Hæstiréttur íslands

Mál nr. 318/2011


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Umgengni
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 15. desember 2011.

Nr. 318/2011.

M

(Bjarni G. Björgvinsson hrl.

Gísli M. Auðbergsson hdl.)

gegn

K

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.

Valgerður Valdimarsdóttir hdl.)

Börn. Forsjá. Umgengi. Gjafsókn

M og K deildu um forsjá og umgengni við dóttur þeirra A. Þar sem ekki lá annað fyrir en að K hefði sinnt forsjárskyldum sínum gagnvart A með ágætum og ekkert lá fyrir um að forsjárhæfni M væri betri en K var ekki fallist á að forsjá A skyldi færast frá K til M. Ekki var fallist á kröfu K um að A yrði ávallt hjá henni á aðfangadag, enda væri það í andstöðu við venjur sem skapast hefðu í forsjármálum. Þá var ekki talið að fjarlægð milli dvalarstaða M og K væri slík að umgengni M við A skyldi einungis vera þriðju hverja helgi í stað annarrar hvorrar helgar. Kröfu M um að hann fengi að ferðast til heimalands síns með A meðan á umgengni stæði var hafnað. Vísað var til þess að á meðan ekki ríkti betra traust milli aðila væri varhugavert að fallast á beiðnina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. maí 2011. Hann krefst þess að sér verði falin forsjá barns síns og stefndu, A, fæddrar árið [...], til 18 ára aldurs hennar. Þá krefst hann þess að stefndu verði gert að greiða einfalt meðlag með barninu frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þess. Hann krefst þess einnig að kveðið verði á um inntak umgengni barnsins við það foreldri, sem fái ekki forsjá, en komi hún í hlut stefndu verði sérstaklega mælt fyrir um heimild hans til að fara með barnið úr landi meðan umgengni standi yfir. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð, en um þann málskostnað og gjafsóknarkostnað stefndu fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, M, greiði 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 20. apríl 2011.

Mál þetta, sem höfðað var 7. september 2010 og þingfest sama dag, var tekið til dóms að aflokinni aðalmeðferð 6. apríl 2011.

Stefnandi er M, [...],[...].

Stefnda er K, [...], [...].

Stefnandi krefst þess að honum verði dæmd forsjá dótturinnar A, kt. [...] til 18 ára aldurs hennar, að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda einfalt meðlag með dótturinni og að dómurinn ákveði inntak umgengni þess foreldris sem ekki fái forsjá barnsins. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefnda krefst þess að kröfum stefnanda verði hafnað og að henni verði áfram falin forsjá dóttur aðila til 18 ára aldurs hennar. Þá krefst hún þess að stefnanda verið gert að greiða með barninu tvöfalt lágmarksmeðlag, eins og verið hafi, frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs barnsins. Einnig krefst hún þess að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fái forsjá barnsins. Loks krefst hún málskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar skýrslur en vitni voru ekki leidd.

I

Við þingfestingu málsins þann 7. september 2010 fékk stefnda frest til að skila greinargerð og gerði það 5. október sama ár. Málið var næst tekið fyrir 19. október 2010 og lagði stefnandi þá fram kröfu um að honum yrði falin forsjá dóttur málsaðila til bráðabirgða o.fl. meðan á rekstri málsins stæði. Stefnda skilaði greinargerð um þennan þátt málsins 2. nóvember sama ár og var málinu frestað til flutnings um þennan ágreining til 24. sama mánaðar. Áður en til þess málflutnings kæmi óskuðu aðilar eftir fresti utan réttar til að leita sátta. Fyrir lá í byrjun mars að sættir tækjust ekki og boðaði dómari til þinghalds 15. mars 2011 þar sem ákveðinn var tími til flutnings um kröfur málsaðila til bráðabirgða. Þá var einnig bókað um áskorun dómara til aðila um að leggja fram matsbeiðni í málinu teldu þeir nauðsyn á því. Utan réttar tilkynntu aðilar dómara að þeir hygðust ekki óska dómkvaðningar matsmanns. Þótti því ekkert til fyrirstöðu að flytja málið efnislega og var það gert þann 6. apríl en þann dag tóku sérfróðir meðdómendur sæti í dómnum. Voru sættir reyndar við aðalmeðferð en án árangurs.

II

Málsaðilar eiga saman dótturina A sem fædd er [...]. Í stefnu er málsatvikum lýst svo að málsaðilar hafi um skeið verið í óvígðri sambúð og hafi barnið fæðst á sambúðartíma. Við slit sambúðarinnar fyrir ári síðan hafi komið í ljós að ekki hafi verið búð að afgreiða beiðni aðila um skráningu í sambúð. Það hefði þó ekki átt að skipta máli því sambúð skuli skrá frá þeim tíma sem umsókn hafi borist. Stefnda hafi, eins og nánar verði rakið, látið eyðileggja umsóknina.

Þegar að sambúðarslitum hafi komið hafi stefnda skýrt stefnanda frá því að hún væri búin að fá tíma hjá sýslumanni 23. september 2009. Þau hafi bæði mætt í það viðtal. Þar hafi verið rætt um sameiginlega forsjá, enda hafi aðilar ekki vitað annað á þeim tíma en að þau færu sameiginlega með forsjá dótturinnar í ljósi sambúðarskráningar. Á fundinum hjá sýslumanni muni stefnda hafa skýrt stefnanda frá því að ef þau kæmust ekki að samkomulagi varðandi dótturina þá myndi hún ekki fá opinbera aðstoð frá sveitarfélaginu. Stefnda muni hafa reynt að fá stefnanda til að undirrita gögn sem hún hafi verið með en stefnandi hafi ekki viljað það þar sem hann hafi talið sig þurfa að kynna sér betur réttarstöðu sína. Til hafi staðið hjá aðilum að semja um áframhaldandi sameiginlega forsjá og lögheimili barnsins hjá stefndu.

