Hæstiréttur íslands

Mál nr. 18/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Aðilaskipti
  • Kærufrestur
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 24

 

Föstudaginn 24. janúar 2003.

Nr. 18/2003.

Aðalheiður H. Jóhannsdóttir og

Rúnar Sigvaldason

(Magnús Björn Brynjólfsson hdl.)

gegn

Byggðastofnun

(Árni Pálsson hrl.)

Ólafsfjarðarkaupstað

Stáltaki hf. og

(enginn)

Sparisjóði Ólafsfjarðar

(Árni Pálsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Aðilaskipti. Kærufrestur. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

 

Úrskurður héraðsdóms um gildi nauðungarsölu varð ekki kærður í nafni F ehf., þar sem bú félagsins hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta nokkru áður en kæra í þess nafni barst héraðsdómi. Þá hafði ekki verið sýnt fram á að fyrrum stjórnarformaður eða framkvæmdastjóri félagsins gætu notið réttar samkvæmt 130. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. til að taka við rekstri málsins. Var kærufrestur auk þess liðinn þegar tilkynning þeirra barst héraðsdómi. Var málinu samkvæmt þessu vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. janúar 2003. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. nóvember 2002, þar sem hafnað var kröfu Fiskvinnslunnar Ól ehf. um að ógilt yrði nauðungarsala á fasteigninni Pálsbergsgötu 1, Ólafsfirði, sem sýslumaðurinn á Ólafsfirði seldi við uppboð 15. maí sama árs. Um kæruheimild vísa sóknaraðilar til 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilar krefjast þess að málinu verði vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að hinum kærða úrskurði verði hrundið og nauðungarsalan ógilt. Þau krefjast einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Byggðastofnun og Sparisjóður Ólafsfjarðar krefjast aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti, en til vara að það verði fellt niður. Að því frágengnu er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Varnaraðilarnir Ólafsfjarðarkaupstaður og Stáltak hf. hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Aðalkrafa varnaraðila um frávísun málsins er á því reist að sóknaraðilar hafi ekki gætt ákvæðis 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála við framlagningu kæru í málinu. Samkvæmt gögnum málsins var hinn kærði úrskurður kveðinn upp á dómþingi Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. nóvember 2002, en í héraði var Fiskvinnslan Ól ehf. sóknaraðili málsins. Í þingbók er þess ekki getið að lögmenn aðilanna hafi þá verið staddir á dómþingi, en bókað að þeim hafi verið tilkynnt um uppsöguna með símbréfi. Þá var lögmanni sóknaraðila í héraði sendur úrskurðurinn sama dag samkvæmt fyrirliggjandi orðsendingu dómstólsins. Kæra í nafni Fiskvinnslunnar Ól ehf. barst héraðsdómi 10. desember 2002, en bú félagsins hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómstólsins 3. sama mánaðar. Með bréfi skiptastjóra þrotabús félagsins 15. desember 2002 var því lýst yfir að búið myndi ekki halda áfram rekstri máls þessa fyrir dómi, en bent á heimildir kröfuhafa eða þrotamanns til þess að halda rekstri þess áfram samkvæmt 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Það var ekki fyrr en með bréfi 20. desember 2002, sem barst Héraðsdómi Norðurlands eystra 23. sama mánaðar, sem þau Aðalheiður H. Jóhannsdóttir, fyrrum stjórnarformaður Fiskvinnslunnar Ól ehf., og Rúnar Sigvaldason, áður framkvæmdastjóri sama fyrirtækis, kröfðust þess að taka við rekstri málsins með vísan til áðurnefndrar 130. gr. laga nr. 21/1991.

Samkvæmt framansögðu varð úrskurður héraðsdóms ekki kærður í nafni Fiskvinnslunnar Ól ehf. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á að fyrrum stjórnarformaður eða framkvæmdastjóri félagsins geti notið réttar samkvæmt 130. gr. laga nr. 21/1991 til að taka við rekstri málsins, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 30. apríl 2002 í máli nr. 187/2002. Var kærufrestur auk þess liðinn þegar tilkynning þeirra barst héraðsdómi, sbr. 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991. Verður samkvæmt öllu framanröktu að vísa málinu frá Hæstarétti.

Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða varnaraðilunum Byggðastofnun og Sparisjóði Ólafsfjarðar kærumálskostnað, eins og nánar segir í dómsorði, en milli annarra málsaðila verður kærumálskostnaður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðilar, Aðalheiður H. Jóhannsdóttir og Rúnar Sigvaldason, greiði óskipt varnaraðilunum Byggðastofnun og Sparisjóði Ólafsfjarðar hvorum um sig 100.000 krónur í kærumálskostnað. Að öðru leyti fellur kærumálskostnaður niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. nóvember 2002.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 11. október s.l., barst dóminum með bréfi Magnúsar Björns Brynjólfssonar, hdl., dags. 12. júní 2002.   Sóknaraðili málsins er Fiskvinnsla Ólafsfjarðar ehf., Aðalgötu 6, Ólafsfirði.  Varnaraðilar eru Sparisjóður Ólafsfjarðar,  Ólafsfjarðarkaupstaður, Ólafsvegi 4, Ólafsfirði, Byggðastofnun, Ártorgi 1, Sauðárkróki og Stáltak hf., Mýrargötu 10-12, Reykjavík.

Sóknaraðili gerir þær kröfur, að nauðungarsala á fasteigninni Pálsbergsgötu 1, Ólafsfirði, sem fram fór þann 15. maí 2002, verði úrskurðuð ógild og ómerk í heild sinni og vísað frá uppboðsdeild sýslumannsins á Ólafsfirði eða vísað til löglegrar meðferðar að nýju hjá sama embætti.  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar Sparisjóður Ólafsfjarðar, Ólafsfjarðarkaupstaður og Byggðastofnun gera þær kröfur, að framhaldsuppboð sem fram fór þann 15. maí s.l. á fasteigninni Pálsbergsgötu 1, Ólafsfirði, ásamt vélum og tækjum verði látið standa óhaggað og að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Varnaraðili Stáltak hf. hefur ekki sótt þing málinu og eru engar kröfur hafðar uppi af hans hálfu.

Í máli þessu er deilt um gildi nauðungarsölu á fasteign.

Málavextir eru þeir, að 23. febrúar 2001 móttók sýslumaðurinn í Ólafsfirði nauðungarsölubeiðni frá Byggðastofnun vegna Pálsbergsgötu 1 í Ólafsfirði.  Þann 14. mars 2001 var tilkynning um að beiðnin yrði tekin fyrir hjá sýslumanni 16. maí 2001 send gerðarþola, sóknaraðila málsins, í ábyrgðarpósti.  Þá birtist auglýsing í Lögbirtingarblaðinu 11. apríl 2001.  Sú ritvilla var bæði í tilkynningunni og auglýsingunni, að þar var heiti eignar sagt vera Pálsgata 1, en ekki Pálsbergsgata 1.  Þær voru að öðru leyti réttar.

Málið var tekið fyrir á skrifstofu sýslumannsins í Ólafsfirði 16. maí 2001.  Samkvæmt bókun í gerðarbók mætti enginn f.h. sóknaraðila við fyrirtökuna.  Ákveðið var að byrjun uppboðs á eigninni færi fram á skrifstofu sýslumanns 25. júlí 2001 og var sóknaraðila send tilkynning þar um. Byrjun uppboðs var hins vegar frestað af gerðarbeiðanda, varnaraðila Byggðastofnun.  Byrjun uppboðs var því næst ákveðin 30. október 2001 og var sóknaraðila send tilkynning þar um.  Þessu uppboði var einnig frestað.  Byrjun uppboðs var ákveðin á ný þann 29. janúar 2002 og var gerðarþola send tilkynning 23. janúar og aftur 28. janúar 2002.  Uppboðið var auglýst í Morgunblaðinu 25. janúar 2002.  Uppboðinu var síðan frestað.

Þann 25. janúar 2002 barst sýslumanni nauðungarsölubeiðni á Pálsbergsgötu 1 frá Stáltaki hf.  Var gerðarþola send tilkynning um þá beiðni 28. janúar 2002.  Þann 27. febrúar 2002 barst síðan beiðni um nauðungarsölu á fasteigninni frá Ólafsfjarðakaupstað.

