Hæstiréttur íslands

Mál nr. 739/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Afhending gagna


                               

                                     

Mánudaginn 8. desember 2014.

Nr. 739/2014.

Ákæruvaldið

(Hólmsteinn Gauti Sigurðsson saksóknari)

gegn

X og

(Óttar Pálsson hrl.)

Y

(Reimar Pétursson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns. Afhending gagna. 

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Y um að lagt yrði fyrir Á að afhenda sér þrjú nánar tilgreind skjöl, en fallist á kröfu X um dómkvaðningu matsmanna. Hvað varðaði kröfu Y taldi Hæstiréttur að skjölin vörðuðu annars vegar ekki mál hans, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og hins vegar að ekki væri um að ræða sönnunargögn um atvik máls sem Á væri skylt að leggja fram, sbr. 2. mgr. 134. gr. sömu laga. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar um kröfu Y því staðfest. Hvað varðaði kröfu X taldi Hæstiréttur að það sem matsmenn ættu að meta varðaði annars vegar ekki það sakarefni sem ákært var fyrir í málinu og hins vegar atriði sem væri hluti af sönnunarfærslu í sakamálinu og varði sönnunargögn sem dómara bæri að leggja sjálfstætt mat á, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008. Matsbeiðnin væri því tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008, og var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi um kröfu þessa.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2014, þar sem hafnað var kröfu varnaraðilans Y um að lagt yrði fyrir sóknaraðila að afhenda sér þrjú nánar tilgreind skjöl, en fallist á kröfu varnaraðilans X um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. og o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreindri kröfu um dómkvaðningu matsmanna verði synjað en að úrskurðurinn verði staðfestur um fyrrnefndu kröfuna.

Varnaraðilinn Y kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 14. nóvember 2014. Hann krefst þess að sóknaraðila verði gert skylt að afhenda sér áðurgreind skjöl.

I

Af hálfu varnaraðilans Y er þess krafist að lagt verði fyrir sóknaraðila að afhenda sér bréf setts ríkissaksóknara frá 7. janúar 2011 án yfirstrikana. Þá krefst hann þess að lagt verði fyrir sóknaraðila að afhenda sér annars vegar bréf sérstaks saksóknara til setts ríkissaksóknara frá 5. janúar 2011 um að A, sem yfirheyrður var sem sakborningur við embætti sérstaks saksóknara, sætti ekki ákæru með vísan til heimildar í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara og hins vegar bréf sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara um að B, sem einnig var yfirheyrður sem sakborningur við embættið sætti ekki ákæru samkvæmt heimild í sama lagaákvæði. Varnaraðilinn kveður skjöl þessi geta haft þýðingu við mat á sönnunargildi framburðar fyrrgreindra manna.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 135/2008 er ríkissaksóknara heimilt að ákveða, að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. greinarinnar og að fenginni rökstuddri tillögu frá sérstökum saksóknara, að sá sem hefur frumkvæði að því að bjóða eða láta lögreglu eða saksóknara í té upplýsingar eða gögn sæti ekki ákæru þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur að broti hans sjálfs.

Skilyrði ákvörðunar samkvæmt 1. mgr. eru að upplýsingar eða gögn tengist broti sem falli undir rannsóknar- og ákæruvald sérstaks saksóknara samkvæmt lögunum og talið verði líklegt að upplýsingarnar eða gögn geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót við fyrirliggjandi sönnunargögn. Þá er það skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar að rökstuddur grunur sé um að upplýsingar eða gögn tengist alvarlegu broti, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til að ætla að án þeirra muni reynast torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir broti.

