Hæstiréttur íslands
Mál nr. 795/2013
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 2. október 2014. |
|
Nr. 795/2013. |
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Sigurði
Þorberg Ingólfssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Líkamsárás.
Skilorðsrof.
X var
sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940
fyrir að hafa slegið A hnefahögg í andlit svo að hann féll í jörðina, með þeim
afleiðingum að það brotnaði upp úr tönn hans. Með broti X rauf hann skilorð
samkvæmt dómi sem hann hlaut 2. mars 2010 og samkvæmt 60. gr. almennra
hegningarlaga var skilorðsdómurinn því tekinn upp og X dæmd refsing í einu lagi
fyrir bæði málin eftir reglum 77. gr. sömu laga. Var refsing X ákveðin 4 mánaða
fangelsi en með hliðsjón af sakaferli ákærða þóttu ekki efni til að
skilorðsbinda refsinguna.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómarinn Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. desember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Sigurður Þorberg Ingólfsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 297.273 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2013.
I
Mál þetta, sem dómtekið
var 18. nóvember síðastliðinn, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á
höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 13. ágúst síðastliðinn, á hendur Sigurði Þorberg
Ingólfssyni, kt. [...],[...],[...], „fyrir
líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 18. ágúst 2012, framan við
skemmtistaðinn English pub
við Austurstræti 12 í Reykjavík, slegið A, kt. [...] hnefahöggi
í andlit svo að hann datt í jörðina, allt með þeim afleiðingum að það brotnaði
upp úr tönn og hann hlaut sár og mar á kjálka, djúpt mar á rasskinn og tognun á
ökkla.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr.
20/1981.
Þess er krafist að ákærði
verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Þá gerir Arna Pálsdóttir,
lögfræðingur, fh. A, kt. [...],
kröfu um að ákærði verði dæmdur til þess að greiða skaðabætur, að fjárhæð kr.
500.000 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá
18. ágúst til birtingardags ákæru, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1.
mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá er krafist lögmannsþóknunar
að teknu tilliti til virðisaukaskatts, skv. málskostnaðarreikningi sem lagður
verður fram við aðalmeðferð málsins, komi til þess, eða skv. mati dómsins.“
Ákærði neitar sök og
krefst sýknu en til vara vægustu refsingar. Hann krefst þess aðallega að
bótakröfunni verði vísað frá dómi en til vara að bætur verði lækkaðar. Loks
krefst hann þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði svo og
málsvarnarlaun verjanda síns.
II
Málavextir eru þeir að
lögreglan var kvödd að nefndum skemmtistað á þeim tíma sem í ákæru greinir. Á
staðnum skýrðu dyraverðir svo frá að tveir menn hefðu ráðist á brotaþola, sem
er dyravörður á skemmtistaðnum, slegið hann og brotið í honum tönn.
Lögreglumenn fundu þessa menn skömmu síðar þar sem þeir lágu mjög ölvaðir á
Austurvelli. Þeir neituð sök en vegna ölvunar var erfitt að ræða við þá og voru
þeir því fluttir á lögreglustöð. Annar þessara manna var ákærði og þar sem
vitni höfðu bent á hann sem árásarmanninn var hann vistaður í fangaklefa en
félaga hans var sleppt.
Brotaþoli fór á
slysadeild þessa sömu nótt og kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás. Hann var
skoðaður af hjúkrunarfræðingi og segir í áverkavottorði að svo virðist sem
brotnað hafi upp úr tönn við höggið. Vegna þess hversu löng bið var eftir lækni
fór brotaþoli af slysadeildinni, en kom aftur 20. ágúst og kvaðst þá hafa verið
kýldur vinstra megin í andlitið og dottið við það. Við fallið hefði hann lent
með fót undir sér og eftir það fundið fyrir óþægindum í vinstri ökkla, vinstri
rasskinn og kjálka vinstra megin. Brotaþoli leitaði til tannlæknis 12.
september og segir í vottorði hans að tönn nr. 37 sé brotin.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu
neitaði ákærði alfarið sök.
III
Ákærði neitaði sök við
aðalmeðferð. Hann kvaðst hafa reynt að komast inn á skemmtistaðinn með félaga
sínum en dyravörður hefði ekki viljað hleypa þeim inn og hefðu þeir þá farið á
næsta skemmtistað. Eins hefði sonur sinn verið með í för og tveir vinir hans.
Ákærði kvaðst hafa verið mjög ölvaður þessa nótt en engu að síður myndi hann
eftir öllu. Hann kvaðst hafa verið handtekinn þar sem hann hefði setið á
Austurvelli með félaga sínum og verið að æla. Hann kvað einhvern mann hafa bent
á sig eins og hann orðaði það. Ákærði ítrekaði að hann hefði ekki kýlt
neinn.
