Hæstiréttur íslands

Mál nr. 357/2000


Lykilorð

  • Slysatrygging ökumanns
  • Bifreið
  • Ölvunarakstur


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001.

Nr. 357/2000.

Óskar Andri Sigmundsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Jakob R. Möller hrl.)

 

Slysatrygging ökumanns. Bifreiðir. Ölvunarakstur.

Ó höfðaði mál gegn vátryggingafélaginu V og krafðist slysabóta vegna líkamstjóns, sem hann varð fyrir þegar bifreið, sem hann ók, valt. Eftir slysið gekk Ó af vettvangi og lagðist til svefns. Þegar hann fannst, fáeinum klukkustundum síðar, var hann talsvert ölvaður. Viðurkenndi Ó í refsimáli, sem höfðað var á hendur honum, að hafa ekki neytt áfengis eftir slysið. Í héraðsdómsstefnu bar Ó hins vegar að hann hefði drukkið áfengi eftir slysið. Talið var að Ó bæri sönnunarbyrðina fyrir því að ölvunarástand hans yrði rakið til áfengisneyslu hans eftir slysið. Þar sem ekkert var talið hafa komið fram, er stutt gæti þessa fullyrðingu Ó, var lagt til grundvallar að vínandinn í blóði hans hefði átt rætur að rekja til áfengis, sem hann neytti fyrir slysið. Ekki var talið að Ó hefði rennt nægjanlegum stoðum undir fullyrðingu sína um að sprunginn hjólbarði hefði valdið slysinu. Með hliðsjón af ummælum Ó sjálfs var fallist á að áfengismagn í blóði hans hefði verið slíkt er slysið varð, að samkvæmt vátryggingarskilmálum ætti hann ekki rétt til bóta úr hendi V. Var V því sýknað af kröfum Ó.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. september 2000. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 9.262.669 krónur með 2% ársvöxtum frá 6. ágúst 1997 til 21. júní 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins kom fiskiskipið Framnes ÍS 708 til hafnar á Ísafirði að morgni 5. ágúst 1997. Áfrýjandi, sem þar var skipverji, hafði verið á næturvakt frá því nokkru eftir miðnætti. Að kvöldi þessa dags fór hann í ökuferð á bifreið sinni IZ 348 ásamt þremur kunningjum sínum, en hafði þá ekki sofið eftir að skipið kom að landi. Um kl. 23 þetta kvöld fóru þeir á veitingastað, þar sem áfrýjandi neytti áfengs bjórs. Í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst hann hafa drukkið þar „kannski svona“ þrjú stór glös af bjór. Þegar þeir yfirgáfu veitingastaðinn um kl. 1 aðfaranótt 6. ágúst 1997 fóru þeir aftur í ökuferð og stýrði þá einn af kunningjum áfrýjanda bifreiðinni. Í ökuferðinni neyttu farþegarnir, þar á meðal áfrýjandi, einhvers bjórs til viðbótar. Þegar leið á nóttina fóru þeir til Þingeyrar, þar sem þeir stigu út úr bifreiðinni um kl. 3. Þar varð þeim sundurorða. Settist þá áfrýjandi upp í bifreiðina og ók brott einn síns liðs sem leið lá inn Dýrafjörð, en kunningjar hans héldu af stað gangandi sömu leið. Nokkru frá Ketilseyri við sunnanverðan fjörðinn missti áfrýjandi stjórn á bifreiðinni. Hún fór út af veginum, sem var beinn á þessum kafla og með bundnu slitlagi, og valt þar til hún staðnæmdist á túni utan vegarins. Áfrýjandi gekk af slysstað til Ketilseyrar, þar sem hann fékk að leggja sig til svefns í eldhúsi. Nokkru eftir það komu kunningjar áfrýjanda að bifreiðinni og hófu þá leit að honum. Skömmu síðar kom lögreglan á vettvang og fannst áfrýjandi að Ketilseyri laust fyrir kl. 5.30 um morguninn. Í frumskýrslu lögreglunnar um slysið var þess getið að hann hafi þá verið sofandi og borið „greinileg merki ölvunar.“ Hann var fluttur á sjúkrahús á Ísafirði og reyndist hálsbrotinn. Blóðsýni var tekið úr honum til vínandagreiningar kl. 6.48 og síðan þvagsýni kl. 8.20. Vínandi í blóði mældist 1,02‰, en í þvagi 1,23‰. Síðar þennan morgun var hann fluttur á Sjúkrahús Reykjavíkur, þar sem hann var lagður inn um kl. 13.30. Í vottorði, sem læknir á því sjúkrahúsi gerði 7. mars 1999 um áverka áfrýjanda, sagði meðal annars að við skoðun hafi hann verið „greinilega undir áhrifum áfengis og lyktaði af því.“