Tilkynning um byrjun uppboðs, sem hefjast ætti á skrifstofu sýslumanns 10. apríl 2002, var send gerðarþola 4. mars 2002.  Því uppboði var frestað, en 4. mars 2002 var gerðarþola send tilkynning um byrjun uppboðs, sem síðan fór fram 19. apríl 2002.  Á uppboðinu mætti Þorsteinn Ásgeirsson fyrir hönd gerðarbeiðenda, en enginn fyrir hönd gerðarþola. Þorsteinn bauð kr. 50.000,- í eignina fyrir hönd Ólafsfjarðarakaupstaðar.  Ákveðið var að uppboðinu yrði fram haldið á eigninni sjálfri miðvikudaginn 15. maí.  Gerðarþola var send tilkynning um uppboðið og framhald þess.  Var tilkynningin send í ábyrgðarpósti 22. apríl 2002, en hún ekki sótt fyrr en 17. maí , sbr. skráningu Íslandspósts.  Auglýsing um uppboðið birtist í Morgunblaðinu 9. maí 2002.

Þann 15. maí 2002 fór fram framhaldssala á Pálsbergsgötu 1.  Enginn mætti f.h. gerðarþola, en f.h. Byggðastofnunar mætti Gunnar Sólnes hrl., en f.h. Ólafsfjarðarkaupstaðar og Sparisjóðs Ólafsfjarðar mætti Árni Pálsson hrl.  Gerðarbeiðendur ásamt Sparisjóði Ólafsfjarðar lögðu fram kröfulýsingar við uppboðið.  Auk þess lagði Sparisjóðurinn fram frumrit veðskuldabréfs, sem hvíldi á eigninni.  Áður en leitað var boða í eignina kom fram spurning frá Magnúsi Brandssyni, sparisjóðsstjóra, sem mættur var við uppboðið, hvort lausafé skv. lögum um samningsveð væri einnig selt og tjáði sýslumaður Magnúsi að svo væri, þar sem tilgreint væri sérstaklega í veðskuldabréfum Byggðastofnunar að fasteignin með öllu múr- og naglföstu, búnaði, vélum, tækjum og öllu öðru sem fylgja bæri eigninni væri veðsett.  Síðan var leitað boða í eignina og bauð Sparisjóður Ólafsfjarðar kr. 15.000.000,-.

Frumrit veðskuldabréfa frá Byggðastofnun bárust embætti sýslumanns fyrir lok samþykkisfrests.

Sóknaraðili vildi ekki sætta sig við framangreind málalok og vísaði málinu því til héraðsdóms.

Sóknaraðili kveðst harðlega mótmæla uppboðinu sem ólögmætu og krefst ógildingar á því þar sem hvergi hafi komið fram í uppboðsbeiðni, uppboðsauglýsingum, fyrirtökum hjá sýslumanni eða framhaldssölunni sjálfri, að staðið hafi til að selja það lausafé, sem verið hafi innandyra í fasteigninni nr. 1 við Pálsbergsgötu í Ólafsfirði þann 15. maí 2002.

Skv. 3. mgr. 17. gr. laga nr. 90, 1991 sé heimilt að selja fasteign og lausafé henni tengdri í einu lagi, en þá með því fortakslausa skilyrði að það hafi komið rækilega fram í fyrstu uppboðsbeiðni, öllum uppboðsauglýsingum og uppboðsfyrirtökum að lausafé, þ.e. vélar tæki og búnaður, verði seldur um leið.  Svo hafi ekki verið í þessu tilviki.  Sýslumaður hafi því ekki auglýst uppboðið réttilega skv. 19. gr. laga nr. 90, 1991, en þar segi hvað koma skuli fram í auglýsingu vegna uppboðs á fasteign.  Í 1. tl. 1. mgr. 19. gr. laganna segi, að koma skuli fram heiti eignar, sem nauðungarsölu sé krafist á.  Ef til hafi staðið að selja hið ótilgreinda lausafé, sem vísað sé til í veðskuldabréfum Byggðastofnunar, hafi borið að auglýsa það með viðeigandi hætti.  Ekki hafi verið getið um lausafé í uppboðsbeiðni Byggðastofnunar og enginn listi yfir lausafé hafi legið frammi með beiðni Byggðastofnunar.  Þá hafi Byggðastofnun borið skylda til að tilgreina hvaða lausafé átt væri við, ef hún hyggðist selja það, en í beiðni stofnunarinnar sé ekki vikið einu orði að sölu á lausafé  sóknaraðilja og þess sé þ.a.l. ekki getið í auglýsingu sýslumanns. 