Brotaþoli kvað tvo mjög
ölvaða menn hafa verið fyrir utan skemmtistaðinn og dyraverðir hefðu ekki
viljað hleypa þeim inn. Einhver orðaskipti kvað brotaþoli hafa átt sér stað
milli sín og ákærða en síðan hefði hann ýtt í hinn dyravörðinn og kýlt sig á
vinstri kjálka og við það hefði brotnað upp úr tönn. Brotaþoli kvaðst hafa
dottið aftur fyrir sig og þegar hann var að standa á fætur aftur voru ákærði og
félagi hans að ganga á brott. Einn dyravörður hefði fylgt þeim eftir og síðan
hefði lögreglan komið og handtekið ákærða og kvaðst brotaþoli þess fullviss að
ákærði væri sá sem hefði kýlt sig, enda hefði hann séð ákærða í vörslu lögreglu
eftir handtökuna og þekkt hann sem manninn sem hefði kýlt sig. Ákærði yfirgaf
dómsalinn eftir að hafa gefið skýrslu og kvaðst brotaþoli hafa séð hann og vera
nokkuð viss um að það væri maðurinn sem hefði kýlt sig. Við fallið kvaðst
brotaþoli hafa vankast og auk þess misstigið sig.
Dyravörður á
skemmtistaðnum kvaðst hafa verið við vinnu með brotaþola þessa nótt og hefði
hann staðið við hlið hans er tveir menn komu að. Þeir hefðu meinað öðrum þeirra
aðgang vegna ölvunar. Hann hefði brugðist illa við og ýtt sér út í vegg og kýlt
brotaþola sem féll við og vankaðist. Eftir það hefðu mennirnir gengið í burtu
og kvaðst hann ekki hafa séð meira til þeirra. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða í
dómhúsinu og sett hann í samband við árásina. Hefði hann séð þennan mann á götu
hefði hann ekki þekkt hann aftur sem árásarmanninn.
Félagi ákærða kvað þá
hafa komið að skemmtistaðnum eftir að hafa verið að skemmta sér víða. Hann
kvaðst hafa verið verulega ölvaður og lítið muna. Einnig hefði ákærði verið
ölvaður. Þeir hefðu verið á skemmtistað við Laugaveg en þaðan hefði sonur
ákærða ekið þeim að skemmtistaðnum sem nefndur er í ákæru. Einnig hefðu tveir
vinir sonarins verið með. Ákærða og sér hefði verið meinað að fara inn á
staðinn og hefðu þeir því farið á annan stað. Þaðan hefðu þeir farið út á
Austurvöll og þar hefði ákærði ælt enda verið orðinn veikur af áfengisdrykkju.
Þar hefðu þeir verið handteknir. Félaginn kvaðst ekki hafa séð ákærða kýla
dyravörð en hann hefði verið að ræða við dyraverði. Félaginn kvaðst hins vegar
ekki hafa nennt að ræða við þá.
Sonur ákærða kvaðst hafa
ekið ákærða og félaga hans í bæinn. Hann kvaðst hafa staðið fyrir framan
skemmtistaðinn ásamt ákærða og félaganum, en dyraverðir hefðu ekki viljað
hleypa þeim inn. Dyravörður hefði ýtt í ákærða og kvaðst hann þá hafa dregið
hann og félagann inn á annan skemmtistað ásamt tveimur félögum sínum. Skömmu
síðar kvaðst hann hafa farið út og þá séð lögreglu vera að handtaka ákærða og
félaga hans á Austurvelli. Sonurinn kvaðst ekki hafa séð ákærða slá dyravörð.
Félagi sonarins bar að
hafa verið á rúntinum með félögum sínum og hefðu þeir ekið ákærða og félaga
hans niður í bæ. Þeir hefðu farið allir að skemmtistaðnum, sem nefndur er í
ákæru. Þeir hefðu ekki fengið að fara inn og því farið á annan stað. Hann kvað
dyravörð hafa ýtt í ákærða og eftir það hefðu þeir farið. Hann kvaðst ekki hafa
séð ákærða slá dyravörð og ekki séð dyravörð detta.
Annar félagi sonarins bar
að þeir félagarnir hefðu ekið ákærða og félaga hans niður í bæ og síðan hefðu þeir allir farið
saman að skemmtistaðnum sem í ákæru getur. Þar hefði dyravörður sagt að ákærði
og félaginn væru of ölvaðir og svo hefði dyravörðurinn hrint ákærða sem ekki
hefði svarað fyrir sig. Þá hefðu þeir farið á annan skemmtistað. Þar hefðu þeir
misst af ákærða og félaganum en síðan séð að lögreglan var að handtaka þá.
Félaginn kvaðst ekki hafa séð ákærða slá dyravörð.
Lögreglumaður bar að
tilkynnt hefði verið að ráðist hefði verið á dyravörð. Hann kvað lögreglumenn
hafa komið að tveimur mönnum þar sem þeir sátu á Austurvelli og hefðu
dyraverðir á skemmtistaðnum bent á annan manninn og sagt að hann hefði slegið
dyravörðinn en hinn hefði bara verið með honum. Mennirnir hefðu verið fluttir á
lögreglustöð og þar hefði sá, sem sagt var að hefði slegið, verið vistaður en
hinum hefði verið sleppt.