Lögreglan tók skýrslur af áðurnefndum kunningjum áfrýjanda snemma morguns 6. ágúst 1997. Þeir báru um að ósætti þeirra við áfrýjanda á Þingeyri hafi stafað af því að hann hafi sjálfur viljað aka bifreiðinni þaðan, en þeir hafi allir mótmælt því vegna undanfarandi áfengisneyslu hans. Einn kunningjanna bar að áfrýjandi hefði þar verið „auðsjáanlega ... undir áhrifum áfengis“ og annar að hann hefði verið „æstur enda ... bæði þreyttur og ölvaður“, en sá þriðji kvað áfrýjanda hafa verið „ósofinn og orðinn þess vegna sljóan af áfengisneyslu og svefnleysi.“ Í skýrslu, sem lögreglan tók af áfrýjanda 22. ágúst 1997, sagðist hann hafa farið að deila við kunningja sína á Þingeyri, en tilefnisins minntist hann ekki. Hann hafi því ekið þaðan einn. Hafi hann „verið orðinn mjög þreyttur eftir langar vökur en ... einungis hafa fundið lítillega til áfengisáhrifa við aksturinn.“ Hann kvaðst ekki muna hversu hratt hann hafi ekið, en á beinum vegi hafi bifreiðin „skyndilega farið að láta illa“. Sagðist hann telja að hjólbarði hafi sprungið á framhjóli hennar.

Sýslumaðurinn á Ísafirði gaf út ákæru á hendur áfrýjanda 18. nóvember 1997, þar sem honum var meðal annars gefinn að sök ölvunarakstur í framangreint sinn. Á dómþingi Héraðsdóms Vestfjarða 22. desember sama árs viðurkenndi áfrýjandi þetta brot. Var fært í þingbók eftir honum að hann hafi ekki „neytt áfengis frá því að akstri lauk og þar til honum var tekið blóðsýni til alkóhólrannsóknar.“ Hann kvaðst ekki vefengja niðurstöðu þeirrar rannsóknar. Í þinghaldinu gekkst hann undir viðurlög vegna brotsins og var málinu þar með lokið.

Í máli þessu, sem áfrýjandi höfðaði 26. október 1999, krefst hann greiðslu úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sem hann hafði tekið vegna bifreiðar sinnar hjá stefnda. Krafa áfrýjanda, sem er sundurliðuð í héraðsdómi, er reist á örorkumati, sem hann aflaði sér 14. maí 1999 hjá sérfræðingi í bæklunarskurðlækningum.

II.

Áfrýjandi heldur því fram í málinu að eftir áðurgreint slys hafi hann fundið til mikils sársauka í hálsi. Hann hafi því gripið í bjórdós, sem hafi verið í bifreiðinni, og drukkið hana. Á göngu sinni að Ketilseyri hafi hann drukkið aðra bjórdós úr bifreiðinni. Staðhæfingar áfrýjanda um þetta komu fyrst fram í héraðsdómsstefnu. Þær eru í andstöðu við áðurgreindan framburð hans fyrir Héraðsdómi Vestfjarða 22. desember 1997. Í málinu krefst hann slysabóta samkvæmt vátryggingarsamningi. Verður hann því sjálfur að bera sönnunarbyrði fyrir að vínandinn, sem mældist í blóði hans, verði rakinn til neyslu áfengis eftir slysið. Ekkert hefur komið fram, sem stutt getur þessar staðhæfingar áfrýjanda. Verður því að leggja til grundvallar að vínandinn í blóði hans hafi átt rætur að rekja til áfengis, sem hann neytti fyrir slysið.

