Hæstiréttur íslands

Mál nr. 49/2012


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 27. september 2012.

Nr. 49/2012.

M og

(Erlendur Þór Gunnarsson hrl.

Oddgeir Einarsson hdl.)

K

(Gunnar Sólnes hrl.

Bjarni Lárusson hdl.)

gegn

Barnaverndarnefnd A

(Valborg Snævarr hrl.

Ingvar Þóroddsson hdl.)

Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn.

Barnaverndarnefnd A krafðist þess að M og K yrðu svipt forsjá þriggja ára barns síns. Fyrir lá að M hafði um langa hríð neytt ávana- og fíkniefna og hlotið refsidóma fyrir margvísleg brot. Sálfræðingur bar fyrir héraðsdómi að M þarfnaðist virkrar endurhæfingar til þess að geta tekist á við foreldrahlutverkið. Í sálfræðilegri matsgerð um hagi K kom fram að hún byggi við langvarandi vanda, þ. á m. persónuleikaröskun, og væri ekki hæf til að fara með forsjá barna og vætti geðlæknis fyrir héraðsdómi var á sama veg. Talið var að beiting vægari úrræða en forsjársviptingar hefðu ekki dugað til að tryggja velferð barnsins. Var því fullnægt skilyrðum a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til að svipta M og K forsjá barns síns.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandinn M skaut málinu til Hæstaréttar 20. janúar 2012 og áfrýjandinn K 30. sama mánaðar. Þau krefjast hvort fyrir sig sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur báðum verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.

Með hinum áfrýjaða dómi voru áfrýjendur svipt forsjá sonar síns, B, sem fæddur er [...] 2009, og er málavöxtum þar ýtarlega lýst. Drengurinn hefur verið í fóstri frá því í desember 2009, fyrst hjá föðurmóður sinni en síðan hjá óskyldum fósturforeldrum.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð allmörg ný gögn, sem varða hagi áfrýjenda eftir uppkvaðningu héraðsdóms. Meðal þeirra eru gögn um að áfrýjandinn M hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 25. mars til 13. júní 2012 vegna rannsóknar lögreglu á tíu brotum sem hann hafi verið undir rökstuddum grun um að hafa átt aðild að og fangelsisrefsing lægi við, þar á meðal að hafa ráðist að barnsmóður sinni, áfrýjandanum K, með hamri og veitt henni áverka, hótað starfsfólki stefnda lífláti, auk fjárkúgunar, vörslu fíkniefna, hlutdeildar í vopnuðu ráni, aksturs undir áhrifum fíkniefna, líkamsárása, hótana og þjófnaðar. Einnig, að með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra [...] 2012 hafi áfrýjandinn M verið sakfelldur fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot og dæmdur í tíu mánaða fangelsi, óskilorðsbundið, og bíði afplánunar refsingarinnar.

Meðal nýrra gagna sem varða hagi áfrýjandans K er sálfræðileg matsgerð 5. maí 2012 vegna máls, sem stefndi höfðaði til sviptingar forsjár barns hennar sem fæddist 12. október 2011, en það var kyrrsett á fæðingardeild tveimur dögum eftir fæðingu og því komið til fósturforeldra. Sú ráðstöfun var staðfest með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. desember 2011. Í matsgerðinni kemur fram að áfrýjandinn K hafi komið til viðtals við matsmanninn 4. apríl 2012, sem þá hafi lagt fyrir hana sálfræðileg próf. Segir þar að hún hafi verið með stórt glóðarauga í viðtalinu og lýst því að áfrýjandinn M hefði beitt hana miklu ofbeldi rúmri viku áður og sparkað í hana þannig að hún myndi þurfa sjúkraþjálfun ævilangt. Hún hafi verið búsett hjá meðáfrýjanda síðustu mánuði og „verið í daglegri kannabisneyslu með honum frá því tveim vikum eftir að sonur hennar var tekinn af henni.“ Hún hafi losnað við M og eftir það ekki haft löngun í fíkniefni. Hún væri nú komin til foreldra sinna. Matsmaðurinn kvaðst hafa talað við forstöðumann stefnda sem hafi sagt mikinn ágreining milli stefnda og áfrýjandans K „um hvað sé orsök og afleiðing í vanda hennar.“ Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir meðal annars: „Forsjárhæfni K hefur verið metin ítrekað áður og vísast í fyrri gögn þar sem fram kemur að slakur vitsmunaþroski, persónuleikaraskanir, lyndisraskanir og neysla geðvirkra efna skerði forsjárhæfni hennar alvarlega. Síðasta ár hefur staða K versnað enn meir, meðal annars hefur hún misst frá sér börnin sín, hún er heimilislaus, hefur verið í ofbeldissambandi og í neyslu. Það er því ljóst að K er ekki hæf til að fara með forsjá barna.“ Ennfremur segir að til þess að hún gæti náð bata væri best að hún fengi nokkurra ára langtímameðferð með áherslu á persónuleikaröskun.

Áfrýjandinn M hefur borið því við að af hálfu stefnda hafi ekki verið gerðar meðferðaráætlanir fyrir hann og hann ekki fengið tækifæri til að annast barn sitt líkt og meðáfrýjandi og því hafi meðalhófsregla 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 verið á honum brotin. Fyrir héraðsdómi hélt hann því ekki fram að hann hefði getað tekið barnið að sér. Fram er komið að hann hafi verið ósamvinnuþýður og ekki viljað skrifa undir samþykki fyrir því að móðir hans fengi að fóstra barnið. Hann hafi jafnframt lýst því yfir að hann vildi taka drenginn að sér gæti móðir drengsins það ekki. Er ekki annað í ljós leitt en að öllum vægari úrræðum hafi verið beitt gagnvart honum, eða þau ekki reynst tæk, og er þessi mótbára hans haldlaus.

Með þessum athugasemdum og vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða hans að umönnun barnsins af hálfu beggja áfrýjenda hafi verið alvarlega ábótavant og vanhæfi þeirra augljóst og barninu mikil hætta búin á heilsu og þroska, sbr. a. og d. lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Önnur vægari úrræði en forsjársvipting, sem tæk væru, hafi verið reynd án viðunandi árangurs. Verður héraðsdómur því staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en stefndi hefur ekki krafist málskostnaðar hér fyrir dómi. Um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, M og K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra fyrir Hæstarétti, 300.000 krónur til hvors.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. desember 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. nóvember sl., er höfðað af Barnaverndarnefnd A, [...], gegn K, kt. [...], [...], [...], og M, kt. [...], [...], [...], með stefnu birtri 9. maí 2011.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu verði með dómi svipt forsjá yfir barninu B, kt. [...], en til vara að barnið verði vistað á heimili fósturforeldra í 12 mánuði frá 5. apríl 2011.  Ekki er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda, M, eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefndu, K, eru að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda auk virðisaukaskatts.

Mál þetta er rekið fyrir dómi í samræmi við fyrirmæli í X. kafla barnaverndarlaga nr. 80, 2002.

I.

1.  Stefndi, M, er 33 ára [...], sem ólst upp hjá einstæðri móður, vitninu C, ásamt yngri systkinum.  Að loknu barnaskólanámi fór stefndi í [...] en lauk ekki grunnskólaprófi.  Hann fór ungur á vinnumarkaðinn og hefur lengst af verið til sjós, en hefur verið atvinnulaus að undanförnu.  Hann á 8 ára son, sem býr hjá móður sinni á [...].  Við flutning fyrir dómi var staðhæft að síðustu mánuðina hefði nefndur drengur verið í reglulegri umgengni við stefnda eina helgi í senn, u.þ.b. mánaðarlega, en fram að því hafði nær engin umgengni verið með þeim feðgum vegna vímuefnaneyslu stefnda.  Fyrir liggur að stefndi M lauk síðustu refsivist sinni þann 12. ágúst 2010.

Stefnda, K, er 33 ára [...], sem ólst upp hjá foreldrum sínum ásamt systkinum.  Að loknum grunnskóla var hún u.þ.b. 1 ár í framhaldsskóla, en hóf þá sambúð og vann m.a. í fiskvinnslu.  Hún fluttist til [...] árið 1999 og starfaði þar við ýmis þjónustustörf.  Hún kynntist þáverandi sambýlismanni sínum árið 2001 og eignuðust þau tvö börn sem fædd eru 2002 og 2004, en þau slitu samvistum í ársbyrjun 2005.  Stefnda hefur ekki verið í fastri vinnu frá árinu 2007.

Af gögnum verður ráðið að stefndu, M og K, hafi tekið upp sambúð á árinu 2008, en þau eignuðust drenginn B þann [...] 2009.  Verður helst ráðið að þau hafi slitið sambúð sinni í júnímánuði 2009, en jafnframt að þau hafi verið í allmiklum samskiptum undanfarin misseri.

Við fæðingu B reyndist stefnda K jákvæð fyrir kannabisefnum.

Samkvæmt gögnum hafa menn haft langvinnar áhyggjur af aðbúnaði umræddra barna og heimilishögum og liggur fyrir að þau fóru öll í fóstur í desember 2009, tvö eldri börnin til foreldra stefndu K, en B til föðurömmu sinnar.

2.  Samkvæmt gögnum hefur Barnaverndarnefnd A haft eftirlit með heimili stefndu K um árabil og nær óslitið frá ársbyrjun 2008.  Tilefnið virðist m.a. hafa verið barnaverndartilkynningar og athugasemdir frá leikskóla og lögreglu um vansæld eldri barna hennar, um ætlaða fíkniefnaneyslu hennar og um ætlaða fíkniefnasölu stefnda M.  Samkvæmt beiðni Fjölskyldudeildar [...] ritaði Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur álitsgerð um forsjárhæfni stefndu K, en hún er dagsett 5. ágúst 2008.  Var efni hennar kynnt stefndu á sínum tíma.  Í álitsgerðinni er fjallað um stöðu stefndu K, en einnig er þar vikið að stefnda M, sem þá var orðinn sambýlismaður hennar.  Í álitsgerðinni er það álit látið í ljós að stefnda K þarfnist aðstoðar við að auka persónulegt sjálfstæði sitt og finna leiðir til að skapa stöðugleika í aðstæðum sínum þar sem skipulag, áætlanir og framkvæmd séu látnar haldast í hendur.  Sálfræðingurinn segir að líf stefndu K hafi tekið jákvæða stefnu síðustu misserin en að það sé áhyggjuefni hversu skammt sambýlismaður hennar, stefndi M, sé kominn í sínum bataferli og það geti skapað ákveðna hættu.  Er þar m.a. vísað til þess að sterkar vísbendingar séu um að hún hafi lágt mótlætisþol og eigi erfitt með að mæta mótbyr og að ekki megi mikið út af bregða til að ekki fari allt í sama horf.  Sálfræðingur leggur til að stefnda K sæki samtalsmeðferð hjá sálfræðingi þar sem lögð sé áhersla á hugræna atferlismeðferð og að hún fari á sjálfstyrkingar- og uppeldistækninámskeið.  Þá segir í lokaorðum álitsgerðarinnar:

„Mikilvægt er að K geri sér far um að vera í góðu sambandi við barnaverndarstarfsmenn og meðtaki þá aðstoð og eftirlitskyldur sem barnaverndarnefnd telur nauðsynlegar á hverjum tíma.  Eins og fram hefur komið er skammt síðan K átti í erfiðleikum og ítrekaðar tilkynningar bárust Barnaverndarnefndar A.  Það er því mat undirritaðrar að fylgjast þurfi áfram með heimilinu og að velferð barnanna sé örugglega tryggð.  Berist frekari barnaverndartilkynningar má gera því skóna að vandmál K séu það djúpstæð að þau hindri hana í að ná viðunandi árangri í foreldrahlutverkinu og gildi þá einu stuðningur fjölskyldu, félagsmálayfirvalda og góður vilji hennar sjálfrar.“

Samkvæmt gögnum fólust fyrstu stuðningsaðgerðir barnaverndarnefndar og félagsmálayfirvalda við stefndu K og foreldra hennar á árinu 2008 og á fyrstu mánuðum ársins 2009 einkum í leiðbeiningum og ráðgjöf.  Að auki var henni veitt aðstoð við greiðslu gjalda vegna leikskólavistunar og skólamáltíða og henni fengin tilsjónaraðili á heimili, með heimsóknum allt að þrisvar í viku, en eins og áður var rakið hóf hún sambúð með stefnda M um mitt árið 2008.  Barnaverndarnefnd A hóf hins vegar sérstaka athugun á málefnum drengsins B meðan hann var enn í móðurkviði, þann 11. febrúar 2009, en þá voru u.þ.b. sex vikur í fæðingu.  Var það vegna upplýsinga um að stefnda K stefndi lífi og heilsu hans í hættu með óviðunandi háskalegu líferni vegna fíkniefnaneyslu, en einnig vegna ætlaðs ofbeldis af hálfu föður hans, stefnda M.  Var ákveðið af hálfu nefndarinnar að hefja könnun samkvæmt 2. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.  Segir frá því í bókun nefndarinnar að stefnda hafi hafnað því með öllu að áðurnefndar grunsemdir um fíkniefnaneyslu ættu við rök að styðjast og hafi hún neitað að fara í fíkniefnapróf.  Í tilkynningu frá fæðingardeild Sjúkrahússins á [...], vegna fæðingar drengsins, þann [...] 2009, sagði að stefnda K hefði mælst jákvæð fyrir kannabis, en þess jafnframt getið að hún sinnti drengnum vel, og að auki hefði hún lýst því yfir að hún væri reiðubúin að nýta sér aðstoð göngudeildar geðdeildar sjúkrahússins.  Í gögnum barnaverndarnefndar kemur fram að eftir þetta hafi verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að fá stefndu, K og M, til að halda fund með starfsmönnum barnaverndarnefndar, en það fyrst tekist 29. apríl 2009.  Segir að á fundinum hefði stefnda K viðurkennt að hún hefði í nokkur skipti notað hass á meðgöngu B, en staðhæft að hún væri hætt slíkri neyslu en tæki kvíðastillandi lyf og af þeim sökum hefði hún hætt brjóstagjöf.  Tekið er fram að stefnda K hefði notfært sér sálfræðiaðstoð geðdeildar Sjúkrahússins á [...] og að hún hefði í hyggju að halda því áfram, en að jafnframt hefði hún lýst því yfir að hún vildi þiggja aðstoð og eiga samstarf við barnaverndarnefnd.  Vegna þessa hefði verið ákveðið að halda fund með stefndu og starfsmönnum nefndarinnar með það að markmiði að gera samstarfsáætlun, sbr. ákvæði 23. gr. barnaverndarlaga.  Frá því er greint að ekki hefði orðið af slíkum fundi þar sem stefndu hefðu ekki sinnt því að mæta.  Hefðu starfsmenn nefndarinnar loks farið á heimili stefndu K 24. júní, en þar hefðu þeir hitt hana fyrir ásamt móður hennar.  Greint er frá því að stefnda K hefði í þessari heimsókn skýrt frá því að sambúð hennar og stefnda M væri lokið og m.a. nefnt í því sambandi að hann hefði lagt á hana hendur.  Fram kemur að brýnt hefði verið fyrir K að mæta á fund starfsmanna nefndarinnar 26. júní til þess að rita undir samstarfsáætlun, en það síðan ekki gengið eftir.  Segir að stefnda K hafi loks mætt á fund barnaverndarnefndar 30. júní og þá ritað undir áætlun um málefni B, sem gilt hefði til 21. ágúst 2009.  Segir í upphafsorðum áætlunarinnar að ástæða íhlutunar barnaverndarnefndar séu erfiðar félagslegar aðstæður og neysla móður á meðgöngu.  Markmið áætlunar er sagt það að tryggja að B búi við viðunandi uppeldisskilyrði og til að styrkja móður í uppeldishlutverki sínu.  Jafnframt segir í áætluninni að það sé hlutverk stefndu K að panta viðtalstíma hjá félagsþjónustu vegna framfærslumála, sjá til þess að ekki sé neysla eða varsla fíkniefna á heimilinu, fara í fíkniefna/lyfjapróf sé þess óskað, stunda sálfræðiviðtöl, mæta reglulega með barnið til ungbarnaverndar og mæta til reglulegs samráðs með barnaverndarnefnd, þann 28. júlí og 21. ágúst á tilsettum tíma, en að öðru leyti eftir samkomulagi.  Tiltekið er að stuðningsúrræði séu þau að vera stefndu til ráðgjafar og fylgjast með aðlögun og aðbúnaði barnsins í samráði við móður, móðurforeldra og ungbarnavernd, að fylgjast með framvindu sálfræðimeðferðar hjá móður, halda samráðsfundi með móður á framangreindum tímum, hafa samráð við félagsþjónustu um stuðningsaðgerðir.  Loks segir að aðilar séu sammála um að málið sé unnið í samvinnu við móðurforeldra barnsins, enda séu þeir mikilvægir stuðningsaðilar.