Í bréfi setts ríkissaksóknara 7. janúar 2011 kom fram að ákveðið hefði verið að A sætti ekki ákæru í nokkrum málum, þar á meðal því sem hinn kærði úrskurður lýtur að. Skjalið hefur verið lagt fyrir Hæstarétt án yfirstrikana. Það varðar samskipti ákæruvaldshafa og ákvarðanir setts ríkissaksóknara vegna annarra mála en þess sem hér um ræðir. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 skal verjandi fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans. Sá hluti skjalsins, sem varnaraðilinn hefur krafist að verði lagður fram, varðar ekki mál hans. Þegar af þeirri ástæðu verður hafnað kröfu hans um afhendingu skjalsins án yfirstrikana.

Önnur skjöl sem hinn kærði úrskurður lýtur að hafa einnig verið lögð fyrir Hæstarétt. Bréfin sendi sérstakur saksóknari til setts ríkissaksóknara og ríkissaksóknara þar sem lagt var til að ríkissaksóknari ákvæði að fyrrgreindir A og B sættu ekki ákæru í málinu. Fyrra bréfið varðar A. Auk tillögu sérstaks saksóknara um að hann sæti ekki ákæru, meðal annars í því máli sem hinn kærði úrskurður lýtur að, var í bréfinu meðal annars gerð grein fyrir mati sérstaks saksóknara á sönnunarstöðu málsins. Í hinu síðara, er varðar B, var meðal annars ítarleg málsatvikalýsing í tímaröð, rakinn framburður hans hjá lögreglu varðandi tiltekin atriði og lagt mat á hvernig sá framburður samrýmdist tilgreindum framburði vitnis hjá lögreglu. Þá var þar gerð grein fyrir tölvupóstsamskiptum og tilgreindum lánsskjölum, en jafnframt voru í bréfinu hugleiðingar sérstaks saksóknara um sönnunarstöðu málsins. Í því ljósi og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 3. október 2012 í máli nr. 609/2012 er ekki fallist á að um sé að ræða sönnunargögn um atvik máls, sem ákæruvaldi er skylt að leggja fram í samræmi við ákvæði 2. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest um kröfu þessa.

II

Varnaraðilinn X hefur beiðst þess að dómkvaddir verði sérfróðir menn, í fyrsta lagi til að lýsa annars vegar ,,fjárhagslegri áhættu [...] sem fylgdi eignarhaldi á 640 milljón hlutum í [...] og 380 milljón hlutum í [...] fyrir hlutabréfaviðskiptin í nóvember 2007“ og hins vegar ,,fjárhagslegri áhættu [...] sem leiddi af fjármögnun hlutabréfaviðskiptanna, nánar tiltekið fjárhagslegri áhættu sem fylgdi láni til [...], láni til [...] og hlutafjárframlagi til [...] eftir viðskiptin.” Í öðru lagi var farið fram á að matsmenn leggi mat á heildarfjárhæð mögulegrar tapsáhættu [...] vegna þeirra eigna sem um ræðir fyrir viðskiptin og eftir. Í þriðja lagi að lagt verði mat á hvort fjárhagsleg áhætta [...] hafi aukist eða úr henni dregið vegna viðskiptanna að teknu tilliti til stöðu bankans fyrir þau og eftir. Skuli þá litið til atriða svo sem niðurstöðu matsmanna samkvæmt öðrum matslið, áhættudreifingar, fjárstreymis vegna viðskiptanna og annarra atriða sem þýðingu kunni að hafa. Í fjórða lagi að lagt verði mat á fjártjón [...] vegna viðskiptanna að teknu tilliti til þess fjártjóns sem orðið hefði ef viðskiptin hefðu ekki átt sér stað og [...] hefði áfram átt hlutabréfin í bankanum og [...] fram til þess tíma er þau urðu verðlaus.

Ákæra í málinu lýtur að ætluðum umboðssvikum varnaraðila í tengslum við lánveitingar [...] til [...], síðar [...], en ekki að eignarhaldi [...] á 640.000.000 hlutum í bankanum og 380.000.000 hlutum í [...]. Þau atriði sem lagt er fyrir matsmenn að meta samkvæmt fyrri lið fyrsta liðar matsbeiðni varða því ekki það sakarefni sem ákært er fyrir í málinu og eru tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008.