Síðar sama dag hafi stefnda hringt í stefnanda og hafi sagst vera með fréttir sem honum myndi ekki líka. Hún hafi neitað að skýra honum frá því í símann hvað um hafi verið að ræða og hafi símtalinu lokið með því. Stefnandi hafi hringt aftur í stefndu og hafi beðið hana að skýra sér frá því hvað hún væri að tala um. Þá hafi hún sagst hafa rætt við Þjóðskrá  vegna umsóknar þeirra um að skrá sig í sambúð. Henni hafi verið skýrt frá því að ekki væri búið að skrá þau í sambúð þar sem ekki hefðu borist pappírar til að staðfesta að stefnandi væri ekki í hjúskap. Stefnda hafi skýrt stefnanda frá því að hún hafi óskað eftir því að umsóknin um skráningu í sambúð yrði eyðilögð þar sem skráning í sambúð væri ekki lengur nauðsynleg.

Stefnandi hafi orðið undrandi yfir þessum tíðindum. Hann hafi síðar komist að því að starfsmaður sýslumannsins á [...] hafi ráðlagt stefndu að ræða við Þjóðskrá, hugsanlega eftir að hafa séð að þau hafi ekki verið skráð í sambúð þó umsóknin væri farin frá þeim. Eftir því sem stefnandi hafi komist næst muni þessi starfsmaður hafi verið gift enskum manni, átt erfiða reynslu að baki og hafi tekið það upp hjá sjálfri sér að ráðleggja stefndu í þessu efni. Hver hafi eyðilagt umsóknina að beiðni stefndu hafi ekki enn fengist skýring á. Enn sé einnig óskýrt af hverju stefnandi hafi aldrei verið látinn vita að til að unnt væri að ljúka skráningu í sambúð þyrfti viðbótargögn. Samkvæmt vinnureglu þjóðskrár miðist upphafstími skráðrar sambúðar frá þeim tíma sem umsókn sé móttekin.

Stefnandi sé að vonum ósáttur með þessa þróun mála því hún hafi orðið til þess að í staðinn fyrir að aðilar væru með sameiginlega forsjá yfir dótturinni við samvistarslit þeirra hafi stefnda ein farið með forsjána og stefnandi hafi engin úrræði átt í því sambandi. Þegar aðilar hafi ákveðið að skrá sig í sambúð hafi þau bæði verið með lögheimili að [...], [...].

Þessi þróun mála hafi orðið til þess að stefnda hafi notfært sér stöðuna og hafi strax næsta dag 24. september 2009 flutt með dótturina í þá íbúð sem hún hafi fengið með aðstoð sveitarfélagsins.

Nú sé liðið tæpt ár frá því að stefnda með gerræðislegum hætti hafi svipt stefnanda rétti til sameiginlegrar forsjár. Sá tími sem liðinn sé hafi að mati stefnanda sýnt að forsjárhæfni stefndu megi draga í efa. Erfiðlega hafi gengið með umgengni og öll samskipti hafi verið erfið. Stefnda vilji skipta sér af hvar stefnandi sé með dótturina í umgengni, hverja hann umgangist þegar dóttirin sé hjá honum og skammta þann tíma sem dóttirin sé hjá honum. Henni hafi til dæmis fundist sjálfsagt að hún hefði dótturina samfellt í fjórar vikur í sumarumgengni í sumar en að stefnandi fengi eingöngu að hafa dótturina í tvær vikur í senn. Þá telji stefnandi alvarlegt hvernig stefnda hafi lagt konu, sem stefnandi sé í sambandi við, í einelti, svo mjög að ekki hafi verið hjá því komist að kæra það til lögreglu.

Stefnda hafi verið mjög ósamvinnuþýð varðandi umgengni, eins og áður hafi verið rakið og öll samskipti gengið illa. Hún hafi alfarið hafnað sáttameðferð á vegum sýslumanns, eftir að hafa upphaflega samþykkt hana. Nýlega hafi verið kveðinn upp úrskurður um umgengni sem stefnandi geti með engum hætti fellt sig við. Þar sé að mjög litlu leyti fallist á hans tillögur og ekkert tillit tekið til þess að hann eigi sína fjölskyldu í [...] og að dóttirin sé hálfensk og eigi því föðurland og föðurfólk sem hún hafi rétt á að kynnast og vera með.

Í ljósi stöðu mála og ekki síður forsögu málsins telji stefnandi sig knúinn til að leita til dómstóla og hnekkja forsjá stefndu, forsjá sem stefnda hafi komið á með því að fá opinbera aðila í heimildarleysi til að eyðileggja umsókn þeirra um skráningu í sambúð. Sú háttsemi stefndu hafi valdið stefnanda alvarlegum réttindamissi þegar komi að honum og dótturinni.