Samkvæmt framlögðum gögnum bárust starfsmönnum barnaverndarnefndar á árunum 2009 og 2010 fjölmargar tilkynningar sem bentu til þess að aðstæður á heimili stefndu K og barna hennar, þ. á m. B, væru óviðunandi.  Nefnt er m.a. að þar væri umferð fólks sem ætti við vímuefnavanda að etja, en að auki væri grunur um að geðrænt ástand K væri óstöðugt, að hún neytti ólöglegra vímuefna og misnotaði geðlyf.  Einnig barst nefndinni tilkynning frá lögreglu um að stefnda K hefði verið stöðvuð við akstur á bifreið vegna gruns um fíkniefnaakstur, en einnig um að hún hefði verið lögð inn á sjúkrahús þann 11. september 2009 eftir að hafa tekið of stóran skammt af lyfjum.

Eftir að tímamörkum ofangreindrar áætlunar lauk ritaði stefnda K undir fjórar álíka áætlanir, sem allar vörðuðu málefni hennar og drengsins B, sbr. ákvæði 23. gr. barnaverndarlaga, en auk þess var samkomulag um tímabundið fóstur drengsins frá 21. desember 2009 á vegum barnaverndarnefndar hjá föðurömmu drengsins til að tryggja öryggi hans og umsjá meðan stefnda leitaði sér aðstoðar vegna margvíslegs vanda sem þótti skerða forsjárhæfni hennar, einkum ánetjun lyfja og vímuefna og vegna geðræns óstöðugleika. Í gögnum segir að stefndi, M, hafi ekkert komið við sögu í starfi barnaverndarnefndar um langa hríð eftir fyrrnefnd sambúðarslit í júnímánuði 2009.

Samkvæmt gögnum barnaverndarnefndar reyndist örðugt að staðreyna efni fyrrnefndra barnaverndartilkynninga til hlítar þar sem stefnda K hefði forðast að koma til fundar við starfsmenn nefndarinnar og verið ófáanleg til að gefa þvagsýni vegna vímuefnaleitar.  Þá hefðu áform um stuðning við stefndu K og um meðferð hennar og endurhæfingu, þ. á m. hjá Starfsendurhæfingu [...], komið fyrir lítið.  Þá segir að í árslok 2009 hefði svo verið komið að mati barnaverndarstarfsmanna að stefnda K hafi verið talin alls kostar ófær um að annast drenginn B og er vísað til ítrekaðra vísbendinga um vímuefnaneyslu og jafnframt að hún léti sig jafnvel hverfa svo sólarhringum skipti og skeytti lítt um öryggi drengsins.  Fram kemur að þann 10. desember 2009 hefðu foreldrar stefndu K komið til viðtals við starfsmenn barnaverndarnefndar og lýst miklum áhyggjum af henni vegna stjórnlausrar vímuefnaneyslu.  Vegna þessa hefði á fundi barnaverndarnefndar þann 21. desember 2009, þar sem stefnda K var mætt ásamt lögmanni sínum, verið gert fyrrnefnt samkomulag um að B myndi vistast til þriggja mánaða hjá föðurömmu sinni, vitninu C.  Á þessum sama fundi hefði enn fremur verið samið við foreldra stefndu K um að þau tækju að sér umsjá eldri systkina drengsins, og liggur fyrir að þau hafi æ síðan verið hjá þeim í vist.  Fram kemur í gögnum að í mars 2010 hefði staða stefndu K, að áliti starfsmanna barnaverndarnefndar, enn verið óbreytt en hún hefði þá ekkert unnið í sínum málum og að auki verið húsnæðislaus.  Vegna þessa hefði að tillögu barnaverndarnefndar verið samið við hana um áframhaldandi tímabundið fóstur B hjá föðurömmu sinni, en að hún myndi á meðan reyna að vinna bug á vanda sínum þannig að hún gæti tekið drenginn til sín á ný.

Samkvæmt gögnum var stefnda K til meðferðar á geðdeild Sjúkrahússins á [...] frá 23. ágúst til 7. september 2010.  Segir í framlögðu vottorði Sigmundar Sigfússonar, forstöðulæknis geðdeildarinnar, að stefnda hafi verið í sólarhringsvist og að hún hefði fylgt öllum fyrirmælum og tekið virkan þátt í deildarstarfi.  Segir í vottorðinu að aldrei hefði vaknað grunur um að hún væri undir áhrifum fíkniefna og hefðu rannsóknir sýnt að engin fíkniefni hafi verið í þvagi hennar.  Einnig segir að stefnda hefði mætt reglulega í göngudeildarviðtöl, tvisvar til þrisvar í mánuði, frá janúar til loka maí 2010 og síðan aftur eftir fyrrnefnda vist á geðdeildinni á tímabilinu frá 9. september til 10. október og loks í eitt skipti, þann 24. nóvember 2010.  Í vottorðinu segir yfirlæknirinn að stefnda K hefði fengið svohljóðandi sjúkdómsgreiningu:  Almenn kvíðaröskun, felmturröskun, endurteknar vægar geðlægðarraskanir, blandnar og aðrar persónuraskanir, (sjálfsdýrkunar-/hlutleysis-ýgi, persónuleikaröskun og jaðarpersónuröskun).  Aðrar raskanir á sálarþroska, skaðleg notkun slævilyfja eða svefnlyfja, skaðleg notkun kannabisefna, hálstognun og tognun og ofreynsla á lendahrygg.  Þá er þess getið í vottorðinu að stefnda taki inn kvíðalyf, en að fyrirhugað sé að hún fari í Starfsendurhæfingu [...] frá og með janúar 2011.  Loks er í vottorðinu vísað til skýrslu Péturs Maack Þorsteinssonar, forstöðusálfræðings geðdeildarinnar, frá 31. ágúst 2009.  Í síðastnefnda vottorðinu segir að það hafi verið ritað eftir ítarlegt sálfræðilegt mat á stefndu K eftir að fyrir hana hefðu verið lögð víðtæk sálfræðileg próf.  Í niðurstöðukafla segir nefndur sálfræðingur að hann telji að stefnda K glími við margháttaðan geðrænan vanda og þann vanda hennar megi í öllum meginatriðum rekja til persónugerðarinnar, þannig að kvíða- og lyndisraskanir komi fram sem afleiðingar af eða í kjölfarið á endurteknum árekstrum hennar við umhverfi sitt og „kerfið“.  Persónuleikaraskanir myndi afar óheppilega samsetningu einkenna með tilliti til virðingar fyrir lögum og reglum, sjúkdómsinnsæi, meðferðarheldni og samvinnu við meðferðaraðila.  Persónuleikaprófin styðji þessa mynd og því liggi nokkuð góð vissa að baki þessum greiningum.  Sálfræðingurinn fjallar nánar um persónuleikaraskanir stefndu og segir að þær eigi það sameiginlegt að innsæi í orsakir og eigin ábyrgð á vanda sé mjög takmarkað og því sé hætt við að hún sjái ekki eigin ábyrgð á því hvernig komið sé fyrir henni heldur kenni öðrum um.  Þá segir að fátítt sé að slíkur einstaklingur sæki sérfræðiaðstoð og geri það helst vegna þvingunar eða ávinnings.  Einkenni þessara raskana séu mjög alvarleg á meðan þau vari þótt ýmsar rannsóknir bendi til að þau fari þverrandi með aldrinum eða eldist af fólki.  Þunglyndi og sjálfsvígstilraunir séu algeng vandamál hjá sjúklingum með jaðarpersónuleikaröskun og talið sé að 8-10% þeirra taki líf sitt.  Því sé ekki bara um að ræða erfiðleika í samskiptum heldur raunveruleg heilbrigðisvandamál, sem þarfnist meðhöndlunar.  Lokaorðin í vottorði sálfræðingsins eru þessi:  „Líklegt er að á meðan persónuleikavandi K hefur virk áhrif á líf hennar munu kvíði og þunglyndi vera viðvarandi vandamál, sem komi og fari eftir þeirri stöðu sem K verður í gagnvart umhverfi sínu hverju sinni.  Því væri æskilegt að hún fengist til samstarfs um þétta meðferð með áherslu á að bæta innsæi og skilning hennar á eigin ábyrgð þegar kemur að þeim vandamálum sem hún býr við og lendir í endurtekið.  Við skipulag slíkrar meðferðar verður nauðsynlegt að taka tillit til stopullar meðferðarheldni fram að þessu, auk þess sem finna þarf leið til að bregðast við tíðum uppákomum varðandi notkun geðvirkra efna.  Það skal jafnframt lagt til að enginn einn aðili sinni meðferð K heldur verði það gert af teymi starfsmanna með sérfræðiþekkingu í meðferð persónuleikaraskana.  Vegna fyrri sögu um notkun geðvirkra efna og á köflum nokkuð tíðra barnaverndartilkynninga ætti þetta teymi einnig að vera í samstarfi við starfsfólk barnaverndaryfirvalda.“  Sálfræðingurinn tekur fram að við skipulag og val á meðferð sé nauðsynlegt að taka tillit til niðurstöðu greindarmats stefndu K.  Hann minnir og á að snemma á fullorðinsárum hennar hafi engum sögum farið af geðrænum vanda og hún hafi áður sýnt tímabil stöðugrar líðunar með ábyrgri hegðun.  Markmið eða væntingar um meðferð ættu því ekki að útiloka að önnur slík tímabil geti átt sér stað.

Samkvæmt gögnum stefnanda, Barnaverndarnefndar A, var á grundvelli áðurgreindrar sjúkrahúsmeðferðar stefndu, K, afráðið að sækja um forgang fyrir hana á félagslegri leiguíbúð, en einnig að gerð yrði áætlun til undirbúnings því að hún tæki að sér á ný umsjón drengsins B strax og hún gæti búið honum viðunandi aðstæður.  Liggur fyrir að þessar ráðstafanir gengu að nokkru eftir og ritaði stefnda undir áætlun fyrir tímabilið 24. september til 31. október 2010.  Er þetta gerðist hafði stefndi, M, lokið um átta mánaða fangavist sinni vegna dóms sem hann hafði hlotið fyrir umferðar- og vímuefnalagabrot.  Eins og áður var rakið hafði hann lítt komið við sögu barnaverndarmálsins í rúmt ár, en samkvæmt gögnum og greinargerð hóf hann nú að umgangast son sinn, B, að nýju, enda var drengurinn í umsjá móður hans, vitnisins C.

Samkvæmt skýrslum stefnanda gengu framangreindar áætlanir varðandi stefndu K ekki sem skyldi og er vísað til þess að hún hafi ekki mætt til funda og ekki svarað boðum, en að auki segir að starfsmönnum barnaverndarnefndar hefðu borist tilkynningar um að hún væri að reyna að útvega sér fíkniefni og hefði frestað því að taka sér bólfestu í íbúð þeirri sem hún hafði fengið úthlutað.  Segir frá því að er starfsmenn barnaverndar hefðu farið í vitjun til hennar í bráðabirgðahúsnæði á [...] hinn 20. október 2010 hefði hún verið í ójafnvægi og að útlit hennar og fas hefði jafnframt þótt benda til þess að hún kynni að vera á ný komin í neyslu fíkniefna.  Þá segir í gögnum að starfsmenn hefðu fengið upplýsingar um að stefnda hefði haft stopula umgengni við B þann tíma sem hann dvaldi hjá föðurömmu sinni, en að auki hefði stefnda aldrei grennslast fyrir um aðlögun drengsins og þroska á leikskóla.  Þá hefði það komið í ljós að hún hefði eytt öllum framfærslueyri sínum um miðjan októbermánuð og ekki átt fyrir mat.  Loks er sagt að samskipti hennar við starfsmann á bakvakt í lok október hefðu bent til þess að hún væri ekki í ástandi til að annast drenginn.

Í fundargerð um teymisfund barnaverndarnefndar þann 27. október 2010 kemur fram það álit starfsmanna nefndarinnar að stefndu, K og M, væru að svo komnu hvorugt hæft til að annast drenginn B og að óvíst væri hvort eða hvenær það breyttist.  Er þessu nánar lýst í greinargerð starfsmannanna, sem dagsett er 30. nóvember 2010, en þar segir m.a. um hagi drengsins:  „Um er að ræða ungt barn, sem meira en hálfa ævina hefur verið í umsjá föðurömmu sinnar.  Móðir barnsins hefur ekki notað þann tíma sem barnið hefur verið vistað af hálfu barnaverndaryfirvalda til að takast á við félagslegan og heilsufarslegan vanda sinn.  Þótt hún hafi um tíma síðast liðið haust virst vera á batavegi að þessu leyti, bendir nú allt til þess að hún sé á ný fallin í neyslu með tilheyrandi erfiðleikum á öðrum sviðum.  Allt bendir því til þess að hún sé nú jafn ófær og hún var fyrir 11 mánuðum að taka barnið að sér á nýjan leik.  …  Ljóst er að núverandi bráðabirgðavistun barnsins verður ekki haldið lengur áfram.  Fyrir liggur að föðurömmu þess hefur verið synjað um fósturleyfi, auk þess sem hún hefur lýst því yfir að hún muni ekki geta tekið að sér fóstur hans til frambúðar“.