Frá 15. maí 2002 hafi sóknaraðilja verið meinað að nálgast lausafé sitt, sem sé jafnframt lögleysa.  Hæstbjóðandi hafi engan ráðstöfunarrétt haft yfir fasteigninni fyrr en hann hafði greitt fyrstu greiðslu skv. uppboðsskilmálum að liðnum samþykkisfresti þann 29. maí 2002.

Í húsnæðinu séu nú vélar, tæki og lausafé sem séu ýmist eignir sóknaraðilja eða Rúnars Sigvaldasonar persónulega.  Með hliðsjón af því að um veruleg verðmæti  sé að tefla sé þess krafist, að uppboðið sæti ógildingu þar sem sóknaraðilja sé meinað með valdi að nálgast umrædda hluti.

Sóknaraðili segist lýsa ábyrgð á hendur sýslumanni, hæstbjóðanda og uppboðsbeiðendum vegna framkvæmdar uppboðsins og áskilji hann sér allan rétt til bóta vegna afnotamissis, skemmda og þess að umrætt lausafé hverfi eða týnist.

Umrætt lausafé, tæki vélar og búnaður hafi ekki verið veðsettur með nokkrum hætti til tryggingar veðskuldabréfum Byggðastofnunar, enda hafi það allt verið keypt 1997 eða síðar.  Veðskuldabréf Byggðastofnunar séu hins vegar frá 1991 og 1995.

Þá kveðst sóknaraðili jafnframt krefjast ógildingar uppboðsins á þeim grundvelli, að frumrit skuldabréfa Byggðastofnunar hafi hvorki legið frammi við byrjun uppboðs þann 19. apríl 2002 né við framhald uppboðs þann 15. maí 2002.  Það hafi því átt að fella uppboðsbeiðni Byggðastofnunar niður þegar við byrjun uppboðs, sbr. 2. tl. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90, 1991.  Ekki komi fram í bókunum sýslumanns að frumrit umræddra veðskuldabréfa hafi nokkurn tíman verið lögð fram, en skv. 3. mgr. 11. gr. nefndra laga hafi sýslumanni borið að krefja uppboðsbeiðanda um frumrit þeirra eigi síðar en við framhald uppboðs.

Auk framangreinds kveðst sóknaraðili krefjast ógildingar nauðungarsölunnar á þeim grunni, að eignin hafi verið ranglega auglýst í Lögbirtingarblaði, en skv. tilkynningu til uppboðsþola 14. mars 2001 sé talað um Pálsgötu 1, en ekki Pálsbergsgötu 1 eins og segi á þinglýsingarvottorði dags. 19. apríl 2002.  Tilkynning þessi sé því röng og einnig auglýsing sú sem birtast hafi átt í Lögbirtingarblaði þann 28. mars 2001.  Skv. Lögbirtingarblaði nr. 45 frá 11. apríl 2001 hafi fasteignin ranglega verið auglýst sem Pálsgata 1.  Hafi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 90, 1991 því verið brotin að þessu leyti.  Nauðungarsalan sé af þeim sökum ólögmæt og því beri að ógilda hana.

Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til XIV. kafla laga nr. 90, 1991, 80. gr. sömu laga um frest til að bera álitaefnið undir héraðsdóm og 81. gr. laganna varðandi gildi nauðungarsölunnar.  Þá vísar sóknaraðili til 3. mgr. 17. gr. og 1. tl. 1. mgr. 19. gr. laganna varðandi ólögmæti uppboðsins.  Hann vísar einnig til 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. mgr. 11. gr. laganna varðandi skyldu til að leggja fram frumrit veðskuldabréfa.