Í greinargerð stefndu kemur fram að hún telji nauðsynlegt að bæta nokkuð við málavaxtalýsingu stefnanda. Aðilar hafi kynnst í mars 2007 og hafi dóttir þeirra fæðst meðan á sambandinu hafi staðið, nánar tiltekið 29. september 2008. Aðilar hafi ekki verið skráðir í sambúð við fæðingu barnsins og hafi stefnda þannig farið ein með forsjána frá fæðingu þess og geri enn. Stefndi hafi gengist við barninu með undirritun sinni á faðernisviðurkenningu nokkru eftir fæðingu þess, nánar tiltekið 10. mars 2009. Á meðan sambandi aðila hafi staðið eftir fæðingu barnsins hafi aðilar vissulega rætt um að skrá sig í sambúð og hafi sent inn umsókn um skráningu sem hafi hins vegar ekki gengið í gegn, m.a. þar sem stefnandi hafi ekki lagt fram tilskilin gögn um hjúskaparstöðu sína, sem verið hafi forsenda þess að unnt væri að ganga frá skráningunni. Aðilar hafi þannig ekki verið í skráðri sambúð þegar sambandi þeirra hafi lokið nokkru síðar um það leyti sem stúlkan hafi verið eins árs. Hafi aðilar þá mætt til sýslumanns til að ganga frá málefnum varðandi barnið, hvernig haga skyldi forsjá, umgengni, meðlagsgreiðslum o.s.frv. Stefnda hafi frá upphafi verið viljug til að fara sameiginlega með forsjá barnsins en samskipti aðila hafi hins vegar verið orðin það erfið í sambandinu og enn frekar í kjölfar sambandsslitanna að hún hafi talið þá forsjártilhögun ekki eiga við. Hafi hún talið að betri reynsla yrði að komast á samskiptin og samvinnu milli aðila varðandi barnið þannig að hún treysti sér til að semja um slíkt fyrirkomulag.

Stefnda hafi frá fæðingu barnsins verið sá aðili sem aðallega hafi sinnt ummönnun þess og hafi verið heima í því skyni. Stefnandi hafi hins vegar unnið mikið og hafi komið mun minna að uppeldi barnsins og umönnun á meðan á sambandinu hafi staðið. Hann hafi verið tvær vikur í fæðingarorlofi en stefnda tæpt ár og hafi þá hafið nám við Menntaskólann á [...]. Þegar aðilar hafi slitið sambandinu hafi barnið verið tæplega eins árs. Frá þeim tíma hafi stefnda alfarið séð um daglega umönnun barnsins en stefnandi hafi umgengst það með reglubundnum hætti. Þar til í febrúar sl. hafi aðilar búið hvort í sínu bæjarfélaginu á [...], stefnandi á [...] og stefnda á [...] og barnið hafi verið í leikskóla umgengni verið með nokkuð hefðbundnu sniði. Í úrskurði sýslumannsins á [...], 3. ágúst 2010, hafi verið úrskurðað um umgengni stefnanda við barnið sem fari fram aðra hverja helgi. Sé sú umgengni sem þar sé ákveðin með úrskurði hafi verið að öllu leyti eðlileg að mati stefndu, m.a. með aldur barnsins í huga, aðstæður og búsetu aðila. Við meðferð umgengnismálsins hafi stefnda lýst því yfir að hún myndi vera sveigjanleg varðandi umgengnina en teldi hins vegar best að ákveðin festa ríkti um umgengnina af tilliti til hagsmuna barnsins og samskiptavanda aðila. Stefnda hafi tjáð stefnanda að með auknum aldri barnsins og ef samskipti aðila breytist til batnaðar megi vissulega endurskoða tilhögun umgengni.

Barnið hafi verið hjá dagmóður frá 11 mánaða aldri en hafi byrjað í leikskólanum [...] 23. ágúst 2010. og sé vistunartími frá klukkan 9 til 16. Barninu líði vel í leikskólanum og aðlögunin hafi gengið vel. Þar sem stefnda sé mikið til heima við geti hún sótt barnið snemma og sinnt þörfum þess á allan hátt eins og best verði á kosið. Stefnda hafi kynnst öðrum manni og hafi þau eignast barn í desember 2010. Hún telji aðstæður sínar til uppeldis og umönnunar barnsins á allan hátt viðunandi. Hún stefni að því að stytta vistunartíma barnsins í leikskólanum þar sem hún verði þá heima í fæðingarorlofi með yngra systkini þess.

Í málinu geri stefnandi kröfur um að hann fái forsjá barnsins einn en á það geti stefnda engan veginn fallist af tilliti til hagsmuna barnsins sem sé nátengt henni og hafi frá upphafi notið hennar umönnunar.

Frá því stefna og greinargerð í málinu voru ritaðar hefur orðið sú breyting á högum málsaðila að stefnandi hefur flutt til Reykjavíkur þar sem hann býr nú einn í leiguíbúð þar sem A hefur sitt eigið herbergi. Hann kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi ekki vera í sambandi. Hann lýsti því einnig að hann væri í öruggri vinnu og hefði góðar tekjur. Hann hefði vilyrði fyrir því frá vinnuveitanda sínum að hann fengi svigrúm varðandi vinnutíma fengi hann forsjá dóttur sinnar. Umgengni mun hafa gengið eðlilega fyrir sig með því að hann hafi komið fljúgandi austur og hafi tekið á móti barninu á flugvelli á [...] og síðan flogið með henni beint til baka.

Stefnda eignaðist barn með sambýlismanni sínum í desember sl. Lýsti hún því svo að þau byggju nú í þriggja herbergja íbúð í eigu sambýlismannsins og að A ætti þar sitt eigið herbergi. Stefnda kvað þetta vera fyrsta barn sambýlismanns hennar og einnig kom fram hjá henni að hann ætti í góðu sambandi við A.

III

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á 1. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, en hann telji að þegar til framtíðar sé litið sé það dóttur málsaðila fyrir bestu að honum verði falin forsjá hennar. Stefnandi telji að sá ágreiningur um dótturina sem verið hafi nánast óslitið milli aðila frá samvistaslitum í september 2009 sýni að stefnda hafi mikla tilhneigingu til að ráðskast með barnið og beita umgengnistálmunum þegar hún fái ekki sínu framgengt. Þá telji stefnandi að sú háttsemi stefndu að gefa fyrirmæli um að eyðileggja umsókn þeirra um skráða sambúð sýni að hún láti ekkert stoppa sig til að ná sínu fram.