Frá því segir í gögnum að eftir fundahöld starfsmanna barnaverndarnefndar með stefndu og lögmönnum þeirra í desember 2010 hafi orðið að ráði að þau færu hvort í sínu lagi í forsjárhæfnismat hjá óháðum sálfræðingum.  Annaðist Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur matið gagnvart stefndu K, en Ingþór Bjarnason sálfræðingur annaðist matið á stefnda M.

Skýrsla Valgerðar Magnúsdóttur er dagsett 14. mars 2011.  Í skýrslunni er lýst högum og aðstæðum stefndu K og er þar m.a. vikið að áðurgreindum barnaverndaráætlunum, að eigin meðferð hennar og um sýn hennar á móðurhlutverkið.  Um þetta segir nánar í skýrslunni:

„K var fljót til svars þegar hún var spurð um það hvað skipti almennt mestu máli fyrir börn eins og B og hún á ekki erfitt með að draga upp nokkuð góða mynd af því hvaða áherslur hún vill hafa með börnunum sínum.  Í því felast vissir styrkleikar hjá henni.  Ekki er að efa að á sinn hátt þykir henni vænt um börnin sín.  Styrkleikar hennar felast einnig í því að á góðum stundum er hún áreiðanlega lífleg og skemmtileg móðir.

Helstu veikleikar hennar felast í því að andlegt heilsufar hennar einkennist af erfiðum persónuleikaröskunum sem valda árekstrum við umhverfið og árekstrarnir valda svo miklum kvíða hjá henni.  Við þetta bætist takmörkuð greind, sérstaklega hvað varðar skilning.  Því á hún erfitt með að bera ábyrgð á sjálfri sér og aðstæðum sínum og þar af leiðandi einnig á börnunum.  Einnig gefa persónuleikaraskanir hennar vísbendingar um vanda gagnvart dýpri tengslum við þau, sem afskiptaleysi hennar gagnvart þeim á tímabilum staðfesta.  Einnig er augljóst í samræðum við hana að innsæi hennar í þarfir barnanna er lítið og að hennar þarfir koma á undan.  Með ábyrgðarleysi sínu sinnir hún ekki einu sinni þeim grunnþörfum sínum og barnanna að hafa þak yfir höfuðið.

Lýsing hennar á því hvernig hún ætlast til að börnin hnippi í hana til þess að hún fari út úr því ástandi að geta ekki brugðist við þörfum þeirra sýnir að hún hefur ekki skilning á því að það er hún sem þarf að bera ábyrgðina á börnunum, ekki börnin á henni.  Það getur varla verið forsvaranlegt að börnin séu hjá henni undir slíkum kringumstæðum.  Í síðara viðtali okkar nefndi hún þrisvar sinnum að það væri svo gott fyrir sig að hafa börnin hjá sér eða vera í sambandi við þau á hverjum degi þegar henni líður illa.  Í þeim ummælum var augljóst að þarfir hennar höfðu forgang fram yfir þarfir barnanna.  Orsakasamhengi er alveg snúið á hvolf.  Athygli vakti að hún vissi ekki nafnið á leikskóla B.“

„K fylgdi engum áformum um frekari meðferð eftir og hefur þannig staðfest fyrir sitt leyti að það eru litlar líkur á að einstaklingur með hennar gerð af persónuleikaröskunum sæki sérfræðiaðstoð af frjálsum vilja.  Hún sagði undirritaðri að hún taki lyfin sem læknirinn ávísar og að hann sé mjög ánægður með að hún taki þau öðruvísi en ætlast sé til.  Fróðlegt væri að vita hvort hann vill staðfesta það.  Af samtölum K við matsmann má ráða að hún gerir sér ekki grein fyrir tilgangi frekari viðtalsmeðferðar við geðlækni eða sálfræðing og virðist telja að símtöl sem hún á við geðlækninn að sínum geðþótta geti komið í staðinn.  Hún sagðist hafa fengið kynningu á náminu hjá Starfsendurhæfingunni og hætt við að taka þátt af því að þetta væri upprifjun á því sem hún hefur tekið áður.  Hún virðist ekki gera sér grein fyrir að þetta sé hugsað sem liður í alhliða endurhæfingu hennar.

K fékk haustið 2010 leiguíbúð hjá [...] með forgangi vegna áforma um að taka börnin til sín á nýjan leik.  Þegar fyrra samtal okkar átti sér stað hafði hún lánað barnsföður sínum íbúðina.  Þegar síðara samtal okkar átti sér stað var hún að missa íbúðina vegna skemmda sem hann olli á  henni.  Hún ber ekki skynbragð á ábyrgð sína á þeirri stöðu.  Áður var hún húsnæðislaus eftir að hafa misst leiguíbúð hjá [...] vegna vangoldinna reikninga.  Nú hefur hún óraunsæja drauma um stórt og gott húsnæði, jafnvel utan við bæinn, þrátt fyrir að hún sé bíllaus og öðrum háð um far á milli húsa á [...].  Hún áttar sig ekki á að möguleikar hennar á húsnæðismarkaði geti verið slakir í ljósi forsögu hennar og stöðu, heldur svaraði hún undirritaðri því bara til að hún viti að hún geti það sem hún ætlar sér.  K hefur lítið verið á vinnumarkaði.  Hún hefur haft endurhæfingarörorkubætur síðan haustið 2010 en ekki fylgt eftir neinum áformum um endurhæfingu.

Saga K einkennist af áformum sem ekki verður af.  Í skýrslu Péturs Maack sálfræðings eru raktar ítarlega margendurteknar beiðnir K aftur til ársins 2006 um þjónustu geðdeildarinnar sem hún nýtti sér svo ekki.  Í greinargerð fyrir barnaverndarnefnd 18. mars 2009 segir að til hafi staðið að hún færi í endurhæfingu á dagdeild geðdeildar [...] í byrjun apríl 2007 en svo ekki nýtt sér það úrræði.  Annað dæmi er að K sagðist á fundi með barnaverndarstarfsmönnum þann 22. september 2009 ætla að sækja um endurhæfingarlífeyri  og nám hjá Starfsendurhæfingu [...] frá áramótum 2009-10. Hún sagðist skilja alvarleika málsins og vera tilbúin að vinna með barnavernd að því að bæta hag barnanna (sbr. greinargerð 16. desember 2009).  Þriðja dæmið er að í bréfi sínu segir Sigmundur Sigfússon geðlæknir um áætlanir um áframhaldandi meðferð að K hafi fengið loforð um pláss í Starfsendurhæfingu [...] frá og með janúar 2011.  Hér að ofan segir af hverju hún nýtti sér það ekki.  Og í seinna viðtali við undirritaða nefndi hún sem hluta af framtíðaráformum sínum að sig langi að hefja þar nám í haust til að komast í [...]skólann.  Það skortir alla rökvísi í þessar hugmyndir.

Að einu leyti virðast aðstæður hennar nú geta verið heldur betri en áður, vegna þess að í kjölfar þeirrar ítarlegu greiningar sem fram fór á síðasta ári hefur hún átt kost á lyfjum við hæfi.  Þau eru forsenda fyrir því að hún geti nýtt getu sína eins vel og hægt er.  Einnig er á grundvelli niðurstaðna greiningarinnar hægt að gera raunhæfari áætlanir um stuðning og meðferð en áður var.  Hins vegar tekur hún ekki lyfin eins og til er ætlast og hún fylgir ekki eftir áætlunum um endurhæfingu.

Undirrituð tekur undir álit Péturs Maack um mikilvægi þess að K fáist til samstarfs um þétta meðferð sem snýst um að auka innsæi og skilning hennar á ábyrgð í daglegu lífi sem hún lendir endurtekið í vandræðum með.  Það á jafnt við hvort sem hún er með börnin sín eða ekki.  En þar er margvíslegur vandi við að fást, slök greind hennar og persónuleikaraskanir, slök meðferðarheldni, sem og endurtekin notkun geðvirkra efna.  Þar þarf að koma að málum teymi fagmanna með góða þekkingu á meðferð persónuleikaraskana og þétt og góð samvinna allra sem að málum hennar koma.  Gera þarf skýran og markvissan samning um meðferðina og þau inngrip sem gætu reynst nauðsynleg.  Það þurfa allir að vera sammála um að gefa henni skýr skilaboð um það til hvers er ætlast og fylgja hlutverkum sínum eftir af mikilli fagmennsku. Ef K ætti að eiga einhverja möguleika á að annast uppeldi drengsins/barnanna þannig að viðunandi teljist samkvæmt sjónarmiðum barnaverndarlaga þyrfti hún að geta nýtt sér slíka meðferð og geta á grundvelli hennar nýtt sér mikla og þétta ráðgjöf og stuðning varðandi daglegt líf og uppeldi barnanna.  Helstu óvissuþættir snúa að skilningi hennar og meðferðarheldni.  Staða hennar hefur versnað verulega að undanförnu úr því að hún lét renna úr greipum sér með ábyrgðarleysi sínu íbúðina sem hún hafði fengið.  Með því sýndi hún mikinn skort á ábyrgð og skilningi gagnvart mikilvægi þess að börnum sé búinn stöðugleiki og öruggar aðstæður.

Markvissar áætlanir skv. 23. gr. barnaverndarlaga hafa verið í gangi í málinu og sú nýjasta sem undirrituð er með undir höndum er fyrir tímabilið 24. september 2010 til 31. október 2010.  K stóð ekki við hlutverk sitt um að halda áfram að stunda meðferð og fara að ráðum lækna og meðferðaraðila varðandi frekari meðferð.“

Í lokaorðum skýrslunnar segir um forsjárhæfni stefndu K:

„Persónuleikaraskanir, slök greind og lyndisraskanir ásamt endurtekinni notkun geðvirkra efna skerðir forsjárhæfni K verulega.  Helsta eðli persónuleikaraskana af því tagi sem hér um ræðir er óstöðugleiki og ábyrgðarleysi.  Sagan sýnir að skilningur K á því hvað er meðferð sem og mikilvægi samfellu í meðferð er lítill.  Hún er ekki fær um að axla ábyrgð á uppeldi sonar síns, B, eins og sakir standa og fyrirliggjandi upplýsingar gefa lítið tilefni til bjartsýni.“

Skýrsla Ingþórs Bjarnasonar sálfræðings um forsjárhæfni stefnda M er dagsett 25. febrúar 2011.  Segir í skýrslunni að við matið hafi, auk klínískra viðtala um bakgrunn, líðan og tengsl stefnda við drenginn B og aðstandendur, verið lögð fyrir hann viðurkennd greindarpróf, persónuleikapróf og matslistar um líðan og hegðun.  Þá hafi við gerð skýrslunnar verið stuðst við málsgögn Barnaverndar A um forsögu málsins.  Í skýrslunni segir m.a. að þótt stefndi M hafi lýst sterkum vilja til að annast son sinn og sé tilfinningatengdur honum þá rýri tilfinningalegur óstöðugleiki og slök greindargeta mjög færni hans í foreldrahlutverki.  Forsjárhæfni hans samkvæmt viðurkenndu matskerfi sé því afar lág eða nálægt 1,0 hundraðsröð.  Að auki sé óljóst hvert hann stefni varðandi atvinnu, endurhæfingu og menntun. Áréttað er að stefndi hafi hlý og sterk tengsl við B og að drengurinn hafi sóst eftir nálægð við hann.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að stefndi hafi átt og eigi enn við töluvert mikla tilfinningalega erfiðleika að stríða.  Séu mögulegar sjúkdómsgreiningar m.a. þunglyndisröskun, vímuefnaánetjun og andfélagsleg persónuleikaröskun.  Töluverð streitueinkenni megi einnig sjá í niðurstöðum matslista.  Grunur sé um að hann eigi við töluvert mikinn athyglisbrest og ofvirkni að stríða.  Sé nauðsynlegt að gera fullnaðargreiningu á þessum vanda með viðeigandi meðferð í huga, þar sem það geti verið honum mikil hjálp í að takast betur á við verkefni daglegs lífs, þ. á m. umönnun barns og ná meiri einbeitingu, auk skipulagshæfni og úthalds.  Þá segir að stefndi virðist hafa góðan ásetning um að sinna foreldrahlutverkinu vel, en það álit er látið í ljós að ástand hans hafi ekki verið stöðugt nægilega lengi til að því sé fyllilega treystandi að áframhaldandi stöðugleiki verði, bæði hvað varði tilfinningaástand og tök hans á fíkniefnanotkun.  Er það álit látið í ljós að æskilegt sé að stefndi M fái góða leiðsögn, ráðgjöf eða sálfræðimeðferð til að takast á við erfiðleika sína, en að því loknu væri hægt að meta stöðu hans á ný með tilliti til færni í foreldrahlutverki.

Með bréfi 9. apríl 2010 leyfði Barnaverndarstofa vistun drengsins hjá ömmu hans, vitninu C, til 9. júní 2010.  Í leyfisbréfinu kemur fram að stofan lýsir þó yfir efasemdum sínum um að velja heimili sem afskipti hafi verið gagnvart á grundvelli barnaverndarlaga árum saman.  Sé talin sérstök ástæða til að árétta skyldu og ábyrgð barnaverndarnefndar til að hafa eftirlit með aðbúnaði og umönnun barnsins á vistunartímanum.  Barnaverndarstofa synjaði hinn 31. ágúst 2010 umsókn ömmu drengsins um að teljast hæf sem fósturforeldri.  Kemur fram að synjun sé á því byggð að félagsráðgjafi hafi gert athugasemdir við hæfni hennar, m.a. á grundvelli sögu um umtalsverð barnaverndarafskipti og erfiðleika eigin barna hennar og meti það svo að hún hefði nóg á sinni könnu við uppeldi yngsta barns síns og við að aðstoða uppkomna syni sína við að höndla lífið og tilveruna og aðstæður hennar bjóði ekki upp á að hún taki að sér börn sem séu í þörf fyrir stöðugleika og öruggt umhverfi.