Eins og áður greinir var blóðsýni tekið úr áfrýjanda kl. 6.48 að morgni 6. ágúst 1997 og mældist vínandi í því 1,02‰. Ekki liggur fyrir nákvæm tímasetning á slysinu, sem um ræðir í málinu, en leggja má þó til grundvallar, meðal annars eftir framburði áfrýjanda sjálfs, að liðið hafi á fjórðu klukkustund frá því og þar til blóðsýnið var tekið. Stefndi heldur því fram að á þeim tíma hljóti að hafa eyðst úr blóði áfrýjanda nægilegur vínandi til þess að sýnt sé að magn þess þegar slysið varð hafi verið meira en þau 1,20‰, sem um ræðir í 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Á þetta verður að fallast, enda hefur áfrýjandi ekki leitt líkur að því að aðstæður hans hafi getað verið aðrar en almennt megi reikna með í þessu efni. Verður því lagt til grundvallar að hann hafi verið óhæfur til að stjórna ökutæki þegar slysið bar að höndum.

Áfrýjandi bar sem áður segir fyrir lögreglunni 22. ágúst 1997 að hann teldi að hjólbarði á framhjóli bifreiðarinnar hafi sprungið rétt fyrir slysið. Í málinu hefur hann byggt á því að hann hafi misst stjórn á bifreiðinni af þessum sökum og verði slysið rakið til þess. Með bréfi 19. september 1998 leitaði lögmaður áfrýjanda upplýsinga hjá lögreglunni á Ísafirði um hvort þetta hafi verið rannsakað. Í svari hennar 9. október sama árs var vísað til þess að af ljósmyndum frá vettvangi megi sjá að báðir framhjólbarðar bifreiðarinnar hafi verið loftlausir þegar komið var að henni eftir slysið. Sagði síðan eftirfarandi: „Á þeim tíma gáfu aðstæður fullnægjandi skýringu á þessu atriði. Ekki fór fram frekari rannsókn á hjólbörðum bifreiðarinnar.“ Í málinu hefur áfrýjandi ekki leitað nánari svara lögreglunnar við því hvaða aðstæður hafi þótt skýra þetta atriði nægilega. Að þessu gættu verður áfrýjandi að bera hallann af því að hafa ekki rennt frekari stoðum undir staðhæfingu sína um orsök slyssins. Samkvæmt þessu hefur ekkert komið fram um að annað geti hafa valdið slysinu en ölvun áfrýjanda.

Vegna þeirra atvika, sem að framan greinir, og með vísan til dóms Hæstaréttar í dómasafni 1995 bls. 2249 verður að telja áfrýjanda hafa sökum ölvunar verið svo á sig kominn við akstur í umrætt sinn að fyrirmæli 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga eigi við um hann. Samkvæmt framangreindu verður að líta svo á að stefndi hafi með vátryggingarskilmálum undanskilið sig ábyrgð þegar þannig stendur á fyrir ökumanni. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 7. þessa mánaðar að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu, þingfestri 4. nóvember 1999.

Stefnandi er Óskar Andri Sigmundsson, kt. 051079-4779, Dalbraut la, Hnífsdal,

Stefndi er Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.262.669 krónur, ásamt 2% ársvöxtum frá 6. ágúst 1997 til 21. júní 1999 og dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu.

Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins. Til vara krefst hann þess, að kröfur stefnanda verði lækkaðar mjög verulega og verði þá málskostnaður látinn niður falla.

I.