Stefnandi sé Englendingur og eigi fjölskyldu á Englandi. Hann telji mikilvægt að dóttirin fái að kynnast enskum uppruna sínum, ekki síður en þeim íslenska. Stefnandi telji litlar líkur á því að hann fái nokkru sinni að fara með dótturina til Englands til að hitta föðurfjölskyldu sína verði forsjá dótturinnar hjá stefndu. Stefnandi telji afstöðu stefndu til ferðalaga hans með hana eiga að vega þungt við meðferð þessa máls fyrir dómstólum. Það sé lögvarinn réttur dótturinnar að þekkja bæði íslenskan og enskan uppruna sinn. Þeim enska kynnist hún best með því að fá að fara með stefnanda til Englands í heimsóknir til að hitta föðurfólk sitt. Eins og mál þetta blasi við stefnanda telji hann litlar líkur á því að stefnda samþykki nokkurn tíma að hann fari með dótturina til Englands í heimsóknir, sama hversu gömul hún verði.

Allar aðstæður stefnanda séu góðar. Hann búi í góðu húsnæði og hafi prýðilegar aðstæður til að ala dóttur sína upp og veita henni góðar heimilisaðstæður. Hann sé í góðri og öruggri vinnu. Stefnandi telji tengsl sín og dótturinnar góð og náin, enda hafi hann verið umhyggjusamur faðir meðan á sambúðinni hafi staðið. Hann hafi sinnt umgengni sinni við dótturina eins vel og hann hafi fengið fyrir stefndu. Hann hafi viljað hafa umgengnina jafnari en stefnda hafi eingöngu viljað samþykkja lágmarksumgengni eins og gögn málsins beri með sér og hafi lagst gegn næturgistingu.

Stefnandi telji stefndu þannig hafa sýnt háttsemi sem veki áhyggjur um það með hvaða hætti hún muni í framtíðinni sinna rétti bæði barnsins og stefnananda til umgengni. Stefnandi telji háttsemi hennar einkennast af tilburðum til að tálma umgengni. Þessa háttsemi telji stefnandi ekki boða gott varðandi framhaldið.

Stefnandi telji það vera dóttur sinni fyrir bestu að honum verði falin forsjá hennar til 18 ára aldurs.

Verði fallist á kröfu stefnanda geri hann kröfu um að stefndu verði gert að greiða honum meðlag með dótturinni frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs, sbr. 4. mgr. 34. gr. og 54. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Þá geri stefnandi einnig kröfu, hvernig sem niðurstaða forsjármálsins verði, að dómurinn ákveði inntak umgengni dótturinnar og þess foreldris sem fái ekki forsjá hennar.

Stefnandi telji eðlilegt og barninu fyrir bestu að regluleg umgengni verði sem jöfnust og að lágmarki frá fimmtudegi til þriðjudags. Varðandi sumarleyfi telji stefnandi lágmark að dóttirin sé í fjórar vikur hjá hvoru foreldri, samfellt hjá báðum eða þá skipt hjá báðum. Stefnandi telji eðlilegt að tímabilið frá 23. desember til 2. janúar skiptist annaðhvort að jöfnu þannig að annað árið fái hann bæði aðfangadag og jóladag en hitt árið gamlársdag og nýársdag. Slíkt fyrirkomulag umgengni myndi auðvelda honum að fara yfir jól eða áramót með dótturina til Englands. Stefnandi telji eðlilegt að tímabilið frá föstudegi fyrir Pálmasunnudag til annars dags páska víxlist þannig að hann fái telpuna þennan tíma annað árið en stefnda hitt árið.

Við munnlegan málflutning ítrekaði stefnandi fyrrgreindar kröfur. Þá hafnaði hann alfarið sjónarmiðum stefndu um að í ljósi breyttra aðstæðna ætti regluleg umgengni að fara fram þriðju hverja viku og taldi að með því myndi líða of langur tími milli samskipta hans og dóttur hans og að það myndi ekki hafa góð áhrif á samskipti þeirra. Var byggt á því af hálfu stefnanda að tími sem hann eyði með dóttur sinni í klukkustundar flugferð milli [...] og Reykjavíkur séu gæðastundir og að þarna gefist honum mun betra færi á að eiga samskipti við dóttur sína en þegar hann hafi sótt hana á bifreið. Um umgengniskröfu kveðst stefnandi vísa til 4. mgr. 34. gr. og 46. gr. barnalaga. Stefnandi byggði og á því að honum væri mikilvægt að í dómi yrði kveðið á um rétt hans til að fara með dóttur sína í ferðalög erlendis, en lagði aðaláherslu á að heimila yrði honum að ferðast með dótturina til Bretlandseyja en þar búi fjölskylda hans.

Málskostnaðarkrafa stefnanda er í stefnu sögð byggð á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. aðallega 130. gr. Krafa um að tekið sé tilliti til áhrifa virðisaukaskatts við ákvörðun málflutningsþóknunar byggi á lögum nr. 50/1988 þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsynlegt að fá kostnað vegna skattsins tildæmdan úr henda stefndu.

