Hæstiréttur íslands
Mál nr. 103/2008
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Rangur framburður
|
|
Fimmtudaginn 6. nóvember 2008. |
|
Nr. 103/2008. |
Ákæruvaldið(Daði Kristjánsson, settur saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Ölvunarakstur. Rangur framburður.
X var gefinn að sök ölvunarakstur, með því að hafa stjórnað og reynt að stjórna bifreið undir áhrifum áfengis, hafi hann sest undir stýri bifreiðar og reynt að gangsetja hana og látið hana renna afturábak nokkra metra. X neitaði sök og hafði þar nokkurn stuðning í vætti J. J taldi að X hefði ekki reynt að setja bifreiðina í gang, enda væri það ekki auðvelt og jafnframt sagðist hann hafa tekið kveikjuláslykilinn í sínar vörslur. Vitnið S, lögreglumaður, bar jafnframt að kveikjuláslykillinn hefði ekki verið í bifreiðinni en vírar hefðu hangið niður úr kveikjulásnum. Þá kom fram í framburði vitnisins H að hann hefði fengið greinda bifreið til viðgerðar fyrir þetta atvik og hefði gangsetningarbúnaður bifreiðarinnar verið bilaður. Vitni G, sem tilkynnt hafði ölvunarakstur X, breytti framburði sínum fyrir dómi og kvaðst ekki hafa séð það sem hann áður bar. Í héraðsdómi var talið að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna sök ákærða og var hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Í Hæstarétti krafðist ákæruvaldið að hinn áfrýjaði dómur yrði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Ákæruvaldið studdi kröfu sína um ómerkingu þeim rökum að eftir að dómur hefði gengið hefði vitnið G verið dæmdur fyrir að gefa ranga skýrslu fyrir héraðsómi í þessu máli, sbr. 1. mgr. 142. gr. almennra hegningarlaga. Talið var að ekki væru efni til að ætla að niðurstaða málsins yrði á annan veg ef héraðsdómur yrði ómerktur og skýrsla tekin á ný af vitninu G, þótt hann bæri á sama veg og hann gerði upphaflega fyrir lögreglu við rannsókn málsins. Var niðurstað héraðsdóms því staðfest og X sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson prófessor.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 30. janúar 2008 og krefst að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákæruvaldið styður kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms þeim rökum, að eftir að hann gekk, hafi vitnið G verið dæmdur fyrir að gefa ranga skýrslu fyrir héraðsdómi í máli því sem hér er til meðferðar, sbr. 1. mgr. 142. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hann hafi játað brotið. Telur ákæruvaldið að niðurstaða héraðsdóms hefði orðið önnur, ef greint vitni hefði sagt rétt frá. Vitnið hafi orðið fyrir þrýstingi af hálfu ákærða sem leitt hafi til hins ranga framburðar. Byggir ákæruvaldið á því að 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eigi hér við. Samkvæmt því ákvæði getur Hæstiréttur fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð máls í héraði séu líkur fyrir að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls.
Greint vitni sagði upphaflega við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði séð ákærða í umrætt sinn „setjast undir stýri og gera sig líklegan að gangsetja bifreiðina“, að hann hefði fylgst með er ákærði „hafi látið bifreiðina renna aftur á bak eins að hann væri að reyna að gangsetja bifreiðina“, en hann hafi síðan „sofnað undir stýri hennar.“ Fyrir dóminum bar vitnið hins vegar að hann hefði ekki séð ákærða fara inn í bifreiðina og hefði fyrst veitt honum athygli þar stuttu áður en lögregla kom á staðinn, sem hafi verið tveimur til þremur tímum eftir að hann tilkynnti um atvikið. Skýrði hann framburð sinn hjá lögreglu með því að hann hefði verið ákærða reiður í umrætt sinn. Þegar hann var yfirheyrður síðar hjá lögreglu vegna gruns um rangan framburð, bar hann að upphafleg skýrsla sín hjá lögreglu hefði verið rétt.
