byrjuð eða yfirvofandi. Verður því þegar af þeirri ástæðu ekki hjá því komist að hafna kröfu sóknaraðila.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Lárusar Guðmundssonar, Atla Ómarssonar og Myntar ehf. um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 6. febrúar 2009 um synjun lögbannsgerðar í máli nr. L-12/2009.