IV

Stefnda kveðst í greinargerð sinni byggja kröfu sína um að henni verði áfram falin forsjá A til 18 ára aldurs hennar á því að það sé barninu fyrir bestu, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Stefnda telji hagsmuni stúlkunnar vera best tryggða með því að hún lúti áfram hennar forsjá og sé búsett hjá henni. Hún hafi annast stúlkuna að langmestu leyti frá fæðingu hennar  og mæðgurnar séu tengdar sterkum og órjúfanlegum böndum. Stefnda hafi verið með stúlkuna á brjósti í 11 mánuði og stúlkan þekki ekkert annað en að hafa aðallega notið umönnunar móður sinnar. Stefnda hafi verið heima við og hafi sinnt stúlkunni en stefnandi hafi verið útivinnandi meðan á sambandi þeirra hafi staðið. Stefnda hafi svo hafið nám í [...] haustið 2009 og hafi stúlkan þá farið í dagvistun. Um svipað leyti hafi aðilar slitið sambandi sínu og hafi stúlkan frá þeim tíma búið hjá stefndu en farið í umgengni við stefnanda. Stúlkan þekki þannig ekkert annað en að stefnda sjái um daglega umönnun hennar.

Eins og fram hafi komið sé stúlkan nú á leikskóla og gangi það vel og hún sé í góðu jafnvægi, vel snyrt og eðlileg. Daglegur aðbúnaður og umönnun barnsins sé á allan hátt fullnægjandi og barnið hafi það gott og búi við gott atlæti. Í málatilbúnaði stefnanda sé látið að því liggja að stefnda sé ekki hæfur forsjáraðili. Þessu sé sérstaklega mótmælt af hálfu stefndu. Hún telji þvert á móti persónulega eiginleika sína gera hana að mjög hæfum forsjáraðila. Stefnda sé hraust og reglusöm og hafi góða innsýn í tilfinningalegar og daglegar þarfir barnsins. Barnið sé mjög hænt að henni og megi ekki af henni sjá. Fram kom við aðalmeðferð málsins að stefnda sé nú í fæðingarorlofi en stundi einnig nám við [...] og hyggi á frekara nám að loknu fæðingarorlofi. Stefnda hafi í desember sl. eignast barn með sambýlismanni sínum og þau búi nú saman ásamt börnunum í íbúð hans sem sé í göngufæri frá leikskóla stúlkunnar. Stefnda telji ekki annað koma til greina en að stúlkan verði þátttakandi í lífi nýja barnsins og að börnin alist upp saman séu aðeins rúmlega tvö ár á milli þeirra. Stúlkan eigi þegar í góðum samskiptum við litla bróður sinn. Hún sé hænd að unnusta stefndu og samskiptin á milli þeirra gangi í alla staði vel. Foreldrar unnusta stefndu búi í nágrenni heimilisins og samskiptin á milli heimilanna séu góð. Stefnda eigi góða að, bæði vini og ættingja, og njóti þannig góðs stuðnings og velvilja margra ef á þurfi að halda varðandi barnið. Það liggi ekkert annað fyrir en að stefnda sé mjög hæfur forsjáraðili og reynist barninu í alla staði vel. Gögn málsins styðji það álit stefndu.

Stefnda telji engin rök standa til þess að núverandi forsjárskipan verði breytt. Það myndi að hennar mati þvert á móti hafa í för með sér verulega breytingu fyrir barnið sem væri ekki áhættunnar virði. Slík röskun á högum barnsins gæti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar á sálarlíf þess og öryggistilfinningu. Að mati stefndu virðist málatilbúnaður stefnanda byggjast á því að aðilar hafi átt að fara sameiginlega með forsjá barnsins. Þar sem sú staða sé ekki fyrir hendi hafi hann höfðað mál þetta á hendur henni. Vegna þessa bendi stefnda á að samkvæmt lögum sé ekki unnt að þvinga fram sameiginlega forsjá gegn vilja annars foreldris. Þá sé það grundvallarforsenda fyrir því að sameiginleg forsjá barns gangi upp að aðilar eigi góða samvinnu og geti rætt saman um mikilvægustu málefnin sem varði barnið. Sú staða sé engan veginn fyrir hendi milli málsaðila sem greini á um flest það sem lúti að barninu og því hafi m.a. þurft að úrskurða um umgengni stefnanda við barnið þar sem stefnda hafi ekki getað fallist á þau skilyrði sem hann hafi sett fram. Stefnda hafi margoft tjáð stefnanda að það sé einlæg ósk hennar að aðilar geti verið samstíga og rætt saman málefni barnsins. Það hafi hins vegar ekki gengið og hún telji stefnanda hafa verið afar ósveigjanlegan, reiðan og erfiðan í hennar garð.

Stefnda hafni þeirri kröfu stefnanda að dæmt verði að honum sé heimilt að taka barnið úr landi. Að mati stefndu sé ekki lagaheimild til að taka slíka kröfu til greina enda geri barnalög ráð fyrir að samþykki stefndu fyrir utanlandsferðum þurfi að liggja fyrir fari stefnda með forsjá. Það sé meira að segja svo að fari aðilar sameiginlega með forsjá barns geti annar aðilinn ekki farið með barn úr landi án samþykkis hins. Þessi krafa stefnanda standist þannig ekki. Stefnda sé hins vegar sammála því að barnið þurfi að kynnast erlendum uppruna sínum og arfleifð þar sem föðurfjölskylda þess sé erlend. Hún muni ekki standa því í vegi. Hins vegar telji stefnda barnið of ungt að árum til að fara til útlanda sem stendur en með auknum aldri og þroska sé það sjálfsagt mál. Hún telji að aðilar þurfi að ræða saman og ná samkomulagi um slíkar ferðir þegar barnið eldist.