Við úrlausn um hvort heimila beri mat dómkvaddra manna á því sem kvæðis ﷽﷽﷽ umboðssvikafjártjóns i fjnnar, ber að horfa til þess að  horfa til þess að laga nr. 88/2008m u þess til laga og stjsíðari liður fyrsta liðar matsbeiðni lýtur að, sem og annar, þriðji og fjórði liður hennar, verður að horfa til þess að mat á fjártjónshættu í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er lögfræðilegt úrlausnarefni. Öll þau atriði er fram koma undir síðari lið fyrsta liðar matsbeiðni, sem og öðrum, þriðja og fjórða lið hennar eru því marki brennd að þau eru hluti af sönnunarfærslu í sakamálinu og varða ýmist sönnunargögn í málinu, sem dómara ber að leggja sjálfstætt mat á, eða ímyndaða atburðarás, líkt og fjórði liður hennar, sem ekki varðar sakarefni málsins. Það er hlutverk dómara að leggja mat á sönnunargögn málsins og atriði sem krefjast almennrar þekkingar og lögfræðiþekkingar, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008. Matsbeiðni með áðurgreindum atriðum er samkvæmt framangreindu tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi um kröfu þessa, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, X, um dómkvaðningu matsmanna.

Hafnað er kröfu varnaraðila, Y, um afhendingu þriggja tilgreindra skjala.  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2014.

Með ákæru Embættis sérstaks saksóknara 10. febrúar 2014 voru ákærðu gefin að sök umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum í tengslum við lánveitingar [...] til félaganna [...] og [...], í nóvember 2007 og janúar 2008.

Í þinghaldi 26. júní 2014 lagði verjandi ákærða, Y, fram bókun þar sem gerð var krafa um að dómurinn legði fyrir ákæruvaldið að afla gagna. Yrði lagt fyrir ákæruvaldið að afhenda verjandanum þrjú tilgreind bréf, sem vísað væri til í rannsóknargögnum málsins, en væru ekki á meðal þeirra. Sækjandi mótmælti þessari kröfu verjandans.

Í þinghaldi 22. september 2014 lagði verjandi ákærða, X, fram matsbeiðni, þar sem þess var krafist að héraðsdómur dómkveddi sérfróða matsmenn til að leggja fram rökstutt álit á fjárhagslegri áhættu [...] vegna lánveitingar í tengslum við viðskipti með hlutabréf í [...] og [...] í nóvember 2007. Sækjandi mótmælti dómkvaðningunni.

Mál þetta var flutt um ágreining um afhendingu gagna og dómkvaðningu matsmanna 30. október sl. og málið tekið til úrskurðar í framhaldi.

I

Að því er varðar kröfu ákærða, Y, um afhendingu gagna, lýtur krafan að því að verjanda ákærða verði afhent bréf setts ríkissaksóknara frá 7. janúar 2011, án yfirstrikana, en bréfið komi fram á blaðsíðu 3306 í rannsóknargögnum málsins. Í annan stað að verjandanum verði afhent bréf sérstaks saksóknara til setts ríkissaksóknara 5. janúar 2011 um málefni A, en vísað sé til bréfsins á blaðsíðu 3306 í rannsóknargögnum málsins. Í þriðja lagi sé gerð krafa um að verjandanum verði afhent bréf sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara frá 4. febrúar 2014 um málefni B, en vísað sé til bréfsins á blaðsíðu 3307 í rannsóknargögnum málsins.