Málavextir

Aðfaranótt 5. ágúst 1997 var stefnandi á vakt um borð í skipinu Framnesi ÍS-708, sem kom í land á Ísafirði um kl. 8 að morgni þess dags. Stefnandi fór í sólbað um daginn, en er líða tók að kvöldi að ,,rúnta” um bæinn á bifreið sinni, IZ 348, sem er af gerðinni Pontiac Firebird, ásamt kunningjum sínum, Bjarka Þór Hannessyni, Sæmundi Bjarna Guðmundssyni og Ólafi Ágúst Agnarssyni. Síðla kvölds fóru þeir félagar á krána ,,Á Eyrinni” þar í bæ og drukku þar áfengan bjór. Þegar þeir komu út af kránni fóru þeir ,,á rúntinn” í bifreiðinni og höfðu bjór meðferðis. Ók Sæmundur Bjarni, en hinir þrír neyttu bjórs í einhverjum mæli. Um kl. 1 um nóttina héldu þeir til Þingeyrar og var bifreiðin stöðvuð fyrir ofan bensínstöð þar í bæ. Vildi þá stefnandi taka við stjórn bifreiðarinnar. Kom til orðasennu á milli stefnanda og félaga hans, sem töldu ekki rétt að stefnandi æki bifreiðinni með tilliti til áfengisneyslu hans og svefnleysis. Neituðu þeir að þiggja far með honum. Stefnandi settist engu að síður upp í bifreið sína um kl. 3 um nóttina og ók til baka, en félagar hans lögðu fótgangandi af stað heimleiðis. Komu þeir fljótlega að bænum Hvammi, þar sem Sæmundur Bjarni var kunnugur. Fékk hann þar lánaða dráttarvél til þess að komast skjótar yfir. Um 7 km fyrir utan bæinn Ketilseyri komu þeir að bifreið stefnanda, þar sem hún lá stórskemmd úti á túni.

Lögreglunni barst tilkynning um umferðaróhappið kl. 4.49 og kom lögreglumaður á slysstað kl. 5.15. Voru þar þá áðurnefndir félagar stefnanda. Kemur fram í lögreglu­skýrslu, að bifreiðin hafi farið niður fyrir veginn, inn á tún og oltið nokkrum sinnum. Var bifreiðin mjög illa farin og hlutar hennar á víð og dreif, meðal annars vélarhlutir. Báðir framhjólbarðar bifreiðarinnar voru loftlausir. Taldi lögreglumaður, að aðstæður á vettvangi hefðu gefið næga skýringu á loftleysi hjólbarðanna og fór engin frekari rannsókn fram á þeim, en vegurinn við slysstað er tvíbreiður með bundnu slitlagi og engar krappar beygjur þar í nánd.

Lögreglumaður fór að Ketilseyri og var stefnandi þar sofandi inni í eldhúsi. Vakti lögreglumaður stefnanda og taldi hann bera greinileg merki ölvunar. Stefnandi var alvarlega slasaður og var hringt á sjúkrabíl frá Þingeyri, sem kom um kl. 5.50 og flutti hann á sjúkrahúsið á Ísafirði. Var hann kominn þangað kl. 6.24. Vegna ölvunareinkenna tók læknir á sjúkrahúsinu stefnanda blóðsýni um kl. 6.48 að beiðni lögreglu og þá var þvagsýni tekið um kl. 8.20 með ástungu. Stefnandi var sendur með sjúkraflugi á heila- og taugaskurðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og kom þangað kl. 13.30. Taldi læknir hann þá ,,greinilega undir áhrifum áfengis.”

Samkvæmt niðurstöðum rannsókna á sýnum úr stefnanda mældist alkóhólmagn í blóði hans 1,02 o/oo, en í þvagi 1,23 o/oo.

Í skýrslu hjá lögreglu 22. ágúst 1997 sagðist stefnandi hafa drukkið áfengan bjór um kvöldið og nóttina. Hann hafi farið að rífast við vini sína á Þingeyri, en mundi ekki tilefnið. Hafi stefnandi síðan tekið bifreið sína og ekið á brott frá Þingeyri og verið þá orðinn mjög þreyttur eftir langar vökur, en fundið lítillega til áfengisáhrifa. Stefnandi taldi bifreið sína hafa farið að láta illa á veginum og að sprungið hefði á framhjóli hennar.

Stefnandi gekkst undir viðurlagaákvörðun fyrir Héraðsdómi Vestfjarða 15. desember 1997, meðal annars vegna ölvunar við akstur umrætt sinn. Hann óskaði ekki eftir skipun verjanda og viðurkenndi að hafa ekið áðurnefndri bifreiði sinni undir áhrifum áfengis eftir þjóðvegi 60 við Ketilseyri í Dýrafirði með þeim afleiðingum, sem að framan greinir. Kvaðst stefnandi ekki hafa neytt áfengis frá því að akstri lauk og þar til honum var tekið blóðsýni til alkóhólrannsóknar. Þá vefengdi stefnandi ekki niðurstöðu rannsóknarinnar.