Allar ávirðingar í málatilbúnaði stefnanda telji stefnda ekki svaraverðar og ótengdar hvað sé barninu fyrir bestu svo sem að hún leggi konu sem stefnandi séu nú í sambandi við í einelti.

Verði fallist á kröfu stefndu um að hún fari áfram með forsjá barnsins hafi hún sýnt í verki fram að þessu að hún komi ekki í veg fyrir umgengni stefnanda við barnið eins og hann ýji að í sínum málatilbúnaði. Stefnda hafi að öllu leyti virt umgengnisrétt stefnanda og hafi jafnframt tekið fram að hún telji eðlilegt að umgengni aukist með auknum aldri og þroska barnsins, sérstaklega ef samskipti aðila batni. Hún geri sér grein fyrir mikilvægi samskipta barnsins við föður sinn og muni hvetja til þeirra en telur að taka þurfi mið af aðstæðum og hagsmunum barnsins hvað það varði. Sem standi sé best fyrir barnið að ákveðin regla ríki varðandi umgengnina þannig að daglegt skipulag barnsins raskist sem minnst.

Með vísan til alls framangreinds telji stefnda ljóst að það sé barninu fyrir bestu að hún fari með forsjá þess enda engar þær ástæður fyrir hendi sem réttlætt geti kröfur stefnanda.

Verði stefndu falin forsjá geri hún kröfu um að umgengni stefnanda við barnið sem úrskurðað hafi verið um hjá sýslumanninum á [...] 3. ágúst sl. haldist óbreytt utan að í ljósi þess að aðstæður stefnanda séu breyttar með þeim hætti að hann sé nú fluttur til Reykjavíkur telji hún að umgengni eigi að vera þriðju hverja helgi en ekki aðra hverja. Kveðst hún telja að þegar barnið þurfi að fljúga til Reykjavíkur þá sé meira rask af umgengninni og að hennar mati betra að um lengri tíma í einu sé að ræða. Sérstaklega taki stefnda fram að hún hafni þeirri tilhögun á umgengni sem stefnandi geri kröfu um yfir jól og áramót (að barnið dvelji alltaf hjá öðru hvoru foreldri sínu öll jólin og áramótin). Stefnda telji nauðsynlegt fyrir barnið að vera eitthvað hjá báðum foreldrum sínum yfir hátíðarnar enda slíkt í samræmi við venjur í umgengnismálum. Einnig telji stefnda mikilvægt að barnið fái að vera að hluta til hjá henni ásamt yngra systkini sínu yfir hátíðarnar. Við aðalmeðferð málsins kom einnig fram sú afstaða stefndu til sumarumgengni að henni þætti betra að næsta sumar yrði umgengnin með þeim hætti að henni væri skipt í tvisvar tvær vikur en kvaðst einnig tilbúin að fallast á þrjár og eina viku og einnig kvaðst hún fella sig við að á næsta ári yrði sumarumgengni samfelldar fjórar vikur. Hins vegar lagði hún áherslu á að vegna reglna leikskóla yrði stefnandi að lýsa því yfir fyrir 15. mars á hvaða tíma hann óskaði eftir sumarumgengni.

Stefnda byggi kröfu sína um tvöfalt meðlag úr hendi stefnanda með barninu á framfærsluskyldu foreldra, sbr. 53. gr. barnalaga og lágmarksmeðlagsskyldu forsjárlauss foreldris samkvæmt 57., sbr. 55. gr. laganna. Um heimild dómara til að kveða á um meðlagsskyldu í málinu vísi stefnda til 4. mgr. 34. gr. laganna. Fyrir liggi samkomulag milli aðila um að stefnandi greiði tvöfalt meðlag með barninu. Stefnda telji enga ástæðu til að breyta því fyrirkomulagi enda stefnandi vel aflögufær um greiðslu þess.

Krafa um málskostnað byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggi á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefnda sé ekki virðisaukaskattskyld og sé henni því nauðsyn á að fá skattinn tildæmdan.

Stefndu var veitt gjafsókn með gjafsóknarleyfi 4. október 2010, sem takmarkað var við tilgreinda fjárhæð en sú fjárhæð var hækkuð með gjafsóknarleyfi 6. apríl 2011.

V

Þegar foreldra greinir á um forsjá barns skal dómur kveða á um hjá hvoru foreldra forsjá barns verði, eftir því sem barni er fyrir bestu, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Við mat á þessu ber að líta til allra þátta sem varða hagsmuni barnsins og hvernig þeim verður best borgið. Er þá litið til persónulegra eiginleika foreldra, tengsla foreldra við barn, atriða er varða daglega umsjá og umönnun barnsins, sjónarmiða er lúta að tengslum barnsins við systkini, húsnæðismál, liðsinni vandamanna og hvað séð verður um líkindi þess að það foreldri sem forsjá fær sé líklegt til að virða rétt barnsins til umgengni við hitt foreldrið, sem og önnur sjónarmið sem gerð er grein fyrir í athugasemdum við tilvitnaða lagagrein í frumvarpi því sem varð að barnalögum nr. 76/2003.