Í upphafi benda varnaraðilar Byggðastofnun, Sparisjóður Ólafsfjarðar og Ólafsfjarðarkaupstaður (hér eftir nefndir einu nafni varnaraðilar) á, að sóknaraðila hafi verið tilkynnt með lögboðnum hætti um framhald uppboðs þann 15. maí s.l., en hann kosið að mætta ekki.  Því hljóti einungis að koma til úrlausnar í málinu þau atriði sem sýslumanni hafi borið að gæta af sjálfsdáðum við framkvæmd nauðungarsölunnar.

Að sögn varnaraðila virðist sem meginástæða kröfugerðar sóknaraðila sé, að framkvæmdastjóri sóknaraðilja telji sig persónulega eiga lausafé, sem selt hafi verið á uppboðinu.  Að þessu athuguðu sé vandséð hvaða hagsmuni sóknaraðili hafi af því að fá nauðungarsöluna ógilta.  Boð í eignina hafi væntanlega verið hærra en annars þar sem lausaféð hafi verið selt með henni.  Samkvæmt þessu virðist sóknaraðili ekki hafa neina lögvarða hagsmuni af því að nauðungarsalan verði ógilt.  Því beri að vísa málinu frá dómi af sjálfsdáðum.

Varnaraðilar segja það nýmæli hafa verið sett í lög nr. 90, 1991, að heimilt væri að selja lausafé, sem veðsett væri með fasteign, í einu lagi ásamt fasteigninni, sbr. 3. mgr. 17. gr. laganna.  Þetta sé nú meginregla samkvæmt lögunum, sbr. 30. gr. þeirra.  Á umræddu uppboði hafi sýslumaður lýst yfir, áður en boða var leitað í eignina, að með henni yrði selt lausafé sem henni fylgdi skv. reglum um rekstrarveð, sbr. 24. gr. laga nr. 75, 1997, sbr. áður 6. gr. laga nr. 18, 1887.  Forsvarsmenn sóknaraðila hafi ekki mætt við uppboðið og geti því ekki komið nú eftir lok þess og borið fyrir sig að ólögmætt hafi verið að selja lausaféð með fasteigninni.

Varla geti komið til ógildingar á nauðungarsölunni vegna þess að vafi kunni að vera á því hvaða lausafé hafi verið veðsett varnaraðilunum, Byggðastofnun og Sparisjóði Ólafsfjarðar.  Sú málsástæða lúti að efni veðréttarins og varði í engu gildi uppboðsins.

Varnaraðilar segja að ekki verði séð, að taka þurfi sérstaklega fram í nauðungarsölubeiðni ef krafist sé nauðungarsölu á veðsettu fylgifé fasteignar auk fasteignarinnar sjálfrar.  Einungis segi í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 90, 1991, að heiti þeirrar eignar sem nauðungarsölu sé krafist á skuli koma fram í auglýsingu.  Þá sé skv. 30. gr. laganna aðeins gert ráð fyrir því í undantekningartilfellum að við nauðungarsölu sé fylgifé og fasteign boðin upp sitt í hvoru lagi.  Þar sem umrætt ákvæði 19. gr. hafi verið nýmæli hefði þurt að taka það sérstaklega fram, eftir atvikum í 19. gr. laganna, ef fram þyrfti að koma í uppboðsbeiðni og auglýsingu að fylgifé ætti að selja með fasteign.  Hér beri að hafa í huga að samkvæmt 6. gr. laga nr. 18, 1887 og 24. gr. laga nr. 75, 1997 þurfi ekki að tilgreina sérstaklega það lausafé sem veðrétturinn taki til og því útilokað að það verði gert í auglýsingu.  Þar sem í raun sé um að ræða ágreining um efni veðréttar tveggja varnaraðila geti ágreiningurinn ekki haft áhrif á gildi nauðungarsölunnar.  Mótmæla varnaraðilar því sérstaklega að Byggðastofnun hafi borið að leggja fram með nauðungarsölubeiðninni lista yfir það lausafé sem veðréttur stofnunarinnar tæki til.

Varnaraðilar kveða það ekki skipta máli varðandi gildi nauðungarsölunnar hvort sýslumanni hafi borið að krefja varnaraðila Byggðastofnun um frumrit veðskuldabréfa stofnunarinnar við framhaldssöluna þar sem frumrit fjárnámsendurrits Stáltaks hf. hafi legið fyrir og eins lögmæt nauðungarsölubeiðni frá Ólafsfjarðarkaupstað.  Framhaldssalan hafi því farið fram á grundvelli lögmætra nauðungarsölubeiðna.

