Hæstiréttur íslands

Mál nr. 504/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Þriðjudaginn 22. júlí 2014.

Nr. 504/2014.

Sýslumaðurinn á Akranesi

(Halla Bergþóra Björnsdóttir settur sýslumaður)

gegn

X

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 17. júlí 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 24. júlí 2014, klukkan 14, og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sér verði ekki gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði er meðal gagna málsins upptaka úr öryggismyndavélum við [...] aðfaranótt 17. júlí 2014 þar sem sést að varnaraðili og Y veittust að A án þess að greint verði að sá síðarnefndi hafi átt upptök að þeim átökum. Þar sem ekki er samræmi milli þess sem ráðið verður af upptökunni og framburðar varnaraðila og Y hjá lögreglu er fallist á með sóknaraðila að varnaraðili kunni að torvelda rannsókn málsins, verði hann látinn laus úr einangrun meðan rannsóknin er á frumstigi. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna úrskurðarins verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 17. júlí 2014.

Lögreglustjórinn á Akranesi hefur krafist þess að Héraðsdómur Vesturlands úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 24. júlí 2014, kl. 14:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á Akranesi hafi til rannsóknar líkamsárás sem átti sér stað við höfnina í [...] um kl. 2:30 aðfararnótt 17. júlí 2014.

Fjarskiptamiðstöð lögreglu hafi fengið tilkynningu um að maður hafi orðið fyrir líkamsárás við höfnina í [...] og væri meðvitundarlaus. Tilkynnandi kvað geranda hafa farið um borð í skipið [...], er lægi við höfnina í [...]. Er lögreglan hafi kom á vettvang hafi sjúkraflutningamenn og læknir verið að hlú að árásarþola. Árásarþoli, A kt. [...], hefi verið meðvitundarlaus og hafi verið stór blóðpollur á jörðinni þar sem höfuð hans hafi legið. Árásarþoli hafi skömmu síðar verið fluttur á brott með sjúkrabifreið og þvínæst með þyrlu á bráðamóttöku Landsspítalans.

                Á vettvangi hafi lögregla haft tal af vitninu B, er kvaðst hafa orðið vitni af atburðinn. Hann kvaðst hafa séð A, hinn slasaða kítast eitthvað við tvo aðila á hafnarsvæðinu. Vitnið kvað þá hafa slegið til hvors annars, en aðilarnir tveir hafi slegist saman á móti árásarþola. Þá sagði vitnið að árásarþoli hafi verið sleginn í höfðið með krepptum hnefa af öðrum aðilanum með þeim afleiðingum að árásarþoli hafi fallið í jörðina. Árásarþoli hafi fallið með höfðið í malbikið á hafnarsvæðinu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hvor aðilanna hafi slegið árásarþola fyrst. Vitnið kveður árásarþola hafa fallið í götuna og sennilega rotast og þvínæst hafi annar aðilinn stigið yfir árásarþola, staðið klofvega yfir honum og slegið með krepptum hnefa einu sinni eða tvisvar í höfðið. Við það hafi höfuð árásarþola skollið niður í malbikið. Vitnið kveðst hafa komið að og hafi aðilarnir eitthvað farið að rífa sig en fljótlega hafi einhver aðili komið frá bátnum [...] og hefðu árásaraðilarnir farið um borð í bátinn.  

                Er lögreglan kom á vettvang hafi vitnið, B lýst árásaraðilum og hafi lögregla fundið þá um borð í [...]. En það munu hafa verið Y, X og C.

                Kærðu hafi verið handteknir um kl. 04:00 í nótt og þeim tilkynnt að þeir væru grunaðir um meiriháttar líkamsárás. Kærðu voru færðir í lögreglubifreið á lögreglustöðina í [...] og vistaðir í fangaklefa. 

Skýrslutaka af kærða X fór fram hjá lögreglunni á Akranesi í dag og hófst hún kl 16:50 og lauk kl. 18:07.  Viðstaddur hana var verjandi X, Arnar Þór Stefánsson HRL.  Í skýrslutökunni sagði X að hann teldi að gafflar lyftarans sem ekið var að þeim þegar A lá í götunni hafi farið í höfuð hans þar sem hann lá.  Kvaðst hann ekki getað vitnað um þátt Y í atburðarásinni þar sem hann hafi verið upptekinn við að verja sig.  Honum hafi verið sýnd upptaka úr öryggismyndavélum við [...] en á henni sjáist atburðurinn.  Hafi hann sagt að myndbandið sýndi ekki fram á neitt annað en það sem hann haldi fram.

                Lögregla kveður rannsókn málsins á frumstigi og ekki hafi unnist tími til þess að gera allar þær ráðstafanir í þágu rannsóknarinnar sem til þurfi svo að sakargögn spillist ekki.  Eftir sé að yfirheyra vitni s.s. nokkur vitni sem sakborningur hafi tilgreint. Ljóst sé að það skaði rannsóknina mjög ef sakborningur gangi laus á meðan grunnrannsókn standi yfir.  Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins.  Þá sé frekari gagnaöflun og gagnaúrvinnsla framundan sem skýrt geti frekar meint brot kærða.

Með tilliti til þess er að framan greinir svo og vegna alvarleika hins kærða verknaðar sé nauðsynlegt að krefjast gæsluvarðhalds yfir kærða. Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 2. mgr. 218 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

    Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a.- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til b.- liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga hvað varðar kröfu um einangrun.

Fyrir liggur að áverkar brotaþola eru mjög alvarlegir og liggur hann nú á gjörgæsludeild og er haldið sofandi í öndunarvél. Með vísan til þess og alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt öðrum manni en brot gegn ákvæðinu getur varðað allt að sextán ára fangelsi.

Rannsókn málsins er á algeru frumstigi en lögregla var kölluð á vettvang að höfninni í [...] um kl. 2:30 í nótt. Fallist er á það með lögreglustjóra að gangi kærði laus megi ætla að hann kunni að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á vitni. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því uppfyllt í málinu. Þá er fallist á að uppfyllt séu skilyrði til að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur skv. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

         Allan V. Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X kt. [...], skal  sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 24. júlí 2014, kl. 14:00. Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.