Samkvæmt gögnum voru stefndu, K og M, boðuð ásamt lögmönnum sínum á fund Barnaverndarnefndar A er áðurraktar skýrslur um forsjárhæfnismat þeirra lágu fyrir.  Á fundinum var þeim kynnt niðurstaða starfsmanna stefnanda um að fyrirhugað væri að drengurinn B færi í varanlegt fóstur.  Í kjölfar andmæla stefndu á fundinum var málinu frestað til 5. apríl 2011, en þá voru á fundi lagðar fram greinargerðir stefndu, þar sem þau andmæltu ráðagerðinni, en að auki var upplýst að föðuramma drengsins, vitnið C, hafði lýst því yfir að hún væri tilbúin til að veita stefnda, M, liðsinni við umönnun drengsins.  Af hálfu Barnaverndarnefndarinnar var kveðinn upp úrskurður síðar þennan dag og segir þar í niðurstöðukafla:

„Foreldrar barnsins, K og M, sem fara sameiginlega með forsjá þess, hafa nýtt rétt sinn til andmæla með aðstoð lögmanna, sbr. 47. gr. laga nr. 80, 2002.  Þau hafa bæði komið á tvo fundi nefndarinnar, lagt fram greinargerðir með tillögum í málinu þar sem fram kemur að þau hafna bæði framangreindum tillögum starfsmanna.

Af hálfu barnaverndarnefndar hefur ítrekað verið gripið til stuðningsúrræða og með þeim leitast við að aðstoða foreldrana að ná tökum á vandamálum sínum með það að markmiði að barnið væri í þeirra umsjá.  Það er mat nefndarinnar að fullreynt sé að öllum tiltækum vægari stuðningsaðgerðum, sbr. 24. og 25. gr. barnaverndarlaga, hafi þegar verið beitt og að þær hafi ekki borið tilætlaðan árangur.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið er það mat barnaverndarnefndar A að þarfir og hagsmunir barnsins B krefjist þess að hann verði vistaður hjá fósturforeldrum í 2 mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002, frá deginum í dag að telja.  Mun nefndin því krefjast þess fyrir dómi að foreldrar barnsins verði sviptir forsjá þess, sbr. 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002“.

Í kjölfar úrskurðarins var drengurinn B vistaður hjá hjónum með varanlegt fóstur hans í huga, en jafnframt höfðaði stefnandi mál þetta gegn stefndu til sviptingar forsjár.  Við meðferð málsins fyrir dómi þann 6. júlí sl. var dómkvödd Ágústa Gunnarsdóttir sálfræðingur til að meta forsjárhæfni stefndu og framtíðarhorfur varðandi forsjárhæfni.  Liggja fyrir í málinu tvær matsskýrslur um stefndu.  Eru þær dagsettar 29. ágúst 2011.

Í matsskýrslu hins dómkvadda matsmanns um stefndu K er m.a. vitnað til áðurrakinnar skýrslu Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings frá 5. ágúst 2008, um að berist frekari barnaverndartilkynningar megi gera því skóna að vandamál hennar séu það djúpstæð að þau hindri hana í að ná viðunandi árangri í foreldrahlutverkinu og gildi þá einu stuðningur fjölskyldu, félagsmálayfirvalda og góður vilji hennar sjálfrar.  Er það niðurstaða matsmannsins að að þremur árum liðnum megi segja að stefnda sé enn í sömu sporum, en hún hafi lítið gert til að styrkja sig í foreldrahlutverkinu.  Segja megi að hún hafi góðan vilja til að standa sig í orði, en það sé ekki nóg.  Í skýrslunni segir að stefnda, K, sé enn í sambandi við föður B, stefnda M, þótt þau búi sitt á hvorum stað.  Hafi sambandið verið mjög stormasamt, en að stefnda segist sjá hann fyrir sér sem framtíðarmaka sinn.  Í skýrslunni segir að samkvæmt gögnum hafi stefndi M beitt stefndu K andlegu og líkamlegu ofbeldi og farið að heiman þegar drengurinn hafi verið þriggja mánaða gamall þar sem hann hafi haldið fram hjá henni með bestu vinkonu hennar.  Skömmu síðar hafi hann farið í fangelsi og hún verið því fegin.  Vísað er til þess að stefnda K haldi því fram að hún sjái miklar breytingar á stefnda M eftir fangelsisvistina og treysti honum nú.  Vikið er að því að K hafi áður verið í sambandi við annan mann, föður elstu barnanna tveggja, í samtals fjögur ár.  Hafi þessi aðili verið í fíkniefnaneyslu og beitt hana ofbeldi.  Hann eigi fangelsisdvöl að baki.  Matsmaður vísar í skýrslunni til gagna málsins og segir að þau bendi til þess að stefndi M sýni enn óábyrga hegðun og ofbeldi.  Þannig hafi stefnda K verið á heimili hans í byrjun þessa árs þegar lögreglan hafi gert þar leit og fundið fíkniefni.

Í matsgerðinni segir að stefnda K hafi tekið á leigu 5 herbergja íbúð í gömlu húsi um 4 km fyrir utan [...], en hún hafi flutt þangað 15. júlí 2011.  Er það niðurstaða matsmannsins að húsnæðið sé þrifalegt, en að stefnda hafi lýst því að þar væri músagangur og að lagnir væru gamlar og slitnar.  Fram kemur að matsmaður hafi spurt stefndu hvernig hún kæmist milli staða bíllaus og hefði hún þá haft á orði að hún húkkaði sér far og gengi það vel.  Til þess er vísað að stefnda hafi í gegnum tíðina ítrekað misst húsnæði með því að standa ekki í skilum.  Lætur matsmaður það álit í ljós að ólíklegt sé að hún haldi húsnæði til lengri tíma þegar skoðuð sé húsnæðissaga hennar og veiki það foreldrahæfni hennar.  Einnig er sagt að staðsetning húsnæðisins sé ekki barnvæn, nálægt þjóðvegi 1 og að hjólbarðaverkstæði sé á bak við húsið.

Í lokaorðum matsskýrslunnar víkur hinn dómkvaddi matsmaður að framtíðarhorfum stefndu K hvað varðar forsjárhæfni.  Segir þar að fíkniefnavandi hennar sé ekki aðalvandinn heldur persónuleikaeinkenni, sem hingað til hafi komið í veg fyrir að hún hafi getað sinnt forsjárhæfni svo vel sé til lengri tíma litið, en að hún hafi lítið gert til að styrkja forsjárhæfni sína og meðferðarheldni.  Tekur matsmaður undir með Valgerði Magnúsdóttur sálfræðingi að eins og sakir standi gefi fyrirliggjandi upplýsingar lítið tilefni til bjartsýni.

Í matsskýrslu hins dómkvadda matsmanns um stefnda M er að nokkru rakin lífssaga hans og erfiðleikar í skóla, þ. á m. að hann hafi ekki lokið grunnskólanámi.  Þá segir að hann hafi mjög ungur byrjað að neyta áfengis og vímuefna og fljótlega byrjað í afbrotum.  Í síðustu fangavist hafi hann hins vegar lokið stuttum námskeiðum þar sem markmiðið hafi verið að efla sjálfstraust þátttakenda og samskiptahæfni, en einnig hafi hann lokið námskeiði í almennri hugrænni atferlismeðferð.  Þá hafi hann lýst því yfir við matsmann að hann hafi óskað eftir viðtölum á geðdeild Sjúkrahússins á [...] og jafnframt lýst yfir vilja til að taka á vímuefnavanda sínum.  Í matsskýrslunni segir að stefndi M njóti framfærslu hjá félagsþjónustu, en hann búi í leiguíbúð í miðbæ [...].  Þá vitnar matsmaðurinn til áðurrakinnar sálfræðiskýrslu Ingþórs Bjarnasonar og segir að engin ástæða sé til að efast um góð tengsl stefnda við son sinn B.  Hafi hann leitast við að tengjast drengnum á náinn og ástríkan hátt þótt samskiptin hafi ekki alltaf verið mikil.  Bent er á að grundvöllur geðtengsla við barn sé öryggi þess sem feli í sér stöðugleika í fjölskyldulífi þannig að vernda megi barn fyrir hættum og ofbeldi.  Um þennan þátt segir nánar í skýrslunni: „Faðir (stefndi M) hefur beitt móður ofbeldi, líka að drengnum viðstöddum.  Beiti hann móður ofbeldi þá er ekki hægt að tryggja það að hann muni ekki beita barnið ofbeldi síðar.  Það krefst mikils úthalds, þolinmæði og yfirvegunar að ala upp barn og sinna því og vera til taks allan sólarhringinn.  M var fljótur að pirrast og hafði lítið úthald í viðtali við matsmann og matsmaður efast um að M geti eins og staðan er núna veitt drengnum það öryggi og vernd sem hann þarfnast vegna erfiðleika með að stjórna skapi sínu, hegðun og úthaldsleysi.  Erfiðleikar í tilfinningastjórnun eru áberandi hjá honum, hugsanlega gæti reiðistjórnunarnámskeið, eða námskeið fyrir karlmenn sem beita konur ofbeldi komið að gagni til að styrkja föður í þessum þætti.“

Að því er varðar líkamlega umönnun og atlæti segir í skýrslu matsmannsins að á því sviði séu veikleikar hjá stefnda, M, en hann sé atvinnulaus, og barnvænt húsnæði sé ótryggt og framfærsla sömuleiðis.  Þá sé hann óábyrgur í fjármálum, en hann sé skuldugur og ekki komi fram hjá honum áform um að gera sig gjaldgengan á vinnumarkaði.  Vísað er til þess að stefndi sé snyrtilegur og hann sjái til þess að til sé matur á heimilinu og hafi farið á námskeið í matseld, hann sjái um þvott og sé þetta styrkleiki hans á þessu sviði.  Á hinn bóginn skorti hann uppeldisþekkingu og til að styrkja hann í foreldrahlutverkinu sé algjör nauðsyn á að hann fari á uppeldisnámskeið, fái tilsjón og leiðbeiningu fagmanns.  Að auki hafi hann í viðskiptum sínum við móður drengsins sýnt af sér mikla vanhæfni í foreldrahlutverkinu.  Í lokaorðum skýrslunnar er vísað til sálfræðiskýrslu Ingþórs Bjarnasonar þar sem fram komi að forsjárhæfni stefnda M sé langt undir meðallagi og „tilfinningalegur óstöðugleiki og slök greindargeta rýri mjög færni hans í uppeldishlutverki.“  Um þetta segir í skýrslunni: „Matsmaður tekur undir þetta álit Ingþórs að forsjárhæfni M sé slök.  M hefur óraunhæfa sýn á eigin getu, t.d. aðspurður um styrkleika sinn segist hann alltaf vera til staðar fyrir barn sitt og myndi aldrei hafa neitt rugl í kringum hann, en þetta samrýmist ekki raunveruleikanum, sem er sá m.a. að hann er með fíkniefni á heimili sínu, þar sem hann er með barnið og hann leggur hendur á móður barnsins þar sem hún heldur á barninu.  Að veita barninu vernd og öryggi og vera því góð fyrirmynd eru mikilvægir þættir í forsjárskyldum foreldris.  M vill geta verið til staðar fyrir drenginn og sinna foreldrahlutverkinu, en hann hefur ekki sýnt þann stöðugleika og úthald sem nauðsynlegt er til að bera ábyrgð á barni.  M veit lítið um þroska drengsins, hefur aldrei keypt á hann föt og uppeldisþekking hans er takmörkuð.  Framtíðarsýn hans er óljós, hann er atvinnulaus, barnvænt húsnæði ótryggt og framfærsla ótrygg.  Hann hefur lítið gert til að gera sig gjaldgengan á vinnumarkaðnum eða til að bæta foreldrahæfni sína.  Lögregluskýrslur og dómur á þessu ári sýna að sýn M á að hann hafi bætt sig séu óraunsæjar.  Þetta rýri getu M til að sinna forsjárskyldum sínum.  M ber hlýjar tilfinningar til drengsins og hefur ræktað samband sitt við drenginn undir umsjá og eftirliti móður sinnar.  Þegar barnið var vistað hjá föðurömmu sinni fékk barnið tækifæri á að kynnast föður sínum þegar hann var í góðu ástandi og undir öruggum aðstæðum.“

Samkvæmt gögnum kærði stefnda K stefnda M þann 31. mars sl. til lögreglu fyrir líkamsárás og fleiri brot, sem hún staðhæfði að hefði gerst nokkrum dögum fyrr.  Líkamsárásinni lýsti hún á þá leið að stefndi M hefði ráðist að henni meðan hún hélt á drengnum B og fellt hana í gólfið, sparkað í hana og lamið.  Lögreglan hætti rannsókn málsins skömmu síðar eftir að stefnda K dró kæruna til baka.  Samkvæmt dagbókarfærslu lögreglu var M kærður fyrir minni háttar líkamsárás þann 17. júní sl.  Þá liggur fyrir að í október sl. var í kjölfar húsleitar lögreglu á heimili stefnda M lagt hald á fíkniefni, þ. á m. 30 grömm af amfetamíni og um 30 grömm af MDMA (E-töflum) sem ætlað var að hefði verið mulið úr um 150 töflum.

Samkvæmt gögnum ól stefnda K sveinbarn þann 12. október sl.  Drengurinn er ófeðraður.  Með úrskurði stefnanda 17. október sl. var ákveðið að drengurinn skyldi vistaður hjá fósturforeldrum í tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.  Var því jafnframt lýst yfir að nefndin myndi krefjast þess fyrir dómi að stefnda K yrði svipt forsjá drengsins, sbr. ákvæði 1. mgr. 29. gr. sömu laga.

II

1.  Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að það þjóni best hagsmunum drengsins, B, að stefndu verði svipt forsjá hans.  Bent er á að mál drengsins hafi verið til meðferðar hjá stefnanda frá því að hann var í móðurkviði, en þá hafi legið fyrir upplýsingar um að móðir hans, stefnda K, stefndi heilsu og lífi hans í hættu með fíkniefnaneyslu.  Jafnframt hafi legið fyrir upplýsingar um að hún byggi við ofbeldi af hálfu stefnda, M.

Stefnandi bendir á að er ofangreind atvik gerðust, á árunum 2008 og 2009, hafi stefndu verið í sambúð og hafi tvö eldri börn stefndu, K, búið á heimili þeirra.  Drengurinn M hafi fæðst [...] 2009 og þá komið að í ljós að stefnda K var með kannabisefni í blóði sínu.  Bent er á að starfsmenn stefnanda hafi eftir fæðingu drengsins reynt að fá stefndu til samvinnu um stuðningsaðgerðir, en án mikils árangurs.  Stefndu hefðu slitið sambúð sinni í júní 2009.

Stefnandi vísar til þess að barnaverndarnefnd hafi borist fjöldi tilkynninga sem bent hafi til þess að aðstæður drengsins B væru óviðunandi.  Tilkynningarnar hefðu lotið að fíkniefnaneyslu stefndu, ofbeldi stefnda M í garð stefndu K og að geðrænu ástandi hennar og misnotkun á geðlyfjum.  Jafnframt bendir stefnandi á að stefnda K hafi tvívegis, 7. júlí og 22. nóvember 2009, ekið ökutækjum undir áhrifum fíkniefna og af þeim sökum hlotið dóma.  Vísað er til þess að þegar málið var tekið fyrir á fundi hjá stefnanda í lok desember 2009 hafi stefndi, M, verið kominn í refsiúttekt vegna fangelsisdóms.