Varnaraðilar segja það rétt, að eign sú sem auglýst hafi verið í Lögbirtingarblaði hafi verið sögð heita Pálsgata 1.  Í þessu sambandi verði hins vegar að horfa til þess að tilgangur með auglýsingu í Lögbirtingarblaði sé sá að tilkynna öðrum en gerðarþola og gerðarbeiðanda að uppboðsmeðferð sé hafin á viðkomandi eign.  Sóknaraðili geti því varla byggt á þessari málsástæðu.  Þá hafi sóknaraðila ekki getað dulist að engin Pálsgata sé til í Ólafsfirði og hann því ekki getað orðið fyrir réttarspjöllum vegna þessa.  Allar auglýsingar og tilkynningar sem farið hafi frá sýslumanni eftir þetta hafi verið réttar og því hljóti að verða að líta á umrædda ritvillu með hliðsjón af 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91, 1991.

Hvað málskostnað varðar þá telja varnaraðilar að horfa verði til þess, að málsástæður sóknaraðilja lúti allar að atriðum sem sýslumaður hafi átt að gæta af sjálfsdáðum.  Fallist dómurinn á kröfur sóknaraðila verði því að fella málskostnað niður.

Álit dómsins:

Ekki er um það deilt að þegar sýslumaðurinn í Ólafsfirði auglýsti í Lögbirtingarblaði þann 11. apríl 2001 fyrirtöku á beiðni varnaraðila, Byggðastofnunar, um nauðungarsölu á eigninni Pálsbergsgötu 1, Ólafsfirði, var sú villa í auglýsingunni, að umrædd eign var ranglega sögð heita Pálsgata 1.  Aðrar upplýsingar í auglýsingunni, um gerðarþola, gerðarbeiðanda og fjárhæðir krafna í krónum, voru hins vegar réttar.

Sama villa og var í framangreindri auglýsingu var í tilkynningu sýslumanns til gerðarþola, dags. 14. mars 2001.  Aðrar upplýsingar í tilkynningunni voru réttar og fylgdi henni ljósrit nauðungarsölubeiðnar varnaraðila Byggðastofnunar, þar sem heiti eignarinnar var réttilega tilgreint sem Pálsbergsgata 1, Ólafsfirði.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 90, 1991 um nauðungarsölu segir m.a. í athugasemdum við 19. gr., að megintilgangur auglýsingar sé að gera öðrum en gerðarbeiðanda og gerðarþola kunnugt að nauðungarsala sé að fara í hönd á tiltekinni eign.

Eins og að framan var ítarlega rakið var umbeðin nauðungarsala á fasteigninni Pálsbergsgötu 1, Ólafsfirði, oft tekin fyrir hjá sýslumanninum í Ólafsfirði áður en eignin var seld þann 15. maí 2002.  Gerðarþola var í öllum tilvikum send tilkynning um væntanlega fyrirtöku málsins og í öllum þeim tilkynningum, að þeirri fyrstu slepptri, var heiti umræddrar eignar réttilega getið. 

Þá var fyrirhuguð nauðungarsala á Pálsbergsgötu 1 í tvígang auglýst í Morgunblaðinu.

Að öllu framangreindu athuguðu verður nauðungarsala sýslumannsins í Ólafsfirði á fasteigninni Pálsbergsgötu 1, Ólafsfirði, ekki ógilt vegna þeirrar villu sem var í auglýsingu sýslumanns í Lögbirtingarblaði þann 11. apríl 2001 og tilkynningu hans til sóknaraðila dags. 14. mars s.á.