Ákærða er gefinn að sök ölvunarakstur, með því að hafa „stjórnað og reynt að stjórna bifreiðinni Y-XXXX, undir áhrifum áfengis er ákærði settist undir stýri bifreiðarinnar og reyndi að gangsetja hana og lét hana renna afturábak nokkra metra“. Ákærði neitar sök og hefur þar nokkurn stuðning í vætti J, sem kvaðst hafa farið með ákærða út í bifreiðina, þar sem hann hefði síðan sofnað. Taldi hann ákærða ekki hafa reynt að setja bifreiðina í gang, enda væri það ekki auðvelt. Hann kvaðst hafa tekið kveikjuláslykilinn í sínar vörslur. Vitnið S, lögreglumaður, bar að kveikjuláslykill hefði ekki verið í bifreiðinni og hefðu vírar hangið niður úr kveikjulásnum. Hann kvaðst ekki geta sagt til um hvort reynt hefði verið að tengja víra til að gangsetja bifreiðina í þetta skipti, en engin ummerki önnur hafi verið um það. Kvað hann bifreiðina hafa verið sjálfskipta og stýrið hefði verið læst, en kvaðst ekki muna staðsetningu gírstangarinnar. Vitnið H, sem kvaðst hafa fengið greinda bifreið til viðgerðar, bar að gagnsetningarbúnaður hennar hefði verið bilaður fyrir þetta atvik, hún hefði verið sjálfskipt og því væri ekki hægt að láta hana renna í gang. Samkvæmt ofangreindu er ósannað að bifreiðin hafi verið gangsett.
Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram það mat héraðsdómara, að því fari fjarri að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna sök ákærða gegn neitun hans svo að ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum. Ekki eru efni til að ætla að niðurstaða málsins yrði á annan veg ef héraðsdómur yrði ómerktur og vitnaskýrsla tekin á ný af G, þótt hann bæri þá á sama veg og hann gerði upphaflega fyrir lögreglu við rannsókn málsins. Verður því að staðfesta hinn áfrýjaða dóm.
Allur kostnaður af meðferð málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 12. desember 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. nóvember sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 23. ágúst 2007 á hendur ákærða, X;
„fyrir ölvunarakstur, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 10. júní 2007, stjórnað og reynt að stjórna bifreiðinni Y-xxx undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,73 ), er ákærði settist undir stýri bifreiðarinnar og reyndi að gangsetja hana og lét hana renna afturábak nokkra metra á bifreiðastæði á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp uns bifreiðin staðnæmdist.
Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr., sbr. 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997, 186. gr. laga nr. 82/1998 og 7. gr. laga nr. 84/2004.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993 og nr. 84/2004.“
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög frekast heimila.
I.
Samkvæmt framlögðum rannsóknargögnum bárust lögreglunni á Vestfjörðum boð frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjórans, aðfaranótt sunnudagsins 10. júní 2007, um kl. 04:20, þess efnis að tveir ölvaðir menn væru með ólæti í Reykjanesi við Ísafjörð. Fylgdi sögunni að tilkynnandi, G, staðarhaldari á hótelinu í Reykjanesi, teldi að mennirnir ætluðu sér að aka bifreið og væru þeir að reyna að gangsetja hana. Tveir lögreglumenn héldu þegar af stað frá Hólmavík áleiðis í Reykjanes. Er bókað í frumskýrslu S lögreglumanns að á leiðinni á vettvang hafi lögreglu borist tilkynning um að annar mannanna hefði fært bifreiðina úr stað og síðan sofnað ölvunarsvefni í bifreiðinni. Hinn maðurinn hefði verið sagður farinn af vettvangi.
Í Reykjanesi komu lögreglumennirnir þegar auga á bifreiðina Y-XXXX á bifreiðastæði og var ákærði sofandi undir stýri bifreiðarinnar. Í kjölfarið hafði lögregla uppi á tilkynnanda er samkvæmt bókun í frumskýrslu skýrði lögreglu frá atvikum með líkum hætti og þau birtust í tilkynningum hans fyrr um nóttina.