Samkvæmt framansögðu eru það hagsmunir barnsins sem eru í forgrunni. A er fædd 29. september 2008 og er því rétt rúmlega tveggja og hálfs árs að aldri. Á heimili hennar og stefndu býr einnig sambýlismaður stefndu ásamt rúmlega þriggja mánaða syni hans og stefndu. Stefnandi býr einn í leiguíbúð í Reykjavík. Fram er komið að A hefur sitt eigið herbergi á báðum heimilum. Fram kom í aðilaskýrslum beggja fyrir dómi að þeir telji hitt gott foreldri og ekkert liggur fyrir í málinu sem gefið geti vísbendingar um að aðbúnaði stúlkunnar sé, eða hafi verið, á nokkurn hátt ábótavant hjá öðru hvoru þeirra. Hins vegar liggur einnig fyrir að foreldrar hennar hafa átt við mikinn samskiptavanda að stríða en í skýrslum þeirra beggja kom fram að þau hefðu fullan hug á að bæta samskipti sín. Er það mat dómsins að það væri augljóslega til hagsbóta fyrir barnið að foreldrar þess gætu átt hnökralaus samskipti og verður að telja sameiginlega ábyrgð þeirra að stíga afdráttarlaus skref í þá átt að svo geti orðið. Dómurinn telur æskilegt að foreldrar leiti sér ráðgjafar hjá sálfræðingi til að auðvelda og bæta samskipti sín.

Eins og fyrr segir er A ekki orðin þriggja ára gömul. Fyrir liggur að þegar hún fæddist bjuggu foreldrar hennar saman og lauk þeirri sambúð um haustið þegar A var um það bil eins árs. Stefnandi hefur ekki mótmælt því að stefnda hafi á sambúðartíma þeirra aðallega annast barnið og hafi verið heima en hann hafi verið í vinnu. Hann hefur heldur ekki mótmælt því að hann hafi einungis tekið sér tveggja vikna fæðingarorlof. Frá samvistarslitum málsaðila hefur barnið verið í umsjá stefndu en stefnandi hefur notið umgengnisréttar. Ekki liggur annað fyrir en að stefnda hafi sinnt forsjárskyldum sínum gagnvart A með ágætum og bar stefnandi ekki brigður á það í aðilaskýrslu sinni. Ekkert liggur fyrir dóminum sem rennir stoðum undir það að forsjárhæfni stefnanda sé betri en stefndu. Með hliðsjón af framangreindu hefur stefnandi að mati dómsins ekki sýnt fram á að hagsmunir A bjóði að forsjá hennar verði nú flutt frá stefndu til stefnanda. Ekki verður talið að atvik er varða réttarspjöll, sem stefnandi telur sig hafi orðið fyrir vegna þess að skráning sambúðar aðila hafi ekki átt sér stað og nánari grein er gerð fyrir hér að framan, geti haft áhrif á þessa niðurstöðu. Er því ekki tekin afstaða til þeirra í dómi þessum. Þegar af framangreindum ástæðum verður kröfu stefnanda um að honum verði falin forsjá A hafnað og jafnframt fallist á kröfur stefndu um að henni verði áfram falin forsjá stúlkunnar til 18 ára aldurs hennar.

Stefnandi hefur ekki mótmælt kröfu stefndu um að honum verði gert að greiða tvöfalt lágmarksmeðlag enda er það fyrirkomulag í samræmi við það sem verið hefur. Verður krafa stefndu í þessu veru því tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði.

Báðir aðilar hafa í málinu uppi kröfur um að dómurinn ákveði umgengni A við það foreldri sem ekki fái forsjá. Í gildi er úrskurður sýslumannsins á [...] frá 3. ágúst 2010 þar sem kveðið er á um umgengni stefnanda við A og liggur ekki annað fyrir en að aðilar hafi fylgt honum.

Ekki er ágreiningur með aðilum um að stefnandi og A skuli njóta umgengni aðra hverja páska frá miðvikudegi fyrir skírdag til annars dags páska fyrst árið 2012.

Ekki er teljandi ágreiningur um fyrirkomulag sumarumgengni og verður hér mælt fyrir um að stefnandi og A skuli njóta umgengni sumarið 2011 samtals í fjórar vikur, sem skiptist í eina viku og þrjár vikur eftir nánara samkomulagi aðila. Þar sem stutt er til sumars skal stefnda eiga forgang um val á tíma sumarið 2011. Frá og með sumri 2012 skulu stefnandi og A njóta umgengni samfellt í fjórar vikur í sumarleyfi. Skal stefnandi tilkynna fyrir 15. mars ár hvert hvaða tíma hann óskar eftir að hafa barnið, en geri hann það ekki glatar hann eftir atvikum forgangi til að velja tímabil það sumarið. Aðilar skiptist á að hafa forgang um val varðandi sumarumgengni en eins og fyrr greinir skal stefnda hafa forgang sumarið 2011 en stefnandi 2012 og svo áfram til skiptis.

Að mati dómsins eru ekki efni til að fallast á þá kröfu stefndu að A sé ávallt hjá henni á aðfangadag, enda er það fyrirkomulag í andstöðu við venjur sem skapast hafa í forsjármálum á síðustu árum. Í samræmi við þetta þykir rétt að stefnandi njóti umgengni við A önnur hver jól og áramót til skiptis. Árið 2011 skulu þau njóta umgengni frá 28. desember til 2. janúar en árið 2012 skulu þau njóta umgengni frá 23. desember til 28. desember og svo framvegis.

Fallst er á með stefnanda að flugsamgöngur milli Reykjavíkur og [...] séu með þeim hætti að ekki verði talið að það eigi að hamla eða takmarka rétt feðginanna til umgengni, enda tekur flugferð þessi aðeins um eina klukkustund. Ekki er fallist á sjónarmið stefndu um að búseta aðila, eða önnur atriði sem hún tiltekur, eigi að leiða til þess að umgengni verði aðeins þriðju hverja viku. Verður hér mælt fyrir um að umgengni verði áfram aðra hverja helgi. Með hliðsjón af því að A er enn ekki orðin þriggja ára þykir rétt að helgarumgengni verði enn um sinn frá föstudegi til sunnudags en við áramót 2011/2012 lengist tímabilið og verði frá fimmtudegi til sunnudags.