Upplýst er að þegar sýslumaðurinn í Ólafsfirði seldi eignina Pálsbergsgötu 1, Ólafsfirði, þann 15. maí 2002, lá fyrir staðfest fjárnámsendurit til stuðnings nauðungarsölubeiðni varnaraðila Stáltaks hf. og einnig lögmæt nauðungarsölubeiðni frá varnaraðila Ólafsfjarðarkaupstað.  Frumrit veðskuldabréfa varnaraðila Byggðastofnunar lágu á hinn bóginn ekki fyrir við uppboðið áðurnefndan dag.  Sýslumaður skoraði hins vegar á stofnunina að leggja frumrit bréfanna fram áður en hann leitaði boða í eignina og skv. athugasemdum sýslumanns, sem liggja fyrir í málinu, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 90, 1991, fékk hann frumritin í hendur fyrir lok samþykkisfrests.  Verður ekki annað séð en með því hafi verið fullnægt kröfum 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 90, 1991.  Er það því niðurstaða dómsins, að sala fasteignarinnar Pálsbergsgötu 1 hafi réttilega farið fram umræddan dag á grundvelli þriggja áðurnefndra nauðungarsölubeiðna.

Í nauðungarsölubeiðni varnaraðila Stáltaks hf. er andlag nauðungarsölunnar tilgreint sem fasteignin, Pálsbergsgata 1, fastanr. 215-4301, matshl. 010101 og 020101, Ólafsfirði, í beiðni varnaraðila Byggðastofnunar sem Pálsbergsgata 1, Ólafsfirði og í beiðni varnaraðila Ólafsfjarðarkaupstaðar sem fasteignin Pálsbergsgata 1, Ólafsfirði.  Í nauðungarsölubeiðnum varnaraðila Stáltaks hf. og Ólafsfjarðarkaupstaðar er eðli málsins samkvæmt í engu minnst á lausafé það, sem gert var að sérstöku fylgifé Pálsbergsgötu 1 við veðsetningu fasteignarinnar til varnaraðila Byggðastofnunar.  Þess er heldur ekki getið í nauðungarsölubeiðni varnaraðila Byggðastofnunar.  Þá er fylgifjárins í engu getið í bókunum eða tilkynningum sýslumanns í málinu.

Svar sýslumanns við spurningu sparisjóðsstjóra varnaraðila Sparisjóðs Ólafsfjarðar, um það hvort framangreint sérstakt fylgifé fasteignarinnar fylgdi með við sölu hennar, byggðist skv. áðurnefndum athugasemdum sýslumanns á því, að um væri að ræða sérstakt fylgifé fasteignarinnar skv. ákvæði í veðskuldabréfum Byggðastofnunar.  Ummæli sýslumanns voru því ekki sjálfstæð yfirlýsing um að umrætt lausafé yrði boðið upp og selt, enda engar forsendur fyrir slíkri ákvörðun eins og málið var vaxið.  Á uppboðinu 15. maí s.l. bauð sýslumaður því upp og seldi fasteignina Pálsbergsgötu 1.  Það álitaefni, hvort títtnefnt sérstakt fylgifé fasteignarinnar skv. veðskuldabréfum varnaraðila Byggðastofnunar fylgdi með við sölu fasteignarinnar, varðar í engu gildi þeirrar nauðungarsölu er fram fór á eigninni.  Í máli þessu, sem rekið er skv. ákvæðum XIV. kafla laga nr. 90, 1991 um nauðungarsölu, verður af þeim sökum ekki skorið úr því álitaefni.

Aðgerðir sýslumanns eftir uppboðið 15. maí s.l. varðandi vörslur hinnar seldu fasteignar geta ekki haft áhrif á gildi nauðungarsölunnar og verður þegar af þeirri ástæðu ekki um þær fjallað í málinu.

Að öllu framansögðu er það niðurstaða dómsins, að ekki séu efni til að ógilda nauðungarsölu fasteignarinnar Pálsbergsgötu 1.  Er kröfum sóknaraðila í þá veru því hafnað.

Að teknu tilliti til málsatvika allra þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.

Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hafnað er kröfum sóknaraðila, Fiskvinnslu Ólafsfjarðar ehf., um að nauðungarsala á fasteigninni Pálsbergsgötu 1, Ólafsfirði, sem fram fór þann 15. maí 2002, verði úrskurðuð ógild og ómerk í heild sinni og vísað frá uppboðsdeild sýslumannsins á Ólafsfirði eða vísað til löglegrar meðferðar að nýju hjá sama embætti.

Málskostnaður fellur niður.