Við skoðun lögreglu á vettvangi kom í ljós að engir lyklar voru í kveikjulás bifreiðarinnar Y-XXXX og voru vírar hangandi út frá kveikjulásnum, sem og undir stýri bifreiðarinnar. Samkvæmt frumskýrslu leiddi vettvangsrannsókn lögreglu í ljós að greinanleg för voru frá bifreiðastæði því sem bifreiðin var sögð hafa verið á fyrr um kvöldið og þangað sem hún stóð er lögreglu bar að um nóttina.
Þá er ennfremur bókað í títtnefndri skýrslu að G hafi sýnt lögreglu inn í afgreiðslu hótelsins og vísað henni á skilrúm sem hann hafi sagt hafa verið brotið. G hafi talið mögulegt að peningum hefði verið stolið úr sjóðvél innan við skilrúmið en hann þó ekki verið viss. Þá hafi G jafnframt álitið líklegast að annaðhvort ákærði eða J hefði brotið skilrúmið. Hann hafi þó heldur ekki verið viss hvað það varðaði.
Ákærði var handtekinn á vettvangi og í kjölfarið fluttur á lögreglustöðina á Ísafirði. Vegna gruns um ölvun við akstur voru blóðsýni tekin úr ákærða í þágu rannsóknar málsins um kl. 08:35 og 09:35. Í kjölfarið var hann vistaður í fangageymslum. Skýrsla var tekin af ákærða laust fyrir hádegi og að henni lokinni var ákærði frjáls ferða sinna.
Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði á fyrrnefndum blóðsýnum var alkóhólmagn í því sýni sem fyrr var tekið 1,73 en 1,61 í því síðara.
II.
Um kl. 11:38 að morgni sunnudagsins 10. júní 2007 hófst skýrslutaka af ákærða á lögreglustöðinni á Ísafirði. Í skýrslunni, sem G lögreglumaður ritaði, er eftirfarandi haft eftir ákærða um málsatvik umrædda nótt:
Aðspurður kveðst X hafa verið við áfengisdrykkju sl. nótt inni í Reykjanesi ásamt nokkrum vinnufélögum hjá KNH. X segir að um nóttina hafi hann ætlað að gangsetja bifreiðina Y-XXXX sem hafi verið fyrir utan hótelið þar sem hann hafi verið kominn með ökumann sem hafi ekki verið ölvaður.
X kvaðst hafa sest undir stýri bifreiðarinnar og látið hana renna aftur á bak nokkra metra til þess að koma bifreiðinni í gang. X segir að bifreiðin hafi ekki farið í gang þannig að hætt hafi verið við að fara á henni.
Aðspurður kveður Xl ... J hafa verið með honum þegar hann hafi ætlað að gangsetja bifreiðina sem hafi einnig verið ölvaður. Aðspurður kvaðst X hafa verið mjög ölvaður þegar hann hafi reynt að gangsetja bifreiðina. X kvaðst hafa verið búinn að drekka talsvert af bjór fyrr um kvöldið.
Aðspurður kveðst X ekki hafa drukkið áfengi eftir að hann hafði látið bifreiðina renna aftur á bak til að reyna að gangsetja bifreiðina. X kveðst hafa sofnað undir stýri bifreiðarinnar og vaknað þegar lögreglan hafi komið á vettvang og handtekið hann vegna gruns um ölvun við akstur.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að á þeim tíma er atvik máls gerðust hefði dvalarstaður hans verið í vinnubúðum KNH í Vatnsfirði. Á milli kl. 22:00 og 23:00 umrætt kvöld hefði hann farið ásamt nokkrum vinnufélögum sínum á hótelbarinn í Reykjanesi á bifreiðinni Y-XXXX. Áfengi sagði ákærði hafa verið haft um hönd á leiðinni. Kvaðst ákærði ekki hafa átt pantaða gistingu í Reykjanesi og það því verið ætlun hans að fara aftur í vinnubúðirnar síðar um nóttina.