Eins og búsetu aðila er nú háttað tekur stefnandi við barninu eða skilar því á [...] á þeim dögum sem mælt er fyrir um hér að ofan og skal þetta eiga sér stað um eftirmiðdag, sem næst klukkan 16 allt eftir því hvernig flugáætlun er. Á þetta við í öllum tilvikum þegar barnið fer frá öðru foreldrinu til hins hvort sem um er að ræða reglulega helgarumgengni, sumarleyfi eða hátíðarumgengni.

Stefnandi hefur einnig krafist að dæmt verði að honum sé heimilt að fara með dóttur sína í frí til útlanda. Stefnda hefur hafnað þessari kröfu og telur dóminn ekki hafa lagaheimild til að kveða á um slíkt og að ávallt þurfi samþykki forsjárforeldris til utanlandsferða með barn. Í 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 er m.a. kveðið á um að dómara beri að kveða á um inntak umgengnisréttar barns og foreldris, eftir því sem barni sé fyrir bestu. Það er mat dómsins að meðal þeirra atriða sem heyri til inntaks umgengnisréttar sé eftir atvikum ákvörðun um hvar hans megi neyta, standi deila milli aðila um slíkt. Fyrir liggur að stefnandi er af írsku bergi brotinn og að fjölskylda hans býr í Englandi. Verður að fallast á það með honum að hagsmunir A standi til að kynnast föðurfjölskyldu sinni sem og enskum bakgrunni og menningu og að telja verði þetta grundvallarréttindi hennar. Þá er ekki ástæða til að taka undir með stefndu um að A sé enn of ung og verður þvert á móti talið að áríðandi sé að hún fái frá fyrstu tíð að kynnast sínum erlenda uppruna þannig að tungumál föður hennar verði henni tamt á sama hátt og tungumál móður hennar. Fellst dómurinn á með stefnanda að í sumar kynni að vera tímabært að A heimsækti föðurfjölskyldu sína í Englandi. Á hinn bóginn verður ekki framhjá því horft að fyrir liggur að samkomulag aðila er afar slæmt, samskipti eru í algeru lágmarki og fara eingöngu fram skriflega. Er komið fram að foreldrar heilsast ekki þegar þau hittast á flugvelli með barnið. Báðir aðilar hafi lýst vilja sínum hér fyrir dómi til að bæta samskipti sín. Það er mat dómsins að meðan ekki ríkir betra traust milli aðila sé varhugvert að fallast á framangreinda beiðni stefnanda, en það er einnig mat dómsins að nauðsynlegt sé fyrir hagsmuni barnsins að málsaðilar jafni ágreining sinn og að A fari ekki með föður sínum til Englands nema í sátt beggja foreldra. Verður kröfunni því hafnað.

Þar sem niðurstaða dóms þessa felur ekki sér breytingu á skipan forsjár og að umgengnistími lengist ekki fyrr en við næstu áramót þykir ekki ástæða til að kveða á um að áfrýjun dómsins fresti réttaráhrifum hans.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði að meðtöldum málsvarnarlaunum lögmanns hennar, Valgerðar Dísar Valdimarsdóttur hdl. sem þykja hæfilega ákveðinn að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Lögmaður stefndu hefur lagt fyrir dóminn upplýsingar um að útlagður kostnaður vegna þriggja mætinga við fyrirtökur málsins nemi samtals 29.745 krónur og kostnaður vegna flugfars lögmanns til [...] að fjárhæð 24.100 krónur.

Halldór Björnsson héraðsdómari og Álfheiður Steinþórsdóttir og Helgi Viborg sálfræðingar kveða upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefnda, K, skal fara með forsjá A, sem fædd er […], til fullnaðs 18 ára aldurs hennar.

Stefndi, M, skal áfram frá uppsögu dóms þessa, greiða með stúlkunni tvöfalt meðlag eins og það er ákvarðað hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins til 18 ára aldurs hennar.

Regluleg helgarumgengni barnsins við stefnanda skal vera frá föstudegi til sunnudags aða hverja viku fram að árámótum 2011/2012 en frá þeim tíma aðra hverja viku frá fimmtudegi til sunnudags.

Sumarleyfisumgengni barnsins við stefnanda skal sumarið 2011 skipt í einu sinni þrjár vikur og einu sinni eina viku og hefur stefnda forgang varðandi tímasetningar greini aðila á. Frá og með árinu 2012 skal sumarleyfisumgengni vera samfellt í fjórar vikur. Skal stefnandi njóta forgangs varðandi tíma annað hvert ár, fyrst sumarið 2012, að því tilskyldu að hann tilkynni stefndu óskir sínar fyrir 15. mars á hverju ári.

Barnið skal njóta umgengni við stefnanda aðra hverja páska frá miðvikudegi fyrir skírdag til annars dags páska, fyrst árið 2012.

Barnið skal njóta umgengni við stefnanda önnur hver jól frá 23. desember til 28. desember fyrst árið 2012. Þá skal barnið njóta umgengni við stefnanda önnur hver áramót frá 28. desember til 2. janúar fyrst árið 2011.

Í öllum tilvikum skal barni skilað og það sótt á [...], sem næst klukkan 16 á viðkomandi dögum, eftir því sem unnt er í samræmi við flugáætlanir.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði þar á meðal málsvarnarlaun lögmanns hennar, Valgerðar Dísar Valdimarsdóttur hdl. sem þykja hæfilega ákveðin 564.750 krónur og er virðisaukaskattur meðtalinn í þeirri fjárhæð.

Áfrýjun dóms þessa frestar ekki réttaráhrifum hans.