Hæstiréttur íslands

Mál nr. 21/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Framsal kröfu
  • Greiðsla


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. febrúar 2001.

Nr. 21/2001.

Kristín Einarsdóttir

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Erlingi Davíðssyni

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

                                                   

Kærumál. Aðför. Framsal kröfu. Greiðsla.

K kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem staðfest hafði verið aðfarargerð, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði í eign K. Var aðfarargerðin reist á áskorunarstefnu, sem árituð hafði verið um aðfararhæfi og E fengið framselda til sín. Fyrir Hæstarétti lagði K fram skjöl sem báru með sér að sú krafa, sem áskorunarstefnan tók til, hefði verið greidd áður en hin áritaða stefna var framseld. Var því ekki talið að E hefði sýnt fram á að sú krafa, sem hann beiddist aðfarar samkvæmt, væri til og að hann væri rétthafi hennar. Var aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík því felld úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. janúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2000, þar sem staðfest var aðfarargerð sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði í eign sóknaraðila 3. júlí 2000.  Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að umrædd aðfarargerð verði úr gildi felld. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

I.

Aðfararheimild sú er mál þetta varðar er áskorunarstefna, sem árituð var um aðfararhæfi hinn 7. febrúar 1990. Málið var höfðað af Landsbanka Íslands og eru auðkenni skuldabréfs þess, er áskorunarmálið varðaði, rituð framan á stefnuna með eftirfarandi hætti: ,,Skbr. nr. 32193 frá aðalbanka. LH-22-890708/JJ/þs“. Á áskorunarstefnuna er ritað 28. október 1991 af Landsbanka Íslands eftirfarandi:  ,,Það staðfestist hér með að framangreind fjárkrafa hefur verið greidd með kr. 1.092.278.95 sem innleyst hefur verið af Innheimtu- og ráðgjöf, Jóhanni Gíslasyni, hrl., og framselst hér með allur réttur skv. áskorunarstefnu þessari til nefnds hæstaréttarlögmanns Jóhanns Gíslasonar.“ Áskorunarstefnan var enn árituð um framsal 22. júlí 1994 og ritaði framseljandinn Jóhann Gíslason undir framsalið, en það er til varnaraðila máls þessa.

Af hálfu sóknaraðila hefur því meðal annars verið haldið fram að krafa sú, sem um ræðir, hafi verið greidd. Hún hefur lagt fyrir Hæstarétt ljósrit skuldabréfs, sem út er gefið 14. janúar 1991 af Tómasi A. Tómassyni til Ásdísar Erlingsdóttur að fjárhæð 1.200.000 krónur, ásamt kaupnótu og fylgiblaði.  Á þessum skjölum kemur fram að Landsbanki Íslands hefur keypt skuldabréfið, sem síðast greinir, af kröfuhafanum Ásdísi Erlingsdóttur og eru svofelldar skýringar ritaðar á fylgiblaðið: ,,Andvirði bréfsins komi til greiðslu á skuldabréfi nr. 101-74-32193, LH-22-890708, kr. 968.348,41. Kostnaður lögfr.d. er kr. 124.403,00 og óskast hann sendur til Bjarkar í lögfr.d.“  Samtala síðast greindra fjárhæða er 1.092.751. Á kaupnótu skuldabréfsins kemur fram að kaupandinn sé Landsbanki Íslands, aðalbanki, 0101, og að andvirði skuldabréfsins, að viðbættum áföllnum vöxtum og verðbótum, en að frádregnu lántökugjaldi, afföllum og stimpilgjaldi með sekt, sé 1.101.452.10 krónur.  Kaupnótan er frá 7. mars 1991. Af þessum skjölum verður ekki annað ráðið en að Landsbanki Íslands hafi þann dag fengið greidda kröfu þá, sem hin áritaða áskorunarstefna tók til, enda þótt í fylgiblaðinu sé vitnað til skuldabréfsins að baki áskorunarstefnunnar en ekki dómkröfunnar sjálfrar. Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt lítillega skeiki um fjárhæðir kaupverðs skuldabréfsins og þeirrar fjárhæðar, sem tilgreind er í yfirlýsingu Landsbanka Íslands um greiðslu og framsal á áskorunarstefnunni, sem áður er rakin. Greiðandi skuldarinnar samkvæmt framansögðu var Ásdís Erlingsdóttir.

II.