Fram kom hjá ákærða að hann hefði verið við drykkju á barnum fram eftir nóttu og fljótt orðið ofurölvi. Taldi ákærði að hann hefði um nóttina farið inn og út af hótelinu og meðal annars sótt sér áfengi í bifreiðina Y-XXXX.
Síðar um nóttina kvaðst ákærði hafa yfirgefið barinn og lagt sig í bifreiðinni. Það næsta sem hann reki minni til sé er hann var vakinn af lögreglu, mjög líklega af ölvunarsvefni.
Spurður út í áður tilvitnaða lögregluskýrslu bar ákærði að hann myndi sáralítið eftir skýrslutökunni, enda hann þá enn verið „blindfullur“. Skýrslutökuna kvað ákærði hafa farið þannig fram að lögreglumaðurinn hefði lýst fyrir honum atvikum og hann einfaldlega jánkað því öllu, enda hann hugsað um það eitt að losna úr haldi lögreglu.
III.
Vitnið G gaf skýrslu vegna málsins fyrir lögreglu 10. júlí 2007. Í skýrslunni er eftirfarandi meðal annars bókað eftir Guðbrandi:
G segir að X hafi verið búinn að vera við áfengisdrykkju um nóttina og orðinn talsvert ölvaður. G segir að seint um nóttina hafi hann séð P fara inn í bifreiðina Y-XXX og setjast undir stýri hennar og gera sig líklegan til að gangsetja bifreiðina. Hann hafi svo fylgst með X þegar P hafi látið bifreiðina renna aftur á bak u.þ.b. 15 til 20 metra eins og hann væri að reyna að gangsetja bifreiðina. G segir að P hafi verið einn í bifreiðinni þegar hann hafi látið hana renna aftur á bak. G kvaðst hafa hringt í lögregluna og tilkynnt henni að X væri að reyna að fara G segir að eftir að P hafi látið bifreiðina renna aftur á bak hafi X sofnað undir stýri hennar.
Fyrir dómi skýrði G svo frá að umrætt laugardagskvöld hefðu nokkrir starfsmenn KNH komið á bifreið úr vinnubúðum fyrirtækisins í Vatnsfirði. Þeir hefðu ásamt fleirum farið í sund og síðar um kvöldið og nóttina tekið þátt í gleðskap á bar hótelsins.
Vitnið sagðist vera kunnugt umræddum mönnum og hefði það því rétt fyrir lokun um nóttina „tekið“ eilítið áfengi með þeim. Skömmu síðar hefði komið til skrílsláta eða einhvers konar „apagangs“ og í kjölfarið orðið hvöss orðaskipti milli vitnisins og ákærða. Sagðist vitnið hafa reiðst ákærða og vísað honum út af barnum.
Eftir að hafa lokað barnum kvaðst vitnið hafa farið niður í anddyri hótelsins og þá séð að búið var að brjóta vængjahurð að sjoppunni í anddyrinu. Taldi vitnið að þetta hefði verið upp úr kl. 03:30 um nóttina. Þar sem vitnið hefði talið mögulegt að einhverju hefði verið stolið hefði það ákveðið að kalla til lögreglu og fá hana til að mynda verksummerki.
Vitnið sagði lögreglu hafa komið á vettvang tveimur til þremur tímum síðar. Í framhaldinu hefði lögregla haft afskipti af ákærða í bifreiðinni Y-XXXX fyrir utan hótelið, en honum kvaðst vitnið fyrst hafa veitt athygli í ökumannssæti bifreiðarinnar rétt áður en lögregla kom á vettvang.