Í bókun verjandans vegna þessarar kröfu kemur fram að ætla megi að A og B verði kvaddir til skýrslutöku við aðalmeðferð málsins. Ríkissaksóknari hafi tekið þá ákvörðun, með stoð í 5. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara, að fenginni rökstuddri tillögu sérstaks saksóknara, að A og B sæti ekki ákæru í málinu. Áður en unnt sé að taka skýrslu af þeim fyrir dómi sé rétt að upplýsa um rökstuðning saksóknara fyrir þessari ákvörðun, en hann kunni að varpa ljósi á hagsmuni A og B af framburði sínum fyrir lögreglu og fyrir dómi. Sé byggt á því að ákærði eigi rétt til umræddra gagna þar sem þau skipti máli fyrir undirbúning varnar hans og kunni að hafa þýðingu við mat á sönnunargildi framburðar. Sé krafan einkum rökstudd með vísan til 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 70. gr. stjórnarskrár. Jafnframt sé vísað til 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Loks sé vísað til 2. mgr. 110. gr. sömu laga sem heimili dómara að beina til ákæranda að afla gagna um tiltekin atriði máls.

Af hálfu ákæruvalds er kröfu verjandans mótmælt. Er vísað til þess að bréf setts ríkissaksóknara innihaldi ákvarðanir um niðurfellingu saksóknar samkvæmt 5. gr. laga nr. 135/2008. Um hafi verið að ræða stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvarðanir í tengslum við ákvörðunina, sem skipt geti máli hafi verið læsilegar, en aðrar ákvarðanir, sem væru því máli sem hér væri til meðferðar óviðkomandi, hafi verið gerðar ólæsilegar. Skipti þær upplýsingar engu máli við sönnunarfærslu í þessu máli. Skipti þær því engu máli fyrir ákærða við að undirbúa málsvörn sína. Þá séu upplýsingarnar háðar þagnarskyldu. Varði þær einkahagi og málefni A gagnvart lögreglu. Þar komi fram upplýsingar um starfshætti lögreglu og ákæruvalds. Hafi afmáing upplýsinga sótt stoð í ákvæði 17. gr. laga nr. 37/1993. Með hliðsjón af þessum ákvæðum þurfi ástæður sem heimili aðgang að gögnum að vega miklu þyngra en fyrirliggjandi einkahagsmunir og almannahagsmunir. Tillögur sérstaks saksóknara um niðurfellingu saksóknara séu ekki sönnunargögn né málsskjöl í skilningi laga nr. 88/2008. Þá séu þær háðar þagnarskyldu, sbr. 4. mgr. 18. gr. sömu laga. Hafi þær verið undanfari ákvörðunar um niðurfellingu saksóknar og varði innri vinnugögn ákæruvaldsins. Hafi þær ekkert með varnir ákærðu að gera en veiti hins vegar upplýsingar um starfsaðferðir ákæruvalds. Við aðalmeðferð málsins eigi verjendur þess kost að spyrja vitni þessi fyrir dóminum, þó svo þau hafi notið réttarverndar samkvæmt 5. gr. laga nr. 135/2008. Loks myndi aðgangur að þessum gögnum raska jafnræði aðila fyrir dóminum, sbr. 165. gr. laga nr. 88/2008.

Niðurstaða:

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 er rannsókn sakamáls í höndum lögreglu, nema örðuvísi sé fyrir mælt í lögum. Er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi, sbr. 53. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laganna leggja aðilar síðan fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem þeir vilja að tekið sé tillit til við úrlausn máls. Frumkvæðisskylda dómara við öflun sönnunargagna er að íslenskum rétti verulega takmörkuð og sú undantekning ein gerð í 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 að dómara er unnt að beina því til ákæranda að afla gagna til að upplýsa mál eða skýra ef það verður talið nauðsynlegt. Styðst þetta við þau grunnrök að það er ákæruvalds að sýna fram á sekt ákærða og verður skynsamlegur vafi í þeim efnum metinn ákærða í hag, sem aftur getur leitt til sýknu í máli, sbr. 108. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Með samsvarandi hætti er ákærða að benda á veikleika í málatilbúnaði ákæruvalds, m.a. að því er framlögð gögn varðar, sem kann að leiða til skynsamlegs vafa í máli.