Af hálfu stefnanda er bent á að í lok desember 2009 hefðu stefndu fallist á tímabundna vistun drengsins B hjá föðurömmu hans, C, til 21. mars 2010.  Þá hafði eldri börnum stefndu, K, verið komið fyrir í vist hjá foreldrum hennar, en þar hefðu þau búið fram til þessa.  Bent er á að þegar vist drengsins hjá föðurömmunni hefði átt að ljúka í mars 2010 hefði stefnda K ekki treyst sér til að taka við honum en í þess stað farið fram á að hann yrði áfram á heimili föðurömmu sinnar.  Hefði nefnt fyrirkomulag því varað lengur en áætlað hafði verið í fyrstu.  Bent er á að beiðni föðurömmunnar um fósturleyfi hafi verið hafnað af Barnaverndarstofu 31. ágúst 2010, þar sem hún hefði ekki talist hæf sem fósturforeldri.  Engu að síður hafi drengurinn verið vistaður hjá henni þar til honum hefði verið komið í umsjá fósturforeldra í kjölfar úrskurðar stefnanda þann 5. apríl 2011.

Stefnandi reisir kröfu sína um forsjársviptingu stefndu á því að mál drengsins B hefði ítrekað verið til meðferðar á fundum stefnanda og hafi stefndu komið þar að málum og m.a. greint frá högum sínum og óskum.  Á þessum fundum hefðu verið lagðar fram ítarlegar greinargerðir starfsmanna stefnanda og önnur þau gögn sem aflað hafi verið við meðferð málsins.

Að því er varðar stefndu K er af hálfu stefnanda vísað til bréfs Sigmundar Sigfússonar geðlæknis, dagsetts 6. desember 2010.  Bent er á að þar sé því m.a. lýst að hún glími við almenna kvíðaröskun, felmtursröskun og skaðlega notkun slævilyfja, svefnlyfja og kannabisefna, en taki auk þess ýmis kvíðalyf samkvæmt læknisráði.  Þá bendir stefnandi á sálfræðimat Péturs Maack Þorsteinssonar, þar sem greint sé frá margháttuðum geðrænum vanda stefndu K.  Af hálfu stefnanda er einnig bent á skýrslu Valgerðar Magnúsdóttur sálfræðings, frá 14. mars sl., um forsjárhæfni stefndu, en þar sé komist að þeirri niðurstöðu að hún sé ekki fær um að axla ábyrgð á uppeldi drengsins B eins og sakir standa og að fyrirliggjandi upplýsingar gefi ekki tilefni til bjartsýni.  Loks er af hálfu stefnanda bent á að stefndi M hafi lýst því á fundum að hann teldi stefndu K enga burði hafa til þess að fara með umsjón B vegna fíkniefnaneyslu hennar og ójafnvægis. Við málflutning var af hálfu stefnanda enn fremur vísað til gagna, sem aflað var eftir höfðun málsins, þ. á m. matsskýrslu dómkvadds matsmanns, Ágústu Gunnarsdóttur sálfræðings.

Að því er varðar stefnda M er af hálfu stefnanda vísað til þess að hann hafi frá árinu 1994 hlotið 23 dóma fyrir umferðarlagabrot, brot á almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni.  Þar af hafi hann í 15 skipti verið dæmdur til óskilorðsbundinnar refsivistar.  Síðast hafi hann afplánað refsingu frá 15. desember 2009 til 12. ágúst 2010, en þá hafi honum verið veitt skilorðsbundin reynslulausn í 1 ár á 120 daga eftirstöðvum refsingar.  Bent er á að stefndi M hafi í raun ekki haft umsjá B síðan hann flutti að heiman er drengurinn var þriggja mánaða í júní 2009.  Og þótt hann hafi lýst yfir vilja til að hafa drenginn hjá sér þá sé geta hans til að fara með forsjá hans ekki til staðar.  Er bent á að stefndi M segi að hann sé haldinn félagskvíða og taki lyf af þeim sökum.  Hann hafi þó ekki leitað til geðlæknis, þrátt fyrir ráðleggingar þar um.  Hann hafi áralanga sögu um fíkniefnaneyslu og ýmis brot og er staðhæft að hugmyndir hans um framtíðina séu óljósar.  Hann hafi m.a. lýst yfir vilja til að komast í vinnu, helst á togara, og reiði hann sig á aðstoð móður sinnar og 17 ára systur við umönnun drengsins.  Stefnandi byggir á því í stefnu að ekki sé trúlegt að stefndi M hafi snúið við blaðinu frá því afplánun fangelsisvistar lauk og um að hann neyti ekki fíkniefna.  Að því leyti bendir stefnandi á að 8. janúar sl. hafi fundist fíkniefni við húsleit á heimili hans, að í skýrslum lögreglu frá 27. maí og 17. júní 2011 sé vikið að minni háttar líkamsárásum hans, m.a. gegn stefndu K, og að í skýrslu lögreglu frá 12. október sl. sé greint sé frá því að við húsleit á núverandi heimili hans hafi fundist um 30 grömm af amfetamíni og um 40 grömm af ecstasy-fíkniefni.  Að auki liggi fyrir skýrsla stefndu K hjá lögreglu frá 31. mars sl., þar sem hún leggur fram kæru á hendur honum fyrir blygðunarsemisbrot, líkamsárás og hótanir.  Er bent á að í kærunni komi m.a. fram að stefndi M hafi veist að henni þar sem hún hafi haldið á drengnum.  Afturköllun kærunnar á síðari stigum breytir að áliti stefnanda engu um alvarleika málsins.

Af hálfu stefnanda er sérstaklega vísað til forsjárhæfnismats Ingþórs Bjarnasonar sálfræðings, frá 25. febrúar 2011, þar sem staðhæft sé að tilfinningalegur óstöðugleiki og slök greindargeta stefnda M rýri mjög færni hans í foreldrahlutverki og að forsjárhæfni hans sé talsvert undir meðallagi.  Við málflutning var af hálfu stefnanda auk þessa vísað til gagna, sem aflað var eftir höfðun málsins, þ. á m. lögregluskýrslna og matsskýrslu dómkvadds matsmanns, Ágústu Gunnarsdóttur sálfræðings.

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi ekki tekist með stuðningsúrræðum, sem mælt sé fyrir um í barnaverndarlögum, að skapa drengnum B þau uppeldisskilyrði sem hann eigi skýlausan rétt á.  Ákvörðun um vistun hjá fósturforeldrum og um höfðun máls þessa hafi verið tekin að undangenginni ítarlegri rannsókn á högum drengsins og meðalhófs gætt í hvívetna við meðferð málsins.  Staðhæft er að frá hausti 2008 hafi regluleg tilsjón verið með heimili stefndu, m.a. með heimsókn tilsjónaraðila er hafi haft það hlutverk að hafa eftirlit með heimilisbrag og högum og vera þeim til ráðgjafar eftir aðstæðum.  Þá hafi leikskólagjöld fyrir drenginn iðulega verið greidd af stefnanda.  Samvinna við stefndu um stuðningsaðgerðir hafi þrátt fyrir þetta gengið illa.  Þau hafi hafnað því að gangast undir fíkniefnapróf og ekki mætt á boðaða fundi hjá starfsmönnum stefnanda.  Eftir samvistarslit þeirra í júní 2009 og fram að lokum afplánunar stefnda M í ágúst sl. hefðu samskipti stefnanda aðallega verið við stefndu K.  Hefðu verið gerðar með henni áætlanir um meðferð máls, en stefnt hafi verið að því að tryggja B viðunandi uppeldisskilyrði og styrkja hana í uppeldishlutverki sínu.  Þrátt fyrir þetta hafi ekki orðið lát á fíkniefnaneyslu stefndu K.  Hafi foreldrar hennar í desember 2009 m.a. lýst yfir miklum áhyggjum af ástandi hennar.  Fyrir tilstuðlan stefnanda hafi stefnda K fengið íbúð hjá [...], en hún misst hana vegna vanefnda.  Bent er á að stefnandi hafi talið það afar mikilvægt að stefnda K leitaði sér meðferðar vegna þeirra sjúkdóma sem hún glímir við.  Er staðhæft að meðferðarhæfni hennar hafi ekki verið góð, en hún hafi nýtt sér illa þjónustu geðdeildar Sjúkrahússins á [...] og ekki farið í meðferð vegna fíkniefnaneyslu sinnar.  Þá hafi hún ekki séð ástæðu til að nýta sér námsvist hjá Starfsendurhæfingu [...], en síðast hafi henni boðist það í janúar 2011.  Stefnandi bendir á að í framlögðum gögnum málsins komi fram að er drengurinn B var í umsjá stefndu K hafi hún ítrekað horfið af heimilinu og skilið hann eftir ásamt eldri systkinum sínum í umsjá annarra.  Loks liggi fyrir að hún hafi vanrækt ítrekað að koma með drenginn í ungbarnaeftirlit og hafi hann af þeim sökum orðið af bólusetningum vegna heilahimnubólgu.

Af hálfu stefnanda er á það bent að við meðferð málsins hjá barnaverndarnefnd hafi verið farið að óskum stefndu, K og M, um vistun drengsins, B, hjá föðurömmu hans og hafi hann dvalið þar í 15 mánuði.  Að mati stefnanda hafi þessi vistun ekki verið talin raunhæft úrræði og ekki þjónað hagsmunum drengsins.  Þá hefði komið í ljós að föðuramma drengsins hafi ekki verið talin hæf til að fara með umsjón hans að mati Barnaverndarstofu.

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu B sé hætta búin fari stefndu með forsjá hans.  Það sé og mat stefnanda að þau séu, hvort um sig, vanhæf til að fara með forsjá drengsins vegna fíkniefnaneyslu og geðrænna truflana.  Um þetta vísar stefnandi til ítarlegra sálfræðilegra álitsgerða Valgerðar Magnúsdóttur og Ingþórs Bjarnasonar, sálfræðinga, en einnig til skýrslu hins dómkvadda matsmanns, Ágústu Gunnarsdóttur sálfræðings.

Stefnandi byggir kröfur sínar jafnframt á því að gögn málsins sýni svo ekki verði um villst að daglegri umönnun drengsins verði stefnt í verulega hættu fari stefndu með forsjá hans.  Sé um það vafi að mati dómsins telur stefnandi að þann vafa beri að skýra drengnum í hag.  Drengurinn dvelji nú hjá fósturforeldrum og að mati stefnanda hafi aðlögun hans og tengslamyndun við þá gengið afar vel.

Stefnandi byggir varakröfu sína á því að til að tryggja hagsmuni drengsins sé nauðsynlegt að sú ráðstöfun er ákveðin hafi verið með úrskurði stefnanda þann 5. apríl s.l. standi í 12 mánuði, en um málsástæður er vísað til þess sem áður sagði um aðalkröfu hans hér að framan.

Í stefnu segir að stefnandi byggi m.a. á eftirfarandi réttarheimildum:  Barnalögum nr. 80/2002, a- og d-lið 1. mgr. 29. gr., en varðandi varakröfu er vísað til b-liðar 1. mgr. 27. gr., sbr. 28. gr., sömu laga og um réttaráhrif úrskurðarins til 28. gr. laganna.  Þá var við flutning vísað til 18. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004, 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga og 3. mgr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1994 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 18, 1992.

2.  Málsástæður og lagarök stefnda M.

Af hálfu stefnda er um málsatvik vísað til þess að móðir hans og föðuramma drengsins B hafi tekið að sér vistun hans í samvinnu við barnaverndaryfirvöld og samkvæmt ósk beggja foreldranna í lok ársins 2009.  Staðhæfir stefndi að á meðan á því fóstri stóð hafi hann myndað góð tengsl við drenginn þar sem móðir hans, stefnda K, hefði m.a. komið með hann í heimsóknir til hans í fangelsið á [...].  Og er hann losnaði úr fangavistinni í ágúst 2010 hefði hann snúið baki við fyrra líferni, enda haft vilja til að vera til staðar fyrir drenginn.  Hann hafi komið mikið og reglulega að umönnun drengsins á meðan hann var í fóstri hjá móður stefnda og allt til 5. apríl sl.  Hafi hann verið með drenginn í allt að 4-5 tíma á dag og allt að þrisvar í viku. og ennfrekar eftir því sem tíminn leið, en þá hafi hann verið með drenginn í allt að 5 tíma á dag alla virka daga og aðra hverja helgi.  Af hálfu stefnda er áréttað að þannig hafi myndast sterk og mikilvæg tengsl hans við drenginn.  Þessu til stuðnings er vísað til áðurrakinnar álitsgerðar Ingþórs Bjarnasonar sálfræðings.

Um málsatvik er af hálfu stefnda M nánar vísað til þess að er hann hafi verið boðaður á fund barnaverndarnefndar 8. desember 2010 hafi honum verið tilkynnt að það væri vilji nefndarinnar að koma drengnum B í fóstur til utanaðkomandi aðila sökum þess að föðurömmu hans hefði verið synjað um fósturleyfi af Barnaverndarstofu.  Ekki hafi verið gert ráð fyrir öðrum möguleika.  Hafi stefndi mótmælt ráðagerðinni, en jafnframt farið fram á að hann fengi umsjón drengsins, en að öðrum kosti hefði hann krafist þess að drengurinn yrði áfram vistaður hjá föðurömmu sinni.  Þá hafi stefndi á fundinum bent á að aðstæður hans væru breyttar, og m.a. lýst því yfir að hann væri tilbúinn til að mæta öllum þeim kröfum sem stefnandi setti fram, t.d. varðandi fíkniefnapróf og eftirlit.  Hann hafi lýst sig tilbúinn til að gangast undir mat á forsjárhæfni, en að auki hafi hann krafist þess að gerð yrði áætlun með honum um meðferð málsins líkt og áður hefði verið gert með stefndu, K, áður en gripið yrði til svo alvarlegra ráðstafana eins og tillögur nefndarinnar hefðu borið með sér.  Hefði niðurstaða fundarins að lokum orðið sú að ákveðið hefði verið að hann gengist undir forsjárhæfnismat áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um málefni drengsins.  Niðurstaða nefnds mats hefði legið fyrir í janúar 2011, en hún hefði ekki verið afgerandi um forsjárhæfni hans.  Í framhaldi af þessu hefði stefndi verið boðaður á fund barnaverndarnefndar 30. mars 2011, en þar hefði hann mótmælt öllum tillögum nefndarinnar með sömu rökum og áður.  Af hálfu stefnda er staðhæft að á þessum fundi hefði í raun ekki verið farið ofan í niðurstöður sálfræðiskýrslunnar af hálfu stefnanda og ekki hvað hún þýddi fyrir mál hans.