Við slysið hlaut stefnandi brot á II. hálslið, sem gert var að og greri eðlilega, en hefur skilið eftir sig mikla hreyfiskerðingu í hálsi og álagsverki. Þá hefur stefnandi haft óþægindi í mjóhrygg. Samkvæmt örorkumati, dagsettu 14. maí 1999, var tímabundið atvinnutjón stefnanda metið 100% í átta mánuði. Stefnandi var rúmliggjandi í 15 daga, en veikur án rúmlegu í átta mánuði. Varanlegur miski var metinn 20% og varanleg örorka einnig 20%. 

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

 Stefnandi byggir málsókn sína á því, að á engan hátt sé sannað, að umrætt slys hafi orðið vegna ölvunar stefnanda, heldur hafi útafaksturinn þvert á móti orsakast af þeirri ástæðu, að loft fór úr vinstra framhjólbarða bifreiðarinnar. Stefnandi hafi strax og hann var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu haldið því fram, að sprungið hafi á hjólbarðanum og það hafi verið höfuðorsök þess, að bifreiðin hafnaði utan vegar. Byggir stefnandi á því, að ekki hafi komið nein önnur viðhlítandi skýring á útafakstri bifreiðarinnar. Þá sé ljóst, að félagið hafi ekki sannað, að ölvun stefnanda hafi valdið því, að bifreiðin fór út af. Beri stefndi sönnunarbyrði um þá staðhæfingu, sbr. t.d.  H. 1988:409. Þá hafi stefnandi ekki verið ölvaður, er bifreiðin fór út af, en drukkið tvær dósir af bjór, sem voru í bifreiðinni, til að lina þjáningar sínar vegna þeirra áverka, sem hann hlaut við útafaksturinn. Verði þessi skýring stefnanda á því áfengismagni, sem mældist í blóði hans, ekki tekin gild, byggir stefnandi í öðru lagi á, að þótt mælst hafi hafi í blóði hans 1,02 o/oo af áfengi, staðfesti það alls ekki, að hann hafi verið ofurölvi eða að hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við aksturinn. Í þessu sambandi bendir stefnandi á, að rannsóknir hafi sýnt, að venjulegur maður sé aðeins léttkenndur, þegar í blóði hans mælist 1o/oo af áfengi, sem þýði engan veginn, að hann sé þá ófær um að stjórna bifreið. Bendir stefnandi á, að samkvæmt ,,dönskum praxís” í þessum efnum sé það ekki fyrr en áfengi í blóði mælist 1,60 o/oo og þar yfir, að álitið sé, að áfengisáhrif geti verið höfuðorsök vátryggingaratburðar.

Stefnandi byggir jafnframt á því, að þó að hann hafi gengist undir dómsátt vegna ölvunaraksturs, leiði það ekki sjálfkrafa til þess, að hann hafi valdið slysinu með stórkostlegu gáleysi eða að hann hafi með öðrum hætti fyrirgert bótarétti sínum. Þá hafi stefnandi ekki verið fullkomlega áttaður á stað og stund 22. ágúst 1997, er hann var yfirheyrður af lögreglu, enda rúmliggjandi og á sterkum verkjalyfjum.

Stefnandi sundurliðar bótafjárhæð sem hér segir:

Tímabundið atvinnutjón, 100% í 8 mán. 250.000 x 8

kr. 2.000.000.

Þjáningabætur: rúmliggj. 1.300 x 3698/3282 x 15 d      

kr. 21.972

Batnandi með fótaferð, 700 x 3698/3282 x 240 d          

kr. 189.295

Miskabætur 4.000.000 x 3698/3282 x 20%                    

kr. 901.402

Annað fjártjón                                   

kr. 150.000

Varanleg örorka. 3.000.000 x 10 x 20%                          

kr. 6.000.000

Samtals       

kr. 9.262.669

 