Sönnunarfærsla í sakamáli fer fram fyrir dómi. Þar gefst verjendum færi á að leggja fyrir vitni spurningar og um leið sýna fram á trúverðugleika þeirra. Þannig gefst verjendum færi á að leggja fyrir vitnin A og B spurningar er lúta að sakarefni þessa máls. Með hliðsjón af því eru ekki næg efni til að dómurinn grípi til þeirrar frumkvæðisskyldu sinnar að leggja fyrir ákæruvald að afla þeirra sönnunargagna í málinu er krafa er gerð um. Verður kröfum ákærða, Y, um það hafnað. 

II

Ákærði, X, hefur krafist þess að dómkvaddir verði tveir hæfir, sérfróðir og óvilhallir matsmenn, með reynslu og menntun á sviði fjármála og/eða endurskoðunar, til þess að láta í té rökstutt álit á fjárhagslegri áhættu [...] vegna lánveitingar í tengslum við viðskipti með hlutabréf í [...] og [...] í nóvember 2007. Í beiðninni er vísað til þess að [...] hafi 16. nóvember 2007 veitt [...], sem síðar varð [...], 19.538. milljóna króna lán í þeim tilgangi að fjármagna kaup á 78% af kaupum [...] á um 4,3% hlut í [...] og um 4,1% hlut í [...]. Hlutabréfin hafi verið keypt af [...] sjálfum. Fjárhæð þeirra viðskipta hafi numið alls 25.038 milljónum króna. Til tryggingar hafi bankanum verði sett að veði hlutabréfin í [...] og allt hlutafé [...]. Samkvæmt ákæruskjali sé ákærða, X, gefið að sök að hafa 16. nóvember 2007, sem [...] misnotað aðstöðu sína með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga og stefna fjármunum bankans í verulega hættu þegar hann hafi látið bankann veita [...] 19.538.481.818 króna lán, án fullnægjandi trygginga og í andstöðu við reglur stjórnar bankans og lánareglur bankans, þar sem lánið hafi ekki rúmast innan viðskiptamarka sem áhættunefnd og ákærði hafi getað ákveðið. Eitt af skilyrðum þess að háttsemi geti talist til umboðssvika samkvæmt 249. gr., sbr. 543. gr. laga nr. 19/1940, sé að háttsemi umboðsmanns hafi skapað umbjóðanda hans að minnsta kosti verulega fjártjónsáhættu. Ákærði geti ekki fallist á að hann hafi valdið [...] verulegri fjártjónsáhættu með lánveitingunni. Hyggist hann m.a. á þeim grundvelli halda uppi vörnum í málinu. Veigamikill þáttur sé að sýna fram á að mat ákæruvaldsins á fjártjónsáhættu [...] sé rangt í grundvallaratriðum. Við matið hafi ákæruvaldinu yfirsést að taka tillit til hlutabréfaviðskiptanna sem lánveitingin hafi verið órjúfanlegur hluti af og stöðu [...] fyrir og eftir viðskiptin. Matinu sé ætlað að vera liður í þeirri röksemdafærslu. Með fjórum tilgreindum matsatriðum í matsbeiðni sé ætlun ákærða að leiða í ljós að dregið hafi úr fjárhagslegri áhættu [...] vegna viðskiptanna. Óhjákvæmilegt sé að komast að þeirri niðurstöðu þegar borin sé saman fjárhagsleg áhætta [...] sem fylgt hafi eignarhaldi á hlutabréfunum í [...] og [...] fyrir viðskiptin og fjárhagslegri áhættu [...] sem fylgt hafi láni til [...], láns til [...] og hlutafjárframlagi til [...] eftir viðskiptin. Skilyrði um verulega fjártjónshættu séu því ekki uppfyllt.