Sérstaklega aðspurt af dómara, eftir að hafa verið upplýst um rétt sakaðra manna, bar vitnið að málsatvikalýsing sú, sem það hefði gefið lögreglu við skýrslutöku 10. júlí 2007, væri röng. Vitnið hefði ekki séð ákærða fara inn í bifreiðina Y-XXXX og færa hana eins og lýst sé í skýrslunni. Vitnið hefði veitt því athygli að bifreiðin hafði verið færð en hver það gerði gæti það ekki um borið. Kvaðst vitnið hafa séð þá menn, sem á bifreiðinni komu fyrr um kvöldið, á hótelhlaðinu og við bifreiðina en engan þeirra hefði vitnið séð fara inn í hana. Framburð sinn fyrir lögreglu skýrði vitnið með hefnigirni í garð ákærða, vitnið hefði verið honum reitt.
IV.
S lögreglumaður lýsti aðkomu sinni að málinu svo að umrædda nótt hefði hann, í kjölfar tilkynningar sem barst lögreglu, lagt af stað ásamt starfsfélaga sínum áleiðis í Reykjanes. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna hvenær þeir voru komnir á vettvang en bar að þeir hefðu verið um eina klukkustund á leiðinni.
Á bifreiðastæði við hótelið í Reykjanesi kvaðst vitnið strax hafa komið auga á bifreið sem það hefði talið þá sem fyrrnefnd tilkynning laut að. Þegar að bifreiðinni kom hefði vitnið séð að maður svaf í ökumannssæti hennar.
Vitnið sagði þá ákvörðun hafa verið tekna að ræða fyrst við tilkynnanda, G, staðarhaldara í Reykjanesi, áður en afskipti yrðu höfð af manninum í bifreiðinni, ákærða í málinu. G hefði staðfest við lögreglu að nefnd bifreið og ákærði væru bifreið sú og maður sem tilkynning hans hefði varðað. Að þeirri staðfestingu fenginni hefði lögregla farið að bifreiðinni og reynt að ná sambandi við ákærða, er tekið hefði nokkurn tíma þar sem hann hefði verið mjög ölvaður. Því næst hefði lögregla togað ákærða út úr bifreiðinni, sem streist hefði á móti, og hann af þeim sökum verið færður í handjárn og settur inn í lögreglubifreið.
Eftir handtöku ákærða kvaðst vitnið hafa leitað í bifreiðinni að kveikjuláslykli en engan fundið. Við þá leit sína sagðist vitnið hafa veitt athygli vírum, tengdum kveikjulás bifreiðarinnar, sem hangið hefðu niður undan stýri hennar. Þá kom einnig fram hjá vitninu að það hefði séð för á vettvangi sem bent hefðu til þess að bifreiðin hefði fyrst staðið ofar í stæðinu en síðan verið færð aftur á bak.
Ennfremur bar vitnið að það hefði kannað aðstæður inni á hótelinu með það í huga hvort brotist hefði verið þar inn. Frásögn G af því hversu miklir fjármunir hefðu verið í kassanum hefði hins vegar verið mjög óljós og þá hefði ekki verið hægt að tengja neinn við þau eignaspjöll sem sjáanleg voru.
Eftir að hafa kannað vettvang kvaðst vitnið hafa ekið, ásamt starfsfélaga sínum, með ákærða til móts við lögreglumenn frá Ísafirði sem tekið hefðu við ákærða og flutt hann á lögreglustöðina á Ísafirði.
J bar fyrir dómi að hann hefði umrætt kvöld komið akandi úr Vatnsfirði í Reykjanes ásamt nokkrum vinnufélögum sínum. Vitnið kvaðst hafa átt pantaða gistingu í Reykjanesi þar sem ekki hefði verið nægjanlegt pláss fyrir alla í vinnubúðunum í Vatnsfirði.
Um nóttina kvaðst vitnið hafa verið við drykkju á barnum ásamt ákærða, G og fleirum. Vitnið sagði G og ákærða hafa sinnast og hefði G reiðst ákærða og skammað hann. Vitnið og ákærði hefðu í kjölfarið „vappað eitthvað um hótelið“ og þeir meðal annars ræðst við inni á herbergi vitnisins. Ákærði hefði síðan farið út af hótelinu, sest inn í bifreiðina Y-XXXX og sofnað. Upplýsti vitnið að áður en ákærði yfirgaf hótelið hefði það tekið lyklana að bifreiðinni í sínar vörslur. Þetta kvaðst vitnið hafa gert til öryggis vegna ölvunarástands ákærða.