Framsal kröfuréttinda eins og þeirra, sem hin áritaða áskorunarstefna tók til, felur í sér áhættu fyrir framsalshafa. Hann getur ekki öðlast betri rétt en framseljandinn átti. Gögn þau, sem rakin hafa verið, bera með sér að krafan, sem áskorunarstefnan varðaði, var greidd af Ásdísi Erlingsdóttur 7. mars 1991. Kröfu Landsbanka Íslands á hendur skuldurum lauk með greiðslu hennar síðast greindan dag. Engin gögn eru um framsal kröfunnar til greiðanda. Ekkert liggur fyrir um ástæður þess að bankinn framseldi Innheimtu og ráðgjöf, Jóhanni Gíslasyni, kröfuna meira en átta mánuðum síðar.

Sá er krefst aðfarar verður að sýna fram á að krafan sé til og að hann sé rétthafi hennar, sbr. 2. gr. laga nr. 90/1989. Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki talið að þessum skilyrðum sé fullnægt í málinu. Verður því hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og ógilt aðfarargerð sú er málið varðar.

Varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðfarargerð sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði í eign sóknaraðila, Kristínar Einarsdóttur, 3. júlí 2000, er felld úr gildi.

Varnaraðili, Erlingur Davíðsson, greiði sóknaraðila 125.000 krónur í málskostnað í héraði og í kærumálskostnað. 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2000.

Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 28. ágúst sl.

Sóknaraðili er Kristín Einarsdóttir, kt. 310552-3139, Laugarnesvegi 60, Reykjavík.

Varnaraðili er Erlingur Davíðsson, kt. 281159-2089, Mávanesi 2, Garðabæ.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að ógilt verði aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-1999-13794, sem fram fór hjá sóknaraðila þann 3. júlí sl. að kröfu varnaraðila. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Dómkröfur varnaraðila eru þær að fjárnámið verði staðfest og öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 8. nóvember sl.  Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, áður en úrskurður var kveðinn upp.

 

I

Málsatvik

Málavextir eru þeir að hinn 3. júlí sl. var gert fjárnám að kröfu varnaraðila í eignarhluta sóknaraðila í Laugarnesvegi 60 í Reykjavík. Aðfararheimildin var áskorunarstefna árituð um aðfararhæfi 7. febrúar 1990.  Samkvæmt áskorunarstefnunni var Landsbanki Íslands stefnandi og sóknaraðili ein af fjórum stefndu in solidum.  Áritunin var á alla fjóra stefndu. Þann 28. október 1991 var dómkrafan framseld Innheimtu og ráðgjöf, Jóhanni Gíslasyni hrl. Jóhann Gíslason hrl. framseldi svo stefnukröfurnar varnaraðila þessa máls þann 22. júlí 1994. Með aðfararbeiðni dags. 13. desember 1999 var beðið um fjárnám hjá sóknaraðila.  Sú beiðni var tekin fyrir 13. janúar 2000 hjá sýslumanninum í Reykjavík.  Framkvæmd fjárnámsins var frestað, og við fyrirtöku gerðarinnar 21. júní sl. voru lögð fram mótmæli vegna kröfu gerðarbeiðanda.  Þau mótmæli voru ítrekuð við fyrirtöku málsins 30. júní sl. og við framkvæmd gerðarinnar 3. júlí sl. 

Með kröfu dags. 1. ágúst sl., en móttekinni 15. ágúst sl., var krafist úrlausnar héraðsdóms um gerðina.

 

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Mótmæli sóknaraðila byggjast aðallega á því að sóknaraðili telur að fullnaðaruppgjör hafi farið fram á skuld þessari fyrir löngu.  Forsaga málsins sé sú að sóknaraðili hafi átt í greiðsluerfiðleikum á sínum tíma m.a. vegna ábyrgða. Jón Egilsson hdl. hafi haft með höndum innheimtur á ýmsum kröfum sem hafi tengst Úlfari Nathanaelssyni (meðskuldara skv. hinni árituðu stefnu) og hafi þær að forminu til ekki verið á sömu hendi en þeir sem honum tengdust hafi komið fram í einu lagi gagnvart sóknaraðila. Fullnaðaruppgjör þetta hafi farið fram.