Ákæruvald hefur mótmælt því að umbeðið mat fari fram. Hið umbeðna mat sé tilgangslaust til sönnunar í málinu, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Sé matsmönnum ætlað að leggja mat á atvik, sem ekki hafi orðið og ákæra og sakarefni málsins byggi ekki á. Sé dómara að meta skjalleg sönnunargögn í málinu við meðferð þess fyrir dómi. Eigi það m.a. við mat á sönnun um skilyrði fjártjónshættu og fjártjóns. Þannig leggi dómari sjálfur mat á atriði er krefjist almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008. Komi til aðalmeðferðar málsins munu ákærðu og vitni gefa skýrslu fyrir dóminum. Sé í verkahring dómara að leggja mat á hvort lögfull sönnun verði færð um skilyrði umboðssvika, þ.á.m. um fjártjónshættu. Sé það ekki verk matsmanna að leggja mat á ákæru, röksemdir í málinu og sönnunargögn málsins.

Niðurstaða:

Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008 leggur dómari sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Þá er unnt, samkvæmt 3. mgr. sama ákvæðis, að snúa sér til opinbers starfsmanns, sem skipaður er í eitt skipti fyrir öll, til að fá hann til að meta tiltekin atriði. Verði ekki eftir 2. eða 3. mgr. 127. gr. farið, kveður dómari einn eða tvo matsmenn, ef honum þykir þörf á, til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila.

Af samanburði við 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sést að þrengri skilyrði eru fyrir dómkvaðningu matsmanna eftir lögum nr. 88/2008, heldur en eftir lögum  nr. 91/1991. Þannig skal dómkvaðning ekki fara fram, eftir lögum nr. 88/2008, nema dómari telji þörf á. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 88/2008, kemur fram að hert sé á þeirri reglu að dómari skuli ekki verða við beiðni um dómkvaðningu nema hann telji þörf á og ekki sé unnt að leiða það atriði sem á að sanna á einfaldari hátt. Fyrir utan þann kostnað sem matsgerð fylgi, sé líklegt að mál muni fremur dragast á langinn ef mats sé leitað.

Almennt verður matsgerðar aflað eftir lögum nr. 91/1991, sé krafa um matsgerð höfð uppi, nema matsgerð sé bersýnilega óþörf. Byggir það á reglum laganna um að forræði á sakarefni sé í höndum málsaðilanna sjálfra. Þannig beri matsbeiðandi áhættu af matsgerð sem ekki kemur að notum, auk þess sem hann ber fjárhagslega kostnað af öflun matsgerðar. Þrátt fyrir þennan mun á meðferð matsbeiðna eftir lögum nr. 88/2008 og lögum nr. 91/1991 hefur ákærðum einstaklingum, í dómaframkvæmd, verið játað nokkuð rúmt svigrúm til að afla sér matsgerðar undir rekstri sakamáls. Má um það vísa til dóma Hæstaréttar í málum nr. 295/2011, 648/2012 og 225/2014. Í þessum málum er vísað til þess að játa verði sökuðum einstaklingi svigrúmi til að afla sönnunargagna í sakamáli. Er lítt um það fjallað, í ofangreindum málum, hvort dómari telji þörf á matsgerðinni. Virðist sem dómstólar virði minna sjónarmið um þörf matsgerðar og málshraða, en fram koma í lögskýringargögnum, við ákvörðun um hvort mat skuli fara fram.

Í máli því sem hér er til meðferðar verður ekki á þessu stigi fullyrt að matsgerð sú sem krafa er gerð um sé með öllu tilgangslaus til sönnunar í málinu. Hún getur öðrum þræði varðað sakarefni málsins. Ber matsbeiðandi áhættu af hvort hún nýtist við sönnunarfærslu í málinu, en það skýrist ekki fyrr en við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Með hliðsjón af því verður fallist á beiðni ákærða, X, um dómkvaðningu matsmanna samkvæmt framlagðri matsgerð. Ekki er ástæða til að hrófla við þeim matsatriðum er í dómkvaðningu koma fram.

Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

      Hafnað er kröfu ákærða, Y, um að lagt verði fyrir ákæruvald að afhenda gögn í samræmi við dskj. nr. 8.

Fallist er á kröfu ákærða, X, um dómkvaðningu matsmanna samkvæmt framlagðri matsbeiðni á dskj. nr. 14.