Stefnandi styður dómkröfur sínar við 92. grein umferðarlaga og meginreglur vátrygginga­réttar, svo sem ákvæði 18. gr., 20. gr., 119. gr. og 120. greinar. Byggir stefnandi sérstaklega á því, að stefndi hafi sönnunarbyrði um það, að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, sem verið hafi orsök vátryggingaratburðar. Einnig vísar stefnandi, eftir því sem við á, til 2. mgr. 24. greinar skaðabótalaga.Varðandi bótafjárhæð byggir stefnandi á 1., 2., 3., 4., 5., 6. og 7. gr. skaðabótalaga. Hafi bótakröfu verið lýst fyrir hinu stefnda félagi þann 21. júní 1999 beri því þar af leiðandi að greiða dráttarvexti frá þeim degi.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Sýknukrafa stefnda er á því reist, að í tryggingarskilmálum stefnda, vegna slysatryggingar ökumanns, sé sérstaklega áskilið í 5. gr., að bótaréttur geti fallið niður, ef vátryggingartaki eða vátryggður vanrækja skyldur sínar við stjórn ökutækisins, ef tjóni er valdið af ásetningi, stórkostlegu gáleysi eða undir áhrifum áfengis, ávana- eða fíkniefna. Hafi þessi ákvæði skilmálanna fulla stoð í 18. gr., sbr. 20. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954, svo og í 124. gr. þeirra laga, þar sem hér sé um slysatryggingu að tefla.

Ljóst sé, að það hafi verið stórkostlegt gáleysi af stefnanda að takast á hendur stjórn bifreiðar í því ástandi, sem hann var. Hafi hann verið undir áhrifum áfengis við stjórn bifreiðarinnar, þegar slysið varð og talist, að minnsta kosti, ekki getað stjórnað ökutæki örugglega. Hafa verði í huga, að slysið hafi orðið um kl. 3 að morgni, en blóðsýni ekki verið tekið, fyrr en kl. 6.48, eða tæplega fjórum klukkustundum síðar. Sé því vafalaust, að þegar slysið varð, hafi áfengismagn í blóði hans verið mun meira, með samsvarandi ölvunaráhrifum. Beri þá einnig að gæta að því, að stefnandi hafi, að eigin sögn, verið mjög þreyttur og vansvefta eftir langar vökur við vinnu sína áður og skemmtan.  Samkvæmt þessu eigi að sýkna stefnda af kröfu stefnanda vegna stórkostlegs gáleysis hans.

Ljóst sé, að loftleysi beggja hjólbarða bifreiðar stefnanda, þegar komið var að henni, skýrist auðveldlega af mörgum veltum hennar á veginum og af honum. Sé þegar af þeirri ástæðu haldlaus sú skýring stefnanda, að slysið hafi stafað af því, að sprungið hafi á framhjólbarða. Hafi og stefnandi sönnunarbyrði fyrir því, að slysið hafi stafað af öðrum ástæðum en ölvun hans sjálfs.

 Þótt metið verði, að tjón stefnanda stafi eingöngu af stórkostlegu gáleysi hans, sé ljóst, að samkvæmt 18. gr. laga nr. 20/1954 bæri að lækka bætur til hans. Miðað við ölvun hans og líkamlegt ástand að öðru leyti, hafi það verið stórkostlegt gáleysi af honum að takast í bræði á hendur ökuferðina og ætti slík lækkun því að vera mjög veruleg.

IV.

Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu er ekki deilt um, að ökumannstrygging 92. gr. umferðarlaga, sem stefnandi byggir málsókn sína á, taki til tjónsatburðar, enda var bifreiðin tryggð lögbundinni ökumannstryggingu hjá stefnda, er slysið átti sér stað, og í notkun undir stjórn stefnanda. 

Af því, sem að framan er rakið, er ljóst, að stefnandi hafði neytt áfengis fyrir aksturinn frá Þingeyri umrædda nótt og jafnframt, að hann hafði þá verið vakandi í rúman sólarhring. Stefnandi gekkst undir viðurlagaákvörðun í Héraðsdómi Vestfjarða 15. desember 1997 vegna ölvunar við akstur greint sinni. Viðurkenndi stefnandi þá að hafa ekið umræddri bifreið sinni undir áfengisáhrifum með þeim afleiðingum, að hún fór út af veginum og valt. Stefnandi vefengdi ekki niðurstöðu alkóhólrannsóknar, 1,02 o/oo, og kvaðst ekki hafa neytt áfengis eftir að akstri lauk og þar til honum var tekið blóðsýni til rannsóknar á alkóhólinnihaldi. Við aðalmeðferð málsins kvaðst stefnandi hafa neytt innihalds tveggja dósa af áfengum bjór eftir slysið til að lina þjáningar sínar. Gaf stefnandi þá skýringu á framburði sínum um eftirfarandi áfengisneyslu, að hann hefði skammast sín fyrir hana.