Af hálfu stefnda M er á því byggt að hann hefði er ofangreind atvik gerðust unnið að því að komast til geðlæknis.  Að auki hefði hann hugleitt að reyna að komast í skóla þar sem atvinnuástand væri ekki upp á marga fiska eins og aðstæður væru í þjóðfélaginu.  Stefndi vísar til þess að á næsta fundi hjá barnaverndarnefnd, þann 5. apríl sl., hefði honum verið tilkynnt sú ákvörðun að drengnum B yrði tafarlaust komið fyrir í tímabundnu fóstri í samræmi við 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002, og jafnframt að höfðað yrði forsjársviptingarmál á hendur honum.  Þessa ákvörðun hefði hann kært til héraðsdóms, en dómari ekki fallist á að hún hefði verið ólögmæt, sbr. úrskurð sem dagsettur er 17. maí 2011.

Stefndi byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að skilyrði forsjársviptingar eigi ekki við gagnvart honum.  Forsjársviptingin sé mjög alvarleg íhlutun í líf fólks og verði því að vera fullvíst að búið sé að reyna öll önnur úrræði sem komi til greina áður en ráðist sé í slík mál og einnig verði að uppfylla skilyrði 29. gr. barnaverndarlaga.  Vísar stefndi á að stefnandi byggi mál sitt á a- og d-lið 29. gr. barnaverndarlaga án þess að farið sé nánar ofan í þau skilyrði sem greinin setji og rökstyðji ekki hvernig þau eigi við í máli stefnda.  Að auki sé erfitt, miðað við málatilbúnað stefnanda, að gera greinarmun á þætti stefndu í málinu.

Af hálfu stefnda er á það bent að a-liður 29. gr. barnaverndarlaganna kveði á um að barnaverndarnefnd sé heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annað þeirra eða báðir, skuli sviptir forsjá ef nefndin telji að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess.  Stefndi bendir á að drengurinn B hafi verið í fóstri hjá föðurömmu sinni.  Hann hafi dafnað mjög vel hjá henni og hafi aldrei verið gerðar athugasemdir við aðbúnað hans, sbr. dskj. nr. 20-22.  Ekki hafi verið sýnt fram á af hálfu stefnanda að daglegri umönnun drengsins hafi verið ábótavant.  Þá hafi umgengni og umönnun drengsins af hálfu stefnda gengið vel og samskipti þeirra feðga verið verulega góð.  Skilyrði a-liðar hafi því ekki verið uppfyllt.

Stefndi bendir á að d-liður 29. gr. barnaverndarlaganna kveði á um að hægt sé að krefjast forsjársviptingar ef fullvíst sé að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts, eða breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.  Stefndi staðhæfir að stefnandi hafi ekki með neinu móti sýnt fram á að hann sé augljóslega vanhæfur til þess að fara með forsjána eða að breytni hans sé líkleg til að valda drengnum skaða.

Stefndi byggir á því að ekki sé í áðurrakinni skýrslu sálfræðings um forsjárhæfni hans tekin afdráttarlaus afstaða til þess að hann sé vanhæfur til þess að fara með forsjá drengsins og því sé ljóst að skilyrði d-liðar 29. gr. barnaverndarlaga séu með engu móti uppfyllt, ekki frekar en skilyrði a-liðar sömu lagagreinar.  Um efni skýrslunnar vísar stefndi til þess sem hér að framan var rakið, og byggir á því að þegar af þessum sökum séu skilyrði þau sem barnaverndarlög setji fyrir forsjársviptingu ekki uppfyllt og því krefjist hann sýknu af kröfum stefnanda í máli þessu.

Stefndi vísar að auki til þess að stefnandi hafi ekki gætt þeirrar meðalhófsreglu sem áréttuð sé bæði í barnaverndarlögum og stjórnsýslulögum.  Þannig sé í 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga kveðið á um að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða að slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.  Að mati stefnda séu þessi skilyrði reglunnar ekki uppfyllt gagnvart honum.  Honum hafi aldrei verið gefið tækifæri til að annast drenginn líkt og móður hans og því hafi stefnandi ekki gætt jafnræðis með þeim.  Stefndi áréttar að við rekstur málsins hjá barnaverndarnefnd hafi hann lagt fram áðurlýstar kröfur sínar og tillögur.  Stefnandi hafi aftur á móti aldrei rökstutt af hverju nefndin hafi ekki séð ástæðu til þess að beita vægari stuðningsaðgerðum gagnvart honum.  Aldrei hafi verið gerð áætlun um meðferð máls með honum og ekki hafi verið haft eftirlit með honum, þrátt fyrir að hann hafi beinlínis óskað eftir því.  Stefndi byggir á því að stefnanda hefði verið í lófa lagið að fylgjast með samskiptum hans við drenginn eða fara fram á að hann undirgengist fíkniefnapróf.  Fyrrnefnd ákvörðun stefnanda virðist því byggja einvörðungu á matskenndum skoðunum um að stefndi sé að segja ósatt um að hann hafi breytt lífi sínu til hins betra.  Byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki sinnt rannsóknar- eða upplýsingaskyldu sinni með því að framkvæma ekki frekari aðgerðir til að styðja þetta mat sitt.  Þá hafi af hálfu stefnanda fyrir ákvarðanatöku í málinu ekki verið aflað frekari gagna frá lögreglu um afdrif kæru barnsmóður og meðstefndu á hendur honum, en fyrir liggi að kæran hefði verið afturkölluð.  Þá bendir stefndi á að stefnandi styðji einnig mat sitt á högum stefnda með vísan til sakaferils hans og mála, sem átt hafi sér stað löngu fyrir fæðingu drengsins B.  Stefndi hafi aldrei neitað fortíð sinni og fíkniefnaneyslu á árum áður, en byggir á því að hann hafi algerlega snúið við blaðinu.  Hann hafi þannig ítrekað óskað eftir að fá tækifæri til að annast drenginn til jafns við meðstefndu.  Þá sé ekki rétt sem fram komi í stefnu að hugmyndir hans um framtíðina séu óljósar og að hann hafi ekkert gert til að leita sér aðstoðar geðlæknis.  Bendir stefndi á að hann sé að vinna í sínum málum, en hann hafi sótt námskeið á meðan hann sat í fangelsi á síðasta ári, sbr. dskj. nr. 18 og 19, og hafi að auki ítrekað reynt að fá tíma hjá geðlækni.  Við flutning var auk þessa vísað til þess að stefndi hefði nýverið sótt um fulla vímuefnameðferð hjá SÁÁ og fengið jákvætt svar þann 9. nóvember sl., sbr. dskj. nr. 51.

Stefndi byggir á því að með aðgerðaleysi sínu við meðferð barnaverndarmálsins hafi stefnandi ekki eingöngu brotið gegn meginreglum barnaverndarlaga heldur einnig meginreglum stjórnsýslulaga með því að vanda ekki betur til svo sem lýst sé í meðalhófs- og rannsóknarreglunni.  Stefndi áréttar að ávallt skuli í málum sem þessum grípa til vægari stuðningsúrræða áður en krafist sé forsjársviptingar.  Þannig eigi að miða við að beitt sé vægustu ráðstöfun sem möguleg sé, til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt.  Aðeins sé gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum þegar lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti, sbr. 4. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga.  Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt séu skilyrði forsjársviptingar ekki uppfyllt og af þeim sökum sé af hans hálfu krafist sýknu í málinu.

Stefndi byggir að lokum á því að stefnandi hafi brotið gegn friðhelgi fjölskyldu hans með svo harkalegum aðgerðum sem raun ber vitni.  Drengnum B hafi verið kippt úr umsjón föðurömmu sinnar og móður stefnda, þrátt fyrir góðan aðbúnað og vellíðan hjá henni, og komið fyrir í fóstri hjá ókunnugum.  Í kjölfarið hafi verið krafist forsjársviptingar, án þess að önnur úrræði hefðu verið reynd.  Með þessari aðgerð hafi stefnandi unnið gegn þeirri góðu tengslamyndun, sem tekist hafi með föður og barni síðustu misserin.

Um varakröfu stefnanda er af hálfu stefnda vísað til sömu sjónarmiða og færð eru gegn aðalkröfunni.  Er því mótmælt að drengurinn B verði áfram vistaður á sama stað þar sem til séu vægari úrræði eins og þau að fela stefndu og föðurömmu umsjá hans og með því að veita viðeigandi stuðningsúrræði.  Fallist dómari á framlengingu vistunar er af hálfu stefnda farið fram á að hún standi skemur en 12 mánuði, á meðan unnið sé að því að koma drengnum í umsjá stefnda.

Af hálfu stefnda er bent á að stefnandi vísi í málatilbúnaði sínum til 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga um áhrif kröfu um forsjársviptingu og framlengingu vistunar á vistunartíma.  Bendir stefndi á að nefnd málsgrein eigi við um þau tilvik þegar búið sé að samþykkja framlengingu vistunar fyrir dómi.  Drengurinn sé nú vistaður á grundvelli 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga og ekki sé kveðið á um í þeirri grein að ráðstöfun haldist þar til úrskurður eða dómur liggur fyrir.  Vistunartími drengsins samkvæmt lagagreininni sé því útrunninn.  Þá er því haldið fram af hálfu stefnda að vísa eigi kröfu stefnanda um framlengingu vistunar skv. 28. gr. barnaverndarlaga frá dómi þar sem slíka kröfu eigi að reka eftir XI. kafla laganna, en kröfu um forsjársviptingar skv. X. kafla sömu laga.

Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til barnaverndarlaga nr. 80, 2002, einkum 4. og 29. gr.  Einnig vísar hann til almennra reglna barnaréttar og stjórnsýsluréttar, sbr. stjórnsýslulög nr. 37, 1993, en einnig til 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 1994, og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33, 1994.

Krafa stefnda um málskostnað er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91, 1991 og 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.  Þá er krafan um virðisaukaskatt byggð á lögum nr. 50, 1988.

3.  Málsástæður og lagarök stefndu K.

Af hálfu stefndu K er gerð athugasemd við málavaxtalýsingu stefnanda í stefnu.  Stefnda staðhæfir m.a. og hún hafi að undanförnu unnið í sínum málum og tekið sig verulega á.  Hún hafi ekki neytt fíkniefna og hafi sótt meðferð hjá geðlækni sínum undanfarna mánuði.  Þá hafi hún marglýst því yfir að hún hyggist hefja nám hjá Starfsendurhæfingu [...] í því skyni að styrkja sjálfa sig og búa sig undir að fara út á vinnumarkaðinn.  Um þessi atriði er af hálfu stefndu vísað til áðurrakins vottorðs Sigmundar Sigfússonar geðlæknis um reglubundna meðferð hennar á árinu 2010 og að hún hafi skilað árangri.

Stefnda gerir jafnframt athugasemdir við málatilbúnað stefnanda að því leyti að í stefnu sé ekki greint á milli hennar og meðstefnda, M, og sé um verulega vanreifun að ræða af hans hálfu.  Telur stefnda þetta vitna um slæleg vinnubrögð stefnanda og starfsmanna barnaverndarnefndar í öllu málsferlinu og sé allur málatilbúnað hans þessu marki brenndur.  Bendir stefnda á að hún sé ekki í sambandi við meðstefnda, en þau hafi slitið sambúð sinni og eigi það eitt sameiginlegt að eiga saman drenginn B.  Er á því byggt að stefnda eigi ekki að þurfa að sæta því í máli þar sem krafist sé forsjársviptingar, að málsástæðum byggðum á háttsemi meðstefnda, M, sé beint gegn henni.

Stefnda byggir efniskröfur sínar í málinu í fyrsta lagi á því að það úrræði að svipta hana með dómi forsjá B sé fjarri því að vera það úrræði sem þjóni hagsmunum drengsins best.  Byggir stefnda á því að það hljóti óumdeilanlega að vera svo að hagsmunir drengsins séu best tryggðir með því að hann alist upp og njóti samvista við kynforeldra sína eða kynforeldri, sbr. meginreglur barnalaga og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 18, 1992.  Þá er það mat stefndu að ekki sé fullreynt með önnur og vægari úrræði til að ná fram því markmiði að hún geti síðar meir annast drenginn og búið honum heimili.

Stefnda bendir á að samkvæmt gögnum hafi hún í gegnum tíðina glímt við ýmsa erfiðleika og hafi þurft á læknismeðferð að halda.  Sú meðferð sé enn í gangi og hafi gengið vel að undanförnu.  Hafi því verið ótímabært og beinlínis andstætt ákvæðum barnaverndarlaga að krefjast þess nú að hún verði svipt forsjá drengsins.

Stefnda vísar til þess að stefnandi byggi kröfu sína á a- og d-lið 29. gr. barnaverndarlaga og gangi út frá því að þau skilyrði, sem fram komi í téðum greinum séu uppfyllt.  Þessu er  mótmælt af hálfu stefndu.

Stefnda bendir á að mál drengsins B hafi verið til meðferðar hjá stefnanda í talsverðan tíma eða allt frá því áður en hann kom í heiminn.  Stærstan hluta þess tíma hafi drengurinn búið hjá föðurömmu sinni og umgengist stefndu með reglubundnum hætti.  Á haustmánuðum 2010 hafi verið gerð áætlun um meðferð málsins og hafi hún verið undirrituð af stefndu og starfsmönnum stefnanda.  Hafi áætlunin gengið út á það að stefnda héldi áfram meðferð sinni hjá geðlækni og í kjölfarið yrði svo unnin ný áætlun sem miðaði að því að hún gæti tekið drenginn að sér á nýjan leik.  Stefnda áréttar að á þessum tíma hafi hún sótt um vist hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands og hafi þannig staðið við sinn hluta áætlunarinnar.  Þann 24. september 2010 hafi verið gerð ný áætlun þar sem kveðið hafi verið á um að hún myndi taka drenginn til sín á nýjan leik þegar hún hefði fengið húsnæði.  Þá hafi verið kveðið á um að hún myndi áfram vera í meðferð og myndi mæta til reglulegra samráðsfunda hjá stefnanda.  Þrátt fyrir þessar áætlanir hafi málið tekið nýja stefnu 20. og 21. október 2010.  Vísar stefnda til þess að þann 20. október hafði starfsmönnum stefnanda borist tilkynning um að hún hefði reynt að útvega sér fíkniefni, en af þeim sökum hafi starfsmennirnir heimsótt hana þar sem hún hafi verið til húsa í húsnæði í eigu vinar hennar.  Hafi starfsmenn stefnanda talið sig vera vissa um að í þessari heimsókn til hennar hefði hún verið undir áhrifum fíkniefna án þess að nokkuð væri gert til þess að skera úr um það á nokkurn hátt.  Staðhæfir stefnda að eftir þetta megi segja að stefnubreyting hafi orðið af hálfu stefnanda.  Þannig hafi ekki verið unnið að því á skipulegan hátt að styrkja hana svo að hún yrði fær um að annast drenginn.  Þá hafi engin úrræði verið í boði af hálfu stefnanda til stuðnings, t.a.m. á grunni 24. og 25. gr. barnaverndarlaga.  Þrátt fyrir þetta hafi stefnda haldið áfram meðferð sinni hjá geðlækni og hætt lyfjatöku samkvæmt læknisráði.