Verði ekki fallist á aðalmálsástæðuna er á því byggt til vara að krafan samkvæmt áskorunarstefnunni hafi verið greidd af þriðja aðila samkvæmt því sem  ritað hafi verið á áskorunarstefnuna. Þessi þriðji aðili hafi verið fyrirtækið Innheimtur og ráðgjöf, og hafi þeim verið málið alls óskylt. Ekki komi neitt fram í gögnum málsins sem skýri hvers vegna þriðji aðili hafi kosið að greiða kröfuna. Meginreglan sé að hver og einn verði að gæta hagsmuna sinna sjálfur og að mönnum beri sjaldnast að skipta sér óbeðið af eignum eða skuldum annarra. Heimild til óbeðins erindisreksturs sé undantekning frá meginreglunni og varast beri að viðurkenna of víðtæka heimild manna til að ráðskast óumbeðið með málefni annarra. Þau skilyrði sem tvímælalaust verði að vera fyrir hendi til þess að unnt sé að réttlæta óbeðinn erindisrekstur séu ekki fyrir hendi í þessu máli.  Þar af leiði að gerðarbeiðandi, sem byggi rétt sinn á framsali þriðja aðila er greitt hafi skuldina á sínum tíma, eigi enga kröfu á sóknaraðila af þeirri einföldu ástæðu að þriðji aðili hafi aldrei eignast  sjálfkrafa neinn endurkröfurétt á sóknaraðila þegar skuldin samkvæmt áskorunarstefnunni hafi verið greidd á sínum tíma. Aftur á móti hefði þriðji aðili, fyrirtækið Innheimtur og ráðgjöf, getað stefnt málinu og fengið skorið úr því fyrir dómi hvort hann ættu endurkröfurétt á hendur sóknaraðila.

Mótmæli sóknaraðila byggjast til þrautavara á því að ekki sé um gilda aðfararheimild að ræða og því hafi skilyrðum aðfarar ekki verið fullnægt sbr. 1. gr. laga nr. 31/1990. Rök sóknaraðila eru eftirfarandi:

Krafan hafi verið greidd áður en hún var framseld samkvæmt því sem ritað hafi verið á áskorunarstefnuna af hálfu Landsbankans. Orðalagið: "...hefur verið greidd með kr. ..." vísi til þess að krafan hafi verið greidd. Samkvæmt meginreglum kröfuréttar sé hlutverki kröfunnar lokið við greiðslu hennar. Markmið kröfuréttinda sé að greiðsla sú sem sé efni kröfunnar fari fram. Þegar sú greiðsla hafi farið fram sé hlutverki kröfunnar lokið og henni sjálfri sé lokið um leið. Þar af leiði að ekki sé hægt að fara í aðför á grundvelli dómskuldar sem hafi verið greidd og sé því niður fallin.

Samkvæmt því sem ritað hafi verið á áskorunarstefnuna hafi verið framseldur allur réttur samkvæmt henni til Jóhanns Gíslasonar hrl. eftir að hún hafði verið greidd. Ein af grundvallarreglum kröfuréttarins sé sú að framsal kröfu leiði að jafnaði aðeins til aðilaskipta að framseljandi eigi þann rétt til kröfunnar að hann geti framselt hana. Þar af leiði að Landsbankinn hafi ekki getað framselt réttindi sem ekki hafi verið fyrir hendi. Slíkur gerningur sé markleysa.

Mótmæli sóknaraðila byggjast á því til þrautaþrautavara að komist dómurinn  að þeirri niðurstöðu að krafan hafi ekki verið greidd þrátt fyrir það er ritað hafi verið á áskorunarstefnuna og að um gilda aðfararheimild sé að ræða sbr. 1. gr. laga nr. 31/1990 þá hafi gerðarbeiðandi ekki sýnt fram á að skilyrði 2. gr. laga nr. 31/I990 séu uppfyllt. Aðfararheimildin beri ekki með sér að sá sem krafist hafi gerðarinnar sé í reynd rétthafi. Þannig hafi ekki verið sýnt fram á óslitna framsalsröð. Aðfararheimildin sjálf staðfesti ekki að um óslitið framsal hafi verið að ræða.