Að mati dómsins er hinn síðbúni framburður stefnanda um eftirfarandi áfengisneyslu ótrúverðugur. Ber því við úrlausn málsins að miða við, að stefnandi hafi ekki neytt áfengis eftir að akstri lauk, svo sem hann staðhæfði fyrir dómi 15. desember 1997.

Stefnandi skýrði svo frá við yfirheyrslu hjá lögreglu 22. ágúst 1997, að hann hefði verið orðinn mjög þreyttur eftir langar vökur, er hann ók frá Þingeyri um nóttina. Félagar stefnanda, Bjarki Þór Hannesson, Sæmundur Bjarni Guðmundsson og Ólafur Ágúst Agnarsson, voru yfirheyrðir af lögreglu, en komu ekki fyrir dóm. Bjarki Þór greindi svo frá, að stefnandi hefði augljóslega verið undir áfengisáhrifum og mjög þreyttur, er hann ók frá Þingeyri um nóttina og hafi þeir félagar hans neitað að fara með honum í þessu ástandi. Sæmundur Bjarni kvað stefnanda hafa orðið æstan, er vitnið mótmælti því, að hann æki frá Þingeyri og gert sig líklegan til að slást við vitnið vegna þessa. Hafi félagar hans sagt honum, að þeir myndu ekki fara með honum. Ólafur Ágúst kvað stefnanda hafa krafist þess um nóttina að fá að aka bifreiðinni. Hafi stefnandi verið ósofinn og sljór af þeim sökum sem og áfengisneyslu. Þá hafi stefnandi orðið nokkuð æstur, er  félagar hans neituðu honum um að aka bifreiðinni. Fram kom hjá þeim öllum, að þeir hefðu haldið heim á leið fótgangandi eftir að stefnandi ók brott.

Samkvæmt 5. gr. tryggingarskilmála stefnda vegna slysatryggingar ökumanns getur réttur til vátryggingabóta fallið niður samkvæmt lögum um vátryggingasamninga,  vanræki vátryggingartaki eða vátryggður skyldur sínar við stjórn ökutækisins, til dæmis með því að valda tjóni af ásetningi, stórkostlegu gáleysi eða undir áhrifum áfengis. Verður að telja, að þessi ákvæði skilmálanna hafi fulla stoð í 18. og 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga.

Fyrir liggur í málinu, að stefnandi ók bifreið sinni greint sinn eftir að hafa neytt áfengis. Þar sem stefnanda var ekki tekið blóðsýni fyrr en tæpum fjórum klukku­stundum eftir að slysið varð, er ljóst, að áfengismagn í blóði hans hefur verið talsvert meira, er tjónsatburður átti sér stað, en mældist samkvæmt niðurstöðu rannsóknar. Miðað við hve langur tími leið frá slysinu og þar til stefnanda var tekið bóðsýni og að leggja ber til grundvallar samkvæmt framansögðu, að hann hafi ekki neytt áfengis eftir að akstri lauk, verður að telja yfirgnæfandi líkur á því, að áfengismagn í blóði hans hafi verið um eða yfir efri mörkum samkvæmt 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga, er aksturinn átti sér stað. Þegar svo háttar til, telst ökumaður óhæfur til að stjórna ökutæki. Þar við bætist, að stefnandi hafði vakað samfleytt í rúman sólarhring fyrir aksturinn. Enn fremur verður ekki litið fram hjá þeirri staðreynd, að fyrrgreindir félagar stefnanda mátu ástand hans þannig, að þeir neituðu að þiggja far með honum. Verður því að telja, að stefnandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að takast á hendur akstur bifreiðarinnar greint sinn í því ásigkomulagi, sem hann þá var, bæði ölvaður og svefnlaus, og jafnframt, að orsök slyssins verði rakin til þess. Þykir ekkert það fram komið í málinu, sem stutt geti framburð stefnanda um, að útafaksturinn hafi stafað af því, að sprungið hafi á hjólbarða bifreiðarinnar.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður falli niður. 

Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Óskars Andra Sigmundssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.