Hæstiréttur íslands

Mál nr. 512/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði


Miðvikudaginn 31. júlí 2013.

Nr. 512/2013.

A

(Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir hdl.)

gegn

Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar

(Ólafur Helgi Árnason hrl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði. 

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. júlí 2013, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Elvu Daggar Ásudóttur Kristinsdóttur héraðsdómslögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 11. júlí 2013.

Með beiðni, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 28. júní 2013, hefur sóknaraðili, fjölskylduþjónusta Hafnarfjarðar, Strandgötu 6, Hafnarfirði, krafist þess að varnaraðili A, kt. [...], [...], [...], verði sviptur sjálfræði í tvö ár frá deginum í dag að telja með vísan til a. og b. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir hdl. var skipaður verjandi varnaraðila samkvæmt 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Verjandi mótmælti framkominni kröfu og krafðist þess að kröfunni yrði hafnað en til vara að sjálfræðissviptingunni yrði markaður skemmri tími og að fenginn yrði óháður geðlæknir til að meta geðhagi varnaraðila. Þá krafist skipaður verjandi verjanda þóknunar úr ríkissjóði.

Í beiðni sóknaraðila segir að varnaraðili glími við geðræn veikindi og eiturlyfjafíkn. Varnaraðili hafi verið í fíkniefnaneyslu frá unga aldri og í kringum 18 ára aldur hafi farið að bera á geðsjúkdómi hjá varnaraðila. Varnaraðili hafi verið greindur af geðlæknum með aðsóknargeðklofa og þurfi að mæta reglulega í lyfjagjöf á spítala til meðferðar vegna sjúkdómsins. Varnaraðili hafi gert samkomulag við B geðlækni um að mæta í eftirfylgd á göngudeild Kleppsspítala reglulega og fá þar sprautur til meðferðar á geðsjúkdómi sínum. Varnaraðili hafi þó ekki mætt í umræddar lyfjagjafir undanfarna þrjá mánuði. Þegar varnaraðili hirði ekki um að mæta í meðferð við geðsjúkdómi sínum veikist hann alla jafna mjög illa. Þegar varnaraðili sé í slíku ástandi sé hann hættulegur bæði sjálfum sér og öðrum. Því sé nauðsynlegt að svipta varnaraðila sjálfræði í tvö ár svo unnt sé að tryggja áframhaldandi lyfjameðferð og stuðla að langtíma bata varnaraðila.

Í málinu liggur fyrir vottorð C [...]læknis á réttar- og öryggisdeild LSH Kleppi dagsett 28. júní 2013. Í vottorðinu segir að varnaraðili hafi um langt skeið verið í fíkniefnaneyslu og glími við aðsóknargeðklofa. Varnaraðili hafi ótal sinnum verið nauðungarvistaður eða langtíma sviptur vegna geðsjúkdóms síns. Varnaraðili geti verið afar erfiður í samvinnu og streitist á móti lyfjagjöf. Síðastliðinn vetur hafi varnaraðili gert samkomulag við B geðlækni um að mæta reglulega á göngudeild Klepps í lyfjagjöf, en hafi ekki mætt til meðferðar í rúma þrjá mánuði. Reynslan sýni þegar varnaraðili mæti ekki reglulega til lyfjagjafar veikist hann mjög illa. Að mati C læknis sé víst að varnaraðili muni að lokum lenda í miklum ógöngum og verða samfélaginu eða sjálfum sér hættulegur verði hann ekki sjálfræðissviptur.

C hefur staðfest vottorð sitt fyrir dóminum. Fram kom í vitnisburði C að hann teldi tilgangslaust að kalla varnaraðila fyrir dóm. Sigurður lýsti því fyrir dóminum að hann hefði greint varnaraðila með aðsóknargeðklofa á árinu 2008. Síðan þá hafi varnaraðili verið til meðferðar hjá að minnsta kosti þremur öðrum geðlæknum, þ.e. D, E og F og að enginn þeirra hafi síðan vefengt umrædda greiningu varnaraðila. Í framburði C kom fram að ætlunin væri að sjá til þess að varnaraðili þiggi viðeigandi lyfjameðferð í framtíðinni verði það ekki gert nema gegn hans vilja. Fái varnaraðili sjálfur að ráða högum sínum muni hann vafalítið hætta að taka lyf, útskrifa sig og veikjast síðan fljótt aftur. Mæti varnaraðili til meðferðar reglulega og haldi sig frá fíkniefnum væru hins vegar góðar forsendur til þess að honum batni, enda svari varnaraðili lyfjagjöf ágætlega þegar hann mæti í sprautur og heldur sig frá fíkniefnum. Aðspurður taldi læknirinn að tveggja ára sjálfræðissvipting væri nauðsynleg.

B geðlæknir gaf skýrslu fyrir dóminum og lýsti því að hann hefði greint varnaraðila með geðklofa árið 2008 en varnaraðili glími auk þess við fíkniefnavanda. Varnaraðili hætti iðulega að mæta í lyfjameðferð og því hafi læknum reynst erfitt að fá hann til að koma og taka nauðsynleg lyf. Þegar varnaraðili neiti lyfjagjöf verði hann mjög veikur og þá sé hann hættulegur bæði sjálfum sér og öðrum. B telur ljóst að varnaraðili þurfi að minnsta kosti tveggja ára sjálfræðissviptingu svo hann megi hljóta viðeigandi meðferð og bata. Varnaraðili hafi sýnt ákveðin batamerki við tilheyrandi meðferð. Með hliðsjón af því hve alvarleg veikindi varnaraðila séu taldi B önnur úrræði en sjálfræðissviptingu til tveggja ára ekki koma til greina.

Varnaraðili átti þess ekki kost að vera viðstaddur þinghaldið í dag vegna veikinda sinna. Í því skyni að kynna sér ástand varnaraðila af eigin raun heimsótti dómari varnaraðila í gær, 10. júlí 2013, á deild [...] á Kleppsspítala. 

Í ljósi þess sem að framan er rakið og fyrirliggjandi gagna telur dómari að sýnt hafi verið fram á að varnaraðili sé haldinn geðsjúkdómi sem leiði til þess að hann sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum sjálfur í skilningi a. og b. liða 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Verður varnaraðili því sviptur sjálfræði til tveggja ára frá deginum í dag að telja eins og sóknaraðili hefur krafist til þess að tryggja megi öryggi hans og hann njóti viðeigandi meðferðar við sjúkdómi sínum. Þykir sýnt fram á að engin efni séu til að marka sjálfræðissviptingu hans skemmri tíma en krafist er.

Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila sem þykir hæfilega ákveðin með þeirri fjárhæð sem tilgreind er í úrskurðarorði og er virðisaukaskattur þar með talinn.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í tvö ár frá deginum í dag að telja.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Elvu Daggar Ásudóttur Kristinsdóttur hdl., 185.113 krónur, greiðist úr ríkissjóði.