Samkvæmt meginreglum um aðilaskipti að kröfuréttindum leiði framsal að jafnaði því aðeins til aðilaskipta að framseljandi eigi þann rétt til kröfunnar að hann geti framselt hana. Greiðandi samkvæmt því sem ritað sé á áskorunarstefnuna hafi verið fyrirtækið Innheimtur og ráðgjöf ehf. Það hafi verið Jóhann Gíslason lögmaður sem framselt hafi  kröfuna til gerðarbeiðanda. Hann virðist hafa komið fram sem lögmaður fyrirtækisins Innheimtur og ráðgjöf er krafan var greidd en ekki verið greiðandi kröfunnar persónulega. Þar af leiði að hann hafi ekki getað framselt kröfu sem hann átti ekki og framsal til gerðarbeiðanda því marklaust.

 

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili hafnar öllum málsástæðum sóknaraðila og byggir mál sitt á því að krafan hafi verið framseld gegn greiðslu, en ekki greidd upp.  Þeir einu sem hefðu getað greitt upp kröfuna væru skuldararnir sjálfir, sem stefnt var í upphafi.  Unnt sé að framselja dómkröfur eins og önnur verðmæti svo sem víxla og skuldabréf og sömuleiðis sé hægt að gera fjárnám í slíkum kröfum.

Varnaraðili vísar til reglna um skuldbindingargildi dóma og til  aðfararlaga nr. 90/1989 að svo miklu leyti sem málið geti snúið að aðförinni sjálfri. Krafan um málskostnað er studd við 129. gr. og 130. gr. laga 91/1991.

 

 

IV

Niðurstaða

Mál þetta sætir úrlausn héraðsdómara samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga um aðför nr. 90/1989.

Upphaflegur kröfueigandi samkvæmt greindri áskorunarstefnu er Landsbanki Íslands.  Svofelld framsalsáritun, dags. 28. okt. 1991, er á stefnunni:

“Það staðfestist hér með að framangreind fjárkrafa hefur verið greidd með kr. 1.092.278.95, sem innleyst hefur verið af Innheimtu-og ráðgjöf, Jóhanni Gíslasyni hrl. og framselst hér með allur réttur skv. áskorunarstefnu þessari til nefnds hæstaréttarlögmanns Jóhanns Gíslasonar.”

Þá er áritun á stefnunni um framsal kröfunnar af Jóhanni Gíslasyni lögmanni til varnaraðila dags. 22. júlí 1994.

Sóknaraðili hefur engum stoðum rennt undir fullyrðingar sínar um það að fullnaðaruppgjör hafi farið fram af hans hálfu vegna þeirrar skuldar sem hér um ræðir. Er það ósannað gegn andmælum varnaraðila.   

Ekkert réttarsamband er á milli skuldara kröfunnar og þess aðila, sem greiddi kröfuna og fékk hana í framhaldi af því framselda sér frá kröfuhafa, Landsbanka Íslands. Af því leiðir að með þeirri greiðslu hafa ekki fallið niður kröfuréttindin á hendur skuldurunum samkvæmt áskorunarstefnunni.  Jóhann Gíslason öðlaðist þannig rétt til kröfunnar á grundvelli framsals.

Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989 er heimilt að gera aðför til fullnustu kröfum samkvæmt áskorunarstefnum, sem gerðar hafa verið aðfararhæfar með áritun dómara hér á landi. Áskorunarstefna sú sem hér um ræðir var árituð um aðfararhæfi 7. febrúar 1990.  Samkvæmt 2. gr. laga um aðför getur sá krafist aðfarargerðar, sem aðfararheimild ber með sér að sé rétthafi hennar. Framsalshafinn samkvæmt framansögðu, Jóhann Gíslason, framseldi varnaraðila máls þessa kröfuna, sem þannig er rétthafi kröfunnar fyrir framsal samkvæmt óslitinni framsalsröð. Varnaraðila var því heimilt að krefjast aðfarar hjá sóknaraðila á grundvelli bréfsins samkvæmt 2. gr. aðfararlaga.

Ber því að hafna kröfum sóknaraðila í málinu en taka til greina kröfu varnaraðila um það að staðfest verði aðfarargerð nr. 011-1999-13794 sem fram fór hjá sýslumanninum í Reykjavík 3. júlí 2000.  Sóknaraðili skal greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst 45.000 kr.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Aðfarargerð nr. 011-1999-13794, sem fram fór hjá sýslumanninum í Reykjavík 3. júlí 2000, er staðfest.

         Sóknaraðili, Kristín Einarsdóttir, greiði varnaraðila, Erlingi Davíðssyni, 45.000 kr. í málskostnað.