Stefnda reisir sýknukröfu sína á því að í raun hafi henni við meðferð barnaverndarmálsins aldrei verið boðin stuðningsúrræði, sem raunverulega hafi verið til þess fallin að efla forsjárhæfni hennar.  Stefnandi hafi ekki leiðbeint henni um uppeldi barna eða aðstoðað hana við að styrkja sig sem uppalanda.  Öll þau úrræði sem boðið hafi verið upp á hafi snúist um það að stefnda uppfyllti tilteknar skyldur, sem hún hafi gert fyrir sitt leyti, en stefnandi aftur á móti lítið komið á móts við hana.  Stefnda áréttar að drengurinn B hafi á þessum tíma búið hjá föðurömmu sinni og þrifist vel.  Engin gögn hafi verið lögð fram um annað.  Einmitt vegna þessa hefði átt að vera hægara um vik að móta áætlun og bjóða stefndu stuðningsúrræði sem miðað hefði að því að hún gæti síðar tekið drenginn að sér. Drengurinn hafi á engan hátt verið í bráðri hættu hjá ömmu sinni og því hafi engin ástæða verið til að taka hann þaðan, vista hjá ókunnugu fólki og krefjast í kjölfarið forsjársviptingar, líkt og gert hafi verið af hálfu stefnanda.

Af hálfu stefndu er mótmælt þeim málsástæðum í stefnu, sem varða yfirlýsingar meðstefnda, M, um vantrú hans á getu hennar til að annast drenginn.  Er í þessu sambandi á því byggt að hún eigi sjálfstæðan rétt í málinu, líkt og meðstefndi M, og að hún eigi ekki að þurfa að sæta því að gjörðir, athafnir og orðræða hans séu notaðar gegn henni við úrlausn málsins.  Þá mótmælir stefnda að forsjárhæfnismat Valgerðar Magnúsdóttur sálfræðings sé lagt til grundvallar í málinu.  Bendir stefnda á að í matinu sé ekki skorið úr um það með fullnægjandi hætti hvort hún geti tekið drenginn B til sín og annast hann né heldur séu þar tilgreind sérstök tímamörk, sem séu mikilvæg atriði í málum sem þessum.  Þá bendir stefnda á að í niðurstöðukafla í skýrslu sálfræðingsins segi að með réttum úrræðum og meðferð geti staða hennar breyst verulega.  Í ljósi þessa sé enn furðulegra hvers vegna stefnandi hafi ákveðið að höfða mál þetta í stað þess að beita vægari úrræðum og gefa stefndu kost á að sækja sér þá meðferð sem hún þurfi á að halda.

Af hálfu stefndu er á því byggt að forsjársvipting sé afar íþyngjandi úrræði og því verði að gera þá kröfu að slíkum úrræðum sé ekki beitt fyrr en öll önnur vægari úrræði hafi verið reynd.  Stefnda áréttar að B hafi búið hjá ömmu sinni og þrifist þar vel og að þar hafi hagsmunum hans ekki verið stefnt í voða á neinn hátt.

Af hálfu stefndu er á því byggt að stefnandi hafi við meðferð málsins ekki gætt að skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar.  Stefnandi hafi ekki leitað allra leiða til að beita vægari úrræðum en gert hafi verið til þessa.  Er þar um vísað til 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, en þar sé sú almenna skylda lögð á barnaverndaryfirvöld að þau gæti þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra ráða og að ávallt skuli beita vægustu úrræðum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt.  Er áréttað að því fari fjarri að stefnandi hafi fullreynt vægari úrræði áður en gripið var til þess úrræðis, sem lengst gekk.  Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu.

Stefnda áréttar að hún hafi verið í meðferð hjá geðlækni síðastliðna mánuði og náð nokkrum árangri.  Þá hafi hún haldið góðu sambandi við eldri börn sín, sem búi hjá foreldrum hennar.  Hafi þau samskipti gengið vel.  Þá hafi hún í hyggju að styrkja stöðu sína með því að hefja nám hjá Starfsendurhæfingu [...] á komandi hausti eða í byrjun næsta árs, líkt og ítrekað hafi verið bent á á fundum hennar með starfsmönnum stefnanda.

Í ljósi ofangreindra raka byggir stefnda á því að sú krafa sem stefnandi hafi nú sett fram sé með öllu ótímabær, enda ekki útséð með að hún öðlist þann styrk og aðstæður hennar breytist þannig að hún geti í framtíðinni tekið drenginn B að sér og annast hann.

Stefnda byggir á því hvað varðar varakröfu stefnanda, að þar eigi við sömu málsástæður og að framan er rakið um aðalkröfuna.

Um lagarök er af hálfu stefndu, K, vísað til ákvæða barnaverndarlaga nr. 80, 2002, sem og almennra reglna barnaréttarins, sbr. lög nr. 76, 2003.  Þá vísar hún til meginreglna stjórnsýsluréttarins, sbr. lög nr. 37, 1993, og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 18, 1992.  Um málskostnað vísar stefnda til 129. og 130. gr. laga nr. 19, 1991 og 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002, en um virðisaukaskatt til laga nr. 50, 1988.

III.

Stefndu, K og M, gáfu skýrslur fyrir dómi.  Þá gáfu skýrslur vitnin, Áskell Örn Kárason, sálfræðingur og framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar A, Harpa Ágústsdóttir, uppeldisráðgjafi og starfsmaður Barnaverndarnefndar A, Ingþór Bjarnason sálfræðingur, Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur, Pétur Maack Þorsteinsson sálfræðingur, Ágústa Gunnarsdóttir sálfræðingur, Hulda Pétursdóttir, deildarstjóri mæðraverndar Heilsugæslustöðvarinnar á [...], Þorgerður Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur ungbarnaverndar Heilsugæslustöðvarinnar á [...], Sigmundur Sigfússon, forstöðulæknir geðdeildar Sjúkrahússins á [...], Magnús Ólafsson heilsugæslulæknir, C þroskaþjálfi og Kári Erlingsson rannsóknarlögreglumaður.

Í skýrslu stefnda M kom fram að hann hefði átt við áralanga vímuefnamisnotkun að stríða.  Hann kvaðst hafa verið í fremur lítilli neyslu þegar sonur hans B fæddist þann [...] 2009, en að neysla hans hefði aukist eftir það og allt þar til hann fór í fangelsi í desember 2009.  Í fangavistinni kvaðst hann hafa tekið sig á með einu fráviki, en þá hefði hann fallið á bindindinu.  Stefndi bar að eftir að fangavist hans lauk þann 12. ágúst 2010 hefði hann reynt að sinna drengnum eftir bestu getu.  Hann hefði hitt drenginn reglulega, enda hefði hann verið í fóstri hjá föðurömmu sinni.  Vegna þessara samskipta hefði hann myndað góð tengsl við drenginn.  Stefndi skýrði frá því að hann hefði fallið á bindindi sínu eftir úrskurð barnaverndarnefndar þann 5. apríl 2011.  Staðfesti hann að af þeim sökum hefði lögregla í fáein skipti haft afskipti af málefnum hans.  Þá kannaðist hann við að lögregla hefði nú í haust lagt hald á nokkurt magn af fíkniefnum, þ. á m. amfetamín og ecstasy, í núverandi leiguhúsnæði hans hér á [...].  Hann staðhæfði að efnin hefðu verið ætluð til eigin neyslu.  Hann sagði að eftir þessi síðustu afskipti lögreglu hefði hann tekið þá ákvörðun í fyrsta skipti að leita sér aðstoðar vegna vímuefnavanda síns.  Hefði hann nýverið fengið formlegt vilyrði fyrir vist á sjúkrastofnun SÁÁ og stefndi hann á 10-14 daga meðferð.  Að auki kvaðst hann hafa í hyggju að leita eftir aðstoð hjá Félagsmálastofnun og Barnaverndarnefnd og þá með það í huga að hann tæki við forsjá sonar síns, B, eftir tvo til þrjá mánuði.  Stefndi sagði að það væri vilji hans að fram að þeim tíma hefði meðstefnda, K, eða móðir hans umsjón með drengnum.

Í skýrslu stefndu K kom fram að hún hefði síðustu mánuðina haft á leigu húsnæði skammt utan [...].  Hún kvaðst þó að mestu eða frá vori 2011 hafa haldið til í íbúð móður meðstefnda, vitnisins C, hér á [...] eða allt þar til hún hefði nú í október farið á sjúkrahús til að ala fjórða barn sitt.  Hún skýrði frá því að eftir að drengnum B hafði með samkomulagi verið komið í fóstur til nefnds vitnis hefði hún sinnt honum mikið eða allt til þess hann hefði verið tekinn þaðan eftir úrskurð Barnaverndarnefndar A þann 5. apríl sl.  Stefnda bar að líðan hennar væri almennt góð og mun betri en fyrir þremur til fjórum árum.  Stefnda bar að hún hefði vilja til að þiggja aðstoð barnaverndarnefndar og þá ekki síst á sviði fjármála og húsnæðismála.  Hún lýsti áformum um að fara í starfsendurhæfingu og í samtalsmeðferð hjá geðlækni, en ætlaði að hún þyrfti ekki á eiginlegri meðferð að halda.  Stefnda bar að undanfarið ár hefði hún ekki neytt fíkniefna, en tæki inn viðeigandi lyf samkvæmt læknisráði.  Stefnda staðhæfði að almennt væri vandi hennar mun minni en af væri látið.

Drengurinn B er fæddur á Sjúkrahúsinu á [...] [...] 2009.  Foreldrar hans, stefndu M og K, hófu sambúð sumarið 2008, en fyrir á heimilinu voru þá tvö eldri börn stefndu K, fædd 2002 og 2004.  Óumdeilt er að daginn eftir fæðingu B barst barnaverndarnefnd tilkynning frá fæðingardeild sjúkrahússins um að stefnda K hefði mælst jákvæð fyrir kannabisefnum.

Af gögnum verður ráðið að stefndu, K og M, hafi slitið sambúð sinni í júní 2009.  Þann 22. júlí sama ár rituðu þau undir yfirlýsingu hjá sýslumanni um sameiginlega forsjá drengsins B.  Liggur fyrir að drengurinn átti eftir það lögheimili hjá stefndu K.  Fyrir liggur að 21. desember 2009 gerði hún samkomulag við barnaverndarnefnd um að drengurinn færi í tímabundið fóstur til föðurömmu sinnar, vitnisins C, á meðan hún kæmi lífi sínu og aðstæðum í betra horf.  Ágreiningslaust er að vist drengsins hjá föðurömmunni var framlengd og var forsenda þess sú að stefnda K þyrfti að vinna bug á vanda sínum þannig að hún gæti tekið við umsjón drengsins á ný.

Barnaverndarstofa synjaði þann 31. ágúst 2010 umsókn föðurömmu drengsins um að teljast hæf sem fósturforeldri.  Þrátt fyrir það dvaldi drengurinn áfram í umsjá hennar og allt þar til í apríl 2011 þegar barnaverndarnefnd ákvað með úrskurði að hann skyldi vistaður hjá fósturforeldrum.  Stefndu kærðu úrskurðinn, sitt í hvoru lagi, en mál þeirra voru sameinuð fyrir héraðsdómi.  Hinn 17. maí sl. var úrskurður barnaverndarnefndar staðfestur fyrir dómi.  Með stefnu á hendur stefndu, birtri 9. maí 2011, var mál þetta höfðað, en það er rekið samkvæmt X. kafla barnaverndarlaga nr. 80, 2002.

Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið er það upphaf þessa máls að þann 11. febrúar 2009 ákváðu starfsmenn Barnaverndarnefndar A að hefja könnun á máli drengsins B, en hann var þá enn í móðurkviði.  Tilefnið var grunur um að stefnda, K, stofnaði heilsu og lífi hans í hættu með óviðunandi og háskalegu líferni, m.a. með ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu.  Er þetta gerðist voru stefndu í óvígðri sambúð og héldu heimili ásamt fyrrnefndum börnum stefndu, K, í leiguíbúð að [...] hér í bæ.

Samkvæmt gögnum fóru stefndu bæði á fund barnaverndarnefndar þann 18. mars 2009.  Í fundargerð segir að starfsmönnum barnaverndarnefndar hafi þótt tvísýnt um öryggi barna og heilsu ófædds barns þeirra, drengsins B.  Í fundargerðinni segir að stefnda K hafi neitað að fara í fíkniefnapróf, en lýst sig reiðubúna til að fara í viðtöl til sálfræðings.  Skráð er að stefndi M hafi samþykkt að fara í fíkniefnapróf, en ekki talið sig hafa þörf á að fara í áfengis- eða fíkniefnameðferð.  Samkvæmt gögnum var starfsmanni barnaverndarnefndar falið að gera áætlun með stefndu og að fylgja því eftir að stefndi M færi í umrætt próf.  Samkvæmt gögnum voru gerðar ítrekaðar tilraunir eftir þetta til að fá stefndu á fund starfsmanna barnaverndarnefndar í þeim tilgangi að ræða stuðningsaðgerðir samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2008, en einnig til að fara yfir nýlegar barnaverndartilkynningar, sem borist höfðu um líferni þeirra og aðstæður barna.  Var fundur loks haldinn með stefndu þann 29. apríl 2009.  Í fundargerð segir að þá hafi stefnda K viðurkennt að hafa neytt fíkniefna á meðgöngu B.  Á þessum fundi var afráðið að stefndu mættu bæði á fund nefndarinnar í maí til að ganga frá skriflegri áætlun um málefni þeirra barna sem voru í þeirra umsjá, en þ. á m. var drengurinn B.  Ekki varð af þessum fundi vegna andstöðu stefndu K, en í gögnum segir frá því að í vitjun barnaverndarstarfsmanna á heimili hennar þann 24. júní s.á. hefði hún tilkynnt að sambúð hennar og stefnda M væri lokið.

