Hæstiréttur íslands

Mál nr. 664/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


                                     

Föstudaginn 2. nóvember 2012.

Nr. 664/2012.

Ákæruvaldið

(Björn Þorláksson saksóknari)

gegn

X

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

Kærumál. Dómarar. Hæfi

Í dómi Hæstaréttar vegna áfrýjunar á máli ákæruvaldsins gegn X o.fl var þætti X vísað aftur heim í hérað. Í kjölfarið viku héraðsdómarar málsins sæti með úrskurði en sá úrskurður var síðan kærður til Hæstaréttar og felldur úr gildi. Vísað var til þess að rétturinn hefði í fyrrgreindum dómi sínum ekki ómerkt héraðsdóms á þeirri forsendu að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar kynni að vera röng. Vegna þess að ákvæði 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, um að sömu dómarar og áður mættu ekki fara með málið við nýja meðferð þess í héraði, væri bundið við þau tilvik ein væri rétt að þeir dómarar sem kváðu upp héraðsdóminn skipuðu dóm við áframhaldandi meðferð málsins nema þeir væru vanhæfir af öðrum ástæðum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. október 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2012 um að dómarar í héraðsdómsmálinu nr. S-476/2010, Arngrímur Ísberg, Einar Ingimundarson og Ragnheiður Harðardóttir, vikju sæti. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili tekur ekki afstöðu til kröfu varnaraðila.

Eins og gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði gekk dómur í héraði 29. júní 2011 á hendur ákærða og tveimur meðákærðu þar sem þeir voru allir sýknaðir. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem leysti úr því með dómi 7. júní 2012 í máli nr. 442/2011 þar sem meðákærðu voru sakfelldir og þeim gerð refsing. Á hinn bóginn var héraðsdómur ómerktur hvað varðaði sakargiftir í garð ákærða samkvæmt II. kafla ákæru og þeim þætti málsins vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar með hliðsjón af 2. mgr. 169. gr., sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008. Þótt í dómi Hæstaréttar væri vísað til 2. og 3. mgr. 208. gr. þeirra laga var þar með engu móti tekin afstaða til þess hvort niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar kynni að vera röng að því er varðaði fyrrgreindar sakargiftir á hendur ákærða.

Það er meginregla sakamálaréttarfars að héraðsdómari getur leyst efnislega úr máli þótt dómur, sem hann hefur kveðið upp í því, hafi verið ómerktur af æðra dómi, enda er hann ekki bundinn af fyrri úrlausn sinni í málinu. Samkvæmt því verður ekki talið að ákvæði g. liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 standi almennt í vegi fyrir því að héraðsdómari leysi að nýju úr máli þegar þannig háttar til, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 4. júlí 2012 í máli nr. 466/2012. Undantekning er gerð frá fyrrgreindri meginreglu í 3. mgr. 208. gr. laganna. Þar er svo fyrir mælt að hafi héraðsdómur verið ómerktur fyrir þá sök, að niðurstaða dómara um sönnunargildi munnlegs framburðar kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls, megi þeir dómarar, sem skipa dóm í málinu við nýja meðferð þess í héraði, ekki vera hinir sömu og áður fóru með það.

Samkvæmt framansögðu var sá hluti áðurgreinds héraðsdóms, sem laut að sakargiftum í garð ákærða, ekki ómerktur af Hæstarétti á þeirri forsendu að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar kynni að vera röng, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Vegna þess að undantekningarákvæðið í niðurlagi málsgreinarinnar er bundið við þau tilvik ein, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 33/2012, er rétt að þeir dómarar, sem kváðu upp héraðsdóminn, skipi dóm við áframhaldandi meðferð málsins í héraði, nema þeir séu vanhæfir til þess af öðrum ástæðum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2012.

Með ákæru sérstaks saksóknara, útgefinni 25. júní 2010, var höfðað sakamál á hendur ákærða og tveimur mönnum öðrum. Dómur gekk í héraði 29. júní 2011. Málinu var áfrýjað og gekk dómur Hæstaréttar 7. júní síðastliðinn. Með þeim dómi var héraðsdómurinn ómerktur hvað ákærða varðaði. Dómendur, sem dæmt höfðu héraðsdóminn, töldu sig vanhæfa til fara með málið eftir dóm Hæstaréttar og var því úthlutað til annars dómara. Málinu var úthlutað aftur til fyrri dómenda 16. október síðastliðinn.

Í þinghaldi 23. október síðastliðinn gerði dómsformaður málflytjendum grein fyrir framangreindu og gaf þeim kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Saksóknarinn kvaðst ekki taka afstöðu til þessa álitaefnis en verjandinn kvaðst ekki telja vanhæfisástæður vera fyrir hendi.

Í dómi Hæstaréttar segir að samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála geti Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu fyrir réttinum. Síðan segir að niðurstaða héraðsdóms um háttsemi þeirra ákærðu, sem sakfelldir voru, hafi ekki verið reist að röngu mati um sönnun um atvik í skilningi 3. mgr. 208. gr. laganna heldur á rangri túlkun á því ákvæði almennra hegningarlaga sem háttsemi þeirra var talin varða við. Síðar í dómi Hæstaréttar segir að ákærði hafi verið sýknaður með þeim rökum einum að meðákærðu hefðu verið sýknaðir. „Tók héraðsdómur því ekki afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti meta þyrfti framburð fyrir dómi hvað varðar ætluð brot ákærða X. Að gættum framangreindum ákvæðum 208. gr. laga nr. 88/2008 verður því með hliðsjón af 2. mgr. 169. gr., sbr. 210. gr., laganna að ómerkja hinn áfrýjaða dóm hvað ákærða X varðar og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar sakarefnis samkvæmt II. kafla ákærunnar.“

Í lok 3. mgr. 208. gr. segir að sé héraðsdómur ómerktur samkvæmt því sem í henni segir skuli þrír dómarar skipa dóm í málinu við nýja meðferð þess í héraði og megi þeir ekki vera hinir sömu og áður fóru með það. Í framangreindum dómi sínum vísar Hæstiréttur til þessarar greinar þegar hann ómerkir dóminn hvað ákærða varðar. Af þessu leiðir að dómendur eru vanhæfir til að fara með málið á hendur ákærða og ber þeim að víkja sæti.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð

Dómararnir Arngrímur Ísberg, Einar Ingimundarson og Ragnheiður Harðardóttir víkja sæti í málinu.