Annar lögreglumaður bar
að hafa komið að skemmtistaðnum og hitt brotaþola sem kvað tvo ölvaða mann hafa
verið með uppsteyt. Nokkru síðar hefði lögreglumönnum verið bent á mennina þar
sem þeir hafi legið í grasinu á Austurvelli mjög ölvaðir. Lögreglumaðurinn
sagði ákærða hafa verið vistaðan í fangaklefa, enda hefðu dyraverðir borið að
hann hefði slegið dyravörðinn.
Þriðji lögreglumaðurinn
bar að hafa verið kallaður ásamt fleiri lögreglumönnum að skemmtistaðnum. Þar
hefðu tveir menn setið á grasinu á Austurvelli en þeir hefðu verið grunaðir um
líkamsárás á dyravörð. Mennirnir hefðu verið handteknir. Á staðnum hefði
lögreglumönnum verið sagt að mönnunum hefði verið neitað um inngöngu á
skemmtistaðinn og þá hefði annar þeirra kýlt brotaþola með þeim afleiðingum að
tönn í honum brotnaði. Hann kvaðst hafa flutt annan manninn á lögreglustöð og
hefði það verið sá sem sagt hafði verið á vettvangi að hefði kýlt brotaþola.
Læknir á slysadeild, sem
ritar framangreint vottorð, staðfesti það. Hann kvaðst ekki hafa skoðað
brotaþola en vitað af komu hans. Læknir undir sinni stjórn hefði skoðað hann.
Læknirinn kvað áverka brotaþola geta samrýmst því að hann hefði fengið högg á
kjálka og eins gæti áverki á fæti samrýmst því að hann hefði fallið.
Tannlæknir, sem brotaþoli
leitaði til, staðfesti vottorð sitt. Hann kvað brotaþola hafa leitað til sín og
hefði hann verið með brotinn jaxl vinstra megin að neðan. Brotið gæti samrýmst
því að brotaþoli hefði fengið högg.
IV
Eins
og rakið hefur verið neitar ákærði sök og hefur gert frá upphafi. Hann hefur
kannast við að hafa verið fyrir utan skemmtistaðinn umrædda nótt og þá átt
samskipti við dyraverði sem vildu ekki hleypa honum og félaga hans inn.
Félaginn, sonur ákærða og tveir félagar hans hafa allir borið á sama hátt að
ákærða hafi verið meinuð innganga vegna ölvunar, en enginn þeirra kvaðst hafa
séð ákærða kýla brotaþola. Framburður ákærða og þessara vitna er nokkuð
samhljóða um að eftir að ákærða og félaga hans hafði verið meinuð innganga á
skemmtistaðinn hafi þeir farið á annan skemmtistað og þaðan hafi ákærði og
félaginn farið út á Austurvöll þar sem lögreglan handtók þá.
Hér
að framan var rakinn framburður brotaþola og þriggja lögreglumanna sem allir
bera á einn veg. Brotaþoli ber að ákærði hafi kýlt sig og lögreglumennirnir að
þeim hafi á vettvangi verið bent á ákærða sem árásarmanninn. Dyravörður, sem
var með ákærða þegar hann var sleginn, kvaðst ekki hafa séð hvaða maður var
handtekinn. Hann sá ákærða í dómhúsinu og setti hann í samband við málið eins
og rakið var, en kvaðst ekki hafa þekkt hann aftur nema við þessar aðstæður.
Við
mat á framburði félaga ákærða, sonar hans og félaga hans verður að hafa í huga
tengsl þeirra svo og það að félaginn kvaðst hafa verið verulega ölvaður. Með
framburði brotaþola og samhljóða framburði lögreglumannanna, sem bera allir að
á vettvangi hafi þeim verið bent á ákærða sem árásarmanninn, telur dómurinn
sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um
líkamsárás á brotaþola eins og honum er gefið að sök í ákæruskjalinu og með
þeim afleiðingum sem þar greinir. Brot hans er rétt fært til refsiákvæðis.
Ákærði
var dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi 1996 fyrir brot gegn 1. mgr. 217.
gr. almennra hegningarlaga og 2. mars 2010 var hann dæmdur í 60 daga fangelsi,
skilorðsbundið í 3 ár, fyrir sams konar brot. Ákærði hefur nú rofið skilorðið
og verður dómurinn tekinn upp og dæmdur með þessu máli, sbr. 60. gr. almennra
hegningarlaga. Þá verður refsing ákveðin eftir reglum 77. gr. sömu laga og er
hún hæfileg 4 mánaða fangelsi sem ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda með
hliðsjón af sakaferli ákærða.
Lögmaður
brotaþola sendi lögreglu bótakröfu 4. september 2012 en hefur ekki lagt fram
greinargerð með kröfunni eins og áskilið er í 2. mgr. 173. gr. laga nr.
88/2008. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að vísa kröfunni frá dómi.
Ákærði
verður dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns með
virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Arngrímur
Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði,
Sigurður Þorberg Ingólfsson, sæti fangelsi í 4 mánuði.
Bótakröfu
A er vísað frá dómi.
Ákærði
greiði 28.800 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,
Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 251.000 krónur.