Fyrir liggur að þann 30. júní 2009 undirritaði stefnda K ásamt starfsmönnum barnaverndarnefndar áætlun samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga.  Var markmið áætlunarinnar að tryggja drengnum B viðunandi uppeldisskilyrði og að styrkja stefndu í uppeldishlutverki sínu.  Í áætluninni voru auk þess tiltekin stuðningsúrræði í fjórum liðum.  Samkvæmt gögnum voru eftir þetta, á árinu 2009 og fyrri hluta árs 2010, gerðar nokkrar tímabundnar áætlanir, sem undirritaðar voru af starfsmönnum barnaverndarnefndar og stefndu K.  Einnig liggur fyrir undirrituð áætlun af hálfu stefndu K frá 24. september 2010, en hún mun hafa verið gerð í kjölfar tímabundinnar innlagnar hennar á geðdeild Sjúkrahússins á [...] þá um haustið.  Í áætluninni var m.a. gert ráð fyrir að hún tæki við umsjón drengsins B og að hún hefði af þeim sökum forgang fyrir félagslegri íbúð.

Ágreiningslaust er að í desember 2010 samþykktu stefndu K og M á fundi með starfsmönnum stefnanda að gangast undir forsjárhæfnismat óháðra sérfræðinga.  Liggja fyrir í málinu skýrslur sálfræðinganna Valgerðar Magnúsdóttur og Ingþórs Bjarnasonar, dagsettar 25. febrúar og 14. mars 2011.

Samkvæmt gögnum mætti stefnda K á fund barnaverndarnefndar 26. janúar 2011 og er þá skráð að hún hefði neitað að gefa þvag- eða blóðsýni vegna vímuefnaleitar og jafnframt upplýst að hún hefði hætt þátttöku á námskeiði hjá Starfsendurhæfingu [...].  Skráð er að stefnda K hafi lýst sig reiðubúna að rita undir nýja áætlun um málefni drengsins B, en að auki samþykkt áframhaldandi vist hans hjá föðurömmu sinni og að hún héldi áfram að umgangast hann þar samkvæmt nánara samkomulagi.

Samkvæmt gögnum barnaverndarnefndar frá 15. febrúar 2011 var haldinn fundur með starfsmönnum nefndarinnar og stefndu, M og K.  Segir í fundargerð að þá hafi verið rædd umgengni drengsins við foreldra sína og að samkomulag hefði orðið um að hún færi mest fram á heimili föðurömmunnar og hann gisti hjá hvorugu foreldranna eins og sakir stæðu.  Þar um var m.a. vísað til þess að lögregla hefði við húsleit á heimili stefnda M fundið ætluð fíkniefni og tæki til neyslu.

Samkvæmt gögnum var stefnda K í viðtalsmeðferð hjá geðlækni sínum, Sigmundi Sigfússyni, u.þ.b. tvisvar sinnum í mánuði á árinu 2010.  Þá var hún, m.a. fyrir tilstilli Barnaverndarnefndar A, í sólarhringsvist á geðdeild Sjúkrahússins á [...] frá 23. ágúst til 7. september, en eftir það í dagvist til 10. október 2010.  Hún var í einu göngudeildarviðtali 24. nóvember s.á., en samkvæmt vætti nefnds sérfræðings hefur hún að auki verið í nokkru símasambandi við geðlækninn.

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2008 er barnaverndarnefnd heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annað þeirra eða báðir, skuli sviptir forsjá.

Samkvæmt lagagreininni er það skilyrði sett, samkvæmt a-lið, að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska.  Samkvæmt d-lið lagagreinarinnar er á sama hátt heimilt að krefjast forsjársviptingar ef fullvíst er talið, að áliti nefndarinnar, að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska sé hætta búin.

Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. skal kröfu um sviptingu forsjár aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.

Af hálfu stefndu, M og K, er því alfarið mótmælt að þau verði svipt forsjá drengsins B, og hafa þau, hvort í sínu lagi, m.a. vísað til þess að forsendur svo alvarlegra aðgerða séu ekki fyrir hendi.

Eins og hér að framan var rakið lauk óvígðri sambúð stefndu, M og K, í júní 2009.

Stefndi M afplánaði, eins og áður er rakið, fangelsisrefsingu vegna fíkniefnadóms frá 15. desember 2009 til 12. ágúst 2010, en þá var honum veitt reynslulausn skilorðsbundið í 1 ár á 120 daga eftirstöðvum refsingarinnar.  Stefndi hefur haldið því fram að eftir að fangavist hans lauk hafi hann í fyrstu haldið sig að mestu frá óreglu og fíkniefnum, og haft vilja til að snúa baki við fyrra lífi.  Vegna þessa hafi hann reynt að leita sér að vinnu og m.a. tekið sér íbúð á leigu.  Þá hafi hann alloft dvalið á heimili móður sinnar og annast son sinn þar.  Vegna þessa hafi þeir tengst tilfinningalegum böndum.  Fyrir liggur að stefndi M hefur á fundum með starfsmönnum barnaverndarnefndar lýst vilja til að taka son sinn, B, að sér og þá með stuðningi barnaverndarnefndar og félagsmálayfirvalda.  Af hálfu barnaverndarnefndar voru ekki gerðar skriflegar áætlanir um meðferð máls með stefnda M um málefni drengsins.  Það er eigi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, en óumdeilt er að stefndi M var forsjáraðili drengsins ásamt meðstefndu K.  Á hinn bóginn liggur fyrir að hann gaf munnlegt samþykki sitt fyrir vistun drengsins hjá föðurömmu sinni, vitninu C, í desember 2009.  Þá verður ekki fram hjá því horft að við meðferð málsins skýrði stefndi M frá því að hann hefði í einhverjum mæli neytt fíkniefna um það leyti sem drengurinn fæddist, en að sigið hefði á ógæfuhliðina hjá honum varðandi neysluna hin síðustu misserin.  Hann staðfesti enn fremur að hann hefði haft í vörslum sínum talsvert magn af fíkniefnum í október sl., er lögregla gerði húsleit í leiguíbúð sem hann hefur haft til umráða.

Samkvæmt framangreindu á stefndi M sögu um langvarandi neyslu ávana- og fíkniefna, en hann hóf neyslu snemma á unglingsárum og að auki á hann að baki langan brotaferil.  Hann hefur enn ekki náð valdi á þessum erfiðleikum sínum.  Hann hefur þó lýst yfir viðhorfsbreytingu að þessu leyti og staðhæft fyrir dómi að hann væri nú í fyrsta skipti viljugur til að leita sér hjálpar vegna fíknar sinnar.

Fyrir dómi lét sá sálfræðingur sem kannaði forsjárhæfni stefnda M það álit í ljós, að vegna nefndrar forsögu væri þess að vænta að hann þyrfti 3-4 ára vímuefnalaust tímabil auk virkrar endurhæfingar áður en ætla mætti að hann gæti farið að takast á við foreldrahlutverkið.  Tekur dómurinn undir það álit, að stefndi M eigi enn langt í land með að vera trúandi fyrir umönnun barns.  Auk þessa hefur hann lengi glímt við persónulegan vanda, en sálfræðiathuganir benda til töluverðra geðrænna erfiðleika, jafnvel persónuleikaröskunar, og mælist forsjárhæfni hans talsvert undir meðallagi.  Þá má svo heita að hann sé reynslulaus í foreldrahlutverkinu.  Er það niðurstaða sálfræðinga að ýmislegur óstöðugleiki og slök námsgeta rýri mjög færni hans sem foreldris.  Hann hefur og ekki farið að tilmælum starfsmanna barnaverndarnefndar, en eins og áður var rakið var því beint til hans á fundum nefndarinnar í ársbyrjun 2009 að bæta ráð sitt og efla sig í foreldrahlutverkinu og leita sér aðstoðar.

Stefnda, K, hefur um allnokkurt skeið átt samskipti við barnaverndaryfirvöld, m.a. vegna barna hennar, sem fædd eru á árunum 2002 og 2004.  Liggur fyrir að í ágúst 2008 var þess farið á leit af Fjölskyldudeild [...] að sálfræðingur gerði á henni forsjárhæfnismat með tilliti til styrkleika og veikleika.  Verður af þessu ráðið að barnaverndaryfirvöldum hafi verið ljóst að hún hafði skerta hæfni til að annast börn án viðeigandi aðstoðar og að þau skárust í leikinn fyrir fæðingu drengsins B til að vernda hagsmuni hans og fá foreldra til að bæta ráð sitt.  Einkum beindist viðleitnin að stefndu K eftir að hún hafði slitið samvistum við stefnda M sumarið 2009.  Að mati dómsins greip barnaverndarnefnd með þessum hætti og síðar til viðeigandi úrræða, sem hefðu, undir eðlilegum kringumstæðum, átt að gera henni kleift að sinna hlutverki sínu.  Stuðningurinn bar hins vegar ekki tilætlaðan árangur og var drengnum 9 mánaða gömlum komið tímabundið fyrir hjá ættingjum, en stefnda K, líkt og faðir drengsins, hvött til að leita sér frekari aðstoðar.  Stefnda lét verða af því síðsumars 2010, en árangur meðferðar á geðdeild Sjúkrahússins á [...] reyndist skammvinnur.

Samkvæmt gögnum er vandi stefndu K langvarandi og er honum ítarlega lýst í skýrslum þriggja sálfræðinga, sem lagðar voru fyrir dóminn og eru nokkuð samhljóma.  Er þar lýst geðrænum vanda, þroskamisfellum og efnamisnotkun, sem allt rýrir mjög hæfni stefndu sem uppalanda eða gerir hana ófæra til að sinna foreldrahlutverkinu að mati sérfræðinganna.  Vottorð og vætti geðlæknis stefndu fyrir dómi var í sama dúr.  Samkvæmt vætti læknisins glímir hún m.a. við kvíða og persónuleikaraskanir, sem koma fram í sveimandi hugsun, síbreytilegum áætlunum, andlegum óstöðugleika og ósamkvæmni, sem allt háir henni við umönnun barna og uppeldisstörf almennt.  Þá er stefnda óáreiðanleg, á erfitt með að skipuleggja gjörðir sínar og fylgja áætlunum eftir.  Hana skortir innsæi og skilning á vanda sínum, finnst ástandið öðrum að kenna, hefur tilhneigingu til að misnota lyf og vímuefni og hefur litla meðferðarheldni.  Meðferðarhæfni hennar er slök, m.a. sökum þess að hún á erfitt með skilning á flóknum hugtökum og orsakasamhengi.  Til að ná árangri og nægum styrk sem forsjáraðili er stefnda, K, að mati geðlæknisins, í þörf fyrir atferlismótandi meðferð á stofnun í langan tíma.  Aðspurður taldi geðlæknirinn stefndu ekki hæfa til að annast um barn nema mikil fagleg aðstoð væri í boði inni á heimili hennar mestallan vökutíma barnsins.

Dómurinn tekur undir álit framangreindra sérfræðinga og telur að miklir annmarkar séu á forsjárhæfni stefndu K og ólíklegt að viðleitni til að bæta þar úr beri nægjanlegan árangur á næstunni.

Samkvæmt gögnum sem lögð voru fyrir dóminn eftir að mál þetta var höfðað ákvað Barnaverndarnefnd S að óskírt sveinbarn sem stefnda K ól þann 12. október sl. skyldi vistað hjá fósturforeldrum, þar sem hún væri ófær um að annast það svo viðunandi væri.

Samkvæmt 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2008 eiga börn rétt á vernd og umönnun í samræmi við aldur sinn og þroska.  Þá ber foreldrum að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra.  Þeim ber og að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna.

Samkvæmt 12. gr. barnaverndarlaga er það m.a. hlutverk barnaverndarnefnda að hafa eftirlit með aðbúnaði, hátterni og uppeldisskilyrðum barna og meta sem fyrst þarfir þeirra sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður.  Jafnframt ber barnaverndarnefndum að beita þeim úrræðum samkvæmt lögunum til verndar börnum sem best eiga við hverju sinni og heppilegust þykja til að tryggja hagsmuni og velferð þeirra.

Það er mat dómsins að barnaverndarnefnd hafi í þessu máli reynt að beita öðrum vægari úrræðum til úrbóta, en að þau hafi ekki skilað viðunandi árangri.  Verður ekki fallist á með stefndu, M og K, að stefnandi hafi brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar, og þ. á m. meðalhófsreglunni.  Þvert á móti bar nefndinni skylda til, í samræmi við áðurgreind ákvæði barnaverndarlaga, sbr. einnig ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18, 1992, að beita þeim úrræðum sem nauðsynleg voru til að tryggja vernd drengsins B.  Málatilbúnaður stefnanda í máli þessu þykir heldur ekki aðfinnsluverður eða málatilbúnaður hans vanreifaður.

Ber með vísan til alls framangreinds að fallast á aðaldómkröfur stefnanda um að stefndu, K og M, verði svipt forsjá sonar síns, B.

Stefnandi krefst ekki málskostnaðar úr hendi stefndu.

Stefndu hafa gjafsókn í máli þessu, stefndi, M, samkvæmt bréfi innanríkisráðuneytis dagsettu 27. júní 2011 og stefnda, K, samkvæmt bréfi dagsettu 8. júlí 2011.

Af hálfu lögmanna stefndu hafa verið lagðir fram sundurliðaðir málskostnaðarreikningar og verður gjafsóknarkostnaður þeirra ákveðinn m.a. með hliðsjón af þeim, en einnig með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands, m.a. í málum nr. 50/1974 og nr. 470/2011.

Gjafsóknarkostnaður stefnda, M, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, Hörpu S. Björnsdóttur hdl., þykir að ofangreindu virtu, ásamt umfangi málsins, þ. á m. fjölda þinghalda, og þeim mikilvægu hagsmunum sem um er deilt, hæfilega ákveðinn 600.000 krónur og hefur þá ekki verið lagður á virðisaukaskattur.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála tekur dómurinn ekki afstöðu til útlagðs kostnaðar.  Þá fellur ekki undir gjafsóknarkostnaðinn kostnaður sem til féll við málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, sbr. ákvæði 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2008.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, K, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, Ásgeirs Arnar Jóhannssonar hdl., þykir að öllu framangreindu virtu hæfilega ákveðinn 580.000 krónur og hefur þá ekki verið lagður á virðisaukaskattur.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála tekur dómurinn ekki afstöðu til útlagðs kostnaðar og ekki til þess kostnaðar sem til féll við rekstur málsins fyrir barnaverndarnefnd, sbr. ákvæði 47. gr. barnaverndarlaga.

Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.

Dóm þennan kveða upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari, og meðdómsmennirnir Þorgeir Magnússon, sálfræðingur, og dr. Rúnar Helgi Andrason, sálfræðingur.

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, K og M, eru svipt forsjá sonar síns, B.

Gjafsóknarkostnaður stefnda, M, þ. m. t. þóknun lögmanns hans, Hörpu S. Björnsdóttur hdl., 600.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, K, þ. m. t. þóknun lögmanns hennar, Ásgeirs Arnar Jóhannssonar hdl., 580.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.