G rannsóknarlögreglumaður sagði rannsókn máls þessa hafa verið hefðbundna. Blóð- og þvagsýni hefðu verið tekin úr ákærða og hann síðan verið vistaður í fangageymslum þar til af honum var runnið og hann orðinn hæfur til skýrslutöku. Nánar um ástand ákærða er skýrsla var tekin af honum í kjölfar vistunar í fangaklefa bar vitnið að það hefði verið þokkalegt, hann hefði alla vega verið 100% skýrsluhæfur.
Þá gaf einnig vitnaskýrslu fyrir dómi H, starfsmaður á verkstæði KNH, en ekki þykir ástæða til að rekja framburð hans sérstaklega.
V.
Eftir að ákærði var handtekinn í Reykjanesi aðfaranótt 10. júní 2007 vegna ætlaðs aksturs undir áhrifum áfengis var hann færður á lögreglustöðina á Ísafirði. Eins og rakið er í kafla I voru tvö blóðsýni tekin úr ákærða á lögreglustöðinni, hið fyrra um kl. 08:35 og hið síðara um kl. 09:35. Í kjölfarið var ákærði vistaður í fangageymslum.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði á fyrrnefndum blóðsýnum var alkóhólmagn í því blóðsýni er fyrr var tekið 1,73 en 1,61 í því sýni sem tekið var klukkustundu síðar, eða einungis 0,12 lægra. Tveimur tímum eftir töku síðara blóðsýnisins gaf ákærði þá framburðarskýrslu sem reifuð er í kafla II. Af tilvitnuðum rannsóknarniðurstöðum má ráða að ákærði hafi við þá skýrslutöku enn verið undir miklum áfengisáhrifum og dregur það verulega úr sönnunargildi skýrslunnar.
Svo sem áður hefur verið rakið tilkynnti G lögreglu símleiðis fyrrgreinda nótt að hann hefði séð ákærða fara inn í bifreiðina Y-XXXX og færa hana til á bifreiðastæði við hótelið í Reykjanesi. Gaf G efnislega samhljóða framburð við skýrslutöku hjá lögreglu mánuði eftir að atvik máls gerðust. Við aðalmeðferð málsins bar G hins vegar að málsatvikalýsing þessi væri röng. Hann hefði ekki séð ákærða fara inn í bifreiðina Y-XXXX og færa hana heldur einungis séð að bifreiðin hafði verið færð, en hver það gerði gæti hann hins vegar ekki um borið. Hinar röngu sakargiftir fyrir lögreglu skýrði G með hefnigirni í garð ákærða, hann hefði verið ákærða reiður.
Við mat á hinum breytta framburði G verður ekki fram hjá því litið að hann hefur eitt vitna borið um akstur ákærða umrædda nótt. Verður framburði G fyrir dómi því ekki vikið til hliðar í málinu þó svo skýringar hans á hinum breytta framburði verði að teljast með nokkrum ólíkindablæ.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið fer því fjarri að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991, að hann hafi umrædda nótt ekið bifreiðinni Y-XXXX undir áhrifum áfengis. Verður ákærði því sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991 greiðist allur kostnaður sakarinnar úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Braga Björnssonar hdl., er hæfilega þykja ákveðin, eftir umfangi málsins og þess tíma sem fór í ferðalög hjá lögmanninum, svo sem í dómsorði greinir að virðisaukaskatti meðtöldum.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari, en uppkvaðning dómsins hefur dregist örlítið vegna starfsanna dómara.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, skal sýkn af kröfum ákæruvalds í málinu.
Allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Braga Björnssonar hdl., 181.272 krónur.